laugardagur, mars 24, 2012

Nina Hagen & Nana Mouskouri - Lili Marlene

Kristjana Skúladóttir syngur lög stríðsáranna

Nú á að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin atriði úr tillögum hins sérkennilega skipaða stjórnlagaráðs. Þegar spurningar þær sem á að greiða atkvæði um voru kynntar þá fannst manni að þar færi amen eftir efninu miðað við það hvrnig þessi prósess hefur allur verið. Ég ætla ekki að rekja það frekar. Áhugasamir þekkja það. Ég hélt að allir vissu að við þjóðaratkvæðagreiðslu verður að ganga út frá tveimur principum. Í fyrsta lagi er ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tilefnið sé brýnt. Það má segja að ný stjórnarskrá sé brýnt tilefni. Í öðru lagi verða þær spurningar sem lagðar eru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrar og hnitmiðaðar svo svörin gefi afdráttarlausa niðurstöðu. Þetta hélt ég að allir vissu. Alla vega finnst mér að alþingismenn eigi að hafa þetta á hreinu. Mér finnst að mikið vanti á að svo sé um þær hugmyndir að spurningums em kynntar hafa verið og á að samþykkja með hraði á næstu dögum frá alþingi. Skoðum það aðeins nánar. Hér kemur yfirlit um spurningarnar.

1. Viltu að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Hér er í fyrsta lagi lagt til að maður taki afstöðu til heildartillögunanr áður en hún er endanlega frágengin. Það sér náttúrulega hver maður að það gengur ekki. Það er ekki hægt að leggja ófrágenginn texta fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eins og að skrifa undir óútfylltan víxil. Síðan geta verið atriði sem maður er smammála og önnur sem maður er ósammála. Niðurstaðan segir því ekkert um afstöðu fólks. Menn geta tekið afstöðu á móti tillögunum út frá fjölmörgum ástæðum. Hver á að greina þær forsendur ef niðurstaðan verður nei. Það er ekki hægt.

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá. Viltu að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði:

1. Náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

Nú vandast málið. Um hvaða náttúruauðlindir er verið að tala. Grasið á jörðinni, vatnið í ám og vötnum, vindinn, námur, sjávarföll, fiskinn í sjó, vötnum og ám, fuglana í loftinu, dýr merkurinnar. Svar óskast. Svo kemur hin spuringin, Hvað þýðir að náttúruaðlind sé í þjóðareign? Er það þjóðnýting náttúruaðlinda? Er verið að innleiða sovéskan, kúbanskan eða ródesískan kommúnisma undir rós?Hér er spurningin alveg úti á túni og ekkert vit í henni. Gjörsamlega ótæk í þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. Ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

Hvað þýðir þetta? Hvað eru ákvæðin um þjóðkirkjuna mörg í stjórnarskrárdrögunum? Geta menn ekki verið sammála sumum og ósáttir við önnur? Þýðir já að ekki bmeigi breyta neinu frá því sem nú er. Hvað þýðir nei? Hvað er lesið út úr slíku svari?

3. Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Í meira mæli!! Hvað þýðir það? Segir þetta eitthvað til um hverskonar persónukjör á að innleiða. Þó verður að segja að þessi spurning meikar hvað mestan sens. Af hverju er ekki hægt að spyrja: Viltu taka upp persónukjör til Alþingis?

4. Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Af hverju er ekki spurt hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi? Er verið að lauma inn ákvæði þess efnis undir rós?

5. Ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera? 10%, 15% eða 20%.

Hvað ef mjög lítill eða enginn munur verður á milli valkostanna þriggja? Hvað gera bændur þá?

Mér finnst þetta ekki gæfulega af stað farið í þessum efnum. Undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu verður að vanda svo hún verði ekki ein vitleysa. Þá er ver af stað farið en heima setið.

sunnudagur, mars 18, 2012

Chuck Berry Memphis Tennessee

Rúnar, Megas og Gylfi í Salnum

Ég fékk eina athugasemd frá Grími vegna síðasta pistils og ætla að koma aðeins inn hann hér frekar en að setja svarið í athugasemd. Ég ætla ekki að segja að ég sé neinn allherjarprófet í þessum málum. Mér finnst hins vegar að umræðan sé sett upp í alltof einfaldri mynd og einkennist af frösum og slagorðum. Skiptigengið er eitt af því sem ekkert hefur verið fjallað um það ég hef séð. Að mínu mati er það grundvallaratriði um stöðu samfélagsins í nýju myntumhverfi (ef af verður) hvert skiptigengið verður. Þá verður að líta á heildina en ekki að vitaskuld eru laun einstaklingsins ekki statisk (föst). Þau geta hækkað hjá einhverjum og einhverjum en allur fjöldinn mun taka laun eftir því sem samið er um í almennum kjarasamningum. Þá skiptir grundvallarmáli hvert skiptigengið er á krónu á móti öðrum gjaldmiðli. Það skiptir okkur miklu máli hvort skiptigengið væri t.d. 126 krónur á móti USD eða 100 krónur á móti hverjum USD (ef dollarinn væri tekinn upp sem ný mynt). Ef skiptigengið væri 126 kr/USD þá fengi venjulegur launamaður færri dollara í veskið þegar hann fær útborgað og hefur þannig minni peninga milli handanna þegar hann fer út og verslar heldur en ef skiptigengið væri 100 kr. Ef skiptigengið væri of hátt (segjum 60 kr/USD) þá væri skekkjan á hinn kantinn því það þýddi að fyrirtækin sem selja vörur úr landi fengju of lítið fyrir sinn snúð. Það myndi þýða það að tekjur þeirra væru það lágar að þau yrðu að leita allra leiða til að hagræða og draga úr mannahaldi. Þessi staða myndi síðan endurspeglast í kjarasamningum. Ég ætla ekki að segja hvert hið gullna jafnvægi er en aðalmálið er að mínu mati er að það vantar alla umræðu um þessi mál.
Ég sótti ágæta ráðstefnu um gjaldmiðlamálin sem Framsóknarflokkurinn hélt fyrir skömmu. Þar voru fluttir ágætir fyrirlestrar þar sem þessi mál voru reifuð frá ýmsum hliðum. Ekkert var að vísu minnst á skiptigengið. Þar kom meðal annars fram að upptaka nýs gjaldmiðils mun kalla á og knýja fram gjörbreytt vinnubrögð í stjórnun ríkisfjármála. Ef lausatök verða á opinberum fjármálum og eytt verður um efni fram þá verður ekki hægt að leiðrétta kúrsinn með gengisfellingu. Lausatök í efnahagsmálm munu leiða af sér skuldasöfnun ríksins. Ef ekkert verður að gert mun það enda í Grikklandsstöðunni sem er ekkert annað en þjóðargjaldþrot. Þeirri stöðu fylgir gríðarlegur niðurskurður í opinberri þjónustu og starfsemi opinbera geirans. Það er bara nákvæmlega sama og myndi henda mitt heimilishald ef ég væri búinn að skuldsetja mig um efni fram. Það er hægt að styrkja krónuna með styrkri efnahagsstefnu með nákvæmlega sömu vinnubrögðum og þarf að taka upp með nýjum gjaldmiðli. Þá yrði hins vegar haldið þeim möguleika að halada þeim öryggisventli sem krónan er. Ég veit t.d. að Finnar öfunda Svía af því að hafa eigin gjaldmiðil sem þeir hafa notað til að bæta stöðu útflutningsatvinnugreinanna sem leiðir m.a. af sér minna atvinnuleysi. Eitt af því sem haldið var fram á fundinum sem framsóknarmenns stóðu fyrir var að misskipting í samfélaginu myndi aukast með upptöku erlends gjaldmiðils. Þetta er flötur sem þarf að ræða. Staða hverra mun styrkjast og hverjir verða undir? Því var einnig haldið fram að hærra atvinnuleysisstig en við höfum verið vön muni festa rætur. Sú skoðun kemur mér ekki á óvart.
Umræðan um að við ættum að taka upp kanadadollar var svona eins og þessi umræða hefur verið hérlendis. Það slær einhver einhverju fram í fullyrðingastíl. Fullyrðingin verður miðpunktur umræðunnar en fæstir vita neitt um málið. Það ég best veit eru helstu stoðir kanadísks efnahagslífs olíuvinnsla, námugröftur, skógarhögg og hefðbundinn landbúnaður (kornrækt). Þetta eru ekki beint þeir þættir sem standa undir okkar efnahagslífi. Segjum svo að olíuverð hækki. Það styrkir efnahagslíf Kanada og kanadadollar styrkist. Íslenski skipaflotinn kaupir mikið af olíu. Þegar olíuverð hækkar versnar afkomu útgerðarinnar. Á sama tíma hefur gengi gjaldmiðilsins styrkst og útgerðin fær þannig minni fjármuni fyrir framleiðslu sína við útflutninginn. Þannig mun sú þróun sem bætir hag Kanada manna (olíuverðshækkun) hafa neikvæð áhrif á tvöfaldan hátt afkomu sjávarútvegsins sem er okkar undirstöðuatvinnuvegur. Þetta er smá dæmi um að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og af er látið. Að mínu mati er evran eini gjaldmiðillinn sem kæmi til greina ef við myndum skipta um gjaldmiðil en hvort það er skynsamlegt er allt önnur saga.

föstudagur, mars 09, 2012

Ríó Tríó í sjónvarpssal 1968 eða fyrr.

Kvöld á Rauðasandi



Staða krónunnar hefur verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og misserum. Margir hafa verið tilkallaðir um að tala hana niður á alla mögulega vegu. Þar eru fáir undanskyldir af þeim sem mesta ábyrgð bera í samfélaginu. Það er dálítið sérstakt að margir alþingismenn og ráðherrar skuli sammælast um að gera eins lítið úr gjaldmiðli þjóðarinnar eins og mögulegt er. Er von að aðrir hafi trú á krónunni ef ýmsir framámenn þjóðarinnar tala hana niður hvar sem þeir geta. Krónunni er kennt um flest sem hefur misfarist í fjármálaunhverfi þjóðarinnar. Vaxtastig, verðbólga og gjaldeyrishöft, allt er henni að kenna. Mín skoðun er sú í þessu sambandi að árinn kenni illur ræðari. Staða krónunnar og þróun hennar ber merki þess hvernig á spilunum hefur verið haldið. Þegar eytt er um efni fram árum og áratugum saman þá veikist gjaldmiðillinn. Það getur ekkert annað skeð. Krónan er miklu frekar mælikvarði á efnahagstjórnina og aga í ríkisfjármálum á undanförnum áratugum frekar en orsakavaldur. Það er hins vegar ósköp þægilegt að gera hana að sökudólg. Gera sendiboða válegra tíðinda ábyrgan. Margir mikilsmetandi menn hafa sagt að það sé ekkert mál að taka upp annan gjaldmiðil. Það geti gerst á nokkrum vikum. Bandaríkjadollar er nefndur í því sambandi. Aðrir tala um evruna sem eina bjargráðið. Nú veit ég að því fylgir kostir og gallar að halda krónunni. Hún er einn minnsti gjaldmiðill heims. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Ef hér væri stöðugt jákvæður viðskiptajöfnuður og gjaldeyrisforðinn myndi styrkjast jafnt og þétt þá myndi krónan styrkjast. Það væri ekkert hókus pókus heldur vegna þess að umhverfið myndi hafa trú á stjórn efnahagsmála. Það er hins vegar hókus pókus þegar því er haldið fram að skipti á gjaldmiðli myndi leysa allan vanda. Það er hægt að fullyrða það með stórum stöfum að þá er fyrst hætta á ferðum ef skipt væri um gjaldmiðil og síðan haldið áfram eftir sömu navigation í stjórn efnahagsmála. Stjórnvöld væru ekki lengi að keyra landið í þrot með þeim vinnubrögðum. Það er því alveg á hreinu að upptaka nýs gjaldmiðils mun knýja fram allt önnur vinnubrög í stjórnun opinnberra fjármála. Sú krafa yrði ófrávíkjanleg að ríkissjóður yrði rekinn með afgangi. Sama myndi gilda um sveitarfélögin. Samskipti ríkis og sveitarfélaga myndu breytast í grundvallaratriðum. Sem dæmi má nefna að í Danmörku fá sveitarfélögin (A-hlutinn) ekki að taka lán. Ríkisstjórnin leggur ákveðna fjármuni í framkvæmdasjóð sveitarfélaganna og í hann geta sveitarfélögin sótt um ríkisframlög ef þau fyrirhuga að hefja stærri framkvæmdir. Þannig getur ríkið stjórnað framkvæmdamagni hjá sveitarfélögunum. Ef sveitarfélögin eru rekin með halla þá verða þau að jafna hallann út á næsta ári. Ríkið getur dregið úr framlögum til þeirra í þeim tilgangi að skikka þau til hlýðni. Einstök ráðuneyti fá ekki að leggja fram frumvörp eða reglugerðir sem hafa fjárhagslega íþyngjandi áhrif á rekstur sveitarfélaga nema að þau hafi fjármuni til að láta fylgja verkefninu. Annars verða þau að draga slíkar fyrirætlanir til baka. Ríki og sveitarfélög semja um millifærslur frá ríki til sveitarfélaga en ríkið mótar skattastefnuna og útgjaldastefnuna.
Stórri spurningu er ósvarað í þessu sambandi og á hana heyrist aldrei minnst. Á hvaða gengi á að skipta krónunni út? Ef það væri gert á núverandi gengi væri verið að læsa inni um aldur og eilífð þann kaupmátt sem Íslendingar hafa í útlandinu um þessar mundir. Þannig væri landið gert að láglaunasvæði innan þess efnahagssvæðis sem það myndi tengjast. Það er ekki að ástæðulausu að Danir, Svíar og Englendingar hafa haldið gjaldmiðli sínum innan ESB. það veitir þeim meira svigrúm til að stjórna sínum efnahagsmálum. Finnar hafa sagt mér að það kom aldrei tilgreina í aðildarferli þeirra að ESB að þeir myndu halda markinu. Nú sáröfunda þeir Svía yfir að hafa haldið krónunni. Svíar lækkuðu gengi krónunnar og gerðu þannig útflutningsvörur sínar samkeppnishæfari í krísunni. Það finna Finnar á eigin skinni. Set niður fleiri punkta um þetta mál á næstunni.

fimmtudagur, mars 01, 2012

Chuck Berry "Let It Rock" Wild Berry!!!!!!!

Rauðsensk kría




Ég hlusta stundum á beina útsendingu frá Alþingi. Það gerist nú fyrst og fremst þegar maður hefur grun um að eitthvað bitastætt sé til umræðu en stundum kíkir maður án sérstakrar ástæðu. Svo var í dag. Ég datt þá inn í umræðu um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar. Þessi umræða vakti forvitni mína. Það var vegna þess að sjávárútvegurinn er ennþá miklvægasta atvinnugrein þjóðarinnar, umræða um sjávarútvegsmál hefur stundum verið dálítið út og suður að mínu mati og í þriðja lagi vegna þess að ég var svo heppinn sl. vor að fá tækifæri til að taka þátt í sérfræðigavinnu um að leggja mat á frumvarp til breytinga á sjávarútvegskerfinu. Ég ætla ekki að fjölyrða um umræðuna á Alþingi. Hún var eins og svo oft áður, misdjúprist. Texti þingsályktunarinnar vakti hins vegar athygli mína.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er dálítið stórt mál. Að öllum jafnaði eru mál ekki lögð í almenna atkvæðagreiðslu, hvort sem um er að ræða í stærri eða minni hóp, nema valkostir séu skýrir svo niðurstaða atkvæðagreiðslunnar geti verið óyggjandi og annað hvort verið endanleg eða veitt skýra leiðbeiningu um í hvaða átt haldið skuli fyrir þá sem taka endanlega ákvörðun.

Ég get ómögulega séð að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki. Lagt er t.d. til að bornar séu upp grundvallarspurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni s.s. hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á að leggja fram slíka spurningu og biðja um já eða nei svar? Nýtt kerfi eða ekki nýtt kerfi. Ef svarið er já, hvað þá? Hvað segir niðurstaðan? Jú, það er óánægja með gamla kerfið en út frá hvaða forsendum? Það hlýtur að vera grundvöllur þess að vita í hvaða átt skal halda með að þróa nýtt kerfi.ef svarið er nei, á þá ekki að breyta neinu um aldur og æfi? Spyr sá sem ekki veit.

Í öðru lagi á að bera upp grundvallarspurningu um hvort eigi að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign auðlindarinnar. Hvað þýðir það? Hvað þýðir að þjóðin eigi auðlindina? Þjóðin er ekki sama og ríkið. Þjóðin er virkilega ofnotaður frasi um þessar mundir. Meir að segja er hugtakið þjóðin fléttuð inn í umræðu um 30.000 undirskriftir sem bornar voru heim að bæ nokkrum hér í nágrenninu fyrir stuttu. Þar var minnst á þjóðarvilja enda þótt einungis rúmlega 10% kosningabærra einstaklinga hefðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.

Svo kemur þetta fína orðalag.... og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta: innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir að innkalla aflaheimildir? Jú það þýðir að taka aflaheimildir frá þeim fyrirtækjum sem nú stunda sjóinn og úthluta þeim að meira eða minna leiti til annarra. Það hlýtur að kalla á bætur til þeirra fyrirtækja sem hafa keypt heimildirnar og missa starfsgrundvöll sinn. Verður þessa látið getið í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu hvað „já“ niðurstaðan gæti kostað ríkið og þar með þjóðina? Verður þess látið getið í atkvæðagreiðslunni hvernig staðið verður að endurúthlutuninni? Ríkir almenn sátt um þá aðferðafræði? Eru ekki margir möguleikar þar á ferðinni?
Svo er ákvæðið að endurúthluta aflaheimildum gegn gjaldi til þjóðarinnar. Er hér verið að tala um skattlagningu í ríkissjóð eða er verið að tala um að hver íbúi landsins fái senda ávísun? Hvernig á að vera hægt að fjalla um slík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það má minna í þessu sambandi að meirihluti þjóðarinnar býr á suðvesturhorninu. Hann yrði vafalaust ánægður með að fá meiri peninga í ríkissjóð til að auka og bæta þjónustuna við þennan landshluta. Ætli íbúar annarra landshluta yrðu jafnánægðir með þá þróun mála.

Alþingismenn eru kosnir á þing til að setja löggjöf og skipa öðrum þeim málaum sem því tengist. Þeir þurfa oft að taka ákvarðanir sem eru misvinsælar. Á seinni árum hefur vægi skoðanakannana farið vaxandi í almennri umræðu. Stjórnmálamenn nota niðurstöður þeirra gjarna og taka afstöðu út frá því hvað „þjóðin vill“ í hinum og þessum málum. Nú sýnist mér að það eigi að fara að nota þjóðaratkvæðagreiðslur í álíka tilgangi. Slíkar aatkvæðagreiðslur hafa einungis eitthvert gildi ef spurningarnar sem svara skal séu mjög afdráttarlausar og skýrarr. Ég fæ ómögulega séð að það eigi við í þessu tilefni.