mánudagur, febrúar 28, 2005

Fór ekkert út í kvöld, maður leyfir sér einstaka sinnum að vera hálf latur. Kvefið er samt sem áður allt á undanhaldi. Reyndi einnig að hjálpa til við heimalærdóminn og fleira. Febrúar er búinn að vera fínn, kláraði vel yfir 300 km í mánuðinum með meðalvegalengd í viku um 80 km. Það er miklu meira en ég hef nokkurntíma hlaupið í febrúar og fer heldur fram úr því plani sem sett var um áramótin. Held að ég hafi einnig sett febrúarmet í fyrra þegar ég fór um 200 km í mánuðinum. Þetta hefur ekki verið minn mánuður til þessa. Vissulega hjálpar það til að geta farið inn þegar veður eru leiðinleg. Nú eru 40% æfingatímans búin en 60% eftir og er það erfiðari hlutinn. Hvað álag varðar er örugglega nær 80% eftir. Ég er búinn að hlaupa um 600 km af þeim ca 2000 sem ég þarf að fara fyrir maílok. Allt árið í fyrra hljóp ég 2800 km. Reyndar var ég ansi latur síðustu fjóra mánuði ársins.

Ég sé að á þeim mánuði sem ég hef verið að leika mér við að skrifa inn á þessa spjallsíðu hafa komið um 1500 heimsóknir. Það er gaman að vita af því að einhverjir hafa áhuga á því sem maður er að brasa. Það heldur manni við efnið og eykur agann.

Í næsta mánuði bíða tvö maraþon sem er góð tilhugsun. Nú þarf maður að fara að lengja. Ég sé á veðurspánni að það á að viðra þokkalega fyrir afmælishlaupið á laugardaginn, alla vega á að vera þokkalega hlýtt en vitanlega getur rignt.

Las áhugaverða frásögn í Vísbendingu. Hún heitir Brotnir gluggar og fjallar um á hvern hátt tókst að gjörbreyta New York og gera glæpatíðni í henni eina þá allægstu sem finnst í stórborg af hennar stærð, en hún var heldur slæm þar áður. Unnið var út frá þeirri hugmyndafræði að ef þú sérð brotinn glugga í húsi sem ekki er gert við, þá berð þú minni virðingu en ella fyrir húsinu. Smám saman brotna fleiri gluggar og innan skamms er húsið alónýtt. Þetta hefur áhrif á næstu hús og svo frv. Borgarstjórnin hófst handa með að berjast gegn veggjakroti í neðanjarðarlestunum og á vögnunum. Stöðugt var málað yfir krotið þar sem það birtist. Það tók 6 ár að ná undirtökunum í þeirri baráttu. Síðan var hafist handa við að uppræta ýmsa aðra ósiði svo sem að míga á almannafæri, heimta greiðslu fyrir að þvo bílglugga á gatnamótum og fleira sem þótti draga úr þeirri borgarmynd sem menn vildu sjá. Þetta vannst þannig stig af stigi og í dag er ástandið gjörbreytt. Örugglega er erfitt að segja að það sé ein absolut lausn en það að gefast aldrei upp og einbeita sér að fáum einföldum hlutum skiptir örugglega gríðarlegu máli í þessu sambandi.

Heyrði í fréttum að Ingibjörg Sólrún kæmist á þing í haust. Hún virtist ansi glöð í sjónvarpinu enda ekki að furða þar sem nú fær hún embætti sem hana hefur langað ákaft í. Líklegt er að heilsufar annarra þingmanna í flokknum fari batnandi úr þessu.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Fór af stað kl. 6.30 í morgun sunnudag. Til að ná tveimur markmiðum, að skila hlaupaplani helgarinnar og vera mættur niður á flokksþing kl. 10.00 var ekkert annað í stöðunni en að taka daginn snemma. Fór hefðbundinn rúnt niður í Laugardalslaug og síðan sem leið liggur út Sæbraut og vestur á gamlárshlaupssnúning. Síðan austur sem leið liggur hefðbundnar slóðir í góðu veðri. Fór rólega og var kominn heim kl. tæplega 9.00 eftir 23 km.

Var kominn niður á Hotel Nordica kl. 10.00 eins og ætlað var. Titringur var í loftinu gagnvart tillögunni sem ég lagði fram á föstudaginn sem fól einungis í sér saklausa heimild í lög flokksins um að hægt væri að sameina félögin í Reykjavík í eitt kjördæmasamband ef mönnum sýnist svo. Þessi umræða gerði það að verkum að sumir fengu innantökur stórar og gengu um með gríðarlegum uppsölum. Yfirlýsingar flugu um að lítil klíka í Reykjavíkurkjördæmi suður ætlaði sér að fremja valdarán í Reykjavík og fleira í þeim dúr. Ég er þá líklega í hlutverki forsprakka valdaræningjanna. Ágreiningurinn barst til hæstu hæða og var leitað leiða til að stroka málið út með einhversskonar málamiðlunum en svo margir vildu fá niðurstöðu í umræðuna að því var hafnað að svæfa málið. Því var málið lagt fyrir laganefnd og tekið þaðan út eftir harðar umræður með 44 meðatkvæðum gegn 29 mótatkvæðum. Ég lýsti því yfir í nefndinni að ef tillaga mín yrði undir þá myndi ég ekki hreyfa málinu í sal. Ekki voru allir sammála þeirri aðferðafræði því ágreiningurinn var tekinn upp af fullri hörku niðri á flokksþinginu af þeim sem undir urðu í laganefndinni. Leit um tíma út fyrir að öll endurskoðun laga flokksins færi í uppnám af þessum sökum. Að endingu var tekin sú umdeilanlega ákvörðun um að tillaga mín og fleiri var tekin út fyrir sviga og borin sérstaklega undir atkvæði þegar búið var að afgreiða aðrar lagabreytingartillögur. Þar sem lagabreytingar verður að samþykkja með 2/3 hluta atkvæða var niðurstaðan alls óviss. Atkvæði féllu hins vegar þannig að 88 voru sammála því að taka heimildarákvæðið inn í flokkslög en 43 voru á móti. Munaði sem sagt tveimur atkvæðum. Allmargir voru frammi að horfa á leik Liverpool og Chelsea og upphófst þegar mikil sálgreining á því hvernig þessir áhugamenn um fótbolta myndu hafa greitt atkvæði. Mér fannst margt af því sem gerðist í kringum þetta vera afskaplega fyndið en jafnframt grátbroslegt. Það gaf manni hins vegar dálitla innsýn í lendur sem maður hafði ekki yfirsýn yfir áður.

Víkingur vann góðan sigur á Þór í handboltanum. Þetta var nauðsynlegt ef liðið ætlaði að verða áfram í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina.
Fór að stað á laugardagsmorguninn tæplega 8.30 út Fossveginn til móts við Pétur og Halldór. Fór aðeins lengra en að göngubrúnni og hitti þá rétt fyrir kl. 9.00. Maður finnur mikinn mun á hvað er léttara og skemmtilegara að hlaupa þegar stígarnir eru þíðir og svell og snjór horfið. Við höfðum aðeins verið að velta fyrir okkur að fara utanvegahlaup með Fífunni frá Hafnarfjarðarlauginni. Þar sem þetta átti að vera stuttur dagur var því sleppt en annars hefði það passað fínt að taka það með. Haraldur Júlíusson kom léttstígur á móti okkur þegar við vorum að komast að göngubrúnni en hann hefur stundum (of sjaldan) komið með okkur í laugardagstúrinn í vetur. Við fórum sem leið lá yfir Kópavoginn og fyrir Arnarnesið og þaðan til baka. Þegar við skildum setti Pétur okkur Haraldi fyrir það verkefni að taka Kópavogaströppurnar tvisvar sem við gerðum með sóma. Þær eru fín æfing og verða æ auðveldari. Við Haraldur fórum síðan yfir í Fossvogsdalinn og inn í Elliðárdal þar sem við tókum aukaslaufu upp að stíflu til að ná amk 25 km. Síðan fór hver til sína heima.

Sat flokksþing Framsóknar eftir hádegi og fram eftir degi. Það er margt skemmtilegt sem kemur upp á svona þingum og sérstaklega ef einhverjir fá það á tilfinninguna að það eigi að rugga bátnum eitthvað. Man. Utd vann góðan sigur og er farið að naga í hálsmálið á Chelsea. Kannski Ferguson taki þetta á lokasprettinum?

Fór undir kvöldið með fjölskyldunni upp í Borgarfjörð þar sem fagnað var fimmtugsafmæli einnar frænkunnar. Það var góð samkoma.

laugardagur, febrúar 26, 2005

Föstudagurinn hófst með magadansi við setningu flokksþings framsóknarmanna. Sá að sumir klöppuðu ansi linlega á meðan aðrir voru hrifnir. Flutti tillögu til breytingar við lög flokksins um að heimild væri veitt til að hafa eitt kjördæmasamband í Reykjavík þannig að hægt sé að opna umræðu um hvort eigi að breyta þeim bastarði sem er hjá Framsóknarmönnum í borginni þar sem lög flokksins kveða á um að kjördæmasamband skuli starfa æí hverju kjördæmi en ekkert tillit tekið til þess að höfuðborgin Reykjavík er eitt áhrifa- og hagsmunasvæði. Gaman verður að sjá hvort varðhundarnir vakni ekki og grípi til varna.

Annars var þingið fínt og fjörugar umræður. Margir lýstu fordæmingu á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið innan flokksins að undanförnu þar sem félög hafa verið sjanghæjuð korteri fyrir aðalfund og fleira sem hægt væri að nefna. Ekki á ég von á að þessar ræður breyti neinu.

Braut meginreglu og fór út á föstudegi til að ná upp hluta af því því sem glataðist í kvefperíódunni. Fór 8 km í hverfinu fyrir kvöldmatinn. Fengum góða gesti í kvöldmat þar sem margt var spjallað og kvöðdið leið fljótt. Fyrir svefninn horfði ég á hluta af DVD diski sem ég fékk frá WS 100 sem heitir Running Madness. Viðtal var við þann sem fyrstur hljóp WS 100 leiðina, þegar hesturinn hans veiktist. Um miðja leið var hann orðinn svo þreyttur að þá snerist hugsunin einvörðungu um að færa hvorn fót fram fyrir hinn til skiptis. Hann komst að lokum alla leið á góðum tíma. Þetta staðfestir það sem ég hef heyrt haft eftir Grænlendingum. Þeir segja að þegar maður er orðinn svo þreyttur af að brjótast áfram í snjó og ófærð að maður hnígur niður og getur sig hvergi hreyft, þá sé maður búinn að fara ca helminginn af þeirri leið sem maður hefur orku til að fara.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Jæja loksins. Dró fram skóna og fór 8 km hringi í hverfinu í kvöld. Mér fannst ég vera ótrúlega léttur og frískur enda vel út hvíldur og veðrið eins og ég veit ekki hvað. Kvefið er að mestu leyti farið og ekkert að finna í lungunum. Það eru hins vegar aðrir farnir að veikjast á heimilinu þannig að þetta er allt eftir bókinni. Ég verð að reyna að vinna það upp á næstu dögum sem ég tapaði í gær og fyrradag þannig að heildarmagnið í febrúar verði eins og ætlað var. Ég finn að álag síðustu vikna er þegar farið að skila sér þegar maður fær smáhvíld umfram það sem venjulegt er.

Ég er svolítið hugsi yfir þeirri ályktun sem Félags grunnskólakennara sendi frá sér nýlega um að leggja skyldi af samræmd próf í grunnskólum. Ég sé ekki almennilega ljósið. Í stað samræmdra prófa á að meta stöðu nemenda samkvæmt stöðuprófum skólans. Mér finnast samræmdu prófin hafa marga kosti enda þótt þau sé ekki alfullkomin. Ég þekki nefnilega dæmi þess, bæði frá þeim tíma þegar ég var sjálfur í unglingaskóla og eins eftir að krakkarnir mínir byrjuðu í skóla að heimatilbúin próf sögðu nákvæmlega ekki neitt um stöðu barnanna því prófin voru höfð svo létt til að foreldrarnir væru sáttir. Raunveruleikinn kom síðan í ljós annars vegar þegar krakkarnir komu í skóla þar sem gerðar voru meiri kröfur og hins vegar þegar samræmdu prófin voru lögð á. Þá hrundi spilaborgin. Mín skoðun er að það eigi ekki að umgangast grunnskólann sem slíkan eins og heilaga kú heldur eins og hverja aðra stofnun sem á að skila ákveðinni þjónustu af ákveðnum gæðum og þær eiga að skila ákveðnum árangri. Niðurstöðurnar verður aldrei hægt að meta svo óumdeilt sé en mitt mat er að samræmdu prófin séu töluvert skref í þá átt. Slíkar stofnanir verða að búa við það að það séu gerðar á þeim árangursmælingar og gæðamat af öðrum en starfsmönnum stofnunarinnar sjálfrar. Síðan er hinn handleggurinn. Það má ekki leggja samræmt mat á frammistöðu krakkanna því einhverjir fá hærri einkunnir og einhverjir aðrir fá lægri einkunnir. Þegar ég var í skóla þá varð þessi samanburður til að manni hljóp kapp í kinn og maður vildi verða í skárri hlutanum og lagði þá á sig meiri vinnu til að ná því markmiði. Nú hefur sænska stefnan náð yfirhöndinni þar sem ekkert má verða til þess að neinn skeri sig út úr meðalmennskunni. Einkunnir máttu ekki sjást þar því það er "så hemskt jobbigt för dom som får låga betyg och kan ha alvorliga effekter angående deras framtid". Ég held að ég þekki þetta. Mitt mat er að heilbrigð samkeppni sé öllum holl og krakkar eiga að fá að venjast því í eðlilegum skala. Hver væri tilgangurinn með því að æfa íþróttir ef aldrei væri keppt til sigurs? Það er aðalfjörið. Mín skoðun er að það sé rétt og skynsamlegt að hafa samræmd próf af einhverju tagi í grunnskólanum og það eigi að raða efri bekkjum grunnskóla í hægferð, miðferð og hraðferð.
Ekkert hlaupið í gærkvöldi heldur en nú fer þetta að koma. Það er ekki hægt að sitja af sér svona gott veður lengur. Sá á hlaupasíðunni að hópur vaskra manna ætlar í ævintýraferð til Grænlands í sumar þar sem keppt verður í 5 daga í hlaupum, klifri, fjallgöngu og ég veit ekki hverju. Þetta er glæsilegt og verður gaman að fylgjast með þeim félögum. Það er gaman að sjá hvað víða eru nýir angar að skjóta upp kollinum innan skokk- og hlaupageirans. Fjalla- og utanvegahlaupafélagið, þríþrautarfólk og félag 100 K hlaupara eru góð dæmi þar um. Mitt mat er að það félagslega starf sem sjálfboðaliðar inna af höndum hvort sem er að standa fyrir hlaupum, halda utan um félagsstarf eða halda úti heimasíðum sé sá jarðvegur sem er forsenda þess að uppskeran verði bæði fjölbreytt og mikil. Þótt mér hefði svo sem einhvern tíma tekist að skrönglast svo sem eitt maraþon þá hefði að líkindum aldrei orðið meira úr því ef ekki hefði verið til staðar hinn ágæti félagsskapur Félag maraþonhlaupara sem gefur óhörnuðum bæði styrk og stuðning til frekari átaka. Í þessum skokkgeira er að finna gerjun sem er afskaplega merkileg og hefur víða þróast á hinn ólíklegasta hátt. Maður þekkir marga einstaklinga sem hafa gjörbreytt um lífsstíl og öðlast nýtt líf eftir að hafa byrjað að tölta úti á gangstígum í góðum félagsskap og síðan eitt leitt af öðru. Ég held að það sé í sjálfu sér miklu meira afrek og meiri sigur fyrir fólk sem ekki hefur hreyft sig að marki stærstan hluta æfinnar að hlaupa 10 km í fyrsta sinn heldur en fyrir nokkuð vanan skokkara að hlaupa heilt maraþon í fyrsta sinn. Í þessu sambandi er rétt að minnast á það að ég sótti í fyrra um inngöngu fyrir UMFR36 í UMFÍ og ÍBR sem hlaupafélag sem hefur innan sinnan vébanda mjög öfluga langhlaupara. Þess var ítarlega gætt að öll formlegheit varðandi lög félagsins væru á hreinu. Viðbrögðin voru mjög fyndin. Svörin voru nokkuð samhljóða í hártogunar- og útúrsnúningastíl og þrautalending ÍBR var að segja að nafn félagsins samræmdist ekki reglum þess varðandi nafngiftir aðildarfélaga. Þrátt fyrir beiðni þar að lútandi hefur mér ekki tekist að fá téðar reglur um nafngiftir aðildarfélaga sendar. Mér finnst þetta dálítið bera keim af því að ef íþróttafólk þarfnast ekki fjárfestinga upp á mörg hundruð milljónir til að geta stundað íþrótt sína, þá séu þeir ekki svo ýkja merkilegir. Eða hvað á maður að halda?

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Æfing féll niður í gærkvöldi, því miður. Það má segja að það sé nú aldeilis veðrið til þess núna eins og strákurinn sagði þegar hann var að reyna að fá stelpu með sér út í kjarr að afloknu balli í Borgarfjarðardölum hér áður fyrr á árunum. Synd að geta ekki nýtt sér svona gott veður til að hreyfa sig úti en það kemur. Kvefið er heldur á undanhaldi en samt pirrar það. Samt gott að fá það núna því þá eru minni líkur á að það komi aftur í bráðina þegar álagið fer vaxandi. Fór í gærkvöldi í afmæliskaffi til mömmu en hún varð 81 árs í gær. Hún er afar hress og vel á sig komin enda segja ættingjarnir að hún hafi yngst með hverju árinu sem liðið hefur síðan þau hættu búskap fyrir vestan fyrir tæpum 10 árum síðan. Sem betur fer er æ fleira fólk farið að átta sig að það er fleira til í lífinu þegar það fer að eldast en einungis endalaust puðið.

Ég hef talið mér trú um að ég sé jafnréttissinnaður hvað snertir stöðu kynjanna. Það eru ekki allir sammála mér í þeim efnum. Ég er aftur á móti forréttindum, hvort sem það á við konur eða karla. Horfði í gærkvöldi með öðru auganu á viðtal í sjónvarpinu við einhverja konu sem titlar sig fjöllistarkonu. Tvennt vakti sérstaka athygli mína. Í fyrsta lagi mátti segja að þessi kona væri allt að því ótalandi. Hún sagði orðin "þú veist" örugglega 100 sinnum í þessu stutta viðtali. Í sumum setningunum sagði hún þessi orð milli 5 og 10 sinnum. Það hlýtur að vera afar erfitt að tala við manneskju sem getur ekki komið því út úr sér sem hún vill segja og segir því í sífellu "þú veist" eins og viðmælandinn sé hugsanalesari. En þetta var ekki meginmálið. Þessi kona er örugglega haldin sýniþörf (exhibisionisma). Sýniþörf felst í því að viðkomandi einstaklingar fletta sig klæðum á almannafæri. Konan hafði til dæmis striplast í strætó, í sjoppu, farið út að hjóla allsber, verið ber í partíi o.s.frv. Til að fullkomna sýniþörfina hafði einhver elt hana með myndavél og nú voru herlegheitin komin upp á vegg og þetta var orðin listasýning. Listakonan var meðal annars kölluð í viðtöl "þú veist" í sjónvarp og blöð. Þetta er svo sem allt í lagi og truflar mig ekki afskaplega, nema að einu leyti. Þegar kallar taka upp á því að fletta sig klæðum á almannafæri eru þeir yfirleitt kallaðir hinum verstu nöfnum svo sem flassarar og dónar, löggan kemur og tekur þá ef í þá næst og þeim er síðan stungið í steininn til að vernda samfélagið frá ósköpunum. Þegar konur gera þetta sama eru þær kallaðar listakonur, þær eru hengdar upp á vegg og er hampað í fjölmiðlum. Þetta kalla ég ekki jafnrétti, þú veist.

Rakst á frétt í danska Extrablaðinu um Sex skandal á Ítalíu. Þar í landi eru svona listamenn ekki teknir í viðtöl í sjónvarpinu heldur niður á lögreglustöð (þú veist).

Sex-skandale i Milan
FODBOLD: 44-årig mand fra AC Milans stab anholdt for at blotte sig for kvindelig ansat på hotel i England tirsdag aften
Piet Baunø - 13:43 - 23. feb. 2005 Senest opdateret - 14:04 - 23. feb. 2005
Et medlem af AC Milans stab blev onsdag anholdt for at blotte sig for en kvindelig ansat på et hotel, 24 timer før AC Milan og Jon Dahl Tomasson møder Manchester United på Old Trafford i en af onsdagens ottendedelsfinaler i Champions League.Greater Manchester Police oplyser, at en 44-årig mand fra Milans stab blev anholdt efter at have vist sin penis til en kvindelig ansat på den italienske klubs hotel i byen Salford, i det nordlige England.Forteelsen fandt sted klokken 22.50 tirsdag aften på Lowry Hotel, og den unanvgivne mand blev anholdt onsdag morgen og er nu i politiforhør om hændelsen.Nyhedsbureauet AP skriver at den anholdte blotter ikke er et højt profileret medlem af Milan-staben, og at manden primært har sin gang i omklædningsrummet.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Nú var ekkert hlaupið í dag enda hvíldardagur. Kvefið er vonandi á undanhaldi en miðar ekki nógu hratt, Það er mjög gott að hafa hvíldardaga eftir ákveðnu kerfi, maður hefur þá eitthvað til að miða sig við og mætir úthvíldur til leiks að þeim loknum. Sá á hlaupavefnum að fjalla- og utanvegafélagið ætlar að leggja í utanvegahlaup frá Hafnarfirði á laugardaginn. Það gæti verið gaman að slást í hópinn. Það verður reyndar róleg helgi hjá okkur samkvæmt planinu því síðan taka við tvö maraþon í mars. Nauðsynlegt er að hylla formanninn á afmælisdegi og síðan bíður hið fornfræga marsmaraþon. Utanvegahlaup eru víða mikið stunduð erlendis. Breska konan sem sigraði Laugaveginn í sumar er leið sagði mér að þar í landi væri félag utanvegahlaupara fjölmennur félagsskapur. Hún frétti af Laugaveginum á vorfundi þess. Ég held að það væri ómaksins vert ef einhver (kannski ætti maður að gera það sjálfur) kæmi upp góðum vef með myndum frá Laugaveginum, Hornstrandahlaupinu, Jökulsárhlaupinu og Barðsnesshlaupinu. Þetta er nú ekki dónaleg blanda.

Ég finn að ég er aðeins farinn að léttast en það gengur hægar en ég vildi. Á sunnudaginn fór ég í fyrsta sinn undir 85 kg um fleiri mánaða skeið þegar ég kom heim að hlaupi dagsins afloknu. Ég þarf að ná af mér ca 5 kílóum til viðbótar fyrir vorið. Maður myndi finna fyrir því ef hengd væru á mann svona 10 smjörstykki rétt fyrir ræsingu. Þetta er vafalaust agaleysi í mataræðinu sem gerir það að verkum að þau fara hægar en skyldi.

Hæðarlínur frá Bessastaðahlaupi 19. febr. Posted by Hello

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Fór niður í Laugardalslaug í morgun. Þaðan lá leiðin hefðbundinn hring vestur í bæ og beygjan tekin á gamlárshlaupsleiðinni. Guðmann tók lengri leið vestur fyrir Gróttu og náði okkur síðan aftur við Nauthól. Hann er svakalega harður og léttur á fæti. Hann reiknar með að toppa eftir um 5 vikur en hann stefnir á London maraþon. Alls urðu þetta um 23 km hjá mér eins og ætlað var. Ég held að kvefið sé heldur á undanhaldi. Það er hollt að svitna þegar maður er kvefaður ef maður gætir þess að láta ekki slá að sér. Mikill er munurinn að hlaupa á auðum stígum í hlýju og logni eins og var bæði í gær og dag í stað þess að hlaupa í frosti, ófærð og vindi. Síðasta vika var milli 80 og 90 km eins og planið hefur hljóðað upp á þannig að allt er eins og stefnt var að. Gleymdi einu í gær. Svanur Bragason, Del Passatore kappi frá því sl. vor, varð sextugur í gær. Það sýnir manni að það geta verið mörg og góð ár eftir ef skynsamlega er á málum haldið.

Var að horfa á fréttirnar á Stöð 2. Þar var sagt frá því að búið væri að setja á netið myndir úr eftirlitsmyndavél frá því að ísfirskur strákur var myrtur á viðurstyggilegan hátt í Hafnarstræti fyrir um þremur árum. Þetta er þvílíkur subbuskapur að það er með ólíkindum að þetta skuli eiga sér stað. Talið er víst að myndbandið komi annað hvort frá verjanda morðingjanna eða þeim sjálfum en líklegt er að þeir séu sloppnir út. Þeir voru dæmdir í 3ja og 6 ára fangelsi og miðað við dómapraxís hérlendis er líklegt að hið hið dulda dómskerfi þegar stytt dvölina í steininum um ca helming. Mig hefur lengi undrað þetta að dómstólar kveði upp ákveðna niðurstöðu í sakamálum en síðan sé til eitthvað apparat sem heitir náðunarnefnd sem taki aðrar ákvarðanir og stytti dóma og felli þannig niður refsingu glæpamanna. Þó eru undantekningar þar á því þeir sem settir eru inn fyrir fjárglæfri eiga enga möguleika á náðun. Þeir eru greinilega álitnir þjóðfélaginu hættulegri en morðingjar, ofbeldismenn og dópsalar.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Hitti Pétur og Halldór úti í Fossvogsbotni í morgun á venjulegum tíma. Ég hef tvo síðustu daga verið að berjast við hvort ég myndi kvefast eða ekki. Hafði á tilfinningunni í morgun að ég væri að tapa þeirri baráttu enda hálf slappur. Var búinn að undirbúa mig undir að láta félagsskap þeirra lönd og leið í dag og lulla eitthvað upp á eigin spýtur. Ég hresstist allur við þegar við hittumst og við lögðum af stað sem leið lá gegnum Kópavog og Garðabæ út á heimiliströppurnar á Bessastöðum. Það voru sléttir 15 km af minni stétt út á tröppur Ólafs. Síðan héldum við til baka í gegnum Garðabæinn og Smáralindina og yfir í Fossvog og fór svo hver til síns heima . Ég var orðinn hálf linur undir það síðasta en þetta var fínn túr í góðu veðri. Maður svitnaði svakalega og ég held að ég hafi drukkið um 2 lítra á leiðinni. Alls lagði ég 30 km undir sóla.

Ég minntist í fyrradag á kanadíska konu sem ætlaði að hlaupa 22 100 M haup á einu ári. Það er makalaust hvað hægt er að leggja á skrokkinn. Fyrir þremur árum las ég í dönsku blaði um dana sem ætlaði að hlaupa 100 maraþon á einu ári. Það fór alt vel af stað en svo hafði það komist inn í hausinn á mér að hann hefði fengið hjartaáfall og dáið í ágúst, eftir um 60 þon. Þetta var ég búinn að segja hlaupafélögum hér heima. Í fyrra þegar ég fór til Borgundarhólms þá tók ég strætó af Ráðhústorginu niður í Sydhavn þar sem ferjan leggst að. Í strætónum var einn annar farþegi, eldri maður, hvíthærður og skeggjaður. Hann sá að ég var hlaupalega búinn og við tókum tal saman. Ég sagðist vera að fara í 100 K hlaupið um helgina en hann sagðist ætla að taka þátt í 4 x 25 km boðhlaupinu . Hann spurði hvað ég hefði hlaupið mörg maraþon og ég svaraði því og var bara sæmilega ánægður með mín tæplega 20. Þegar ég spurði hann að hinu sama þá sagði hann 120. "Úps" sagði ég "Á hvað löngum tíma?" Það voru ekki mörg ár sagði hann, því hann hafði hlaupið 102 þon á einu ári fyrir tveimur árum. Þarna var kallinn sjálfur ljóslifandi kominn og alveg ódauður. Hann var undrandi en svolítið ánægður yfir þegar ég sagðist hafa frétt af þessu afreki hans alla leið upp til Íslands og þekkti þannig til hans. Ég sagði honum reyndar ekki frá því að fréttir af ótímabærru andláti hans hefðu borist yfir hafið. Afrek hans er nú reyndar markmið sem ég vildi ekki hvetja neinn til að leika eftir.

Dagurinn 19. febrúar er tvöfaldur hátíðisdagur. Á þessum degi fyrir 22 árum vaknaði ég upp morgun einn að Flogstavagen 41 í Uppsölum í Svíþjóð og uppgötvaði að reykingademóninn var horfinn. Ég hafði reykt af og til um tæplega 15 ára skeið, stundum meira og stundum minna og hætt stundum af og til. Alltaf byrjaði maður aftur og sífellt var erfiðara að hætta. Ég var farinn að sjá fram á það að um fimmtugt yrði ég gulleitur Camelmaður sem vildi gjarna hætta að reykja en gæti það ekki fyrir nokkurn mun. Ég þekkti þá nokkurn hóp slíkra manna sem flestir eru látnir í dag, það sem kallað er fyrir aldur fram. Svo var það morguninn 19. febrúar 1983 að ég vaknaði upp eftir kenderí kvöldið áður eins og þá var gjarna gert meðal námsmanna. Einhverra hluta þá langaði mig ekki vitund til að fá mér að reykja þarna um morguninn þrátt fyrir að hafa gert það svikalaust kvöldið áður eins og önnur kvöld og aðra daga á þesum tíma. Mig hefur aldrei langað til þess síðan. Ég tók einn smók af sígarettu nokkrum árum síðar í gleðskap í Kaupmannahöfn og ég man það vel enn í dag hvað mér þótti bragðið ógeðslegt. Svona var þetta.

Nákvæmlega tíu árum síðar, þann 19. febrúar 1993, kom önnur ástæða til að halda upp á 19. febrúar en þá fæddist María Rún sem fyllti 12 ár í dag. Hún hélt meðal annars upp á daginn með því að spila í úrslitakeppni 5 flokks í fótbolta með Víkingum í Víkinni. Þær enduðu í fimmta sæti og voru bara sáttar við daginn.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Jæja, það gerðist ekki mikið í dag, enda hvíldardagur, segi ykkur á morgun frá dananum sem hljóp 102 maraþon á einu ári.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Fór í stöðina í kvöld og tók prógrammið, hlaup og túr í gegnum tækin. Tálgaði smá tíma af hlaupatímanum. Þetta verður orðið betra eftir ca mánuð. Það er heldur leiðinlegra að hlaupa á bretti heldur en úti. Þar er alltaf eitthvað að gerast. Maður sér eithvað nýtt framundan, brekku, brekkubrún, brú, hús eða eitthvað. Á brettinu er ekkert að gerast. Maður verður helst að hafa útvarp og leiða hugann frá tölunum fyrir framan sig sem hreyfast ansi hægt. Þetta hefur þó einn góðan kost. Maður styrkir þolimæðina og agann. Það á að fara ákveðna vegalengd hverju sinni og hún verður farin hversu leiðinlegt sem það er. Líklega venst þetta þó með tímanum. Þetta þekkja þeir betur sem eru vanari að hlaupa á bretti heldur en ég. Fótaæfingarnar taka vel í og verður gaman að sjá þegar fer að vora hvort þær hafi gert gagn þegar út í alvöruna er komið.

Var á stjórnarfundi hjá Víking fyrir kvöldmat. Þar var farið yfir ýmislegt en ekkert stórmál á ferðinni, nema þá helst að ákveðið uppgjörsmál við borgina vegna fjárfestinga virðist vera að komast í höfn. Víkingar spila við Hauka á sunnudaginn og verða helst að vinna til að dragast ekki aftur úr. Nú er hver leikur mikilvægur.

Þarf að kaupa síma vegna vinnunnar. Skoðaði lista sem ég fann í Expressen hinu sænska um geislunarstig GSM síma. Vil frekar kaupa síma með lágri geislun til að steikja ekki á mér hausinn með símtölum frekar en nauðsynlegt er.

Horfði enn einu sinni á DVD diskinn. ÚFF, ég segi ekki annað. Þarna sá ég þó eitt sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Kanadísk kona lauk hlaupinu rétt undir 24 klst. Það var hennar níunda 100 M hlaup á sex mánuðum. Hún ætlar að hlaupa tuttugu og tvö 100 M hlaup á árinu. Hvað er maður að væla?

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Nautilus í kvöld, rúmlega klukkutímaprógram, hlaup og átök. Lækkaði mig um 4 mínútur á 8 km. Þarf að taka annað eins af til viðbótar til að geta vera sæmilega ánægður. Það ætti að vera komið eftir svona mánuð eða svo. Ég er viss um að þetta verður gott innlegg í uppbygginguna að taka þetta skipulega og kerfisbundið. Ég hef verið að fylgjast með skýrslum um snjóalög við Squaw Valley. Það leit ekki allt of vel út framan af vetri en þá stefndi í að það yrði met úrkoma. Nú hefur hægst á henni og nálgast lína vetrarins meðalúrkomu svæðisins. Það er gott því það er ekki góð tilhugsun að þurfa að ösla krama snjóskafla klukkutímum saman eins og getur komið fyrir í miklum úrkomuárum.

Ég hef talað dálítið um það að undanförnu sem ég hef verið að lesa og skoða varðandi hlaupið enda þótt það séu yfir fjórir mánuðir til stefnu þar til það brestur á. Ég hef þá trú að það sé mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því nógu snemma út í hvað maður er að fara. Í því sambandi var mjög gagnlegt að fá myndina frá hlaupinu. Það knýr mann áfram í erfiðum æfingum á undirbúningstímabilinu og þá verður ekki við það að sakast að maður hafi ekki gert eins og hægt var. Það væri verra ef slugsið tæki yfirhöndina og maður myndi ekki taka sig á fyrr en þegar tíminn væri floginn frá manni. Það er of seint í rassinn gripið þegar út í alvöruna er komið.

Nýr forstjóri var ráðinn fyrir Flugleiðir í dag. Hann er án efa ráðinn vegna þess að hann er velmenntaður og öflugur starfsmaður sem hefur sýnt það að eigendur fyrirtækisins geta treyst honum eins og sjálfum sér. Ég geri ráð fyrir því að nýráðinn forstjóri hafi verið besti valkosturinn af þeim sem stjórnendur fyrirtækisins höfðu í sigti og hafi þess vegna verið ráðinn sökum eigin verðleika. Hjá fyrirtækinu eru orðin kynslóðaskipti og verður spennandi að fylgjast með því hvaða áherslubreytingar í stjórnun fyrirtækisins leiða af sér í rekstri þess. Þetta kemur mér í hug vegna þess að ég sá í Mogganum í morgun mynd af sex einstaklingum (öllum hdl) sem glaðbeittir sögðust gefa kost á sér í stjórnir lífeyrissjóða og fyrirtækja "ef eftir væri leitað". Ég hef varla séð heimskulegri uppslátt. Af hverju í ósköpunum skyldi einhverjum sem á í fyrirtæki eða þarf að kjósa fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðs og les Moggann í dag detta í hug að taka upp símann og hringja í einhvern þessara einstaklinga ef hann þekkir ekkert til verðleika hans. Ég geri ekki ráð fyrir að nýráðinn forstjóri Flugleiða hafi verið ráðinn til starfans eftir tilviljanakenndu úrtaki úr símaskrá eða eftir blaðaauglýsingu.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Nautilus í fyrsta sinn af alvöru i kvöld. Fór fyrst 8 km á brettinu. Það er í fyrsta sinn sem ég hleyp af einhverju viti á hlaupabretti (ef þetta er alvöru). Tíminn var 41,20 sem héðan í frá verður notuð sem viðmiðun, neðar verður ekki komist. Ég hef mér til afsökunar að það tók smá tíma að hita sig upp og finna út hraða sem passaði. Að hlaupinu loknu fór ég hring í tækjunum í æfingar sem eru sérstaklega ætlaðar til að styrkja fætur og maga. Þetta tekur vel í og þurfti ég að fara niður og skipta um bol, því það mátti vinda þann sem ég var fyrst í. Ég hugsa að það sé ekki ýkja vinsælt ef svitapollarnir liggja eftir þar sem maður hefur verið. Ég held að það sé mjög gott að hlaupa inni í hlýju eins og er inni í svona stöðum. Maður er þá betur undir búinn að hlaupa í hita þegar út í alvöruna er komið.

Úff, nú er það byrjað. Eftir að hafa horft á DVD diskinn í gærkvöldi þá dreymdi mig náttúrulega hlaupið í nótt. Ég var kominn vel að stað og gekk bara vel. Þá rak einhver augun í að ég hafði gleymt að setja á mig númerið og þar með var ævintýrið búið. Það væri gaman ef einhver gæti ráðið þennan draum. Kannski rætist hann. Maður getur þá huggað sig við að það hafi verið ákveðið fyrir fram í stjörnunum.

Fór í dag í jarðarför Ólafs Stefánssonar ráðunauts. Hann var jarðsunginn frá Bessastaðakirkju. Ólafur var einn af þessum nestorum sem mörkuðu djúp spor í landbúnaðinum á þeim tímum þegar framfarir og uppbygging stóðu með sem mestum blóma á síðustu öld. Þessum frumherjum fer nú fækkandi einum af öðrum.

Talandi um landbúnað þá eiga sér stað innan borgarkerfisins í Reykjavík áhugaverð pólitísk átök. R listinn hefur bannað kjúklingaframleiðenda á Kjalarnesi að dreifa skít á frosna jörð en Sjálfstæðisflokkurinn vill leyfa dreifingu skítsins að vetrarlagi jafnt sem sumarlagi. Er í því sambandi vísað til frásagnar af bústörfum Njálssona í Njálu er þeir óku skarni á hóla. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessi átök þróast en sem landbúnaðarmaður verð ég að segja að R listann á stuðning minn í þessum átökum.

mánudagur, febrúar 14, 2005

A Race For The Soul

Hvíldardagur í dag. Setti inn hæðar- og lengdarmælingu af laugardagshlaupinu sem Halldór tók út af Garminum sínum. Textinn er að vísu óskýr en gefur aðeins hugmynd um hæðarlínur hlaupsins.

Sótti í morgun upp á tollstöð póstsins á Stórhöfða DVD disk sem ég pantaði á WS100 vefnum. Hann fjallar um hlaupið 2001 og heitir A Race For the Soul. Þetta eru tveir diskar, annar með rúmlega 50 mínútna mynd og hinn með ítarefni, lengri samtölum og frásögnum af hlaupinu. Manni líður ekkert alltof vel að horfa á myndina en að sama skapi er það mjög gagnlegt. Maður fær þá smá tilfinningu fyrir því hvers er að vænta meðan á því stendur. Á þessari leið sem hlaupið liggur um var upphaflega haldið keppnishlaup á hestum. Síðan var það eitt sinn að hestur eins veiktist rétt fyrir ræsingu og knapinn gerði sér lítið fyrir og hljóp alla leiðina frekar en að missa af túrnum. Það kom mönnum á sporið með að hefja keppnishlaup á brautinni. Í fyrsta hlaupinu sem haldið var árið 1977 voru 14 þátttakendur. Í myndinni A Race For the Soul er sagt frá þreytu, hita, blöðrum á fótum, mörðum nöglum, átökum hlauparanna við sjálfan sig og brautina, sigrum og ósigrum. Brautin er víða grýtt og ekki óalgengt að hlauparar detti og meiði sig. Á drykkjarstöðinni Devils Thumb (sem ber nafn með rentu) er fólk farið að detta út sökum þreytu en þá eru 50 mílur eftir. Það reynist mörgum erfitt. Myndin sýnir manni vel að til að eiga möguleika á að takast á við þetta af einhverri alvöru þarf að kosta til blóði, svita og tárum. Þetta er enginn leikskóli heldur alvöru. Þeir sem eru á seinni skipunum þurfa að hlaupa um 20 mílur í niðamyrkri við vasaljós, oft á ósléttum stígum og yfir ár að fara. Fyrsti hlauparinn kom í mark á 16.38.00. Einn sem komst í mark sagðist vera með þrjár neglur lausar í skónum og vafalaust ekki sá eini. Rætt er við og sagt frá konu sem er að fara í sitt níunda hlaup í þeim tilgangi að reyna að klára hlaupið. Hún hafði dottið út í öll hin átta skiptin, í eitt skiptið á mílu 98. Því miður komst hún ekki heldur í mark árið 2001. Hjónum er fylgt sem kynntust í brautinni nokkrum árum áður og fóru nú saman. Þau náðu marki á 29.58.30 eða einni og hálfri mínútu áður en hlaupinu var lokað. Síðan er sýnt frá konu sem er að berjast við að ná undir 30 klst en kom í mark 52 sekúndum yfir tilskyldan tíma. Live is a bitch.

Sá í helgarblaði DV yfirlit um þau hús á Laugaveginum sem fyrirhugað er að rífa. Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að byggja upp almennilegt og viðunandi verslunar- og borgarumhverfi úr aflóga bárujárnskumböldum, flestum ljótum, lélegum og leiðum. Megi þau fara sem flest.

Hæðarlínur og vegalengd í laugardagshlaupi þann 12. febrúar Posted by Hello

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Sunnudagshlaup

Fór af stað kl. rúmlega 9.30 í morgun niður í Laugardal. Frekar fáir voru mættir og vorum við fjögur sem lögðum af stað vestur Sæbrautina. Við fórum vestur á Seltjarnarnes og hittum Pétur og Halldór þar á léttu róli. Síðan töltum svo sem leið lá austur Ægissíðu, meðfram flugvellinum og inn Fossvog. Tvö kvöddu við Borgarspítalann en við Guðmann heldum áfram inn í Elliðaárdal. Guðmann tók svo extra hring upp að Árbæjarlauginni til að ná 30 km en ég lét mér nægja með þá 23 sem fyrirhugaðir voru.

Helgin hefur verið fín, átakatúr á laugardaginn og svo léttara á sunnudaginn, samtals um 55 km. Allt eftir planinu.

Heyrði í fréttunum í morgun að Valdís kvikmyndaklippari hefði fengið verðlaun á bresku kvikmyndahátíðnni. Það var fínt hjá henni en ég sný ekki til baka með það að mér finnst fáránlegt að ríkissjónvarpið sé að sýna beint frá svona hátíð fyrir það eitt að einhver íslendingur sé á meðal hinna tilnefndu. Niðurstaðan er síðan frétt en þetta er ekki sá viðburður að það þurfi að kosta til beina útsendingu. Skyldi hafa verið partí í starfsmannafélaginu niðri í sjónvarpi í gærkvöldi að horfa á fyrrverandi starfsfélaga innan um "fræga" fólkið? Þetta pirrar mig vegna þess að maður er þvingaður til að borga afnotagjöldin af ríkissjónvarpinu.

Sá í Fréttablaðinu í morgun að nokkuð stór hópur kvenna hefði ákveðið að gefa kost á sér í stjórnir fyrirtækja og lífeyrissjóða, "ef eftir væri leitað" eins og stóð í fréttinni. Ég er að hugsa um að gera það sama og gef því kost á mér í stjórnir bankanna þriggja, Landsvirkjunar og Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna "ef eftir verður leitað". Ég nenni hins vegar alls ekki að kynna mér rekstur þessara umræddu fyrirtækja, gagnrýna þá sem þar sitja fyrir eða sanna á annan hátt að ég sé hæfari til setu í stjórnum þeirra heldur en þeir sem þar sitja fyrir. Það hlýtur bara að vera tekið tillit til þess ef ég gef kost á mér til þessara starfa fyrst það á að vera nóg hjá öðrum. Kannski þarf ég að tala við einhverja fréttamenn til að verkja athygli á þessu kostaboði mínu? Spurning hvort þeir hafi áhuga á að tala við mig!!!

laugardagur, febrúar 12, 2005

Snjór, vindur og frost

Fór af stað tæplega 8.30 í morgun og hitti Pétur og Halldór úti í Fossvogsbotni um kl. 9.00. Pétur skipuleggur hvert hlaupið er hverju sinni. Hann tilkynnti að nú yrði erfiður dagur þar sem síðasti laugardagstúr hefði verið alltof léttur. Við tókum strikið þvert yfir í Kópavoginn og upp brekkuna að kirkjunni, þaðan yfir gegnum Smáralindina, gegnum göngin og upp brekkuna, þaðan til baka niður í Kópavoginn og upp brekkuna rétt fyrir innan tröppurnar fram hjá HK heimilinu. Þaðan lá leiðin niður í Fossvoginn og upp brekkuna að Réttarholtsskóla. Þar næst fórum við niður í Elliðaárdal og upp stokkinn að vegamótunum við mjólkurstöðina. Ég tók púlsinn upp brekkuna og hann var rétt rúmlega 135. Frá mjólkurstöðinni fórum við niður í Grafarvogsbotn og þaðan til vinstri upp brekkuna og áfram og áfram upp og upp. Ég hef ekki hugmynd um hvað hverfið hét sem við fórum í gegnum en þaðan tókum við aðra brekku upp að hitaveitutönkum (þeim syðri). Þar uppi var frost, hvasst og haglél. Við tankana gaf Pétur yfirlýsingu. Hans leiðsögn væri lokið og nú bjargaði sér hver til byggða sem best gæti. Þarna uppi eru sannarlega Highlands of Reykjavík. Það er allt annað veðurfar þarna uppi heldur en niðri við sjóinn. Hvílíkir Jökulheimar, ekki vildi ég búa þarna uppi. Við tókum sömu leið til baka niður í Grafarvoginn, niður Ártúnsbrekku og í Elliðaárdalinn. Við undirgöngin skildum við en þá höfðum við hlaupið um 29 km á rúmlega 3 klst. Pétur og Halldór héldu sem leið lá beint vestur í bæ en ég tók smá lykkju út í Fossvoginn til að fara vel yfir 30 km.

Þótt manni finnist veðrið stundum mega vera betra þá er allt afstætt. Ég sagði Pétri og Halldóri sögu af hjónum í Kanada sem höfðu hlaupið nokkur ultraþon og nú ætluðu þau að leggja í 100M. Þau fundu hlaup í Texas sem passaði þeim tímalega vel ýmissa hluta vegna. Helsti gallinn var þó að það var haldið í byrjun febrúar, 5 hringir voru hlaupnir og var hver þeirra 32 km. Þau urðu því að þjálfa sig upp í nóvember, desember og framan af janúar. Þá var oftast -20 - -30 stiga frost þar sem þau bjuggu. Þau gátu ekki hlaupið úti í meir en 2 klst í einu. Þá þurftu þau að fara inn, skipta um föt og hlýja sér og fara síðan út í kuldann aftur. Undirbúningurinn tókst engu að síður og þau mættu í hlaupið. Það hófst í fjögurra stiga frosti, hitinn fór yfir 20 gáður yfir há daginn og síðan datt hitinn niður í sjö stiga frost um nóttina þegar þau voru að klára síðasta hring. Keppendum var sérstaklega bent á að passa sig á krókódílunum og quiotunum. Einu sinni um nóttina heyrðu þau gusugang sem gat ekki hafa stafað frá öðru en krókódíl. Þau káruðu hlaupið á um 26 klst þannig að erfiðið um veturinn borgaði sig.

Las athyglisverða grein eftir Sigurð Guðjónsson lögfræðing í Mogganum sem fjallaði um fjarskiptafyrirtækin, Og Vodafon og Símann. Hann þekkir þetta umhverfi vel og því ætti að taka mark á orðum hans. Hann hefur þá skoðun að enda þótt fyrirtækin dásami samkeppnina í orði þá sé á borði samkomulag milli fyrirtækjanna um að skipa markaðnum á milli sín til að hámarka hagnað beggja aðila.

Ég er pirraður þegar ég er að skrifa þetta. Á laugardagskvöldi vill maður hafa sæmilega mynd í sjónvarpinu. Nú er hins vegar verið sýna frá einhverri BAFTA kvikmyndahátíð í Bretlandi vegna þess að einhver Valdís er tilnefnd þar til verðlauna fyrir klippingu á einhverri mynd sem maður hefur aldrei heyrt nefnda. Ætlast þeir í ríkissjónvarpinu virkilega til að maður sitji viðþolslaus af spenningi og aðdáun og glápi á einhverja verðlaunaafhendinu á laugardagskvöldi í þerri von um að maður sjái einhverjum íslendingi bregða fyrir í útlandinu innan um "fræga" fólkið? Hvílík útnesjamennska. Auðvitað nægir í besta falli að lesa um úrslitin í blöðunum daginn eftir ef menn hafa áhuga á þessu á annað borð.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Í dag var ekkert hlaupið eða yfir höfuð nokkuð annað gert í þá áttina. Jóhann Reynir hélt upp á 16 ára afmæli sitt í kvöld og bauð heim félögum sínum úr skólanum og úr Víking. Þetta eru afar fínir krakkar, duglegir í íþróttum og gengur ágætlega í skólanum. Ég hef verið að fylgjast með snjórapportinu á WS vefnum. Um tíma leit út fyrir að snjóalög yrðu með mesta móti en nú virðist hafa hægst á snjókomunni og hún nálgast að vera eins og í meðalári. Það skiptir miklu máli hve lengi þarf að ganga í snjó en það getur orðið býsna löng vegalengd ef snjóalög eru mikil. Það er bannað að vera með stafi í hlaupinu þannig að það er ekki hægt að létta sér puðið á þann hátt.

Fékk bækling Ferðafélagsins í kvöld. Það er ánægjulegt að sjá hve augu manna eru að opnast fyrir ferðamöguleikum á sunnanverðum Vestfjörðum. Látrabjargið hefur hingað til verið það sem helst hefur verið sótt af ferðamönnum en það er auðsætt að athygli ferðafélagsmanna hefur vaknað fyrir hinum fjölþættu möguleikum sem ssvæðið býður upp á.

Ég setti inn í myndaalbúmið nokkrar myndir úr gönguferð sem ég og nokkrir aðrir félagar fóru í sumar. Það eru 11 ár síðan við fórum fyrst á Hornstrandir og síðan hefur þetta verið eins tryggt og sólin kemur upp á morgnana að það er farin vikugönguferð á hverju sumri. Lengi framan af gistum við eingöngu í tjöldum en á seinni árum höfum við heldur hallað okkur að gistingu í skálum þegar því hefur verið við komið. Í sumar fórum við inn í Núpsstaðaskóg og gistum í þrjár nætur þar í tjöldum. Við gengum inn Núpsstaðaskóg og inn að Grænalóni, upp að Súlu og upp á Lómagnúp. Veðrið var eins og best var á kosið, hlýtt og bjart. Síðan keyrðum við austur á bóginn og gistum í tvær nætur á Flatey á Mýrum. Þaðan gengum við inn Heinabergsdal og inn að Vatnsdal en þar er sérkennilegt jökullón. Það hafði verið í bígerð að ganga upp að Humarklónni en hætt var við það. Hópurinn samanstendur svo sem ekki af neinum unglömbum, tengdapabbi og bróðir hans eru báðir komnir yfir sjötugt, einn er tæplega sjötugur og síðan eru nokkrir unglingar sín hvorumegin við fimmtugt. Við höfum farið margar skemmtilegar ferðir á liðnum árum og eigum vonandi slatta eftir.

Nú er langt hlaup á morgun, spáin er heldur góð sem betur fer.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

DNF; Aldrei!!

Hefðbundinn túr í kvöld í heldur leiðinlegu færi. Ekki sérstaklega spennandi að hlaupa eftir mikla snjókomu þegar gangstéttir hafa ekki verið ruddar, heldur rutt upp á þær af götunni. Þá verður maður bara að taka það rólega og nudda áfram. Þegar ég hleyp einn tek ég hlaupin eins og hverja aðra vinnu. Þá fer ég helst alltaf sömu leiðirnar sem ég þekki út og inn og veit nákvæmlega hve mikið er búið og hve mikið er eftir. Þegar maður fer það langt í þessum túrum að maður þarf að hafa drykk með sér (yfir 15 km) þá drekk ég helst alltaf á sömu stöðunum, til að mynda þegar ég fer Poweratehringinn með slaufu upp í Hattinn og lykkju út á Grensásveg. Þá er drukkið við Breiðholtsbrúna og síðan aftur við undirgöngin í Elliðaárdalnum. Kosturinn við að hafa svona reglu á hlaupunum og eins að hafa frí á föstudögum og mánudögum er að þá hefur maður reglubundin frí og getur síður slegið slöku við þegar planið kveður á um hlaup. Nú hef ég heldur enga afsökun að halda mig inni vegna veðurs eftir að kortið er klárt í stöðinni.

Næst er langt hlaup á laugardaginn. Spáin er þokkaleg. Við Halldór og Pétur Reimars hittumst um kl. 9.00 við göngubrúna í Fossvogsbotninum. Það passar fyrir okkur alla að fara af stað um kl. 8.30. Í janúar hittumst við kl. 9.30 en förum fyrr af stað eftir því sem við förum lengri túra til að vera komnir heim á guðlegum tíma. Nú í febrúar stefnum við að því að fara um 35 km þrjá laugardaga með hæfilegri blöndu af brekkum. Þá erum við komnir heim um kl. 12.00. Ein vika verður síðan rólegri. Hvíldin er nefnilega nauðsynlegur þáttur í prógramminu. Í mars verður enn lengt á því og farið enn fyrr af stað og svo koll af kolli. Í næsta mánuði bíða t.d. tvö maraþon ef allt gengur að óskum.

Það er gaman að lesa frásagnir úr þessum löngu og erfiðu hlaupum sem 100 M fjallahlaup eru. Það er greinilegt hve andlega hliðin skiptir miklu máli þegar á reynir. Ég las nýlega um reyndan hlaupara sem hafði hlaupið nokkuð mörg 100 mílna hlaup. Þegar hann fór WS100 eitt sinn var hann venju fremur illa fyrir kallaður og hlaupið reyndist honum erfitt. Konan hans beið á hverri drykkjarstöð honum til aðstoðar og uppörfunar eins og hún hafði gert um áraraðir. Þegar voru um 9 mílur voru eftir kom hann að drykkjarstöð ásamt meðhlaupara þar sem konan hans beið. Dagurinn hafði verið mjög erfiður og honum leið svo illa þegar hann kom inn á stöðina að tárin runnu niður kinnarnar á honum þegar hann skjögraði síðustu metrana. Konan hans sá hvað honum leið og spurði full hluttekningar: Viltu ekki bara hætta góði minn? Hann bálreiddist við spurninguna; Hætta í hlaupinu og fá á sig DNF (Did Not Finish). Aldrei!!! og rauk af stað í illsku. Meðhlauparinn þurfti að hraða sér á eftir honum með áfyllta brúsa og aðrar nauðsynjar. Eftir nokkurn tíma náði hann félaganum og þá var allt orðið í besta lagi með skapið og þeir skokkuðu saman í besta skapi það sem eftir var leiðarinnar. Í markinu bað hann konuna sína afsökunar á bráðlætinu en það þurfti að hleypa í hann illsku með spurningunni hvort ekki væri best fyrir hann að hætta til að þreytan og eymslin hyrfu fyrir ánægjunni að klára hlaupið. DNF, aldrei.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Fór út í kvöld á hefðbundinn túr. Það var öklasnjór alla leiðina svo maður fór hægt og æfði hnébeygjurnar. Þetta er allt í lagi meðan að það er ekki rok og leiðindi. Ég hef gert ráð fyrir að janúar til mars fari fyrst og fremst í að byggja upp þol og styrk. Þegar fer að hlýna fer maður að taka vandaðri æfingar, svo sem hraðaæfingar og brekkuhlaup í Esjunni. Á þann hátt sem við höfum hlaupið frá áramótum er enginn vandi að ná upp í ujm 90 km á viku án áreynslu. Tvö löng hlaup um helgar og síðan þrjú stutt í miðri viku gera 85 - 90 km. Ég sé að í Bandaríkjunum er ekki síður almennt notast við að mæla hlaup í klukkutímum. Það er lögð megináhersla á þann tíma sem menn eru á ferðinni en ekki endilega þá vegalengd sem lögð er undir fætur. Maður er svo íhaldssamur að enn er þrjóskast við að mæla vegalengdir í kílómetrum en líklega er klukkutímaaðferðin skynsamlegri. Eitt af því sem maður þarf að tileinka sér er að vera óhræddur við að ganga innanum og saman við. Í svona löngum fjallahlaupum er gengið mikið og eins þegar fer að líða á er gott að vera vanur að geta gengið hratt þegar hlaupagetan hefur minnkað.

Fór í Nautilus í kvöld í fyrsta sinn. Þetta var svona kynnisferð og ég fékk snögga yfirferð á tækin. Ég þarf fyrst og fremst á styrkingu á fótum og magavöðvum að halda svo ég fékk ábendingar um tæki og aðferðafræði. Ég hef aldrei fyrr fengið mér tíma á alvöru líkamsræktarstöð (ef þessi er alvöru) en mér leist bara nokkuð vel á hana. Ég veit að fyrir utan að styrkja sig þá kemur manni vel að hlaupa inni í ca 20 gráðu hita því það er eitt sem maður þarf að gera þegar líður á. Þegar aðrir fara út að hlaupa þá þarf ég að fara inn um tíma. Ég veit að ef ég sinni þessu almennilega þá gerir þetta gagn. Til að einhver árangur náist þarf ég að fara að minnsta kosti 3svar í viku.

Náði smá árangri í að betrumbæta síðuna. Maður lærir smátt og smátt aðferðirnar og klækina við að nappa frá öðrum.

Það eru tíðindi sem berast frá Danmörku. Einir fjórir flokksformenn ætla að segja af sér í kjölfar kosninganna. Þar í landi segja formenn af sér eða þeim er velt af stólnum ef þeir tapa. Hér er þessu öfugt farið. Allt bendir til að formaður sem vann stóran kosningasigur í síðustu alþingiskosninugm verði settur af bara si svona.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Fór 12 km. í kvöld í heldur leiðinlegu færi en sama er, planið blífur. Ég fékk tvær bækur í dag frá Amazon.com. Önnur er um þjálfun almennt en hin inniheldur frásagnir af ultramaraþonum. í þjálfunarbókinni rakst ég á eftirfarandi punkta sem eru undirstaða að markmiðssetningu fyrir hlaupara:

1.Einbeittu þér að því sem þú getur (frekar en að því sem þú getur ekki).
2. Skilgreindu langanir og þrár.
3. Settu þér markmið sem þig langar mikið til að ná.
4. Hafðu markmiðið eins raunsætt og mögulegt.
5. Skilgreindu markmiðið það vel að þú getir áttað þig á hvort þú færist nær því að ná því eða ekki.

Síðan las ég frásögn eftir einn sem ætlaði að fara Grand Slam árið 1998, en það er að fara fjögur 100 M hlaup á sama sumrinu. Hann þurfti að hætta í síðasta hlaupinu en bætti um betur sumarið eftir og fór sex 100 mílna hlaup, hvert og eitt með ca mánaðar millibili. Það er svokallað LGR eða Last Great Race. Svo er maður eitthvað að mikla fyrir sér að fara eitt!!!

Heyrði í fréttum í kvöld að einhverjar konur ætla að fylgjast með því hvort konur verði kosnar til áhrif á aðalfundum fyrirtækja og lífeyrissjóða á komandi vikum og mánðum. Í vor á að taka stöðumat. Hvað ef ekkert hefur gerst? Mun þá eitthvert Lísisströtusyndróm flæða yfir samfélagið? Kannski. Ég sit ekki í neinni stjórn. Svo mun einnig vera um ca 50 þúsund aðra kalla á landinu. Á meðan sitja sumir kallar sitja í allt að 30 stjórnum. Eigum við þessir 50 þúsund stjórnarsetulausu kallar að fara að sífra um þetta óréttlæti í fjölmiðlum. Ég efast um að það yrði hlustað mikið á okkur. Ef mig langaði mikið til að komast einhversstaðar í stjórn teldi ég mig þurfa að vinna fyrir því, sannfæra aðra um að ég væri hæfari en aðrir, ryðja öðrum til hliðar og svo framvegis. Í stuttu máli sagt; Berjast fyrir frama mínum í stað þess að væla utan í fréttamenn og heimta að aðrir reddi málunum fyrir mig. Ég held hins vegar að ég nenni því ekki. Það er svo margt annað skemmtilegra að gera.

Er ánægður með að Anders Fogh Rasmussen hélt velli í Danmörku í kvöld. Þegar ég bjó í Danmörku fyrir um 20 árum síðan voru Venstri frekar lítill hægrisinnaður bændaflokkur sem átti afar lítið fylgi í Kaupmannahöfn. Með vönduðum og markvissum vinnubrögðum hefur flokknum tekist að verða stærsti flokkur Danmerkur. Þetta mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar. Lykketoft ætlar að segja af sér eftir ósigurinn. Það er hin rétta afstaða, taka tapinu eins og menn.

Komið í mark á Borgundarholmi í fyrra Posted by Hello

Félagar í UMFR36 með nýju húfurnar Posted by Hello

Laugardagsmorguninn 5. febrúar, 11 stiga frost. Posted by Hello

"Vinir" Gullu Posted by Hello

Sigursveit UMFR36 í maraþoni í RM 2004 Posted by Hello

Laugavegurinn 2004 Posted by Hello

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ekkert hlaupið í dag eins og planið segir. Eins gott þar sem veðrið er heldur leiðinlegt. Ég held að það sé ótvírætt hvað það skilar sér betur að taka löng hlaup laugardag og sunnudag (eða tvo daga samfleitt) heldur en með nokkurra daga millibili. Ég tók nýlega saman yfirlit um hvað ég hef hlaupið af löngum hlaupum á síðustu árum. Með löngum hlaupum á ég við hlaup yfir 20 km. Það er mesta furða hvað þetta hefur aukist og einnig er furða hvað maður hljóp lítið af löngum hlaupum fyrir tiltölulega fáum árum. Listinn er sem hér segir(ég kann ekki að setja töflu inn í textann þannig að þetta verður að nægja):
2001 15 sinnum yfir 20 km
2002 18 sinnum yfir 20 km
2003 31 sinni yfir 20 km
2004 58 sinnum yfir 20 km
2005 10 sinnum yfir 20 km


Ég fór í kvöld á myndakvöld hjá Útivist. Þar voru sýndar myndir frá nágrenni Siglufjarðar, af hinum eina og sanna Tröllaskaga. Skemmtileg gönguleið er yfir Hestskarð og í Héðinsfjörð, þaðan út í Hvanndali og til baka og síðan á þriðja degi til Ólafsfjarðar. Ég hef undanfarin þrjú sumur verið góða helgi á Siglufirði í ágústbyrjun á Pæjumótinu. Siglfirðingar standa mjög vel að mótinu. Tvö ár af þesum þremur hefur veðrið verið eins og best hefur verið á kosið, en í hitteðfyrra var ansi kalt. Fyrsta árið skrapp ég yfir í Héðinsfjörð um Hestskarð, svona til að geta sagt að ég hefði séð fjörðinn. Í fyrra hljóp ég meira, einn daginn hljóp ég tvisvar út í göng í einum rykk sem var samtals um 24 km með góðum brekkum. Daginn eftir var um 3 og hálfur tími milli leikja hjá Víkingsstelpunum sem dóttir mín spilar með. Þá hljóp ég sem leið lá út í gegnum göngin og inn hlíðina, upp í Siglufjarðarskarð og síðan á spretti niður að Hóli þar sem dómarinn var að flauta til næsta leiks þegar ég kom niður að vellinum. Þetta var um 33 km hringur með hækkun tæplega um 650 metra upp í skarðið. Hlíðin var seinfarin vegna þess hve mikið er að brekkum á henni. Þetta var skemmtileg leið og ef einhver er staddur á Siglufirði og stendur þannig á spori að hann hafi svona 3,5 klst aflögu þá er þetta prýðileg aðferð til að nota tímann.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Vaknaði um 8.30 og lagði af stað um 9.30 niður í Laugardalslaug. Lögðum af stað þaðan upp úr tíu og fórum til baka inn í Elliðaárdal og þaðan út Fossvog. Það fór að kvarnast úr hópnum eftir því sem á leið því flestir ætluðu að fara frekar stutt. Við Suðurgötu var ég orðinn einn eftir og hélt áfram út á snúningspunkt í maraþoninu og þaðan sem leið lá til baka og heim í Rauðagerðið. Það urðu samtals um 25 km eins og ég var búinn að undirbúa. Hitti Svan á leiðinni. Hann er búinn að fara í liðþófaaðgerð og lét heldur vel af sér. Hann er farinn að ganga úti og ætlar sér um tvo mánuði þar til hann fer að fara að skokka á nýjan leik. Þetta er búin að vera góð helgi, um 60 km í gær og dag eins og stefnt var að.

Skrapp í gærkvöldi til mömmu og pabba. Í tal barst þegar fjölskylda flutti á Rauðasandinn árið 1934 austan úr austursýslunni. Búslóðin var flutt á bát en kýrnar voru reknar frá Svínanesinu sem leið lá vestur. Það hafa örugglega verið 5 - 6 dagleiðir. Reyndar voru kúrekarnir á hestum. Í sambandi við þetta rifjaði mamma upp frásögn sem hún hafði lesið í bók eftir Elínu Pálmadóttur blaðamann. Í stuttu máli gekk hún út á það að snemma á nítjándu öldinni var prestur að taka sig upp í Árnessýslunni til flutnings norður í Skagafjörð. Búslóðin var flutt á hestum og fólkið reið einnig norður en vandi var með nautgripina, sem voru bara tveir, kýr og kvíga. Málið var leyst á þann veg að unglingsstúlka og eldri vinnukona á prestsetrinu, Gunna eineygða, voru látnar reka kýrnar norður Kjöl og norður í Skagafjörð. Þær hafa líklega farið upp austan Hvítár og verið leiðbeint með kennileyti og fjallasýn. Eitthvað nesti höfðu þær til að byrja með en annars áttu þær að lifa á nytinni úr kúnni. Þegar þær syfjaði skyldu þær sofa á mosaþembum. Mamma mundi ekki nákvæmari lýsingu af ferð þeirra norður en þegar komið var niður í Skagafjörðinn var ekki allt búið því prestur hafði sett sig niður úti á Höfðaströndinni, töluvert fyrir utan Hofsós. Þær komust að lokum alla leið því sagan segir að sú yngri hafi fest ráð sitt þar nyrðra og eignast börn þar. Pálmi heitinn í Hagkaup er einn af afkomendum hennar. Svo eru menn að tala um að það sé etthvað mikið að vera á ferðinni í rúman sólarhring, vel undirbúinn með nesti á hverjum fingri.

Hlustaði áðan á Jónínu Benediktsdóttur í Silfri Egils. Hún sagði margt sem vakti mann til umhugsunar. Kannski meir um það síðar.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Tók daginn snemma og lagði af stað um 8.30 í 11 stiga frosti. Mætti Halldóri og Pétri við göngubrúna út við Fossvog. Við fórum sem leið lá út fyrir Kársnes og inn Kópavoginn. Fórum síðan þvert yfir Smáralindina, gegnum undirgöngin og upp brekkuna. Síðan lá leiðin suður að Vífilsstöðum og þar inn til hægri. Þar beið góð brekka upp á 1,6 km sem tók í. Síðan var skokkað fram hjá Vatnsendahæðinni og yfir Breiðholtsbrautina og inn á Poweratehringinn. Þaðan héldum við fram hjá Árbæjarlauginni og niður Elliðaárdalinn. Þar sem ekki var komið nóg fylgdi ég þeim út að Nauthól og fór þaðan til baka. Alls gerði túrinn um 35 km. Þessi leið er góð með hæfilegri blöndu af brekkum og jafnsléttu. Síðan hefur hún þann kost að maður verður að hlaupa langt til að komast heim. Það er ekki hægt að svindla.

Ég hef frá áramótum hlaupið með drykkjarpoka á bakinu. Ég keypti hann á útsölu í útilífsbúð uppi á Stórhöfða í haust á 1000 kall. Mér finnst virkilega gott að hlaupa með hann. Maður tekur ekkert eftir honum, maður hefur nóg að drekka en hann tekur milli 2 og 3 lítra. Bara að passa sig á að beygja sig ekki áfram því þá rennur niður í hálsmálið. Síðan er stærsti kosturinn að vatnið hitnar svo maður drekkur alltaf moðvolgt vatn í kuldanum. Það er gríðarlegur kostur. Ég drekk ekki undir 1,5 lítrum á svona löngum túr eins og í dag þannig að það er eins gott að hafa nóg pláss.

Ég fór í Hagkaup eftir hádegið og rakst þar á konu sem var að kynna sælgæti að því mér sýndist. Þegar ég tók bita sagði hún aftur á móti að þetta væri megrunarbiti. Það væri svo miklu betra að borða þetta í hádeginu en t.d. súkkulaði. Síðan átti að drekka mikið vatn með og borða kolvetnalausa fæðu og þetta væri óbrigult ráð til að grennast. Ég skoðaði innihaldslýsinguna og sá að kolvetnin voru um 50 g af hverjum 100. Ég sagði henni að mér fyndist þetta vera hæpinn megrunarbiti með svona miklu sykurinnihaldi. Jú þetta er allt í lagi sagði konan, þetta er nefnilega náttúrulegur sykur. Þegar ég lét enn í ljós vantrú mína tók hún til bragðs að horfa í gegnum mig eins og ég væri ekki til, líklega í von um að fá auðsveipara fórnarlamb.

Þegar maður hleypur fram hjá Nauthól kemur gömul saga upp í hugann. Ég greip í desember niður í æfisögu Eyjólfs sundkappa sem kom út fyrir jólin. Eyjólfur er merkur maður, hann var lögregluþjónn um áraraðir, gríðarlegur sjósundskappi og var síðan einn af stofnendum Þróttar svo fátt sé tiltekið. Hann segir frá því í bókinni að forfeður hans, líklega afi hans og amma, bjuggu á Nauthól fyrir aldamótin 1900. Jörðin var þá lítið þurrabúðarbýli. Umræða hafði komið upp að gera höfn í Fossvoginum og því þurfti að losna við fólkið af jörðinni. Þegar húsbóndinn var á sjó eitt sinn gerðu broddborgarar Reykjavíkur árás á bæinn og húsin voru brennd til grunna og fólkið flæmt burt. Báru þeir fyrir sig að taugaveikibaktería væri í húsunum. Segir frá því í bókinni að ung stelpa um 11 ára gömul hafi sloppið upp í Öskjuhlíðina og falið sig þar á meðan á ódæðinu stóð. Eyjólfur lætur að því liggja að hún hafi aldrei orðið söm eftir. Hún varð seinna þekkt sem Jósefína spákona í Djöflaeyjubókunum. Frásögnin festist í mér vegna þess að dóttursonur Eyjólfs og nafni hans býr hér rétt hjá í Rauðagerðinu og er í hljómsveit með stráknum mínum. Hann sýndi þann kraft að koma syndandi að landi við Bessastaði afa sínum til heiðurs þegar bókin var kynnt í haust en sá gamli hafði oft synt af Ægisíðunni yfir að Bessastöðum. Dorrit faðmaði hann að sér blautan úr sjónum og strútvafði hann síðan í teppi svo ekki slægi að honum.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Hljóp um 8 km í gærkvöldi. Sem betur fer var hætt að snjóa svo þetta var bara þægilegur túr. Svo hlýnar hann aftur um helgina, mér er heldur illa við snjó fyrir neðan 300 metra hæðarlínu.

Var fundarstjóri á 60 - 70 manna félagsfundi hjá Framsóknarfélagi í RvkS þar sem voru valdir fulltrúar á flokksþing. Heldur kjánalegar umræður höfðu átt sér stað í fjölmiðlum fyrir fundinn um að hann yrði líklega vettvangur mikilla átaka. Ríkið sendi meir að segja eftirlitsmann á staðinn með upptökuvél til að mynda átökin þegar þau hæfust. Hann fór þó fljótlega þegar ljóst var að mikil eindrægni ríkti á fundinum og tillögur stjórnar samþykktar samhljóða.

Ég varð fyrir vonbrigðum í gær þegar fréttir bárust af því að það megi ekki sjónvarpa sendingum frá enska boltanum án þess að einhver sjálfskipuð innlend gáfumenni séu að fimbulfamba um þar sem er að gerast á vellinum. Mér finnst munurinn á því að horfa á enska boltann með enskum þulum og íslenskum vera svipaður og að horfa á mynd í lit og í svarthvítu. Eg fékk ókeypis áskrift að einhverjum 40 stöðvum á digital Ísland í desember. Talið í þeim var allt á útlensku, mismunandi eftir því frá hvaða landi var sent. Má maður búast við talsetningu á þessum stöðvum í framtíðinni? Ég held ekki. Mér finnst málið tiltölulega einfalt. Ef eitthvað er sent út á útlensku sem enginn skilur og enginn vill horfa á þá verður áhorfið ekkert og enginn vill auglýsa. Málið er dautt. Ef eitthvað er sent út á erlendu máli sem mikill áhugi er fyrir en enginn skilur þá er mikið kvartað og eitthvað gerist í framhaldinu. Ef eitthvað er sent út á erlendu máli sem mikið er horft á og allir eru ánægðir með (nema einhverjir sem missa peningalegan spón úr aski sínum) er þá ekki bara allt lagi?

Ég hef verið að lesa á netinu frásögur hlaupara sem hafa farið WS100. Þetta eru spennandi lýsingar á því hvernig þessum einstaklingum tekst að sigra erfiðleikana og ná settu marki. Oftast er takmarkið bara að komast í mark undir 30 klst en í sumum tilvikum er verið að berjast við að rjúfa 24 klst múrinn. Þessar frásagnir er að finna a www.run100s.com/reports/. Það er ekki laust við að það rísi á manni hárin á stundum við lesturinn, en á hinn bóginn er mikið gagn af því að lesa þessar frásagnir því maður hefur þá aðeins meiri hugmynd um hvað bíður manns þegar á hólminn er komið. Einnig er mjög fróðlegt að fá hugmynd um hvernig menn undirbúa sig, hvað er sent út á brautina, hve oft þarf að skipta um skó, hvað fólk hefur með sér á milli drykkjarstöðva og svo framvegis. Vonandi kemur þetta allt að gagni á sínum tíma.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Rólegt í gærkvöldi eins og planið segir til um, ca 8 km í léttum gír. Torfi Leifsson kenndi mér um daginn æfingar til að styrkja hásinarnar sem hann hefur notað með góðum árangri í baráttu sinni við hásinameiðsli. Ég hef farið í gegnum þær síðan í þeirri trú að þær minnki hættu á álagsmeiðslum. Þær taka í og ég hef þá trú að þær séu til bóta þar til annað kemur í ljós.

Fékk upplýsingar um að búið væri að gefa út endanlega skrá um þáttakendur í WS 100 2005. Alls eru 436 þátttakendur skráðir til leiks. Þar af eru 410 frá Bandaríkjunum en hinir skiptast þannig:
Kanada 13
Þýskaland 2
Noregur 2
Nepal 2
Danmörk 1
Tanzanía 1
Suður Afríka 3
Frakkland 1
Ísland 1

Samkvæmt því sem ég hef lesið er ekki óraunhæft að ætla að það sé um 2/3 hluti þáttakenda sem komast í mark undir tilskildum tímamörkum, sem eru 30 klst, og teljast þannig hafa formlega lokið hlaupinu. Hinir detta út af ýmsum ástæðum, þola ekki álagið, andlegt eða líkamlegt, fara of hægt, ofgera sér og eru settir út á drykkjarstöð áður en hlaupinu lýkur eða verða fyrir meiðslum svo dæmi séu nefnd um það sem getur hent á langri leið.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Stutt hlaup í gærkvöldi, ca 8 km. Það verður æ léttara að halda þokkalegum hraða, sérstaklega er mikill munur á að vera á auðum gangstéttum miðað við að hlaupa á mannbroddum. Ég hef lengi reynt að vera skynsamur í mataræði, en misjafnt er hvernig það gengur. Um leið og ég fer á fætur, uppúr sex á morgnana, drekk ég glas af vatni og fæ mér lýsi á fastandi maga. Síðan eftir ca klukkutíma, þegar blaðaútburðinum er lokið, þá borða ég alltaf ósykrað skyr í morgunmat, hrært út í kornfleksi og mikið af þessu. Ekki veit ég hvort þetta sé einhver ódáinsfæða, en ég kvarta alla vega ekki. Ég forðast hvítt hveiti og sykur eins og ég get en reyni að borða próteinríka fæðu og grænmeti eftir föngum. Kaffi og gos drekk ég ekki. Ég þarf reyndar að létta mig um nokkur kíló á næstu mánuðum eftir jóla og þorramatsveislur liðinna vikna, svo þar kemur aginn svolítið til skjalanna.
Samband sveitarfélaga, þar sem ég vinn, flutti sl. vor í nýtt húsnæði í Borgartúninu og erum við þar uppi á 5. hæð. Sívaxandi fjöldi starfsmanna er farinn að labba upp stigana á morgnana í stað þess að taka lyftuna. Lengi framan af tók ég lyftuna umhugsunarlaust en frá áramótum hleyp ég upp stigann. Þótt ekki sé lengra um liðið finnur maður greinilegan mun, bæði hvað maður mæðist minna og eins hvað þetta tekur minna í fæturna. Það er sagt hér að þegar menn geti bæði komið lyklinum í skrána án aðstoðar og boðið góðan daginn á morgnana svo það skiljist eftir að hafa gengið upp stigana, þá sé formið orðið þokkalegt.
Man Utd vann góðan sigur í gær á Highbury. Ég get ímyndað mér hvernig Arsenalmönnum líður, tap fyrir þeim á Old Trafford með þessari markatölu hefði verið erfitt að bera.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Aðalfundur UMFR36 var í gærkvöldi. Mæting var fín og tekin góð umræða um marga hlaupavinkla. Farið var yfir baráttuna við kerfið og dálítið fyndin viðbrögð innan UMFÍ og IBR við formlegri og fyllilegra lögmætri umsókn félagsins inn í musteri íþróttanna. Enn megum við óverðugir þó norpa á dyrahellunni, meðal annars vegna þess að nafn félagsins hefur ekki fallið laganefnd ÍSÍ í geð!! Fundarmenn voru fullir eldmóðs og hvöttu ákaft til að láta reyna til þrautar á hvort kerfið láti ekki undan. Verðlaun fyrir sigur í sveitakeppni í maraþoni í RM 2004 voru afhent á fundinum. Betra er seint en aldrei. Þeir Þórhallur J., Sigþór K., Pétur Reimars, Eiður Aðalgeirsson og Gísli Ásgeirsson skipuðu sveitina sem sigraði með mikilli sæmd. Verðlaunin voru afhent svo seint sökum þess að þau bárust ekki fyrr en í nóvember. Því þótti við hæfi að afhenda þau á aðalfundinum og ná sömuleiðis góðri hópmynd af sveitinni frekar en að senda gripina í pósti eins og hverja aðra rukkun.
UMFR36 vann einnig sveitakepnina í maraþoni á Mývatni í fyrra þannig að við erum harla ánægðir með uppskeru ársins í sveitakeppnum fyrir utan allt annað. Félagi Jóhann hafði sýnt þá stórlund og rausn að láta gera einkennishúfur fyrir félagið og afhenti hann þær á fundinum við mikla ánægju fundarmanna. Það er stórt skref í tilveru hvers félagsskapar að öðlast karakter, hvort sem hann birtist í húfu, bol eða fána. Ég fór síðan aðeins yfir nokkur atriði er varðar WS 100 til fróðleiks fyrir félagana. Meðal annars sýndi ég slidesmyndir frá hlaupinu árið 2002 sem ég fann á netinu. Slóðin er http://www.run100s.com/photos . Hlauparinn sem tók myndirnar heitir Steve Patt. Fundarmenn setti hljóða þegar ég sýndi þeim þverskurðarmynd annars vegar af Bostonmaraþoni og hins vegar af WS 100. Boston er eins og stuttur tvinnaspotti við hliðina á hinum ósköpunum. Því miður klikkaði DVD diskurinn sem er með mynd af Borgundarhólmshlaupinu frá þvíí fyrra svo hann var ekki sýndur. Ekkert var hlaupið í gær því mánudagar eru hvíldardagar eftir planinu. Ég náði hins vegar í lykilinn í Nautilus þannig að ég sé fram á að geta farið að styrkja mig þar innan dyra þegar tími gefst til.