föstudagur, apríl 28, 2006

Við Pétur Fransson fórum austur á Þingvöll í kvöld að keyra út birgðum fyrir morgundaginn. Við lögðum poka með vistum út á þremur stöðum. Líklega verður einhver væta á morgun en það er bara þannig. Menn taka því sem að höndum ber. Við verðum sex á morgun það ég best veit. Það verður fínn hópur og vonandi að allt gangi vel upp. Eftir hlaupið á morgun fer ég austur á Skeið og hitti þar gamla skólafélaga sem útskrifuðust samtímis mér frá Hvanneyri fyrir 35 árum. Það er ekkert smáræði hvað tíminn rúllar áfram.

Bestu sokkar sem ég hef notað

  Posted by Picasa
Fór á Esjuna í gær í afar góðu veðri. Þetta var fyrsti túrinn í ár. Nokkur snjór var efst í henni og skaflarnir kramir þannig að það var þyngra undir færi en venjulega en þetta lagast fljótt í hlýindunum sem skyndilega eru mætt. Hitti Ragnar Arnalds á niðurleiðinni sem er að búa sig undir gönguferðir sumarsins með Esjugöngum.

Nú verður í kvöld verður farið austur á Þingvöll með nesti fyrir hlaupið á morgun. Veðurspáin er vætusöm en það verður alla vega hlýtt. Gæti verið einhver vindur. Þetta kemur allt í ljós en ég hef heldur trú á að það dragi eitthvað úr úrkomunni þegar kemur inn í landið.

Fróðlegt að fylgjast með umræðu múhameðstrúarmanna á Norðurlöndum. Í Noregi eru þarlendir múhameðstrúarmenn í yngri kantinum æfir yfir því að mega ekki stunda fjölkvæmi eins og frændur þeirra í sínum heimalöndum. Þeir fullyrða að reglur spámannsins séu æðri norskum lögum og sækja kröfu sína fast. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessi umræða þróast en einhvern veginn rennir manni í grun að það fáist fram sem hart er eftir sótt.

Í Svþjóð er álíka umræða á kreiki enda þótt fjölkvæmið sé ekki nefnt sérstaklega. Samtök múslíma sem hefur 70.000 félagsmenn krefst þess samkvæt Aftonblaðinu í dag að sett verði sérstök lög fyrir múslíma í Svíþjóð sem verði ofar sænskum lögum. Krafan hljóðar meðal annars upp á að imanir skuli kenna muslimskum börnum í sérstökum múslímskum skólum og að hjónaskilnaður meðal múslíma verði að fá samþykki imans til að hann geti átt sér stað. Þeir eru einnig andsnúnir því að menn sem hafa verið dæmdir fyrir valdbeitingu og misþyrmingar innan fjölskyldunnar geti misst réttinn til að umgangast börn sín.

Þess ber að geta að samkvæmt Aftonblaðinu eru ekki öll múslímsk félög í Svíþjóð sammála þessum kröfum.

Það er hins vegar nauðsynlegt að átta sig á hvaða straumar og stefnur geta skotið upp kollinum í hinu nýja Eldorado, fjölmenningarsamfélaginu frábæra sem svo margir keppast um að lofa og prísa að því virðist án umhugsunar.

Setti inn mynd af Injinji sokkunum sem ég kynntist í USA í fyrra í gegnum Monicu Sholzh. Ég svipaðist eftir þeim á sýningunni í London en sá þá hvergi. Það fannst mér skrítið því þetta eru bestu sokkar sem ég hef notað á lengri hlaupum og hafa reynst mér afar vel. Ég hef ekki fengið blöðru eða eymsli á tær þrátt í löngum hlaupum eins og maður fékk gjarna hér áður. Ég keypti sokkana á netinu en slóðin er www.injinji.com. Flóknara er það ekki.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Nokkuð sáttur að loknu hlaupi

  Posted by Picasa
Ég las Evening Standard mánudaginn eftir London maraþon. Vitaskuld var sagt frá hlaupinu á íþróttasíðu blaðsins og myynd af sigurvegaranum. Hann kvartaði aðeins yfir því að brautin hefði verið hál í rigningunni og það hefði komið í veg fyrir að hann hefði sett heimsmet. En hann var ekki maður dagsins. Sá sem fékk stóru viðtölin var kona á fertugsaldri sem hafði misst framan af báðum fótum í sprenginunni í Kings Road þann 7. júlí í fyrra. Eftir að hafa lokið sjúkrahúsvist eftir slysið tók við löng endurhæfing sem fól meðal annars í sér að hún þurfti að læra að ganga á nýju gerfifótunum. Það tók langan tíma. Nú fór hún London maraþon á 5 klst og 15 mín!!! Hvað er svo verið að tala um að það sé afrek fyrir fólk sem er með báða fætur óskaddaða að þramma maraþon?

Í Evening Standard var síðan mikið af viðtölum við fólk sem var að hlaupa á tímanum frá 3.50 - 5.30. Venjulegt fólk sem hleypur sér til hressingar og ánægju. Blaðamenn hérlendis mættu taka breska kollega sína sér til fyrrmyndar í að sjá hvað er fréttaefni. Það eru ekki alltaf atvinnumennirnir sem skapa mestu fréttirnar, sem jafnvel þurfa bara að sitja á tréverkinu til að komast í fréttirnar eins og dæmin sýna í íslensku fréttamati.

Ég sé að það snjóar mikið í Sierra Nevada fjöllunum þessa dagana. Mikill var snjórinn í fyrra en hann er mun meiri í ár. Það verður erfitt. Alls eru 432 þátttakendur skráðir til leiks í WS í ár, þar af þrír norðurlandabúar, tveir norðmenn og einn svíi. Fyrsta norræna konan skráir sig til leiks en hún er norsk. Gaman verður að sjá hvernig þeim gengur.

Allan Hansen sá danski þurfti því miður að hætta á 18 legg í hlaupi sínu Danmark rundt vegna meiðsla í lærvöðva. Hann hafði fengið vont veður og mótvind flesta dagana sem gerði hlaupið mun erfiðara en ætlað var. Hann hefur síður en svo gefist upp og ætlar að láta á þetta reyna aftur.

Þingstaðahlaupið verður á laugardaginn. Það er 72 km langt. Ég veit um sex sem ætla að fara, Lapplandsfarana fjórir og svo við Halldór. Ef einhverjir fleiri vilja koma með þá verður lagt af stað frá Nesjavöllum kl. 9.00 á laugardagsmorgun. Nesti verður keyrt út á föstudagskvöldið.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Þátttakendur í Londonmaraþoni 2006

  Posted by Picasa
London maraþonið var á sunnudaginn. Flaug út seint á föstudaginn og kom mér heim á hótelið. Notaði tímann í lestinni meðal annars til að átta mig á neðanjarðarlestakerfinu en það er orðið giska langt síðan ég hef komið til London. Á laugardaginn var farið út til Excel þar sem gögn voru afhent. Í höllinni þar sem gögn og annað var afhent var meiriháttar vörusýning á allskonar íþróttafatnaði og öllu sem hugsast gat í samandi við hlaup. Fór meðal annars í hlaupagreiningu og þótti hæfur til ásetnings (eins og sagt var í sveitinni hér áður). Fæturnir þóttu bara nokkuð í lagi. Keypti slatta af fatnaði og skó því maður missir sig stundum í svona umhverfi þegar verðið er hagstætt. Þarna hitti ég Frímann frá ÍTR sem var að kynna Reykjavíkurmaraþon og Laugaveginn. Mjög gott framtak sem á örugglega eftir að skila sér. Fulltrúar fjölmargra landa voru að kynna sín hlaup þannig að samkeppnin er hörð. Um kvöldið fór hópurinn að borða pasta og með því.
Tók leigubíl niður á Ford Clifton hótel á sunnudagsmorguninn og var kominn þangað um 6.30 en rútan átti að leggja af stað kl. 7.00. Það var um þriggja kortera akstur út á svæðið þar sem rauði hluti hlaupsins átti að byrja en hlaupið hófst á þremur stöðum enda allt að 35.000 manns sem höfðu skráð sig. Það hafði verið rigning í veðurspánni þannig að við vorum svolítið áhyggjufull ef hann færi að hella úr sér en hitinn var góður eða um 15 stig. Veðrið reyndist síðan vera eins gott og hægt var að hugsa sér, skýjað, logn og örlítill úði af og til. Fjöldinn jókst smám saman og biðraðirnar við klósettin urðu lengri og lengri. Pissurennur höfðu einnig verið settar upp til að flýta afgreiðslunni. Þarna var til reiðu kaffi, te, vatn og orkudrykir meðan beðið var eftir startinu. Fötunum var svo skilað í þar til gerðum poku í merkta vörubíla.
Ég hafði ekki planað nein átök í hlaupinu. Þar sem ég hafði ekki stefnt að neinum sérstökum toppi í fyrir það þá ákvað ég að fara í gegnum það með ánægjuna í fyrirrúmi. Ég hafði aldri hlaupið svona borgarhlaup áður, Í Búdapest voru samtals um 4000 keppendur en hér nær 10 sinnum fleiri. Það tók svona mínútu að komast yfir marklínuna eftir að skotið reið af og þá var hægt að fara að skokka. Það tók svona tvo til þrjá kílómetra þangað til hægt var að fara að hlaupa nokkuð ótruflaður. Strax frá upphafi voru raðir áhorfenda þéttar meðfram hlaupaleiðinni beggja vegna sem kvöttu hlauparana með hrópum og hvatningarköllum. Þair sem voru með nafnið sitt framan á bolnum fengu persónulegar sendingar. Ég fór rólega og vildi bara sjá hvernig staðan væri, maður var eins upptekinn af því að fylgjast með áhorfendum, hljómsveitum og öðrum uppákomum sem settar höfðu verið upp meðfram brautinni. Kílómetrarnir liðu hjá einn af öðrum. Ég hitti íslenskan strák sem heitir Helgi sem sagðist ætla að hlaupa á ca 4 klst. Hann var skráður á nafni spánsks vinar síns sem forfallaðist þannig að hann kemst ekki í maraþonskrána nema hann láti vita af sér. Uppúr fimm km komu hinir hóparnir saman við okkar línu þannig að þá voru allir komnir á sömu braut. Áfram leið hlaupið og ánægjan fór sífellt vaxandi. Raðir áhorfenda urðu fjölmennari og stemmingin óx. Drykjarstöðvar voru á ca 3ja km fresti þannig að það var nóg af öllu. Ég sá að tímarnir voru ekkert sérstakir, rúmlega 50 mín á 10 km og 1.47 á hálfu. Það var bara eftir bókinni. Skyndilega birtist Tower Bridge og mikill manngrúi á báðar hendur. Það var mögnuð tilfinning að rúlla yfir brúna innan um allan þennan fjölda í gríðarlegri stemmingu. Þar stóð hópur íslendinga með fána og veifaði ákaflega. Frá brúnum var beygt til hægri og hlaupin ca 16 km löng leið fram og til baka og lá bakaleiðin samsíða fyrri leggnum. Þar voru fremstu konur komnar en þær höfðu verið ræstar kl. 9.00. Skömmu síðar birtist hópur svartra keppenda sem hljóp í lögreglufylgd. Þar voru atvinnumennirnir sem kepptu um sigurinn. Hlaupið leið áfram og varð sífellt skemmtilegra og skemmtilegra, sérstaklega vegna þess að manni leið svo vel á alla kanta. Ég fór að prófa muninn á því að halla sér áfram á móti því að hlaupa uppréttari. Það var ekki spurning hvað hraðinn eykst við að halla sér áfram án þess að áreynslan aukist. Sérstaklega er léttara að fara upp halla ef maður lætur þungann vinna með sér. Vanalega fer maður að erfiða þegar farið er að nálgast 30 km. Þá byrjar niðurtalningin og maður þarf að fara að einbeita sér og láta andlegan styrk bæta upp líkamlega þreytu. Nú bar ekki á slíku. Ég fór að hugsa um að það gæti kannski verið gaman að fá aðgöngumiða á Boston og þegar voru um 10 - 12 km eftir fór ég að auka hraðann og hlaupa af meiri alvöru. Það gerði hlaupið bara enn skemmtilegra því nú fór maður að fara fram úr fólki í stríðum straumum. Ég fann hvergi fyrir eymslum eða þunga í fótunum heldur rúllaði maður áfram í góðum jöfnum gír. Síðustu ca tvo kílómetrana tók ég svo á eins og ég gat og hljóp þá ca 4 mín tempói (sem var svipað og Sigurjón hljóp allt hlaupið á). Það er alltaf jafn gaman að hlaupa yfir marklínuna og svo var eins í þetta sinn. Tíminn varð um 3.30 sem var með því besta sem ég hafði búist við en það sem var extra "krydd på kakan" var hvað mér leið vel allan tímann og var sterkur og óþreyttur í markinu. Jón Haralds kom á hæla mér og fórum við að hitta þá sem komnir voru í mark. Þau voru nokkur komin sem höfðu hlaupið á fínum tímum. Sigurjón smeygði sér undir 2.50 og varð 14 í sínum aldursflokki sem er frábært afrek. Halli bætti sig úr 3.31. í 3.08 sem er einnig mjög flott. Ingibjörg lauk hlaupinu á 3.22 sem er glæsilegt. Þannig má áfram telja. Hlaupararnir söfnuðust saman undir íslenska fánanum og klæddumst og spjölluðum saman. Þangað komu líka áhorfendur og áhangendur sem höfðu lagt sinn skerf af mörkum. Fréttir bárust af afrekum í Hamborg þannig að í heildina varð þetta mjög góður dagur fyrir íslenska maraþonhlaupara. Frábæru hlaupi var lokið og frábærum degi tekið að halla svo það var eins gott að fara að koma sér heim. Ég hitti breskan strák í Metronum á leiðinni heim á hótel og spurði hann hvernig hlaupið hefði verið. "It was horrible" sagði hann. "After 25 km every step was in pain" Svona getur upplifunin verið mismunandi. Morguninn eftir sá ég í sjónvarpinu viðtöl við tvennt sem hafði verið flutt á spítala að hlaupi loknu. Þau höfðu lokið því á 5.30 og 5.55. Svona er þetta. Það er ekkert sjálfgefið í þessu.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Londonmaratonid var a sunnudaginn. Frabaer upplifun i alla stadi. Skrifa skyrslu um tad tegar heim verdur komid. Bretar kunna ad framkvaema svona vidburdi. Flyg heim i kvold.

föstudagur, apríl 21, 2006

Hópeflisæfing á Þingvöllum

  Posted by Picasa
Fór hring í hverfinu í morgun upp úr kl. 6.00. Síðasta æfing fyrir London. Flýg út seinnipartinn í dag. Þetta verður vafalaust gaman og upplifun af allt öðrum toga en ég hef verið með áður í hlaupasamhengi. Ég á ekki von á neinum sérstökum árangri enda ekki lagt upp með það.

Sá frásögn á netinu af Marathon des Sables, eyðimerkurhlaupinu í Líbýu. 40 km á 5 dögum í eyðimörk. Hitinn sveiflast frá 0 C upp í um 50 C. Sá sem kom fyrstur í mark hljóp sprettinn á rúmum 17 klst!!! en sá sem síðastur var kláraði dæmið á meir en 60 klst. Þátttakendur bera allan farangur með sér og fá t.d. aðeins úthlutað 10 lítrum af vatni á hverri leið. Linkurinn inn á frásögn Torbens Jensens, þáttakenda frá Danmörku, er hér:www.keeponmoving.dk/index.html

Frá með næstu mánaðamótum verður opið fyrir frjálst flæði fóks innan evrópska efnahagssvæðisins. Ríkistjórnin valdi þann kostinn að nýta sér ekki frestunarákvæði heldur galopnar allt frá og með næstu mánaðarmótum. Ég held að hún séu galin. Það er ekki vegna þess að þarna sé eitthvað verra fólk á ferðinni heldur verða stjórnvöld að vinna út frá fyrirliggjandi forsendum. Íslenska þjóðin er mjög fámenn. Mismunur á efnahagskerfi Íslands og austurevrópskra landa er mjög mikill. Í þessum 10 austur evrópsku löndum sem opnað er fyrir frjálst flæði fólks er mjög mikið atvinnuleysi, fátækt mikil og lífsbaráttan erfið. Vitaskuld reynir margt af þessu fólki að leita að nýjum möguleikum. Það er með fólk eins og vatnið, það leitar þangað sem fyrirstaðan er minnst. Við höfum byggt upp ákveðið velferðarkerfi hérlendis með sínum kostum og göllum. Ég held að kostirnir séu fleiri en gallarnir. Ef fjöldi fólks kemur til landsins og vill vinna fyrir miklu lægri laun og lakari kjör en menn hafa talið ásættanleg hingað til þá fara undirstöðurnar að bresta. Verkalýðsfélögin hafa enga möguleika til að konttrollera það að allstaðar sé spilað eftir reglunum.

Það þýðir ekki annað en að ræða þessa hluti út frá raunsæi og staðreyyndum en forðast skal að láta fjölmenningarliðið stjórna umræðunni algerlega. Þetta hefur vreið þannig að ef einhver er ekki sammála því þá er strax farið að hrópa rasisti og fasisti. Með því að láta þróun þessara mála verða bara einhvern vegin en ekki samkvæmt ákveðnu skipulagi er verið að hlaða í bálköst vandræða. Það gilda ekkert önnur lögmál hérlendis en í nálægum löndum. Til þess er reynslan að læra af henni.

Vorhlaup ÍR var hlaupið í gær. Ég sleppti því í þetta sinn því mér fannst ekki skynsamlegt að vera að taka á nokkrum dögum fyrir London. Skrítið fannst mér að heyra í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að það hefðu tveir unnið hlaupið, kona og karl. Að mínu viti er bara einn sigurvegari í hlaupinu, sá sem kemur fyrstur í mark, svo fremi að það komi ekki fleiri en einn í mark á nákvæmlega sama tíma. Síðan getur verið um að ræða sigurvegara í ýmsum flokkum svo sem í karlaflokki, kvennaflokki, unglingaflokki og barnaflokki og ýmsum aldursflokkum. Það er bara allt önnur Ella. Til hamingju með sigurinn Kári. Bryndís Ernstdóttir kom fyrst íslendinga í mark í maraþoni í RM í fyrra. Það var ekki flóknara.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Þingvellir síðasta vetrardag

  Posted by Picasa
Gleðilegt sumar.

Ekkert hlaupið í gær. Eftir hádegi fór starfsfólk sambandsins til Þingvalla í sambræðslu og árshátíðarferð.Fyrst var farið í leikja- og samhæfingarprógramm úti á bala þar sem hópnum var uppálagt að fara í gegnum dálítið leikja- og verkefnaprógramm þar sem rauði þráðurinn var samhæfing og að allir skiptu máli. Þetta var ágætt og gaman að þessu. Veðrið á Þingvöllum var ágætt, heldur milt og logn. Því næst var farið inn í kaffi og þa tók Jóhann Ingi sálfræðingur við og messaði yfir hópnum um ýmis gildi. Að því loknu var farið í gönguferð um Almannagjá undir leiðsögn Einars þjóðgarðsstarfsmanna sem sagði nokkrar skemmtilegar sögur á leiðinni. Að lokum var farið í betri fötin og sest að veisluborði og haldin árshátíð starfsmannafélagsins. Kvöldið leið hratt við spjall og skemmtan. Heim var haldið um miðnættið að afloknum ágætum degi á Þingvöllum.

Sé á vef Allans Hansen að hann er búinn að ljúka 17 leggjum eða um 2/5 af öllu prógramminu. Hann hefur verið að hlaupa maraþonlegginn á frá 4.11 og upp í um 5 klst. Hraðinn fer dálítið eftir veðri og mótvindi.

Góð umfjöllun um afrek Höskuldar í Fréttablaðinu í morgun. Guðrún Helga gerir þessu góð skil eins og Höskuldur á skilið. Eini gallinn við framsetninguna er að þetta á vitaskuld heima á íþróttasíðu blaðsins en ekki undir almennar fréttir. Ef það að klára Ironman er ekki íþróttaafrek þá veit ég ekki hvað er það. Vafalaust telur þetta þröngsýna lið sem skrifar íþróttafréttir að það sé meira umfjöllunarefni að segja frá því að einhver hafi ekki skorað eða einhver ekki verið í leikmannahópi einhvers liðsins en að segja frá svona afrekum.

Two Oceans hlaupið er búið. Tímarnir eru á hlaup.is. Til hamingju með góð afrek.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Grunsamlegur fugladauði í Húnaþingi árið 2003

  Posted by Picasa
Fór út í gærkvöldi í afar góðu og þægilegu veðri. Þetta er fyrsti dagurinn síðan í febrúar sem maður getur farið út að hlaupa án þess að vera kappklæddur. Kláraði 16 km í góðum gír. Nú er orðið svo bjart fram eftir að maður getur verið að langt fram eftir kvöldi í góðri birtu.

Heyrði í yfirdýralækni um páskana varðandi fuglaflensuna og var dálítið hugsi. Hann var að fjalla en einn ganginn hve nauðsynlegt væri fyrir okkur að byggja upp fullkomna greiningaraðstöðu þannig að hægt væri að greina dauða fugla á einum sólarhring en ekki á tveimur til þremur eins og gert er í dag þegar hræin eru send úr landi. Hann lýsti þessari rannsóknaaðstöðu sem forsendu þess að geta brugðist skjótt við og upprætt veikina ef hún greindist hér. Upprætt veikina!!! Hvað á maðurinn við? Ef villtur fugl finnst dauður úr fuglaflensu hérlendis hvernig er þá hægt að uppræta hana. Á að stilla Landsbjörgu upp á suðurströndina með Kalasnikoff hríðskotariffla og skjóta allt sem kemur fljúgandi af hafi. Ef veikin berst til landsins, sem hún hefur líklega gert nú þegar því fuglaflensan er ekki ný af nálinni, þá er ekki hægt að uppræta hana að mínu mati. Þeir fuglar drepast sem drepast á annað borð en hinir fljúga af landi brott síðla sumars. Mér finnst viðbúnaðaráætlun Bandaríkjamanna skynsamleg. Þeir gera ráð fyrir að ákveðinn fjöldi landsmanna deyi úr skæðri inflúensu en til að draga úr afleiðingum veikinnar þá skipuleggja þeir fjöldabólusetningar.

Elliðavatnssvanurinn reyndist síðan hafa dáið af náttúrulegum orsökum. Líka hrafnarnir tveir sem fundust dauðir um daginn svo og endurnar tvær sem ku hafa flogið á símalínu. Hvað ætli drepist margir fuglar hérlendis á hverju ári. Þeir skipta tugum þúsunda. Ef á að greina öll þau hræ sem menn finna þá verður ekki gert annað á meðan.

Það greindist fuglaflensa af þessum umrædda stofni í Danmörku og Svíþjóð fyrr í vetur. Maður heur ekki heyrt af gríðarlegum fugladauða í þeim löndum síðan þá eða á annað borð að fleiri fuglar hafi greinst sýktir þarlendis. Ef fuglar væru að strádrepast í Evrópulöndum vegna óþekktrar veiki þá skyldi ég deila áhyggjum mínum með yfirdýralækni en eins og umræðan er þá finnst mér eitthvað vera bogið við hana.

Enn ein könnunin fyrir sveitarstjórnarkosningar var birt í gærkvöldi þar sem Framsóknarflokkurinn fékk hraklega útkomu. Nú var það Akureyri. Áður höfðu verið birtar niðurstöður álíka kannana frá Akranesi og Árborg. Nú er hér ekki um niðurstöður kosninga að ræða heldur könnun á afstöðu kjósenda en sama er, þróunin virðist vera öll í sömu átt. Ef fer sem fram horfir og flokkurinn geldur afhroð í sveitarstjórnarkosningum í næsta mánuði þá er niðurstaðan mjög skýr. Afmunstra skal skipstjóra sem ekki aflar og fá annan fisknari í hans stað.

mánudagur, apríl 17, 2006

Hljóp ekkert í dag. Ætla að fara frekar rólega í vikunni eða þannig. Það er víst London maraþon um næstu helgi!!

Hlustaði á útvarpið í gær þegar ég fór Eiðistorgshringinn. Maður heyrir oft ýmislegt sem annars færi fram hjá manni þegar maðúr er svona einn með sjálfum sér. Nú var verið að tala um laun þeirra lægstlaunuðu eins og gjarna er gert þessa dagana. Ég heyrði til dæmis í dag haft eftir einum forystumanni þeirra að hækkun lægstu launa hefði engin áhrif á þróun verðbólgunnar. Einari Oddi þingmanni hefur veriðlegið á hálsi fyrir að tala raunsætt um þessi mál og hann verið úthrópaður fyrir skoðanir sínar í þessum efnum. En í gær var sem sagt verið að tala um þessi mál. Einn sem hringdi í Útvarp Sögu sagði að fólk með lægstu launin ætti að hafa 150 þúsund skattfrjæálst, þ.e. eftir skatta. Það þýðir svona cirka 225 þúsunh fyrir skatta. Nú er ég ekki að halda því fram að það fólk sem hafi 225 þús á mánuði sé svo sem ofsælt af launum sínum, hvað þá þeir sem lægri hafa launin. Það má hins vegar ekki gleyma því að þau laun sem greidd eru í þjóðfélaginu í dag eru umsamin laun í frjálsum kjarasamningum. Ef einhver er ósáttur við launin ætti sá hinn sami að beina óánægju sinni að forsvarsmönnum sínum innan verkalýðshreyfingarinnar. Segjum nú sem svo að það verði ákveðið að þeir sem jhafa lægstu launin skuli ekki hafa lægri laun en 225 þúsund fyrir skatt en áðúr hafi þeir haft svona 110 - 120 þúsund. Sem sagt 100% launahækkun. Hvað eiga þeir þá að segja sem höfðu 150, 180 eða 200 þúsund á mánuði. Ætli þeir væru kátir með það að þær stéttir sem voru langt fyrir neðan þær væru nú komnar upp fyrir þá í launum. Auðvitað ekki. Það yrði allt vitlaust á þessum bæjum. Fólk sem tæki laun eftir þessum flokkum myndi fara í skæruverkföll, setuverkföll og hóta uppsögnum. Allt eftir bókinni. Það myndi svo enda í því að þessar stéttir yrðu hækkaðar upp í svona 260 - 300 þúsund krónur. Hvað myndu þá þær stéttir segja sem hefðu verið hærri en 150 - 200 þúsund kræóna stéttirnar en væru nú orðnar lægri. Og svo framvegis og svo framvegis. Hvað myndi þessi þróun hafa í för með sér? Aukin útgjöld, verðminni krónur, aukin dýrtíð = minni kaupmáttur.

Lýðskrumið og vitleysan hefur verið svo yfirgengileg í kringum þessa umræðu um lægstu launin að undanförnu að það er með ólíkindum. Laun, launaþrep og launaflokkun verður alltaf ákveðin í frjálsum kjarasamningum ef eitthvað vit á að vera í þeim málum. Ef stjórnmálamenn fara að grípa inn í þessi mál þá er voðinn vís. Hvað sem menn segja þá er ekki hægt að taka sérstaklega á málum þeirra sem raðast hafa neðst í launum í einhverjum kjarasamningum og segja; "Nú hækkum við þá sem lægst hafa launin svo þeir séu ekki lengur lægstir." Þá verða einhverjir aðrir lægstir og svo koll af kolli.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Endurreisnartímabilið er hafið. Búið að rífa það sem rífa skal. Í gær og dag voru flísar lagðar og fúgað. Svo er bara að vona það besta og bíða eftir að innréttingin sýni sig.

Fór Eiðistorgshringinn í dag. Reyndi að hlaupa alla leiðina með framhallandi aðferðinni, sérstaklega í góðum mótvindi vestur á Eiðistorg. Vafalaust eru ekki allir á einu máli með þessa aðferðafræði frekar en aðrar en mér finnst hún vera léttari en að hlaupa uppréttari. Maður kemur niður á hælinn og rúllar síðan fram á tærnar í stað þess að koma niður á jarkann og spyrna sér áfram. Þegar best gekk fannst manni að maður væri að hlaupa inni í röri sem bara rúllaði áfram. Ég ætla að einbeita mér að þessu hlaupalagi áfram því ég held að það hafi ákveðna kosti. Ég er alveg sammála því sem Agga er að skrifa á vefnum sínum um kosti þess að ganga af og til. Í fyrravetur þegar ég æfði sem mest var ég mjög ófeiminn við að labba af og til á löngum æfingum. Það brýtur upp rútínuna og virkar sem nokkurskonar teygjur. Í maraþonhlaupum er t.d. gott að ganga í gegnum drykkjarstöðvarnar í stað þess að hlaupa í gegnum þær Í lengri hlaupum mæla Bandaríkjamenn með 5/1 aðferðinni. Hlaupa í fimm mínútur og ganga í eina. Ég minnist þess að góður hlaupari sem ég man ekki hvað heitir fór í 24 tíma hlaup og notaði þessa aðferðafræði frá byrjun. Fólk horfði á hann vorkunnaraugum þar sem hann gekk á brautinni rétt eftir start. "Bara strax farinn að ganga" Þessi hlaupari vann síðan hlaupið enda þótt hann væri ekki með fremstu mönnum framan af. Það getur margt gerst á langri leið.

föstudagur, apríl 14, 2006

Fór í Elliðaárdalinn í morgun og tók rafstöðvarbrekkuna fjórum sinnum í mótvindi. Fór svo hring á stígunum í dalnum og kom heim eftir 1.5 klst. Fínn morgun.

Verðbólgan fer vaxandi. Hún mælist nú 5.5% og er talið liklegt að hún fari upp í 8 - 9% síðar á árinu. Það hefði ekki þótt mikið einu sinni. Þeir sem eru undir 30 - 35 ára gamlir vita ekki hvað verðbólguþjóðfélag. Verðbólguþjoðfélag þar sem best var að eyða laununum áður en maður fékk þau því verðlag hækkaði um 25 - 40% á árinu. Hæst sló verðbólgan í undir 100% á árunum 1982 - 1983 í tíma einnar verstu ríkisstjórnar lýðveldisáranna, ríkisstjórnar Gunnars Thor. Verðbólga myndast þegar peningamagn í umferð eykst án þess að um aukningu á framleiðsluverðmæti þjóðarinnar sé að ræða. Peningarnir verða minna virði því innistæða er ekki fyrir hendi. Það er öðru nafni kallað seðlaprentun.

Á tímum Rómverja einhverjum hundruðum ára fyrir kristburð þróaðist veruleg verðbólga í Rómaríki. Peningar höfðu verið slegnir úr gulli og höfðu ákveðna stöðu eða kaupgetu gagnvart vörunni. Maður fékk ákeðið magn vöru fyrir einn pening. Til að auka kaupgetu fólksins þá fóru Rómbverjar að blanda ódýrum málmum í gullið til að fá fleiri peninga í umferð. Þá urðu peningarnir fljótlega verðminni því það var ekki eins mikið af gulli í þeim. Þá blönduðu rómverkjar meiri hroða saman við gullið og slógu enn fleiri peininga. Gengi peninganna féll enn frekar og verðgildi þeirra minnkaði. Þá var hlutfall hroðans aukið enn meir og svo koll af koli. Það endaði með því að það vildi enginn nota peningana og vöruskipti urðu ráðandi verslunarform. Það hafði í för með sér að verslun var seinvirkari, tímafrekari og ómarkvissari. Borgarsamfélagið veiktist og fólkið fór að flytja út í sveitirnar þar sem það gat brauðfætt sig því verslunin funkeraði ekki lengur. Þannig má segja að verðbólgan hafi verið einn af þeim þáttum sem gerði það að verkum að veldi Rómverja riðaði og féll að lokum á sínum tíma.

Manni hefur oft fundist að undanförnu að skilningur á því að verðbólga geti farið úr böndunum hafi verið sópað undir teppið af fullkomnu ábyrgðarleysi af ýmsum aðilum. Það er engu líkara að of margir hafi haldið að hér væri búið að þróast nokkursskonar Eldorado þar sem allir ættu að vera ríkir, ánægðir og glaðir. Ef einhverjar stéttir fundust sem höfðu lág laun miðað við aðra þá þráspurðu fréttamenn og óábyrgir stjórnmálamenn: "Á ekki að hækka launin?" "Það eiga allir að hafa mannsæmandi laun" Og hvað svo ef þjóðarframleiðslan hefur ekki aukist, heldur einungis aukinn hraðinn á prentvélinni? Það er ekki flókið.

Nú er veislan búin. Verðhækkanir, minni kaupmáttur, verðminni króna. Lögmálin láta ekki að sér hæða.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Allan Hansen Marathonman

  Posted by Picasa
Fór 16 km í gærkvöldi í fínu veðri og skemmtilegheitum. Er annars að dunda við að rífa innan úr eldhúsinu því nú skal það skverað upp og nýrri innréttingu stillt upp. Það hittist svo hraklega á að vegna þess að afendingartíma innréttingarinnar seinkaði þá skarast framkvæmdir eitthvað á við Londin maraþonið en þannig er þetta nú bara. Matthildur sendi út tölvupóst í gær með bæði praktiskum upplýsingum og óvæntum glaðningi svo sem móttöku í sendiráðið.

Raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en lygisögurnar. Fyrir nokkrum árum las ég um dana sem ætlaði að hlaupa 100 maraþon á einu ári, sem sagt tvö í hverri viku árið um kring. Þetta var líklega árið 2003. Einhverra hluta vegna hafði það borist yfir hafið að hann hefði látist í águst þetta ár og var það ekki talið ósennilegt vegna hins gríðarlega álags sem svona áskorun fól í sér. Þegar ég fór síðan til Borgundarhólms í ágúst 2004 í 100 km. hlaupið góða þá var þessi ágæti maður nú ekki dauðari en það að við tókum saman strætó frá Rådhuspladsen niður til ferjubryggjunnar við Nyhavn. Við vorum tveir í strætónum og tókum tal saman á leiðinni. Þannig féllu orð að ég áttaði mig á að þarna var 100 hlaupamaðurinn kominn léttur á fæti og sprelllifandi. Honum þótti gaman að heyra að fregnir af afreki hans höfðu borist yfir Atlantshafið. Nú sé ég að hann ætlar að bæta um betur. Nú er það 42 maraþon á 42 dögum eða ca 1775 kílómetrar. Hann lagði af stað frá Esplanaden í kaupmannahöfn þann 4. apríl og tók kúrsinn í áttina til Helsing¢r. Svo heldur hann áfram gegnum Fjón, norður um Jótland og suður að vestanverðu og svo til baka og endar á degi 41 og 42 á Borgundarhólmi. Slóðin á vefsíðu hans er www.viking-atletik.dk/allanhansen/. Hann er ekki með spjallþráð en ef hann kemur upp er ég viss um að honum þætti vænt um að sjá að það er fylgst með honum frá Íslandi. Fyrstu 4 hlaupin hefur hann hlaupið á 4.30 - 4.50 enda verið mishæðótt og stundum mótvindur. Það verður gaman að fylgjast með Allan á leið hans um Danmörku.

Svona að lokum, er hringurinn í kringum landið ekki nálægt 1500 km. Það mætti kannski bjóða honum í hringferð um landið, by foot.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Þröng á þingi í tröppunum

  Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gærkvöldi. Hvíldardagur. Reyndar fer nú hvíldardögum á mánudögum að fækka. Ég er að lesa Chi Running til að rifja upp hugmyndafræðina. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur um hernig er hægt að hlaupa hraðar og minnka líkur á meiðslum undir miklu álagi með því að hlaupa af skynsemi en ekki bara af kröftum.

Þórey kom með Londonmaraþon bolinn í gærkvöldi. Þær stöllur voru að keyra þá út. Það er farið að styttast í hlaupið. Ég geri ekki ráð fyrir neinum afrekum heldur á þetta að vera skemmtun fyrst og fremst. Ég hef aldrei hlaupið í svona stóru borgarhlaupi fyrr og verður það vafalaust góð upplifun.

Áhugavert viðtal við Gunnar prest í Digranesprestakalli í gærkvöldi. Hann ræddi opinskátt um spilafíkn unglinga í útfararræðu yfir ungum manni í síðustu viku og hefur fengið gríðarleg viðbrögð við henni. Þetta er óhugnanlegt að vita til þess hvernig spilafíknin getur gripið vel gerða unglinga slíkum heljartökum að það sé engin leið til baka. Það virkar voða saklaust að setja smáaura í spilakassa og fá smávegis til baka ef heppnin er með manni. En slíkur leikur getur breyst í dauðans alvöru áður en yfir líkur. Ég þekkti fólk fyrir norðan sem var svo heltekið af spilafíkn að þar fóru allar tekjur sem unnið var fyrir í kassann. Það stal til að fá aura til að geta haldið áfram að spila. Einn hélt því fram fullum fetum að kassinn þekkti hann persónulega og vildi bara sjá ákveðin föt. Ef hann var ekki í réttum fötum þá stóð hann til hliðar við kassann og teygði sig fram fyrir hann svo kassinn sæi ekki að hann væri ekki í réttum fötum. Þá gat kassinn móðgast!!

Frásögnin um Garðar Hólm í Brekkukotsannál er orðin sígild. Það líður manni ekki úr minni að sjá hann belja "Kindur jarma í kofunum" í kirkjunni og gott ef mamma hans var ekki eini áhorfandinn. Sem betur fer er þetta nú bara saga. Mér datt hins vegar Garðar Hólm í hug í síðustu viku þegar ég sá myndband með hinni heimsfrægu á Íslandi Silvíu Nótt sem tekið var upp í Japan nýlega. Þar kom hún fram í einhverjum unglingaþætti. Það hafa borist miklar frásagnir af því að hún hafi slegið í gegn hjá þarlendum. Kannski er ég orðinn of gamall fyrir svona lagað en ésús minn. Það sem fólki getur fundist fyndið hér heima fannst mér virka stirðbusalegt og útnesjalegt þegar farið var að fara með íslenska lokal brandara á enskri tungu við allt aðrar aðstæður. Hve margir Japanir ætli hafi heyrt talað um Eurovision? Örugglega mjög fáir. Japönsku unglingarnir vissu greinilega ekki hvað þeir áttu að halda en hlógu kurteislega að fyrirganginum. Maður gæti séð upplitið á landanum ef einhver uppstrílaður Japani kæmi hingað í álíka þátt og færi að stæra sig af því að ætla að vinna einhverja Tokiovision sem enginn hér heima hefði nokkurntíma heyrt nefnda og hefði engan áhuga á.

mánudagur, apríl 10, 2006

VInir Gullu að leggja af stað

  Posted by Picasa
Til hamingju Höskuldur. Félagi Höskuldur Kristvinsson kláraði Ironman í Arisona á sunnudaginn á 16 klst og 14 mín. Í upphafi eru syntir 3,8 km, (1.58.11) þá er hjólað í 180 km (7.49.32) og að lokum er hlaupið maraþon upp á 42.2 km (5.51.08). Eitt er bara að klára svona lagað og komast í gegnum þrautina, annað er að gera það undir settum tímamörkum sem voru 17 klst í þessu tilviki. Höskuldur er rúmlega fimmtugur læknir sem hefur sýnt fram á að það er ýmislegt hægt þegar viljinn er fyrir hendi. Hann lauk 100 mílna hlaupi í USA í fyrra, fyrstur íslendinga.

Hitti vini Gullu í gærmorgun og fór með þeim létt hlaup út að Nauthól, þá sneri ég við og tók slaufu upp í Elliðaárdal til að ná tilsettum 22 km. Er að fikra mig áfam með Chi running. Það er merkilegt að finna muninn frá því að vera að skokka á rúmu 5 mín. tempói á venjulegan hátt og svo hallar maður sér fram og gerir ekkert annað. Við það eykst hraðinn án áreynslu upp í 4.30 - 4.40 mín tempó. Skrefin lengjast og þunginn knýr skrokkinn áfram. Maður þarf bara að æfa þetta betur til að ósjálfráða taugakerfið sjái um málið.

Óvenju skynsamleg umfjöllum um fuglaflensuna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Haraldur Bíem sóttvarnarlæknir talaði um þetta af þekkingu og yfirvegun og Jóhanna fréttamaður spurði skynsamlegra spurninga. Það er ekki venjulegt hvað fjölmiðlar hafa magnað upp mikla histeriu um þetta fyrirbæri, ekki bara hérlendis heldur einig um heim allan. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvort eftirlits- og rannsóknaiðnaðurinn séu að kynda undir þessa umræðu til að fá aukna fjármuni og gera sig meir gildandi. Fuglaflensuveira hefur verið þekkt í á annað hundrað ár eða frá því hægt var að greina þetta af einhverju viti. Ætli það séu ekki um 80 stofnar flensunnar til eftir því sem ég hef lesið. Samtals hafa rúmlega 100 manns í heiminum látist vegna flensunnar en í Danmörku einni saman dó milli 3000 og 4000 manns í fyrra vegna árlegs infúensufaraldurs. Hvað ætli deyji margir fuglar árlega svona hér og þar hérlendis? Maður getur ekki annað en hugsað um hvað myndi gerast með fasteignaverð í 101 ef fugl myndi greinast með fuglaflensu á Tjörninni.

Sá um helgina að gjafmildasta fjölskylda landsins hafði sent hópsendingu á alla fjölmiðla. Gott hjá henni að láta sem flesta vita af þessu. Góðverk sem enginn veit um er ekkert góðverk (gæti maður haldið).

Annar flötur á áþekku máli. Heyrði í alþingismanni nýlega í sjónvarpsþætti þar sem Baugsmálið bar á góma. Þingmaðurinn taldi fram í þættinum öll rök Baugsmanna í varnarræðum þeirra þeim til málsbóta og vísaði meir að segja til mannréttindabrota í þessu sambandi. Það sem gleymdist að taka fram var að þingmaðurinn er formaður samtaka sem eru í ákveðinni góðgerðastarfsemi og allt gott um það. Hann hefur skýrt sérstaklega frá því hvað hann fékk góðar undirtektir hjá Baugsmönnum við fjármögnun verkefna á vegum samtakanna. Ég get ekki verið annað enn svolítið hugsi yfir samhengi hlutanna. Hvernig var máltækið: „Æ sér gjöf til gjalda“.

laugardagur, apríl 08, 2006

Skokkhópur Víkings

  Posted by Picasa
Fór út kl. 8.00 í morgun og hitti Halldór. Þetta átti að vera rólegur dagur þannig að við róluðum fyrir Kársnesið og inn að tröppum. Við runnum upp þær sem er ekki í frásögur færandi en á niðurleiðinni hittum við stóran hóp sem var á uppleið. Það var hópur frá BútKamp sem er á útivistar og hlaupanámskeiði og í morgun voru tröppurnar á dagskrá. Við bárum okkur vel og sögðum að það væri lágmark að taka þær þrisvar og síðan HK brekkuna á eftir til að ná sér niður og uppskárum litlar þakkir fyrir uppástunguna eða þannig. Ef þetta fólk heldur áfram að skokka þá líður ekki langur tími þar til tröppurnar verða ekk ógnvekjandi heldur vinalegur kunningi sem er gaman að hitta. Við hittum snöfurlegan strák fyrir neðan sem sagðist ætla að hlapa frá Hellu til Reykjavíkur í sumar sem eru um 100 K. Við buðum honum með í Þingvallavatnshlaupið sem nokkurskonar fullnaðarpróf. Vonandi kemur hann með. Við rúlluðum upp HK brekkuna á eftir og vorum sammála um að nú verðum við að fara að hlaupa hana á tíma, þetta er orðið áreynslulaust að skokka hana upp á hefðbundnum hraða.

Ég fylgdi Halldóri út að göngubrú til að ná vegalengd því ég ætlaði að fara rúmlega 30 en hann lét sér nægja 20 km. Á leiðinni fórum við að tala um hlaupalag og Halldór sagði að Trausti segði honum að halla sér meir fram á hlaupum. Samkvæmt bókinni Chi Running er þetta mun betri aðferð til að láta þungann af líkamanum knýja sporin áfram en ekki eingöngu vöðvana í fótunum. Við fórum að halla okkur meir og meir áfram og allt í einu fann ég að þetta small til. Þetta er eins og að hleypa úr dekkjum í snjó, allt í einu fer bíllinn að fljóta yfir hvað sem er. Ég prufaði þetta svo frekar á leiðinni til baka og það er ekki um að villast, þetta munar heilmiklu. Skrefin lengjast, maður kemur niður á hælinn en ekki jarkann, hlaupið verður áreynslulausara og hraðinn eykst. Eini gallinn er að útsýnið hverfur því maður er svo álútur.

Kom við í Víkingsheimilinu til að fylla á brúsana. Þá var Víkingshópurinn að leggja af stað svo ég slóst í för með þeim Poweratehringinn. Þar er 20 - 25 manna hópur sem hittist reglulega og skokkar út frá Víkingsheimilinu kl 10 á laugardagsmorgnum og síðan einnig í miðri viku. Fór með Gulla Briem og Hönnu upp að stíflu þar sneri Hanna við en við Gulli rúlluðum sem leið lá hringinn. Það munaði litlu að illa færi á stígnum því ég rak tána í steinnibbu og steinlá og munaði litlu að hausinn rækist í stóra stein. Svona getur þetta verið. Við fórum rólega í góða veðrinu og spjölluðum um heima og geima. 31 km lá að baki þegar heim var komið.

Hofði á Idolið í gærkvðldi. Hvor vann skipti mig ekki öllu máli, krakkarnir voru bæði mjög góðir söngvarar svo og flest þeirra sem komust í 12 manna úrslit. Skemmtilegir persónuleikar og góðir söngvarar. Það er til svo mikið af hæfileikaríku ungu fólki að það er hreint magnað. Síðan er hin hliðin að samfélagið gefur fólki með hæfileika tækifæri að þroska þá og njóta sín. Það hefur ekki alltaf verið þannig. Það er ágætt að muna eftir því af og til að það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Þegar ég horfði eitt kvöld á Músíktilraunir í fyrra fannst mér frábært að sjá og heyra hvað ungir krakkar voru orðnir góðir hljóðfæraleikarar.

Ég gat ekki annað en slökkt á kvöldmagasíninu á Stöð 2 í gærkvöldi. Þá tilkynnti þulurinn (ég hef verra orð til yfir hann) að gjafmildasta fjölskylda á Íslandi væri mætt í viðtal en hún hefði gefið si og só margar milljónir til fátækra í Sierra Leone. Í sjónvarpið voru svo mætt hjón með son sinn. Það skiptir ekki máli hver þau eru eða hvernig þau hafa auðgast en gjafmildi er alltaf afstæð. Síðan er það annað mál að þurfa að láta aðra vita hvað maður sé gjafmildur. Af hverju er ekki hægt að gefa svona gjafir af tómri manngæsku án þess að þurfa að segja sem flestum frá þvi. Hvað ætli væri sagt um mann ef maður væri kjaftandi því upp í alla hvað maður hefði gefið einhverju frændsystkyni í fermingargjöf? Maður yrði að athlægi. Það gilda kannski önnur lögmál um auðmennina. Ætli það skipti máli í þessu sambandi að eiginmaðurinn í þessari gjafmildu fjölskyldu hefur iðulega verið nefndur í tengslum við sölu Búnaðarbankans og það í heldur gagnrýnum tón af þeim sem hafa rýnt í málið. Bónusfjölskyldan gaf Barnaspítala Hringsins nokkuð margar milljónir dagana eftir að héraðsdómur felldi sýknudóm um daginn. Það er til svolítið sem heitir að kaupa sér almenningsálit. Hefur þulurinn síðan ekki heyrt frásögnina um eyri fátæku ekkjunnar sem var meira virði í augum frelsarans en stórgjafir auðmannanna. Hann ætti kannski að flissa minna en hugsa meir um það sem hann segir.

föstudagur, apríl 07, 2006

Kambanesið kemur úr róðri

  Posted by Picasa
Fór inn í Elliðaárdal eftir vinnu og tók brekkuspretti í Rafstöðvarbrekkunni. Tók brekkuna þrisvar sinnum og svo merkilegt sem það var þá var síðasti spretturinn léttastur. Þarf líklega að leggja meir að mér. Þetta minnir mig á það sem Bjarni Guðjónsson knattspyrnumaður sagði einhvern tíma. Þá var liðið í hlaupaæfingu og áttu að hlaupa ákveðna vegalengd undir ákveðnum tíma. Bjarni var í ágætu formi og átti ekki í erfiðleikum með að ná að hlaupa undir tilsettum tímamörkum. Þegar þjálfarinn spurði hann hvernig þetta hefði gengið sagði Bjarni að þetta hefði verið fínt og ekkert mál og bjóst við hrósi. En í stað þess að hrósa Bjarna þá hundskammaði þjálfarinn hann fyrir að hafa ekki lagt harðar að sér fyrst hann hefði getið það. Þannig er þetta. Góður árangur næst ekki nema með því að leggja alltaf að sér eins og maður getur. Fór svo hring í hólmanum og kom heim eftir 80 mínútur. Í Elliðaárdalnum var svo til logn og gott veður enda þótt garrinn væri allt um kring. Maður vanmetur oft veðrið í honum þegar leiðinlegt er að líta út um gluggann eins og hefur verið oft á liðnum vikum.

Það var nokkur umferð þarna. Pétur Frans kom fyrir fullum seglum með sinn Laugahóp. Svo kom Svanur skokkandi úr vinnunni flakandi niður á bringu í næðingnum. Hann lét vel af sér og sagði að hnéð væri alveg að vera eins og það á að sér að vera.

Á sunnudaginn 9. apríl fer félagi Höskuldur í Ironmanninn í Arisona. Slóðin er www.ironmanarizona.com/. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur því hann hefur ekki mikinn bakgrunn í sundinu að eigin sögn. Höskuldur er hins vegar seigur og til alls líklegur. Cut offið er 15 klst fyrir 3,2 km í sundi, 180 km á hjóli og heilt maraþon. Þarna verða um 1900 keppendur frá 30 þjóðlöndum.

Víkingarnir í 3ja flokki gerðu jafntefli við Selfyssingana í gærkvöldi og urðu þar með meistarar í 2. deild 3. flokks. Strákarnir eru allir á yngra ári í þessum aldursflokk þannig að þetta er fínn árangur hjá þeim. Nú bíður úrslitakeppnin senit í mánuðinum. Þa verður gaman að fylgjast með þeim næsta vetur þegar þeir verða komnir á eldra ár í flokknum. Þetta er samstæður og skemmtilegur hópur sem maður er búinn að fylgjast með síðan í byrjun janúar árið 2000 þegar við fluttum suður eða í rúm sex ár.

Ágúst forseti var magnaður í morgunsjónvarpinu í morgun. Hann breytti bláu vatni í rautt í beinni útsendingu og blés blöðru upp inni í örbylgjuofni eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég efa ekki að hann geti breytt víni í vatn eða vatni í vín ef þörf væri á. Jafnvel gæti hann tekið frelsarann á sprettinum á Geneseratvatni enda var það víst ísilagt þegar Ésú spásseraði á því eftir því sem nýjustu heimildir herma.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Kristján ræsir skálmar á réttan stað

  Posted by Picasa
Ég veit ekki hvort forgangsröðunin er önnur nú en í fyrra en allavega hefur það komið nokkuð oft fyrir að undanförnu að kvöldin eru frátekin í annað en að hlaupa.

Í gærkvöldi var ég á ágætum fundi í Þjóðmálafélaginu Akur á Kornhlöðuloftinu þar sem staða miðflokka var rædd. Ólafur Harðarson og Jónína Bjartmarz höfðu framsögu og síðan var óformlegt spjall um efnið fram á kvöldið. Fundir um pólitík án þess að andrúmsloftið sé lævi blandið af ýmsum neðanjarðarstraumum er góð tilbreyting.

Maður veltir stundum fyrir sér starfi stjórnmálaflokka og hvers vegna fólk kýs að ganga í stjórnmálaflokk. Flestir ganga í stjórnmálaflokk af ákveðinni hugsjón og vilja leggja sitt litla lóð á vogarskálina í þeim tilgangi að ná fram ákveðnum markmiðum um mótun samfélagsins. Það sameinar þá sem sagt meir en skilur þá að. Aðrir líta á inngöngu í stjórnmálaflokk sem handhæga vinnumiðlun. Eftir að hafa mætt á fundi og unnið fyrir flokkinn um árabil telja þeir sig eiga rétt á einhverri vegtyllu. Röðin sé komin að þeim. Einstaka maður telur sig síðan hafa mjög stuttan tíma til stefnu og ryðst yfir allt og alla til að ná persónulegum markmiðum. Skítt með stefnu og markmið.

Samkvæmt eðli máls eru ekki allri þeir sem ganga í stjórnmálaflokka sammála um alla hluti. Það er einkenni stórra flokka að innan þeirra er umburðarlyndi fyrir fjölþættum og fjölbreytilegum skoðunum. Það er styrkur flokksins að innan hans rúmist mörg sjónarmið og ólíkar skoðanir sem geta laðað fólk með ólíkar skoðanir að flokknum. Það virðist síðan vera svo að eftir því sem þetta umburðarlyndi er minna þeim mun minni verða flokkarnir. Það er í sjálfu sér eðlilegt því þá sameinast menn um afmarkaðri og þrengri skoðanir og takmarkaðri viðhorf. Þegar staðan er aftur á móti orðin þannig að ef einhver leyfir sér að viðra skoðun sem fellur ekki öllum í geð þá vilji hinir sömu helst velta viðkomandi upp úr tjöru og fiðri og reka hann úr flokknum, þá er staðan orðin alvarleg. Slíkur hugsunaháttur minnir helst á stæka sértrúarsöfnuði eða harðar lokaðar klíkur en ekki víðsýna stjórnmálaflokka sem vilja byggja upp fjöldafylgi. Þegar litið er yfir höfuð á gagnrýnar raddir sem skemmd epli í flokksstarfinu þá er eðlilegt að spurt sé hver sé í hlutverki skemmda eplisins þegar upp er staðið.

Fer austur að Selfossi í kvöld til að fylgjast með Jóa og félögum spila við Selfosspilta. Ef þeir vinna leikinn þá vinna þeir deildina og komast beint í úrslitakeppnina í 3ja flokki.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Svanur, Eiður og Halli Júl. búnir að skila sínu

  Posted by Picasa
Fór út í morgun upp úr kl. 6.00 því ég fékk góða heimsókn í gærkvöldi og tíminn leið hratt við spjall og vangaveltur.

Pétur Fransson formaður FM hringdi í mig í gær og var að spekúlera í löngum hlaupum af ýmsum toga. Við vorum meðal annars að ræða Þingvallavatnshlaupið sem verður laugardaginn 29. apríl næstkomandi. Það er nauðsynlegt fyrir þá sem hafa hug á löngum hlaupum að taka þátt í því. Það er nokkursskonar fullnaðarpróf fyrir langhlaupara. Þingvallavatnshlaupið er ekki keppnishlaup heldur félagshlaup. Þótt hlauparar hafi hlaupið Laugaveginn á 7 - 8 klst þá er það annað að hlaupa á vegi í sama tíma. Hreifingarnar og áreynslan er einhæfari og því meiri líkur á að fá strengi. Það er ekki síður gagnlegt að þjálfa andann heldur en skrokkinn. Það er hins vegar klárt að sá sem fer Þingvallavatnshlaupið vandræðalaust hann fer einnig 100 km hlaup án vandræða ef skynsamlega er staðið að málum. Í svo löngum hlaupum er mest áríðandi að fara rólega af stað og borða og drekka vel frá upphafi á hverri drykkjarstöð. Hundrað kílómetrar er dálítið löng vegalengd og það getur margt gerst á langri leið. Það getur verið erfitt að halda aftur af sér í upphafi þegar menn eru svo vel á sig komnir í startinu að þeir hafa á tilfinningunni að það standist ekkert fyrir þeim. Einnig er alltaf hætta á að þátttakendur „hlaupi upp“ með tilvísun í fjórgangshugsmyndir aðalritarans þar sem um keppnishlaup er að ræða. Með því er vísað til að í svo löngu keppnishlaupi er mikilvægt að skipuleggja og hlaupa sitt eigið hlaup en láta ekki freistast til að hanga í einhverjum sem hleypur heldur hraðar en maður hafði ætlað sér að gera. Þá eru meiri en minni líkur á vandræðum. Sá sem datt síðastur út í 100 km í Borgundarhólmi var búinn að hlaupa 90 km þegar hann gat ekki meir!!!

Ég sé að það er fyrirhugað 100 km hlaup í Árósum í Danmörku þann 9. september í haust. Það eru því ýmsir möguleikar fyrir þá sem hafa hug á að þreyta þessa þolraun hér í nærliggjandi löndum.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Gunnólfsvíkurfjall

  Posted by Picasa
Fór á skemmtilega myndasýningu hjá Útivist í Húnabúð í gærkvöldi. Fyrst voru sýndar myndir úr göngu frá Ólafsfirði fyrir Hvanndalabjarg, í Hvanndali og þaðan í Héðinsfjörð. Hvannbdalabjarg er hæsta standberg á landinu eða um 600 metra hátt. Það slær sem sagt við bæði Látrabjargi og Hornbjargi. Til að komast í Hvanndali þessa leið verður að fara niður einu gjótuna í bjarginu sem er fær. Mér sýndist hún vera þannig útlítandi að betra væri að hafa línu við hendina. Niður þessa gjótu var farið með kýr hér áður þegar ekki var spurt um hvort eitthvað væri hægt heldur hvort eitthvað væri nauðsynlegt. Úr Hvanndölum var gengið í Héðinsfjörð, um fjörðinn og síðan til Siglufjarðar. Ég hef bara komið í Héðinsfjörð en ekkert farið þarna um.

Síðan voru sýndar myndir frá göngu yfir Fimmfvörðuháls þar sem gengið var vestan megin við Skógará. Þótt skömm sé frá að segja þá hef ég ekki gengið yfir Fimmörðuháls enn en gott er að eiga eitthvað eftir. Ætla að reyna að komast yfir hálsinn í sumar.

Heyrði langt viðtal í Speglinum við kynjafræðing í HÍ. Efni viðtalsins var um áhrif hnattvæðingarinnar á konur. Samkvæmt viðtalinu þá kom ekki fram að hnattvæðingin hefði haft nein jákvæð áhrif fyrir konur í heiminum en aftur á móti fullt af allskonar vandræðum, erfiðleikum og allt upp í rakinn djöfulskap. Það er nú svo.

mánudagur, apríl 03, 2006

Skipafloti Þórshafnar

  Posted by Picasa
Það var tölverður snjór á Egilsstöðum þegar við lentum þar upp úr kl. 10.00 í gærmorgun. Það muggaði dálítið en ekki til vandræða. Við ókum sem leið lá upp inn Jökuldal og upp á öræfi þar til við komum að afleggjaranum niður á Vopnafjörð. Svolítill snjór var á vegi en ekki sem máli skipti. Það rak yfir dimmt él á meðan við stoppuðum í sjoppunni á Vopnafirði og keyptum okkur næringu. Á Bakkafjörð komum við rétt fyrir kl. 13.00 en þá skyldi hefjast fundur um sameingarmál nágrannasvetiarfélaganna Skeggjastaðahreps og Þórshafnarhrepps. Sveitarstjórnir hreppanna hafa verið að ræða sameiningu sveitarfélaganna en kosið verður þann 8. apr. n.k. Sveitarstjóri Þórshafnarhrepps skýrði út tillögur sameiningarnefnar og þar næst flutti Jón Kristjánsson ávarp. Síðan var setið fyrir svörum og reynt að leysa úr spurningum og vangaveltum heimanmanna. Skoðanir eru eðlilega skiptar, menn vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Eftir góðan klukkutímafund þá var haldið af stað til Þórshafnar og farið yfir sömu hluti á fundi með Þórshafnarbúum. Veðrið var orðið mjög gott, sólskin, logn og frekar hlýtt. Um kl. 18.00 lögðum við af stað frá Þórshöf áleiðis til Raufarhafnar. Við hringdum í Ella á Hótel Norðurljós og báðum um eitthvað að borða því maginn vill sitt á langri leið. Ég hef einungis einu sinni komið til Raufarhafnar eftir að ég flutti þaðan seint á árinu 1999 þótt skömm sé frá að segja. Ég labbaði því aðeins niður á bryggju til að taka myndir og rifja upp gamlar minningar. Það eru fá skip í höfn og ekki mikið umleikis. Þó kom einn bátur til hafnar á meðan ég var niður á bryggju, Jóhannes og Einar sonur hans höfðu verið á sjó um daginn.
Frá Rauðarhöfn fórum við um kl. 7.30 og vorum komnir í Skúlagarð í Kelduhverfi um kl. 21.30 en þar var sameiningarnefnd Húsavíkurbæjar, Kelduhverfis, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnar að funda. Við sátum með þeim í um það bil klukkutíma og fórum yfir málin með þeim. Síðan ókum við sem æleið lá til Akureyrar og vorum okmnir í hlað á Hótel Kea um kl. 23.00. Það hefur snjóað töluvert á norðausturhorninu undanfarna viku en það verður fljótt að fara þegar hlýnar. Það var gaman að fara þarna um og hitta gamla og góða kunningja og fara yfir með þeim hvað verið er að fást við. Þróun mála hefur á margan hátt verið þessu landssvæði erfið á undanförnum árum, atvinnutækifærum hefur fækkað og þar með fólkinu. Hins vegar hafa samgöngur batnað gríðarlega frá þvi ég flutti norður fyrir um 11 árum og mikið er á döfinni. Í því felast ýmis sóknarfæri þó þau fylli tæplega upp í þau skörð sem samdráttur í sjávarútvegnum hefur skilið eftir sig.

Hlaupið 1. apríl

  Posted by Picasa

sunnudagur, apríl 02, 2006

Tókum langa æfingu í gær. Hitti Halldór út við Kringlumýrarbraut. Síðan lá leiðinn inn í Elliðaárdal og þar næst hefðbundna leið niður í Laugar og vestur á Eiðistorg og þaðan til baka og svo annan hring til viðbótar. Samtals gerði þetta tæpa 50 km. Veðrið var fínt, svolítið kalt en golan ekki til trafala. Það voru hins vegar ekki margir á ferli. Þetta var fín æfing sem fer í bankann. Mars var heldur lélegri en ætlað var en kvefið er nú að láta undan síga. Það er bara svona, stundum gengur ekki allt upp og þáer það bara þannig.

Fórum upp í Breiðagerðisskóla eftir hádegi en þar var mikill mannfagnaður vegna 50 ára afmælis skólans. Krakkarnir og kennararnir höfðu lagt mikla vinnu í undirbúninginn og þarna hitti maður marga kunnuga sem voru að rifja upp gamlar minningar frá sínum skólaárum í skólanum. Þetta er alltaf ágætt að taka tíma í að rifja upp gamlar minningar. María skrapp frá afmælishátíðinni í hádeginu og spilaði fótbolta með stöllum sínum í Víkingi við ÍR ingana uppi á Leiknisveli. Heldur var kalt að standa og horfa á en það hafðist allt saman.

Er að fara á eftir austur á land og síðan verður farið sem leið liggur á Bakkafjörð, Þórshöfn og Kelduhverfið og síðan til AKureyrar í kvöld. Vona að veðrið verði ekki alltof slæmt.