sunnudagur, maí 31, 2009

Yesterday The Beatles

Lómur að taka upp

Þegar tekist er á við ultrahlaup þá byggist árangur í þeim upp á þremur megin þáttum. Þeir eru æfingar, andlegur agi og mataræði. Allt þetta verður að spila saman til að ná árangri. Æfingar eru undirstaða árangurs, það þarf aga til að fara í gegnum nauðsynlegt æfingaprógramm og næringin þarf að vera í lagi til að æfingarskili sér. Ég hafði ekkert hugað sérstaklega að næringarþættinum þar til fyrir tiltölulega stuttu nema með þetta hefðbundna, gel og Carbó loade ofan á venjulegan mat. Carbó loadið datt þó fljótlega út. Ég hef aldrei carbólódað síðan í Western States eftir að það hélt fyrir mér vöku nóttina fyrir hlaupið. Ég las eftir Rune Larsson að carbo Loade dugar ekki nema í 3-4 tíma og í hlaupi sem tekur hálfan, heilan eða þaðan af lengri tíma þá hefur það ekkert að segja. Gerir jafnvel verr en ekki. Ég fór síðan að borða mjög vel fyrir löng hlaup, helst kjöt og fisk. Ég fann að það gerði mér gott og orkan hélst lengur. Maður heldur henni ekki uppi langtímum saman í gegnum brauð og sælgæti. Síðan náði ég upp á enn einn hjallann í þróunarbrautinni þegar ég fór að nota próteinduft. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að nokkrar matskeiðar af dufti með ákveðnu millibili héldu manni gangandi einn til tvo sólarhringa. Ég hef fyrst og fremst notað Herbalife prótein. Ég veit ekkert hvort það er það besta en það hefur alla vega reynst mér vel. Ég byrjaði aðnota það fyrir tæpum tveimur árum og þá fyrst og fremst í tengslum við langar æfingar. Ég get fullyrt það að það gerir mér kleyft að þola mun meira æfingaálag en fyrr því betra næringarástand á skrokknum gerir það að verkum að hann er betur búinn til að standast áreynslu og er fljótari að jafna sig. Ég fæ mér alltaf tvær góðar matskeiðar út í tæpan hálfan líter af mjólk eða djús áður en ég fer í tveggja tíma hlaup eða lengri. Þegar ég kem heim fæ ég mér svo sama skammt nema bæti við einni skeið af recoverydufti. Þetta fæ ég mér strax og ég kem inn, áður en ég fer í sturtu. Ég prufaði Herbalifið í 24 tíma hlaupinu í fyrra. Í upphafi lagði ég út með að fá mér hálfan líter á fimm tíma fresti. Ég fann að það var of langur tími svo ég stytti hann í þrjá tíma. Það hentar mér vel. Tuttuguogfjögurratíma hlaupið í fyrra gekk vel svo ég ákvað að nota þessa formúlu áfram. Ég fór Laugaveginn og Fimmvörðuháls í júlí í fyrra og notaði einvörðungu Herbalifeblönduna á ca 13-14 tíma ferð. Ég notaði hana einnig í tvöföldu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu. Sama var uppi á teningunum í Haustlitahlaupinu, 2 x 65 km í Barðastrandarsýslum í ágústlok. Síðan kom aðal prófraunin, Spartathlonhlaupið sem tók rúma 34 klst. Þar gekk allt upp eins og best var á kosið. Í vetur notaði ég Herbalife við allar lengri æfingar eins og ég hef lýst. Í 48 tíma hlaupinu um síðustu helgi notaði e´g það alfarin nema ca síðsutu sex klukkutímana. Þá fór ég að halda fram hjá því, fyrst og fremst til að fá smá tilbreytingu fyrir bragðlaukana. Ég áttaði mig á því að orkan seig niður smátt og smátt en þegar ég fékk mér góðan hristing um klukkutíma fyrir hlaupalok, þá streymdi ný orka um fæturnar.
Ég tel mig því ekki þurfa meir vitnanna við hvað mig varðar um hvaða næring hentar mér best sem undirstaða við mikið æfingaálag og sem grunnnæring í löngum hlaupum. Maginn getur verið viðkvæmur undir miklu álagi. Eins kostar það meiri orku að melta fasta fæðu heldur en uppleysta. Næringin er því forsenda þess að aðrir þættir skili þeim árangri sem að er stefnt.

Allir sem vilja vita eiga að þekkja til hvernig heimsvaldastefna Maós hefur leikið Tíbeta í rúm 60 ár. Markvisst hefur hið volduga Kína stefnt að því að eyða einkennum Tíbet sem þjóðar og innlima það að fullu sem hérað í Kína. Við gætum sjálfa okkur séð í þeirra sporum ef Danir hefðu t.d. leikið sama leikinn hérlendis. Þegar ríkisstjórn Íslands varð fyrst þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna þá sást hvaða áhrif smáþjóð getur haft. Mér finnst það vægast sagt snautlegt að enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar skuli geta gefið sér tíma til að hitta Daili Lama, sameiningartákn Tíbeta, þegar hann kemur hingað. Að maður tali nú ekki um forsetann, þann mikla friðarpostula. Smáþjóð á að standa með undirokaðri smáþjóð. Það bætir stöðuna ekkert þótt einhver ráðherranna segist ætla að kaupa sig inn á samkomuna í Laugardalshöllinni. Skömmin er kannski einmitt þess meiri.

laugardagur, maí 30, 2009

And Your Bird Can Sing - Beatles

Gurli, Hannah og Tine urðu í þrem efstu sætum í 48 tíma hlaupi kvenna

Evrópumeistaramótið í 24 tíma hlaupi var haldið í Bergamó á Ítalíu í byrjun maí. Ég hafði velt fyrir mér að taka þátt í því en valdi 48 tíma hlaupið á Borgundarhólmi í staðinn, sem reyndist rétt val. Það var töluvert heitt yfir daginn í Bergamó sem reyndist nokkrum erfitt. Henrik Olsson frá Svíþjóð varð Evrópumeistari og hljóp hann 257 km. Það er mjög vel gert. Ég rakst á frásögn eftir hann af hlaupinu.
Hann æfði á eftirfarabndi hátt frá áramótum:

Mánudagur: hvíld
Þriðjudagur: Tveggja tíma rólegt hlaup
Miðvikudagur: Klukkutímahlaup á góðum hraða, gjarna utanvega
Fimmtudagur: Tveggja tíma rólegt hlaup
Föstudagur: Hvíld
Laugardagur: Klukkutímahlaup á góðum hraða
Sunnudagur: Þriggja til sex tíma hlaup á 24 tíma hlaups hraða(tæpum 6 mím á km).

Til viðbótar tók hann dálitlar styrktaræfingar á efri hluta líkamans þá daga sem hann hvíldi. Hann tók sex tíma hlaup aðra hverja viku en langt hlaup hina vikuna. Það er vafalaust gott að blanda svona saman hröðum ene kki löngum hlaupum með löngun frekar hægum hlaupum. Það gefur breytilega þjálfuns em fær allt til að smella saman í góðu úthaldi. Þessu prógrammi hélt hann frá janúar fram í apríl sem gerði það að verkum að hann var í betri æfingu en nokkru sinni fyrr þega rleið á vorið. Það er án efa gott að blanda kerfisbundið saman löngum hlaupum og nokkuð hröðum hlaupum.

Í Bergamó hljóp hann mjög skipulega. Hann var aftarlega til að byrja með, byrjaði snemma að ganga aðeins en hélt hraðanum mjög vel út í gegnum hlaupið. Hann gekk frá upphafi fimm mínútur af hverjum klukkutíma. Hann var með aðstoðarfólk með sér sem sá til þess að allt var til reiðu og hann þurfti aldrei að stoppa til að græja eitthvað upp á eigin spýtur. Það er náttúrulega mjög mikill munur að þurfa aldrei að leita í poka að fötum eða öðru, hafa til mat eða næringu heldur að fá allt upp í hendurnar og geta einbeitt sér að því að hlaupa. Ein mínúta fjórða hvern hring er klukkutími. Það gerir allt að ca 10 km. Drykkjarstöðvarnar í Spartathlon hlaupinu voru 78. Ef maður stoppaði eina mínútu á hverri drykkjarstöð í óþarfa þá væru það 78 mínútur. Það er dálítið mikið í hlaupi þar sem rúmur helmingur hlauparanna kemur inn á seinasta klukkutímanum.

föstudagur, maí 29, 2009

I'm down The Beatles

Tjaldið sem hlaupið var í gegnum

Ég las tvær bækur í ferðinni út. Það er gott að nota tímann í flugvélum og flugstöðvum til að lesa bækur. Fyrri bókin var seinna bindi sögu Eldeyjar Hjalta. Það er mögnuð saga sem Guðmundur Hagalín skráði. Þetta eru bara nöfn fyrir flesta en bak við þá báða er mikil saga. Annars vegar sem skrásetjara og hins vegar saga fátæklings sem reis upp og varð þjóðhetja sem skráði nafn sitt á spjöld sögunnar. Hjalti var alinn upp á venjulegu sveitaheimili austur í Skaftafellssýslu en eftir að faðir hans dó var heimilið leyst upp og honum komið í vist hjá vægt sagt vondu fólki (alla vega var kellingin það). Sem dæmi um aðbúnaðinn þá stækkaði hann ekkert í fjögur eða fimm ár frá 12 ára aldri til 17-18 ára. Þrátt fyrir að vera hálfdrepinn oftar en einu sinni úr vosbúð og vondum aðbúnaði þá slökknaði aldrei á honum og skapið var óbugað. Hann komst síðan til Vestmannaeyja og þar fór hann að hjarna við. Þar var nóg pláss fyrir kröftuga stráka sem vildu spjara sig. Hann flutti svo í Garðinn og síðar til Reykjavíkur. Hjalti var ótrúlegur klettamaður og vann sér það til frægðar að klifra Eldey fyrstur manna. Það hefur ekki verið einfalt, sérstaklega þar sem bergið slúttir fram yfir sig á kafla. Hann var ætíð síðar kenndur við þá frægðarför. Hjalti varð síðar umsvifamikill skipstjóri og útgerðarmaður og græddist fé. Á efri árum vann hann við kaupsýslu og fór víða um lönd í verslunarerindum, bæði til að kaupa skip eða láta smíða þau svo og í tengslæum við fyrirtækið Kol og Salt. Þetta e rmögnuð saga um mann sem reis úr sárri fátækt, styrktist við hverja raun en var alltaf með báða fætur á jörðinni. Honum þótti ekki mikið á sínum bestu árum að standa tvo sólarhringa í brúnni þegar mikið lá við. Hann gleymdi aldrei uppruna sínum og lagði hendi þar sem slíkt átti við. Meðal annars greiddi hann götu ungs drengs norðan úr Hælavík sem hafði löngun til að mennta sig með þvi að útvega honum stöðuga vinnu. Það var ekki sjálfgefið á þessum árum. Þessi drengur úr Hælavíkinni var Þórleifur Bjarnason námsstjóri sem skrifaði m.a. hina merku Hornstrendingabók.

Seinni bókin var Draumalandið eftir Andra Snæ. Ég var sáttari við hana eftir lesturinn nú en í fyrra þegar ég las hana enda þótt ég sé jafn ósáttur við fortíðarþrá hans til landbúnaðarins eins og hann birtist. Ég þekki hann mæta vel af eigin raun og þarf ekki að láta segja mér neitt í þeim efnum. Þetta var stanslaust puð til að tryggja skepnunum nóg fóður og alltaf sömu áhyggjurnar yfir því að nægt heyr væri í hlöðunni. Það var ekki fyrr en vélarnar komu að þetta fór að vera áhyggjuminna. Enda þótt Andra Snæ hafi þótt gaman að heimsækja afa sinn norður á Melrakkasléttu þá held ég að hann hafi ekki nokkurt einasta vit á því hvað hann er að tala um í þessum efnum. Á hinn bóginn get ég tekið undir margt annað sem hann er að fjalla um. Meðal annars er skírskotun hans til píramídanna áhugaverð. Einn píramídi kallaði á annan. Eru virkjanafjárfestingar meðal annars knúðar áfram af hagsmunum fyrirtækja sem eru sérhæfðar í stórum verkum. Hvað gerist ef þau fá ekki vinnu við hæfi? Fer þá allt uppíloft? Mér finnast þessar spekulationir eiga fullan rétt á sér? Hvað skila þeir gríðarlegu fjármunir sem settir eru í stóriðju mörgum ársverkum. Munu samsvarandi fjármunir skila fleiri ársverkum á einhvern annan hátt í einhverjum öðrum verkum. Það er áhugavert að velta fyrir sér á hverju danir lifa í auðlindalausu landi. Þeir eiga að vísu gott land og frjósamt en þar fyrir utan er það einungis hyggjuvitið sem fæðir þá og klæðir. Íslendingar hafa lengst af einbeitt sér að því að böðlast áfram beint af augum. Fyrst í fiskinum og nú í virkjunum en hafa varla litið til hægri né vinstri eftir öðrum valkostum. "Hvað er hægt að vera að dútla við þetta grefils fitl í sólskininu?" sagði Jón sterki á grasafjallinu.

Ástríður Pétursdóttir hélt útskriftarveislu frá MR í dag. Hún flutti inn á hæðina fyrir neðan okkur í Huldulandinu forðum daga með fjölskyldu sinni rétt eins árs gömul. Þær systurnar og strákarnir okkar voru og eru jafnaldra. Ofan í kaupið eigum við Ástríður sama afmælisdag. Við höfum haldið góðum kunningsskap við fjölskyldu hennar síðan í þá góðu daga í Huldulandinu. Í sumar vinnur Jói hjá pabba hennar norður í Mývatnssveit. Ástríður stefnir á brattann og ætlar að þreyta inntökupróf í læknisfræðina innan skamms.

While My Guitar Gently Weeps - George Harrison

Kim útdeilir verðlaunum og hressingu með aðstoðarfólki sínu

Ég er að vera fínn í hlaupasettinu. Ég er mest ánægður með að allt sem máli skiptir hélt 100%, vöðvar, sinar, liðamót og fótleggir. Hnáeymslin sem voru að plaga mig í maíbyrjun eru alveg horfin. Engin eymsli eða eftirköst í öklum eða hnjám. Engir strengir í vöðvum. Maður þarf að læra aðeins betur hvernig á að hantera blöðrur. Ég las hjá evrópuhlaupurunum að svíinn Andreas Falk hafði stúderað sérstaklega á netinu hvernig ætti að taka á þeim ef og þegar þær láta sjá sig.

Það virkar mjög yfirdrifið að hlaupa á kílómeters hring í tvo sólarhringa en það er með þetta eins og svo margt annað, þetta er bara verkefni. Maður skipuleggur það út í ystu æsar, hlutar það sundur í undirverkefni og lætur það þróast eftir ákveðinni áætlun. Það er ákveðinn stígandi í sumum þáttum en dregið úr öðrum eftir því sem tíminn líður. Næringin er tekin inn eftir ákveðnu kerfi og hvíldin er einnig sett upp í kerfi. Maður hefur fata- og skóskipti eftir ákveðnu kerfi. Þannig mætti áfram telja. Þetta er lykillinn að því að láta svona hluti ganga þokkalega upp.

Ég held að þessi vegalengd sem ég náði að fara væri næstlengsta 48 tíma hlaup gegnum tíðina í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég veit ekki alveg hve langt finnarnir hafa hlaupið í svona hlaupi. Í fyrra hefði ég endað í 14 sæti á heimslistanum af þeim ca 230 hlaupurum sem hlupu svona hlaup á árinu 2008 og í efsta sæti í aldursflokknum 55 ára og eldri.

Kærar þakkir aftur fyrir allar góðar kveður. Það er gaman að finna að það er lifandi áhugi fyrir svona hlutum sem vonandi hvetur fólk til dáða á ýmsan hátt.

Iron Maiden - Run to the Hills

Verðlaunaafhending fyrir 48 tíma hlaup (Juha, ég og Stefan)

þriðjudagur, maí 26, 2009

Ég hef hlaupið fjórum sinnum á Borgundarhólmi. Í öll skiptin hefur hellirignt annað hvort daginn áður en hlaupið byrjaði eða daginn eftir að því lauk. Nú kom rigningin kvöldið áður. Ég var nýkominn í hús á sumarhúsahverfinu í Galökken þegar byrjaði að hellirigna og það var alvöru rigning. Eldingarnar dönsuðu í skýjunum og þrumurnar hömruðu á þakinu. Glamparnir voru enn á gluggunum þegar ég sofnaði. Maður vonaði bara það besta fyrir morgundaginn. Þá hafði skipt um og komið dæmigert íslenskt vorveður, um 10°C hiti, sólfar og golukaldi. Ég rölti niður í bæ á föstudagsmorguninn og keypti mér morgunmat og síðan fylgdi rauðvín og bjórdollur með með sem gott var að hafa í farteskinu um sunnudagskvöldið. Kim var á fullu við að gera klárt ásamt fleirum og ýmsir lausir endar sem þurfti að hnýta. Þetta var í annað skiptið sem 48 tíma hlaup er haldið á þessari braut en 24 tíma hlaupið hefur verið haldið nokkrum sinnum áður. Kim er mikill hlaupari. Við vorum herbergisfélagar í Spörtu í haust og síðan hlupum við báðir Western States árið 2005. Hann hefur einnig lokið Badwater sem er eitt það aldjöfullegasta hlaup sem um getur. Ég borðaði vel og fór síðan að gera mig kláran. Það er alltaf ákveðin spenna í þessum fasa, hefur maður gleymt einhverju, mun eitthvað koma upp á, hvernig er maður undirbúinn? Ég hafði hlaupið frekar lítið í maí mánuði til að fá smá álagsmeiðsli í hnénu góð. Ég fann ekki annað en að það væri allt orðið gott en það kæmi í ljós hvort það væri rétt mat.

Í markinu voru keppendur að safnast saman. Ég þekkti ekki marga en þó var heimakonan Gurli Hansen þarna en ég hljóp nokkuð lengi með henni fyrir fimm árum þegar ég fór mitt fyrsta 100 km hlaup á Borgundarhólmi. Hún leiðbeindi mér þá um ýmislegt og gaf góð ráð. Nú var hún að fara í 48 tíma hlaup í fyrsta sinn. Hún hafði undirbúið sig vel yfir veturinn og meðal annars vaknað fyrir vinnu flesta morgna til að hlaupa. Einnig hafði hún tapað nokkrum kílóum. Það gerir allt léttara. KG Nyström var einnig þarna. Hann er fullorðinn svíi um sjötugt sem hefur tekið þátt í fleiri hundrað ultrahlaupum. Í fyrra tók hann þátt í 14 hlaupum og fór að jafnaði yfir 200 km í þeim, þrátt fyrir að hafa hækjur með. Hann segir að kerfið ætli honum frekar pláss í hjólastól en á hlaupabraut en KG er þrjóskur og þver. Stór svíi heilsaði mér. Þar var kominn Stefan Lindvall en hann hafði m.a. tekið þátt í Spartathlon í fyrra og hitteðfyrra en ekki náð að klára í hvorugt skiptið. Hann setti sænskt met í 48 tíma hlaupi á hlaupabretti í vetur og hljóp þá 291 km. Hann lauk Marathon de Sables hlaupinu árið 2005. Einnig var þarna finnsk kona sem hafði verið áður í 24 tímum sem ég kannaðist við í sjón. Svo þekkti ég finnskan hlaupara sem hafði lokið Spartathlon tvisvar.
Ég ætlaði að leggja út á svipaðan hátt og áður. Hlaupa fyrstu þrjá tímana, fara þá að ganga spöl á hverjum hring og lengja það síðan eftir 12 tíma. Ég vissi að ef maður fer of skarpt út í svona löngu hlaupi getur það komið í bakið á manni þegar á líður. Þetta er því hárfínn línudans ef hámarksárangur á að nást. Ég setti mér að ná 180 km fyrri sólarhringinn og samtals yfir 300 km í heildina. Sæti í hlaupinu skipti miklu minna máli og ég gerði mér engar sérstakar væntingar í þá áttina. Þó hafði ég séð á yfirliti yfir fyrri hlaup þáttakenda að ég átti ágætis lista miðað við ýmsa aðra.
Maður var vel klæddur í síðum buxum, langerma peysu og blússu. Það var ekki hlýtt. Mér fannst ég vera hálf stirður fyrstu klukkutímana eftir að hlaupið hófst. Líklega komu þar fram frekar lítil hlaup síðustu vikurnar. Eftir nokkra klukkutíma fór skrokkurinn allur að liðkast og maður varð sáttari við sjálfan sig. Ég hélt hraða sem svaraði 10 km á klukkutíma sem þykir ekki mikið í skemmri hlaupum en ég vissi að því myndi maður ekki halda mikið yfir hálfan sólarhring í svona löngu hlaupi. Eftir þrjá klukkutíma fór ég að ganga rúma 100 metra á hverjum hring. Þrátt fyrir það datt dampurinn ekkert niður en það fór betur með fæturnar. Yfirlit um heildarvegalngd hvers hlaupara var hengt upp strax eftir hvern klukkkutíma svo maður fylgdist mjög vel með hvernig hlaupið gekk fyrir sig. Ég var lengi framan af í 5-6 sæti og var bara sáttur við það. Stefán hinn sænski tók strax forystuna og ég sá að hann myndi skrefa drjúgt ef ekkert kæmi upp á. Ég kláraði 60 km á um sex tímum og 100 km á eitthvað yfir 10 klst og var mjög sáttur við það. Það var eiginlega betra en ég hafði búist við. Var ég kannski að fara of hratt? Ég ákvað að hægja enn meira á mér eftir 12 tíma og fór að ganga lengra á hverjum hring. Á þessum tíma fór þó strax að bera á einhverju sem ég átti ekki von á. Ég fékk stærðar blöðru á milli tánna. Það hafði ég aldrei fengið áður. Ég plástaði tána og skipti um skó og sokka. Einnig fór klofsæri að gera vart við sig. Það er ekki þægilegt. Maður drakk mikið og svitnaði því mikið. Kannski hefði ég átt að fara í hitaæfingar eins og fyrir Spartathlon. Þetta var ekki alltof gott því það voru 36 klst eftir.
Tíminn leið frekar fljótt og nóttin datt á á ellefta tímanum. Ég drakk Herbalife prótein blöndu á þriggja klukkutíma fresti og það virkaði fínt eins og í fyrri hlaupum. Orkan var í fínu standi. Annað borðaði ég ekki nema bita af Löparlarssons orkubitum af og til. Annars var nóg að borða af hálfu hlaupsins en það freistaði mín ekki. Kökur, kex og sælgæti eru ekki minn pakki. Ekki heldur franskbrauð. Rúsínur eru ekki góðar því þeim fylgir mikill vindgangur. Bananar eru hins vegar í lagi. Um nóttina fór að bera á öðrum vandræðum. Ég hafði fundið fyrir smá nuddi á hásinina á vinstri fætinum en uggði ekki að mér. Þegar ég skoðaði svo fótinn þá var hann orðinn nokkuð bólginn. Ekki vissi það á gott. Nú voru góð ráð dýr. Ég skar skóinn niður að aftan og það lagaði nuddið en skaðinn var skeður. Bólgin hásin er ekki skemmtileg í löngum hlaupum.

Tíminn leið og planið hélt þrátt fyrir einar og aðrar uppákomur með blöðrur og skafsár. Ég þreifaði mig áfram með buxur næst mér og fann loks þær sem særðu mig minnst. Á slaginu hálf fimm vöknuðu allir fuglar skógarins og morgunskíman varð stærri og stærri. Sólin kom upp um kl. hálf sjö og þá fór allt að verða skemmtilegra. Reyndar fannst manni að fyrri sólarhringurinn hefði liðið ótrúlega fljótt. Það er allt svo afstætt. 24 tíma hlaup er ekki langt miðað við 48 tíma. Það er hins vegar langt miðað við 100 km eða maraþon. Við Stefán náðum vel saman, skokkuðum oft saman og spjölluðum margt. Með tímanum hafði ég þokast upp röðina og varð orðinn í 2. sæti þegar þarna var komið. Nokkrir voru hins vegar skammt á eftir og ég vissi ekki alveg hverjir það voru. Þegar leið nær hádegi sá ég að 180 km markið myndi náðst mjög auðveldlega. Þrátt fyrir ákveðnar heitstrenginar um að taka því rólega þegar því væri náð og fram að hádegi þá gerði maður það náttúrulega ekki. Þegar klukkutími var eftir var ég kominn vel yfir 190 km. Því sá ég allt í einu fram á að komast yfir 200 km markið á fyrri sólarhringnum. Stefán var þegar öruggur með það. Tvö hundruð km á 24 tímum er draumamarkið og það hljóp því í mig einhver kraftur sem ég vissi ekki að ég hefði til. Eymslin hurfu og ég náði níu hringjum á síðasta klukkutímanum og fór vel yfir 200 km. Það var miklu meira en ég átti von á áður. En þetta kostaði dálítið. Ég þurfti að taka töluverðan tíma í að skvera fótunum í lag því blöðrunum hafði fjölgað við tiltækið og einnig stirnuðu fæturnir fljótt eftir svona hrossaálag að afloknu 23 klst hlaupi (og aðrir 24 eftir). Ég fór því rólega næstu þrjá klukkutímana til að láta fæturna jafna sig og ná jafnvægi. Síðan gekk allt betur. Á þessum tíma fór aftur á móti að draga af Stefáni. Hann hafði fengið álagsmeiðsli í vinstri fótinn og fór að ganga meir en áður. Það dró því saman með okkur smátt og smátt. Ég varaði mig þó á því að fyllast einhverju bráðakappi því það gæti komið mér í koll siðar. Á hinn bóginn hafði bilið í þriðja manninn lengst og var um 30 km eftir sólarhring. Enn vissi ég ekki hver hann var en hann var finnskur eftir nafninu að dæma. Klukkutímarnir liðu smám saman án þess að vandræðin jykjust nema að blöðrurnar voru ekki til að flýta fyrir manni. Þeim fjölgaði meðal annars af því að til að hlífa hásinareymslunum þá hljóp maður með öðrum hreyfingum en vanalega. Það setti álag á nýja staði og það var ávísun á fleiri blöðrur. Undir miðnættið sögðu starfsmenn mér að ég væri kominn fram úr Stefáni og kominn með forystu. Á sama tíma sá ég að ég þyrfti að safna mér aðeins betur saman. Ég fann að ég var orðinn aðeins ringlaður og jafnvægisskynið ekki upp á það besta. Ekki væri gott að rjúka flatur út í skóg. Ég sagði því til með að ég þyrfti að leggja mig smá stund hvað sem öllum sætum liði. Þarna voru til staðar tjöld og dýnur sem sumir notuðu sér ótæpilega. Ég stakk mér niður í svefnpoka og bað um 30 mínútur. Maður fór úr hundblautum fötunum og hlýnaði fljótt. Þó var langt í frá að ég gæti sofnað. Eftir hálftíma var ýtt við mér eins og ég bað um. Það var ekki beint þægilegt að tína á sig rennblaut og ísköld fötin en það var ekkert annað í stöðunni. Maður skalf eins og hundur en vaknaði þó alla vega almennilega. Svo skrefaði maður af stað og liðkaðist fljótt. Ég sá að þetta hafði ekki haft mikið að segja hvað röðina varðaði. Stefán hafði þó náð mér en finninn lagt sig eins og ég. Ég fór töluvert hraðar yfir en Stefán og náði þannig forystu fljótlega aftur. Á fjórða tímanum sótti allt í sama farið aftur með hausinn og þá bað ég um teppi, vafði því utan um mig og lagðist út af um stund í grasið við hliðinu á tjaldinu. Ekki náði ég að sofna en var miklu brattari þegr ég fór aftur af stað og nú var orðið stutt í birtuna. Finninn hafði heldur nálgast og ég bjóst við að hann ætlaði sér að smjúga aftan að okkur ef við hefðum farið of hratt af stað. Ég var heldur fljótari á hlaupum en hann en hann hljóp oftar. Ég fór eitt sinn fram úr honum sem oftar. Vanalega hafði hann ekki skipt sér að því en nú reyndi hann að hanga. Þá það, þá skyldum við bara láta á það reyna hvor héldi lengur út. Ég hljóp því nokkra hringi með finnann á hælunum þar til hann gaf sig. Það skiptir ekki öllu máli hvað þú ert heldur hvað aðrir halda að þú sért. Eftir þetta fannst mér hann verða afslappaðri og einbeitti sér líklega að því að ná vel yfir 300 km og halda þriðja sætinu með sóma. Við spjölluðum töluvert saman eftir þetta og þetta var vitaskuld viðmótsþýður og fínn drengur. Maður brýtur oft ísinn í svona samskiptum með því að hrósa fólki fyrir góða frammistöðu. Allir eru í sama bátnum í svona dæmi.
Þegar 42 klst voru liðnar þá var forystan orðin það góð að ég fór að einbeita mér að þvi að halda henni örugglega án þess að leggja of mikið á fæturnar. Ég gekk því kraftgöngu síðustu sex tímana. Bæði var hásinin orðin þannig að hlaup voru ekki það sem menn langaði mest í og einnig fjölgaði blöðrunum frekar en hitt. Ég sá að ég færi vel yfir 300 km þannig að því markmiði var náð. Sigur í hlaupinu væri því óvæntur bónus.
Þegar fór að líða á hlaupið fór ég að borða meir af borðinu þar sem mótshaldarar lögðu fram veitingar. Rúnnstykki, pasta og pizzur. Ég gerði það fyrst og fremst til að halda lystinni almennilega í gangi því það er svolítið leiðigjarnt að borða alltaf það sama í nær tvo sólarhringa. Smám saman fór ég að taka eftir því að hraðinn fór minnkandi. Bensíntankurinn var að tæmast því þessi matur (ef mat skyldi kalla) gaf manni einfaldlega ekki næga orku. Þegar tæpur klukkutími var eftir fékk ég mér því góðan próteindrykk á nýjan leik. Það var eins og við manninn mælt. Orkan kom aftur á svipstundu og ég gekk létt og greiðlega síðustu hringina þar til niðurtalningin byrjaði kl. 12.00. Það var ánægjuleg tilfinning að setjast niður á stól og vita að þessu mikla hlaupi væri lokið með öruggum sigri. Það var meira en ég hafði einu sinni hugsað um sem möguleika. Vegalengdin fyrri sólarhringinn hefði dugað í fjórða sæti í 24 tíma hlaupinu ef ég hefði tekið einvörðungu þátt í því. Að hlaupinu loknu var létt yfir hópnum. Það var nauðsynlegt að fara strax í þurr föt því maður hríðskalf frá hvirfli til ilja þegar hreyfingunni sleppti. Það var ánægjulegt að ná settu marki og að ekkert slæmt hafði komið upp á. Blöðrur jafna sig á nokkrum dögum en það tekur langan tíma að jafna sig á vonbrigðum yfir því ef maður hefði gert einhverjar megin vitleysur eða undirbúið sig ver en maður hefði getað gert.

Við hlaupalok tilkynnti Kim að næsta ár yrði sex daga hlaupi bætt við. Það er bara þannig. Góður svefn gerir oft lítið úr miklum heitstrenginum um að gera eitthvað aldrei aftur.

Þegar maður fer yfir hlaupið þá var ýmislegt sem maður hefði getað gert betur og er til að læra af því.
1. Líklega hefði verið skynsamlegt að fara í nokkrar hitaæfingar til að ræsa svitakerfið almennilega. Ég var ekki sáttur við hvað ég svitnaði mikið og þurfti því mikið að drekka.
2. Ég varð var við óvanalega mikla bjúgmyndun bæði á höndum og fótum. Ég er ekki vanur því. Ég tók dálítið af söltum sem líklega hefur ekki verið snjallt. Þau binda vökvann í skrokknum.
3. Ég hafði í athugunarleysi reimað skóna of þétt að framan. Það olli blöðrumyndun milli tánna.
4. Ég hafði ekki hlaupið skóna nógu vel til sem ég notaði. Það ásamt bjúgmynduninni gerði það að verkum að hásinin fór að nuddast.
5. Án þess að það kæmi að sök þá reyndi ég það svo áþrifanlega að það borgar sig ekki að svindla á næringunni. Herbalifið er einfaldlega fínn næringargjafi í svona hlaupum og það er engin ástæða til að halda fram hjá því.
6. Ég þarf að gera eitthvað róttækt í nærbuxnamálum. Maður á að forðast bómull eins og pestina.
7. Ég fékk ábendingu um að smyrsli sem notuð eru á smábörn séu miklu betri en vaselínið við svona aðstæður. Þarf að reyna að nálgast það.
Takk fyrir góðar kveðjur, kæru ættingjar og vinir. Þetta var gaman og gekk allt upp eins og best var á kosið. Reyni að koma saman frásögn af túrnum sem fyrst.

miðvikudagur, maí 20, 2009

Elvis Presley Jailhouse Rock

Álft á flugi

Í dag var eitt og annað athyglisvert í fréttum. Fyrsta frétt ríkissjónvarpsins var mikil andarteppufrétt um misræmi í kynjahlutföllum í nefndum alþingis. Það þótti sérstakleg aámælisvert hve fáar konur væru í fjárlaganefnd. Ég hélt í fáfræði minni að flokkarnir veldu það eftir reynslu og hæfni viðkomandi í hvaða nefnd sérhver þingmaður tekur sæti. Er það endilega sjálfsagt að það sé markmið næúmer eitt við skipan í nefndir að kynjahlutföll séu sem jöfnust? Hvernig á að standa að því? Eiga formennirnir að setjast yfir málið og skáka einstaklingum til og frá þannig að jafnstaða náist. Skiptir þá litlu máli þótt einstaklingur með sérþekkingu verði að víkja úr nefnd til að kynjahlutfallið jafnist. Mér sýnist að svo sé samkvæmt þessu. Nokkur hópur kvenna hélt daginn hátiðlegan vegna góðs árangurs kvenna í nýliðnum alþingiskosningum. Er það sjálfsagður hlutur að fagna því sem sérstökum sigri kvenna að kynjahlutföll jafnist. Getur það ekki alveg eins verið jafn sigur karla og kvenna? Eða ef maður lítur á hina hliðina, eiga karlar að fagna því sem sérstökum sigri karla ef konum fækkar á Alþingi? Samkvæmt hátíðahöldunum í dag þá er það ekki órökrétt. Mér sýnist svona afstaða vera að kynda undir átök milli kynjanna en ekki samstöðu þeirra.

Í viðtali við forstöðumanneskju hátíðarinnar í Iðnó kom fram hjá henni að sá árangur sem hafi náðst í jafnréttismálum sé fyrst og fremst til kominn vegna órofa samstöðu kvenna. Þetta er fráleit söguskoðun. Kvennalistinn náði aldrei neinu flugi. Hann komst hæst í tæp 10% í alþingiskosningum. Listann kusu karlar ekki síður en konur. Hann lognaðist síðan útaf. Margar konur litu kvennalistann og málflutning hans hornauga, vægt sagt.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti árið 1980 þá kaus fólk hana fyrst og fremst vegna þess að hún var frábær einstaklingur. Konur jafnt og karlar.

Ég verð að segja að mér finnst margt fréttnæmara nú dag frá degi heldur en hvert sé kynjahlutfallið í nefndum Alþingis.

Það veltur á ýmsu hjá evrópuhlaupurunum. Þeir koma til Svíþjóðar á föstudaginn. Þá er hlaupið rétt hálfnað. Mánuður búinn og rúmur mánuður eftir. Svíarnir hafa þurft að ganga tvo síðustu dagana. Þeir máttu hafa sig allan við í gær. Rúmir 70 km á 11 klst að hámarki. Ef það tækist ekki þá voru þeir dottnir út. Það hafðist með 10 mínútna mun. Það eru tæpir tuttugu dottnir út. Nú er álagið fariuð að segja til sín.

Ég fer út í fyrramálið. Hlaupið hefst á hádegi á föstudag og lýkur á hádegi á sunnudegi. Þetta verður erfitt en ætti að takast. Ég ætla að leggja það út þannig að fara rúma 180 km á fyrri sólarhringnum og fara síðan það langt á þeim seinni að ég nái yfir 300 km. Það á að takast ef ekkert sérstakt kemur upp á. Það spáir heldur vel. Það verður þurrt, bjart og gola en ekki sérstaklega hlýtt. Svona 12-14 gráður. Á nóttunni verður heldur kalt. Brautin er heldur styttri en áður. Hún er 1064 metrar. Skipt verður um átt á sex tíma fresti.

Á þessum slóðum er hægt að fylgjast með hlaupinu:

Der vil være løbende resultatformidlimg på følgende link
http://easy.katana3.dk/katana/event.ctrl?cmd=result&event=841521803

Deltagerliste med startnumre kan ses på
http://easy.katana3.dk/katana/event.ctrl?cmd=startList&event=841521803

Þetta verður spennandi.

The Rolling Stones-Sympathy For The Devil

Maríuerla að skoða sig um

Ég fór austur í Friðland í Flóa í gærkvöldi að skoða og mynda fugla. Það er alltaf jafn gaman að koma þarna, ganga um, setjast niður á tjarnarbakka og stúdera fuglana. Þeir eru mjög spakir þarna nema fjárans endurnar. Það má ekki renna á þær auga úr mikilli fjarlægð, þá er eins og sé verið að skjóta á þær. Lómurinn, óðinshaninn og jaðrakaninn eru hins vegar hundspakir. Ég sá sæsvölu við Ölfusárbrúna. AÐ vísu úr nokkurri fjarlægð út um bílglugga en sama er, sæsvala var það. Ég hitti tvo karla frá Eyrarbakka um helgina sem sögðu mér af henni og svo sá ég hana í gær. Hún heldur fyrst og fremst til úti í Eyjum en flækingar koma upp á land einstaka sinnum. Ég er að lesa æfisögu EldeyjarHjalta sem Jói gaf mér. Þegar hann er ungur maður úti í Eyjum var voru allar klær hafðar úti við að ná sér í smá pening. Meðal annars gaf eggjasöfnun svolitla aura. Egg sæsvölunnar voru verðmætust því þau voru sjaldgæfust.

Ég hlustaði á hluta af umræðunum á Alþingi þegar ég var fyrir austan eða lestur heimastila eins og þessi dagskrárliður er oft nefndur. Einstaka maður flytur mál sitt blaðalaust og er það vel. Mér finnst að það sé lágmark að menn reyni að láta svo líta út sem þeir flytji ræðurnar en lesi þær ekki upp. Sá ræðumaður hefur miklu meiri sannfæringarkraft sem flytur ræðuna heldur en sá sem les hana upp. Ég hef ekki heyrt það áður í svona umræðum að einstakir stjórnarþingmenn vaði efnislega í forsætisráðherrann. Það ber nýrra við ef það á að vera plagsiður. Annað hvort vinna menn saman og afgreiða ágreining baksviðs eða ekki. Ég veit ekki hvort þetta sé hið nýja Ísland.

Það er svakalegt að horfa upp á hvert stórfyrirtækið falla í fang ríkisins á fætur öðru. Það getur ekki verið atvinnulífinu hollt að ríkið sé að verða æ stærri eigandi og ábyrgðaraðili á vinnumarkaði. Það verður fróðlegt að sá áætlun um hvernig á að vinna sig út úr þessu.

Maður heyrir alltaf af og til málsmetandi einstaklinga tala um að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sé hið versta fyrirbæri og hann sé fyrst og fremst að þjálfa sig í fantabrögðum á íslensku þjóðlífi. Því sé skynsamlegast að slíta öllu samstarfi við hann og taka lán hjá vinum og kunningjum. Fagmenn sem maður treystir segjast síðan aldrei hafa heyrt aðra eins vitleysu. Við eigum engan góðan leik í stöðunni og hver leikur miðast við þá kastþröng sem við erum í. AGS er nokkurskonar eftirlitsnefnd sem veitir fyrirgreiðslu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Honum er meðal annars kennt um að vextir lækki ekki hraðar en raun ber vitni. Ef þróun vaxta og gengis eru borin saman þá kemur í ljós að gengi krónunnar hefur hrokkið niður í hvert sinn sem vextir hafa lækkað. Því eru menn hræddir við að lækka vexti hraðar því það hafi áhrif á gengi krónunnar sem aftur á móti hefur áhrif á verðlag innflutnings, þróun gengistryggðra lána og verðbólgustig. Það er vandrataður meðalvegurinn.

mánudagur, maí 18, 2009

Megas : Í bljúgri bæn

Jaðrakan í Friðlandinu

Silfur Egils hefur batnað mikið eftir að hann hætti að fylla það af "wanna be" pólitíkusum. Nú er frekar rætt við fólk sem kemur héðan og þaðan og hefur margháttaða þekkingu og reynslu. Það voru athyglisverðar umræður í dag um ýmsar grunnstærðir sem liggja fyrir í stórum dráttum þegar lagst er yfir þær. Hækkanir fjárlaga á síðustu árum, niðurskurðarþörfin, hvaða skatta á að hækka og hvað mikið til að loka fjárlagagatinu og svo framvegis. Mér fanns tviðtalið við Jóhannes Bjrön einnig vera áhugavert. Ég keypti bókina hans "Falið vald" fyrir um þremur áratugum. Nú er búið að gefa hana út aftur. Hún er klassísk. Jóhannes Björn kemur orðum að því sem hann er spurður að á mjög einfaldan og auðskiljanlegan hátt. Það var mjög merkilegt sem hann sagði um orkumálin í framtíðinni. Örfáar grundvallarákvarðanir geta ráðið úrslitum um hvernig samfélagi við lifum í á komandi áratugum og búum afkomendum okkar.
Maður er orðin hálfhugsi yfir því hvert er umræðuefnið í fjölmiðlum. Það er fjasað um minniháttar mál en stóru málin eru einhversstaðar úti í móa. Hverjar eru staðreyndir í Byr málinu? Mér finnst full ástæða til að krefjast þess að það sé brotið til mergjar. Er verið að færa einhverjum gæðingum á annað tug milljarða á silfurfati úr mínum vösumog annarra álíka? Ég las allrar athyglivert blogg eftir Jón Sullenberger um málið. Maður óttast mest að það leggist einhver doði yfir samfélagið svo það verði eitthvað gert sem ekki verður tekið eftir og ekki verður aftur tekið. Íslenska skítaklíkusamfélagið lifir nefnilega góðu lífi ennþá.

Fór í fuglaskoðunarferð út á Álftanes í kvöld í óskaplega fallegu veðri. Góður kíkir og góð myndavél njóta sín vel á svona stundum.

sunnudagur, maí 17, 2009

CCR Midnight Special

Íslandsmetkast Ásdísar

Ég vaknaði snemma í morgun (eða seint í nótt) og fór austur í Friðland í Flóa til að taka myndir af fuglum. Var kominn austur um 5.30. Þá var sólin komin upp og allt í gangi. Friðlandið er magnaður staður sem maður þarf að kynna sér vel. Ég var að snudda þarna í svona þrjá klukkutíma. Það er alltaf eitthvað að gerast á svona svæði. Fuglarnir eru bardúsa eit og annað, abbast hver upp á annan, verja sig, sofa, liggja á eggjum, gogga í sig fæðu eða bara að spá í tilveruna. Endurnar eru sumar svo ljónstyggar að það má ekki horfa á þær svo þær séu ekki roknar á meðan aðrir láta sér í léttu rúmi liggja þótt maður sé að taka af þeim myndir.

JJ mótið var haldið á Laugardalsvelli í dag. Fyrsta utanhússmót í frjálsum á árinu sem Ármann stendur fyrir á árinu. Frábært veður. Ásdís Hjálmsdóttir gerði sér lítið fyrir og setti íslandsmet í spjótkasti. Hún er mögnuð og góð fyrirmynd. Hún ætlar sér stóra hluti á komandi árum.

Það var gaman að fylgjast með talningunni í Eurovisionkeppnini í kvöld. Það kom snemma í ljós að Ísland átti alla möguleika á að verða í einum af efstu sætunum. Með hjálp Norðmanna smeygði Jóhanna sér upp í 2. sætið í loka umferðinni. Frábær árangur og kannski stærri en menn skynja í fljótu bragði. Það hlýtur að vera eitthvað varið í lag sem austurblokkinni líkar komplett. ekki búum við út um allt eins og Tyrkir t.d.. Norðmenn eiga allan sóma af því að vinna og forða okkur frá því að þurfa að halda þessa keppni.

föstudagur, maí 15, 2009

Bob Dylan Blowin' In the Wind

Upphafsstafir Guðmundar Kola klappaðir í stein

Ég fór austur á Seyðisfjörð í morgun að spjalla við ausfirska skólastjóra. Það var sumarlegt fyrir austan sólfar og hlýtt. Að vísu er gróður styttra á veg kominn þar en syðra en það breytist fljótt. Það var fínt að sitja úti á stétt á Hótel Öldunni á Seyðisfirði í kaffinu eftir fundinn og spjalla. Hýtt, sól og logn. Þetta er í annað skipti sem ég kem til Seyðisfjarðar. Ég kom þangað fyrst gangandi frá Borgarfirði eystra árið 2000.

Í dag er vinnuhjúaskildagur. Það er löngu gleymdur dagur sem hefur verið haldið alltof lítið á lofti. Mér fyndist það ekki vera ofverk Alþýðusambandsins að minnast hans með einhverjum. Bændasamtökin mættu einnig kom að því. Vinnuhjúaskildaginn var eini dagur ársins sem vinnuhjú máttu skipta um vist. Ef vinnuhjú var veikt þennan dag þá gat það etið sig inn í vistina og varð þá að vera í vistinni næsta ár þótt það þvert á móti vilja sínum. Á þessum tíma var það ólöglegt og saknæmt að vera ekki ráðinn í vinnu. Lausamennska og flakk var talið lögbrot. Einstaka efnaðir einstaklingar úr hópi vinnufólks gátu keypt sér lausamennskubréf sem þýddi það að það réði sér sjálft og þurfti ekki að vera fastráðið á einhverjum bæ. Ég leitaði að upplýsingum um þennan dag á netinu en fann hvergi neinar handfastar upplýsingar um hvenær þetta ákvæði var afnumið með lögum. jafnvel er því haldið fram að það hafi aldrei verið formlega gert heldur hafi vinnuhjúaskildaginn horfið svona smám saman.

Í Danmörku er talað um Stambåndsdagen en það er hliðstæður dagur og vinnuhjúaskildagi. Stambåndet (vistabandið) var afnumið með lögum fyrir rúmum 200 árum. Ég man eftir því að í kringum 1990 voru mikil hátíðahöld í Danmörku þar sem afnámi stambåndsins var minnst. Alþýðusambandið og bændasamtökin stóðu fyrir þessum hátíðahöldum. Eini dagurinn sem minnst er hélendis vegna þess að þá náðust aukin mannréttindi er dagurinn sem konur fengu kosningarétt. Mér finnst að afnám vinnuhjúaskildagans og þau tímamót þegar fátækt fólk fékk almennt fullan og óskoraðan kosningarétt séu ekki síðri tímamót og beri því ekki síður að halda minningu þeirra daga lifandi.

Tók létt hlaup í kvöld. Nú heldur maður sér bara mjúkum fram í næstu viku. Ég fann ekki annað en að allt sé í lagi.

miðvikudagur, maí 13, 2009

The Doors - Love Me Two Times

Þjófadalir

Ég sá nýlega andlátsfregn manns sem ég þekkti svolítið fyrir margt löngu fyrir vestan. Hann var nokkrum árum yngri en ég. Hann glataði 35 árum æfi sinnar vegna þess að hann verslaði við sölumenn dauðans. Þegar sölumennirnir eða flutningamenn eru staðnir að verki og byrja að væla þá eru það aðrir en ég sem vorkenni þeim. Jafnvel þótt þeir séu að eigin mati ekki þær týpur sem eiga að sitja í steininum.

Umræðan um tannvernd er dálítið athyglisverð. Tannlæknar höfðu í annað skipti á skömmum tíma ókeypis móttöku fyrir krakka og unglinga. Sú sjón sem mætti tannlæknunum var skelfileg. Skemmdar og brunnar tennur út um allt. En hvernig er umræðan. Jú, hún byrjar náttúrulega strax að snúast um að hið opinbera geri of lítið. Ábyrgðinni er skellt á ríkið. Af hverju er ekki rætt við foreldrana um sykurátið og gosdrykkjaþambið? Af hverju er ekki rætt við foreldrana um hvort þeir hafi ekki heyrt minnst á tannbursta? Það skal enginn segja mér að það sé svo dýrt að fara með krakkana í skoðun hjá tannlækni einu sinni til tvisvar á aári að fólk hafi ekkie fni á því. Það er náttúrulega dýrt þegar allt er komið í steik, það er allt annað mál. En hvers vegna fer allt í steik? Er það hugsunarleysi, vankunnátta, kæruleysi eða sofandaháttur? Það er alla vega ekki normalt að láta hlutina fara á þann veg sem myndir eru sýndar af hjá ungum krökkum. Mér finnst tannhirða hjá börnum vera nokkursskonar mælikvarði á ákveðinn menningarstandard. Ég er ekkert að draga úr því að ríkið komi inn í greiðslu á tannlæknakostnaði hjá börnum og unglingum en það er ekki hægt að láta alla ábyrgðina á þessum málum hvíla á herðum þess.

Þegar maður var að alast upp úti á landi fyrir nokkrum áratugum voru aðstæður allt aðrar. Það kom kannski tannlæknir í plássin einu sinni á ári og gerði við. Eftir því sem tannlæknar segja mér þá voru þessir farandverkamenn oft þeir sem áttu erfitt í samkeppninni á höfuðborgarvæðínu ýmissa hluta vegna. Þeir fóru hins vegar um landið og sinntu ákveðinni bráðaþjónustu. Mín reynsla af þeim var að handverkið var lélegt. Ég kynntist ekki almennilegum tannlæknum fyrr en ég flutti til Svíþjóðar um 1980. Þá áttaði maður sig líka á samanburðinum. Hann var íslendingum ekki í hag.

Þetta er nú eitthvað dúbúíus með Alsírbúann sem er í hungurverkfallinu. Maður les í blöðum að hann sé búinn að svelta í 21 dag. Maður væri nú orðinn ansi framlágur eftir þann tíma, trúi ég. Fréttir berast reglulega af því að líffæri séu farin að skemmast og ég veit ekki hvað. Hjartað sendi að sögn frá sér aðvörunarmerki nýlega svo hann var fluttur á spítala. Læknirinn sagði hins vegar að hann væri í fínu standi og sendi hann heim aftur. Ætli hann fái sér snarl á nóttunni?

Fréttir berast einnig af því að aðrir hælisleitendur ætli að fara í hóphungurverkfall. Hvað þýðir það? Á að stroka allar reglur út eftir ca 20 daga svelti og skrifa upp á það sem beið er um? Það er í sjálfu sér einfaldur prócess. Eiga stjórnvöld að segja reglur eru reglur og láta þá bara svelta? Hvernig mun slíkt enda? Hver ræður og hver ber ábyrgðina í þessum tilvikum? Að mínu mati er alla vega ljóst að við gegtutm ekki verið að búa til okkar eigin reglur sem eru byggðar á einhverri stundarmeðaumkun.

Ég er mjög hugsi yfir fyrningarleiðinni í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa boðað. Ég trúi vel að það þurfi að skerpa á ýmsum hlutum og laga kerfið en að kollvarpa því frá grunni er annað mál. Hvert er lánstraust fyrirtækja sem búist er við að tapi um 5% af sóknarfæri sínu árlega? Munu þau fá eðlilega lánafyrirgreiðslu? Munu þau standast það að þurfa að kaupa kvótann aftur sem þau eru búin að kaupa einu sinni og fengið skerðingar á hann? Fá þau lán til að kaupa kvótann? Fá þau bætur frá ríkinu fyrir þann kvóta sem verður gerður upptækur? Hvernig geta þau staðið undir skuldunum með síminnkandi veiðiheimildum? Það er mögum spurningum ósvarað í þessu sambandi.

Israels entry to eurovision 1987

Svartþröstur

þriðjudagur, maí 12, 2009

Það hefur lítið verið hlaupið undanfarna daga. Tíminn hefur bara farið í annað enda í lagi. Hvíldarperíódan er hafin fyrir hlaupið um aðra helgi. Það verður eitt og eitt rólegheita hlaup en ekkert erfiði.

Við Jói fórum með Fókusfélögum austur í friðland í Flóa á sunnudaginn. Það er alltaf gaman að koma þarna uppeftir. Nú vantaði bara veðrið. Það hékk þurrt en dimmt yfir og lágskýjað. Fuglalífið er að komast í góðan gír og verður gaman að fara þarna austur eftir í góðu veðri þegar birtan er eins og hún þarf að vera. Við fórum einnig niður i fjöru og við gömlu bryggjuna er afar skemmtilegt fuglasvæði þar sem brimið skolar þaranum á land. þar er fullt af tildru, lóuþræl og rauðbrystingum sem eru að fara að láta sjá sig. Þangað þarf maður að koma aftur.

Ég las skemmtilega bók um daginn. Hún var um Hrafnkel A. Jónsson austfirðing og Jökuldæling sem lést fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum. Hrafnkell var einn af þessum félagsmálatröllum sem gaf sér alltaf tíma til að til að vasast í félagsmálum. Verkalýðsfélagið, sveitarstjórnarmál og flokkspólitík. Meir að segja var hann formaður íþróttafélagsins Á Eskifirði í ein 8 ár þegar engin annar fékkst til þess. Á mynd af honum með strákum frá Eskifirði sést meir að segja einn sem varð síðar atvinnumaður í fótbolta. Svona menn eru gulls ígildi enda þótt þeir fari stundum sínar eigin leiðir og séu ekki ætíð í vinsældakeppni. Þeir austfirðingar sem komu að því að taka saman þessa bók um Hrafnkel eiga sóma skilið fyrir það.

Víkingar töpuðu á sunnudaginn enn einum leiknum sem þeir höfðu komist yfir í. Það er vonandi að þetta tap verði þeim holl lexía fyrir sumarið. Stuðullinn á að Ólsarar myndu vinna leikinn var yfir 9.

Það er gaman að fylgjast með bloggi þeirra sem eru að hlaupa Evrópuhlaupið mikla. Alls eru 24 dagar liðnir af þeim 64 sem hlaupið tekur. Vegalengdin er 65 - 80 km á dag. Nú er hópurinn kominn til Þýskalands. Merkilegt að skipulagið er ekki í lagi. Íþróttahúsin sme þeir eiga að sofa í eru svo lítil að menn þurfa næstum því að slást fyrir plássi fyrir svefnpokann. Hlaupið var skipulagt fyrir um 40 hlaupara en síðan lögðu alls um 70 manns af stað. Til viðbótar bætast svo hlauparar við sem hlaupa nokkra daga með hópnum. Það er ekki til að bæta stöðuna. Grundvallaratriði er að fá næga hvíld við svona átök. Eins var maturinn ekki í lagi. Hakk og spaghetti er engin undirstöðufæða eftir nær tvær vikur í röð.

Lög þurfa ekki að vera flókin eða íburðarmikil svo þau séu eftirminnileg. Innlegg Ísraels í Evróvision fyrir 22 árum er manni enn í fersku minni. Þarna voru greinilega engir stílistar í forgrunni heldur réði einfaldleikinn ferðinni. Viðlagið var oft raulað af vilja meir en getu þegar lítill drengur var svæfður þetta árið en það dugði alltaf jafn vel.

laugardagur, maí 09, 2009

Dave Clark Five - Glad All Over

Horft yfir Skor

Það fer fátt meira í taugarnar á mér en einfeldingslegur sjálfbirgingsháttur þar sem menn rugla eitthvað út og suður um hvað viðkomandi séu frábærir. Íslenskir fatahönnuðir halda annað árið í röð!! sýningu í Hafnarhúsinu sem heitir "Showroom Reykjavík" Ég heyrði viðtal við einhver aðstandenda sýningarinnar í útvarpinu í vikunni þar sem sagt var frá því að útflutingstekjur Íslands vegna fatahönnunar væru um 3 milljarðar króna. So far so good. Síðan sagði viðkomandi að Danir hefðu um 10 sinnum meiri tekjur pr. einstakling af fatahönnun en íslendingar. Ekki var farið nánar út í að skýra hvers vegna munurinn væri svo mikill. Ég las svo frétt í Mogganum í dag frá formanni Fatahönnunarfélags Íslands. Hann segir um þann hóp sem að sýningunni standa: "Hópurinn er svo svakalega ólíkur. Íslensk hönnun er almennt mjög lítið markaðstengd og það er bæði gaman og ruglingslegt. Hönnuðir vinna á eigin forsendum og eru svolítið eins og óþekkir krakkar sem kunna ekki að haga sér sem gerir þetta miklu skemmtilegra og kraftmeira." Ég sé ekki betur en í orðum og afstöðu formannsins sé komin skýringin á því hvers vegna íslendingar standa dönum svo langt að baki í því að koma framleiðslu sinni á framfæri við umheiminn.

Blaðamennskan hér ríður ekki við einteyming. Um daginn birti DV frétt á forsíðu um einhvern fréttamann sem fór að væla heima hjá sér yfir því að kærastan hans hefði dömpað honum. Hverjum er ekki sama um það yfir hverju og hvenær hann vælir. Í gær birti DV forsíðufrétt um að miðaldra leikkona væri orðin skotin í einhverjum karli. So. Í dag hlakkar í DV yfir því að það hafi verið logið í Morgunblaðið að ísbjörn hefði gengið á land við Hofsós. Hvaða fréttamennska er þetta eiginlega?

Fyndnu mennirnir fyrir norðan sem tóku myndir af uppstoppuðum ísbirni í vegkanti og lugu því blygðunarlaust í fjölmiðla að ísbjörn væri genginn á land verða að átta sig á því að þetta er ekkert grín. Það er alvöruhlutur að senda út falskar fréttir um aðsteðjandi ógn eða vandræði og hreint ekki fyndið. Þeir ættu að rifja upp söguna "Úlfur Úlfur" áður en þeir fara að grínast svona aftur.

Ég fékk sent skilaboð út af því sem ég skrifaði um bók Ólafs Arnarsonar. Þar var því haldið fram að bókin hefði verið rifin í tætlur af félaga Bjarna Harðarsyni bóksala. Í umsögn Bjarna og skilaboðunum sem ég fékk er því haldið fram að útrásarliðið beri alla sök á hruni hagkerfisins hér. Auðvitað mega menn hafa þessa skoðun og hafa ákveðin rök fyrir henni. En af því fótboltavertíðin er að byrja þá langar mig að taka viðmiðun úr fótboltanum. Í fótboltaleik leika leikmennirnir eins fast og dómarinn leyfir. Góður dómari heldur ákveðinni línu í dómgæslunni, gefur áminningar til þeirra sem ekki fylgja henni og sendir þá af velli við ítrekuð gróf brot sem láta sér ekki segjast. Ef leikurinn fer úr böndunum og leikmenn tuuddast hömlulaust hverjum er þá um að kenna. Dómaranum og engum öðrum. Úrslitum í leik sem vinnst á dæmalausum tuddahætti og jafnvel á svindli er ekki breytt en dómarinn getur misst dómaraskírteinið að eilífu. Sama gildir með spilið á íslenska fjármálamarkaðnum á undanförnum árum. Dómaraparið sem átti að gæta þess að farið væri eftir lögum og reglum og hafa hagsmuni samfélagsins í fyrirrúmi brást hrapalega. Óprúttnir aðilar notfærðu sér það blygðunarlaust. Niðurstaðan var eins og allir vita.

Við getum nefnt örfá en mjög afdrifarík atriði:
1. Sala bankanna var diskútabel svo ekki sé meira sagt. Steingrímur Ari Arason sagði sig úr Einkavæðngarnefnd í mótmælaskyni við vinnubrögðin vegna þess að hann er principmaður. Bankarnir voru t.d. seldir mönnum sem höfðu aldrei komið nálægt bankarekstri.
2. Bindiskylda bankanna var lækkuð verulega sem þýddi hömlulaust aðgengi þeirra að erlendu lánsfé sem var mokað hindrunarlaust inn í landið.
3. Óheftur aðgangur bankanna að ódýru lánsfé leiddi til þess að fjármagni var haldið að almenningi og fyrirtækjum sem aldrei fyrr sem leiddi til verðbólu á fasteignamarkaði með hörmulegum afleiðingum. Lántaka í erlendri mynt þótti jafn sjálfsögð og að kaupa sér ís í sunnudagsbíltúr.
4. Einblínt var af hálfu Seðlabankans á að halda verðbólgunni niðri með því að hækka stýrivexti sem jók eftirspurn eftir Jöklabréfunum gríðarlega sem aftur á móti leiddi til þess að gengi krónunnar styrktist upp úr öllu valdi. Þessi aðferðafræði gat ekki endað með öðru en ósköpum því það var ljóst að gengi krónunnar myndi falla gríðarlega þegar Jöklabréfin tækju til fótanna.
5. Þrátt fyrir að yfirvofandi vandræði væru orðin ljós þá var bönkunum bannað að gera upp í erlendri mynt. Fyrir þeirri ákvörðun hef ég ekki séð nein rök. Bankarnir voru því neyddir til að taka stöðu á móti krónunni til að verja hagsmuni sína.
6. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um vinnubrögðin við yfirtöku Glitnis. Á það má þó benda að efnahagsráðgjafi forsætisráðherra varaði sterklega við þeirri aðferðafræði sem var viðhöfð með þeim rökum að hún myndi koma af stað atburðarás sem ekki sæi fyrir endann á. Ástæða þess var meðal annars sú að gríðarlegt verðfall á hlutabréfum í fyrirtæki eins og Glitni myndi hafa í för með sér að hlutabréf í öðrum fyrirtækjum myndi hrynja í framhaldinu. Efnahagsráðgjafinn sagði starfi sínu lausu skömmu síðar.

Mér finnast bækur eins og Ólafur Arnarson skrifaði svo og bókin sem Óli Björn Kárason skrifaði um Stoðir vera betur skrifaðar en ekki. Þær draga saman yfirlit um afdrifaríka atburðarás á einn stað. Slíkar bækur eru partur af samtímasögunni. Ef menn eru ósammála þeim efnistökum sem beitt er við ritun þeirra þá skrifa þeir bara aðrar bækur þar sem málin eru skoðuð frá öðrum sjónarhóli. Það er hið besta mál. Einhliða fordæmingar eru hins vegar ekki burðugt innlegg í svona umræðu.

Áður en Ólafur Örn og félagar lögðu á Grænlandsjökul hér um árið þá þurftu þeir að kaupa sér tryggingu fyrir þó nokkra fjárhæð til að greiða kostnaðinn við hugsanlega björgun ofan af jöklinum. Grænlendingar tóku það ekki í mál að eiga það á hættu að bjarga þeim eða öðrum ofan af jöklinum á eigin kostnað. Þeir voru búnir að fá nóg af því. Hérlendis æða menn út og suður uppi á hálendinu og ef allt fer í steik þá er bara hringt í björgunarsveitina. Hún rýkur af stað og reddar hlutunum fyrir ekki neitt. En hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Það er næsta víst að fjárhagur björgunarsveita muni versna á komandi árum. Kreppan kemur við þær eins og aðra. Það er alls ekki sjálfgefið að ókeypis björgunaraðgerðir verði til reiðu fyrir alla alltaf í náinni framtíð. Því verður að gera kröfu til þess að fyrirtæki sem selja hálendisferðir að vetrarlagi kaupi sér tryggingar ef til björgunar muni komi. Svona útnesjamennska eins og viðgengist hefur hér árum saman verður að taka enda.

Við Jói, Sigurjón og Stebbi tókum fínar túr í morgun. Vindsperringurinn var að ganga niður svo túrinn var fínn. Allt í lagi með hnéð. Fór tæpa 30 km.

The Kinks - Autumn Almanac

Stálhleinin

föstudagur, maí 08, 2009

Ég keypti tvær bækur í gær sem er náttúrulega ekki í frásögur færandi - og þó. Báðar eru heldur sérstakar. Maður kaupir helst ekki venjulegar bækur. Sú fyrri er skrifuð af Bjarna Guðleifssyni prófessor á Möðruvöllum í Eyjafirði. Hann skýrir þarna frá því skemmtilega verkefni sem hann og nokkrir félagar hans áttu við í ein tólf ár. Verkefnið var að ganga á hæsta fjall í hverri sýslu. Þarna var ekki um kappgöngu að ræða af neinu tagi heldur fjallgöngur sem voru farnar göngumönnum til ánægju og yndisauka. Það sló hugmynd í höfuðið á Bjarna og síðan vatt þetta upp á sig. Það avr svolítið merkilegt að það var ekki einfalt að finna út hvert var hæsta fjall í hverri sýslu. Þeir gengu á þrjú fjöll í þessari seríu sem reyndust svo ekki vera hæsta fjall sýslunnar. Þá var að ganga aftur á rétt fjall. Bjarni sagði mér frá þessu verkefni fyrir nokkrum árum og nú er það komið út á eigulegri bók sem var lítil hugmynd fyrir allnokkrum árum. Þótt Bjarni eigi ekki digital vél og taki myndir eingöngu á filmuvél þá prýða bókina fjölmargar fínar myndir af staðháttum og ferðalöngum. Þetta er fín viðbót í æ stækkandi stafla bóka sem fjalla um útivist á Íslandi.

Seinni bókin er ekki um útivist heldur um útrás og hvernig hún tók snögglegan endi. Það er hin umtalaða bók "Sofandi að feigðarósi" sem Ólafur Arnarson hefur skrifað. Hann fjallar í henni um bankahrunið, aðdraganda þess og ótrúlega atburðarás vikurnar á eftir. Þrátt fyrir að hann fjalli þarna um mjög viðkvæma hluti og dregur ansi skarpar ályktanir af ýmsum hlutum þá hefur bókin ekki fengið mikla gagnrýni. Það fær mann til að trúa því að honum hafi tekist nokkuð vel með þessa sagnaritun og fari ágætlega rétt með. vafalaust hefði hún verið rifin í tætlur ef á henni hefðu verið miklir meinbugir. Efni hennar er svo viðkvæmt og niðurstaðan það hastarleg. É stuttu máli er það niðurstaða hans að fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hafi verið algerlega vanhæfur í starfi. Mistök hans séu það mörg, stór og afdrifarík að það sé ekki hægt að þegja yfir því. Keisarinn hafi ekki verið í neinum fötum.

Mér finnst það mjög hraustlegt hjá Ólafi að skrifa þessa bók. Hann var innmúraður í flokkinn hér á árum áður, aðstoðarmaður menntamálaráðherra og framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna. Þess þá heldur er það vel af sér vikið að skrifa mikilvægan kafla í samtímasöguna þar sem fyrrum samstarfsmönnum hans og yfirboðurum er hvergi hlíft.

Catch the wind Donovan

Flottar bergmyndanir undir Stálfjalli

fimmtudagur, maí 07, 2009

Frekjan í einstaka fólki ríður ekki við einteyming. Ég hef séð allmargar síður þar sem myndir af myndasíðunni minni hafa verið settar inn. Það hefur bæði verið gert í sambandi við ákveðin þemu og þá fyrst og frems tnorðurljósamyndir eða bara vegna þess að einehrvjum hefur þótt einstaka mynd vega falleg. Það hefur þá verið gert á þann hátt að myndin leiðir beint inn á myndasíðuna þannig að það fari akki á milli mála hvaðan myndin er ættur. Einu sinni hafði sambandi við mig maður sem vildi gera grafikmynd eftir einni mynd sem ég tók. Annars getur maður náttúrulega ekkert vitað hvað er gert við þær myndir sem maður setur út á netið. Maður á náttúrulega að setja vatnsmerki á þær svo þeim verði ekki stolið. Ég rakst síðan á íslenska síðu nú á dögunum. Þar var einhver náungi að byggja upp myndablogg og var að lansera því út og reyna að fá mikla umferð á bloggið. Hann hafði sett myndir inn á það frá sjálfum sér sem mér fundust ekki sérstakar en ef honum hefur fundist þær góðar þá er það bara hans mat og er allt í lagi. Eitthvað hefur honum fundist umferðin slök þannig að hann kópíeraði tvær norðurljósamyndir, aðra frá mér og hina frá einhevrjum öðrum og setti á bloggið sitt án nokkurra skýringa eða tenginga. Hann fékk fullt af viðbrögðum og mikið hrós fyrir fallegar myndir. Hann hafði ekki einu sinni manndóm til að segja að hann hefði ekki tekið myndirnar sjálfur heldur vafalaust líkað hrósið vel. Ég gaf honum kost á að taka þær undir eins út og sagðist fylgjast með að það yrði gert. Annars hefði ég látið Myndverk fylgja eftir kröfu á grundvelli höfunarréttar. Myndin var farin út í dag.
Í fyrra var ég að sörfa á netinu og rakst á kynningarbækling um Vetrarhátíð reykjavíkurborgar. Mér til undrunar sá ég þar mynd af Laugarneskirkju sem ég hafði tekið einu sinni að kvöldlagi. Þeim sem sá um bæklinginn þótti það ekkert athugavert að taka myndina og skella henni inn á netbæklinginn án þess að geta nokkurra heimilda eða uppruna. Þeir voru fljótir að kippa henni út þegar ég gerði vart við mig. Þetta kennir manni að maður á að merkja myndir greinilega þegar þær eru settar á netið.

Enn eitt skrípamálið er komið upp í sambandi við innflytjendur. Indversk kona hafði sest að á Seyðisfirði án þess að hafa nokkur leyfi eða pappíra um að hún mætti búa eða vinna á landinu. Þar ehfuer hún búið um tveggja eða þriggja ára skeið. Útlendingastofnun gekk eðililega í málið og kynnti henni gildandi reglur. Seyðfirðignar skrifuðu undir áskorun um að hún mætti dvelja þar áfram og rökin voru að þetta væri fín kona. Nú dreg ég það ekki í efa. Þá vakna hins vegar ýmsar spurningar. Væri í lagi að reka hana úr landi ef hún væri leiðinleg? Er það aðferðin að leyfa fólki að dvelja í landinu þangað til fullreynt er hvort viðkomandi sé skemmtilegur eða leiðinlegur. Það fólk sem vill hafa reglur í þessum málum eins og vindhana ætti að prufa sjálft að flytja til annarra fjarlægra landa, s.s. til Indlands. Í þessum málum verða að gilda reglur sem gilda jafnt fyrir alla. Ef farið er að hringla með þetta út og suður þá er eitt víst. Það fer allt í vitleysu.

Hvað ætli hægt sé að leggja margar fjölskyldur í rúst með sex kílóum af kókaíni sem sett væri á markaðinn hér? Giska margar trúi ég. Þeir sem koma að innflutningi á þessu eru glæpamenn að mínu mati og verða að taka afleiðingum gerða sinna.

Af hverju ætli bensínið sé ódýrara á Egilsstöðum en við Miklubrautina? Það væri gaman að fá rökstuðninginn fyrir því.

þriðjudagur, maí 05, 2009

Fór út í morgun og tók 12 km morgunhlaup. Hvasst og kalt. Hnéð var í lagi svo ég held að þetta sé orðið gott. Þetta hefur líklega verið einhver þreyta sem þurfti bara smá tíma. Það er bara eins og gengur og allt í lagi með það.

Nú eru Evrópuhlaupararnir komnir til Austurríkis. Sautján dagar búnir. Mörgum sem heyra á þetta minnst finnst þetta bara vera tóm klikkun. Það er hins vegar bara spurning hver er klikkaður í þessu samhengi. Það er engin klikkun að takast á við verkefni sem maður ræður við en það er nær því að vera klikkun að færast meir í fang en maður stendur undir. Ultrahlaup komu mjög seint til Íslands. Okkar nágrannaþjóðir eiga margra áratuga sögu í þessum málum. Það eru ekki nema tíu ár síðan að Ágúst Kvaran hljóp 100 km fyrstur íslendinga. Það þótti mikið afrek á sínum tíma. Nú eru um 25 íslendingar búnir að hlaupa 100 km. Svona þróast hlutirnir hratt þegar einhver brýtur ísinn. Það eru 30 ár síðan fyrsti norðurlandabúinn hljóp yfir 200 km í 24 tíma hlaupi. Það eru um 150 ár síðan fyrsta 24 tíma hlaupið var þreytt. Það eru tvö ár síðan ég hljóp fyrsta 24 tíma hlaup íslendings. Þannig mætti áfram telja. Margra daga hlaup eru algeng erlendis. Við eigum eftir að brjóta þann ís. Þetta er allt spurning um hvað maður vill. Við erum bara langt á eftir okkar nágrannaþjóðum í þessu efni. Því ættum við að leggja mat á hlutina með það í huga í stað þess að býsnast og fárast með upphrópunum.

Gauti náði frábærum tíma í New Jersey hlaupinu á sunnudaginn. Hann hljóp maraþonið á 2 klst 44 mín. Bæting um ca 3 mín frá New York í fyrra. Gauti er ekkert unglamb lengur svo þetta er enn magnaðra fyrir vikið. Svona kallar og hans líkar eiga að fara að takast á við alvöru vegalengdir. Þeir munu ekki síður njóta sín þar.

Það var magnaður leikur hjá Man. Udt á Emerites Stadium í kvöld. Svona spila bara meistaralið.

Ég má til með að láta fylgja hér með uppáhaldslag Gísla aðalritara. Hinn geðþekki tónlistarmaður Mickie Krause flytur lagið Geh doch zu Hause. Textann er að finna í athugasemdum á www.malbein.net svo áhugasamir geti aðeins áttað sig á innihaldi textans.

KEITH RICHARDS & THE FACES - Dust My Broom

Séð út Sigluneshlíðar

Ég verð nú að segja að það verður að gera þá kröfu til þeirra sem ræða við fólk sem hefur farið illa út úr fjármálahruninu hérlendis að þá séu viðmælendur valdir af smá kostgæfni. Án þess að ég fjölyrði um það nánar þá get ég fullyrt það að ég hefði aldrei ráðið við það prívat og persónulega að kaupa mér gott raðhús á 100% lánum og hafa tvo bíla þar fyrir utan að mestu leyti á lánum miðað við þau laun sem ég hef haft í gegnum tíðina. Það verður að gera smá kröfur til fólks að það sýni smá fjárhagslega ábyrgð. Það heitir að sníða sér stakk eftir vexti. Ef maðurinn sem rætt var við í Kastljósi í kvöld var hættur að borga af lánunum í september þá hefur eitthvað verið þar á ferðinni annað en hrun bankanna. Margt fólk er í miklum erfiðleikum þrátt fyrir að það hafi sýnt þokkalega varfærni í fjármálum sínum. Það ætti frekar að ræða við einhverja úr þeim hópi en fólk sem var búið að gefast upp í september því þar hékk annað á spýtunni.

Ég fæ ekki skilið rökin fyrir því að halda því fram að það eigi að skila láninu frá AGS og taka þess í stað lán í Svíþjóð eða Noregi. Í fyrsta lagi er lánið frá AGS geymt á vöxtum í bandaríska Seðlabankanum og því er vaxtakostnaður af því ekki mikill. Í öðru lagi finnst mér svona málflutningur vera álíka og ef maður væri kominn með allt niður um sig í persónulegum fjármálum og bankinn gerði kröfur um að maður tæki sig á í eyðslunni ef hann myndi skuldbreyta lánunum. Þá yrði maður fúll, bölvaði þessum frekjum og héldi að lausnin væri að skipta bara um banka í þeirri von að þar væru gerðar minni kröfur um að maður sýndi aukna ráðdeild og sparsemi svo veislan gæti haldið áfram. Þetta er ekki trúverðugt.

Ég held að ég sé orðinn góður í hnénu. Það verður alla vega látið á það reyna í fyrramálið. Ég hafði gert ráð fyrir að fara að trappa álagið niður um næstu helgi svo þetta skiptir ekki öllu máli til eða frá. Ég fékk bréf í dag frá Kim. Þar er verið að lýsa aðstæðum á Borgundarhólmi. Brautin er heldur styttri en í fyrra eða rúmur kílómeter. Það verður rafmagn til staðar svo maður getur látið hlaða Ipod eða einhverja aðra tónhlöðu. Ekki mun af veita. Ég les á www.blogg.se að sumir í Evrópuhlaupinu eru orðnir nokkuð lúnir. Trond var mjög glaður í dag yfir að þeir fengu kjöt og kartöflur að borða. Hingað til höfdðu þeir fyrst og fremst fengið pasta og hakk að borða á kvöldin. Það er fáránlegur kostur við svona risaverkefni. Menn þurfa almennilegan mat en ekker trusl. Á morgun fara þeir yfir landamærin milli Ítalíu og Austurríkis. Nú bíða alparnir.

sunnudagur, maí 03, 2009

Heimsmeistaramótið í 24 tíma hlaupi var haldið í Bergamo á Ítalíu nú um helgina. Til að komast á það þarf maður að hafa hlaupið lengra en 180 km á síðustu tveimur árum. Ef maður hefur hlaupið yfir 200 km þá hefur maður ákveðinn forgang og ef maður hefur hlaupið yfir 220 km þá fær maður ferðir greiddar. Það vissi ég ekki í fyrra. Það hefði verið gaman að taka þátt í mótinu. Það er ekki á hverjum degi sem maður hefur tækifæri til að taka þátt í heimsmeistaramóti. Ég lét það liggja milli hluta að sinni en skoða það kannski á næsta ári. Maður verður að setja takmörkin einhversstaðar. Þetta kostar bæði tíma og peninga. Alls tóku rúmlega 200 manns þátt í hlaupinu að þessu sinni. Sigurvegari varð Henrik Olsson frá Svíþjóð en hann hljóp rúma 257 kílómetra. Það er næst besti árangur Norðurlandabúa frá upphafi. Rune Larsson hefur einn hlaupið lengra eða um 264 km. Alls hlupu 25 hlauparar lengra en þá 217 km sem ég hljóp á Borgundarhólmi í fyrra og 65 hlauparar náðu yfir 200 km.
Alls hafa 73 norðurlandabúar hlaupið lengra en 200 km í 24 tíma hlaupi frá árinu 1979. Þá varð finninn Marrti Moilainen fyrstur norðurlandabúa til að rjúfa þennan magiska múr með því að hlaupa 205,8 km. Árangur minn í fyrra upp á 217,8 km setur mig í 30 sæti norðurlandabúa frá upphafi.

Evrópuhlaupið gengur vel. Í dag var fimmtándi dagurinn. Þeir hafa verið að hlaupa í kringum 70 km á dag flesta dagana. Nokkrir eru hættir, fyrst og fremst vegna beinhimnubólgu. Eiolf hefur átt í nokkrum erfiðleikum en virðist vera að jafna sig. Trond félagi hans frá Noregi er mjög sterkur og er í sjöunda sæti. Svíarnir taka það rólegar og eru í 21. sæti. Þeir eru búnir að fara yfir Pósléttuna og næst bíða Alparnir. Þá byrjar fjörið fyrir alvöru.

Það er fleira að gerast á Ítalíu. Berlusconi er í einhverjum vandræðum. Það sýnir sig að það sem gengur á einum stað getur farið þversum ofan í aðra. Hérlendis hefur það þótt sýna sérstaka pólitíska visku að setja ungt og óreynt fólk framarlega á framboðslista, ég tala nú ekki um ef um er að ræða stúlkur. Það þykir sýna framsýni, nútímaleg vinnubrögð, jafnréttiskennd og ég veit ekki hvað. Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur einnig tileinkað sér þessi vinnubrögð. Hann þykir hafa farið mikinn að undanförnu í að velja ungar stúlkur án nokkurrar pólitískrar reynslu á framboðslista Lýðræðisflokksins til Evrópuþings. Að óreyndu hefði maður búist við að hann væri hylltur fyrir vikið. En það er nú eitthvað annað. Í stað þess að fá enn eina rósina í hnappagatið þá verður allt vitlaust í landinu. Hann er hæddur og smáður og konan hans ætlar að skilja við hann. Það er erfitt að gera svo öllum líki.

Maður heyrir það að einhverjum hlakki til að hér muni ríkja verðhjöðnun. Umræðan snýst um að þá lækki húsnæðislánin. Lengra nær hugsunin ekki. Verðbólga er slæm en verðhjöðnun er miklu verri. Hver kaupir eitthvað í dag ef maður býst við að það verði ódýrara á morgun? Enginn. Ef verðhjöðnun nær að festa rætur mun permafrost ríkja í samfélaginu. verslun mun dragast saman, framkvæmdum er frestað, umsvif opinberra aðila og einkafyrirtækja munu minnka. Peningar munu safnast upp því þeir hafa engin verkefni. Þrátt fyrir að þeir verði ódýrir þá verða þeir ekki notaðir því hver kaupir í dag ef verðið verður lægra á morgun.

laugardagur, maí 02, 2009

Dr Hook, Cover of the Rolling Stone

Margæsir á beit

Mér finnst öll umræða og viðbrögð vegna Heiðmerkurmálsins vera mjög merkileg. Skólastjóri skólans sem stelpuhrottarnir eru í segir að málið sé ekki á sínu borði. Þær hafi ekki verið í skólanum þegar þær brutu af sér og brotið beindist ekki gegn nemenda skólans. Nú má þetta vera rétt en ef stelpan sem ráðist var á er í 10 bekk og hefur gert ráð fyrir að fara í sama skóla og hrottarnir eru í næsta haust, hvað þá? Mér kæmi ekki á óvart að hana myndi ekki hlakka neitt sérstaklega til að þurfa að vera í sama skóla og ofbeldisliðið næstu árin. Andlegu sárin eru líklega lengur að gróa en beinbrot. Verður niðurstaðan þá ekki eins og svo oft áður að fjölskylda fórnarlambsins verður að lúffa og flytja burt því ofbeldisliðið er friðhelgt. Ég sá í fréttum í dag að strákur var rekinn úr skóla í Bandaríkjunum fyrir að hafa skrifað lista yfir þá sem hann ætlaði að hefna sín á.

Það er sagt að samkvæmt laganna bókstaf séu 17 ára stelpur börn og því verði þeim ekki refað nema með skilorðsbundnum dóm, í mesta lagi. Sautján ára unglingar eru engin börn hvað sem sjálfræðismörkum viðkemur. Þau eiga og verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Annað gengur ekki. Það er óþolandi að einhver illa hugsaður lagabókstafur verndi svona hrotta.

Líklegt er talið að foreldrarnir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hugsanleg sekt eða skaðabótaskylda falli á þau, heldur muni ríkið hlaupa undir bakka ef fórnarlambinu eru dæmdar miskabætur. Ef unglingar eru dæmdir ósakhæfir vegena ungs aldurs þá bera foreldrarnir ábyrgð á þeim og eiga að standa ábyrgir fyrir hugsanlegum skaðabótum.

Mér finnast skilaboðin vera alveg svakaleg sem hafa verið send út í samfélagið af svokölluðum sérfræðingum í þerri umræðu sem hefur skapast eftir að árásin átti sér stað. Hrottarnir eru friðhelgir, þeir bera enga ábyrgð. Það er slegin skjaldborg um þá. Fórnarlambið og fjölskylda þess þurfa til viðbótar við það að hafa bæði þurft að þola árásina og afleiðingar hennar beint og óbeint þá standa þau frammi fyrir því að samfélagið snýr við þeim bakinu. Þetta er alla vega svona ef eitthvað er að marka hina svokölluðu sérfræðinga. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Búum við í réttarríki eða einhverju barbaristasamfélagi?

Svona lagað fær mann til að hugsa um hvernig maður myndi bregðast við ef maður lenti í þeim sporum að fá stelpuna sína heim lúbarða eftir einhverja stelpufanta. Það er alveg á hreinu hvernig ég myndi bregðast við.

Mér finnst umræðan um mögulega aðils Íslands að Evrópusambandinu vera alltof einfeldningsleg. Það á að bjarga öllu að margra mati ef við göngum í ESB. Því munu vafalaust fylgja kostir en einnig gallar. Nú heyrist ekki minnst á matvælaverð í ESB. Það skyldi þó ekki vera svo að samanbururinn væri óhagstæður um þessar mundir. Af hverju má það ekki koma opinberlega fram? Það vantaði ekki að það væri tuggið afturábak og áfram hvað matvælaverð væri miklu lægra innan ESB meðan gengi krónunnar var mjög sterkt. Ég er alveg sammála Ástþóri Magnússyni um að staða krónunnar er mælikvarði á stjórnun efnahagsmála. Hún fær ekki fallega einkunn. Ef við tækjum upp Evru í dag þá ætti fólk að prófa að deila í launin sín með 170 og reyna að átta sig á hvernig kaupmátturinn yrði á Evrusvæðinu. Maður heyrir í fréttum að erlent ferðafólk kaupir miklu meira hérlendis en áður vegna þess hve gengið er hagstætt fyrir það. Staðan er akkúrat öfug fyrir okkur hvað kaupmáttinn varðar. Atvinnuleysi á Evrusvæðinu er að jafnaði hærra en hérlendis. Það er ekki flóknara en svo.

Ég hljóp ekkert í dag og hvíli einnig á morgun. Fékk smá tognun í hnéð í gær út af engu. Það er réttast að hafa vaðið fyrir neðan sig og ná þessu góðu. Ég skrapp út á Álftanes í dag og myndaði margæsirnar. Þær eru að fita sig fyrir flugið til Grænlands. Krían er komin á nesið. Toppendurnar voru á svipum stað og síðast en það var alltof hvasst til að hægt væri að eiga við þær. Það hefur verið leiðinlegt að skoða fugla undanfarna daga vegna rigningar. Það birtir vonandi um næstu helgi. Þá förum við austur í Friðland í Flóa með Jóhanni Óla. Það verður spennandi.