mánudagur, janúar 31, 2005

Hlaupin á helginni voru eftir áætlun. Við Pétur og Halldór hlupum um 20 km á laugardagsmorguninn. Þetta var róleg helgi samkvæmt planinu og því var ekki farið lengra. Við tókum reyndar góða brekkuæfingu á Kópavogshálsinum, tókum tröppurnar tvisvar og síðan stíginn upp á hálsinn við hliðina á tröppunum. Þetta tók vel í og er gott innlegg. Á sunnudaginn fót ég hefðbundinn rúnt með Vinum Gullu frá Laugardalslaugunum og fórum við sem leið lá upp í Grafarvog og inn fyrir hann og síðan til baka. Ég tók síðan smá lykkju upp í Elliðaárdalinn til að ná 20 km. Ég hef hlaupið í nokkur ár frá Laugardalslauginni á sunnudagsmorgnum með Vinum Gullu en ég hef bara einu sinni séð þessa ágætu Gullu og þá hlupu allir á undan henni!!! Ég hljóp nær 300 km í janúar sem er langt umfram það sem ég hef gert áður í þessum fyrsta mánuði ársins. Lengsta vikan var 84 km. Ég held að ég hafi einu sinni áður slefast yfir 200 km í fyrsta mánuði ársins. Þetta er allt eftir planinu. Við förum líklega að lengja laugardagshlaupin svolítið í febrúar og taka jafnframt markvissari brekkuhlaup. Virku dagarnir verða heldur rólegir fram eftir en þá lögð meiri áhersla á hraðaæfingar. Veðrið hefur töluvert að segja um hvernig gengur en maður hefur þá alltaf til vara að fara inn. Ég fór til Torfa á laugardagskvöldið og fékk hjá honum birgðir af orku. Einnig fékk hann mér tvenn pör af afbragðsgóðum hlaupasokkum sem er nauðsynlegt að hafa á lengri vegalengdum. Venjulegir íþróttasokkar eru þannig að það er hættara á að fá eymsli undan þeim eins og allir skokkarar þekkja. Ég tek alltaf góða skeið af Hraustum þegar ég hef hlaupið meir en 20 km. Nú er ég farinn að hræra saman í blandara 0,5 l af mjólk, 1 banana, og síðan sína skeiðina af hvoru Nesquik og Hraustum. Þetta er hörkudrykkur. Einnig læt ég stundum slettu af lýsi útí. Ég tek einnig Multivítamín og einnig eitthvað annað bætiefni sem ég fékk í Heilsuhúsinu og á að styrka brjóskið í liðunum. Það er ekki Liðamín en stúlkan í búðinni benti mér á þetta þegar ég sagði henni frá því í hvaða erindagjörðum ég væri. Talandi um liðbrjósk þá er félagi Svanur á verkstæði sem stendur en það þarf að gera á honum liðþófaaðgerð. Hann var farinn að finna mikið til í hnénu um miðjan janúar og læknir kvað upp þennan dóm eftir skoðun. Hann verður því frá um einhvern tíma en kemur vonandi léttur í spori til leiks innan skamms tíma.

föstudagur, janúar 28, 2005

Hljóp léttan rúnt í gærkveldi eftir bókinni. Fer síðan aftur út í kvöld til að bæta upp það sem féll niður á miðvikudaginn. Ég hef verið að lesa mér til um WS100 og meðal annars reynslusögur fyrri þátttakenda. Ég sé að ég þarf að taka nokkra rúnta aleinn í kolamyrkri með höfuðljós til að venja mig við að hlaupa í myrkri. Best er ef óslétt erundir fæti því þannig eru aðstæður um nóttina, vaðið yfir ár, pjakkað upp bratta og staulast niður bratta. Það er því að mörgu að hyggja í þessu efni ef maður á að geta sagt þegar af stað er lagt; ég gerði það sem ég gat til að undirbúa mig.

Aðalfundur UMFR36 verður haldinn á mánudagskvöldið kemur. Ég ætla að láta renna þar í gegn DVD disk frá 100 km á Borgundarhólmi. Hann hefur verið í láni hjá félaga Gísla og þegar ég kannaði hvar hann væri til að hafa allt á hreinu þá fékk ég eftirfarandi limru sem svar:

Í óreiðu eflaust sekk
á mínum glámkennda bekk
mér tókst að gleyma
geisladisk heima
og græt eins og gimbill við stekk


Ég varða að gjalda líku líkt og sendi honum aðra til baka:

Diskinn minn fús vill hann finna
og fer þá víst grátnum að linna.
Þá Gísli mun hoppa
og sem gimbill skoppa
og gestum í bílskúrnum brynna


Af öðru er mér ofarlega í huga hin beinskeytta þriggjablaðsíðna skýrsla þar sem kemur fram að kostnaður við göng til Vestmannaeyja sé ekki þrjátíu og eitthvað milljarðar heldur 14 - 16 milljarðar þegar eitt og annað hefur verið tekið til hliðar svo sem kostnaðinn við að koma mulningnum út úr göngunum á meðan á borun stendur. Mér finnt þetta vera eitt af því mest absúrda sem ég hef heyrt lengi að menn séu í raun og veru að tala um það í alvöru að bora tæplega 20 km löng veggöng út í virkt eldfjall.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Hljóp ekkert í gærkvöldi þar sem góðir gestir komu í heimsókn. Því hleyp ég í kvöld og á föstudagskvöldið enda þótt það átt að vera hvíldardagur. Manni líður eins og kálfi á vordegi að hlaupa á auðum gangstéttum miðað við að þrælast á snjóruðningum og svellbunkum liðinna vikna og mánaða. Annars hef ég sett mér það markmið fyrst í stað að hlaupa langt á laugardögum og sunnudögum (samtals 55 - 60 km), hvíla mánudaga og föstudaga og skokka síðan frekar stutt þá þrjá daga sem eftir eru. Þetta er prógrammið sem unnið verður eftir allavega tvo fyrstu mánuði ársins með dálítilli lengingu á helgarhlaupum eftir því sem birtir af degi. Þegar fer að verða hægt að hlaupa af meira viti úti ætla ég einnig að fara að keyra markvissar á hraðaæfingar. Ég er búinn að fá mér kort í Nautilus stöðinni í Salahverfinu til að geta bæði farið í lyftingar og eins hlaupið inni ef veðrið verður leiðinlegt. Það getur nefnilega alveg snjóað fram í apríl ef þannig liggur í honum. Áætlunin hljóðar upp á hægan en markvissan stíganda út mars og síðan verður sett í meiri kraftgír í apríl og maí. Mikilvægt í þessu sambandi er hvíldin. Því verða allavega tveir hvíldardagar í viku þangað til hægt verður að fara að ganga á Esjuna. Eins verður fjórða hver helgi tekin rólegar.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Ég hef ákveðið að taka þátt í 100 mílna haupinu WS100 í Kaliforníu þann 25 júní í vor ef all gengur upp sem fyrirhugað er. Í tengslum við það hef ég orðið var við nokkurn áhuga hjá hlaupurum um að geta fylgst með hvernig undirbúningurinn gengur. Það er því ekki af eintómri sýniþörf að ég mun á næstu mánuðum skýra frá undirbúningnum fyrir hlaupið, bæði þeim andlega sem og hinum líkamlega. Mér finnst sjálfum gagnlegt að hafa aðgengilegt samandregið yfirlit, þegar upp verður staðið, um hvernig til hefur tekist því þetta er ekkert venjulegt verkefni. Eins getur þetta kannski orðið einhverjum að gagni, hvernig sem til tekst. Ef allt gengur upp þá getur það orðið einhverjum hvatning og eins ef miður tekst til þá geta menn vonandi lært af því sem úrskeiðis fór. Það er nefnilega alveg klárt að þegar lagt er upp með för eins og þessa að þá er ekki öruggt mál að maður komist í mark. Það getur margt komið fyrir á langri leið. Bæði getur eitt og annað hent í undirbúningnum sjálfum, meiðsli eða veikindi sett strik í reikninginn og eins getur eitthvað klikkað í hlaupinu sjálfu.

Ég ætla að reyna að nýta mér til undirbúnings reynslu annarra fra viðlíka hlaupum, bæði þeirra sem hafa náð settu marki og eins þeirra sem hafa þurft að gefast upp. Það minnkar líkurnar á því að maður taki rangar ákvarðanir, gleymi einhverju eða geri of lítið úr því álagi sem felst í hlaupi af þessu tagi. Hlaup af þessari tegund snúast nefnilega ekki einvörðungu um hlaupagetu heldur einnig að verulegu leyti um skipulagningu fyrir hlaup og í hlaupinu sjálfu. Ég mun því á næstunni skýra frá því sem á dagana drífur í undirbúningnum, bæði hvað varðar skokkið sjálft og eins frá ýmsu þar fyrir utan.

föstudagur, janúar 21, 2005

Ég hef um nokkurn tíma verið að velta fyrir mér að slást í hóp hins sístækkandi fjölda bloggara sem tjá hugrenningar sínar og vangaveltur á netinu. Nú hef ég ákveðið að láta slag standa og hefjast handa.