þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Jæja, nú eru línurnar farnar að skýrast. Töluverð vinna er hjá RM fólkinu að lesa úr öllum vafa atriðum og er slæmt að vegna þess að sumir setja örflögurnar á vitlausa staði leiði til þess að mikil aukavinna verði að eiga sér stað. Í stórum dráttum eru þátttakendur sammála um að framkvæmdin hafi verið góð og þeir hvökrar sem enn finnast eru ekki það umfangsmiklir að úr þeim megi ekki bæta. Gaman að sjá að umferðarmálinvirðast ekki vera á dagskránni nú eftir hlaupið. Öðruvísi mér áður brá. Man t.d. eftir því þegar strætóinn tróð sér inn á Lækjargötuna áður en hlaupið var búið, reif neiður eitthvað af merkingum og dóti með sér og lá við að hann slasaði fólk. Það ég best heyrði þá fannst bílstjóranum ekkert athugavert við aksturlag sitt.
Ánægjulegt að sjá fjölguniina í öllum vegalengum. Þarna er markviss undirbúningsvinna að skila sér. Vafalaust má bæta úr þessu t.d. með aukinni þátttöku fjölmiðla, s.s. viðtöl við þá sem eru að undirbúa sig, ekki síður byrjendur en aðra, sérstakan þátt í sjónvarpinu um hlaup, barnahlaup eins og í Boston o.s.frv. Það er alveg ljóst að hluti af því fólki sem er að taka þátt í fyrsta sinn kemur til með að skila sér áfram sem virkir skokkarar. Einu sinni verður allt fyrst.

Glæsilegur árangur hjá konunum í maraþoninu. Bryndís og Rannveig eru á frábærum tímum og gaman að sjá á hve miklu skriði þær eru. Eva kemur sterk inn sem þriðja og stimplar sig rækilega inn. Frásögn hennar á heimasíðunni er mjög góð og mættu fleiri festa hugrenningar sínar niður á blað. Það er ætíð mjög gagnlegt fyrir aðra að lesa svona góða pistla því í því felst bæði lærdómur og stuðningur.

Karlarnir eru meira umhugsunarefni. Að besti tími íslensks karls skuli vera um 3.10 er náttúrulega ekki nógu gott. Þótt ég hafi aldrei náð þeim tíma og ætti því kannski ekki að segja svona þá er þetta engu að síður staðreynd. Hvar voru allir okkar bestu karlkyns hlauparar? Það er umhugsunarefni að þeir skuli ekki hafa séð ástæðu til að keppa í heilu maraþoni og etja kappi við jafnoka sína erlenda. Ég held að þetta sé lélegasti sigurtími karls síðan ég fór að fylgjast með hlaupum og var þetta ekki íslandsmeistaramót? Hér er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Ég sé að grimmustu karlarnir raða sér ofarlega í hálfu maraþoni. Vitaskuld er gaman að hlaupa hálft þon en sama er. Vonandi verður það svo hér eftirleiðis að það verði sjálfgefið hjá okkar bestu hlaupurum að leggja metnað í að standa sig vel í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er uppskeruhátíð hlauparanna og á að vera hápúnktur hlauapavertíðarinnar hérlendis. Ég veit að nokkuð margir eru að undirbúa sig fyrir Berlínarþonið í haust og vilja því ekki leggja hart að sér og er það skiljanlegt. Sama er. Mér fannst niðurstaðan ekki góð hvað þetta varðar en það er nú bara mín skoðun.

Því miður uppgötva ég að UMFR36 var ekki með skráða sveit í heilu þoni þrátt fyrir að góður hópur félaga rynni skeiðið. Ég gleymdi vitaskuld að hvetja til þess áður en ég fór út og tek því á mig hluta af skömminni.

Það er alltaf í svo stórum hlaupum sem RM er að maður sér árangur sem er stórgóður þrátt fyrir að viðkomandi séu ekki í fremstu sætum á marklínunni. Jón Guðlaugsson hleypur heilt maraþon á 5 klstd og vantar ár í áttrætt. Samkvæmt því á maður að geta átt góðan aldarfjórðung eftir a.m.k. Góð tilhugsun. Ketill Hannesson fyrrum starfsfélagi minn er á rétt rúmum 50 mín í 10 km og vantar 2 ár í sjötugt.

Margir eru að hlaupa sitt fyrsta hlaup. Það er mikill áfangi fyrir byrjendur að hætta sér í sitt fyrsta keppnishlaup og þá er miklu lokið. Eftir það verður allt auðveldara og reynslan fer að byggjast upp. Áhuginn verður meiri og nær yfirhöndinni yfir þeim hluta andans sem finnst hlaup erfið. Fyrr en varir verður allt léttara og hlaupin fara að rúlla sem hluti af hinu daglega lífi. Kannski er þetta fólk stærstu sigurvegararnir þrátt fyrir allt því þeir eru oft að vinna sigur á sjálfum sér. Stundum eru það sigrar sem vinnast eftir mjög erfiða baráttu við ýmis öfl. Það eru þeir sigrar sem mestu máli skipta.

Engin ummæli: