fimmtudagur, júlí 31, 2008

Lýsispottir í Ófeigsfirði

Það var ótrúlegur dagur í gær. Hitinn bara hækkaði og hækkaði og þetta virtist engan enda taka. Ég fór út að hlaupa síðdegis og tók 20 km hring vestur á Eiðistorg. Í Nauthólsvíkinni var þvílík mannmergð að það var líkast því sem gerist á Spánarströnd. "Við skulum vera hér, þá getum við fundið hvert annað mamma" heyrði ég lítinn strák segja þegar ég skokkaði hjá. Á hitamælinum við undirgöngin í Elliðaárdalnum stóð mælirinn í 27 gráðum. Maður treystir honum þegar hann sýnir 10 stiga frost svo hann hlýtur einnig að vera nokkuð réttur við þessar aðstæður. Við fossinn í Elliðaárdalnum voru á annað hundruð krakkar að sulla í ánni. Einstakt.

Endir dagsins var því miður ekki eins og óskað var því Víkingur tapaði fyrir Haukum í Víkinni eftir að hafa komist yfir á 9. mínútu. Góðu fréttirnar út fótboltanum hjá Víkingum eru hins vegar þær að Marina hin serbneska er komin aftur til landsins og spilar með HK/Víking í lokaleikjum fallbaráttunnar. Frábært en hún þurfti að yfirgefa landið um daginn út af einhverju rugli í kerfinu.

Það voru tvö viðtöl í fjölmiðlum í gær sem hafa vakið athygli. Ég horfði á viðtalið við borgarstjóra í Kastljósinu og maður getur vart ímyndað sér að nokkur stjórnmálamaður fái álíka meðferð og brogarstjóri. Spyrillinn gerði allt sem hann gat til að trufla hann og slá hann út af laginu með þráspurningum sem nálgaðist að vera stagl, síendurtekin framíköll sem gáfu viðmælenda engan möguleika á að svara spurningunum og öðrum álíka trakteringum. Mér er sem ég sæi aðra stjórnmálamenn fá álíka trakteringar að maður tali nú ekki um Seðlabankastjóra.

Efnislega liggur meginefni þess sem rætt var um mjög skýrt fyrir í sveitarstjórnarlögum. Kjörnum sveitarstjórnarmönnum er hvenær sem er heimilt að skipta út fulltrúum sem þeir hafa skipað í nefndir. Ef trúnaður er ekki milli nefndarmanna og sveitarstjórnarmanna þá víkur nefndarmaður. Það er eðlilegur hlutur. Slíkt hefur gerst oft og á eftir að gerast oft.

Síðan gerðist það að formaður Framsóknarflokksins gekk úr frá Sverri Stormsker. Nú hélt ég að þeir sem mæta í viðtal hjá Sverri vissu við hverju er að búast. Sverrir stundar ekki hefðbundna samræðulist. Þeir sem ekki geta spilað á sama nótnaborð og Sverrir eiga ekki að mæta í svona viðtöl. Verst af öllu er að ganga út úr miðju viðtali.

Séð yfir Geirlaugarskriður

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Ég keyrði vestur á Rauðasand á föstudaginn. Var kominn heim um hálfellefu um kvöldið. Það var ekki til setunnar boðið því ýmislegt var á döfinni. Ég setti dótið sem ég var með inn í húsið og gerði mig kláran og lagði af stað gangandi á miðnætti. Ferðinni var heitið yfir Sandsheiði sem er gamla gönguleiðin milli Rauðasands og Barðastrandar. Ég hafði einu sinni gengið þessa leið áður en það var í janúar 1967. Þá var ég í skóla í Stykkishólmi og fór gangandi með pabba inn á Strönd til að ná í Flóabátinn. Það spáði vætu þegar leið á nóttina svo ég vildi vera kominn inneftir áður en færi að dropa. Leiðin er vörðuð og auðveld yfirferðar enda þótt dálítið væri farið að skyggja yfir hánóttina. Sandsheiði er 15 km milli bæja og hækkun upp í um 500 metra hæð. Ég var kominn inn að Holti á Barðaströnd eftir 3 klukkutíma og þá var farið að rigna. Ég breiddi því úr Bivac pokanum við vegkantinn, skellti svefnpokanum inn í hann, skreið ofan í og breiddi yfir haus. Það var dálítið skrítin en fín tilfinning að liggja þarna í poka og heyra í rigningunni úti fyrir. Ég var kominn á fætur upp úr kl. átta og þá var farið að létta til. Ég gekk síðustu kílómetrana út að Siglunesi og beið þar eftir rútunni með gönguhópnum sme ætlaði að ganga frá Siglunesi að Melanesi. Þá er gengið um Sigluness- og Skorarhlíðar sem þykja bæði torfærar og illskeyttar. Ég hafði aldrei gengið um Siglunesshlíðar en var þokkalega vel kunnugur Skorarhlíðum.
Veðrið var eins og best var á kosið, sólskin og hlýtt. Alls lögðu ellefu manns af stað, einn eldri maður uppalinn á Rauðasandi ætlaði aðeins að fara hluta leiðarinnar og snúa svo við. Eyjólfur frá Lambavatni var fararstjóri. Hann er einn örfárra sem þekkir þessa leið alla mjög vel. Rauðsendingar þekktu Skorarhlíðar og Barðstrendingar þekktu Sigluneshlíðar. Einungis tveir menn þekktu Hlíðarnar allar hér áður. Það voru Bragi á Melanesi og Gummi á Siglunesi, nú báðir látnir. Af núlifandi mönnum þekkja Ástþór á Melanesi og Eyvi á Lambavatni Hliðarnar öllum betur. Athylgi vakti við upphaf ferðar að einn mætti þarna illa búinn til fótanna og ætlaði að ganga fyrir Hlíðarnar á venjulegum götuskóm. Hann lét fortölur og varnaðarorð sér í léttu rúmi liggja og svaraði köpuryrðum þegar látið var að því liggja að honum ætti eftir að reynast gangan erfið. Fyrstu tveir kílómetrarnir eru gengnir eftir grónum bökkum en síðan verður að príla upp í hlíðina og síðan er gengið næstu tuttugu kílómetrana í snarbröttum hlíðum og grófu fjörugrjóti. Eftir um tveggja klukkutíma göngu þá sneri sá við sem það ætlaði að gera. Lagt var að götuskóamanninum að snúa einnig við en hann tók slíkum uppástungum ekki vel. Haldið var áfram prílinu út Hlíðarnar. Eftir töluverða stund stoppaði meginhópurinn töluverða stund eða í góðan hálftíma en ég hafði gengið nokkuð á undan með öðrum manni og biðum við eftir þeim þegar við sáum að þeir héldu ekki áfram. Þegar þeir komu um síðir þá sögðu þeir ekki sínar farir sléttar. Götuskóamaðurinn hafði fengið aðkenningu af hjartatruflunum og treysti sér ekki lengra. Það varð því að ráði að hringt var í umsjónarmann björgunarbátsins í björgunarsveitinni Bræðrabandið til að sækja kallinn þar sem veður var gott og hægt að lenda víðast hvar. Ef báturinn hefði ekki getað lent hefði þurft að kalla til þyrlu. Þarna hefði sem sagt getað komið upp stóralvarleg staða með mann í hjartakasti inn á miðjum Siglunesshlíðum þar sem er varla til lófastór láréttur blettur. Hvað á að gera í svona tilfellum þegar menn æða af stað, hlusta ekki á eitt eða neitt og allir vita nema viðkomandi að þeir séu ófærir um að komast gönguna á enda? Staða fararstjóra er ekki auðveld í slíkum tilfellum.
Báturinn kom innan tíðar, tók kallinn og kom honum undir læknishendur á Patreksfirði. Við héldum svo áfram, príluðum út hlíðarnar, niður þræðing ofan í fjöruna, fikruðum okkur fyrir sleipa og þaragróna Stálhleinina sem kemur upp úr á fjöru en er annars ófær. Við skoðuðum surtarbrandsnámuna í Stálvíkinni og hittum síðan gamlan kunningja á Völlunum þar litlu utar sem var þar í gönguferð í góða veðrinu. Unnið var að námurekstri í Stálvíkinni á árunum 1915 - 1917. Það getur enginn áttað sig á þeim aðstæðum sem unnið var þarna við nema að koma á staðinn. Alls voru þarna um 50 manns og unnið var á vöktum. Sagt var að gufuvélin sem knúði borinn hefði fengið bestu kolin, ráðskonan þau næstbestu og það lélegasta var flutt á markað og selt enda fór fyrirtækið á hausinn. Úr Stálvíkinni var gengið út Skorarhlíðar en þar eru hinar illræmdu Geirlaugarskriður. Sagan segir að Geirlaug, húsfreyja í Skor, hafi hrapað þar niður fyrir kletta þegar hún fylgdist með manni sínum sem gat ekki lent í Skor og reyndi að róa inn með Hlíðunum. Skriðurnar eru taldar hættulegar sökum þess að kindagatan liggur svo nálægt klettabrúninni og síðan er nokkurra tuga metra flug í fjöru. Skriðurnar eru svo brattar að sagt var að maður gæti stutt hendi við hlíðina þegar maður stæði í götunni. Heldur er það orðum aukið en sama er, manni líður alltaf heldur betur þegar þær eru að baki. Áður en komið var út í Skor var sigið niður úr hjallaþroti en þar hafði verið komið fyrir kaðli. Það er ný upplifun fyrir marga að síga í vað. Við komum við í Skor og héldun síðan út skriðurnar út að Sjöundá. Þar fór Gísli Már alfræðingur yfir harmsöguna sem gerðist þar árið 1802 og margir þekkja úr Svartfugli Gunnars Gunnarssonar. Það er talið að Bjarni frá Sjöundá hafi farið leiðina sem við höfðum að baki þegar hann strauk úr varðhaldi frá sýslumanninum í Haga á Barðaströnd og hélt út á Rauðasand. Við komum svo að Melanesi um miðnætti eða eftir þrettán klukkutíma göngu. Þar var náð í göngufólkið á bíl en ég hélt áfram, gekk heim og lokaði þannig hringnum. Ég var kominn heim um kl. eitt eftir miðnætti. Þá voru liðnir 25 tímar frá því ég lagði upp kvöldið áður. Þetta var mjög fínn sólarhringur og mögnuð upplifun. Ég held að ég geti fullyrt það að gangan fyrir Hlíðarnar er erfiðasta dagleið sem ég hef farið í svona gönguferðum og hún er ekki fyrir nema fullharnað göngufólk. Það er erfitt að ganga klukkutímum saman í bröttum hlíðum í eggjagrjóti. Lofthrætt fólk ætti heldur ekki að hætta sér í þessa göngu því það reynir nokkru sinnum á hæfileikann að geta haldið lofthræðslunni frá sér þegar sér fram af háum hömrum. Einnig þarf fólk að vera vel hraust svo ekki komi til þess að þurfi að bjarga fólki á miðri leið sem gefst upp einhverra hluta vegna. Það getur verið mjög erfitt og skapað ómælda erfiðleika. Þessi gönguleið stendur hinsvegar undir nafni sem Áskorunin.

Ég vann í húsinu heima fram undir miðnætti á sunnudaginn. Á mánudaginn gekk ég inn að Sjöundá og í Skor með hóp af fólki sem ég hafði sammælst við. Sumum fannst fullhart að fara hlíðina inn að Skor enda þótt vönum mönnum finnist það vera eins og stofugólfið heima hjá sér. Ég fór svo út á Látrabjarg og niður í Keflavík á þriðjudaginn í hreint óskaplega góðu veðri. Þar dundaði ég mér við að taka myndir fram eftir degi en hélt svo á stað suður. Bíllinn bilaði í Patreksfirðinum en ég var svo heppinn að Borgar á Skeri var heima. Hann dró mig út á Patró og hjálpaði mér við að gera við eftir að við fundum hvað var að. Gat hafði komið á olíuleiðsluna sem flytur olíuna úr tanknum inn á vélina og dró því vélin loft inn jöfnum höndum sem olíu. Borgar var snöggur að bjarga málunum svo ég gat haldið af stað. Það var þvílík heppni að bíllinn gaf sig við túnfótinn á Skeri en ekki úti í Keflavík eða á Klettshálsi þar sem tugir kílómetra eru til næstu manna. Svona er maður stundum heppinn.

föstudagur, júlí 25, 2008

Óðinshani að snudda eftir mat

Ég sá á einhverjum fréttavefnum í dag tilvísun í myndband á Youtube. Það var tekið á Kvíabryggju og sýndi að sögn tvo dæmda glæpamenn vera að æfa lyftingar í góðviðri úti á túni, með orkudrykk og alles. Annar glæpamaðurinn, sem ætlaði að jafnhatta einhver ósköp og birti afrekið á Youtupe, er nauðgari og morðingi sem var dæmdur í 16 ára fangelsi. Hann hefur verið í aðhaldi (það er varla hægt að kalla svona skátabúðir eins og eru á Kvíabryggju fangelsi) í fjögur ár. Hann getur sótt um náðun eftir átta ár. Hinn glæpamaðurinn var tekinn fyrir að flytja til landsins kókaín í kílóavís. Slíkt magn hefði lagt líf ótalinna aðila í rúst með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjölskyldur viðkomandi. Mér finnst með ólíkindum að svona lagað skuli viðgangast. Í fyrsta lagi að dæmdir ofbeldismenn, nauðgarar og morðingjar, skuli fá að bryðja járnin eins og þá lystir. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig þeir verða þegar þeir sleppa út enda þótt það sé alltof snemma eftir þeim vinnureglum sem viðgangast. Ég las einhvern tíma fréttir af því að í Danmörku voru sett takmörk á því hvað dæmdir glæpamenn (ofbeldismenn) gætu æft sig á þungum járnum. Það á ekki að breyta fangelsum í gym fyrir menn sem funkera ekki í venjulegum samfélögum. Í öðru lagi er það með ólíkindum að dæmdir glæpamenn geti verið að dunda sér við að taka myndir af sjálfum við allra handa iðkan og sett þær inn á netið s.s. Youtube. Hafa þeir ótakmarkaðan aðgang að netinu? Hvernig ætli aðstandendum fórnarlambanna líði þegar þeir sjá í hvaða skátabúðum glæpamennirnir eru og kallað er fangelsi? Það er vitaskuld alltaf spurning um hvernig fangelsi á að vera. Eiga fangarnir að vera í röndóttum fötum með kúlu við löppina eða eiga þeir að vera að leika sér og dútla við það sem þeim finnst skemmtilegt við hinar bestu aðstæður? Einhver hlýtur millivegurinn að vera en mér finnst að verstu glæpamenn landsins eigi að finna það að þeir eru dæmdir til refsingar en ekki til dvalar á hressingarheimili og líkamsræktarstöð með takmörkuðu ferðafrelsi. Skítt með smákrimmana en mér finnst að það gildi annað um alvöru glæpamenn.

Ég var nokkra daga í Canada í september árið 2000. Maður las þarlend blöð eins og gengur. Meðal annars man ég eftir að það voru birtar myndir af þekktu glæpakvendi sem hafði m.a. drepið systur sína á viðurstyggilegan hátt. Í fangelsinu var mjög afslappað andrúmsloft samkvæmt myndunum. Það varð allt vitlaust í samfélaginu þegar það varð lýðum ljóst að verstu glæpamenn samfélagsins lifðu í vellystingum og skemmtilegheitum í því sem kallað var fangelsi, enda þótt ferðafrelsi þeirra væri heft. Mér finnst að það sé þörf á sambærilegri umræðu hérlendis enda þótt maður búist ekki við miklu af hérlendum fjölmiðlum. Hvað er fangelsi? Hvað er refsing? Hver er krafa viðkomandi fórnarlamba og fjölskyldna þeirra til útfærslu samfélagsins á því sem kallað er dómur og refsing?

Tók rúma 20 km í dag. Það var hvasst aðra leiðina en ég var ánægður með hvernig mér miðaði á móti vindinum. Fer vestur á morgun. Það verður eitthvað gert þar vestra.

fimmtudagur, júlí 24, 2008

Sunnlenskur hestur í rólegheitum

Ég las athyglisverða frásögn eftir Jón Kristjánsson fiskifræðing í böðunum í morgun. Hann hafði verið á ferðalagi um Austurland og Norðurland. Eins og menn gera gjarna þá renna áhugasamir niður að höfn þegar farið er um landið. Í litlu þorpunum var hafnarsvæðið því sem næst dautt. Trillurnar sem glæddu þær lífi hér áður eru að mestu horfnar. Þær sem eftir eru eru kvótalausar og eru að bíða eftir næsta kvótaári. Á allri strandlegjunni frá Breiðdalsvík til Húsavíkur er smábátaútgerð orðin afskaplega takmörkuð og ekki svipur hjá sjón frá þvís em áður var. Eitt af stóru mistökunum í fiskveiðistjórnunni átti dsér stað þegar sóknarreynslu smábáta var breytt í kvóta og leyft að selja hann til stóru útgerðanna. Það skal enginn segja mér að framtíð þorskstofnsins byggist upp á því að veiðar á grunnslóð verði lítil sem engin. Hvað sem menn segja um nýsköpun í atvinnulífinu, möguleika í ferðaþjónustu o.s.frv. o.s.frv. þá eru fiskveiðar sá grunnur sem tilvera þessara þorpa byggist á. Án þeirra munu þau tréna og visna upp með tímanum. Það er ekki flóknara. Það eru tveir mælikvarðar sem segja mest til um hvert stefnir hjá einstökum byggðarlögum. Í fyrsta lagi hver íbúaþróunin hefur veerið á liðnum áratug eða svo. Í öðru lagi hvað börnin sem eru í leikskóla og grunnskóla eru hátt hlutfall af íbúafjöldanum. Þau byggðarlög sem liggja töluvert undir landsmeðaltali hvað þetta varðar eru komin á hættustig. Á einstaka stað liggur ljóst fyrir að niðurtalningin er hafin. Sá ferill tekur svona 20 ár. Það segir sagan okkur sé tekið mið af þeim þéttbýlisstöðum sem hafa gengið í genum þetta ferli.

"Paul Ramses fer í sturtu þrisvar á dag." Hvaða fréttamat er þetta? Hvar er fréttastjórnunin á þeim fjölmiðlum sem telja þetta vera frétt? Ég fer stundum í sturtu þrisvar á dag. Það gerist þegar ég hef farið út að hlaupa þrisvar á dag. Ég hef hins vegar ekki talið það fréttnæmt að fara í sturtu.

Það er skemmtileg frásögn eftir Pál A. Pálsson inni á www.baendaferdir.is frá Tibetmaraþoninu sem Trausti sigraði um daginn. Þessi ferð hefur verið mikið ævintýri. Íslendingar hafa greinilega komið sterkir til leiks því þeir voru þrír í fyrstu fjórum sætunum. Elín Reed var síðan fjórða í kvennaflokki.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Sendlingur að sperra sig

Það er svakalegt að frétta af því að skuldatrygginggarálag Kaupþings og Glitnis er komið upp í 1000 punkta. Landsakinn er nokkru neðar með um 600 punkta álag. Það hátt álag þýðir ósköp einfaldlega að markaðurinn metur það svo að það sé mikil áhætta á að bankarnir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Skuldatryggingarálagið var einhversstaðar milli 50 og 80 punktar þegar allt lék í lyndi svo umskiptin eru mikil. Partur af þessu er að ríkið getur ekki baktryggt bankana sökum þess að þeir eru vaxnir ríkinu yfir höfuð. Það er dálítið svakaleg staða. Ofsagróði bankanna á liðnum árum var fyrst og fremst tilkominn vegna hækkana á hlutabréfaeign þeirra. Krosseignatengsl gerðu dæmið allt dálítið samansúrrað. Síðan lækkar allt galleríið í nokkrusskonar hringiðuferli þegar bre´fin fara að lækka. Síðan má ekki gleyma því að eihversstaðar hlýtur þess að sjá stað hvaðan þeir 67 milljarðar komu sem FL Group tapaði á síðasta ári. 67 milljarðar. Það er óskapleg fjárhæð. Annað eins rip off hefur ekki átt sér stað í íslensku viðskiptalífi og verður vonandi aldrei endurtekið. Það er fróðlegt að sjá myndbandið sem er á vef Egils á Eyjunni þegar það er rakið hvernig Sterling flugfélagið er keypt og selt af FL Group á síhækkandi verði. Það er ekki að sjá annað en að það sé markvisst verið að tappa fjármagni út úr félaginu og hluthafar látnir blæða. Hvað skyldu lífeyrissjóðirnir hafa tapað miklu á þessu dæmi?

Fjölmiðlar eru náttúrulega á hliðarlínunni í þessu sambandi. Hluti þeirra getur sig hevrgi hrært vegna þess hver á þá og aðrir virðast ekki hafa kapacitet í svona umræðu. Það er helst að maður geti bundið vonir við að Agnes Bragadóttir gengi í málið. Þaðe rtil dæmis merkilegt að rifja upp hvernig viðbrögðin voru þegar nær því öll stjórn FL Group sagði af sér sökum þess að hún var ósátt við vinnubrögð stjórnarformannsins. Ef eitthvað var þá hækkaði verð hlutabréfanna við þessar breytingar. Einhversstaðar hefði þótt ástæða til af fjölmiðlum að leggjast yfir svona mál og brjóta það til mergjar.

Tók 20 km í dag á góðu tempói. Eiðistorgshringurinn. Allt í fína.

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Brasað við bálköst í Ófeigsfirði

Svitaæfing í dag. Þetta hljómar ekki verulega spennandi og vissulega er sú æfing ekki beysin sem kemur ekki út á manni svitanum. Á hinn bóginn þarf maður að koma svitakerfinu almennilega af stað til að vera betur undirbúinn til að mæta miklum hita í Grikklandi í haust ef svo hittist á eins og í fyrra. Ég hljóp niður í Laugar með þykka peysu í bakpoka og tók 10 km á bretti, kappklæddur. Að því búnu hljóp ég heim. Þetta var mun erfiðara en að hlaupa léttklæddur en sama er, þar er partur af prógramminu. Þetta er fyrsta æfing af 10 álíka sem teknar verða á næstu 7 vikum. Fleiri séræfingar verða teknar í nokkru magni á næstu vikum til að herða sig upp fyrir Spartathlonþonið. Ekki mun af veita.

mánudagur, júlí 21, 2008

Skálinn í Hvítárnesi

Fór á Kjalveg á föstudaginn við þriðja mann. Keyrðum í Hvítárnes í sólfari en töluverðum vindi. Þar voru fyrir hollensk hjón í tjaldi en aðrir ekki. Ég hafði aldrei komið í Hvítárnes eða neitt út af veigi á Kjalvegi fyrr svo það var kominn tími á að skoða sig aðeins um. Við gistum þar um nóttina en keyrðum daginn eftir í Þverbrekknamúlaskála. Þar var heldur enginn fyrir utan hollensku hjónin sem voru á leiðinni til Hveravalla. Bækur Páls Ásgeirs, "Hálendisbókin" og "Bíll og Bakpoki" eru ómissandi í ferðum sem þessum. Einnig má nefna bók Ara Trausta, "Fjöll á Íslandi". Hrútfellið blasti við frá Þverbrekknamúlaskála og verður sigrað síðar enda þótt það hafi fengið að bíða í þetta sinn. Líklega er betra að hafa brodda, exi og línu með í slíka ferð. Við gengum hálfa leið til Þjófadala yfir múlana og snerum við við göngubrúna yfir Fúlukvísl og gengum austan megin til baka. Þennan dag var blíðan eins og hún getur best verið. Grill og rauðvín um kvöldið. Toppurinn. Á sunnudaginn fórum við fyrst inn að Beinahól. Við ókum langleiðina en gengum seinnihlutann. Slóðinn er grófur og engin ástæða til að hrista bílinn í sundur þegar báðir fætur eru jafnlangir. Saga Reynisstaðabræðra og þeirra hinna sem voru með í för er alltaf jafn sláandi. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig það er að vera í sjálfheldu í brjáluðu veðri inni í miðju Kjalhrauni í nóvember með fjárflokk og komast hvorki frá eða til. Aðkoman hefur verið óskapleg árið eftir. Minnisvarði var reistur á Beinahól árið 1971 til að minna á söguna og halda nöfnum þeirra á lofti sem fórust þarna.
Frá Beinahól héldum við til Hveravalla og þaðan í Þjófadali. Við ókum inn að Þröskuld og gengum niður í sæluhúsið og fengum okkur bita. Okkur sýndist fyrst að þar reikuðu tugir hvítabjarna um vellina en sáum síðan að þarna voru sunnlenskir sauðir á ferð. Þessi missýn er eðlileg því dilkar í Þjófadölum eru eins og meðal vetrungar á stærð eða svo segir sagan. Við fórum svo til Hveravalla, tókum myndir og enduðum svo með smá laugarferð. Reyndur fararstjóri í hópnum sagðist aldrei hafa farið í fötum í laugina svo hann var látinn vera á bakkanum. Maður vissi ekki alveg hvernig ítalskar senjórítur sem voru fjölmennar í lauginni hefðu tekið slíku eða réttara sagt fylgisveinar þeirra. Planið var að gista í Kerlingarfjöllum og láta sjá til með veðrið. Þar voru öll gistipláss full svo við ókum heimleiðis og mættum rigningunni á leiðinni. Fín helgi utan hvað vegurinn yfir Kjöl er hryllilegur. Víða er þvottabrettið svo svakalegt að maður þurfti að keyra í fyrsta gír svo maður hristi ekki allt í sundur. Ég held að ég hafi aldrei keyrt Kjalveg verri en nú.

