fimmtudagur, júní 30, 2011

Kim Larsen & Kjukken - Kvinde min

Tvær álkur að spekúlera



Staðurinn þar sem björgunarafrekið var unnið. Flaugarnefið er græna flesið fyrir miðri mynd.



Siglt undir Bjargið



Ég skrapp vestur á Rauðasand um síðustu helgi. Ferðafélag Íslands var með gönguferð um hluta hreppsins undir nafninu "Björg og bú". Gísli Már prófessor var leiðsögumaður en hann er Látramaður og gjörkunnugur öllum hlutum þar vestra. Ég keyrði vestur á fimmtudagskvöldið en þann dag fór hópurinn inn á hlíðar og inn í námur í blíðuveðri. Ég hitti hópinn í Kirkjuhvammi. þar stendur yfir bygging íbúðarhúss fyrir staðarhaldara í Saubæ. Byggingin hafði tafist um nær því ár m.a. vegna vinnu ofanflóðanefndar sem taldi mikla snjóflóðahættu á túninu í Kirkjuhvammi. Dagurinn hófst síðan í kirkjunni í Saurbæ. Að því loknu var haldið út að Lambavatni, gengið þaðan út að Brekku og svo áfram út í Keflavík. Þar voru borðuð bjargfuglsegg og flatkökur til að draga úr líkum á sjóveiki. Björgunarsveitin beið þar með gúmmíbáta og deginum var lokað með siglingu undir Látrabjarg og endað á Látrum. Ég hafði aldrei gengið út Látrabjarg og hvað þá siglt undir bjargið svo þetta var mikil upplifun. Það var rjómablíða og við sigldum upp í harðaland hér og hvar, inn í skúta og göt á klettunum sem er víða að finna. Mikið var af fugli á sjónum og töldu heimamenn að ekki væri mikill munur á eggjum í bjarginu frá fyrri árum. Daginn eftir fórum við á bílum yfir í Geldingsskorardal. Niðurundan honum strandaði togarinn Dhoon í desember 1947. Heimamenn úr hreppnum unnu eitt frækilegasta björgunarafrek allra tíma hérlendis þegar þeir sigu niður í fjöru í háskammdeginu, björguðu mönnunum til lands og drógu þá síðan upp á bjargbrún. Alls tók björgunin þrjá sólarhringa. Það getur enginn ímyndað sér þær aðstæður sem fólkið vann við og sigraðist á.
Svo var gengið út bjargbrúnina og Gísli og Valur Helgason sem er Látramaður fræddu hópinn um aðstæður í bjarginu, sigstaði og fleira og fleira. Þetta var mjög skemmtilegur dagur í góðu veðri. Ég lagði gleraugun frá mér uppi á bjargi þegar við vorum að kíkja á fugla og áttaði mig ekki á því fyrr en komið var niður að vita. Ég mátti því skondrast uppeftir aftur og leita að þeim. Ég var mest hræddur um að hrafninn hefði gripið þau en mikið er að hrafni við bjargið. Ég fann gleraugun eftir nokkra leit og var á undan hrafninum. Um kvöldið var grillveisla í gamla fjósinu í Heimabæ. Síðasta daginn var gengið út undir Bjarnarnúp, farið í safnið á Hnjóti og horft þar á myndina um björgunarafrekið og ferðin endaði síðan í kirkjunni í Sauðlauksdal. Þetta var fín ferð sem stóð fyllilega undir væntingum. Ég ók svo suður um kvöldið.

Mér finnst ég ekki hafa hlaupið neitt sérstaklega mikið í vetur. Ég hvíldi mig vel í janúar og tók svo nokkurra vikna hlé í febrúar þegar smá vöðvaþráður slitnaði í öðrum kálfanum. Svo hef ég ekki verið að stressa mig yfir þótt nokkrir dagar hafi dottið úr hér og þar. Engu að síður er ég búinn að hlaupa því sem næst álíka mikið og þegar ég var að búa mig undir Western States hér um árið. Svona er allt afstætt.

Fréttamennskan í fjölmiðlum lætur ekki að sér hæða. Um daginn var mælst til þess að fólk léti hundana sína vera heima á 17. júní en tæki þá ekki með sér niður í bæ. Ýmsir hundar stressast upp í þrengslum og geta brugðist illa við ef ókunnugir krakkar eru að klappa þeim. Því voru þetta mjög eðlileg tilmæli. Einhverjum manni líkaði þetta ekki og gat ekki hugsað sér að taka tillit til svona tilmæla. Hann ætlaði ekki að láta einhverja andskota stjórna sér og sínum hundi. Það birtist viðtal við hann í Mogganum þar sem hann sagðist ætla að hunsa tilmælin og fara með hundinn í bæinn. Líklega hefur hann hringt í Moggann og Moggamenn náttúrulega hlaupið upp til handa og fóta eins og gert er þegar einhver er að mótmæla. Síðan birtist svo mynd af viðkomandi hundaeiganda á 17. júní niður í bæ þar sem þeir voru hinir roggnustu. Það stjórnar okkur enginn, sko. Reyndar voru þrengslin í bænum ekki svo mikil, bílastæðasjóður og lögreglan sáu til þess.

Umræða hefur skapast um þá ákvörðun að meintur barnaníðingur í Vestmannaeyjum skuli ekki hafa verið settur í gæsluvarðhald þegar í haust. Margir hafa skammast út í sýslumanninn á Selfossi fyrir að hafa ekki stungið manninum í gæsluvarðhald á síðasta ári. Í vefútgáfu DV mátti lesa nýlega í þessu sambandi: "Illugi vill að sýslumaðurinn segi af sér." Ég fór að velta fyrir mér hver þessi Illugi væri. Er þetta einhver "SúperIllugi" sem liggur undir feldi og kemur svo fram og segir álit sitt þegar hann hefur hugsað hlutina til enda. Er hann það mikið gáfaðri og skarpskyggnari en annað fólk að það þyki sérstakt uppsláttarefni í fjölmiðlum ef hann hefur hugsað eitthvað mál til enda? Skyldi sýslumaðurinn á Selfossi hafa hugsað ef hann hefur lesið uppslátt DV: "Jæja, nú er rétt að fara að pakka niður, Illugi er búinn að hugsa málið og niðurstaðan liggur fyrir. Ég hef ekkert hér að gera lengur". Ég bara spyr.

föstudagur, júní 17, 2011

If I Fell - The Beatles

Effelturninn í baksýn



Í gær sat ég nefndarfund niður í iðnaðarráðuneyti. Ég hef hlaupið í skarðið sem varamaður í umræðu um atvinnumál. Það skal ekki fjölyrt um umræður í nefndinni en eitt situr þó í mér. Ein af þeim tillögum sem lagðar voru fram í vinnuskjali var að auka mætti samband bænda og neytenda með að blndur færu að selja "Beint frá býli". Þetta þekkist víða erlendis að slík viðskipti eru hluti af ferðamennsku og gera sitt til þess að auka tengsl milli ferðamannsins og framleiðendans. Sem sagt hið besta mál. Ég sagði að þrátt fyrir að þetta væri fínt mál per ce þá þýrfti nú líklega að huga að regluverkinu því það ég þekkti til þá vissi ég að það væri ekki sérstaklega vinsamlegt slíkum smáiðnaði. Gerðar eru gríðarlegar kröfur um vottun á öllum sköpuðum hlutum af heilbrigðiseftirlitinu svo dæmi séu nefnd. Frægt dæmi er þegar staðarhaldarar í Sænautaseli á Jökuldalsheiðinni fóru að selja ferðamönnum nývolga spenmjólk á staðnum. Heilbrigðiseftirlitið bannaði slíka verslun þar sem mjólkin væri ekki gerilsneidd. Það mátti hins vegar selja glösin og gefa mjólkina. Fulltrúi ráðuneytisins sem þarna var á nefndarfuninum taldi að íslenskar reglur væru í góðri harmóníu við það sem gilti í öðrum Evrópskum löndum. Fundarmenn töldu svo ekki vera og nefndu ýmis dæmi þar að lútandi. Ef svo væri þá væru íslendingar þeir einu sem færu eftir reglunum. Í kvöldfréttunum var síðan sagt frá því að skátar á Egilsstöðum hefðu ætlað að selja kökur til fjáröflunar í dag á 17. júní skemmtun í bænum. Heilbrigðiseftirlitið bannaði það þar sem kökurnar hefðu ekki verið hrærðar og bakaðar í löggiltu eldhúsi. Því máttu foreldrar skátanna slá í nýja lögun og fina eldhús sem hefur einn vask á hverja þrjá sem vinna í því eða hvernig sem þetta er. Í Víkinni er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur. Þá koma foreldrar krakkanna sem æfa hjá félaginu með kökur og leggja með sér á kökuhlaðborð, sem yfirleitt er hið glæsilegasta. Ekki hafa verið gerðar kröfur til að lagt hafi verið fram sérstakt heilbrigðisvottorð fyrir eldhúsin sem þær eru bakaðar í. Uppákoman á Egilsstöðum sýndi nákvæmlega það sem ég vissi að myndi gerast ef einhver "Beint frá býli" þróun færi að gerast í vaxandi mæli. Regluverkskröfurnar yrðu svo yfirdrifnar að þetta myndi i á engan hátt borga sig.
Í gærkvöldi var síðan sýndur þáttur úr danska sjónvarðinu sem heitir Annemad. Dönsk kona er þar með afar skemmtilega matreiðlsluþætti. Nú er hún á Spáni. Töluverður hluti af hráefninu sem hún notar keypti hún á markaðnum. Þar var meðal annars hrátt kjöt og pylsur af ýmsum toga. Pylsurnar voru heimagerðar einhversstaðar. Ég þori að éta hattinn minn upp á að pylsurnar eru ekki gerðar í steriliseruðum atvinnumannaeldhúsum heldur hjá einhevrju fólki sem er lagið við að gera pylsur og hefur af því smá tekjur ef þær smakkast vel og þykja góðar.

Það var svakaleg frásögnin úr kaþólska samfélaginu í Fréttatímaanum í morgun. Það er óhugguleg tilfinning að pedófílar og og önnur skítmenni skuli hafa hreiðrað um sig í barnastarfi hérlendis og ekki síst þar sem síst var búist við slíku, innan kirkjunnar. Verst að þetta lið skuli vera dautt. Það er tvennt hægt að gera strax, hjálpa þessum einstaklingum eftir megni og síðan á forsetaembættið að gefa út formlega yfirlýsingu þess efni s að gerendurnir hafi verið óverðugir fálkaorðunnar. Sama gildir um biskupsskollann fyrrverandi. Betra seint en aldrei.

Ég tók langan túr í morgun, hljóp upp að Esju, gekk upp að Steini og hljóp svo heim. Var heldur fljótari heim en uppeftir. Það tók mig 44 mínútur að ganga upp að Steini. Flýtti mér ekki. Mér finnst gróðurinn á bílaplaninu hafa vaxið verulega síðan í hitteðfyrra. Það rifjaðist upp að ég fór aldrei á Esjuna í fyrra.

fimmtudagur, júní 16, 2011

Rolling Stones - Street Fighting Man

Sölukona á götumarkaði



Ég fór til Parísar um daginn sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. París er alvöru stórborg og fer ekki á mili mála að hún hefur verið höfuðborg heimsveldis. Sveitarstjórnarmenn voru hrifnir af Haussmann, fyrrverandi borgarstjóra Parísar. Það var maður sem vissi hvað hann vildi. Á tímum hestvagna lét hann gera 12 breiðstræti í París sem enn standa undir því nafni. Þau koma saman við Sigurbogann. Tilgangur þess að gera þessi breiðstræti var að geta sent riddaraliðið nógu hratt og örugglega á vettvang ef upp komu óeirðir í borginni. Eftir að breiðstrætin voru lögð þá hara ekki orðið uppreisnir í París sem neinu nemur, einhverjar óeirðir en ekkert alvöru. Ég tók góðan hlauparúnt flesta dagana sem leið lá niður á Concordetorgið, á upp að Sigurboganum, síðan niður að Effelturninum, þá yfir að herminjasafninu, yfir Signu og á Concordetorgið aftur og svo upp á hótel. Fínn rúntur. Veðrið var eins og best var á kosið, sól og hiti. Þegar við fórum fór að rigna sem var eins gott því það hafði ekki rignt frá því í aprílbyrjun.

Þegar ég fer í svona ferðir þá tek ég með mér bækur að lesa. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað að lesa á kvöldin og í milliferðum, sérstaklega þar sem maður skilur lítið í sjónvarpinu. Ég tók með mér tvær bækur, önnur var Rosabaugur Björns Bjarnasonar og hin var bókin "Engan þar að öfunda" sem segir frá lífsbaráttu nokkurra einstaklinga í Norður Kóreu á hungurtímanum. Báðar þessar bækur eru eftirminnilegar og betur lesnar en ólesnar. Við lestur á Rosabaugnum áttar maður sig á þvi hvað minnið er svikult. Margt gleymist fljótt þótt að ekki langt um liðið síðan ákveðnir atburðir áttu sér stað. Björn hefur unnið þarft verk við að draga fram og raða saman þeim bitum í púsluspil þeirrar samtímasögu sem er undanfari Baugsréttarhaldanna. Í bókinni kemur fram um hvað þau snerust, umræðuna sem fór fram á meðan á þeim stóð og hvernig þeim lyktaði. Baugur hefur leikið það stórt hlutverk í íslandssögunni á síðustu 20 árum að það er þakkarvert að þessi saga sé skráð. Í upphafi var Bónus og Bónusfeðgarnir í nokkurskonar Hróa Hattar hlutverki. Vinir litla mannsins. Síðan breyttist margt og Rosabaugur fór að myndast yfir Íslandi. Viðskiptasaga Baugs þróaðist út í samsuðu ótrúlegra viðskiptaflækna út og suður um allt samfélagið og langt út fyrir landsssteinana. Markmiðið virtist vera að ná viðskiptalegum og stjórnmálalegum völdum á Íslandi. Býsna langt var seilst í þeim efnum og er varla nein skemmtilesning fyrir marga þá sem tengdust þessari umræðu á sínum tíma að fá söguna framan í sig í samþjöppuðu formi. Niðurstaða þess alls varð aftur á móti hrun Baugssamsteypunnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið allt. Eitt af því sem er áhugavert er að draga fram og setja í samhengi sögunnar hvernig ákveðnir einstaklingar tóku afstöðu við framgöngu málsins alls. Það bítur vafalaust nú fyrir ýmsa að lesa sín eigin skrif um málið þegar viðhorfið er orðið annað. Sá tónn sem birtist í ummælum ýmissa álitsgjafa segir betur en nokkuð annað hvað samtímasagan getur verið bitur þegar hún er leidd fram í dagsljósið. Reynt er að sneiða hjá því sem máli skiptir heldur er seilst í allar áttir til að gera sem minnst úr skrifum Björns. Mikið er gert úr því að tvö eða þrjú atriði í bókinni eru orðuð ónákvæmt og Björn hefur sagt að það verði lagfært við næstu prentun. Eins og segir í vísunni:

Lastaranum ei líkar neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt,
fordæmir hann skóginn.

Af þeim sem ritað hafa um bók Björns er honum gerðar upp þær skoðanir að hann láti stjórnast af hatri á Baugsmönnum við skrif sín. Að mínu mati áttuðu sumir sig fyrr en aðrir á hvað var að gerast og þótti nóg um þrátt fyrir að endalokin hafi orðið hrikalegri en nokkurn mann gat grunað. Birni eru gerðar upp þær skoðanir að hann sé knúinn áfram af birturleika fyrir að hafa ekki orðið flokksformaður og forsætisráðherra eins og faðir hans, Bjarni Benediktsson. Þannig reyna ýmsir að draga úr áhrifum skrifa Björns af fremsta megni með því að renna sér í manninn með tveggja fóta skriðtæklingu beint í legg. Af því fótbolti er sýndur mikið í sjónvarpinu þessa dagana þá er víst að slíkir menn fengju beint rautt ef þeir sýndu álíka hegðan inni á fótboltavellinum eins og þeir hafa sýnt á ritvellinum. Ritstjóra DV heyrði ég segja í útvarpinu að hann vissi hve oft væri minnst á hann í bókinni en hann hefði ekki lesið mikið af þvi. Ég skil hann vel.
Afar áhugavert er að fá yfirlit í samþjöppuðu formi á því hvernig fjölmimðlum var beitt markvisst og miskunnarlaust í þeim tröllaslag öllum sem Baugsréttarhöldin voru. Hverjum manni er hollt að átta sig á samhengi hlutanna hvað það varðar. Eins og öflugir fjölmiðlar eru nauðsynlegir í hverju samfélagi þá eru fjölmiðlar stórhættulegt vopn er þeim er misbeitt markvisst og meðvitað. Ekki fer milli mála að það var gert árum saman hérlendis. Mér finnst mikill fengur að bók Björns, Rosabaugi, og á örugglega eftir að lesa hana aftur og aftur. Í henni er dregið saman það mikið af heimildum sem hverjum manni er hollt að hafa þekkingu á að það er hæpið að maður nái að innbyrða það allt saman við einn yfirlestur.

sunnudagur, júní 12, 2011

Sigurjón nýkominn í mark









Ég er ánægður með ýmislegt í kringum 100 km hlaupið í gær fyrir utan hinn frábæra árangur sem náðist í hlaupinu. Hann sýnir fyrst og fremst hvaða framfarir eru að eiga sér stað í þjálfun og reynslu í ofurhlaupum. Okkar fólk stendur kollegum sínum í öðrum norrænum ríkjum fyllilega á sporði í þessum efnum. Síðan er hægt að tiltaka eitt og annað í umgjörð hlaupsins sem er rétt að halda til haga. FRÍ stóð fyrir námskeiði í vegalengdarmælingu götuhlaupa um miðjan maí. Þeir Stefán Örn, Kristján Ágústsson og Guðmundur Magni sóttu námskeiðið með fleirum. Stefán og Guðmundur mældu vegalengdina fyrir hlaupið eftir kúnstarinnar reglum. Nú er enginn vafi á að hún er löglega mæld. Það er ein forsenda þess að FRÍ leggur blessun sína yfir að hlaupið sé formlegt íslandsmót í 100 km hlaupi.
Annar hlutur sem ég er ánægður með er hvað mikil samstaða var í stjórn 100 km félagsins um að fara eftir almennt gildandi reglum um framkvæmd slíkra hlaupa og hætta þessari séríslensku "svona nokkurnvegin" framkvæmd. Sú umræða hefur skotið upp kollinum af og til á undanförnum árum að hlaup séu ekki síður skipulögð fyrir þá sem ekki taka þátt í þeim heldur en fyrir hlauparana sjálfa. Of margir hafa átt erfitt með að skilja að það sé í trássi við almenna framkvæmd hlaupa að utanaðkomandi aðilar hlaupi með hlaupurum í keppni og aðstoði þá á brautinni eftir fremsta megni. Þá er átt við að halda á eða hjóla með drykki og vistir þeim við hlið, hlaupa með þeim og hvetja þá til dáða eða brjóta vind. Rökin hafa m.a. verið þau að þetta sé svo gaman að það eigi að láta ánægjuna vera í fyrirúmi frekar en formfestu og reglur. Í ákveðnum tilvikum hefur þetta leitt af sér leiðindi og pirring. Við í stjórn félagsins vorum sammála um að vísa öllum slíkum órum út í hafsauga og hafa framkvæmdina klára og kvitta, öll aðstoð við hlauparana í brautinni væri óheimil. Skipti þá ekki máli hverju hún nefndist eða í hvaða formi hún væri. Vitaskuld eru hlauparar aðstoðaðir ef við liggur öryggi þeirra eða heilsa en þeir detta þá sjálfkrafa út úr hlaupinu. Þegar upp er staðið eftir hlaupið sést glöggt hvílíkt lán það var að við tókum þessa ákvörðun sem vitaskuld er sjálfsögð og eðlileg í flestra huga. Sigurjón smeygði sér undir 8 klst og hefur af því mikinn sóma. Það er hægt að ímynda sér hvernig umræðan væri ef hann einn hlaupara hefði fengið aðstoð í brautinni af félögum sínum utan hlaupsins sem hefðu brotið fyrir hann vindinn svo dæmi sé nefnt. Þá væri náttúrulega farin af stað umræða um að tíminn væri ekki marktækur vegna þess að honum hefði verið hjálpað og svo framvegis. Nú á hann þennan árangur alveg einn og skuldlaust. Eins má taka dæmi af Gunnari og Jóhanni Gylfa. Ef Gunnar hefði fengið mikla aðstoð í hlaupinu af utanaðkomandi aðilum við að brjóta vindinn en Jóhann mátt strita einn og óstuddur þá veit maður nákvæmlega hvernig væri talað. Vitaskuld er það ekki jöfn keppni ef einn fær aðstoð í brautinni frá utanaðkomandi aðilum en annar ekki. Sama gildir hvar í röðinni menn eru. Nú er allt á hreinu, reglur voru skírar og hver og einn getur glaðst yfir unnu afreki sem hann á algerlega skuldlaust. Slíkar reglur eru nefnilega notaðar fyrst og fremst hlauparanna vegna svo þeir losni við alla eftirmála og leiðindi vegna lausataka í framkvæmd hlaupa.
Að lokum er það staðsetningin. Vitakskuld má alltaf finna að öllum hlutum og ég veit að brautin út með flugvellinum og Ægissíðu getur verið vindasöm. Hins vegar er ekki auðvelt að finna braut sem hentar okkur fullkomlega undir svona hlaup. Kostir við að halda hlaupið á þessum stað eru hins vegar ýmsir. Afar gott er að geta fengið kafarahúsið til að nota sem meginbækistöð. Þar er allt til alls og hægt að hantera hluti eftir þörfum. Við erum laus við alla bílaumferð sem er kostur. Að lokum er enn eitt sem ég áttaði mig ekki á fyrr en í gær. Það kom miklu fleira fólk sem horfði á hlaupið og hvatti hlauparana en ég hafði búist við. Þegar Sigurjón lauk hlaupinu var hellingur af fólki á staðnum sem fagnaði honum á lokasprettinum. Sama var þegar næstu menn komu í mark. Slíkt setur mjög skemmtilegan svip á alla umgjörð hlaupsins og gerir það eftirminnilegra og ánægjulegra fyrir þá sem eru að ljúka vel unnu dagsverki. Þessir hlutir skipta nefnilega máli líka.

rolling stones it all over now

Hópurinn áður en lagt var af stað



laugardagur, júní 11, 2011

Félag 100 km hlaupara stóð fyrir þriðja 100 km hlaupinu á Íslandi í dag. Þátttakendur sem lögðu út voru alls 17. Það er fínn fjöldi miðað við þátttöku í 100 km hlaupum í okkar nágrannalöndum. Við mættum út í Nauthólsvík um kl. 6:00 í morgun. veðurútlitið var svolítið krítiskt, strekkingsvindur og dimmur til suðursins. Það gat rignt. Við drifum í að gera klárt, bæði í Nauthól og eins út á snúningspunkti sem var úti við Suðurgötu. Mældur hafði verið 2,5 km leggur sem skyldi hlaupinn 20 sinnum fram og til baka. Það voru nokkur tímamót með þessu hlaupi þar sem Frjálsíþróttasamband Íslands viðurkenndi hlaupið formlega sem íslandsmeistaramót. Það er góður áfangi í þeirri vegferð að koma ofurhlaupum á kortið hérlendis sem viðurkenndri íþróttagrein sem þau vitaskuld eru. Tregðulögmálið hefur hins vegar verið til staðar á þessu sviði eins og víða annarsstaðar en þetta er allt að koma. Hlaupararnir voru ræstir kl. 7:15 eða þar um bil. Sigurjón tók forystuna strax en Trausti, Jóhann og Gunnar fylgdu hinum eftir. Fljótlega eftir að ræst var þyngdi upp og það fór að rigna ofan í allstífan vind. Okkur leist ekki á blikuna ef það ætti eftir að ganga á með slagviðri. Maður var vongóður þegar sást að skúrin náði rétt inn yfir Reykjavík og vonaði það besta. Svo stytti upp en svo fór aftur að rigna. Þá báðum við Jóa að koma með tjaldið og skelltum því upp og settum dót keppenda þar inn. Það stóð á endum að þegar tjaldið var komið upp þá hætti að rigna og það fór vel með veður. Það lægði heldur þegar kom fram undir hádegi og varð þegar upp var staðið hið bærilegasta veður. Undir lokin var komið logn og hlýviðri. Trausti og Kalli Gísla hættu um mitt hlaup. Trausti var ekki búinn að ná sér af flensu sem hann fékk nýlega og Kalli hafði orðið fyrir meiðslum sem hrjáðu hann. Við fylgdum eftir stífum reglum um að það mætti ekki aðstoða hlauparana í brautinni. Það tókst vel og er alveg nauðsynlegt. Þessar reglur eru fyrst og fremst settar vegna hlauparanna sjálfra. Það er ekki gaman að hafa náð góðum árangri en hafa á bakinu skvaldrið um að viðkomandi hafi verið hjálpað með aðstoð í brautinni umfram það sem aðrir hlauparar fengu. Reglur þess efnis hreinsa allt slíkt út. Sigurjón lauk hlaupinu á frábærum tíma eða 7.59.01. Hann hafði sett sér það markmið að ná undir átta klst og gerði það glæsilega. Þessi árangur er frábær á tvennan hátt. Bæði er tíminn mjög góður miðað við að aðstæður voru svo sem ekkert sérstakar framan af hlaupinu, strekkingsvindur hjálpar aldrei til þegar hann er á móti. Síðan er Sigurjón ekkert unglamb en hann er 55 ára gamall. Þessi tími setur hann 77. sæti á heimslista það sem af er árinu. Einungis einn maður sem er á sama aldri og Sigurjón eða eldri hefur hlaupið á betri tíma á þessu ári en það er rúmlega sextugur þjóðverji. Síðan er farið að aldursleiðrétta árangur í stöðluðum ofurhlaupum. Þegar það hefur verið gert er árangur Sigurjóns örugglega meðal tíu bestu ef ekki meðal fimm bestu það sem af er árinu. Það kemur í ljós þegar síðuhaldarar hafa fengið árangur í hlaupinu í hendur. Slóðin á þessa afrekaskrá er á síðunni minni. Árangur hans er sjötti besti árangur allra á Norðurlöndum á árinu. Gunnar Ármannsson varð síðan annar á fínum tíma eða á 8.52.40 og Jóhann Gylfason örskammt á eftir á tímanum 8.56.35.
Sæbjörg Logadóttir sló rækilega í gegn þegar hún lauk hlaupinu á 9.12.42 í sínu fyrsta 100 km hlaupi utanhúss. Hún hafði áður hlaupið 100 km á bretti fyrir einu og hálfu ári. Tími Sæbjargar er 35. besti árangur kvenna í 100 km hlaupi í heimi á árinu og fjórði besti árangur kvenna á Norðurlöndum. Elín Reed var önnur á 9.44.51 sem er mikil bæting hjá henni. Þessi árangur sýnir hvað við eigum mikið afreksfólk í ofurhlaupum hérlendis. Árangur hefur batnað mikið og breiddin aukist. Þeir sem síðar komu luku hlaupinu á góðum tímum og í góðum gír. Dagurinn var fínn þegar upp var staðið, góður árangur og fín framkvæmd. Gísli aðalritari sat í framsætinu á bíl sínum allan daginn, skráði tíma og setti á vefinn. Það er frábært að geta útvarpað því sem framvindur samstundis. Teljarar sýndu að var vel fylgst með hlaupinu yfir daginn en yfir 10.000 flettingar komu inn á fréttir af því. Íslendingar hafa áhuga á ofurhlaupum. Öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd hlaupsins skal þökkuð öll aðstoðin svo og hlaupurunum sem hafa lagt sig fram um æfingar og uppskáru nú ríkulega.