laugardagur, febrúar 27, 2010

The Rolling Stones - Get Off of My Cloud (1967)

Blágresi

Við Steinn héldum fyrirlestra í Háskólanum í Reykjavík í vikunni. Það var gaman að því og fróðlegt fyrir nemendur að kynnast því hvað ofuríþróttir snúast um. Það kom mörgum á óvart hvað þarf til að koma til að ná árangri á þessu sviði. Markmiðssetning, agi og seigla eru undirstaðan. Mataræðið kemur síðan þar til viðbótar. Ég er viss um að ef ég hefði hlustað á álíka yfirferð á þeirra aldri þá hefði mér aldrei dottið í hug að reyna við þetta, hvað þá að gera tilraun til þess. Ég held að það sé ekki nema rétt einstaka maður undir þrítugu sem er andlega undirbúinn til þess.

Ég sat Ársþing Frjálsíþróttasambandsins í gærkvöldi. Fráfarandi formaður, Ásdís Halla Bragadóttir, fjallaði nokkuð um hlut fjölmiðla. Þegar byrjað var að skera niður hjá RÚV í fyrra voru útsendingar frá frjálsum íþróttum eitt það fyrsta íþróttatengt sem átti að fjúka alveg út. Það kostaði t.d. mikið strögl að ná að halda útsendingum frá Gullmótunum inni þrátt fyrir að þau hafi mikið áhorf. Það t.d. var ekkert sýnt frá Heimsmeistaramótinu þrátt fyrir að við ættum keppendur þar. Útsendingar frá OL í hafa verið mjög fyrirferðarmiklar þrátt fyrir fá ísl. keppendur og vægast sagt slakt gengi. Nú er HM í fótbolta í sumar. RUV ætlar á næstunni að sýna 30 hálftíma þætti um liðin og aðdraganda keppninnar. Þá vantar ekki peningana.

Ég hef keypt DV síðan skömmu fyrir jól. Þá kom eitthvað tilboð og síðan var vitaskuld vonast til þess að maður héngi á áskriftinni af gömlum vana. DV skrifar mikið um hæpið framferði útrásarjöfranna fyrrverandi. Smám saman fór maður að sjá að það vantaði alveg umfjöllun um einn aðaldólginn. Ég hafði hugsað mér um tíma að segja blaðinu upp en ekki komið því í verk. Það leystist af sjálfu nú með helgarblaðinu. Í blaðinu var heillangt grenjuviðtal við gamla kallinn sem átti svo bágt en hafi verið svo góður. Ég lét það vera mitt fyrsta verk að segja blaðinu upp í gærmorgun.

Það lágu 40 km í morgun. Fór út kl. 5:30 og var búinn með hring þegar ég hitti Jóa á brúnni. Fínt veður en færðin hefur veruð betri í morgun.

miðvikudagur, febrúar 24, 2010

The rolling stones-Paint it Black

The rolling stones-Paint it Black

Hjálmar skorar gott mark af línunni

Ég hef verið heldur latur við að blogga að undanförnu. Maður má ekki gera þetta af einhverri ímyndaðri kvöð heldur af því að maður hefur gaman af því. Það hefur verið verið ýmislegt að gera á kvöldin og þá vill þetta mæta afgangi. Ég hef mætt á nokkra fundi að undanförnu og spjallað um mína sýn á hvernig maður nær árangri og hvaða hlutverk mataræðið spilar í þessu samhengi. Þetta hefur verið mjög gaman og miklar umræður sem spinnast upp í kringum þetta. Sumir koma fyrst og fremst til að sjá þetta fyrirbæri og verða svolítið hissa þegar á ferðinni er bara venjulegur maður. Við Steinn vorum niður í Háskóla Reykjavíkur í dag og spjölluðum við nemendur á íþróttafræðibraut. Það er svolítið gaman af því að koma þarna sem maður hátt á sextugsaldri og ganga fram af afreksfólki hvað varðar æfingaálag og viðfangsefni. Vonandi verður þetta krökkunum einhver hvatning.

