þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Þegar ég fer erlendis þá gríp ég oft með mér bók / bækur til að lesa í flugvélinni eða á kvöldin uppi á herbergi áður en maður fer að sofa. Það er fínt því þá nær maður að koast yfir bækur sem annar sliggja uppi í hillu ólesnar. Ég tók með mér út um daginn bókina "Maó´s Great Famine" eftir Frank Dikötter. Hún fjallar um þann ægilega tíma í stjórnartíma Maós þegar átti að framkvæma Stóra stökkið (The Great Leap Forward). Stóra stökkið snerist um það að Maó vildi sýna Sovétríkjunum og náttúrulega öllum heiminum hvert væri öflugasta kommúnistaríkið. Kína átti að fara fram úr Bretlandi sem stálframleiðsluríki á nokkrum árum og einnig átti að auka útflutning matvæla landbúnaðarafurða gríðarlega. Áætlunin "Stóra stökkið" stóð yfir á árunum 1958-1962. Á þeim árum er talið að um 45 milljónir Kínverja hafi látist beint og óbeint vegna áætlunarinnar. Þeir dóu af vinnuþrælkun, sjúkdómum vegna hungurs og þrældóms, gríðarlegur fjöldi var drepinn og að lokum dóu milljónir úr beinni hungursneyð. Heilum héröðum var lokað með hervaldi svo ekki myndu berast fréttir út af ástandinu. Á þessum tíma rak hver ruglákvörðunin yfir Kína á fætur annari sem átti rætur að rekja til meistarans sjálf. Eitt var að Maó vildi sýna Krústjoff hverjir væru færari í myndun samyrkjubúa, Kínverskir kommúnistar eða sovéskir. Í Sovétríkjunum hafði fólkið fengið að halda heimilum sínum en það var nú eitthvað annað í Kína. Í gríðarlega umfangsmiklum mæli var allt sem féll undir einkalíf lagt niður og allt fært yfir í samyrkjuna. Fólk mátti ekki einu sinni eiga hnífapör. Allir áttu að matast í matsal samyrkjubúsins. Allir áttu að fara að bræða járn í bakgarðabræðsluofnum. Allt járn sem fannst var sett í bræðsluna. Það átti að vera grunnur að mikilli aukninu á útflutningi járns. Útkoman var náttúrulega hörmuleg því gæðin voru svo léleg. Landbúnaðarframleiðsluna skyldi auka með gríðarlegum hraða til að geta margfaldað útflutning matvæla. Allt sem hönd á festi var mulið niður í áburð. Meir að segja peningshúsin voru tætt niður og sallanum dreift á akrana. Því meira magn af fræjum og áburði sem dreift var á akrana því meiri uppskera átti að skila sér. Það gekk náttúrulega ekki eftir. Þegar héröðin náðu ekki tilskilinni framleiðslu þá var farið að falsa framleiðslutölur. Ríkið tók engu að síður áætlað magn til útflutnings og þá var lítið eða ekkert eftir. Niðurstaðan var matvælaskortur og hungursneyð. Eitt sinn datt Maó í hug að láta drepa alla spörva því það lék grunur á að þeir ætu korn af ökrunum. Aðferðin var sú að það átti að halda þeim á flugi þar til þeir yrðu örmagna og dyttu niður. Þá voru þeir drepnir. Um langt skeið voru því allir landsmenn uppteknir út og suður við að fæla upp spörva. Seint um síðir áttuðu forystumenn kommúnistaflokksins sig á því að spörvarnir lifðu á skordýrum sem herjuðu á kornakrana. Þegar skordýrin fengu að vera í friði þá stórjókst skaðinn sem þau ullu. Þá loks létti spörvaofsóknum í Kínalandinu. Svona var allt hjá Maó á þessum tíma. Ýmsir jarðbundnir menn Liosaqui, Zhou Enlai og Peng Duhai áttuðu sig á ruglinu og reyndu að leiða forystunni fyrir sjónir hvaða ógöngur þeir voru að leiða þjóðina í. Þeir máttu þakka fyrir að halda lífinu. Þessi ósköp stóðu yfir í fjögur ár.

Mér finnst nauðsynlegt að lesa þessa sögu þegar mögulegt er, bæði til að skyggnast bak við tjöldin á þeirri dýrðargloríu sem búið var að byggja upp um Maó og er að nokkru leyti enn. Hann er náttúrulega einn stórvirkasti morðvargur sögunnar og má þakka fyrir að hann gerði ekki meir í þeim efnum. Á þingi kommúnistaflokka í Moskvu ræddi hann í fullri alvöru um að gera kjarnorkuárás á vesturveldin. Ef þriðjungur mannkyns myndi farast þá voru þó tveir þriðju eftir. Það væri mjög ásættanlegt að mati Maós því þessir tveir þriðju væru fljótir að fylla upp skörðin eftir þá sem hefðu drepist. Ég mæli með þessari bók við alla þá sem hafa áhuga á þessari sögu og þessum tíma. Til þess eru vítin að varast þau.

Talandi um kínverja, þá er það mitt mat að það sé óhreint mjöl í pokahorninu við kaup kínverjans á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er þekkt af öllum sem vilja vita að kínverjar eru að kaupa upp náttúruauðlindir út um allan hinn vanþróaða heim. Túristahótel og golfvöllur sem kostar tugi milljarða er skrítin fjárfesting. Asni klyfjaður gulli kemst hinsvegar inn um hvaða borgarhlið sem er. Hér er annað hvort spurning um að tryggja sér aðgengi að náttúruauðlindum s.s. vatni til framtíðar eða aðstöðu vegna norðursiglingaleiðarinnar. Margir segja: Hvað má kínverjinn ekki kaupa eina jörð? Hvað ef kínverjinn vil kaupa 10 jarðir, 100 eða 1000? Það verður að hugsa svona mál í principum en ekki út frá sjónarmiðum sem ná bara til næstu magafylli. Danir eru búnir að stoppa kaup Þjóðverja á sumarbústöðum og sumarbústaðalöndum.

Ég heyrði af kínverskri fjárfestingu (hóteli) í norður Finnlandi. Þar voru allir voða glaðir yfir að fá erlenda fjárfestingu. Svo kom í ljós að hótelið sem hafði spilavíti innbyrðis var reyndar umferðarmiðstöð fyrir mannsal frá Rússlandi. Þá fór að fara um Finnana. Sá sem þekkti Finnann sem sagði honum þessa sögu sagði að þetta væri allt annað hérna, kínverjinn þekkti persónulega einn ágætis íslending og því væri honum alveg treystandi. Þá komu smá vöflur á Finnann því það var nefnilega einnig svoleiðis í Finnlandi. Mér finnst það alla vega vera ómaksins vert hjá fjölmiðlum að kanna aðeins bakgrunn hans í stað þess að láta mata sig athugasemdalaust af manni sem er einn af forstöðumönnum lakkrísverksmiðjunnar í Kína hér í denn tíð. Hvernig varð hann svona voðalega ríkur? Fann hann peninga á götunni?

Ég fór nýlega í bíó niður í Kringlu og sá myndina um RAX. Það er mjög skemmtileg blanda ljósmynda, viðtala og heimildamyndar. Sem betur fer hefur kvikmyndafyrirtækið Saga fylgt RAX eftir hér og þar þegar hann er á ljósmyndaleiðöngrum sínum.

Það var myndarlegur hópur sem tók þátt í Mont Blanc hlaupinu UTMB og TCC (ég man ekki hvað þau heita öll) í síðustu viku. Á annan tug íslendinga lagði til atlögu við þessi hlaup sem eru ekkert smáræði. Vitaskuld gekk fólki upp og niður en það eitt að sá hópur sem fer í svona verkefni skuli vera orðinn svona stór er náttúrulega frábært.

Ég er að verða góður í lærinu. Ég hef lagt áherslu á að ná mér góðum áður en ég fer að puða aftur.
Dísa í WORLD CLASS hefur verið svo vinsamlege að hleypa mér inn til að æfa eftir þörfum svo nú fer þett allt að snúast.

laugardagur, ágúst 20, 2011

Balalaika music Kamarinskaya

Rembrant í Vetrarhöllinni. Á þessa mynd var hent saltsýru fyrir 20 árum síðan og það tók 12 ár að gera við hana!!

Það var farið í skoðunarferð um St Petersburg í dag. Í morgun fór ég út að hlaupa í almenningsgarði sem er hér beint á móti hótelinu. Ég er að ná mér aftur eftir að hafa tognað aftan í hægra lærinu og hef því lítið hlaupið síðan í Írlandi fyrir mánuði síðan. Það var fínt að hlaupa þarna í morgun, hlýtt, heiðskýrt og logn. Nokkrir voru að hlaupa en enn fleiri voru að veiða fisk í tjörninni í garðinum. Síðustu þrjú árin hef ég hlaupið tvöfalt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni. Það byrjaði sem ein af löngu æfingunum fyrir Spartathlon árið 2008 en síðustu árin tvö hef ég hlaupið þessa vegalengd bara af því að ég gat það og þótti það gaman en án þess að það væri neinn dýpri tilgangur með því. Það hlýtur að hafa verið gríðarlega gaman í maraþoninu í dag. Veðrið alveg eins og það gat best verið, fullt af fólki og mikill fjöldi með brautinni. Áhuginn og virðingin fyrir Reykjavíkurmaraþoninu fer sífellt vaxandi og er það vel. Gríðarlega flott hlaup hjá Kára Steini í 1/2 maraþoni og kominn tími til að Sigurður P. yrði sleginn út eftir 25 ár. Besti tími í maraþoninu var hins vegar ekkert sérstakur en vel gert hjá ungum dreng. Vonandi munu okkar bestu menn stíla upp á að toppa á þessum tíma í stað þess að gera það á erlendri grundu. Vitaskuld er veðrið heima ákveðinn áhættufaktor. Ég man eftir því þegar ég sá hlaupara berjast inn Kleppsveginn í roki og rigningu í Reykjavíkurmaraþoninu á sínum tíma að ég gat ekki með nokkri móti skilið hvað fengi fólk til að leggja þetta á sig. Þetta var fyrir skemmtiskokkið örlagaríka í ágúst 1994.

Aftur að St Petersburg. Við heimsóttum Maríuhöllina fyrst. Hún er ein af fjöldamörgum höllum hér í borginni. Þar hefur borgarstjórnin og héraðsstjórnin m.a. aðsetur sitt. Finnarnir fóru upp í ræðustólinn og héldu málamynda ræður með leikrænum tilburðum á meðan félagar þeirra tóku myndir. Þeim þótti ekki leiðinlegt að eiga mynd af sér í þessum stól. Vitaskuld eru alltaf smá straumar þarna á milli. Sagan hverfur ekki svo glatt. Við fengum að heimsækja höllina fyrir tilstuðlan borgarstjórans í Imarta. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig hér á þessum stað. Svo ókum við niður að Vetrarhöllinni og að gamla Börsinum. Þar fyrir utan voru rússar með lítinn björn í bandi sem lék á alls oddi. Leiðsögumaðurinn var ekki hrifinn af því. Hann sagði að fólkið hellti oft brennivíni í birnina til að fá þá til að gera allskonar kúnstir. Þegar þeir eltust yrðu þeir aftur á móti mjög aggressivir og þá væru þeir skotnir eða eitthvað þaðan af verra. Þegar maður hugsar um það þá var litli nallebjörninn í morgunn mun líflegari og fjörugari en eðlilegt er af villtu ungviði að vera. Hundur yrði hræddur við ókunnugt fólk, köttur yrði fornem en hann væri kjassaður mikið af ókunnugu fólki en bjarnarhúnninn lék á alls oddi.

Leiðsögumaðurinn (Olgan) rifjaði upp helstu atriðin er varða umsátur þjóðverja um Leningrad á sínum tíma. Umsátrið varði í um þrjú ár. Um ein milljón manna dó. Óskaplegt ástand ríkti í borginni. Um 1/3 allra bygginga var sprengdur í tætlur. Þær voru síðan allar endurbyggðar eftir stríðið. Það er virt finnska hershöfðingjanum Mannerheim til virðingar að þrátt fyrir að finnski herinn væri í seilingarfjarlæg við borgina öll þessi ár, þá beitti hann aldrei stórskotaliðinu á borgina. Mannerheim hafði búið mörg ár í Leningrad og átti djúpar rætur í borginni. Sagan segir að hann hafi ekki getað hugsað sér að eiga þátt í að eyðileggja hana. Eftir hádegismat fórum við í Vetrarhöllina. Hún er huge. Þar eru 2.7 milljónir listaverka. Vetrarhöllin er þriðja stærsta listasafn í heimi á eftir Louvre í París og breska listasafninu. Ég kom í Louvre í vor en mér finnst Vetrarhöllin vera enn meir imponerandi. Hún er eitthvað svo mikilfengleg. Við vorum þar í ca tvo tíma og þá var bara komið nóg. Fólk var orðið svolítið þreytt á allri þessari göngu.
Svo var farið niður á Nevsky Prospekt, skoðað í búðir og að því loknu farið heim á hótel og skipt um föt í snatri fyrir kvöldverðinn. Mér tókst að villast en af því ég gat lesið á götuskiltin þá áttaði ég mig í tíma.

Verðlag hér er hátt. Ýmsir hlutir sem ég keypti fyrir skid og ingenting í fyrri ferðum til Rússlands kosta nú formúgu. Góð matrúska kostar 1.500 rúblur. Hægt er að margfalda upphæðina með 4.0 til að fá út íslenskt verðlag. Tebolli sem ég keypti fyrir smápening forðum daga kostar nú 6.000 krónur. Ég ætla ekki að segja hvað útskorna rostungstönnin sem ég keypti í Magadan forðum daga fyrir lítið fé kostar hér út úr búð. Það borgar sig ekki að kaupa vín hér í búðum nema þá kannski hreinan vodka, en þar er drasl sem ég vil ekki sjá.
Það er svo ótrúlega mikið að sjá hér í St Petersburg að maður á vonandi eftir að koma hingað síðar. Það kostar hinsvegar dálitla peninga en ég held að það sé þess virði. Ég kom til Parísar í vor. Maður sér engan mun á að vera að þvælast á götum í París eða St Petersburg fyrir utan málið á skiltunum að því undanskildu að það eru færri útiveitingahús hér en í París.
Það er merkilegt hvað rússneskan, sem ég hélt að væri alveg horfin, lætur fljótt kræla á sér þegar hún fer að syngja í eyrunum. Það væri gaman að gefa henni gott tækifæri einhvern tíma.

föstudagur, ágúst 19, 2011

The Clash - I Fought The Law

Brú rétt hjá Svetogorsk sem hafði eitthvað mistekist.

Hópurinn keyrði yfir til St Petersborg í dag. Það tók góðan klukkutíma að fara í gegnum tollinn Rússlandsmegin við landamærin. Þegar ég rétt fram passann minn eftir að Finnarnir höfðu gegnið greiðlega í gegnum nálarauga rússneska tollvarðarins, þá gerðist eitthvað. Tollverðinum hnykkti við, mér var vikið til hliðar og annar tollari kom hröðum skrefum, sótti passann minn og hvarf með hann baksviðs. Ég fór að velta fyrir mér hvort eitthvað væri ógreitt af lánum íslenskra banka á rússneskri grund og íslendingar því óvelkomnir til ríkis Pútíns eða hvort ég hafi skrifað full óvarlega um Stalín á seinni árum. Eftir drykklanga stund skilaði passinn minn sér og ég leið þar á eftir lipurlega í gegnum landamærin. Svo var ekið áfram til Svetgorsk. Það er skelfilegur staður. Þar búa um 20.000 manns í niðurníddum Sovétblokkum. Um 2500 manns vinna í pappírsverksmiðjunni sem er þar rétt hjá. Í Svetgorsk er varla neitt til neins, eitt bíó og nokkrar búðir. Einhver íþróttamannvirki er þar þó að finna. Þangað var haugað fólki héðan og þaðan úr Sovétríkjunum eftir stríðið. Nokkrir tugir þúsunda finna höfðu orðið eftir á hernumda svæðinu, bæði af frjálsum vilja og aðrir náðu ekki að koma sér burtu. Af þeim hefur ekkert spurst síðan. Strax og komið er yfir landamærin er hinn gamli sovéski ömurleiki uppmálaður hvert sem litið er. Niðurnídd hús, hálfhrundar byggingar, drasl og drulla. Við komum aðeins við í kaupfélaginu. Þar bar mest á alkóhóli og sígarettum.
Síðan keyrðum við í tæpan klukkutíma og þá komum við til Viborgar. Við drukkum kaffi á gömlu og ágætu veitingahúsi sem var staðsett í Sívalaturninum. Borgarstjórinn Vasiliev kom og fræddi okkur um málefni Viborgar. Athyglisvert er að sveitarfélagið fær mestar tekjur sínar frá höfninni (sem mafían kontrollerar). Viborg leit vel út og var það strax allur annar heimur en Svetgorsk. Síðan var ekið til St Petersborgar. Aksturinn tók um þrjá klukkutíma og maður sá ekkert á leiðinni nema skóg. Það sást vel þegar komið var inn í borgina að St Petersborg er sannkölluð stórborg. Hún hefur verið lagfærð gríðarlega frá niðurníðslu Sovétáranna og heldur glæsileg að sjá. Það verður spennandi að fara aðeins um hana á morgun.

I gegnum borgina Imatra rennur mikil á, eða réttara sagt rann mikil á. Hún hefur nú verið virkjuð og stíflan og lónið eru inni í miðri borg eða svona 500 metra frá hótelinu sem við gistum á. Á sumrin er hleypt úr lóninu einu sinni á dag kl. 18:00 fyrir túrista og þykir það mikið sjónarspil þegar áin rennur óhindrað niður gljúfrin. Það stendur yfir í 20 mínútur en þá er sú gamla beisluð aftur. Það var hins vegar gert kl. 21:00 í gærkvöldi svo norræni hópurinn gæti notið þess. Meðan áin rann óbeisluð þá var mikill foss í henni. Á Stalinstímanum gerðu ungar stúlkur frá borgum skammt fyrir austan landamærin sér það til dægrastyttingar að ferðast til Imatra og kasta sér í fossinn. Sagt er að fleiri hundruð sovéskra stúlkna hafi horfið í hann. Það kvað svo rammt að þessu að lögreglan var farin að hafa eftirlit með lestinni sem gekk þar á milli og athuga hvort ungar stúlkur væru með miða í báðar áttir. Ef miðinn var aðeins í aðra áttina þá var málið skoðað betur og þeim jafnvel snúið við. Maður getur hins vegar velt fyrir sér hvað það hafi verið fyrir austan landamærin sem gerði það að verkum að ungar sovéskar stúlkur streymdu vestur yfir til Imatra og hurfu í fossinn. Ekki fer sögum af því aftur á móti að strákar hafi stungið sér í hann.

Það er flott þátttaka í Reykjavíkurmaraþoni á morgun. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum töluðum við um að það væri skynsamlegt framtíðarmarkmið að stefna að 1000 þátttakendum í heilu maraþoni. Ég sé að það eru 700 hlauparar skráðir til leiks á morgun í heilt maraþon. Það er frábært. Veðrið verður einnig gott það maður sér. Þetta verður frábær dagur.

fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Stray Cats - I Fought The Law

Hótelið í Imatra þar sem Mannerheim hafði höfuðstöðvar sínar í vetrarstríðinu
Ég flaug í gær til Finnlands. Vél Icelandair í beinu flugi til Helsingfors var full. Íslendingar, Finnar og Rússar voru á leið yfir hafið. Frá Helsingfors fór ég með rútu til borgarinanr Imatra sem liggur um sex kílómetra frá rússnesku landamærunum, skammt norður af Karelska flóanum. Hagdeildir norrænu sveitarfélagasambandanna hittast einu sinni á ári og bera saman bækur sínar og nú er fundurinn sem sagt haldinn hér í Imatra. Á þessum slóðum er umhverfið þétt ofið saman við einn af dramatískari þáttum sögu Finnlands, Vetrarstríðið. Það stóð yfir um nokkrurra mánaða skeið árið 1939-1940. Sovétríkin réðust inn í Finnland og ætluðu að innlima það eins og gerðist með Baltnesku ríkin. Finnar börðust hetjulega gegn ofureflinu og náðu að halda Rauðahernum í skefjum, þrátt fyrir að hann væri a.m.k. þrefalt fjölmennari. Það hjálpaði Finnum að kuldinn þennan vetur var óskaplegur. Þá voru slegin kuldamet sem standa enn en kuldinn fór niður í -45°C. Í kjallara hótelsins sem við búum í hafði Mannerheim og hershöfðingjar hans aðalstöðvar sínar. Lítið safn er hér niðri til minningar um það. Við friðar samninga Finna og Sovétríkjanna þá urðu Finnar að láta af hendi 10% af landi sínu sem Rauði herinn hafði hertekið. Á því svæði var Viborg sem var önnur stærsta borg Finnlands á þeim tíma og sú framsæknasta í menningu og listum. Um 400.000 finnar þurftu að taka sig upp frá heimilum sínum og koma sér fyrir annarsstaðar í Finnlandi. Þeir sem völdu þann kostinn að búa áfram á því svæði sem Rússar hertóku voru sendir til Síberíu og áttu þaðan fæstir afturkvæmt. Í því sambandi er rétt að hafa það í huga að þeir sem völdu að vera eftir voru sannfærðir um yfirburði kommúnismans og Sovétskipulagsins og vildu því njóta þess að búa í sínu Eldoradó. Veruleikinn varð síðan annar hvað þá varðaði. Rétt er að minnast þess að Sósíalistaflokkur Íslands, arftaki Kommúnistaflokksins og forveri Alþþýðubandalagsins, var eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem ekki fordæmdi innrás Sovétmanna í Finnland.
Á morgun förum við yfir til StPetersborg og svo verður flogið heim á sunnudag. Það er gaman að rifja það upp að fyrir réttum 20 árum síðan þá var ég einnig á leið til Rússlands. Ég vann þá hjá bændasamtökunum og við vorum nokkrir úr landbúnaðargeiranum að endurgjalda heimsókn landbúnaðarstofnun Magadan fyrr um vorið. Við flugum austur á föstudegi 16. ágúst. Gist var eina nótt í Moskvu en á laugardegi var flogið austur til Magadan í Síberíu. Það var eitt að alræmdustu Gúlagsvæðunum. Á sunnudegi var farið í ferð út í sveit og á mánudegi byrjuðu hinar formlegu heimsóknir sem áttu að standa í nær viku en þá ætluðum við að fljúga yfir til Kamchatka. Á þriðjudegi var síðan allt komið einhvern veginn upp á rönd. Allt prógram var út og suður og við vissum ekki hvað sneri upp eða niður. Seint um síðir fengum við að vita það að það hefði verið gerð bylting í Moskvu. Púkó og fleiri hershöfðingjar hefðu steypt Gorbatjov af stóli að honum fjarstöddum. Við hlustuðum á útsendinu úr Rússneska útvarpinu þar sem Púkó talaði og lýsti ástandinu. Fólkið þarna austur frá var eins og það hefði fengið loftstein í höfuðið. Heimurinn var hruninn. Sú glæta sem hafði opnast virtist vera að lokast aftur. Okkur leist ekki á blikuna, við þarna staddir austur í Síberíu og byltingarástand í landinu. Við höfðum samband heim og okkur var skipað af utanríkisráðuneytinu að hafa okkur úr landi sem fyrst. Við vorum einu íslendingarnir sem voru staddir í Rússlandi á þessum tíma fyrir utan sendiráðsfólkið. Það var farið að leita og loks fengust miðar með flugi sem var að koma frá Khabarovsk í suður Rússlandi og var á leið til Ancourige í Alaska. Vélin átti að lenda á miðvikudagskvöldi. Okkur þótti þetta vægast sagt dapurlegt að vera loks komnir þarna austur á framandi slóðir og varla lentir þegar við áttum að yfirgefa þetta ágæta fólk sem var búið að hlakka til komu okkar. Við fórum að tygja okkur út á flugvöll á miðvikudagskvöld eftir kveðjuveislu. Tollurinn fláði hvern einasta mann inn að skinni og tók allt upp úr öllum töskum. Einn var tekinn fyrir í einu. Tveir voru búnir og ég var á leið inn í tollinn þegar skilaboð komu um að flugvélin gæti ekki lent vegna þoku. Það var náttúrulega bara lygi, það var engin þoka heldur hefur vélin vafalaust verið fullbókuð. Við þurftum því að fara aftur heim á hótel. Þetta hefði ekki verið svo slæmt ef það það hefði ekki bara ein flugvél verið eftir af sumaráætluninni, n.k. sunnudag. Ef hún væri líka full þá var okkur sagt að möguleiki væri á að við kæmumst til Japan einhvern tíma um veturinn með fiskiskipum!!! Ég man að á fimmtudagsmorguninn fór ég einn út að ganga í morgunsárið og þá fór maður að horfa á hlutina eins og þeir voru. Fram til þess hafði maður horft á borgina með augum hins forvitna og jákvæða og ekki verið að velta sér upp úr smáatriðum. Þarna um morguninn horfði ég aftur á móti opnum augum á drulluna, draslið, niðurníðsluna og ömurlegheitin. Þarna gætum við átt eftir að dvelja mánuðum saman og spurning var hvort við kæmumst burt. Ég verð að játa það að mér leist alls ekki á blikuna. Var maður innilokaður um óvissan tíma, jafnvel mánuðum saman, á þessum volaða stað. Hvað vissi ég? En síðar þennan sama dag þá birti til. Púkó og félagar hans gáfust upp, enda búnir að vera fullir allan tímann frá því þeir reyndu að hrifsa völdin til sín. Jeltsín stökk upp á skriðdrekann og öðlaðist alheimsviðurkenningu fyrir að bjóða gömlu kommúnistaöflunum birginn. Allt varð normalt aftur og við héldum áfram ferð okkar og fórum síðar yfir til Kamchatka. Það var nær því úti á enda alheimsins. Þar vorum við í viku tíma og höfðum af því gagn og gaman. Þegar við yfirgáfum þennan heimshluta þá bjóst ég við að þetta væri "once of a life time". En réttum fjórum árum síðar var ég kominn aftur til Kamchatka til tæplega ársdvalar en þar er allt önnur saga.

laugardagur, ágúst 13, 2011

Dead Kennedys "I Fought The Law(And I Won)

100 m hlaup kvenna í bikarkeppninni
Ég hef verið stífur aftan í hægra lærinu undanfarna mánuði, mismikið þó. Ég var orðinn áhyggjufullur áður en ég fór til Belfast um að þetta myndi há mér í hlaupinu. Því hvíldi ég vel áður en ég fór út ogf teygði vel á fætinum. Það gekk upp og ég fann ekki fyrir neinu á meðan því stóð. Aftur á móti þegar ég kom heim létu leiðindin ekki á sér standa. Skrefið með hægra fætinum var styttra og það tók í lærið að aftan verðu. Ég fór út að hlaupa með strákunum um síðustu helgi og leiðindin létu ekki á sér standa. Ég hef ekkert hlaupið síðan og hringdi svo loks í Örn í Sporthúsinu og bað hann að taka mig í yfirhalningu. Ég fór til hans í gær og fékk allan pakkann. Nálastungur, hnykki, nudd, heita steina og ég veit ekki hvað. Á stundum lá við að ég sparkaði honum út um dyrnar þegar sem mest gekk á en harkaði þó af mér. Það er merkilegt hvað skrokkurinn slaknar upp og liðkast við svona yfirhalningu. Ég finn vel hvað hreifingarnar eru allar liðugri og verkurinn aftan í hægra lærinu er að hverfa. Maður má ekki gleyma þessari hlið mála þrátt fyrir að allt sé í lagi og ekkert sé að í augnablikinu. Maður hefur mjög gott af því að fá úttekt á skrokkunum og ábendingar um hvort eitthvað sé að gera um sig og á hvað þurfi að leggja áherslu. Ég geri ráð fyrir að fara í annan tíma til hans innan tíðar en svo stefni ég að því að hitta hann ekki sjaldnar en á sex mánuða fresti þrátt fyrir að ekkert sérstakt sé að. Bílar eru sendir í smurningu og almennt tékk af og til og því skyldi maður ekki gera það við skrokkinn sömuleiðis.

Ég hef fengið skó og hlaupafatnað frá Asics eftir þörfum síðustu tvö árin. Það er mjög gott og maður sleppur þá við þau útgjöld. Skór henta mönnum vafalaust misjafnlega vel en Asics skórnir henta mér mjög vel. Ég er frekar þungur og því þarf ég solid skó. Ég er einnig farinn að hlaupa í stærri númerum en áður. Í hlaupinu í Belfast fékk ég einungis eina smá blöðru sem ég hefði alveg getað komið í veg fyrir. Það er annað en áður var.

Bikarkeppni FRÍ hófst á Kópavogsvelli í gær í fínu veðri. Keppnin var fín og gekk vel, tímaasetningar stóðust og spenna milli liðanna. Ármenningar og Fjölnir stóðu sig vel þrátt fyrir að það séu nokkur skörð í þeirra röðum vegna meiðsla. Það er eins og gengur að það er sjaldnast allt sem gengur upp.

Í Fréttablaðinu í dag eru flottar myndir af stuðlaberginu í Kálfhamarsvík á Skaga. Staðurinn lætur lítið yfir sér og færri vita alveg hvar þetta er að finna. Ég gæti ekki keyrt rakleiðis á staðinn án aðstoðar landakorts enda hef ég ekki komið þangað. Það er kannski til marks um hvað náttúran hér er mögnuð að hér veit varla nokkur maður af þessum stað en álíka nátturumyndun á Norður Írlandi er heimsótt af hundruðum þúsunda ár hvert. Við staðinn er hótel, þjónustumiðstöð og ég veit ekki hvað. Rútuferður eru frá hótelinu niður á ströndina fyrir þá sem geta ekki eða nenna ekki að gana 2-3 km. Markaðssetningin á svæðinu er reyndar dálítið mikið betri en hjá okkur. Á því sviði getum við lært mikið af nágrönnum okkar.

laugardagur, ágúst 06, 2011

Green Day - I Fought The Law

Orgel risans á Norður ÍrlandiÞað hefur farið heldur lítið fyrir skrifum síðustu dagana. Það er bara eins og gengur. Við renndum austur á Egilstaði um síðustu helgi á Unglingalandsmót UMFÍ. Það er líklega sjöunda unglingalandsmótið sem við höfum farið á en þetta er það síðasta sem virkir þátttakendur því María var í elsta flokki og er nú vaxin upp úr þeim. Við höfum farið á Vík, Laugar, Hornafjörð, Þorlákshöfn. Sauðárkrók, Borgarnes og nú Egilsstaði. Þetta eru ljómandi fínar samkomur, karkkarnir etja kappi hvert við annað í íþróttum og fullorðna fólkið hittist og tekur sólarhæðina. Við gistum hjá vinafólki okkar frá Rauðarhöfn sem býr niður á Reyðarfirði. Það var eins gott og gaman og hugsast gat. Gaman var að gefa sér tíma til að rifja upp gamlar og góðar minningar frá þeim ágætu tíma þegar við bjuggum í nyrsta þorpi landsins. Hitinn á föstudaginn var eiginlega of mikill en svo varð hann aðeins meira normal. Á sunnudaginn ókum við svo sem leið lá norður á Sléttu. Við tókum hús á Ella og Ágústu á hótel Norðurljós á Raufarhöfn og borðuðum þar kvöldmat. Alltaf er gaman að koma á Raufarhöfn því þaðan á maður margar góðar minningar. Því miður hefur íbúum staðarins fækkað mikið og margir af okkar vinafólki sem þar bjó flutt burtu. Ég þarf að gefa mér tíma til að vera þarna í einhverja daga að vorlagi og taka myndir. Af nógu er að taka í því efni á þessum slóðum. Svo er bara að vona að það renni yfir landið hæg suðvestanátt því þá er fallegt á Sléttu. Við gistum í Svalbarðsskóla í Þistilfirði og fórum síðan sem leið lá heim á mánudaginn.

Ég sá á norska hlaupavefnum að þeir hafa tekið saman besta árangur norðurlandabúa í 100 km hlaupi og 24 tíma hlaupi það sem af er árinu. Okkar fólk markerar sig sterkt inn á þessa lista. Sigurjón er í 8. sæti, Gunnar Ármannsson í 23. sæti og Jói Gylfa í 28 sæti í 100 km hlaupi. Sæbjörg er í 5. sæti og Elín Reed í 6. sæti hjá konum. Miðað við árangurinn sem ég náði í 24 tíma hlaupinu í Belfast þá er ég í 18. sæti á norðurlöndum það sem af er árinu en það á örugglega eftir að breytast. Á hinn bóginn hefur einungis einn maður í heiminum sem er jafngamall mér eða eldri náð betri árangri í 24 tíma hlaupi í ár. Þó var árangurinn ekkert sérstakur.

Eftir svona löng hlaup þá hvíli ég yfirleitt í 1/2 mánuð til að vera viss um að ná öllum draugum úr fótunum. Ég fór Eiðistorgshringinn í morgun með Jóa og Gauta. Ég var frekar þungur og eins er ég með einhverja tognun aftan í hægra lærinu. Ef ég næ henni ekki úr mér með teygjum þá þarf ég að hitta Örn í Sporthúsinu og fara í nálastungukúr hjá honum.

Ég næ því miður ekki að vera með í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Ég verð í vinnuferð í Finnlandi dagana á undan og hópurinn fer yfir til St. Pétursborgar þessa helgi. Maður missir ekki af slíku.