Fyrirsögn í Morgunblaðinu: "Fjárfestingar Gaums og Fjárfars fjármagnaðar af Baugi"; Fyrirsögn í Fréttablaðinu: "Segja ekkert hlustað á skýringar sakborninga". Hvort blaðið skyldi nú vera í eigu Baugsmanna? Hvor fjölmiðillinn skyldi nú vera trúverðugri? Er það vani þegar ákært er í svo stóru máli sem hér um ræðir að málstaður sakborningsins skuli vera forsíðufréttin? Ég hef ekki séð að það sé viðtekin ritstjórnarstefna hingaðtil hjá Fréttablaðinu eða hvað þá DV. Vitaskuld er enginn sekur fyrr en sekt er sönnuð en maður verður að gera ráð fyrir að ekki séu lagðar fram svo alvarlegar ákværur nema gild ástæða sé talin vera fyrir hendi. Samkvæmt ákærunni hafa Baugsmenn göslast með fjármagn Baugs, sem var á þessum tíma almenningshlutafélag skráð á Verðbréfaþingi, eins og þeir ættu það einir og sér. Slíkt fer ekki saman við gildandi lög og reglur ef satt reynist. Við því gilda hörð viðurlög. Í því sambandi skiptir ekki máli hve mikið menn eigi undir sér eða hvað þeir hafi grætt mikið.
Ég keypti nýlega bók Ólafs Teits Guðnasonar blaðamanns, þar sem hann birtir greinasafn um fjölmiðlun hérlendis sem hann skrifaði í fyrra. Ég hef ekki lokið lestri bókarinnar að fullu en mæli með henni miðað við það sem ég hef þegar lesið. Hann fer þar á mjög athyglisverðan og gagnrýninn hátt yfir ýmis atriði sem varða fjölmiðlun er hérlendis. Samkvæmt blaðamönnum sjálfum eru þeir fagmenn sem birti fréttir og fréttaumfjöllun á hlutlægan hátt og eigi því skilipð traust almennings. Eftir lestur bók Ólafs er ekki hægt að segja annað en að göt komi á þennan kufl fagmennskunnar sem blaða- og fréttamenn steypa gjarna yfir sig. Ég skil nú vel ástæðuna fyrir því að ég hef séð ýmsa fréttamenn senda Ólafi Teiti hnútur.
Í Kastljósi sjónvarpsins var viðtal við Guðmund Ólafsson ljósmyndara og rithöfund í sambandi við nýútkomna bók hans, "Fuglar í náttúru Íslands". Guðmundur er sennilega einn öflugasti og trúverðugasti náttúruverndarsinni landsins og hefur skilað gríðarlegu verki með útgáfu bóka sinna um Perlur, Ströndina, Hálendið og nú síðast Fugla í náttúru Íslands. Með þessum stórvikjum hefur hann fært umræðu um náttúru íslands á annað og merkara plan. Meðan öfgamenn spreyja slagorðum á styttu Jóns Sigurðssonar þá lætur hann verkin tala.
Horfði á seinni hluta myndarinnar um Hitler í kvöld. Það setur að manni ugg þegar farið er yfir á hvern hátt öflugir áróðursmenn geta náð tökum á sál heillar þjóðar og hleypt illvirkjum lausum á saklaust fólk. Eftir heimsóknina í Auswich og Birkenau í vor virkar þetta enn sterkar á mann en fyrr.
María keppti í hástökki og 60 m. hlaupi á meistaramóti unglinga í dag í leiðinlegu veðri. Þó rigndi minna en útlit var fyrir fram yfir hádegi en þá tók steininn úr. Hún varð 4. í hástökki og komst í úrslit í 60 m hlaupi. Strax að hlaupinu loknu var ekið í snatri suður á flugvöll því systurnar flugu til New York í dag með yngri krakkana í heimsókn til vinkonu sinnar sem býr í New Jersey. Því byggjum við Sveinn bæinn næstu 10 dagana.
mánudagur, ágúst 15, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli