fimmtudagur, október 13, 2011

Megas og félagar - Drottningin Vonda

Frá DjúpavíkÞað gengur mikið á úti í Berlín þar sem bókmenntahátíðin er haldin þessa dagana. Ísland er þar í forsæti og þá eru gömlu klisjurnar um bókmenntirnar og sagnaþjóðina dregnar fram. Það eru vafalaust haldnar göfugar ræður um stöðu mála og sess bókmenntanna o.s.frv.o.s.frv. Á sama tíma eru birtar niðurstöður þess efnis að 23% stráka séu ólæsir þegar þeir yfirgefa grunnskólann. Maður sér ekki að sú niðurstaða valdi miklu ölduróti. Það er grundvallaratriði fyrir því að fólk geti komið sér áfram og lært til munns og handa að þeir kunni að lesa. Lestur er undirstaða allrar menntunar. Vitaskuld eru allmargir sem eiga erfitt með lestur vegna lesblindu en nú eru komnar hljóðbækur sem leysa þann vanda að verulegu leyti. Það er hinsvegar mikið umhugsunarefni að tæpur fjórðungur stráka skuli ekki vera orðinn læs eftir 10 ára skólagöngu og reyndar gott betur því nú er leikskólinn orðinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Þar bætast þá þrjú til fjögur ár til viðbótar við skólagönguna.

Ísland er að mörgu leyti líkt löndunum þremur á austurströnd Kanada, Nova Scotia, Princ Edward Island og Nýfundnalandi. Í þessum löndum (eða fylkjum, þau misstu sjálfstæði sitt upp úr seinna stríði) er margt líkt með Íslandi, þau byggðu afkomu sína á fiskveiðum og landbúnaði. Samt hefur margt gengið verr þjá þeim og þau eru á margan hátt vanþróaðri en Ísland. Ég hitti einu sinni mann sem hafði búið lengi á Nýfundnalandi. Hann taldi stærstu ástæðuna fyrir því að þróunin hafði orðið miklu örari hérlendis gegnum áratugina en þar vera þá að allir hefðu verið læsir á Íslandi þegar tækifærin fóru að skapast og því gátu allir verið með í þróuninni. Á Nýfundnalandi aftur á móti væri raunverulegt ólæsi um 50%. Um helmingur þjóðarinnar gæti varla lesið meir en að stauta sig fram úr fyrirsögnum í dagblöðum en væri óhæfur um að lesa flókinn eða mikinn texta sér til gagns. Þessi hluti þjóðarinnar er því sjaldnast með þegar einhver þróun á sér stað heldur er alger þiggjandi og til þess að gera lítt virkur í samfélagsþróuninni.

Í þessu samhengi fannst mér viðtalið í mogganum í morgun við Hermund Sigmundsson, prófessor í Háskólanum í Þrándheimi, vera allrar athygli vert. Hann hélt tvennu fram. Í fyrsta lagi ætti að leggja aðaláherslu á lestur, skrift og reikning í fyrstu bekkjum grunnskólans. Vitaskuld. Þessar greinar eru undirstaða alls annars náms. Ef undirstaðan er ekki í lagi þá verður það aldrei í lagi sem ofan á er byggt. Svona var það þegar maður var á þessum aldri. Það hefur kannski þótt vitlaus aðferðafræði hjá seinni tíma sérfræðingum en hún virkaði. Þá var manni líka kenndur hugarreikningur. Maður var látinn læra utanbókar, bæði ljóð og margföldunartöfluna. Utanbókarlærdómur þykir kannski ekki nútímalegur en hann bæði þjálfar hugann og einnig situr slatti af því sem maður lærði þannig ennþá eftir á harða disknum. Ég veit ekki til þess að krakkar þurfi að læra eða kunna margföldunartöfluna í dag. Vafalaust eru mörg sem hafa ekki heyrt á hana minnst einu sinni. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég er hræddur um ekki. Ég veit það síðan frá mínum krökkum að það var bannað að kenna þríliðu í grunnskólanum. Það er hins vegar ein gagnlegasta reikniregla sem fyrir finnst til að hafa á hraðbergi í hinu daglega lífi. Þannig mætti áfram telja.

Í öðru lagi lagði Hermundur áherslu á að börnin þyrftu að fá hreyfingu í skólanum, mun meiri en víða er í dag. Sú viðleitni að slá tveimur kennslustundum saman fór vaxandi þegar ég fylgdist með þessum málum. Það eru engin geimvísindi að börn og sértaklega strákar eru orðnir órólegir eftir allan þann tíma og einbeitningin varin að versna. Börn hafa mikla hreyfiþörf og þurfa að fá útrás fyrir hana. Fullorðið fólk er farið að kveinka sér ef það situr í kennslustund sem er lengri en 40 mínútur, hvað þá hátt í einn og hálfan tíma.

Ég ætla ekki að segja hvað ég hugsaði þegar ég sá fréttina í gær frá bókmenntahátíðinni í Berlín sem fjallaði um kynningu á síðasta hefti af bókinni Útkall. Þeim sem þykir sá atburður sem fjallað er um í bókinni dramatískur ættu t.d. að lesa bækurnar Píanistinn, Bardaginn um Stalíngrad og Orustan um Leningrad. Segi ekki meir.

sunnudagur, október 09, 2011

Ragnar Bjarnason / Ég er kokkur á Kútter frá Sandi.

Vitar voru nauðsynleg öryggistæki fyrir sjómenn en vegur þeirra hefur heldur minnkaðVirðing Alþingis hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu sem og áður. Líklega hefur Alþingi þó sjaldan haft lægri sess í hugum almennings en um þessar mundir eftir því sem skoðanakannanir sýna. Kemur þar ýmislegt til. Ómálefnalegar og ófaglegar umræður valda þar oft á tíðum miklu um. Nú þekkir maður vitaskuld ekki nógu mikið inn á margt það sem fjallað er um á Alþingi en sumt reynir maður að kynna sér og hafa skoðun á. Eitt af því eru sjávarútvegsmál. Það er ekki vegna þess að ég hafi þar einhverra hagsmuna að gæta, hafi í huga að komast inn í strandveiðar eða sé svefnlaus yfir því að þjóðin fái ekki nógu mikið í vasann af þjóðareigninni eins og margir virðast vera. Í mínum huga skiptir hins vegar höfuð máli að fjallað sé um málefni sjávarútvegsins af virðingu, þekkingu og fagmennsku því greinin er ein af þremur mikilvægustu atvinnuvegum þjóðarinnar. Hinir tveir eru stóriðja og ferðamannaiðnaður.

Ég sá nýlega á alþingisvefnum þingsályktunartillögu (68. mál) um að Alþingi álykti um að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð fiskveiðistjórnunar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er stórt mál. Það er ekkert sem á að leika sér með. Þar verða valkostir að vera skýrir og afdráttarlausir svo hægt sé að taka efnislega afstöðu og eitthvað verði að marka niðurstöðuna. Í fyrrgreindri þingsályktunartillögu eru tilteknar fjórar spurningar:

1. Hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi?
2. Hvort eigi að setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar?
3. Hvort eigi að innkalla aflaheimildir?
4. Hvort eigi að endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar?

Mér finnst þessi þingsályktunartillaga sem grundvöllur að þjóðaratkvæðagreiðslu vera gersamlega óskiljanleg og ónothæf. Skoðum það aðeins betur. Hvernig á að vera hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á þetta að vera já og nei spurning? Ef niðurstaðan verður að já verði ofan á hvað tekur þá við? Bara eitthvað? Ef niðurstaðan verður nei verður þá engu breytt héðan af? Í slíkum málum hlýtur að þurfa að kjósa á milli tveggja skýrra valkosta en ekki bara um eitthvað út í loftið. Að mínu mati er gjörsamlega út í hött að láta fara fram þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnunarkerfið. Til þess er fiskveiðistjórnun alltof flókin og viðurhlutamikil. Alltof mikið er undir til að verjanlegt sé að láta málefni sjávarútvegsins verða að leiksoppi í einhverjum hráskinnaleik.

Er einhver nauðsyn á því að láta það fara í þjóðaratkvæði hvort eigi að setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar? Hvað með aðrar auðlindir s.s. vatnsorkuna, hitaorkuna, vindorkuna, landnýtingu og ferðamannastaði. Eitt hlytur yfir allar auðlindir að ganga.

Hvernig er hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að innkalla allar aflaheimildir? Hvað ef svarið verður já? verða allar aflaheimildir innkallaðar? Hver er réttarstaða þeirra fyrirtækja sem höfðu keypt fyrrgreindar aflaheimildir? Verður ríkið þá skaðabótaskylt? Hver verða áhrifin á fyrirtækin sem hafa skuldbindingar við hina og þessa. Það hefur verið sagt að það skipti ekki máli þótt starfandi sjávarútvegsfyrirtæki verði gjaldþrota því það fari bara einhver annar að veiða fisk. Það getur vel verið en skuldir gömlu fyrirtækjanna hverfa ekki. Þær gufa ekki upp. Ef sjávarútvegsfyrirtæki landsins verða gjaldþrota í einu þá lendir skellurinn hvergi annarsstaðar nema á landsmönnum (almenningi) í gegnum hærri vexti hjá þeim lánastofnunum sem þurfa að sfskrifa lán sem þær héldu að væru nokkuð tryggar. Það er kannski bara í lagi að bankarnir fari líka á hausinn því það komi einhverjir aðrir í staðinn.

Hvernig er hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að endurúthluta auðlindum til þjóðarinnar gegn gjaldi? Í fyrsta lagi hvað þýðir það að endurúthluta auðlindum til þjóðarinnar gegn gjaldi? Ekki hef ég neinn áhuga á að fá úthlutað auðlind gegn gjaldi. Hvað á gjaldið að verða hátt?

Ég verð að segja það að hvað sem öllum málalengingum umræðum í þingsal líður þá finnst mér svona málatilbúnaður eins og felst í þessari þingsályktunartillögu ekki vera til þess fallin að auka virðingu Alþingis. Til þess er hún of ruglingsleg, ómarkviss og hroðvirknislega unnin. Líklega er þetta hluti af einhverjum pólitískum keiluleik svo hægt sé að segja við áhugasama að það hafi verið lögð fram þingsályktunartillaga um málið en vondu flokkarnir hafi sett fyrir hana fótinn.

þriðjudagur, október 04, 2011

Fjallabræður - Oh When the Saints

Nýtt yfirbragð að fæðastVið Haukur renndum vestur á Rauðasand á laugardaginn. Það fer hver að verða síðastur að draga þunga kerru vestur landleiðina þegar komið er fram í október ár hvert. Við fórum með stóran hluta af panelnum í húsið sem var eftir að koma vestur. Ferðin gekk vel og hvassviðrið sem var búið að spá lét ekki sjá sig en þó var vissulega drjúgur strekkingur á leiðinni. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta í austursýslunni en maður hefði viljað hafa aðeins betri tíma til að taka myndir. Rétt sunnan við Bjarkalund sveif þessi myndarlegi örn yfir veginn. Ég hef ekki séð örn þar áður en það er náttúrulega ekki að marka. Maður er ekki á ferðinni þarna upp á hvern dag. Húsið heima var eins og skilið var við það í vor. Ólíkt hreinlegra er í kringum það eftir að ég girti það af í sumar. Skepnugreyin vildu safnast í skjólið þegar hvessti eða rigndi eins og eðlilegt er. Við gerðum ekkert á laugardagskvöldið annað en að bera viðinn í hús. Það var líka eins gott að ljúka því skömmu eftir að við lukum því fór að hellirigna og var stórrigning alla nóttina og fram undir hádegi morguninn eftir. Það flóðóx fljótt í öllum ám. Við kíktum út að Lambavatni um kvöldið í kvöldkaffi. Það er alltaf gaman að setjast við eldhúsborðið hjá gömlum kunningjum og rifja upp gamla tíma og gleymdar sögur. Af nógu er að taka í þeim efnum. Við sniðum efni og negldum á tvo veggi áður en við fórum af stað á sunnudaginn. Það var á nippunni að það væri hægt að saga úti en það bjargaðist. Eftir stuttan stans á Patró heldum við af stað sem leið lá suður. Á líklegum arnarslóðum sem ég vissi af sat einn eins og klettur rétt fyrir ofan veginn. Maður skilur harla vel að fólk vestra vilji ekki sætta sig við þá framtíðarsýn að landleiðin liggi yfir hálsana í framtíðinni. Það er á hreinu að það er sama hve góður vegur verður gerður yfir þá þá nær vegurinn aldrei upp úr óveðrum og ófærð. Óásættanlegt er á okkar tímum að aðalsamgönguæð héraðsins eigi að vera lögð þannig til allrar framtíðar.

Ég var eitt sinn viðstaddur þegar Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, hélt ræðu. Hann talaði blaðalaust í hátt í klukkutíma yfir 2500 manns, klæddur í gallabuxur og stutterma skyrtu sem var opin niður á bringu. Hann hélt óskiptri athygli allra allann tímann. Þannig eiga skipstjórar að vera. Mér kom þessi ræða í hug þegar ég opnaði fyrir útvarpið í gærkvöldi laust eftir klukkan 20:00.