Jæja, þá er Pæjumótið liðið. Komum að norðan í kvöld eftir ánægjulega langa helgi á Siglufirði. Þarna öttu 1400 stelpur kappi í þrjá daga. Skipulag og framkvæmd heimamanna var hin besta utan að einstaka dómari hefði mátt sýna leikmönnum aðeins meiri virðingu en flestir stóðu sig með miklum sóma. Aðeins súldaði á föstudaginn en síðan skipti um átt og á laugardað og sunnudag var hið besta veðru, logn, sól og hlýtt. Fleiri þúsund manns komu með stelpnum til Siglufjarðar þannig að íbúatala bæjarins margfaldaðist yfir helgina.
Um helgina var Gay Pride hátíðin haldin en af skiljanlegum ástæðum fór hún fram hjá manni nema í fréttum. Henni voru hins vegar gerð góð skil í útvarpinu og maður hlustaði á ýmislegt sem dregið var fram í þessum efnum. Eitt vakti furðu mína. Ég hlustaði á upphaf viðtals við einhvern forstöðumann S&M félagsins (Sadó og Masokista félagsins) í útvarpinu á fimmtudagskvöldið. Ég slökkti á útvarpinu í bílnum þegar nokkuð var liðið á það. Þá þótti mér nóg komið. Eitt er að fjalla um réttindamál samkynhneigs fólks en þegar farið er að draga fulltrúa einhverra öfgahópa fram í ríkisrekið útvarp, þá spyr maður hvar eru mörkin? Má maður til dæmis búast við því að heyra viðtöl við fulltrúa pedófila, neofíla, animalista, exhibisionista eða gægjara í útvarpinu á næstunni? Spyr sá sem ekki veit en þegar maður hefur sagt A þá er stutt í að B komi á eftir.
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um að færa lýðræðið til fólksins, meðal annars með þjóðaratkvæðagreiðslum. Nú er rætt mikið um að gagnkynhneigt fólk eigi að geta ættleitt börn og gengið í hjónaband. Væri ekki tilvalið að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðlu um þessi mál? Ég hugsa að flestir hafi skoðanir á þessum málum. Það var meðal annars gert í Kaliforníu og farið eftir niðurstöðunum.
Að lokum um símamálið. Ég er ekki búinn að gleyma ritsmíð Agnesar Bragadóttur þar sem hún varpaði fram nokkrum allákveðnum fullyrðingum um að nú ætluðu stjórnvöld að stela símanum frá almenningi og færa hann útvöldum gæðingum á silfurfati. Hún kallaði eftir uppreisn almennings. Nú liggur niðurstaða fyrir. Mér finnst að Agnes ætti að tjá sig að leikslokum til að ljúka sínum þætti í þessari umræðu. Hún væri maður að meiri eins og svo vinsælt var að segja um tíma í tengslum við mál annars blaðamanns.
Horfði á fyrri hluta myndar um Hitler í sjónvarpinu kvöld. Það er áhugavert að rifja upp þennan hluta mannskynssögunnar. Margt kom fram sem ég þekkti ekki, enda ekki grúft mig svo nákvæmlega niður í þetta efni. Eitt svolítið spaugilegt kom upp í hugann í þessu sambandi. Vinnufélagi minn fékk inni í húsi á Siglufirði á Pæjumótinu um helgina sem kallast "Hús Andanna", því þar fer fyrst og fram starfsemi sálarrannsókna og fleira í þeim dúr. Félaginn leitaði sér að einhverju að lesa fyrsta kvöldið og rakst á blað um sálarrannsóknir. Í því var viðtal kanadísks miðils við Hitler frá árinu 1998. Hitler sagðist vera í endurhæfingu fyrir handan og hefði miðað nokkuð vel áleiðis. Hann sagðist enga ábyrgð bera á útrýmingarherferð gagnvart Gyðingum og kvaðst hafa verið ómenntaður maður sem hefði verið leiksoppur sér öflugri manna. Síðan sagðist hann hafa áhuga á að endurfæðast eða gera "Come Back" á jörðina og spurði miðilinn hvort hann teldi að það væri tímabært. Miðillinn dró mjög úr því.
Hljóp út í göng fyrir norðan og til baka. Það eru um 12 km en er drýgra en það sýnist vegna brekkna. Hálfdán og Huld fóru hringinn út í gegnum göngin á laugardaginn og síðan yfir Siglufjarðarskarðið til baka. Voru rúmar 3 klst að fara þessa 32 km. Góð æfing. Mæli með henni.
mánudagur, ágúst 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli