miðvikudagur, september 30, 2009

Paul McCartney - Blackbird

Þátttakendur í sex tíma hlaupi 2007

Það var vægast sagt einkennileg fréttaskýring í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi. Umfjöllunin snerist um stöðu fólks sem er að fara í kynskiptingu. Heilbrigðisráðherra gaf sl. vor út reglugerð þar sem kveðið var á um, eins og ég skildi málið, að viðkomandi hefðu ekki lengur sjálfsafgreiðslu á almannafé heldur þyrftu að sækja um fjárveitingu til að greiða tilheyrandi aðgerðir og meðferð. Ríkið stendur jú frammi fyrir þvi að þurfa að skera niður ríkisútgjöld um tugi milljarða og einhversstaðar kemur það við. Það var sett um mikið drama í kringum þetta í Kastljósinu. Rætt var við landlækni og geðlækni sem lýstu því hvað þeir einstaklingar sem væru staddir í þessum meðferðarprósess væru örvinglaðir og eiginlega allt í uppnámi. Síðan var rætt við heilbrigðisráðherra. Hann kannaðist ekki neitt við neitt. Það þyrfti jú að sækja formlega um fjárveitingar en annars væri allt við það sama. Maður sat eftir og spurði, hvert var málið?

Ef á að fjalla með álíka hætti um allan þann niðurskurð í ríkisfjármálum sem óhjákvæmilegur er hvort sem gjaldeyrisvarasjóðurinn verði styrktur með láni frá AGS eða Norðmönnum, þá er ég hræddur að Kastljósinu endist ekki kvöldið alla daga vikunnar.

Það var athyglisverð frétt í Mogganum nýlega þar sem Ásgeir Jónsson hagfræðingur lýsti viðbrögðunum við´greinargerð sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Í henni fór hann yfir líkleg áhrif hinnar miklu þenslu í samfélaginu sem fyrirsjáanleg var. Viðbrögðin voru heiftarlege. Hann var náttúrulega sjálfur hrakinn, hæddur og smáður en þar á ofan hótuðu mörg stórfyrirtæki að hætta viðskiptum við Kaupþing. það væri ekki hægt að skipta við fyrirtæki sem hefði svona bandit í vinnu. Það var ekki tekin fagleg umræða, rök á móti rökum heldur frumskógalögmálið sett í gang á fullu. Sendiboði válegra tíðinda skyldi skotinn umsvifalaust. Þá yrði allt gott og gaman aftur.

Nú vaknaði von hjá hlaupurum um að von sé betri tíma í íþróttaumfjöllun ríkisjónvarpsins. Í íþróttaþætti nýverið var í löngu máli farið yfir íslandsmótið í brennibolta og bandy í máli og myndum. Mjög fínt. Þá er von til að RUV uppgötvi Laugavegshlaupið sem er annað fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Þar öttu kappi sl. sumar á fjórða hundrað manns. Það er jafnvel von á að RUV uppgötvi Reykjavíkurmaraþonið þar sem 11.500 manns hlupu lengri eða skemmri vegalengd í sumar. Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég hvíldi í viku eftir London Brighton. Allt er í fína og bara tilhlökkun inn í komandi tíma. Ætli haustmaraþonið sé ekki næst. Járnbræður munu munda spjótin í Barcelona um helgina. Það verður gaman að fylgjast með hvernig gengur.

laugardagur, september 26, 2009

Stofnfélagar 100 km félagsins þann 26. sept. 2004. Á myndina vantar Pétur Reimarsson.

Ég var náttúrulega búinn að gleyma því að það er afmælisdagur í dag. Það var hinsvegar rifjað upp af mér minnugri mönnum hvað gerðist þennan dag fyrir fimm árum. Þá stofnuðum við Ágúst Kvaran, Siggi Gunnsteins og Svanur Bragason félag 100 km hlaupara í heita pottinum í Vesturbæjarlaug. Fimmti stofnfélaginn, Pétur Reimarsson, var löglega forfallaður þar sem hann lá veikur heima. Ágúst var eðlilega kjörinn forseti félagsins þar sem hann lauk 100 km hlaupi fyrstur íslendinga. Markmið félagsins var m.a. að breiða fagnaðarerindið út. Það hefur tekist nokkuð vel því fimm árum síðar eru félagsmenn samtals 28. Þeir hafa hlaupið lengri og skemmri ultrahlaup út um allan heim og tekið þátt í öðrum ultrakeppnum af ýmsu tagi. Þó að félag sem þetta sé ekki með sífellda fundi eða né stöðuga starfsemi þá eykur það samheldni félaganna, stuðlar að miðlun þekkingar og reynslu og verður að síðustu öðrum hvatning til frekari átaka. Upptaka í klúbbinn er stór áfangi eftir að hafa tölt mörg skref í áttina að þessu marki. Þegar stofnun félagsins var lokið og við á leið út frá Vesturbæjarlaug þarna fyrir fimm árum þá hitti Ágúst einn félaga sinn og sagði honum frá því hvaða tímamót hefðu átt sér stað þennan daginn. "Hvað þurfa menn að hafa hlaupið langt til að komast í félagið?" spurði félaginn. "100 km" svaraði Ágúst. "Samtals?" spurði félaginn. "Nei, í einum rykk" svaraði Ágúst. Þá hristi félaginn hausinn yfir þessum ósköpum og gekk burt.

While My Guitar Gently Weeps - George Harrison

Spói í baði

Það var flott söfnunin hjá Eddu Heiðrúnu Backmann og Grensássamtökunum í gærkvöldi. Því miður sá ég dagskrána ekki nema að litlu leyti. Undirtektirnar voru frábærar enda vel að öllu staðið og málefnið komst vel til skila. Það var gaman að geta lagt þessu verkefni örlítið lið sl. sumar. Móttökurnar við Þelamerkurskóla eru stund sem mun seint líða manni úr minni.

Ég fór í gærmorgun austur á land og sat hluta af aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sem haldinn var á Seyðisfirði. Síðan keyrðum við Karl Björnsson framkvæmdastjóri til Mývatns en þar var haldinn aðalfundur Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Það var ánægjulegt að koma á þessa fundir og hitta sveitarstjórnarmenn þessara tveggja landshluta á sínum heimavelli. Haustlitirnir voru fallegir á Mývatni í dag þegar við renndum hringinn en því miður skildi ég myndavélina eftir heima. Við renndum aðeins upp að Dinnuborgum. Þar er nýbyggt þjónustuhús sem sannarlega var byggt vonum síðar. Gróflega reiknað er talið að milli 250 og 300 þúsund manns hafi komið í Dimmuborgir í sumar. Bílastæðið er allt of lítið og ber ekki allan þennan fjölda. Ferðaþjónustan er í mikilli sókn þarna fyrir norðan. Hótelstjórinn í Reynihlíð lét vel af sumrinu.

Spartathlonhlaupið í Grikklandi var haldið í dag. Veðið var svipað og í fyrra, um 27°C og nokkur vindur eða 3 m á sek. Nær 370 hlauparar lögðu af stað en einungis 132 náðu í mark innan tilskilins tíma. Frá Norðurlöndunum mættu 45 hlauparar og náðu 17 þeirra í mark. Það bar helst til tíðinda að Lars Skytte frá Danmörku varð í 2. sæti á 24.31 klst og Jon Harald frá Noregi varð þriðji á 25.09 klst. Þetta er magnað hjá þeim félögum og þeir eru með þessu að festa sig í sessi meðal bestu ultrahlaupara heimsins. Lars var 3ji í fyrra og Jon Harald varð 7. í HM í 24 tíma hlaupi í fyrra. Eiolf Eivindssen lauk sínu 7. hlaupi á rúmum 34 klst. Ýmsir náðu ekki í mark sem ég þekki s.s. Kim Rasmussen frá Danmörku, Geir Fryklund fá Noregi og Kent Sjölund frá Svíþjóð. Synd með Kent því hann lauk hlaupinu ekki heldur í fyrra og var þá dálítið niðurdreginn. Trond Sjövik hóf ekki keppni. Margarethe Lögavlen, þekktasti ultrakvenhlaupari Noregs, þurfti einnig að hætta. Finninn Esa, sem varð þriðji 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi í vor, stóð sig vel og lauk hlaupinu á rúmum 32 klst. Einnig stóð Daninn Vagn sig vel en hann varð þriðji í 24 tíma hlaupinu í á Borgundarhólmi í fyrra. Spartathlon er ekkert grín. Það er mesta ultraáskorun í heimi. Það að ljúka hlaupinu er draumur flestra ultrahlaupara sem reynist mörgum torsóttur.

Það hringdi í mig einhver blaðamaður af Mogganum á fimmtudaginn og spurðist fyrir um London Brighton hlaupið. Ég sagði honum frá því eins og ég best kunni. Annað hvort gerir hann svo misheppnaða tilraun til að vera fyndinn eða hann skildi ekki betur það sem ég sagði honum því búturinn sem birtist í Mogganum var dæmi um týpisk aulaskrif. Eftir skrifunum mátti helst ráða að ég hefði verið einn um það að missa af slóðanum í hlaupinu því það var orðið að aðalatriði skrifanna án þess að vera sett í neitt samhengi við eðli hlaupsins eða hvernig gekk hjá öðrum. Kjánalegt.

föstudagur, september 25, 2009

Neil var líka mættur

Kominn í mark

Hlaupið yfir tún

Akrar og tún

Klifrað yfir girðingu

Fyrsta drykkjarstöðin

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Mogginn þróast eftir ritsjóraskiptin. Stjórnin tekur nokkra áhættu með því að ráða DO sem ritstjóra. Annað hvort nær hann undirtökum eða ekki. Blaðið getur náð mikilli siglingu eða það getur hrunið. Ég ætla ekki að segja því upp sem stendur. Það var mikið talað um uppsagnir á blaðinu í gær. Það er náttúrulega aldrei skemmtilegt að segja fólki upp vinnunni, allra síst á tímum eins og við lifum á í dag. En hvað eiga þeir að gera sem hafa lagt fjármuni í reksturinn. Ef blaðið er rekið með tapi áfram þá hlýtur að koma að því að það siglir í strand. Útgáfan mun þá hætta. Þá missa allri vinnuna sme vinna við það. Það er vitaskuld skynsamlegra að bjarga þvís em bjargað verður ehldur en að sigla öllu upp í fjöru.

Ég verð að segja að mér finnst það heldur undarleg skilaboð frá stjórnvöldum að spurningalistinn mikli sem íslenska stjórnkerfið og einstök samtök og hagsmunaaðilar verða að svara á næstu vikum skuli ekki vera þýddur á íslensku. Það er náttúrulega grundvallaratriði að menn skilji almennilega það sem spurt er um þegar verið er að fjalla um eitt stærsta mál í sögu þjóðarinnar. Bæði er það ekki jafnstaða að þurfa að vinna á öðru tungumáli en sínu eigin og síðan er stofnanamál ekki það auðskyldasta. Það duga engar venjulegar orðabækur í þeim efnum. Svona lagað gerir náttúrulega ekkert annað en að kynda undir andstöðuna við inngönguna í sambandið. Ef fólk fær það á tilfinninguna að það standi ekki jafnfætis öðrum þá snýst það til varnar.

fimmtudagur, september 24, 2009

And I Love Her

Kallinn flottur á afmælisári

Úrslitin í London Brighton lágu fyrir í dag. Alls náðu 157 hlauparar til Brighton innan tilskilinna tímamarka af þeim 224 sem hófu hlaupið á grænum grundum Lundúnaborgar. Ég varð 76 af þeim 157 sem luku hlaupinu eða rétt fyrir framan miðju. Ef ég hefði ekki hlaupið 8 km extra hefði ég verið á ca 10:40 klst og nálægt 35 sæti. Vafalaust hafa margir bretanna einnig farið aukaleggi svo þetta er allt afstætt. Ég sé að Jan Söderquist, eini norðurlandabúinn fyrir utan mig sem ég sé, varð í sætinu fyrir framan mig á rétt um einni mínútu betri tíma. Hann hljóp hlaupið í fyrra en náði ekki í mark innan tilskilins tíma. Hann kom í mark í Brighton á 13:05 ásamt Kjell Ove Skoglund, þeim mikla hlaupara. Nú náði Jan hins vegar að ljóka hlaupinu með sóma. Neil varð í 19 sæti. Hann var lengi í fjórða sæti en missti af leiðinni og það kostaði hann töluvert hrap niður. Slóðin er www.extremerunning.org

Skelfing er dapurlegt að vera smár. Að undanförnu hefur maður lesið miklar langlokur um vistaskipti landsliðsfyrirliðans frá Barcelona til miðlungsliðs í Frakklandi sem hefur það eitt sérstakt til að bera að umfram önnur miðlungs lið frönsk að launin eru skattfrjáls. Það eru í sjálfu sér ágæt býti. Maður hefur séð að upphrópanir í hérlendum "stórblöðum" um að "Hann sé fullkominn leikmaður", "Hann eigi eftir að bjarga Monacó" og þar fram eftir götunum. Hvaða innistæða er fyrir þessu orðagjálfri? Teitur Þórðarson og Karl Þórðarson léku með ágætum liðum í Frakklandi hér fyrr á árum án þess að menn færu úr hjörunum af því. Það er þó sjálfsagt langt í að nokkur slái Albert Guðmundssyni við sem enn er þekktur í Frakklandi fyrir snilli sína, mörgum áratugum eftir að hann spilaði fótbolta þar. Verðið á landsliðsfyrirliðanum og skrefið niður á við fótboltalega séð sýnir ósköp einfaldlega að virði hans hefur minnkað verulega. Hann er seldur á miklu lægri upphæð frá Barcelona en félagið keypti hann á og til miklu lakara liðs. Réttilega var hann kallaður latur leikmaður í einhverjum erlendum fjölmiðli um daginn. Af hverju þurfa menn alltaf að byggja upp einhverja sýndarveröld í stað þess að tala um hlutina eins og þeir eru. Á hinn bóginn hefði ég einnig farið til Mónakó í hans sporum. Skattarnir skipta máli og það er rétt af honum að byggja fjárhagslega undir sig og sína eins og fært er meðan möguleiki er á. Það má óska honum til hamingju með þá hlið mála.

Raggi Bjarna var 75 ára í gær. Kallinn er magnaður. Hann hefur ekki átt önnur eins ítök hjá þjóðinni í áratugi eins og um þessar mundir. Hann er meðfæddur entertainer. Tala um comeback.

Hvað eru Hagsmunasamtök heimilanna? Hverjir mynda þessi samtök? Fyrir hverja tala þau? Tala þau fyrir öll heimilin í landinu eða kannksi bara fyrir sum heimilin í landinu? Það þarf ekki stóran hóp til að troðfylla Iðnó. Kannski svona um 150 manns? Á góðan kvótafund fyrir vestan koma svona 600 manns. Það er hefðbundin fundarsókn um þessi mál í 4500 manna plássi. Ég sé nýlega í blöðum að Capacent gerði skoðanakönnun um ýmis atriði fyrir samtökin. Svörunin var 52%. Niðurstöðurnar blásnar upp eins og þær væri að fullu marktækar fyrir heildina. Það veit hver maður sem eitthvað hefur kynnt sér úrtaksfræði að niðurstöður skoðanakönnunar þar sem svörunin er 52% segir ekki neitt um afstöðu heildarinnar. Hún segir það eitt að helmingurinn hafi þessa eða hina skoðunina. Maður veit ekkert um hinn helminginn. Það væri hvergi í nálægum löndum litið svo á að hinn helmingurinn hefði sömu skoðun og sá sem svaraði. Svona aðferðafræði er eins og að telja spil í spilastokki og telja upp í 30 spil. Þá væri stokknum hent frá sér og sagt: "Fyrst að það er rétt sem búið er, þá hlýtur það að vera rétt sem efir er."

þriðjudagur, september 22, 2009

Ég flaug út á föstudagseftirmiðdag og tók lestina út til Oakwood þar sem Neil og Clare búa. Það er í útjaðri Lundúna svona í NA átt frá miðborginni í hverfinu Enfield. Þau keyptu sér þar nýtt fallegt hús á sl. vetri og er það vafalaust mikill munur frá þriggja herbergja blokkaríbúðinni þar sem þau bjuggu áður. Þau tóku mér eins og týnda syninum og var virkilega gaman að hitta þau. Ég hafði ekki hitt Clare fyrr. Hún er góður maraþonhlaupari og á tíma niður á 3.05. Hún er einnig farin að færa sig yfir í ultrahlaup og lauk m.a. Comerades hlaupinu nú í vor á 9.40. Við Neil fórum aðeins í bæinn á laugardaginn en annars tókum við því rólega, horfðum á bíó í bíóherberginu!! og gerðum okkur svo klára fyrir sunnudaginn. Það var farið snemma upp á aðfaranótt sunnudagsins eða rúmlega þrjú. Við þurftum að vera mættir á startsvæðið upp úr kl 5:00 en um klukkutímaakstur er þvert yfir borgina. London Brighton hlaupið er ræst á sama stað og Londonmaraþonið. Alls voru skráðir 224 keppendur til leiks og voru það nokkru fleira en í fyrra. Ég vissi svo sem ekki alveg hvernig hlaupið væri lagt upp. Kortabók hafði verið send út til þátttakenda um mánuði fyrir hlaup. Neil sagði mér að brautin væri alveg ómerkt og maður þyrfti að rata eftir bókinni. Ekki væri öruggt að fylgja næsta manni á undan því ekki væri öruggt að hann væri með leiðina meir á hreinu en maður sjálfur ef maður væri ekki öruggur. Veðrið var fínt, um 18°C, logn og skýjað. Við fengum miða með símanúmeri neyðarlínunnar við afhendingu gagna ef keppendur skyldu villast. Það kom í ljós að það var ekki að ástæðulausu. Áskilið var að keppendur hefðu á sér síma til að geta látið vita af sér ef í nauðirnar ræki. Hlaupið var ræst á mínútunni 6:00 og strollan lagði af stað. Hámarkstími til að ná til Brighton voru 13 klst. Mér varð brátt ljóst að rötunin skipti ekki síðra málið en hlaupahraði þegar út á landið væri komið. Ég hafði aldrei hlaupið svona orienterings hlaup eða rathlaup áður og var því harla óvanur þvi að fara svona langa leið því sem næst skref fyrir skref eftir korti. Hlaupið var létt í upphafi og ég var með fyrsta stóra hópnum. Neil og nokkrir aðrir tóku forystuna en Neil sagðist ætla að pressa sig í hratt hlaup. Ég vissi að ég væri ekki í mínu besta formi og því væru engin afrek framundan. Markmiðið væri fyrst og fremst að hlaupa til Brighton, hafa gaman af deginum og gera það sem maður gæti. Drykkjarstöðvar voru alls fimm á leiðinni með um 15 km. millibili. Ekki var möguleiki á að senda neinar vistir út svo maður þurfti að hafa allt með sér í bakpoka. Gel, duft, næringu, jakka, krem, plástra og annað sem getur verið nauðsynlegt að hafa á langri leið. Maður þurfti ekki að hafa áhyggjur af rötuninni til að byrja með eða svo hélt maður. Maður reyndi fyrst og fremst að fylgjast með hvar maður væri staddur svo alltaf væri hægt að átta sig á við hvaða gatnamót maður var staddur í það og það skiptir. Engar merkingar voru á allri leiðinni nema í tveimur eða þremur tilvikum þar sem farið var yfir golfvöll og stór engi. Eftir um 14 km villtist hópurinn sem ég var í samfloti með. Allt í einu áttuðum við okkur á að það kom enginn á eftir og göturnar stemdu ekki við kortið. Þá byrjar diskussion. Hvert á að fara? Margar skoðanir á lofti. Hver var sú rétta? Eftir tvær tilraunir þá hittum við á réttu leiðina og komust inn á götuna aftur. Þarna varð drjúg töf. Við fyrstu drykkjarstöðina fékk maður nákvæma staðsetningu aftur og ég sá að það þýddi ekkert annað en að reyna að treysta á sjálfan sig, a.m.k. með að hafa alveg á hreinu hvar maður væri staddur í það og það skiptið. Nú breyttist landslagið og maður var kominn út úr borginni og út í sveit. Þá var hlaupið yfir akra og engi, gegnum skógarstíga og inn og út úr limgerðum. Leiðin lá að miklu leyti eftir svokölluðum "Public Footpath" eða almenningsstígum sem eru til að fólk geti farið yfir opið land án þess að troðast yfir girðingar eða á annan hátt verið með átroðning. Ég veit ekki hvað maður klifraði yfir marga tugi girðinga á leiðinni eða fór í gegnum mörg húsdýraheld hlið. Nú fór landið að verða mjög mishæðótt. Leiðin lá upp og niður hæðir, eftir bithögum, gegnum hlaðið á bóndabæjum, eftir skógargöngum, gegnum skógarþykkni eftir skógarstígum, gegnum þorp, yfir tún og akra, yfir golfvelli og stór engi. Sumsstaðar var leiðin nokkuð skýr en annarrstaðar þurftu keppendur næstum að treysta á þriðja skilningavitið. Í þorpunum gat maður treyst á hjálpsama íbúa. Kortið sýndi beygju einhversstaðar í þorpinu. "Farðu að póstkassanum þarna niðurfrá og beygðu þar í gegnum göngin" var sagt þegar maður var að vandræðast með hvert skyldi haldið. Í skóginum kom maður að krossgötum. Beygjan á kortinu var til vinstri en var maður á réttum stað. Það var alls ekki öruggt. Við aðra drykkjarstöðina tapaðist kúrsinn aftur. Það þyrfti að klifra yfir nokkrar girðingar til að ná leiðinni aftur. Maður hélt svona 10 km hraða á klst framan af og það var allt í lagi miðað við uppleggið. Skömmu áður en kom að þriðju drykkjarstöðinni lenti ég í verstu villunni. Við vorum fjögur saman sem á einhvern óskiljanlegan hátt tókum vitlausa beygju á einhverjum stað og vissum svo ekkert hvar við vorum. Loks hittum við einhvern á götunni sem gat bent okkur á rétta leið og komum á drykkjarstöðina innan skamms. Það var svolítið pirrandi að maður rakst trekk í trekk á hlaupara á drykkjarstöðvunum sem voru miklu hægari en fóru hins vegar réttari leið. Nú fór maður bæði að vera vanari við að nota kortið og lesa leið og kort saman. Einnig fór ég að gæta mín betur og beið frekar á óvissupunktum eftir næstu mönnum heldur en að taka áhættuna á að velja vitlausa leið. Það var gott að bera sig saman því margir voru ekkert öruggari en maður sjálfur. Tíminn leið og leiðin einnig. Ég fór að sjá fram á að komast til Brighton eftir ca 11 klst hlaup og þótti það svo sem allt í lagi miðað við allt og allt. Aðalatriðið var að ná undir tilskyldum mörkum því reynslan hafði sýnt manni fram á að það var kannski ekki alveg sjálfgefið. Ég hljóp nokkurn tíma með strák frá Essex. Hann var að hefja sinn ultraferil en hafði sett sér metnaðarfull markmið. Hann tókst allur á loft þegar ég sagði honum frá hvaða hlaupum ég hafði tekið þátt í. Hann sagðist vera búinn að skrifa bæði Western States og Spartathlon á lista yfir framtíðarmarkmið sín. Vonandi tekst honum að upplifa það að ljúka þessum miklu hlaupum. Á síðustu drykkjarstöðinni fyllti ég á alla tanka en maður var farinn að drekka ansi mikið. Ég hafði ekki hitaæft neitt fyrir hlaupið. Leiðin hafði reynst miklu erfiðari en ég hafði reiknað með þar sem landið þarna er mjög mishæðótt og það tekur í að vera sífellt að hlaupa upp og niður, upp og niður. Þegar um 10 km eru eftir þarf að paufast yfir töluverða hæð sem er nokkur hundruð metra há. Síðan liggur leiðin að miklu leyti niður á við. Nú fór að hilla í sjóinn og hæstu húsin í Brighton. Þetta var farið að styttast. Tíminn hafði teygst og það voru liðnir rúmir ellefu og hálfur tími þegar ég náði í gegnum hliðið við ströndina í Brighton. Þetta hafði allt gengið upp að lokum og var á margan hátt mjög skemmtilegt. Svona hlaup er allt önnur reynsla en að hlaupa leið þar sem maður getur fylgt leiðinni í blindni. Neil var mættur þegar ég kom. Hann lauk hlaupinu á um 10 klst. Þegar yfir lauk þá hafði ég hlaupið um 8 km aukalega og í þá aukakílómetra fór allavega rúmur klukkutími ef ekki einn og hálfur því maður tekur drjúgan tíma í að spá og spökulera þegar maður hefur villst. Sigurvegarinn lauk hlaupinu á 8.30 klst. Ég var á hinn bóginn tiltölulega sáttur því Neil hafði eftir mótshöldurum að af þeim 224 sem lögðu upp um morguninn þá hefðu tæplega 100 manns helst úr lestinni vegna villu eða fallið á tíma. Það eru mikil afföll á ekki lengra hlaupi og við góðar veðurfarslegar aðstæður. Margir bretanna sem voru framarlega höfðu æft mikið á brautinni og þekktu hana að stofni til mjög vel. Þeir gátu því verið nokkuð öruggir um að sleppa við allar villur. Ég er hins vegar alveg viss um að ef ég hefði átt að fara leiðina einn með landakortið að vopni þá hefði ég aldrei komist alla leið, alla vega ekki innan tilskilinna tímamarka í hlaupinu. Til þess er rötunin allt of flókin fyrir viðvaning við að hlaupa eftir korti. Við fórum að tygja okkur af stað eftir að hafa farið í kalda sturtu sem var mjög hressandi. Viðurgjörningur í markinu var heldur lélegur, vatn og bananar. Það var ekki alveg sú kartafla sem maður þurfti á að halda eftir að hafa hlaupið legginn frá London til Brighton. Ég var svakalega þyrstur eftir hlaupið og var nokkuð lengi að ná þorstanum niður. Maður gat drukkið endalaust og var samt þyrstur. Ég hafði líklega svitnað meir en ég hélt og var orðinn dálítið þurr. Við tókum síðan lestina til London og svo út til Oakwood, dálítið þreyttir en ánægðir með daginn. Neil var hinn kátasti með að hafa tekið þetta hlaup með mér, honum fannst það einnig erfitt en við vorum sammála um að það hafði verið ansi skemmtilegt. Viðbótaráskorunin í rötuninni gerir það ólíkt öðrum ultrahlaupum sem ég hef tekið þátt í. Þar skiptir heppni dálitlu máli en einnig að halda athyglinni að fullu vakandi allan tímann.

fimmtudagur, september 17, 2009

The Beatles - Don't Pass Me By

Skógurinn á Gilsbakka er bara vöxtuglegur

Mér finnst svíar vera ansi ónærgætnir í garð allra þeirra venjulegu íslendinga sem búa í Svíþjóð. Þeir voru ekki seinir á sér að birta með stórum stöfum að "en islänning" hefði haft stórfé af fjölda svía. Þetta kemur ofan á margháttaða umræðu um fyrrverandi útrásarvíkinga sem hafa farið vítt um héröð og oftar en ekki skilið eftir sig sviðna jörð. Það er gaman eða hitt þó heldur fyrir hinn venjulega íslending að sitja undir þessu. Mér þykir einsýnt að hinn meðvitaði hluti íslendinga taki upp hanskann fyrir saklausa landa sína erlendis og mótmæli þessum fréttaflutningi sænskra. Það á í besta falli að segja í svona tilfelli "en utländsk statsborgare" samkvæmt umræðunni hérlendis!!

Ég sá fína grein um grikkjann Yiannis Kurosis á dögunum. Yiannis er mesti ultrahlaupari sem uppi hefur verið fyrr og síðar. Hann á að ég held þrjá bestu tíma í Spartathlon hlaupinu. Hann á mikinn fjölda heimsmeta og aldursflokkameta. Hann hefur hlaupið 1.036 km í sex daga hlaupi. Nýsett norðurlandamet er 851 km. Hann leggur mjög mikið upp úr andlega þættinum í ultrahlaupum. Andinn verður að vera sterkari efninu. Andlegur styrkur er miklu mikilvægari í slíkum keppnum en líkamlegur. Reynslan sem byggist upp með aldrinum gerir það að verkum að hæfileikinn til að þola sársaukann eykst með árunum. Hann hvílist ætíð um þrjá mánuði á hverju ári. Það sem er mjög merkilegt við Kurosis hvernig hann æfir. Hann hleypur sjaldan legnra á æfingum en 12 km. Ég trúi hins vegar að það sé ekkert dútl á ferðinni þessa 12 km. Hann hleypur gjarna 6 x 2 km eða 2 x 6 km eða 3 x 4 km. Ef það er sérstaklega heitt þá hleypur hann einungis 6 km. Hann mælir hins vegar ekki sérstaklega með þessari aðferð fyrir aðra. Í sex daga hlaupi milli Sidney og Melborna var mælt nákvæmlega á hverju hann nærðist. Fyrsta daginn var það um 15.000 kalóríur, næsta dag um 12.000 og þriðja daginn um 7.000. Þegar hann hljóp tvöfalt Spartathlon eða frá Aþenu til Spörtu og svo til baka þá var grískt sælgæti helmingurinn af þeim kalóríum sem hann nærist á.

Ég flýg til Londoon seinni partinn á morgun og hitti Neil næsta kvöld. Spáin er góð. Hlaupið hefst kl. 6:00 að breskum tíma á sunnudagsmorgun og lýkur eigi síðar en 13 klst síðar. Það er bara að maður villist ekki á leiðinni.

miðvikudagur, september 16, 2009

The Beatles - Not A Second Time

Graddinn á Merkigili kontrolleraði alla umferð

Það voru tvær óvanalega góðar heimildarmyndir í sjónvarpinu í kvöld. Hin fyrri var frá Stuttmyndahátíðinni í Skjaldborg á Patreksfirði sem haldin var um mánaðamót maí/júní í vor. Einhverju snjöllu fólki á Patró langaði að gera eitthvað nýtt fyrir nokkrum árum og ákvað að prufa að kalla til Stuttmyndahátíðar. Það tókst heldur betur. Miðpunkturinn er Skjaldborg, gamla samkomuhúsið á Patró, sem var byggt árið 1936. Lionsmenn gerðu það síðan myndalega upp fyrir nokkrum árum svo það stendur virkilega undir nafni sem bíóhús, með hallandi sal, poppvél og öllu sem til þarf. Þarna sá maður sínar fyrstu alvöru bíómyndir hér áður. Það var líklega þegar átti að læra sund á Patró. Það var náttúrulega mikil upplifun að sjá alvöru bíómyndir á þeim tíma og bíóið var mikið sótt. Þetta hefur verið í kringum 1965. Þarna voru líka haldnir miklir dansleikir. Ekki gleymist þegar Dátar komu í bæinn og ég og annar strákur duttu í þann lukkupott að vísa þeim leiðina að Skjaldborg í hljómsveitarrútunni. Þá voru alvöru poppstjörnur komnar í bæinn. Hins vegar við götuna brá svo fyrir "Þórskaffi" þar sem haldnar voru fagrar veislur í kringum 1980. Gísli Þór var gjarna með opið hús að afloknum dansleikjum á Patró og þá var safnast saman í "Þórskaffi". Þetta voru fínir tímar. Gamla Vatneyrarsmiðjan er síðan gengin í endurnýjun lífdaga og hýsir sjóræningjasafn. Ekki man ég eftir miklu af sjóræningjum á Patró eða nærsveitum en sama er, þeir komu víst við þar vestra hér áður fyrr á árunum.

Seinni myndin var frá Grænlandi. Fín mynd sem gaf svolitla innsýn í hugarheim og umhverfi nokkurra listamanna í Nuuk sem unnu landinu sínu, vildu veg þjóðarinnar sem mestan og langaði alltaf heim þegar þau voru erlendis. Grænlenskar myndir og grænlenskir þættir eru mjög fáséðir í íslensku sjónvarpi, því miður. Grænlensk tónlist heyrist aldrei. Maður stendur alltaf frammi fyrir því þegar horft er á svona myndir hvað maður veit lítið um Grænland og grænlendinga. Næstum því ekki neitt. Ferðin sem við fórum yfir til Angmassaliq fyrir tveiur árum til að keppa í ATC keppninni er ógleymanleg. Hún er eitt af því sem gleymist ekki hvernig sem allt veltist. Það er allt svo allt öðruvísi þarna. Byggðirnar, fólkið, landið og menningin. Ég gæti alveg hugsað mér að búa á Grænlandi einhvern tíma. Fyrir utan daglegan kost þarf maður byssu og myndavél. Hraðbátur er æskilegur. Þetta er ekki flókið. Við Jói fórum fyrir skömmu á myndasýninu í fuglaverndarfélaginu niður í Borgartún. Þar voru sýndar myndir frá Angmassaliq annars vegar og hins vegar frá svæði fyrir norðan Scorisbysund. Það var dálítið merkilegt að dýralifið var miklu fjölbreyttari þar en fyrir sunnan sundið.

mánudagur, september 14, 2009

The Beatles - Hello Goodbye

Sá frábæri gítarleikari Guðmundur Pétursson

Það var frábær mynd í ríkissjónvarpinu í kvöld. Hún fjallaði annars vegar um innrás Sovétmanna í Ungverjaland árið 1956 og inn í þá sögu fléttaðist barátta Sovétmanna og Ungverja í sundknattleik á Ólympíuleikunum í Melbourna 1956. Síðan voru leidd fram örlög nokkurra ungmenna sem trúðu því að hægt væri að koma á frjálsu þjóðfélagi í Ungverjalandi. Það liðu um 36 ár frá þessum atburðum þar til Ungverjar lifðu þá tíma. Maður fann óhugnað lögregluríkisins streyma frá myndinni í upphafi þegar í ljós kom hvað einstaklingurinn var lítils virði í þessu samhengi öllu. Innrásin í Ungverjaland varð reyndar til þess að margir sanntrúaðir kommúnistar hérlendis fóru að efast um sæluríkið í austri væri slíkt sæluríki sem af var látið og að "Sovét - Ísland óskalandið" væri akkúrat það sem menn ættu að stefna að. Mögnuð sundknattleikskeppni varð síðan að symboli fyrir baráttu lítilmagnans gagnvart stórveldinu því þar voru þó allavega bara sjö á móti sjö. Það væri fróðlegt að vita hvar Sovéska sundknattleiksliðið lenti eftir heimkomuna eftir að hafa tapað fyrir Ungverjum af öllum liðum á þessum tímum.

Manni er spurn hve lengi konan sem vígðist fyrst kvenna til prestverka hérlendis afgreitt umræðuna um upptökuheimilið á Bjargi með því að segja að hún neiti að tala um þær ásakanir sem bornar eru á hana. Hve lengi getur kirkjan látið þessa umræðu eins og vind um eyrun þjóta? Málið er enn alvarlega en ella þar sem um er að ræða kirkjunnar þjón. Nóg er nú samt.

Fyrir nokkrum árum var sýnd í sjónvarpinu mynd um svokallaðar Margaretusystur á Írlandi. Hún gerðist á árunum fyrir 1970 og fjallaði um líf írskra stelpna sem höfðu verið teknar og settar í klaustur sem nokkurskonar betrunarhúsvist fyrir einhverja hegðan eða minni háttar afbrot. Meðferðin á stelpunum var alveg svakaleg. Klaustrin voru rekin af einhverjum trúar og ofstækisfasisma þar sem einstaklingurinn mátti sín einskis. Smám saman opnuðust augu Íra fyrir hvað fór fram innan veggja þessara klaustra og því síðasta var lokað árið 1996. Mér finnst það sé skylda samfélagsins að koma að lágmarki til móts við þá einstaklinga sem dvöldu á upptökuheimilum hér á árum áður að leiða allt það fram í dagsljósið sem hægt er og fellur undir ofbeldi og aðrar misgjörðir gagnvart varnarlausum börnum og unglingum. Mörg þeirra báru þess aldrei bætur eftir dvölina á þessum heimilum. Í því sambandi þýðir ekki að tala neitt lagatæknimál heldur þarf að tala hreina íslensku.

Það var eins og ég vissi að meðvitaða fólkið greip til tölvunnar og fór að fordæma það að þess hefði verið getið í fréttum að glæpagengi frá Póllandi og Litháen hefðu farið rænandi og ruplandi um landið. Þess var reyndar einnig getið í fréttum að íslenskir þjófar hafi stolið hlassi af leðursófum. Mér finnst það ósköp einfaldlega vera fréttnæmt ef þjófagengi eru farin að koma skipulega hingað erlendis frá og fara ránshendi um landið. Það er ennþá meir fréttnæmt ef þau eru frá ákveðnum löndum hvað sem hver segir. Það segir okkur ýmsa hluti. Þjónar það kannski ekki okkar hagsmunum að vera meðlimir af Schengensvæðinu þar sem ekki er gerð krafa um að hafa ákveðið landamæraeftirlit innan þess. Eigum við að vera innan Schengensvæðisins eða ekki? Hér hafa hreiðrað um sig alþjóðlega eftirlýstir glæpamenn án þess að yfirböld hefðu hugmynd um. Þjófagengi hafa samkvæmt fréttum stolið ógrynni af verkfærum og búnaði frá byggingafyrirtækjum og komið þeim úr landi. Sagan segir að tæki merkt íslenskum fyrirtækjum séu algeng á útimörkuðum í fyrrgreindum löndum. Þetta kemur okkur ósköp einfaldlega við hvað sem meðvitaða fólkið segir. Síðan á að koma þessu liði sem er hankað við glæpi úr landi eins fljótt og hægt er því ég vil ekki sjá mína skatta fara í að halda erlendum bófum uppi við fínan kost. Tuttuguogfimmþúsundkall á sólarhring og bófa. Nóg er nú annað sem þarf að gera við skattana.

Ég fór niður í Laugar í morgun og ætlaði að hitta Vini Gulli. Gulla var vinafá í morgun því ég mætti einn. Fór góðan túr út á Eiðistorg og svo heim.

Þvílíkur happadráttur það var fyrir land og þjóð að hafa fengið Evu Joly til að liðsinna okkur í þeirri vandasömu og erfiðu vinnu sem stendur yfir og er framundan. Hún er ekki einungis að riða netið til að hanka bófana með heldur talar hún máli lands og þjóðar í virtum erlendum fjölmiðlum. Sá liðsauki er virði þyngdar hennar í gulli. Það skyldi þó ekki fara svo að skilningur umheimsins á því hvílíkum fantabrögðum Bretar beittu sl. haust fari vaxandi.

Ég setti nokkrar myndir frá ferðinni að Merkigili inn á myndasíðuna. Slóðin er http://www.flickr.com/photos/gajul/sets/

laugardagur, september 12, 2009

Maður hefur sjaldan séð meiri dómgreindarbrest upplýstan en þegar bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands er staðinn að því að leiðbeina fyrirtækjum um hvernig þeir geti komist undan þvi að flytja gjaldeyri til landsins eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu í dag. Ég hélt að allir venjulega hugsandi menn myndu vísa svona máli frá sér ef væri andað eitthvað á mann úr þessari átt ef þeir bæru smá respect fyrir setu sinni í bankaráði Seðlabankans. Ríkisstjórnin og þar með Seðlabankinn hafa þá stefnu að fá þann gjaldeyri sem fæst fyrir útflutning inn í landið aftur. Það er forsenda þess að minnsta von megi vera til þess að gengi krónunnar styrkist. Vitaskuld eru einhverjir að leita leiða til þess að komast því því. Það eru klassísk viðbrögð við boðum og bönnum. En látum aðra um það meðan menn sitja í bankaráði Seðlabankans.

Það er ekki frétt að einhver íhugi að stefna einhverjum fyrir meiðyrði. Það er ekki frétt ef einhver stefnir öðrum fyrir meiðyrði. Það er hins vegar frétt ef einhver er dæmdur fyrir meiðyrði. Það var hins vegar étið upp á hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum í dag að bankaráðsmaðurinn sem sagði af sér í dag ætlaði að stefna Mogga fyrir meiðyrði. Vonandi stendur hann við þau orð svo formleg niðurstaða fáist í málið en það verði ekki bara eitthvað orðageip.

Ég hef einu sinni lent í þeirri stöðu að vera sakaður opinberlega um ólöglegt athæfi. Þá var þrástagast á því í ákveðnum fjölmiðlum að það ætti að fara að kæra mig og fleiri félaga mína fyrir þjófnað. Þetta var á sínum tíma fyrir norðan þegar neðri kjálkinn var sagaður af hvalnum í fjörunni fyrir neðan Hól innan við Raufarhöfn. Enda þótt bóndinn á Hóli stæði við hliðina á okkur meðan kjálkinn var sagaður af þá fengum við að heyra það í fjölmiðlum daginn eftir og daginn þar á eftir að það ætti að kæra okkur fyrir að hafa stolist til þess. Það var ekki fyrr en við lögðum fram óyggjandi sannanir fyrir því að það sem við sögðum væri rétt að málið lognaðist út af. Nokkur ár á eftir var maður hins vegar spurður af og til að því að þvi hvort ég væri ekki sá sem hafi verið að stela hvalnum þarna fyrir norðan. Viðkomandi náðu sem sagt markmiði sínu með því að segjast ætla að kæra okkur fyrir þjófnað og principlausir fjölmiðlamenn átu það ótuggið upp eftir þeim.

Ég heyrði í dag sagt frá landráðstefnu jafnréttissinna sem haldin var fyrir vestan. Stórt mál á fundinum var að það væri skynsamlegt að lögbinda það að jafnt hlutfall karla og kvenna væri á framboðslistum til sveitarstjórna. Viðmælandi fréttamannsins sagði frá því að þetta væri víða gert erlendis en nefndi ekki eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings. Á öðrum Norðurlandanna hafa kjósendur möguleika á að hafa áhrif á uppröðun framboðslista í kjörklefanum þegar gengið er til kosninga til svetiarstjórna, héraða eða alþingis. Það gera þeir með því að krossa við ákveðna frambjóðendur en ekki einungis við ákveðinn framboðslista eins og hér. Engar reglur eru þar um að jafnt hlutfall kynjanna skuli vera til staðar. Það fólk sem fær flest atkvæði og best er treyst til verka situr í efstu sætunum.

Ef svona lög yrðu sett þá er eðlilegt að spurt sé hvað gerist ef ekki tekst að fá nægilega margt fólk af báðum kynjum á framboðslista. Er hann þá ólöglegur? Verður hægt að taka fólk með valdi og setja það á lista til að uppfylla bókstaf laganna? Verður kjörstjórn sett í steininn ef hún leggur fram lista með skökku kynjahlutfalli? Ég þekki þetta vandamál af eigin raun. Í það eina skipti sem ég hef verið í forystu fyrir framboði til sveitarstjórnar þá gerðum við allt sem við gátum til að fá konu í eitt af efstu þremur sætum listans. Það hefði þýtt sæti í sveitarstjórn ef við hefðum fengið meirihluta (sem við og gerðum). Það vildi engin kona vera í einu af þremur efstu sætunum svo við vorum þar þrír kallar en kona í fjórða sæti eða fyrsti varamaður þar sem við náðum meirihluta. Þetta var óhjákvæmilegt niðurstaða svo við kæmum á annað borð saman lista. Síðar þurftum við svo að liggja undir því að í fjölmmiðlum var bent á okkur af einhverjum sjálfskipuðum sérfræðingum í þessum málum sem sérstaklega vont dæmi um karllægt framboð sem bæri að varast. Það er greinilega annað teoría en praxís eins og svo oft áður.

Á föstudaginn sá ég dagskrá einhverrar ráðstefnu um jafnréttismál. Alls voru 16 einstaklingar tilteknir sem fundarstjórar, ræðumenn og þátttakendur í panel. Kynjahlutföllin voru tólf á móti fjórum.

Tók Eiðistorgshringinn í dag í fínu veðri. Notaði hásopkkana sem Steinn benti mér á. Þeir styðja vel að kálfunum og eiga fyrst og fremst að koma í veg fyrir að maður fái krampa. Líklega nota ég þá í LB. Það spaír vel í LB, svona 17°C og skýjuðu. Betra getur það ekki orðið.

The Beatles - Act Naturally

Megas í góðum gír

Nýtt eintak af Þjóðmálum kom inn um lúguna á dögunum. Það er fullt af áhugaverðu efni eins og fyrr. Í tímaritinu er langt viðtal við Guðna Ágústsson, fyrrverandi formann framsóknarflokksins. Það er áhugavert að lesa lýsingar hans á stöðunni innan flokksins síðustu árin eins og hann upplifði hana. Fátt af því sem hann segir kemur mér á óvart.

Í tímaritinu er einnig löng grein um Svartbók kommúnismans sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Þessi bók kom upphaflega út í Frakklandi fyrir einum 12 árum en er fyrst nú þýdd á íslnsku. Ég fór á fund í HÍ fyrir nokkru þar sem svíi nokkur, Göran Lindblad, fjallaði um bókina ásamt fleiru. Hann fékk því framgengt á Evrópuþinginu að skipulega yrði unnið að því að kortleggja og greina athafnir kommúnismans í heiminum á síðustu áratugum. Það er nefnilega nokkuð merkilegt að ef maður segist vera nasisti þá er það allt að því sakhæft en ofan í kaupið væri maður vart gjaldgengur í samfélaginu. Sá sem er yfirlýstur kommúnisti er aftur á móti bara vel metinn. Engu að síður hafa tugir miljóna manna verið drepnir beint og óbeint undir merkjum kommúnismans.Þeir sem voru á móti kerfinu, þeir sem kerfið óttaðist eða þeir sem skiptu ekki máli fyrir kerfið máttu missa sín. Deilan stendur um hvort það hafi verið ca 85 milljónir sem voru drepnir eða hvort það var allt að 100 milljónir. Þeir sem vilja veg kommúnismans sem bestan geta ekki farið lengra niður en í ca. 85 milljónir. Í Kambódíu voru um 1.5 milljónir manna drepnar en þar bjuggu um samtals 7 milljónir. Tugir milljóna voru drepnar beint og óbeint í Kína og Sovétríkjunum. Þannig mætti áfram telja. Nú er ekki hægt að víkjast undan því að á tímabili stóð ég í þeirri meiningu að þessi stjórnmálastefna hefði leitt meira gott en slæmt af sér. Eftir því sem maður varð betur upplýstur þá urðu efasemdir um það meiri. Þegar ég hafði búið í Rússlandi í tæpt ár þá þurfti ekki lengur að segja mér neitt í þessum efnum. Með því að kynna sér málin markvissar t.d. með lestri bóka og ferðalögum til fyrrum kommúnistiskra landa þá opnuðust augu manns fyrir þeim skelfingum sem kommúnisminn hafði leitt yfir þær þjóðir sem þurftu að búa við kommúnistiskt stjórnarfar. Fyrir nokkrum áratugum var hægt að segja fólki ýmislegt í skjóli fáfræðinnar en það á ekki að vera hægt lengur. Það er með þetta eins og reykingarnar. Menn vita allt sem nauðsynlegt er til að geta tekið rökrétta afstöðu til málsins.

Það er fín umræða sem hefur verið tekin upp um reykingar að undanförnu. Það er náttúrulega svakalegt að það deyji mun fleiri árlega af völdum reykinga en af slysförum. Það er fimbulfambað um svínaflensu og fuglaflensu en það hefur varla verið minnst á meginskaðvaldana, reykingar og sykurát. Ég held að það fari nálægt því að hver íslendingur, ungur sem gamall, hesthúsi að jafnaði um 50 kg af sykri á ári. Það er kíló á viku eða 150 grömm á dag. Það er ágætur haugur.
Hvað reykingarnar varðar þá eru hlutirnir tiltölulega einfaldir. Það er mjög erfitt að banna tóbak en það á ósköp einfaldlega að taka tóbak út úr neysluvísitölunni og verðleggja síðan tóbakið á það sem reykingar kosta samfélagið. Þeir sem vilja taka áhættuna af þvi að reykja eiga ósköp einfaldlega að borga kostnaðinn af því sjálfir. Ég reykti dálítið hér á árum áður. Auðvitað var það bara bjánaskapur en maður stóð í þeirri meiningu um tíma að reykingar ykju við lífsgæðin. Það er náttúrulega það eitt það mesta villuljós sem maður hefur farið eftir og sem betur fer áttaði maður sig á því meðan hægt var að snúa til baka.

Það er svakalegt að lesa í fréttum að hér hafa skipulögð þjófagengi látið greipar sópa á undanförnum vikum og mánuðum. Líklega eru íslendingar svo óvanir svona lýð að þeir hafa getað hagað sér hér eins og krakkar í sælgætisbúð. Maður verður að ætlast til þess að stjórnvöld búi svo um hnútana að hægt verði að taka á þessu liði eins og til er stofnað. Best væri ef hægt væri að vísa þeim úr landi um alla framtíð og fangelsa þá í sínu heimalandi. Fangelsin hér eru eins og lúksushótel í augum þessa liðs og síðan höfum við allt annað með okkar skattfé að gera en að vera að fóðra undirheimalið annarra landa árum saman. Aðild okkar að Schengen samkomulaginu gerir að verkum að við erum varnarlaus gagnvart hingaðkomu svona lýðs. Í því sambandi er rétt að minna á að England er ekki aðili að Schengen samkomulaginu. Þeir vildu ekki afsala sér þeirri stöðu sem þeir hafa sem eyríki því í því er mikil vörn. Við vorum náttúrulega nógu miklir heimsborgarar til að láta slík heimalningsrök sem vind um eyru þjóta. Það er við því að búast að meðvitaða liðið fari úr límingunum yfir því að það skuli hafa verið gefið upp hverrar þjóðar þetta glæpahyski er. Það verður bara að hafa það en halda menn virkilega að það yrði ekki getið um þjóðerni ef íslenskir glæpaflokkar færu að herja á borgir í okkar nágrannalöndum og upp kæmist.

Það er farið að styttast í London Brighton hlaupið. Ég gisti hjá Neil og Clarie. Neil ætlar einnig að hlaupa LB. Það gera kempur eins opg Neil ekki síst af virðingu fyrir sögunni en LB er elsta ultrahlaup í heiminum.

Við Sveinn fórum á NASA í gærkvöldi. Þar tróð Meistari Megas upp með Senuþjófunum. Aðalþemað var platan Millilending en síðan var flutt Megas Greatest Hits. Millilending var mjög skemmtilega útsett með svona country rock stemmingu. Senuþjófarnir eru hreint frábærir tónlistarmenn og kallinn bræðir þetta allt saman í eina skínandi steypu með frábærum lögum og einstökum textum. Fínt kvöld.

fimmtudagur, september 10, 2009

The Beatles - You Can't Do That

Helgi, Jói og Gauti á brúnni í Merkigili

Það var með ólíkindum að heyra í konunni í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi þar sem hún varði það með kjafti og klóm að stjórnarmaður í Kaupþingi á árunum 2004 - 2008 hefði verið skipaður stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Verslunarmanna. Rökin voru þau að hún hefði ekki verið dæmd sem um neitt misferli og því væri hún flekklaus. Það virtist ekki skipta máli að LV hefði tapað tugum milljarða á þeim ákvörðunum sem teknar voru eða ekki teknar í rekstri Kaupþings. Þarna er gengið eins langt í hundalógikkinni og frekast er unnt. Siðferðisvitund er ekki til, einungis einblínt á harðan lagabókstafinn. Nú veit ég ekki til að neinn af bankastjórum gömlu bankanna hafi verið dæmdir fyrir neitt misjafnt...ennþá. Engu að síður voru þeir allir látnir hætta. Hvers vegna skyldi það nú hafa verið? Voru þeir ekki hundvanir bankamenn sem þekktu sína banka betur en nokkur annar. Síðan er annar hlutur. Í fyrirtæki gegnir stjórn ábyrgðarmesta hlutverkinu. Stjórn setur formlega kúrsinn og leggur framkvæmdastjóra lífsreglurnar. Því ber stjórnarmaður meiri ábyrgð en framkvæmdastjóri fyrirtækis ef illa fer. Það gildir þó ekki í þeim tilvikum ef framkvæmdastjóri brýtur gegn samþykktum stjórnar og leynir stjórnarmenn upplýsingum.

Ég sé ekki að Jónshlaup verði haldið þetta árið. Það fáir hafa látið af sér vita að það er ekki farandi af stað með hlaup upp á þau býti. Vitaskuld eru það ákveðin vonbrigði en svona lagað er bara partur af þessu. Framboð og eftirspurn fara ekki alltaf saman í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Við þurfum að íhuga hvort grundvöllur sé fyrir að halda löng götu hlaup hér á landi á hverju ári eða hvort eigi að láta það nægja að halda þau annað hvort ár. Maður hélt að þróunin yrði hraðari en hún hefur verið. Þannig er það nú bara. Þeir sem hafa tekið skrefið til fulls í ultra greinar hafa margir byrjað í sex tíma hlaupinu. Það er mjög gott til að sýna fólki að það getur hlaupið miklu lengra en maraþon án þess að æfa dauðann ráðalausan. Slík reynsla blæs mönnum kapp í kinn og löngunin til að takast á við enn stærri verkefni byggist upp.

miðvikudagur, september 09, 2009

The Beatles - You Like Me Too Much

Lúinn IH áburðardreifari

Ég herti einu sinni upp hugann og fór og spjallaði við Helga Hóseasson þar sem hann stóð á Langholtsveginum með spjald. Mér fannst það vera hálfgerð framhleypni að fara og spyrja ókunnugan mann hvort ég mætti taka mynd af honum. Mér fannst þó skömminni til skárra að spjalla við hann dálítið áður. Ég sá ekki eftir því. Það var virkilega gaman að tala við hann. Helgi talaði afar fallegt mál og var með eina þá hljómfegurstu rödd sem ég hef heyrt. Hann hefur án efa getað orðið mikill ræðumaður á sínum yngri árum, alla vega ef hann hefði viljað það. Helgi var hér á árum áður í huga manns ákveðinn kverúlant eða alla vega var það sú mynd sem fjölmiðlar drógu upp af honum. Það álit breyttist algerlega með myndinni sem var gerð um hann fyrir nokkrum árum. Þar kom í ljós heilsteyptur einstaklingur sem hafði ákveðnar skoðanir sem kverúlantar ríkisins höfðu reynt að fótumtroða eftir bestu getu. Helgi hafði mikið til síns máls og er í raun og veru alveg óskiljanlegt að kirkjan og ríkisvaldið skuli ekki hafa getað komið til móts við óskir hans. Þær voru mjög rökréttar. Niðurstaðan úr því stappi öllu segir meir um ríkisvaldið og kirkjuna en Helga. Fróðlegt verður að vita hvernig gengur að framkvæma síðustu óskir hans.

Lars Skytte Cristiansen setti nýtt Norðurlandamet í sex daga hlaupi í Gautaborg á dögunum. Hann hljóp 854 kílómetra á sex dögum og er það besti árangur ársins. Hann bætti norðurlandametið um eina 40 km. Lars er kominn í hóp bestu ultrahlaupara heims með þessu afreki sínu. Hann setti norðurlandamet í 48 tíma hlaupi í fyrra þegar hann hljóp um 360 km á Borgundarhólmi. Hann varð svo í þriðja sæti í Spartathlonhlaupinu í fyrra. Í sex daga hlaupi vinnur sá sem hleypur lengst á sex sólarhringum. Þar skiptir máli að skipuleggja sig vel og hugsa hlaupið sem eina heild. Með því að hlaupa 2 x 55 km á hverjum sólarhring kemst maður 660 km. Það hefði dugað til fjórða sætis í þessu hlaupi sem var mjög sterkt. Aðal hættan í svona hlaupum er að keyra sig út í upphafi og berjast svo áfram með sprungið á öllu síðustu tvo dagana eða svo.

Frjálsíþróttasamband Íslands er orðið meðlimur af IAU eða International Association of Ultrarunners. Ég skrifaði bréf til FRÍ í desember á síðasta ári um þessu mál og þetta er niðurstaðan. Danmörk og Ísland gengu í IAU í ár og þá eru frjálsíþróttasambönd allra norrænu landanna komin í alþjóðasamband ultrahlaupara. Þetta er stórt skref í þá átt að ultrahlaup séu almennt viðurkennd sem íþróttagrein hérlendis á við aðrar. Með því að FRÍ tengist IAU þá byggist upp þekking á því hvað er um að vera á þessu sviði. Það er hreint ekki lítið. Þetta gerir okkur einnig auðveldara að taka þátt í evrópu- og heimsmeistaramótum þegar staður og stund er til þess. Stefnt er að því að setja upp sérstaka nefnd sem heldur utan um þessi mál hjá FRÍ. Við sækjum okkur fyrirmynd í þessum efnum til annarra Norðurlanda.

sunnudagur, september 06, 2009

Tell Me What You See - The Beatles

Merkigil, brúin er neðarlega fyrir miðju og leiðin upp sitt hvoru megin.

Við Jói, Gauti og Helgi Gíslason myndhöggvari lögðum land undr fót á föstudaginn og héldum norður í Skagafjörð. Nánar tiltekið enduðum við á Merkigili í Austurdal þar sem Monika Helgadóttir bjó hér áður sem dætrum sínum sjö og einum syni. Síðasti ábúandinn á jörðinni, Helgi að nafni, hrapaði til bana í Merkigili í byrjun janúar 1997. Guðmundur Hagalín rithöfundur gerði Moniku ódauðlega í bókinni "Konan í dalnum og dæturnar sjö" þar sem hann gerir lífsbaráttu þeirra góð skil. Jökulsá í Austurdal er engum fær. Sögur eru til af því að ofurhugi einn hafi reynt að synda yfir ána en fórst við þá fífldirfsutilraun.
Utan við bæinn Merkigil er samnefnt gil sem eina leiðin heim að bænum lá yfir eða þar til Jökulsá var brúuð árið 1960. Það avr ekki heiglum hent að annast aðdrætti að jörðinni. Vafalaust hefur það verið nógu erfitt á meðan einungis var um eðlilega aðdrætti til búsins en þegar farið var í framkvæmdir vandaðist málið. Allstórt íbúðarhús á tveimur hæðum og 93 m2 að gólffleti var reist á jörðinni árið 1950. Allt efni í húsið s.s sement, steypustyrktarjárn, þakjárn, timbur og annað sem þarf í eitt hús var flutt á hestum frá vegarenda út við Gilsbakka og yfir gilið. Eldavél, baðkari og steyputunnu var komið yfir gilið. Þessa flutninga önnuðust dæturnar á bænum en þær elstu voru sitt hvoru megin við tvítugt á þessum árum. Þegar traktor var keyptur á heimilið var hann skrúfaður í sundur fyrir utan gil, borinn yfir gilið og settur svo saman á gilbarminum að sunnanverðu. Margir hafa vafalaust gengið upp á Illakamb leið frá frá Múlaskála í Lónsöræfum. Það má segja að leiðin upp úr gilinu báðum megin við sé mjög áþekk þeirri leið. Ekki vildi ég bera traktor þarna yfir þótt í nokkrum pörtum sé eða koma járnbentri steyputunnu þarna niður og svo upp aftur. Breytingin við að fá Jökulsána brúaða árið 1960 hlýtur að hafa verið ólýsanleg. Það er magnað að saga þessa fólks skuli hafa verið skráð svo fólk nútímans geti fengið örlitla innsýn í hvernig lífsbaráttan var á mörgum stöðum hér áður.

Við vorum í Austurdalnum í blíðskaparveðri, haustveðri eins og best getur verið. Við gengum yfir gljúfrið. Maður getur ekki gert sér í hugarleeund allt það erfiði sem hefur falist í aðdráttum til bæjarins nema að upplifa staðinn. Þekkt frásögn er af því þegar héraðslæknirinn var sóttur að veiku barni inn að Merkigili að vetrarlagi. Vegurinn var slæmur og svellbólstrarnir ultu niður hlíðina víðar en tölu var á komið. Jeppi Hjörleifs á Gilsbakka átti fullerfitt með að fara þá leið sem kallaðist vegur og var hann þó tvíkeðjaður á hverju hjóli. Afganginn var farið á hestum og gangandi. Hægt er að lesa þessa frásögn á vefnum með því að googla hana. Síðan gengum við út að Gilsbakka. Sá bær fór í eyði fyrir nokkrum árum. Þar hefur verið ræktaður vöxtuglegur skógarlundur niðri á gilbarminum. Síðan fórum við inn að Ábæjarkirkju seinnipartinn. Þar er messað einu sinni á ári og eru þá yfirleitt vel á annað hundrað manns við messu í þessari litlu en vel við höldnu kirkju.

Við áttum svo góða stund í bænum í gærkvöldi við grillið og horfðum á landsleikinn milli Íslands og Noregs yfir veislumat. Þetta var skemmtileg helgi í góðum félagsskap á merkilegum söguslóðum í fínu haustveðri. Betra getur það varla verið.

Ferðin var meðal annars farin sem myndaferð og mátti segja að hún gekk fullkomlega upp sem slík. Bærin á Merkigili er leigður út fyrir gesti eins og okkur meðal annars. Það gefur örlítið upp í viðhald á bænum sem er með miklum sóma.

Haukar og FH léku til úrslita í 1. deild kvenna í dag. Haukar unnu 1-0 og eru því sigurvegarar deildarinnar. Þeir hafa sóma af því. Mér finnst hins vegar að KSÍ þurfi að svara hlutaðeigandi hvers vegna leikurinn var látinn fara fram á Haukavellinum. Það má vel vera að það hafui verið ákveðið áður en ljóst var hvaða lið léku til úrslita í deildinni. En það er einkennileg tilviljun að þegar HK/Víkingur léku til úrslita í deildinni við Aftureldingu fyrir tveimur árum þá var leikið á velli Aftureldingar. Ofan í kaupið er Haukavöllurinn gerfigrasvöllur sem gefur því liði sem er vant að æfa á gerfigrasi verulegt forskot. Í þriðja lagi er leitun að eins illa búnum aðalvelli á Suðvesturhorninu eins og Haukavöllurinn er. Áhorfendaaðstaða er t.d. engin. Það er ekki mikill metnaður í knattspyrnuyfirvöldum að velja slíkan völl fyrir úrslitaleik sem þennan. Stelpurnar eiga betra skilið.

Sveinn er 24 ára í dag. Það er gaman að láta hugann reika aftur í tímann við slík tímamót og láta ánægjulegar minningar renna í gegnum hugann.

fimmtudagur, september 03, 2009

The Beatles - She`s a woman

Kettir að potast á

Ég rakst á grein um Ibóprófen (painkiller) í dag. Þar er fjallað um gagnsemi/skaðsesmi þess að nota íbóprófen í hlaupum. Þegar ég tók þátt í WS100 hlaupinu fyrir fjórum árum þá tók ég þátt í rannsókn um ágæti þess að nota íbóprófen í hlaupinu. Blóðprufa var tekin fyrir hlaupið og síðan strax þegar var komið í mark. Á leiðinni tók maður sex töflur með vissu millibili til að dempa sársaukann. Áhrif lyfjatöku rhafa verið skoðuð nákvæmar síðan rannsónin var gerð. Niðurstaðan var að þeir hlauparar sem nota íbóprófen í óhófi í hlaupum og fyrir hlaup eru í meiri hættu en aðrir til að fá meiðsli og áföll á ónæmiskerfið en þeir hlauparar sem nota slík lyf ekki. Það kom einnig í ljós að notkun á íbóprófeni getur haft áhrif á nýrun og starfsemi þeirra. Þessi niðurstaða var mjög athyglisverð ekki síst þegar í ljós kom að íbóprófen er notað í verulegum mæli án þess að þeir hafi leitt hugann að áhrifum þess og hugsanlegum afleiðingum. Í ljós kom að um 60% af Ironman keppendum í Brasilíu notuðu verkjalyf í einhverjum mæli á síðustu þremur mánuðum fyrir keppni. Margir íþróttamenn nota painkillers eins og vítamín. Með íbóprófeni deyfa þeir sársaukann og eiga þá auðveldara með að ljúka keppni að eigin mati. Síðustu rannsóknir hafa jhins vegar leitt í ljós að áhrifin geta verið þveröfug. Fæturnir eru ekki síður aumir eftir hlaup hjá þeim sem hafa notað verkjalyn en öðrum. Þeim líður heldur ekkert betur í hlaupinu en þeim sem notuðu engin verkjalyf. Að síðustu má geta þess að ef íbóprófen er notað mikið við æfingar þá hefur það þau áhrif að beinin þykkna síður en ella og vöðvarnir taka síðar við sér eftir stífar æfingar. Niðurstaðan er sem sagt sú að það er mjög tvíeggjað að nota íbóprófen við æfingar, í aðdraganda hlaupa og í hlaupum. Líkur á meiðslum vaxa við mikla notkun íbóprófens.

Ég hef aldrei notað íbóprófen eða önnur verkjalyf í löngum hlaupum nema í þessari rannsókn í WS100. Vitaskuld er maður stundum aumur og sár en það er bara partur af dæminu. Sársauki er tímabundinn en upplifunin eilíf.

Enn eitt kvöldið er Willum mættur með blýantinn og strikar út og suður á skjáinn hvað hefði gerst ef þessi eða hinn hefði hlaupið svona eða hinsegin. Þetta er svona eins og auglýsingin með Ceerios leikmönnunum. Það er allt svo auðvelt þegar menn geta spólað leikinn aftur á bak. Áhuginn hjá RÚV á þessari keppni er allt að því öfgakenndur. Þetta er svona dálítið íslenskt að kunna sér ekki hóf. Hvorki finnska eða norska sjónvarpið hafa sýnt frá öðrum leikjum en með þeirra eigin liðum. Hér voru vitaskuld allir leikir sýndir meðan íslenska liðið var enn í keppninni. Leikur fyrirliða hollenska liðsins er greindur sérstaklega í kvöld. So what. Samkvæmt Willum minnir leikur hollenska liðsins um margt á leik þess íslenska. Hann gleymdi bara að geeta þess að hollenska liðið er bara miklu betra. Desværre. Á sama tíma og RÚV hefur endalausan áhuga á þessu móti og sýnir og sýnir þá var ekki hægt að sýna beint frá eina mótinu í frjálsíþróttum sem haldið var hérlendis á þessu ári þar sem íslenskir íþróttamenn öttu kappi við erlenda keppendur. Það víkur allt fyrir fótboltanum í sjónvarpinu (fréttir, veður og fastir þættir) á meðan sýnt er frá gullmótinu kl. 1:15 eftir miðnætti. Þó hefur íslenska frjálsíþróttahreyfingin skilað fleiri Evrópumeisturum en knattspyrnan. Svo það sé enginn misskilningur á ferðinni þá var það fínt hjá stelpunum að komast í úrslitakeppnina. Það sýnir betur en margt annað jafnstöðu kynjanna hérlendis. Það er hins vegar óþarfi að fara úr límingunum af aðdáun.

miðvikudagur, september 02, 2009

Anna (go to him) The Beatles

Kría í virkri hvíld

Það var viðtal á Stöð 2 við manninn í Keflavík sem skuldar rúmar 8 milljónir króna. Hann er ósáttur við að lánið hans hefur hækkað á síðustu árum. Líklega er lánið til 40 ára og með a.m.k fimmkommaeitthvað% raunvöxtum. Það ættu allir að vita þegar lán eru tekin til langs tíma að þá borga menn höfuðstólinn mjög lítið niður fyrstu tuttugu árin eða svo. Á verðbólgutímum hleðst verðbótaþátturinn ofan á höfuðstólinn. Þegar ástandið er normalt þá hækka launin álíka og verðbólgan er. Nú er ástandið mjög ónormalt. Þaunin lækka en lánin hækka. Átta milljónkrónamaðurinn sagðist ósáttur við að eignast ekkert í íbúðinni þrátt fyrir að hann borgaði og borgaði. Þar kmeur tvennt til. Í fyrsta lagi er lánið örugglega til eins langs tíma og mögulegt er. Í öðru lagi er íbúðaverð ekki föst stærð. Það hækkar og lækkar eftir því sem vindar blása á íbúðamarkaði. Í þriðja lagi hafa laun þessa manns örugglega hækkað á þeim tíma sem liðinn er frá því hann keypti íbúðina.

Síðan er spurning hvernig menn líta á íbúð. Er íbúð fjárfesting eða heimili? Ég þekki íbúðamarkað einna best í Danmörku. þar er mjög þróað leiguíbúðakerfi eins og svo víða. Margir taka ákvörðun um það að búa alla æfina í leiguhúsnæði. Þá eignast þeir aldrei íbúðina en eru bara ánægðir með sitt. Þeir láta þá peningana sem ella væru bundnir í íbúðinni í eitthvað annað. Aðrir kaupa sér íbúð. Greiðslugetan er reiknuð út eftir fjölskyldutekjum. Mikilvægast af öllu er að hafa vinnu. Síðan taka menn lán til langs tíma og borga síðan sína föstu greiðslu því þeir eru fyrst og frmst að tryggja sér heimili. Vitaskuld getur verð íbúða hækkað svo fólk getur grætt peninga ef það selur í slíkum verðbólum og kaupir sér annað ódýrara. Það er frekar undantekning. Hérlendis var lengi vel litið á íbúð sem eina vitræna sparnaðarformið, sérstakleg þegar allt sparifé brann upp í verðbólgunni. Það hefur síðan gerst svo ótal oft að fólk hefur setið uppi með neikvæða eiginfjárstöðu hvað íbúðina varðar. Fyrir nær 30 árum var íbúðaverð víða hátt á landsbyggðinni enda meðaltekjur víða mun hærri en á hhöfuðborgarsvðinu. Það gjörbreyttist á fáum árum þegar veiðikvótinn var skorinn niður og tekjumöguleikarnir minnkuðu. Fjölmargt fólk missti allar eigur sínar og læstist jafnvel inni því það sat í verðlausu húsi og hafi ekki efni á að byrja frá grunni annarsstaðar. Það deplaði enginn auga yfir þessu. Margir hugsuðu sem svo að þetta fólk gæti bara sleikt af sér fyrst það var svo fyrirhyggjulaust að festa fé í íbúð úti á landi. Ég þekki persónulega til þess að fjölskylda úti á landi þurfti að yfirgefa verðlausa íbúð með áhvílandi lánum vegna þess að vinnan var búin. Ég og fleiri reyndu að tala máli þeirra hjá lánastofnunum en allt kom fyrir ekki. Þau voru bara skilgreind sem vanskilafólk og höfðu takmarkaða möguleika á bankaviðskiptum um nokkurra ára skeið, hvað þá að kaupa sér íbúð. Þau höfðu ekki hagað sér óskynsamlega heldur varð alger forsendubrestur í búsetu þeirra.

Staða fólks er grófflokkuð í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er það fólks er með fjármálin í jafnvægi. Það er ekki skuldsett umfram getu þrátt fyrir hrun krónunnar. Í öðru lagi er sá húpur fólks sem þarf að halda vel á sínu til að halda undirtökum á fjármálum sínum. Það á að geta klárað sig með ákveðinni ráðdeild.
Í þriðja lagi er sá hópur fólks sem skuldsetti sig mjög áður en krónan hrundi. Það stóð mjög höllum fæti gagnvart miklum sveiflum enda þótt enginn hafi búist við algeru kerfishruni. Það er margt hvert mjög illa statt og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Bílalán hafa einnig farið illa með marga því þau voru yfirleitt í erlendri mynt.
Svo má tiltaka fjórða flokkinn sem er illa staddur vegna annarra aðstæðna s.s. mikillar tekjulækkunar eða atvinnuleysis. Að greiða úr vandræðum þeirra sem illa eru staddir er mjög vandasamt og jafnvel ómögulegt. Hvar á að setja mörkin? Hvernig á að vinna slíka hluti? Hvaða kröfur á að gera til fólks um sparnað og ráðdeildarsemi? Þeir hlutir eru vitaskuld mjög mismunandi milli einstaklinga. Það er mjög auðvelt að setja fram kröfuna um að skjaldborg skuli slegin um heimilin og jafnvel að gefa loforð í þá átt en það er mjög erfitt og vandasamt að framkvæma slíka hluti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að flöt niðurfærsla lána er afar slæm aðferð. Á að ganga á höfuðstól lífeyrissjóðanna til að bjarga málum? Hæpið er að það náist sátt um slíka aðferðafræði.

Hvað þýðir það að bloggheimar logi? Er það þegar þessir 50 til 100 manns sem eru virkastir við að skrifa á moggabloggið skrifa allir í einu?

TOP TEN BEATLES SONGS

Toppendur við Elliðaárnar

Stóri bróðir er víðar en maður heldur. Ég lenti í því óhappi fyrir skömmu að tína bensínlykli sem ég hafði fengið fyrr í sumar vegna einhverra afsláttarkjara. Þar sem ég hafði aldrei notað lykilinn þá athugaði ég ekki að láta vita um að hann hafði týnst. Þegar ég fékk Visa reikninginn fyrir mánaaðmótin sá ég fljótlega að einhver hafði fundið lykilinn og talið sig hafa fundið fé þarna. Alla vega hafði hann verið dálítið fríkostugur á að nota lykilinn. Ég hafði sambandi við Valitor og síðan olíufyrirtækið. Þeir voru fljótir að slá því upp hvar og hvenær lykillinn hafði verið notaður. Ég spurði að því hvort ekki væri hægt að sjá í öryggismyndavélum af herjum kortið hefði verið notað. Þeir bjuggust við því og sögðust hafa samband síðar. Eftir rúman hálftíma var hringt og mér sagt að það væri búið að greina ýmsar þær upplýsingar í myndavélunum sem að gagni myndu koma og mér vísað á að kæra málið til lögreglunnar. Það væri rétti farvegurinn.

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvernig RÚV mismunar íþróttagreinum herfilega. Í vetur sat ég í smá vinnuhóp sem undirbjó alþjóðlegt frjálsíþróttamót í frjálsíþróttahöllinni. Mjög var lagt að RÚV að hafa beina útsendingu frá mótinu eins og árið áður þar sem það gerir mun auðveldara að safna auglýsendum á mótið. Þrátt fyrir miklar tilraunir þá kom allt fyrir ekki. Sökum sparnaðaraðgerða þá yrði ekki sýnt beint frá mótinu. Það væru ekki til peningar. Við beygðum okkur fyrir þeirri röksemd en þótti þetta súrt. Þetta mót er eina mótið á árinu þar sem koma erlendir frjálsíþróttamenn til að keppa við okkar besta fólk á heimavelli svo okkur þótti nokkuð til vinnandi að koma því á framfæri við sem flesta. Þegar maður horfir síðan upp á endalausar beinar útsendingar frá fótboltaleikjum þá fer maður að hugsa um hvar allur sparnaðurinn sé. Það gengur allt undan fótboltanum, fréttir, veður og aðrir fastir dagskrárliðir verða að víkja ef hann er á ferðinni. Nú spila íslendingar landsleik við Norðmenn á næstunni. Íslendingar hafa ekki náð neinum árangri í riðlinum og hafa því að engu að keppa nema að lappa upp á heiður sinn og sæmd. Engu að síður verður sýnt beint frá leiknum. Heimsmeistaramót í frjálsum íþróttum var í sumar. Sýnt var nokkuð frá mótinu enda frábært íþróttafólk þar á ferðinni. Síðan er Gullmótaserían til að bæta um betur á þeim vettvangi. Það var sýnt frá gullmóti á laugardaginn. Útsendingin byrjaði kl. 1:15 um nóttina eftir að búið var að renna einhverjum leiðinlegum bíómyndum í gegn hjá RÚV. Mér er sem ég sæi fótboltann fá þessa meðferð. Nú hef ég gaman að horfa á fótbolta en það hafa margir einnig gaman að horfa á aðrar íþróttagreinar og þar á meðal ég. Þessi fótboltadýrkun fjölmiðla er bara fullmikið af því góða því hún hefur veruleg áhrif á mótun á viðhorfum barna og unglinga. Á það má minna að íslendingar hafa eignast allnokkra Evrópumeistara í frjálsum íþróttum. Hvenær skyldum við leika til úrslita um Evrópumeistaratitil í fótbolta? Það var allt á öðrum endanum hjá fjölmiðlum í kringum íslenska liðið í fótbolta áður en haldið var til Finnlands. Uppskeran varð hins vegar eins og raunsæir menn vissu, það var fínt að komast til Finnlands en riðillinn var of stór biti í háls. Síðan kóa allri með í söngnum um hvað liðið hafi verið frábært. Það átti sína góðu leiki en líka sinn slæma leik á móti Frökkum. Síðan má ekki gleyma því að okkar besta manneskja eftir því sem sagt var sást ekki allt mótið. Að vísu brá henni fyrir í tvö skipti. hið fyrra var þegar hún klúðraði vítaspyrnunni og hitt skiptið var þegar hún skaut til tunglsins úr dauðafæri á móti Þjóðverjum. Þetta kemur svo sem ekki á óvart þar sem hún er bara búin að spila þrjá heila leiki í sumar og er því ekki í neinni leikæfingu.