sunnudagur, október 30, 2005

Fór í morgun niður í Laugar í góðu veðri en nokkuð köldu. Síðan var hlaupið inn í Elliðaárdal, út að Nauthól og þaðan niður í Laugar aftur og svo heim. Svona 19 km í það heila. Það var nokkuð hált svo maður varð að fara varlega.

Horði aðeins á Silfur Egils þegar heim var komið. Það var nokkuð óvanalega hreinskiptin umræða í Silfrinu þennan daginn. Of oft er þetta eitthvað frasalið hjá Agli sem er ekki mjög áhugavert að horfa á. Bjarni Harðarson ritstjóri af Suðurlandi talaði tæpitundulaust um það sem hann kallaði sjúkdómavæðingu og aumingjagæsku í samfélaginu. Fólk væri í vaxandi mæli farið að reyna að leita inn í örorkubætur ef minnsti möguleiki væri á til að komast inn á forsjá hins opinbera. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar reyndu strax að snúa þessu upp í að Bjarni væri á móti öryrkjum sam var vægt sagt eins og ómerkilegt Morfístrix. Þetta er því miður of mikið til í þessu hjá Bjarna. Það er sama þróunin að gerast hér eins og er þegar staðreynd á hinum Norðurlöndunum. Þar er undarlega stór hluti fólks sem er á vinnualdri kominn á framfæri hins opinbera. Ég þekki persónulega svona dæmi þegar ungt fólk kemst upp með það árum saman að dýfa ekki hendi í kalt vatn heldur lifir á opinberu framfæri og finnst það bara þokkalegt. Það er náttúrulega ein afleiðing mikilla breytinga í samfélaginu að ungt fólk elst ekki eins upp við vinnu og áður. Engu að síður er það staðreynd að duglegir krakkar finna alltaf leiðir til að bjarga sér.

Ég kynntist þessum sjónarmiðum fyrst þegar ég fór til Kúbu fyrir 25 árum í vinnuferð. Við unnum þar meðal annars við að tína appelsínur og mandarínur og vorum uppi í stigum við tínsluna. Síðan voru vinnufundir á miðvikudögum og laugardögum. Á slíkum fundi tóku norðmennirnir sem við unnum með það upp að það væri nokkuð alvarlegt að okkur hafi ekki verið kennt að nota stigana. Það væri ábyrgðarhluti að setja óvant fólk upp í stiga án þess að kenna þeim fyrst að nota þá. Okkur íslendingunum fannst þetta svo fyndið að við gerður grín að þessu. Síðar þegar ég fluttist til Svíþjóðar þá áttaði ég mig á hvað samfélögin þarna voru gjörólík því sem maður hafði alist upp við. Það var algengt að fólk sem var að klára háskólanám hafði aldrei unnið neitt. Sumurin voru notuð til að ferðast og leika sér því það var svo jobbigt í skólanum. Þetta sjónarmið er að færast hingað upp í vaxandi mæli.
Fór út snemma í morgun og tók góðan hring vestur á nes. Það var samsæti í vinnunni í gær eftirmiðdag sem dróst fram á kvöldið eins og gengur og það var ágætt að ná eftirstöðvunum úr sér með svitanum í morgun. Flaug á hausinn rétt hjá OLÍS stöðinni við Vesturgötuna. Tók smá beygju og uggði ekki að mér. Í sjálfu sér heppinn að meiða mig ekki þegar maður liggur allt í einu kylliflatur á götunni.

Þrúða frænka hefur verið að vekja athygli á kjörum gamla fólksins á Sólvangi í Hafnarfirði að undanförnu. Þetta er náttúrulega fyrir neðan allar hellur að hrúga fólki þarna inn eins og drasli í yfirfullan bílskúr og síðan vonast kerfið eftir því að þetta leysist af sjálfu sér. Það er nauðsynlegt fyrir því sem ráða hverju sinni að muna eftir því að gamla fólkið hefur byggt grunninn undir það þjóðfélag sem við búum við í dag.

Sé og heyri af og til í frambjóðendum sem telja að ungur aldur og reynsluleysi sé mjög gott vegarnesti til að fara að stjórna ríki og borg. Þeir segja það kannski ekki svona heldur færa þetta í einhvern annan búning en sama er, þetta er inntakið þegar verið er að færa rök fyrir því að almenningur eigi að velja einhevrja til ábyrgðar. Í mínum huga er ákveðin reynsla forsenda þess að hægt sé að ætlast til þess að einstaklingar getir skilað einhverri vinnu af viti í almannaþágu hjá ríki eða sveitarfélögum. Sjóndeildarhringurinn mótast yfirleitt af reynslunni. Því sem reynslan er minni því þrengri er sjóndeildarhringurinn. Ég tengi á milli umræðuna um gamla fólkið og kröfuna um að almenningur eigi að greiða barnapössun fólks með skattpeningum sínum. Á norðurlöndunum er almennt talið að það sem megi flokka undir kennslu í leikskólum hjá börnum á aldrinum 2 - 5 ára gömlum taki svona 45% - 60% af þeim tíma sem krakkarnir eru í leikskólanum. Afgangurinn fer í almenna gæslu og vistun. Hér borga foreldrar almennt um 33% af heildarkostnaði við rekstur leikskóla. Þeir ættu í raun að greiða meira ef hlutfallið milli vistunar og þess tíma sem hægt er að segja að fari í fræðslu ætti að tengjast gjaldinu. Enda þótt einhverjir segi að lög um leikskóla segi að allur tími á leikskólanum flokkist sem kennsla, þá vita allir sem til þekkja að það er auðvitað ekki rétt.

Ég set þessa um ræðu í samhengi við umræðuna um gamla fólkið. Menn skirrast ekki við að heimta að almenningur greiði æ meir fyrir sérhagsmuni barnafólks (rétt að gleyma ekki fæðingarorlofi karla) á sama tíma og öldruðu fólki er hrúgað saman í herbergi við algerlega óviðunandi aðstæður. Þetta er náttúrulega spurning um hvaða hagsmunahópar eru í betri aðstöðu til að láta í sér heyra.

Jói benti mér á mikla auglýsingu frá BT sem var að opna nýja búð í Smáralind og auglýsti í því sambandi mikla verðlækkun á ýmsum tækjum og tólum. Til dæmis var tölva með 1,7 GH örgjörva, 512 MB innra minni og 80 GB diski og 17" skjá auglýst á 129 þúsund og sgt að afslátturinn væri 85 þús. Hún hefði sem sagt átt að kosta um 215 þúsund krónur. Svona tölvumeð sama búnaði kosta um 1200 dollara í Bandaríkjunum. Í íslenskum krónum er það rúmar 70 þúsund kr. Maður hefði sem sagt 145 þúsund upp í verslunarferð til Bandaríkjanna ef maður myndi kaupa tölvuna þar og flytja hana heim. Tollar og skattar gætu verið um 40.000 kall. Restin væri hagnaður. Þvílíkt bull. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

föstudagur, október 28, 2005

Fór í gærkvöldi á tónleika í Austurbæ með Sveini og Jóa. Dúndurfréttir léku lög með Uriah Heep, Deep Purple og Led Zeppelin. Austurbær var stappfullur og fengu færri en vildu. Þetta var dúndurgott kvöld og skemmtlegt. Ég hef áður farið á tónleika með þeim þegar þeir fluttu The Wall í Borgarleikhúsinu fyrir ca þremur árum. strákarnir eru fínir tónlistarmenn. Pétur og Matti hafa mjög háar raddir og gefa gömlu orginölunum ekkert eftir. Pétur hefur þó öllu betri og hærri rödd. Einar gítarleikari nær öllum riffunum af stakri snilld og Óli og bassaleikarinn sem ég veit ekki hvað heitir eru gríðarlega þéttir og mynda frábæran grunn fyrir hina. Það er gaman að heyra þessa gömlu standarda tekna af mikilli fagmennsku og innlifun. Uriah Heep kom hvngað fyrr nokkrum árum og þeir voru orðnir dálítið ryðgaðir en eru víst að túra enn af gömlum vana. Ég sá ekki Deep Purple þegar þeir komu í sumar en las að söngvarinn væri hættur að geta tekið sum gömlu lögin þar sem hann þarf að fara hvað hæst s.s. Child in time. Pétur og Matti gerðu það aftur á móti af stakri snilld í gær.

fimmtudagur, október 27, 2005

miðvikudagur, október 26, 2005

Í dag eru tíu ár liðin frá því að snjófljóðin féllu á Flateyri. Árið 1995 var Vestfirðingum afar erfitt því í febrúar fyrr um árið hafði fallið snjófljóð á Súðavík þar sem 12 manns féllu, þar af ein skólasystir mín og vinkona frá því á Hvanneyrarárunum. Þessir atburðir er fastir í minningunni. Þá bjuggum við norður á Raufarhöfn og maður skynjaði vel þá tilfinningu sem fylgir því að búa í litlu samfélagi og fá slíkar fréttir frá öðru álíka stóru. Maður gat ímyndað sér stöðuna ef snjófljóð hefði skorið bita úr byggðinni, bara spurning hvaða hluti það hefði orðið. Að gera tilraun til að ímynda sér það sem fylgir svona áfalli er eiginlega of erfitt til að það sé reynandi. Uppbyggingin hefur gengið vel bæði á Flateyri og Súðavík á þeim tíu árum sem liðin eru og samfélögin standa sterk að ýmsu leyti.

Las viðtal í Mogganum í morgun við gamlan félaga minn frá Patreksfirði, Alla frá Fit. Hann hefur verið sjómaður í um 35 ár frá Patró, byrjaði veturinn 1968 sem 15 ára strákur á Garðari BA sama vetur og ég steig mín fyrstu skref sem sjómaður á Maríu Júlíu. Mín sjómannstíð varð hins vegar aldrei mjög löng. Við ólumst upp sitt hvoru megin við Skörðin en höfum einhverra hluta vegna gengið hver sinn veg í lífinu að mestu leyti. Á þessum árum var mikið umleikis á Patró og öðrum álíka þorpum og sveitirnar fullar af fólki. Alli vann síðan í mörg ár sem háseti og stýrimaður á hinum og þessum vertíðarbátum frá Patró og hin seinni ár sem útgerðarmaður á eigin trillu. Það er ekki einleikið hvernig kerfið hefur leikið hann gegnum tíðina. Yfirleitt hefur hann lent öfugu megin hryggjar þegarf kerfið hefur breytt um kúrs. Það hlýtur að vera erfitt og slítandi að finna það að fótunum er sífellt kippt undan manni þegar trú er farin að byggjast upp á að nú sé fengið fast land undir fætur. Ekki er hægt að álasa honum fyrir að hafa ekki sinnt sínu starfi, oftar en einu sinni verið með aflahæstu mönnum á landinu á bátnum sínum. Svona er þetta, það er stundum eins og óheppnin elti suma öðrum frekar.

Mig langar að klára umræðuna um kvennafrídaginn á því að velta fyrir mér þeim fullyrðingum sem haldið var mjög stíft fram í aðdraganda dagsins að konur hefðu aðeins 64% af launum karlmanna. Ég þori að fullyrða að þessi staðhæfing sé í besta falli hálfsannleikur en líklega alröng. Mér finnst svona fullyrðingar vera þess eðlis að maður þurfi að fá staðreyndir málsins fram í dagsljósið. Hvað stendur á bak við þetta? Voru ekki birtar niðurstöður rannsókna nýlega sem sýndu fram á að það mætti leiða líkur á að fyrirhendi væri eitthvað um 7% launamunur sem væri hægt að kalla því nafni. Er þessi munur sem minnst var á meðal annars kominn til vegna þess að konur vinna frekar á leikskólum, við kennslu og afgreiðslustörf svo dæmi sé nefnt en karlar frekar við sjómennsku, byggingarvinnu og á vinnuvélum? Ef þessi munur á því hvaða atvinnugreinar kynin velja sér er ein af forsendunum fyrir þeim fullyrðingum sem dælt var hömlulaust yfir landslýð þá er maðkur í mysunni. Hjá sveitarfélögunum er verið að vinna að margumræddu starfsmati. Sveitarfélögin eru stærsti vinnuveitandi landsins. Starfsmatið útrýmir kynjabundnum launamun, vegna þess að það er lagt mat á störfin en ekki hverjir sinna þeim. Ég verð að segja að eftir að hafa hlýtt á málflutning öfgafullra feminista á liðnum árum þá tek ég mörgu því með fyrirvara sem frá þeim kemur.

Af hverju var ekki tekinn einhver karl og honum velt upp úr tjöru og fiðri um daginn á sviðinu á Ingólfstorgi um daginn? Það hefði t.d. mátt taka einhvern kallinn sem var að taka myndir fyrir fjölmiðlana eða einhvern úr þeirra hópi sem sáu um að halda hljóðkerfinu gangandi. Það hefði verið í stíl við sumt annað. Nóg um kvennafrídaginn enda þótt af nógu sé að taka.

Rjúpur á torginu í Kiruna

Posted by Picasa
Rósa Park dó í dag, blökkukona 94 ára gömul. Hún hefur líklega valdið meiri straumhvörfum í mannkynssögunni en flestir aðrir með því að neita að standa á fætur fyrir karlmanni. Eftir að hún var dæmd í sekt árið 1955 fyrir að neita að standa á fætur í strætisagni fyrir hvítum karlmanni fóru mannréttindasamtök að veita mannréttindabrotum á svertingjum í Bandaríkjunum meiri athygli og lauk þeirri baráttu með því að slíkur ójöfnuður sem viðgekkst fram til þessa var ekki lengur liðinn innan ríkisins. Það eru oft þessar einföldu symbolsku aðgerðir sem ná meiri árangri en hávaði og upphlaup. Mér er enn í fersku minni vaskgjörningurinn á Ingólfstorgi í gær sem vonandi sem fæstir sáu og heyrðu. Hvað átti svona lagað að þýða inn í umræðu eins og Amal flutti svo vel til fjöldans, þá stöðu sem innflytjendur (bæði karlar og konur) eru í hérlendis? Það getur vel verið að einhverjar listaspírur eða meðvitaðir einstaklingar sem hafa höndlað hinn eilífa sannleika sjái ljósið í svona löguðu en fyrir mér er ansi djúpt á það. Ég er náttúrulega undirlagður af karllægum gildum og karllægu hugarfari þannig að það er kannski eðlilegt að þetta sé ofvaxið mínum skilningi.

Maður heyrir oft á strákum sem eru á unglingsárum að þeir eru dállítið pirraðir út í þessa umræðu. Þeir eru ekki að gera lítið úr umræðunni jöfn laun fyrir sömu vinnu en það er von að þeir spyrji þegar konur ræða mikið um lág laun svokallaðra kvennastétta: Af hverju fá þær sér ekki aðra vinnu? Þetta er spurning sem á fullan rétt á sér. Mér fannst að þegar rektorinn á Bifröst í Borgarfirði fór á flot með þá umræðu að kvenkyns nemendur sem hefðu lokið námi við skólann hefðu 50% lægri laun en karlkynsnemendur í sömu stöðu að það hlyti að mega rekja ástæðuna fyrir þessu til skólans sjálfs eða þannig að hann hefði vanrækt að byggja upp sjálfstraust hjá konunum að námi loknu. Ef þú trúir ekki á þig sjálfur, hver á þá að gera það?

þriðjudagur, október 25, 2005

Konurnar á okkar vinnustað fóru úr húsi í gæri og héldu niður í bæ. Þar var gríðarlegur fjöldi saman kominn. Sumir karlanna létu fara vel um okkur á kaffistofunni og fylgdumst þar með dagskránni.
Góðu hliðarnar: Það var mikil þátttaka í deginum víða um land (hver vill ekki fara í frí dagpart?) og vafalaust góð stemming þar sem þær söfnuðust saman. Hvati fyrir konur að ræða sín mál og stappar í þær stálinu þar sem á þarf að halda.
Ræða Amil (fulltrúa erlendra kvenna) var mjög góð og þar var talað út frá hjartanu um þau vandamál sem þesar konur (og vafalaust karlarnir líka, af hverju gleymast þeir alltaf) þurfa við að stríða hérlendis.
Það sem mér fannst á vanta: Fundurinn var á vitlausum stað. Hverjum dettur í hug að setja fund af þessari stærðargráðu á Ingólfstorg? Enda þótt ekki hefðu komið nema 25.000 hefði það verið alltof alltof lítið. Niðurstaðan var sú að það sáu ekki nema sumar og heyrðu einnig ekki nema sumar því þyrlan var alltaf að fljúga yfir og truflaði þannig hvað fundarmenn heyrðu. Dagskráin var framkvæmd svona og svona að mínu mati. Hverjum dettur í hug að það blási einhverjum baráttuhug í brjóst að berja innan vask (sérstaklega þar sem flest heimili eru komin með uppþvottavél)? Reyndar ekki mitt en þar sem ég þvæ yfirleitt upp sjálfur eftir matinn þá er mér sama. Á svona fundi eiga þeir sem flytja texta helst að kunna hann utanbókar eða því sem næst því upplestur af blöðum missir marks ef það er ekki þeim mun betur gert.

Mér fannst vanta á fundinn einhvern ræðumann eins og Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem sló í gegn á fundinum fyrir 30 árum. Hún talaði þannig að það var ekki hægt annað en að hlusta. Nú talaði enginn sem hafði viðlíka áhrif á mig en það er bara mitt sjónarmið og ekki ætla ég að leggja þeim orð í munn sem á fundinum voru.

Fór góðan hring í hverfinu í gærkvöldi í frekar köldu en góðu veðri.

sunnudagur, október 23, 2005

Kom að vestan í dag. Gerðum góðan túr og kláruðum það sem þurfti að gera, setja fyrir glugga þannig að það lofti um húsið.

Ég hafði sett Redex á vélina á bílnum fyrir skömmu og fann mér til ánægju hvað það hafði góð áhrif. Hún vann betur, bíllinn hitnaði ekki upp brekkur og eyddi minna.

Aðeins um veggjakrotið sem ég skrifaði um í síðustu viku. Ég hef fengið nokkur viðbrögð. Sumir eru heldur reiðir og koma því á framfæri í stuttum texta en aðrir hafa sent mér löng bréf þar sem þeir lýsa sinni skoðun á þessu út frá ýmsum sjónarhornum. Ég er þakklátur fyrir öll bréfin. Þau gefa mér smá innsýn inn í þennan heim sem er mér ókunnur og möguleika á að skilja hlutina betur. Ég játa að mér urðu á þau mistök að alhæfa of mikið í því sem ég skrifaði. Ég fór t.d. niður í bæ og skoðaði myndina sem sett var upp á Menningarnótt. Hún er flott. Ég hef einnig séð aðrar myndir sem eru fallegar og vel gerðar. Ég verð hins vegar að segja að mér finnast margt annað sem ég hef séð ekki eiga mikið sameiginlegt við þær. Mér finnst vanta eitthvað inn í þetta. Krakkar sem spila fótbolta og vilja ná árangri hafa sín æfingasvæði. Vantar krakka og unglinga sem vilja þroska hæfileika sína í veggjalist sín æfingasvæði? Ég veit það ekki en mér þætti forvitnilegt að heyra skoðanir þeirra sem eru að stunda þetta og lesa þetta hugsanlega. Ég fékk t.d. bréf frá einum sem stundar nám í hönnun og hefur lagt þetta fyrir sig. Hann skrifaði mér mjög fróðlegt og gott bréf. En nóg um þetta. Ég er ekki í krossferð gegn veggjakroti ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Mér sárnaði hins vegar eins og mörgum öðrum þegar farið var inn á Víkingsvöllinn með krot. Síðan líkaði mér ekki allt það sem ég sá í Fossvoginum. Þetta er ekki bara einn bekkur í Elliðaárdalnum. Læt ég svo lokið umfjöllun um veggjakrot.

fimmtudagur, október 20, 2005

Kláraði að fara með bílinn í gegnum skoðun í dag. Þá er það frá í eitt ár.

Fór í heimsókn til Gunna Jónatans og Rósu seinnipartinn. Þau voru að opna fyrirtæki uppi í Nethyl sem leigir meðal annars út skrifstofuhúsnæði. Þau voru með opnunarboð þar fyrir fjölskyldu og kunningja ásamt þremur svíum og íra sem eru að halda námskeið með þeim á morgun. Það er í tengslum við ráðgjafafyrirtæki sem er að hefja starfsemi hér og Gunni og Rósa stjórna. www.IBT.is. "Yfirsýn skapar hagnað". Byggt upp eftir hugmyndafræði sem írinn mótaði og hefur auðgast á. Þetta er áhugavert og vonandi að það gangi upp hjá þeim.

Maður heyrir voðalegar fréttir frá Pakistan. Þar eru hundruðir þúsunda í bráðri lífshættu eftir jarðskjálftana í byrjun mánaðarins. Þetta er þriðja stóra katastrófan sem hefur dunið yfir á tæpu ári. Flóðbylgjan á Indlandshafi um jólin, fellibylurinn í New Orleans og nú jarðskjálftarnir í Pakistan. Þetta er nú orðið alveg nóg. Þetta kemur manni enn einn ganginn til að hugsa um hve heppinn maður er að búa hér uppi á Íslandi.

Maður veit ekkert hvað maður á að hugsa í sambandi við fuglainflúensuna sem mikið er talað um á síðustu vikum og mánuðum. Það hafa einungis um 50 - 60 í Austurlöndum fjær manns dáið úr einhverju sem kölluð er fuglainflúensa. Hvað búa margir þar? Tveir til þrír milljarðar þegar allt er talið. Fjölmiðlar hafa farið hamförum í umræðu um þessi mál og fullyrðingarnar ganga um að milljónatugir muni farast í Evrópu ef hún komi. Ég verð að segja að maður efast verulega um þessar fullyrðingar. Eitt af því sem olli hinum stóru plágum hér fyrr á árunum var að fólk var veilt fyrir sökum lakari fæðu og verri húsa. Hins vegar er rétt að taka þessa umræðu alvarlega og vera við öllu búinn, en það bætir ekki að skapa einhverja hysteríu.

Reykholtskirkja í Reykholtsdal

 Posted by Picasa
Tók hefðbundinn hring í hverfinu í gærkvöldi í góðu veðri. Maður er strax farinn að sakna þess að geta ekki tekið þátt í haustmaraþoninu því veðurspáin fyirr helgina er góð. Það verður þá einnig gott að taka góðan göngutúr fyrir vestan með byssuna í góðu veðri á kunnuglegum slóðum.

miðvikudagur, október 19, 2005

Kvöldsól á Rauðasandi

 Posted by Picasa
Engin hlaup í dag sökum anna eins og stundum áður. Fór á foreldrafund í Breiðagerðisskóla í kvöld til að gæta hagsmuna Maríu og annarra barna í skólanum!!! Stundum er smá þörf á því. Tók upp umræðu um skipulagningu stundaskrár í skólanum. Krakkarnir í 7. bekk fá einungis tvö útivistarhlé á dag mánudaga og þriðjudaga enda þótt skólinn standi yfir frá kl. 8.20 á morgnana til 14.50 síðdegis. Á mánudögum er kennt eftir hádegi í þrjá bóklega tíma (120 mín) án hlés og á þriðjudögum er kennt eftir hádegi í 160 mínútur eða fjórar bóklegar kennslustundir án hlés. Þetta er náttúrulega engin meining. Um þetta varð ágæt umræða með þátttöku skólastjórans og allmargra foreldra. Vonandi verður þessi umræða til að hagsmuna barnanna verði betur gætt í framtíðinni við samningu stundaskrár í skólanum. Þegar stundaskrá ef samin þarf að gæta að fjárhagshliðinni, sjónarmiðum starfsfólks og sjónarmiða barna. Stundum finnst mér eins og í þessu tilviki að sjónarmið barna gleymist.

Ég heimsótti finnskan grunnskóla í haust. Þar er skipulag stundaskrár þannig að það er kennt í 45 mínútur og síðan eru frímínútur (útivera) í fimmtán mínútur alla daga vikunnar. Finnar fullyrtu að það fengist aldrei leyfi fyrir stundaskrá í stíl við það sem hún er hjá Maríu og hennar jafnöldrum í Breiðagerðisskóla. Í Finnlandi eru kenndar um 1250 - 1340 mínútur á viku samanborið við 1400 mínútur á viku hér samkvæmt aðalnámsskrá. Engu að síður koma Finnar miklu betur út úr PISA rannsóknum en íslensk börn. Getur verið að nýting skólatímans sé lakari hér vegna þess að börnin fái of lítinn tíma til að hreyfa sig og anda að sér frísku lofti?

Það var athyglisvert í þessu samhengi að á fundinum í kvöld var haldinn góður fyrirlestur sem stóð í 45 mínútur. Fyrirlesarinn lauk honum með orðunum; "Þetta er nú búið að vera nokkuð langt, þið eruð vafalaust öll orðin þreytt". Hvað má þá halda um börn sem eru búin að vera samfleytt í kennslu án frímínútna í rúmlega tvo og hálfan klukkutíma? Getur mikil aukning á þörf fyrir stuðning og allra handa úrræðum verið vegna þess að börnin fái ekki nóga hreyfingu í bland við kennsluna? Spyr sá sem ekki veit en umræða um þessi mál er nauðsynleg.

sunnudagur, október 16, 2005

Hljóp niður í Laugar í morgun og hitti Vini Gullu. Veðrið var afar gott og hefði verið skynsamlegra að vera á stuttbuxum. Fór ekkert mjög langt og var kominn heim rétt fyrir kl. 12.

laugardagur, október 15, 2005

Slátgurgerð í dag á heimilinu. Kvenleggurinn í ætt Sigrúnar safnast saman einn laugardag á hausti hverju og gerir slátur. Þær hafa gaman af þessu, það er farið yfir sviðið og álit á mönnum og málefnum lagt fram. Sælgæti er í skálum og svo er smá bjór eða annað þvíumlíkt í glasbotni fyrir þær sem það vilja þegar líður á daginn. Á svona degi er skynsamlegt að láta fara lítið fyrir sér og helst að smokra sér út svo eigi verði eftir tekið. Ég fór því út að hlaupa fyrir hádegið og sló þannig tvær flugur í einu höggi. Tók góðan brekkuhring. Fór út í Fossvogsbotn, þaðan yfir Kópavogsháls og yfir Kópavoginn og upp á Garðabæjarháls. Þaðan til baka yfir Smáralindina og upp tröppurnar, niður þær aftur og upp HK brekkuna. Síðan lá leiðin yfir Fossvoginn og upp að Réttarholtsskóla og svo heim. Þetta var svona helmingurinn af hringnum sem við tókum í vetur þegar síðan var Poverate hringurinn farinn og svo upp í Árbæ og inn í Grafarvogsborn og þaðan upp í Jökulheima og svo heim. Það bíður betri tíma.

Lundi i Dyrholaey Posted by Picasa
Ég er oft pirraður á sumum blaðamönnum og fréttamönnum, þó ekki öllum. Maður getur ekki sett þá alla undir sama hatt en verst er að þeir vilja setja sig undir einn hatt. Í morgun féll enn einn á prófinu. Fréttablaðið birti á forsíðu frétt undir fyrirsögninni: "Prestinum var greint frá kynferðisofbeldinu". Ákveðinn greinir á tveimur stöðum í fyrirsögninni svo maður gerði ráð fyrir að nýjar staðreyndir væru komnar fram um málið sem allir tala um. Í texta fréttarinnar var hins vegar ekki eitt orð sem stemmdi við fyrirsögnina. Hvað á svona hroðvirkni að þýða? Er þetta lið ekki betur að sér en þetta eða er þetta fyrirskipun að ofan að hafa fyrirsagnir þannig að þær dragi athyglina að og síðan skiptir engu máli hvort fréttin sé í tengslum við fyrirsögnina. Ég fullyrði að svona vinnubrögð sér maður aldrei í þeim erlendu blöðum sem ég les, hvorki á netinu eða í pappírsformi. Það er talað um B myndir þegar verið er að lýsa lélegum kvikmyndum. Hér eru á ferðinni C blaðamenn.

Hið ágæta íþróttafélag Víkingur hefur orðið fyrir töluverðu tjóni vegna þess að einhverjir hafa farið um vallarsvæðið og spreyjað á skilti, veggi og annað sem á vegi þeirra var. Þetta er stórskaði fyrir félagið fyrir utan lýti og sóðaskapinn.

fimmtudagur, október 13, 2005

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu í kjölfar viðtala við þær Hafnarfjarðarsystur. það er vel því kannski fær það einhverja sem málið varðar til að átta sig betur á því að í slíkum tilvikum á að láta hagsmuni barnanna ráða för. Ýmsir svokallaðir fréttamenn sem eru að hamast á barnaverndarnefndum ættu að hugsa um þá hlið mála einstaka sinnum. Það væri framför. Ég minntist nýlega á myndina Rokkað í Vitulla sem ég keypti í Helsingfors og gerist í Pajala í norður Svíþjóð. Ég sagði að hún væri skemmtileg en það er hún alls ekki nema að hluta. Sumar senur í henni eru óborganlegar en aðrar eru tragiskar og sýna dökku hlið samfélagsins sem er þar eins og annarsstaðar. Myndin fjallar um uppvöxt tveggja stráka sem kynnast barnungir og eldast og þroskast saman. Annar kemur frá eðlilegu heimili en hinn er barinn með belti allan uppvöxtinn. Pabbinn er geðsjúklingur á vissan hátt og heldur fjölskyldunni í ótta og undirgefni með barsmíðum og ofbeldi. Þegar Nilli sonur hans sem barn smíðar sér eftirlíkingu af gítar og síðar þegar hann kaupir sér ódýran kassagítar þá brýtur pabbinn þá og brennir því hann vill ekki að strákurinn sé að spila djöflamúsík. Síðan er það nýr tónlistarkennari og rokkmúsíkin sem meðal annars losar um þessa fjötra. Strákarnir synir hrottans stækka og eitt sinn þegar þeir eru úti í skógi að saga tré þá ætlar hann að taka þá í gegn út af einhverjum smámunum. Þeir snúast aftur á móti varnar og berja hann í klessu. Þaðan í frá eru það þeir sem ráða. Viðbrögð hrottans við því eru að hann brotnar saman, hættir að vinna og verður að niðurbrotnum vesaling. Þannig er með flesta þá sem níðast á börnum, yfirleitt eru þetta aumingjar sem leka í duftið þegar tekið er á þeim.

Davið Oddson hélt sína síðustu landsfundarræðu í kvöld. Hann skaut föstum skotum í þær áttir sem honum fannst hæfa og er það viðeigandi við þessi tímamót. Hann hefur ekki setið á átakalitlum friðarstóli heldur hefur hann haft skýra stefnu og framfylgt henni hvað sem á hefur dunið. Það er einkenni foringja í stjórnmálum að móta stefnu með félögum sínum og fylgja henni. Sá sem æðir áfram stefnulaus eða hleypur til allra átta eftir því sem köllin berast tapar fljótt áttum og villist í þokunni.

Fundur var í Framsóknarfélagi Reykjavíkur í kvöld. Fundurinn var átakalaus og fór vel fram en þeim mun meir var unnið og talað í aðdraganda fundarins. Lykilatriði er ef flokkur vill ná árangri í stjórnmálum að einstaklingar geti tekist á málefnalega og virði jafnframt ákveðnar leikreglur. Sé það gert standa menn ósárir upp eftir að hafa tekist á. Ef þessar línur eru ekki virtar og einstaklingar fara að berast á banaspjótum í leðjuslag persónuníðsins þá tekur slíkt aldrei enda því takmörkin eru engin. Í slíkum atgangi tapa allir og flokkurinn mest.

Las í dag frásögn Kim Rasmussens frá Spartathlon hlaupinu þar sem hann náði 10. sæti fyrir skömmu. Hann notaði 5:1 taktikina eða að hlaupa í fimm mínútur og ganga í eina mínútu frá og með 20 km. Hann sagðist hafa ekki kennt sér neins meins eða stirðleika í fótum í hlaupinu og þakkaði það þessari taktik. Ég hef séð að bandaríkjamenn eru sérstaklega hrifnir af þessari aðferð. Ég nota þetta mikið á löngum æfingum og er alveg óhræddur við að ganga nokkur skref inn á milli. Gangan virkar eins og teygjur því áreynslan á vöðvana er allt öðruvísi. Á 140 km í Spartathlon eða þar um bil er hækkunin um 800 metra. Lýsing hans á þessum hluta leiðarinnar er eins og að ganga á Esjuna og klettarnir þar með taldir og síðan er brattinn svipaður beint niður hins vegar. Kim sofnaði tvisvar á leiðinni eða í 15 mín hvort skiptið. Hitinn var mestur um 25C en það rigndi mikið inn á milli. Þetta tókst hjá honum en það er ekki sjálfgefið. Hann hefur þrisvar klárað hlaupið en einu sinni dottið út. Kunnugir segja að keppendur verði að klára 100 km vel undir 10 klst til að vera tilbúnir að taka þennan slag.

Tók góðan hring í hverfinu síðdegis. Ætlaði vestur um helgina en fresta því vegna veðurs. Skoða næstu helgi en þá er haustmaraþonið!! Æ,æ.

Þingstaðahlaupshlauparar við minningarkross um Guðmund Gíslason

Posted by Picasa

miðvikudagur, október 12, 2005

Fór á myndakvöld hjá Ferðafélaginu í kvöld. Oft eru skemmtilegar frásagnir með myndum frá alhygliverðum slóðum. Í kvöld var farið yfir ferð á Hvannadalshnjúk þann 14. maí sl. yfirlit um Torfajökulssvæðið, Hornstrandaferð um Reykjafjörð og Furufjörð, gönguferð um Vonarskarð og síðast gönguferð um Héðinsfjörð og Hvanndali. Gott kvöld hjá þeim ferðafélagsmönnum.

Umræðan um Hafnarfjarðarsysturnar hélt áfram í kvöld í sjónvarpinu. Mér fannst magnað að sjá þær systur í viðtalinu í gærkvöldi. Magnað að nokkurt barn skuli sleppa óbrjálað í gegnum svona uppvöxt. Það getur varla verið auðvelt fyrir þá sem hefðu átt að ganga fram fyrir skjöldu að átta sig á því þegar sagan er lögð á borðið hve umhverfið brást börnunum.

Hvernig er aftur samfélagið og viðbrögð þess? Þegar barnaverndarnefndir taka á málum barna sem eiga undir högg að sækja þá verður allt vitlaust, sjónarmið þerra sem verða fyrir aðgerðum barnaverndarnefnda er haldið fram af offorsi í fjölmiðlum og mynd almennings af barnaverndarnefndum er að þar sé á ferðinni afskiptasamt fólk sem vinni eftir óeðlilegri afskiptasemi af högum náungans. Hagsmunir barnsins er sjaldnast ef nokkruntíma tekið inn í umræðuna því allri sem eiga að gæta hagsmuna þess eru bundnir trúnaði. Í þessu sambandi bera fréttamenn mikla ábyrgð og falla oft á þessu prófi eins og svo mörgum öðrum. Hvað sem hver segir þá hafa fjölmiðlar gríðarleg áhrif á viðhorf almennings gangvart umhverfi sínu að mínu mati og margra annarra. Ég man t.d. eftir Svefneyjarmálinu sem kom upp fyrir tæpum 20 árum. Þá fengu hin ákærðu feit viðtöl í blöðum sem voru meðal annars notuð til að rakka niður barnið sem þau voru ákærð fyrir að hafa misnotað. Ég man einnig eftir öðru máli sem kom upp á svipuðum tíma þar sem hinn ákærði fékk mikið pláss á síðum dagblaðs til að fegra og útskýra sína hlið á málinu. Ég þekki einnig dæmi um undarleg viðhorf skólafólks þar sem grófu og afar harkalegu einelti var hafnað af hörku af skólayfirvöldum þegar foreldrar vildu að eitthvað væri gert í viðkomandi máli því ekki mátti falla blettur á skólann. Þannig er nú það að fólk vaknar oft upp með andfælum þegar sannleikanum er nuddað framan í það og ésúsar sig og spyr hvernig í ósköpunum svona getur gerst en setur svo kíkirinn fyrir blinda augað aftur.

Sá í morgun frétt í Aftonblaðinu sænska þar sem sagt var frá því að 13 ára sænskur strákur hefði nýlega framið sjálfsmorð eftir stöðugt einelti í skólanum um sex ára skeið. Foreldrar hans höfðu reynt að fá viðbrögð innan skólans og innan bæjarkerfisins til að bregðast við vandanum en án árangurs. Strákurinn hafði síðan smám saman hætt að segja þeim frá ástandinu til að valda þeim ekki frekari áhyggjum en orðið var og síðan kom að því að hann leysti málið sjálfur. Nú sitja foreldrarnir og spyrja sjálfan sig: Af hverju fluttum við ekki í burtu meðan það var hægt?

þriðjudagur, október 11, 2005

Fann nýlega á netinu æfingaplön fyrir 100 km hlaup. Ég hef ekki séð mjög mikið af slíkum prógrömmum þannig að það var kærkomið að ná í þau. Þau voru sett upp fyrir maraþonhlaupara sem hlaupa maraþon á 3.00.00, 3.15.00 og 3.30.00 þannig að maður verður að stilla sig inn á sinn hraða og byrja að byggja ofan á það sem maður hefur. Ég er frekar hægur núna, hef þyngst dálítið og ekki æft mikið þannig að þetta fer í langtímaáætlunina. Ég sé á þessum prógrömmum sem ég hef alltaf vitað að ég er of linur við að taka intervallæfingar. Ég þarf að herða þá skrúfu til að auka hraðann. Annað hvort er að berja í brestina þar sem þeir eru eða vera ekkert að hugsa um bætingar eða hærri markmið. Þessi prógröm eru sett upp fyrir 26 vikur eða 6 mánuði áður en lagt er upp í 100 km hlaup eða þaðan af lengra. Heildarvegalengdin í hverri viku fer lengst upp í 110 - 120 km í ca þrjár vikur þegar verið er að búa sig undir 100 km hlaup þannig að það er ekki svo svakalegt. Ég ætla að sjá til hvort ég geti ekki sett link á þessi plön á síðunni.

Kíkti inn á WS síðuna í dag. Sá að það var búið að setja heimalönd við útlendingana sem tóku þátt í WS í vor. Þeir voru einungis 21 útlendingur sem tóku þátt í hlaupinu. Ég hélt að þeir hefðu verið fleiri. Af þeim voru einungis fimm á undan mér, tveir frakkar, einn frá Tanzaníu, einn frá Nýja Sjálandi og einn frá Kanada.

Setti nokkrar myndir inn á myndalink nr. 7 frá paraþoninu og Þingstaðahlaupinu.
Baugsmálið tók enn eina beygjuna í dag þegar Hæstiréttur sendi 8 atriði aftur til héraðsdóms en afskrifaði hitt. Ég vildi ekki vera í sporum ríkissaksóknara. Hann virðist vera á þeirri skoðun að þarna hafi verið um annan skilning á tæknilegri útfærslu en áður hafi verið hefð fyrir þannig að það geti veriðflötur á því að taka málið aftur upp. Þarna er eitthvað á ferðinni sem maður veit ekki en það er ekki ,ikið sem kemur út úr krafsinu ef það er bara svindl í kringum innflutning á þremur eða fjórum bílum. Reyndar finnst mér lítið leggjast fyrir kappana sem veltu milljörðum á þessum tíma ef menn hafa verið að svindla um nokkrar milljónir á bílainnflutningi. Lögfræðingar Baugsmanna legjja mikla áherslu á persónulega þáttinn eða hvað það hafi verið mikil áþján að hafa ákæruna yfir sér árum saman. Mér finnst að það hefði átt að gefa Baugsmiðlunum smá instrúx í þessa átt áður en þeir hófu herferðina til að ganga frá Jónínu Ben. Maður hefur ekki orðið vitni að öðrum eins óþverra og þar gekk yfir þjóðina. "Maður veit svo sem í hvaða ástandi hún hefur verið þá Hahahahahaha" hló illkvittni kallinn í Útvarpi Sögu hjá Arnþrúði sem var svo tindilfætt með tölvupóstinn út um allan bæ.

Mér fannst gott hjá Jónínu að mæta í Kastljós í kvöld. Það getur ekki hafa verið auðvelt af manneskju sem búið er að blása út af pressunni sem fyllibyttu, lausgirta og ómerking.

Hvernig skyldi næsti kafli í þessu máli verða?

Heyrði í morgun umræðu um kvikmyndir og þá slagsíðu sem er í framboði kvikmyndahúsanna hérlendis. Varla nokkur mynd nema frá Bandaríkjunum. Ég nenni varla nokkurn tíma í bíó hér en fer oft í bíó þegar ég er erlendis s.s. í Danmörku. Danir framleiða mikið af úrvalskvikmyndum sem koma fæstar hingað. Einu sinni stóð ég fyrir danskri kvikmyndaviku með félögum mínum í stjórn Dansk-Íslenska félagsins. Félagið var algerlega auralaust eftir afferu sem tengdist hingað komu eins leikarans úr Matador. Það voru góð ráð dýr en ein konan þekkti mann sem vann hjá Nordisk Film. Úr því varð hin besta kvikmyndavika sem skilaði félaginu góðum hagnaði en áður átti það ekki krónu. Eric Clausen kom hingað í tengslum við vikuna og hélt uppistand í Norræna húsinu með félaga sínum. Við vorum svo blönk hjá félaginu að það voru bara til peningar að kaupa eina skjáauglýsingu eftir 10 fréttir í sjónvarpinu kvöldið áður en uppistandið skyldi vera. Húsfyllir varð engu að síður og hin besta skemmtun. Einar þær skemmtilegustu myndir sem maður sér eru mydnir úr austur evrópu s.s. Tékklandi. Svartur köttur - hvítur köttur og Rútuferðin. Báðar óborganlegar. Maður færi oftar í bíó ef það væri ekki alltaf þetta Bandaríska rugl sem tröllríður húsum hér. Ég keypti mér finnskar myndir um daginn í Helsinki. Önnur heitir "Rokkað í Vittulla" en bókin hefur komið út á íslensku. Hún er stórgóð og ég er búinn að horfa þrisvar á hana. Alltaf jafn skemmtileg og lýsir mannlífinu í Pajala eins og það var segja kunnugir.

sunnudagur, október 09, 2005

Er að hlusta á fróðlega umræðu í útvarpinu um PISA rannsóknir. Eitt að því sem kemur út úr PISA rannsóknunum er hve íslenskir nemendur eru miðjusæknir. Fáir sem standa sig mjög illa en ekki margir sem eru framúrskarandi. Það kemur mér ekki á óvart. Mér hefði komið á óvart ef niðurstaðan hefði verið öðruvísi. Það er reynt að hlú að þeim sem eru seinfærir en hinir sem eru næmir og bráðþroska eru frekar látnir eiga sig og sjá um sig sjálfir. Ég er ekki búinn að gleyma foreldrafundinum haustið 2000 þegar kennarinn tjáði okkur frá vandamáli sem kom upp í skólanum veturinn áður og tengdist Jóhanni Reyni Gunnlaugssyni. What?? Jú hann var kominn ári á undan jafnöldrum sínum í stærðfræði þegar hann kom að norðan um miðjan vetur og það var skilgreint sem vandamál af skólanum. Síðan var hann settur í þvinguna þar til hinir krakkarnir voru búnir að ná honum. Ég verð enn reiður út í sjálfan mig fyrir aðgerðaleysið þegar ég hugsa um þetta.

Ekkert hlaupið í morgun en í staðinn var farið í góðan hjólatúr. Ég var með myndavél með og reyndi að ná í restina af haustlitunum meðfram hjólastígunum.

Stundum verður maður mjög undrandi. Nú er það stóra bindismálið sem vekur undrun manns. Þingmaður talaði í þinginu í síðustu viku í beinni útsendingu án þess að hafa bindi. Hann hafði hins vegar ekkert fram að færa í ræðu sinni annað en innantóma frasa. Það skipti ekki máli því hann var miðpunktur umræðunnar vegna bindisleysisins. Viðtöl og frásagnir. Bindislausi þingmaðurinn var í Silfri Egils í dag. Hvað annað þótt hann hefði ekki mikið til málanna að leggja umfram almennt hjal. Alltaf finnt mér Einar Oddur góður. Rökfastur og lætur ekki frasaliðið koma sér úr jafnvægi.

Stjórnmálamenn nota ýmsar aðferðir til að koma sér á framfæri. Sumir eru bindislausir en það er undantekning. Sumir þingmenn hafa mótaða framtíðarsýn fyrir þróun þjóðfélagsins og fylgja henni eftir með rökum og umræðu. Aðrir reyna að afla sér fylgis með því að auka hag einhverra á kostnað annarra með því að lofa einhverjum hópum samfélagsins því að hagur þeirra verði bættur annaðhvort með auknum fjárveitingum til ákveðinna verkefna eða með því að eitthvað verði ókeypis sem áður kostaði. Skattgreiðendur borga. Það er alltaf gott að greiða fyrir hlutina úr annarra manna vösum. Ég las í sumar grein í Dagens Nyheter (sænskt dagblað) sem gekk lengra en flest sem ég hef séð í þessum efnum. Þar skrifaði sósialdemókrati lærða grein um nauðsyn þess að samfélagið (skattgreiðendur) færi að greiða konum laun fyrir að vinna heimilisstörf. Rökin voru þau að konur ynnu tvöfalda vinnu og fengju ekkert borgað fyrr aðra vinnuna. Það var ekkert minnst á að karlar legðu neitt til heimilisstarfa í þessu samhengi. Kannski er það svo í Svíþjóð. Ég veit það ekki. Skyldi eiga að fara að greiða körlum laun af almannafé fyrir að mála húsið sitt utanhúss eða gera við bílinn? Gaman verður að vita hve mörg ár líða þar til verður farið að brydda á því í umræðunni hérlendis að nauðsynlegt sé að greiða konum laun fyrir heimilisstörfin af sköttm almennings.

Las í Lesbók Morgunblaðsins í morgun frásögn um ótrúlega reynslu systrahóps í Hafnarfirði þar sem geðsjúkur og brjálaður faðir beitti þær kynferðislegu ofbeldi árum saman. Kerfið brást í heild sinni enda þótt allir sem vildu vita vissu hvað átti sér stað. Þetta gerist á árunum frá ca 1970 og fram yfir 1980. Ég man eftir því þegar ég flutti til Svíþjóðar haustið 1980 þá las maður iðulega umræðu í sænskum blöðum um kynferðislega misnotkun á börnum. Maður velti fyrir sér hvort þetta væri ekki til á Íslandi þar sem engin umræða var um þessa hluti í fjölmiðlum. Síðar kom vitaskuld á daginn að þetta var heldur betur til staðar. Þegar hugsað er til baka og maður leggur saman tvo og tvo tel ég víst að ég þekki álíka dæmi eins og sagt var frá í Hafnarfirði og kannski fleiri en eitt þar sem þolendurnir eru á mínum aldri.

laugardagur, október 08, 2005

Dagurinn var tekinn snemma í morgun eða uppúr kl. 7.00. Pétur og Halldór komu upp úr kl. 8.00 og svo var haldið upp til Alfreðs. Konan hans keyrði okkur austur á Þingvöll. Við komum þangað rétt fyrir kl. 9.00 í blíðuveðri, logni og frekar björtu. Dálítið frost var eystra, svo mikið að bananinn var orðinn að slepju þegar til átti að taka eftir ca klukkutíma. Við súnnuðum okkur og lögðum svo af stað í morgunblíðunni. Sögur voru rifjaðar frá fyrri hlaupum s.s. að einu sinni við upphaf Þingstaðahlaups þegar einn hlauparinn létti á sér mjög nálægt kirkjunni en sá að athöfninni lokinni að presturinn sat fyrir innan og gaf honum illt auga. Við rúlluðum upp brekkurnar á rólegum hraða s.s. 5.30 - 6.00 mín á km. Einar bróðir Halldórs beið okkar skammt fyrir neðan Kjósarskarðsvegamótin. Alfreð sagði okkur frá Jungfrau hlaupinu svo og æfingum sínum fyrir hlaupið sem hafa vakið verðskuldaða athygli. Við höfðum drykkjarstöð við Skálafellsvegamótin og lögðum stein í minningarvörðu um Gumma Gísla, þann góða dreng og mikla hlaupara. Maður er ætíð minntur óþyrmilega á óréttlæti heimsins þegar leið liggur fram hjá vegamótunum. Léttara var undir færi þegar leiðin lá niður í Mosfellsdalinn. Brátt kom á móti okkur grár jeppapallbíll með hinn ólseiga Svan undir stýri. Hann er nýbúinn að ganga undir aðgerð á seinna hnénu og verður að hafa hægt um sig. Kunnugir segja að það sé jafnvel vissara að fela skóna hans svo hann fari ekki of snemma að hlaupa. Hann var kátur við að sjá okkur og sagðist bíða við Gljúfrastein með vistir. Eftir að hafa drukkið hjá Svan var rúllað áfram. Brátt kom í ljós að þegar spor okkar Pétur og Halldórs þyngdust heldur þá léttust þau hjá hinum, sérstaklega Alfreð sem var léttur sem fugl og naut þar undirbúnings fyrir Jungfrauna. Hann skildi við okkur við íþróttamiðstöð Fjölnis og leið áfram. Pétur rifjaði upp að hann hafði ekki hlaupið svona langt hlaup frá því á Laugaveginum í fyrr. Við lukum hlaupinu léttari í anda en spori upp úr kl. 14.00. Vegalengdin mældist vera 51 km, meðalhraði með stoppum 6,26 mín á km, besti km var 4,16 mín og meðalpúls var 147. Veðrið var eins og best var á kosið, logn, hlýtt og golan heldur í bakið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hleyp Þingstaðahlaupið og er það ákveðinn áfangi eins og gengur. Ég var með myndavélina með mér og tók nokkrar myndir á leiðinni. Lítið ver gert að hlaupinu afloknu en legið uppí sófa og horft á sjónvarpið.
Víkingur/Fjölnir vann Stjörnuna í handbolta í dag. Góð úrslit og óvænt.

P.S.
Við Þjóðmenningarhúsið er stillt upp demo af útliti Tónlistarhússins. Ég efa ekki að þetta verður flott þegar upp er komið og ljósið speglast í speglunum. Mér flaug hins vegar í hug hvílík óhemju vinna það hlýtur að vera að halda þessu hreinu svo möguleikarnir njóti sín. Saltrokið mattar glerið fljótlega ef það er ekki þrifið reglulega. Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að kostnaðurinn við þetta hús er gríðarlegur, svo mikill að það jaðrar við tómt rugl. Byggingarkostnaðurinn atoppar ekki við 12 milljarða því allur undirbúningur, gatnagerð, uppkaup húsa og annað þess háttar er þar fyrir utan. Svo hafa nýbyggingar hjá ríki og borg þann undarlega eiginleika að fara yfirleitt fram úr kostnaðaráætlun. Það virðist hinsvegar ekki mega tala um byggingarkostnaðinn því menningarelítan er svo óskaplega hrifin. Ein mjóróma rödd heyrðist hinsvegar í Mogganum um daginn sem hvíslaði að um 90% af öllum tónleikum yrði að fara fram annarsstaðar en í musterinu því það væri ekki pláss fyrir þá stærð tónleika sem algengastir eru og mest sóttir. Arkitektinn sagði að það mætti redda þessu. Redda þessu!!!? Er húsið ekki hannað með hliðsjón af þörfum allra eða bara sumra? Er ekki búið að kortleggja þörfina?

Spyr sá sem ekki veit og fer ekki á sinfóníutónleika, kammertónleika, nútímatónleika eða hvað þessi tónlistarmenning heitir öll sömul. Ég fer hins vegar á rokktónleika og þess háttar lágmenningu.

föstudagur, október 07, 2005

Þingstaðahlaupið á morgun. Við förum alla vega fjórir, ég, Pétur R., Halldór G, og Alfreð Jungfraufari. Það lítur vel út með veður, bjart og stillt og ekki of kalt. Vegna morgundagsins var ekkert hlaupið í dag.

Gleymdi mér um stund í dag undir lok vinnu við að skoða heimasíðu vestan af fjörðum eða nánar tiltekið frá Gistiheimilinu að Breiðuvík í hinum gamla Rauðasandshreppi (www.breidavik.net). Hjónin Birna og Keran reka þarna gistiheimili og búskap og hafa gert um nokkurra ára skeið. Þau halda úti fréttasíðu á heimasíðu sinni þar sem gefið er ágrip af amstri hversdagsins með skemmtilegum myndum. Það er gaman að fá innsýn í daglegt líf þessa fólks sem maður þekkti hér á árum áður og kannast svo sem við ennþá. Gistiheimilið í Breiðuvík er vel sótt af gestum enda aðstaðan þar alltaf að batna og stækka. Einnig eru Guðjón og Mæja í Hænuvík að byggja upp gistiaðstöðu hjá sér og sögðu þau mér um daginn að gistináttafjöldi hefði nær tvöfaldast hjá þeim milli ára. Þetta er duglegt fólk sem bjargar sér vel.

Heyrði skemmtilega hugmynd í dag sem á rætur sínar að rekja til Ítalíu. Hún gengur út á að gera Vestfirði eins og þeir leggja sig að einum þjóðgarði. Láta línuna liggja úr Gilsfirðinum þar sem styst er yfir á Strandir. Þjóðgarðurinn myndi njóta ákveðinna forréttinda svo sem möguleika á að fara með ferðamenn í sjóstanga veiði á rýmri kvótareglum en annarsstaðar gerðist og einnig yrði minni skattlagning á áfengi sem selt væri á svæðinu og gerðar ráðstafanir til að matsölustaðir gætu selt vöru sína eins ódýrt og hægt væri. Á Vestfjörðum búa um 8.000 manns eða um 2,7% þjóðarinnar. Skatttekjurnar eru því ekkert sem munar um í heildina. Ríki og sveitarfélög þyrftu að taka höndum saman um ýmis grundvallaratriði sem varðaði skipulagningu og struktur á svæðinu. Hugmyndin er fengin frá Ítalíu þar sem ákveðið jaðarsvæði þar sem búa 6.000 manns var gert að slíkum þjóðgarði. Svæðíð býr við ákveðin forréttindi og Evrópusambandið veitti fjármagn til að byggja upp infrastruktur svæðisins. Nú heimsækja svæðið um 1,5 milljónir manna á ári. Líklega yrði stærsti þröskuldurinn öfund og innri togstreyta. En hverju hafa menn svo sem að tapa? Á sameiningarfundinum í Tálknafirði á dögunum voru allir sammála um að íbúum svæðisins heldur áfram að fækka að óbreyttu. Það er ekkert í augsýn að óbreyttu sem kemur í stað samdráttar í fiskveiðum og landbúnaði. Þetta er skemmtileg hugmynd sem gaman væri að ræða nánar við áhugasama. Orð eru til allra hluta fyrst. Það héldu allir að íbúarnir í Jykkesjarvi norður við Kiruna í Svíþjóð væru orðnir vitlausir þegar þeir fóru að ræða um að byggja snjóhótelið. Nú er það ein öflugasta túristadæmi í Svíþjóð og þó víðar væri leitað. Það á aldrei að slá brjálaðar hugmyndir út af borðinu að óathuguðu máli.

Halló! Ég er Johnny Cash verður á Grandrokk á sunnudagskvöldið. Kallinn Johnny Cash er einn af þeim sem ég hef uppgötvað á nýjan leik á síðustu árum. Maður hlustaði á San Quinten plötuna með honum hér áður fyrr og þá var það afgreitt. I walk the Line og A Boy Named Sue.......... Ég hef keypt milli 20 og 30 plötur með honum á undanförum árum og ekki orðið fyrir vonbrigðum með eina einustu. Kannski eru einhverjar misgóðar en allar þess virði að eiga þær. Síðustu plöturnar eru hrein gersemi þar sem hann situr í sæmd sinni og gefur hverja plötuna út á fætur annarri og hver annarri betri. Textarnir hafa komið mér verulega á óvart. Umhverfismál, mannréttindabarátta, málefni indíána, söguleg kvæði og ástarkvæði til konu sinnar, þetta er allt þarna. Johnny Cash átti lengi í vandræðum með dóp og annan óþverra. Síðan tók hann sig á og hélt sér við beinu brautina og ástæðan var: I walk the line, because you are mine.........
Tók hringinn út á Eiðistorg í kvöld. Góður túr í góðu veðri sem var miklu betra en veðurspáin sagði fyrir um í gær. Veðurfræðingar eru ekki alheilagir. Man eftir Sigga storm fyrir skömmu þar sem hann var spurður um ástæðu þess að svo margir kröftugir fellibyljir kæmu á land við Flórídaflóann þessar vikurnar. Siggi svaraði að bragði: "Það eru gróðurhúsaáhrifin sem hitar sjóinn og veldur þessum miklu fellibyljum" Ég sá síðar línurit þess efnis að miklu miklu fleiri fellibyljir af gráðunni 5 hefðu komið á land á þessum slóðum á árunum fyrir rúmum 100 árum en hefðu gert á síðustu 5 - 10 árum. Ekki voru gróðurhúsaáhrif á ferðinni þá. Svona getur þetta verið. Það er erfitt að treysta neinum nú til dags, sérstaklega fréttamönnum.

Talandi um fréttamenn, þá hlustaði ég á fréttir kl. 18.00, kl. 1830 og kl. 19.00 á meðan ég var að skokka Eiðistorgshringinn. Í öllum þessum fréttatímum var sagt frá ákvörðun skólameistarans við VMA að taka upp samstarf við lögregluna á Akureyri um að koma fyrirvaralaust í heimsókn með fíkniefnahundinn í húsnæði VMA. Þessi ákvörðun er vafalaust tekin að gefnu tilefni í baráttunni við glæpamenn. Á Stöð 2 og í Ríkissjónvarpinu var umfjöllunin fagleg og efnislega jákvæð gagnvart ákvörðun og stefnu skólameistara en í ríkisútvarpinu var samúðin öll með glæpamönnunum því fréttamanninum lá afar mikið á að koma að spurningunni "Er þetta ekki ólöglegt?". Hvað á maður að halda?

Ég keypti mér nýlega bókina Kommúnisminn eftir Richard Pipes. Í henni er farið yfir sögulegt ágrip af framkvæmd kommúnismans í gegnum áratugina á síðustu öld. Mjög fróðleg lesning og nauðsynleg lesning fyrir alla að mínu mati því þótt kommúnisminn hafi fallið eins og spilaborg í Austur Evrópu fyrir rúmum 15 árum síðan þá er fólki enn í dag nauðsynlegt að átta sig á hvílíkar ofboðslegar hörmungar þetta stjórnskipulag hefur leitt yfir þær þjóðir þar sem það náði fótfestu. Það var fjöldi fólks sem hafði hér áður þá trú að þetta væri hið nýja ríki þar sem allir væru jafnir og nytu arðs vinnunnar. Maður skilur almenning sem hafði ekki möguleika á að skoða framkvæmdina með eigin augum og trúðu á þessa útópíu en maður skilur verr þá stjórnmálamenn og menntamenn sem ferðuðust iðulega til þessara landa og höfðu tækifæri til sjá innviðina og framkvæmdina með eigin augum eða námsmenn sem dvöldust í þessum löndum og komu síðan heim og boðuðu fagnaðarerindið. Ég man enn eftir varðturnunum við landamæri A- og V Þýskalands þar sem varðmenn með byssur gættu þess að fólkið slyppi ekki vestur yfir.

miðvikudagur, október 05, 2005

Er að horfa á veðrið í sjónvarpinu. Það er bara vetrarspá fyrir norðan uppúr helgi með snjókomu og leiðindum. Hvurslags er þetta og október bara nýbyrjaður. Þetta ætlar að verða hryssingslegt haust.

Þó eru líkur til að það verði þokkalegt veður á laugardaginn en þá verður Þingstaðahlaupið haldið. Farið verður af stað frá Þingvallakirkju kl. 9.00 og hlaupið í genum Almannagjá og síðan sem leið liggur til Reykjavíkur og farið dagfari og náttfari þar til útihurð Alþingis er náð. Nokkrir ætla að fara og hlaupa alla leið. Öðrum áhugasömum er bent á að það er mjög vel þegið ef einhverjir slást í hópinn á leiðinni og koma með lengri eða styttri spotta. Reiknað er með um 5 klst í þetta samtals þannig að það er hægt að stilla sig inn á hlaupið með þennan tíma í huga.

Rakst á skemmtilega grein á vefnum sem birtist í UltraRunning Magazine árið 1999. Greinin heitir Childbirth Envy: Why Men Run Ultras?
Þegar þátttakendalistar yfir ultrahlaup eru skoðaðir þá kemur í ljós að meirihluti þátttakenda eru karlar. Skýringin á þessum mun hefur yfirleitt verið sú að barnsfæðingar og umsýsla barna geri það að verkum að konur hafi ekki tíma til að sinna íþróttum vegna þess að þær eru uppteknar við barnaumsýslu.
Höfundar setja fram aðra kenningu í greininni, sem sagt að skýringin á þessum mun sé "barnsburðaröfund" (childbirth envy).

Kenningin felur í sér að karlar hafa þrá til að upplifa sársauka barnsfæðingarinnar en konur hafa enga sérstaka löngun til að upplifa þessa tilfinningu, sérstaklega þær sem hafa þegar fætt börn. Eftirfarandi rök eru færð fyrir kenningunni:
1.Stærstur hluti ultrahlaupara í kvennaflokki hefur ekki fætt barn.
2. Einkenni ultrahlaupara er slæmt minni. Hlauparar sverja þess dýran eið þegar þeir ljúka ultrahlaupi að gera þetta aldrei aftur en ekki líða nema fáir dagar þar til þeir eru farnir að litast eftir nýju hlaupi.
3. Samdráttur í barnsfæðingum í USA sýnir sterka fylgni við aukinn fjölda kvenna í ultrahlaupum sem bendir til þess að upplifun í ultrahlaupum geti komið í stað upplifunar af barnsfæðingu.
4. Eiginkonur og mæður eru yfirleitt mjög gott crew fyrir ultrahlaupara því þær geta nýtt sér reynslu sína af barnsfæðingum til að veita hlauparanum andlegan og líkamlegan stuðning.

Þetta er áhugaverð kenning sem er gott að ræða á löngum æfingum ef umræðuefni skyldi skorta sem verður hins vegar að teljast ólíklegt.

þriðjudagur, október 04, 2005

Ekkert hlaupið í kvöld. Sat inni og dundaði og hlustaði með öðru eyranu á eldhúsdagsumræður í sjónvarpinu. Ég skil satt að segja ekki hver er tilgangurinn í að sjónvarpa þessum umræðum. Í könnunum fjölmiðla kemur fram að fólk hlustar frekar lítið á þessar umræður enda kemur ekkert nýtt fram í þeim, stjórnarliðar sjá jákvæðu hliðarnar en stjórnarandstæðingar hinar dökku og allir fara vel með sitt hlutverk. Þeir sem það vilja geta horft og hlustað á þessar umræður í gegnum tölvur en reyndar eru ekki allir með aðgengi að þeim. Þeir sem vilja hlusta geta þá hlustað á útvarpið. Maður hlustar fyrst og fremst með áherslu á málflytjendur sem ræðumenn en minna á hvað þeir segja. Ég hef hvergi séð í nálægum löndum að sjónvarpið hafi beina útsendingu frá uppahfsumræðum á þjóðþingum viðkomandi landa. Oft er einnig hörmulegt að horfa á fólk sem les upp heimastílana sína eins og viðvaningar. Engu að síður fer mörgum fram milli ára því hægt er að læra góða ræðumennsku eins og annað ef vilji er fyrir hendi.

mánudagur, október 03, 2005

Léttur hringur í hverfinu í kvöld. Svolítið farið að rigna en spáir verra veðri á morgun. Veðurfræðingar spá heldur þokkalega fyrir laugardaginn en þá verður Þingstaðahlaupið. Hlaupið verður frá Þingvöllum niður að Alþingi og þeir sem hlaupa alla leiðina fá að snerta útidyrnar á þinghúsinu við leiðarlok. Aðrir mega bara horfa.

Hlustaði á Útvarp Sögu í kvöld. Hef ekki hlustað mikið á þessa stöð eða Talstöðina að undanförnu en tók þó aðeins púlsinn á þeim þegar Baugsumræðan stóð sem hæst. Velti svolítið fyrir mér hvað Jónína Ben. hafi gert á hlut Arnþrúðar Karlsdóttur með hliðsjón af því hvað hin síðarnefnda var tindilfætt út um allan bæ með eitthvað tölvubréf þegar tölvubréfa- og Baugsumræðan byrjaði og sagðist meir að segja eiga fleiri eftir í skúffunni. Í kvöld var komið inn á í einhverjum innhringiþætti að tölvupóstarnir hefðu verið sendir út eftir miðnætti og einhver karl hló illgirnislega og sagði hlakkandi; "Maður veit svo sem í hvaða ástandi hún hefur verið, ha ha ha ha"!! Í gær hlustaði ég á einhvern annann innhringiþátt á þessari sömu stöð og þá var verið að uppnefna JB með einhverjum bjánalegum nöfnum. Nú þekki ég Jónínu Ben ekkert og hef aldrei séð hana en maður spyr hvort séu engin takmörk fyrir því hvað hægt sé að ganga langt í að nota svona fjölmiðla til að rýja fólk ærunni. Það er enginn vandi með svona vinnubrögðum. Er þetta fólk sem vinnur þarna kannski algerir englar gagnstætt öðrum? Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Í kvöld hringdi einhver kona í enn einn innhringiþáttinn á Útvarpi Sögu og talaði við útvarpsstjórann sjálfan. Hún var að kvarta yfir einhverjum Gústafi sem er í öðrum þætti. Konan sem hringdi inn hafði heyrt þáttinn endurtekinn og líkaði alls ekki við þennan Gústaf. Hann væri alltaf að grípa frammí fyrir Hildi Helgu, en þau eru saman í þættinum. Útvarpsstjórinn svaraði konunni og bar nokkuð í bætifláka fyrir Gústafinn. Konan róaðist nokkuð og sagði síðan: "En þetta var nú endurtekinn þáttur, það hefur kannski verið betra þegar hann var frumfluttur?" "Já, það gæti verið" svaraði útvarpsstjórinn.

Varðandi stöðutöku Útvarps Sögu í Baugsmálinu, þá er eins og mig minni að ónefndur Jóhannes hafi reitt af höndum einar 5 milljónir þegar útvarpið var að fara á hausinn fyrir nokkru. Ef þetta er rangt þá verð ég leiðréttur. Æ sér gjöf til gjalda.

sunnudagur, október 02, 2005

Fór niður í Laugardal í morgun og hitti hinn fjölbreytilega hóp Vini Gullu. Berlinarfararnir Sibba og Hálfdán voru þar misánægð með frammistöðuna. Sibba bætti sig vel og náði fínum árangri, sérstaklega miðað við þann stutta tíma sem hún hafði til undirbúnings. Hálfdán var ekki eins glaður og lýsti dramatískum afleiðingum þess að hlaupa á vegginn. Hann sagðist hafa dottið niður á kílómeter 35 - 37 og átti í miklum erfiðleikum þaðan í mark. Ástæðuna fyrir þessum hörmungum taldi hann vera of litla drykkju og einnig hafði hann engan viðbúnað vegna steinefna. Það var frekar heitt og menn þola hitann misjafnlega. Mér hefur aldrei liðið eins illa í nokkru hlaupi eins og í Búdapest en öðrum hefur aldrei liðið eins vel og þar. Hitinn þar var milli 23 - 25 C og sterk sól. Það var ekki hlaupið langt í morgun eða ca 15 km í þéttum rigningarsudda.

Sá á norska ultravefnum kondis.no að Spartathlon fór fram á föstudag og laugardag. Spartathlon er hlaupið milli Spörtu og Aþenu. Hlaupið er á götum, það er 245 km langt og hækkun er 1100 metrar (3500 fet). Cut off er 36 klst. Af þeim 240 sem hófu keppni komust 100 í mark undir tilsettum tíma. Kim Rasmussen frá Danmörku og Eiolf Eyvindssen frá Noregi, sem voru báðir meðal keppenda í WS í júní, tóku þátt í hlaupinu. Kim varð 10. með tíma um 30 klst og er sá fyrsti sem klárar WS og Spartathlon á sama árinu. Eiolf þurfti að hætta eftir 150 km þar sem hann átti í vandræðum með bólgur í öðrum fætinum. Hann þarf ekkert að sanna á þessum vettvangi þar sem hann hefur klárað hlaupið þrisvar áður. Ætla að hafa samband við hann bráðlega varðandi undirbúning og annað sem hann hefur reynt á þessum vettvangi.

Bibba tileinkar mér bloggið sitt í gær og er búin að hugsa lengi. Hún fjallar þar um bleikt og blátt ásamt fleiru í kjölfar þess sem ég skrifaði um Pink í sumar. Nú verður maður að vanda sig!!

Ég sé að það hefur verið ákveðinn misskilningur á ferðinni hjá mér þegar ég lagði út af hugrenningum hennar um Pink Ladies. Ég hafði Pink í huga í tengslum við baráttu feminista um jákvæða kynjamismunun og allt það tuð sem ég er mjög ósammála en ég sé að Bibba hefur verið að meina bleika litinn hennar Barböru Cartland. Það finnst mér flott. Bleiki liturinn hefur verið of lítið í umræðunni á þeim forsendum á seinni árum, alla vega það ég hef séð.

Þegar maður ræðir við feminista eða kvenréttindakonur um kynin og stöðu þeirra þá segir maður varla meiri vitleysu að þeirra mati en þegar maður segir að munurinn á kynjunum sé genetiskur en ekki uppeldislegur. Þær halda því gagnstæða fram, sem sé að uppeldið hafi því sem næst allt að segja um hugsun og eðli kynjanna. Því sé það þannig að ef stúlkur eru ekki klæddar í bleikt í barnæsku þá finnist þeim bleikur litur ekkert tilheyra konum frekar en körlum svo dæmi sé nefnt. Mín skoðun er aftur á móti að kynin séu í eðli sínu mjög ólík, sem betur fer. Ég er ekki með því að segja að annað sé betra en hitt. Þau hafa vitaskuld hvort sín karaktereinkenni sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í þó ýmis dæmi mætti nefna.

Mér finnst því mjög flott að lesa það að Bibba macho sem hleypur maraþon með blöðru undir mestallri ilinni, fer í þríþraut með góðum árangri og dembir sér í hjólreiðakeppni með körlunum af því henni rann í skap, skuli eiga sínar ánægjulegustu minningar frá afmælisdegi þegar fjölskyldan bauð henni upp á bleikt og blúndur, kerti og konfekt og góða (kannski Barböru Cartland) sögu. Þetta styður enn frekar mínar fyrri kenningar um að kynin séu í eðli sínu ólík og það beri að virða og meta. Með hliðsjón af þessu þá finnst mér nafngiftin Pink Ladies vera fínt nafn á keppnissveit kvenna á Grænlandi þar sem það er ekki tilvísun í baráttu feminista fyrir jákvæðri kynjamismunum heldur undirstrikar að þrátt fyrir löngun og áhuga meðlimanna til að takast á við erfiðar æfingar og þreytu, erfiði, svefnleysi og átök í keppninni sjálfri til að ná ákveðnum árangri, þá séu þær ekki búnar að afneita sínu innra kvenlega eðli, finnst bleikur litur æðislegur og Barbara Cartland bara ágæt í bland.
Fór í morgun yfir í Elliðaárdal að hitta félagana við startið á Paraþoninu. Pörunum hafði aðeins fækkað vegna veikinda og svoleiðis. Veðrið var eins og best var á kosið á þessum árstíma, logn og svalt. Eftir startið hjólaði ég út í Nauthól til Halldórs og Péturs sem stóðu vaktina með sóma við að gefa hlaupurunum drykk. Mikil umferð skokkara var á stígunum í morgun.

Á aðalfundi FM í gærkvöldi var rætt um fyrirkomulag og fjölda hlaupa á vegum á vegum félagsins. Nærstaddir gerðu góðan róm að því að viðhalda sama fjölda og verið hefur. Það er gott mál. Með því brautarfyrirkomulagi sem síðustu hlaup hafa verið hlaupin eftir er fyrirhöfnin á drykkjarstöðvum í lágmarki sem skiptir verulegu máli. Stjórn FM ámiklar þakkir skildar fyrir það framtak og kraft sem þeir sýna að halda þessum hlaupum gangandi síðla vetrar og haust (og paraþonið til viðbótar). Það hefur án efa haft hvetjandi áhrif á marga sem eru að byrja að takast á við maraþonvegalengdir. Ég þekki það bara á sjálfum mér að það skipti bæði miklu máli að hafa tækifæri til að geta hlaupið maraþon oftar en tvisvar á ári og einnig og ekki síður skipti félagsskapurinn miklu máli. Svo er einnig um aðra það ég veit. Störf FM hafa vafalaust verið undirstaðan að þeirri miklu fjölgun maraþonhlaupara sem hefur átt sér stað á liðnum árum.

Náði ekki að sjá paraþonfólk koma í mark því ég þurfti að ná í Jóa upp að Esju en MRingarnir gengu á Esjuna í dag. Notaði tækifærið og gekk langleiðina upp að Steini og hljóp svo niður. Fyrsta Esjuæfing frá því snemma í júní. Hitti forseta ferðafélagsins í miðjum Esjuhlíðum. Hann er hefur tekið forystustarf í Ferðafélaginu föstum tökum enda ekki ókunnugur viðfangsefninu. Það virðist vera svo að ef mann langar til að hitta einhvern kunnugan án fyrirvara þá er næsta öruggt að ganga á Esjuna skilar árangri.

Maður veltir fyrir stundum fyrir sér hvort engar kröfur séu gerðar til fólks sem tekur að sár þáttastjórnun í sjónvarpinu (ef hægt er að kalla það því nafni). Eftir kvöldfréttir á laugardögum eru hljómsveitir fengnar til að spila í sjónvarpssal og er það svo sem í lagi. En að hafa einhverja manneskju í kringum þetta sem á að heita stjórnandi eða ég veit ekki hvað sem er að reyna að spyrja einhverra spurninga og er gjörsamlega óhæf til þess að mínu mati, það er í einu orði sagt skelfilegt að horfa uppá. Af hverju er ekki hægt að láta hljómsveitir spila án þess að skemma það með þessum ósköpum?

Mér likar vel hvernig Geir Haarde tekur á Öryggisráðsmálinu. Hann ætlar ekki að draga framboðið til baka til að halda friðinn en hann ætlar ekki að eyða neinum fjármunum í þetta sem neinu nemur (sem er þó of mikið). Sem betur fer ætlar hann að stoppa diplomatana í að vera að flengjast um heiminn að skrifa upp á stjórnmálasambönd við einhverjar okkur allsendis ókunnugar og óviðkomandi þjóðir sem koma aldrei til með að skipta okkur neinu máli. Ég hef aldrei séð ljósið í þessu máli og vona að það fái tiltölulega farsælan endi eftir því sem hægt er úr þessu.

laugardagur, október 01, 2005

Fór vestur á firði í gær til að fara á fund um sameiningarmál sveitarfélaga á Tálknafirði í gærkvöldi. Keyrðum vestur á Patró á 4 1/2 klst á léttu róli. Maður finnur alltaf betur og betur hve miklar vegasamgöngur hafa átt sér stað á leiðinni og hve gríðarlega þýðingu þær hafa. Fnegum gistungu á Patró og fórum yfir í Tálknafjörð eftir kvöldmat. Það var vel mætt á fundi og fjörugar umræður. Ekki er víst hvernig kosningarnar fara. Þó held ég að það sé skynsamlegast fyrir fólkið á þessu svæði að snúa bökum saman í þeyrri varnarbaráttu sem svæðið stendur í. Nú búa um 1370 manns í sýuslunni en þegar ég var síðast að vinna á Patró fyrir 25 árum !!! þá bjuggu í vestursýslunni um 2000 manns. Þá var mikið að gerast þarna, hending ef féll helgi úr svo ekki væri böll og þorpin og sveitirnar full af fólki.

Keyrðum suður í morgun í þokkalegu veðri, svolítið hvössu á stundum. Komum við á skrifstofu Reykhólasveitar og heilsuðum upp á sveitarstjórann og varaoddvitann. Þeir eru í sameiningarvinnu eins og fleiri en áhugi er misjafn. Þeir höfðu meiri áhuga á því sem þeir eru að stússast í þessa dagana sem er að koma upp styttu af Jóni Thoroddsyni sem orti Blessuð sértu sveitin mín og Hlíðin mín fríða með meiru.

Fór að búa mig undir fundinn í FM í kvöld og ganga frá myndunum. Minnti að hann hæfist ekki fyrr en kl. 2000 en hann byrjaði kl. 1900 svo ég var svolítið seinn. Þeir Gænlandsfarar, Trausti, Pétur og Erlendur höfðu góða framsögu og magnaða myndasýningu af sínu ævintýri frá því í sumar. Þeir komu heim reynslunni ríkari og eru þegar farnir að undirbúa þátttöku næsta sumar. Þeir eru langt komnir með að safna í tvö lið og hyggja á landvinninga í keppninni. Ég held að þeir verði að miða mataræðið betur að svona löngu og krefjandi álagi. Þá dugar ekkert pasta heldur verður að byggja á almennilegum mat. Gelið er gott sem orkuskot með en undirstaðan verður að vera prótein, kjöt, fiskur og slow carbs sem unnin eru úr höfrum, heilhveiti, ávöxtum og grænmeti. Fast carbs eru unnin úr hvítu hveiti, kornfleksi og kökum svo dæmi sé nefnt. Kristinn í SF sendi mér ágætar pælingar um þetta í gær. Slow carbs brenna seinna upp og gera gagn til lengri tíma. Maginn fer fljótt á hvolf ef hann fær ekki jafnt og þétt þá kjölfestu sem þarf til að standast það álag sem fylgir ultrahlaupum eða hvað þá svona margdagaþoni sem þeir Grænlandsfarar tóku þátt í. Grænlendingar eiga mikinn sóma skilið fyrir að starta svona verkefni.

Paraþonið á morgun. Veður verður sæmilegt og fer vonandi ekki að rigna fyrr en seinnipartinn.

Heyrði í fréttum í kvöld að Jón nokkur Magnússon lögmaður væri lögmaður 365 ljósvakamiðla. Fyrir nokkrum dögum sá ég viðtal við þennan sama Jón í morgunsjónvarpinu sem álitsgjafa í deilu 365 við Morgunblaðið og það allt dæmi í stóra Baugsmálinu. Þá var hann titlaður flokksformaður Nýs afls eða hvað hann nú heitir sá ágæti flokkur sem sama sem enginn kaus í síðustu kosningum til Alþingis og gaf álit sitt sem stjórnmálamaður ótengdur málinu. Nú kemur fram að hann er starfsmaður fyrirtækisins og gætir hagsmuna þess í þessu sama máli. Hefur þetta fjölmiðlamannalið ekkert siðferði eða lætur það hafa sig í það að gera hvað sem er til að þjóna húsbændum sínum? Er það furða þótt maður hafi ekki mikið álit á því sem kemur frá þessu liði. Kannski þykir það nóg að vera flissandi og hlæjandi helminginn af þeim tíma sem til ráðstöfunar er til dagskrárgerðar?

Sá að aðalritari FM gaf hint um bíómynd á Stöð tvö um undirbúning hóps frá Afríku fyrir Comerades. Myndin verður sýnd á Stöð 2 eftir u.þ.b. 10 daga. Verð að muna eftir að reyna að sjá þessa mynd. Comerades er eitt þeirra hlaupa sem stórkostleegt væri að taka þátt í.