fimmtudagur, júní 30, 2005

Jaja, nu fer tessu aevintyri ad ljuka, eg flyg heim eftir um 6 tima. Eg var i baenum i dag ad sjoppa og sja mig um. Fint vedur, hlytt en svolitil gola. For i siglingu um floann, nidur ad Golden Gate Bridge og kringum Alcatras. Heyrdi i Eyvindi nordmanni i dag en hann, konan hans og Trond langadi til ad stoppa adeins a Islandi a leidinni heim. Kristjan naestum svili gat bjargad teim um gistingu med skommum fyrirvara tannig ad allt gekk upp hja teim. Eyvindur er mikill kappi, m.a. buin ad hlaupa Spartaton sem er um 250 km!!!. Enda tott tetta hafi verid mikid aevintyri ta verdur gott ad koma heim i venjulegheitin aftur.

mánudagur, júní 27, 2005

Var ad kikja a netid og skoda frettir ad heiman. Eg er ordinn finn, finn varla i fotunum ad teir hafi verid ad gera annad en venjulegt er. I gaer var ansi erfitt ad setjast nidur og hvad ta standa upp en nu er allt ordid eins og a ad ser ad vera. Drakk vel samkvaemt laeknisradi og tok ibufen og ta lagast tetta allt hratt og orugglega. Tad var gott ad sofna i gaerkvoldi tvi eg hafi litid sofid i trja solarhringa af ymsum astaedum. To vaknadi eg nokkrum sinnum i nott ad svara simtolum og sms skeytum. Gaman ad tvi. Tek tvi rolega her fram a midvikudag en kem ta heim.
IDF. I Did Finish. Takk fyrir allar godar kvedjur a netinu og ta godu strauma ad heiman sem leku um um mig i gaer, nott og i morgun. I stuttu mali get eg sagt ad tetta hafi verid einn storkostlegasti solarhringur aefi minnar hingad til. To er tad afar fataekleg lysing a timanum fra kl. 5.00 a laugardag til kl. 7.14 a sunnudag. Allt gekk upp eins og best gat verid, ekkert kom upp a, skrokkurinn og andinn heldu alla leid i mark. Reyndar voru vodvarnir framan a laerunum eitthvad ad kvarta sidustu 30 - 40 km en hvad med tad. Felagsskapurinn var frabaer og landslaginu er ekki haegt ad lysa. Eg held ad eg hafi verid nalaegt 150 saeti af teim 400 sem hofu hlaupid a timanum 26 klst.14 min. Um 20% haettu. Tetta tokst ekki sist fyrir tilstilli ykkar sem hafid verid ad lesa tessar hugleidingar minar i vetur og tannig hvatt mig afram i undirbuningi, aga og aefingum. Kaer kvedja heim.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Eg sit herna a iternet cafe i San Francisko ad morgni til og er ad lesa frettirnar ad heiman. Af mer er allt gott ad fretta, vedur er gott en ekki of heitt. SF er mjog falleg borg sem gaman verdur ad skoda betur. A leidinni vestur var Helga Bjorns ad vinna og bar mig a hondum ser alla leidina vestur. Kaerar takkir Helga. Teir Kristinn og Agust hafa tekid mer hondum tveim herna. Kristinn for med mid i sightseeing tour i gaer og skildi mig svo eftir i sport bud tar sem naudsynjar voru keyptar. I gaerkvoldi forum vid svo i mat til Agustar og fjolskyldu sem byr ca 50 km fyrir utan borgina. Tar voru logd a rad um ymsa hluti og farid nanar ofan i einstok atridi fyrir laugardaginn. August fer liklega uppeftir a morgun (fid) svo eg slepp vid ad keyra. Kristinn kemur svo a fod. Eg finn e kki annad en allt se i godu lagi. Madur er alltaf svolitid stessadur um ad eitthvad gerist, madur fai kvef, i magann eda eitthvad sem ekki verdur radid vid, en likurnar a tvi minnka eftir tvi sem timinn styttist. Eg fer liklega ut ad skokka adeins i dag, baedi til ad finna hitann adeins og sidan til ad prufa nyjan Camelbag sem eg keypti i gaer. Kvedjur heim

mánudagur, júní 20, 2005

Jæja, nú er komið að því. Ég legg af stað uppúr hádegi á morgun (mánudag). Mér finnst ósköp stutt síðan að við Halldór, Pétur og Svanur fórum að hlaupa langar æfingar á laugardögum upp úr áramótum. Ýmislegt hefur gerst síðan og margt áunnist. Halldór búinn að klára 100 km hlaup og tvö maraþon, Svanur er að jafna sig eftir liðþófaaðgerð, Pétur búinn að hlaupa fjögur maraþon og nú er komið að mér. Ég hef þá trú að það séu allar forsendur til staðar að sett markmið eigi að ganga upp með skynsemi og yfirvegun. Æfingaprógrammið gekk upp í vetur, skrokkurinn er í lagi það ég best veit og mér til ánægju sá ég í dag að veðurspáin er að verða æ hagstæðari fyrir næstu helgi. Nú spáir hann að heitast verði um 24 - 25 C bæði á laugardag í Squaw Valley og í Auburn á sunnudag. Það er frekar svalt á þessum tíma árs. Ef þetta gengur eftir þá verður allt í lagi með hitann. Ég var mest hræddur við að hann færi upp í um 40C eins og dæmi eru um, jafnvel með miklum snjóalögum.

Ég er búinn að vera að pakka niður í dag. Reyni að muna eftir öllu en það eru auðvitað líkur á að eitthvað gleymist. Þetta er töluverð útgerð, þrjú pör af skóm, allavega 6 pör af sokkum, hlífarnar frá Bryndísi, 5 bolir(bæði síðerma og stutterma), blússa, síðbuxur fyrir nóttina ef þörf krefur, tvenn höfuðljós, camelbag, mittisskjóða, húfur (þar af ein með slöri vegna hita og sólskins), hálsklútur m.a. til að verjast ryki, töluvert af heftiplástrum, second skin, iljaplástrar, íbúfen og aðrar verkjatöflur, sólarvörn og sólgleraugu. Síðan tek ég með dálítið af geli, döðlum, saltstöngum og orkubitum sem ég þekki og hafa reynst mér vel. Ég fæ mér síðan næringu til viðbótar vestra. Síðan hef ég myndavél, vasahníf og varabatterí eftir þörfum. Svo tek ég með púlsmæli og Timex tæki.

Ég flýg vestur seinnipartinn á morgun. Í SF tekur Ágúst (annar íslendingurinn í crewinu) á móti mér á flugvellinum og skutlar mér heim á hótel. Það er nauðsynlegt að hafa nokkra daga til að jafna sig á tímamuninum og aðlagast hitanum aðeins. Ég tek síðan líklega bílaleigubíl upp til Squaw Valley á fimmtudagsmorgun og verð þar við að gera klárt, skrá mig, fara í læknisskoðun og skipuleggja útsendingu á vistum. Síðan er kynning keppenda og fleiri uppákomur á föstudaginn. Ég geri ráð fyrir að gista í Auburn eftir hlaupið og keyra síðan til SF á mánudag.

Ég gaf mig fram í læknistest sem er skipulagt á keppendum. Tekin er blóðprufa á föstudaginn og síðan aftur í markinu. Annar hópurinn fær 1200 mg af íbúfeni á föstudaginn og síðan ekkert á meðan á hlaupinu stendur en hinn hópurinn ekki neitt. Ef í harðbakkan slær gerir maður ógilt frekar en að vera að drepast og geta ekki gert neitt í því.

Það hafa margir haft samband við mig á síðustu dögum með árnaðaróskum. Ég þakka allar góðar óskir sem eru mér mikils virði og vona að ég standi undir þeim væntingum sem bæði ég og aðrir gera. Ég veit ekki hvort ég kemst í tölvu þar vestra en það kemur bara í ljós.

Over and out.

sunnudagur, júní 19, 2005

Fórum í kvöld að borða í Perlunni í tilefni prófloka hjá krökkunum. Það er gaman að gera sér smá dagamun af og til og ekki síst þegar innistæða er fyrir því.

Esjuganga þar á eftir í frábæru veðri. Töluverður fjöldi á fjallinu og ýmsir kunnugir. Líklega er góð aðferð að hitta kunnuga á þessum tíma að fara á Esjuna. María kom með og var létt eins og hind á leiðinni upp og skokkaði svo alla leiðina niður.

Þetta var síðasta alvöruæfingin áður en ég held í hann á mánudaginn. Nú er bara að sjá hvernig gengur. Sá langtímaspána fyrir upphafsstað og endastöð. Það er spáð um 30 C í Squaw Valley á laugardaginn og um 25 C í Auburn á sunnudag. Þetta er allt í lagi og bara eins og ég hafði búist við og kannski heldur betra. Ég hef séð að hitinn getur farið vel yfir 100 F og það er eitthvað sem maður veit ekkert um hvernig myndi ganga upp. Þetta á að vera allt í lagi ef þokkalega varlega er farið á meðan heitast er, vel drukkið og borðað og neytt salts.

Það er lagt af stað kl. 5.00 e.m. að staðartíma eða um kl. 13.00 að íslenskum tíma á laugardaginn 25. júní. Ég held að það sé 8 tíma munur. Það verður tekinn chips tími á 6 stöðum. Ég cirka út eftirfarandi tíma á tímatökustöðvum ef einhver kíkir á vefinn www.ws100.com. Áætlaður tími er miðaður við að tíminn verði frá 24 klst til 30 klst. Númerið er 230:

Little Bald 29 M kl. ca 1830 - 1900 á laugardag
Devils Thumb 48 M kl. ca 2330 - 0200 um og eftir miðnætti á laud/sud
Michican Bluff 56 M kl. ca 0130 - 0430 á sunnudag
Foresthill 62 M kl. ca 0300 - 0630
River Crossing 78 M kl. ca 0700 - 1230
Highway 49 94 M kl. ca. 1110 - 1700
Finish Line 100,2 M kl. ca 13.00 - 1900 á sunnudagseftirmiðdag

Kvenfólk fagnar í dag. 90 ár síðan konur fengu kosningarétt. Til hamingju með það. Mogginn fer þó fram úr sjálfum sér í fagnaðarlátunum þegar hann segir sem forsíðufrétt að konur nýti kosningarétt frekar en karlar. Í alþingiskosningum 2003 kusu 88.3% kvenna en 87.2% karla. Þetta er ekki marktækur munur og engin ástæða til að slá upp forsíðufrétt á þessum forsendum.

Ég vildi síðan bara minna á að það er nú alls ekki svo að karlar hafi allir sem einn haft kosningarétt um aldir alda. Langt í frá. Langt fram eftir öldum voru það einungis eignamenn (jarðeigendur) sem höfðu kosningarétt. Langflestir karlar og allar konur höfðu ekki kosningarétt. Síðan fengu allri karlar kosningarétt og þar á eftir allar konur. Ég ætla alls ekki að fullyrða að sú röðun hafi verið réttlát eða eðlileg.

Þyrfti að rifja upp hvenær allir karlar fengu kosningarétt. Af hverju halda karlar ekki upp á þann dag? Í Danmörku er það einn af stóru hátíðisdögunum í landinu þegar þess er minnst að vistabandið (stavnbandet) var niðurlagt. Það man enginn eftir því hvenær það var gert hérlendis. Þó var það ekki síður mikilvægt skref í mannréttindabaráttunni heldur en kosningarétturinn.

föstudagur, júní 17, 2005

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Fór í morgun niður á Austurvöll með Sveini. Það sem dró okkur var fyrst og fremst af stað var að tvö skólasystkyni Sveins úr MR lögðu blómsveig að styttu Jón Sigurðssonar sem forsetinn lagaði svo aðeins til. Á Austurvelli var margt fólk og frábært veður. Maður hitti marga kunnuga svo að þetta dróst á langinn. Halldór forsætisráðherra flutti ágæta ræðu sem að tölverðu leyti fjallaði um hve miklu betra væri að sjá ljósið í myrkrinu en myrkrið
i deginum. Vona að úrtölufólkið og lastararnir hafi séð ljósið á þessum bjarta degi.

Þrír einstaklingar mættu á Austurvöll í appelsínugulum kraftgöllum í hlekkjum með hettur yfir höfðinu og hlekkjaðir saman. Líklega hefur þetta verið skyrfólkið frá Hótel Nordica. Það var flott að sjá að samstundis og þau birtust voru nokkrir stórir kallar með sólgleraugu og heyrnartæki mættir og umkringdu þau án þess þó að aðhafast nokkuð. Þeir stóðu síðan hjá þeim þar til þau fóru. Ég hitti þarna konu sem ég þekki og danska vinkonu hennar. Sú danska minnti á að í Danmörku er bannað með landslögum að vera með hulið andlit á fjöldafundum. Reynsla þeirra er slík að til þessa örþrifaráðs var gripið. Hvað ætli úrtöluliðið og þeir sem telja sig hafa einkarétt á að flagga mannréttindafánanum myndu segja ef þessi ákvæði væru lögfest hér. Ég spái því að þetta muni vera komið í framkvæmd innan tiltölulega skamms tíma.

Það er með ólíkindum að heyra málflutninginn í þessu liði sem ruddist inn á hótel Nordica. "Eru menn ekki alltaf í matarslag"? sagði eitt fyrirbærið í sjónvarpinu. Ég þekki ekki umgengnisvenjur heima hjá henni en það hefur ekki verið vani á þeim fundum sem ég hef setið að menn hendi mat hver í annan, hvað þá öðru. Ég vona að stjórnvöld, dómskerfið og lögreglan taki á svona málum af þeim þunga og þeirri alvöru sem það á skilið. Þótt þessir bjálfar hafi nú verið með skyr, hvað veit maður hvað þeir næstu verða með. Verður það sýra eða handsprengjur?

Svíar töluðu lengi um það hvað það væri frábært að stjórnmálamenn gætu verið óhultir þar á götum úti meðal borgaranna og það yrði að standa vörð um þennan þátt í samfélaginu. Tveir að þeirra mikilhæfustu stjórnmálamönnum voru síðan drepnir á almannafæri. Ég vona að við þurfum ekki að vakna upp við slíka martröð heldur að horfast í augu við raunveruleikann fyrr en slíkir atburðir gerast. Af þeim sökum eigum við að sína svona liði fyllstu hörku.

Dagurinn niðri í bæ var fínn, ekki eins margt fólk og vanalega en mjög hlýtt og fínt. Ekkert hlaupið í dag, ég bara nennti því ekki.
Hljóp léttan rúnt í hverfinu í dag, vel klæddur og svitnaði vel. Fékk þriðja bréfið frá WS100 í dag. Þar voru vangaveltur um ýmislegt, meðal annars snjóinn. Hann bráðnar hratt þessa dagana og þeir gera ráð fyrir að það geti verið snjór á leiðinni sem svarar 5 - 12 mílur. Það gæti verið mimklu verra og er ekki svo slæmt.

Var einnig í samskiptum við Rollin. Salttakan er eitt af því sem ég hef nokkrar áhyggjur af. Hann notar salt- og steinefnapillur sem hann tekur með ákveðnu millibili. Við hittumst fyrst við Robinson Flat sem er um 25 mílur inni á leiðinni. Þá ætlar hann að láta mig hafa góðan lager sem ætti að duga vel áleiðis eða þangað til ég hitti hann aftur við Foresthill School á 62 mílu.

Var einnig í samskiptum við Kristleif í San Francisko. Það er orðið klárt að þeir verða tveir sem ætla að crewa mig á leiðinni sem er afar gott. Það gerir margt auðveldara. Þá þarf ég t.d. ekki að hugsa fyrir útsendinu birgða nema á fyrri hluta leiðarinnar.

Í kvöld var félagsfundur í félagi 100 km hlaupara. Það var tímamótafundur því nú var tekinn fyrsti nýi félaginn til viðbótar við þá sem stofnuðu það sl. haust. Húfan var borin fyrir Halldór á glæsilegum púða úr stofu Ágústar eftir að sýnt þótti að hann stæðist allar kröfur um inngöngu í félagið. Alls erum við nú sex sem höfum skrefað 100 km, tveir oftar en einu sinni. Halldór fór síðan yfir ýmsa hluti úr hlaupinu og hvernig það gekk fyrir sig. Það er alltaf gagnlegt því ekkert hlaup er eins. Við spjölluðum síðan aðeins um WS 100 og þeir voru þegar farnir að skipuleggja vakt við tölvuna á sunnudagsmorgun þegar millitímar geta farið að birtast á netinu til að ganga úr skugga um hvort kallinn væri enn á ferðinni.

Víkingur tapaði 0 - 2 fyrir KA í kvöld. Það voru ekki góð tíðindi.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Fór til Arnar á Hrísateignum í dag í smá yfirhalningu. Við vorum búnir að tala um það síðast þegar ég kom til hans og hann myndi fara yfir stöðuna áður en ég héldi af stað. Ég hef góða trú á Erni sökum þeirrar reynslu sem ég hef af því að fara til hans með eymsli sem ég gat ekki náð úr mér. Fyrir tveimur árum var ég með verk aftan í öðru lærinu sem ég losnaði ekki við. Eftir þrjá tíma hjá Erni losnaði ég við verkinnog hef ekki orðið hans var síðan. Í vetur var ég með verk við aðra mjaðmakúluna. Örn tók mig í nálastungu og kenndi mér teygjur og verkurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Örn var ánægður með stöðuna á skrokknum, stakk nálum í mig hér og hvar til að auka orkuflæðið og ná balans í fótunum. Hann ráðlagði mér að hafa hægt um mig í dag, enda finn ég að þeir eru svolítið þungir. Þetta var eiginlega síðasti hnykkurinn.

Byrjaði á að taka saman tossalista yfir það sem þarf að fylgja mér vestur. Það er þónokkuð og síðan þarf að skipuleggja útsendingu á því á drykkjarstöðvarnar.

Mér fannst uppákoman á Hotel Nordica alvarleg í gær. Við höfum verið blessunarlega laus við svona lið hingað til á Íslandi. Mér finst grundvallarmunur á því að berjast fyrir hagsmunum sínum og verja rétt sinn s.s. ef ríkið ætlar að leggja veg yfir land sem maður vill ekki missa eða að berjast með valdi vegna þess að maður hefur orðið undir í pólitískri umræðu. Hverjir eru þessir "við" sem talsmaður náttúruverndarsamtakanna sem ég man ekki hvað heita talaði um í Dægurmálaútvarpinu í gær? Eru það álíka margir og héldu til á Austurvelli um hríð? Svona 5 - 10 manns. Í hvers nafni tala þeir.

Enda þótt talsmaðurinn tæki afstöðu á móti skyrslettufólki á Hótel Nordica þá sagði hann engu að síður að hann vildi öll álver á landinu burt. So. Líka Straumsvík og Norðurál í Hvalfirði. Hvað hafa þau gert af sér? Ég man þá tíð að raunveruleikafirrtir vinstrimenn mótmæltu Straumsvíkurverksmiðjunni í ræðu og riti en ég hélt að allir sæmilega skynsamir menn væru farnir að hafa hljótt um slíkar hugrenningar. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef Straumsvík og Hvalfjarðarverksmiðjunum væri lokað? Hve margir myndu missa vinnuna strax? Hve margir myndu missa vinnuna vegna óbeinna áhrifa? Hvað myndi hliðarþjónusta skaðast? Hvað myndi þetta hafa áhrif á margar fjölskyldur? Hvað myndu menn græða á þessum lokunum? Ég er fyllilega á því að það eigi að hafa vaðið fyrir neðan sig varðandi nátúruspjöll og tek þá t.d. Langasjó sem dæmi. Á hinn bóginn verða menn að átta sig á því að ef menn vilja búa hérlendis þá lifa menn ekki á loftinu eða draumórum.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Fór léttan túr í hverfinu í dag. Klæddi mig vel og svitnaði eftir því. Maður fer bara létt hlaup til að halda sér við en ekkert erfiði. Það spáir svölu fyrir vestan nú um helgina en fer svo hlýnandi þegar líður á næstu viku samkvæmt spánni. Bara að það verði ekki óþolandi heitt.

