miðvikudagur, maí 28, 2008

Eins og allir vita þá er lífið relatívt. Sérhver niðurstaða segir lítið eins og sér en ef maður ber hana saman við etthvað álíka þá fær maður nokkurt mat á hana. Ég fletti upp að gamni mínu árangri norðurlandabúa í 24 tíma hlaupi frá upphafi til að sjá hvernig ég stend í samanburði við norræna kollega. Fyrsti norðurlandabúinn tók þátt í 24 tíma hlaupi árið 1983 þannig að það er 25 ára saga að baki. Ég hef yfirlit um árangur norðurlandabúa í þessu hlaupi til ársloka 2006. Ég veit um árangur flestra í þessu hlaupi í fyrra sem ég bæti við þar sem það á við þannig að ég held að niðurstöðurnar séu ekki mjög fjarri réttu lagi. Þess ber að geta að nokkrir hlauparar eiga fleira en eitt hlaup yfir þeim mörkum sem nefnd eru en hér er einungis besti árangurinn hjá hverjum og einum talinn með á því 25 ára tímabili sem um er að ræða.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Noregur: 11 karlar og tvær konur hlaupið lengra en 200 km í 24 tíma hlaupi, þar af hafa 7 karlar hlaupið lengra en ég.
Finnland: 16 karlar hafa hlaupið lengra en 200 km þar af 4 karlar lengra en ég.
Danmörk: 8 karlar og 3 konur hafa hlaupið lengra en 200 km og þar af 6 karlar lengra en ég.
Svíþjóð: 11 karlar hafa hlaupið lengra en 200 km og þar af 4 karlar lengra en ég.

Í fyrra var skráð vegalengd hjá 2159 einstaklingum í 24 tíma hlaupi í heiminum. Nokkrir hlauparar hlupu fleira en eitt hlaup þannig að það voru nokkru færri hlauparar sem þreyttu þessa raun en heildarfjöldi skráðra hlaupa segir til um. Árangur minn í fyrra dugði í 241. sæti á heimsskránni en árangurinn á síðustu helgi hefði aftur á móti dugað í 84. sæti á heimsafrekaskránni í fyrra. Það verður gaman að sjá hvernig hún lítur út í ár.

Det er godt med en öl efter et langt löb.

Borgundarhólmur 2008
Það sat nokkur spenna í mér fyrir hlaupið á Borgundarhólmi. Ég taldi mig betur undirbúinn en í fyrra og hafði sett mér það markmið að sprengja 200 kílómetra múrinn. Hvort það tækist myndi svo bara koma í ljós. Reynslan af því að hafa farið áður í gegnum svona hlaup er einnig gott innlegg í þann banka sem þarf að vera tiltölulega vel birgur af innistæðum til að ljúka verkefninu með nokkrum sóma. Til að geta hlaupið á ákveðnum hraða í heilan sólarhring þá þarf maður að leggja upp ákveðna taktik, skipuleggja ýmsa hluti svo sem föt, skó og mataræði og síðast en ekki síst að vera viss um að það vanti ekkert af nauðsynlegum búnaði. Það væri pirrandi að vera kominn á hólminn og hafa gleymt einhverju heima sem myndi setja allt á annan endann.
Um morguninn áður en hlaupið byrjaði þá fór ég í bæinn og keypti mér staðgóðan mat. Ég hafði góða reynslu af því í fyrra að troða í mig miklum mat í aðdraganda hlaupsins og gerði það aftur nú sem best ég gat. Það var ekki eins hlýtt og í fyrra og dálítill gustur. Ég taldi samt sem áður rétt að vara í stuttbuxum. Það var nú einu sinni sumar. Hefðbundin smurning og ítarleg yfirferð yfir allt sem maður taldi sig þurfa á að halda er það síðasta sem maður gerir áður en lagt er af stað. Dótið í mismunandi pokum eftir því hvað er um að ræða. Næringu í einum poka, steinefni og vítamín í öðrum, föt í þeim þriðja og batterí og græjur í þeim fjórða. Maður má ekki sólunda tímanum í að fara að grafa eftir því sem vantar í pokum út um allt.
Þegar ég kom niður að markinu, sem var örstutt frá bústaðnum sem ég bjó í, ríkti þar mikil stemming. Það leit allt út fyrir að Grikkinn Kourosis myndi setja heimsmet í 24 tíma hlaupi í aldursflokknum 50 – 54 ára. Hann þeyttist áfram lokahringina á jöfnum hraða og náði settu marki við mikinn fögnuð nærstaddra. Þátttaka hans í hlaupinu gerði það að verkum að hlaupið fékk mun meiri athygli en ella og fjölmiðlamenn fjölmenntu á staðinn. Hann náði settu marki glæsilega og kláraði 266 km á 24 tímum en þá biðu aðrir 24 tímar því hann tók þátt í 48 tíma hlaupinu. Það hlytur að hafa verið erfitt að hafa farið í gegnum heilan sólarhring, ná þessum glæsilega árangri en eiga engu að síður eftir að þrælast í gegnum annan sólarhring. Margir hlauparanna voru með aðstoðarmenn með sér. Þar sem karlarnir voru í miklum meirihluta hlauparanna þá höfðu eiginkonur margra axlað það hlutverk að hafa allt klárt, elda mat, græja hlutum, búa um auma fætur og svo framvegis því að mörgu þarf að hyggja á langri leið. Vitaskuld er það kostur að hafa einhvern til aðstoðar á staðnum en þegar það er ekki fyrir hendi er bara að mæta með töskuna, telja í og gera sitt besta.
24 tíma hlaupið var ræst kl. 12.00 á laugardeginum. Ég hafði lagt hlaupið út þannig að ég ætlaði að leggja út með um eða yfir 10 km á klst og reyna að halda því eins lengi og ég gæti. Ef það gegni upp þá ætti ég að vera nokkuð öruggur með að sprengja 200 km múrinn. Það er hins vegar nokkuð varasamt að fara of hratt út á svona langri leið því ef maður dettur niður þá getur hægt það mikið á manni að öll plön fari út um þúfur. Þetta var nokkuð hraðara en í fyrra en þá fór ég rétt rúma 100 km á fyrri 12 tímunum. Það er hlaupið í skógargöngum sem eru ca 700 metra löng hvora leið og svo örstuttur spotti á milli þeirra. Skógurinn bæði skýlir manni fyrir vindi og eins fyrir sólinni ef hún er of sterk þannig að aðstæður eru góðar á margan hátt. Annar hluti stígsins er asfalteraður en hinn hlutinn er mjúkur skógarstígur þannig að það er góð fjölbreytni í undirlaginu. Skipt var um hlaupastefnu á sex tíma fresti til að minnka álagið á mjaðmir í hringnum.
Ég ákvað að hlaupa fyrstu 30 km án þess að stoppa en fara þá að ganga smáspöl á hverjum hring til að brjóta upp álagið. Ég var ekki alveg sáttur með líðanina til að byrja með. Mér fannst ég vera stirður og fann fljótt fyrir stífleika í lærunum. Ég skipti því fljótt í síðari stuttbuxur til að halda hita á lærunum því það var ekki sérstaklega hlýtt þó að það væri sól. Blásturinn kældi mann nokkuð niður. Eftir þrjá klukkutíma ákvað ég að fara í síðbuxur því mér leist ekki á hvað mér fannst ég stirðna fljótt. Þá fór mér strax að líða betur. Lærin mýktust og strengjavotturinn hvarf. Þá fór ég að ganga svona 100 metra á hverjum hring til að brjóta upp álagið. Það er innlegg inn á seinni hluta hlaupsins. Ég hafði ákveðið að brjóta eina meginreglu langhlaupara í þessu hlaupi sem er að vera ekki með tilraunastarfsemi í löngum hlaupum sem maður vill ná árangri í. Það var boðið upp á nóg af allskonar næringu í markinu en ég vildi láta reyna á hvernig Herbalife duftið kæmi út sem orkugjafi í svona hlaupi. Þetta á maður náttúrulega alls ekki að gera en ég ætlaði að láta á þetta reyna fyrir Spartathlon í haust, minnugur frammistöðu Grikkjanna á næringarsviðinu í fyrra. Ef Herbalifið klikkaði þá var það niðurstaða sem ég myndi ganga út frá í haust en ef það dygði þá var það gott. Ég hafði blandað á fjórar flöskur og ætlaði að láta hvern skammt duga í ca 5 klst.
Eftir ca fimm klst var ég farinn að lýjast ögn í fótunum og fékk mér fyrsta skammtinn af Herbalifeblöndunni. Það var dálítið merkileg upplifun að finna hvernig þreytan hvarf úr lærunum eftir smá stund og fæturnir mýktust allir upp. Lærin voru síðan eins góð og hægt var það sem eftir var hlaupsins. Ég fann hins vegar að 5 klst var of langur tími á milli þess að fá sér næringu svo ég stytti þann tíma niður í 3 klst. Annað borðaði ég ekki á meðan á hlaupinu stóð, nema ég maulaði í mig kartöfluflögur af og til til að fá smá salt. Ég tók electrolites töflur, C vítamín, Magnesíum og steinefnafreyðitöflurnar sem ég fékk frá Berki með reglulegu millibili. Ég fann aldrei fyrir votti af krampa eða sinadrætti, þrátt fyrir að saltútfellingin væri hreint svakaleg. Maður var allur hvítkrímóttur eins og saltstólpi.
Ég hlustaði á á útvarpið allan sólarhringinn. Það voru tvö mikil event á döfinni í Danmörku þennan sólarhring. Það voru úrslitakeppni Eurovision og konunglegt brúðkaup, þegar Jóakim prins giftist franskri kærustu sinni. Jörgen Mylius (sem er svona nokkursskonar Gestur Einar Jónasson þeirra dana) hafði ekki upplifað annan eins dag. Hann hélt út einu sex tíma löngu Eldorado þar sem vandlega var farið yfir þessa atburði og lýsti þeim eins og dönum er einum lagið.
Svo hélt hlaupið áfram, hring eftir hring. Nú voru hengdar upp upplýsingar um hlaupna vegalengd hvers og eins um það bil hálftíma eftir hvern heilan tíma. Þá hafði maður alveg kontrol á hvernig miðaði áfram. Í fyrra var tíminn uppfærður á tveggja tíma fresti sem var verra. Í markinu var einn kallari sem kallaði upp númer hvers og eins sem fór í gegn og svo sátu þar þrjár manneskjur sem krossuðu við á blöðum. Allt undir kontrol. Eftir þrjá klukkutíma hætti ég að fylgjast með stöðu annarra hlaupara en einbeitti mér að mínu verkefni, að ná yfir 200 km. Það að fara að miða sig við aðra gat ruglað mann þannig að ég sleppti því alveg. Einnig talaði ég ekki við neinn allt hlaupið á brautinni, nema rabbaði aðeins við félaga Eiolf einum tvisvar sinnum. Ef maður fer að tala við aðra þá fer maður oft að labba og það getur einnig ruglað taktinum í hlaupinu og maður getur freistast til að ganga meir en áætlað er. Svona rúllaði ég áfram á svipuðum takti, svona 13 hringi á hverjum tveimur tímum. Maraþonið kláraði ég á svona 4.10, á sex tímum fór ég 63 km, 100 km kláraði ég á svona 9.40. Ég skipti um skó og sokka kl. 21.30. Á tólf tímum fór ég 120 km. Allir þessir tímar voru betri en ég hafði náð áður nema í maraþoni. Það er ekki að marka í þessu samhengi. Manni finnst það vera nokkurskonar spretthlaup (eða þannig). Alla þessa tíma hefði ég getað bætt verulega því maður hleypur allt öðruvísi ef maður tekur allt innanúr sér á ákveðinni vegnalengd eða ef maður á eftir að hlaupa tvö til þrefalda þá vegnalengd sem maður klárar í hvert sinn. Ég sá þegar um 100 km að ég ætti að geta klárað 200 km markið ef ekkert sérstakt kæmi upp á og fór þá að hlaupa taktisk til að vera nokkuð öruggur með að ná settu marki. Fyrst maður gat farið 100 km á ca 10 klst þá hlyti ég að geta klárað aðra 100 km á 14 klst. Þegar ég var búinn að fara 130 km á 13 klst þá var ég nokkuð viss. 70 km á 11 klst á að vera nokkuð öruggt (7 – 9 – 13). Um þetta leyti fór að dimma og var orðið aldimmt uppúr kl. 21.00. Þá var brautin lýst upp. Maður sá á þessum tíma að það voru ýmsir sem höfðu tekið þátt í 48 tíma hlaupinu sem höfðu í raun ekkert að gera í seinni sólarhringinn. Menn röltu eða skjögruðu áfram og einstaka hálfmeðvitundarlausir að sjá. Það var ekki sérstaklega upplífgandi að hafa það fyrir augunum klukkutímum saman. Einn dani gekk allan tímann eða í 48 tíma. Hann var ansi röskur á ganginum en hann seig meir og meir út í hægri hliðina eftir því sem leið á hlaupið. Þarna voru eiginkonurnar betri en engar því þær gengu með körlunum klukkutímum saman og virtust ganga undir eiginmanninum í vissum tilvikum í þess orðs fyllstu merkingu. Tíminn frá miðnætti fram undir birtingu var nokkuð langur. Það birti um kl. 4.00 og þá tóku fuglarnir heldur betur við sér. Kl. 6.00 um morguninn fóru sex tíma hlaupararnir af stað og það er svolítið yfirþyrmandi eftir 18 klst hlaup að fá það framan í sig að nú séu sex tímar efir því það eitt er nógu langt út af fyrir sig. Ég þurfti að hlaupa heim í bústaðinn um kl. 5.00 til að sækja meira Herbalife. Það skýrir smá niðurfall í vegalengdinni þann klukkutímann. Annars taldi maður bara niður og klukkan tuttugu mínútur í tíu um morguninn var settu marki náð. Það var verulegur léttir svo þá fór ég það sem var eftir án þess að velta mikið fyrir mér heildarvegalengdinni. Ég var orðinn smá aumur í hægri kálfanum og vildi ekki þrælast mikið á honum ef það væri að gera um sig tognun. Lærin voru aftur á móti í fínu standi. Ég fann það einnig að ég hefði átt að vera með þrjú skópör því seinni skórnir sem ég skipti yfir á voru orðnir full harðir sem gerði það að verkum að maður varð dálítið sárfættur undir það síðasta. Ég gekk síðasta hringinn til að njóta stundarinnar. Norðmaðurinn, sem sigraði 24 tíma hlaupið, hljóp enn á fullu gasi, hár og laufléttur. Að lokum hljómaði lúðurinn og 217,7 km voru í höfn.
Að hlaupi loknu hittust menn í markinu og samglöddust yfir að þessi þrekraun var á enda runnin. Vitanlega var grikkinn Kourosis maður dagsins. Hann hljóp yfir 433 km á þessum tveimur sólarhringum og setti heimsmet fyrri sólarhringinn í sínum aldursflokki. Árangur margra annarra var einnig afar góður. Eiolf setti norskt met í 48 tíma hlaupi og daninn Lars Skytte Cristoffersen setti bæði danskt met og norðurlandamet í sömu vegalengd. Hann vann 24 tíma hlaupið í fyrra á ca 226 km. Ég sá að danskur maður, Vagn að nafni, hafði sótt að mér síðustu klukkutímana og hafði hann náð mér um kl. 11.00 en fram að því hafði ég lengst af verið í 3ja sæti. Ég hafði tekið því rólega síðasta klukkutímann svo ég bjóst við að hann hefði farið framúr mér hvað og kom á daginn. Það tekur hins vegar á að keyra sig út eftir svona langan tíma. Það tók dálítið langan tíma að ganga frá endanlegum úrslitum en upp úr kl. 13.00 var farið að afhenda verðlaun. Það var rétt búið að afhenda bikara fyrir 48 tíma hlaupið þegar maður sem stendur rétt hjá mér fer að riða og steypist síðan í götuna. Kona sem stóð við hliðina á honum greip í hann og dró þannig nokkuð úr fallinu. Engu að síður skall hann á ennið í asfaltið og blæddi nokkuð úr. Það varð vitaskuld uppi fótur og fit, manninum var hagrætt og hringt á sjúkrabíl og lögreglu. Hann rankaði við sem betur fer eftir skamma stund og settist upp, fékk að drekka og náði áttum á ný. Hann var ekki fluttur burt með sjúkrabílnum heldur tók á móti verðlaunum í 24 tíma hlaupinu. Þá var þetta daninn Vagn sem hafði farið fram úr mér á síðasta klukkutímanum. Þarna var mikil mildi að ekki varð af slysi þarna því hann hefði getað fengið verulega höfuðáverka ef hann hefði skollið í götuna af fullum þunga eins og munaði mjög litlu að gerðist.
Ég get ekki verið annað en ánægður með þetta hlaup. Það gekk allt upp sem ætlað var en það er ekki sjálfgefið. Ég var til dæmis samsíða svía á brautinni þegar lúðurinn gall og gaf merki um að hlaupið væri búið. Hann tók þátt í 48 tíma hlaupi enda vel harðnaður ultrahlaupari. Hann hafði bólgnað upp framan á öðrum fætinum. Hann taldi líklegast að hann hefði hert reimina á skónum of mikið en tekið of seint eftir því. Hlaupið fór þannig í vaskinn en hann kláraði rétt yfir 200 km á 48 tímum.
Daginn eftir rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við þær aðstæður hefði allt farið í uppnám og hlaupið líklega flosnað upp. Svona getur þetta verið.

Verðlaunaafhending gerð klár

sunnudagur, maí 25, 2008

Þá er þetta mikla hlaup búið. Mjög ánægður með niðurstöðuna sem var um 20 km lengra hlaup en í fyrra og mjög vel yfir 200 km. markið. Markmiðið var að ná yfir 200 km og þeim mun lengra þeim mun betra. Að sprengja 200 km línuna í 24 tíma hlaupi er draumur hvers og eins sem þreytir 24 tíma hlaup en það er langt í frá alltaf sem það text. Það voru 5 sem fóru yfir línuna í 24 tíma hlaupinu og tveir eða þrír í 48 tíma hlaupinu og þar skal fyrstan telja Grikkjann Korosis sem gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet í aldursflokknum 50 - 59 ára. Hann er hreint magnaður. Hann hefur mun hærri sársaukaþröskuld en flest venjulegt fólk. Þetta var 3ja 48 tíma hlaupið hans síðan í mars en flestum þykir nóg að taka það einu sinni. Ég er ekki viss um hvort ég hafi áhuga á að takast á við þessa miklu þolraun eftir að hafa horft á hlauparana þrælast áfram á brautinni á seinni sólarhringnum. Það var sett fullt af landsmetum á helginni fyrir utan heimsmetið, danskt, norskt og sænskt í 48 tíma hlaupi og svo íslenskt í 24 tíma hlaupi!!! Brautin er mjög góð og öll skipulagning og framkvæmd hjá Kim og hans fólki til mikillar fyrirmyndar. Gef nánari skýrslu síðar en vil þakka öllum sem fylgdust með og sendu mér góðar óskir. Það hefur veruleg áhrif að maður veit af því að það eru nokkur augu sem horfa yfir öxlina á manni á meðan hlaupið stendur yfir.

föstudagur, maí 23, 2008

Eiolf og Ann i Grikklandi í fyrra

Er kominn í hús á Galökken við Rönne. Klukkan er 21.00 að dönskum tíma. Hitti Eiolf og Ann en 48 tíma hlaupararnir eru búnir að vera að í níu klst. Þau voru kát og Eiolf er í fínu formi. Hann stefnir á að fara milli 300 og 400 km. Kemur í ljós hve langt það verður þegar upp er staðið. Menn fara varlega út því það er löng leið eftir, allir kannski nema Kurosis, gríski ofurhlauparinn. Hann fór 71 km á fyrstu sex tímunum sem er bara ágæt vegalengd í sex tíma hlaupi pr. se, hvað þá þegar 42 klst eru eftir. Það eru 35 hlauparar í 48 tíma hlaupinu, álíka margir í 24 tíma hlaupinu og síðan eru einh´ver hópur í sex tíma hlaupi. Þetta er orðið heilmikið arrangement hjá Kim og líklega eitt stærsta ultrahlaup á norðurlöndunum. Ann sagði mér að á næsta ári væru þeir Eiolf og Trond, norskur félagi hans, sem var með í Western States fyrir þremur árum, að planera að hlaupa frá Ítalíu norður til Nord Kalotten. Það er um tveggja mánaða verkefni, hvorki meir eða minna. Það er í þessu eins og öðru, það er sífellt leitað að nýjum verkefnum og nýjum áskorunum. veðrið er fínt, hæfilega hlýtt og í skógargöngunum sem hlaupið er í er algert logn. Fínar aðstæður.

fimmtudagur, maí 22, 2008

komið í mark á Borgunarhólmi í ágúst árið 2004.

Fékk SMS frá Eiolf Eivindsen í gær. Hann var að tékka af stöðuna. Þau hjónin voru á leið til Borgundarhólms en hann ætlar að debutera í 48 tíma hlaupi. Eiolf er fínn og glaðbeittur náungi. Við hittumst fyrst eftir Western States í Kaliforníu fyrir þremur árum. Hann leitaði mig uppi og fór að spyrja um gistimöguleika á Íslandi þannig að þau gætu notað "Stop over möguleika" á Íslandi í tvo til þrjá daga. Hann talaði ensku með kunnuglegum hreim svo ég spurði hvort hann væri norskur. Þegar hann sagði svo vera þá sagði ég að við gætum sleppt þvi að tala saman á ensku því ég kynni sænsku ágætlega. „Det er ju rena Biffen“ sagði Eiolf hinn kátasti og þýði það nú hver sem vill. Það gekk allt eftir með gistinguna, ég gat bjargað henni yfir hafið með stuttum fyrirvara og var ánægjulegt að geta gert þessu ágæta fólki smá greiða og ferðina enn eftirminnilegri. Síðan höfum við haft reglubundið samband og endurnýjuðum kynnin svo í Grikklandi í haust. Eiolf var stórreykingamaður áður en hann fór að hlaupa og er vafalaust jafn ofvirkur í hlaupunum eins og hann var í reykingunum hér áður. Hann vinnur í álveri og kann því hitanum vel.

Það lítur vel út með veður á Borgundarhólmi, 14 stiga hiti, sól og smá gola. Brautin verður 1.450 mera löng sem er betra en þeir 1.000 metrar sem ætlað var í upphafi. Hún er á tveimur samsíða stígum sem liggja í skógargöngum með örstuttu millibili. Fínar aðstæður.

Það verður hægt að fylgjast með hlaupinu á vef þess. Hlekkurinn er:

http://ultramarathon.dk/php-files/news_overview.php

Hann verður uppfærður á svona klukkutíma fresti.

Einnig er hægt að sjá frétt frá sjónvarpinu á Borgundarhólmi um hlaupið á þessum hlekk:

http://www.tv2bornholm.dk/moduler/nyheder/showregvideo.asp?dato=19-05-2008&cID=1&vId=424889

Þarna er viðtal við Kim Rasmussen hinn mikla hlaupara og myndir frá hlaupinu frá því í fyrra, m.a. frá startinu.

Bæinn R¢nne á Borgundarhólmi heyrði maður fyrst talað um í Nonnabókunum. Nonni fór til Danmerkur með skipinu Valdimar frá R¢nne. Rönne er stærsti ferjubær Borgundarhólms. Annars er útgerð því sem næst horfin á Borgunarhólmi eins og annarsstaðar umhverfis Eystrasaltið. Túrismi og landbúnaður eru helstu atvinnuvegirnir á Borgundarhólmi nú orðið.

Flýg til Köben í fyrramálið og tek rútuna frá Huvudbanegården út til Borgundarholms um eftirmiddaginn. Er kominn á staðinn upp úr kl. 20.00. Örstutt er frá höfninni út í smáhúsabyggðina þar sem er gist og þaðan er smá göngutúr út á hlaupasvæðið. Getur ekki verið betra. Held að allt sé klárt. Nú verður bara að borða nóg það sem eftir er.

þriðjudagur, maí 20, 2008

Þessi kvöldmatur kostaði ekki 35 þúsund krónur en gerði sitt gagn.

Ég er svo sem ekkert sérstakur íslenskumaður en maður reynir þó yfirleitt að tala þokkalegt mál. Alla vega reynir maður að vanda sig þar sem það á við svo sem þegar maður sendir frá sem texta sem ætlast er til að tekið sé mark á. Ég undanskil bloggið í því sambandi. Það er oft á tíðum hroðvirknislega skrifað enda iðulega gert í fljótheitum. Þegar maður vill svo virkilega vanda sig þá fær maður yfirlestur manna sem hafa gott auga fyrir íslensku máli því betur sjá augu en auga.

Í dag barst hingað inn auglýsing um háklassa veislu sem Hótel Holt stendur fyrir í byrjun júní. Þegar ég las hana þá fékk maður hroll af ákveðinni tegund. Dæmi hver fyrir sig.

Ágæti Ingibjörg Hinriksdóttir

Hotel Holt í samvinnu við Globus hf boðar til einstakrar
Winemaker´s veislu að frönskum eðalshætti

Chateau Cheval Blanc St Emilion
og
Chateau d´Yquem Sauternes

Hr. Pierre Lurton hinn aðlaðandi víngerðarmaður og stjórnandi
hvað virtustu vínhúsa heims, Chateau Cheval Blanc í St Emilion og Chateau d’Yquem í Sauternes verður sérstakur heiðursgestur og leiðir gesti í gegnum leyndadóma vínanna.

Friðgeir Ingi Eiríksson,matreiðslumeistari Gallerys og
fulltrúi Íslands í matreiðslumeistarakeppninni Bocuse d’Or árið 2007 ætlar ásamt
lærisveinum sínum að bjóða upp á magnaðan matseðil
er hæfir hinum fágætu vínum þessara stórkostlegu vínhúsa.

Þessi einstaka veisla fer fram að Hótel Holti, Gallery restaurant
fimmtudagskvöldið 5. júní og hefst kl. 19.30

Fyrstir koma fyrsti fá – pláss er takmarkað.

Frekari upplýsingar og borðapantanir
eru í síma 5525700 eða á gallery@holt.is

Verð kr. 35.000 á mann

Innifalið í verði:
Kampavín og canapé
4ja rétta hátíðarkvöldverður
Eðalvín þessara stórkostlegu vínhúsa
Kaffi og koníak/líkjör

Við vonum að þú sjáir þér fært að njóta stundar með okkur
að frönskum eðalshætti og fagna komu sumars.

Með kveðju
Hótel Holt

Ég renndi yfir þennan matseðil og setti niður eftirfarandi athugasemdir:

1. Ágæti Ingibjörg Hinriksdóttir (Svona senda veitingahús með klassa bara ekki frá sér).
2. .. að frönskum eðalshætti (Hvað er franskur „eðalsháttur“? Eðalsháttur er orðskrípi sem segir ekki neitt. Maður getur t.d. sagt .. að hætti franska aðalsins).
3. .. og stjórnandi hvað virtustu vínhúsa heims ( Hvað er þetta „hvað“ að gera þarna?).)
4. .. gegnum leyndadóma vínanna (Leyndardómar eru með „erri“).
5. .. þessara stórkostlegu vínhúsa (Maður segir ".. þessa stórkostlegu" eða "..frá þessum stórkostlegu vínhúsum" en ekki "þessara").
6. .. Fyrstir koma fyrsti fá (Þetta er eftir öðru).
7. .. 4ja rétta hátíðarkvöldverður (Hvað þýðir 4ja? Maður segir fjögurra rétta).
8. .. og fagna komu sumars. (Það er svo sem ágætt að fagna komu sumars rétt áður en sól fer að lækka á lofti ).

Miðað við þessa yfirferð um matseðilinn þá læðist að manni efi um að þarna sé á ferðinni vara sem sé 35 þúsund króna virði. Þegar verið er að bjóða hágæða vöru þá verður allt að vara af klassa sem nálægt henni kemur svo upplifunin sé peninganna virði.
Ergo. Hef ekki áhuga.

mánudagur, maí 19, 2008

Úr Leirufirði

Helgin var róleg, 20 á laugardegi og rúmir 10 á sunnudegi. Í vikunni verður lítið hlaupið heldur hvílt að megninu til. Ég sé að veðurspáin fyrir R¢nne er heldur góð, ca 15 stiga hiti og gola. Ég sá í gær að það er stórviðburður í 48 tíma hlaupinu. Grikkinn Kuoros sem er mesti ultrahlaupari allara tíma verður meðal þátttakenda í 48 tíma hlaupinu. Hann hefur síðan í mars hlaupið 2 48 tíma hlaup og eitt 24 tíma hlaup. Hann setti heimsmet í 72 tíma hlaupi í Brno í mars þar sem hann hljóp yfir 700 km á þremur sólarhringum. Hann hafði unnið 48 tíma hlaupið á rúmum 400 km en fékk leyfi til að halda áfram í einn sólarhring í viðbót. Hann á að því mig minnir þrjá bestu tímana sem hafa náðst í Spartathlon. Hann á öll heimsmet frá 12 tíma hlaupi upp í sex daga hlaup og síðan á hann besta tíma í einhverju svakalegu hlaupi í Ástralíu. Það verður skemmtileg upplifun að sjá þennan mikla hlaupara á brautinni. Ef aðstæður verða góðar er dúkað borð fyrir heimsmet í 48 tíma hlaupi á Borgundarhólmi um næstu helgi. Í 24 tíma hlaupi verður haldið danska meistaramótið í greininni. Það eru því allir bestu hlauparar Danmerkur mættir á staðinn og síðan einhverjir erlendir hlauparar. Þetta verður spennandi. Ég er miklu betur undirbúinn en í fyrra hvað hlaupamagn varðar en það verður að koma í ljós hvernig allt veltist.

Flottur árangur í Kaupmannahafnarmaraþoni á laugardaginn. Sumarliði á 3.06 og Þórólfur og Eva á 3.09. Eva nær þarna fimmta besta tíma íslenskra kvenna og er búin að skipa sér í hóp íslenskra stórhlaupara. Alveg magnað.

Góður dagur á Víkingsvellinum í gær. Víkingar komu ákveðnir til leiks og unnu sanngjarnan sigur á KA. Þei hafa nefnilega ekkert átt auðvelt með KA gegnum tíðina. Síðan spilaði HK/víkingur gegn íslandsmeisturum Vals í gærkvöldi. Þær töpuðu 3 - 0 en börðust vel og mörk Vals voru af ódýrari gerðinni. Sem betur fer er það liðin tíð að leikir í kvennaboltanum séu að enda með 10 - 15 marka mun. Það er engum til uppbyggingar.

Flaggað á góðviðrisdegi í Kirkjuhvammi

laugardagur, maí 17, 2008

Fór rólegt 20 km hlaup út á Eiðistorg í morgun. Tók það frekar rólega enda er þetta virk hvíld. Hitti Óskar Dýrmund Grænlandsfara á leiðinni og við skokkuðum saman út á Suðurgötu. Hann var í fyrsta hópnum sem fór til Grænlands í ATC keppnina árið 2004. Ég man eftir honum sem litlum strák á Hvanneyri forðum daga eða upp úr 1970. Það var fróðlegt að heyra hvernig hlutirnir gengu fyrir sig hjá þeim og bera saman við ævintýri okkar í fyrra sumar. Því miður held ég að það verði enginn frá Íslandi með í ár en það stendur vonandi til bóta síðar.

Það var fín grein eftir Jón Baldvin í Moganum í morgun um þróun efnahagsmála hérlendis og stöðuna í dag. Ég hef ekki alltaf verið sammála JBH en í þetta sinn er ég sammála hverju orði. Mikið af því sem er að gerast og er okkur mótdrægt í dag er sjálfskaparvíti. Útgáfa jöklabréfanna á sínum tíma var ekkert annað en skammgóður vermir því þau urðu að seljanlegri vöru vegna þess hve vaxtamunur var mikill milli Íslands og umheimsins. Að kaupa ríkistryggð hávaxtabréf sem voru fjármögnuð með ódýru lánsfé var náttúrulega rakinn business. Þetta styrkti krónuna úr hófi fram sem gerði allt voða skemmtilegt, um stundarsakir. Allt sem mann alngaði í var orðið hundódýrt. Skítt og laggó með að fiskiðnaðurinn og aðrar útflutningsgreinar væri að drepast vegna þess hve gengi krónunnar var hátt. Þessi tími hlaut að taka enda, það vissi hver maður sem vildi vita. Ég tók stöðu gegn krónunni í ágúst í fyrra. Það var bara spurning um hvenær hún félli og hve mikið en ekki hvort. Þegar skriðan fór af stað varð hún svo það stór að stjórnvöld réðu ekki neitt við neitt. Bankarnir voru metnir nær því gjaldþrota í augum umheimsins, enda þótt viðskiptaráðherra segði í Silfri Egils að þeir væri með þeim sterkustu í heimi. Bankarnir voru orðnir það stórir að ríkið hafði ekkert bolmagn að standa við bakið á þeim og veita þeim stuðning þegar gaf á bátinn. Þess vegna var staða þeirra slík sem hún var. Það hafa varla verið auðveld spor Seðlabankamanna og stjórnvalda að fara til norrænna Seðlabanka til að fá baktryggingu hjá þeim í þeim tilgangi að reyna að ná valdi á atburðarásinni aftur. Það þýðir í raun og veru að stjórnvöld réðu ekki við ástandið. Ef stjórnvöld ráða ekki lengur við ástandið upp á eigin spýtur þá geta menn sagt sér sjálfir hvað var á næsta leyti. Niðurstaðan var hins vegar kynnt eins og um sigurför hefði verið að ræða. Fjölmiðlar átu fréttatilkynningarnar hráar upp og spurðu einskis. Allt orðið gaman og gott á nýjan leik (eða hvað?).

Það þarf ekki nema einn maður að leggja bílnum sínum þversum á götuna og hringja í fjölmiðla þá eru þeir mættir með upptökuvélar og alles. Hvað ætli væri gert við venjulegt fólk ef það færi að leggja bílnum sínum þversum fyrir framan eitthvert fyrirtæki sem það væri súrt út í. Ætli löggan væri ekki sótt og maður dreginn í burtu með skömm? Trúi því best.

Smá Lúkas leit dagsins ljós í gær þegar fréttist að meintum álftaeggjamorðum úti á Seltjarnarnesi. Fréttamannaliðið upp eins og skot alveg fýr og flamme og fjallaði um harmleikinn á Seltjarnarnesi. Á sama tíma og fimmtíu þúsund manns hafa farist í jarðskjálftum í Kína og einhverjir ótaldir tugir þúsunda farist í Burma fyrir utan þann mikla fjölda sem býr við hörmungar eftir þessar hamfarir þá eru svona álftaeggjauppákomur headlines hérlendis.

Það var fínt hjá Fjölni að leggja KR í vikunni. Sérstaklega var ánægjulegt að það gerðist með marki á síðustu mínútu. Þeir eru orðnir ófáir leikirnir sem KR hefur náð þremur stigum á móti Víkingum á þennan hátt. Kominn tími til að þeir sypu á þessum bikar sjálfir. Í fyrra var dæmt löglegt mark af Víkingum í leik á móti KR. Dómurinn hafði í för með sérað það voru Víkingar sem féllu um deild en ekki KR.

fimmtudagur, maí 15, 2008

Nú eru rólegheit, ætla að fara svona 60 km í þessari viku svona til að halda mér mjúkum. Allt í fínu lagi. Eini óvissuþátturinn á Borgundarhólmi verður veðrið.

Sá áhugavert efni á norska ultravefnum í dag. (www.kondis.no/ultra). Í fyrsta lagi hafa þeir útbúið sérstakan kynningarbækling yfir norsk ultrahlaup. Fyrir nokkrum árum var einungis eitt ultrahlaup haldið í Noregi en nú eru þau orðin sjö af ýmsum tegundum. Þar eru fjallahlaup á tveimur dögum, sex tíma hlaup, 12 og 24 tíma hlaup innandyra, 100 km hlaup á hlaupabraut og síðast en ekki síst skemmtileg útfærsla á 80 km hlaupi. Það er hlaupið innandyra og hlaupnir eru átta 10 kílómetra leggir. Ræst er með þriggja tíma millibili svo hlaupið stendur yfir í einn sólarhring. Sá sem hleypur hraðast fær mesta hvíld milli hlaupa. Heildartími ræður um úrslit. Þessi hlaup öll sömul kynna þeir síðan í einum bæklingi.

Hérlendis hafa verið haldin tvö ultrahlaup á ári, Laugavegurinn og sex tíma hlaupið (Jónshlaup). 100 km hlaup verður haldið í fyrsta sinn hérlendis í næsta mánuði. Líkur benda til að Hamfarahlaupið bætist við á næsta ári sem er 206 km og verður það líklega hlaupið á þremur dögum. Þá er þetta nú orðið þó nokkuð. Þingvallavatnshlaupið (65 - 70 km) og Þingstaðahlaupið (55 km) eru yfirleitt hlaupin árlega þó það sé ekki alveg árvisst. Það þarf ekki mikla viðbót í vinnuframlagi frá því sem nú er að breyta þeim í keppnishlaup og formleg ultrahlaup. Það er nefnilega alveg hellingur að gerast og fer vaxandi. Ég hef trú á að þátttaka í ultrahlaupum vaxi verulega á næstu árum. Hjá mjög mörgum er þetta fyrst og fremst spurning um að taka skrefið og láta slag standa. Sá fjöldi góðra maraþonhlaupara sem er til staðar hér hefur alla möguleika á að gera sig gildandi í alvöru hlaupum.

Fín viðtöl í blöðunum í dag við Sigga Gunnsteins og Soffíu Gísla. Þetta sýnir að viðhorfið er að breytast gagnvart þessari merku íþróttagrein sem er þeim eiginleikum búin að það geta ekki allir stundað hana. Fréttir af þessum hlaupum þóttu vart fréttaefni í árdaga þegar okkar fyrstu menn voru að hlaupa 100 km hlaup. Nú er þetta frekar algengt umfjöllunarefni í fjölmiðlum. Dropinn holar steininn.

Norðmenn hafa einnig tekið upp aðra nýjung sem er kynnt í bæklingnum góða. Þeir veita ultrahlaupurum brons - silfur og gull styttu fyrir að ná ákveðnum heildarkílómetrafjölda í viðurkenndum ultrahlaupum. Bronsstyttan er veitt fyrir að hlaupa samanlagt 1.000 km í viðurkenndum hlaupum, silfurstyttan er veitt fyrir 5.000 km samtals og gullstyttan er veitt fyrir samtals 10.000 km hlaupna í viðurkenndum hlaupum. Það er ekki heiglum hent að ná silfri og gulli. Við þurfum að taka þetta upp hérlendis. Þetta eru skemmtilegar viðurkenningar fyrir þá sem leggja þetta fyrir sig öðru frekar.

P.S. Kona sem heitir Helga sendi mér skeyti um Laugaveginn á Hlaupadagbókinni. Ég eyddi því af klaufaskap áður en ég gat lesið það. Endilega að senda það aftur. Þá verð ég varkárari áður en ég les það.

miðvikudagur, maí 14, 2008

Sæsorfinn steinn nálægt Ögri

Tók síðustu löngu æfinguna fyrir Borgundarhólm á sunnudaginn. Það var leiðindarigning um morguninn svo ég fór niður í Laugar og tók skammt dagsins á brettinu. 30 km voru verkefni dagsins og það var lengra en ég hafði nokkurn tíma hlaupið á bretti. Aðferðin að gleypa fílinn ekki í einum bita heldur í mörgum smáum gekk fullkomlega upp. Ég skipulagði þessa þrjátíu km á brettinu sem hlaup í Elliðaárdalnum. Það eru um tólf hringir. Því voru hverjir 2.5 km sem einn hringur í dalnum. Svo var talið niður. Þetta gekk mjög vel, maður hlutaði vegalengdina niður í litla parta út frá hringjunum í dalnum og þannig leið þetta hraðar en hratt. Var um 2 klst og 50 mínútur að klára dæmið.

Næstu tíu dagar verða rólegir, ætla að taka svona 60 km í þessari viku og eitthvað minna í næstu viku.

Það eru víða að finna forarvilpurnar þessa dagana. Mér sýnist UMFÍ vera að byltast um í einni slíkri. Ég verð nú að segja að ég skil ekki alveg hugsunina bak við það að byggja yfir sundlaug í ætluðum höfuðstöðvum hreyfingarinnar í miðbænum, hvað þá að fjárfesta í sal til skákiðkunar og klifurvegg!! Er ekki nóg til af sundlaugum víðsvegar um bæinn? Er Skáksamband Íslands ekki með aðstöðu í Faxafeninu? Eru ekki margir grunnskólar á fullu við iðkan skáklistarinnar? Hvernig átti að standa undir kostnaði við öll herlegheitin sem kynnt voru fyrir borginni þegar lóðinni var úthlutað? Þarf UMFÍ á meira húsnæði að halda en skrifstofuplássi fyrir starfsfólkið og góðan fundarsal. Slíkt húsnæði er á lausu út um allan bæ. Þarna er eitthvað málum blandið.

Víkingar léku fyrsta heimaleik sinn í Víkinni á mánudagskvöldið. Þeim tókst að tapa fyrir Selfyssingum sem voru baráttuglaðir og áttu sigurinn skilið. Stelpurnar í HK/Víking uppskáru meir í gærkvöldi þegar þær gerðu jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik sínum í efstu deild. Þær börðust eins og ljón allan leikinn og skiluðu stigi í hús.

sunnudagur, maí 11, 2008

Vorboðinn ljúfi er kominn á kreik

Fór í Elliðaárdalinn um kl. 7.00 í morgun. Verkefni dagsins voru 16 hringir. Því var lokið rétt um fjórum tímum síðar. Fínt veður, smá suddi rétt til að byrja með en svo bara hlýtt og gott veður. Gaman að fylgjast með fuglalífinu í dalnum svona snemma á morgnana. Þegar umferðin eykst flytja þeir sig upp í trén en eru meira út um allt þegar þeir eru ekki truflaðir. Sá maríuerlu sem var að baða sig. Hún óð út í grynningar við vaðið milli brúnna, stakk hausnum á kaf og jós yfir sig alla. Þetta endurtók hún nokkuð oft. Því miður var myndavélin ekki tiltæk.

Þegar maður hleypur langt þá er útvarpið alltaf tiltækt. Skemmtilegasta útvarpsefnið að mínu mati fyrir utan Útvarp Latabæ eru Sigurður G. og Guðmundur Ólafsson á Útvari Sögu eins og ég hef áður sagt. Svo eru oft mjög góðir þættir á Rás tvö á kvöldin eftir kl. 22.00. Sigurður og Guðmundur hafa rúman tíma og geta látið móðan mása um það sem efst er á baugi í það skiptið. Þeir voru að tala um deilu hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum um daginn. Guðmundur þekkir gamla konu í Keflavík sem heldur honum upplýstum um það sem er efst á baugi í þjóðfélaginu og Sigurður G. þekkir gamla konu í Vogunum sem er betri en engin. Sú gamla í Keflavík hafði lent á spítala um daginn og notaði tækifærið til að skyggnast bak við tjöldin þar. Að sögn Guðmundar saði sú gamla að hjúkrunarfræðingar væru yfirleitt ráðnir í hálft til treikvart starf en síðan ynnu þeir von úr viti og mestan partinn í yfirvinnu. Meðallaun hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum að sögn þeirra gömlu er um 510.000 kr á mánuði. Ónærgætnin er dálítið mikil á spítalanum segir sú gamla og meðal annars er þeim bannað að sofa í vinnunni. Slæmt er það. Hjúkrunarfræðingar hérlendis verða að vera með stúdentspróf til að geta farið í hjúkrunarfræðinám. Það er líklega til þess að vera samræðuhæfir um hvað er sínus af einum eða kunna skil á latneskum fallbeygingum ef vitrir fræðimenn skyldu þurfa á spítalavist að halda og vildu ræða um fagið við starfsfólkið. Í Danmörku segir Guðmundur að ekki sé gerð krafa um stúdentspróf áður en farið er í hjúkrunarfræðinám. Þar geta sjúkraliðar t.d. bætt við sig tveimur árum og lært til hjúkrunarfræðings. Skyldi vera borin minni virðing fyrir sjúklingum í Danmörku en hér?

Það var svakaleg lýsingin í 24 stundum í dag um hvernig staðið var að sölu hlutar ríkisins á 40% hluta í Íslenskum aðalverktökum árið 2003. Stjórnendur ÍAV fengu að kaupa hlut ríkisins þrátt fyrir að þeir hefðu ekki lagt fram besta tilboðið. Stjórnendur ÍAV voru fruminnherjar og vissu því margt um fyrirtækið sem aðrir áhugasamir kaupendur vissu ekki. Formaður einkavæðingarnefndar er á sama tíma stjórnarformaður fyrirtækisins sem verið er að selja. Hans rulla í þessu leikriti er afar áhugaverð. Hann dregur upp dökka mynd af stöðu fyrirtækisins þegar verið er að kynna það fyrir áhugasömum kaupendum samkvæmt lýsingu blaðsins. Hann sem formaður einkavæðingarnefndar hefur mikil áhrif á hverjum er seldur hlutur ríkisins hlýtur maður að álykta. Hann er síðan kosinn stjórnarformaður af kaupendum fyrirtækisins eftir að salan hefur átt sér stað. Árið eftir greiðir fyrirtækið kaupendum út hærri arð en sem nemur kaupverðinu!!! Hvurslags helvítis rugl er þetta?? Ég ætla rétt að vona að fjölmiðlamenn sýni þessu ráðslagi með opinberar eignir jafn mikinn áhuga eins og þeir hafa sýnt launakjörum framkvæmdastjóra miðborgarinnar að undanförnu.

Það hefur verið mikið fjallað um perra og meinta perra að undanförnu. Byrgisperrinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi og að greiða háar sektir. Samkvæmt sögunni hlýtur sú spurning að vakna hvenær honum verði sleppt út. Eftir ca eitt til eitt og hálft ár? Hvenær ætla fjölmiðlamenn að rannsaka hið tvöfalda dómskerfi í landinu. Annars vegar er héraðsdómur og hæstaréttur og hins vegar náðunarnefndin. Síðan býst maður við að BP sé búinn að koma málum þannig fyrir að hann borgi aldrei neinar sektir. Prestur á Selfossi hefur verið sakaður um ósæmilegt framferði við ungar stúlkur. Fréttamenn túlkuðu þetta sem svo að hann væri sakaður um kynferðisafbrot um leið og myndir voru samdægurs birtar af honum á forsíðum blaða og í tengslum við fyrstu frétt ljósvakamiðla. Ca þremur vikum eftir að maður er settur í gæsluvarðhald sakaður um gróf kynferðisafbrot gagnvart börnum sínum og börnum honum tengdum kom frétt um það í fjölmiðlum. Mynd var blörruð og nafnið hefur ekki verið gefið upp. Af hverju er þessi mannamunur gerður. Er það eitthvað viðkvæmt um hvern er að ræða í þessu tilviki? Er þetta enn eitt dæmið um lágflugið sem fjölmiðlamenn iðka oft á tíðum?

Þegar maður hlustar mikið á útvarp getur ekki fram hjá því farið að málfar fjölmiðlamanna vekji nokkra athygli. Ég er ekki sérstakur málfarsmaður en smá "standard" reynir maður að hafa. Maður vill alla vega hafa orðtök á hreinu ef maður notar þau. Oftar en ekki er vitlaust farið með algeng hugtök þegar þeim er brugðið upp í máli fjölmiðlamanna. Nýlega var sagt í kvöldfréttum sjónvarpsins að kílómetrarnir styttust mikið sem hægt væri að keyra vegna hækkana á bensínverði. Fyrir fimm árum hefði verið hægt að aka ákveðinni bíltegund norður að Kópaskeri fyrir 5.000 kall en nú væri einungis hægt að keyra hann norður í Öxnadal fyrir sama pening. Ég hélt að kílómetrinn væri alltaf og eilíflega 1000 metrar hvað sem gerðist í olíuverði og verðbólgu. Þeim kílómetrum sem hægt er að aka fyrir sama pening fækkar hins vegar með hærra bensínverði. Í þessari sömu frétt var síðan klykkt út með að það væri hægt að aka 56 kílómetrum skemur nú á þessum tiltekna bíl en fyrir fimm árum siðan, þ.e. áður að Kópaskeri en nú í Öxnadal. Þarna munar allavega um 200 kílómetrum, a.m.k ef kílómetrinn er 1.000 metrar eins og hann var skilgreindur í Reikningsbók Elíasar Bjarnasonar fyrir margt löngu.

föstudagur, maí 09, 2008

Búdapestmaraþon árið 2003

Ég sá á blogginu hjá Evu vídeoklipp þar sem var verið að tala um maraþonhlaup og ýmislegt í sambandi við þá miklu þolraun. Í enda vídeósins kemur þetta statement fyrir svona næstum því orðrétt:

When you cross that finish line, no matter how slow or how fast you run, it will change your life forever.

Það er óhætt að segja út frá mínum bæjarhóli séð að þarna er hvert orð öðru sannara. Maður fær gæsahúð af því að renna huganum yfir þau ár sem eru liðin síðan í ágúst 2000 þegar maður taldi sér trú um að maður væri loks fær um að hlaupa maraþon. Það hafði átt sér nokkurra ára aðdraganda þar sem fetað var úr skemmtiskokki í 10 km, svo í hálfmaraþon og síðan var látið vaða. Það var mikill áfangi að klára maraþon. Það voru endimörk hins mannlega í mínum huga. Síðan kom í ljós að það var ýmislegt beyond maraþon. Margt annað hefur fylgt í kjölfarið. Allt það fólk sem maður hefur kynnst í tengslum við hlaupin, bæði innanlands og utan, ferðalög og keppnir innanlands og utan, nýjar víddir í mataræði og heilsurækt, ný og ný markmið í hlaupum, uppskera sem eykst með auknu erfiði og svo framvegis og svo framvegis. Það er eiginlega bara tíminn og peningar sem setja takmörkin. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður væri staddur ef maður hefði ekki látið sig hafa það að hlaupa skemmtiskokkið góða hér um árið á illa reimuðum skóm með fötin í annarri hendi og Jóa í hinni. Ég ætla ekki að hugsa þá hugsun til enda.

Falleg hleðsla í Skötufirði

fimmtudagur, maí 08, 2008

Ég er að taka lokaálagsvikuna áður en ég fer í 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi eftir tvær vikur. veturinn hefur gengið mjög vel, öll plön gengið upp og nú er bara að sjá hver útkoman verður. Þetta er þó bara byrjunin því aðaldæmið hefst að afloknu Borgundarhólmshlaupinu og stendur til septemberloka.

Ég er farinn að hlaupa á kvöldin í Elliðaárdalnum síðustu vikur. Bæði er mjög gott að hlaupa á stígunum þar og eins er þar skjól ef vindsperringurinn er til leiðinda. Síðan er mjög gott að venja sig við að hlaupa hringi á tiltölulega stuttri braut. Er búinn að fara mest tíu hringi en ætla að fara sextán á laugardaginn.

Það hefur verið nokkur numræða í Noregi að undanförnu um hvort eigi að herða reglur varðandi þá sem eru nýbúnir að taka bílpróf. Bæði hefur verið rætt um að þeir megi ekki keyra á nóttunni og eins að það verði takmarkað hvað þeir megi hafa marga farþega í bílnum hjá sér í eitt eða tvö ár eftir að bílpróf er fengið. Þessi umræða kom upp af auknum þunga í kjölfar dauðaslyss af völdum ofsaaksturs ungs ökumanns. Á Útvarp Sögu var það rætt nokkuð fyrir skömmu hvort eætti að taka upp álíka reglur hérlerndis eins og verið er að ræða um í Noregi. það brást ekki að það hringdu inn einstaklingar sem voru vitlausir yfir því að það væri verið að skerða mannréttindi ungs fólks ef væri verið að takmarka hvað það mætti hafa marga farþega og keyra kraftmikla bíla strax daginn eftir bílpróf. Því má ekki hugsa málið frá hinni hliðinni. Það hlýtur að liggja öll tölfræði fyrir um hvaða aldurshópar valda flestum slysum. Ef það er ungt fólk sem er nýbúið að fá bílpróf þá er ekki óeðlilwegt að við því sé brugðist. Eru það ekki mannréttindi ökumanna að það sé reynt að takmarka slysahættu og tjón af völdum þeirra sem ekki hafa náð fullu valdi yfir því að keyra bíl. Mér findist allt í lagi að ökumenn myndu ávinna sér full réttindi til að keyra bíl á svona tveimur árum eftir að bílpróf hefur verið tekið. Ef þeir valda slysum eða brjóta umferðarlög á þessu tímabili þá seinkar það því að viðkomandi fái full réttindi og gæti haft í för með sér ebndurtekningu á ökuprófi. Það á að hugsa um hag þeirra sem haga sér skikkanlega í þessu sambandi eins og öðru en ekki eingöngu um hag þeirra sem brjóta af sér.

Formaður Torfusamtakanna kom á fund í Rotary á mánudaginn. Hann fjallaði nokkð um friðun húsa og skipulagsmál í Miðbænum. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að halda í ákveðna götumynd á Laugaveginum og í Miðbænum en mér finnst eitthvað vanta í þessa umræðu. Hvað á að gera við húsin þegar búið er að tryggja það að þau verði ekki rifin? Er hægt að stunda einhevrja atvinnu í þeim? Hvernig er hægt að auka aðdráttarafl miðbæjarins. Hvers vegna á fólk að fara niður í miðbæ? Það er erfitt að fá bílastæði niður í miðbæ. Það kostar peninga að leggja í bílastæði þar. Veðrið er þar oft heldur óskemmtilegt. Það er langt á milli búða. Fyrir allt venjulegt fólk er miklu einfaldara að fara í Kringluna eða Smáralindina. Ég held að stærstu skipulagsmistök sem gerð hafi verið í Reykavík á seinni áratugum hafi verið þau að byggja Kringluna ekki upp á einhverri stórri lóð við Skúlagötuna. Það hefði dregið fólk í átt til miðbæjarins. Það er athyglirvert sem kemur fram í forystugrein Fréttablaðsins í dag að í lok mesta framkvæmdastíma íslandssögunnar á Höfuðborgarsvæðinu þá er miðbær Reykjavíkur í upplausn. Hann hefur verið eins og hvert annað slömmhverfi til skamms tíma. Það er eitthvað að einhversstaðar.

sunnudagur, maí 04, 2008

Ungir Víkingar kampakátir eftir sigurleik á ÍR

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það eru breyttir tímar. Í stað þess að sitja á lúxusfarrými með allsnægtir er útlitið verra og ýmsar breytingar eru staðreynd. Krónan er fallin, hlutabréf hafa fallið í verði, aðgangur að lánsfé er takmarkaður, vöruverð hækkar, lífskjör versna, verðlag hækkar og verðgildi krónunnar rýrnar. Verðbólgutölur sjást sem ekki hafa sést í nær tuttugu ár. Það er dálítið undarlegt hvernig fjallað er um verðbólguna. Hún er hlutgerð eins og um sé að ræða mannýgt naut við borgarhliðin. Verðbólgudraugurinn, verðbólguvofan, verðbólgubálið, verðbólguófreskjan. Það er fjallað um verðbólguna eins og um sé að ræða lifandi óvætt sem þurfi að koma fyrir kattarnef. Í þeim slag er ætlast til að ríkisstjórnin fari fremst í flokki og hagi bardaganum helst á þann veg að enginn gangi sár frá þeim hildarleik. Mér finnst að með fyrrgreindu orðavali sé verið að forðast að tla um hvað verðbólga er í raun og veru. verðbólga þýðir rýrnandi verðgildi krónunnar sem leiðir af sér hækkandi vöruverð í krónum talið og versnandi lífskjör. Í einfaldri mynd er verðbólga afleiðing þess að það er aukið fjármagn í umferð í þjóðfélaginu án þess að verðmætaaukning hafi átt sér stað. Undanfarin ár hefur ódýru lánsfé verið dælt inn í samfélagið sem gat ekki annað en leitt til verðbólgu og versnandi lífskjara. Krónunni var haldið óeðlilega sterkri með útgáfu ríkisskuldabréfa sem voru mjög eftirsótt vegna hárra ríkistryggðra vaxta. Seðlabankinn á nú erfitt með að lækka stýrivexti því það myndi leiða til þess að Jöklabbréfin yrðu seld í stórum stíl sem myndi leiða til hruns á gengi krónunnar. Hann er því í nokkurskonar sjálfheldu. Utanaðkomandi áhrif eru einnig mikil, hækkandi verð á olíu og lakara aðgengi banka að lánsfé á erlendum mörkuðum sem ehfur í för með sér að það er einnig dýrara. Margt hjálpast þannig að. Enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir að lífskjör versni hér á næstu einu til tveimur árum. Hve mikið þau versna ræðst af ýmsu, meðal annars af því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin grípur til. Ef fasteignamarkaðurinn botnfrýs um nokkurra missera skeið mun það hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér s.s. fjöldagjaldþrot byggingarfyrirtækja með tilheyrandi atvinnuleysi í byggingariðnaði. Mér fundust afþvíbara rök viðskiptaráðherra gegn því að fella stimpilgjald niður að fullu vera heldur þunn í roðinu.

Fór út kl. r+umlega 6.00 í morgun og hljóp 20 km. Alli kom um kl 9.00 og kláraði að múra. Fór niður í Vík um kl. 14.00 en þar fór fram þriðji í afmæli. Fór aftur 20 km í kvöld. Farið að hvessa ð mikill mótvindur vestan af Eiðistorgi.

Neil kvaddur

laugardagur, maí 03, 2008

Við Jói og Stebbi kvöddum Neil í gærkvöldi. Hann var kallaður snögglega til starfa í London og fór í morgun. Neil er fínn drengur og góður félagi fyrir utan að vera frábær íþrottamaður, líklega sá mesti sem maður hefur kynnst. Hann sagðist sakna Íslands, bæði alls þess góða fólks sem hann hefur kynnst hér í vetur, en einnig fannst honum mjög gott að æfa hérna. Hreina loftið er töluvert betra til langhlaupa en stórborgarbrækjan í London. Hann segir að mögulegt sé að hann komi aftur til starfa hér eftir tvö ár. Það er stuttur tími fyrir langhlaupara. Hann stefnir á að bæta sig í maraþoni í Edinborg eftir þrjár vikur og mun reyna að fara niður í 2.30. Sumarið samanstendur annars af 100 km hlaupi, Laugaveginum, 100 mílna hlaupi, Ironman og tvöföldum Ironman. Allt þetta er undirbúningur fyrir hinn tífalda Ironman sem hann ættlar að takast á við Í Mexíkó í haust. Þar mun hann synda 38 km í 25 metra laug, hjóla 1800 km á 2.5 km hring (tekur svona sex daga) og að lokum hlaupa 420 km á 400 metra braut. Hann segir að ef hann klárar hjólið þá muni hann klára þrautina því þá sé hinu erfiðasta lokið. Alls tekur þetta svona 10 - 12 daga og það er verið að í 20 - 22 tíma á sólarhring. Allt sem maður hefur kynnst er bara kjúklingagauf í samanburði við þessi ósköp.

Ég sá nýlega að það er búið að setja lag á netið um eggjakastið og piparúðaspreyið uppi í Norðlingaholti. Það er svo sem allt í lagi að gera lag um þetta ef menn hafa gaman af því en nafnið á laginu fannst mér í meira lagi aulalegt. Reykjavík - Belfast. Þarna er vísast verið að vísa til þess að það sé einhver samsvörun mili eggjakastsins á Olísplaninu og ástandsins á Norður Írlandi eins og það var til skamms tíma. Ég held að þessir krakkar viti ekkert hvað það er að tala um þegar þeim dettur í hug að setja samasemmerki milli þeirra atburða sem áttu sér stað á Norður Írlandi gegnum árin og þess sem skeði á Olísplaninu. Ég man vel eftir því hér fyurr á árum að það bárust stöðugt fréttir frá Norður Írlandi af götubardögum, skotbardögum, manndrápum og ég veit ekki hverju. Belfast og Londonderry voru helstu borginar sem nefndar voru í þessu sambandi. Átökin voru milli kaþólikka og mótmælenda, milli breska hersins og írskra andspyrnumanna. Leyniskyttur skutu á breska herinn, breski herinn skaut á almenna borgara. Blóðugi sunnudagurinn gleymist ekki þegar breski herinn skaut á þriðja tug barna, unglnga og fullorðins fólks. Bobby Sands og yfir tíu félagar hans sveltu sig til dauða. Þannig má áfram telja um þær mannfórnir sem færðar voru í þessum átökum sem virtust engan enda geta tekið en tókst loks að leiðpa til lykta á síðasta áratug. Svo er verið að setja samasem merki milli þessa ástands og eggjakasts uppi á Olíssjoppunni þegar unglingar sem leiðist fundu sér nokkra skemmtan í því að kasta eggjum í lögguna og lögreglan handtók nokkra menn sem höguðu sér eins og kjánar. Mér finnst þetta ekki fyndið heldur miklu frekar bjánalegt og vanvirða við þann fjölda fólks sem lét lífið í Belfast og á Norður Írlandi gegnum árin í raunverulegri frelsisbaráttu.

Hvað á að nú að þýða hjá RÚV að senda mann til Austurríkis til að standa fyrir framan hús í myrkri og endurtaka texta sem maður hefur heyrt og séð á öllum þeim fréttastofum sem maður hefur flett upp á að undanförnu? Ég skil það ekki. Það bætti engu við fréttirnar, skýrði málið ekki nokkurn hlut.

Víkingur hélt veislu í kvöld niður á Nordica hotel til að halda upp á 100 ára afmæli sitt. Húsið stappfylltist og þarna voru samankomnir um 500 Víkingar. Flott kvöld. Í gær var fjölskyldusamkoma í Víkinni og á morgun verður hátíðarfundur í Víkinni.