sunnudagur, mars 30, 2008

Í dag var virk hvíld. For 20 km í morgun með systrunum Ernstdætrum og Úlfari. Poweratehringurinn og Breiðholtssstígurinn með smá slaufu. Fínn og fann engar eftirstöðvar í fótunum eftir gærdaginn.

Horfði á Silfur Egils eftir að heim var komið. Það er ekki laust við að maður hafi dálitlar áhyggjur. Ísland er örlítið samfélag. Við erum með gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur fyrir utan landssteinana, svona nokkurs konar Bíldudalskrónur. Bankarnir hafa stækkað það mikið að efnahagur og rekstrarreikningur þeirra er svo stór að þeir eru vaxnir ríkinu yfir höfuð. Engu að síður segja ráðherrar að ríkið ætli að verja krónuna. Það má ekki gleyma því að fyrir nokkrum árum var gerð árás á breska pundið. Það mátti engu muna að árásin tækist. Miðað við breska pundið er íslenska krónan eins og krækiber í helvíti. Í Silfrinu var sagt að íslensku bankarnir stæðu betur en flestir aðrir bankar (líklega í heiminum). Hvernig er hægt að segja svona? Hafa starfsmenn viðskiptaráðuneytisins farið yfir ársreikninga þeirra flestra eða hvað? Vonandi standa þeir vel en skuldatryggingarálagið segir aðra sögu. Komið yfir 1000 punkta hjá Glitni og Kaupþingi.

Ef ríkið ætlar að taka lán til að verja bankana hvað sem það kostar þá vakna nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi, Hver há lán þarf að taka? Í öðru lagi, getur ríkið tekið eins há lán og þörf er á og í þriðja lagi: Hvað kemur það til með að kosta? Afborganir og vextir af slíkum lánum eru greiddir með skattfé almennings. Þeir fjármunir eru þá ekki notaðir í annað. Annað tveggja munu slíkar aðgerðir þýða hærri skatta eða samdrátt í verkefnum ríkisins. Það er eins gott að það verði farið að tala íslensku um þessi mál.

Gengi krónunnar hefur fallið gríðarlega frá því í fyrra haust. Það getur ekki þýtt annað en verulegar verðhækkanir og meðfylgjandi verðbólgu. Mér finnst óraunhæft annað en að gera ráð fyrir að hún verði vel yfir 10% á næstunni. Veruleg kaupmáttarskerðing er fyrirsjáanleg. Hvað þýðir það að fasteignamarkaður botnfrýs á mjög skömmum tíma. Ég er alveg sammála því að það verður að rýmka um reglur íbúðalánasjóðs þegar bakarnir eru hættir að lána til fasteignakaupa. Ég man eftir fundi sem ég sat fyrir ekki mjög mörgum árum þegar fulltrúar bankanna og ýmissa annarra vildu ekkert frekar en að Íbúðarlánasjóður heyrði sögunni til. Hvernig ætli staðan væri í dag ef það hefði gengið eftir?

laugardagur, mars 29, 2008

Svanur, Hrafn og undirritaður komu fyrstir í mark í heilu maraþoni

Elín og Ragnheiður hlupu heilt maraþon

Sóla, Eva og Huld sigruðu 1/2 maraþon kvenna

Stefán, Steinn og Neil voru fyrstir í hálfu maraþoni

Stefán Örn gerir klárt fyrir ræsingu

Marsmaraþonið var í dag. Veðrið var fallegt þegar horft var út um gluggann í morgun, glæsilegt gluggaveður. Það var mallaður hefðbundinn morgunmatur, hafragrautur með viðbættum speltflögum, hunangi, rúsínum, skyri, omega 3 - 6 - 9 olíu og kanel. Blanda sem bregst ekki. Síðan var tekinn góður slurkur af Formúlu 1 Herbalife hristing. Eftir að hafa gert klárt skokkaði ég niður í Elliðaárdal þar sem hlaupið hófst. Jóatjald hafði verið sett upp og Jói var mættur með allskonar viðurgjörning en myndarskapur hans hefur sett nýja vídd í hlaup sem þessi. Þáttakendur í 3ja og 6 tíma hlaupinu sl. haust minnast þess enn með þökk í hjarta þegar aðkoma hans með tjaldi og gottgörelse gerði í raun mögulegt að framkvæma hlaupið þar sem veðrið var eins og andskotinn þann ágæta dag.

Stefán Örn kom hlaupurum af stað með skoti úr góðri haglabyssu. Þar sem rásmarkið liggur tiltölulega langt frá mannabyggð er vonandi að það hafi ekki raskað svefnró morgunsvæfra en maður veit aldrei hvað getur gerst á síðustu og verstu tímum. Í upphafi voru miklar heitstrenginar hjá mönnum um að fara hægt, taka það rólega og gefinn upp ákveðinn tími sem menn ætluðu að stilla sig inn á. Þessi góðu áform héldu langleiðina vestur á Ægissíðu en svo fór að togna úr hópnum. Bjarti morguninn reyndist einnig búa yfir nokkrum strekking og þar sem hitinn var rétt um frostmark þá var eiginlega aldrei hlýtt. Við snúninginn vestur á Ægissíðu slitum við Svanur okkur frá annars góðum hóp og lulluðum áfram á okkar takti. Mér leið afskaplega vel í hlaupinu og hef sjaldan farið í gegnum maraþon eins átakalítið og afslappað sem nú. Ég minntist haustmaraþonsins þegar ég þrælaðist í gegnum hálft þon orkulaus og sporþungur og hundaðist svo heim við svo búið fúll og svekktur. Nú var annað uppi á tengingnum. Tóm ánægja. Við lukum hálfu þoni á þokkalegum tíma sem var allt í lagi miðað við að við ætluðum ekki að fara hratt eða taka innan úr okkur. Vindbelgingurinn var alltaf annað slagið í fangið á hlaupurunum þannig að það var sjaldan sem var verulega þægilegt að hlaupa vegna hans. Við lulluðum þannig áfram í rólegheitum. Þegar fór að nálgast Ægissíðusnúninginn aftur fórum við að sjá að það var farið að hægja á flestum þeirra sem höfðu verið á undan okkur. Vindurinn tók greinilega innan úr mönnum. Við fórum þó ekkert að sperra okkur en héldum okkar jafna hraða. Við drykkjarstöðina á Nauthól á bakaleiðinni tókum við fram úr einum ungum manni sem hafði farið nokkur sporléttur út og héldum við að hann hefði verið í 3ja sæti fram til þessa. Víð tókum því síðasta legginn af nokkurri ákveðni, brutum vindinn fyrir hvorn annan, börðum okkur áfram með frýjunarorðum svo við yrðum ekki hlaupnir uppi og héldum þannig góðum dampi til loka.

Þegar í mark var komið kom í ljós að við höfðum náð 2. og 3ja sæti. Það var krydd paa kakan á annars mjög skemmtilegt og átakalítið hlaup. Tíminn var rétt rúmar 3.38 sem við vorum mjög ánægðir með miðað við að það hafði ekkert verið gert til að búa sig sérstaklega undir hlaupið annað en að æfa undir álagi og hlaupa langt um páskana. Menn gleyma því gjarna í hlaupasamhengi að Svanur Bragason er kominn nokkur ár á sjötugsaldur og vinnur erfiðisvinnu þar á ofan. Hann hleypur iðulega til og frá vinnu sem er um klukkutímaleið hvor leggur. Þannig æfir hann sig oft á virkum dögum. Hann skýtur gjarna sér yngri mönnum ref fyrir rass í hlaupum og svo var í þetta skipti. Hann er magnaður og næsta markmið hjá honum er að fara 100 km hlaup í vor.

Ég man varla eftir hlaupi þar sem ég hef farið eins létt í gegum maraþon, mjúkur og fínn allt hlaupið í gegn. Það hefði verið gaman að takast á við vegalengdina í stuttbuxum í 15 stiga hita og logni þegar við vorum svona brattir við frostmark og í vindbelging.
Í Jóatjaldi var glaumur og gleði, heitt kakó og rjómavöfflur voru serveraðar og síðan var boðið upp á fromage í eftirrétt. Þvílíkir höfðingjar sem þar voru á ferð.
Að lokum voru verðlaun afhent og fjöldi útdráttarverðlauna dreginn út. Lengi vel leit út fyrir Glennurnar ætluðu að taka þau öll (eða þannig) en svo fór að flott ostakarfa lent í höndum undirritaðs sem lokapunktur á fínan dag. Takk fyrir mig.

föstudagur, mars 28, 2008

Eftir

Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Það var vel mætt og hvert sæti skipað afreksmönnum. Litla hugmyndin sem kviknaði í sturtunni í Laugardalslauginni á sínum tíma er orðin að einu öflugasta ultrafélagi á landinu. Félagsskapurinn er það sem mestu máli skiptir því það styður hver annan, menn læra hver af öðrum og reynsla eins hvetur annan til frekari afreka. Þannig á þetta að vera. Í fyrra hlupu félagsmenn í UMFR36 34 maraþon og tóku þátt í 34 ultrakeppnum. Með ultrakeppni reiknast öll keppnishlaup sem eru maraþon og lengri og einnig fjölþrautir eins og Ironman og ATC keppnin á Grænlandi svo dæmi séu nefnd. Síðan runnu félagsmenn fjölmörg skemmri skeið s.s. 10 km, hálfmaraþon og 3ja tíma hlaup. Formleg afrekaskrá félagsins ár hvert miðast hins vegar við maraþonkeppni eða annað og meira. Þrátt fyrir þessa miklu virkni félaganna þá hefur IBR ekki séð sér fært að veita félaginu inngöngu og lítur þar af leiðandi ekki á maraþonhlaup eða ultramaraþon sem íþrótt. Það er ekki hægt að líta á það öðrum augum. Á það ber að líta að fæstir ef nokkur úr öðrum íþróttafélögum sem eru skráð í ÍBR myndu einu sinni láta sér detta í hug að skrá sig í keppni í ýmsum þeirra þeirra greina sem félagsmenn í UMFR36 takast á við með sóma, hvað þá að ljúka keppni.

Fundurinn tók ákvörðun um að heiðra minningu Jóns H. Sigurðssonar frá Úthlíð með því að skíra sex tíma hlaupið eftir honum og heitir það héðan í frá Jónshlaup. Jón var mikill afreksmaður í hlaupum sem ungur maður og stóð gjarna á efsta palli að hlaupi loknu. Þegar hann var 32 ára gamall slasaðist hann illa þegar heybaggastæða hrundi á hann og hryggbraut hann. Hann þurfti þá að skapa sér nýja tilveru, hóf skólagöngu, lauk háskólagráðu og starfaði sem kennari til æfiloka. Hann var þannig bundinn hjólastólnum seinni 32 ár æfinnar. Þrátt fyrir slysið og fötlunina þá var hann t.d. árum saman virkur þátttakandi í Reykjavíkurmaraþoninu. Þaðan muna flestir félagsmenn í UMFR36 eftir Jóni. Hann fór oft tíu kílómetra á hjólastólnum og alla vega þrisvar fór hann hálft maraþon. Jón er gott dæmi um mann sem gafst aldrei upp heldur efldist við hverja raun. Það er því vel við hæfi að UMFR36 heiðri minningu hans á þennan hátt.

Ritari félagsins lýsti kjöri félagsmanna á hlaupara ársins. Hann er valinn úr röðum félagsmanna með kosningu á tölvupósti eða á kjörfundi áður en aðalfundur er settur. Undirritaður varð fyrir valinu í þetta skipti og er það mikill heiður því eins og áður segir er mannvalið mikið innan félagsins.

Neil Kapoor, hinn mikli afreksmaður frá Bretlandi, lýsti hlaupaferli sínum og framtíðarplönum. Hann fór sérstaklega yfir þátttöku sína í Badwater og hvernig hann hagar undirbúningi sínum undir hinn tífalda Ironman sem hann ætlar að takast á við í haust. Þar fyrir utan eru nokkur skemmri hlaup á dagskránni s.s. eitt upp á 100 mílur. Maraþon tekur varla að minnast á. Saga Neils er mjög merkileg en hann skipti um lífsstíl fyrir um 8 árum. Fram að þeim tíma reykti hann og drakk og var allt of þungur. Hann hélt að hann myndi drepast þegar hann hljóp í fyrsta sinn kringum blokkina sem hann bjó í. Nú er hann með mestu afreksmönnum heims í ultrahlaupum. Maður sem hefur bæði klárað Badwater og Spartathlon er enginn venjulegur maður. Hann ætlaði að fara í Western States í sumar en komst ekki inn. Hann var spurður spjörunum úr enda ekki á hverjum degi sem áhugamenn um afrekshlaup komast í kallfæri við annan eins náunga. Neil hefur sett ný viðmið við æfingar hérlendis í vetur sem er gott því allt er relativt í þessum efnum.

Að lokum horfðum við á DVD disk frá Spartathlon sl. haust. Okkur Neil brá þar báðum fyrir og var gaman að rifja upp stemmingar frá hlaupinu. Það fór fiðringur um marga við að horfa á myndina og ég er viss um að ýmsir hafa sett nýjan kross í framtíðarplön sín þegar heim var komið. Þangað skal ég. Kim Rasmussen, hinn mikli danski hlaupari, sagði það vera stærstu stund lífs sín í sambandi við hlaupin að snerta styttu Leonidasar á torginu í Spörtu við hlaupalok. Þarf að sannreyna hvort það sé rétt.

Þetta var fínn fundur. Reyndar minnti Jói á í fundarlok að stjórnarkjör hefði ekki verið í dagskránni. Það verður bara að muna eftir því næst, árin líða svo fljótt nú á tímum að það skiptir litlu máli þótt stjórnarkjör detti út í eitt og eitt skipti!!

Fór á aðalfund Seðlabanka Íslands í dag. Það var heldur dempaðri stemming þar en á fundi ungmennafélagsins í gær. Salurinn var troðfullur. Heyrði á leiðinni út að það væri ills viti þegar aðalfundur Seðlabankans væri vel sóttur. Best væri að hann væri fámennur og sem fæstir sæju ástæðu til að sækja hann. Þetta er alveg öfugt á við ungmennafélagsfundi. Davíð boðaði kuldatíð framundan.

Eftir fundinn fór ég niður í Ráðhús en þar var opnuð ljósmyndasýning hjá Fókusklúbbnum kl. 18.00. Það slæddust tvær myndir frá mér þar með. Ég var ekki alveg ánægður með þær en það er gaman að vera með í svona uppsetningu og maður lærir alltaf eitthvað á því. Þemað er "Fyrir og eftir". Opnunin var vel sótt og er ljóst að það er margt fólk sem hefur gaman af þvi að virða svona myndir fyrir sér. Hinum megin í salnum var verið að setja upp málverkasýningu. Ég gekk þar yfir til að skoða verkin og heilsaði Friðriki Pálssyni, sem var eini maðurinn sem ég þekkti þar. Hann upplýsti mig um að myndirnar væru verk Ólafar heitinnar Pétursdóttur dómstjóra, eiginkonu hans. Hún slasaðist illa við byltu fyrir tveimur árum og lést nýlega. Hún málaði mikið fyrir slysið og eftir það þá málaði hún með munninum þegar handanna naut ekki lengur við. Hélt penslinum í munninum og málaði. Þetta er svo ótrúlegt að það er fáu til við að jafna. Sumum hlutum er ekki hægt að lýsa. Það er einfaldast fyrir alla sem áhuga hafa á að virða verkin fyrir sér að fara niður í Ráðhús og sjá þetta með eigin augum. Sýningin stendur yfir helgina.

Marsmaraþonið er á morgun. Verður vafalaust skemmtilegt. Það spáir vel.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Fyrir

Tók 40 mínútna Ívar í World Class í dag eftir vinnu. Fann ekki fyrir æfingaprógrammi páskanna í fótunum. Var á hraðanum 6.5 - 7.0 sem er það hraðasta sem ég hef gert til þessa. Ætla að ná a.m.k. 7.2 áður en vorið kemur. Þar til í vetur hafði ég aldrei farið yfir 6. Þetta er firna góð æfing fyrir brekkuhlaup s.s. Laugaveginn og þar af erfiðari þolraunir.

Ég er viss um að Herbalifið eykur getu manns til að takast á við erfiðari æfingar og gerir recoveríið (endurheimtuna) mun fljótari. Það er í sjálfu sér mjög lógískt. ef næringarbúskapurinn er í lagi er skrokkurinn einnig betur á sig kominn til að takast á við álag og einnig að jafna sig eftir það.

Á laugardaginn fór ég með pabba og mömmu upp að Hvanneyri í heimsókn til Hauks bróður og Ingu. Stærstur hluti stórfjölskyldunnar var kominn í páskaorlof svo það var glatt á hjalla í Grásteini. Þau fóru meðal annars með okkur í Ullarselið og á búvélasafnið. Það er alltaf gaman að kíkja þar við. Hvorutveggja er staðarprýði. Það er gaman að sjá gamla traktora komna í sparifötin og gengna í endurnýjum lífdaga eftir að Haukur og hans menn hafa farið um þá nærfærnum höndum. Þar er ekki kastað til höndunum heldur skal allt vera eins og þegar þeir komu úr kassanum. Í aflögðu refahúsi utar á staðnum stendur svo fjöldi véla og sem bíður þess að röðin komi að þeim. Haukur er afar fróður um traktorana og vélar yfirleitt og ég held að það sem hann veit ekki um vélar sé ekki þess vert að vita það.

Lengi vel hlustaði maður alltaf á rás tvö á morgnana á meðan morgunmaturinn avr tekinn til og blöðin lesin. Nú er hins vegar svo komið að ég bara get það ekki lengur, hún er svo leiðinleg. Kannski er maður að verða gamall en sama er ég skipti alltaf um rás á morgnana nú orðið ef rás 2 er á í morgunsárið. Lestur úr forystugreinum dagblaðanna á rás 1 er allt að því skemmtihlustun miðað við blaðrið. Því miður er búið að skera niður talað mál á rás 1 svo nú eru etýður og sónötur uppistaðan í dagskránni fram til 7.30. Það er vafalaust billlega sloppið fyrir RUV en það hrekur ma´nn þá bara yfir á Bylgjuna, nú eða á Útvarp Sögu. Þar hafa menn þó alla vega skoðanir enda þótt maður þurfi ekki að vera sammála þeim.

Það var athyglisvert viðtalið við Stefán Þórarinsson í Mogganum á páskunum. Hann gagnrýndi starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands af nokkrum þunga. Vafalaust ehfur hann töluvert til síns máls. Af hverju á forstöðustarf stofnunarinnar að vera frátekið fyrir afdankaða þingmenn og ráðherra sem eru svo eins og heimaríkir hundar ef á þá er andað? Maður er ekki búinn að gleyma látunum í núverandi forstöðumanni þegar fyrrverandi utanríkisráðherra íjaði að því að rétt væri að setja stofnunina beint undir utanríkisráðuneyti í stað þess að láta hana vera undir svokallaðri stjórn Alþingis sem allir vita að funkerar alls ekki sem skyldi. Það var ljóst að orð utanríkisráðherra um nauðsyn þess að breyta skipulaginu hittu fyrir veikan blett á forstöðumanninum og voru viðbrögðin eftir því. Ég kynntist fyrst umræðu um þróunarstarf þegar ég las kúrsa þess efnis á Ultuna í Svíþjóð hér í denn. Það var viðtekið viðhorf að þróunaraðstoð var oft ódýr leið þróaðra ríkja til að kaupa sér góða samvisku í þessum málum. Yfirleitt var reynt að láta þá peninga sem lagðir voru til þróunarstarfs ekki hverfa út úr hagkerfinu heldur fóru þeir til að kaupa tól og tæki af fyrirtækjum í viðkomandi löndum og stundum voru kaupin nokkuð úr takti við þarfir heimamanna. Sjónarmið Stefáns um að rétt sé að leggja aðaláhersluna á að auka sjálfsbjargarhæfni heimamanna til verðmætasköpunar er án efa rétt.

mánudagur, mars 24, 2008

Bíllinn í vetrarfeldinum

Tók 30 km hlaup fjórða morguninn í röð. Gerði smá tilraun nú um páskana að fara fjóra daga í röð í frekar erfiða langa æfingu. Hér áður var maður stirður fram eftir degi eftir lengri hlaup en nú finnur maður varla fyrir þessu. Áður en lagt er í hann fær maður sér hafragraut með hunangi og rúsinum ásamt góðum hristing af Herbalife og strax þegar komið er í hús er Formúla 1 og Formúla 3 hrist saman og drukkin. Áður en maður fer í sturtu. Þetta gerir það að verkum maður finnur ekki fyrir meira æfingarálagi og getur þar af leiðandi þolað mun meira álag. Það var ekkert erfiðara að hlaupa síðasta morgninn heldur en þann fyrsta. Þetta er spennandi.

Þegar maður er að hlaupa langt þá hlustar maður gjarna á útvarpið. Ég hlusta ekki oft á útvarp Sögu en gerði það nokkuð undanfarna morgna því snakkið á hinum stöðvunum er ekki alltaf svo uppbyggilegt að maður megi ekki við því að hlusta á eitthvað nýtt. Arnþrúður Karlsdóttir jós úr skálum reiði sinnar í gærmorgun yfir nýföllnum dómi (ef dóm skyldi kalla) yfir Litháunum sem réðust nýlega á lögregluna og krafðist aðgerða. Það er þekkt í nágrannalöndum okkar að glæpaklíkur beina spjótum sínum iðulega að fjölskyldum dómara og lögreglumanna sem fara með mál glæpamannanna. Þannig koma þeir að þeirri hlið þeirra einstaklinga sem eiga að gæta laga og réttar þar sem þeir eru berskjaldaðir. Það þarf ekki meira en að senda bréf í pósti þar sem stendur t.d.: "Ég sé að dóttir þín gengur í xxxskóla. Vona að ekkert komi fyrir hana" Þannig eru viðkomandi dómari eða lögreglumaður látinn vita að glæpamennirnir viti í hvaða skóla börn viðkomandi embætismanna ganga og gefið er í skyn að það geti eitthvað hent þau. Ef farið er að beita svona aðferðum hérlendis er eins gott að það komi upp á yfirborðið. Alla vega er dómurinn yfir Litháunum sem réðust á lögregluna gjörsamlega óskiljanlegur. Dómarinn sagði að það hefði ekki verið hægt að sanna eitt eða neitt hver barði hvern og tók þar með ekkert mark á vitnisburði lögreglunnar. Einstaklingar voru dæmdir í allt að 16 ára fangelsi í Geirfinns- og Guðmundarmálunum enda þótt engin lík væru til staðar, ekki var hægt að sanna eitt né neitt um hver gerði hvað og vitnisburður allur út og suður enda fenginn fram með þvingunum og aðferðum sem mætti jafna við pyntingar. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

Á Útvarpi Sögu sitja þeir Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson gjarna og spjalla. Þeir eru skemmtilegir og koma víða við. Guðmundur upplýsti m.a. að lagið Those were the days með Mary Hopkins væri upprunalega rússneskt, bæði lag og ljóð. Textinn hefði verið þýddur á ensku og lagið poppað upp og síðan sló það í gegn. Guðmundur sagði einnig ágæta sögu um Sjúkanov, forsetaframbjóðenda í Úkraníu. Hann hefði verið á kosningaferðalagi og gist á hóteli einu ónefndu. Þegar hann kemur upp á herbergið þá kveikir hann á sjónvarpinu og það hittist svo á að upp kemur klámrás. Það er ekki að orðlengja það að Sjúkanov límist við skjáinn honum alveg á óvart og horfir drykklanga stund á það sem fyrir augu ber. Segir svo ekki af hóteldvöl hans fyrr en hann er að tékka sig út þá bíður firna hár reikningur í lobbyinu fyrir sjónvarpsáhorf sem kom Sjúkanov algerlega í opna sköldu. Óvandaðir andstæðingar hans komu málinu í blöðin til að reyna að leiða hneisu og álitshnekki yfir frambjóðendann. Það mistókst algerlega því fylgi hans jókst mikið meðal almennings vegna þessa því fólk mat það svo að það væri heilmikill kraftur eftir í kallinum fyrst hann sat svo lengi við og horfði á klám í sjónvarpinu. Þetta er kannski aðferð sem mætti reyna hérlendis.

