laugardagur, febrúar 26, 2011

Eddie Skoller -What did you learn in school today

..þar sem á landsins holu skurn, hlaðið var Látrabjargi


Að skipa 25 manns sem urðu efstir í kosningu sem hæstiréttur landsins hefur dæmt ólögmæta til að undirbyggja breytingar á stjórnarskránni er versta hugsanlega niðurstaða sem hægt var að komast að. Hörmungarsagan í þessu máli virðist engan endi ætla að taka. Það má vera að einhverjum finnist voðalega sniðugt að rétta hæstarétti fingurinn en á hvaða leið erum við sem þjóð ef á að fara að spila svoleiðis leiki. Í öllum þeim löndum sem ég þekki til í þá bera menn virðingu fyrir hæstarétti. Hann er grundvöllur réttarríkisins. Síðan má ekki gleyma því að það er ekki verið að höndla með litinn á einhverjum húsræfli, það er verið að ræða stjórnarskrá landsins, sjálfa undirstöðu þjóðríkisins. Það ættu allir að vita að til að niðurstaða stjórnlagaþings hafi eitthvert vægi þá verður að ríkja þokkaleg pólitísk sátt um tilurð þess. Ef ekki þá hafa niðurstöður þess enga vikt því þá er hún metin sem flokkspólitísk. Maður sér meir að segja að það er notað sem rök að í hæstarétti sitji bara menn, homo sapiens. Því þurfi ekki að taka mark á því sem frá þeim kemur frekar en menn vilja. Ruglið virðist vera án takmarka.
Hvað ætli yrði sagt ef það hefði verið gefið út að þrátt fyrir að kosningar til sveitarstjórnar eða kosningar í sameiningarkosningum sveitarfélaga hefðu dæmdar ólöglegar væru niðurstöðurnar engu að síður látnar standa. Ég er hræddur um að það hefði hvinið í einhverjum skjá og það með fullum rétti.

Umræðan um VIP samkvæmið margumrædda er dálítið fyndin. Það er fínt ef einhverjar stelpur geta látið gestina borga hærra verð fyrir vínið en þeir borga venjulega fyrir það með því að telja þeim trú um að þeir séu merkilegri en annað fólk. Það er í sjálfu sér hið besta mál því þá eru væntanlega báðir aðilar ánægðir með viðskiptin. Það sýnir hins vegar kannski meir en annað hvað lítið þarf til að komast í fréttir út um allt og meir að segja í Kastljós sjónvarpsins að það hafi varla verið rætt um meir um annað mál en þetta í fjölmiðlum alla vikuna.

Annað álíka dæmi er umræðan um Excel skjalið sem fór óvart í umferð út hjá Víkingum. Það er lélegur þjálfari sem ekki punktar niður hjá sér styrkleika og veikleika hvers leikmanns. Það er allavega mín skoðun. Þegar svona skjal fer síðan óvart í umferð þá er það mál málanna hjá fjölmiðlum í fleiri daga og náði umræðan um það að fylla ófáa dálksentimetra og útsendingarmínútur. Ótrúlegt.

Um daginn fengu 67 rithöfundar ritlaun. Samtals fengu þeir ritlaun sem svarar fullu starfi í 42 ár. Það er bara ágætt. Í fréttinni kom reyndar ekki fram hve miklum peningum var úthlutað. (Viðbót. Launin miðast við lektorslaun hjá HÍ. Ég veit ekki alveg hvað þau eru há en en það er hægt að leiða að því líkur að heildarfjárhæðin sé ekki langt frá 130-150 milljónum.) Þrír rithöfundar fengu tveggja ára laun hver, 11 fengu árslaun og aðrir 11 laun í níu mánuði. Svo komu margir fleiri þar á eftir með verulegan en minni stuðning. Rithöfundasambandið úthlutar ritlaununum eða samtök þeirra sem fá ritlaunin. Ég saknaði Gilzenegger á listanum. Hann hefur ekki skrifað ómerkari bækur en margir þeirra sem fá opinbert fé til að fjármagna skriftir sínar.

Um daginn úthlutaði ÍSI styrkjum til afreksfólks í íþróttum. Alls var úthlutað 55 milljónum króna, 45 milljónum úr afrekssjóði ÍSÍ og 10 milljónum úr sjóði framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. Þessir styrkir ganga bæði til sérsambandanna til að styðja við ákveðin verkefni á þeirra vegum og síðan til nokkurra einstaklinga. Þessir fjármunir ganga til þeirra íþróttagreina þar sem enginn möguleiki er að sjá fyrir sér að meiru eða minna leyti við að iðka íþróttina eins og er algengt í knattspyrnu, handbolta og fótbolta. Einungis 15 afreksíþróttmenn fá svokallaða afreksstyrki. Eins og í fyrra fær einungis einn íþróttamaður A-styrk. Styrkurinn er um 160 þúsund krónur á mánuði sem er mjög nálægt atvinnuleysisbótum. Hægt er að leiða líkur að því að þetta sé um helmingi lægri mánaðarlaun en rithöfundar fá. Tíu eru á B-styrk sem er þá nálægt því að vera 1/2 A styrkur og fjórir á C-styrk sem nær varla 10 þúsund kr. á mánuði. Framlög í A og B styrk eru samtals rúmar 5 m.kr.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ var um 25 m.kr. á fjárlögum fyrir árið 2011. Í allnokkur ár þar á undan hafði styrkurinn verið óbreyttur eða 30 m.kr. á ári. Stuðningur ríkisins við afreksfólk í íþróttum hefur því lækkað stórlega á liðnum árum og þurfti enga kreppu eða efnahagshrun til þess. Það er alltaf gott að setja hluti í samhengi. Ætli kostnaður ríkis og borgar við Hörpuna, musterið við höfnina, verði ekki nálægt 800 milljónum á ári næstu 30 árin. Þetta er einungis bundið við bygginguna sjálfa. Þar fyrir utan er daglegur rekstur í húsinu. Þessir fjármunir verða ekki notaðir í annað.

Mér fannst merkilegt að heyra gömlu skólaljóðunum úthúðað í Kiljunni í vikunni. Þeim var t.d. hallmælt þar fyrir að óhefðbundin ljóð hefðu ekki verið í þeim, það hefði hallað á kvenkynið en næstum verst var að kápa bókarinnar var blá. Það var nú eins gott að það var ekki verið að fylla þessa annars ágætu bók af óhefðbundnum ljóðum. Það er náttúrulega bara eins og hvert annað rugl að ætla sér að kenna litlum barnaskólakrökkum slíkan samsetning. Á þessum árum voru ljóð lærð utanbókar. Því miður hefur það dottið upp fyrir eins og að hugarreikningur og þríliðan heyra sögunni til. Ljóð sem fela í sér eftirminnilegar myndlíkingar og hafa góðan hrynjanda eru auðlærð og festast í minninu. Af slíkum ljóðum var nóg í skólaljóðunum og ekki skemmdu myndir Halldórs Péturssonar fyrir. Þess vegna þykir venjulegu fólki vænt um gömlu skólaljóðin. Látum þá sem hafa gaman af hinum óhefbundnu ljóðum um að fara með þau hver fyrir annan. Það truflar mig ekki.

fimmtudagur, febrúar 24, 2011

Herman's Hermits - No milk today

Það var spenna að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn


Það eru rúmlega 20 skráðir í 100 km hlaup sem haldið verður þann 11. júní í vor. Það er fín þátttaka. Fyrir þá sem eru að taka þátt í 100 km hlaupi í fyrsta sinn þá er töluverður munur á að hlaupa 100 km eða maraþon. Það er jafnvel töluverður munur á að hlaupa 100 km miðað við Laugaveginn. Það munar töluverðu hvort hlaupararnir eru 6-7 tíma á brautinni eða 10-12 tíma. Miklu máli skiptir að undirbúa sig vel, þá verður þetta ánægjuleg og eftirminnileg upplifun, sérstaklega fyrir þá sem eru að takast á við þetta markmið í fyrsta sinn. Hér eru nokkur hollráð til að hafa í huga við undirbúninginn fyrir utan stuðning af æfingaprógrömmum sem tiltæk eru.

1. Ráðlegt er að auka æfingamagnið rólega og helst ekki meir en 10% á viku.
2. Nauðsynlegt er að setja upp áætlun um nokkur löng hlaup sem eru þó töluvert styttri en hið fyrirhugaða langa hlaup. Það er gert til þess að láta reyna á hvernig er að borða og drekka þá næringu í löngum hlaupum sem fyrirhugað er að nota í fyrirhuguðu keppnishlaupi. Forðast skal að fara í einhverja tilraunastarfsemi í hlaupinu sjálfu.
3. Nauðsynlegt er að fylgja ákveðinni æfingaáætlun sem leyfir ákveðinn sveigjanleika út af því sem getur gerst vegna veikinda, meiðsla og persónulegra aðstæðna.
4. Byggðu upp metnað. Til að ná að ljúka ofurhlaupi þarf að byggja upp andlegan og líkamlegan styrk.
5. Náðu tengslum við reyndan hlaupara sem getur miðlað þér af reynslu sinni til að auðvelda þér að ná settu marki.
6. Að hlaupa ofurhlaup snýst að verulegu leyti um álagsstjórnun. Hluti af æfingaáætluninni er að byggja upp styrk til að geta tekist á við löng æfingahlaup og flýta endurheimtu (recovery). Nauðsynlegt er að hlaupa löng hlaup eftir samlokuformi (dag eftir dag). Það byggir upp hæfni til að takast á við löng hlaup þar sem líkaminn er varla búinn að ná sér eftir fyrri daginn þegar takast þarf á við seinna langa hlaupið. Blandaðar æfingar henta vel aðra daga vikunnar svo sem hraða æfingar, brekkuæfingar og styttri hraðari hlaup.
7. Reyndu að kynna þér fyrirhugaða hlaupaleið. Til að eiag auðveldara með að halda einbeitingu í hlaupinu er gott að þekkja hlaupaleiðina vel. Það kemur í veg fyrir óvænt atvik í hlaupinu sjálfu.
8. Nauðsynlegt er að minnka æfingaálagið verulega og hvílast vel síðustu vikurnar fyrir hlaupið. Það gefur líkamanum möguleika á að ná sér að fullu eftir erfiðar æfingar undanfarnar vikur. Það er mögulegt að menn þyngist aðeins en það er bara kostur því líkaminn þarf að geta unnið kolvetni (glycogen) úr líkamanum. Það er eldsneytið sem knýr vöðvana áfram þegar út í hlaupið er komið.
9. Í fyrsta ofurhlaupinu er nauðsynlegt að skipuleggja hlaupið vel og leggja út með fyrirfram ákveðinn hraða til að geta haft undirtökin alla leið. Hlauptu þitt eigið hlaup en ekki annarra.
10. Við erfiðar æfingar skaltu hlusta vel á líkamann. Ef æfingarnar eru að verða of erfiðar er nauðsynlegt að hægja á. Annars eru líkur á að meiðsli fari að gera vart við sig.
11. Undirbúðu hlaupið vel hvað varðar allan fatnað, skó, næringu og búnað sem skal nota í hlaupinu. Huga skal vel að allri næringu því það er ekki hlaupið út í búð þegar af stað er komið. Nauðsynlegt er að geta varist bæði sól og regni. Skipuleggja þarf útsendingu á drykkjarstöðvar ef um það er að ræða. Ekki leggja af stað í nýjum skóm og ekki heldur í of gömlum skóm. Vegna þess að fæturnir þrútna í mjög löngum hlaupum er nauðsynlegt að vera í skóm sem eru ca 1/2 númeri stærri en vanalega.

sunnudagur, febrúar 20, 2011

The Beatles: From Me To You

Lítil frænka var skírð í dag


Forsteinn vísaði Icesave samningunum í þjóðaratkvæði í dag við mismikil fagnaðarlæti. Sumir létu það frá sér fara að þetta væri einræðistilburðir og ég veit ekki hvað. Það er hins vegar svo merkilegt að þeir sem eru fúlastir út af ákvörðun forsetans í dag eru einmitt sama fólkið sem fór hamförum árið 2004 um að krefjast þess að forsetinn hafnaði því að skrifa undir fjölmiðlalögin og vísa þeim í þjóðaratkvæði. Undirritaður var einn af fáum sem var hlynntur fjölmiðlalögunum því þróunin í eignarhaldi á fjölmiðlum eins og hún var á þeim tíma var orðin stórhættuleg. Það kom síðan berlega í ljós. Það er alþekkt að þeir sem eiga mikið undir í viðskiptum og tefla oft djarft á því sviði þurfa að hafa tangarhald á fjölmiðlum til að geta tryggt sér góða pressu.

Nú er orðinn plagsiður hjá ákveðnum þjóðafélagshóp að djöflast í Hæstarétti vegna þess að hann dæmdi stjórnlagaþingskosningaklúðrið ómerkt. Það er inni hjá vissum hópum að tala Hæstarétt og gildi hans niður með öllum tiltækum aðferðum. Umræðan er oft eins og ég veit ekki hvað, jafnvel hjá fólki sem maður gerði að óreyndu ráð fyrir að vissi betur. Ég sá t.d. þessleiðis skrif um að því að sami stjórnmálaflokkur hérlendis hefur farið lengi með dómsmálaráðuneytið var líkt saman við stjórnkerfið í Sovétríkjunum. Að mínu mati ættu menn sem slíkt skrifa í besta falli að kunna að skammast sín. Í Sovétríkjunum ríkti fasískt einræði undir stjórn kommúnista í rúm 70 ár. Þeir héldu völdum með tilstyrk hersins og öryggislögreglunnar KGB. Almenningur var kúgaður með hervaldi og bjó áratugum saman í skugga óttans. Milljónatugir voru fluttar í þrælabúðir og / eða drepnar.
Í Íslandi var lýðræðisleg flokkaskipan til staðar stærstan hluta síðustu aldar. Almenningur kaus í almennum leynilegum kosningum til sveitarstjórna og alþingis. Þjóðin öðlaðist fyrst fullveldi og síðan sjálfstæði. Þeir flokkar sem fengu mest fylgi fengu flesta þingmenn, a.m.k. eftir að kjördæmaskipanin breyttist. Alþingismenn mynduðu ríkisstjórnir hvers tíma með einni undantekningu. Þeir flokkar sem stóðu að ríkisstjórnun skiptu með sér ráðherraembættum. Sú skipan byggðist á samkomulagi milli viðkomandi flokka. Áherslur einstakra flokka varðandi ráðherraembætti hafa vafalaust verið eitthvað mismunandi. Því er það að líkja saman þeirri aðferð sem ráðherrar voru valdir eftir í Sovétríkjunum og hér á Íslandi svo fyrir austan sól og sunnan mána að ég veit ekki hvernig er hægt að hafa það lengra úti í fjarskanum.

Í kvöld var löng fréttaskýring í RÚV um þróun atvinnumála í þorpunum vestur á fjörðum. Kvótakerfinu og frjálsu framsali var kennt um þróun mála þar á liðnum áratugum. Ég veit ekki hvernig er hægt að fjalla um þessi mál og stöðu þorpanna án þess að minnast á það einu orði að hérlendis voru fiskaðar um 400 þúsund tonn af bolfiski þegar kvótakerfið var sett á en nú má veiða um 160 þúsund tonn. Heldur fólk virkilega að þess sjáist hvergi merki?? Það er ekki hægt að kalla svona lagaða nálgun annað en að það sé gróflega skautað fram hjá grundvallaratriðum svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Vitaskuld hefur maður áhyggjur af því hvernig samfélögin hafa þróast víða á landsbyggðinni á liðnum áratugum. En að kenna kvótakerfinu um allt sem miður hefur farið er náttúrulega bara bull. Mér var sagt nýlega að fyrir ca 15 árum þegar var farið að frysta loðnu í frystihúsinu austur á Neskaupstað þá voru fryst svona 40 tonn á sólarhring. Við frystinguna unnu um 40 manns og því var fryst um eitt tonn fryst á hvern mann sem vann við frystinguna. Nú frystir frystihúsið um 400 tonn á sólarhring og við það vinna um 20 manns. Afköstin á mannshöndina hafa tuttugufaldast. Heldur fólk virkilega að þessa sjái hvergi merki? Er þetta kvótakerfinu að kenna? Í fréttaskýringunni var sagt að kvótanum hefði í upphafi verið úthlutað til hóps útvaldra. Ég er kannski farinn að gleyma en mig minnir að við upphaf kvótakerfisins var því magni fiskjar sem mátti veiða úthlutað á þær útgerðir sem höfðu stundað sjó á ákveðnu árabili. Kvótaúthlutunin var skerðing á möguleikum útgerðanna til sóknar frá því sem verið hafði. Þessum tíðindum var ekki tekið með neinni ánægju og mér er til efs að útgerðamenn þess tíma hafi talið sig til neinnar forréttindastéttar við að fá að veiða minna það ár en þeir gátu veitt árið áður.

laugardagur, febrúar 19, 2011

Eddie Meduza Mera Brännvin

Höfnin á Þórshöfn


Það hefur að mig innir aldrei komið fyrir að ég hafi verið sammála Feministafélaginu fram til þessa. Ég sá hins vegar nýlega ályktun sem félagið hafði sent frá sér varðandi staðgöngumóðurumræðuna. Ég get ekki annað sagt en að ég hafi verið sammála hverju einasta orði. Ekki veit ég hvort þetta þýðir einhverja stefnubreytingu hjá öðrum hvorum aðilanum en líklega er þetta bara tilviljun.

Ríkisvaldinu er skipt í þrennt. Löggjafarvald (Alþingi), framkvæmdavald (ríkisstjórn og ráðuneyti) og dómsvald (héraðsdómur og hæstiréttur). Hvor aðili á ekki að skipta sér af öðrum. Út á það gengur þrískipting ríkisvaldsins.
Hópur skrílmenna réðst inn í Alþingi fyrir um tveimur árum síðan. Hópurinn slóst þar við þingverði og lögreglu, lamdi fólk og beit. Eðlilega er svona framferði kært til dómsstóla. Það ræðst enginn inn í Alþingi með ofbeldi bara si svona. Hópurinn hefur réttlætt framferði sitt m.a. með því að segja að því hafi verið svo heitt í hamsi að það hafi mátt gera þetta. Lagt hefur verið að dómsmálaráðherra að hann grípi inn í framgang réttvísinnar með beinum pólitískum aðgerðum. Dómur féll fyrir nokkrum dögum. Sumir úr hópnum fengu skilorðsbundinn dóm en aðrir sekt. Sumir dæmdir sýkn saka. RUV gerði mikið númer úr dómsuppkvaðningunni, var með beina útsendingu frá réttarsalnum þegar dómur var kveðinn upp að því mér heyrðist og svo var sýnt frá dómshúsinu í kvöldfréttum sjónvarpsins. Þar var mikið drama á ferðinni. Dómskerfið vann altsvo vinnuna sína og lauk því sem að því var beint. Það er hins vegar ekki allt búið. Þingmenn hafa lagt það til að Alþingi biðji hópinn afsökunar á því að hann hafi verið kærður fyrir árás á Alþingi!! Forsætisráðherra og fjármálaráðherra tóku undir þann málflutning. Mann setur hljóðan þegar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið er farið að tjá sig á þennan hátt um dómsvaldið. Eru mörkin í þrískiptingu ríkisvaldsins að verða eitthvað óglögg? Saksóknari leggur fram ákæru. Dómurinn tekur hana til meðferðar eða ekki. Ef hún er tekin til efnislegrar meðferðar þá er felldur dómur. Þannig gengur þetta fyrir sig. Í tegnslum við fyrrgreind ummmæli er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort sá aðili sem hellti rauðri málningu yfir eignir ýmissa útrásarvíkinga fyrir nokkrum misserum fái vægari dóm en ella ef hann segist hafa verið svo reiður að hann hafi ekki ráðið við sig. Það er vegið að réttarríkinu ef einstaklingarnir komast upp með að taka að sér framkvæmd ákæruvaldsins og dómsvaldsins.

Ég gaf leyfi til þess nýlega að í tímaritinu Ægi, sem fjallar um sjávarútvegsmál, væri birtur kafli af blogginu mínu þar sem ég er að skrifa um álit mitt á umræðunni um sjávarútvegsmál. Ég hef í sjálfu sér bara fengið góð viðbrögð við þessu. Mér hefur t.d. verið sagt að það sé til að ungt fólk sem kemur til náms til Rvk utan af landi og er úr fjölskyldum sem stundar útgerð sé hætt að þora að segja frá því hvaða atvinnu fjölskyldan stundar. Að stunda útgerð er í hugum margra eins og að fást við eitthvað misjafnt. Það er búið að tjúna upp slíka andúð á útgerð og útgerðarmönnum með síbyljunni um gjafakvóta, ofurgróða, svindl og svínarí að það er komið út yfir allan þjófabálk. Í blöðunum í morgun var skýrt frá ráðstefnu þar sem meðal annars var fjallað um hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum. Að mati þeirra sem gerst þekktu til lagalegrar túlkunar var niðurstaðan að þessi frasi væri tóm þvæla samkvæmt frásögn þar af.

þriðjudagur, febrúar 15, 2011

Blåögda flicka með Iggesundgänget stendur alltaf fyrir sínu

Elsta apótekið í Eistlandi


Myndin um staðgöngumæðrunina sem sýnd var í sjónvarpinu í gærkvöldi staðfesti í raun allt það sem ég var búinn að lesa og ímynda mér um þennan prócess. Þarna fékk maður smá innsýn í barnaverksmiðjur í Indlandi þar sem fátækar konur, sem notuðu þessa aðferð til að bæta hag sinn og fjölskyldunnar, voru eins og rollur í rétt og biðu. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig sú bið var. Biðin var ekki eftir einhverju ánægjulegu og uppbyggjandi heldur eins og að fá greiðslu fyrir óþægindi og erfiði sem vonandi myndi gleymast sem fyrst. Egg frá Bandaríkjunum, sæði frá Ísrael og kona í Indlandi sem gegnir hlutverki útungunarvélarinnar.
Viðtalið við siðfræðinginn í kvöld í Návíginu var mjög fínt. Hún hafði greinilega velt þessu mikið fyrir sér og tók þá skynsamlegu afstöðu að í þessum efnum ætti ekki að rasa um ráð fram, heldur flýta sér hægt, grandskoða allar hliðar málsins og komast að lokum að skynsamlegri og yfirvegaðri niðurstöðu. Álitaefnin væru svo mörg og óleyst að það væri algerlega fráleitt að ganga frá frumvarpi um staðgöngumæðrun fyrir marslok að hennar mati.
Það var eitthvað annað að heyra í þingmanninum sem hefur haft frumkvæði um að leggja fram þingsályktunartillögu um að leyfa skyli staðgöngumæðrun hérlendis. Þar var aðferðin að brussast áfram, líta hvorki til hægri né vinstri og keyra málið í gegn um Alþingi án þess að skoða það að neinu gagni. Ef þetta eru dæmigerð vinnubrögð á Alþingi í fleiri málum þá fer maður að hugsa margt. Ég vona bara að svo sé ekki. Hvað ef sú staða kemur upp að það vill enginn eiga barnið sem kemur undir og fæðist á þennan hátt? Hver er ábyrgur í slíkum tilvikum? Ísland er fámennt. Ættu þau börn sem myndu fæðast á þennan hátt að vera skráð í þjóðskrá fædd af föður og hinni raunverulegu móður til að útiloka skyldleikagiftingar og svo einnig af uppeldismóðurinni? Ættu börnin að fá að vita um uppruna sinn? Hver er réttur barnsins í þessum efnum?

Reyndar sagði siðfræðingurinn að margt sem leitt hefur verið í lög hérlendis á liðnum árum og tengist þessum efnum væri illa og flumbrulega unnið. Það kemur mér ekki á óvart. Yfirleitt er prócessinn á þann hátt að einhver þrýstihópurinn keyrir upp hávaða og krefst svokallaðra úrbóta. Principlitlir þingmenn stökkva á málin í von um að það afli þeim vinsælda. Það er yfirleitt auðveldara að fleyta sér áfram með öldunni en synda á móti straumnum. Síðan er þetta keyrt áfram undir fána mannréttinda eða ég veit ekki hvað. Svona vinnubrögð gera náttúrulega ekkert nema koma í bakið á okkur síðar.
Þótt því sé haldið fram að það eigi einungis að leyfa staðgöngumæðrun hérlendis í velgjörðarskyni og án þess að greiðsla komi fyrir þá veit það hver maður sem hefur eitthvað milli eyrnanna að það er auðveldasti hlutur í heimi að komast fram hjá því. Ef Ísland mun opnast eins og einhver gátt hér í Evrópu í þessum efnum þá mun þrýstingurinn utan lands fara vaxandi á að þetta verði heimilit gegn greiðslu. Vilja menn það? Viðtalið við konuna sem hélt því fram að staðgöngumæðrun ætti að koma í stað meðgöngu hjá konum sem vilja ekki fæða börn vegna möguleika á skerðingar starfsframa eða ef það myndi sjást á skrokknum á þeim að hafa gengið með barn var vægast sagt óhuggulegt. Ef það verður framtíðin að vestrænir uppar senda frjógvuð egg í útungun hjá konum í Indlandi eða öðrum fátækum ríkjum þá verður gott að vera dauður.
Það er merkilegt að það hefur ekkert heyrst í feministafélaginu um þetta mál hérlendis. Alla vega ekki svo ég hef heyrt. Það hefur yfirleitt ekki vantað að það hafi haft skoðanir á hinu og þessu. Verði staðgöngumæðrun leyfð hérlendis þá sé ég engin rök fyrir því að banna vændi. Það væri alltaf hægt að kalla það aðstoð í góðgerðaskyni og svo væri hægt að redda þessu með greiðsluna.

mánudagur, febrúar 14, 2011

Hungarian gypsy music

Lestarteinar í Búdapest. Í Búdapest var lagður fyrsti Metró á meginlandi Evrópu fyrir um 110 árum.


Það var stórfrétt í Mbl í morgun. "Jarðlestir gætu sparað tugi milljarða króna". Gætu já, mögulega kannski. Verkfræðideild Háskóla Íslands er byrjuð að öngla saman peningum til að kanna hagkvæmni fyrir 10 km jarðlest í Reykjavík sem á að kosta um 50 milljarða króna. Við þetta er ýmislegt að athuga. Ef menn finna einhversstaðar í heiminum stórt þorp eða smá borg eins og Reykjavík sem er með rúmlega 120 þúsund íbúa og neðanjarðarlestarkerfi þá væri það flott. Ef ekki, þá segir það þá sögu að þessi aðferðafræði hefur verið könnuð og ekki reynst hagkvæm. Varla trúi ég að menn ætli að fara af stað með sömu hagfræði að leiðarljósi eins og þegar síðast var rætt um lestarsamgöngur til Keflavíkur. Þá var fullyrt að lestin gæti borið sig ef fjárfestingarkostnaðurinn væri ekki reiknaður með.
Ég las einu sinni grein um rekstur hraðlestarinnar á milli Arlanda flugvallar og Stokkhólms. Í Stokkhólmi býr svona ein milljón manna. Engu að síður var gríðarlegur halli á rekstri lestarinnar. Það var talað um "The Suck of The Giant" þegar meðgjöfinni var lýst.
Forsvarsmaður verkefnisins segir að kostnaður af bílaflota landsmanna sé um 150 miljarðar króna á ári. Það kemur ekki fram hvort það sé eldsneytiskostnaður, allur rekstrarkostnaður eða allur rekstrarkostnaður með fjárfestingarkostnaði. Hann segir engu að síður að ef menn hætta að keyra í vinnuna og nota bílinn bara fyrir fjölskylduna um kvöld og helgar þá muni sparast um þriðjungur eða um 50 milljarðar. Þarna væri gangnakostnaðurinn kominn bara á einu ári!! Við þessa fullyrðingu er margt að athuga. Það mun einungis lítill hluti landsmanna geta notað þennan 10 km lestarspotta sem myndi líklega ná frá Mjódd niður í gamla miðbæinn. Ef á að tengja saman Grafarvoginn, Árbæinn, Breiðholtið við Miðbæinn og Vesturbæinn þá er það töluvert lengra kerfi en 10 km. Hvað myndi ríkið gera ef bensínnotkun myndi dragast saman um þriðjung? Ég er hræddur um að skattar myndu hækka töluvert á þá eldsneytisnotkun sem eftir væri til að fjármagna ríkisreksturinn og almennar vegaframkvæmdir.
Svo á ekki gleyma því að hlutirnir eru ekki svona einfaldir. Veður á stærstum hluta landsins er dæmigert úthafsloftslag, alla vega á Suð-Vesturhorninu. Þar skiptast á skin og skúrir, stormur og logn, rigning og þurrt veður, hiti og frost. Það er ekki sérstaklega þægilegt að þurfa að ganga eða hjóla langar leiðir til vinnu á veturna þegar alla veðra er von. Byggðin í Reykjavík er síðan mjög dreifð. Því verður ekki breytt svo glatt. Af þeim sökum verða almenningssamgöngur í borginni ætíð mjög dýrar því það er um svo svo fátt fólk um að ræða á hvern ekinn kílómeter. Það yrði því alltaf langt að fara í hverja tengistöð fyrir flesta nema bíllinn væri tekinn þangað. Þá myndi það kosta sitt í bílastæðum eða bílastæðahúsum. Strax og hreyfir vind eða snjó lenda þeir í vandræðum sem eru að bagsa við að hjóla á veturna. Ég er því hræddur um að þessi jarðlestahugmynd sé andvana fædd. Alla vega myndi ég ekki rjúka fram á fyrstu skrefum málsins og fullyrða að jarðlestarkerfi gæti sparað tugi milljarða á ári.

laugardagur, febrúar 12, 2011

Inavlade Bönder - Bröderna Djup

Silkitoppa að éta epli


Nú stendur Eurovision keppnin yfir á RUV. Þá er tilvalið að gera eitthvað annað á meðan. Mér fannst afar athyglisvert að RUV skuli hafa séð ástæðu til þess að lesa upp langhund eftir JÁJ í kvöldfréttunum þar sem hann hraunaði yfir Arion banka með allskonar fullyrðingum. Mér finnst það í hæsta máta bæði líklegt og eðlilegt að Arion banki hafi ekki tekið skuldabréf upp á milljaraða tugi til margra ára gilt sem greiðslu. Sporin hræða. Á hinn bóginn verður maður oft hissa yfir þeirri fréttastjórn sem þarna ræður ríkjum.

Ég hlustaði á spjallþátt á Rás 1 í morgun. Þar bar fjölmiðlamenn á góma. Gamalgróinn starfsmaður á MBL sagði að sín tilfinning væri eins og að fjölmiðlar væru fullir af sumarafleysingafólki. Flestöllu gamalgrónu og reyndu fjölmiðlafólki hefði verið sagt upp á þeim tíma þegar enginn var talinn vera nothæfur væri hann kominn af unglingsárum. Það er fróðlegt að horfa á "60 Minutes" í þessu sambandi. Í þessum spjallþætti kom fyrir enn einu sinni að það er orðið inngróið hjá mörgum að MAÓ hafi stutt sérstaklega við smáatvinnurekstur og smáfyrirtæki. Orðtakið "Látum 1000 blóm spretta" er gjarna haft um slíka hluti og vísað sérstaklega í MAÓ. Samkvæmt því sem ég hef lesið þá er þetta hreinræktað fals svo vægt sé í árina tekið. Á árunum eftir 1960 var orðin mikil óánægja með stjórnarfar MAÓ´s í Kína. Hungursneyðin hafði kostað ótrúlegan fjölda fólks lífið. Herinn var látinn loka héraðinu þar sem ástandið var verst svo fréttir bærust ekki út af því. MAÓ skynjaði að það þyrfti eitthvað að gera til að slá á óánægjuna. Hann hvatti því til opinnar gagnrýni á stjórnina. Nauðsynlegt væri að fá gagnrýnisraddirnar fram svo mætti heyra álit fólksins og bæta ástandið. "Látum 100 blóm spretta" sagði MAÓ og kallaði þannig gagnrýnisraddirnar fram. Fólk hélt að nú væru breyttir tímar og hóf að gagnrýna stjórnvöld undir nafni. Eftir að MAÓ var búinn að ná þeim á þennan hátt fram í dagsljósið sem voru óánægðir með stjórnarfarið þá lét hann drepa þá. Þannig gat hann hert enn frekar tök sín á þjóðinni í krafti óttans. "Látum 100 blóm spretta" og fjölgum smáatvinnurekstri í anda MAÓs!!!

Horðvirknislegir fjölmiðlamenn hafa ótrúleg áhrif á að gera málið lélegra og ruglingslegra. Eitt dæmi er hvernig hugtökum er ruglað saman og eftir nokkurn tíma veit enginn hvað er hvað. Í Mbl í morgun var sagt að hjón hefðu "sölsað um" þegar þau hættu atvinnurekstri í Reykjavík, fluttu til Prag og hófu að reka veitingahús þar í borg. Slík breyting heitir að "söðla um" bara svo að það sé á hreinu. Að "söðla um" er dregið af því að skipta um reiðtygi á hesti. Aftur á móti er það kallað að "sölsa eitthvað undir sig" þegar maður nær tangarhaldi á einhverju með bellibrögðum.

Það hlaut að koma að því. Eftir 20-25 þúsund kílómetra hlaup í nær sex ár án vandræða þá gerðist það. Ég, Jói, Stebbi og Hálfdán vorum á léttu skokki vestur á Seltjarnarnes í morgun. Rétt áður en við komum að Eiðistorgi fór ég að finna fyrir einhverjum skrattanum í vinstri kálfanum. Það hvarf ekki heldur fór versnandi. Þegar við komum niður á stíginn hinum megin niður við sjóinn var ég orðinn stinghaltur. Ég bað þá að halda áfram því ég gat ekkert hlaupið. Það endaði svo að ég gekk heim, stinghaltur. Ég hef annað hvort tognað eða lítill vöðvaþráður slitnað. Þetta þýðir hvíld í einhverja daga eða vikur. Það þýðir ekkert að láta þetta stressa sig heldur líta á björtu hliðarnar. Lán að þetta gerðist í febrúar en ekki í júní.

föstudagur, febrúar 11, 2011

HP Burman 650 polaris

Stytta í Búdapest


Ég var að ljúka við að lesa bókina "Hreinsun" eftir Sofi Oksanen. Sofi er ein af fremstu rithöfundum yngri kynslóðarinnar í Finnlandi. Hún er af eistneskum ættum. Bók hennar "Hreinsun" fjallar um örlagasögu systra í Eistlandi fyrir, í og eftir seinna stríð. Inn í þá sögu fléttast saga þriðju kynslóðarinnar sem kemur frá Vladivostok í leit að betri heimi í Vestur Evrópu. Önnur systirin er send í Gúlagið með unga dóttur sína vegna falskrar ákæru hinnar systurinnar. Sagan er mögnuð á margan hátt. Hún lýsir bæði ákveðnu fjölskyldudrama eða réttara sagt harmleik en einnig og ekki síður sögu hersetinnar þjóðar sem lifir undir oki erlends ríkis. Þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir alla þá sem hafa litið til Sovétríkjanna og kommúnismans með glampa í augum.

Ég hef tvisvar komið til Eistlands, dvalið í Tallin í bæði skiptin en einnig komið út fyrir borgina. Í fyrri ferðinni hittum við forsetann meðal annarra. Í þeirri ferð spjölluðum við mikið við túlkinn sem var kona heldur yngri en ég. Hún lýsti fyrir okkur daglegu lífi í Eistlandi undir Sovétríkjunum. Það er náttúrulega eitthvað sem enginn getur ímyndað sér nema sá sem hefur upplifað það. Í skóla lærði maður í runu að Eystrasaltslöndin hétu: Eistland, Lettland og Litháen en annað vissi maður ekki. Sovétríkin unnu markvisst að því að útrýma þessum þjóðum með markvissum tilflutningi rússa til landanna og allskonar undirokun. Engu að síður lifði þjóðarvitundin góðu lífi undir niðri og braust síðan út fyrir um tuttugu árum síðan. Það er náttúrulega stórkostlegur hlutur að smáþjóð eins og Ísland skyldi verða til þess að brjóta ísinn fyrir þau með því að viðurkenna fyrst þjóða fullveldi þeirra.
Ég skil vel að rithöfundurinn Sofi skyldi í haust svara með snúð einhverri sjálfbirgingslegri fréttastelpu þegar hún fór að spyrja einhverra blaðurspurninga. Sá sem skrifar svona sögu, þekkir sögusviðið og jafnvel persónurnar sem sagan byggir á nennir ekki að hlusta á blaður.

Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrr rétt um þrjátíu árum síðan þá kynntist ég strák sem hét HP (Hans Petter) Burman. Hann var eitthvað að stúdera í Uppsölum en mest var hann í músíkinni. Hann var bæði músík- og málaséni. Hann var þekktur fyrir það að hafa lært jämskuna svo vel að hann talaði hana betur en heimamenn. Hann hafði gefið út tvær plötur með hljómsveitinni Harrda Ku Harrda Geit. Ekki veit ég hvað það þýðir en það er eitthvað um kú og geit. Þekktasta lagið sem hann hafði sungið á plötu var lagið Jämtlandstaus sem er hylling til jämskra stúlkna. Honum hefur vafalaust fundist íslendingarnir hæfilega skrýtnir til að geta slugsað svolítið með þeim. Hann hafði gaman af að heyra íslenska tónlist og ég þýddi nokkra texta af herstöðvaandstæðingaplötunni á sænsku fyrir hann. Það var alltaf gaman að hitta HP svona af og til. Ég hef síðan ekkert af honum heyrt frá því ég fór frá Uppsölum. Fyrir skömmu datt mér í hug að skanna hann á youtube og viti menn. HP birtist þar sprelllifandi. Enn að syngja með gamla bandinu, orðinn svona 50 kílóum feitari, búinn að missa hárið að töluverðu leyti en engu að síður var gamli HP þarna mættur. Gaman að því.

fimmtudagur, febrúar 10, 2011

Eddie Meduza - Flickorna i småland

Margareta Kjellberg - Flickorna i Småland 78 rpm

Kisi að reyna að klifra upp í tré til að veiða fugla


Stjórn 100 km félagsins hefur ákveðið að standa fyrir 100 km hlaupi fyrsta laugardag í júní. Hlaupið verður haldið í Fossvoginum með nánari staðsetningu síðar. Umræða hefur verið um að hlaupa 5 km hring. Það gerir hlaupið einfaldara í framkvæmd því þar þarf t.d. minni mannskap við slíka framkvæmd heldur en þurfti þó þegar hlaupinn avr 10 km hringur. Þar sem hámarkstíminn til að ljúka hlaupinu er 13 klst þá er þetta a.m.k. 15 tíma törn fyrir þá sem vinna við hlaupið. Það er eins gott að veðrið sé gott. Það eru þegar svo margir búnir að skrá sig að það er ljóst að hlaupið verður haldið. Það passar að hefja undirbúning fyrir hlaupið núna um helgina. Þá eru 15 vikur til stefnu. Það fer enginn í 100 km hlaup nema að vera þokkalega vel undirbúinn (vonandi) svo það skiptir ekki máli með eina viku til eða frá. Hér er slóð á æfingaprógram fyrir 100 km hlaup. http://ultrarunning.co.nz/content/100km-training-programme Lykillinn að árangri í 100 k hlaupi er að taka löng hlaup bæði laugardag og sunnudag í rúma tvo mánuði. Þau þurfa að vera ca 3 - 5 klst.

Ég hef enn ekki tekið ákveðna stefnu á hlaup í sumar. Ég hef verið rólegur í álaginu og er að skoða ýmislegt. Þó þarf ég að fara að taka ákvörðun því tíminn líður. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að það taki langan tíma að snúa sér almennilega í gang. Það gerist fyrr en varir því allt gangverkið er í fínu lagi. Meðal annars hef ég rekist á áhugavert 24 tíma hlaup í Belfast í sumar. Einnig veit ég um 48 tíma hlaup í Ungverjalandi. Spurning er hvort þar sé of heitt fyrir mig. Getur verið. Ég veit að ég get bætt mig í báðum þessum hlaupum. Það er bara að ákveða hvort á að ganga fyrir. Partur af þessu er síðan að sjá sig aðeins um en halda þó kostnaðinum innan ásættanlegra marka.

miðvikudagur, febrúar 09, 2011

Stubb-Jonas - Härliga Härjedalen

Silkitoppa á grein


Í gær fylgdum við Kötu frænku til grafar. Hún var ekki frænka mín í raun heldur systir tengdamömmu en engu að síður var hún alltaf kölluð Kata frænka af þeim sem hana þekktu. Kata var orðin rúmlega áttræð og lést södd lífdaga. Þrátt fyrir margháttað andstreymi í lífinu á tapaði hún aldrei glaðlyndinu, bjartsýninni, jákvæðninni og trúnni á hið góða í manninum. Henni leið best innan um stórfjölskylduna og leit á krakkahópinn eins og hún ætti persónulega töluverðan hluta í þeim hverju fyrir sig. Maður fer að velta fyrir sér forgangsröðun hlutanna enn betur þegar þeim er kynnst í návígi. Síðustu mánuðina þurfti Kata að vera inni á hjúkrunarheimili þar sem hugsað var vel um hana á allan hátt. Ekki var samt sem áður hægt að útvega henni herbergi sem hún hafði út af fyrir sig heldur deildi hún herbergi með annarri konu allt til enda. Þannig er búið að fólki síðustu daga lífsins sem búið er að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins allt það hefur getað frá því það gat staðið undir sjálfu sér. Presturinn minntist á það í minningarorðunum að þegar Kata var einungis níu ára gömul þá var henni falin ábyrgð á að annast kyndingu á húsinu sem fjölskylda hennar bjó í og húsið var kolakynt. Kolakynding er vafalaust eitthvað sem ca helmingur þjóðarinnar hefur ekki hugmynd um hvað er, hvað þá að hann geti ímyndað sér hvernig það hefur verið fyrir níu ára gamalt barn að bera ábyrgð á slíku. Aðstæður á þeim tíma voru hins vegar þannig að það urðu allir að axla sína ábyrgð og leggja sinn skerf af mörkum í lífsbaráttunni, að öðrum kostu gengu hlutirnir ekki upp. Ég hitti konu okkur tengda í jarðarförinni og aðstæður Kötu undir það síðasta bárust í tal. Þá rifjaði hún upp og varð heldur heitt í sinni þegar hún sagði okkur frá því að mamma hennar hefði þurft að deila herbergi á elliheimili í nokkur ár með tveimur öðrum konum. Við slíkar aðstæður er ekkert einkalíf, það er varla hægt að fá fólk í heimsókn, fólk getur varla haft nokkurn persónulegan mun hjá sér nema kannski nokkrar myndir og að síðustu er alls ekki víst að slíkum einstaklingum lyndi saman. Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður sér í umræðunni að það er talið ófært og allt að því brot á mannréttindum ef sori samfélagsins, dæmdir morðingjar, nauðgarar, dópsalar og barnaníðingar svo ekki sé talað um krimma af minni gráðum, fái ekki prívatherbergi í fangelsinu með tölvu, flatskjá og alleslags þægindum, aðgang að líkamsrækt og ég veit ekki hvað. Það er oft gott að setja hlutina í samhengi.

Talandi um fangelsisbúa þá verð ég að segja að mér fannst PR stunt fangelsisforstjórans fyrir jólin vera vægt sagt óviðkunnanlegt. Að sýna verstu glæpamenn þjóðarinnar í sjónvarpsfréttum trekk í trekk sem einhverja góða og gjafmilda frænda sem voru önnum kafnir að baka kökur, mála jólasveina og á annan hátt að undirbúa jólin í sátt við allt og alla. Á öllum hlutum eru tvær hliðar hið minnsta. Menn eru ekki settir í fangelsi nema þeir hafi brotið á einhverjum. Alla vega á réttarkerfið að tryggja það að saklausir menn séu ekki settir í steininn. Ég get rétt ímyndað mér hvernig mér myndi líða ef ég sæi einhverja gangstera sem hefðu brotið mjög gróflega á mér eða minni fjölskyldu sýnda á þennan hátt í sjónvarpsfréttum. Það er vissulega tilraunarinnar virði að reyna að nota tímann sem menn sitja inni til að gera viðkomandi skárri þegar þeir koma út heldur en þegar þeir fóru inn. Það er hins vegar óþarfi að nudda því framan í fólk sem einhverju PR stunti fangelsismálastofnunar.
Fyrir rúmum 10 árum var ég á ráðstefnu á Nýfundnalandi. Þar las ég blöðin eins og maður gerir oftast erlendis til þess að átta sig aðeins á umræðunni í samfélaginu. Þá sá ég fréttir af því að það höfðu verið birtar í fjölmiðlum myndir úr einu af ríkisfangelsum Kanada. Þar voru fangarnir í veisluhöldum og góðri skemmtan. Meðal fanganna á myndunum var kona sem hafði ásamt kalli sem hún var í slagtogi við drepið systur sína á viðurstyggilegan hátt. Í blöðunum birtust myndir af henni uppáklæddri í veisluhöldunum í fangelsinu eins og hún hefði hvítskúraða samvisku. Það varð allt vitlaust í umræðunni í samfélaginu út af þessu það ég sá. Spurt var hvort fangelsin væru eins og hvíldar- og hressingarhæli af betri sortinni fyrir verstu glæpamenn þjóðarinnar eða hvað. Kanadamenn voru ekki par hrifnir yfir svona birtingarmynd fangelsisdvalar fyrir verstu glæpamenn þjóðarinnar. Svo þekki ég þá sögu ekki lengri.

mánudagur, febrúar 07, 2011

Ole Ivars-Je har slutta å drekke brenn'vin

Fuglar í eplaveislu


Skömmu eftir frjálsíþróttamót RIG leikanna, sem haldið var um miðjan janúar sl. skrifaði ég á þessa bloggsíðu að félögin sem stæðu að frjálsíþróttamótinu þyrftu að greiða RUV 300 þúsund krónur fyrir beina útsendingu af mótinu. Þá miðaði ég við kostnað við mótið 2010. Mig misminnti reyndar því upphæðin sem félögin þurftu að greiða var 225 þúsund krónur þegar upp var staðið. Þetta var hent á lofti af ýmsum og fór svo að tekið var smáviðtal við útvarpsstjóra RUV í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. janúar vegna þessa. Undirfyrirsögn fréttarinnar er: "RUV fær ekki greitt frá íþróttafélögum." Síðar segir: "Það er á misskilningi byggt að Ríkisútvarpið fái greiðslur frá íþróttafélögum fyrir umfjöllun um viðburði á þeirra vegum" segir Páll útvarpsstjóri og síðar er haft eftir honum: "'Í tilfelli fyrrnefnds íþróttamóts hafi það verið Síminn, Egils Kristal og Orkuveitan sem kostuðu útsendinguna" Nú veit ég ekki hvernig þeir reikningar eru formaðir sem RUV sendir út vegna þessa viðburðar en hitt veit ég að frjálsíþróttafélögin í Reykjavík (ÍR, Fjölnir og Ármann) greiddu 225 þúsund krónur til RUV í fyrra vegna beinnar útsendingar samkvæmt endanlegu kostnaðaruppgjöri fyrir mótið. Ég sendi tölvupóst til blaðamannsins sem skrifaði fréttina. Póstinum var ekki svarað. Ég hringdi í hann og fór yfir málið. Í framhaldi af því sendi ég honum afrit af uppgjöri fyrir mótið 2010 í tölvupósti. Tölvupóstinum hefur ekki verið svarað né fréttin frá 18. janúar verið leiðrétt. Ég kann því illa að vera sagður ósannindamaður í fjölmiðlum og enn verr kann ég því að fá ekki tækifæri til að koma leiðréttingu á framfæri. Ég hef óskað eftir því að fá afrit af þeim reikningum sem lágu að baki upphæðinni sem félögin greiddu vegna mótsins á árinu 2010. Einnig mun ég óska eftir því að allir reikningar verði lagðir á borðið ef félögin verða krafin um greiðslu vegna sjónvarpsútsendingar frá mótinu sem haldið var í janúar. Það kemur þá í ljós hver hefur á réttu að standa. Það er ákveðin aðferðafræði að reyna að bíta menn af sér með þvi að svara ekki og bregðast ekki við óskum um leiðréttingar á annan hátt. En ef það er eitthvað sem ofurhlauparar hafa nóg af þá er það úthald og þrjóska.

Ég setti epli út í trén í garðinum fyrr í vetur. Það eru ýmsir garðfuglar á ferðinni sem ég hef ekki séð en langar til að sjá. Í fyrstu bar lítið á því að þeim væri veitt athygli en svo fór að sjást að einhverjir höfðu goggað í þau á daginn. Þegar kólnaði fór aðsóknin að aukast. Svo bar tilraunin árangur. Þessi fína silfurtoppa var í garðinum í dag og gæddi sér sem ákafast á eplunum ásamt bústnum þresti. Þau voru ekki alveg saupsátt hvort við annað eftir því sem mátti merkja. Kötturinn stóð stífur af spenningi fyrir innan gluggann við að horfa á steikurnar fljúga um fyrir utan gluggann. Enginn hefur sagt honum að þessir fljúgandi hnoðrar séu ætir það ég best veit. Þegar honum var sleppt út seint um síðir þá reyndi hann að klifra upp í tréð þar sem eplin voru, líklega til að liggja þar í leyni þegar hnoðrarnir kæmu næst. Það gekk ekki nógu vel og hann komst fljótt í raun um að kettir eru ekki vel útbúnir til að klifra í trjám. Því varð hann að láta sér nægja að búa sér til leynistað í snjónum. Þar beið hann um stund en hundaðist svo inn þegar honum fór að kólna á klónum.

föstudagur, febrúar 04, 2011

The Beatles - Live In Japan 1966

Horft yfir Seyðisfjörð


Ég skrifaði nokkrar línur um björgunarsveitir og þá sem bjargað er fyrir viku síðan og hef fengið tvö fín innlegg í því sambandi. Það er þakkavert þegar fólk ræðir málin á fræðandi hátt. Nú má enginn taka það svo að ég sé að gera lítið úr starfi björgunarsveita eða að telja þær óþarfar á nokkurn hátt. Slys og óhöpp af ýmsu tagi geta alltaf átt sér stað, jafnvel við bestu veðurfarslegar aðstæður. Þá er ómetanlegt að hafa möguleika á að leita liðsinnis velþjálfaðs fólks með góðan útbúnað. Eins getur fólk týnst af ýmsum ástæðum og þá er gott að hafa þennan bakhjarl tiltækan. Það sem er pirrandi hins vegar þegar verið er að kalla tugi eða hundruð björgunarsveitarmanna út með öllum þeim kostnaði sem því fylgir vegna aulaháttar eða hugsunarleysis þeirra sem þurfa svo á aðstoð að halda. Fólk ætlar yfir Sprengisand einbíla eða inn á hálendið og er jafnvel ekki með fjarskiptatæki með sér. Fólk fer í fjallgöngur eða gönguferðir inn í óbyggðir án þess að hafa áttavita eða GPS tæki með. Fólk strekkir inn á hálendi án þess að hlusta á veðurfréttir. Fólk breytir út af fyrirframákveðnum ferðaáætlunum á hálendinu án þess að láta vita af sér. "Þrautþjálfaðir" erlendir fjallgöngumenn lenda í vandræðum vegna þess að þeir þekkja ekki til íslensks veðurfars!! Þrautþjálfaðir fjallgöngumenn leggja sig í líma um að gera sér grein fyrir veðurfarslegum aðstæðum í löndum sem þeir þekkja ekki af eigin raun. Annars verður að draga það í efa að þeir séu "þrautþjálfaðir". Það vita allir þeir sem ætla að ganga yfir Grænlandsjökul að þar getur Piteraq skollið á þegar minnst varir. Þeir sem ætla yfir jökulinn verða að undirbúa sig undir að verstu möguleg veður geta skollið á ef þeir eiga að hafa möguleika til að lifa þau af. Ef ekki þá bjargar þeim enginn. Það vita allir sem vilja vita að það getur gert kolstjörnuvitlaust veður uppi á hálendinu og jafnvel niður í byggð. Það fer enginn nema viðvaningur í gönguferð inn á jökul um hávetur svo útbúinn að hann geti ekki bjargað sér á eigin spýtur. Ekki einu sinni með áttavita eða GPS. Núna er til örlítið miðunartæki sem heitir Depill. Ég var með það meðferðis til gamans þegar ég hljóp norður til Akureyrar í hitteðfyrra. Með slíkt tæki í för er hægt að miða viðkomandi nákvæmlega út á mjög einfaldan hátt. Slíkt tæki ætti að vera skyldubúnaður fyrir hálendisferðir að vetrarlagi. Þegar við félagarnir fóru í Artic Team Challange keppnina á Angmassaliq eyju á Grænlandi þá var gerð krafa fyrirfram um ákveðinn búnað. Í tvígang var tékkað á því að hver og einn væri með þann búnað sem við áttum að hafa tiltækan. Ef við hefðum reynt að fúska hefði okkur verið vísað úr keppninni. Það er eðlilegt að það séu ekki björgunarsveitir á okkar vísu á Grænlandi. Landið er svo gríðarlega stórt og fólkið er svo fátt. Því verður hver að bera ábyrgð á sjálfum sér þar í landi.
Maður veltir fyrir sér hvort eitthvað hafi verið tékkað á búnaði þjóðverjans sem þurfti að bjarga ofan af Eyjafjallajökli áður en hann og félagar hans héldu á Vatnajökul eins og þeir sögðust ætlaað gera. Eða var ekkert gert í þeim efnum? Hvernig er eftirlit með leiðöngrum sem ætla sér að ganga yfir hálendið um miðjan vetur? Hvaða kröfur eru gerðar til slíkra hópa? Hver hefur slíkt eftirlit á sinni könnu ef það er til staðar? Hvernig er eftirlit með þeim sem skipuleggja ferðir inn á hálendið og upp á jökla um hávetur? Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra? Mér finnst að löggæslan og björgunarsveitir ættu að sammælast um að gera það sem hægt er til að draga úr útköllum. Þau kosta gríðarlega fjármuni og á stundum verða ósérhlífnir björgunarsveitarmenn að leggja sig í lífshættu við björgunarstörf. Mér finnst það alltof billegt að segja að starf björgunarsveita sé alltaf og eilíflega í boði hússins, sama hvað á gengur og sama hverskonar hugsunarleysi eða vanþekking sé á ferðinni hjá þeim sem þarf að bjarga.

Ég var úti í búð í vikunni. Þar heyrði ég viðtal við einn af helstu talsmönnum þess að beita fyrningaraðferðinni svokölluðu við innköllun á kvóta í sjávarútvegi svo hægt væri að leiga hann út til annarra. Kerfinu sem átti að taka við af hinu "illræmda" kvótakerfi var lýst sem svo að þá þyrftu þeir sem sæktu sjóinn ekki að kaupa sér aðgang að veiðiheimildum. Þess í stað myndu þeir geta leigt hann. Til viðmiðunar var síðan sagt að þetta væri alveg eins og að leigja sér íbúð í stað þess að kaupa hana. Só far só gúúd. Það sem gleymdist að segja var að þær íbúðir sem átti að leigja út hefðu verið teknar eignarnámi af þeim sem voru búnir að byggja þær eða kaupa og bjuggu í þeim. Þeim yrði hent á dyr og að öllum líkindum með skuldirnar með sér. Það bættust nefnilega engar nýjar íbúðir við á markaðinn. Að endingu var klykkt út með því að fullyrt var að í hinu nýja kerfi myndu allir fá að sækja sjóinn sem hefðu til þess vilja og getu en hefðu ekki haft tækifæri til þess fram til þessa.