miðvikudagur, maí 18, 2011

Rauðhöfðapar



Mér gæti dottið í hug að kaupa mér nýtt einbýlishús. Það gæti kostað á bilinu 100 - 200 milljónir til að gera þetta almennilega. Allir í fjölskyldunni yrðu mjög ánægðir að koma í innflutningsveisluna og myndu hrósa mér fyrir hvað húsið væri flott. Enginn myndi spyrja hvað það hefði kostað til að spilla ekki stemmingunni. Mér væri hrósað fyrir að vera orðinn eigandi að alvöru húsi og vera ekki lengur að kúldrast í einhverri blokkaríbúð eða hvað það nú væri. Það þyrfti hins vegar mikið til að ég myndi ráða við að borga af húsinu en ég segði náttúrulega engum frá því utan fjölskyldunnar til að það félli ekki kusk á stemminguna. Staðan væri hins vegar sú að ég myndi ekki lengur hafa efni á að eiga bíl, það yrði ekki farið í neina sumarleyfisferð næstu 10-15 árin, fjölskyldan yrði að vera í gömlu fötunum dálítið lengur og það yrði aldrei farið út að borða og einungis keypt það ódýrasta í matinnn um óráðna framtíð. Þegar krakkarnir færu að mögla við þessi tíðindi þá myndi ég spyrja hvort það skipti þau engu máli að búa í flottu húsi og síðan myndu þau erfa það þegar ég væri dauður. Að vera ekki ánægður í þessari stöðu væri bara vanþakklæti.
Mér datt þessi samlíking í hug þegar ég heyrði viðtal við Hjálmar Ragnarsson í útvarpinu fyrir skömmu þegar hann spjallaði við fréttamann um Hörpu. Hann er einn af sárafáum sem hefur talað af raunsæi um bygginguna og afleiðingar þeirra ákvarðana að hefja bygginguna og ljúka henni síðan. Hann segir eðlilega að það sé allt útlit fyrir að lista- og menningarlíf fái minni fjármunum úr að spila um ókomna framtíð vegna þess hve Harpa sé dýr. Hann sér ekki fram á að Listaháskóli Íslands fái nýtt húsnæði á næstu árum. Hann sagði einnig að það væri ríkjandi ákveðin þöggun í samfélaginu um þá óskaplegu fjárm uni sem húsið kostar. Svo kostar eitthvað að reka ósköpin. Fyrir þvi er sjaldnast hugsað í upphafi.

Í Hörpu eru tæp 3000 sæti í þremur sölum ef ég hef reiknað rétt. Byggingarkostnaður fyrir hvert sæti eru 10.000.000 krónur - tíu milljónir króna- Áhugafólk um byggingu tónlistarhúss hefur safnað peningum í tæp þrjátíu ár til að fjármagna byggingu svona húss. Á þeim tíma eru þeir búnir að safna peningum sem nemur kostnaði við að byggja yfir 14 sæti. Nú ætla þeir samkvæmt fréttum ekki að leggja þessa peninga sína í bygginguna heldur á að stofna með þeim sjóð til að fjármagna viðburði. Síðan hefur þessi hópur ákveðið að þeir sem hafa sett nokkur hundruð kall á mánuði í byggingu tónlistarhúss eiga að fá frímiða á tvær sýningar á ári án þess að leggja eyrisvirði til byggingarinanr samkvæmt fréttum. Það er ágæt ávöxtun fjármuna fyrir áhugafólk um fagra tónlist.

Á vef arkitektafélags Íslands er að finna vægast sagt hrollvekjandi frásögn varðandi byggingarfræðileg efni. Á þeim bæ hafa ýmsir miklar áhyggjur að ryðgun járngrindarinnar sem heldur glerinu uppi en það er ógalvaniserað. Það vita allir sem vilja vita að ógalvaniserað jánr ryðgar og tærist. Umverfið við sjóinn er ekki heilnæmasta umhverfið fyrir óvarið járn. Þetta er skelfilegt ef rétt reynist. Byggingarmeistari sem þekkir glerísetningar mjög vel hefur áhyggjur af því að líming glersins á ryðskellótta og ryðslegna fletina yrði mjög erfið ef hún myndi nokkuð heppnast. Ryk og salt eru ekki beint góðir faktorar þegar viðloðun þarf að vera góð. Ég heyrði viðtal við tvo arkitekta í útvarpinu fyrir skömmu. Þeir sögðust þora að segja sína skoðun á byggingunni þar sem þeir væru komnir á eftirlaun og væru því engum háðir. Þeir sem þurfa að harka út verkefni þora ekki að láta í sér heyra fyrir nokkurn mun.

Það er ekkert gott að vera svartsýnn en það er nauðsynlegt að vera raunsær.

sunnudagur, maí 15, 2011

Johnny Cash-daddy sang bass

Félagsfundur í 100 km félaginu



Það var haldinn fínn fundur í 100 km félaginu á fimmtudagskvöldið. Sjö nýir félagar voru teknir inn þannig að nú eru það samtals 35 sem hafa hlaupið 100 km eða lengra. Það eru tæp sjö ár síðan við Ágúst, Siggi Gunnsteins, Svanur og Pétur Reimars stofnuðum félagið í Vesturbæjarlauginni. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið gerst í þessum málum. Alls eru 20 hlauparar skráðir í 100 km hlaupið sem fer fram þann 11. júní n.k. Margir þeirra tóku síðustu löngu æfinguna í kringum Þingvallavatn á laugardaginn og er það mál manna að staðan sé mjög góð hjá hópnum. Það verður spennendi að sjá hernig útkoman verður og vonandi verður veðrið ásættanlegt. Það skiptir miklu málið varðandi framkvæmd hlaupsins, líðan hlaupara og árangur.

Ég fór norður í Þingeyjarsýslu á föstudaginn og kom til baka í gær. Það er gaman að fyljgast með fuglalífinu í grennd við veginn. Svo merkilegt sem það er þá finnst mér vera munur á því í Borgarfirði og Vestur Hún annars vegar og Austur Hún, Skagafirði, Eyjafirði og Suður Þingeyjarsýslu hins vegar. Maður sér varla fugl við veginn fyrr en komið er austur fyrir Blönduós. Það má vera að það sé tilviljun en minkurinn getur svo sem einnig skipt máli. Bóndi í Þingeyrjarsveit sagði mér að þeir hefðu gert sérstakt átak í minkaveiði fyrir nokkrum árum síðan og teldu sig hartnær hafa útrýmt minknum úr sýslunni. Vetrarveiðin skipti mestu máli í þessu sambandi. Hann sagði að þeir sæu mikinn mun á hve fluglalífið hefði tekið miklum framförum við þessa aðgerð. Svo mikið er víst að ég sá flórgoðapar í vatninu í Ljósavatnsskarði en það hef ég aldrei séð áður þar. Á ég þó ófáar ferðirnar þar um. Einnig sá ég flórgoðapar í langadalnum í Austur Hún. Það hef ég heldur aldrei séð áður. Á föstudaginn skrapp ég upp að Mývatni og snuddaði þar um með myndavél í nokkra stund. Það er alltaf jafngaman að koma þangað á þessum tíma. Ég ætlaði að vera lengur en veðrið var leiðinlegt á laugardaginn, kuldarigning og vindur, svo ég lét mig hafa að fara suður fyrr en ég ætlaði.

Mér finnst ánægjulegt að heyra að einstaka maður heur tilfinningu fyrir þeim óhemju kostnaði sem lagður hefur verið í tónlistarhúsið Hörpu. Það setur hlutina svolítið í samhengi að áhugamenn um byggingu tónlistarhúss hafa safnað peningum í 28 ár. Þeir hafa náð að nurla saman 140 milljónum eða um 5 m.kr. á ári. Einungis hjúpurinn utan um húsið kostaði 20 sinnum meira. Þessi hópur hefði sem sagt verið um 600 ár að safna fyrir glerhjúpnum og þá voru einungis 10% kostnaðar komin. Það hefði tekið hópinn 6000 ár að safna fyrir húsinu öllu. Snobbið í kringum þetta er síðan eins og við er að búast, boðslistar leyndarmál, o.s.frv.

Það er að sýna sig eins og margir þóttust vita að í stefndi að þróun glæpahópa er að renna í nákvæmlega sömu átt hérlendis og hefur gert í öðrum norrænum ríkjum. Lögreglan í nágrannalöndum okkar er vopnuð. Hér ber lögreglan einungis kylfur. Þegar Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra vakti máls á því að láta lögregluna fá rafbyssur þá ætlaði meðvitaða liðið vitlaust að verða. Hvað á að bíða lengi eftir því að bregðast við eins og ástæða er til? Þarf að drepa lögreglumann svo menn horfist í augu við raunveruleikann. Það er verið að tala um átök milli Hells Angles og Outlaws. Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn á árunum 1980-1983 þá voru þar tvö mótorhjólamannasamtök, Hells Angles og Bullshit. Bullshittarnir voru úti í Kristianíu en englarnir á Nörrebro. Milli þeirra voru sífelldar erjur og átök. Svo fór að foringi Bullshitt var skotinn af engli sem flúði síðan úr landi. Hann gaf sig svo fram, sat inni nokkur ár og er nú foringi englanna. Stríðinu lauk svo með því að Hells Angles drápu því sem næst alla Bullshittana og þurrkuðu flokkinn út.

Ég hljóp góðan túr í morgun fyrir Gróttu í góðu veðri. Eftir hádegi fórum við Jói í fuglaskoðunarferð með Fuglavernd um land Elliðavatnsbæjarins. Það var gaman að kynnast nýjum skoðunarslóðum því nú er allt að gerast í fuglalífinu. Við sáum meðal annars Glókoll en hann hef ég ekki séð áður. Þaðrf að fara aftur þarna uppeftir til að reyna að ná mynd af honum í bjartara veðri.

mánudagur, maí 09, 2011

GCD

Státinn þröstur á trjátoppi



Að undanförnu hafa samtök sem segjast berjast fyrir velferð dýra haft sig nokkuð í frammi. Talsmenn þess hafa meðal annars haft á orði að öll dýr sem alin eru til manneldis eigi að hafa möguleika á að komast undir bert loft. Í þessu sambandi er talað um haughænsni og frjáls svín. Nú ætla ég þessu fólki ekki annað en að því gangi gott ett til og ekki skyldi maður draga úr gildi dýraverndar og nauðsyn þess að farið sé vel með dýr. Það verður þó að hafa skynsemi í umræðunni ef menn áannað borð ala dýr til manneldis en fáir valkostir virðast vera til í stöðunni hvað það varðar. Þegar ég var að alast upp þá voru egg munaðarvarningur. Það voru til nokkrar hænur á öllum bæjum í sveitinni. Ég minnist þess að fólk á Patró voru í áskrift að eggjum og fengu sent box með mjólkurbílnum annað slagið. Það var almennur eggjaskortur í samfélaginu. Þegar farið var til Reykjavíkur þá var gjarna tekið eggjabox með til fjölskyldunnar sem gist var hjá . Það var varla hægt að færa fólki betri gjöf en egg til að geta bakað úr. Þetta breyttist allt þegar farið var að setja upp fjöldaframleiðslu á eggjum að erlendri fyrirmynd. Þá varð allt í einu til nóg af eggjum og egg lækkuðu mikið í verði. Þau urðu ódýr dagvara í stað dýrrar munaðarvöru. þegar fólke rað tala um að það eigi öll hænsni að geta farið út undir bert loft þá er það að segja að það eigi að hverfa aftur til þeirra tíma sem ég var að lýsa. Ef einhver efast þá er hægast að horfa á myndina Dalalíf eftir hinn stóryrta kvikmyndagerðarmann Þráinn Bertelsson.
Á þessum sama tíma var svínakjöt varla til. Skinka og hamborgarahryggir voru fyrst og fremst til á borðum þeirra sem höfðu aðgang að sjómönnum sem sigldu til útlanda. Sama má segja um kjúklinga. Þetta breyttist einnig með innleiðingu stórframleiðslu í alifugla- og svínarækt. Ef á að gera það að skilyrði að þessar skepnur eigi að geta farið út undir bert loft dag hvern þá er það bein ávísun á matarskort í mörgum löndum. það er ekki hægt að hleypa þessum skepnum út undir bert loft nema á mjög litlum búum. Slík bú munu aldrei geta fullnægt fæðuþörfinni. Draumórar geta verið falleg framtíðarsýn en veruleikinn er oft barskur þegar staðið er frammi fyrir honum. Það er á hinn bóginn pirandi að þessari umrælðu skuli vera hleypt gagnrýnislaust í fjölmiðla þar sem fimbulfambað er aftur á bak og áfram án nokkurrar þekkingar á því sem verið er að tala um.

Ég sé af og til í fjölmiðlum annarra norrænna síkja að þar er af og til verið að handtaka glæpamenn sem hafa fengið hæli sem pólitískir flóttamenn í þessum löndum undir fölsku flaggi. Gjarna er þarna um að ræða einstaklinga frá Rúanda og Balkanlöndunum. Ef upp um slíka kóna kemst þá eru þeir látnir mæta réttvísinni því fortíðin verður ekki af þeim þvegin. Hérlendis hafa fréttir af írana nokkrum ratað í fjölmiðla af og til á undanförnum misserum sem var ósáttur við þá afgreislu sem mál hans fékk í kerfinu. Hann fór síðan óvarlega með bensínbrúsa á dögunum og spratt af því nokkur fjölmiðlaumræða enn á ný. Ýmsir halda því fram að það sé einvörðungu að kenna vanhæfni og stirðbusaskap íslenskra stjórnvalda og tilheyrandi stofnana að þessi maður skuli ekki hafa verið borinn á gullstól inn í íslenskt samfélag og hafa haft stór orð þar um. Ég les í fjölmiðlum að hann hafi unnið sem hlerari hjá írönsku leyniþjónustunni í hartnær 20 ár. Til hvers er íranska leyniþjónustan að hlera síma? Ég efa að það sé gert í álíka tilgangi eins og var gert í sveitinni fyrir daga sjálfvirka símans þegar menn lyftu gjarna tóli til að kanna hvað nágranninn var að bjástra ef hann talaði við einhvern annan. Íranska leyniþjónustan er að láta hlera síma til að komast að því hverjir eru hættulegir öryggi ríkisins. Ef grunur fellur á einhvern á þeim nótum þá er látið til skarar skríða. Það væri fróðlegt að vita hve marga þessi maður hefur böstað með símhlerunum á nær 20 ára tímabili. Þegar ég bjó í Uppsölum í Svíþjóð þá kynntist ég mörgum írönum sem voru á flótta undan leyniþjónustunni í heimalandi sínu. Ætli það hafi verið vegna þess að kollegar þessa manns hafi heyrt eitthvað misjafnt í símum þeirra og gert hlutaðeigandi yfirvöldum viðvart. Svo gerir þessi náungi einhver mistök og er þá böstaður sjálfur af leyniþjónustunni sem hann vann fyrir. Þá á allt í einu að fara að meðhöndla hann sem fórnarlamb í öðrum löndum. Þetta er allt saman hið versta mál og ég skil vel að hlutaðeigandi stofnun hafi ekki séð ástæðu til að veita honum dvalarleyfi sem pólitískum flóttamanni. Það er síðan stóralvarlegt mál ef á að fara að taka þessi mál einhverjum öðrum tökum en gert er í nágrannalöndum okkar eins og margir virðast vilja. Það er með þetta eins og vatnið, það leitar alltaf þangað sem fyrirstaðan er minnst.

miðvikudagur, maí 04, 2011

Ólafur Þórarinsson / Undir Bláhimni

Helgi Sig skorar fyrra markið



Það hefur mikið verið rætt um ísbirni að undanförnu og ekki að ósekju. Það vekur alltaf athygli þegar greyin þvælast hingað upp. Áður voru þeir drepnir hratt og örugglega en nú hefur meðvitaða liðið náð ákveðnum undirtökum í umræðunni. Það á að fanga ísbirni lifandi og flytja þá aftur til Grænlands að margra mati eða þá alla vega setja þá í dýragarð ef allt annað er útilokað. Loks datt þó einhverjum hjá RÚV að hringja til Grænlands og spyrja þarlenda hvernig þeir tæku í að fá týndu birnina heim aftur. Þeir höfðu eðlilega aldrei heyrt aðra eina þvælu og létu hafa það eftir sér að vitaskuld ætti að skjóta þá strax áður en þeir yllu tjóni. Verulegar líkur væru á því að þetta væru dýr sem væru hálfgerðir útlagar og ein líkegt væri að þeir yrðu drepnir þegar þeir kæmu í flokkinn aftur. Síðan er hinn hlið málsins sem ekki er hægt að útiloka en það er sjúkdómahættan. Ísbjörn sem væri fluttur heim gæti flutt með sér sjúkdóma sem ísbjarnarstofninn væri veikur fyrir. Á slíku er ekki tekin nein áhætta. Verst af öllu er þó að setja þessi grey í dýragarð. Maður sér varla ömurlegri sjón er ísbjörn í dýragarði. Þá er nú betra að vera skotinn á staðnum.

Harpan er vígð í dag og mikið um dýrðir. 28 milljarða kostar dæmið. Þar af lentu rúmir 10 ma. kr. á erlendum lánardrottnum við bankahrunið en nóg er nú samt. Ríki og borg þurfa að greiða 800 miljónir króna á ári næstu 30 árin, einungis vegna hússins. Eitthvað ætti nú að vera hægt að fá fyrir öll þessi ósköp og skyldi engan furða þótt húsið væri sæmilega úr garði gert. Stór hluti vinnulaunanna við húsbygginguna hefur reyndar farið lóðbeint til Kína. Síðan er að reka ósköpin. Það verður þrautin þyngri. Í Fréttablaðinu í dag var gerður athyglisverður samanburður á stærð óperu- og tónlistarhúsa á Norðurlöndunum. Það er athyglisverður samanburður. Þar kemur náttúrulega í ljós að fámennasta landið reisir stærsta húsið. Í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi búa svona 1,0 milljón manns. Með nærsveitum er hægt að segja að upptökusvæði sé um 1,5 milljónir manna. Í Osló og Helsinki búa 5-600 þúsund manns og með nærsveitum fer upptökusvæðið upp í 1,0 milljón manna. Í Reykjavík búa 120 þúsund manns og með nærsveitum fer talan upp í 160-180 þúsund manns. Engu að síður er hér byggt stærsta húsið. Er það skrýtið að efnahagsmálin séu eins og þau eru?

Víkingur vann Þór í Víkinni í gærkvöldi. Fínt að vinna fyrsta leik. Það gefur tóninn á ákveðinn hátt inn í sumarið. Það væri gaman ef liðið spryngi út í sumar.

sunnudagur, maí 01, 2011

I think of angels - KK

40 ára búfræðingar




Ýmislegt hefur gert það að verkum að það hefur lítið verið bloggað að undanförnu. Það er eins og gengur að stundum er maður ekki í stemmingu til að setjast niður og skrifa og það er bara eins og það er. Svona skrif eiga ekki að vera kvöð heldur eitthvað sem maður hefur gaman af og langar til að gera.

