miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Það er ekki vandalítið verk að halda úti sketsuþætti í útvarpinu fimm daga vikunnar sem á að hafa það að markmiði að draga fram brosviprurnar á manni. Rás 2 rembist þó eins og rjúpan við staurinn að halda út einum slíkum með misjöfnum árangri.
Haukurinn sem annaðist "Ekki fréttir" stóð undir nafni með góðan grínþátt. Hann var góður. Hann tók þann skynsamlega pól í hæðina að liggja yfir því sem stjórnmálamenn létu út úr sér og setti það svo í nýtt og oft betra samhengi. Hann tók sér síðan frí á frítíma alþingis.
Baggalútar halda úti magnaðri heimasíðu og gefa út snilldargóð lög með fyndnum textum. (T.d. knattspyrnulagið og "Helltu í mjólkurglasið væna því ég er kominn heim"). Þeir voru fengnir um tíma til að halda úti sketsuþætti í útvarpinu. Enda þótt þeir væru ekki alslæmir þá áttuðu þeir sig blessunarlega fljótt á því að þetta var ekki að gera sig hjá þeim og þeir hættu. Skynsamlegt hjá þeim.
Bolur er hræðilegur. Ég skil ekki að þáttastjórnendur skuli ekki sjá og heyra að það er ekki vitund af fyndni í þessum þáttum það ég hef heyrt. Ekki vitund. Aldrei. Kannski getur verið að við höfum svona ólíkan smekk. Væri ég útvarpsstjóri myndi ég stroka þáttinn út strax í dag enda þótt gera þyrfti starfslokasamning við hina svokölluðu skemmtikrafta sem eru að klæmast þarna, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs. Í þetta er stofnunin að spandera enda þótt henni sé fjár vant ár og síð og alla tíð.

Útvarpsstjóri ríkisins, ekki meir, ekki meir.

Ég sé á heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar að hann hellir úr sinni litlu reiðiskál yfir Tony Blair. Jarða á Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands í ríkisstjórn Tonys, á föstudaginn. Tony er í sumarfríi og hefur látið þau boð út ganga að hann muni ekki mæta við jarðarförina sökum anna. Smátt getur lengi smækkað.

Ég var í dag að skoða heimasíðuna hennar Evu sem var mér og fleirum samferða stóran hluta af Laugaveginum um daginn (blog.central.is/evaogco/) og sá þá link á svokallaðar "fyrir"myndir. Þetta eru myndir sem voru teknar af henni á árunum 1991 - 2002 "fyrir hlaup". Raunveruleikinn er stundum lyginni ósennilegri og gefur manni hressilega á kjaftinn. Breytingin á þessum þremur árum er svo gríðarleg að það ná varla nokkur orð yfir hana. Þó ég hefði átt að bjarga lífinu þá hefði ég ekki þekkt hana. Þó sést kannski minnst af þeirri breytingu sem orðin er. Þegar fólk nær slíkum árangri þá stenst ekkert fyrir því. Því hlýtur að finnast að það geti flutt fjöll. Andleg og líkamleg heilsa hlýtur ofan í kaupið að vera allt önnur og betri. Mér finnst að það mætti vekja meiri athygli á þessu afreki hennar sem skokkið og síðan afrekshlaup hafa stuðlað að. Í þessu sambandi má einnig minnast á félaga Guðmund sem sést stundum á Herbalive auglýsingum. Hann ætlar að þreyta maraþonfrumraun sína í Berlín í haust og stendur sig þar vafalaust með miklum sóma. Hann er annað gott dæmi um einstakling þar sem agi og markviss hreyfing hefur stuðlað að kaflaskilum í lífinu. Árangur þeirra tveggja ætti að geta verið öðru fólki stuðningur og hvatning til aðgerða í áþekkri stöðu.

1 ummæli:

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Mér sýnist á öllu að hún sé bara rétt að byrja.