Var að sörfa á netinu í dag. Rakst þá á breska trail runners vefinn. Slóðin er www.tra-uk.org/. Það er umfangsmikil starfsemi í Bretlandi í tengslum við utanvegahlaup og strekur félagsskapur í tenglum við það. Ég rakst þar á frásögn Andrew Shaw, bretans sem vann Laugaveginn í fyrra og í ár, frá hlaupinu í fyrra. Það verður að segjast eins og er að sú frásögn er ekki allstaðar skemmtileg aflestrar fyrir ýmissa hluta sakir. Andrew er hins vegar jákvæður en leynir ekki þeim erfiðleikum sem henn lenti í vegna vatnsleysis og eins átti hann erfitt með að átta sig á leiðinni í nokkrum tilvikum. Ég hef verið að minnast á þetta að merkingar á Laugavegsleiðinni eiga að miðast við útlendinga sem er að fara þetta í fyrsta sinn en ekki gjörkunnuga íslendinga. Andrew vantaði í fyrra eina mínútu í að slá brautarmetið og er hægt að fullyrða að það hefði fallið ef allt hefði verið eins og á að vera, bæði drykkjarstöðvar og merkingar. Það er í sjálfu sér búið að tala nógu mikið um þetta annus horrible en engu að síður gott að rifja þetta upp til að hafa pressuna á öllum að það er ekkert nógu gott nema það besta. Það væri gaman að fara einhvern tímann til Bretlands og taka þátt í góðu trail running þar.
Fór í góðan túr út í Nauthólsvík í hlýju veðri. Lenti í úrhellisrigningu en vegna hlýjunnar gerði það ekkert nema betra. Ég sé ekki fram á að komast í Reykjavíkurmaraþonið vegna vinnunnar þannig að það er ekki nein pressa á mér önnur nú en að koma rennslinu í gott lag.
Nú er búið að leggja fram skattskrána og hin árvissa öfundarumræða er byrjuð. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að BSRB (eða formaður samtakanna) hafi sent frá sér fréttatilkynningu um að launamunur væri með því allra mesta sem gerðist. Ég held að hann hafi sagt í Evrópu, ég vona að hann hafi ekki sagt í heiminum. Það er sko á hreinu að launamunur er lítill hérlendis miðað við það sem gerist í nálægum löndum. Þeir sem halda öðru fram eru hreinlega að fara með rangt mál og það sem verst er að ég er viss um að þeir vita vel af því að þetta er rangt. Það er hins vegar mjög auðvelt þjá þeim sem bærast á öfundargenunum að slá fram svona fullyrðingum í trausti þess að enginn hreki þær. Ég hlustaði á varaformann Framsóknarflokksins og formenn Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins í kvöldfréttum bannfæra þessa þróun. Ætli formaður Frjálslyndra hafi t.d. verið á núverandi skoðun þegar hann var einn af hæstlaunuðu aflaskipstjórum landsins á sínum tíma? Það á kannski að fara að draga fram þingályktunartillögur (eða voru það frumvörp) Stefáns heitins Jónssonar frá áttunda áratugnum sem fólu það í sér að launamunur í landinu mætti ekki vera meir en tvöfaldur. Stefán heitinn sagði margt gott en þetta var nú með því verra sem frá honum kom.
Setjum sem svo að há laun væru bönnuð með lögum. Lítill hvati væri til átaka fyrir öflugt fólk. Jón Ásgeir í Baugi væri skrifstofustjóri í einhverju ráðuneytinu og pabbi hans ræki sjoppu. Björgólfur Tors væri fluttur úr landi og greiddi enga skatta til Íslands og gamli Björgólfur væri að basla við að reka litla gosdrykkjarverksmiðju á Akureyri. Pólitískir pótintátar sætu enn í valdastöðum í ríkisbönkunum og byðu sérvöldum kunningjahópi í laxveiðar. Þannig mætti áfram telja. Þjóðfélagið myndi malla áfram eins og það hefði gert því svigrúm til athafna væri takmarkað og hvatinn til átaka harla lítill. Launamunur væri miklu minni en hann er í dag og innan ásættanlegra marka að mati þeirra sem tjáðu sig um þessi máli í kvöldfréttunum nú áðan. Vildu menn virkilega fá þetta þjóðfélag aftur? Ég ætla ekki að svara fyrir aðra en ekki vildi ég það. Þó er ég ekki hálaunamaður en hef svona vel fyrir mig, ég á mjög lítið af hlutabréfum sem sannar aulaskap minn og ég sit ekki í stjórnum stórfyrirtækja sem sýnir að ég er ekki eins hæfur til þess eins og margir aðrir. Þrátt fyrir þetta finnst mér þjóðfélagið vera miklu betra nú og miklu fjölþættari möguleikar fyrir öflugt fólk en fyrir 15 til 25 árum síðan. Þetta er mín skoðun og mér er sama hvað hver segir um hana.
þriðjudagur, ágúst 02, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli