föstudagur, janúar 28, 2011

The Rolling Stones (NME-1964)

Fáskrúðsfjörður


Fréttin af þýska göngumanninum sem týndist á Eyjafjallajökli er dálítið sérstök. Þrír göngumenn sem sagðir eru þaulvanir eru uppi á jökli í háskammdeginu um hávetur. Þeir verða viðskila. Það er eitthvað mjög sérstakt. Þaulvanir göngumenn verða ekki viðskila uppi á jökli það sem aðstæður eru mjög erfiðar og hættulegar. Eftir því sem stóð í blöðunum í morgun hafði sá sem týndist hvorki áttavita eða GPS tæki. Það er mjög sérstakt að þaulvanur göngumaður fari upp á jökul þegar allra veðra er von án þess að hafa einföldustu rötunartæki með sér. Þannig gerir þaulvanur göngumaður bara ekki. Það er svo einfalt. Alls fóru 150 manns upp á jökul að leita að honum með öll sín tól og tæki. Allt í boði hússins. Sem betur fer fannst maðurinn heill á húfi. Hann og félagar hans eru ekki af baki dottnir heldur ætla þeir að halda upp á Vatnajökul. Hvað gerist ef þeir týnast þar. Það er fínt að hafa það í bakhöndinni að tugir eða hundruð manna stökkvi af staða að leita ef þeir gleyma GPS tækinu eða áttavitanum. Allt í boði hússins. Þetta getur maður kallað þjónustu.
Ég man eftir því að í bók Ólafs Arnar Grænlands- og Suðurskautsfara "Hvíti Risinn" sem fjallar um gönguferðina yfir Grænlandsjökul kemur fram að þeir fengu ekki fararleyfi inn á jökulinn fyrr en heimamenn höfðu fullvissað sig um að þeir hefðu allar nauðsynlegar tryggingar ef þyrfti að leita að þeim eða sækja þá. Grænlendingar virðast vera löngu hættir því að hlaupa til í sjálfboðavinnu ef þarf að bjarga þeim sem eru að fara inn á Grænlandsjökul. Það kostar einfaldlega allt of mikið. Ef menn eru að ferðast inni á öræfum um hávetur þá er lágmark að þeir kaupi sér tryggingar. Ef við erum að leggja í svona tvísýnu erlendis og þurfum á aðstoð að halda þá er það ekkert gert í boði heimamanna. Ég hef trú á að það komi feitur reikningur. Það viðhorf sem unnið er efir hérlendis býður upp á að menn ani út í tóma vitleysu og ef lent er í vandræðum þá er bara hringt í björgunarsveitina. Það kostar ekki neitt.

Alþingismenn hafa rætt um að það þurfi að auka virðingu Alþingis. Virðing er ekki eitthvað sem menn kaupa úti í búð. Virðingu skapa menn sér sjálfir með orðum sínum og athöfnum. Virðing Alþingis eykst ekki með því að rokið er til og ríkisborgararéttur afgreiddur eftir pöntun til handa barni sem var í höndunum á fólki sem var búið að koma sér í ógöngur með því að kaupa barnsfæðingu hjá konu úti í Indlandi. Virðing Alþingis eykst ekki með því að það eru samþykkt lög þann 18. desember um kolefnisgjald og lögin eiga að taka gildi eftir 12 daga. Ég hitti starfsmenn Umferðarstofu í morgun og þeir sögðu mér dálítið af því í hvaða stöðu þeir væru við að hefjat handa um að framkvæma þessi lög. Virðing Alþingis eykst ekki þegar það kemur í ljós að lögin um kosningu til stjórnlagaþingsins hafi verið illa grunduð. Virðing Alþingis eykst ekki þegar þingmenn leggja fram tillögu um að veita rússneskri stúlku, sem hefur dvalist ólöglega í Noregi um árabil, ríkisfang sem snarast. Ætla menn að kippa hingað til lands öllum ríkisfangslausum einstaklingum sem fréttist af úti í hinum stóra heimi eða á þessi greiðvikni bara við um ungar sætar stúlkur sem hafa skrifað bók. Ég virði principafstöðu Stoltenbers um að eitt verði yfir alla að ganga. Það er nákvæmlega þannig verklag sem gildir í alvöru samfélögum.

Ég fékk nýlega senda tilkynningu um Lífshlaupið sem á að hvetja til hreyfingu af ýmsum toga. Það getur verið gönguferðir, hjólreiðar, skokk og svo framvegis. Þetta er góðra gjalda vert nema að þetta á að gerast í febrúar. Febrúar er venjulega illviðrasamasti mánuður ársins. Ef ég vildi sneiða hjá einhverjum mánuði til að skipuleggja almenna útihreyfingu þá væri það febrúar. Stundum skilur maður ekki samhengi hlutanna.

fimmtudagur, janúar 27, 2011

Herman's Hermits - No milk today

Frá Seyðisfirði


Hér fyrr á árum voru stöndugar útgerðir stolt hvers samfélags á landsbyggðinni. Það þýddi trygga vinnu og góðar tekjur fyrir íbúana. Enn í dag er sjávarútvegurinn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar enda þótt hlutfallslegt vægi hans hafi minnkað síðustu áratugi. Ég hef áður minnst á það að mér finnst stundum rætt um þá sem stunda útgerð á Íslandi í dag sem nokkurskonar óbótamenn og þegar lengst er seilst sem hálfgerða þjóðníðinga. Ég las nýlega grein eftir fyrrverandi alþingismann sem heggur í þennan knérunn. Þar er enn verið að tala út frá mýtunni um gjafakvótann. Ég man vel eftir því þegar kvótinn var fyrst settur á. Leyfilegur afli var skorinn verulega niður frá því sem áður veiddist eða um ein 20% að því mig minnir. Man það reyndar ekki alveg nákvæmlega því það eru um 30 ár síðan. Ástæðan niðurskurðarins var ofveiði á bolfiskstofnum við landið. Talið var nauðsynlegt að draga úr sókn í stofnana til að þeir gætu náð jafnvægi og farið að byggja sig upp aftur. Á þeím árum þegar kvótinn var settur á (um 1980) fiskuðu íslenskar útgerðir um 400 þúsund tonn af bolfiski á íslandsmiðum. Kvótinn hefur síðan verið skorinn niður jafnt og þétt í kjölfar hverrar svörtu skýrslunnar á fætur annarri. Nú er útgefinn kvóti á bolfisk á íslandsmiðum um 160 þúsund tonn það ég best veit. Lægst fór hann í um 135 þúsund tonn eða 1/3 af því sem veiddist þegar kvótinn var settur á.
Þeir aðilar sem stunduðu útgerð á sínum tíma urðu fyrir miklu áfalli þegar kvótinn var skertur en margir þraukuðu áfram, hagræddu í rekstri og aðlöguðu sig breyttum tímum. Margar útgerðir hafa þraukað þessi ár þrátt fyrir að oft hafi ýmislegt gengið á. Bæði hefur niðurskurður á kvóta verið þeim erfiður en aðrir erfiðleikar hafa oft valdið ekki minni erfiðleikum sem of hátt skráð gengi um árabil.
Nú skyldi maður halda að það væri ekki lagt viðkomandi aðilum það til lasts að hafa stundað útgerð allan þennan tíma heldur fengju þeir klapp á bakið. Svo er nú ekki að heilsa af hálfu ýmissa.

Þingmaðurinn fyrrverandi sem ég minntist á telur upp allnokkurn fjölda útgerða sem hefur starfað allan þennan tíma og segir m.a. eftirfarandi: Flestar stórútgerðir í landinu eru enn með sömu kennitölu og þær höfðu við upphaf kvótakerfisins og því byggja þær á nýtingarrétti sem þau borguðu ekki neitt fyrir. Síðar segir: Ef farið er hringinn í kringum landið sést að það eru enn sömu fyrirtækin og sama fólkið sem er enn í útgerð og byggir á þeim gjafakvóta sem þau fengu í upphafi.
Af mínu litla viti á þessum málum finnst mér það virðingarvert að sama fólkið með sömu kennitölur sé enn í sama atvinnurekstri og það var fyrir 30 árum þegar kvótinn var settur á sem aflaskerðing. Vildu menn heldur að a) Þetta fólk hefði selt kvótann og farið að nota peningana í annan atvinnurekstur? b) Dregið stórlega úr útgerð og leigt kvótann frá sér c) Farið á hausinn.

Eftirfarandi fyrirtæki eru talin upp sem gjafakvótafyrirtæki:

Í Vestmannaeyjum eru það Vinnslustöðin, Ísfélagið, Glófaxaútgerðin, Bergur-Hugin útgerðin, Dala-Rafns útgerðin, útgerðin á Frá, Bergi, Hugin, Þórunni Sveinsdóttur og Bylgjunni, ásamt fleiri útgerðum í Eyjum.
Á Hornafirði sameinuðust Skinney og Þinganes og tóku yfir Kaupfélags útgerðina.
Það eru sömu aðilar í útgerð á Fáskrúðsfirði og voru og á Eskifirði þar sem Eskja e.h.f. er og er hún rekin af afkomendum Alla ríka. Það eru sömu eigendur að Síldarvinnslunni á Norðfirði en þar eiga reyndar Samherjar orðið 30-40% hlut. Á Þórshöfn er Ísfélagið komið inn í útgerðina með heimamönnum og Grandi er komin inn í útgerð með heimamönnum á Vopnafirði. Á Siglufirði er Þormóður Rammi og hefur hann sameinast útgerð sem var á Ólafsfirði. Samherji og Brim eru á Akureyri. Á Sauðarkrók eru sami aðili í útgerð og verið hefur og er það Kaupfélagið. Á Grenivík er Gjögur. Gunnvör á Ísafirði hefur sameinast nokkrum öðrum útgerðum þar. Oddi er á Patreksfirði. Á Snæfellsnesi er og hafa verið meðal annars útgerð Kristjáns Guðmundsonar, Hraðfrystihús Hellisands, Steinunnar útgerðin í Ólafsvík, Rakel Ólsen í Stykkishólmi, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði. Í Reykjavík eru Grandi og Ögurvík. Stálfrúin í Hafnarfirði. Nesfiskur í Garði. Happasæls, Arnars útgerðin og Saltver í Keflavík. Þorbjörninn og Vísir í Grindavík. Í Þorlákshöfn er útgerðir Einars Sigurðssonar og Hannesar Sigurðssonar.

Þegar ég renni huganum hringinn í kringum landið af minni litlu þekkingu á þessum málum þá man ég t.d. eftir HP á Patró, HT á Tálknafirði, útgerðum á Bíldudal og Þingeyri, Flateyri og Súganda, Norðurtanganum og Íshúsfélaginu á Ísafirði, Básafell á Ísafirði, Guðbjörgin á Ísafirði, EG í Bolungarvík, útgerðinni í Súðavík, útgerðinni á Hvammstanga og Blönduósi, Skagstrending, útgerð á Sauðárkróki, Sæunni Axels á Ólafsfirði, Útgerðarfélagi Akureyrar, FH á Húsavík, Jökli á Raufarhöfn, útgerðum á Reyðarfirði, Djúpavogi, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði, Árnesi í Þorlákshöfn og HB á Akranesi. Þessar útgerðir eiga það allar sameiginlegt að þær eru hættar. Sumar urðu gjaldþrota, aðrar voru seldar og eigendur tóku féð út úr greininni. Vafalaust má bæta fjölmörgum fyrrverandi útgerðum við þennan lista sem ég man ekki eftir. Ég tel fyrst og fremst upp þær stærri og þær sem voru burðarásar í atvinnulífinu á einstökum stöðum. Þessar útgerðir fengu hins vegar úthlutað kvóta eftir sömu reglum og þær sem enn lifa. Væri það nú betra fyrir land og lýð ef þær sem taldar voru upp í fyrri hópnum hefðu hlotið sömu örlög og þær sem hættar eru? Það þarf alla vega að sýna mér fram á það með gildum rökum. Mér finnst það miklu frekar vera aðdáunarvert að hafa haldið þessum fyrirtækjum gangandi allan þennan tíma við misjafnar rekstrarforsendur, iðulega erfiðleika vegna rangrar gengisskráningar og nær því samfelldan samdrátt aflaheimilda.

miðvikudagur, janúar 26, 2011

The Swinging Blue Jeans (NME-1964)

