föstudagur, mars 31, 2006

Aðalritari FM góðum gír með góðan stuðning

  Posted by Picasa
Fór Poweratehringinn, Breiðholtshattinn og Grensássvegsslaufuna í eftirmiðdaginn í gær. Þetta var einn af þessum dögum sem er gaman að hlaupa. Það var hlýtt, golan hæfileg, brekkurnar liðu hjá, hraðinn var ásættanlegur og niður lungnanna eins og í nýjum átta strokka fjallajeppa.

Hitti Svan á leiðinni. Hann bar sig vel og sagðist ekki kenna sér neins meins í hnénu eftir maraþonið. Það er ánægjulegt því aðgerðir eru aðgerðir og ætíð nokkur óvissa hvernig útkoman verður.

Í gær féll dómur í máli forsvarsmanna Frjálsar fjölmiðlunar. Dómurinn var nokkuð þungur. Þegar maður ber saman umræðu um mál sakborninga í þessu máli og síðan umræðuna í krinum annað mál allstórt sem hefur verið á döfinni að undanförnu þá er nokkur munur á hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um málefni sakborninga í þessm tveimur málum. Það hefur til dæmis ekkert verið rætt um að málaferlin gagnvart þeim sem voru ákværðið í máli Frjálsar fjölmiðlunar hafi verið þungbær gagnvart fjölskyldum þeirra. Það hefur ekki verið gerð nein skoðanakönnun í fjölmiðlum um hvort eigi að fella málaferlin gegn þeim niður, enda hafa þeir í Frjálsri fjölmiðlun heitinni ekki gefið Barnaspítala Hringsins 300 milljónir króna. Það hafa ekki verið löng drottningaviðtöl við þessa sakborninga í fjölmiðlum þar sem þeir hafa af mikilli smekkvísi úthúðað ákæruvaldinu um léleg vinnubrögð og fúsk.

Í réttarríki er það eina sem maður getur farið fram á að þessir sakborningar eins og aðrir sakborningar verði meðhöndlaðir af réttvísi og verði dæmdir á sanngjarnan hátt samkvæmt laganna bókstaf. Svo á einnig við um aðra sakborninga, hvort sem þeir eru milljarðamæringar eða ekki.

Í kvæðinu Grettisbæli eftir Einar Ben kemur fyrir ljóðlínan "Sekur er sá einn sem tapar" Það er vonandi að það sannist ekki einn ganginn til.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Finnskur hnífakaupmaður í Helsinki

  Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gærkvöldi. Fór á GPS námskeið í Útivist til að rifja upp gamla þekkingu. Ég hef farið áður á svona námskeið og mér fannst vera full ástæða til að rifja upp helstu undirstöðuatriði. Það er ýmislegt sem er hægt að gera til hægindaauka áður en lagt er af stað í gönguferð og einnig í gönguferðinni ef maður hefur undirbúið sig áður. GPS inn er góður enda þót ekki sé rétt að treysta alfarið á hann. Ég man t.d. eftir því í hitteðfyrra þegar ég fór ásamt nokkrum félögum austur í Núpsstaðaskóg og dvöldum þar nokkra daga í góðu veðri og enn betra yfirlæti. Síðasta daginn gengum við á Lómagnúp. Það er auðveld og skemmtilega ganga og ekki skemmir fyirr að hafa gott útsýni. Það var því miður ekki hjá okkur þennan dag. Meðan vi gengum bak við hann og síðan út eftir þá var skýin að reka yfir og síðan þegar við komum að einni ágætri vörðu þá var komin niðaþoka. Við höfðum sem betur fer tekið punkta af og til á leiðinni út eftir fjallinu. Ég vildi ekki villast uppi á Lómagnúp í þoku. Síðan þegar við förum til baka þá göngum við beint af stað í þá átt sem okkur fannst að við hefðum komið úr. Einum okkar datt í hug að líta á GPS inn og hann sýndi stefnu sem var eitthvað mjög skrítin. Um stund togaðist í manni hvort maður ætti að treysta skynfærunum eða tækinu og að lokum náði skynsemin yfirhöndinni og við ákváðum að treysta á tækið. Við gengum til baka að vörðunni og tókum stefnuna á nýjan leik og sáum að við höfðum gengið í kolvitlausa átt í þokunni. Líklega hefðum við endað beint út á hlið sem er ekki beint hollt í þoku.

Nokkur umræða hefur skapast að undanförnu í fréttum og spjallsíðum um karlakvöld KR þar sem dansmeyjar voru fengnar til að ganga um salinn í fótboltaskyrtum sem boðnar voru upp. Þegar hæsta boði hafði verið tekið fóru þær úr skyrtunni og afhentu viðkomandi og gengu síðan burt. Í ljós km að þær voru ekki í neinu innan undir skyrtunni nema nærbuxum. Þetta hefur valdið töluverðri taugaveiklun á ýmsum stöðum, feministafélagið kom náttúrulega í sjónvarpið og fordæmdi uppákomuna oþ.s.frv. Nú ætla ég ekki að taka afstöðu til þessa dagskrárliðar, mér kemur hann bara ekki við en vildi þó minna á að áfengi og íþróttir eru yfirleitt ekki taldar fara saman en þó sér enginn athugavert við að áfengi sé selt í húsnæði íþróttafélaga á samkomum eins og þessari.

Það er annaðsem mér finnst aftur á móti athyglisverðara í tengslum við þetta. Í umræðu um svona mál fara konur oft að tala um þetta sem dæmi um að karlar niðurlægi konur á þennan hátt. Það er einnig minnst á mannsal og mannlega neyð og annað því tengt. Það virðist hins vegar oft gleymast að á kvennakvöldum magnast fjörið í hæstu hæðir þegar strákar koma fram og strippa. Þá eru sko ekki neinar nærbuxnagöngur gúdderaðar heldur skal þar farið úr öllu og allt sýnt sem sjáanlegt er. Í tengslum við slíka viðburði talar enginn um niðurlægingu karla, mannsal og mannlega neyð eða annað því tengt. Hver er munurinn?

Og í annan stað, þá er mér svo nákvæmlega sama þótt einhverjir strákar séu að fara úr öllu fyrir framan æpandi kellingahóp. Það hreinlega snertir mig ekki og engan annan karlmann sem ég hef heyrt minnast á það. Því skyldi þá konum finnast það vera sem svo að karlar sé að niðurlægja kynsystur þeirra og jafnvel kvenkynið yfir höfuð á uppákomum eins og á karlakvöldum KR?

Er einhver tvískinnungur í umræðunni?

Sá að félagi Halldór Guðmundsson er búinn að skrá sig í Odense 100 km. Flott hjá Halldóri. Nú þarf Eiður bara að fara póstleggja bréfið.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hér eru vafalaust margir efnilegir ultrahlauparar

  Posted by Picasa
Bjó mig vel í gærkvöldi og fór í Elliðaárdalinn. Þar var náttúrulega fínt veður og rétt þægileg gola. Tók Ártúnsbrekkuna tvisvar frá beygju og upp að stíflu og skokkaði svo rólega niður til baka. Planið er að fjölga ferðunum upp í fimm á næstunni og halda því. Fór síðan hring í hólmanum og prufaði höfuðljósið sem ég keypti hjá Daníel Smára á útsölunni. Var ekki alveg ánægður með ljósmagnið en það kannski venst. Kom heim eftir klukkutímatúr.

Fjölskyldan hefur setið við undanfarin föstudagskvöld og horft á Idolið. Maður sér núorðið sárlega eftir hverjum sem verður að fara því þau eru öll það góð. Að mínu viti datt sú besta í hópnum, Ragnheiður Sara, út á síðasta föstudag. Það er magnað hvað ungir krakkar niður í sautján ára gamlir eru orðnir góðir og hafa náð miklu valdi á röddinni. Til samanburðar er aðeins kíkt á það bandaríska. Ég verð nú að segja að ég sé ekki ofboðslega mikinn mun á gæðum söngvaranna og sumir þeirra bandarísku eru frekar slakir þegar þeir eru bornir saman við íslensku krakkana.

Á ársþingi sænska frjálsíþróttasambandsins sem haldið var nýlega í Sollentuna var borin upp tillaga um að mynda fastanefnd innan sambandsins sem skal bera ábyrgð á að framkvæma, þróa og staðla sænsk ultrahlaup.

Tillagan sem lög var fram á þinginu hljóðar sem hér segir:
1. Nefnd skal starfa fram að næsta ársþingi sem skal skila skýrslu um á hvern hátt ultrahlaup í Svíþjóð skuli tengjast Frjálsíþróttasambandinu
2. Hlutverk nefndarinnar á árinu skal vera að vinna að framkvæmd, þróun og stöðlun sænskra ultrahlaupa á eftirfarandi hátt:
2.a. Stuðla að því að halda saman tölfræði um árangur í greininni og skrá sænsk met sem verði fastur liður í tölfræði frjálsíþróttasambandsins
2.b. Leggja fram tillögur um sænsk meistaramót (6 tíma, 100 km, 24 tíma hlaup)
2.c. Leggja fram tillögur um þátttöku í alþjóðlegum meistaramótum
2.d. Setja upp heimasíðu fyrir greinina
2.e. Styrkja norræna samvinnu í greininni fyrstu árin

Þingið samþykkt ekki að setja upp fastanefnd en samþykkti að setja starfshóp í málið. Það er sem sagt á ákveðinn hátt búið að viðurkenna ultrahlaup sem sérstaka íþróttagrein innan sænska frjálsíþróttasambandsins sem þurfi ákveðna umsýslu og þróun eins og aðrar íþróttagreinar.

Lítið skref í rétta átt eins og fyrsta skref í öllum hlaupum er!!

Kannski er þetta eitthvað fyrir okkur að hugsa um. Það hlupu nær 90 manns ultrahlaup hérlendis á sl. ári. Þeim mun fjölga enn frekar í ár. Æ fleiri fara að takast á við ultrahlaup hlaup erlendis. Það á ekki að hugsa um þessa íþróttagrein sem hobby sérvitringa og sjálfpyntara heldur sem alvöruinnlegg í íslenska íþróttaflóru. Baráttunni fyrir skráningu UMFR36 í ÍBR verður síðan haldið áfram.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Lúinn knapi og gæfur hestur

  Posted by Picasa
Það gengur heldur treglega að ná kvefinu úr sér. Það er ekkert stórmál en er heldur leiðinlegt. Ég hef ekki kvefast svona lengi árum saman eða ég man ekki síðan hvenær. Þegar ég var í Rússlandi fyrir 10 árum síðan kvefaðist ég reyndar þannig að ég varð raddlaus í heila viku, þ.e.a.s. það heyrðist ekkert í mér (sem er kannski bara betra á stundum). Það var svolítið erfitt sérstaklega þar sem reglulegir fundir með rússunum voru eitt að skylduverkefnum okkar. Þá þurfti maður oft að sofa með húfu á hausnum svo heilinn í manni storknaði ekki yfir nóttina.

Það bætir ekki um að jafnhliða kvefinu er þessi kuldagarri utandyra. Maður er var um sig því ef eitthvað er verra en kvefslæðingur þá er það að láta sér slá niður.

Ég var að lesa greinina um þjálfunarákefð eftir Erling Richardsson sem Gísli birti á síðunni sinni. Greinin er mjög fróðleg og gagnleg. Hún staðfestir það sem maður hafði grun um að ákefðaræfingar skila meiri árangri en langar og hægari æfingar, sérstaklega við hin skemmri hlaup. Þegar verið er að æfa fyrir lengri hlaup eru langar æfingar nauðsynlegar og þá fyrst og fremst til að venja andann og líkamann við svo langa áreynslu. Andlegi undirbúningurinn er nefnilega einnig mjög mikilvægur. Reyndir ultramenn taka 4 - 6 tíma hlaup á ca hálfsmánaðarfresti sem andlega uppherslu.

Voðalega finnst manni stjórnmálaumræðan hérlendis stundum vera froðuleg. Jónínunefndin svokallaða skilaði frá sér skýrlu nýverið um framtíðarsýn í heilbrigðiskerfinu og velti upp ýmsum valkostum og möguleikum sem umræðugrundvelli fyrir stefnumörkun til framtíðar í þessum málaflokki sem er ekki sá einfaldasti. Á einum stað í skýrslunni var minnst á sem einn valkost af fleirum hvort ætti að láta þá efnameiri greiða fyrir aðgengi að læknisaðgerðum. Þetta var ekki ákveðin tillaga heldur sett fram sem möguleiki til að ræða ásamt fleirum. Það fór náttúrulega allt uppíloft og þingmenn töluðu sig hása og fordæmdu það að einhverjir skyldu einu sinni hugsa svona. Engin vitræn eða efnislega umræða komst að, kostir og gallar voru ekki metnir og niðurstaða fengin eftir þá umræðu heldur hlaupið strax í stóryrðin og frasana.

Ég minnist þess að einu sinni fyrir nokkrum árum var ég á fundi þar sem umræða skapaðist um greiðslur í heilbrigðiskerfinu. Þá voru þau afgreidd á þann veg af ákveðnum stjórnmálamanni að hann sagðist hafa verið á ferð í Indlandi og þar hefði einhver sem hann hitti (líklega leigubílstjóri) sagt honum frá afleiðingum þess að hann hefði ekki getað fengið læknisþjónustu fyrir sig sökum fjárskorts "og svona kerfi vil ég ekki hafa á Íslandi" lauk hann ræðu sinni og salurinn klappaði allt hvað af tók!!! Engin efnisleg umræða heldur frasar.

Ef ekki er hægt að ræða málin út frá raunveruleikanum og staðreyndum þá fara menn bara í hringi. Það er nú ekki eins og núverandi fyrirkomulag sé svo fullkomið að umræða sé óþörf. Það liggur ljóst fyrir að þeir sem hafa meiri fjárráð hafa aðra og fjölþættari möguleika en hinir sem ekki hafa jafn mikil fjárráð. Þetta er bara svona hvort sem almenningu vill eða vill ekki og hvort sem honum líkar þetta eða líkar ekki. Okkar samfélagsgerð byggir á því að að sé fyrir hendi ákveðið velferðarkerfi eða öryggisnet sem allir eigi að hafa aðgengi að, hvort sem um er að ræða menntun eða heilbrigðiskerfi svo dæmi sé nefnt. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir það að þeir sem hafa til þess fjárrráð geti keypt sér enn betri þjónustu en almannakerfið býður upp á. Þeir sem hafa efni á geta keypt börnum sínum auka kennslu, þeir geta sent þau í einkaskóla s.s. sumarskóla erlendis svo dæmi séu nefnd. Sama gildir um ákveðna heilbrigðisþjónustu, þeir sem hafa til þess fjárráð geta keypt sér ýmisskonar þjónustu sem aðrir geta ekki, ef ekki hér á erlendis. það er hins vegar enginn að tala um að fólk sé látið liggja fyrir utan dyr sjúkrahúsanna ef það getur ekki reitt af hendi kostnaðinn við aðgerðina. Þar sem skipulagið er svoleiðis að fólk kaupir sér ákveðnar heilbrigðistryggingar þá freistast alltaf einhverjir til að taka ekki slíkar tryyggingar ef efnin eru ekki mikil í þeirri von að menn sleppi við áföll. Ef viðkomandi lenda hinsvegar í áföllum þá sitja menn í súpunni. Um slíkt þekki ég dæmi og mæli slíkum kerfum aftur á móti ekki bót.

Sá í Fréttablaðinu að það á að fara að selja jólagjafirnar sem velviljuð börn gáfu fátæka fólkinu og fátæku börnunum um síðustu jól. Þær gengu sem sagt ekki út. Eftirspurnin var minni en framboðið. Er þessi fátæktarumræða sem gýs upp alltaf með reglulegu millibili kannski yfirdrifin? Ég minnist þess að í einhverri könnun hefði komið í ljós að 94% þjóðarinnar lifðu við góð lífskjör. Mér finnst það mjög góður árangur og hann er alls ekki sjálfsagður ef maður horfir til nálægra þjóða.

mánudagur, mars 27, 2006

Kattarauga í Vatnsdal

  Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gær. Það var ferming í fjölskyldunni, prófalestur og fleira sem sett var framar í forgangsröðina. Ferming er alltaf svolítið sérstakur dagur. Það er dálítið skref barna inn í heim fullorðinna. Sumir krakkar halda að með fermingunni sé skrefið tekið að fullu en önnur átta sig sem betur fer á því að sú ganga er nokkru lengri og eins gott að taka hana í áföngum.

Það er gaman að skoða tímana í marsmaraþoninu. Tími fremstu manna er mjög góður. Stefán hleypur á rúmum 3 klst og hinn síungi Þórhallur kemur þar skammt á eftir. Þeir þremenningar Þórhallur, Ívar og Trausti fóru fram úr mér rétt áður en ég kom á stokkinn fyrir síðasta snúning og þar var sko ekkert gefið eftir, grimmdin lak af þeim. Elín kemur mjög sterk inn á 3.26 í sínu fyrsta þoni. Það verður gaman að sjá hvað hún afrekar í hlýrra veðri og þegar reynslan er farin að skila sér. Það var einnig gaman að sjá hvað hinn ólseigi Svanur fór létt í gegum sitt tuttugasta og níunda maraþon en hann var skorinn upp á seinna hnénu í októberlok í fyrra en fyrra hnéð fór í yfirhalningu snemma árs í fyrra. Síðan eru einnig margir góðir tímar í 1/2 maraþoni og er ekki að sjá annað en margir séu á mjög góðu róli eftir veturinn og verður gaman að sjá hverju fram vindur í ár. Það er ekki við öðru að búast en margir góðir tímar muni nást í sumar.

Ég gerði engar ráðstafanir með selen eða C vítamín át fyrir þetta hlaup. Ég ætla aftur á móti að búa mig vel undir hlaupið í London eftir mánuð hvað þetta varðar og bera saman hvernig ástand fótanna verður, bæði í hlaupinu og eins og eftir. Enda þótt maraþon sé ekki ultrahlaup þá tekur það vissulega verulega í eins og allir vita sem reynt hafa.

Flottar myndir hjá Torfa á www.hlaup.is frá hlaupi laugardagsins.

Þegar maður horfir út um gluggann á mánudagsmorgni og sér garrann og kuldanæðinginn getur maður ekki annað en hugsað sem svo að veðurguðirnir séu áhugasamir um framgang hlaupa hérlendis. Gaman væri ef fjölmiðlamenn sýndu þessum íþróttaviðburðum álíka eftirtekt.


Talandi um æfingar og góða tíma. Sá grein í Aftonbladet í dag sem fjallaði um þegar æfingarnar náðu yfirhöndinni í lífi einhverrar manneskju. Fjallað er nokkuð um þegar fólk verður svo háð æfingunum að þær taka stjórnina. Helstu einkennin eru þessi:

1. Verðurðu argur eða færðu sektartilfinningu ef þú þarft að sleppa æfingu?
2. Læturðu æfingarnar ganga fyrir samskiptum við fjölskyldu og vini?
3. Finnst þér að þú verðir að æfa sérstaklega mikið ef þú hefur borðað óvanalega mikið?
4. Ferðu á æfingar enda þótt þú sért lasinn eða með hita?
5. Æfirðu svo mikið að þér finnst líkaminn vera útkeyrður?

Því fleiri já, þeim mun meiri líkur á að vera æfingaháður.

Ef æfingarnar eru keyrðar áfram af kröftum s.s. eins og sektartilfinningu sem er upprunninn í fyrri erfiðleikum með að hafa vald á mataræði þá skyldi fólk hugsa sinn gang og átta sig á hver það er sem ræður ferðinni.

Sullað í Kolugili

  Posted by Picasa

laugardagur, mars 25, 2006

Marsmaraþon var í morgun. Það var aðeins kalt en sól og fínt veður. Golan var minni en maður ætlaði. Þáttakan var góð, yfir 100 manns í hálfu og heilu. Þriðjungur í heilu og tveir/þriðju í hálfu. Ég gerði mér engar vonir um neinn tíma sem í frásögur væri færandi heldur ætlaði ég að taka hlaupið sem langa æfingu. Lítil hlaup undanfarnar vikur hafa sitt að segja. Ég hélt sjó með Svan, Sigmundi og Halldóri framan af hlaupinu. Halldór dró frá okkur við markið í hálfu og var léttur í spori og ég dróst aftur úr Svan og Sigmundi við Nauthól þegar um 30 km voru búnir. Mig vantaði einhvern veginn grimmdina til að keyra af meiri krafti og þá er það bara þannig. Í kuldanum komu handbrúsinn og bakpokinn í góðar þarfir því ég hafði alltaf volgan drykk handbæran. Það báru sig ýmsir illa undan því að svolgra í sig kalda drykki þegar orkan var orðin lítil í tankinum. Maganum er ekkert voðalega vel við svona sjokkmeðferð. Ég kláraði á svipðuðum tíma og ég hafði gert ráð fyrir eða á rúmlega 3.50. Maður fær ákveðin skilaboð sem er bara að vinna úr. Framkvæmdaaðilum hlaupsins skal enn og aftur þakkað fyrir hlaupið. Þeir eiga miklar þakkir skilið sem leggja á sig ómælda vinnu við undirbúning og framkvæmd þess. Það er ekki síst fyrir tilverknað þeirra sem hlaupaflóran er orðin svo fjölbreytt hérna með margskonar vaxtarsprotum út um allt.

föstudagur, mars 24, 2006

Fallegur dagur við Jökulsárlón

  Posted by Picasa
Sat ÍBR þing í gær fyrir hönd Víkinga ásamt fleirum. Ég hef undanfarið eitt og hálft ár verið í bréfaskriftum við sambandið með það fyrir augum að fá inngöngu fyrir UMFR36 inn í ÍBR. Ég held að það sá ekki ómerkara félag en mörg önnur. Nú síðast fékk ég bréf um að Laganefndin samþykkti ekki að nafn félagsins væri kennt við ákveðið heimilisfang. Í gær sá ég í gögnum þingsins að Íþróttafélagið Tunglið hafði fengið inngöngu í ÍBR á síðasta ári. Líklega fellur nafnið "Tunglið" ekki undir ákveðið heimilisfang eða hvað veit ég? Gaman væri að sjá götuskrána á Tunglinu. Líklega verður næst reynt að fá inngöngu undir heitinu Ungmennafélagið R36. Spennandi verður að sjá hvaða afgreiðslu það fær.

Ég les skandinavísk blöð nokkuð reglulega. Það er oft fróðlegt að fylgjast með fréttum þaðan. Oft sér maður að fréttir eru teknar beint upp afvefjum skandinavískra blaða og settar í blöð hérlendis. Það er bara eins og gengur og allt gott um það. Nú síðast hef ég verið að fylgjast með óhugnanlegu morðmáli sem gerðist rétt hjá Kalmar en réttarhöld standa nú yfir. Tvítugur strákur frá Afganistan að nafni Abbas hafði verið að slá sér upp með 16 ára gamalli stelpu frá sama landi. Foreldrar stelpunnar voru ekki ánægð með þessa þróun mála. Stúlkan hafði flutt að heiman til að geta verið nálægt kærastanum. Fjölskylda hennar bauð þeim að lokum heim til að ræða málin og diskútera framtíðina. Þegar krakkarnir birtust var stelpan fljótlega svæfð með svefnmeðali en Abbas var ósköp einfaldlega drepinn. Við verknaðinn var notuð sjóðandi matarolía, baseballtré og stór hnífur. Rétt er að fara ekki nánar út í lýsingu á smáatriðum. Síðan var reynt að láta líta út sem 17 ára gamall sonur hjónanna hefði framið ódæðið því hann myndi líklega fá einungis 3 - 4 ára dvöl á upptökuheimili (sem er svona eins og venjulegur heimavistarskóli með helgarfríum og sumarfríum að sænskum sið) en foreldrarnir myndu fá 15 - 20 ára fangelsi ef sök sannast á þau.

Þessi atburður er eitt dæmi um þau heiðursmorð sem of oft kemur fyrir að séu framin í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Að þeim standa oftast heittrúaðir múslímar. Þeir hafa sínar eigin siðareglur sem eru ansi langt frá því sem við höfum vanist. Inn í þessa umræðu kemur einnig staða konunnar í þessum samfélögum (innganga bönnuð fyrir hunda og konur)og þannig mætti áfram telja. Vitaskuld eru ekki allri múslímar sama sinnis og þeir sem greint er frá hér að framan en sama er, þetta er til í of miklum mæli.

Í Svíþjóð hafa verið stofnuð samtök sem bera heitið "Gleymið ekki Pele og Fadimu" til minningar um ungmenni sem drepin voru af svipuðum ástæðum. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á þessum ófögnuði og berjast á móti þeirri siðfræði sem réttlætir svona verknaði.

Af einhverjum ástæðum þá hafa frásagnir sænskra blaða af þessu máli ekki þótt þess virði að hafa verið teknar upp í íslenskum fjölmiðlum með copy/paste aðferðinni eins og svo margar aðrar sem eru ómerkilegri að mínu mati.

Herðubreið séð frá Snæfellsskála

  Posted by Picasa

fimmtudagur, mars 23, 2006

Góður hringur í hverfinu í gærkvöldi. Það er eins og vanalega. Maður heldur að það sé kalt úti en þegar maður er kominn af stað með lambhúshettuna og tilbehör þá er þetta bara mjög fínt og gott að hlaupa. Kuldi er spurning um klæðnað.

Fékk bréf í gærkvöldi frá Eiolf hinum norska. Hann er mikill meistari. Ég skrifaði honum um daginn varðandi Spartathlon. Hann sendi mér ýmisar gagnlegar upplýsingar. Hann segist fara hálfsmánaðarlega í 4 - 6 tíma hlaup þegar hann er að undirbúa sig undir svona vegalengdir. Það er ekki óáþekkt og ég hef gert og ætla að gera. Nauðsynlegt hins vegar að hafa reglu á því. Eiolf ætlar að fara til Grikklands í maí og þreyta 185 km hlaup með Trond vini sínum, svona sem upphitun fyrir sumarið. Síðan tekur hann þátt í Lappland ultra í júlíbyrjun og nokkrum maraþonum. Hann hefur verið eitthvað meiddur í tæpt ár og ekki getað beitt sér sem skyldi. Æfingaprógrammið fyrir svona löng hlaup segir Eiolf að eigi að vera 70% andleg uppbygging og 30% líkamleg. Ekki skal ég segja til um þessa skiptingu en hitt veit ég að andlega hliðin er mjög mikilvæg og hana skyldi ekki vanmeta. Andinn verður að ráða yfir skrokknum.

Sá frétt í sjónvarpinu í gærkvöldi á Stöð 2 um vinnuálag barna á Íslandi. Tilefnið var grein sem ungur strákur sem hafði unnið í Krónunni skrifaði í Moggann. Stöð 2 birti vel og vandlega myndir af meintri vinnuþrælkunarstassion Krónunnar. Nú dettur mér alls ekki að draga frásögn drengsins í efa en hinu má ekki gleyma að Krónan er í mikilli samkeppni við Bónus sem er í eigu sömu aðila og Stöð 2. Þetta dregur verulega úr gildi umfjöllunar stöðvarinnar að mínu mati. Ég minnist þess að í fyrra vetur birti Stöð 2 viðtal við póstburðarkonu Íslandspósts sem var ósátt við launin að nýloknum kjarasamningum póstmannafélagsins. Ég hringdi í fréttamanninn og spurði hvort þeir myndu ekki fylgja þessari frétt eftir með umfjöllun um vinnuálag og kjör blaðbera Fréttablaðsins. "Jú við erum að vinna í þessu" var svarið og eru líklega að því enn, því aldrei kom nein umfjöllun. Á þessum tíma var Frétt ehf nefnilega að íhuga að fara í samkeppni við Íslandspóst um útburð á almennum pósti. Eftir þriggja ára viðræður af og til er ekki enn búið að ganga frá kjarasamningum blaðbera Fréttar ehf við VR þannig að Frétt ehf ákveður enn einhliða kaup, kjör og vinnuálag blaðbera blaðsins. Það kom fyrir þegar ég kom nálægt þessum málum að 13 ára börnum var gert að bera 60 kg af blöðum og auglýsingum út í 120 ein- og tvíbýli á einum klukkutíma. Að mínu mati er til ákveðið orð yfir það vinnuálag.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Á tindi Herðubreiðar sumarið 2003

  Posted by Picasa
Góð áform í gærkvöldi runnu út í sandinn. Ég var seinn fyrir vegna fundahalda og þegar heim var komið var frostið komið niður í alla vega -8% svo auminginn náði yfirhöndinni og maður hélt sig innan dyra. Það er hins vegar heldur að hlýna svo maður hefur enga afsökun í dag.

Stimpilgjaldið er líklega vitlausasti skattur sem um getur. Ríkið er með stimpilgjaldinu að skattleggja fólk sem er svo óheppið eða aura vant að það þarf að taka veðtryggt bankalán. Þeir sem taka lán með raðgreiðslum, bílalánum eða önnur lán sem ekki er þinglýst þurfa ekki að greiða skatt vegna lántökunnar. Eignaskatturinn er slæmur en lántökuskatturinn í gegnum stimpilgjaldið er enn verri. Fyrir ári síðan skuldbreytti ég áhvílandi Íbúðarsjóðslánum til að lækka vaxtabyrðina. Ríkið skattlagði mig um 120 þúsund kall vegna þess. Að lántaka sé skattstofn fyrir ríkið er svo absúrd að það tekur varla nokkru tali.

Ég hef grun um að þessi bjánalega skattheimta sé til kominn frá þeim tíma þegar umsýsla með peninga var álitin slæm og óþjóðholl. Slíkir aðilar sem sýsluðu með peninga og tóku jafnvel lán voru skattlagðir í þágu þjóðarinnar. Minna má á sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem var til hér á árum áður. Þá var litið svo á að þeir sem störfuðu við verslun eða skrifstöfustörf græddu svo mikið að þeir ættu öðrum aðilum frekar að greiða skatta til ríkisins. Hvaða þingmaður skyldi hafa dug í sér til að aka upp baráttu fyrir afnámi stimpilgjaldsins?

Sá í Mogganum í gær viðtal við tvær stelpur sem búa í Frakklandi og hafa tekið þátt í mótmælum franskra ungmenna gegn nýmælum í þarlendri atvinnulöggjöf. Með þessari nýju löggjöf mun atvinnurekendum verða gert auðveldara með að segja upp fólki sem þeir þurfa ekki á að halda. Stelpurnar voru vitaskuld á móti löggjöfinni og þótti efni hennar vera mikil firra og skerðing á mannréttindum. Ég held aftur á móti að slík löggjöf geti haft mjög jákvæð áhrif í franskt atvinnulíf. Atvinnuleysi er mikið í Frakklandi og reyndar mörgum fleiri löndum innan ESB. Öryggi starfsfólks er tryggt svo í bak og fyrir að atvinnurekendur eiga í miklum vandræðum með að segja upp starfsfólki sem þeir hafa einu sinni ráðið. Það hefur meðal annars í för með sér að þau ráða ekki fólk til starfa nema að þau alveg óhjákvæmilega þurfi. Það hefur því í för með sér að öryggiskerfið stuðlar að aukningu atvinnuleysis. Öryggisnetið er því farið að virka í andhverfu sína.

Ég þekki mann sem rekur fyrirtæki í Svíþjóð. Hann segir að ef fyrirtækið þurfi að segja upp manni þá sé það verkalýðsfélagið sem ákveði hverjum skuli sagt upp. Yfirleitt er sá einstaklingur valinn sem mesta möguleika hefur til að útvega sér atvinnu annarsstaðar. Þeir slakari sitja þannig eftir. Því velja fyrirtækin oft þann kost að segja engum upp og hafa þannig óhæft eða óþarft fólk í vinnu til að halda þeim sem dugur er í. Hvaða áhrif skyldu svona reglur hafa á framleiðni fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra á alþjóða vettvangi? Varla eru þær til bóta. Sveigjanlegur vinnumarkaður innan ákveðinna marka hefur áhrif til að draga úr atvinnuleysi og auka auðlegð þjóða. Enda þótt öryggisnet séu nauðsynleg við vissar kringumstæður þá mega þau ekki vera svo samansúrruð utan um allt og alla að það geti enginn hreyft sig fyrir netinu.

Kirkjan í Vík í Mýrdal

  Posted by Picasa

þriðjudagur, mars 21, 2006

Stefni að því að vinna hlaupaleysi helgarinnar upp í vikunni. Fór út í gærmorgun fyrir vinnu og náði 8 km. Fór svo 12 km í gærkvöldi. Með þessu áframhaldi verð ég búinn að ná þokkalegri viðbót við það sem áætlað var. Reikna með að hvíla á föstudaginn.

Sænski utanríkisráðherrann Laila Freivalds sagði af sér í morgun. Það er í annað skiptið sem hún verður að segja af sér ráðherradómi en árið 2000 þurfti hún að segja af sér sem dómsmálaráðherra vegna húsnæðisbrasks. Nú var málið það að í febrúar gaf hún ordrur til nánasta samstarfsmanns síns um að hafa samband við netfyrirtæki sem hýsti vefsíðu Sverigedemókratanna til að fá síðunni lokað en á henni voru birtar einhverjar Múhameðsteikningar. Ráðherrann gaf þannig fyrirmæli um ritskoðun á heimasíðunni. Þegar málið var síðan kannað af fjölmiðlum kom hún af fjöllum og þóttist hvergi hafa komið nálægt því. Samt fór svo að smám saman varð öllum ljóst að hún hafði ekki sagt rétt frá málsatvikum (á íslensku heitir það að segja ósatt) og með hliðsjón af því og fyrri glappaskotum í starfi var ekki annað fyrir hana að gera en að segja af sér.

Vefsíður eru opinberir fjölmiðlar. Það þykir sem sagt töluvert alvarlegt mál í Svíþjóð þegar stjórnmálamenn beita áhrifum sínum til að hefta tjáningarfrelsi með því að ritskoða opinberar vefsíður.

Það er ágætt að hafa þetta í huga í tengslum við umræðu um beitingu ritskoðunar á vefsíðu Framsóknarfélaganna í Reykjavík þegar öðrum borgarfulltrúa flokksins var nýverið meinað að birta grein undir nafni á síðunni með þeim rökum að greinin skaðaði hagsmuni annarra stjórnmálamanna innan flokksins.
Sem betur fer eru til aðrir fjölmiðlar í landinu.

Talandi um opinbera starfsmenn og fjölmiðla. Sendiherrann í Danmörku Svavar Gestsson skrifaði ádrepugrein til danskra fjölmiðla varðandi umfjöllun þeirra um íslensk fjármálafyrirtæki? Hvað meinar sendiherrann? Hvaða tilgangi þjóna skrif hans? Er hann að leiðrétta missagnir? Ætlar hann að reyna að beita áhrifum sínum til að taka upp ritskoðun á dönskum fjölmiðlum? Eru fjármálafyrirtækin virkilega ekki nægilega öflug til að bera hönd fyrir höfuð sér ef talið er að á þau sé hallað í almennri fjölmiðlaumræðu? Spyr sá sem ekki veit en eitt er ljóst í mínum huga að sendiherrann á ekki að koma nálægt slíkri umræðu. Síðan má segja að öðruvísi mér áður brá og einhvern tíma hefði það verið saga til næsta bæjar að nefndur SG væri farinn að spila vörn hjá stórfínansinum á Íslandi.

Talandi enn um opinbera starfsmenn. Sá í blöðunum að löggan í Skaftafellssýslu hefði verið kölluð út vegna útlendinga sem fréttir hermdu að hefðu reynt að selja býantsteikningar á bæjum í V - Skaftafellssýslu. Grunur lék á að þetta væru pólskir ferðamenn sem ekki hefðu verslunarleyfi. Hefur löggan fyrir austan virkilega ekki annað að gera en að reyna að koma höndum yfir einhverja útlenska blýantsteikningasölumenn? Samkvæmt síðustu fréttum hafa teiknararnir ekki fundist enn.

mánudagur, mars 20, 2006

Kátir Víkingar við Jökulsárlón

  Posted by Picasa
Nú var ekki mikil hlaupið um helgina því öðru var að sinna. Ég fór hringferð með strákunum í 3ja flokk Víkings í handbolta. Þeir áttu að spila við Hött á Egilsstöðum á laugardaginn og KA á sunnudaginn. Við lögðum af stað upp úr kl. 7.00 á laugardagsmorguninn og héldum austur sveitir. Við Hvolsvöll fór að birta og var veðrið eins og best verður á kosið austur að Djúpavogi. Við stoppuðum t.d. við Jökulsárlónið í 13 stiga hita, heiðskíru og logni. Við komum til Egilsstaða um kl. 16.00. Straákrnir spiluðu við Hött kl. 17.00 og unnu þá sannfærandi. Við gistum svo í skólahúsnæði þeirra Egilstaðamanna um nóttina og jukum veltuna töluvert á pizzustað bæjarins um kvöldið.
Morguninn eftir var haldið til Akureyrar um kl. 8.30. Þá hafði veðri versnað heldur, farið að frysta og hálka á öræfunum og síðan mesta alla leiðina til Akureyrar. Það var spilað við KA strákana kl. 13.00 og tapaðist sá leikur með 3 mörkum. Víkingar voru fámennir og höfðu engan varamann þannig að úrslitin voru ekki slæm miðað við aðstæður. Síðan var rólað suður og við komum í bæinn um 20.30 í gærkvöldi.

Svona ferðir eru mjög skemmtilegar. Strákahópurinn er mjög fínn, góður andi og samstæður hópur sem skemmtir sér vel á ferðum sem þessum. Þær koma líka til með að efla andann og skilja eftir sig góðar minningar.

Ég hef verið að taka eftir því undanfarið að það er misjafnt hve númerið á kreditkortinu kemur fram á kvittunum í verslunum. Sumstaðar birtast bara öftustu 6 tölurnar en annarsstaðar kemur öll runan og einnig gildistíminn þannig að maður er að dreifa númerinu á kreditkortinu út um allt. Þetta skipti ekki svo miklu máli á meðan netverslun var ekki umfangsmikil en nú þegar hægt er að versla alla hluti á netinu, fara í fjárhættuspil á netinu og ég veit ekki hvað þá getur þetta farið að skipta máli. Sumir skrifa nafnið sitt mjög samviskulega á kreditnóturnar. Þá er ekki mikið mál að verða sér út um kennitöluna ef vilji er fyrir hendi. Ég kvitta ætíð undir kreditnótur á ólæsilegan hátt þannig að það þarf allavega að hafa eitthvað fyrir því að grafa upp hvað maður heitir. Ég þarf að kanna málið hjá VISA hvaða reglur gilda í þessu sambandi.

Her fer, fer her var sungið hér fyrir á árunum. Nú er hann bara farinn að pakka niður og er að fara. Allir fara. Öllu er pakkað niður. Ég held að brottför hersins eigi eftir að skapa mikil tækifæri fyrir Suðurnesin. Menn hafa alltof lengi hugsað um herinn sem eitthvað jafn sjálfsagt eins og að það birti alltaf eftir að nótt lýkur en það er bara ekki svo. Það hefur þó verið ljóst á seinni árum að það myndi draga til tíðinda í þessum málum fyrr en síðar. Nú er allt á fullu í fundahöldum á Suðurnesjum um atvinnumál. Meir að segja fóru forsætisráðherra og utanríkisráðherra suður eftir að ræða atvinnumál samkvæmt fréttum. Samkvæmt því sem mér er sagt þá eru það um 300 manns sem búa á Suðurnesjum sem munu missa vinnuna. Vitaskuld er það töluverður fjöldi og ætíð slæmt þegar fólk missir vinnuna. Það má hins vel á það minna að fjölmargir stórir vinnustaðir, fyrst og fremst í í sjárvarútvegi hafa lokað víða á landbyggðinni á undanförnum árum í tengslum þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað innan greinarinnar. Það er hins vegar ekki mikið atvinnuleysi út um land. Hvers vegna skyldi það vera? Jú. líklega vegna þess að fólkið hefur þurft að flytja burtu og leita sér vinnu annarsstaðar, yfirleitt hér syðra.

Sé að fyrrverandi forystumenn í stjórmálum eru farnir að láta á sér kræla á nýjan leik og síður en svo búnir að gleyma gömlum töktum. Þetta minnir mig á kvikmynd sem mig minnir að hafi heitið "The Return of the Mummies"

föstudagur, mars 17, 2006

Herðubreið á góðum degi

  Posted by Picasa
Hljóp ekkert í gærkvöldi því ég var seint fyrir vegna þess að ég var ásamt fleiri foreldrum að horfa á Jóa og félaga spila við Stjörnuna niðri í Vík. Þeir unnu öruggan sigur.

Skrapp suður í Garðabæ eftir vinnu og heilsaði upp á Dr. Ágúst frá San Francisko. Hann er farinn að vinna hér heima við HÍ og kemur af og til til landsins. Gaman að hitta góða félaga og rifja upp ánægjulegar minningar.

Það hafa orðið nokkrir eftirmálar eftir framhaldsaðalfund Framsóknarmanna í RvkS þann 2. mars sl. eins og við var að búast. Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi fjallar nokkuð um málið í ágætri grein í Fréttablaðinu í dag. Ég læt fylgja hér með bókun þá sem ég lagði fram á fundinum til að skýra málið frá mínu sjónarhorni því ég hef nokkuð verið spurður um hvers eðlis þau átök voru sem þarna fóru fram.

Bókunin er eftirfarandi:

Bókun fundarstjóra.

Aðalfundur er æðsta stofnun hvers félags. Lýðræðisleg félagsstörf byggjast á ákveðnu skipulagi og aðferðum sem bundnar eru í lögum, öðrum samþykktum eða reglum, almennum fundarsköpum og óskráðum hefðum og venjum hvers félags. Dagskrá aðalfundar er þannig yfirleitt ákveðin í lögum félaga til að tryggja að um framkvæmd hans ríki ákveðin formfesta. Því geta aldrei orðið nema smávægilegar breytingar á dagskrá aðalfundar. Ef aðalfundi tekst ekki að ljúka störfum sínum í samræmi við lögbundna dagskrá, þa er boðað til framhaldsaðalfundar til að ljúka henni. Ekki má taka önnur efni fyrir á aðalfundi til ákvörðunar sem einhverju máli skipta en þau sem boðuð hafa verið útsendri dagskrá.

Hlutverk fundarstjóra er mjög víðtækt og vald hans er mikið á fundi. Hann er æðsti maður á fundi og túlkar lög, reglur og fundarsköp á fundinum. Hann skal gæta hlutleysis á fundinum. Hann tekur við tillögum, flokkar þær og leggur þær fyrir til afgreiðslu. Hann getur vísað tillögu frá ef hún er óviðkomandi dagskrá fundarins.
Það er meginregla að réttum reglum sé nákvæmlega fylgt við framkvæmd aðalfunda og sérstaklega þegar gengið er til atkvæða enda er hér um að ræða lýðræðið í framkvæmd. Í því efni reynir bæði á beina þekkingu manna á þessum reglum, en einnig á siðferðislegt þrek og mannlegan þroska.

Á aðalfundi kjördæmissambands Framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður var gengið til kosninga á stjórn þess samkvæmt lögbundinni dagskrá eftir að fundarmönnum hafði verið tilkynnt formlega og greinilega að til kosninga yrði gengið. Dreifingu kjörseðla og söfnun þeirra önnuðust hlutlausir aðilar, starfsmenn skrifstofu flokksins. Engin mótmæli komu fram á fundinum við framkvæmd kosninganna. Enginn formlegur úrskurður hefur fallið í þar til bærum stofnunum flokksins þess efnis að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögmæt eða verið framkvæmd með svo stórkostlegum ágöllum að rétt þyki að endurtaka hana. Fyrri hluta dagskrárliðsins kosningar til stjórnar kjördæmissambandsins lauk með framkvæmd kosningar og var aðalfundi síðan frestað. Næsta verkefni fundarins var að skipa talningarmenn til talningar atkvæðaseðla. Að ógilda formlega kosningu á aðalfundi með einfaldri atkvæðagreiðslu á framhaldsaðalfundi og án þess að slíkrar atkvæðagreiðslu sé getið í fundarboði framhaldsaðalfundar er mjög alvarlegur hlutur sem gengur þvert á almenn fundarsköp og lögfesta dagskrá aðalfundar. Með slíkri ákvörðun eru allar lýðræðislegar hefðir brotnar og gengið þvert á almenn viðurkennd fundarsköp og getur undirritaður ekki staðið að slíkri misbeitingu valds.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Á tindi Snæfells árið 2003

  Posted by Picasa
Tók léttan hring í gærkvöldi. Veðrið er eins og ég veit ekki hvað um miðjan mars. Samkvæmt öllu eðlilegu ætti að vera snjór og frost en það heyrir víst sögunni til.

Baugsmálið var afgreitt úr héraðsdómi í gær og sakborningar dæmdir sýnir saka. Það eru ýmsar spurningar sem vakna í þessu sambandi. Það var athyglisvert viðtalið við lektorinn (ég held að ég fari rétt með) úr HR í sjónvarpinu í gærkvöldi sem fór yfir að lagasetningin um ársreikninga hlutafélaga væri gölluð á þann veg að dómurinn hefði ekki getað dæmt eftir henni. Það segir sig sjálft að stór hluthafi í hlutafélagi sem er skráð í kauphöll einhvers lands getur ekki og má ekki hafa rýmri möguleika til að ganga í sjóði félagsins og fá þar óformlegt lán heldur en litlu hluthafarnir. Ef íslensk lög um þetta efni er ófullkomin er það nokkuð alvarlegt mál. Starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra virðist hafa orðið fyrir einu áfallinu til viðbótar. Maður veltir fyrir sér hvernig er unnið þar innan dyra. Í nútímasamfélögum er afar mikilvægt fyrir lögregluna að geta tekist á við hvítflibbaglæpi ekki síður en annarsskonar kriminalitet því fjöldi þeirra og umfang fer vaxandi.

Fór á fund Víkinni seinnipartinn í gær til að hlusta á kynningu á væntanlegum gerfigrasvelli í Víkinni. Hann á að geta verið tilbúinn næsta haust ef allt fer að óskum. Nokrar umræður urðu um ýmis atriði meðal íbúanna og bar þar hæst ótti við að fljóðljósin myndu virka truflandi á næstu hús. Tækninni fleygir fram og nú er verið að setja upp búnað sem tekur ljósunum á Fram vellinum og Fylkisvellinum langt fram en þar hefur verið kvartað nokkuð undan ljósunum. Nauðsynlegt er að ljúka þessari umræðu sem fyrst þannig að framkvæmdir þessa mikilvæga máls fyrir Víking geti hafist.

Planið hefur gengið að mestu leyti eins og ætlað var til þessa. Kvefið í síðustu viku setti aðeins strik í reikninginn en það er ekkert sem neinu máli skiptir. Ég er viss um að ég er sterkari núna heldur en á sama tíma í fyrra. Með þessu áframhaldi fer ég að fara á Esjuna hvað úr hverju, m.a. til að prufa nýja höfuðljósið sem ég keypti hjá Daníel Smára og félögum fyrir nokkru. Ég hef notað Leppin próteinblönduna hans í alla hádegismata um ca þriggja vikna skeið og er mjög sáttur við útkomuna. Þetta smitar svolítið út frá sér í umræðunni og hver veit hvað gerist. Það finnst alla vega öllum blandan vera góð á bragðið. Það verður fróðlegt að meta stöðuna þegar maður fer að herða á álaginu.

Herinn er svo búinn að ákveða að fara. Það var ekki flóknara en eitt símtal fra Wasington DC í gær. Einhvern tíma hefði manni fundist þetta vera tíðindi en nú er mér eiginlega nokk sama.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Hver skyldi annars eiga þetta vatn?

  Posted by Picasa
Fór út að hlaupa í gærkvöldi í fínu veðri. Allt eins og það á að sér að vera. Gott að vera búinn að ná undirtökunum aftur.

Er hægt að eiga vatn? Vatn er dálítið sérstætt fyrirbæri. Það kemur og fer eins og vindurinn og er ófyrirsjáanlegt og margbreytilegt. Það dettur niður úr himninum þegar minnst varir í einu eða öðru formi, oft í óþökk þeirra sem það fellur á, en einnig kemur fyrir að það láti á sér standa enda þótt þörf sé fyrir það. Það rennur til sjávar ef það getur og það gufar stundum upp. Stundum frýs það og fer ekki neitt þótt menn vilji að það fari en svo böðlast það burtu með ósköpum í óþökk nálægra þegar hlýnar. Maður getur sagt með nokkrum rétti að maður eigi vatn sem maður kaupir á flösku út í búð. Það vatn hefur verið hneppt í fjötra plastsins og kemur hvorki né fer annað en það sem maður vill sjálfur. Síðan fer málið að vandast þegar farið er að fjalla um hið frjálsa vatn. Afnotaréttur og nýtingarréttur er í eðli sínu annað en eignarréttur þótt framkvæmdin sé oft áþekk. Landeigendur hafa rétt til að nýta vatn í ám og lækjum sem renna um land þeirra. Menn hafa rétt til að nýta fiskivötn. En á maður vatnið, sjálft H20ið, sem kemur og fer eftir lögmálum náttúrunnar? Lögfræðingar sem ég tek mikið mark á eru ekki á eitt sáttir um þetta mál. Sumir segja að eignaréttur og nýtingaréttur sé eitt og hið sama en aðrir eru á öndverðum meiði. Ef ég hefði átt land að Kleifarvatni og einnig talið mig eiga vatnið í því, hvernig hefði þá staða mín verið eftir jarðskjálftana árið 2000 þegar myndaðist gat á botni vatnsins og það rann að miklu leyti eitthvað burt. Átti ég þá vatnið eftir að það rann burt og kom fram á nýjum stað eða átti ég það bara ef það var í þessari ákveðnu dæld sem kölluð er Kleifarvatn þegar hún er full af vatni. Afnotarétti og nýtingarrétti landeigenda fylgja margskonar kvaðir og ákvæði um meðferð og verndun vatns á meðan það dvelur innan landamerkja viðkomandi en svo hverfur það á braut. Á þá einhver annar vatnið þegar það er farið úr landareign minni eða er þetta einvörðungu spurning um afnota- og nýtingarrétt?

Góðir ræðumenn krydda oft mál sitt með góðum sögum eða snjöllum tilvitnunum til að undirstrika enn frekar það sem þeir vilja segja. Í slíkum tilvikum skiptir miklu máli að fara rétt með því ella getur tilvitnunin snúist í andhverfu sína. Mér fannst hinum góða ræðumanni og meitlaða pistlahöfundi Össuri Skarphéðinssyni alþingismanni aðeins förlast í þessum efnum í umræðum á alþingi í gær. Til að leggja áherslu á innihald ræðu sinnar sagði hann að málflutningur stjórnarsinna væri álíka eins og þegar kýr töluðu mannamál á Jónsmessunótt. Þar fór í verra Össur. Ég hef aldrei heyrt eða lesið um að kýr tali á Jónsmessunótt. Þær fá hins vegar málið á nýjársnótt og ræða þá um alla heima og geima svo sem um útilegur á komandi sumri sbr. kvæðið alkunna "Hvar á að tjalda?" segir hún Skjalda. "Suður við fossa" segir hún Krossa o.s.frv. Á Jónsmessunótt flytja hins vegar álfar búferlum. Ef maður vill kynnast því ferli öllu nánar þá skal maður að leggjast á krossgötur á Jónsmessunótt. Þá stoppar maður alla umferðina og getur séð hvaðan hver kemur og hvert hann ætlar. Það er hins vegar ekki alveg víst að maður lifi nóttina af. Sömuleiðis skyldi maður varast að dvelja of lengi í fjósinu á nýársnótt því margur hefur fundist ær að morgni eftir að hafa falið sig í tómum bás að áliðnu gamlárskveldi til að hlusta á kýrnar tala á nýársnótt.

Þetta er rifjað upp hér til að stilla kompásinn varðandi tilvitnanir alþingismanna í þetta efni.

Og svo er það baksíðufrétt í DV að Dóra Takefusa ætli að kaupa sér hjólhýsi. OMG.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Séð yfir Hænuvík og Patreksfjörð

  Posted by Picasa
Ég verð að segja að ég get ekki annað en verið dálítið hugsi yfir tónlistarhúsinu fyrirhugaða. 11 - 12 milljarðar, það er dálítil summa. Síðan þarf borgin að gera lóðina klára fyrir 2.5 milljarð. Bara si svona. Mér finnst stemmingin vera á stundum eins og mönnum finnist að nú geti þeir allt. Verðið skiptir ekki máli, það eru nógir peningar til.

Svona leið ýmsum á fyrstu árum plastkortanna. Allt í einu þurftu menn ekki að hafa áhyggjur af peningunum, eina sem menn þurftu að hafa til að versla voru plastkort og þá var hægt að kaupa allann skrattann. Svona um hríð. Svo kom reikningurinn. Hann gat verið dálítið hár ef menn höfðu ekki gætt sín. Þrautaráðið var að fá sér kort í öðrum banka ef menn voru komnir í vandræði á einum stað. Þá rúllaði þetta smá stund áfram. En hnúturinn herptist smám saman ef óvarlega var farið og æ erfiðara varð að leysa hann.

Í Finnlandi var Finlandiahúsið byggt fyrir nokkuð löngu síðan m.a. til heiðurs Sibeliusi sem er frægasta tónskálds Finna og þekktur víða um heim. Finlandia húsið kostaði álíka fjárhæð og rætt er um að tónlistarhúsið kosti hér. Sú ákvörðun kostaði langar og harðar umræður í Finnlandi um meðferð opinberra fjármuna. Í Finnlandi búa rúmlega fimm milljónir manna en hér búa þrjú hundruð þúsund einstaklingar ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því.

Það að byggja hús í einkaframkvæmd breytir í sjálfu sér engu um fjárhagslega ábyrgð þess sem fjármagnar framkvæmdina miðað við að byggja fyrir eigin reikning. Greiðslan er þá tekin út af rekstrarreikning sem leigugreiðsla í stað þess að taka hana út í gegnum sjóðsstreymi sem afborgun lána. Í báðum tilvikum þurfa fjármunir að vera til staðar til að standa undir viðkomandi skuldbindingum hvort sem um er að ræða greiðslu til banka vegna afborgunar láns eða greiðsla til einkaaðila sem leigugreiðsla. Það er hins vegar reikningsdæmi hvor er betur fallinn til að byggja og reka hús, einkaaðili eða opinber aðili. Niðurstaða úr þeirri umræðu er ekki einhlýt heldur verður að skoðast í hverju tilviki fyrir sig.

Mér finnast hins vegar rúmlega 600 milljónir á ári í 35 ár vera svakalega miklir peningar.

mánudagur, mars 13, 2006

Gömul fjárhús sem hafa lokið hlutverki sínu

  Posted by Picasa
Fór út um 8.30 og tók hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg. Ég er heldur að koma til þannig að þetta stefnir allt í rétta átt. Var kominn heim um 10.30. Það var heldur leiðinlegt að hlaupa, slabb og blautt á stundum. Þetta urðu samtals um 20 km sem er allt í lagi miðað við aðstæður. Það var gaman að sjá þann fjölda sem maður mætti á laugardaginn. Ég hugsa að það hafi verið vel yfir 50 manns í nokkrum flokkum sem ég mætti á leiðinni austur Fossvoginn. Í gær voru þeir reyndar heldur færri.

Var kominn niður í Vík um kl. 11.00 því Jói og félagar hans í 3ja flokki vor að spila við strákana úr KA. Bæði lið höfðu tapað einum leik í mótinu fram til þessa svo það var spenna í loftinu. Þetta var jafn leikur tveggja góðra liða og vel og heiðarlega leikinn. Víkingar höfðu undirtökin mest allan leikinn þrátt fyrir góða endurkomu KA stráka og lauk svo að Víkingar unnu með tveim mörkum. Um næstu helgi mætast liðin aftur fyrir norðan. Strákarnir eru að undirbúa ferð til Þýskalands í júníbyrjun á handboltamót þar.

Sveinn spilaði með Gróttu gegn Njarðvík í deildabikarnum í íþróttahöllinni í Keflavík. Leiknum lauk með sigri Gróttustráka sem var heldur óvænt. Sveinn er að spila sig inn í liðið og spilaði mest allann leikinn í gær.

Fórum út að borða í gærkvöldi með tengdaforeldrunum í tilefni af gullbrúðkaupsafmæli þeirra. Það var ágæt stund. Fimmtíu ár í hjónabandi er dálítið langur tími.

Fyrir þá sem hafa gaman af því að sjá hvernig lítur út fyrir vestan um miðjan mars skal bent á að skoða slóðina: http://www.pbase.com/gbe75/breidavik_032006

Fjárréttin á Vatnsnesi

  Posted by Picasa

sunnudagur, mars 12, 2006

Fór af stað í gær og hitti Halldór um kl. 9.00. Fór frekar varlega og fann að ég var ekki alveg kominn í réttan gír. Kláraði 20 km en Halldór fór allt að 40 km.

Háskólarektor hefur gefið út statement um að Háskóli Íslands eigi að vera einn af 100 bestu háskólum í heimi. Ef til er svona skali um gæði háskóla þá þætti mér gaman að vita hvar í röðinni HÍ sé í dag. Ég get ekki ímyndað mér að hann sé mjög framarlega, eðli málsins samkvæmt. Gæði háskóla eru meðal annars metin eftir þeim rannsóknum sem eru stundaðar innan veggja hans. Gæði háskóla eru einnig metin eftir því hve miklu af doktorum skólinn skilar svo annað dæmi sé nefnt. Mér finnst afar hæpið svo ekki sé dýpra í árinni tekið að 300 þúsunda manna þjóð geti haft raunhæfa möguleika á að reka einn af 100 bestu háskólum heimsins. Það eru nefnilega 6,5 milljarðar þarna fyrir utan. Það er ekki nein minnimáttarkennd heldur raunhæft mat. Það er nefnilega einn af styrkleikum íslensks þjóðfélags að námsfólk fer víða um heiminn og sækir sér þekkingu og sem betur fer kemur margt af því til baka. Það er nefnilega alls ekki rétt að mínu mati að Ísland eigi að vera sjálfbjarga að öllu leyti í námsframboði á framhaldsstigi. Til þess höfum við einfaldlega ekki getu. Þegar ég fór til Kaliforníu í fyrra var mér m.a. bent á ýmsa fræga háskóla sem þar er að finna. Berkley, San Jose og Sacramento svo dæmi séu tekin. Sem dæmi um stöðu þeirra á alþjóðlegum vettvangi má nefna að í Berkley eru bara merkt bílastæði fyrir nóbelsverðlaunahafa!!! Mér finnst gott setja sér markmið en þau verða bara að vera raunhæf. Markmið sem eru fyrir utan og ofan allt geta hins vegar virkað í andhverfu sína.

Samtökin 78 hafa ákveðið að lögsækja Gunnar í Krossinum vegna greinar sem hann skrifaði í Moggann um daginn. Þetta er bara svona, það er ekkert umburðarlyndi fyrir skoðunum hans heldur er bara hringt í lögfræðing og ákveðið að negla kallinn. Líklega fara samtökin fram á að Gunnar verði dæmdur til að vera velt uppúr tjöru og fiðri og þar næst er líklega öruggast að brenna hann á báli til að hafa allt á hreinu um að svona greinaskrif endurtaki sig ekki.
Iðnaðarráðherra hefur lýst því yfir opinberlega að Styrmir Moggaritstjóri sé karlrembusvín sem geri lítið úr skoðunum sínum því ráðherrann sé kona. Ritstjórinn geti að mati ráðherrans ekki þolað skoðanir kvenna (eða eitthvað í þessa áttina). Þetta er alveg nýr vinkill í stjórnmálaumræðu hérlendis.

Ég veit ekki hver gerir minna úr sjálfum sér með fyrrgreindum málflutningi, Samtökin 78 eða iðnaðarráðherra.

laugardagur, mars 11, 2006

Maður sér stundum hve allt er afstætt. Í fréttum er oft fyrirferðarmikið hve hinn eða þessi hefur fengið margar milljónir í laun á mánuði eða í kaupauka eða ég veit ekki hvað. Samkvæmt flestum náttúrulögmálum ætti maður að vera svolítið öfundsjúkur þegar maður horfir á sín föstu mánuðarlaun sem hvorki eru með tengingu við kaupréttarsamninga eða gengishækkun hlutabréfa og ber þau saman við ofurlaun forsíðumanna. En allt er þetta afstætt. Ég las nýlega í Mogganum minningargreinar um þrjá menn sama daginn sem voru bæði aðeins eldri og aðeins yngri en ég. Ég get ekki sagt að ég hafi þekkt þá persónulega en vissi að þeir voru til og einn þeirra var reyndar gamall skólabróðir minn. Öllum þessum mönnum voru gefnir hæfileikar sem komu þeim í fremstu röð á landsvísu, hver á sinn hátt. Þeir uppskáru aðdáun og virðingu kunningja og félaga og almennings fyrir afrek sín og hæfileika. Engu að síður eru þeir allir látnir, saddir lífdaga.

Á fimmtudaginn hittist síðan þannig á að ég hitti einn gamlan félaga úr sveitinni að vestan og heyrði í öðrum í síma. Annar er aðeins yngri en ég en hinn aðeins eldri. Hvorugur þessara sveitunga minna eru vinnufærir í dag. Annar sagðist ekki hafa getað stundað vinnu í 5 - 6 ár vegna veikinda, bæði líkamlegra og andlegra. Nýlega kom í ljós að hann hafði allann þennan tíma verið með æxli á nýrnahettunum sem hafði sett öll efnaskipti líkamans í tómt rugl. Eftir að í ljós kom hver var ástæða allra þessara hörmunga var hann skorinn upp og sagðist nú sjá ljósið í fyrsta sinn um langan tíma. Hinn hafði ekki stundað vinnu vel á annað ár vegna hjartabilunar. Hann hafði orðið að selja ofan af sér húsið og koma sér fyrir í minna húsnæði til að halda fjármálum fjölskyldunnar í þokkalegu jafnvægi á meðan hann getur ekki unnið fyrir sér.

Þetta fær mann til að hugsa um í þvílíkum forréttindahóp maður er. Svo maður takmarki sig bara við sína eigin heilsu þá er það ekki sjálfgefið allt sé í lagi hvað þá að maður sé í jafngóðu eða jafnvel betra formi en þegar maður var tvítugur eða þrítugur. Það er nefnilega ekki alltaf svo auðvelt að segja til um það með vísindalegri nákvæmni hver er ríkastur.

föstudagur, mars 10, 2006

Rjúpa í Esjunni

  Posted by Picasa
Ég hef haldið heldur lágan prófíl í vikunni og reynt að safna mér saman. Því hefur ekkert verið hlaupið. Það er að takast enda ekki um neina þungaveiki að ræða, heldur fyrst og fremst öryggisatriði til að láta sér ekki slá niður.

Þegar ég var heima í fyrradag horfði ég dálítið á umræður frá Alþingi. Það var svo sem ekki sérstaklega skemmtilegt sjónvarpsefni en sama er, það er ágætt að rýna svolítið í það sem þeir eru að ræða. Einu hjó ég eftir í ræðum þingmanna. Þegar þingmenn vísuðu í ræðum sínum til umræðu eða lagasetningar í Svíþjóð, Danmörku eða Noregi, þá töluðu þeir gjarna og reyndar oftast um hin Norðurlöndin. Hvaða hin Norðurlönd eru menn að meina? Það eru ekki til nema ein Norðurlönd, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk.

Síðasta Poweratehlaupið var í gærkvöldi. Ég hef ekki farið í neitt þeirra í vetur, því miður. Það hefur oftast hist þannig á að ég hef verið negldur við annað. Þessi hlaupasería er fín og heldur fólki við efnið yfir veturinn þegar formlegir viðburðir eru fáir. Svo er ekki verra að haldið sé samkvæmi í restina og farið yfir veturinn.
Sá á hlaupasíðunni að skokkhópur Víkinga ætlar að standa fyrir hlaupi í Fossvoginum laugardaninn 18. mars n.k. Gott framtak hjá þeim. Það er ágætur hópur sem telur ca 20 - 30 manns sem hleypur reglulega frá Víkinni.

Haust á Sandinum

  Posted by Picasa

miðvikudagur, mars 08, 2006

Fór ekki í vinnu í morgun því ég var með hitavellu. Ég held að þetta sé ekki neitt að marki en mér fannst skynsamlegra að náð þessu úr sér heldur en að vera að skrölta á fótum, ómögulegur og hálf verklaus.

Notaði tækifærið í morgun og renndi í gegnum hlaupadiskana frá Borgundarhólmi og WSER. Það er gaman að rifja þetta upp. Sá meðal annars í Lore of Running að þar var talað við Ann Trason sem átti WSER árum saman eða meðan hún tók þátt í hlaupinu. Hún fjallaði um þann mun sem er í Comerades og WSER og kemur inn á saltinntöku í hlaupunum. Í WSER var salt í skál og soðnar kartöflur hjá á öllum drykkjarstöðvum en yfir höfuð er ekki boðið upp á salt í Comerades að sögn Ann. Hún sagðist ætíð leggja mikla áherslu á að taka salt í hlaupum til að fyrirbyggja krampa í fótunum eftir fremsta megni. Hún nefndi nokkrar tegundir af steinefnatöflum sem til eru í USA sem gagnast henni vel en matarsaltið er það sem er yfirleitt nægjanlega gott að hennar mati.

Sá umsögn um leikverk í Blaðinu í gær. Hún hljóðar svo:

Leikverkið er samsett úr nokkrum sögum og myndum sem lýsa fáránlegum raunveruleika og raunverulegum fáránleika. Þetta eru sögur hversdagsins, fullar af sársauka, vanmætti og styrkleika, hræðslu og hugrekki, ást, fegurð og ofbeldi. Það ytra hverfur inn og hið innra út og enginn veit hvað leynist bak við hornið.

Þetta er umsögn um leikritið Eldhús eftir máli sem ég sá um daginn. Mér finnst umsögnin lýsa leikritinu nokkuð vel að mínu mati, án upphafs eða endis, ruglingslegt, yfirdrifið og innihaldslaust.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Hlaupið ræst

  Posted by Picasa
Sá á vef WSER 100 að það er búið að setja link inn á GoogleEarth sem sýnir leiðina sem hlaupin er í Western States. Það þarf að að leggja Google programmið fyrst niður á Desktop og installera því. Síðan er klikkað á linkinn á WSER vefnum og þá opnast myndin. Leiðin hefst í Squaw Valley og er síðan rakin sem leið liggur til Auburn. Helstu drykkjarstöðvar eru sýndar og einnig er hægt að skoða landslagið í þrívídd til að átta sig betur á því hvernig að lítur út. Þetta er mjög skemmtilegt og rifjar upp margar góðar minningar. Leiðina frá Foresthill School allt til Highway 49 fór ég að mestu leyti í myrkri þannig að ég var ekki of viss um hvernig hún leit út. Slóðin á vef hlaupsins er www.ws100.com og síðan er farið í linkinn "Latest news".

Einmana bekkur

  Posted by Picasa
Það var hvílt í gær sem var ágætt því veðrið var svo sem ekki sérstaklega skemmtilegt, bleytuníð og ausandi úrkoma.

Ég sá í Mogganum á sunnudaginn frásögn af ráðstefnunni "Hve glöð er vor æska" þar sem var fjallað um málefni fjölskyldunnar. Þar kom m.a. fram að um 30% barna í landinu væru á leikskólum í 8 - 9 klst á dag. Það er svakalega langur tími. Hvenær eru þessi börn í einhverju samneyti með foreldrunum sínum eða þó ekki væri nema öðru þeirra? Vitskuld er staðan þannig hjá töluverðum hópi fólks að það hefur ekki aðra valkosti, sérstaklega þegar um einhleypa foreldra er að ræða sem standa frammi fyrir þessum veruleika. Hjá öðrum er þetta ákvörðun að láta börnin vera á leikskóla allann daginn til að geta stundað vinnu og klifrað upp karríerstigann. Í Sovétríkjunum gömlu var það viðtekin kennisetning að stofnanir ríkisins væru betur til þess fallnar að ala upp börnin en misvirtir foreldrar. Sú teoría féll reyndar eins og flestar aðrar teoríur þeirra Sovétmanna og endaði teoríuhrunið í einu allsherjar hruni Sovétríkjanna eins og flestir vita og margir muna eftir.

Jarðskjálftinn í gær var nokkuð snarpur. Hér á skrifstofunni nötraði allt og skalf. Þetta minnti nokkuð á skjalftann þann 17. júní árið 2000. Þá var ég staddur niðri á hafnarbakka í Reykjavíkurhöfn ásamt mörgum öðrum þegar jörð byrjaði að skjálfa. Bakkinn gekk í bylgjum eins og þegar krappar undiröldur eru á sjónum. Einhver viðstaddra spurði hvað væri eiginlega að gerast. Annar svaraði; "Ætli kraftakarlarnir séu ekki að ganga frá eftir sig" en þeir voru að ganga frá eftir keppni sem þeir höfðu verið með á bakkanum skömmu áður.

Mér finnast auglýsingar Blátt áfram verkefnisins ganga úr hófi fram. Nú efa ég ekki að því ágæta fólki sem stendur að þessu verkefni gengur eitt gott til en stundum er boginn spenntur um of. Menn fara fram úr sjálfum sér ef það er magnaður upp hræðsluáróður í þessum efnum þannig að menn sjá barnaperra í hverjum og einum sem víkur vinalega að barni. Ung börn eru vitaskuld sérstaklega viðkvæm fyrir þessari umræðu sem getur hæglega leitt af sér ranghugmyndir. Mér finnst að það ætti frekar að beina þessari umræðu að foreldrum sem væru lagðar aðferðir í hendur til að ræða við krakkana u þessi mál frekar en að láta einhvern síbyljuhræðsluáróður dynja yfir þjóðina í sjonvarpsauglýsingum. Mér fundust áhrif yfirdrifins histeríufréttaflutnings af fuglaflensunni ógurlegu koma vel í ljós þegar var rætt við bóndann á Tannstaðabakka í sjonvarpinu fyrir skömmu. Hann hafði greinilega orðið var við að krakkarnir sem komu í heimsókn til hans frá Skólabúðunum á Reykjum höfðu orðið fyrir miklum áhrifum af umræðunni um fuglaflensuna og hún sat í þeim sem illur vomur sem beið bak við næsta leyti. Börn gera kannski ekki mikinn mun á því hvort hundruð þúsunda geti dáið eða hvort hundruð þúsunda hafi dáið. Hvað hafa margir dáið úr fuglaflensu í heiminum, 20 eða 30 í það heila tekið? Hvað dóu margir íslendingar úr slæmri flensu sem gekk hér í fyrra vetur. Líklega nokkuð fleiri.

mánudagur, mars 06, 2006

Slóðin þann 4. mars 2006

  Posted by Picasa
Fór út á sunnudagsmorgun kl. 8.30 og hélt inn í Elliðaárdal. Það var kalt á Poweratehringnum svo að grýlukerti mynduðust á húfunni þegar maður fór að svitna. Kom niður í Laugar rétt fyrir kl. 10 og þaðan var haldið vestur í bæ og snúið á Eiðistorginu. Ég hægði á mér á Ægissíðunni og lét hópinn fara á undan því gærdagurinn sat svolítið í manni enn. Ég vil ekki hætta á að fá beinhimnubólgu eða einhvern skrattann í fæturna vegna ofálags. Nægur er tíminn. Kom heim um 12 leytið og hafði lagt 33 km að baki. Helgin er með þeim lengri eða um 75 km samtals. Vigtin sýndi 82.5 kg þegar ég kom heim og höfðu 1.5 kg orðið eftir úti um morguninn. Þetta er orðið gott í bili eða fram á þriðjudag.

Fréttir um að Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefði sagt starfi sínu lausu í eftirmiðdaginn komu nokkuð á óvart. Nóg um það.

Skrapp í Þjóðminjasafnið um miðjan daginn til að sjá ljósmyndasýningu sem hollenskur maður tók hérlendis sl. sumar. Sýningin heitir "Rúntur" og vísar til þess að það vakti athygli hans hve rúnturinn er algeng afþreying ungs fólks á landsbyggðinni. Það hefur náttúrulega lengi verið eftirlæti ungs fólks að keyra góðan bíl. Kannast við það sjálfur að vestan hér í denn.

Horfði á Sjálfstætt fólk í gærkvöldi þar sem Jón "sé ég tár á hvarmi" Ársæll talaði við nafna sinn Jón Kr. söngvara á Bíldudal. Jón Kr. fór á kostum í þættinum eins og hans var von og vísa en mest hrifinn var ég af að sjá fegurðina í Arnarfirðinum. Veðrið hafði verið afskaplega gott fyrir vestan þegar unnið var að upptöku þáttarins og fékk maður að sjá sýnishorn af því í gærkvöldi. Maður sér vel þegar svona myndir ber fyrir augu hvað það vantar mikið þegar maður býr inn í miðri borg og þarf að gera sér sérstaka ferð á hendur út fyrir borgarmörkin til að sjá landslag. Þeir eiga greinilega nóg af því í Arnarfirðinum og ekki skemmdi kvöldsólin fyrir.

laugardagur, mars 04, 2006

Í morgun var tekin alvöru æfing. Við Halldór og Haraldur Júl. hittumst við göngubrúna um 8.30. Pétur var aðeins á undan og ætlaði á aðrar slóðir. Við tókum alla uppskriftina af vandvirkni; Kópavogshálsinn, Fífubrekkan, Tröppurnar, HK brekkan, Réttarholtsskólabrekkan, Poweratehringurinn með Breiðholtsbrekkunni, Árbæjarstokkurinn og síðan brekkurnar upp í Grafarholtið og þaðan upp að tönkunum. Síðasti leggurinn er allavega súperstjörnuleið ef ekki tveggja stjörnu leið. Veðrið var eins og best var á kosið, logn, frekar kalt og sól degar leið á morguninn. Kuldi er spurning um klæðnað. Á leiðinni til baka skildu leiðir og hélt hver í sína átt. Ég fór heim hefðbuundna leið í gegnum bryggjuhverfið og Elliðaárdalinn. Hjá mér gerði leiðin 42 km á 4 klst og 30 mín með öllum stopppum og drykkjarpásum. Halldór hefur líklega farið hátt í 50 km þar sem hann átti lengra heim. Ég var orðinn full orkulítill í restina, líklega vegna þess að ég var búinn að drekka svo mikið af köldu vatni sem kostar auka orku að hita upp. Það lagaðist allt með góðri recovery og prótein plöndu með góðu útíkasti þegar heim var komið. Þessi æfing tekur í. Ég var 85 kg áður en ég fór út, drakk 2.5 lítra á leiðinni og át dálítið af orkubitum. Samt var ég tveim kílóum léttari þegar heim var komið og hef ekki verið svo léttur síðan um miðjan júní í fyrra. Þetta er allt á réttri leið.

Nýlega voru nokkrum nemendum veitt einhver hvatningarverðlaun úti á Bessastöðum og höfðu þeir verið valdir úr stærri hóp. Niðurstaðan var þannig að það voru bara strákar sem fengu verðlaunin. Það stóð ekki á því að kórinn byrjaði að syngja; kynjamisrétti, karlremda. Rektorinn á Bifröst byrjaði að blása eins og venjulega þegar eitthvað svona ber á góma, líklega til að sýna hvað hann er modern og víðsýnn. Eins og yfirleitt er þegar hann hefur sem hæst þá hefur hann rangt fyrir sér. Ég heyrði einnig fréttamann taka málið upp í sama fordómatóninum eins og fleiri gerðu. Hann var spurður að því hvort hann hefði gáð að því hve margar stúlkur hefðu lagt fram verk sín í keppnina. Nei auðvitað hafði hann ekki gert það heldur byrjaði strax að þvæla um kynjamisrétti án þess að hafa skoðað málið nokkuð. Það er vinsælast að hoppa á lestina og gapa eins og hinir án þess að skoða eða ígrunda neitt. Svo kom að lokum viðtal við konu sem var formaður dómnefndar. Hún sagði einfaldlega að strákarnir hefðu verið langbestir og það sem stelpurnar lögðu fram hefði einfaldlega ekki verið nogu gott. Það var bara þannig að hennar mati. Mér finnst umræðan á stundum vera þannig að ef strákarnir skara fram úr þá verður tónninn eins og þeir séu að reyna troða sér fremst í biðröð en ef stelpurnar skara fram úr þá er það stórkostlegt og frábært. Nú vil ég unna öllum þeim sem skila góðri vinnu viðurkenningu óháð kyni, litarhætti og aldri eins og þeir eiga skilið en þessi jafnréttisumræða er á stundum alveg úti á túni og algerlega óþolandi.

Það var sagt frá því af vandvirkni í útvarpinu í gær að fyrir spánska þinginu liggi frumvarp þess eðlis að þau fyrirtæki verði sektuð sem hafi ekki ákveðið kynjahlutfall í stjórnum sínum. Síðan hvenær er það orðið fréttnæmt á Íslandi hvaða frumvörp eru lögð fyrir spænska þingið? Frumvarp!!! Ætli væri ekki öruggara að bíða eftir að það verði samþykkt áður en byrjað er að blaðra. Þarna getur t.d. verið lítill flokkur sem er að reyna að láta bera á sér og leggur fram frumvörp sem hann fær aldrei samþykkt. Hvað veit ég?

föstudagur, mars 03, 2006

Höfnin að kvöldlagi

  Posted by Picasa
Veðrið að undanförnu hefur verið gott til hlaupa en samt sem áður finnst mér ekkert voðalega spennandi að skokka með fram götum bæjarins. Enda þótt ég hlaupi yfirleitt seint á kvöldiní miðri viku þegar umferðin er verulega minni en um hádaginn þá sér maður engu að síður rykskýin þyrlast upp af götunni þegar bílar keyra hjá. Maður talar ekki um ósköpin yfir hádaginn. Það er ekkert voðalega spennandi að sjúga gúmmí-og malbiks rykið niður í öndunarfærin. Það er ekki laust við að maður vorkenni því fólki sem býr t.d. í blokkunum sem standa næst við Kringlumýrarbrautina þar sem umferðin rennur áfram í stríðum straum dag út og dag inn með rykskýið á eftir sér. Þegar svifrykmengunin fer yfir hættumörk flesta daga þegar verður er stillt á veturna þá er eitthvað öðruvísi en á að vera.

Svifryksmengun fer yfir hættumörk. Hvað þýðir það? Þýðir það að einhverjir verða fyrir skaða? Er t.d. hættulegt fyrir ungabörn að vera í kerru eða gangandi á gangstéttum við hliðina á mestu umferðaræðunum? Börnin eru það lág að þau anda í rykmekkinum á meðan þeir sem hærri eru finna ekki eins fyrir þessu. Mér finnst full ástæða til að veita þessu meiri athygli. Eins og veturnir hafa verið undanfarin ár þegar varla kemur snjókorn hér í Reykjavík heilu veturna þá slitna götur eðlilega mjög mikið vegna nagladekkjana. Bílarnir eru staðreynd og það þýðir ekki að tala um að fækka þeim. Því verður að bregðast við þessum ófögnuði sem rykið er með einhverjum hætti, þó ekki væri nema þrífa göturnar af og til yfir veturinn.

Skrappp í gær til Sandgerðis og Reykjanesbæjar. Það er gaman að kíkja í heimsókn til nágrannasveitarfélaganna og heyra í þeim hljóðið. Margt gott er að gerast á þessum slóðum enda þótt alltaf sé brekku að finna.

Nú er vetrarfrí í grunnskólum. Ég hef stundum velt fyrir mér tilgangi þess. Það eru góð jólafrí og páskafrí og síðan er sett á sérstakt vetrarfrí. Það er ekki sérstaklega auðvelt fyrir marga foreldra að taka sér frí og gera eitthvað með krökkunum um miðjan veturinn hvernig sem á stendur. Sumar stéttir eiga rétt á vetrarfríi en aðrar ekki. Þar sem krakkarnir á heimilinu eru á mismunandi skólastigum er í fleiri horn að líta en bara til þeirra sem eru í grunnskóla.

Stjórnaði framhaldsaðalfundi í Kjördæmissambandi Framsóknarmanna í Reykjavík suður í gærkvöldi. Lagði fram bókun, sagði af mér fundarstjórastörfum og gekk af fundi þegar sýnt var að meirihluti fundarmanna var ekki á þeim buxunum að virða fundarsköp og viðurkenndar fundarreglur og hafði lagt fram vantrauststillögu á fundarstjóra.

Jói og félagar spiluðu við HK 2 í gærkvöldi í Víkinni. Þeir unnu góðan sigur og spiluðu fínan handbolta.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Kirkjan á Þingeyrum

  Posted by Picasa
Fór hverfishringinn í gærkvöldi. Febrúar gerði vel yfir 300 km sem er það lengsta sem ég hef hlaupið í þeim ágæta mánuði. Vikan var um 80 km. Hefði getað farið lengur en þegar maður vinnur eftir ákveðnu plani þá er planið sem blívur en ekki stundarsprettir. Mars á að gera yfir 400 km. Lögð verður aukin áersla á brekkuæfingar og hraðaæfingar mun fjölga. Sá í gærkvöldi að svifrykið á Bústaðaveginum var óhuggulega mikið enda þótt væri farið að halla í kl. 23. þegar ég kom heim.

Dagurinn í dag er nokkuð eftirminnilegur fyrir ýmsa hluti. Þetta er bjórdagurinn. Eftir margra áratuga bið var það gert löglegt að selja bjór á Íslandi. fram að þeim tíma hafði það verið ákveðið yfirstéttarsyndróm að geta boðið upp á björ. Publikum varð að gera sér að góðu að drekka brennívín í kók (eða þannig). Um tíma var mikill business að selja pilsner með tindavodka út í eftir að einhverjur hugvitssamir náungar höfðu fundið glufu í lögunum. Það vaknaði margur með vondan hausverk um helgar á þeim árum. Mér finnst að það ætti að vera skyldulesning að lesa rökstuðning þeirra þingmanna sem voru á móti því að aflétta bjórbanninu.

Þennan morgun árið 1986 vaknaði ég frekar snemma morguns og fór að horfa á God Morgon Sverige en þá bjó ég í Kaupmannahöfn. Það tók mig nokkuð langan tíma að átta mig á hvað fólkið í sjónvarpinu var að tala um en svo áttaði ég mig á umræðuefninu; Það var búið að skjóta Olof Palme. Það fer ennþá um mann hrollur við tilhugsunina þegar maður áttaði sig á alvörunni. Olof Palme var mikilvirtasti stjórnmálamaður Norðurlanda fyrr og síðar og nokkursskonar symbol í augmum fyrir margra hluta sakir. Hann var einnig hataður af öðrum. Það er með ólíkindum hvernig mörgum þáttum í rannsókn málsins var klúðrað eftir því sem seinni tíma heimildavinna hefur leitt í ljós. Það er meðal annars af þeim sökum sem menn eru ekki algerlega sannfærðir um að Christer Petterson, einn af Stokkhólmskrimmunum hafi skotið hann, kannski af misgáningi, enda þótt margt bendi til þess.

Sé mér til ánægju að það eru ýmsir sem fitja upp á nefið við glersúlunni í Viðey. Þetta er nú meira ruglið. Myndi maður fara sjálfur út í einhverja eyju ef maður væri í fríi á Krít eða á Spáni og troða miða í einhverja glersúlu í þeim tilgangi að stuðla að friði í heiminum? Afskaplega fáir myndu gera þetta, að ég tali ekki um ef það er bara veitt aðgengi að henni í nóvember. Ef menn vilja stuðla að auknum friði í heiminum held ég að vænlegra til árangurs væri að taka barn í fóstur í Afríku og sjá til þess að það fengi sæmilega að borða, hefði föt og heimili og fengi menntun. Þetta er kannski ekki sérstaklega frumlegt séð í gegnum sólgleraugu lélegs listamanns og enn lélegri söngkonu sem ferðast um í nafni fyrrverandi eiginmanns síns en ég er ekki frá því að árangurinn væri meiri en hennar aðferðafræði. Af hverju borgar hún ekki gimmikkið sjálf?