Hef verið að lesa bók undanfarið sem ég keypti í ágætri bókabúð í San Francisko sem ég rakst á þar í júní. Hún heitir Chi Running og fjallar (í nokkuð mörgum orðum) um hvernig hlaupastíllinn og hlaupalagið getur haft áhrif á bæði hraða í hlaupum og eins á meiðslahættu við mikið álag. Þetta er áhugaverð lesning og fær mann til að hugsa um ýmislegt sem maður hafði ekki leitt hugann að áður. Ég hleyp ekkert mjög mikið þessa dagana en þá það gerist þá er maður að ekki síður að hugsa um hlaupalagið heldur en hlaupahraðann. Það tekur nokkuð langan tíma að taka upp nýjan "stíl" ef svo má segja þannig að hann verði algerlega án hugsunar. Það er einnig farið yfir hvernig best sé að hlaupa niður brekkur. Það er sömuleiðis áhugaverð lesning. Að hlaupa niður brekkur er eitt það erfiðasta a.m.k. ef brekkurnar eru mjög langar. Það skiptir bæði máli fyrir álag á lærvöðva og tærnar. Maður á að láta fótinn lenda á hælnum í niðurhlaupum en ekki á fætinum flötum eins og manni hættir til að óathuguðu máli. Ég þarf að prufa þetta nokkrum sinnum á Esjunni.
Umræðan um fæðingarorlofsmálið mikla er ansi fyndin finnst mér, ekki síst eftir að það kemur í ljós að það var einfaldlega gerður starfslokasamningur við manninn hjá KEA í ljósi þess að hann naut ekki trúnaðar stjórnar þótt af tillittssemi við hann hafi átt að fara hljótt með það í upphafi. Ætli næsta mál á dagskránni verði ekki að fárast yfir því hve hár starfslokasamningur hafi verið gerður við hann. Það er fyndið að heyra þá múgæsingu sem skapast þegar mál eins og hér um ræðir eru keyrð áfram í fjölmiðlum með allt að því trúarlegum sótthita. Svo segja menn að fjölmiðlar hafi ekki áhrif. Dettur mönnum virkilega í hug að það komi hvergi upp vandræði þegar lögin segja að menn í æðstu stöðum sem og aðrir geti gengið út úr störfum sínum mánuðum saman, jafnvel trekk í trekk, og sagt við vinnuveitendann: "Þið bara reddið þessu". Lögin um fæðingarorlof eru að mörg leyti ágæt en það er bæði erfitt, flókið og dýrt að framkvæma þau.
Fór í afmæli í gærkvöldi til Helga Árnasonar frænda míns. Hann fagnaði þar fimmtugsafmæli sínu með stórum hópi ættingja og vina. Það er nú einu sinni svo að þegar maður hefur þekkt einhvern vel sem barn þá situr sú mynd mjög sterkt í huga manns. Því finnst manni stundum ótrúlegt að sjá hve aldursteljarinn tikkar án þess að þess sjái stað í útliti manna. Þegar maður var ungur fannst manni fólk vera mjög gamalt um fimmtugt. Vitaskuld var fólk oft lúnara og slitnara þá en nú sökum mikils vinnuálags, tímarnir hafa breyst mikið hvað það varðar en þetta sýnir bara hve allt er afstætt. Árni pabbi Helga sýndi það enn einu sinni að hann er engum líkur þegar hann, 91 árs gamall, söng nokkrar gamanvísur í veislunni, syni sínum til heiðurs og viðstöddum til skemmtunar. Fjölskylda Árna og Ingu heitinnar frænku skipar alltaf ákveðinn sess í huga mínum frá því þau tóku mig inn á heimili sitt í tvo vetur hér áður fyrr á árunum svo ég gæti gengið í gagnfræðaskóla. Það eru ár sem ekki gleymast.
miðvikudagur, ágúst 10, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli