sunnudagur, september 30, 2007

Slagurinn við Spartathlon.
Ég náði að sofa nokkra klukkutíma á aðfaranótt föstudagsins áðir en hlaupið byrjaði. Það er góðs viti því það er verra að fara ósofinn inn í svona verkefni. Það var ræst kl. 4.00 og þá var morgunmatur. Það átti að koma bíll um kl. 5.00 að ná í dótið okkar en það kom enginn bíll svo við Neil löbbuðum yfir á næsta hótel með töskurnar. Þar var margmenni og umstang en alsendis óklárt hvað átti að gera við farangurinn. Fyrst var hann settur inn í rútu og svo var hann tekinn út úr rútunni og settur í hrúgu á gangstéttina og okkur sagt að við myndum hitta hann í Spörtu (hvað og gekk eftir).
Ég hafði fundið fyrir smá ójöfnu í hægri skónum dagana á undan og taldi tryggara að girða fyrir óþægindi og tók þvi af mér skó og sokk í rútunni og setti á mig second skinn plástur. Pólverji sem sat við hliðina á mér var hrifinn af Injinji sokkunum því hann sagðist alltaf hafa átt við nuddvandamál að stríða á tánum. Nú var hann með allt teipað fast til að minnka hættuna á blöðrum. Svo sagði hann. „I see that you have a blue nail“ „Já“ sagði ég. „I have no nails left“ sagði hann. Svona er þetta hjá mönnum sem leggja hart að sér. Við Neil sátum saman í rútunni og hann fór að segja mér ýmislegt af sér. Hann sagðist hafa verið reykingamaður og drinker þar til fyrir 7 árum síðan. Þá fór hann fyrsta maraþonið og þá var ekki til baka snúið. Hann hefur hlaupið maraþon á 2.46 og kærastan hans á undir 3 klst. Hún keppti í Berlín á helginni. Hann sagði mér m.a. af ultra challange keppni sem han tók þátt í í Lýbíu á síðasta ári. Þar var farið yfir ca 120 mílur og einungis gefnir upp GPS punktar. Ekkert landakort. Ef þú komst að fjalli þá þurftirðu að taka sjensinn á hvorumegin við fjallið átti að fara eða yfir það. Annarsstaðar þurft að fara yfir eyðimerkur og klifra upp sandskafla og ég veit ekki hvað. Sporðdrekar og snákar voru víða. Neil var annar á rúmri 41 klst, tæpum klukkutíma á eftir þeim fyrsta, en sá þriðju kom 10 klst þar á eftir í mark. Litlu munaði að stúlka yrði til þarna en hún fannst illa til reika fyrir tilviljun. Vatnið var skammtað, max fjórir lítrar í hvern áfanga.
Rúmlega 6.00 var komið að Akrópólis og fólk fór að gera sig klárt. Myndir voru teknar og þess háttar. Ég hélt sjó með Eiolf og Kjell Ove og konum þeirra. Einn svía hitti ég sem var að fara í sitt 8. hlaup en einungis náð til enda í eitt skipti. Það var mikill munur á stemmingunni þarna og í WS. Kaninn er líflegur og mikið að gerast, hæíað og hvíað en þarna var allt miklu hljóðlátara. Svo heyrðist smellur og hlaupið var byrjað. Það var ekki haglabyssa eins og þar vestra. Strollan hlykkjaðist niður af Akrópólis og út á götur Aþenu. Hlaupið var byrjað. 385 hlauparar lagðir af stað. Mesti fjöldi þáttakenda í sögu þess.
Það var strax ljóst að þetta yrði frekar erfiður dagur fyrir þá sem ekki voru vanir miklum hitum. Hitamælirinn í rútunni sýndi 26 oC á sjötta tímanum og þá var bara tunglið á lofti. Það var erfitt að hlaupa út úr Aþenu. Rakinn var mikill og loftmengun áberandi á miklum umferðargötum. Það tók á annan klukkutíma að komast út fyrir borgina og niður að strönd. Loftið fór þá heldur að batna en þá kom sólin á loft. Næstu 60-70 km voru hlaupnir eftir þjóðveginum sem lá í hlykkjum fyrir ofan ströndina og tær sjórinn fyrir neðan. Smám saman hætti maður að taka eftir landslaginu heldur einbeitti sér að verkefni dagsins og var ekki vanþörf á. Svo fór að draga til tíðinda.
Ég hafði sett orkuduft á tvo brúsa sem ég hafi með mér en skyldi nokkra skammta eftir í töskunum því ég gerði ráð fyrir að manni væri séð fyrir nauðþurftum á leiðinni. Alla vega var svo gefið upp á blöðunum sem við fengum. Á tveim fyrstu stöðvunum var bara vatn en svo átti að vera orka og meðlæti auk vatnsins. Þegar leið á hlaupið var svo boðið upp á meira matarkyns s.s. yogurt, kaffi og te og þess háttar. Þegar búið var að hlaupa hátt í 20 km var ég búinn af brúsunum og fór að svipast eftir orku drykkjum. Nei það var bara vatn og á einstaka stað kók. Síðan voru framreiddar kartöfðuflögur og örlitlar kexkökur sem voru varla fugl eða fiskur. Smá bananabitar voru hér og þar og / eða eplabitar. Maður var orðinn svolítið óþreyjufullur eftir næringunni því sólin fór hækkandi á lofti og sífellt varð erfiðara að hlaupa. Ég fór rólega og hélt mig nokkru fyrir neðan lágmörkin og svo var um marga aðra. Þar kom að maður fór að kvarta við fólkið um að manni hefði verið sagt að það væru orkudrykkir á stöðvunum og maður þyrfti orku. „Everything finished“ var svarið. Á einum staðnum fór kona inn í bíl og sótti flösku. „One left“. Ætli hún hafi ekki ætlað að drekka hana sjálf en samviskan slegið hana þegar hún sá örmagna hlaupara fyrir framan sig. Á öðrum stað fór ég bak við borðið og tók flösku sem ég sá þar án þess að spyrja neinn. Sumsstaðar lá við að hlaupararnir hrifsuðu eplabitana úr höndunum á konum sem voru að flysja og brytja eplin því það var ekkert klárt. Hlaupið snerist smám saman upp í að lifa af milli drykkjarstöðva í þeirri von að það væri næring á næstu stöð. Maður drakk ofsalega því hitinn var orðinn gríðarlegur. 34 oC stóðu á mælum í þorpum sem við fórum í gegnum. Ekki beint passandi að koma úr undirbúningsfasa þar sem hitin var 5 o C – 10 o C. Á 60 km sagði maginn stopp. Þegar ég fór að svolgra vatnið gerði hann uppreisn og ég ældi lifur og lungum. Þegar maður drekkur svona mikið hefur maginn ekki undan að leiða vatnið út í líkamann og á endanum yfirfyllist hann. Ég spjó og spjó þar til allt var búið og þá leið mér betur og gat farið að drekka aftur. Ég var ekki sá eini sem svona var komið fyrir því fleiri létu fara á þessari stöð. Nokkrum stöðvum aðan í frá keyrði allt um þverbak því það var ekkert til. „Water finished“ sögðu kerlingarnar og ypptu öxlum. Sístækkandi hópur hlaupara krafðist þess að fá að drekka því þetta væri spuring um að lifa af milli drykkjarstöðva. „Water finished“ sögðu kerlurnar og höfðu svo sem ekki miklar áhyggjur af því. Loks kom eldri karl með nokkrar vatnsflöskur og gat brynnt hópnum svo hann hélt áfram og hvarf. Víða voru allir ávextir búnir og það var bara þannig. Einungis á einum stað var almennilega staðið að þessu. Nóg af ávöxtum, meir að segja appelsínur og saltbaukur. Ég hélt að í landi sólarinnar einsog í Grikklandi væri ekki mikið mál að hafa nóg af ávöxtum. Í WS var svakalega gott að borða vínber og melónur því þá fékk maður bæði vökva og næringu. Maður hafði á tilfinningunni að fólkið sem var á drykkjarstöðvunum framan af væri ekki undirbúið undir þann fjölda sem var í hlaupinu. Hvergi var ís í vatninu sem maður setti á hausinn á sér með svömpum. Sumststaðar var allt búið úr fötunum en annarsstaðar var vatn ið svo heitt að það skipti engu máli þótt maður setti það á sig eða ekki.
Ég vissi að það var stór drykkjarstöð á km. 81. Maður lifði í voninni að þar væri nóg að borða. Ég var farinn að ströggla við tímamörkin og orðinn vægast sagt svartsýnn. Þegar á stöðina kom hökti ég að borðinu og hvíslaði: Energi, I need energi. Röddin var því sem næst horfin og móðurinn einnig. Ég vil ekki ráðleggja neinum að lifa af 81 km. hlaup í 34 stiga hita og lifa á kartöfluflögum, vatni og nokkrum eplabitum sem basfæðu. „Oh you need something to eat“ sögðu stelpurnar, „do you want some pasta“ og réttu mér skál með þurru pasta. Ekki einu sinni tómatsósu út á. Ég er viss um að ég hefði ælt beint ofan í skálina ef ég hefði reynt að láta þetta upp í mig því þurrt pasta er ekki það lystugasta sem maður fær öllu jöfnu en hvað þá við þessar kringumstæður þegar maginn er næstum því upp á rönd. „Energi, I need energidrink“ hvíslaði ég. „Oh do you want some coke“ Nú voru góð ráð dýr. Ég hef ekki drukkið Coke í 27 ár, fyrst af princip ástæðum en á seinni árum af hollustuástæðum. Málið var mjög einfalt. Ef ég fengi ekki orku þá gæti ég hætt strax. Því lét ég slag standa, svolgraði í mig 3 kókglös, át hnefa af flögum og skreið af stað. Á þessari stöð hættu mjög margir. Fólk valt út af í misjöfnu ásigkomulagi og vissulega hvarflaði þeirri hugsun að manni að best væri að hætta þessari vitleysu.
Þegar ég fór að hlaupa þá hamraði sinadrátturinn á kálfunum eins og ég veit ekki hvað. Ég hafði tekið samviskusamlega electrolyte töflurnar frá Berki og magnesíum og c vítamíntöflur til viðbótar en eitthvað þurfti undan að láta. Því gekk ég fram að næstu stöð. Ég fór fram úr nokkrum sem voru á svipum járnum og ég en ég vissi að nú var farið að sauma að mér með tímann. Ég kom á næstu stöð í þann mund sem fólkið var að pakka niður. Ég fékk þó kók eins og ég vildi og tvo eplabita sem voru eftir. Síðan prófaði ég að hlaupa og nú var allt í lagi. Ég náði fljótlega hóp hlaupara sem var á undan mér og var kominn inn í hlaupið aftur aftur. Maginn var á réttri leið en maður þurfti að umgangast hann eins og fælinn hest. Það mátti ekkert út af bregða þá var allt í uppnámi. Brátt fór sólin að lækka á himni og það var í raun það eina sem hélt í manni lífinu að sjá fram á aðeins meiri svala. Nú fór allt að ganga betur. Sinadrátturinn lét aðeins á sér kræla en maður hoppaði hann úr sér. Nú fóru drykkjarstöðvarnar að vera aðeins betur búnar með næringu og var í raun og veru ekki yfir neinu að kvarta eftir svona 95 – 100 km. Á einum stað voru ísmolar á diski. Ég hreinsaði þá alla ofan í kókglasið og srakk svo kalt vatnið af disknum á eftir, allt til að fá smá kælingu. Annars var eins og ís væri bara ekki til á þessum slóðum. Það má svo sem vel vera að svo sé.
Ég kláraði 100 km á um tólf tímum og var í sjálfu sér sér sáttur við það, bæði miðað við hvernig aðstæður voru og eins var ég óþreyttur og lærin tiltölulega ólerkuð. Ég fór á klósett á 100 km og vildi til að drykkjarstöðin var beint á móti veitingahúsi en ekki úti í skógi. Það var gott að geta hreinsað sig og nú var þetta heldur á réttri leið. Ég missti hópinn aðeins fram úr mér sem var slæmt því nú var skollið á myrkur og ég átti ljósið í poka eftir um 10 km. Þar sem ég kem á krossgötur sé ég ekki merkingar en held til vinstri því ég sé ljós þar. Þar kemur maður á móti mér og spyr hvort ég hafi séð einhver merki. Það hafði ég ekki gert og við fórum að leita og fundum brátt rétta leið. Við töltum áfram og fórum að spjalla og þarna var þá kominn Finni sem hafði verið í 24 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi í vor. Án þess að taka um það ákvörðum þá héldum við sjó saman næstu sex klukkustundirnar og spjölluðum margt á leiðinni. Hann vinnur hjá Kaupþingi í Finnlandi, annar hlauparinn í hópnum sem ég hafði hitt í túrnum sem vinnur hjá íslenskum banka. Hann var samskipa Neil með það að hafa algerlega skipt um lífsstíl. Fyrir nokkrum árum var hann vel yfir 100 kg en í vor fór hann undir 80 kg í fyrsta sinn í áraraðir. Æfingarnar fyrir hlaupið höfðu gengið heldur inna hjá honum sökum meiðsla og hann hafði lengst tekið 20 km æfingar síðasta mánuðinn. Hann var mjög glaður þegar hann fór yfir 120 km því það hafði hann farið lengst áður. Okkur skilaði þokkalega áfram en nú var leiðin orðin erfiðari. Langar brekkur bæði upp og niður. Farið var að draga að mörgum. Við hittum Seppo Leionen, frægan finnskan hlaupara, sem hefur lokið Spartathlon oftast allra eða 15 sinnum. Maginn hjá honum hafði gert uppreisn og hann gekk rólega og gat ekki annað. Það væri þá í fyrsta sinn sem hann lyki ekki hlaupinu. Á öðrum stað lá japanskur hlaupari í vegkantinum og gat sig hvergi hreyft. Hann var sóttur og síðan kom sjúkrabíll og fór með hann. Við gengum mikið í þessum brekkum. Vorum alltaf heldur undir tímamörkunum en ekki mikið.
Nú fór að bera á vandræðum í löppunum hjá mér. Skafsár á lærunum og í klofinu voru farin að angra mig verulega og vaselínið lagaði það ekkert. Saltblandað vaselín er ekki beint gott í sár. Fæturnir voru einnig orðnir alsettir blöðrum eftir að hafa verið í blautum sokkum og skóm stóran hluta dagsins. Ég hafði vanrækt að hugsa um fæturna í baráttunni við hitann og næringarskortinn fyrr um daginn og nú fór það að segja til sín. Það var hins vegar allt í lagi með lærin að innanverðu en blautar buxurnar höfðu skrapað þau og skafið á ytra borðinu. Við ræddum mikið um hvort við myndum ná til Spörtu innan tilskilins tíma. Ég var svartsýnn á það því ég vissi að það átti að verða enn heitara á laugardaginn en var á föstudaginn og var það svo sem alveg nóg. Finninn reiknaði á augabragði í huganum hvað við ættum margar mínútur eftir á göngu og meðalhraða og allt og taldi það mögulegt. Samkvæmt teoríunni átti þetta að vera mögulegt en það er annað teoría en praxís. Upp úr þessu öllu tók ég ákvörðum um að hætta í hlaupinu á 150 km. Ég sá ekki neinn tilgang í að vera að þrælast áfram með skemmda fætur og hafa ekki möguleika á að ná á áfangastað. Ég var sáttur við þessa ákvörðun því ég vissi að hún var rétt. Við kvöddumst og finninn hélt áfram og vildi láta reyna á hvað hann kæmist langt. Í rútunni sem týndi upp hlauparana voru svona tíu manns, flestir illa á sig komnir. Sumir með hljóðum ef þeir hreyfu sig. Argentínumaður hvíslaði eftir vatni sem var svo heppilegt að ég átti nóg af þannig að honum leið aðeins betur. Rútan lagði af stað til Spörtu tæplega sex og við vorum komin þangað rúmlega 7. Þá var Scott Jurek nýlega kominn í mark. Við keyrðum leiðina sem liggur til Spörtu og er hluti af hlaupaleiðinni. Á þremur stöðum ók lögregla með blikkandi ljósum eftir hlaupara. Mér leist ekkert á að þurfa að fara þessa leið í brennandi sólskini. Hvergi skuggi, bara berangur. Í herberginu voru fyrir tveir hlauparar sem höfðu hætt fyrr. Annar lauk hlaupinu í fyrra á 33 klst en nú fór allt í klessu. Það er ekkert gefið í þessum efnum. Það gekk ekkert mjög vel að sofna en það tókst á endanum.
Morguninn eftir var ég niðri í anddyri þegar rúta kom með hóp hlaupara sem voru hættir og þar á meðal var finninn félagi minn. Hann hafði farið alls um 190 km en eftir kl. 9. um morguninn þegar sólin kom upp þá komst hann ekkert áfram. Þá átti hann eftir rúma 50 km og hafði til þess 9 klst. Samkvæmt bókinni á þetta að vera hægt og er það undir öllum venjulegum kringumstæðum en það var bara ekki hægt í þessum brennandi hita sagði finninn glaðbeitti. Það var eins og ég vissi að hitinn var enn meiri á laugardaginn en föstudaginn. Maður fann strax brennandi hitann af sólinni þegar maður kom ut undir bert loft. Ég hef einungis einu sinni verið í álíka hita en það var í hitabylgju á Spáni fyrir nokkrum árum. Á slíkum dögum var ekkert annað en að gera en að vera í sundlauginni.
Á leiðinni niður að styttu Leonídasar spurði ég gríska stúlku til vegar. Hún benti mér að styttunni og sagði svo: „Very hot day“. Hlaupararnir tíndust að einn eftir annan eftir að hafa barist í gegnum daginn misjafnlega á sig komnir en hreyknir eftir að hafa unnið það mikla afrek að klára hlaupið. Það er eitt að hlaupa hratt og ná fyrstur í mark en að berjast í gegnum tvo daga í brennandi hita er einnig mikið afrek. Síðasti keppandinn sem lauk hlaupinu var lítil japönsk kona sem birtist svona fimm mínútum áður en tímaglasið rann út. Henni var vel fagnað. Eiolf og Neil luku báðir hlaupinu á kringum 33 klst. Eiolf sagði að þetta hefði verið það versta sem hann hefð‘i tekið þátt í og er hann þó hitakær. „Men man ma sætte fúkus og fortsætte“ sagði Eiolf á sinni klingjandi norsku.
Um kvöldið var verðlaunaafhending á torginu í bænum. Það var tilkynnt í upphafi að hún yrði látlausari en venjulega vegna þeirra hremminga sem gríska þjóðin gekk í gegnum í fyrra mánuði með mannskaða og gríðarlegu eignatjóni vegna skógareldanna. Scott Jurek vann hlaupið, Pólverjinn sem kom gangandi að heiman varð annar og Braselíumaður sá þriðji. Japanskar konur voru í 1. og 3. sæti í kvennaflokki og frönsk kona í öðru sæti. Rúm 30% hlauparanna luku hlaupinu og var það í takt við tölfræðina.
Ég minntist á næringuna á drykkjarstöðvunum fyrstu 100 km við þá Kjell Ove og Eiolf og sagði þeim hvað mér hefði þótt hún léleg og í raun valdið mér miklum vandræðum. Kjell Ove sagði að á fyrri árum þegar hlaupararnir voru færri þá hefði verið nóg af öllu á drykkjarstöðvunum en það hefði síðan farið að breytast með fjölgun hlauparanna. Nú væri það orðið þannig að flestir reyndu hlauparanna væru farnir að treysta algerlega á sig sjálfan hvað varðaði orkudrykki, aðra næringu, vítamín og allt hvað þeir þurfa. Menn senda út á stöðvarnar það sem þeir þurfa til að hafa allt undir kontrol. Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu en þó ekki óvænt eftir reynslu gærdagsins. Samkvæmt reynslunni frá WS bjóst maður við að hafa nóg af öllu á leiðinni en þetta kenndi manni að taka ekkert fyrir gefið. Spyrja um allt mögulegt og ómögulegt og hafa allt á hreinu fyrirfram.
Í morgun var svo lagt af stað frá Spörtu. Nú var hitinn farinn að lækka verulega og seinni hluta dagsins var skýjað og milt. Fyrirtaks hlaupaveður, jafnvel fyrir íslending. Svona getur þetta verið mikið lotterí. Áður en Sparta var yfirgefin var boðið til hádegisverðar og á sýningu á bíómyndinni 300 Spartverjar þar sem konungur Leonídas var í broddi fylkingar í baráttu Grikka gegn Persunum. Eftir það skildi maður aðeins betur hina Spartversku hugsun að gefast aldrei upp. Sá hlaupari sem vill klára Spartathlon þarf að hafa ómældan skammt af því hugarfari hvað sem öðru líður. Ég sat við hliðina á pólverjanum knáa í rútunni til Aþenu. Hann sýndi mér myndir frá ferðinni sem leið lá gegnum Evrópu, yfir Alpana og niður eftir Ítalíu. Leiðin að heiman var um 3.000 km og það tók hann 60 daga að komast til Aþenu. Eftir að þangað var komið þá var hann ekki aldeilis hættur því þá náði hann sér í trjádrumb, hengdi hann aftan í dráttarkerruna sem hann hafði haft dótið sitt í á leiðinni og djöflaðist í brekkuæfingum. Þannig æfði hann í 10 daga. Síðustu tíu dagana fyrir hlaupið hvíldi hann sig. Fyrir áhugasama um árangur í Spartathlon er þetta greinilega aðferðin.
Þátttakan í Spartathlon er mikil lífsreynsla enda þótt ekki næðist það markmið sem að var stefnt. Bæði er hlaupið og umgjörð þess mikil upplifun útaf fyrir sig og síðan byggir maður á þeirri reynslu sem maður fékk út úr sjálfu hlaupinu við aðrar og síðari þolraunir. Ýmis atriði hefði ég getað gert betur en ég gerði en það sem vóg þyngst á metunum voru aðstæður sem ég réði ekki við. Það er ekkert við því að gera. Gengur bara betur næst.

laugardagur, september 29, 2007

Peideppides hafdi mig undir. Ekki a rothoggi heldur a stigum. Eg haetti eftir 20 klst og 150 km tvi ad ta sa eg ad eg myndi ekki na til Sportu undir timamorkum. Hitinn var svakalegur i gaer eda 34 oC medan sol var a lofti eda i 9 klst. Tad er enn heitara i dag eda 35 - 36 oC. Menn fellu eins og flugur i nott.
Takk fyrir godar kvedjur og sterk hugskeyti.
Betri skyrsla later.

föstudagur, september 28, 2007

Takk fyrir góðar kveðjur að heiman. Náði að sofa í nótt. Framför frá því fyrir tveimur árum. Nú bíður morgunmatur. Síðan verður keyrt niður á Akrópolis og talið í kl. 7.00.

fimmtudagur, september 27, 2007

Ströndin fyrir framan hótelið

Dagurinn í dag var tekinn rólega. Maður þyrfti að skila því inn sem maður sendir út á brautina fyrir kl. 16.00. Ég ætla að skipta um föt eftir rúmlega 100 km. Þá verður komið myrkur og leiðin farin að hækka. Það dimmir mjög fljótt eftir að sólin er gengin undir og orðið aldimmt kl. 20.00. Á fjallinu sem maður er vonandi að kljást við einhvern tíman næstu nótt getur verið nokkuð kalt þannig að ég fer í síðar og hef blússu með. Á fjallstoppnum skipti ég um skó og fer í aðra stærri. Svo sendi ég boli, sokka, steinefni, ljós og sólarvörn út á aðrar stöðvar.

Að maður þurfi á þessu að halda er náttúrulega háð því að maður nái að halda áfram. Ég lít svo á að það verði jafnvel erfiðara að komast í gegnum fyrri daginn. Tímamörkin eru stífari þá og maður er óvanari hitanum. Nóttin á að passa þokkalega og tímamörkin eru orðin rýmri á laugardaginn þannig að ef maður kemst inn í hann þá á maður að skrönglast nokkuð áfram. Það verður heitt, sérstaklega á laugardaginn, jafnvel miðað við grískar viðmiðanir. Gert er ráð fyrir að hitinn vereði á bilinu 29 - 32 oC. Strax eftir helgina lækkar hitinn um einar 5 oC en svona er þetta. Veðrið er alltaf dálítið happdrætti og það er hluti af þessu. Stundum hefur rignt og það er kannski ekkert betra.

Ég hitti Eiolf, Ann, Kjell Ove og konuna hans í gærkvöldi í matnum í gærkvöldi. Þeir voru kátir enda eru þeir að hittast "að sama tíma að ári" enn einn ganginn. Kjell Ove hefur tekið þátt í Spartathlon hlaupinu á hverju ári frá árinu 1993 utan einu sinni. Hann er einn af frumherjum ultrahlaupanna í Svíþjóð og vel þekktur í þessum kredsum. Hann sagðist kíkja stundum á vefinn minn en það væri dálítið erfitt að lesa hann! Eiolf sagði m.a. að það væri mjög fínt hvað ég talaði góða norsku. Þegar við höfðum talað saman um stund sagði Kjell Ove: "Þetta er ekki rétt Eiolf, hann talar ekki norsku heldur sænsku og meir að segja með Uppsala hreim"!!! Þetta fannst mér dálitið fyndið. Eiolf segir að hitinn hái sér ekki enda vinnur hann í málmbræðslu.

Scott Jurek kom í gær. Líklega reynir hann að bæta tímann frá því í fyrra sem var tæpar 23 klst. Hann á reyndar nokkuð í langt með að slá út tíma Grikkjans Kuorosis frá 1990 sem var svo ótrúlegur sem 20.29 klst. Scott er mesti ultrahlaupari okkar tíma. Að sjá hann í svona samhengi er eins og að vera á fundi í heimssamtökum leynilögreglumanna og James Bond myndi mæta í smóking og á bílnum.

Maturinn í kvöld var hálf aumingjalegur. Pastarusl, brauð og súpa. Þarf að fara út og kaupa mér kjöt að borða. Maður fer ekki að sofa svangur undir svona átök.

Það verður ræst kl. 4.00 í nótt og þá borðaður morgunmatur. Um kl. 6.00 verður lagt af stað niður í miðborg Aþenu og hlaupið ræst við Akrópolis kl. 7.00 að staðartíma. Hlaupalok eru svo kl. 19.00 á laugardaginn við styttu Leonidasar í Spörtu. Þeir sem hafa farið þetta hlaup segja að það taki öllu öðru fram að ná fram til styttu Leonidasar innan tilskilins tima.

Það eru ekki notaðir örgjörvar í hlaupinu. Millitímum er því ekki varpað út á netið. Ástæða þess er einföld. Það er ekki tölvusamband allstaðar á leiðinni þannig að þetta er ekki hægt. Það sem okkur þykir sjálfsagt heima er ekki sjálfsagt annarsstaðar, jafnvel þótt innan EU sé.

Hvernig sem allt veltist þá tekur maður þá reynslu sem hlaupið skilur eftir sig á jákvæðan hátt. Maður finnur hvar veikleikarnir liggja og reynir að átta sig á hvernig hægt er að draga úr áhrifum þeirra í framtíðinni.

miðvikudagur, september 26, 2007

Frá Akrópólishæð

Svaf ágætlega í nótt þrátt fyrir tímamuninn. Eyrnatapparnir dugðu vel til að deyfa umferðargnýinn frá götunni. Ég er enn einn í herberginu en það geta fleiri bæst við því það er stappað í herbergin eftir þörfum. Uppihaldið er ódýrt, maður borgar 250 EU í þátttökugjald og fær gistingu, mat og alla þjónustu í hlaupinu fyrir þetta. Sponsörar sjá vafalaust um restina. Fór til Aþenu í morgun. Það er svona hálftímakeyrsla með strætó. Það var gaman að spássera um á rómverskum rústum á Akrópólishæð og skoða aðrar menjar eftir rómverjana í nágrenninu. Það verður síðan farið í skoðunarferð um Aþenu á mánudaginn þegar menn eru farnir að jafna sig. Fór og náði í gögnin á Hotel London þegar ég kom til baka. Þar var múgur og margmenni. Rúmlega 300 manns taka þátt í hlaupinu að þessu sinni sem er langmesti fjöldi sem noktu sinni hefur skráð sig til leiks. Tölfræðin segir að um þriðjungur þeirra sem leggja af stað nái á leiðarenda undir tilskyldum tímamörkum.

Eiolf Eivindsson, félagi frá Western States, hringdi í mig í dag. Hann kom til Grikklands fyrir nokkrum dögum síðan. Þetta verður fimmta hlaupið hans. Einu sinni náði hann ekki að ljúka. Hitti hann í kvöld.

Hér eru ýmsir alvörumenn mættir til leiks. Pólverji nokkur er mættur á staðinn eftir að hafa búið sig undir hlaupið með því að hlaupa að heiman frá sér til Grikklands með dótið sitt í dráttarkerru. Þetta eru um 3000 km. Ekki veit ég hvað hann var lengi á leiðinni. Annan hitti ég sem er hægt að segja að sé fullorðinn á þessum vettfangi. Hann er breskur, heitir Neil og er nýfluttur til Reykjavíkur. Neil er lögfræðingur sem vinnur hjá Landsbankanum. Hann hljóp Badwater í fyrra en Badwater er það hræðilegasta af öllum ultrahlaupum (fyrir utan Marathon de Sable kannske). Hann kláraði hlaupið á 36 klst eftir að hafa verið að drepast í maganum lengi hlaups. Hitinn var mikill eða á milli 50 og 55 oC. Þó var lofthitinn ekki það versta heldur hitinn á asfaltinu. Egg spælist ef því er hellt á götuna. Því bráðna skórnir ef ekki er hlaupið á hvítu línunni. Þessi náungi hefur m.a. lokið þremur triathlon keppnum. Triathlon er þrefaldur Ironman. Þá eru syntir 11,2 km, hjólaðir 540 km og hlaupnir 126 km. Allt í einum strekk. Þetta kláraði hann á 41 klst. Hann hefur á prjónunum að fara til Mexíco í haust og taka þátt í tíu daga Ironmankeppni. Einn Ironman á dag í tíu daga samfleytt. Manni sundlar við að heyra þetta. Það er magnað hvað hægt er að þjálfa skrokkinn upp í. Fyrir því eru varla nokkur takmörk. Peter var ánægður með að hitta mann frá Reykjavík því hann er að leita að félögum sem hlaupa stundum langt. Sagði honum frá langhundum sem hittast við Fossvogsbotninn á laugardagsmorgnum yfir veturinn. Honum leist vel á það. Hann er frísklegur og viðkunnanlegur náungi.

Japanir eru langfjölmennastir hér eða um 70 - 80 alls. Síðan eru þáttakendur frá því sem næst öllum Evrópulöndum og örfáir frá Bandaríkjunum. Einn er orðinn 69 ára þannig að það er allt til. Kjell Ove Skoglund, 66 ára gamall sænskur frumherji í ultrahlaupum, er skráður til leiks. Einungis rúmar 30 konur taka þátt í hlaupinu að þessu sinni eða rúm 10% þátttakenda.

Morgundagurinn fer í að gera klárt, undirbúa það sem sent verður út og næsta kvöld verða sýndar kvikmyndir frá fyrri hlaupum.

Spennan vex.

þriðjudagur, september 25, 2007

Kom til Aþenu í kvöld eftir að hafa beðið á Heathrow i nokkra klukkutíma. Nú blasir alvaran við. Flestir þátttakenda koma á morgun. Mér fannst hinsvegar nauðsynlegt að vera hér í það minnsta tvo daga áður en lagt er upp titl að venjast hitanum aðeins. Hitinn verður það erfiðasta. Það er dálítill munur að koma úr nepjunni heima. Það er spáð yfir 30 oC á laugardaginn. Nú er milt veður, logn og heiðskýrt (fullt tungl). Sólaruppkoma er um kl. 7.00 og sólsetur 12 tímum síðar. Það er því heitast í ca sex tíma milli kl.10.00 og 16.00. Á morgun verður kynningarfundur síðdegis. Annars verður dagurinn notaður við að sjá sig um. Ég hef aldrei komið til Grikklands áður.

laugardagur, september 22, 2007

Vígreifir Víkingar

Það hefur verið mikið rætt og ritað um handtöku dópsmyglaranna sem voru teknir á Fáskrúðsfirði í vikunni. Það er vissulega fagnaðarefni að lögregla skuli ná slíkum áfangasigri í þessu stríði sem því miður er líklegt að verði aldrei leitt til lykta. Það virðist hafa komið mönnum í opna skjöldu að þessi leið skyldi farin sem vissulega er afar einföld. Strandlengjan er löng og mjög erfitt að fylgjast með henni af einhevrju viti. Má vera að radarbúnaður geri það mögulegt. Innflutningur eiturlyfja er raunveruleg ógn við þjóðfélagið og því þarf að beita tiltækum ráðum til að gera smyglurum eins erfitt fyrir og mögulegt er.

Í þessu sambandi er rétt að minna enn og aftur á átakið Ísland án eiturlyfja árið 2000. Það er í raun og veru undarlegt í fyrsta lagi að nokkurri manneskju með einhverja tengingu við ranveruleikann skuli hafa dottið í hug að hrinda verkefni af stað undir slíku heiti og í öðru lagi að opinberum aðilum skuli hafa dottið í hug að leggja fjármagn í slíka Bjarmalandsför.

Talandi um tollverði og smygl. Eins og manni finnst ánægjulegt að lögregla nái árangri í baráttunni við alvöru glæpamenn sem stofna framtíð og lífi fjölda ungmenna í voða, þá getur maður ekki orðið annað en pirraður á vinnulagi tollvarða í Leifsstöð sem virðast hafa farið á baunatalningarkúrsinn í tollvarðaskólanum en sleppt því sem máli skiptir. Að vissu leyti má virða þeim til vorkunnar að þær vinnureglur sem þeir starfa eftir eru náttúrulega út í hött. Í Morgunblaðinu í vikunni var minnst á reglur þær sem gilda um verðmæti hluta sem eru í farangri fólks. Þar var sagt frá því að farþegi frá útlöndum hafði orðið fyrir því að myndavél hans hafði verið gerð upptæk því hann hafði ekki handbærar kvittanir fyrir henni með sér í ferðalagið. Mig minnir að þarna hafi verið um að ræða Canon 350 sem er einföld og algeng fjölskylduvél. Fyrir skömmu heyrði ég sagt frá því að einn keppenda á öldungamóti á norðurlöndunum fyrir nokkru hefði lent í samskonar ströggli vegna þess að hann hafði tekið með sér litla vídeóvél á mótið og var náttúrulega ekki með kvittunna með sér. Þvílík heimska að setja slíkar reglur.

Verðmæti hvers einstaks hlutar sem maður má vera með í farangri frá útlöndum án tollskyldu má mest vera að upphæð 23.000 kr og um 45.000 kr samtals að því mig minnir. Hvergi nokkurs staðar þar sem maður fer um flugvelli sér maður tollverði vera að leika sér í svona baunatalningu nema í Keflavík. Að láta sér detta í hug þá fásinnu að þurfa að taka með sér kvittanir fyrir venjulegum hlutum sem maður hefur með sér í ferðalag s.s. myndavél, tölvu, síma, Ipod eða einhverju álíka. Ef þær eru ekki tiltækar þá getur maður átt á hættu að þetta sé gert upptækt við komuna til landsins. Hvað með fataleppana sem maður er í? Því skyldi maður ekki þurfa að sýna fram á með kvittunum að dýr jakkaföt séu keypt hérlendis við komuna til landsins. Mig minnir að Guðný Halldórsdóttir hafi lent á skóm sem kostuðu 145.000 kr þegar hún var að skoða skófatnað fyrir frumsýninguna á Veðramótum. Hlutverk tollvarða á vitaskuld að snúast um að koma í veg fyrir innflutning á því sem máli skiptir. Sem dæmi um þá hluti má nefna dóp, brennivín, tóbak, vopn, dýr, vörur sem eru á bannlista, hrátt kjöt og stórinnflutning á ýmsum hlutum sem kosta minna í útlandinu en hér heima. En að vera að bösta venjulegt fólk sem hefur tekið með sér myndavél í sumarfrí og gera hana upptæka af því kvittunin kom ekki með er náttúrulega fyrir neðan allar hellur. Í stað þess að hafa einhverja verðmiða á því sem er eðlilegt að sé í farangri fólks á ferðalögum ætti að tiltaka fjölda þeirra hluta sem er eðlilegt að fólk sé með á ferðalögum en hætta að velta sér upp úr verðmætinu. Það er ekki það sem máli skiptir við tollgæslu á landamærum Íslands við umheiminn hvort ein og ein myndavél sleppi til landsins án þess að af henni sé greiddur virðisaukaskattur heldur eru það stóru málin sem tollverðir ættu að einbeita sér að og varða líf og heilsu fjölda fólks.

Kvikmyndin "Touching the Void" er ein af þeim albestu kvikmyndum sem ég hef séð. Hún segir frá ótrúlegum atburðum sem áttu sér stað þegarfélagarnir Jo Simpson og Simon Bates voru á leið niður af fjallstindi í Perú. Nafn myndarinnar gefur henni sérstakan sjarma því hað hljómar einstaklega vel við atburðina sem lýst er í myndinni. Hún verður sýnd á Stöð 2 í kvöld. Þar er hún kynnt undir nafninu "Hættulegt klifur". Því að vera að þýða titla á myndum þegar svona klám kemur út úr því.

föstudagur, september 21, 2007

Spartathlon er virtasta ultrahlaup í Evrópu. Það er hlaupið milli Aþenu og Spörtu í Grikklandi. Hlaupið er í flokki með Western States í Sierra Nevada fjöllunum í Californíu og Badwater í Dauðadalnum en það er draumur flestra ultrahlaupara að takast á við þessi hlaup og ljúka þeim. Daninn Kim Rasmussen er eini maðurinn í heiminum sem hefur lokið Western States og Spartathlon á sama árinu en það gerði hann árið 2005. Hann lauk síðan Badwater í sumar þannig að hann hefur tekið þrennuna. Það eru ekki margir sem það hafa gert, líklega innan við tíu manns. Það ég best veit eru það einungis fjórtán hlauparar sem hafa lokið bæði Western States og Spartathlon. Ég ætla mér að verða sá fimmtándi. Hvort það tekst kemur í ljós.

Það er saga á bak við Spartathlon eins og flest stór hlaup. Sagan dregur sig aftur til ársins 490 f.kr. þegar orustan um Maraþon var háð. Sendiboðinn Pheidippides var sendur til hershöfðingja Herodotusar sem staddur var í Spörtu til að kalla eftir meira liði til að verja Aþenu. Að sögn Herodotusar kom sendiboðinn til Spörtu daginn eftir að hann lagði af stað frá Aþenu.

Árið 1982 var John Foden, breskur námsmaður, lesa gríska sögu og þá meðal annars frásagnir af dáð Pheidippidesar. Hann fór þá að velta fyrir sér hvort mögulegt væri að hlaupa milli Aþenu og Spörtu á innan við 36 klst. Hann komst að þeirri niðurstöðu að eini möguleikinn til að sannreyna þetta væri að hlaupa leiðina sjálfur. Hann lagði af stað þann 8. október árið 1982 ásamt fjórum félögum sínum sem leið lá frá Aþenu áleiðis til Spörtu í þeim tilgangi að fara í fótspor Pheidippidesar. Það segir ekki af ferðum þeirra fyrr en daginn eftir þegar John kom að styttu Leonidasar í Spörtu eftir 36 klst. ferð. Félagi hans, John Scholten hafði náð á áfangastað hálfri klukkustund fyrr og sá þriðji komst á leiðarenda eftir um 40 klst hlaup. Niðurstaðan lá ljós fyrir, þetta var mögulegt.

Fyrsta formlega Spartathlon hlaupið var skipulagt árið 1983. Alls tóku 45 hlauparar frá 11 löndum þátt í því. Þar með var boltinn farinn að rúlla. Í haust taka um 300 hlauparar þátt í hlaupinu sem er með því almesta ef ekki mesti fjöldi sem hefur lagt af stað. Hlutfall þeirra sem ná á leiðarenda undir 36 klst er um 60%. Hitinn hefur mikil áhrif á hve erfitt hlaupið er. Hann verður nálægt meðallagi í ár eða um 27 oC.

miðvikudagur, september 19, 2007

Ég sé á veðurspám að það verður um 27 oC hiti í Grikklandi. Það verður heitt en svo verður kalt um nóttina uppi á fjallinu. Maður verður að undirbúa klæðnaðinn eð hliðsjón af þessu. Ég tek með mér tvenn pör af skóm og skipti þegar svona 100 km eru eftir. Tímamörkin eru nokkuð stíf til að byrja með en síðan slakna þau. Miklu máli skiptir að vera ekki mikið undir þeim til að byrja með og taka því rólega til að spara sig fyrir seinni daginn. Þetta verður erfitt.

Ég gleymdi að taka það fram í tjaldinu eftir hlaupið á laugardaginn að eitt af einkennum UMFR36 er að hver sá sem hleypur á vegum félagsins fær rétt til að bera húfu félagsins og verður þar með sjálfkrafa félagi í Ungmennafélaginu R36. Þetta ágæta félag hefur innan sinna raða marga af helstu harðjöxlum í ultrahlauparadeildinni hérlendis og því er félagsskapurinn góður. Grunnurinn að félaginu var lagður óformlega í sturtunni í Laugum einu sinni fyrir nokkrum árum og embættum var meðal annars skipað niður á þann hátt að ónefndur maður kom blautur úr sturtunni og sagði stundarhátt: Ég vil endilega vera ritari (og það gekk náttúrulega eftir).

"Af hverju berja karlmenn konurnar sínar?" Svona byrjaði umsjónarmaður Kastljóss í kvöld viðtalið við tvo sálfræðinga sem fengu ókeypis auglýsingatíma fyrir starfsemi aína hjá ríkissjónvarpinu í kvöld. Það var ekki spurt af hverju berja sumir, nokkrir, einstaka eða of margir karlmenn konurnar sínar. Nei, þykkt skyldi skorið og spurningin alhæfð yfir alla karlmenn. Þetta er svo sem í takt við þann yfirdrifna og fáranlega málflutning sem öfgafullir feministar hafa keyrt af fyllstu hörku í almennri opinberri umræðu á undanförnum árum. Karlmenn nauðga konum, karlmenn berja konur, karlmenn niðurlæga konur, karlmenn undiroka konur og ég man ekki hvað þeir gera konum til djöfulskapar til viðbótar. Það vita allir að það eru til glæpamenn, svo hefur verið og svo verður áfram, en að tala eins og allir karlar séu glæpamenn enda þótt sumir glæpamanna séu karlar það er dálítið langt gengið.

Ég heyrði í morgun í útvarpinu að það sé gríðarlegur munur á því hve mikið stærri hluti stúlkna en stráka lýkur framhaldsnámi. Strákarnir flosna miklu frekar upp úr skóla en stúlkur. Hvers vegna er það? Hvers vegna er sjálfsmorðstíðni meðal ungra stráka svo há sem raun ber vitni? Staðreyndir sem fara ekki hátt og þykja þar af leiðandi vafalaust ekki merkilegar. Ég geri þó fastlega ráð fyrir því að kynjafræðingarnir við Háskóla Íslands séu að grúfa sig yfir þetta og leggi niðurstöðurnar á borðið innan skamms. Kynjafræðin hlýtur að vera fyrir bæði kynin skyldi maður halda.

mánudagur, september 17, 2007

Það er gaman að heyra að þrátt fyrir skítaveður þá var upplifun þess fólks sem ég hef heyrt í heldur góð af laugardeginum. Jói, Biggi, Stebbi, Börkur, Sigrún og fleiri stóðu vaktina með sóma og höfðu standandi bráðavakt í Jóatjaldi til að lífga hrakta og stirða hlaupara við þegar þeir ultu inn og gátu ekki meir. Heit súpa og kakó gera kraftaverk á slíkum stundum. Það hefði náttúrulega ekki verið hægt að halda hlaupið nema að hafa slíka bækistöð. Flóknara er það nú ekki. Maður var búinn að heyra alls kyns efasemdir um að það væri hollt geðheilsunni að hlaupa svona hring eftir hring en allir sem ég heyrði í sögðu að það væri miklu skemmtilegri upplifun en þeir hefðu búist við. Maður verður bara að vona að veðrið verði betra á næsta ári en það er víst ekki á vísan að róa.

Hlaup af þessari tegund eru mjög góð æfing fyrir þá sem hafa hug á að takast á við alvöru ultrahlaup. Það er töluvert annað að hlaupa í sex tíma heldur en í þrjá tíma. Uppleggið er allt annað, áreynslan önnur. Skipulagið þarf að vera öðruvísi.

Ég fékk einhvern stirðleika tognunarvott aftan í vinstri kálfann á laugardaginn, nokkuð sem ég hef aldrei fengið áður. Þetta lagast vonandi fljótt með hitakremi og nuddi. Nú fer að styttast í Grikkland. Maður sér á langtímaspám að hitinn er farinn að síga niður fyrir 30 oC. Vonandi verður hann ekki mikið yfir 25 - 26oC. Það er nógu mikið. Þetta fer einhvern veginn. Það er ekkert öruggt í þessum málum. Ef allt verður í lagi þá á maður að komast nokkuð áleiðis en þarna eru mörg ljón á veginum.

laugardagur, september 15, 2007

Sex tíma hlaupið og þriggja tíma hlaupið voru haldin í dag. Veðrið var ekki alltof gott þegar litið var út í morgun. Vindsperringur og svo hafði rignt. Það var samt lagt af stað út í Nauthólsvík. Þar voru Jói, Stebbi, Biggi, Sigurjón og Gauti mættir. Tjaldinu var skellt upp nær Öskjuhlíðinni þar sem skjólið var meira og var markið fært til með hliðsjón af því. Átta lögðu upp í sex tíma hlaupið en Eiður var slappur og dró sig til baka. Veðrið fór heldur skánandi og lygndi og dró úr rigningunni um tíma. Fyrstu menn fóru hratt yfir og voru til alls líklegir. Þriggja tíma hlaupararnir lögðu af stað um kl. 13.00. Þá var lygnara en brátt tók að rigna á nýjan leik og rigndi stanslaust það sem eftir var hlaups og var það ekki beint hlý rigning því maður sá að það hafði hvítnað í Esjuna. Við hlaupalok beið heit súpa og kakó í Jóatjaldi ásamt kökum og tilbehör. Bæði Steinn og Trausti hlupu vel yfir íslandsmeti Barkar frá því í fyrra og Elín Reed var örlitlu frá því að ná jafnlangt og í fyrra en veðrinu ekki saman að jafna.

Úrslitin eru hér á eftir:

Sex tíma hlaup karlar:
Steinn J. 68.495 m Íslandsmet
Trausti 67.300 m
Gísli Ásg. 58.070 m
Ásgeir 55.565. m
Rögnvaldur B. 54.595 m

Sex tíma hlaup konur:
Elín Reed 61.840 m
Bryndís B. 42.390 m

Börkur hætti eftir tvo tíma

Þriggja tíma hlaup karlar:
Sigurjón S. 39.380 m Íslandsmet
Ívar A. 38.960 m
Kristinn Ólafur 36.850 m
Sumarliði 35.755 m
Karl G. 35.595 m
Sævar Þór 35.325 m
Gunnlaugur 31.895 m
Gunnar G. 31.825 m
Gottskálk 31.015 m
Aðalsteinn G. 29.360 m
Haukur Örn 28.560 m
Jóhann 28.530 m
Viggó Þórir 23.800 m

Þriggja tíma hlaup konur:
Kristín A. 32.215 m Íslandsmet
Hafdís 31.215 m
Nína 30.560 m
Þóra Gréta 30.560 m
Jóhanna 28.360 m
Sveinbjörg M. 19.110 m

Takk fyrir ágætan dag, bæði keppendur og starfsmenn sem gerðu þetta mögulegt.
Fór á fyrirlestur Jung Chang í Háskólabíói í dag þar sem hún talaði um Maó formann. Jung Chang og maður hennar Jon Halliday hafa unnið stórvirki með þeirri vinnu sem liggur að bók þeirra "Maó, sagan sem aldrei" var sögð og er að koma út á íslensku í þýðingu Ólafs Teits Guðnasonar. Í bókinni er saga Maós gerð aðgengileg og er óhætt að segja að þeir sem helst hafa verið taldir standa upp úr í illvirkjum á seinni tímum af stærri gráðunni verða eins og kórdrengir við hlið formannsins. Ett var það sem kom fram í máli Jung Chang í Háskólabíói í dag sem maður hafði kannski ekki áttað sig á til fullnustu en það var hingríðarlega eyðilegging á menningarverðmætum í Kína sem átti sér stað að tilstuðlan Maós. Kíversk menning byggði á árþúsunda þróun en hana reyndi Maó að uppræta og eyða til að geta mótað lýðinn að eigin höfði.
Það er ekki hægt annað en að hvetja áhugamenn um sögu að ráðast að þessari þykku bók. Þeir verða ekki fyrir vonbrigðum.

Fékk myndavélina í dag. 55 klst liðu frá því ég keypti hana í Canada í gegnum Ebay þar til hún var komin í hús. Flott vél.

Tók langa æfingu í kvöld. Hljóp upp að Esju, gekk upp að læk og hljóp svo heim aftur. Var um fimm klst í túrnum. Þetta eru rúmlega 50 km. Léttur og fínn í fótunum.

föstudagur, september 14, 2007

Við lok sex tíma hlaups í fyrra

Hér er listinn yfir þá sem haa skráð sig til hlaups á morgun. Vel mennt og vaxandi áhugi. Veðurútlit er ótryggt en verður vonandi sæmilegt. Það hefur verið rysjuveður að undanförnu svo það er allra veðra von.

Við verðum með Powerate drykki og banana á drykkjarstöð. Orkubita og gel verða hlauparar sjálfir að koma með. Kannski verður sælgæti í hlaupalok ef menn verða aðþrengdir.

Sex tíma hlaup byrjar kl. 10.00 og 3ja tíma hlaup kl. 13.00. Hlaupalok eru kl. 16.00.


Sex tíma hlaup
Trausti
Börkur
Elín Reed
Ásgeir
Bibba
Gísli Ásg.
Rögnvaldur
Steinn J.
Eiður Sigmar

Þriggja tíma hlaup
Hafdís
Jóhann
Karl G.
Haukur Örn.
Gunnar G.
Aðalsteinn G.
Sumarliði
Sigurjón
Nína
Kristinn Ólafur
Sveinbjörg M.
Viggó Þórir
Haraldur
Gottskálk
Þóra Gréta
Sævar Þór
Jóhanna
Ívar
Gunnlaugur

Fjaran við Gróttu

Þegar maður var í Angmassaliq í sumar sá maður oft heldur sorglega sjón þegar drukkið fólk sat við búðina fyrir ofan höfnina og drakk bjór. Þrátt fyrir að þetta fólk hafi orðið undir í samfélaginu þá er lágmarkskrafa að maður sýni því smá virðingu meðan það lætur mann í friði. Óhamingja þess er vafalaust nóg fyrir. Til að mynda datt mér aldrei í hug að taka myndir af því. Maður lét sér nægja að taka myndir af krökkunum og ef maður tók mynd af fullorðnu fólki þá bað maður um leyfi.

Í kvöld heyrði ég í Íslandi í dag á Stöð 2 að það var minnst á Tassiilaq (Angmassaliq) og að kvikmyndatökumaður sem var þar á ferð hefði ætlað að taka myndir af hundasleðahvolpum (eins og þulurnar sögðu) en hann sá svo eitthvað annað sögðu þulurnar og flissuðu alveg eins og ég veit ekki hvað. Svo kom mynd frá Tassiilaq og hvað var þetta merkilega myndefni? Jú, það var drukkinn karl að berja drukkna konu, hrinda henni og sparka í hana. Hún hrinti á móti og sparkaði en hann hafði hana undir og barði þá hausnum á henni við götuna. Konan emjaði og veinaði af sársauka. Allan tímann tók myndasmiðurinn myndir í stað þess að skakka leikinn. Loks kom maður að á fjórhjóli og skildi þau sundur. Mér fannst þetta vera til skammar fyrir viðkomandi, bæði þann sem tók myndina og Stöð 2 að setja þetta í fréttaaukaþátt. Ég sé ekki hvaða erindi það á í sjónvarpið hér að vera að velta sér upp úr óhamingju þessa aumingja fólks. Ef væri verið að fjalla um félagsleg vandamál í Grænlandi eða á þessum stað væri það annað mál ef þetta væri sett í eðlilegt samhengi en að kynna svonalagað flissandi sem fréttainnslag eins og um skemmtiefni væri að ræða var ekki fyrir minn smekk.

Fór á Veðramót í kvöld. Þetta var fín mynd og vel gerð. Mér finnst Guðnýju hafa tekist vel að fjalla um viðkvæmt og vandmeðfarið efni. Ég man vel eftir því þegar nýja kynslóðin tók við í Breiðuvík. Sem betur fer gerðust ekki svona voðaatburðir hjá þeim eins og koma fyrir í myndinni en vafalaust byggir Guðný söguþráðinn að töluverðu leyti á því sem hún upplifði fyrir vestan.

fimmtudagur, september 13, 2007

Fjaran við Kirkjuhvamm

Það ganga vel skráningar í hlaupið á laugardaginn. Það eru komnir um 10 manns í sex tíma hlaupið og hátt í tuttugu í þriggja tíma hlaupið. Þetta er fínt og ljóst að margir ætla að nota sex tíma hlauið til að máta sig við lengri vegalengdir. Ég spái íslandsmeti á laugardaginn en Börkur hljóp allra manna lengst í fyrra eða rúma 63 km. Það verður erfiðara að slá vegalengd Elínar út. Nú spáir vætu á laugardaginn en þetta kemur bara í ljós. Ég held að veðrið verði ekki svo slæmt. Ef rignir verðum við með tjald á vettvangi fyrir starfsmenn og föt hlaupara.

Skráningargjald verður innheimt við rásmark við upphaf hlaups. Það er 2.000 kr fyrir sex tíma hlaup og 1.500 fyrir þriggja tíma hlaup.

Ef einhverjir áhugasamir eru ekki búnir að skrá sig þá eru þeir beðnir um að gera það hið snarasta.

Ég keypti myndavél á Ebay í gær sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Ég hef keypt allt mitt ljósmyndadót á Ebay og allt staðist eins og stafur á bók. Ofan í kaupið að kaupa góða myndavél þá var seljandinn frábær náttúruljósmyndari frá Canada en það vissi ég ekki fyrr en eftir á. Ég skipist á nokkrum emailum við hann í gær. Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða frábærar náttúruljósmyndir frá Canada þá er slóðin hjá honum og konunni hans www.akwildlife.com. Það er enginn svikinn af því að skoða þessar myndir (og videó) sem hefur gaman af svona myndum á annað borð.

miðvikudagur, september 12, 2007

Til minja um flóðin á Skeiðarársandi

Það eru að tínast inn skráningar í sex og þriggja tíma hlaupið á laugardaginn. Veðrið verður svona þokkalegt. Spáin er svolítið óstöðug, núna er spáð einhverri rigningu en það verður ekki hvasst. Það verður tekist á í sex tímahlaupinu og ég trúi að íslandsmetið falli, alla vega í karlaflokknum. Var að panta bikara og slíkt þannig að allt sé klárt.

Formaður félags múhameðstrúarmanna brást mér ekki þegar hann kom í Kastljósið í gærkvöldi. Hann tjáði sig þar um málflutning þeirra Maryam Namazie og Ayaan Ali Hirsi sem hafa báðar gagnrýnt múhameðstrúna, hvernig trúarbrögðum er blandað saman við stjórnmál og hvernig sú blanda notuð til grimmilegrar kúgunar kvenna víða um heim. Formaðurinn vísaði öllum málflutningi þeirra út í ystu myrkur, sagði að bakgrunnur þeirra og lífsreynsla væri einungis fjölskyldubundið vandamál sem mætti alls ekki alhæfa yfir heildina og það væri hreinn fasismi að banna notkun búrkanna og annara þeirra klæða sem hylja múhameðskar konur algerlega. Hann þurfti að vísu að viðurkenna það að það væri heimilt samkvæmt kóraninum að eiginmenn mættu berja konurnar þegar frekar lélegur spyrill tók það mál upp. Á hinn bóginn sagði hann að það vær aldrei gert því yfirleitt væri búið að leysa vandamálin áður en til þess kæmi. Síðan rifjaði hann upp að um 500 konur leituðu til Stígamóta á hverju ári hérlendis. Hann lagði sem sagt að jöfnu athafnir eðlislægra hrotta og texta Kóransins. Rifja má upp í þessu sambandi að þýskur dómari tók vægar á heimilisofbeldi á heimilum móhameðstrúarmanna en hjá öðrum þjoðverjum með þeim rökum að það að karlar berðu konuna sína væri hluti af þeirra menningu og því bæri að taka vægar á því. Þessi málflutningur var nákvæmlega eins og ég bjóst við að hann yrði og gerir ekkert annað en að staðfesta orð kvennanna. Spyrillinn hefði svo sem mátt fara aðeins út í umskurð, nauðungargiftingar á smástelpum, heiðursmorð á ungum konum og fleira í þeim dúr og fá sjónarmið formannsins á þeim málum. Líklega er það allt misskilningur líka.

Blágresi á Siglunesi

þriðjudagur, september 11, 2007

Það er skamt stórrahögga á milli þessa dagana. Maryam Namazie var hér á dögunum. Jung Chang, sem skrifaði Villtir Svanir og Maó, sagan sem ekki var sögð var hér á bókmenntahátíð og síðast Ayaan Ali Hirsi sem er heimsþekkt fyrir baráttu sína gegn kvennakúgun í menningarheimi íslams. Það er mikill fengur að því að fá þessa einstaklinga til landsins og heyra milliliðalaust hvað þær hafa fram að færa. Málflutngur þeirra er skref í þá átt að brjóta niður ákveðna glansmynd og hreyfa við umrðu sem hefur að milklu leyti verið ýtt til hliðar hérlendis. Umræða um málflutning og framgang strangtrúaðra múslíma í nágrannalöndum okkar hefur verið sópað undir teppið og þeir sem hafa vogað sér að tala um hlutina eins og þeir eru hafa umsvifalaust verið afgreiddir sem rasistar. Það þekki ég af eigin raun. Margt fólk vill ekki ræða hluti eins og umskurð á stúlkubörnum, heiðursmorð á stelpum sem hafa flekkað heiður ættarinnar með því að taka saman við strák sem féll ekki karlpeningnum í geð, nauðungargiftingar á smástelpum til sér miklu eldri karla, misþyrmingar á eiginkonum o.s.frv. o.s.frv. Vitaskuld eru til glæpamenn í öllum löndum og innan allra trúarhópa en þessi voðaverk eru réttlætt með trúarlegum skírskotunum. Það er aðalatriðið og er það sem skilur á milli. Í Svíþjóð berst hópur strangtrúarmúslína t.d. fyrir því að orð Kóransins verði æðri sænskum lögum með þeim rökum að það sem frá spámanninum sé komið sé ofar þeim texta sem dauðlegir menn hafa samið.

Fór góðan brekkuhring á laugardaginn. Tók tröppurnar þrisvar. Kvefaðist um helgina og fór ekkert út í gær. 16 km í kvöld á góðu róli.

sunnudagur, september 09, 2007

55 ára í gær. Þetta potast áfram. Aldur er hins vegar afstæður. Ég held að ég sé ekki í mikið lakara ásigkomulagi en þegar ég var þrítugur og reynslan vegur upp það sem á hefur hallast á öðrum sviðum. Maður er í forréttindahópi. Fjölskyldan kom saman í gærkvöldi. Það var fínt að taka smá tíma í spjall og yfirferð á gömlum minningum.

Maður sér að til þess bær yfirvöld eru farin að gegna skyldum sínum í miðbænum. Loksins er farið að örla á því að það sé farið að mæta þeim skrílslátum og hálfvitagangi sem hafa viðgengist þar átölulítið alltof lengi með aðferðum sem duga. Sektir eru ágætar. Fólk sér á eftir peningum. Eins og flestir landsmenn hefur maður verið á þvælingi hér og þar á ymsum tímum sólarhringsins. Maður hefur hvergi nokkursstaðar séð nokkuð í áttina við það ástand sem hér hefur fengið að viðgangast í svokallaðri miðborg Reykjavíkur. Barcelona var til dæmis þekkt fyrir vasaþjófagengi á Römblunni. Þarlend yfirvöld tóku á þeim vanda með því að fjölga lögreglum í miðbænum. Það er ekki látið líðast að óaldarlýður fái að leika lausum hala.

En það er eins og við manninn mælt að þegar loks er farið að gera eitthvað af viti við óásættanlegu ástandi þá hlaupa ýmsir strax til og fordæma þessar aðferðir s.s. á bloggi Moggans í morgun. Auðvitað á að gera eitthvað en bara ekki þetta eða svona. Lögreglustjórinn er uppnefndur "sá stutti" og þarfram eftir götunum. Nú eru þetta ekki einhverjir bæjarruddar sem skrifa svona heldur fólk sem sumt hvert vill gefa sig út fyrir að vera í pólitík. Maður bíður bara eftir að fréttastofa sjónvarpsins taki málið upp og fordæmi það að lögreglan hafi afskipti af þeim sem eru að míga utan í hús og brjóta glös á götunni. Það væri svo sem eftir öðru.

laugardagur, september 08, 2007

Ég fór í fyrradag á fyrirlestur í Háskóla Íslandstil að hlusta á Maryam Namazie, stofnanda Samtaka fyrrverandi múslíma í Bretlandi, flytja fyrirlestur um islamista, samspil trúarbragða og stjórnmála og alltof mikið umburðarlyndi Vesturlandabæúa gagnvart islamistum. Háun lagði áherslu á að í nafni trúarinnar og svokallaðra menningarhefða viðgengist taumlaus kvennakúgun í múslímaríkjum sem viðgengist síðan hér á vesturlöndum með tilvísan til trúar og menningar. Í máli hennar kom fram að dómskerfi sumra landa tekur vægar á heimilisofbeldi hjá múslímum vegna þess að þar væri hefð fyrir því að karlar lemdu konur sínar því þær væru eign þeirra. Hún gagnrýndi einni þögn vestrænna kvennahreyfinga gagnvart kúgun á íslömskum konum.

Það er mikil nauðsyn á því að opna umræðu um þessi mál hérlendis og sérstaklega í ljósi hinnar miklu aukningar á flutningi erlends fólks til landsins. Múslímar hafa hins vegar flutt hingað í miklu minni mæli en til annarra Norðurlanda s.s. Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Það þarf ekki að fara lengra en til þessara landa til að sjá þau vandamál sem upp koma þegar ólíkum menningarheimum lýstur saman og þeir aðkomnu neita að aðlaga sig að reglum þess lands sem þeir flytja til. Til skamms tíma var þróunin sú að múslímarnir fengu sínu framgengnt með frekju og yfirgangi og umburðarlyndir og vandræðafælnir Norðurlandabúar gáfu eftir og hopuðu skref eftir skref. Það er ekki fyrr en á seinni árum sem stjórnmálamenn á Norðurlöndum hafa haft nægilega sterk bein í nefinu til að fara að taka á þeim vanda sem hefur skapast. Spurning er hvort það sé of seint.

Hérlendis hefur umræða um þessi verið hálfgert tabú. Þeir sem efast um að það sé heppilegt að feta í fótspor nálægra þjóða hvað þetta varðar eru umsvifalaust úthrópaðir rasistar af þeim sem predika kosti fjölmenningar og víðsýnis. Það eru nákvæmlega sömu sjónarmiðin sem leiddu Danmörku, Svíþjóð og Noreg í þá stöðu sem þarlendar þjóðir eru staddar í nú. Því er afar gagnlegt að einstaklingur sem þekkir þessi mál innanfrá komi til landsins og ræði þau. Það er ekki hægt að afgreiða hann sem fordómafullan rasista.

föstudagur, september 07, 2007

Sigurjón, Jói og Stebbi komu í kaffi í kvöld til að diskútera framkvæmd sex og þriggja tíma hlaupsins. Þetta er ekki flókin framkvæmd, ein drykkjarstöð og fyrst og fremst að skrá niður þá hringi sem hlaupnir verða. Veðrið hefur verið dálítið rysjótt að undanförnu og í umræðum kom upp sú hugmynd að efn það lítur út fyrir vind og vætu á annan laugardag þá flytjum við hlaupið inn í Elliðaárdal. Þar er alltaf logn þótt blási á víðavangi. Þetta kemur í ljós þegar líður á vikuna og verður tilkynnt með fyrirvara.Enda þótt skráningar fari hægt af stað þá vissu þeir um allnokkra sem ætla að fara bæði þriggja og sex tíma hlaup. Þetta verður vafalaust fínt. Það verður sótt að meti Barkar en spurning hvort einhver nái að slá elínu við en hún hljóp afar gott hlaup í fyrra.

Ég skráði mig í 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi í maí á næsta ári nú eftir mánaðamótin. Kim Rasmussen ætlar að hafa bæði 24 og 48 tíma hlaup á næsta ári. Hann hafði sett mörkin við 15 í 48 klst en það eru þegar komnir yfir 20 sem hafa skráð sig. Þetta er nýr challange.

Fór 16 km í kvöld. Kvefaðist svolítið í gær svo maður er heldur linari en æskilegt hefði verið.

þriðjudagur, september 04, 2007

Kvöldroði yfir kirkju Hallgríms.

Nú fer að styttast í þriggja og sex tíma hlaupið. Það verður haldið við Nauthólsvíkina laugardaginn 15. september n.k. Undirbúningshópur þarf að fara að hittast og fara yfir praktiska hluti. Þriggja tíma hlaupið er hugsað fyrir þá sem langar til að spreyta sig við hlaup af þessari tegund en óar við sex tímum þetta árið. Þeir koma síðar.

Hér eru smá minnisatriði fyrir áhugasama:


1. Hlaupið fer fram á hringnum við Nauthólsvíkina og er hlaupið réttsælis.
2. Hringurinn sem hlaupið fer fram á er 2.339 m.
3. Ein drykkjarstöð verður á hringnum.
4. Sex tíma hlaupið hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 16.00.
5. Þriggja tíma hlaupið hefst kl. 13.00 og lýkur kl. 16.00.
6. Orkudrykkir, bananar og orkubitar verða til staðar fyrir hlaupara.
7. Veitt verða verðlaun til sigurvegara í karl og kvennaflokki í báðum flokkum svo og fá allir þátttakendur verðlaunapening til minja um þátttöku í hlaupinu..
8. Þátttakendur skrái sig hjá gunnlaugur@samband.is. Skráning þarf að eiga sér stað í síðasta sinn á miðvikudegi þann 12. september.
9. Til að ná inn á erlendar afrekaskrár þurfa konur að hlaupa að lágmarki 50 km í sex tíma hlaupi og karlar 60 km.
10. Þátttökugjald:
a. Þriggja tíma hlaup: 1.500 kr
b. Sex tíma hlaup: 2.000 kr

Vel mætt.

sunnudagur, september 02, 2007

Stjórn sambandsins var með vinnufund á Ísafirði á fimmtudag og föstudag. Það var gaman að koma vestur eins og endranær. Flugvélin þurfti að hringsóla í nær klukkutíma yfir inndjúpinu áður en hægt var að skjóta henni niður. Ísafirði var 100% logn svo kaupstaðurinn stóð á höfði í pollinum. Ótrúlega fallegt. Skemmtiferðaskip var í höfninni, eitt af nær 30 sem koma þar við í sumar og skila af sér miklum fjármunum í hafnarsjóð og nær 30.000 manns upp á kæjann í skemmri og lengri skoðunarferðir. Við komumst t.d. ekki út í Vigur vegna umferðar!! Þegar svetiarstjórn og hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hóf að kynna Ísafjörð á söluráðstefnum skemmtiferðaskipa erlendis fyrir um 10 árum síðan var það gagnrýnt harðlega af heimamönnum. Markmið viðkomandi með slíku brasi var af mörgum talið vera það eitt að komast í skemmtiferðir til útlanda. Tíu árum síðar liggur árangurinn fyrir, nær 30 skip komu í sumar og um 30.000 gestir. Það yrði lítið um framfarir og þróun ef úrtöluraddirnar fengju alltaf að ráða.

Eins og oft var farið í skoðunarferð um nágrennið með heimamönnum. Við fórum fyrst inn í Engidal og sáum þar nýopnaða virkjun sem nýtir afl vatnsins sem kemur úr göngunum (um 700 sekúndulítrar). Síðan skoðuðum við fossinn í göngunum og enduðum á því að fara út í sjókvíar í Súðavík. Þar er þorskur alinn í kvíum, bæði klakfiskur og seiði sem veidd eru í Djúpinu. Það stendur til að slátra 500 tonnum úr þessum kvíum á næstunni. Það er álíka magn og meðalvertíðarbátur veiddi hér á árum áður. Þessi fiskur er allur utan kvóta. Fyrirtækin sem standa að þessu líta á kvíaeldið sem helstu framtíðarþróunarmöguleika þeirra vegna þess hve kvótinn er dýr.

Helgin var heldur róleg. Fór Kársneshringinn í morgun og endaði í um 20 km með góðum brekkusprettum. Tók tröppurnar 3svar og endaði á HK brekkunni.

Myndin Fargo var skemmtileg í sjónvarpinu í gærkvöldi eins og við var að búast. Ég hef séð hana áður en hún eldist mjög vel. Karakterarnir eru skemmtilegir og mállýskan sem er töluð á þessu svæði í Canada er sérstök. Þetta langa jaaaaaaaaaa sem er rauður þráður í samtölum fólksins setti sérstakan blæ á myndina. Örþrifaráð bílasalans sem hafði farið yfir mörkin í fjármálunum endaði með 7 líkum.