Skrapp til Bryndísar Svavars í kvöld og fékk hjá henni öklahlífar til varnar því að það fari steinar niður í skóna. Hún sponseraði þáttökuna með hlífunum. Kærar þakkir. Hlífarnar hafa reynst mörgum vel á Laugaveginum og ég held að það sé praktiskt að hafa þær í farteskinu. Bryndís situr nú og les undir próf en hún er að klára stúdentinn í hraðbrautinni. Hefur þó tíma til að fara til Mývatns um næstu helgi.

Sá tvo athyglisverða umræðuþætti í sjónvarpinu í kvöld. (Mér fannst sá hluti Kastljóssins sem fjallaði um hæfi Halldórs ekki athyglisverður og sé því ekki ástæðu til að fjalla um hann). Síðan var meðal annars fjallað um þátttöku kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum fyrirtækja í Kauphöllinni en þetta hefur verið afar mikið áhugamál margra feminista. Síðan var á dagskránni norskur þáttur um stöðu einstæðra feðra. Sú mynd sem þar var dregin upp var dökk. Ég held þó að hún sé miklu verri hérlendis. Það var athyglisvert sem kom fram í norska þættinum að þeir embættismenn sem fjalla um forsjármál í stjórnkerfinu eru að stærstum hluta til konur. Þær eru ekki hlutlausar í umfjöllun um forsjármál og dæma konum yfirleitt í vil. Í jafnréttisnefnd eru því sem næst eingöngu konur. Síðan kom það fram í þættinum að það er fjárhagslegt spursmál fyrir mæður að ungengni feðra sé eins lítil og hægt er því þá fá þær meiri greiðslur úr kerfinu. Það væri gaman að skoða þessi mál hérlendis. Miðað við alla umræðuna um kynbundið misrétti hérlendis sem hefur einvörðungu miðast við hagsmuni kvenna fyndist mér ástæða til að skoða stöðu einstæðra feðra ítarlega. Það ég best veit fá mæður dæmda forsjá í 95% tilfella. Er það jafnrétti?
Fór hring í hverfinu í eftirmiðdaginn í gær. Kappklæddi mig til að hitna vel og svitna. Fylgist með veðurspánni í Squaw Walley og Auburn. Hitinn sveiflast dálítið og er á milli 25 og 30 gráður þegar heitast er. Ef að hann verður ekki meiri þá ætti maður að lifa þetta af. Snjóskýrsla kom í gærkvöldi. Snjórinn hefur minnkað mikið og er kominn niður undir meðallag. Með sama áframhaldi ætti þetta að vera vandræðalaust eftir tvær vikur.

Dálítið sérkennileg umræða sem er komin upp í sænsku blöðunum. Hún fjallar um svokallað "tantslam". Það fjallar um þegar eldri konur eru að sýna yngri körlum kynferðislega áreitni. Þetta kemur sérstaklega fyrir á veitingahúsum þegar þjónarnir eru að bera fram veitingar með báðar hendur uppteknar. Þá sæta kellingarnar færist og grípa í þá bæði aftan og framan. Strákar sem líta þokkalega vel út hafa orðið fyrir svo mikilli áreitni af hálfu tantanna að þeir hafa orðið að segja upp störfum. Ég man ekki til að hafa heyrt um þetta hérlendis. Reyndar hefur maður oft séð eldri konur hlassa sér óbeðnar í fangið á strákum og kyssa þá allt hvað af tekur, óbeðnar. Skyldi þessi umræða koma upp á yfirborðið hér eftir svona 5 ár?

Skýrsla ríkisendurskoðunar lá fyrir í gær. Ekkert kom fram í henni sem varpaði skugga á aðkomu forsætisráðherra að sölu ríkisbankanna. Vonbrigði stjórnarandstöðunnar leyndu sér ekki. Allt í einu var það orðið stórmál hvernig skýrslan var kynnt. Ögmundur frændi notaði öll hástemmdustu lýsingarorðin sem hann fann til að fordæma gjörninginn. Hvaða orð skyldi hann nota þegar hann þarf virkilega að láta taka eftir því sem hann segir? Helgi Hjörvar notaði síðan öll Morfís trikkin sem hann kann þegar hann var í spjalli við Hjálmar Jónsson en kom fyrir ekki. Menn eru greinilega orðnir svo vanir þessum bellibrögðum hans að þau slá engan út af laginu lengur og Hjálmar rak hvað eftir annað ofan í hann þversagnir og rangfærslur. Helgi fullyrti meðal annars að menn hefðu selt bankana fyrir slikk og ríkið tapað stórfé. Hvaða fullyrðingar eru þetta? Hvort endanlegt verð er hátt eða lágt er mjög afstætt. Hvers vegna vildu ekki fleiri kaupa fyrst verðið var svona hagstætt? Það sem meðal annars var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar í aðdraganda að sölu bankanna að eftir einkavæðingu þeirra myndi útibú verða lögð niður í löngum bunum. Það hefur ekki gerst. Ef þeir hefðu á hinn bóginn verið seldir fyrir algert hámarksverð þá hefði hagræðingarkrafan verið miklu harðari. Þá hefði einnig verið miklu meiri hættu á að þeir einstaklingar sem hefðu keypt stóra sem smáa hluti hefðu tapað peningum. Er það sú aðferð sem Hjörvarinn vildi? Að mínu mati er það sem mestu máli skiptir að við einkavæðingu bankanna hefur verið leystur þvílíkur kraftur úr læðingi að velsæld í þjóðfélaginu hefur vaxið mikið við þá formbreytingu. Er stjórnarandstaðan kannski sár þess vegna?

mánudagur, júní 13, 2005

Helgin rann hjá tíðindalitil eða þannig. Á laugardaginn voru 60 ár síðan Samband sveitarfélaga var stofnað og stjórn, starfsmenn og makar héldu upp á daginn með menningarferð í Borgarfjörð undir styrkri og fróðlegri leiðsögn Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri. Við komum við í Borgarnesi, Hvanneyri, Húsafelli, Reykholti og í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Að endingu var kvöldverður á Hótel Glym á Hvalfjarðarströnd. Enda þótt maður sé ekki ókunnugur í Borgarfirði þá opnast nýjar víddir við að fara um héraðið með góðri leiðsögn og fræðandi. Einnig er ánægjulegt að sjá þá uppbyggingu sem á sér stað bæði í Borgarnesi, á Hvanneyri og í Reykholti. Slíkt er ekki sjálfgefið. Veðrið var eins og best verður á kosið, hlýtt, logn og sólfar uppúr hádegi.

Í gær voru ákveðin rólegheit og dos yfir manni. Garðurinn var þó sleginn. Nú verður að hefjast handa við að fara yfir það sem hafa skal með. Í mörg horn er að líta hvað það varðar svo ekkert klikki. Ég þarf t.d. að sauma herðadúk á húfuna, fá skóhlífar hjá Bryndísi, ganga til nýja skó, taka til apóteksvörur, skipuleggja hvað verður sent á hvaða drykkjarstöð o.s.frv. Það er ekki laust við að það séu farið að örla fyrir smá fiðrildum í maganum.

Gott hjá eyjamönnum að vinna KR.

föstudagur, júní 10, 2005

Tók Esjuhlaup fyrir kvöldmat. Fínt, gott veður og kjöraðstæður.

Heyrði í Báru Ketils í útvarpinu í morgun þar sem hún var að fara yfir niðurstöður ritgerðar sinnar. Til hamingju Bára með að vera búin að ljúka náminu. Ég þarf að skerpa mig í haust og vetur en ég sé fram á að hafa ekki möguleika á að klára í haust eins og ég hafði áætlað.

Fékk bréf frá Rollin í dag. Hann var að skýra ýmislegt út fyrir mér sem ég spurði hann um fyrir nokkru og er afar gagnlegt að vita. Hann kemur til með að hlaupa með mér frá Forest Hill School sem er á 62 mílu. Hann leggur áherslu á að borða vel af venjulegum mat, kjöti, fisk og eggjum (nóg af eggjahvítu) síðustu dagana fyrir svona hlaup því það gerir vöðvana betri og úthaldsbetri. Hleðsla með kolvetni er eins og að borða froðu fyrir svona átök.

Síðan fékk ég annað bréf frá blaðamanni Los Angeles Times sem er að skrifa grein um hlaupið. Það vakti athygli hennar að íslendingur skyldi leggja leið sína til Californíu að hlaupa þar um fjöll og firnindi. Kannski býst hún við einhverjum Frosty The Snowman sem bráðni og hverfi yfir hádaginn (ég segi nú svona). Hana langar að heyra um aðstæður til æfinga á Íslandi á veturna og hvað það sé sem dragi mig til Californíu í þessum tilgangi. Sé til hvað úr því verður.

Síðasti hluti af sögu WS 100:
Árið 1997 hófu 369 hlaupið og 257 luku því. Hæsta lokahlutfall í sögu hlaupsins. Veður, hiti og snjóalög voru með hagstæðasta móti. Fyrsti einstaklingur utan Kaliforníu vann hlaupið og setti met (15.50.41). Ann Trason vann í níunda skiptið og endurtók doblið frá fyrra ári þar sem hún vann Comerades 12 dögum fyrr. Tólf konur foru undir 24 klst sem er mesti fjöldi frá upphafi.
Árið 1998 hófu 381 hlaupið og 258 luku því. Mikil snjóalög og hálka í brautinni. Aðstoðarfólk komst fyrst að brautinni á 55 mílu. Tveim klst var bætt við hámarkstíma vegna aðstæðna. Ray Piva varð sá elsti að ljúka hlaupinu, 71 árs gamall og tveir sjötugir fylgdu stutt á eftir.
Árið 1999 hófu 335 hlaupið og 216 luku því. Scott Jurek kom til sögunnar og vann sitt fyrsta hlaup örugglega. Sextugur keppandi frá Sviss kom þrettándi í mark á 20.44 klst. Veður var mjög hagstætt. Skipt var um framkvæmdastjóra fyrir hlaupið og Greg Soderlund, sem ég hef haft samband við, kom til skjalanna.
Árið 2000 hófu 385 hlaupið og 222 luku því. Scott Jurek vann sinn annan sigur yfir mörgum af bestu ultra hlaupurum heims og Ann Trason vann sinn 11 sigur og varð í 11 sæti.
Árið 2001 hófu 396 hlaupið og 267 luku því. Sama par vann hlaupið. Tim Twietmeyer hljóp sitt tuttugasta hlaup undir 24 klst og endaði í öðru sæti. Tvær konur voru meðal tíu fyrstu. Myndin, "A Race For The Soul" var gerð sem ég horfi ætíð á af jafn mikilli ánægju og spennu. Gríðarlegur skógareldur geisaði síðar um sumarið á slóðum hlaupsins og eyðilagði yfir 16 þúsund ekrur.
Árið 2002 hófu 372 hlaupið og 255 luku því. Sama par vann hlaupið og síðustu þrjú ár. 55 ára gömul kona varð elsta kona til að ná undir 24 klst. Leiðinni var breytt vegna skógareldsins árið áður.
Árið 2003 hófu 405 hlaupið og 272 luku því. Sama par vann hlaupið og undanfarin ár. Ný met voru sett í aldursflokknum yfir 60 ár hjá bæði konum og körlum. Þrátt fyrir mikinn hita (99 F) þá náðu 96 hlauparar undir 24 klst. "Running Madness" var frumsýnd. Mér finnst hún ekki alveg eins góð og "A Race For The Soul".
Árið 2004 hófu 366 hlaupið og 278 luku því. Í fyrsta sinn voru það yfir 70% sem luku hlaupinu. Skott Jurek vann í sjötta sinn í röð. Hann hefur bætt tíma sinn á hverju ári og hljóp nú á 15.36.27. Margir náðu sínum besta tíma vegna góðra aðstæðna.
Árið 2005 hófu ........ hlaupið og .......... luku því.

Þetta kemur allt í ljós eftir rúman hálfan mánuð.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Ekkert hlaupið í dag.

Í blaðinu sem ég fékk í gær er sagt frá því að í ár eigi keppendur að vera með chips og tími verði tekinn rafrænt sex sinnum á leiðinni. Það verður gert við 25 mílur, 50 mílur, 55 mílur, 62 mílur, 73 mílur og 93 mílur. Tölurnar verða settar á vefsíðu hlaupsins eins fljótt og mögulegt er. Ef sendibúnaður klikkar þá verður síminn notaður. Ég hef verið spurður að því hvort hægt verði að fylgjast með hlaupinu á netinu og ég hef svarað því neitandi en nú eru staðreyndir málsins að koma í ljós.

