föstudagur, ágúst 12, 2005

Á Siglufirði um daginn hitti ég Pétur Ásbjörnsson Grænlandsfara með meiru. Ferðin þeirra til Grænlands var ÆVINTÝRI með stórum stöfum að hans sögn. Ekki efa ég það. Hann veiktist í maganum og varð því að hætta keppni. Synd en svona getur komið upp í langri og erfiðri keppni. Maður á að vera viðbúinn hinu versta, hið góða sakar ekki. Hann sagði að þeir hefðu komið heim með gilda reynslusjóði sem koma til með að nýtast þeim og öðrum sem koma til með að taka þátt í þessari keppni héðan að heiman í framtíðinni. Framkvæmd Grænlendinga var öll til mikillar fyrirmyndar og upplifunin öll ógleymanleg. Ég sé á myndum að svæðið er myndrænt í hæsta gæðaflokki þannig að ekki skemmir það fyrir. Pétur tiltók ýmis atriði sem hann sagði að hefðu betur mátt fara hjá þeim. Það er innistæða í reynslubankanum sem verður vonandi tekin út síðar. Það hefur verið minnst á að þeir félagar og ég hafi mynda og frásagnarkvöld í haust af upplifunum okkar og reynslu þegar fólk er komið til byggða eftir sumarfrí og farið að róast niður. ÞAð væri gaman og vonandi að það verði einhverjum hvatning til frekari átaka.

Sá nokkuð athyglisverða umfjöllun um fæðingarorlof hjá vefþjóðviljanum (www.andriki.is) í dag. Þeir segja í bríaríi að lögin um fæðingarorlof séu fyrst og fremst ætluð ríkisstarfsmönnum. Nú ætla ég ekki að fullyrða um það en það er þó svolítið til í þessu. Ég vil kannski frekar segja að það miðist við launþega. Skoðum fullyrðingu krataþingmannsins í sjónvarpinu um daginn að það eigi allir að hafa fortakslausan rétt til fæðingarorlofs. Þetta gegnur einfaldlega ekki upp. Hvað með hjón sem reka lítið fyrirtæki? Þau vinna bæði við það og hafa þokkalega afkomu en ekkert meira. Um slíkt eru mörg dæmi. Eiga þau bæði að taka sér frí mánuðum saman ef þau eiga von á barni þótt fyrirtækið beri ekki fjóra starfsmenn? Nú getur verið að fyrirtækið byggi á sérhæfðri þekkingu eða aðferðafræði um sem viðkomandi er ekkert áfram um að hleypa öðrum í. Á samt að segja að þetta fólk eigi fortakslaust að hætta að vinna í fyrirtækinu mánuðum saman. Þetta finnst kannski einhevrjum hártoganir en þetta er engu að síður raunveruleikinn. Það pirrar mig nefnilega þegar fólk er með blákaldar fullyrðingar sem standast ekki raunveruleikann og kemst upp með það.

Dave Horton kláraði Pacific Crest Trail í gær á 66 dögum. Pacific Crest Trail liggur frá landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó norður með Kyrrahafsströndinni að landamærum Bandaríkjanna og Kanada, alls 2650 mílur. Hann sló fyrra met sem var 83 dagar. Það er skemmtileg dagbók um hlaupið á vefnum www.montrail.com/assets/Misc%20Copy/horton_log.htm. Margir nafnkunnir hlauparar hlupu með honum af og til gegnum hlaupið.

Víkingur spilaði við HK á Kópavogsvelli í kvöld. Leikurinn fór 0-0 sem var ekki nógu gott því nú munar bara 2 stigum á Víking og KA. Leikurinn fyrir norðan á fimmtudaginn verður því úrslitaleikur um 2. sætið í deildinni.

Engin ummæli: