sunnudagur, janúar 31, 2010

The Rolling Stones - Satisfaction

Svínadalur í Skaftártungu

Það var mikið um að vera hjá krökkunum í íþróttadeildinni um helgina. Jói fór til Vestmannaeyja með Víkingum og fékk sitt fyrsta alvöru tækifæri með meistaraflokki. Þrátt fyrir að þeir töpuðu leiknum naumlega þá var hann sáttur við sinn hlut og vonast til að fá að axla meiri ábyrgð á komandi vikum. Vitaskuld fer það alveg eftir hvernig hann stendur sig og því er það undir honum sjálfum komið hvernig þetta þróast.
María keppti á meistaramóti FRÍ á aldrinum 15-22 ára. Hún er búin að vera aum í ristinni síðan í desember og nær ekki að skila því allra besta. Þetta er bara partur af þessu. Henni gekk annars vel og skilaði silfri eða bronsi í því sem hún tók þátt í. Meistamót Íslands innanhúss er svo um næstu helgi.

Enn eitt slysið varð á Langjökli í gær. Að falla í jökulsprungu er eitt það óttalegasta sem til er. Það væri fróðlegt að sjá yfirlit um öll þau slys og vandræða sem hafa orðið á jöklinum síðan að umferð fór að aukast á honum fyrir tiltölulega fáum árum. vegna lítillar snjókomu í vetur hlýtur snjóþekjan að vera óvanalega þunn á þessum árstíma. Það liggur í augum uppi að það verður að bregðast við þessu á einhvern hátt. Hvað á að gera er ekki gott að segja til um en á vissum svæðum jökulsins er hann stórhættulegur. Sökum óaðgæslu eða ókunnugleika þá fer fólk af öruggu svæðunum yfir á þau hættulegu. Þá gerast slysin. Það er allt ofmikið undir til að til þess bær yfirvöld geti horft á þetta með lokaða auganu.

Ég greip í ársrit Landsbjargar á biðstofu nýlega. Þar var meðal annars birt yfirlit einnar sveitar um þau útköll sem sveitin hafði farið í á síðasta ári. Alls var svetiin kölluð úr sjö sinnum á árinu vegna slysa og óhappa í Esjunni. Fólk er að fara upp klettana við misjafnar aðstæður og svo gerast slysin. Við steininn er ekki skilti eða viðvörun af neinu tagi um að klettarnir geti verið varasamir og sérstaklega í hálku að vetrarlagi. Það ætti ekki að kosta mikið að koma upp einu skilti miðað við hvað öll útköllin kosta.

Ég var að spjalla við einn kunningja minn um Hvannadalshnjúk nýlega. Óhöpp sem ég vissi um í ferðum á fjallið bárust í tal. Þá kom hann með sögu af nýlegri uppákomu í ferð á hnjúkinn þar sem mátti einungis muna hársbreidd að það yrði stórslys. Þegar óvant fólk er á ferð við misjafnar aðstæður er stutt í að menn missi stjórn á ástandinu. Frá þessu er ekki sagt og því er ekkert gert. Það er vonandi að það þurfi ekki stórslys til að farið verði að huga af alvöru að öryggismálum í ferðum á Hvannadalshnjúk. Meðal annars getur þurft að setja reglur þess efnis að það þurfi leyfi til að fara með hópa á hnjúkinn og fararstjórar þurfi að hafa ákveðna lágmarksreynslu og þekkingu í fjallaferðum til að fara með fólk þarna upp.

Ég fór langt bæði í gær og í dag. Þar sem mótið hjá Maríu byrjaði snemma báða morgna þá fór ég þeim mun fyrr út. Það er ekkert vandamál því þá er bara að vakna fyrr. Ég var kominn út kl. 5:30 á laugardag og kl. 6:00 í morgun. Ég er viss um að eftir að ég breytti mataræðinu og hætti að borða draslfæði, kökur, kex, sælgæti og kolvetnafæðu að mestu leyti þ.m.t. lélegt brauð, svo dæmi séu nefnd, þá er orkan meiri og ég hvílist betur á nóttunni. Eftir því sem maður sefur dýpra og hvílist betur þá kemst maður af með minni svefn.

þriðjudagur, janúar 26, 2010

The Rolling Stones - Under My Thumb

Lóuþræll

Það var mikið um að vera á helginni. Ég tók tvö löng hlaup bæði laugardag og sunnudag. Fór snemma út til að vera kominn på plats bæði á laugardag og sunnudag. Jói var að spila með Víkingunum við Selfoss í hádeginu á laugardaginn. Síðan lá leiðin niður í Laugardal því María var að keppa á Stórmóti ÍR. Nú er innanhússvertíðin að hefjast og næstu helgar verða meira og minna undirlagðar undir frjálsíþróttamót. Það er alltaf spennandi þegar uppskerutíminn hefst. Allir eru orðnir ári eldri en í fyrra og margir eru að eflast að styrk og reynslu. Það eru margir flottir krakkar að koma upp úr unglingastarfinu sem verður spennandi að fylgjast með á komandi árum.

Nú er farið að brydda á hugmydnum um að það eigi að skella á þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið um leið og greidd verða atkvæði um Icesave lögin. Ég held að þeim sem svo tala sé ekki sjálfrátt. Það verður ekki sett á þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar með eins og hálfs mánuðar fyrirvara. Um hvað ætti að kjósa? Viltu fyrna kvótann? Hvað þýðir það? Upp úr sumum stendur að það blossi upp gríðarleg óánægja með kvótakerfið um hverjar kosningar. Stenst það? Frjálslyndi flokkurinn sem gerði sérstaklega út á óánægju með kvótakerfið fékk eitthvað um 7,0% atkvæða í næstsíðustu kosningum. Flokkurinn þurrkaðist síðan út í síðustu kosningum. Ekki bendir það til að það hafi verið nein allsherjar hreyfing í þá átt að breyta kvótakerfinu. Vitaskuld eru hnökrar sem þarf að laga s.s. að auka veiðiskyldu. Auðlindaskattur er fyllikega umræðunnar virði. En að líta á alla þá sem gangstera sem hafa verið á einn og annan hátt að koma sér fyrir í atvinnugreinini á liðnum árum og stunda hana af krafti er náttúrulega út í hött. Umræðan um þetta mál er því miður út og suður eins og gerist svo oft hérlendis. Í hvaða átt ætla emnn að fara í þessu máli? Hvaða leið á að velja? Það er grundvallarspurningin.

Á þessum tímum þegar verðmætasköpun og nýsköpun er mikilvægara en aldrei fyrr verður að leita allra leiða. Góðar hugmydnir eru gæddar þeirri náttúru að þær rýrna ekki þótt þeim sé deilt með öðrum heldur vaxa líkurnar á að þær komi að gagni eftir því sem fleiri velta þeim fyrir sér. Ég held að eitt það gagnlegasta sem hið opinbera gæti gert í að hvetja til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar væri að kenna fólki að versla á netinu. Markaðurinn er allur heimurinn. Maður þarf ekki að ná til margra prómilla til að hafa bara ágætis kúnnahóp. Tölvur eru í hvers manns húsi svo ekki vantar tækjakostinn. Ég skoðaði þetta aðeins í fyrra en hef ekki gefið mér tíma til að sökkva mér níður í þetta. ég veit hins vegar að þetta er hægt. Það er dálítið merkilegt að tekjuskattshæsti einstaklingurinná Vestfjörðum sé að selja aðgang að dúkkulísuformum á netinu. Hún þénar meir en aflaskipstjórar. Það á að læra af þessu og virkja fjöldann. Það er alveg á hreinu að út úr því myndnu spretta mörg fín verkefni. það þarf ekki að virkja fallvötn eða menga loft eða lög til að keyra svona verkefni.

fimmtudagur, janúar 21, 2010

Rolling Stones - Jumping Jack Flash

Hrímhringur

Annan leikinn í röð kastaði íslenska handboltlandsliðið frá sér sigri á síðustu sekúndum leiksins. Endirinn á leiknum við Austurríki var því miður eins neyðarlegur og hægt var að hugsa sér. Hann var hins vegar ekki ástæða tapsins heldur afar léleg vörn. Að fá á sig 37 mörk frá ekki sterkara liði en Austurríki er segir allt sem segja þarf. Nú er bara að safna kröftum fyrir danaleikinn á laugardaginn.

Hluti af æfingaprógramminu og uppbyggingunni er hvíldin. Þegar á hólminn er komið verður hungrið að vera til staðar og löngunin eftir að takast á við verkefnið. Ég er ekki þjálfari en miðað við þá reynslu sem ég hef þá hefði ég aldrei farið og spilað á mótinu um helgina, einungis tveimur - þremur dögum áður en EM byrjaði. Síðustu vikuna á að nota til að byggja upp andlega þáttinn, fínisera ýmsa hluti, koma sér á mótsstað og hvíla sig. Sjö dagar skipta engu máli hvað varðar úthald og stífar æfingar en þeir geta skipt máli andlega og líkamlega upp á það að koma fullur af krafti til leiks.

Upplitið á "sérfræðingunum" í sjónvarpssal eftir leikinn var svo aumlegt að það var eiginlega fyndið. Það var eins og heimurinn hefði hrunið ofan á hausinn á þeim. Menn verða nú að halda reisn sinni.

Mér fannst viðtalið við fangelsismálastjórann um daginn út af Litla Hrauni vera hálf svakalegt. Það er bara eins og Hraunið sé hressingarhæli af betri tegundinni nema takmarkanir á útgöngu. Þarna stunda fangarnir kraftlyftingar af miklum móð með allþokkalegu aðgengi að sterum eftir því sem fréttir herma. Ég þekki dæmi þess frá Kaupmannahöfn að því mig minnir að þar hafi veriðs ett takmörk á aðgengi fanga að lyftingagræjum svo þeir gætu ekki pumpað sig upp í eitthvað berserkjaform. Það verður að hugsa um stöðu fangavarðanna í þessu sambandi. Kústskaft væri alveg nóg til að nota í lyftingar. Aðgengi að tölvum hefur verið lítt heft svo þeir geta verið á fullu á Facebook og öðrum samskiptavefjum í allra handa tilgangi. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir þurfi að borga internetaðgengi. Maður talar svo ekki um flatskjái og önnur lífsþægindi. Þetta er náttúrulega ekki hægt eins og fangelsismálastjóri sagði. Ef menn vilja læra þá geta þeir fangarnir lesið bækur. Ef þeir kunna ekki að lesa þá hefur Litla gula hænan alltaf verið gagnleg. Fréttin frá Akureyri er ekki gleymd þegar einhver sýndi stoltur nýkeypta flatskjáina í fangelsinu. Fangelsi er fangelsi en ekki hressingarhæli. Síðan er þarna sístækkandi hópur erlendra stórglæpamanna, meir að segja lögreglumorðingja. Það hlýtur að vera forgangsatriði að ná samningum við heimalönd þessa liðs svo hægt sé að senda þá til síns heima. Ef fangelsin þar eru rottuholur þá er það bara allt í lagi. Að fanginn sjálfur geti haft neitunarvald í því efni er með ólíkindum. Við höfum annað með okkar skattfé að gera um þessar mundir en að halda erlendum glæpamönnum uppi í sus og dus. Það er nóg að eiga við þá innfæddu.

Ég verð að segja að ég skil ekki pointið í fyrnigarleiðinni svokölluðu sem á að innfæra í sjávarútveginn. Hún gengur út á að aflaheimildir fyrirtækja í sjávarverða teknar af fyrirtækjunum, 5% á ári. Það þýðir að tekjumöguleikar þeirra minnka ár frá ári sem getur ekki endað nema með gjaldþroti. Þessum aflaheimildum á síðan að koma til baka eftir ákveðnum reglum. Engin trygging er fyrir hendi að þær lendi á upprunalegum stað. Síðan eru pólitískar úthlutanir ekki akkúrat það sem er heppilegasta fyrir4komulagið. Þeir sem hafa best aðgengi að bankakerfinu hafa besta möguleika til að ná þeim heimildum sem bjóða á út í opnu ferli. Það gerir ekkert annað en að auka kostnað viðkomandi fyrirtækja. Talað hefur verið um að þessi aðferð myndi gera nýliðun auðveldari. Ég sé ekki hvernig nýliðar eigi að geta staðið grónum fyrirtækjum snúning á þessum vettvangi. Menn hafa verið að reka hnýflana í þau fyrirtæki sem eru starfandi og segja að þau hafi fengið kvótann ókeypis. Þau eru þó alla vega starfandi og veita sjómönnum og landverkafólki atvinnu. Hvað vilja menn frekar. Það eru hinir sem hafa selt sig út úr greininni sem eru þeir sem gangrýnin á að beinast að. Þeir eru hins vegar farnir og þá á að taka þá í gegn sem enn eru starfandi því það næst ekki í hina. Ég skil ekki alveg samhengi hlutanna í þessu. Ég heyrði í morgun í útvarpinu klisjuna um kvóteigandann sem býr á Spáni og leigir kvótann. Í fyrsta lagi kollvarpa menn ekki kerfinu í kringum undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar út frá einhevrjum hnökrum. Það má setja undir þennan leka með því að hækka veiðiskylduna á kvótanum. Ef menn nota ekki kvótann getur ríkið innkallað hann og úthlutað honum aftur eða boðið hann upp. Auðlindagjald má leggja á ef samfélagið telur að það fái of lítið í afgjald af auðlindinni. En öllu máli skiptir að það sé ekki verið að rugga bátnum og gera framtíðina óörugga. Það hefur í för með sér að fjárfestingar dragast saman vegna óöruggis um hvert skuli stefnt. Það þýðir hægfara hnignun. Það er vonandi ekki sú framtíð sem bíður sjávarútvegsins. Þjóðin þar á öðru að halda um þessar mundir.

miðvikudagur, janúar 20, 2010

Angie - The Rolling Stones

Björg frá Færeyjum að síga fram úr Fríðu Rún á RIG

Hvað sem öllu líður þá er þó hægt að segja að það hafi lifnað yfir umræðu um stöðu Íslands útaf Icesafe samningnum meðal erlendra þjóða. Allavega eitthvað. Einhver umræða er betri en engin umræða. Mér sýnist eina vörn íslendinga í stöðunni vera sú að þeir eigi ekki að greiða meir en sem nemur sannanlegum skuldbindningum, það er mjög umdeilanlegt hverjar eru sannanlegar skuldbindingar og hlutaðeigandi ríki nýti aflsmunar til að knýja íslendinga til að greiða reikninga sem mjög umdeilanlegt er hvort séu á þeirra ábyrgð. Það má vel vera að íslensk stjónvöld hafi verið pínd til þess í upplausninni mánuðina eftir hrunið til að gangast inn á samninga sem erfitt sé að standa við. en þegar það er gert í þeim tilgangi að halda kerfinu gangandi og forða vöruskorti og stöðvun utanríkisverslunar þá eru það nauðarsamningar og slíkir samningar eru marklausir. IMF er nú komið í hlutverk handrukkarans eins og kom fram í fréttum nýlega. Fulltrúi IMF sagði í fréttum að sjóðurinn hefði ekki neitt það á prjónunum sem gæti flokkast undir þvinganir við Ísland vegna Icesafe málsins en bakhjarlar okkar hafa það sterkar meiningar í þessu efni að það verður að taka tillit til þeirra. "Mér líkar ágætlega við þig en ég verð samt að lemja þig af því húsbóndi minn hefur skipað svo fyrir."

Ég sá viðtal við Tómas Veruson í sjónvarpinu í fyrradag. Þá voru liðin fimmtán ár frá því að snjóflóðin féllu á Súðavík. Tómas fannst eftir að hafa legið sólarhring í rústum hússins og bjargaðist þannig á einstakan hátt. Það voru óskapleg áföll sem riðu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995. Snjóflóð féll á Súðavík í janúar og á Flateyri í október. Tugir manna fórust. Veðrið í Súðavíkurslysinu var óskaplegt sólarhringum saman ofan á allt annað. Við þær aðstæður unnu björgunarmenn við að leita í rústunum. Það getur enginn ímyndað sér hvernig það er nema reyna það sjálfur.

Eddi Grænlandsfari og Ironman er búinn að vera á Haiti með rústabjörgunarsveitinni síðan jarðskjálftinn mikli reið yfir landið fyrir rúmri viku síðan. Ástandið þar er vafalaust engu líkt. Ofan á allt annað virðist landið vera allt að því stjórnlaust. Allur innri struktur er ónýtur. Samfélagið verður lengi að jafna sig ef það gerir það nokkurn tíma. Þegar matar og vatnsskortur bætist við allt annað þá er ekki mikið eftir.

Ég sá nýlega grein eftir norskan mann sem hafði komið í heimsókn í einhver bankann hérlendis á meðan partíið stóð sem hæst. Honum blöskraði eðlilega fíflagangurinn í liðinu. "Láttu okkur vita hvort eitthvað verði til sölu í Noregi, við kaupum það". Það er ekki nema von að eignasafn bankanna hafi verið rýrt ef þetta var mottóið. Allt var keypt, sama við hvaða verði. Í bókinni "Ævintýraeyjan" er því lýst vel hvernig danir göbbuðu Kaupþingsmenn til að borga að því mig minnir einum milljarði danskra króna meir fyrir bankann með því að leika tvemur skjöldum og spila með þá. Það sem er athyglisverðast í þessu að það er eins og bókarhöfundur hafi ekki áttað sig á því þegar hann skrifaði bókina að hann var hafður að fífli. Norðmanninum fannst bankamenn íslenskir vera fyrst og fremst reynslulausir unglingar. Á undanförnum árum hefur verið rekinn harður áróður fyrir því að reynsluleysi væri einn eftirsóknarverðasti eiginleikinn hvort sem heldur væri í viðskiptalífi eða stjórnmálum. Snöggar ákvarðanir, ekkert hangs. Ekki thinker heldur doer. Hver er svo niðurstaðan? Hún blasir við.

Ég hef safnað saman upplýsingum frá öðrum Norðurlandanna að undanförnu um stöðu ofurhlaupa innan íþróttahreyfingarinnar. Ofurhlaupin eru allsstaðar tengd frjálsíþróttasambönunum á einn eða annan hátt. Misjafnt er hve tengslin eru mikil en þau eru allstaðar formleg. Þannig eru ofurhlaup formlegur hluti frjálsíþróttasambandanna en stjórnun og framkvæmd mála er yfirleitt í höndum ofurhlaupara sjálfra. Yfirleitt er það í góðri samvinnu við samböndin. Umræðan annarsstaðar á Norðurlöndum er því komin yfir þann hjalla að menn séu að ræða hvort ofurhlaup séu íþrótt eða ekki. Ársþing FRÍ verður haldið í næsta mánuði. Ég vona að þessi mál verði sett á dagskrá þingsins.

sunnudagur, janúar 17, 2010

Rolling Stones - Honky Tonk Woman (Live in Hyde Park 1969)

Við Hólmfríður Vala ásamt Torfa frumkvöðli

Niðurstöður kosningar um langhlaupara ársins á vegum www.hlaup.is voru birtar í samsæti hjá Torfa Leifssyni í gær. UM 900 manns greiddu atkvæði í netkosningunni eftir því sem Torfi upplýsti. Það er fín þátttaka sem gerir niðurstöðurnar miklu sterkari en ef úrslitin hefðu verið ákveðin að bestu manna yfirsýn. Enda þótt kosningin hafi verið opin þá hafa hlauparar vafalaust verið í miklum meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði. Þeir tíu sem kosið var á milli eru allt eflingsfólk sem sýnir hvað gróskan er mikil í þessari grein íþrótta. Nú veit ég ekki hvort maður má gerast svo djarfur að kalla hlaup af þessari tegund íþrótt, þau gætu verið of löng til að það sé leyfilegt að mati sjálfskipaðra einkaleyfishafa á þeim vettvangi. Geri það samt. Það var mjög ánægjulegt að vera kosinn fremstur meðal jafningja úr þessum hópi því hver og einn þeirra sem tilnefndir voru í netkosninguna hefði verið verðugur fulltrúi hlauparaafreksmanna, hver á sinn hátt. Verðlaunin voru glæsileg, bókin Sex grunaðir, hlaupaskór, peningaverðlaun og flott hlauparastytta. Það er hver fullsæmdur af því að taka á móti þessu sem viðurkenningu fyrir hlaup.
Hólmfríður Vala var valin fremst kvenna eftir að hafa lokið Laugaveginum á frábærum tíma svo eftirminnilega í sumar.

Maður getur ekki annað en verið sáttur við að skrokkurinn haldi vel út til að takast á við þolraunir af þessari tegund ár eftir ár og síðan er það ekki síðra að maður skuli hafa takmarkalausa ánægju af því að leggja það á sig sem þarf til að ná settum markmiðum.

Torfi hefur þarna enn einu sinni sýnt af sér gott frumkvæði í þessum geira. Fram kom á fundinum að hann hefur haldið www.hlaup.is út í þrettán ár. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingur leggi þá fyrirhöfn á sig, meir og minna í sjálfboðavinnu. Með vefnum hefur hann í fyrsta lagi haldið til haga gríðarlegum heimildum um úrslit hlaupa sem ella væru meir eða minna glötuð. Í annan stað hefur vefurinn verið hlaupurum mikill stuðningur til fróðleiks og allra handa samskipta. Hann hefur síðan á seinni árum tekið mikið magn mynda af hlaupurum við ýmis tækifæri sem er enn ein heimildasöfnunin.

Ég er stundum spurður að því hvernig ég hafi tíma til að stunda þær æfingar sem til þarf að halda sér á þokkalegu róli. Það er ekki flókið. Flest styttri hlaup hleyp ég á morgnana fyrir kl. 7:00. Þegar álagið er mest tek ég stutt hlaup í hádeginu og fer þá einnig út á kvöldin. Um helgar tek ég löng hlaup og er þá yfirleitt kominn á fætur fyrir kl. 6:00 og kominn út fyrir 6:30. Ég er þá kominn heim á skikkanlegum tíma eða um 10:00 - 10:30. Þá er dagurinn að fara að snúast hjá öðrum á heimilinu svo þetta harmónerar allt saman. Ég verð að stilla tímann af eftir eigin þörfum og því hleyp ég frekar lítið með öðrum. Reyni þó að hitta Vini Gullu stundum og svo hittast brúarbræður yfirleitt í Fossvogsbotninum á laugardagsmorgnum.

Það er ekki hægt að bera saman árangur í fjallahlaupum / utanvegahlaupum milli einstakra hlaupa. Til þess eru þau allt of ólík enda þótt vegalengdin sé jöfn. Hæðarmunur, landslag og undirlag er allt einstakt í hverju hlaupi. Tímahlaup (6 tíma, 12 tíma, 24 tíma og 48 tíma eru hins vegar sambærileg þar sem þau fara fram á brautum sem verða að standast ákveðna staðla. Því er hægt að bera árangur í þeim saman milli einstaklinga og ára. Mér finnst að okkar öflugu Laugavegshlauparar ættu að hefja strandhögg erlendis í utanvegahlaup til að fá samanburð á getu sína í samkeppni við erlenda hlaupara. Bretland er nærtækast í því sambandi. Þar er mjög mikið líf í utanvegahlaupum og það er tiltölulega einfalt að fara þangað. Einnig er kúrsinn á pundinu einna hagstæðastur sem stendur. Ég var í gær að hvetja Þorberg Jónsson til að fara að skoða þessi mál af alvöru. Ég held að hann sé miklu öflugri utanvegahlaupari en brautarhlaupari. Allavega væri hann frábær brautarhlaupari ef hann væri jafngóður þar og hann var á Laugaveginum í sumar. Ég held að það átti sig fáir á því hvaða afrek hann vann í sumar nema þeir sem hafa hlaupið Laugaveginn.

laugardagur, janúar 16, 2010

the rolling stones heart of stone

2. fl. Víkinga sigraði Val/Þrótt í kvöld

Í nýútkominni Birtu er forseti 100 km félagsins í nokkrum skylmingum við formann íþróttafréttaritara út af þeim áherslum sem íþróttafréttamenn leggja í umfjöllun sinni um það sem þeir skilgreina sem íþróttir. Þarna er einnig vitnað í blogg mitt þar sem ég læt nokkur orð falla eftir að hafa séð annan besta íþróttamann síðasta árs að mati íþróttafréttamanna tjá sig um matar- og drykkjarvenjur sínar í unglingaþætti. Það er fínt að það sé tekið eftir því hvað maður segir í þessum efnum.
Formaður félags íþróttafréttaritara er ekki sammála forseta 100 km félagsins og telur upp nokkur rök í því sambandi. Hann segir meðal annars að ekki þurfi annað en að líta á fjölda iðkenda í hverri íþróttagrein til að sjá hvar landið liggur. Ætli almenningshlaup sé ekki þriðja fjölmennasta íþróttagrein hérlendis. Það hlaupa þúsundir manna á hverjum vetri í Poweratehlaupunum. Það hlaupa þúsundir í Gamlárshlaupinu, Miðnæturhlaupinu og öðrum götuhlaupum. Laugavegurinn er fjölmennasta ofurhlaup á Norðurlöndum og er haldinn undir regnhlíf ÍBR og ÍSI. Áhuginn fyrir Laugaveginum hefur vaxið gríðarlega á síðsutu árum og selst upp í hann á einum sólarhring. Í fyrra nenntu sumir fjölmiðlamenn ekki einu sinni að fletta því upp hverjir voru í öðru og þriðja sæti í hlaupinu. Engum íþróttafréttamanni fannst ástæða að gefa því gaum að Þorbergur Jónsson bætti metið á Laugaveginum um nær 20 mínútur og var það þó gott fyrir. Í Reykjavíkurmaraþoninu tóku um 11,500 manns þátt. Það er fjölmennara en samsvarandi hlaup í Osló. Það var varla hægt að segja að fjölmiðlar minntust á þennan viðburð. Þessi fjöldi virðist skipta þá litlu máli sem taka ákvörðun um hvað eru íþróttir og hvað ekki í umfjöllun fjölmiðla.

Það má spyrja hvort það sé meiri eða sannari íþrótt að hlaupa 100 metra heldur en 100 kílómetra eða 200 kílómetra eða 300 kílómetra. Ég sé í sjálfu sér ekki eðlismun á þessu tvennu utan að annað hlaupið byggir á snerpu og sprengikrafti en hitt á úthaldi og seiglu. Hvorutveggja kostirnir eru góðir. Formaður íþróttafréttamanna segir að sumir dragi línuna kringum það sem fellur innan Íþrótta- og ólympíusambandsins. Það ágæta samband vinnur fínt starf en hvers vegna ætti IAU (International Association of Ultrarunners)að vera ómerkara samband. Það ég best veit er það nær 100 ára gamalt og er viðurkenndur samstarfsaðili Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Hvað mig sjálfan varðar þá þykist ég hafa fengið nokkuð óyggjandi vísbendingar um að hlaup sem eru 100 km og lengri séu ekki talin til íþrótta af íþróttafréttamönnum. Ég var í þriðja og fjórða sæti í opna Danska meistaramótinu í 24 tíma hlaupi á árunum 2007 og 2008. Ég sigraði í alþjóðlegu 48 tíma hlaupi í Danmörku á síðastliðnu ári svo annað dæmi sé tekið. Sá árangur dugði m.a. til 11. sætis á heimsafrekaskrá á síðasta ári. Umfjöllun allra íþróttafréttamanna landsins um þessi þrjú hlaup rúmast á fjórum fersentimetrum á íþróttasíðu Morgunblaðsins. Ég hef aldrei fengið upphringingu eða tölvupóst frá íþróttafréttamanni. Það er langt í frá að það haldi fyrir mér vöku en það er engu að síður staðreynd. Á hinn bóginn eru margir aðrir fjölmiðlamenn áhugasamir um hvað er að gerast á þessum vettvangi og hafa gaman af því að fylgjast með því. Það er vitaskuld ánægjulegt og ber að þakka. Umfjöllun skapar áhuga hjá öðrum og er þeim hvati til frekari áfanga. Umfjöllun fjölmmiðla hefur því verulega þýðingu um þessi mál sem og önnur. Það er hins vegar umhugsunarvert hvers vegna lengd hlaupa virðist hafa áhrif á hvort þau eru metin sem íþrótt eða ekki af íslenskum íþróttafréttamönnum.

Formaður félags íþróttafréttamanna segir að það sé fjallað um frjálsar íþróttir af íþróttafréttamönnum. Það er alveg rétt og þó það nú væri. Íslendingar hafa varla unnið merkari afrek á alþjóðlegum íþróttavettvangi gegnum tíðina en á sviði frjálsra íþrótta. Þar hafa sigrarnir verið hvað stærstir þegar vel hefur gengið. Fámennið hefur þó sín áhrif á hve breiddin er mikil. Nú eigum við þó eina af betri spjótkösturum kvenna í heiminum og efnilegustu sjöþrautarkonu í heimi. Það er ágætur skali að mæla sig á.
Á morgun er haldið eina alþjóðlega frjálsíþróttamót ársins innanhúss, Reykjavík International Games. Þar etur okkar besta frjálsíþróttafólk kappi við erlenda kollega sína. Til að fá beina útsendingu í sjónvarpinu milli 13:00 og 15:00 á morgun þarf FRÍ að greiða RUV nokkra hundraðþúsund kalla fyrir að mæta og sýna frá mótinu. Þetta væri svo sem í lagi ef hið sama gengi yfir alla. RUV greiðir hins vegar stórar fjárhæðir fyrir að fá að sýna beint frá leikjum í handbolta og fótbolta. RUV er ekki einkarekinn fjölmiðill heldur opinber stofnun. Því vekur þetta upp ákveðnar spurningar um áherslur og forgangsröðun og hevrs vegna íþróttagreinum sé mismunað á þannan hátt. Í íþróttafréttum STÖÐ 2 í kvöld voru tvær fréttir um Liverpool en ekki minnst einu orði á RIG, þriggja daga alþjóðlega íþróttahátíð, sem fer fram hérlendis yfir helgina. Mér finnst ósköp eðlilegt að það vakni ýmsar spurningar þegar horft er á þessar áherslur.

þriðjudagur, janúar 12, 2010

The Rolling Stones - Under My Thumb

Félagsfundur 10. janúar

Umræðan um Icesafe samningana hefur tekið nýja og óvænta stefnu eftir að forsetinn neitaði að undirrita lögin sem samþykkt voru þann 30. desember. Umræðan um stöðu Íslands og hvernig hafi átt að þröngva þjóðinni til að taka á sig óbærilegar fjárhagslegar skuldbindingar vegna ástæðna sem vægast sagt mikill vafi leikur á hvort séu yfir höfuð eitthvað á ábyrgð þjóðarinnar. Maður gengur undir manns hönd að tala máli Íslands í virtum erlendum fjölmiðlum (Economist, BBC, CNN, Financial Times). Það setur aftur á móti að manni ugg þegar ráðist er af Íslendingum á suma þessara einstaklinga og reynt að gera eins lítið og hægt er úr máli þeirra. Ég hélt að einstaklingur í nauðum væri þakklátur hverri þeirri aðstoð sem honum væri rétt. Kannske ákveðinn hluti þjóðarinnar sé með álíka hugarfari og Þorgeir Hávarsson sem fyrirgaf fóstbróður sínum, Þormóði Kolbrúnarskáldi, það aldrei að hann skyldi bjarga Þorgeiri af graðhvannarnjólanum í Hornbjargi vestra forðum daga.

Ég var áðan að horfa á spjallþátt í sænska sjónvarpinu þar sem rætt var um Icesafe málið. Þáttastjórnandinn ræddi við tvo Íslendinga og einn Svía. Eini maðurinn sem skýrði almennilega út staðreyndir málsins og lýsti af einhverjum krafti þeirri stöðu sem Íslendingar verða í með samþykkt Icesafe samningsins var Svíinn. Ég hélt að í svona málum væri keyrð ákveðin strategía meðal opinberra talsmanna landsins. Skipulagt væri hvaða staðreyndir yrðu að koma fram hvenær sem menn kæmust í tæri við hljóðnema. Það verður að leggja áherslu á þetta og þetta og þetta. Hvar og hvenær sem er. Þannig er hægt að hafa áhrif á almenningsálit og fjölmiðla. Þannig er hægt að hafa áhrif á stjórnvöld í hverju landi fyrir sig. Þetta heitir að stjórna umræðunni eða alla veg að gera tilraun til þess. Það þýðir lítið að fimbulfamba út og suður meðan jörðin brennur undir fótum okkar. Það er kannske ekki að ástæðulausu að formaður hollenskra sparifjáreigenda segir að hans mat sé að Íslendingar megi skerpa sig verulega í PR málum.

Það var fundur í 100 km félaginu á sunnudaginn. Það voru teknir inn nýir félagar og það var skipt um forseta. Það var ákveðið að halda 100 km hlaup árið 2011 og það var ákveðið að skerpa heldur reglurnar við framkvæmd slíkra hlaupa og færa þær að því sem viðgengst í okkar nágrannalöndum. Það á ekki að gefa neinn afslátt í þessari grein íþrótta frekar en öðrum. Nú eru komnir rétt tæpir 30 hlauparar í félagið og er það ánægjuleg þróun. Marga langar að bætast í hópinn og munu þeir tínast inn einna f öðrum á næstu misserum. Að fara úr maraþonhlaupum yfir í ofurmaraþon er álíka tilfinning og að koma úr búningsklefa inn í íþróttasal. Möguleikarnir virðast óendanlegir, plássið ótakmarkað. Fjölbreytileikinn er svo mikill, ögranirnar svo ólíkar.

sunnudagur, janúar 10, 2010

The Rolling Stones "Satisfaction"

Ungir og upprennandi Ármenningar

Nú fer ég að hætta að skrifa um næstbesta íþróttamann síðasta árs að mati 19 íslendinga en sama er, eitt þarf þó að koma að lokum. Ég sá í gær spjall við hann á Stöð tvo hjá strákunum tveimur Audda og Sveppa. Þeir eru alveg eins og litlir hvolpar í kringum þennan fræga mann sem vafalaust er góður vinur þeirra og allt gott um það. Þeir spurðu hann meðal annars nokkurra hraðaspurninga. Svona lagað er vitaskuld til gamans gert en sama er. Þegar kappinn var spurður um uppáhaldsmatinn sinn þá var það Pizza. Þegar hann var spurður hvað hann drykki á djamminu þá var svarið: Allt með alkóhóli í.
Ég er hræddur um að það hefði verið haldin krísufundur í stjórn frjálsíþróttadeildar Ármanns ef við hefðum horft á okkar frábæru íþróttakonur, Ásdísi Hjálmsdóttur og Helgu Margréti, svara álíka spurningum á þennan hátt. Uppáhaldsmaturinn væri junkfood og á djamminu væri ekkert drukkið sem ekki væri alkóhól í.
Hluti af því að vera hátt skrifaður íþróttamaður og fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum er að vera öðrum fyrirmynd, sérstaklega unglingum. Það fylgir því ábyrgð að vera fyrirmynd unglinga. Ef fyrirmynd og markmið ungra krakka sem stefna að því að komast í fremstu röð í íþróttum sé að geta gúffað í sig draslfæðu að vild og drukkið brennivín þá eru hlutirnir öðruvísi en ég hélt að þeir væru. Svo var grey drengurinn að tauta um að skrokkurinn fitnaði of fljótt og of mikið.

Ég vona bara að annar besti íþróttamaður síðasta árs að mati íþróttafréttamanna nái undirtökum á sjálfum sér aftur.

Það var haldinn uppskeruhátíð hjá frjálsíþróttadeild Ármanns í gær. Iðkendur eru nú a.m.k. helmingi fleiri en þeir voru á sama tíma í fyrra og náðust öll markmið um að fjölga krökkum sem stunda íþróttir hjá deildinni. Starfið gengur vel með áhugasömum krökkum, fínum þjálfurum, duglegum formanni, öflugu foreldrastarfi og frábæru afreksfólki sem er til fyrirmyndar í einu og öllu. Þetta er allt að stefna í rétta átt.

Það var allrar athygli vert að horfa á Silfur Egils í dag. Mér finnst frábært hvað ákvörðun forsetans hefur komið af stað mikilli umræðu erlendis um stöðu landsins gagnvart nýlenduveldunum fornu, Englendingum og Hollendingum í þessu máli. Ég hef í sjálfu sér aldrei skilið hvers vegna venjulegt fólk hérlendis á að standa skil á afleiðingum af gerðum vægt sagt misvitra bankamanna sem kunnu ekki mikið til verka. Eva Joly er orðin einn beittasti málsvari þjóðarinnar í þessu efni. Umræðan um siðblinduna í fréttaaukanum í kvöld var alveg í takt við þessa umræðu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig umræðan þróast á næstu vikum. Það er alveg á hreinu að ef á að kreista þjóðina til hins ítrasta á næstu árum þá verður samfélagið eyðilegt. Það er ekki flóknara.

Tók 30 km á bretti í gær og rúma 30 úti í dag. Þótt það sé skemmtilegra að hlaupa úti þá má venjast hinu. Þetta er allt spurning um vilja.

föstudagur, janúar 08, 2010

Rolling Stones - The Last Time (1965)

Stokkönd að hrista sig

Laugavegurinn fylltist á einum sólarhring. Um 400 manns eru skráðir. Laugavegurinn er þannig örugglega fjölmennasta ofurhlaup á Norðurlöndum. Í Lidingoloppet í Svíþjóð eru rúmlega 300 þátttakendur. Þetta er ekki frétt hjá íslenskum íþróttafréttamönnum. Í bréfi sem Gísli Ásgeirsson hefur undir höndum frá íþróttadeild RUV er farið háðulegum orðum um Laugavegshlaupið. Þar er að sögn Gísla talað um "miðaldra fólk á rölti um hálendið" og hlaupið lagt til jafns við gönguferð um Hornstrandir.

Ég held að það sé ekkert annað að gera í þessu máli en að bjóða Útvarpsstjóra frímiða í Laugavegshlaupið fyrir íþróttadeildina komplett og láta þá leggja af stað með því fororði að þeir sem ná ekki í mark undir sex tímum þurfi ekki að mæta aftur til vinnu í Efstaleitið. Ætli það væru ekki ýmsir farnir að svitna þegar kæmi að Kápunni?

Ég hef ekki séð álíka umræðu um niðurstöðurnar í kjöri á íþróttamanni ársins eins og nú. Sérstaklega eru margir undrandi á því hver valinn var í annað sæti. Einnig er áberandi hve skakkt hlutfallið er á milli boltagreina og annarra íþróttagreina. Besti spjótkastari kvenna á Norðurlöndum í fyrra fær t.d. einungis 12 stig af 380 mögulegum. Spurningar vakna um hvort núverandi fyrirkomulag á kjöri íþróttamanns ársins sé verjanlegt. Eru þeir 19 íþróttafréttamenn sem starfa á fjölmiðlum réttur þverskurður þjóðarinnar í þessu efni? Ég held ekki.

Ég horfði á fyrri hluta myndarinnar "Guð blessi Ísland" eða hvað hún hét myndin sem avr sýnd í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum. Ég gafst upp um miðbik hennar. Mér fannst hún einfaldlega léleg og alls ekki þess virði að sýna hana í sjónvarpinu. Vörubílstjórinn og ljóshærða konan voru alls ekki dæmigerðir íslendingar sem höfðu orðið illa í efnahagshruninu. Margt kom þarna fram sem manni fannst tóm vitleysa. Mér finnst að það verði að gera greinarmun á því fólki sem hefur verið skynsamt í fjárfestingum en verður fyrir áföllum vegna atvinnumissis eða annarra hluta sem það ræður ekki við til viðbótar við minnkandi kaupmátt og hækkandi lán eða áhættufíkla sem spenna bogann til hins ítrasta í góðærinu með hyperlántökum og mega svo ekki við að eitt eða neitt breytist til his verra.

Ég sá í dag viðtal við forseta vorn á Bloomberg á youtube. Kallinn kom vel út. Þetta er það sem íslendinga hefur vantað. Umræðu um sjónarmið hins venjulega fólks. Hverju það skilar er erfitt að segja en það gerir varla illt verra.

fimmtudagur, janúar 07, 2010

Rolling Stones - Paint it black

Lundi á Látrabjargi

Maður sveiflast upp og niður eins og tuska á snúru í Icesafe málinu. Annan daginn skilur maður hvorki upp né niður hvers vegna forsetinn neitar að skrifa undir lög Alþingis, hinn daginn sýnist manni að þetta sé mjög djúphugsuð og snjöll flétta til að koma umræðunni um Icesafe málið og viðskipti Íslands við Breta og Hollendinga í heimsfréttirnar. Það hefur allavega tekist. Forsetinn átti fínan sprett í BBC í gær. Hann svararði spyrjandanum fullum hálsi og sagði m.a. að Bretar skildu ekki virkt lýðræði. Það er náttúrulega þessu hlutur sem hefur verið gjörsamlega vanræktur af stjórnvöldum á liðnum misserum. Það hefur ekki verið haldið uppi neinni vörn af hálfu íslenskra stjórnvalda á erlendum vettvangi. "Maybe I should have" sagði Geirharður. Jóhanna hefur varla farið út fyrir landssteinana nema á þessa fáránlegu ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Hollendingar og Bretar virtu bréf frá henni ekki viðlits og svöruðu eftir dúk og disk með dónaskap. Kannski var þetta eina leiðin úr því sem komið var að vera bara hortugur. Láta gömul nýlenduveldi standa fyrir máli sínu um hvort þær meðhöndli smáþjóð öðru vísi en stærri þjóðir. Láta ESB standa frammi fyrir rökræðum um hvort Íslendingar eigi að gjalda þess að regluverk ESB hafi verið meingallað. Í svona máli þýðir ekki að leggjast á bakið og gefast upp heldur verða stjórnvöld að berjast hús úr húsi. Slagurinn stendur um framtíð þjóðarinnar. Slagurinn stendur um hvort hægt sé að gera börnum okkar kleyft að hafa möguleika á að lifa hérlendis í framtíðinni. Kannski ætti að fara í heimsókn til Finna og fá innsýn í hernaðarstrategíu þeirra þegar þeir börðust við Rússa í seinni heimsstyrjöldinni.

Ástmögur þjóðarinnar skoraði mark í gær. Að vísu var það í æfingaleik gegn frönsku fimmtudeildarliði en sama er, mark var það. Þess var vandlega getið í öllum íþróttafréttum dagsins. Myndband með markinu var aðgengilegt á netmiðlum eins og um hefði verið að ræða mark sem hefði ráðið úrslitum í frönsku bikarkeppninni. Þetta er svona svipað og sagt hefði verið frá því með stórum stöfum og miklum fögnuði ef Ólafur Stefánsson hefði skorað 2-3 mörk í æfingaleik með liði sínu gegn fimmtudeildarliði í þýsku deildinni eða Þóra Helgadóttir hefði varið tvo-þrjá bolta í æfingaleik við lið frá Fittulla sem spilar í sænsku fimmtudeildinni. Ég held að það hefði ekki þótt fréttnæmt. Þetta segir kannski svolítið um stöðu annars besta íþróttamanns landsins og knattspyrnumanns ársins.

Ég ætla ekki að hlaupa Laugaveginn í sumar. Þess í stað ætla ég að fara vestur á firði og taka þátt í Óshlíðarhlaupinu og Vesturgötunni. Það er til skammar að hafa aldrei drifið sig vestur og tekið þátt í þessum hlaupum. Nú eru þau á norðanverðum Vestfjörðum búin að setja upp fína hlaupahelgi um miðjan júlí. Þá er náttúrulega bara að drífa sig vestur, hlaupa, sósíalera og taka myndir.

þriðjudagur, janúar 05, 2010

Rolling Stones - Sympathy for the Devil

Margæsir á Álftanesi

Eins og Ólafur Stefánsson á fyllilega skilið að vera valinn íþróttamaður ársins með öllum greiddum atkvæðum þá skil ég ekki hvers vegna annað sætið er skipað eins og það er. Maðurinn var á launaskrá hjá Barcelona framan af árinu og kom inn á í örfáum leikjum. Hann var síðan seldur til Frakklands og er metinn sem annað af tveimur mestu floppum í frönsku knattspyrnunni á síðari hluta ársins. Afrek hans með landsliðinu á árinu verða ekki skráð á spjöld sögunnar. Ef þetta er nóg til að vera talinn annar besti íþróttamaður landsins þá það en ekki er markið sett hátt. Hvers eiga hinir að gjalda sem eru í fremstu röð á sínum vettvangi. Spyr sá sem ekki veit.

Hans Byrén setti sænskt met í 24 tíma hlaupi á hlaupabretti á síðasta sólarhring með því að hlaupa 181 km. Gamla metið var 180 km. Norræna metið er 193 km. Þetta er ekki óyfirstíganlegt. Ég lauk 100 km á 10 klst og 20 mín. Þá hefði ég átt 13 klst og 40 mín til að ljúka 81 km. Það eru rétt rúmir sex km á klst. Góður gönguhraði er um 4.5 - 5 km á klst. Þetta þarf að skoðast betur.

Forseti þjóðarinnar reit nafn sitt á spjöld sögunnar í dag við mismiklar vinsældir þegar hann hélt ræðu á Bessastöðum í morgun. Ég var á móti því að hann væri að skipta sér af fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma og ég er enn á móti því að forsetinnsé að hrifsa til sín vald sem hann er ekki kosinn til að hafa. Hvað Icesafe samninginn sjálfann er margt hægt að segja, þetta er orðin hin ótrúlegasta saga því miður. Ég ætla ekki að fjölyrða um það en tvennt í ræðu forsetans sem hann færði sem rökstuðning fyrir afstöðu sinni fannst mér vera fyrir utan og ofan allt. Í fyrsta lagi sagði hann að meirihluti þingmanna væri fyrir því að leggja málið í þjóðaratkvæði. Svo allt sé á hreinu þá voru greidd atkvæði á Alþingi um það nú fyrir nokkrum dögum hvort ætti að leggja málið undir þjóðaratkvæði. Það var fellt. Ef einhverjir þingmenn sem greiddu atkvæði á móti tillögunni hafa síðan verið að væla utan í forsetanum um að þeir hafi greitt atkvæði á móti sannfæringu sinni eða eitthvað í þá áttina þá á náttúrulega ekki að hlusta á svoleiðis lagað. Slíkir einstaklingar ættu að snúa sér að einhverju öðru en þingmennsku. Í öðru lagi sagði forsetinn að meirihluti þjóðarinnar væri fyrir því að leggja málið fyrir þjóðaratkvæði. Undirskriftasöfnun sem telur 25% þjóðarinnar er ekki meirihluti þjóðarinnar heldur mikill minnihluti. Í öðru lagi má spyrja eiga þeir sem ákvarðanir taka ætíð og eilíflega að taka afstöðu eftir niðurstöðu skoðanakannana. Ef svo er þá höfum við ekkert með þingmenn eða forseta að gera heldur mun Gallup bara sjá um málið fyrir okkur.

Ég skráði mig í 48 tíma hlaupið á Borgundarhólmi á öðrum í nýju ári. Ég held að ég eigi eitthvað inni þar ef allt gengur upp. Betri skór og jafnara hlaup eiga að skila fleiri kílómetrum en ég náði í fyrra. Ég gerði þau mistök á síðasta ári að nota skó sem ég var ekki búinn að fullreyna á löngum hlaupum. Þeir skiluðu blöðrum og hásinarnuddi sem olli ákveðnum erfiðleikum. Síðan þá er ég mestan part búinn að hlaupa á Asics Nimbus skóm sem hafa reynst mér ákaflega vel. Ég tími varla að henda þeim enda þótt þeir séu komnir langt fram yfir 1000 km markið sem ég hef notað nokkuð skipulega.

mánudagur, janúar 04, 2010

The Rolling Stones-Paint it Black

Ásdís Hjálmsdóttir setur íslandsmet í spjótkasti

Tveir svíar hafa síðasta sólarhringinn verið að keppa að því að ná metum í 24 tíma hlaupi og 48 tíma hlaupi á hlaupabretti. Valdimar Andersen byrjaði að hlaupa í gærmorgun. hann ætlaði að hlaupa í 48 tíma og endurheimta norðurlandametið í 48 tíma hlaupi á bretti. Hann setti norðurlandamet í hitteðfyrra en þá hljóp hann 277 km á 48 tímum. Stefan Lindvall frá Gautaborg, sem ég keppti við á Borgunarhólmi sl. vor, bætti um betur í fyrra og hljóp 297 km sl. vetur. Heimsmetið á Írinn Tony Magdan en hann hljóp 402,22 km árið 2008. Valdimar hætti hlaupinu nú síðdegis eftir 33 klst en þá hafði hann náð 197 km. Hann var um 12,5 klst að hlaupa fyrstu 100 km.

Hans Byrén hóf 24 tíma hlaupið í morgun. Hann hefur nú hlaupið í 13 klst og hefur á þeim tíma náð að fara 114 klst. Hann var 11 klst að hlaupa fyrstu 100 km. Hann ætlar að fyrst og fremst að bæta sænska metið sem er 180 km og fer mjög líklega nokkuð létt með það. Markmiðið er þó að fara yfir 200 km á 24 klst. Norðurlandametið í 24 klst hlaupi á bretti á norðmaðurinn Lars Sætran en það er 193,08. Heimsmetið í 24 tíma hlaupi á bretti á Bandaríkjamaðurinn Christopher Bergland en hann hljóp 247,45 km árið 2004.

föstudagur, janúar 01, 2010

Twisted Sisters I saw mama kissing Santa Claus

Úr Trékyllisvík

Gamlárshlaupið í gær var fínt. Það er sérstök stemming að hitta stóran fjölda vina og kunninga á gamlársdag og ljúka hlaupaárinu á þennan hátt. Gamlárshlaupið hefur sprungið út með hvelli eins og flest önnur almenningshlaup og nú voru það rétt tæpir 900 hundruð hlauparar sem hlupu 10 km sér til ánægjuauka í blíðunni í gær. Allt fór hið besta fram. Veðrið prýðilegt og aðstæður góðar. Ég var aftarlega í startinu og gekk mestan part niður að þinghús en þá fór maður að geta keyrt sig upp. Ég hef ekki hlaupið 10 km hlaup síðan á gamlársdag í fyrra svo það er ekki að búast við miklum afrekum.

Á undanförnum árum hafa vaxandi efasemdir byggst upp hjá mér um tilverurétt áramótaskaupsins. Það virðist ekki alveg vera samhengi á milli þess að Spaugstofan setji upp 20 mín. revíu í viku hverri þar sem púlsinn er tekinn á málefnum stundarinnar, oft á listilegan hátt, og þess að setja margra mánaða vinnu og mikla fjármuni í rétt helmingi lengri revíu sem oft hefur verið bæði húmorslaus og leiðinleg. Stundum hefur maður ekki nennt að horfa á hana til enda. Nú var frá fyrstu mínútu sleginn sá strengur að það var hvergi gefið eftir. Revían var botnstaðin út í gegn og engum hlíft. Vitaskuld hlutu hin stóru mál að vera í forgrunni en ekki einhver aulalegur lókal fjölmiðlahúmor eins oft hefur tröllriðið áramótaskaupinu á liðnum árum. Mér er til efs að nokkur þjóðhöfðingi hins vestræna heims hafi fengið aðra eins útreið í uppgjöri ársins eins og forsetinn fékk í áramótaskaupinu í gærkvöldi og mér er einnig til efs að nokkur þjóð í hinum vestræna heimi hafi verið eins sammála um að hann hafi átt það skilið sem hann fékk yfir sig. Góður húmor þarf ekki mikinn tíma til að hann hitti í mark. Það sást í gærkvöldi. Ég trúi að margt hafi bitið. Senan þar sem fyrsta uppkast Icesave samningsins var rætt yfir laglegum frúkost var t.d. óborganleg. Svo var gefin skotheld uppskrift af því hvað þarf til að ná árangri í hlaupum. Ef einhver er með reiða þjóð á hælunum þá er hlaupið hratt.

Við sáum myndina "Bjarnfreðarson" milli hátíðanna. Það er óhætt að mæla með henni. Þar fer allt saman, fínt handrit, góðir leikarar og frábær leikstjórn. Útkoman getur ekki klikkað. Í þessari seríu hefur tekist að skapa svo trúverðugar persónur að manni skyldi ekki bregða ef þeir væru komnir inn á kjörskrá við sveitarstjórnarkosningar í vor, jafnvel í framboði. Myndin er þannig frábrugðin seríunum að í henni er kafað niður í ýmsa hluti í fortíðinni sem skýra vel út ástæður fyrir einu og öðru í nútiðinni. Aðfangadagskvöldið í myndinni er t.d. eftirminnilegt. Þótt manni þyki það fljótt á litið vera ýkt paródía og öfgakennd þá veit ég til þess að álíka jól voru haldin hérlendis fyrir ekki afskaplega mörgum árum þar sem allt var gert til að draga úr hátíðastemmingunni hjá börnunum og innprenta þeim að jólin væru enn ein lymskuaðferð auðvaldsins til að skjóta rótum. Maður sér svo sem af og til merki um þessa öfgahugsun enn í dag. Nú fyrir jólin kom það t.d. fram í blaðagreinum að það mætti ekki lesa jólaguðspjallið fyrir krakkana í einhverjum leikskólum. Ég er ekkert sérstaklega trúrækinn maður en ég man vel eftir þeirri stemmingu sem öll umgjörð jólanna skapaði þegar maður var að alast upp. Það er bara synd ef börn nútímans fara á mis við hana út af einhverjum öfgum.