Áfram með sögu hlaupsins:
Árið 1988 hófu 341 hlaupið og 250 luku því. Samningar náðust um formleg afnot af hluta brautarinnar við Skógarþjónustu Bandaríkjanna á ákveðnu verndarsvæði eftir fjögurra ára samningaviðræður. Fyrsti einstaklingurinn vann 1000 mílna sylgjuna sem þeir fá sem hafa orðið meðal tíu efstu í tíu skipti.
Árið 1989 hófu 372 hlaupið og 246 luku því. Fenómenið Ann Trason tók í fyrsta sinn þátt í því og varð fyrsta konan til að verða meðal tíu fyrstu. Hún hefur síðan verið ósigrandi í hlaupinu. Fyrsti maðurinn fékk tíu silfursylgjur í röð. Fyrsta konan náði að ljúka 10 hlaupum.
Árið 1990 húfu 351 hlaupið og 208 luku því. Yfir 1000 einstaklingar sóttu um að fá að taka þátt í hlaupinu. Þrír einstaklingar sem luku hlaupinu voru dæmdir úr leik vegna aðstoðarmanna sinna. Nokkuð margir hlauparar sáu bæði fjallaljón og brúnbjörn í grennd við brautina.
Árið 1991 hæufu 348 hlaupið og 242 luku því. Kaldasta og vætusamasta hlaupið til þessa. Ausandi rigning við rásmark, slydda á fjöllum og kalt þar sem venjulega er heitt. Hitinn var um 8 C þar sem hann var lægstur og náði rétt um 20 C þar sem heitast var. Í fyrsta sinn náðu tveir hlauparar yfir sextugt að ljúka hlaupinu undir 24 tímum.
Árið 1992 hófu 374 hlaupið og 230 luku því. Ann Trason varð þriðja af öllum keppendum. Einn keppandi var dæmdur úr leik og í fyrsta sinn urðu keppendur að hafa náð ákveðnum tíma í ultravegalengdum til að öðlast þátttökurétt í hlaupinu.
Árið 1993 hófu 387 hlaupið og 209 luku því. Gríðarlegur hiti var á meðan á hlaupinu stóð og fór hann upp í 105 F eða nær 40 C. Mikill snjór var á hæsta hluta brautarinnar sem hafði í för meðs ér mesta brottfall keppenda síðan 1977.
Árið 1994 hófu 379 hlaupið og 249 luku því. Hlaupið tvítugt. Gordy Ainsleigh lauk hlaupinu í níunda sinn. Ann Trason varð í öðru sæti. Ray Piva, 67 ára, varð elsti þátttakandinn til að hlaupa undir 24 klst. Síðasti þátttakandinn kom í mark 16 sekúndum fyrir lokaflautið eða á 29.59.44.
Árið 1995 hófu 371 hlaupið og 198 luku því. Ár vetrarins sem tók aldrei enda. Snjóbyl gerði á hálendinu einungis viku fyrir hlaupið. Sierra var þakið mestu snjódýpt sem nokkurntíma hafði verið mæld eða 836 tommur. Fyrstu 24 mílurnar voru á kafi í snjó. Hitinn í gljúfrunum fór upp í 107 F. Keppendur voru ferjaðir yfir ána á 73 mílu á bátum. Ann TRason varð aftur önnur í hlaupinu. Tíminn var lengdur upp í 32 klst og gagnaðist það 28 keppendum.
Árið 1996 hófu 373 hlaupið og 227 luku því. No Hands Bridge var lokuð allt vorið vegna hættu á að brúin stæðist ekki öryggiskröfur en keppendur í WS 100 fengu undanþágu þennan eina dag. Í góðu veðri varð Ann Trason þriðja í röðinni, einungis 12 dögum eftir að hafa unnið kvennaflokkinn í Comerades í S - Afríku. Tim Twietmeyer vann hlaupið og náði sinni 15 silfursylgju.

Frh síðar.

Víkingur vann góðan sigur 1 - 0 á nágrönnum sínum í HK í Víkinni. Litlu munaði þó því HK átti skot í innanverða stöngina í næstsíðustu spyrnu leiksins.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Fór á Esjuna í kvöld. Var 65 mín upp að Steini og niður aftur. Léttur og gekk vel. Við Steininn hafði hlaðist upp varða sem göngumenn á Esjun hentu steinum í. Nú var hún útflött og höfðu greinilega einhverjir skemmtikraftarnir eytt tíma og kröftum í að rífa hana í sundur. Geta fíflin ekki haldið sig á lágsléttunni? Þurfa þau nú líka að ganga á Esjuna?

Fékk í dag hlaupablaðið frá WS 100. Þar kennir margra grasa. Í kaflanum um áhættur er getið um blöðrur á fótum, meiðsli, nýrnavandræði, hitaflog, ofþornun, háloftaveiki, óreglulegan hjartslátt, saltskort, ljón, birni, snáka, býflugur, ökuníðinga, hættu á að týnast og ná ekki í læknisaðstoð. Einstaka menn hafa hlaupið þessa leið yfir 20 sinnum!!!

WS 100 er hlaup með sögu. Hún er rakin í grófum dráttum í blaðinu.
Þetta byrjaði allt 1974. Þá hljóp Gordy Ainsleigh leiðina eftir að hesturinn hans veiktist rétt áður en keppni í hestaþolreið byrjaði á leiðinni. Hann kláraði á 23 klst og 42 mín.
1975 reyndi einn að hlaupa leiðina með hestaþolreiðinni. Hann hætti eftir ca 75 mílur.
1976 hljóp "Cowman" leiðina einsamall á 24 klst 30 mín. Þessir tveir, Gordy og Cowman taka báðir þátt í hlaupinu í ár, tæplega sextugir.
1977 byrjuðu 16 manns hlaupið en 3 luku því. Það er skráð fyrsta formlega WS100. Hlaupararnir þurftu að bera með allt með sér nema vatn. Eftir þetta hlaup var hámarkstíminn settur á 30 klst. WS Endurance Run Board var stofnað þetta ár.
1978 hófu 63 hlaupið en 30 luku því. Nú voru settar upp 21 drykkjarstöð og 6 læknisstöðvar. Fyrsta konan lauk hlaupinu.
1979 hófu 143 hlaupið og 96 luku því. Fyrstu útlendingarnir tóku þátt í því. Fyrsta árið sem settar voru kröfur um árangur til að fá að taka þátt í hlaupinu eða 50 M á skemmri tíma en 10 klst.
1980 hófu 251 hlaupið og 124 luku því. Fyrstu 10 mílurnar voru á kafi í snjó. Bát þurfti til að fara yfir ána á 73. mílu.
1981 hófu 251 hlaupið og 146 luku því. Þátttaka takmörkuð í fyrsta sinn með lotteríi.
1982 hófu 278 hlaupið og 176 luku því. Í fyrsta sinn vann hlaupari WS100 í fyrsta sinn sem hann hljóp leiðina. Mynd um hlaupið var sýnd um öll Bandaríkin.
1983 hófu 282 hlaupið og 196 luku því. Fyrstu 24 mílurnar voru á kafi í snjó. Skaflarnir voru 5 - 6 metra háir. Um 30 fyrstu hlaupararnir villtist og þurfti að fá helekopter til að koma þeim á rétta leið aftur. Sigurvegarinn tók fram úr næsta manni þegar 800 metrar voru eftir og vann hlaupið með 1 mínútu.
1984 hófu 369 hlaupið og 250 luku því. Outside Magasine valdi WS100 sem "erfiðasta fjallahlaup í heimi".
1985 hófu 294 hlaupið og 163 luku því. Leiðin var mæld nákvæmlega og reyndist vera 100,2 mílur.
1986 hófu 415 hlaupið og 210 luku því. Hámarksþáttaka.
1987 hófu 353 hlaupið og 183 luku því. Í El Dorado Canyon mældist 114 gráður á Farenheit (það er eitthvað yfir 40 C).