Svo heyrði ég mikla eldmessu í Útvarpi Sögu um óvandaðan kaupahéðinn íslenskan sem fullyrt var að væri búinn að svíkja fleiri hundruð milljónir út úr venjulegu fólki á síðustu 15 árum. Hann var nafngreindur svo annað tveggja er víst að sá sem flutti eldmessuna fær á sig svakalagt meinyrðamál eða að kaupahéðinn þessi fær á sig kærur fyrir fjársvik eins og hótað var í messunni. Það sem hefur kannski tekið steininn úr var að sá meinti svikahrappur er farinn að fara inn á elliheimilin og hafa fé út úr grandalausum ellilífeyrisþegum með loforðum um mikla ávöxtun sem hefur víst aldrei komið. Fróðlegt verður að fylgjast með þessu máli.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig ráðandi aðilar í viðskiptalífinu og innan ríkisstjórnarinnar hafa notað páskana. Menn fengu andrúm til að skipuleggja sig yfir páskana og snúa vörn í sókn og nú er að sjá hvernig það hefur verið notað. Spennandi dagur á morgun.

laugardagur, mars 22, 2008

Vikan var slök framan af vegna ýmissa hluta, fundahalda og annarra kvöldverka og síðan almennrar leti á skírdag. Fór 30 km á föstudaginn langa í skínandi veðri. Hélt vestur á Nes og fór fyrir golfvöllinn og síðan til baka með sjónum. Tók slaufu við Nauthól til að ná tilskylinni lengd og lauk 30 km á góðum tíma. Léttur og leið vel. Sami túr í morgun laugardag. Nú var meiri mótvindur og það var ekki fyrr en eftir 15 km sem maður fékk vindinn í bakið og sporið léttist heldur en var þó þyngri en í gær. Fínt hlaup. Ætla að taka sama rúnt á morgun. Gott að takast á við nokkur löng hlaup í beit. Margir á ferðinni enda margir á leið út. París, London og Boston verða í apríl.

Óhugguleg fréttin af innrás tíu glæpamanna í íbúð í Breiðhoiltinu. Það sem eftirtektarverðast í þessu sambandi er þó að meðvitaða liðið á Mogganum segir ekki frá því að þarna var eitthvað erlent drullusokkalið á ferðinni en hinir fjölmiðlarnir segja vitaskuld frá öllum málsatvikum. Maður á rétt á að vita það ef hingað er að haugast eitthvað glæpamannahyski í stórum stíl. Það er þó alla vega hægt að krefjast þess af stjórnvöldum að þau sjái til þess að á þeim sé ekki tekið með neinum silkihönskum. Það á að vísa þessu liði úr landi og láta það sitja inni í sínum heimalöndum en ekki vista það á 3ja stjörnu hótelinu fyrir austan fjall á kostnað skattgreiðenda. Vitaskuld á að setja sér það markmið að hreinsa landið eins og hægt er af svona óværu. Nóg er nú víst sem er framleitt af því hér heima fyrir þótt ekki sé verið að flytja það inn og halda verndarhendi yfir því eins og fjölmenningarliðið vill. Ef þróunin sýnir að þetta er að verða meira vandamál hérlendis en menn ráða við þá er full ástæða til að endurskoða aðild Íslands að Shengen samkomulaginu að mínu mati. Ef aðildin skapar fleiri vandamál en hún leysir þá er það ekki spurning. Bretar eru ekki aðilar að Shengen. Þeir vísa á stöðu landsins sem eyríkis og að landfræðileg lega þess sé það mikil vörn gagnvart svona liði að þeir vilja ekki fella niður þær varnir sem hún skapar með aðild að Shengen. Mættu fleiri hugsa þannig.

Aðalfundur UMFR36 verður haldinn á fimmtudagskvöldið kemur. Lýst verður vali á hlaupara ársins 2007 en hann er valinn úr hópi félagsmanna. Ég sé ekki annað en þetta hafi verð besta ár félagsmanna frá upphafi og ekki verður það lakara í ár. Neil ætlar að segja frá einu og öðru sem hann hefur upplifað og hvað framundan er hjá honum sem ekkert smáræði. Síðan ætla ég að renna í gegn DVD diski frá Spartathlon hlaupinu sl. haust. Fékk þær góðu fréttir í vikunni að félagi Höskuldur Kristvinsson ætlar að spreyta sig á því að renna í fótspor Pheidippidesar á hausti komanda milli Aþenu og Spörtu. Það verður fínt að hafa félagsskap þarna en fyrst þarf ég þó að skrá mig í hlaupið. Geri það sem fyrst. ég sé ekki annað en ég sé alveg á því róli sem ég hafði lagt upp með. Ætla að vera búinn að klára 1000 km í marslok og herða síðan heldur á því með löngum hlaupum í apríl og framan af maí. Finn greinilega að styrktaræfingar og vandaðar brettaæfingar eru að skila sér.

miðvikudagur, mars 19, 2008

Manni leist hreint ekki á blikuna í morgun og fram eftir degi. Krónan í frjálsu falli og gengi fyrirtækja í Kauphöllinni féll og féll. Tölur sem voru vel yfir 10% gengislækkun voru ekki óalgegnar. Seinnipart dagsins réttu bæði krónan og kauphallargengið heldur við, sem betur fer. Það er nefnilega ekki útilokað að krónan missi allt traust og falli í frjálsu falli. Það hefur gerst í stærri ríkjum. Ég man eftir því þegar ég kom til Sovétríkjanna haustið 1991 að þá voru 30 rúblur á móti einum dollar. Þegar ég kom þangað ári síðar voru 300 rúblur á móti einum dollar.Þegar ég flutti til Rússlands haustið 1995 þá voru 5500 rúblur á móti einum dollar. Hvað myndi gerast hér ef dollarinn færi í 150 kall og evran í 250 kall? Verðbólgan yrði mæld í tugum prósenta, atvinnuleysi myndi stóraukast, fjöldagjaldþrot yrði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Fjármálastofnanir myndu verða fyrir verulegum skakkaföllum. Niðurstaðan yrði ekki flóknari. Mér finnast hinar svokölluðu greiningardeildir vera á hálum ís þegar þær eru farnar að hafa það á orði að verðbólgan fari kannski yfir 10%. Ágæt þumalfingur regla er að 40% gengislækkunar krónunnar renni mjög fljótt út í verðlagið. Gengi krónunnar hefur fallið um milli 40 og 50% frá því í ágúst. Því má maður búast við því að verðbólgan verði á milli 10 og 20%. Hvoru megin hryggjar hún verður fer mikið eftir því hvort kjarasamningar fara úr böndunum eða ekki. Ef laun verða hækkuð í takt við verðbólguna byrjar gamli hrunadansinn á nýjan leik með víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Ef ekki þá tekur skemmri tíma að vinna bug á verðbólgunni en í öllu falli er framundan veruleg kaupmáttarrýrnum. Það er vissulega búið að vera fyrirsjáanlegt um nokkuð langa hríð því kaupmáttaraukning undanfarinna ára hefur verið borin uppi af umsvifum sem hafa verið fjármögnuð með lántökum en ekki verðmætaaukningu landsframleiðslunnar sem neinu nemur. Þetta er nú bara svona.

Sumir blaðamenn láta ekki að sér hæða. Ég greip í DV út í búð í gær. Þar var viðtal við einn dópistann á Hrauninu sem hafði fengið tremma þegar flassbakkið byrjaði eftir að dópið var tekið af honumi. Hann heyrði raddir og sá sýnir. Það fyrsta sem hann gerði var (líklega) að hringja í DV og rekja raunir sínar fyrir blaðamanninum. Blaðamaðurinn sá alvöru málsins og hringdi í fangelsismálastjóra og ég veit ekki hverja til að fara yfir vandræði mannsins. Ég bara skil ekki svona. Halda blaðamenn að fangelsisyfirvöld hafi ekkert annað að gera en að svara sífelldum hringingum blaðamanna út af einhverju svona rugli? Eru glæponarnir á Hauninu með blaðamenn sem sína persónulega fjölmiðlafulltrúa og lobbyista? Maður fer að halda það.

Formaður múhameðstrúarfélagsins hérlendis sýnidi sitt rétta andlit þegar hann mætti í sjónvarpið í gærkvöldi og átaldi einhverja teiknaða mynd sem birtist með grein í blaði Illuga Jökulssonar. Þegar hann og hans nótar eru ekki sammála öðrum þá heimta þeir ritskoðun. Hann verður bara vesgú og spís að taka mið af þeim lögum og reglum sem unnið er eftir hérlendis ef hann vill búa hér. Það gildir ritfrelsi í landinu, einnig hvað varðar myndir sem birtast með grein sem skrifuð er um Múhameð. Flóknara er það nú ekki. Ég veit ekki til þess að forsvarsmenn þeirra landa þar sem hin kalda hönd trúarofstækisins hvílir yfir samfélaginu eins og mara leiði hugann að því hvort réttlætiskennd íbúa annarra lands sé særð þegar þeir heimta að farið sé eftir þeirra lögum þegar gestir koma til landsins.

Ég sá heimslistann yfir árangur á árinu 2007 í ultrahlaupum á www.ultrarunning.com/ultra/2007. Þar er birtur árangur þeirra sem hafa náð yfir ákveðið lágmark í hinum ýmsu hlaupum. Við erum tvö á listanum héðan af skerinu. Elín Reed er nr. 101 á sex tíma listanum og ég er nr. 251 á 24 tíma listanum. Til að komast á 100 km lista karla þarf að hlaupa undir 9 klst, Til að komast á karla listann í sex tíma hlaupa þarf að hlaupa meir en 75 km o.s.frv.

mánudagur, mars 17, 2008

Tveir alþingismenn skrifuðu í Fréttablaðið á helginni um þær breytingar sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu með miklum flutningi erlends fólks hingað til lands á liðnum árum. Mér fannst hvorugur þeirra skrifa um kjarna málsins. Það er svo auðvelt að fara út í einhverja vitleysu sem er svo óralangt frá kjarna málsins eins og að fara að tyggja það upp að maður þekki þrjá eða fjóra einstaklinga sem séu af erlendu bergi brotnir og það sé allt ágætis fólk. Vitaskuld hefur erlent fólk flust hingað til lands í nokkrum hópum gegnum árin og margir sest hér að og orðið fyrirmyndar þjóðfélagsþegnar. Það er svo sjálfsagt að það þarf ekki að taka það fram. Það má telja upp þýsku konurnar sem komu hingað eftir seinna stríð, ungverjana sem fluttu hingað eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956, færeyingana sem stunduðu sjómennsku hér á árunum milli sextíu og sjötíu, stelpurnar frá Ástralíu og Nýja Sjálandi sem unnu fiskvinnu hér á árunum í kringum 1980, flóttamennina frá Víetnam og Balkanlöndunum og síðan Pólverjana sem hafa unnið í fiskvinnslu víða um land á undanförnum áratug eða svo. Þetta er bara allt annar hlutur en það sem hefur gerst á liðnum tveimur til þremur árum en á þeim tíma hefur hlutdeild fólks af erlendu bergi brotinn vaxið úr ca 2% upp í yfir 7% af íbúafjöldanum. Á örskömmum tíma hefur hlutdeild fólks af erlendu bergi brotinn þróast upp í að að vera með því hæsta í Evrópu. Það er eðlilegt að það vakni nokkrar spurningar í þessu sambandi eins og t.d. hvort þetta sé æskileg þróun, hefði verið hægt að stýra henni öðruvísi og gera hana einfaldari og léttari fyrir alla aðila.

Umræða um þessi mál er erfið og sérstaklega vegna þess að sjálfskipaður hópur þeirra sem telja sig vita allt sem varðar þessi mál betur en aðrir er tilbúinn að hrópa rasistar, rasistar ef einhver vogar sér að efast um að þetta sé æskilegasta þróunin. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess en að mínu viti er lágmarkskrafa að menn fái leyfi til að spyrja spurninga sem varða þessar breytingar og að þeim sé svarað æsingalaust. Nú er hlutfall erlends fólks um 7% af íbúum landsins. Maður getur ekki annað sen spurt sig hvort þetta hlutfall sé hámarkið eða mun það hækka í 17%, 27% 57% eða 107% á næstu árum. Hver er framtíðarsýn stjórnvalda? Er hægt að stjórna þessum málum og vilja stjórnvöld nota þau stjórntæki sem eru til, ef þau eru þá til? Hvað vilja menn að þessar breytingar gerist á löngum tíma.

Það þykir kannski absúrd og dæmi um öfga að fara að ýja að því að fólk af íslensku bergi brotið getir lent í minnihluta hérlendis en ég vil bara minna á að núverandi háskólarektor á Bifröst hefur lýst þeirri skoðun sinni í kennslubók að markmið stjórnvalda ætti að vera að íbúar hér yrðu um 3 milljónir. Þetta er engin útópía hjá einhverjum vitleysing heldur skoðun áhrifamikils einstaklings í samfélaginu. Fleiri eru á sömu skoðun það ég veit. Maður spyr sig hvaða áhrif þetta hefði á samfélagið? Hvað á þetta fólk að gera? Hvaða þjóðtunga yrði töluð? Hvað ef hingað flyttust 2.5 milljónir Kínverja svo dæmi sé tekið? Nú hef ég ekkert á móti Kínverjum í hóflegu magni sem einstaklingum en ég er ekki viss um að ég yrði hrifinn af því ef þeir yrðu hér í yfirgnæfandi meirihluta. Það er kannski nauðsynlegt að hugsa málið út frá svona dæmum til að átta sig á því að stjórnvöld geta ekki komið sér undan því að svara grundvallarspurningum í þessu sambandi. Á hvaða leið erum við og hvert viljum við fara?

Ef svör eru ekki til staðar við þessum spurningum þá verður þetta eins og í sögunni um Lísu í Undralandi þegar hún hitti köttinn við gatnamótin. Hvaða leið á ég að velja spurði Lísa köttinn. Það fer eftir því hvert þú ert að fara sagði kötturinn. Það hef ég ekki hugmynd um sagði Lísa. Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur sagði kötturinn. Það þýðir ekkert að slá umræðuna út af borðinu með því að segja: Ég þekki þrjá eða fjóra einstaklinga sem hafa flust hingað erlendis frá og það er allt ágætis fólk. Það er hreinn barnaskapur og mjög óábyrgt að tala á þennan hátt og halda að þar með sé umræðunni lokið.

Státinn hrafn á girðingunni

sunnudagur, mars 16, 2008

Það va rárshátíð hjá sambandinu í gærkvöldi. Hún var haldin í Kríunesi sem er 11.7 km frá miðbænum á bökkum Elliðavatns. Það er skemmtilegur staður á margan hátt og er vafalaust gaman að vera þarna á vatnsbakkanum á góðum sumardegi. Forrétturinn var fínn og óvanalega matarmikill, það kom í ljós að það er ekki nema fyrir spennufíkla að hafa nautakjöt í aðalrétt en eftirrétturinn var góður.
Sigrún var svo heppin að fá aðalvinninginn í happdrættinu, flug fyrir tvo til Akureyrar og gistinu fyrir tvo á Hotel KEA í eina nótt.

Fór út seinna en ég ætlaði í morgun en var samt kominn út kl. 9.30. Var snemma í ´því niðri í Laugum svo ég hélt áfram vestur eftir. Hitti marga á leiðinni enda veðrið eisn gott og hægt var að hugsa sér. Sá Ulfar og Bryndísi bregða fyrir við Nauthól og hljóp með þeim niður í Laugar og lengdi því hringinn aðeins. Kom heim eftir 23 km og fínan túr. Var svolítið þyrstur!!

Ég er ekki alveg sáttur við Garminn sem ég keypti fyrir jólin. Hann sýndi low batterí í morgun eftir ca 7 klst. Mér finnst það ekki næganlega gott þar sem Timexinn dugar í um 10 klst.

Vilhjálmur Bjarnason stóð sig vel í Silfrinu í dag. Hann er hæfilegur þverplanki til að gefa ekkert eftir á aðalfundum almennignshlutafélaga þar sem ástæða er til að spyrja og krefja forsvarsmenn þeirra svara ef maðure r ekki sáttur. Það eru jú eignir hluthafa sem þeir eru að ráðskast með. Að tapa 60 milljörðum á einu ári er náttúrulega ga ga. merkilegt hvað lítið er fjallað um þetta hér heima af blaðamannagreyjunum. Ég ehf t.d. ekki heyrt fyrr að Finnair væri að 58% hlutum í eigu finnska ríkisins. Hverjum dettur eiginlega í hug að kaupa í slíku félagi þar sem ómögulegt er að hafa áhrif sem neinu nemur. Sama gildir með American Airlines. Að 6% eignarhlutur sé með stærstu hluthöfum segir að það er ekki mikill áhugi fyrir stóra fjárfesta að kaupa sig inn í félagið enda fer það undir stjórn ríkisins þegar þörf er á.

Ég sat einu sinni aðalfund SR mjöl fyrir hönd Raufarhafnarhrepps. Ég kunni ekkert á etiketturnar og stóð upp eftir að Benedikt Sveinsson formaður hafði talað og hélt fram sjónarmiðum hreppsins og spurði spurninga og hélt fram sjónarmiðum hreppsins. Ég var sá eini sem tók til máls á fundinum utan stjórnarformannsins. Spurningunum var ekki svarað og sjónarmið hreppsins féllu í grýttan jarðveg. Við hjá hreppnum vorum á þeirri skoðun að SR mjöl ætti að fjárfesta í loðnukvóta og skipum til að tryggja sér öruggan aðgang að hráefni. Þetta þótti ekki skynsamleg skoðun. Nú er SR mjöl ekki lengur tíl vegna þess þar sem þeir voru gleyptir í andvaraleysi stjórnendanna og því sem næst allur loðnukvóti er tengdur fyrirtækjum sem eiga hagsmuna að gæta. Okkar framtíðarsýn var því rétt.

Ég er ánægður með að heyra að þeir sem hafa keypt hjá mér Herbalifið eru allir ánægðir með það. Recoveríið gengur miklu betur og tekur skemmri tíma með því taka góðan slurk af því eftir erfiðar æfingar. Það styrkir skrokkinn, minnkar meiðslahættu og gerir manni kleyft að þola meira æfingaálag. Síðan er ég viss um að það er fínt til að hafa sem basfæðu ef maður vill grenna sig. Ég finn bara hvað það endist vel þegar msður fær sér góðan hristing áður en maður fer út að hlaupa og síðan þegar maður kemur inn aftur. Maður verður ekki svangur fyrr en komið er fram á miðjan dag.

laugardagur, mars 15, 2008

Íslensku krakkarnir við setninguna á borgarleikunum í fyrra

Tók 15 km í gær í góðu veðri eftir vinnu. Afmæli um kvöldið hjá Kolbeini Sæmundssyni kennara í MR. Hann er orðinn sjötugur en alltaf jafnbrattur. Hittumst heima hjá Hauk í Hafnarfirðinum þar sem jeppavinaklúbburinn fagnaði tímamótum í lífi Kolbeins. Komst því miður ekki í Strandgötuna þar sem FH og Víkingur skyldu jöfn. Annar leikurinn í vetur sem Víkingur leiðir yfir FH mestallan leikinn en missir hann niður í jafntefli í leikslok.

Horfðum á úrslitakeppni um kvöldið Gettu betur enda mörgum málið skylt í veislunni. MR vann eftir æsispennandi keppni í bráðabana. Leiðinlegt atvik kom fyrir í keppninni þegar hjálp úr sal bjargaði MA með að geta svarað rétt í spurningunni um Svein Elías eftir að MRingar höfðu klikkað á vegalengdinni. MA keppendur viðurkenndu það eftir að leik var lokið að þeir hefðu ekki vitað þetta. Merkilegt að það skulu ekki í gildi viðurlög við svona atburðum. Í fyrsta lagi er það fatal að lið skuli fá stig fyrir að svara rétt með hjálp úr sal. Í öðru lagi á það að vera á hreinu fyrirfram að það lið sem er svo óheppið að hafa í hópi sínum áhorfenda sem ekki getur þagað á að missa stig. Úrslit mega ekki ráðast á því að komast upp með að hafa rangt við, jafnvel þótt áhorfendur séu. Það hlýtur hver maður að sjá.

Fór út kl. 7.00 í morgun. Kalt en gott veður. Nú var enginn á brúnni þannig að ég hélt einn sem leið lá vestur í bæ og svo til baka kláraði 30 km. Léttur og bara fínn.

Alltaf sér maður betur og betur hvað Bubbi er að skjóta sig í löppina með að hrauna yfir einstaklinga sem voga sér að hafa aðra skoðun á honum en þóknanlegt er. Menn í hans stöðu verða að kunna að anda með nefinu. Skyldi Laxness hafa farið að þræta við ung skáld hér í denn og segja að þau væru bara léleg en hann væri bestur enda þótt þau væri ekki einhuga í að hylla hann gagnrýnislaust. Held varla.

María fékk á hreint í gær að hún var valin í hóp unglinga úr Reykjavík sem fer til San Francisko í júlí á borgarleikana. Það eru fimm krakkar á aldrinum 14 og 15 ára sem fara frá Reykjavík, fjórar stelpur og einn strákur. Stelpurnar eru miklu öflugari en strákarnir í frjálsum á þessum aldri. Þetta er gaman fyrir krakkana. Þessir leikar voru haldnir í Kóreu í hitteðfyrra, í Reykjavík í fyrra og í San Francisko í ár. Það var svolítill skuggi á því að vera valin í hópinn í fyrra ef það skyldi vera eina árið sem hún yrði valin þegar þessir leikar voru haldnir í Reykjavík. Nú er þessi óvissa búin og tilhlökkun hefst. Geri ráð fyrir að gamla settið splæsi á sig ferð til vesturstrandarinnar um leið. Verður vafalaust gaman.

Hef verið að hugsa um að það væri við hæfi að láta sig hafa það einhvern tíma að ganga Pacific Crest eða leiðina fra Mexíkó til Kanada með Kyrrahafsströndinni. Þetta er um 3ja mánaða gönguleið (a.m.k.) og ekki alltaf auðveld. Þarna er allt, skógar, fjöll, eyðimerkur og ég veit ekki hvað. Maður á að láta svona lagað eftir sér en hvenær kemur að því er ekki gott að segja. Alltaf að hafa eitthvað í sigtinu.

föstudagur, mars 14, 2008

Gamli bærinn á Ísafirði

Tók 40 mín Ívar í gær. Byrjaði á 6.5 og jók síðan hraðann um 0,1 við hvern km. Var kominn upp í 6.8 á síðasta legg. Í fyrra fór ég aldrei hraðar en 6.0 og fannst það nógu erfitt. Ætla að komast vel yfir 7 áður en veturinn er úti.

Nýlegur dómur yfir Litháunum sem réðust á lögregluna í vetur er alveg fatal. Þarna er gerðgerir hópur manna meðvitaða árás á réttarríkið og einungis einn fær 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Hvaða skilaboð eru þetta? Jú þau eru þaning að þú mátt ráðast á lögreglu í starfi og beita hana ofbeldi. Ef þú neitar nógu staðfastlega þá sleppurðu. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Ég hélt að dómarar tæku mark á vitnisburði lögreglunnar í svona málum. Það er alla vega tekið meira mark á vitnisburði lögreglumanna ef maður er tekinn fyrir of hraðan akstur en á vitnisburði ökumannsins. Hvað er öðruvísi í svona máli? Árás á lögreglu er metið eitt af því alvarlegra sem maður getur brotið af sér í nálægum löndum. Fleiri ára fangelsi liggur við slíkum brotum. Er verið að dúka borðið hérlendis fyrir glæpamenn í nálægum löndum? Hvaða fíflagangur er þetta? Ég held að dómkerfið verði aðeins að fara að hugsa sinn gang ef þetta á að heita réttarríki áfram.

Bubbi Morthens gerir sig sífellt að meiri og meiri kjána. Að fara að kasta skít í Árna Johnsen fyrir söng hans og gítarspil er náttúrulega bara kjánagangur. Það má vel vera að Árni sé hvorki besti gítarleikari eða söngvari á landinu í dag en það er eitt sem hann kann og kann það vel en það er að skemmta fólki. Það geta fæstir og ekki margir jafnvel og Árni.

miðvikudagur, mars 12, 2008

<3 Svanhvít á afmælistónleikum

Fór í gær í jarðarför Lillu frá Kvígindisdal. Þeim fækkar óðum gömlu sveitungunum sem voru einni kynslóð eldri en sú sem ég tilheyri. Jarðarförin var fjölmenn og þar hittust eins og gengur margir kunningjar sem eiga ekki leið saman upp á hvern dag. Presturinn kom í ræðunni inn á þær breytingar sem voru í sveitinni á hennar æfiferli. Mikill uppgangur og framfarir framan af en síðan fólksfækkun og hnignun. Það er alltaf dapurt að sjá þróunina eins og hún er víða í hinum dreifðu byggðum. Á hinn bóginn er erfitt að sporna við þessari þróun sem er hluti af öðru og meira.

Það var einkennilegt að sjá um daginn að Arnaldur Indriðason er í hugum fólks besti íslenski rithöfundurinn. Arnaldur skrifar bækur sem eru góðar aflestrar en bækurnar hans les maður ekki oft. Hann skrifar eftir þekktri formúlu sem hefur m.a. verið notuð í Svíþjóð með góðum árangri. Sjövall og Wahlö skrifuðu t.d. 10 bækur sem eru ritaðar eftir þessari formúlu. Brunabíllinn sem hvarf, Maðurinn á þakinu, Polis Polis potatismos og fleiri. Þar er lögreglumaðurinn fráskilinn, býr í einhverri blokkaríbúð, á við vandamál að stríða í einkalífinu en tekst að leysa ýmsar gátur, oft fyrir tilviljun. Ég las þessar bækur allar á sínum tíma til að æfa mig í sænskunni. Eftir að hafa lesið nokkrar þeirra sá maður munstrið glögglega sem þær byggðust á. Eina bókin sem Arnaldur hefur skrifað í þessari seríu sem er svolítið öðruvísi er Grafarþögn. Hún er ágæt og dálítið sérstök. Hamborgarar eru vinsæll skyndibitamatur sem ekki er veislumatur. Hamborgarar eru misgóðir. Arnaldur býr til góða hamborgara.

Ég sá í morgun að forstjóri Skýrr segir að það sé ekki neinn launamunur innan fyrirtækisins. Reglulega sé farið yfir hvort einhverjir starfsmenn hafi hækkað umfram aðra sem vinna sambærileg störf. Ef svo er þá eru allir hækkaðir upp í laun þess sem efstur er. Það er fínt að þurfa ekki að gera neitt í að krefjast launahækkana heldur bíða bara eftir því að einhver gangi í málið og þá gerist allt sjálfkrafa fyrir hina. Líklega er best að setja mestu frekjuna í málið.

Utanríkisráðherra segir að eina ráðið til að fjölga kvensendiherrum var að sækja þá út fyrir utanríkisþjónustuna. Það má meir en vel vera að það sé rétt en meginspurningunni var ekki svarað: Var ástæða til að fjölga sendiherrum?

Það fjölgar alltaf þeim sem hafa skráð sig til þátttöku í 100 km hlaupinu. Þeir eru komnir vel yfir 10 eða mun fleiri en ég átti von á. Þetta er flott. Kannski verður einnig boðið upp á 50 km hlaup.

Nýlega var sett norskt met í 48 tíma hlaupi á hlaupabretti. Valdimar Andersson hljóp 277 km á 48 tímum en gamla metið var 264 km. Hann var orðinn dálítið lúinn og skakkur þegar þessi raun var yfirstaðin en kínversk kona gerði hann eins og nýjan á 15 mínútum með nálastunguaðferðinni. Daginn eftir leið honum miklu betur en honum hefur gert eftir 6tíma haup hingað til. Þökk sé nálastungunni. Brettið bilaði eftir 36 tíma svo það var eins gott að hann hafði gert kröfu um að hafa annað til vara. Það er kominn tími til að við förum að líta á þessa hluti hérlendis.

sunnudagur, mars 09, 2008

Í dag voru tvíburarnir hérna á móti okkur fermdar. Það er búin að vera mikil tilhlökkun og spekúlasjónir undanfarið enda eðlilegur hluti í aðdraganda svona merkisdaga. Svaf út í morgun því það var ekki tími til að fara út að hlaupa fyrir ferminguna. Í kirkjunni gekk allt eins og átti að vera, séra Pálmi talaði vel til krakkanna eins og hans er von og vísa og þau stóðu sig vel. Í veislunni í dag var sýnt myndband þar sem klippt voru saman brot frá liðnum árum þar sem sást hvernig fermingarbörnin höfðu stækkað og þroskast. Fór út seinnipartinn og tók tvöfaldan Poweratehring.

Á fundi í 100 km félaginu í vikunni var ákveðið að halda 100 km hlaup í vor. Það verður fyrsta hlaup sinnar tegundar hérlendis. Hlaupinn verður 10 km hringur í Fossvoginum og yfir undir Bryggjuhverfið við Gullinbrúna. Tímamörk verða 15 klst sem er nokkuð eðlilegt miðað við hæðarmismun. Einfalt og þægilegt. Aðeins ein drykkjarstöð sem verður staðsett nokkurn veginn í miðjunni. Það eru nokkrir búnir að melda sig og vonandi að fleirum vaxi ásmegin. Þetta er eðlilegur hluti af þróuninni því æ meiri fjöldi er að verða í stakk búinn til að takast á við þetta. Að hlaupa Laugaveginn þótti vera ofurmannleg raun fyrir 10 - 12 árum en núna er það ósköp hversdagslegt að skokka hann. Sex tíma hlaupið hefur einnig lokkað nýja hlaupara til átaka við lengri vegalengdir. Þetta er allt á réttri leið. Ég veit ekki hvort ég geti tekið þátt í þessu hlaupi því ég tek þátt í 24 tíma hlaupi á Borgtundarhólmi hálfum mánuði áður. Kemur í ljós.

Fékk nýlega DVD disk frá Spartathlon hlaupinu í Grikklandi í haust. Þar er bæði saga hlaupsins rakin og talað við John Loden, frumkvöðul hlaupsins, en einnig er sýnt vel frá hlaupinu í haust. Geri ráð fyrir að sýna diskinn á aðalfundi UMFR36 í lok mánaðarins.

laugardagur, mars 08, 2008

Næpukirkja í Vilnius

Tók 15 km Powerate hring í gær. Ívar sat svolítið í lærunum en það er fínt, hann hefur þá tekið í. Fór út tæplega 7.00 í morgun, hitti Jóa og Neil við brúna og tókum Kársnesið og tröppurnar. Var kominn heim um 9.45 eftir 26 km.

Fór vestur í Hólm fljótlega með mömmu, pabba og Hauk í jarðarför árna Helgasonar. Hún var gríðarlega fjölmenn eins og von var á. Árni var vinamargur og einn af þeim sem allir vissu hver var. Ég var hjá þeim hjónum Ingu og Árna í tvo vetur fyrir rúmum 40 árum þegar þau gerðu mér kleyft að klára unglingaskólann og taka landspróf með því að taka mig inn á heimilið. Það er tími sem situr í minningunni sem afskaplega góður og eftirminnilegur. Hann skipar ætíð ákveðinn sess í huganunum enda geriðst mikið á þessum árum. Árni er eftirminnilegur persónuleiki öllum sem kynntust honum. Jákvæður og glaðsinna en engu að síður principfastur með sterkar skoðanir á mönnum og málefnum.

Gott hjá Björku að ögra Kínverjum með því að segja skoðanir sína rá hernámi þeirra á Tíbet. Hernám Kínverja á Tíbet er eitt að þessum viðurstyggilegu hlutum sem heimurinn tekur sem gefnu en á alls ekki að vera slíkt. Það segir náttúrulega sína sögu að það fari allir að skjálfa í hjánum þar í landi þegar poppstelpa frá Íslandi vekur athygli á málinu. Annað hvort vita Kínverjar upp á sig sökina eða Björk er svona gríðarlega áhrifamikil, nema hvorutveggja sé. Hernám Kínverja á Tíbet er arfur frá ógnarstjórn Maós og eitt af þeim illvirkjum sem hann og hans nótar skilja eftir sig. Vafalaust munu einhverjir úr hreintrúarliðinu hérlendis verja þetta út í rauðan dauðann. Líklega þeir sem segja að það sé argasta fyrra að það hafi dáið 35 milljónir Kínverja af völdum Maós. Þeir hafi ekki verið nema 30 milljónir!!!

Fékk nýjasta eintak Þjóðmála í fyrradag. Fínt hefti eins og vanalega. Í því er m.a. athyglisverð grein um viðbrögð við bókinni Islamistar og naívistar annars vegar og bókinni Islam með afslætti hins vegar . Í fyrrnefndu bókinni er fjallað með gagnrýnum hætti um hættuna af auknum ítökum Islamista á vesturlöndum. Enginn fjölmiðill hérlendis minntist á hana. Allir steinhéldu þeir kjafti enda þótt hún sé rituð af tveimur áhrifamiklum dönskum stjórnmálamönnum sem ekki koma úr Fremskridspartiet. Bókin Islam með afslætti er nær óslitinn áróður gegn birtingu dönsku skopmyndanna og gegn málfrelsisrökum dana. Nú tóku hérlendis fjölmiðlar við sér og um bókina var fjalla í hverjum einasta kjaftaþætti sem hugsanlegt var. Mogginn tók forsíðu lesbókarinnar undir umfjöllun um bókiina. Þetta er í stíl við umfjöllunina um Imaninn frá USA sem kom hingað nýlega. Þrjá morgna í röð var gagnrýnislaus umfjöllun um málflutning þessa áróðurssendiboða í morgunútvarpi ríkisútvarpsins. Það er ekki spurning um að naivistarnir er ráðandi í fjölmiðlaumfjöllun hérlendis að miklu leyti.

Það fer fátt meir í taugarnar á mér þegar grimmdarverk gegn fólki sem unnin eru í krafti trúarinnar eru réttlætt sem "mismunandi menningarheimar". Kristnir menn gengu í gegnum galdrabrennutímabilið fyrir nokkur hundruðum ára og menn eiga ekki að sætta sig við einhvern miðaldarhugsunarhátt sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut í dag.

Mæli með tímaritinu Þjóðmál. Ómissandi fyrir alla þá sem aðhyllast gagnrýna þjóðfélagsumræðu enda þótt menn þurfi ekki að vera sammála hverju orði.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Vegna tímaskorts í gær tók ég bara 3 km í Laugum. Hitaði upp í tæpan km og tók síðan meiri hraða. Kláraði 3 km á rétt rúmum 12 mín. Ætla að gera betur næst og hita þá upp í ca 1 km áður en 3ja km spretturinn byrjar. Tók svo 10 km í dag. Náði að fara undir 41 mín. Hef náð meiri hraða í hvert sinn sem ég hef tekið þessa vegalengd að undanförnu. Ætla að hita upp áður en ég byrja næst. ´Sub 40 fer að nálgast. Líklega þarf maður að setja á 1% halla til að ná meiri átökum.

Maður veit bara ekki hvernig þetta lið sem er á Hrauninu lítur á sig og sína vera þarna. Er þetta bara hressingarhæli þar sem menn ráða sér að eigin vild eða er þetta staður sem er notaður til að geyma hættulega glæpamenn menn þar sem nauðsyn bar til að fjarlægja þá úr þjóðfélaginu almennum borgurum til verndar. Blaðamenn opinbera síðan einfeldni sína eða þessa algeru kranablaðamennsku sem tröllríður fjölmiðlum í dag með því að taka þetta rugl upp og hampa því á síðum blaða og í þjóðarsálum útvarpsins. Þegar birtar eru fréttir um að bálreiðir fangar hafa í hyggju að kæra forstöðumann fangelsins vegna brots á meðalhófsreglu og hann er einnig sakaður um að hóprefsingu hafi verið beitt vegna dópleitar þá veit maður ekki lengur hvað snýr upp og hvað snýr niður. Hver var glæpurinn? Jú, það var farið í alla klefa á ákveðnum gangi og leitað kerfisbundið að dópi vegna rökstudds gruns um að slíka vöru væri þar að finna. Þar sem þeir sem gistu í klefunum ætluðu að fara að taka á sig náðir þá urðu þeir mjög reiðir út í forstöðumanninn þegar ró þeirra var raskað. Hvað heldur þetta lið að það sé? Gestir á fimm stjörnu hóteli sem geta hengt "Do not disturb" á snerilinn eftir kl. 22.00 á kvöldin. Fínt hjá Margréti að taka ekki með neinum silkihönskum á þeim málum þar sem nauðsyn ber til.

Það var fínn pistillinn sem Ómar skrifaði vegna þess að einhverjir bjánar höfðu krassað á danska sendiráðið og hengdu upp fánadruslur. Íslandssaga Jónasar frá Hriflu fól í sér ákveðna skoðun á dönum sem nýlenduþjóð og hvernig þeir hafi komið fram við íslandinga fyrr á öldum. Ég held að það sé rétt hjá Ómari að fyrst íslendingar misstu sjálfstæðið þá hafi þeir ekki getað fengið betri herra en dani. Bretar meðhöndluðu íra eins og hunda meðan þeir ríktu yfir Írlandi og menn geta séð hvað var að gerast í Norður Írlandi fram á síðustu ár.

mánudagur, mars 03, 2008

Fór út um kl. 7.00 á laugardagsmorguninn og hitti Neil og Jóa síðan við brúna. Tókum samtals um 30 km í fínu veðri. Fór síðan niður í World Class á sunnudagsmorguninn og tók 20 km á bretti.

Stefán Viðar keypti af mér Herbalife dunka fyrir skömmu. Hann æfir mikið og leggur hart að sér og ætlar að fara undir 2.40 í maraþoni í ár. Hann sá ástæðu til að fara að huga betur að mataræðinu og ákvað að prófa Herbalifið sem próteingjafa og til að eiga léttara með að ná sér eftir erfiðar æfingar. Hitti hann niður í Laugardal á sunnudaginn á öldungamótinu. Hann sagðist finna verulegan mun á sér eftir að hann fór að nota Herbalfið. Hann notar það bæði fyrir og eftir erfiðar æfingar. Mest sagðist hann finna mun á sér hvað hann ætti betra með að sofna og hvíldist betur. Áður hafði líkaminn ekki fengið það sem hann þurfti eftir mikið álag, var lengur að ná sér og þá var eitthvað óþol eða vöntun þess valdandi að hann átti erfiðara með að hvílast og sofna. Mér fannst þetta flott því það er það versta að vera selja fólki eitthvað sem kostar peninga en skilar engu. Ég át um tíma fyrir þremur árum rautt Eðalginseng. Ég hefði eins getað drukkið vatn, ég fann aldrei neinn mun á mér eftir að hafa borðað Eðalginsengið.

<3 Svanhvít átti ársafmæli þann 1 mars. Þau voru að spila á Organ um kvöldið. Ég fór þangað og tók dálítið af myndum af þeim. Þeim hefur fariuð mikið fram og eru orðin þétt band sem spilar skemmtileg lög. Hef í hyggju að setja saman bók um fyrsta ár sveitarinnar á Blurbinu.

Sá í blöðunum fyrir helgina að að hafði verið gerð skoðanakönnun um hver lægstu laun ættu að vera. Niðurstaða könnunarinnar var að lægstu laun ættu að vera einhversstaðar á þriðja hundrað þúsund krónur. Einhverjir töluðu um að það ætt að lögfesta lægstu laun á þessu bili. Ég skil nú ekki þennan nánasarhétt fyrst farið er af stað með að hækka lægstu laun hraustlega á annað borð!! Af hverju segja menn ekki 500 þúsund eða milljón? En er þetta svona einfalt? Í fyrsta lagi er samið um laun í opnum og frjálsum kjarasamningum. Launþegasamtökin og samtök atvinnurekenda semja ium ákveðin laun, launaþrep og hvað þetta heitir allt saman. Launin eru sem sagt niðurstaða í samningum hjá þeim sem fara með hagsmuni launafólks og ég hef ekki séð að það sé neinn Kópavogsfundarbragur þegar skrifað er undir kjarasamninga heldur eru samningsaðilar yfirlett heldur kátir. Í öðru lagi má spyrja hvað með þá sem voru kannski með um 200 þúsund á mánuði ef lægstu laun væru hækkuð upp í ca 230 þúsund. Ætli þeir yrðu kátir með framvindu mála. Laun eru nefnilega alltaf mjög afstæð. Ef þú ert ánægður með þín laun vegna ess að þú sérð að þú ert hærri en ákveðnir hópar þá verður þú óánægður með þín laun ef þessir sömu hópar eru orðnir jafnháir eða hærri en þú, enda þótt þín laun séu óbreytt.
Í þriðja lagi hlýtur maður að spyrja að því hvað myndi gerast ef laun myndu almennt hækka svona hraustlega, enda þótt ég sé ekki að segja að þatta séu há laun sem nefnd voru sem lágmarkslaun. Kostnaður viðkomandi fyrirtækja myndi vaxa verulega. Við því eru tvenn viðbrögð. Í fyrsta lagi að hækka verð útseldrar þjónustu og vöru. Það væru ákveðin takmörk á því hvað varan gæti hækkað mikið því á hætti hún að seljast. Í öðru lagi myndi hækkað vörverð þýða hærri verðbólgu og kjararýrnun, krónurnar yrðu minna virði og þar af leiðandi launin einnig. Fyrirtækin myndu einnig bregðast við þessari þróun með hagræðingu og sparnaði. Starfsfólki yrði fækkað eins og hægt væri hjá þeim fyrirtækjum þar sem launakostnaður yrði hár. Niðurstaðan yrði hærra atvinnuleysi og sérstaklega hjá láglaunafólki.

Það er alltaf pirrandi að sjá svona bullumræðu í blöðunum þar sem einungis er fjallað um einn flöt af sex á teningnum og rætt um mikla hækkun lægstu launa eins og það sé eingöngu spurning um viljaleysi að þeims é ekki útrýmt. Er ekki bara hægt að útrýma lægstu launum var einu sinni spurt í sjónvarpsviðtali. Það er alveg eins hægt að spyrja: "Er ekki hægt að skera vinstri endann af spottanum og hafa bara hægri endann á honum?"