Við Sigrún vorum uppi á Hótel Hamri um helgina. Þar var 40 ára reunion hjá búfræðingum sem útskrifuðust frá Hvanneyri vorið 1971. Það var góð mæting eða rúmlega 30 manns. Góð stemming var í hópnum og suma var maður að sjá í fyrsta sinn eftir þennan tíma. Aðra hafði ég séð einu sinni en aðra oftar eins og gengur. Flestir komu á föstudagskvöldið og það var setið og spjallað fram á nótt. Eftir hádegi var farið upp að Hvanneyri með Sæmundi hinum eina sanna sem keyrði okkur marga ferðina um héraðið fyrir 40 árum. Þá hefur hann verið ungur maður á fertugsaldri þótt okkur þætti hann vera ansi fullorðinn. Haukur bróðir tók á móti okkur á
Hvanneyri en hann er einn þriggja sem eru búsettir þar sem voru okkur samtíða í námi eða störfum. Hann leiddi okkur um staðinn og svo var drukkið kaffi og smá gjöf afhent. Það kakkaði snjó niður um nóttina og morguninn. Ég hafði hugsað mér að nota tækifærið og hlaupa Hvanneyrarhringinn þ.e.a.s. frá Hamri upp að vegamótum. síðan sem leið liggur eftir gamla veginum yfir Hvítárvallabrúna, heim undir stað og síðan yfir Andakílsárbrúna, fram hjá Skeljabrekku og svo sem leið liggur niður í Borgarnes og upp að Hamri. Ég lagði því af stað um kl. 6:00 um morguninn í slydduníði en það kom út á eitt, hringurinn skyldi farinn. Einu sinni á Hvanneyrarárunum hafði mér dvalist í Borgarnesi eftir ball og en lagði þó af stað upp að Hvanneyri síðla nætur og ætlaði að húkka mér far uppeftir. Það fór hins vegar svo að það stoppaði enginn bíll fyrir einmana göngumanni. Þegar nokkuð var orðið áliðið var ég orðinn fúll, hætti að veifa og gekk það sem eftir var og kom uppeftir undir morgun. Þetta þótti fáheyrt afrek að ganga alla leið neðan úr Borgarnesi. Nú skokkaði maður þetta í rólegheitum og túrinn upp að Hvanneyri tók ekki nema rúmlega einn og hálfan tíma. Það sem kom mér mest á óvart hvað þetta er stutt!! Alls var ég um 3 klst. að fara hringinn allann.
Í gærkvöldi var síðan fínn kvöldverður í hótelinu. Þar voru rifjaðar upp gamlar og góðar minningar sem margar voru gleymdar. T.d. var það rifjað upp þegar Varmalandsstelpurnar voru einu sinni sem oftar í heimsókn og rafmagnið fór allt í einu á miðju ballinu. Því var bjargað einhvern veginn og daginn eftir var farið að skoða hvað olli. Þá hafði köttur komist inn í spennistöðina, leitt á milli og stiknað en um leið sló út. Þegar ástæða rafmagnsleysisins var kunn þá létti þungu fargi af einum skólapilta því honum hafði verið mál á miðju balli og ætlað að fara á klósett niðri. Þau voru öll full svo hann fann afdrep þar sem rafmagnstaflan var og létti á sér þar úti í horni. Þegar bunan rann sem best fór rafmagnið. Hann vissi ekki annað en að sökin á útslættinum væri hans og létti því mikið þegar kötturinn fannst.
Fjórir félaganna eru dánir og er það nokkuð stór hluti úr ekki stærri hóp. Þetta var góður hópur sem hefur skilað af sér öflugum einstaklingum almennum búskap, í félagsmálum, í hestamennsku og hrossarækt, í verslun og viðskiptum, leiðbeiningaþjónustu og í fræðastörfum o.s.frv. o.s.frv. Það er síðan ekki sjálfgefið að fólk hafi gaman af því að hittast eftir svona samveru. Ég heyrði nýlega af því að árgangurinn sem var á undan okkur á Hvanneyri hafi einu sinni gert tilraun til að hittast en þá komu fáir og það hefur ekki verið reynt síðan.
Ég tók saman nokkrar myndir frá vetrinum og setti á Powerpoint show. Við fórum yfir þær síðla kvölds í gærkvöldi. Þótt myndirnar séu ekki eftir ströngustu kröfum dagsins í dag þá var mikið hlegið þegar þær vöktu upp ýmsar gleymdar en góðar minningar. Við renndum svo í bæinn undir hádegi eftir góða helgi í efra.