Frh. síðar
Ég er enn í rólegheitum. Það hefur bæði verið nóg að gera og svo er hvíldin góð. Ég hef engar áhyggjur af því að taka það rólega í nokkra daga. Ég hef gert það áður eftir þungt æfingarprógram og það hefur gert mér gott.

Ágúst Kvaran stóð fyrir minningarhlaupi um Guðmund Gíslason í dag á dánardægri hans. Gott framtak hjá Ágústi. Góður hópur hljóp frá Gljúfrasteini upp á Skálafellsvegamót þar sem menn settu stein í minningarvörðu um Guðmund. Nokkrir hlupu niðureftir aftur á móti strekkingsvind en aðrir fengu bílfar í bílana. Ég skrapp uppeftir en hafði ekki tíma til að hlaupa hvorki frá eða til.

Sá fyrir helgina að félag Viðskipta- og hagfræðinga birti niðurstöður úr kjarakönnun sme gerð var meðal félagsmanna í vetur. Þar kom fram að launamunur kynjanna í þessari stétt er einhver 6- 7% sem er enginn munur sem teljandi er og er innan skekkjumarka. Þetta er allt önnur niðurstaða en rektorinn á Bifröst fjallaði um fyrir skömmu og fór mikinn í því sambandi. Því hringir enginn blaðamaður í hann og spyr hann um þann mun sem er á þeirri könnun sem gerð var uppi á Bifröst og könnun FVH. Er þetta svona að menn geta dælt einhverju bulli í fjölmiðla og svo þarf enginn að standa fyrir neinu, þannski vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið.

Ég heyrði aðra frétt fyrir helgina sem vakti athygli mína. Þá skýrði Stöð 2 frá mikilli óánægju blaðbera hjá Íslandspósti, þunginn væri mikill og launin lág. Það var síðan rætt við einn blaðbera sem skýrði frá því að pósturinn sem þau eiga að bera út væri stundum allt að 110 kíló á dag. Hann þarf að flokka og bera út á 9 tíma vinnudegi. Ég hringdi upp á Stöð 2 og talaði við fréttamanninn og sagði að enda þótt það væri töluvert verk að flokka og bera 110 kíló út á einum degi þá fyndist mér það ekkert vera neitt mikið fyrir fullorðna manneskju þegar 13 ára börnum væri ætlað að bera allt að 60 kíló út af Fréttablaðinu með tilbehör á einum klukkutíma á morgnana hvernig sem veður væri. Það kom svolítið á hann en svo sagðist hann ekki hafa tíma til að fjalla um þetta núna en sagði að annar fréttamaður myndi hringja í mig. Það hefur ekki gerst enn og ég á ekki von á að það gerist. Þess ber að geta að það eru sömu eigendur að Stöð 2, Fréttablaðinu og Pósthúsinu ehf sem er að fara í samkeppni við Íslandspóst. Það er mjög praktiskt að nota fjölmiðlana sína til að sverta samkeppnisaðilann eða þannig.

mánudagur, júní 06, 2005

Hljóp ekkert í dag vegna rigningar en annars hefði ég farið á Esjuna. Ég ætla að taka svona 60 til 70 km á næstu tveimur vikum þannig að ég er mjög afslappaður. Nú fer ég að byrja að lesa markvisst frásagnir af WS100 og glöggva mig á brautinni, öðrum aðstæðum og líkamlegum viðbrögðum hlauparanna þannig að ég sé búinn að skapa mér þokkalega mynd af henni í huganum, skipuleggja það sem ég hef með mér og hvar það verður o.s.frv. Ég sé að í fyrra þurfti einn að hoppa yfir 8 feta skröltorm sem var síður en svo dauður. Hlauparinn var hins vegar hræddur um það um tíma að liggja dauður eftir á stígnum.

Snjórapport kom í dag á vefnum. Snjórinn hefur minnkað gríðarlega síðustu tvær vikur og er kominn niður undir meðaltal en þó ekki alveg.

María og vinkonur hennar í Víking spiluðu fyrsta leik í íslandsmótinu við HK í dag og unnu góðan sigur, 2 - 0.

sunnudagur, júní 05, 2005

Kom að vestan í kvöld. Keyrði vestur á föstudagskvöldið með mági, tengdapabba og bróðursyni. Tjölduðum heima í góðu veðri um miðnættið og sváfum vel til morguns. Hófumst þá handa að rífa úr húsinu heima og spændum allt út, bæði veggi og gólf. Verkið gekk vel og vorum við búnir undir kvöld. Við gáfum öllum EES reglugerðum langt nef og brenndum allt draslið niðri í tóft. Það gekk vel og tók fljótt af. Ósköp var húsið eithvað innantómt þegar búið var að tæma innvolsið úr því en það verður að hugga sig við að tími endurreisnarinnar er hafinn. Ekki hefur verið búið í húsinu í 10 ár og var það farið að setja mark sitt á það.

Við grilluðuðum lambalæri í kvöldmat og borðuðum úti í blíðu, sólskini og rjómalogni. Um kvöldið fórum við í bæjarráp og hittum fólk. Renndum yfir á Patreksfjörð á sunnudagsmorguninn og hittum meira fólk og tókum olíu. Fengum svartfuglsegg og hveitikökur að borða hjá frændfólki mínu sem var sporðrennt með nokkrum góðum sögum og frásögnum. Á Patró var þriðji í sjómannadegi en þar er sjómannadagurinn haldinn þríheilagur. Síðan var rennt suður að aflokinni góðri ferð.

Nú verð ég að fara að undirbúa ýmsa praktiska hluti fyrir ferðina vestur af alvöru. Það er í mörg horn að líta til að ekkert vanti eða gleymist þegar á hólminn er komið. Það verður spennandi að sjá hvernig snjórinn bráðnar þar á morgun eða hinn.

föstudagur, júní 03, 2005

Útskrift í Réttarholtsskóla í kvöld. Jói var að klára grunnskólann ásamt jafnöldrum sínum mörgum. Það var fullt af fólki mætt á staðinn og góð stemming hjá krökkunum. Alltaf gott að klára svona áfanga, ekki síst ef menn eru ánægðir með uppskeruna. Nú tekur hins vegar meiri alvara við.

Hugsaði dálítið í dag um það sem Halldór sagði okkur frá í gær. Í fyrra þegar hann var að æfa fyrir Del Passatore þá þurfti hann að hætta sökum álagsmeiðsla þegar brotnaði / sprakk bein í leggnum á honum. Hann kenndi það meðal annars röngu mataræði, ónógum teygjum og of hörðum skóm til viðbótar við mikið álag. Ég hef blessunarlega sloppið við slík álagsmeiðsli enda hef ég t.d. reynt að borða skynsamlega í vetur sem og fyrri ár. Ég held að mataræðið sé ákveðinn lykill að árangri með öðru, ekki síst ef álagið er mikið. Ég fæ mér alltaf lýsi á fastandi maga þegar ég fer á fætur áður en blaðaútburðurinn hefst. Honum lýkur reyndar á morgun en það er annað mál. Síðan hef ég borðað í nokkur ár mikið af skyri, lítið hrærðu og algerlega ósætu í morgunmat. Þetta þykir vafalaust sumum vera algert steypuverk en mér fellur þessi morgunmatur vel. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að byrja daginn með kaffi og lifa síðan á því fram á hádegi. Ég hef ekki drukkið gos nema nokkra sopa á ári í nær 25 ár, drekk ekki kaffi og borða því sem næst aldrei hvítan sykur nema í kökum. Þetta er vafalaust bara sérviska en ég hef þá trú að ef eitthvað er þá sé þetta betra en ekki.

Haraldur Júl hitti svíann Larsson um daginn sem meðal annars hefur hlaupið yfir Bandaríkin þver og róið yfir Atlandshafið!!! auk margs annars. Haraldur spurði hann um góð ráð fyrir félaga sína sem væru að legga langt land undir fót. Ahnn sagðist hafa þrjú ráð fyrir þá. Það væru stafirnir E A T. Málið væri að borða nógu mikið og oft og ekkert gel eða léttmeti heldur almennilegan mat. Þetta kemur heim og saman við þá reynslu sem ég hef og hef ímyndað mér. Þetta verður erfiðisvinna í heilan sólarhring eða meir og til að standa uppréttur út þann tíma þarf maðurt að borða hraustlega allann tímann til að bensíntankurinn tæmist aldrei.

Fór inn á veðurspávef fyrir Squaw Valley og Auburn í dag. Þar er spáð 25 - 29 stiga hita og heiðskýru út vikuna. Ef það verður ekki verra en þetta þá ætti maður að lifa það af en það er óvissu háð eins og svo margt annað.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Ekkert hlaupið í gær. Fann að hvíldin var vel þegin, ég var orðinn dálítið þreyttur eftir álag síðasta hálfa mánuðar. Geri ekki ráð fyrir að hlaupa neitt fyrr en eftir helgi sökum anna. Fer vestur á firði á föstudaginn og kem ekki fyrr en á sunnudagskvöld. Eftir það verður Esjan tekin nokkrum sinnum í léttum gír.

Félagsfundur í UMFR36 í gærkvöldi í Borgartúninu. Halldór fór yfir 100 km hlaupið í Odense. Sérhvert hlaup er hlaupið og sérhverju hlaupi fylgir ákveðin reynsla. Það er alltaf fróðlegt að fá innsýn í upplifunina og reynsluna af svona löngum hlaupum því reynsla hvers og eins er einstök út af yfir sig. Halldór rúllaði létt í gegnum hlaupið og eftirköstin eru sáralítil.

Við horfðum síðan á myndina A Race For The Soul sem er frá WS100 2001. Það er gaman að fá innsýn í þá upplifun sem hlaupið gefur þátttakendum, sumir vinna sigra en aðrir verða fyrir vonbrigðum. Það er alltaf jafn átakanlegt að horfa á konuna sem kemur í mark 52 sekúndum yfir 30 klst og missir þar með af því að fá beltissylgjuna. Hvar skyldi hún hafa slórað of lengi á leiðinni?

miðvikudagur, júní 01, 2005

Hljóp ekkert í dag, enda hefur það ekkert upp á sig að var að fara í eitthvað stutt núna. Best að hvíla og fara síðan góða túra á Esjuna næstu tvær vikurnar. Ég er að spekúlera í hvernig ég geti notað tímann til að venja mig við hitann síðustu vikurnar og er með hugmyndir.

Fór í Kastljós í kvöld. Hef ekki séð þáttinn en vona að þetta hafi komið sæmilega út. Það er svolítið skrítin tilfinning að finna að það sem mér finnst normalt finnst öðrum ónormalt. Sigmar skokkar nokkuð og hefur því tilfinningu fyurir því sem hann er að tala um. Hann boðaði mig aftur í þáttinn þegar ég kem heim (ef ég lýk hlaupinu n.b.). Nú er ekkert undankomufæri.

Aðalfundur hjá Víking í kvöld. Komst ekki fyrr en hann var að klárast. Hann var tíðindalaus og heldur góður andi á honum.

Fréttablaðið hefur verið með fréttaskýringu um sölu ríkisbankanna undanfarna daga. Það er nú ekki mikið bitastætt í því en lesningin er fróðleg. Stjórnarandstaðan er þegar farin að tala um opinbera rannsókn og allann þann pakka. Maður hugsar um það í þessu samhengi hvílíkur ógnarkraftur var leystur úr læðingi þegar þeir komust í hendurnar á fólki sem hafði kunnáttu til að reka þá. KB banki er orðinn 10 stærsti banki á Norðurlöndum. Hver hafði heyrt talað um LÍ og BÍ fyrir tíu árum síðan fyrir utan landssteinana. Svo eru þeir er sem finna að öllu farnir að tala um að ríkið hafi tapað mörgum milljörðum á sölu bankanna, miðað við verð þeirra í dag. Ekki vantaði svartsýnisspárnar um að svo og svo margir myndu missa vinnuna við að útibúum út um allt land yrði lokað við sölu ríkisbankanna. Það er svona þegar menn sjá ekki upp úr skókassanum, þá eiga menn erfitt með að ímynda hvað utan hans er. Það væri fróðlegt að fá yfirlit um það hve margir fleiri vinna hjá bönkunum í dag heldur en þegar þeir voru ríkisfyrirtæki og hve meðallaunin eru hærri.

Avion Group keypti Eimskip í dag, bara si svona. Þeir eru búnir að setja saman gríðarlega öflugt flutningafyrirtæki til lofts og sjávar. Hún hefur rentað sig vel, bjórverksmiðjan sem flutt var til Rússlands. Fyrir einum og hálfum áratug var Eimskip kjarninn í valdapíramída ráðandi afla á Íslandi. Nú er fyritækið selt eins og hver annar brjóstsykurspoki. Hvort skyldi nú vera verra það sem var eða það sem er? Ég er ekki í vafa.