Ég sá að það er tilvalin hlaupaleið að hlaupa milli Hveravalla og Hvítárness. Hún er ca 35 - 40 km löng í grófri ágiskun. Leiðin er vel merkt og greinilegur slóði mestan part. Frá Hveravöllum yfir í Þjófadali er yfir tvo lága hálsa að fara og tveir lækir eru á leiðinni. Þessi leggur er um 11 km. Leiðin úr Þjófadal í Þverbrekknamúlaskála er flöt að göngubrúnni yfir Fúluhvísl en síðan taka við múlarnir sem eru þægilegir yfirferðar. Vatn er af skornum skammti á þessari leið. Leiðin úr Þverbrekknamúlaskála yfir göngubrúna á Fúlukvísl og suður með henni að austanverðu í Hvítárnes er þægileg en líklega vatnslítil. Það væri fínt að fara með rútu til Hveravalla að morgni. Þar væru hlauparar settir út og óskað góðrar ferðar. Engin drykkjarstöð á leiðinni því menn yrðu að bjarga sér sjálfir. Rútan myndi keyra í Hvítárnes með grillmat og annan viðurgjörning og taka á móti hlaupurum þar. Svo væri keyrt í bæinn. Þetta er til umhugsunar en það er með þetta eins og annað; "Það er bara að láta vaða."

föstudagur, júlí 18, 2008

Á toppi Snæfells sumarið 2003

Tíminn síðan á helgi hefur verið nýttur til annarra hluta en hlaupa. Svona gerist stundum. Góðu dagarnir voru notaðir til að klára að mála húsið sem tókst ekki í fyrra sumar. Í vor var farið í að múra eina hliðina sem hafði verið gert með handarbakinu þegar húsið var byggt fyrir sextán árum. Nú getur maður sem sagt verið sæmilega sáttur með stöðuna og farið að snúa sér að öðru.

Það var magnað hjá Benedikt Hjartarsyni að klára Ermarsundið. Þetta er eitt af þeim markmiðum sem sjósundsmenn horfa til sem hina endanlegu þrekraun, hið endanlega lokapróf. Ánægjulegt að íslendingar eigi nú sinn fulltrúa í þeim hópi sem hefur klárað sundið. Það sýnir mönnum að það er allt hægt. Athyglisvert að hann sagðist hafa verið að gefast upp á miðri leið en skipstjórinn rekið hann áfram og sá vissi greinilega hvað hann söng. Grænlendingar segja að þegar maður er búinn að vera svo lengi á leiðinni að maður hnígur niður vegna þreytu þá sé maður búinn að fara svona helming þeirrar leiðar sem maður getur áorkað.

Ég sá að gamall félagi minn og næstum því jafnaldri hljóp Laugaveginn á laugardaginn. Ég hafði gegnum árin ekki sett hann í samband við langhlaup enda hafa menn misjöfn áhugamál. Mér var hins vegar sagt í gær að fyrir ekki mörgum árum hefði uppgötvast í honum krabbamein sem var komið á það stig að það var allt að því orðið dagaspursmál hvort næðist að bjarga honum. Það tókst sem betur fer og nú hefur hann sömu lífslíkur eins og hann hafði áður en óvætturinn fór að gera um sig í honum. Við þessa reynslu og allt að því lífgjöf á ögurstundu hefur hann skipt um lífsstíl og forgangsröð á ýmsan hátt. Á helginni lá Laugavegurinn á góðum tíma. Glæsilegt.

Seinna í dag verður haldið inn á hálendið í nokkra daga því veðurútlit er heldur gott fram yfir helgi. Gönguferðir, fjallaskálar, tjaldvist og snudd um ókunnar slóðir í góðra félaga hóp. Það er tilhlökkunarefni.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Daníel buslar í Atlandshafinu í Ófeigsfirði

Það var áhrifamikið að hlusta á konuna í kastljósi í gærkvöldi sem sagði frá eineltinu sem sonur hennar varð fyrir í barnaskóla. Það hafði slík áhrif á hann að hann komst aldrei frá því. Saga hans endaði síðan þannig að hann stytti sér aldur, 21 árs gamall. Hann er fæddur mitt á milli strákanna minna þannig að það er ekki erfitt að sjá sjálfan sig í sporum hennar. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig henni hefur liðið að standa fyrir utan skólalóðina og sjá strákangann utanveltu í skólasamfélaginu sem honum hafði hlakkað svo mikið til að taka þátt í. Þetta er ekki eina dæmið sem ég veit um að ungt fólk hefur stytt sér aldur og ástæða þess er meðal annars rakin til óþverralegs eineltis í skólagöngu þeirra. Foreldrar eru skyldugir til að senda börn sín í grunnskóla. Skólaskylda er hugsuð með jákvæðum formerkjum þannig að það fái öll börn að njóta menntunar. Hjá flestum þeirra er skólagangan ánægjulegur tími. En hjá einhevrjum hluta þeirra er hann hreint helvíti sem þau hafa sáralitla eða enga möguleika að losna út úr. Í stærri byggðarlögum er alltaf möguleiki að flytja barn á milli skóla ef aðstæður verða óviðráðanlegar en víða í þeim smærri er það ekki hægt.

Börn geta verið mjög grimm í garð annarra krakka. Oft er það gert í hugsunarleysi eða vegna þess að þeim líður illa sjálfum og fá útrás fyrir vanlíðanina með því að níðast á öðrum krökkum. Ég hef reynslu af því að það er hægt að bæta slíkt ástand verulega með markvissum aðgerðum kunnáttufólks. Öllum líður betur á eftir, bæði gerendum og þolendum.

Hitt er svo miklu verra þegar fullorðið fólk sem á að bera ábyrgð á börnunum, sem eru skyldug að mæta í skólann um 10 ára skeið hvort sem þau vilja eða vilja ekki, eru beinir eða óbeinir þátttakendur í eineltinu. Slíka hluti er aldrei hægt að fyrirgefa. Það getur gerst á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er afneitunaráráttan alltaf fyrir hendi. "Það er ekkert einelti í mínum skóla" Málið er afgreitt. Ég þekki til foreldra sem sögðu að það væri komið fram við sig eins og fólk sem ekkert vit hefði á einu eða neinu (lesist hálfvita) þegar það kvartaði yfir einelti innan grunnskólans. Það kemur að því að fólk gefst upp þegar aldrei er hlustað á umkvartanir þeirra. Barnið sem verður fyrir einelti er síðan orðinn sökudólgurinn vegna þess að það springur vegna sífellds áreitis, sem ber ekki alltaf mikið á. Síðan þekkir maður til tilvika þar sem kennarar leggja ákveðna nemendur í einelti. Maður hefur heyrt sögur úr skólum um að það hafi komið fyrir að það hafi liðið yfir nemendur þegar ákveðinn kennari tók þá upp að töflu. Vitaskuld eru þetta undantekningartilvik en þau eru til engu að síður.

Eineltisumræðan er sífelld og tekur aldrei enda. Opinská umræða verður vonandi til þess að færri einstaklingar komi brotnir út úr grunnskólanum.

Ég slæddist á diskamarkað í Laugardalshöllinni um leið og ég sótti töskuna mina til ÍTR á sunnudaginn. Þar keypti ég m.a. DVD mynd sem heitir Promise me this eftir Emil Kusturica. Kusturica hefur meðal annars gert myndina "Svartur köttur, hvítur köttur" sem var sýnd hér fyrir nokkrum árum og einhverja aðra sem fjallaði um stríðsrekstur í Balkanlöndunum og ég man ekki hvað heitir. Þessi gerist í Serbíu. Hún brást ekki vonum mínum. Ég veit ekki hvort allir hafa gaman af svona húmor en mér finnst frábært að sjá svona myndir eftir að vera kominn með upp í kok af hinum svokölluðu gamanmyndum sem framleiddar eru í Hollywood.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Árspræna fyrir austan Áltavatn

Það er gaman að lesa frásagnir af Laugaveginum. Upplifun hvers og eins er sérstök og sjónarhornin mismunandi. Alltaf má eitthvað læra af reynslu annarra. Gísli aðalritari hefur tekið saman linka á nokkrar frásagnir en maður saknar þess að fá ekki fleiri. Þær leynast kannski einhversstaðar en bara hvar. Ég fann það á sjálfum mér að ég hafði ekki sinnt Esjunni nógu vel í vor þegar kom að því að fara upp brekkur. Það vissi ég fyrirfram svo það kom ekki á óvart. Annað var í þokkalegu lagi.

Það kemur mér ekki á óvart að það ruglist einhver á leiðinni fram hjá Hvanngili og eins á söndunum. Það má t.d. lesa um það í frásögn Evu. Það gengur náttúrulega ekki að hlauparar sem eru í harðri keppni um sæti og geta ekki elt aðra skuli ekki hafa leiðina á hreinu. Menn eiga að skoða leiðina og merkingar með augum þess sem ekkert þekkir. Það er alltaf talað um Emstrur en svo stendur Botnar sumstaðar á skiltum!! Á söndunum bendir ekkert til þess að maður eigi að fara út af veginum og beygja til vinstri. Svava sagði mér að björgunarsveitin ætti að merkja þetta en þeir sinna því bara ekki. Einnig er leiðin frá Jökultungunum ekki á hreinu niður að Álftavatni ekki rakin fyrir ókunnugan fyrr en sést í húsin. Það eru svona fíniseringar sem þarf að bæta því það væri leiðinlegt ef hlaupið færi í rugl hjá einhverjum ókunnugum sem væri kominn langa vegu að vegna þess að merkingar væru ónógar. Erlendir hlauparar skrifa líka frásagnir og þær eru lesnar af öðrum áhugasömum hlaupurum. Svoleiðis hefur hróður Laugavegarins fyrst og fremst breiðst út.

Annars var mjög vel staðið að öllu því sem ég sá og upplifði. Auðvitað er lengi hægt að bæta eitthvað og ég veit að starfsfólk hlaupsins hefur fyllsta metnað til að gera gott hlaup enn betra. Ég held að aukinn fjöldi hafi ekki valdið neinum erfiðleikum. Þetta er bara stærra í sniðum og þarf að taka mið af því. Að lokum vil ég minna á að það á að láta þá Eið og Þórð hlaupa í sérstökum heiðursbolum sem mætti klæða þá í fyrir startið í Landmannalaugum. Þeir hafa hlaupið öll Laugavegshlaupin. Stundum hafa þeir verið misjafnlega á sig komnir en alltaf látið slag standa til að missa ekki úr hlaup. Svona mönnum á að sýna smá virðingu.

Fjölmiðlar gerðu hlaupinu afskaplega misjöfn skil. Mogginn gerði það svo sem ágætlega með góðum viðtölum við Daníel og Evu en það pirrar mig alltaf jafn mikið að frásagnir af langhlaupum skuli ekki vera skilgreindar sem íþróttafréttir hjá fjölmiðlamönnum heldur flokkaðar sem venjulegar fréttir. Ég veit ekki hvað þarf til að koma. Margir íþróttafréttamenn eru svo sjálfhverfir að þeir flokka einungis það sem íþróttir sem þeir hafa áhuga á sjálfir. Ultrahlauparar flokkast líklega undir "einkennilegt fólk" í þeirra huga. Ég man t.d. eftir því að Atli Rúnar fréttamaður sagði mér eitt sinn frá því hve erfitt það hefði verið að fá áheyrn fyrir því innan Ríkisútvarpsins hér upp úr 1980 að það væri fréttaefni sem gerðist úti á landsbyggðinni og sérstaklega ef það var landbúnaðartengt. Atli Rúnar er Svarfdælingur í húð og hár og hafði annað fréttaauga en kollegar hans upprunnir á malbikinu. Þeir gáfu djöfulinn í að það gætu verið neitt að frétta úr einhverjum afdölum á landsbyggðinni. Fréttirnar gerðust þar sem fólkið væri (les: þeir sjálfir). Smám saman náði Atli Rúnar að vinna sínum sjónarmiðum fylgi og varð einn allra öflugasti fréttamaður ríkisútvarpsins fyrr og síðar. Ég held að þetta sé svipað með ultrahlaupin. Í huga margra er þetta ekki íþrótt heldur eitthvað allt annað. Líklega næsti bær við masocisma. Fréttablaðið minntist einungis örlítið á hlaupið. Ríkissjónvarpið vissi greinilega ekki að það væri til nema þeir hafi verið önnum kafnir við að vinna samantekt um afrek íslendinga í strandblaki. Það er líklegt.

P.S. Ég sá ekki fyrr en rétt áðan að ríkissjónvarpið var náttúrulega upptekið við að gera mesta íþróttaafreki íslandssögunnar til þessa verðskulduð skil. Strandblakið varð því að bíða að sinni.

sunnudagur, júlí 13, 2008

Sveitin "Pétur og Betri helmingarnir" mætt til leiks

Ég svaf lítið áður en lagt var í´ann á laugardagsmorguninn. Ég datt því útaf næstum því um leið og rútan var komin af stað og steinsvaf næstum því alla leið upp í Hraunbúðir. Þá var ég orðinn fínn. Borðaði fiskibollur og drakk djús. Það var þurrt í Landmannalaugum en samt sem áður leist mér ekki meir en svo á veðrið. Spáin var ekki góð svo það avr betra að vera vel klæddur. Ég fór því í síðbuxur, t shirt og hafði vindjakka með til öryggis. Næringin skyldi vera Herbalife. Ég sturtaði í mig hálfum líter áður en lagt var af stað og hafði flösku í hendinni sem ég ætlaði að drekka við Álftavatn. Ég var frekar þungur þegar lagt var af stað upp brekkurnar í áttina að Hrafntinnuskeri. Vikan hafði verið venjuleg æfingavika en ég hvíldi þó á föstudaginn. Mér var svo sem nokkuð á sama því þetta átti ekki að vera neitt sprengihlaup. Ég held að það hafi verið liðinn einn og hálfur tími þar til skálinn í Hrafntinnuskeri birtist í þokunni. Ég stoppaði ekkert því ég þurfti nær því ekkert að drekka. Það var frekar kalt og maður svitnaði ekkert. Það fóru margir fram úr mér upp brekkurnar en enginn eftir það, það ég best man. Manni finnst örstutt úr Hrafntinnuskeri þar til Álftavatn birtist. Því miður naut útsýnið sín ekki sem skyldi vegna þokuslæðings. Fram að þessu hafði verið þurrt en nú sá maður regnskúrirnar með fjöllunum hvert sem litið var. Niður með ánni fyrir ofan skálann féllu fyrstu droparnir. Ég stoppaði ekkert við Álftavatn, fór bara í rennuna og hélt svo áfram. Þarna var farið að rigna. Ég sturtaði í mig próteindrykknum og rúllaði áfram. Ég held að ég hafi verið ca klukkutíma og tíu mínútur að Álftavatni. Mér leið vel og hljóp á hraða sem mér fannst mjög þægilegur. Hvanngil birtist fyrr en varði. Þá náði Eiður mér. Hann var mjög léttstígur enda búinn að æfa vel í ár. Hann var ræstur 10 mínútur á eftir mér þannig að hann hafði verið þeim tíma fljótari á leiðinni. Okkar leiðir skyldi við Bláfjallakvíslina en þar ætlaði hann að skipta um skó. Ég hef aldrei veitt mér þann munað enda ekki þurft á því að halda. Sandarnir voru fínir í vætunni og ég týndi upp einn eftir annan á þeim. Það var góð drykkjarstöð á söndunum sem minnti mig á manninn sem stóð þar með tóma tveggja lítra kók þegar við Svanur fórum saman Laugaveginn hér um árið. Þá var allt vatn búið og erfiðleikarnir hrönnuðust upp.
Ég var klukkutíma og 55 mínútur í Emstruskálann og sá að með því að halda vel áfram þá gæti ég náð því að klára hlaupið á 6.30 eins og ég var búinn að segjast ætla að gera, þrátt fyrir hangsið á leiðinni upp í Hrafntinnusker. Þegar gilin voru búin og maður sér niður Fauskatorfurnar sá ég að þetta gat allt gengið upp. Ég náði einum og einum á liðinni niður eftir og allt rúllaði eins og best var á kosið. Sigmundur Ironkappi og konan hans voru með drykki við Kápuna. Það var fínt að skella í sig kókglasi áður en lagt var í hana. Það voru engin vandamál við að stika yfir hana og ég rifjaði upp þegar lappirnar læstust fastar í sinadrætti hér um árið þegar ég tók fyrsta skrefið upp í hana og þar sat ég fastur þar til mér hugkvæmdist að fara að mjaka mér upp aftur á bak.
Ég náði Huld við Þröngána og við kláruðum hlaupið saman með það að markmiði að fara undir 6.30. Það er nauðsynlegt að setja sér smá markmið. Það er alltaf jafnskemmtilegt að ljúka ánægjulegu hlaupi. Þetta hlaup var mitt besta Laugavegshlaup til þessa því að það var ekkert sem kom upp á, engin eymsli í fótum, maginn fínn og allt eins og það átti að sér að vera. Það voru margir komnir í mark á góðum tímum og það var gaman að taka þátt í stemmingunni sem er alltaf skemmtileg í hlaupalok. Framkvæmdin var til fyrirmyndar enda eins gott að standa sig fyrir mótsaðila þegar svo mikil fjölgun varð í hlaupinu. Þetta var nokkursskonar fullnaðarpróf sem þau stóðust með prýði.

En það var ekki til setunnar boðið. Það hafði verið að gerjast með mér sú hugsun síðan í vetur að láta ekki við svo búið standa að klára Laugaveginn heldur að gera úr þessu almennilegan dag, halda áfram og fara Fimmvörðuhálsinn. Ég hafði engum sagt frá þessum vangaveltum fyrr en heima hjá mér kvöldið áður. Ég var því með annan algalla og gönguskó í töskunni og hófst handa um að skipta um föt í snatri. Veðurspáin var ekki góð og ég vissi að Fimmvörðuhálsinn getur verið veðravíti. Þetta var því kannski ekkert voðalega skynsamlegt svona beint ofan í Laugaveginn en þar sem ég var í fínu standi þá ákvað ég að láta slag standa. Þetta var líka ákveðin andleg upphersla að fara úr veislunni í Húsadalnum og halda streðinu áfram. Ég lét vita af mér og var farinn af stað 50 mínútum eftir að ég kom í mark. Maður gengur til baka nokkurn spöl þar til maður kemur að afleggjaranum yfir í Langadal. Á leiðinni mætti ég nokkrum hlaupurum sem ég hafði ekki haft við á leiðinni niður að Álftavatni!! Ég hitti Geir frænda á leiðinni þar sem hann stóð og beið eftir vinkonu sinni. Við spjölluðum saman smá stund en svo pjakkaði ég áfram. Ég spurðist til vegar í Langadalnum en ég rataði ekkert þegar komið var þarna megin í Þórsmörkina því ég hafði aldrei komið á þessar slóðir áður. Það tók mig rúmlega einn og hálfan tíma að ganga yfir í Strákagil þar sem uppgangan á Fimmvörðuhalsinn hefst. Ég fékk mér að borða áður en ég lagði á brattann. Það er nokkuð pjakk þarna upp eins og allir vita sem hafa farið um þessar slóðir. Ég hitti fólk á leiðinni sem sagði að veðrið á hálsinum væri leiðinlegt. Ég hélt áfram og hitti annan hóp. fararstjórinn sagði að það væri skítaveður á hálsinum, allt að 25 m. á sekúndu. Ég sá að honum leist ekkert á að ég væri að fara þarna upp einn míns liðs en sagði að ég gæti þá alltaf snúið við ef ég lenti í erfiðleikum. Ég lofaði því. Mér fannst hins vegar rétt að prófa því hópurinn sem hann var með var á þeim aldri að mér fannst ekki rétt að snúa frá að óreyndu. Eftir því sem ofar dró sá ég að það hafði ekki verið neitt orðum aukið um veðrið hjá fararstjóranum og líklega hafði það versnað síðan þau fóru um. Veðurofsann og rigninguna skóf fram af klettunum í háa hvolfinu. Þegar ég kom þar upp á sléttuna var rokið beint í fangið og þá var ekki hratt yfir farið. Þegar ég kom að Heljarkambinum (eins og ég kann að nefna hann) settist ég niður í hlé við klett, fór í regnfötin sem ég keypti í 66 oN í fyrra áður en var farið á unglingalands UMFÍ. Nú komu þau í góðar þarfir. Lambhúshettuna dró ég á hausinn og setti upp ullarvetlinga áður en ég lagði af stað. Veðurhamurinn var mikill á kambinum. Ég fór yfir hann nær því á fjórum fótum til að vera undir strengnum sem stóð upp úr hvolfinu sunnan megin frá. Svo klöngraðist ég upp hjallann eftir því sem vindurinn leyfði. Þar fyrir ofan tók síðan við annar hjalli með allmörgum vörðum. Nú snerist ferðalagið um að komast á milli varða. Á stundum tommaði maður ekki á móti rokinu og mátti hafa gát á að það svipti manni ekki á hliðina. Það var tæplega mannstætt veður í verstu kviðunum. Þegar ég var kominn nokkuð upp í hlíðina settist ég niður við stein og hugsaði ráð mitt. Átti ég að snúa við eða halda áfram? Ég var vel klæddur, mér var hlýtt og óhrakinn og alveg óþreyttur. Ég hafði með mér þrjár flöskur með Herbalife próteindrykk og þær dugðu vel. Ef ég hefði ekki verið með regngallann með hefði ég verið snúinn frá því þá hefði ég verið orðinn gegndrepa og kaldur. Þetta var ekki þess virði að maður færi að taka neina áhættu í svona ferð. Vindkælingin er það hættulegasta við aðstæður eins og þessar. Maður stífnar og stirðnar fljótt ef manni fer að kólna. Þá missir maður fljótt kraft þannig að maður hefur ekki lengur vald á aðstæðum. Það voru þrjár til fjórar vörður upp á brúnina og ég vildi kíkja upp fyrir því mig grunaði að ég væri að komast upp úr hækkuninni og þar væri veðrið skaplegra. Ég brölti því upp og komst með herkjum upp á brúnina. Það var eins og mig grunaði. Ég var kominn upp og þar var vindstrengurinn miklu jafnari. Ég hélt því ótrauður áfram og vindinn lægði jafnt og þétt. Það var engin þoka á fjallinu þannig að leiðin var greið. Ég stoppaði smá stund við sæluhúsið og lét vita af mér. Það er rétt að gera það ef hægt er þegar maður er í svona ferðum einn síns liðs. Þarna var ég orðinn hálf lens með vatn. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en of seint að það er ekkert vatn að hafa á hálsinum. Ég náði tvisvar að láta renna í flösku í frárennsli úr skafli en annað var ekki að hafa. Það bjargaðist allt en sama er, þetta getur valdið manni vandræðum. Frá sæluhúsinu fylgdi ég vegslóðanum niður að Skógum. Nú var orðið logn og þurrt og hið fínasta veður. Leiðin niður var lengri en mig grunaði. Oft hélt maður að nú sæist ofan á byggðina en alltaf kom einn hjallaskrattinn til viðbótar en loks hafðist þetta. Það var fínt að komast í húsaskjól og geta farið í sturtu. Lítið matarkyns var að hafa í hótelinu en mér tókst þó að ná tveimur bjórum út úr verðinum. Þetta var orðinn nokkuð langur dagur en gangan yfir hálsinn tók tæpa fimm klst. Ég var engu að síður í fínu formi og fann hvergi fyrir þreytu eða strengjum í fótunum. Ég þakka það ekki síst Herbalife próteinhristingnum en ég hafði tekið með mér tvo og hálfan líter með mér til dagsins. Ég veit vel hvað það er að vera með lerkuð læri og orðinn hálf orkulaus eftir langa göngu. Nú var ekkert slíkt á ferðinni.
Ég tók rútuna um morguninn á Skógum í bæinn. Bílstjórinn hafði ekki alveg á hreinu hvað farið kostaði í bæinn. Hann sagðist vita það á Hvolsvelli og þar gæti ég borgað. "Þú hleypur nú ekki langt frá mér" sagði hann. Ég sagði að hann skyldi engu treysta í því sambandi.

Tryggvi á Mýri í Bárðardal spilar fyrir fjöldasöng í Ófeigsfirði. Hann varð sjötugur í gær.

föstudagur, júlí 11, 2008

Gerði eina lögun af Löbarlarssons energikakor i kvöld. Nú held ég að uppskriftin sé komin. Hún er svona: Kvartpeli af rjóma, sama magn af hrásykri svo og sírópi (má vera lífrænt). Best er að finna bolla sem tekur kvartpela af rjóma og setja í pott. Svo skal setja sama magn af sykrinum og sírópinu í pottinn. Til viðbótar er látin eins teskeið af salti. Suðan er látin koma upp og síðan er lögunin látin krauma yfir vægum hita í 20 mínútur. Nauðsynlegt er að hræra jafnt og þétt í pottinum svo ekki brenni við. Eftir 20 mín suðu eiga dropar að halda sér og mynda kúlur þegar þeir detta í kalt vatn. Þá er látin ein plata af 70% súkkulaði út í og hún látin leysast upp. Líka má setja slatta af söxuðum döðlum út í. Þegar súkkulaðið hefur leyst upp þá eru sjö bollar af Bónusmúslí látið út í og hrært vel á milli hvers bolla svo allt blandist vel saman. Síðan er lögunin mótuð í lengjur á smörpappír á plötu og þjöppuð vel saman. Látið kólna og sett síðan í frysti. Borðist þegar við á. Þessi lögun kostar svona 1.000 kall. Úr henni fékk ég um 30 góða bita.

Veðurspáin fyrir Laugaveginn er svona þokkaleg. Maður vonar alltaf það besta.

Marina í leik við Fylki

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Flottur árangur hjá Sigmundi frá Selfossi í Frankfurt Ironman þríþrautinni um síðustu helgi. Hann lauk keppni á 10 klst 47 mín sem gaf honum 7. sæti í sínum aldursflokki. Sigmundur er ári yngri en ég svo hann er svo sem ekkert unglamb lengur frekar en ýmsir aðrir!! Því má ekki gleyma að heilsan hjá Sigmundi var á tímabili ekki til að létta undir með honum þannig að árangur hans er enn meiri þegar það er haft í huga. Sigmundur er gríðarlegur keppnismaður og agaður í æfingum. Það skilar sér þegar á hólminn er komið. Það verður síðan gaman að sjá hvaða tímar líta dagsins ljós síðar í sumar þegar Steinn, Trausti, Elli og fleiri góðir menn koma í mark eftir að hafa lokið Ironman síðar í sumar. Þetta verður Ironman sumarið mikla.

Laugavegurinn á laugardaginn. Maður vonar fyrst og fremst að veðrið verði sæmilegt. Ég hef æft þokkalega að undanförnu en tek Laugaveginn fyrst og fremst sem langa æfingu. Það miðast allt við að vera í hámarksformi seinni hluta september. Því verður maður að halda aftur af sér með að æfa á fullu fyrir einstök hlaup eins og Laugaveginn heldur að fella þau inn í langtímaplanið. Laugavegurinn er alltaf skemmtilegur og aldrei eins. Þáttttakendafjöldinn í ár er magnaður, um 250 manns.

Maður er alveg pissed yfir fréttunum sem maður fékk í gær um að Marina fótboltakona í HK/Víking hefði ekki fengið framlengingu á 30 daga landvistarleyfi og var því rekin úr landi í morgun. Hún er búin að spila hér í tæpan mánuð en er þegar búin að stimpla sig inn sem ein allra besta fótboltakonan í deildinni. Vægi hennar fyrir HK/Víking var því mikið. Nú er ekkert við þvi að segja ef þetta væri eitthvað einstakt tilfelli í innflutningi leikmanna sem ekki hefði verið gert áður en það er nú eitthvað annað. Það spila einhverjir tugir eða jafnvel hátt í hundrað erlendir fótboltamenn í meistaraflokkum karla og kvenna hérlendis. Þeir koma frá Norður og Suður Ameríku, meginlandi Evrópu, Afríku og öðrum Norðurlandanna. Innan og utan Schengensvæðisins. Hjá meistaraflokki Breiðabliks í karlaflokki eru fimm erlendir leikmenn, hjá meistaraflokki Aftureldingar í kvennaflokki eru fjórir leikemnn frá Bandaríkjunum svo einhver dæmi séu nefnd. Leikmenn eru pantaðir frá Bandaríkjunum í körfuboltanum eins og dót úr IKEA lista. Maður hefur aldrei heyrt talað um einhver vandkvæði fyrir félögin að fá landvistarleyfi fyrir þessa leikmenn. Síðan kemur einhver skrattinn uppá í þessu tilfelli sem er óútskýranlegur. Ef forsvarsmenn HK/Víkings hafa staðið skakkt að einhverju leyti að umssóknarferlinu þá hvílir upplýsinga- og leiðbeiningaskylda á Útlendingastofnun eins og öðrum opinberum stofnunum. Það skal enginn segja mér að túristar geti ekki verið lengur á landinu en í 30 daga, jafnvel þótt þeir séu frá Serbíu.

Gamla húsið í Ófeigsfirði

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Lúkas, ísbirnir, hælisleitendur. Það eru ólíklegustu mál sem setja ákveðinn hluta þjóðarinnar í þannig gír að hann fer alveg úr límingunum. Það er kannski svo hér í fásinninu að menn þyrstir svo í að það gerist eitthvað hér eins og í útlandinu að minnstu tilefni eru gripin fegins hendi og allt ætlar um koll að keyra.

Hvað varðar málefni þessa manns frá Kenýu sem hafa verið mikið í umræðunni á liðnum dögum þá hefur ekki verið sýnt fram á á nokkurn hátt að til þess bærar stofnanir hafi staðið rangt að málum. Mönnum finnst bara að það hefði átt að gera hlutina öðruvísi eða eins og þeir vildu. Svo blandast aðrir vinklar inn í umræðuna og þeir sem telja sig geta veitt stjórnvöldum kárínur vegna þessa máls eru tindilfættir fram á sviðið.
Það vita allir sem vilja vita að vandamál vegna flóttamanna eru gríðarleg í Suður Evrópu. Menn tala um Spán, Ítalíu og Grikkland eins og einhver vond lönd í þessu samhengi. Landfærðilega liggja þau nálægt þeim löndum og heimshlutum sem flóttamenn koma gjarna frá. Þau hafa enga aðra valkosti en að vinna eftir ákveðnu regluverki í þessum efnum, jafnvel þótt okkur útnesjafólkinu finnist það vera harðneskjulegt og formfast.
Það er meginregla í þessum efnum að málefni flóttamanna skulu tekin fyrir í því landi sem hann kemur fyrst að. Vitaskuld verður að vinna eftir slíku regluverki. Það er t.d. þekkt aðferð að þeir sem vilja sækja um pólitíkst hæli sem flóttamenn sturta gjarna passanum sínum niður um klósettið í flugvélinni áður en lent er í fyrirheitna landinu. Hvað á að gera í slíkum tilfellum? Vitaskuld að senda viðkomandi einstakling til baka til þess lands sem hann kom frá. Þar er hægt að hafa upp á upprunalandi því þar var hann skráður inn í landið.
Það er önnur meginregla í þessu sambandi að menn ávinna sér engin réttindi með ólöglegri dvöl í landi. Yfirleitt er mönnum hent samtímis úr landi ef upp kemst að þeir hafi dvalið ólöglega í einhverju landi. Oft fylgir að mönnum er bönnuð endurkoma til þess sama lands um lengri eða skemmri tíma. Sama gildir þótt viðkomandi einstaklingur hafi alið barn á meðan á hinni ólöglegu dvöl stendur. Hann er ekki skráður í landið, hann er ekki til samkvæmt opinberum skrám sem þegn landsins og ávinnur sér þar af leiðandi engin réttindi með dvöl sinni þar.
Það er merkilegt að heyra löglærðan þingmann halda því fram að það skapi ekki fordæmisgildi ef farið er á svig við gildandi lög og reglur í svona málum. Það er nefnilega grundvallaratriði samkvæmt jafnræðisreglunni að allir séu jafnir gagnvart stjórnvaldi og ein ákvörðun stjórnvalds leiðir af sér fordæmi við önnur hliðstæð mál. Stjórnvald getur ekki verið að hringla út og suður eftir því hvernig vindarnir blása. Þá fyrst væru menn í vandræðum.

Ég heyrði viðtal við lögmann hælisleitandans í Kastljósi sjónvarpsins í fyrrakvöld. Það var dálítið merkilegt viðtal. Í fyrsta lagi svaraði lögmaðurinn fæstum af þeim spurningum sem hún var spurð að heldur flutti sína ákveðnu rullu án athugasemda. Frammistaða hins svokallaða fréttamanns var ekki beysin. Lögmaðurinn bar Grikklandi, Ítalíu og Spáni ekki falllega söguna í þessum efnum en lét þess náttúrulega ekki getið hver ástæðan var. Síðan sagði hún að Ísland ætti að taka við öllum þeim flóttamönnum sem líkur væru á að Ítalía, Spánn og Grikkland myndu vísa frá. Þessi fullyrðing gerir þennan lögmann algerlega ómarktækan í umræðunni. Hvað ætli það séu margir hælisleitendur sem Grikkland, Ítalía og Spánn vísa frá árlega? Án þess að ég hafi um það nægar heimildir til að geta fullyrt eitt eða neitt þá kæmi mér ekki á óvart að sú tala hlypi á nokkrum tugum eða hundruðum þúsunda hið minnsta. Ég held að það veitti ekki af því að rifja upp svona af og til hvað íslendingar eru margir, alla vega þegar umræðan er komin út í móa eins og í þessu tilviki.

Á þeim árum sem ég bjó í Svíþjóð voru þarlend stjórnvöld farnir að taka mjög hart á ólöglegri dvöl manna í landinu og vísuðu mönnum úr landi af fyllstu hörku ef þannig bar undir. Ég man eftir því að kirkjur voru brotnar upp þegar fólk hélt að það gæti varist því að vera sent úr landi með því að loka sig inni í kirkjum. Þeir sem vísað var úr landi voru oft sprautaðir niður svo þeir væru meðfærilegri á meðan á flutningnum stóð. Það voru engin vettlingatök notuð í "svenska folkhemmet" á þessum árum og hefur svo verið allar götur síðan. Ástæðan er einföld. Sóknin á að komast inn í norræna velferðarkerfið er gríðarlega mikil af fólki frá löndum þar sem aðstæður almennings eru miklu verri. Þessa ásókn verður að meðhöndla eftir ákveðnum formföstum reglum, annars fer allt úr böndunum. Allra síst á upphlaupsfólk að ráða ferðinni í svona málum.

Mágkona mín og dóttir hennar komu frá Kenýu á mánudagskvöldið eftir rúmlega tveggja vikna ánægjulega dvöl í landinu. Ég held að það sé afskaplega áhugavert að heimsækja Kenýa eins og svo mörg önnur lönd.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Fór norður í Ófeigsfjörð á Ströndum á föstudaginn. Ófeigsfjarðarættin hittist þar um helgina eins og venja er á 5 ára fresti. Við vorum seint fyrir því maría var að keppa í bikarkeppni FRÍ og Jói var að koma frá Spáni eftir góða ferð á Granollers mótið þar sem Víkingsstrákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu elsta aldursflokkinn sem svarar til 2. flokks.

Það var búið að spá afar vel um helgina en á Holtavörðuheiðinni fór þokan að aukast og var niðdimm norður Strandirnar. Við gistum á Hólmavík. Rúmið var svo slæmt svo ég fékk í bakið sem er mjög óvanalegt. Morguninn eftir var veðrið fínt og við keyrðum norður í Ófeigsfjörð í blíðuveðri. Fól gerðis ér ýmislegt til dundurs um daginn og eftir kvöldmat, sem var sameiginlegur hjá flestum, var kveikt í brennu og sungið fram eftir nóttu í blíðviðrinu.
Dagin eftir var þoka niður í tjaldtoppa en þurrt. Við fórum í laugina á Krossnesi og síðan í innkaupaferð til Gjögurs þar sem við keyptum reyktan rauðmaga og harðfisk af eldhressum karli 78 ára gömlum. Um kvöldið gengum við um gamla húsið sem var byggt 1914. Það er þriggja hæða svo það var byggt bæði af góðum efnum og stórhug. Á þessum tíma var Ófeigfjörður ein af bestu hlunnindajörðum landsins og ábúendur þar ríkt fólk. Búið er að taka húsið í gegn, klæða það að utan, skipta um glugga og setja miðstöð í það þannig að nú er það albúið að hýsa ættina þegar hún á leið norður. Það er ekki lítils virði að hafa innhlaup í hús á þessum stað.
Við keyrðum suður í þoku á mánudaginn og sólin tók á móti okkur á Holtavörðuheiðinni. Vegna stirðleika í bakinu varð minna úr hreyfingu en ætlað var en ég hljóp þó eftir slóðanum frá Ófeigsfirði yfir að Eyri í Ingólfsfirði og síðan yfir fjallið til baka í rjómablíðu á laugardaginn.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Kajakferð í Nauthólsvíkinni

Ég fékk skjölin frá Spartathlon í dag. Keppandi númer 87 skal það vera. Þar sem það þarf að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur til að komast inn í þetta mesta hlaup Evrópu og eitt af merkustu hlaupum í heiminum þá er maður aldrei viss fyrr en maður heldur á pappírunum í hendinni. Ég hafði þó aldrei sérstakar áhyggjur því árangurinn í Danmörku í lok maí opnar eiginlega allar dyr þar sem gerðar eru lágmarkskröfur um árangur í ultrahlaupum. Það að hafa brotið 200 km múrinn í 24 tíma hlaupinu setur mann í ákveðna stöðu hvað það varðar. Þetta verður spennandi. Mér sýnist að kröfur um lágmarkstíma á maraþonið og 80 km séu aðeins vægari en í fyrra. maður þarf að fara tiltölulega hratt fyrsta þriðjung hlaupsins miðað við hve hlaupið er langt. Það getur sagt til sín þegar á líðu því best er að fara rólega af stað til að hafa úthaldið í lagi þegar þyngir fyrir fæti. Nú er bara spurning um hitann. Það er eiginlega eina spurningin sem er ósvarað og það verður þannig þar til ca viku fyrir hlaup. Maður þarf bara að gera klárt fyrir það með áreynslu í sánu og miklum klæðnaði í innandyrahlaupum. Fer að skoða það í júlí og ágúst.

Ég borðaði á veitingastaðnum á 20. hæði í Turninum í kvöld. Ég var ekki hrifinn. Hljóðvisin er svo slæm að maður er kominn með hausverk af hávaða eftir svona tveggja tíma borðhald. Ég hef ekki verið á veitingastað þar sem bergmálar meir en þarna. Það er mjög hátt til lofts og það hefur vafalaust sín áhrif. Þegar stóll er dreginn eftir gólfi þá virkar það eins og þruma. Við borðfélagi minn vorum sammála um að þangað færum við ekki aftur ótilneyddir. Ég vil svo vera saddur þegar maður fer út eftir að hafa borgað 4.000 kall fyrir máltíðina.