fimmtudagur, júlí 19, 2012


Jozin z Bazin polskie napisy

María hleypur 100 m grind á HM undir 20 ára



Kosningar eru oftast skemmtilegar. Þó geri ég undantekningu hvað varðar kosninguna til stjórnlagaþings fyrir nokkru. Ég hafði engan áhuga fyrir henni og svo var um marga fleiri miðað við kosningaþátttökuna (35%). Nýafstaðnar forsetakosningar voru áhugaverðar um margt. Í þeim var gerð alvöru atlaga að sitjandi foseta sem gaf kost á sér til áframhaldandi setu eftir nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Það þurfti að rýna nokkuð fast í glæðurnar í áramótaávarpinu en þar var engum dyrum lokað þegar grant var skoðað. Það var vitað mál að þau öfl í samfélaginu sem voru ósátt við aðgerðir forsetans í Icesafe málinu myndu gera gangskör að því að finna kandidat sem gæti sigrað hann í kosningum. Aðdragandi þess var vægt sagt ótrúverðugur. Gerð var skoðanakönnun (ein eða fleiri) þar sem kannað var hver þætti vera öflugastur kandidat. Þar skoraði hæst þekkt og vinsæl sjónvarpskona. Þrátt fyrir að hún væri komin á steypirinn og ætti að fæða í miðri kosningabaráttunni var greinilega þrýst mjög á hana að gefa kost á sér. Hún lét til leiðast og skoraði hátt í skoðanakönnunum fyrsta kastið. Vafalaust lét hún tilleiðast vegna þess að hún sá fram á sigur í kosningunum miðað við stöðuna í skoðanakönnunum síðla vetrar.
Ég hef ekki alltaf verið sáttur víð Ólaf Ragnar Grímsson. Það átti bæði við í tíð hans sem formanns Alþýðubandalagsins svo og eftir að hann var kjörinn forseti. Það á þó við í þessu efni eins og mörgu öðru að það verður að meta sterkar og veikar hliðar í öllum málum. Eftir framgöngu forsetans í Icesafemálinu og hvernig hann tók málstað íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi eftir að stjórnvöld virtust gersamlega máttlaus og getulaus á því sviði þá var það ekki vafi í mínum huga að ég myndi greiða honum atkvæði. Það skiptir miklum máli að hafa öflugan þjóðhöfðingja sem getur talað máli þjóðarinnar á erfiðum stundum.
Það kom klárlega í ljós í umræðum í aðdraganda kosninganna að það er engin tilviljun að aldurstakmark við kjörgengi til forsetaembættisns er sett við 35 ár. Mér fannst skína í gegn að Þóra Arnórsdóttir hafði alls ekki þá reynslu og þroska til að bera til að geta risið undir því að vera kosinn forseti. Margir segja að það skipti ekki svo miklu máli hve sé kosinn forseti en ég er einfaldlega ósammála því. Þjóðhöfðingi verður að hafa ákveðinn myndugleika, búa yfir margháttaðri reynslu og hafa sýnt það að hann standi undir því að vera falin ábyrgð og forysta. Síðan fannst mér það svo merkilegt að því meir sem Þóra talaði því minna sagði hún. Einhvern veginn læðist sú skoðun að manni að framboðið hafi að miklu leyti verið hannað af svökölluðum markaðssetningarsérfræðingum og hún hafi ekki fengið tækifæri til að vera hún sjálf. Svo merkilegt sem það var þá var hún í vörn frá og með fyrsta degi eftir að Ólafur Ragnar steig fram á sviðið að fullri alvöru. Hann kunni þetta allt saman. Síðan er annar hlutur sem mér finnst skipta miklu máli í þessu samhengi. Að fara fram á það við konu sem er komin á steypirinn að taka þátt í harðri kosningabaráttu finnst mér vera fyrir neðan allt sem sæmilegt er. Auðvitað eru nógir um að halda lífi í barninu og sinna því ef það er eina markmiðið. Kosningabarátta er hins vegar ekki einhver 9-5 vinna. Hún er þrotlaust púl og stress allan sólarhringinn, ferðalög og þvælingur, taugaspenna og áreiti. Konur sem eru komnar á steypirinn og eða nýbúnar að fæða eru undir miklu álagi vegna þess eins þótt svo að allt hitt bætist ekki ofan á. Ekki meir um það. Ég hefði síðan aldrei kosið frambjóðenda til forseta sem á maka sem er á sakaskrá samkvæmt því sem fram kom í fjölmiðlum. Það er mjög einfalt og í raun stórfurðulegt að upphafsmenn framboðsins skuli ekki hafa ígrundað þá hlið málsins. Vitaskuld hlaut það allt að koma upp á yfirborðið. Það var reynt að berja umræðu um það niður með því að kalla það persónulegar árásir og annað slíkt en auðvitað var það gagnslaust. Síðan voru örþrifaráð eins og Þórudagur, Þórupylsur, Þóru hitt og Þóru þetta bara til að gera framboðið hlægilegt í augum margra. Það var eins og upp væri sprottinn sértrúarsöfnuður sem hafði fundið sinn leiðtoga.
Hvað aðra frambjóðendur varðar þá hefði ég aldrei getað kosið Ara Trausta og mun aldrei gera. Ég virði hann sem fræðimann, fagmann og rithöfund en ég hef ekki séð að hann hafi gert upp kommúnistiska fortíð sína. Sem formaður Einingarsamtaka kommmúnista (EIK) á sínum tíma var hann enginn venjulegur kaffihúsakommi. Formaður í byltingarsinnuðum kommúnistasamtökum er enginn venjulegur vinstri maður. Ég er ekki tilbúinn til að styðja einstaklinng með slíka fortíð til forsetaembætts þjóðarinnar. Flóknara er það ekki. Það kom mér á óvart hvað Herdís Þorgeirsdóttir fékk lítið fylgi.Sama og ekki neitt. Mjög snemma fékk maður að heyra úr öllum áttum að hún væri svo frek og leiðinleg að það væri ekki hægt að púkka upp á hana. Ég veit ekkert um það. Einnig heyrði maður fljótt að hún væri ekki alvöru lögfræðingur þótt svo hún kallaði sig svo. Þetta hafði ég meir að segja frá lögfræðingum. Það var fljótgert að ganga úr skugga um að þetta var þvæla. Hún er hdl með fullum réttindum. Það kom síðan í ljós í kosningunum að hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna eru bara lítill þröngur hópur. Ef samtökin væru fjöldasamtök hefði formaðurinn ekki fengið einungis 1,eitthvað % atkvæða. Samtökin virðast því einungis vera lítil en hávær klíka sem að mínu mati skreyta sig nafni sem þau standa ekki undir. Formaðurinn fór einnig út um víða völl án þess að vita hvað hún var að segja eins og þegar hún sagðist sem forseti leysa ráðherra frá störfum ef þjóðinni sýndist ástæða til þess. Maður getur rétt ímyndað sér stjórnarfarið er forsetinn væri að ráða og reka ráðherra eftir niðurstöðum skoðanakannana. Ég ætla ekkert um Hannes að segja. Hann átti vitaskuld aldrei séns enda hömpuðu fjölmiðlar honum ekki eins og ýmsum öðrum. Hann er vafalaust ágætis maður sem hefur viljað vel.
Sem sagt, kosningar eru alltaf skemmtilegar og gefa tækifæri til margháttaðra vangaveltna. Á hinn bóginn má aldrei gleyma því að niðurstaða úr lýðræðislegum kosningum er ætíð rétt. Fólk getur verið ósátt við niðurstöðuna en hún er rétt ef farið hefur veruið eftir gildandi reglum þar um. Flóknara er það ekki. Það má hins vegar ekki gleyma því að það er ekki sjálfsagt að hafa réttindi til að kjósa. Almenningur í fjölmörgum þjóðríkjum heimsins hefur ekki þann rétt. Því eigum við að umgangast hann af virðingu.  

sunnudagur, júní 24, 2012

Bjartmar Súrmjólk

Esjutattú



Það var óskaplega fallegt veður úti þegar ég vaknaði um kl. 3:30 aðfaranótt laugardagsins. Úti var heiðskýrt, blæjalogn, hlýtt og smá þokuhnoðrar í Esjunni. Betri gátu aðstæður ekki verið fyrir komandi dag. Ég hafði reyndar ekki sofið allt of vel um nóttina. Upp úr miðnætti lenti kötturinn okkar í miklum hávaðaslagsmálum við einhvern aðkomuribbalda úti á bílastæði. Lætin í þeim gerðu hundinn í næstnæsta húsi vitlausan svo hann gelti allt hvað af tók. Geltið í honum vakti smábörn í einhverju húsi sem grétu ákaflega. Það má því segja að kettirnir hafi komið hverfinu í uppnám um stund. Ég hafði ákveðið síðla vetrar með nokkrum Rotarryfélögum að fara 10 ferðir á Esjuna til stuðnings baráttu Rotary gegn lömunarveiki í nokkrum löndum þriðja heimsins. Það hafði hist svo skemmtilega á að  bjartsýnis- og framkvæmdafólkið Elísabet, Daníel Smári og Sigurður höfðu skipulagt fyrsta Esjumaraþonið sama daginn. Ég hafði fyrst svolitlar áhyggjur af að það gengi ekki að tvinna þetta tvennt saman en svo hurfu þær og ég skráði mig í 10 hringja hlaupið. Ég rann að vísu blint í sjóinn hvernig ég væri í stakk búinn til að takast á við þetta verkefni. Bæði var ég nýlega búinn að hlaupa GUCR hlaupið í Bretlandi og síðan var ég ekkert sértaklega vel Esjuæfður. Ég fór í fyrsta sinn á Esjuna í vor fyrir mánuði síðan. Samtals hafði ég farið sex sinnum á fjallið. Tvisvar eina ferð, þrisvar tvær ferðir og eina fjögurra ferða ferð. Eftir fjögurra ferða túrinn þá vissi ég að ég gæti lokið 10 ferðum. Ef maður lýkur 40% af hlaupi í góðum gír á æfingum, þá á maður að komast næstu 40% með þokkalegum hætti og svo fer maður rest á þrjóskunni. Þetta var hins vegar spurning um tíma. Ég setti mér það markmið að fara tíu ferðir undir 14 tímum. Það viðmið var sett þar sem ég hafði heyrt að það hefðu verið farnar sjö ferðir á Esjuna fyrir nokkrum árum á 14 tímum. Mér fanst því tilvalið að stefna að 10 ferðum á sama tíma. Planið var að fara hverja ferð upp og niður að jafnaði á klukkutíma og korteri. Svo tekur smátíma að fara aukahringinn niðri og alltaf tekur einhvern tíma að næra sig og græja á drykkjarstöðinni en þetta ætti að ganga upp.
Ég plástraði fæturnar vel og sérstaklega hælana áður en lagt var af stað. Það er vont að fá skafsár á hælana í fjallgöngum, sérstaklega ef maður á langt eftir. Ég skipulaði næringuna vel en reynslan hefur kennt mér að það er affarasælast að vera sem mest sjálfbjarga í þeim efnum. Uppi við Esju var allt að verða klárt. Skipuleggendur, starfsfólk og keppendur mættir. Við vorum fjórir sem ætluðum að þreyta þessa frumraun. Rétt um kl. 5:00 var hlaupið ræst og ákveðin óvissuferð hófst. Það var smásvalt í byrjun en það breyttist fljótt þegar brekkurnar tóku við. Þá var svitinn fljótur að spretta fram. Þeir Sigurður og Þorlákur voru léttir á brekkkuna, þá kom Birkir og ég rak lestina. Það olli mér ekki áhyggjum. Ég fer yfileitt hægt af stað í löng hlaup. Það getur margt gerst á langri leið. Sólin var að koma upp þegar við vorum í brekkunum og það leit út fyrir að þetta gæt orðið heitur dagur. Logn og heiðskýrt. Þegar komið var upp að Steini var strikað á númerið og svo var rúllað niður. Strákarnir voru miklu grimmari í niðurhlaupinu en ég svo þeir hurfu fljótlega. Ég var ekki viss um hvernig staðan væri í lærunum svo ég vildi varast að bræða úr þeim í upphafi. Þegar ég var að komast niður þá mætti ég Þorláki. Hann var orðinn fyrstur og hélt þeirri stöðu til loka hlaups. Síðan tók hver hringurinn við á fætur öðrum. Daníel hlaupafélagi slóst í hópinn á þriðja hring og fór þrjár ferðir með mér. Það var fínt að hafa einhvern með til að spjalla við öðru hverju. Rotarymenn voru mættir í lok þriðja hrings. Þeir settu upp tjald fyrir daginn og voru með kynningarefni og annað fyrir áhugasama. Í lok fjórða hrings þá hringaði Þorlákur mig. Hann var mjög léttstígur á brattann og rann lipurlega niðurímót.
Það hitnaði vel í fjallinu þegar leið á morguninn. Samt var veðrið óskaplega gott. Smá svali af og til en annars logn. Það var bara að passa sig á að að drekka vel og reglulega. Ég tók Herbalife prótei hristing á ca þriggja tíma fresti.Oft tók ég með mér orkukex til að maula þegar ég var að fara frá Steini. Það þarf einnig að hugsa um magann og gæta þess að hann tæmist aldrei. Ég fór fram úr Birki á fimmta hring. Hann sagðist hafa verið frekar illa fyrirkallaður og var farinn að þreytast.
Á sjötta hring varð ég dálítið áhyggjufullur. Þá varð ég allt í einu orkulaus á leiðinni upp. Ég þurfti oft að stansa upp brekkurnar og safna kröftum. Mér leist ekki á þetta. Ef ég væri kominn í vegginn þá ætti ég langa og erfiða leið fyrir höndum. Loks komst ég upp að Steini og gat farið að anda léttar (í bili). Þegar ég kom niður borðaði ég vel, tók orkugel, drakk mikið kók og gerði hvað ég gat og kunni til að rétta af orkubalansinn. Það kom í ljós að þetta dugði. Nú gat ég haldið sama dampi og áður upp brekkurnar. Ég fann fyrir örlitlum sinadrætti af og til eftir fimmta hring. Það var ekkert annað að gera en að drekka vel og taka steinefnatöflur í brúsann. Það hreif og sinadrátturinn hvarf. Það er ógaman að fá sinadrátt í fæturna þegar maður er á léttu rennsli niður í mót. Guðni Rotaryfélagi fór með mér tvær ferðir. Við höfðum verið saman í fótbolta úti í Kaupmannahöfn forðum daga í Íþróttafélaginu Guðrúnu. Hann var minnugri en ég því ekki þekkti ég hann aftur. Svona er þetta. Það fjölgaði hressilega í fjallinu þegar fimm hringja hópurinn lagði af stað. Þar var tekið á því. Það var miklu skemmtilegra að vera í fjallinu þegar fjölgaði í hópnum. Menn heilsast og hvetja hver annan. Einnig var töluverð umferð gangandi fólks yfir daginn. Þar hittir maður yfirleitt einhvern kunnugann. Síðan fjölgaði aftur hressilega þeggar tveggja hringja fólkið lagði af stað um kl. 14:00. Þar fóru menn mikinn upp og hlupu síðan niður brekkurnar með látum. Fyrstu menn hlupu upp brekkurnar eða rótuðust áfram í framdrifinu með stöfum. Þá var ekki mikið heilsað!!!
Það er alltaf svo að niðurtalningin er léttari þegar fyrri hlutinn hlaupsins er liðinn. Þá er farið að hilla undir lokin. Hringirnir liðu einn af öðrum og ég sá að sett markmið myndi nást ef ekkert kæmi upp á. Það eina sem pirraði mig var að stundum var maður dálítið lengi að finna það sem maður þurfti á að halda í dótinu. Smátafir í hverju drykkjarstoppi draga sig saman þegar upp er staðið. Ég mætti Þorláki í upphafi áttunda hrings. Þá var hann að klára. Frábært hjá honum. Sigurði mætti ég í upphafi níunda hrings þegar hann var að ljúka hlaupinu. Það var gaman að leggja í síðasta hringinn og sjá fram á lokin. Þetta hafði verið frábær dagur og allt gengið eins og best var kosið. Ég kvittaði í gestabókina uppi með hringjunum 10. Það mátti ekki minna vera en að festa þetta í letur í gestabók FÍ. Ég lagði inn í síðasta hringinn upp úr hálf sex og með sama dampi myndi ég ná í mark undir 14 tímum. Það stóð heima og síðasti hringurinn tók klukkutíma og kortér eins og planið var. Ég kom í mark á 13.50 sem ég var hæst ánægður með. Ég var afar ánægður með stöðuna á fótunum. Ekkert hafði komið upp á. Engin blaðra hafði myndast og engin nögl horfið. Lærin voru mjúk og fín og kálfarnir eins og þeir áttu að sér. Ég hafði haldið að mestu jöfnum og góðum dampi yfir allan daginn. Þetta var mun betra en ég átti von á því ekki hafði ég æft svo mikið eða skipulega fyrir þetta. Þess vegna hefði ég getað haldið áfram. Það er óhætt að segja að 10 hringir á Esjunni standa mjög vel undir nafni sem fullorðið ofurhlaup. Þótt kílómetrarnir séu 70 þá segir það einungis hluta af sögunni. Brattinn skiptir svo miklu máli í öllu samhenginu. Það var óvænt ánægja að hitta mömmu og Heiðu frænku við markið. Mamma hefur stundum verið svolítið áhyggjufull yfir að ég væri að ofgera mér í svona dæmum en þarna fékk hún að sjá ástandið á syninum þegar hann kom yfir marklínuna. Móttökurnar í markinu voru fínar og flott verðlaun voru veitt. Það er alltaf ágætt þegar svona þrautir eru yfirstaðnar. Á hinn bóginn er mismikil eftirsjá að svona dögum. Þetta var afar fínn dagur. Veðrið eins og ég veit ekki hvað, umhverfið og umgjörðin frábær og fagmennska og metnaður við framkvæmdina. Starfsfólkið hjálpsamt og allt eftir því. Bros á hverri vör. Þannig á þetta að vera.

miðvikudagur, júní 13, 2012

Bjartmar og Bergrisarnir - Negril


GUCR 2./3. júní

Ég hef vitað af Grand Union Canal Race í nokkurn tíma. Það er eitt af virkilega löngu hlaupunum og þeim stóru. Það er lengsta og erfiðasta hlaup Bretlands sem hlaupið er í einum áfanga eða 144 enskar mílur. Það er hlaupið frá miðborg Birmingham og endar inni í London. Nokkrir félagar mínir í langhlaupunum höfðu tekið þátt í því og sagt mér frá því. Þar má t.d. nefna Neil Capoor, okkar ágæta breska félaga, sem hljóp það árið 2005 á rúmum 35 klst. Geir Frykholm, norskur hlaupari sem lauk Spartathlon sama ár og ég, hljóp það árið 2008 á rúmum 39 klst og Stefan Lindwall, sænskur hlaupari sem býr í Gautaborg, lauk því árið 2009 á tæpum 35 klst. Því byggðist þarna upp áskorun sem freistaði að takast á við. Ég ákvað því í fyrra að GUCR skyldi vera eitt af verkefnum ársins ef ég kæmist í hlaupið. Þátttaka er takmörkuð því aðstandendur ráða einungis við um 100 manna hóp. Ég meldaði mig í hlaupið í fyrrahaust og vonaði það besta. Þegar ég sá svo listann um þá heppnu á heimasíðu hlaupsins þá var ég ekki þar. Þannig fór það. Það verður þá bara eitthvað annað. Nokkrum dögum síðar fékk ég síðan tölvupóst frá Dick, forsvarsmanni hlaupsins þar sem hann bauð mér að taka þátt í hlaupinun þrátt fyrir að ég hefði ekki verið dreginn út. Hann var með einhverjar skýringar um að það hefði gleymst að setja mig í pottinn en hvað veit ég. Ég tók umsvifalaust hinu góða boði og kúrsinn var settur. Æfingarnar gengu ekkert sérstaklega vel í vetur. Ég var nokkuð lengi að koma mér í gang efti áramótin en svo fór þetta aðeins að rúlla. Páskarnir, þar sem átti að taka á því, fóru alveg í vaskinn út af kvefi. Á hinn bóginn var ég orðinn nokkuð góður eftir páskana og náði fínum dampi þegar fór að líða á maí. Ég fann á Esjunni að ég var kominn í ágætt form. Líklega hjálpaði það mér að ég hjólaði í vinnuna í allan vetur. Það er lúmsk styrking að hjóla í misjafnri færð.
Annað sem olli mér áhyggjum þegar fór að styttast í hlaupið var rötunin. Ég lenti í vandræðum með hana nokkrum sinnum í London – Brighton hlaupinu og vildi ógjarna tefja mig á því aftur. Bretarnir sendu kort en þau voru dálítið smáletruð. Það bjargaði mér hins vegar að Stefan Lindwall sendi mér mun betri kort sem Svíarnir höfðu útbúið. Það létti af mér nokkrum áhyggjum svo nú var mér ekkert að vanbúnaði. Með nesti og nýja skó frá Sportís (Asics) hélt ég svo út til Bretlands þann 31. mai. Ég tók lestina strax uppeftir til Birmingham og kom þangað um 1:30 um nóttina. Ég tók leigubíl á hótelið og skildi ekkert í því hvers vegna bílstjórinn varpaði öndinni svo mæðulega þegar ég sagði honum hvert ég ætti að fara. Hann ók mér nefnilega aðeins bak við næsta horn en það var svona fimm mínútna gangur á gistiheimilið frá lestarstöðinni á New Street.
Daginn eftir notaði ég m.a. til að finna staðinn þar sem afhenda átti gögnin síðdegis. Það átti að ske á gistiheimili á Broad Street nr 15. Það var svo sem allt í lagi nema að bæði er númerakerfið á húsunum í þessari borg þannig að númerin byrja frá einum annars vegar á götunni og á einhverjum stað snýr talnarunan við og hækkar á hinni hlið götunnar. Einnig eru húsin mjög illa merkt með númerum. Mér gekk því ekkert að finna gistiheimilið þar sem átti að afhenda gögnin. Ég fór að lokum inn á hótel og spurðist til vegar. Sá sem ég talaði við sagðist ekki vita um neitt gistiheimili með þessu tiltekna nafni á Broad Street ef ske kynni að ég væri að leita að því sem væri akkúrat hins vegar við götuna. Það stóð heima!!! Merkingin var ekki betri en þetta að ég hafði ekki tekið eftir skiltinu.

Tæpum tveimur vikum fyrir keppnina hafði verið spáð nær 30°C hita í Birmingham þessa helgi en nú var spáín orðin breytt. Hún hljóðaði upp á 13-15°C hita og rigningu með köflum. Það var í sjálfu sér betra en ofsahiti. Maður renndi hins vegar blint í sjóninn með hvað myndi rigna mikið.
Ég var kominn út um kl. fimm um morguninn. Þá var byrjað að rigna. Það var ekkert við því að gera. Við rásmarkið fór fólki stöðugt fjölgandi því margir áttu eftir að taka gögn. Stöðugt rigndi og manni leist ekkert á þetta. Það var þó sárabót að það var hlýtt. Að lokum safnaðist hópurinn saman við kanalinn og Dick sagði nokkur orð. Hann ráðlagði hlaupurunum meðal annars frá því að taka “painkillers” þrátt fyrir að þeim liði illa í fótunum. Það væri betra að vera smá sárfættur um tíma en að lenda á sjúkrahúsi út af pilluáti. Svo var sagt GO og strollan lagði af stað. Það voru um 100 hlauparar sem lögðu af stað meðfram kanalinum í þetta langa hlaup.

Ég fer alltaf hægt af stað í svona hlaupum. Maður þarf tíma til að finna taktinn og eins er löng leið fyrir höndum. Það var hlaupið á bakkanum á kanalinum. Víða voru brýr sem þurfti að fara yfir. Brýrnar voru hálar í rigningunni svo ég fór varlega og gekk yfir þær. Það var skynsamlegt því eftir ca einn km þá datt hlaupari rétt fyrir aftan mig og meiddi sig eitthvað. Líklega hefur hann ekki farið mikið lengra. Eftir skamma stund var komið út úr borginni og þá var hlaupið meðfram kanalinum þar sem hann lá um breskar sveitir. Stundum lá hann lægra en landið í kring en stundum mun hærra. Landið var svo sem ekki mjög fjölbreytt, akrar, tún og beitiland. Á kanalinum voru fjöldi báta sem voru flestir líkir í útliti, langir, mjóir og grunnristir. Þetta eru sumarbústaðir margra breta sem nota sumarfríið til að dóla um landið eftir þessu kanalakerfi. Sumstaðar voru skipastigar með allt að 10 tröppum.
Það var gaman að hlaupa meðfram framandi umhverfi en hlaupið var þó aðalatriðið. Um hádegið hætti að rigna og var að mestu leyti þurrt fram á kvöld. Drykkjarstöðvarnar voru á um 25 km fresti og því þurfti maður að hafa nægan vökva með sér. Ég var framan af með bakpoka með vatni og ýmsu dóti í en þegar var komið undir kvöld þá losaði ég mig við hann og tók brúsa í báðar hendur. Mér fannst það einfaldlega þægilegra.

Það teygðist fljótlega úr hópnum og eftir nokkra klukkutíma sást einungis í mann og mann á stangli. Það rættist þarna eins og í svo mörgum hlaupum að þegar komið er yfir 60-70 km þá fer að þyngja fyrir fæti hjá mörgum. Ég hugsa að ég hafi farið fram úr 20-30 manns á tímabilinu 60- 100 km. Þá fer þreytan að færast yfir fólk. Við 100 km markið sat strákur sem var alveg búinn og hefur vafalaust ekki farið lengra. Ég var um 12 klst að fara 100 km. Það var með vilja gert að fara ekki hraðar því það var löng leið framundan. Leiðin var einnig einkennilega hægfarin þrátt fyrir að hún væri heldur flöt. Malarstígar og gras er ekki ætlað til hraðhlaupa klukkutímum saman. Rötunin var víðast hvar mjög einföld. Ég var þó alltaf með kortið í hendinni sem skipti máli til að hafa á hreinu hvar maður væri. Mér leið alltaf heldur vel nema einu sinni undir kvöldið fór maginn að kvarta. Ég þurfti að hægja á mér í svona klukkutíma til að ná honum í lag aftur. Það gengur ekki að geta ekki drukkið eins og maður þarf á að halda fyrir ógleði. Þá er voðinn vís. Því er betra að hægja á sér, drekka minna og bíða eftir að jafnvægi komist á. Myrkrið skall á um kl. 21:30 og það var dimmt fram til 4:00 um morguninn. Ég hringdi í Svein og lét vita af mér og gerði ráð fyrir að hringja aftur eftir um 12 tíma til að sigtað út tíma við markið. Með vasaljósi og höfuðljósi var myrkrið engin hindrun en það var annað verra sem skall yfir.  Þegar leið á kvöldið fór að rigna á nýjan leik og undir miðnættið fór að hellirigna eins og hellt væri úr fötu. Það hellirigndi í um tvo klukkutíma og eftir dembuna var ekki á manni þurr þráður. Það var ekkert annað að gera en að paufast áfram en þetta flýtti ekki fyrir. Það vildi til að það var heldur hlýtt svo manni kólnaði ekki mikið. Á þessum tíma týndi ég þó upp einn og annan því það voru fleiri sem rigningin hægði á. Ég kom að drykkjarstöð um kl.3:30 og skipti þar um skó. Þó að skórnir sem ég fór úr daginn áður hafi verið orðnir rakir þá var það þó betra en að vera í drullublautum skóm. Blöðrurnar fara fljótt að sýna sig við slíkar aðstæður Ég plástraði mig vel til að draga úr blöðrunum eins og hægt var. Það var auðveldara að halda áfram þegar það var farið að birta. Ég var um 20 tíma með 160 km en annars er ég ekki alveg klár á tímanum því úrið mitt fór eitthvað að pirra sig á rigningunni og seinkaði sér. Áfram var haldið en nú fór maður að verða sárfættur. Malarstígar eru ekki heppilegasta undirlagið fyrir blauta fætur. Það dró úr hraðanum ef eitthvað var. Á næstu drykkjarstöð var boðið upp á “english breakfast”. Spæld egg, pulsur og heitar baunir er kostafæða við þessar aðstæður. Þessi morgunmatur hressti mann allan upp og áfram var haldið. Nú var farið að hilla undir endamarkið. Ég hringdi aftur í Svein og lét vita að ég yrði kominn undir kl. 17:00 ef allt gengi að óskum. Ég vissi af einum sem var dálítið fyrir aftan mig en það var nokkuð langt í þá sem voru fyrir framan mig. Þó dró ég upp konu á næstsíðustu drykkjarstöðinni en hún fór af stað á undan mér. Svo kom sá sem var á eftir mér rétt áður en ég fór af stað. Annars vissi maður ekkert um fjölda, röð eða neitt hvað varðaði framgang hlaupsins. Fólkið á drykkjarstöðvunum var afar hjálplegt og vildi allt fyrir mann gera. Ég lét flytja töskuna mína milli drykkjarstöðva og borgaði sérstaklega fyrir það. Aðrir voru með aðstoðarfólk sem hittu hlauparann hér og hvar á brautinni með vistir og föt. Ég hitti nokkrum sinnum eldri hjón sem voru að aðstoða son sinn. Þau voru afar vinsamleg, gáfu mér að drekka og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að létta undir með þyrstum hlaupara. Ég var með lykil að British Waterpost og fékk mér vatn þar af og til úr þeim. Það var hins vegar ekki á vísan að róa að finna kranana svo maður var með birgðir eftir því sem hægt var. Rötunin hafði gengið áfallalaust nema einu sinni missti ég af litlu skilti sem var á hliði á hliðargötu þar sem maður átti að fara út af aðalveginum. Sem betur fer kom bíll á eftir mér sem leiðbeindi mér á rétta leið áður en ég fór villur vegar. Því var ég orðin nokkuð áhyggjulaus um að hún yrði til vandræða. Þegar maður verður kærulaus þá gerast óhöppin. Við þriðja síðasta punktinn (af 48) þá tók ég ranga ákvörðun. Ég beygði til hægri í stað þess að halda beint áfram. Ég hélt svo áfram uns ég fór út af kortinu og tók upp síðasta kortið. Þá sá ég að það var eitthvað sem ekki passaði. Ég hitti mann og spurði hann til vegar en hann vissi ekki neitt. Að lokum bar ég saman kortin og þá fór ekki á milli mála að ég var á rangri leið. Djöfull varð ég reiður við sjálfan mig. Þarna var ég búinn að fara a.m.k. tvo kílómetra úr leið og örugglega búinn að missa slatta fram úr mér. Það var ekkert við því að gera annað en að snúa við og gera sitt besta. Ég fór að hlaupa til baka og þá var það svo merkilegt að allur sársauki var horfinn úr fótunum og ég hljóp miklu hraðar en ég hafði hugmynd um að ég gæti. Ég keyrði því alveg eins og ég gat til að reyna að vinna upp skömmina. Þarna voru um 27 km í mark með aukakílómetrunum. Ég kom fljótlega að gatnamótunum og sneri inn á rétta leið. Fljótlega náði ég þremur mönnum sem fóru heldur hægt yfir. Það herti mig upp og ég sá að kannski var ekki allt komið í vaskinn. Ég hélt áfram mínu striki og þurfti ekkert að hægja á. Eftir stund kom ég að síðustu drykkjarstöðinni. Ég skellti í mig tvemur banönum, svolgraði slatta af kóki, fyllti á alla brúsa og æddi svo af stað. Nú skyldi ekkert gefið eftir. Það voru nákvæmlega 20 km í mark frá síðustu drykkjarstöð. Það gat ýmislegt gerst á þessari leið. Eftir stund náði ég tveimur hlaupurum og þekkti þar konuna sem hafði farið á undan mér frá drykkjarstöðinni þar á undan. Ég vissi síðan að hlauparinn sem var rétt á eftir mér fram undir það síðasta hlyti að vera kominn á undan. Það herti á mér ef eitthvað var. Nú beit maður sig fastan í styttri veglengdir og skipti hlaupinu upp í stutta áfanga. Hlaupa stanslaust að næstu beygju. Þá var að hlaupa þaðan án þess að stoppa að að næsta tanga. Þá var að hlaupa af sama krafti að næstu brú. Þar gekk ég nokkur skref og fékk mér að drekka. Þannig var haldið áfram, kílómeter eftir kílómeter. Fæturnir héldu fullkomlega, enginn sársauki og allt í fínu lagi. Þar var hins vegar farið að rigna með mótvindi sem hjálpaði ekki til. Loks þegar um einn km var eftir sá ég kunnuglegan gulan jakka framundan. Þar var kominn hlauparinn sem ég vildi hafa fyrir aftan mig. Ég hélt mínu skriði áfram og fór fram úr honum þegar um 500 metrar voru í mark. Þá var ég örugglega búinn að hala allt inn sem ég hafði misst niður á aukakróknum. Ég kom síðan í mark á 34.35 og var mjög sáttur við það. Það var betri tími en félagar mínir þrír höfðu náð á fyrri árum. Ég hafði gert ráð fyrir að fara síðasta legginn á um þremur tímum en það tók mig tvo tíma og fimm mínútur að hlaupa hann. Þannig held ég að villan hafi jafnvel skilað betri tíma þegar upp var staðið þegar reiðin ýtti sársaukanum til hliðar. Í markinu biðu Sveinn og Elísa kærastan hans. Þau komu með bjórinn sem ég bað þau um og það var fínt af fá sér einn kaldan að hlaupalokum. Fólkið í markinu sagði mér að ég hefði verið sá fimmtándi sem kom í mark. Það var fínt en um 100 lögðu af stað. Síðan frétti eg að það hefðu rímlega 40 hætt. Það kom mér ekki á óvart miðað við veðrið og hvað maður sá til fólks. Það var hins vegar ekki til setunnar boðið því það húðrigndi og það slær fljótt að manni við svona aðstæður. Því drifum við okkur eins fljótt og hægt var niður í næstu lest og ég skipti svo um föt í vagnunum og skeytti ekkert um hvort þar væri eðlilegt eða ekki. Nauðsyn brýtur lög. Ég var í fínu lagi eftir hlaupið og fann ekki til í kálfum eða lærum. Það var ánægjulegt að hafa lokið þessari þraut á góðum tíma og án erfiðleika.

þriðjudagur, maí 22, 2012

Manfred Mann - davy's on the road again (live 1999)

Gargönd á Álftanesi


Árni Johnsen vakti nokkra athygli fyrir skömmu þegar hann flutti álfastein út til Vestmannaeyja. Nú ætla ég ekki að segja um hvort álfar hafi verið í steininum eða ekki, á því hef ég ekki vit eða þekkingu. Á hinn bóginn er ég viss  um að það er eitthvað til í kringum okkur sem við geetum ekki skilgreint eða sagt hvað er. Um það eru til fjölmörg dæmi. Mér er t.d. sagt að á einni jörð í hreppnum geri síðasti bóndinn svo ákveðið vart við sig að þar geti ekki nokkur maður  gist. Ekki ætla ég að sanreyna það. Þa var lengi haft á orði hérr i denn tíð að það væri reimt á Hálfdán, fjalllveginum milli Tálkafjaðar og Arnarfjarðar. Ég þekkti bílstjóra sem sögðust aldrei fara þar einir yfir næturlagi. Haukur bróðir var á jarðýtu ræktunarsambandsins þar vestra á árunum fyrir og eftir 1970. Hann fór víða um héraðið og vann hjá bændum eftir því sem verkefni féllu til. Einu sinni sem oftar þurfti hann að fara norður í  Arnarfjörð. Það var unnið í vaktavinnu á vélinni. Sá sem vann á móti honum lagði af stað á vélinni norður og Haukur átti að taka við honum undir nóttina. Þegar Haukur mætti á vaktna þá sá hann sér til nokkurrar undrunar  að vélin var komin miklu styttra en hann hafði búist við. Hún stóð við Ketilseyrarána við vegamótin upp á Hálfdán í Tálknafirðinum. Þar svaf ýtumaðurinn í vélinni. Haukur tók svo við vélinni en kunni ekki við að spyrja hverju sætti að vélin var ekki komin lengra. Hann keyrði svo sem leið lá norður yfir Hálfdán. Að áliðinni nótt, þegar hann var kominn norður yfir kjöl, þá stoppaði hann og fékk sér kaffisopa. Eftir kaffidrykkjuna helltist yfir hann svefn og hann dormaði í sætinu á vélinni. Þegar hann vaknaði eftir skamma stund þá brá honum heldur betur. Á honum lá slíkt farg að hann gat ekki hreyft legg né lið. Honum var haldið í einhverjum heljargreipum á þann hátt að hann gat sig hvergi hrært. Hann hafði heyrt að ráð við slíkar aðstæður væri að reyna að hreyfa eitthvað og þá myndi farginu verða létt af honum. Hann gat að lokum hreyft annað augnlokið. Þar á eftir gat hann hreyft hitt augnlokið. Síðan losnaði um fleiri líkamsparta, hann gat hreyft fingur og loks fætur. Þá fannst honum að farginu létti og það væri eins og hann lyftist upp í sætinu. Hann heyrði þegar réttist úr svampinum. Honum var nokkuð brugðið og ók sem hraðast norður af heiðinni og bar ekki til frekari tíðinda í þessari ferð. Hann sagði okkur frá þessu á sínum tíma man ég eftir en hann minntist ekki á þetta við hinn ýtumanninn. Leiðir þeirra skildu svo skömmu síðar og þeir hittust ekki fyrr en fyrir þremur árum síðan. Þá kom fyrrum vinnufélagi hans í heimsókn upp að Hvanneyri og þeir rifjuðu upp gamla tíma ýtunni fyrir vestan og ýmislegt sem minnisvert var frá þessum árum. Þá spurði Haukur hann að því sem hann hafði langað til að gera í tæp 40 ár: Hvers vegna hann hafði stoppað við afleggjarann upp á Hálfdán á sínum tíma en ekki haldið á fjallið? Það stóð ekki á svari. Það skal ég segja þér sagði vinnufélaginn gamli. Síðan kom saga af ferð hans yfir Hálfdán á jarðýtu sem var nákvæmlega eins og upplifun Hauks í sinni ferð. Honum hafði orðið svo brugðið við þessa reynslu að hann ákvað að hann skyldi aldrei fara aftur einn yfir Hálfdán á jarðýtu. Því stoppaði hann við vegamótin og lagði sig frekar en að halda á fjallið. Nýliðinn fékk svo að tölta á ýtunni yfir Hálfdán á vit hins óþekkta. Svona er þetta. Ég veit að þetta er rétt efftir haft en merkilegast var að um 40 árum síðar skyldi saga vinnufélaga Hauks koma fram. Það er best að fullyrða ekki neitt um þessi mál annað en að það er ýmsilegt til sem maður getur ekki skýrt.

mánudagur, apríl 09, 2012

The Pogues - Fiesta

Það er eðlilegt að á páskum komi kirkjan upp í huga manns. Ekki það að hún sé mér neitt sérstaklega hugleikin. Ég sagði skilið við þjóðkirkjuna fyrir góðum áratug síðan. Síðan hef ég látið hana í friði og hún hefur látið mig í friði. Það er í sjálfu sér ágætis sambúð. Ég fer í kirkju við sérstök tilefni s.s. fermingar og jarðarfarir og virði aðkomu kirkjunnar við slík og önnur ámóta tilvik. Að öðru leiti hef ég ekki þurft á henni að halda. Það er bara þannig. Ég er eðlilega ekki einn um að renna huganum til kirkjunnar um páska. Það er eðilegur hlutur því páskarnir eru stærsta hátíð kristinna manna. Það sem vekur manni hins vegar nokkra furðu er sú heift sem virðist brjótast fram hjá mörgum sem eru andsnúnir kirkjunni á hátíðisdögum sem þessum. Þeim hópum virðist afskiptaleysið ekki vera nóg heldur finna þeir hinir sömu sig knúna til að hreyta úr sér köpuryrðum allskonar yfir kristna trú, kristna siði og kirkjuna í heildinni eða gera lítið úr þeim hinum sömu siðum með dárskap og aulahúmor ef húmor skyldi kalla. Sú umræða minnir mann um margt á það sem hægt er að lesa um frá Sovétríkjunum gömlu. Sovétkommarnir vildu kirkjuna feiga. Frasinn um að trúin sé ópíum almennings er kominn þaðan. Einfeldningar annarra landa sem höfðu tekið sovétkommana sem sína guði öpuðu þetta eftir eins og svo margt annað sem þaðan kom. Glæpaklíka Lenins og Stalíns vildi útrýma kirkjunni og kirkjunnar siðum. Prestar voru ofsóttir, drepnir eða, ef þeir voru heppnir, sendir í Gúlagið. Kirkjur voru teknar til ýmissa annarra nota s.s. sem geymslur eða breytt í íshokkíleikvang. Ég kom í tvær slíkar kirkjur í St. Petersburg sl. haust. Það var hins vegar svo merkilegt að eftir 70 ára ógnarstjórn kommúnismans í Sovétríkjunum þá reis kirkjan úr læðingi um leið og ógnarhrammi kommúnismans var létt af þjóðinni. Þráin eftir kirkjunni hafði blundað með þjóðinni alla þessa áratugi. Ég ætla ekki að leggja dóma á slíkt og hvorki mæla með því eða lasta, þetta var hins vegar bara svona. Meðvitaða liðið sem eys úr sér hrakyrðum út í kirkjuna og kirkjulega siði ætti að velta þessum staðreyndum fyrir sér. Þeim verður ekki á móti mælt.


Þegar umræða um þessi mál hefst þá er stutt í að það sé hrokkið yfir í biskupsmálin og hvernig kirkjan tók á þeim málum hérlendis. Ekki ætla ég að afsaka það né réttlæta. Það er á hinn bóginn ætíð hollara að reyna að sjá skóginn fyrir trjánum.



Það er eins og því fólki sem virðist heltekið af andúð á kirkjunni og kirkjulegum siðum sé ekkert heilagt, ekki einu sinni því sem snýr að krökkunum. Nú á síðustu jólaföstu skemmtu einhverjir sjálfskipaðir húmoristar sér við að snúa jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum yfir í klámsora. Uppskerunan var svo birt á vef hópsins. Af því svona fólk nærist á athyglinni þá ætla ég ekki að gefa upp vefslóðina. Nú hélt ég í fyrsta lagi að það væri til eitthvað sem héti sæmdarréttur rithöfunda eins og annarra listamanna. Ritverk væri varin gegn því að þau væru skrumskæld og afbökuð. Nú má vera að svo sé ekki en það getur verið að það skipti máli hver kemur að slíkum hlutum. Í annan stað hélt ég að fólk bæri aðeins meiri virðingu fyrir því sem tengist börnum öðru frekar. Það á greinilega ekki við í þessu tilviki. Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum hafa unnið sér sess gegnum áratugina sem órjúfanlegur hluti jólaundirbúningsins hjá börnum. Ég las þær og lærði sem krakki og það gerðu mín börn einnig. Ég hugsa að ég hafi mætt á annan áratug með krakkana í Þjóðminjasafnið til að upplifa sívaxandi spennu jólaföstunnar með þeim þegar jólasveinarnir týndust ofan af fjöllum einn eftir annan. Nú virðist ákveðinn hópur fólks fá eitthvað út úr því að gera sem minnst úr slíkum hlutum.

Maður heyrir því iðulega slegið fram að kristnar hátíðir, jól og páskar, hafi orðið markaðsöflunum að bráð. Því séu þær léttvægar fundnar og skipti ekki máli. Í kvikmyndinni Bjarnfreðarson var gefin innsýn í jólahald fólks sem hafði slíka lífssýn. Nú halda vafalaust flestir að þarna hafi verið um uppdiktaða skrumskælingu að ræða sem eigi sér ekki fyrirmynd í raunveruleikanum. Ég þekki hins vegar fólk, sem er yngra en ég, sem upplifði jólin á þennan hátt. Það á vægast sagt blendnar minningar frá jólahátíðinni á meðan straumar kommúnismans réðu ríkjum á heimilum þess. Ég hef tvisvar lifað jólalausan desember. Bæði skiptin var það í kommúnistiskum ríkum. Á Kúbu árið 1979 og í Rússlandi árið 1995. Mikið skelfing var það innihaldslaus og flatur desember þegar jólin létu ekki sjá sig. Reyndar voru aðstæður þó betri á Kúbu á þann hátt að við höfðum um nóg annað að hugsa en í Rússlandi helltist grámi tilbreytingarleysins yfir mann í jólalausum desember. Ég hef engan áhuga á að upplifa það aftur.

Ástæða þess að ég læt hugann reika um þessi mál nú á páskum er að mig óar við þeim kommúnistisku viðhorfum sem virðast skjóta upp kollinum á þessu sviði í æ ríkari mæli hérlendis. Lítill en hávær hópur hefur séð ljósið í þessum málum. Það er með hann eins og aðra álíka að þegar menn hafa höndlað sannleikann þá gefa menn sig aldrei. Ég hef illan bifur á þeim félagsskap sem hefur verið myndaður utan um slík viðhorf og önnur álíka. Það var svolítið dæmigert að fréttin í Ríkissjónvarpinu á föstudaginn langa frá bingóinu á Austurvelli var lengri en fréttin frá lestri Passíusálmanna í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Ég skil ekki altaf þann leik sem Ríkissjónvarpið leikur í þessum málum. Svo er um fleiri.

laugardagur, mars 24, 2012

Nina Hagen & Nana Mouskouri - Lili Marlene

Kristjana Skúladóttir syngur lög stríðsáranna

Nú á að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin atriði úr tillögum hins sérkennilega skipaða stjórnlagaráðs. Þegar spurningar þær sem á að greiða atkvæði um voru kynntar þá fannst manni að þar færi amen eftir efninu miðað við það hvrnig þessi prósess hefur allur verið. Ég ætla ekki að rekja það frekar. Áhugasamir þekkja það. Ég hélt að allir vissu að við þjóðaratkvæðagreiðslu verður að ganga út frá tveimur principum. Í fyrsta lagi er ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tilefnið sé brýnt. Það má segja að ný stjórnarskrá sé brýnt tilefni. Í öðru lagi verða þær spurningar sem lagðar eru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrar og hnitmiðaðar svo svörin gefi afdráttarlausa niðurstöðu. Þetta hélt ég að allir vissu. Alla vega finnst mér að alþingismenn eigi að hafa þetta á hreinu. Mér finnst að mikið vanti á að svo sé um þær hugmyndir að spurningums em kynntar hafa verið og á að samþykkja með hraði á næstu dögum frá alþingi. Skoðum það aðeins nánar. Hér kemur yfirlit um spurningarnar.

1. Viltu að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Hér er í fyrsta lagi lagt til að maður taki afstöðu til heildartillögunanr áður en hún er endanlega frágengin. Það sér náttúrulega hver maður að það gengur ekki. Það er ekki hægt að leggja ófrágenginn texta fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eins og að skrifa undir óútfylltan víxil. Síðan geta verið atriði sem maður er smammála og önnur sem maður er ósammála. Niðurstaðan segir því ekkert um afstöðu fólks. Menn geta tekið afstöðu á móti tillögunum út frá fjölmörgum ástæðum. Hver á að greina þær forsendur ef niðurstaðan verður nei. Það er ekki hægt.

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá. Viltu að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði:

1. Náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

Nú vandast málið. Um hvaða náttúruauðlindir er verið að tala. Grasið á jörðinni, vatnið í ám og vötnum, vindinn, námur, sjávarföll, fiskinn í sjó, vötnum og ám, fuglana í loftinu, dýr merkurinnar. Svar óskast. Svo kemur hin spuringin, Hvað þýðir að náttúruaðlind sé í þjóðareign? Er það þjóðnýting náttúruaðlinda? Er verið að innleiða sovéskan, kúbanskan eða ródesískan kommúnisma undir rós?Hér er spurningin alveg úti á túni og ekkert vit í henni. Gjörsamlega ótæk í þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. Ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

Hvað þýðir þetta? Hvað eru ákvæðin um þjóðkirkjuna mörg í stjórnarskrárdrögunum? Geta menn ekki verið sammála sumum og ósáttir við önnur? Þýðir já að ekki bmeigi breyta neinu frá því sem nú er. Hvað þýðir nei? Hvað er lesið út úr slíku svari?

3. Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Í meira mæli!! Hvað þýðir það? Segir þetta eitthvað til um hverskonar persónukjör á að innleiða. Þó verður að segja að þessi spurning meikar hvað mestan sens. Af hverju er ekki hægt að spyrja: Viltu taka upp persónukjör til Alþingis?

4. Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Af hverju er ekki spurt hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi? Er verið að lauma inn ákvæði þess efnis undir rós?

5. Ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera? 10%, 15% eða 20%.

Hvað ef mjög lítill eða enginn munur verður á milli valkostanna þriggja? Hvað gera bændur þá?

Mér finnst þetta ekki gæfulega af stað farið í þessum efnum. Undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu verður að vanda svo hún verði ekki ein vitleysa. Þá er ver af stað farið en heima setið.

sunnudagur, mars 18, 2012

Chuck Berry Memphis Tennessee

Rúnar, Megas og Gylfi í Salnum

Ég fékk eina athugasemd frá Grími vegna síðasta pistils og ætla að koma aðeins inn hann hér frekar en að setja svarið í athugasemd. Ég ætla ekki að segja að ég sé neinn allherjarprófet í þessum málum. Mér finnst hins vegar að umræðan sé sett upp í alltof einfaldri mynd og einkennist af frösum og slagorðum. Skiptigengið er eitt af því sem ekkert hefur verið fjallað um það ég hef séð. Að mínu mati er það grundvallaratriði um stöðu samfélagsins í nýju myntumhverfi (ef af verður) hvert skiptigengið verður. Þá verður að líta á heildina en ekki að vitaskuld eru laun einstaklingsins ekki statisk (föst). Þau geta hækkað hjá einhverjum og einhverjum en allur fjöldinn mun taka laun eftir því sem samið er um í almennum kjarasamningum. Þá skiptir grundvallarmáli hvert skiptigengið er á krónu á móti öðrum gjaldmiðli. Það skiptir okkur miklu máli hvort skiptigengið væri t.d. 126 krónur á móti USD eða 100 krónur á móti hverjum USD (ef dollarinn væri tekinn upp sem ný mynt). Ef skiptigengið væri 126 kr/USD þá fengi venjulegur launamaður færri dollara í veskið þegar hann fær útborgað og hefur þannig minni peninga milli handanna þegar hann fer út og verslar heldur en ef skiptigengið væri 100 kr. Ef skiptigengið væri of hátt (segjum 60 kr/USD) þá væri skekkjan á hinn kantinn því það þýddi að fyrirtækin sem selja vörur úr landi fengju of lítið fyrir sinn snúð. Það myndi þýða það að tekjur þeirra væru það lágar að þau yrðu að leita allra leiða til að hagræða og draga úr mannahaldi. Þessi staða myndi síðan endurspeglast í kjarasamningum. Ég ætla ekki að segja hvert hið gullna jafnvægi er en aðalmálið er að mínu mati er að það vantar alla umræðu um þessi mál.
Ég sótti ágæta ráðstefnu um gjaldmiðlamálin sem Framsóknarflokkurinn hélt fyrir skömmu. Þar voru fluttir ágætir fyrirlestrar þar sem þessi mál voru reifuð frá ýmsum hliðum. Ekkert var að vísu minnst á skiptigengið. Þar kom meðal annars fram að upptaka nýs gjaldmiðils mun kalla á og knýja fram gjörbreytt vinnubrögð í stjórnun ríkisfjármála. Ef lausatök verða á opinberum fjármálum og eytt verður um efni fram þá verður ekki hægt að leiðrétta kúrsinn með gengisfellingu. Lausatök í efnahagsmálm munu leiða af sér skuldasöfnun ríksins. Ef ekkert verður að gert mun það enda í Grikklandsstöðunni sem er ekkert annað en þjóðargjaldþrot. Þeirri stöðu fylgir gríðarlegur niðurskurður í opinberri þjónustu og starfsemi opinbera geirans. Það er bara nákvæmlega sama og myndi henda mitt heimilishald ef ég væri búinn að skuldsetja mig um efni fram. Það er hægt að styrkja krónuna með styrkri efnahagsstefnu með nákvæmlega sömu vinnubrögðum og þarf að taka upp með nýjum gjaldmiðli. Þá yrði hins vegar haldið þeim möguleika að halada þeim öryggisventli sem krónan er. Ég veit t.d. að Finnar öfunda Svía af því að hafa eigin gjaldmiðil sem þeir hafa notað til að bæta stöðu útflutningsatvinnugreinanna sem leiðir m.a. af sér minna atvinnuleysi. Eitt af því sem haldið var fram á fundinum sem framsóknarmenns stóðu fyrir var að misskipting í samfélaginu myndi aukast með upptöku erlends gjaldmiðils. Þetta er flötur sem þarf að ræða. Staða hverra mun styrkjast og hverjir verða undir? Því var einnig haldið fram að hærra atvinnuleysisstig en við höfum verið vön muni festa rætur. Sú skoðun kemur mér ekki á óvart.
Umræðan um að við ættum að taka upp kanadadollar var svona eins og þessi umræða hefur verið hérlendis. Það slær einhver einhverju fram í fullyrðingastíl. Fullyrðingin verður miðpunktur umræðunnar en fæstir vita neitt um málið. Það ég best veit eru helstu stoðir kanadísks efnahagslífs olíuvinnsla, námugröftur, skógarhögg og hefðbundinn landbúnaður (kornrækt). Þetta eru ekki beint þeir þættir sem standa undir okkar efnahagslífi. Segjum svo að olíuverð hækki. Það styrkir efnahagslíf Kanada og kanadadollar styrkist. Íslenski skipaflotinn kaupir mikið af olíu. Þegar olíuverð hækkar versnar afkomu útgerðarinnar. Á sama tíma hefur gengi gjaldmiðilsins styrkst og útgerðin fær þannig minni fjármuni fyrir framleiðslu sína við útflutninginn. Þannig mun sú þróun sem bætir hag Kanada manna (olíuverðshækkun) hafa neikvæð áhrif á tvöfaldan hátt afkomu sjávarútvegsins sem er okkar undirstöðuatvinnuvegur. Þetta er smá dæmi um að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og af er látið. Að mínu mati er evran eini gjaldmiðillinn sem kæmi til greina ef við myndum skipta um gjaldmiðil en hvort það er skynsamlegt er allt önnur saga.

föstudagur, mars 09, 2012

Ríó Tríó í sjónvarpssal 1968 eða fyrr.

Kvöld á Rauðasandi



Staða krónunnar hefur verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og misserum. Margir hafa verið tilkallaðir um að tala hana niður á alla mögulega vegu. Þar eru fáir undanskyldir af þeim sem mesta ábyrgð bera í samfélaginu. Það er dálítið sérstakt að margir alþingismenn og ráðherrar skuli sammælast um að gera eins lítið úr gjaldmiðli þjóðarinnar eins og mögulegt er. Er von að aðrir hafi trú á krónunni ef ýmsir framámenn þjóðarinnar tala hana niður hvar sem þeir geta. Krónunni er kennt um flest sem hefur misfarist í fjármálaunhverfi þjóðarinnar. Vaxtastig, verðbólga og gjaldeyrishöft, allt er henni að kenna. Mín skoðun er sú í þessu sambandi að árinn kenni illur ræðari. Staða krónunnar og þróun hennar ber merki þess hvernig á spilunum hefur verið haldið. Þegar eytt er um efni fram árum og áratugum saman þá veikist gjaldmiðillinn. Það getur ekkert annað skeð. Krónan er miklu frekar mælikvarði á efnahagstjórnina og aga í ríkisfjármálum á undanförnum áratugum frekar en orsakavaldur. Það er hins vegar ósköp þægilegt að gera hana að sökudólg. Gera sendiboða válegra tíðinda ábyrgan. Margir mikilsmetandi menn hafa sagt að það sé ekkert mál að taka upp annan gjaldmiðil. Það geti gerst á nokkrum vikum. Bandaríkjadollar er nefndur í því sambandi. Aðrir tala um evruna sem eina bjargráðið. Nú veit ég að því fylgir kostir og gallar að halda krónunni. Hún er einn minnsti gjaldmiðill heims. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Ef hér væri stöðugt jákvæður viðskiptajöfnuður og gjaldeyrisforðinn myndi styrkjast jafnt og þétt þá myndi krónan styrkjast. Það væri ekkert hókus pókus heldur vegna þess að umhverfið myndi hafa trú á stjórn efnahagsmála. Það er hins vegar hókus pókus þegar því er haldið fram að skipti á gjaldmiðli myndi leysa allan vanda. Það er hægt að fullyrða það með stórum stöfum að þá er fyrst hætta á ferðum ef skipt væri um gjaldmiðil og síðan haldið áfram eftir sömu navigation í stjórn efnahagsmála. Stjórnvöld væru ekki lengi að keyra landið í þrot með þeim vinnubrögðum. Það er því alveg á hreinu að upptaka nýs gjaldmiðils mun knýja fram allt önnur vinnubrög í stjórnun opinnberra fjármála. Sú krafa yrði ófrávíkjanleg að ríkissjóður yrði rekinn með afgangi. Sama myndi gilda um sveitarfélögin. Samskipti ríkis og sveitarfélaga myndu breytast í grundvallaratriðum. Sem dæmi má nefna að í Danmörku fá sveitarfélögin (A-hlutinn) ekki að taka lán. Ríkisstjórnin leggur ákveðna fjármuni í framkvæmdasjóð sveitarfélaganna og í hann geta sveitarfélögin sótt um ríkisframlög ef þau fyrirhuga að hefja stærri framkvæmdir. Þannig getur ríkið stjórnað framkvæmdamagni hjá sveitarfélögunum. Ef sveitarfélögin eru rekin með halla þá verða þau að jafna hallann út á næsta ári. Ríkið getur dregið úr framlögum til þeirra í þeim tilgangi að skikka þau til hlýðni. Einstök ráðuneyti fá ekki að leggja fram frumvörp eða reglugerðir sem hafa fjárhagslega íþyngjandi áhrif á rekstur sveitarfélaga nema að þau hafi fjármuni til að láta fylgja verkefninu. Annars verða þau að draga slíkar fyrirætlanir til baka. Ríki og sveitarfélög semja um millifærslur frá ríki til sveitarfélaga en ríkið mótar skattastefnuna og útgjaldastefnuna.
Stórri spurningu er ósvarað í þessu sambandi og á hana heyrist aldrei minnst. Á hvaða gengi á að skipta krónunni út? Ef það væri gert á núverandi gengi væri verið að læsa inni um aldur og eilífð þann kaupmátt sem Íslendingar hafa í útlandinu um þessar mundir. Þannig væri landið gert að láglaunasvæði innan þess efnahagssvæðis sem það myndi tengjast. Það er ekki að ástæðulausu að Danir, Svíar og Englendingar hafa haldið gjaldmiðli sínum innan ESB. það veitir þeim meira svigrúm til að stjórna sínum efnahagsmálum. Finnar hafa sagt mér að það kom aldrei tilgreina í aðildarferli þeirra að ESB að þeir myndu halda markinu. Nú sáröfunda þeir Svía yfir að hafa haldið krónunni. Svíar lækkuðu gengi krónunnar og gerðu þannig útflutningsvörur sínar samkeppnishæfari í krísunni. Það finna Finnar á eigin skinni. Set niður fleiri punkta um þetta mál á næstunni.

fimmtudagur, mars 01, 2012

Chuck Berry "Let It Rock" Wild Berry!!!!!!!

Rauðsensk kría




Ég hlusta stundum á beina útsendingu frá Alþingi. Það gerist nú fyrst og fremst þegar maður hefur grun um að eitthvað bitastætt sé til umræðu en stundum kíkir maður án sérstakrar ástæðu. Svo var í dag. Ég datt þá inn í umræðu um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar. Þessi umræða vakti forvitni mína. Það var vegna þess að sjávárútvegurinn er ennþá miklvægasta atvinnugrein þjóðarinnar, umræða um sjávarútvegsmál hefur stundum verið dálítið út og suður að mínu mati og í þriðja lagi vegna þess að ég var svo heppinn sl. vor að fá tækifæri til að taka þátt í sérfræðigavinnu um að leggja mat á frumvarp til breytinga á sjávarútvegskerfinu. Ég ætla ekki að fjölyrða um umræðuna á Alþingi. Hún var eins og svo oft áður, misdjúprist. Texti þingsályktunarinnar vakti hins vegar athygli mína.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er dálítið stórt mál. Að öllum jafnaði eru mál ekki lögð í almenna atkvæðagreiðslu, hvort sem um er að ræða í stærri eða minni hóp, nema valkostir séu skýrir svo niðurstaða atkvæðagreiðslunnar geti verið óyggjandi og annað hvort verið endanleg eða veitt skýra leiðbeiningu um í hvaða átt haldið skuli fyrir þá sem taka endanlega ákvörðun.

Ég get ómögulega séð að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki. Lagt er t.d. til að bornar séu upp grundvallarspurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni s.s. hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á að leggja fram slíka spurningu og biðja um já eða nei svar? Nýtt kerfi eða ekki nýtt kerfi. Ef svarið er já, hvað þá? Hvað segir niðurstaðan? Jú, það er óánægja með gamla kerfið en út frá hvaða forsendum? Það hlýtur að vera grundvöllur þess að vita í hvaða átt skal halda með að þróa nýtt kerfi.ef svarið er nei, á þá ekki að breyta neinu um aldur og æfi? Spyr sá sem ekki veit.

Í öðru lagi á að bera upp grundvallarspurningu um hvort eigi að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign auðlindarinnar. Hvað þýðir það? Hvað þýðir að þjóðin eigi auðlindina? Þjóðin er ekki sama og ríkið. Þjóðin er virkilega ofnotaður frasi um þessar mundir. Meir að segja er hugtakið þjóðin fléttuð inn í umræðu um 30.000 undirskriftir sem bornar voru heim að bæ nokkrum hér í nágrenninu fyrir stuttu. Þar var minnst á þjóðarvilja enda þótt einungis rúmlega 10% kosningabærra einstaklinga hefðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.

Svo kemur þetta fína orðalag.... og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta: innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir að innkalla aflaheimildir? Jú það þýðir að taka aflaheimildir frá þeim fyrirtækjum sem nú stunda sjóinn og úthluta þeim að meira eða minna leiti til annarra. Það hlýtur að kalla á bætur til þeirra fyrirtækja sem hafa keypt heimildirnar og missa starfsgrundvöll sinn. Verður þessa látið getið í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu hvað „já“ niðurstaðan gæti kostað ríkið og þar með þjóðina? Verður þess látið getið í atkvæðagreiðslunni hvernig staðið verður að endurúthlutuninni? Ríkir almenn sátt um þá aðferðafræði? Eru ekki margir möguleikar þar á ferðinni?
Svo er ákvæðið að endurúthluta aflaheimildum gegn gjaldi til þjóðarinnar. Er hér verið að tala um skattlagningu í ríkissjóð eða er verið að tala um að hver íbúi landsins fái senda ávísun? Hvernig á að vera hægt að fjalla um slík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það má minna í þessu sambandi að meirihluti þjóðarinnar býr á suðvesturhorninu. Hann yrði vafalaust ánægður með að fá meiri peninga í ríkissjóð til að auka og bæta þjónustuna við þennan landshluta. Ætli íbúar annarra landshluta yrðu jafnánægðir með þá þróun mála.

Alþingismenn eru kosnir á þing til að setja löggjöf og skipa öðrum þeim málaum sem því tengist. Þeir þurfa oft að taka ákvarðanir sem eru misvinsælar. Á seinni árum hefur vægi skoðanakannana farið vaxandi í almennri umræðu. Stjórnmálamenn nota niðurstöður þeirra gjarna og taka afstöðu út frá því hvað „þjóðin vill“ í hinum og þessum málum. Nú sýnist mér að það eigi að fara að nota þjóðaratkvæðagreiðslur í álíka tilgangi. Slíkar aatkvæðagreiðslur hafa einungis eitthvert gildi ef spurningarnar sem svara skal séu mjög afdráttarlausar og skýrarr. Ég fæ ómögulega séð að það eigi við í þessu tilefni.

fimmtudagur, febrúar 23, 2012

Chuck Berry - Johnny B. Goode

Hjálmar skorar sigurmarkið í leik við ÍR



Umræðan í fjölmiðlum er oft ekki sérstaklega beysin. Það er eins og gengur að fjölmiðlar eru vafalaust reknir af vanefnum núorðið og því hefur fólk ekki þann tíma og möguleika sem til þarf við að stunda vandaða blaðamennsku. Manni virðist því að það sé oft leitað auðveldu leiðanna til að fylla tímann, umræðan verður þannig oft yfirborðskennd og einkennist af upphlaupum. Það eykur hættu á að þróun mála taki mið af öðrum faktorum en þeim sem mestu máli skipta og grundvallast af fagmennsku. Auðvitað er þetta ekki algilt en svona er þetta að mínu mati of oft. Þrjú mál koma sérstaklega upp í hugann þegar huganum er rennt yfir sviðið og er þó af nógu að taka. Svo einkennilegt sem það er þá tengjast þau öll umhverfismálum. Íslendingar eru befnilega margir hverjir orðnir ofboðslega meðvitaðir í umhverfismálum. Hverju sem það er að þakka skal ekki sagt um. Vitaskuld er það gott að bera hag umhverfisins fyrir brjósti og hugsa til lengri tíma í þeim efnum. Það er gott og blessað. Þegar umræðan einkennist hins vegar af upphlaupum og hlandfroðuumræðu þá er annað uppi á teningnum.
Þessi þrjú mál er stóra díoxín málið, stóra cadmíum málið og stóra iðnaðarsaltmálið. Hva skyldi bera næst á land í þessum efnum.
Stóra díoxín málið í kringum sorpbrennslustöðina á Ísafirði vakti upp mikla og harða umræðu. Ásakanir gengu á hendur bæjarstjórninni um að hún hefði beint eða óbeint með aðgerðum og eða aðgerðaleysi verið allt að því að eitra fyrir bæjarbúa. Bóndinn sem bjó þarna í nágrenninu varð settur í brennidepil. Sú stemming fór á flug að framleiðan frá búinu væri baneitruð. Svo fór að skepnunum var öllum lógað undir vorið eins og það er nú skemmtilegt að lóga ám komnum að burði. Það gerir enginn maður ótilneyddur. Svona í framhjá hlaupi þá liggur það fyrir hvað sem öllum mengunarmælingum leið að það var gjörsamlega útilokað að kjötið af lömbunum af bænum gæti verið varasamt því lömb ganga uppi á fjöllum þegar þau eru að taka út vöxtinn og þar er engin díoxín mengun. Fólk sem bjó í Vík í Mýrdal var svo skelkað vegna umfjöllunar fjölmiðla að einhverjir íbúar bæjarins þorðu ekki að senda börnin í skólann þar sem hann stóð við hliðina á sorpbrennslustöðinni.
Svo farið sé hratt yfir þá er rétt að skoða niðurstöðuna. Hún er sú að það var engin díoxín mengun á Ísafirði frá sorpbrennslunni. Þetta var allt innihaldslaust upphlaup sem blásið var upp af upphlaupsliði. Skepnurnar voru drepnar að óþörfu þótt það þyki kannski ekki mikið máli í huga þeirra sem standa framar öðrum í umhyggju fyrir umhverfinu. Díoxínmengunin frá sorpbrennslunni mældist svo lítil að sérfræðingur minn í umhverfismálum segir að það sé meiri díoxínmengun frá arinstæði þar sem brennt er timburkubbum. Sem sagt Zero. Hitt er svo annað mál að reykurinn frá brennslunni er leiðinlegur og sjónmengun að honum. Það væri verðugt umfjöllunarefni fyrir fjölmiðla að fara yfir þessa umræðu og reyna að læra af henni til að lenda ekki í sama drullupyttinum aftur.
Cadmíummálið mikla spratt upp af því að í ljós kom að um 800 tonn (1% af ársnotkun landsmanna) hefði innihaldið cadmíum sem var yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í innlendum stöðlum. Þessi ábyrður fór bæði á öræfin og eins á tún. Umræðan var næstum því eins og túnin og öræfin væru orðin geislavirk. Í ljós kom að víða í Evrópu er ekkert lágmark hvað varðar cadmíuminnihald í áburði og annarsstaðar er það mun hærra en hérlendis. Ég heyrði aldrei neinn fjölmiðil spyrja af hverju eru mörkin cadmíuminnihaldi í áburði séu lægri hérlendis en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Hvaða ástæður eru fyrir því? Af hverju eru kröfurnar meiri? Er í gangi einhver öfga- eða hreintrúarstefna í þessum málum? Viljum við bara vera meiri en aðrir? Er íslensk gróðurmold viðkvæmari eða hvað? Nei, þess í stað var hnoðast áfram á einum umhverfisskandalinum til viðbótar. Sannkallaðir hátíðisdagar um stund.
Svo kom stóra iðnaðarsaltsmálið. Í ljós kom að um 13 ára skeið hefði verið notað svokallað iðnaðarsalt í matvælaiðnaði hérlendis. Þá hljóp aldeilis á snærið. Umræðan var álíka og það hefði verið notað salt í matvælaframleiðslu úr opnum haugum sem hefðu legið óvarðir fyrir allskonar skít og óhreinindum. Stofnanir voru skammaðar blóðugum skömmum fyrir að hafa ekki staðið vaktina um heilsu landsmanna. Sérfræðingur minn í saltmálum segir að munurinn á iðnaðarsalti og matarsalti sé sá helstur að það sé búið að bæta joði og einhverjum öðrum snefilefnum í matarsaltið.

Maður spyr sig bara hvað kemur næst.

Mamma varð 88 ára í gær. Gömul er varla orðið sem er rétt að nota því hún er afskaplega ern og ber aldurinn vel. Auðvitað er aldur afstæður. Aldur er ekki bara mælanlegur í þeim dagafjölda sem liðnir eru frá fæðingu heldur er aldur einnig mælanlegur í líkamlegu og andlegu ástandi. Mamma hélt upp á daginn með afmæliskaffi eins og hún hefur gert svo lengi sem ég man.

fimmtudagur, febrúar 09, 2012

Chuck Berry Sweet Little Sixteen

María sigrar í 60 m. hlaupi



Sú var tíðin að ég var mjög sjaldan Sighvati Björgvinssyni. Það hefur breyst. Nú skal ég ekki segja um hverju það er að þakka eða kenna. Líklega er Sighvatur eins og hann var en ég hef breyst. Mér líkaði t.d. mjög vel hvernig hann tók á umræðunni um Sogn hér fyrr í vetur. Ef það er eitthvað sem er ekki hægt að segja um Sighvat þá er það að hann sé deigur.
Nýlega skrifaði hann grein í Fréttablaðið þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því hve stór hluti stráka koma ólæsir út úr grunnskóanum. Ætli það séu ekki nálægt 25% stráka eftir því sem tölfræðin segir sem eru það sem kallað er ólæsir þegar þeir yfirgefa grunnskólann eftir 10 ára setu. Þetta er náttúrulega svakalegt. Síðan er allaf verið að hamra á því að leikskólinn sé líka skóli og þar bætast þá alla vega fjórir vetur við. Fjórtán ára skólanám og fjórðungur stráka ólæs. Það er nátturulega enn svakalegra. Þetta veldur vitaskuld mörgum áhyggjum en ég hef ekki séð ,ikla umræðu fara í loftið út af þessu. Alla vega ekki eins og þegar meint díoxín mengun á Ísafirði átti allt að drepa þar í firðinum en svo kom í ljós að sú umræða var öll hin mesta klámhögg.
Sighvatur Björgvinsson skrifaði nefnilega grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir þessu eins og hann hefur fullt leyfi til að gera. Hann vitnaði þar meðal annars í áhyggjur föður síns, Björgvins Sighvatssonar, sem var skólastjóri lengi, yfir því að ákveðnar breytingar í skólakerfinu myndu hafa óheillavænleg áhrif. Sighvatur vitnar til þess að lestur hafi hér áður verið talinn svo nauðsynlegur að unglingar voru ekki fermdir ef þeir kunnu ekki að lesa. Einstaka hafi þó verið fermdur upp á faðirvorið.
Það er síðan ekkert annað en að doktorsnemi í menntunarfræðum (hvorki meir eða minna) hellir sér yfir Sighvat í Fréttablaðinu í dag. Doktorsnemanum finnst t.d. það vera dæmi um þær villigötur sem umræðan um menntamál barna og unglinga er í hérlendis að veðurfræðingar og gamlir stjórnmálamenn skuli vera að tjá sig um þær á opinberum vettvangi. Þeim er líklega nær að hugsa um eitthvað annað. Það eigi ekki að taka mið af gömlum kerlingabókum í þessari umræðu heldur taka mið af sýn Háskóla Íslands og fræðsluyfirvalda í þessum efnum. Grunnskólarnir og sú menntun sem þeir veita séu aftur á móti afrakstur af aldagamalli stofnanavæðingu sem meðal annars eigi ákveðinn þátt í efnahagshruninu vegna þess hve vel þeir hafi innrætt þöggun og meðvirkni meðal þjóðarinnar o.s.frv. o.s.frv. Doktorsneminn vepur síðan persónulega í Sighvat í greininni. Sem betur fer sér maður slíkt frekar sjaldan nú orðið í fjölmiðlum.
Nú veit ég vafalaust ekkert um þessi mál og ætla mér því ekki þá dul að fara að kenna öðrum hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum. Á hinn bóginn veit ég að lestrarkunnátta er undirstaða að flestu því sem maður lærir á einn eða annan hátt. Það er ekki sjálfgefið að það kunni allir að lesa eða að það sé talið sjálfsagt í nútíma samfélögum. T.d. má nefna að í Nýfundnalandi, sem er samfélag sem er hvorki ólíkt okkar samfélagi né langt í burtu, er ólæsi um 50%. Um helmingur þjóðarinnar getur einungis lesið einfaldan texta og fyrirsagnir í blöðum. Staða samfélagsins er í samræmi við þessa staðreynd. Það var ákveðin undirstaða það þeim framförum sem áttu sér stað hér á síðustu öld að það kunnu því sem næst allir að lesa þegar möguleikarnir fóru að skapast. Það gátu allir verið með, gripið tækifærin eða skapað sér þau sjálfir.
Það ætti náttúrulega allt að vera á öðrum endanum hérlendis út af þessari stöðu meðal yfirvalda fræðslumála og annarra sem málið varðar, m.a. doktorsnema í menntunarfræðum. Ég hef ekki séð né heyrt að svo sé.
Nú berast síðan fréttir af því að brottfall úr skólum sé mjög mikið hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Um 30% íslenskra nemenda hefur hætt í skóla áður en þeir luku stúdentsprófi. Þar er Ísland í hópi þeirra þjóða sem við viljum ekki bera okkur saman við. Aðeins er meira brottfall úr skólum í fjórum löndum innan OECD heldur en hér. Ekki bætir þetta úr skák.
Það hlýtur eitthað mikið að vera að. Þeir sem áhuga hafa á þessum málum ættu frekar að einbeita sér að greiningu á þessum vanda og leita leiða til lausna heldur en að ráðast á þá sendiboða sem benda á vandann. Keisarinn er ekki kappklæddur. Í hér áður kenndu ömmur krökkunum að lesa með bandprjón sem hjálpartæki. Það þykir vafalaust mjög gamaldags en það dugði. Nú er hins vegar beitt nýmóðins aðferðum með þekktum árangri.
Það á að vera hægt að ræða stöðu þessara mála án gífuryrða eða persónulegra árása. Ef menn geta það ekki þá er annað hvort verið að verja vondan málstað eða hroki og rembingur hefur náð yfirhöndinni.

Chuck Berry , Keith Richards_Roll over Beethoven +Almost Grown!!

Einar Daði kastar kúlu



fimmtudagur, febrúar 02, 2012

Ríkissjónvarpið (ég er hættur að skrifa RÚV því þetta er sjónvarp sem ríkið rekur og maður er þvingaður til að borga það sem kostar að reka það) sýndi mynd í gærkvöldi sem fjallaði um hinn magnaða gítarleikara Jimmy Hendrix. Það eru að verða 42 ár síðan hann dó úr afleiðingunum af ruglinu en sama er, hann er enn jafn ljóslifandi og hann var á sjöunda áratugnum í augum rokkunnenda þess tíma.
Myndin var mjög fín að þvi leyti að hún sýndi vel hvernig hann þróaðist sem hljóðfæraleikari þar til Teh Great Leap Forward átti sér stað. Það er náttúrulega magnað að á aðeins nokkrum mánuðum breyttist tilvera hans úr því að vera sléttgreiddur jakkafataklæddur baksveitarspilari hjá einhverjum löngu gleymdum soul söngvurum yfir í að vera síðhærð, skrautklædd heimsstjarna. Það þarf sterk bein til að þola slíka stökkbreytingu. Tilviljanir eru magnaðar. Jim hitti Chas Chandler fyrir tilviljun. Chas segir honum að drífa sig yfir til Bretlands, þar séu hlutirnir að gerast. Því ekkiað slá til. Eftir aðeins fjóra daga í Bretlandi er kallinn komnn upp á svið með tvo stráka með sér og dæmið fer að rúlla. Síðan lá leiðin bara upp á við þar til hann hrapaði fram af brúninni. Það var áhugavert þegar það var rifjað upp að í Atlanta, hálffasískri suðurríkjaborg, þurftu gítarleikarar að geta spilað með tönnunum í þá tíð, ella væru þeir skotnir!! Það kom sér vel síðar að kunna þá list. Það kom vel í ljós í myndinni að það var sama hvort Jimmy spilaði eigin lög eða lög annarra, hann átti þau skuldlaust. Stíll hans var svo einstakur. Það á við um Jim Hendrix og svo marga aðra tónlistarmenn frá þessum árum að þeir eru orðnir eilífir. Krakkar nútímans þekkja þessa tónlist, virða hana og dá. Hún er ekki í síðra uppáhaldi heldur en það nýjasta sem gert er í dag. Mér er sem ég sæi okkur hafa hlustað á tónlist frá þriðja áratugnum þegar við vorum um tvítugt.
Margir þeirra öflugu tónlistarmanna sem komu fram í sviðsljósið á sjöunda áratugnum dóu ungir. Á þessum tíma var mikið að gerast og keyrslan mikil. Allt var prófað og allt var mögulegt. Sumir gáðu ekki að því að fara út úr lestinni ekki síðar en á næst síðustu stoppistöð, eins og Megas orðaði það svo vel hér um árið. Jimmy var einn þeirra sem hoppaði ekki af lestinni í tíma. Það er spurning sem aldrei verður svarað hvernig hann hefði þróast sem tónlistarmaður ef hann hefði lifað. Sumir brunnu út, aðrir þróuðust áfram og efldust með reynslunni.
Ég horfði um daginn á myndina Bird. Hún fjallar um Charly Parker, hinn magnaða djassleikara sem var uppi á fimmta áratugnum það ég best veit. Myndin er ein af 35 í Clint Eastwood kassanum sem ég keypti í haust. Charly Parker var og er einn af meisturum djassins ásamt Miles Daves og Dissy Gillespie svo einhevrjir séu nefndir. Myndin endar á dauða Charlies. Líkflutningamaðurinn er að ganga frá skýrslu og lýsir líkinu. "Blökkumaður, feitlaginn og á sjötugsaldri" segir hann. Þá heyrist kvenrödd: "Hann var aðeins 34 ára". The End. Það var kannski eins gott að meistarinn Jimmy Hendrix endaði ekki á þennan hátt.

þriðjudagur, janúar 31, 2012

Tina Turner & Chuck Berry - Rock n roll music

Hettusöngvari í garðinum



Það hefur mikið verið rætt og ritað um aðildarumsókn Íslands að ESB og þann feril sem hefur staðið yfir síðan hún var samþykkt. Menn greinir á um hvort í gangi sé umsóknarferli eða aðlögunarferli. Menn greinir á um hvort bætt aðgengi Íslands að styrkjum ESB sé eðlilegur hlutur eða aðferð ESB til að lokka land og þjóð inn í sambandið. Menn greinir á um þann ábata sem Ísland og íslensk þjóð myndi hafa af aðild að ESB. Menn greinir á um hvort upptaka evrunnar, hvenær sem það mun svo gerast, muni styrkja eða veikja íslenskt efnahagslíf. Þannig er auðsætt að það eru á lofti margar og mismunandi skoðanir á því ferlli sem stendur nú yfir. Á fyrstu mánuðum og misserum eftir hrunið haustið 2008 héldu margir að það væri í öruggara skjóla ð sækja innan ESB. Ýmislegt hefur gerst síðan þá sem hefur fengið marga til að efast um að það sé rétt mat. Uppnám evrunnar, fjármálaleg staða margra ESB ríkja og nú síðast vaxandi atvinnuleysi innan ESB landa er gríðarlegt áhyggjuefn i, ekki bara fyrir þá sem bera ábyrgð á málun innan ESB heldur einnig fyrir nágranna ESB ríkja og viðskiptaaðila þeirra. Það er orðið svakalegt þegar atvinnuleysi er að meðaltali yfir 10% innan ESB landa. Á Spáni er það um og yfir 20%. Það fer hraðfara vaxandi innan Grikklands. Norðmenn eru farn ir að óttast að þúsundir fólks komi sunnan úr Evrópu til Osló í sumar og setjist þar að enda þótt það hafi ekkert húsnæði og enga vinnu. Hvernig ætli yrði brugðist við hérlendis ef álíka holskefla húsnæðislauss fólks myndi koma hingað til lands?

Í nýútkomnu eintaki af Þjóðmálum fjallar Sigrún Þormar í ágætri grein um hvað sé í ESB pakkanum. Sigrún hefur búið í Danmörku í um 30 ár eða síðan um 1970. Danir gengu í EB árið 1972. Hún þekkir því gjörla hvað það er að búa í ESB landi. Það er vafalaust ágætt á margan hátt að búa í Danmörku per se en það hangir fleira á spýtunni ef fólk svipast um eins og kemur fram í grein Sigrúnar.
Hún kemur m.a. inn á eftirfarandi attriði:
1. Hvað aðild myndi þýða fyrir fullveldi og sjálfstæði Íslands?
2. Hvað aðild myndi þýða fyrir fullveldi í peninga-, vaxta- og myntmálum?
3. Hvað myndi aðild þýða fyrir stjórn á landbúnaðar- og fiskveiðimálum?
4. Hvað myndi aðild þýða fyrir sjálfræði yfir viðskiptum við umheiminn?
5. Hvað myndi aðild þýða yfir yfirráðarétti yfir æðstu löggjöf?
6. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir lagasmíðum?
7. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir refsilöggjöf?
8. Hvað mynd aðild þýða fyrir fullveldi yfir löggjöf atvinnumarkaðar?
9. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir viðskiptaeftirliti?
10. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir skattamálum?
11. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir utanríkisstefnu?
12. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir varnarmálum?
13. Hvað mydni aðild þýða fyrir fullveldi yfur innflytjenda- og flóttamannamálum?
14. Hvað myndi aðild þýða fyrir fullveldi yfir ríkisfjármálum og þar með mótun velferðarstefnu?

Fyrrgreindar sprningar eru dæmi um mál sem skipta miklu máli um hvernig þau þróast til framtíðar. Ýmsir segja vafalaust að við höfum ekki höndlað okkar mál svo vel að það skipti einhverju máli að yfirráðin komist í hendur annarra. Það er í sjálfu sér ákveðið viðhorf sem hverjum og einum er frjálst að hafa. Dæmin sýna hins vegar að það er eitthvað mikið að innan ESB. Vitskuld var það viðbúið að það hefði eftirköst að safna svo mörgum og ólíkum ríkjum í eina samsteypu sem hefur þó ekki miðstýrt vald á ákveðnum mikilvægum málum. Síðustu fréttir segja að það sé rætt innan ESB að setja Grikkjum fjárhaldsstjórn á vegum sambandsins. Á Ítalíu og í Grikklandi eru nú þegar embættismannastjórnir við völd sem tóku við þegar kjörna fulltrúa þraut örendið.

Mikilvægast er í þessu sambandi að fólk gaumgæfi allar hliðar þessa stóra og afdrifaríka máls og rasi ekki um ráð fram. Ákvörðun sem tekin er í þessum málum verður ekki tekin aftur.

mánudagur, janúar 30, 2012

The Highwaymen Dead Flowers live

Verður refurinn dómínerandi íbúi á Þingvöllum innan fárra ára?



Fólk hefur mismunandi skoðanir á ýmsum málum sem betur fer. Mér líkar misjafnvel við skoðanir fólks og fólk hefur vafalaust mismunandi skoðanir á mínum skoðanir. Sem betur fer hefur maður möguleika á að halda fram skoðunum sínum og vinna þeim fylgi. Það hafa aðrir líka. Stundum eru skoðanir fólks hins vegar þannig að það liggur við að manni falli allur ketill í eld. Ein slík grein var í Fréttablaðinu í dag (30. janúar). Þá er sagt frá fyrirlestri sem náttúrufræðingur nokkur hélt á ráðstefnu þar sem m.a. var fjallað um málefni Þingvalla. Tillögur náttúrufræðingsins voru töluvert róttækar og þess eðlis að ég er vægt sagt ósammála þeim. Ein af tillögunum var að eyða öllum "erlendum" trjágróðri úr friðlandinu. Það yrði ekki skortur á fyrirsögnum í fjölmiðlum ef einhver myndi fara fram með þá skoðun sína að það ætti að reka alla íbúa landsins úr landi sem hefðu það eitt til saka unnið að vera af erlendu bergi brotnir. Þá yrði talað um fasisma, kynþáttahatur og ég veit ekki hvað og hvað. Viðkomandi yrði örugglega velt upp úr tjöru og fiðri í almennri umræðu. Á hinn bóginn þykir hreintrúarstefna í umræðu um náttúruna og náttúruvernd vera sjálfsagðar og til fyrirmyndar af ýmsum þeim aðilum sem hafa séð ljósið í þeim málum að eigin mati. Hinn svokallaði íslenski gróður er frekar fábreyttur og kyrkingslegur. Sérstaklega á þetta við um tré. Það sem hefur verið kallaður skógur hér í gegnum aldirnar eru kallaðir runnar hjá nágrönnum okkar og þykja ekki merkilegur pappír enda einskis nýtir. Náttúrufræðingurinn vill uppræta öll erlend tré sem hafa verið gróðursett á Þingvöllum eftir 1911. Engan erlendan gróður á þjóðvanginum. Ísland fyrir íslenskan gróður.

Rollugreyið á hins vegar ekki upp á pallborðið í þessari umræðu. Flytja skal þjóðgarðsgirðinguna að þjóðgarðsmörkum svo rollurnar nagi ekki upp til agna þann ræfilslega gróður sem finnst þarna. Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum. Leggja skal af veiðar á ref og mink innan þjóðgarðsins. Ef minkur verði drepinn þá skal það gert undir stjórn dýrafræðinga og framkvæma jafnhliða rannsóknir á stofnstærð dýranna og áhrifum veiðanna. Skyldi þessum sjálfskipuðu verndurum náttúrunnar vera illa við fugla? Hvað skyldi mófuglinn á Þingvallasvæðinu og í nálægum sveitum hafa gert fólki sem hefur þessar skoðanir? Hvað sem fólki finnst um mink og ref þá þurfa þessi kvikindi að éta eins og önnur dýr. Vor og sumar eru fuglarnir nærtækust fæða rándýra eins og refs og minks. Egg meðan þau finnast og síðan ungarnir. Það bjargar sér hver sem best hann getur. Ef refur og minkur verður látinn óáreittur þá stækkar stofninn með ævintýralegum hraða, slík er viðkoman. Stærri stofn þarf meira að éta. Þegar hann er búinn að hreinsa Þingvallasvæðið þá leitar hann út í nágrennið. Vitaskuld. Heldur fólk virkilega að refur og minkur sé svo staðbundinn að það sé hægt að friða hann akkúrat innan þjóðgarðsins og hann lifi þar á loftinu einu?

Í hitteðfyrra fór ég inn í Þjórsárver með Ferðafélagi Íslands. Ég heyrði þeim skoðunum fleygt í rútunni inneftir að fólk skyldi ekki því afhverju refurinn á Þingvöllum væri ekki friðaður. Ég gat ekki orða bundist og spurði þetta vísa fólk hvort það héldi að refurinn þyrfti ekkert að éta og að hann væri staðbundinn eins og hundur bundinn við bæjarhellu. Þessu var vitaskuld ekki svarað því fávísir menn eru yfirleitt ekki virtir viðlits. Náttúrufræðingurinn er á þeirri skoðun að það eigi að breyta stjórnun Þjóðgarðsins á Þingvöllum og setja hann undir faglega stjórn umhverfisráðuneytisins. Þá er björninn unninn fyrir ref og mink en grenitrén og furan munu líklega fjúka.

Umhverfisráðuneytið friðaði refinn á Hornströndum fyrir um 20 árum síðan með einni tilskipun án nokkurs stöðumats eða eftirfylgni með rannsóknum fyrr en seint um síðir. Á Hornströndum er allur mófugl horfinn og björgin skemmd þar sem refurinn getur farið um. Það hefur sýnt sig að refurinn flæðir frá Hornströndum til annarra héraða því vitaskuld þarf hann að éta. Ríkið hefur hætt að leggja fjármang til refaveiða og lætur það alfarið á herðar svetiarfélaganna. Rökin eru þau að refurinn sé eldri landnemi á Íslandi en maðurinn og því hafi hann þann rétt til búsetu hér sem maðurinn eigi ekki að skipta sér af. Ef fyrirhugað er að koma upp álíka friðlandi fyrir ref og mink á Þingvöllum eins og á Hornströndum þá er vitað hvað muni gerast. Ruglið er alltaf heldur pirrandi en þegar yfir það er slegið kufli fræðimennskunnar þá er rétt að fara að vara sig.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á lúpínuumræðuna. Þeim skoðunum hefur verið haldið fram í alvöru það maður skynjar best að það eigi að fara í eitur herferð gegn lúpínunni. Þá eigi að úða eitri yfir gríðarleg landssvæði til að drepa lúpínuna. Maður trúir stundum ekki sínum eigin eyrum og svo er í þessu tilviki. Ég held að það sé full ástæða til að hafa allan vara á öfgaskoðunum, sama hvaðan sem þær berast og um hvaða málefni sem þær snúast.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir nýtt ofurhlaup sem á að fara fram á Norðausturlandi dagana 25. ágúst til 1. september. Það er lagt upp með að vera 250 km langt og er hlaupið á nokkrum dögum. Leiðin verður endanlega ákveðin þegar fer að vora og verður hægt að fara vel um svæðið allt og mæla út leiðir. Það eru erlendir einstaklingar sem vinna með íslenskum ferðaþjónustuaðilum sem standa fyrir þessu. Ég hitti forsvarsmenn hugmyndarinnar og vonandi hlaupsins sl. haust. Það eru menn sem hafa marga fjöruna sopið í þessum málum og vita hvað þetta gengur út á. Þetta er stórt prósjekt sem þarf töluverðan mannskap til að framkvæma og standa að. Verið er að ganga frá heimasíðu fyrir hlaupið og opinber kynning á því mun eiga sér stað innan skamms. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast.

þriðjudagur, janúar 24, 2012

Rolling Stones - Dead Flowers - Live '95 Amsterdam

Aníta Hinriksdóttir kemur í mark á glæsilegu íslandsmeti á RIG leikunum



Saga frá því um 1970 kemur stundum upp í hugann þegar verið er að tala um nauðsyn þess að taka upp nýjan gjaldmiðil. Þá hafði einhver stórpopparinn farið til London, líklega í Carnaby Street, og dressað sig myndarlega upp. Þegar hann stóð svo á sviðinu á næsta dansleik, uppskveraður, þótti hann heldur betur hafa skipt um ham. Björgvin Halldórsson stórsöngvari var þarna nærstaddur, hreifst ekkert sérstaklega en sagði: "Nýr jakki, sama rödd."

Í umræðu um hve krónan sé hraksmánarlega léleg og því knýjandi nauðsyn á að taka upp annan gjaldmiðil þá er eins og það gleymist gjarna að það hangir meira á spýtunni. Það má segja að árinni kennir illur ræðari. Það skiptir nefnilega afskaplega litlu máli um heilbrigði efnahagslífsins þótt tekinn verði upp nýr gjaldmiðill ef vinnubrögð breytast ekki við stjórnun efnahagsmála, agi vex og fagmennska styrkist. Það má segja að það hafi verið þokkalegt skikk á málunum þegar AGS sat nálægt stýrinu en strax að þeim gengnum fóru lausatök vaxandi. Ég veit ekki betur en Spánn, Portúgal, Ítalía, Grikkland og Írland séu öll með Evru. Engu að síður er allt í hvínandi vandræðum efnahagslega í þessum löndum. Á Spáni er t.d. um 20% atvinnuleysi. Evran er engin trygging fyrir jafnvægi og stöðugleika ef heimavinnan er ekki unnin. Af hverju Svíþjóð og Danmörk hafi haldið sinni mynt? Ætli það sé vegna sérvisku eða ætli þau sjái fram á að það gefi þeim færi á að hafa eitt stýritæki virkt ef nauðsyn krefur? Ég veit það að Finnar dauðöfunda Svíana yfir því að hafa haldið krónunni og hafa þannig möguleika á að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina og dregið á þann hátt úr atvinnuleysi svo dæmi sé nefnt.

Auðvitað er krónan mjög lítill gjaldmiðill og hefur þar af leiðandi marga veikleika en skipting um gjaldmiðil ein og sér er engin lausn ef fleira hangir ekki á spýtunni. Forystumenn ASÍ hafa látið nokkuð að sér kveða í þessari umræðu og haldið þeirri skoðun fram að skipta beri um gjaldmiðil. Equador hefur verið nefnt sem dæmi um land sem hafi tekið upp USA dolla rog gefist vel. Nú þekki ég ekkert til mála í Equador en ég gogglaði landið. Equador er olíuríki og olía er helsti útflutningsatvinnuvegur landsins. Þar var atvinnuleysi 15-17%. Underemployment er 45-50%. Mér finnast þessar staðreyndir ekki alveg passa við íslenskan veruleika.

Krónan hefur kosti og galla. Gallarnir eru óstöðugleiki og að hún er ekki gjaldgeng á erlendum fjármálamörkuðum. Hún kostar. Kosturinn er m.a. sveigjanleikinn. Það er alveg á hreinu að ef við hefðum haft evru eða USD þá væri atvinnuleysi hér miklu hærra en það er í dag. Ætli það væri ekki nær 15%. Spyrja má hvers vegna? Jú, fiskútflutningur hefur styrkt stöðu sína á erlendum mörkuðum eftir hrunið og staða sjávarútvegs hefur styrkst. Staða ferðamannaiðnaðarins hefur styrkst verulega. Staða annarra útflutningsatvinnugreina hefur styrkst. Þetta með meiru hefur meðal annars haft þau áhrif að fleiri hafa vinnu en ella væri.

Baltnesku löndin voru nefnd í Silfri Eglis á sunnudaginn sem dæmi um lönd sem hefðu lægra vaxtastig en Ísland og það var þakkað tengingu við evruna. Mér fannst vanta svör við nokkrum spurningum í þeirri umræðu. Sem dæmi má spyrja hvernig hefur kaupmáttur þróast í Baltnesku löndunum annars vegar á árinum 1998-2010 og á Íslandi hin svegar? Hvernig er atvinnuleysið? hvern ig er lífeyriskerfið. Það má ekki gleyma því að það er lögskylda að miða við 3,5% raunávöxtun hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Að lokum má spyrja hvort flytja fleiri til Íslands frá Balnesku löndunum eða frá Íslandi til þeirra?

Newfoundland, Prince Edward Island og Nova Scotia eru lönd sem við ættum að hafa í huga. Þetta eru lönd sem eru við austurströnd Kanada. Í hverju þeirra búa um 500 - 700 þúsund manns. Þau voru öll sjálfstæð ríki en misstu efnahagslegt og síðan formlegt sjálfstæði á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Eftir það eru þau jaðarhéröð innan Kanada. Það sem olli því að þau misstu sjálfstæði sitt voru meðal annars eftirfarandi þrjú atriði: Landbúnaðarafurðir voru að mestu leyti fluttar inn og því voru þessar þjóðir ekki sjálfbjarga um matvæli. Skipaflotinn var kominn í eigu erlendra aðila og að síðustu höfðu þau tekið upp annan gjaldmiðil. Þannig stóðust þau ekki íslendingum snúning á alþjóðlegum fiskmörkuðum. Því hrundu útflutningstekjur. Það má vel vera að það hafi fleiri faktorar komið til en alla vega er rétt fyrir okkur að skoða það vel hvað þarna gerðist. Staðreynd er að það misstu þrjú smáríki sjálfstæði sitt. Það getur endurtekið sig.

Það er frekar þungt að hlaupa í snjónum. Í góðu veðri er það þó allt í lagi og bara ágætt. Það er erfiðara og tekur meira í. Ég er að trappa mig upp smátt og smátt. Stefni að því að vera kominn á fullt sving í mars. Löppin er orðin ágæt. Ég þarf að sinna teygjum betur en ég hef gert til að liðka mig upp.

miðvikudagur, janúar 11, 2012

Around and Around - The Rolling Stones (HQ) 1964

Ritarinn ábúðarfullur við störf að 100 km hlaupi



Ég sat um daginn fyrri hluta samkomu þegar íþróttamaður ársins var útnefndur. Ég var farinn þegar seinni hlutinn fór fram en horfði á þegar íþróttamenn sérsambandanna tóku á móti viðurkenningum sínum. Þarna var fríður hópur fólks en maður átti erfitt með að átta sig á hver var hver í öllum þessum fjölda. Það hefði mátt standa betur að því að kynna fólkið og afrek þess. Það er einfalt með myndasýningu uppi á vegg um leið og viðkomandi er kallaður fram. Salurinn á Grandhotel er einnig of lítill og þröngur fyrir þessa samkomu.

Nokkur umræða hefur spunnist um valið á íþróttamanni ársins. Ég man ekki til þess að sá íþróttamaður sem kosinn er íþróttamaður ársins hafi ekki verið landsliðsmaður. Nú skil ég Heiðar Helguson vel að taka ekki áhættuna á því á síðustu árum ferils síns að taka ekki áhættuna á því að meiða sig í leikjum sem oft hafa verið leiknir gegn þjóðum sem eru ekki ákaflega hátt skrifaðar. Síðan finnst mér það alveg vera spurning hvort það að standa sig vel með liði sem er á botninum í ensku úrvalsdeildinni eða í B deildinni bresku sé svo stórbrotið afrek að ekkert hafi verið unnið betra af íslendingi á síðasta ári. Það var t.d. afskaplega óheppileg umræða sem fór af stað í sumar að Annie Mist, hemsmeistari í Cross Fitt, skuli ekki hafa verið gjaldgeng í kjöri til íþróttamanns ársins. Það var greinilegt að Magnús Scheving var gleymdur. Þegar hann var kjörinn íþróttamaður ársins eftir að hafa orðið heimsmeistari í þolfimi, sem var mikið afrek, þá dugði það að hann væri meðlimur í fimleikafélagi. Annie Mist er meðlimur í lyftingadeild Ármanns og var sem slík kosin lyftingakona ársins. Hún byggði því á nákvæmlega sömu forsendum og Magnús. Það má spyrja sig hvers vegna hvers vegna leikmenn í sænska fótboltanum eða körfuboltanum eru metnir hærra en Aron Pálmarsson, sem spilaði með besta handboltaliði í heimi í fyrra. Kiel vann alla tila sem hægt var að vinna. Þegar Eiður Smári var á mála hjá Barcelona þá var það metið svo stórkostlegt að enginn annar kom til greina sem íþróttamaður ársins. Þó var nú tæpast hægt að segja að spil Barcelona snerist í kringum Eið. Aron spilar hins vegar það ég best veit sem leikstjórnandi hjá Kiel. Áhrifin af dvölinni hjá Barcelona höfðu síðan þau langtímaáhrif að þau dugðu Eið meir að segja til að vera kosinn annar besti íþróttamaður landsins þegar hann sat á tréverkinu hjá Monaco og spilaði lítið sem ekkert.

Kári Steinn maraþonhlaupari var í 7. eða 8. Að mínu mati var það mikið afrek að hlaupa inn á Ólympíuleikana í sínu fyrsta maraþonhlaupi. Það er miklu meira afrek en flestir geta ímyndað sér. Það er miklu meira afrek að ná þessum árangri í sínu fyrsta hlaupi en ef hann hefði náð þessu takmarki eftir að hafa verið að hlaupa maraþon árum saman. Þótt Kári Steinn hafi náð Ólympíulágmarki með hlaupi sínu í Berlín þá er hann engu að síður í um 900 sæti á heimslista. Það kemur fram á afrekaskrá kvenna í spjótkasti hve útbreiðsla þess er lítil utan Evrópu. Ásdís Hjálmsdóttir er í 28. sæti á Evrópulista en í 41 sæti á heimslista. Hún kastaði rétt yfir Ólympíulágmarkið í fyrra. Það eru sem sagt einungis ca 13 spjótkastarar utan Evrópu sem hafa kastað lengra en Ólympíulágmark. Þannig er þetta allt afstætt.

Það er ánægjulegt að það hefur skapast óvenjumikil umræða um hvernig staðið er að íþróttamanni ársins. Það eru 22 karlar sem velja þennan einstakling. Þar af vinnur um helmingurinn á Stöð 2. Grínmyndir hafa verið teiknaðar af félagsskapnum með fótbolta í höfuðstað sem tilvísun til hve þeir eru boltasæknir. Farið er að tala um hve fáar konur hafa verið valdar íþróttamaður ársins á liðnum áratugum. Það er gott og blessað. Vitaskuld vill maður ekki að karl eða kona verði valin eingöngu vegna kynferðis. Það er hins vegar full ástæða til að skoða samsetningu þess hóps sem útnefnir einstaklinginn og leggjast yfir hvort ekki sé til einhver aðferð betri.

Ég er farinn að hlaupa inni í World Class. Þau Björn og Dísa styðja við bakið á mér með því að leyfa mér að æfa án greiðslu. Þeim bera þakkir fyrir það. Það er mikil munur að geta skroppið þangað inn þegar færð og verður eins og verið hefur undanfarnar vikur.