Það var falleg kveðjan sem Viðskiptaráð fékk í Fréttablaðinu í vikunni eftir Viðskiptaþing. Bæði fékk Viðskiptaþing þau skilaboð að það mætti aldrei þrífast. Einnig fékk forsætisráðherra meldingar útaf þátttöku hennar í fundinum. Að þessi afstaða stæði í einhverju samhengi við útkomu ákveðinna manna í kosningum til stjórnar og varastjórnar Viðskiptaráðs dettur varla nokkrum í hug eða hvað? Ég minnist þess að fyrir rúmu ári síðan var nokkuð rætt og skrifað um að varasamt gæti verið hvernig ákvarðanir væru um skipan mála eftir að bankarnir hefðu yfirtekið fyrirtæki og ætluðu að koma þeim í rekstur á nýjan leik. Þau viðvörunarorð virðast hafa ræst. Augu manna eru að opnast fyrir ýmsu gagnrýniverðu og stjórnvöld eiga erfitt með að réttlæta ýmsar ákvarðanir sem eru á þeirra ábyrgð.

Ég hef haldið kúrs frá áramótum með að hlaupa sem svarar tveimur maraþonum í hverri viku plú allt annað. Það hefur gengið vel upp til þessa enda veðrið verið gott. Ég er þó ekki að hlaupa neitt mjög mikið enda nokkuð langt í næsta alvöru hlaup. Engu að síður er ég að hlaupa meir í þessum rólegu mánuðum heldur en ég gerði í mestu álagsmánuðunum fyrir fimm árum síðan þegar ég var að búa mig undir Western States hlaupið. Svona getur þetta breyst. Það er allt afstætt í þessu sambandi.

Ég hef selt dálítið af bókinni minni að undanförnu. Hún mjatlast út enda á lækkuðu verði. Þegar útgáfan er sloppin fyrir vindinn er meginmálið er að koma sem mestu út. Ég er alltaf að hitta fólk sem hefur rennt í gegnum hana og haft heldur gaman af.

miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Rolling Stones - Miss You

Við Haukur að klifra í klettunum fyrir ofan bæinn

Það lá við að enn ein tragedian ætti sér stað á Langjökli um helgina. Það var ætt á jökulinn undir mjög vonda veðurspá. Ég horfði á spána á föstudagskvöldið og það er alveg á hreinu að ég hefði gert allt annað þá um helgina en að fara í jöklaferð. Það var náttúrulega ekkert annað en stórmildi að þarna varð ekki dauðaslys sem eingöngu má rekja til mannlegra þátta. Það er greinilega eitt að vera duglegur á fjöllum og góður prívat og persónulega við erfiðar aðstæður en annað að halda utan um hóp af óvönu fólki við erfiðustu aðstæður. Það er ekker teinkamál viðkomandi fyrirtækis að svona aðstæður komi upp. Það varðar alla þá sem eru í þessum rekstri. Maður getur rétt ímyndað sér fólk sem fer í svona ferð sem á að vera ánægjuleg upplifun en snýst í augabragði í raunverulega baráttu upp á líf og dauða. Það er allt annað fyrir vana menn að keyra við erfiðar aðstæður eða fólk sem kannske hefur aldrei lent í neinu af þessu tagi. Maður veit aldrei hvernig óvant fólk bregst við aðstæðum eins og þarna voru og því meiri ástæða er til að hafa öll öryggisatriði á hreinu. Fyrirtæki sem stunda rekstur eins og að fara með fólk í atvinnuskyni inná hállendið að vetrarlagi eiga að vera leyfisskyld. Þau eiga að vinna eftir gæðahandbókum sem mega ekki vera heimakokkaðar heldur staðlaðar. Þau verða að hafa besta fáanlegan öryggisbúnað. Þau eiga að hafa tryggingar til að kosta aðgerðir eins og þá sem fór fram á sunnudaginn. Svona útkall með 300 mönnum, tugum ökutækja, þyrlu og ég veit ekki hvað kostar tugi milljóna. Þegar ég hljóp til Akureyrar í sumar var ég með sendi á mér sem heitir Depill. hann sýnid með GPS nákvæmni hvar ég var staddur hverju sinni. Á honum er sérstakur SOS hnappur. Svona tæki á að vera skyldubúnaður í jöklaferðum.

Það vakti athygli mína hve fljótt fyrirtækið fór að gera vart við sig á bloggsíðum daginn eftir. Þeir vildu greinilega reyna að hafa áhrif á umræðuna sem vitaskuld varð bæði nokkuð mikil og hörð. Ýmislegt í því vakti athygli mína sem benti til þess að ýmislegt væri ekki sem skyldi. Það kom fram að norska veðursíðan, www.yr.no, væri betri en veðurstofan íslenska meðal annars vegna þess að sú norska hefði svo margar veðurathugunarstöðvar í kringum Langjökul. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra því haldið fram að norskur veðurvefur hefði komið upp fjölda veðurathugunarstöðva í kringum Langjökul af öllum stöðum sem þeir hefðu síðan gagn af umfram veðurstofuna. Auðvitað var það síðan bara argasta steypa. Sú norska hafði einungis sett nokkur nöfn inn á svæðið í kringum Langjökul og einhverjir héldu að það þýddi veðurathugunarstöðvar. Það skal enginn segja mér að menn sem halda svona vitleysu fram séu mjög mikið inn í veðri eða veðurspám.

Annað var einnig athyglisvert hve hörð viðbrögð þeir fengu sem höfðu skoðanir á atburðinum en voru ekki viðstaddir. Þeir voru kallaðir sófasérfræðingar og ég veit ekki hvað. Undirritaður er sjálfsagt einn í þerra hópi. Sýslumaðurinn á Selfossi, sem kvaðst ætla að rannsaka málið, var kallaður fífl og sagt að sofa áfram fram á borðið. Svona lagaður talsmáti er ekki neinum til framdráttar. Það er á hreinu að þegar farið er með fólk upp á fjöll og inn í óbyggðir á veturna þá verður að gera stífar öryggiskröfur. Það á að bera mikla virðingu fyrir náttúruöflunum og því að þarna geta mannslíf legið við. Það á ekki að vera sjálfsagt mál að jöklaferðir kosti mannslíf nokkuð reglulega og miklu oftar liggur við að stórslys verði.

Ég fór á fund í Setbergsskóla í Hafnarfirði í kvöld. Þar er búið að stofna hlaupahóp og það voru nokkrir tugir áhugasamra hlaupara mættir. Steinn garpur heldur utan um þetta með frjálsíþróttadeild FH. Ég spjallaði um ýmsa hluti sem gætu verið gagnlegir fyrir fólk sem er að byrja á þessum nótum. Síðan kom Daníel Smári til skjalanna og ræddi um skó, hlaupagreiningu og ýmislegt sem getur orsakað hlaupameiðsl. Þetta var fínn fundur og skemmtilegar umræður. Ég er bókaður á eina fjóra fundi til viðbótar næsta mánuðinn. Það er allt frá hlaupahópum til stórfyrirtækja. Það er ánægjulegt að geta miðlað smá af þeirri reynslu sem maður hefur byggt upp á liðnum árum. Huglægir hlutir stækka eftir því sem þeim er deilt með fleirum á meðan efnislegir hlutir smækka eftir því sem fleiri deila þeim með sér.

Norðurljósin voru flott yfir borginni í kvöld. Það eru liðin tvö ár síðan ég sá norðurljós síðast héðan af hlaðinu. Sólstormarnir hafa verið daufir síðustu tvö ár og þá eru norðurljósin heldur slök. Fregnir berast af því að það standi til bóta.

laugardagur, febrúar 13, 2010

Waiting On A Friend

Baujur teknar inn á Jóni Þórðarsyni fyrir rétt um 30 árum

Ég tek hattinn ofan fyrir skólayfirvöldum í Tækniskóla Íslands að láta fara fram dóprassíu í skólanum. Vafalaust hefur orðrómur þess efnis að dóp væri í meðferð innan skólans verið orðinn svo hávær að ekki var annað í stöðunni en að láta fara fram alvöru rassíu. Hún er gerð bæði til þess að ganga úr skugga um hvort einhverjir væru með dóp á sér innan skólans og í öðru lagi er í þessu falinn fælingarmáttur. Vitaskuld fóru einhverjir að væla yfir þessu. Lagatæknar fóru að tala um persónufrelsi. Blaðamaður á Mogganum fór að vitna í hneikslunartóni í álíka rassíu í skóla í Bandaríkjunum þar sem vopnaðar löggur hefðu verið á ferðinni. Hann gleymdi náttúrulega að geta þess að meiri líkur en minni eru á því að einhver nemenda í skólanum sé með byssu í fórum sínum. Ég myndi taka því fagnandi að svona rassía væri gerð í skólum sem krakkarnir mínir væru í. Sá sem ekkert hefur að fela hefur engu að kvíða í svona tilfellum. Samkvæmt blöðum sýndu hundarnir 12 nemendum sérstaka athygli. Mér finnst það bara vera þónokkuð.
Ég tek einnig hattinn ofan fyrir dómsmálaráðherra sem berst með kjafti og klóm fyrir því að banna Hells Angels á Íslandi.

Samkvæmt ritúalinu þá hefði ég átt að eignast hús á árunum milli 1970 og 1980. Á árunum fram að 1978 borguðu menn svona 1/3 af þeim kostnaði sem það kostaði að reisa sér hús. Hitt brann upp í verðbólgunni vegna neikvæðra vaxta sem þýddi að sparifjáreigendur borguðu brúsann. Ég byggði ekki hús en segjum að ég hafi gert það. Ég hefði síðan búið í húsinu fram á síðustu ár. Þá hefði ég selt húsið fyrir góða fjárhæð í verðbólunni og keypt mér annað stærra og dýrara. Ég hefði skuldsett mig til að kaupa stóra húsið sem væri stærra en svo að ég nýtti það sjálfur. Því eru tvö herbergi leigð út þar sem mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði nú sem stendur. Það fólk sem leigir eru einstaklingar sem hafa ekki efni á að byggja sér sjálfir eða hafa farið illa út úr efnahagshruninu.
Nú vill svo til að það fer að bera á umræðu um að ég sé ekkert annað en bölvaður þjóðníðingur. Ég hafi eignast hús sem ég hafi ekki borgað nema að hluta til. Síðan hafi ég selt húsið sem ég hafi fengið allt að því gefins og ofan í kaupið skuldsett mig til að kaupa annað hús enn stærra sem ég leigi síðan að hluta til fólki sem vill eignast hús en geti það ekki. Því segja margir að það sé ótvírætt réttlæti að húsið verði tekið af mér þar sem ég hafi aldrei borgað fyrir það. Almenningur hafi borgað húsið að stærstum hluta til gegnum verðrýrnum krónunnar á sínum tíma þótt ég þykist eiga það. Því eigi ríkið að fá leiguna fyrir þau herbergi sem ég leigi út en ekki ég sjálfur. En af því að ríkið er nú ekki alvont þá verði þetta gert smátt og smátt svo ég verði mjög lítið var við það. Síðan eru sett lög þessa efnis og til mín koma menn sem tilkynna mér það að fremsta herbergið á neðri hæðinni verði gert upptækt af ríkinu og ríkið muni leigja það sjálft út. Ég missi því leigutekjurnar af því og fólk flytur inn sem ég ræð engu um. Á næsta ári verður miðherbergið tekið á sama hátt og þriðja árið fylgir innsta herbergið á eftir. Fjórða árið á að taka eitt hverbergi á efri hæðinni þar sem ég bý. Ég vil ekki fólk inn á mig á efri hæðinni svo ég býð hærri leigu fyrir herbergið en ríkið fengi á almennum markaði. Síðan fylgja hin herbergin á eftir þar til ríkið hefur tekið öll herbergið yfir nema svefnherbergið og eitt annað sem er metið svo að það sé nóg fyrir mig. Staðan er sem sagt svo að ég er búinn að missa leigutekjurnar alfarið af neðri hæðinni, ég borga leigutekjur til ríkisins fyrir efri hæðina en ég skulda enn helling í íbúðinni sem ég ræð ekki við að borga. Ég reyni að selja húsið en að er ekki markaðsvara lengur þar sem það er komið í umsjón ríkisins sem leigir það út. Endirinn er sá að ég verð gjaldþrota og á ekkert hús.

Var einhver að tala um fyrningarleið í sjávarútvegi?

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Rolling Stones - Start Me Up

Engin er rós án þyrna

Ég sá í norsku blöðunum nýlega að það þótti fréttnæmt að pólskum krimma sem dæmdur var í 18 mánuða fangelsi fyrir einhvern skálkahátt var sleppt eftir 15 mánuði. Það var gert af manngæsku þar sem pólverjinn talaði einungis pólsku og gat ekkert samlagast öðrum krimmum í fangelsinu. Honum leiddist svo svakalega að norðmenn slepptu honum af góðmennsku fyrir tímann. Hérlendis þykir tíðindum sæta ef dæmdir menn sitja inni allann tímann. Helst eru það þrjótar sem hafa stundað skjalafals eða fjársvik. En delum sem slasa fólk, ræna það og selja dóp er yfirleitt sleppt vel fyrir tilskilinn tíma. Það er þetta dularfulla annað dómsstig sem heitir náðunarnefnd sem fúnkerar vel bakvið tjöldin. Ég sé líka að norðmenn sippa þessum þjófagengjum frá Austur Evrópu, sem koma gagngert til landsins til að stela, beint úr landi aftur og banna þeim að koma aftur.

Það var dálítil upplifun í kvöld að sjá að sjónvarpið hafði mætt upp í Árbæ í kvöld og myndað Poweratehlaupið. Batnandi mönnum er best að lifa. Ég held að það sé ekki lakari frétt en margt annað sem fréttnæmt þykir að fleiri hundruð manna koma saman einu sinni í mánuði við Árbæjarlaugina og hlaupa tíu kílómetra hring í vetrarmyrkrinu. Yfirleitt hefur tölvupóstum sem sendir hafa verið íþróttadeild ríkissjónvarpsins verið eytt óopnuðum þegar félag maraþonhlaupara hefur sent tilkynningu um vor- eða haustmaraþon. Það er eitthvað annað uppi á teningunum þegar einhver er að mótmæla. Það þarf varla fleiri en tvö til þrjá sem koma saman og tuða eitthvað að þá er RUV mætt á staðinn. Vandlega er síðan tíundað yfir hverju er verið að hvarta. Síðast voru krakkar í FB að kvarta yfir því að fá ekki að halda árshátíð skólans austur á Selfossi og gista á hótelinu um nóttina. Skólayfirvöld hafa vafalaust verið búin að fá yfir sig nóg af ruglinu sem viðgengst á svona ferðalögum svo þau settu einfaldlega bann á þessa tegund árshátíðar. Þá fóru krakkarnir að tuða og sjónvarpið mætti á staðinn um leið.

Veðrið í vetur hefur verið mestan part alveg ótrúlegt til allra hluta nema skíðaiðkunar. Nú er vorveður á morgnana þegar maður fer út. Milt, logn og hlaupaveður eins og best gerist.

Jói og félagar í 2. fl. Víkings spiluðu við jafnaldra sína Í ÍR í kvöld. Ekki gekk allt sem skyldi og niðurstaðan var tap með tveggja marka mun. Víkingar voru fáliðaðir og sömu strákarnir spiluðu allann tímann án þess að fá áðra hvíld en þegar þeir voru reknir út af. Þeir hafa spilað þétt að undanförnu og fyrir suma þeirra þá var þetta fimmti leikurinn á átta dögum. Margir strákanna í 2. flokk spila einnig meir eða minna með meistaraflokk. Jói hefur tekið skref fram á við að undanförnu og er farinn að skora meir en áður. Ellefu lágu í netinu hjá honum í kvöld. Samt var hann ekki ánægður.

sunnudagur, febrúar 07, 2010

The Rolling Stones "Satisfaction"

Helga Margrét vann besta afrek kvenna á MÍ innanhúss

Helgin hefur verið nokkuð stíf hjá mér og mörgum öðrum. Ármenningar sáu um framkvæmd meistaramóts í frjálsum innanhúss með góðri aðstoð Fjölnismanna. Það var keppt frá miðmorgni fram á síðdegi báða daga. María er meidd svo hún keppti ekki að sinni. Síðan kepptu Jói og félagar í 2. fl. Víkings við Akureyringa í hádeginu á laugardaginn. Þeir höfðu sigur eftir sveiflukenndan leik. Í fyrri hálfleik léku þeir við hvern sinn fingur og leiddu með átta marka mun í hálfleik. Akureyringar náðu vopnum sínum í seinni hálfleik en vantaði herslumuninn svo Víkingar fóru með sigur af hólmi með 2ja marka mun. Jói hefur sprungið út í síðustu leikjum og hefur verið markhæsti maður hjá 2. fl. og meistaraflokki þrjá leiki í röð.
Til að fá allt til að ganga upp þá þurfti ég að byrja daginn að snemma að mitt plan gengi upp. Því vaknaði ég kl. 5:00 báða morgna og var kominn út kl. 5:30. Ég náði 40 km hvor morgun svo allt gekk upp. Veðrið er alveg eins gott og hægt er að hugsa sér á þorranum, logn og hiti um frostmark. Það gerist varla betra en að vera einn úti og rúlla áfram í myrkrinu við þessar aðstæður.

Maður skilur hreint ekki hvernig kaupin eiga að gerast á eyrinni. Nóg er nú komið. Nú á að afhenda Jóa í Bónus og öllu hans slekti Baug aftur á silfurfati. Aðilar sem eiga um 25% af hlutafé í opnu almenningshlutafélagi ræður öllu sem þörf er á að ráða. Það er ekki nema von að Jói sé glaður. Sonurinn er hafður í felum og sést ekki heldur er sá gamli látinn virka eins og gamall og góður jólasveinns gott gerandi og gjafir færandi til bágstaddra. Við þá ákvörðun Arion banka í málefnum Baugs sem kynnt var nýlega er margt að athuga. Baugur var slíkt risaveldi í viðskiptalífinu að í öllum þeim löndum sem á að búa við virkt samkeppnisumhverfi hefði verið búið að skipta félaginu upp, slíka yfirburði sem það hefur. Fyrirtækið hefur ráð allra þeirra birgja sem það skiptir við í vasanum. Í öðru lagi hefur varla neitt fyrirtæki verið skuldsett eins mikið á liðnum árum eins og Baugur og vart hefur verið afskrifað eins af skuldum hjá nokkrum aðila eins og hjá því. Engu að síður segir Arion banki að þeir sem voru í forsvari fyrir fyrirtækið séu þeir hæfustu til að reka það áfram. Hvaða bull er þetta? Eins og það sé einhver geimvísindi að reka matvöru- og tuskubúðir. Málið er að í fyrsta lagi er fyrirtækið alltof ráðandi í viðskiptalífinu og í öðru lagi er fullreynt að ákveðnum aðilum er ekki treystandi. Svo er rætt um sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut að fyrirtækið fái fjármuni lífeyrissjóðanna til að leika sér með í framtíðinni. Ég hef lengi sagt að maður hafi ekki alltaf haft neitt svakalega mikla peninga milli handanna og það er ekkert nýtt að þurfa að fara vel með en ef sama gamla drullumakeríið á að ráða lögum og lofum hér áfram og það fyrir opnum tjöldum så er det en helt anden sak.

Gömul vinkona okkar frá Uppsalaárunum hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær. Það var gaman að koma þangað og hitta gamla félaga aftur. Það var fínt að vera í Uppsölum hér í denn tíð og þar mynduðust vinabönd sem halda býsna vel. Það var eflingsfók við nám þarna á sínum tíma og margir hafa getið sér gott orð á ýmsan hátt og spjarað sig vel. Systir afmælisbarnsins rifjaði upp ýmislegt frá liðinni tíð. Meðal annars upplýsti hún að einn kærasti systur sinnar hefði fengið að fjúka fyrir að passa opnunarsögnina eitt lauf í Bridge. Það eru til hlutir sem maður gerir bara alls ekki!!!

miðvikudagur, febrúar 03, 2010

Rolling Stones - Honky Tonk Woman (Live in Hyde Park 1969)

Frá Fáskrúðsfirði

Nýlega úthlutaði framkvæmdastjórn ÍSÍ styrkjum úr Afrekssjóði. Samtals voru 45 milljónir til ráðstöfunar úr sjóðnum. Af þessari upphæð hlaut HSÍ langstærsta styrkinn vegna þátttöku landsliðsins í Evrópumeistaramótinu sem er nýafstaðið. Sömuleiðis hlaut KSÍ háan styrk vegna þátttöku kvennalandsliðsins í úrslitakeppni EM í kvennaknattspyrnu. Frjálsíþróttasambandið fékk rúma milljón króna vegna landsliðsverkefna og er það um helmingi lægri fjárhæð en í fyrra. Eftir frækilegan árangur handboltalandsliðsins á Evrópumótinu afhenti forsætisráðherra HSÍ síðan tíu milljónir til viðbótar vegna góðs árangurs. Nú er ég ekki að draga úr því að handbltalandsliðið fái mikinn sóma vegna góðrar frammistöðu, þeir eiga það allt skilið. Kvennalandsliðið í knattspyrnu á skilið mikinn sóma fyrir að komast í lokakeppnina sem er í fyrsta sinn sem ílenskt landslið í knattspyrnu nær svo langt. Árangurinn í keppninni sjálfri var hins vegar ekki sá sem stefnt var að. Þegar maður horfir á útsendingar frá þessum keppnum þá sér maður að það er mikill fjöldi aðstoðarmanna með liðunum og vitaskuld verður svo að vera. Það þarf allt að ganga upp til að mögulegt sé að ná þeim árangri sem stefnt er að. Ég veit ekkert um hvero liðin eru betur eða lakar mönnuð en önnur sem þau keppa við en alla vega þarf að gera það sem hægt er til að mikill undirbúningur skili sér þegar á hólminn er komið.

Mér finnst rétt að minnast á þetta þegar staða frjálsra íþrótta er borin saman við stöðu þessara íþróttagreina. Þegar Helga Margrét og Einar Daði tóku þátt fjölþraut í Evrópumeistaramóti unglinga á síðasta ári þá fóru þau út með einn þjálfara með sér. Það var enginn nuddari með í för, enginn sjúkraþjálfari eða neinn annar faglegur aðstoðarmaður en þjálfarinn. Helga Margrét var ekki neinn venjulegur þátttakandi í mótinu heldur átti hún besta árangur í Evrópu í grein sinni. Hún var komin með aðra hendina á Evrópumeistaratitlinum þegar hún meiðist og fellur úr keppni. Keppni í fjölþraut þýðir að tekið er á til hins ítrasta klukkutímum saman í tvo daga samfleitt. Það er miklu erfiðara en að spila einn fótboltaleik. Því er ekki síður nauðsynlegt að hafa einhvern til staðar til að mýkja auma vöðva milli daga í slíkri keppni. Þegar Helga Margrét meiðist þá eru það læknarnir í sænska hópnum sem komu henni og þjálfaranum til aðstoðar. Fyrir utan alla nuddarana og sjúkraþjálfarana sem voru með í sænska hópnum þá voru þeir með lækna með sér. Ef við viljum að okkar frjálsíþróttafólk nái að sína sitt besta á stærstu mótum á erlendum vettvangi ekki síður en aðrir þá verður að búa þeim lágmarksaðstæður. Þegar íslenskir frjálsíþróttamenn eru valdir til að keppa erlendis fyrir hönd landsins þá verða fjárvana félög síðan að greiða með keppendum. Á meðan RUV greiðir stórar fjárhæðir til boltagreinanna fyrir beinar útsendingar þá þarf FRÍ að borga RUV fyrir að fá beina útsendingu frá frjálsíþróttamóti einu sinni á ári. Þeir peningar verða ekki notaðir til að senda nuddara með keppendum á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum.

Það var áhugaverð umræðan um daginn um þörf skólakrakka fyrir hreyfingu. Loksins er farið að tala um að hreyfiþörf krakka er mikil og hreyfing er þeim nauðsynleg. Ég hef séð það á liðnum árum að þörfin fyrir hreyfingu er stórlega vanmetin í skólakerfinu. Oft eru krakkarnir parrakaðir inni í tvær kennslustundir samfleytt eða í 2 x 40 mínútur með því að hafa tvær samliggjandi kennslustundir í sömu námsgrein. Það er gert til að minnka tímann sem fer í að láta krakkana fara inn og út og til að skólinn verði fyrr búinn á daginn. Þó það sé vafalaust ekki marktækt lengur þá var það ófrávíkjanleg regla að það var kennt í 45 mínútur og útifrímínútur í 15 mínútur þegar ég var í grunnskóla. Maður veit það þegar maður heldur fyrirlestur að fullorðið fólk er farið að ókyrrast eftir 40 - 50 mínútur og er farið að tala um að það þurfi að fara í kaffi. Hvað þá ungir krakkar í 2 x 40 mínútur.

Asics hópurinn kom saman niður við frjálsíþróttahöll í eftirmiðdaginn og það voru teknar myndir af hópnum. Það er fínt að vera hluti af svona góðum hópi og það hvetur til dáða.

Ég fékk tölvupóst í dag frá konu sem býr í London. Hún og vinkona hennar eru að stofna ferðaskrifstofu og ætla sér meðal annars að markaððsetja Ísland í Bretlandi sem tilvalið land til að iðka utanvegahlaup. Hitinn er hæfilegur og landið er fagurt og frítt. Þetta er fín hugmynd því áhugi fyrir utanvegahlaupum er mikill í Bretlandi og fólk er alltaf tilbúið að reyna eitthvað nýtt. Þetta minnir mann á hve mikil nauðsyn það er að hafa eina sameiginlega vefsíðu þar sem utanvegahlaup á Íslandi eru kynnt. Þar þurfa að koma fram lágmarks upplýsingar s.s. dagsetning, myndir, staðsetning og vegalengd. Norðmenn gera svona fyrir sín ultrahlaup svo það þarf ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Við verðum að skerpa okkur ef við viljum ná árangri í því að fá erlenda hlaupara til landsins.