Sektað fyrir ólöglega lagningu bíla á þjóðfundi 2009


Það er ekki annað hægt en að fyllast depurð þegar fylgst er með umræðunum sem fara fram á misopinberum vettvangi eftir að stjórnlagaþingskosningin var dæmd ógild. Lágkúran er svo yfirþyrmandi. Það var eins og við var að búast að strax var farið að naga bakfiskinn á þremenningunum sem þorðu að láta á það reyna hvort þeir agnúar sem þeir sáu á framkvæmd kosninganna væru á rökum reistir. Það þarf dálítið hugrekki að kæra framkvæmd svona kosninga til hæstaréttar og ekki síður að flytja mál sitt sjálfur. Í stað þess að fjalla um aðalatriði málsins þá er farið að níða skóinn niður af þessum einstaklingum, spyrja hvaða hvatir lágu að baki o.s.frv. Allt eftir bókinni. Í öðru lagi er farið að láta að því liggja að Hæstiréttur sé handbendi einhverra afla úti í þjóðfélaginu. Skautað er fram hjá því að Hæstiréttur felldi samhljóða úrskurð og enginn lögspekingur hefur gagnrýnt efnislega niðurstöðu hans. Ég heyrði viðtal við konu í útvarpinu í kvöld sem hafði verið í kosningaeftirliti í Albaníu á vegum ÖSE. Hún hélt því fram að framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna hefði verið talin stórlega ámælisverð í því ágæta landi sem hefur ekki langa sögu sem lýðræðisríki. Rekjanlegir kjörseðlar, kjörseðlar ekki brotnir saman svo sást í sjónvarpinu hvað einhver kjósandi kaus, talning atkvæða bak við lokaðar dyr án utanaðkomandi eftirlits og auðvelt var að kíkja yfir bakið á næsta manni á kjörstað. Hvað vilja menn hafa það betra?
Í Helgafellssveit forðum daga var kosning dæmd ólögmæt vegna þess að prentsmiðjan hafði haft svo þunnan pappír í kjörseðlunum að ekki var hægt að útiloka að það sæist hvað einhver hefði kosið. Enginn grunur um svindl. Í Reykhólasveit var kosning dæmd ólögmæt vegna þess að ekki hafði verið tilkynnt um kjördag með nægjanlega formlegum hætti úti í Flatey. Enginn grunur um svindl. Formið var hins vegar ekki í lagi. Það er grundvöllur kosninga í lýðræðissamfélagi. Ef farið er að fara á svig við lög og reglur um framkvæmd kosninga þá lenda menn fyrr en varir úti í skurð. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.
Hér er því haldið fram að enda þótt framkvæmd kosninganna hafi verið með hnökrum en þar sem ekkert brot hafi verið framið þá sé þetta ekki svo alvarlegt. Þetta étur hver eftir öðrum. Ef ég mælist fyrir of hraðan akstur í hraðamyndavél þá þýðir ekkert fyrir mig að segja að það hafi enginn annar bíll verið á veginum og því hafi ég ekki brotið á neinum. Þegar reglur eru brotnar eiga viðurlög að gilda.
Því er haldið fram að hnökrarnir hafi ekki haft nein áhrif á úrslit kosninganna? Hver getur sagt til um það? Þurfti ekki að taka ákvörðun um 13-15% kjörseðla því það var þannig skrifað á þá að vélarnar gátu ekki greint þá. Það var gert af ákveðnum einstaklingum án utanaðkomandi eftirlits. Við talningu í almennum kosningum eru allir seðlar sem skera sig á einhvern hátt frá lagðir til hliðar. Síðan er farið sérstaklega yfir hvern og einn undir eftirliti fulltrúa flokkanna og skorið úr um hvað stendur á þeim. Ef ekki næst samkomulag um niðurstöðuna er hægt að áfrýja úrskurðinum. Þar er ekkert gert án utanaðkomandi eftirlits.
Það er náttúrulega út í hött að halda eitthvað sérstaklega upp á 25 menningana sem valdir voru í hinum ógildu stjórnlagaþingskosningum Þeir eiga engan rétt umfram aðra í þjóðfélaginu til að möndla um stjórnarskrána. Að setja sérstök lög um að skipa þá til stjórnlagaþings væri hrein móðgun við allt og alla.
Því hefur verið haldið fram að þjóðin kalli á stjórnlagaþing. Það væri gaman að fá skilgreint í því sambandi hvað er þjóð. Er þjóðin einhver hópur manna sem hrópaði út á Austurvelli að þeir vildu nýja stjórnarskrá? Er þjóðin Njörður P. Njarðvík í Silfri Egils? Er þjóðin svona 50-100 bloggarar? Er þjóðin þau eitt þúsund einstaklinga sem sátu dagstund á 100 tíu manna fundum í Laugardagshöll? Er þjóðin þau 32% landsmanna sem kaus til stjórnlagaþings? Eða er þjóðin þau 67% landsmanna sem hafði ekki áhuga á kosningum til stjórnlagaþings og sat því heima? Það mætti alla vega prufa að telja hver hópurinn er fjölmennastur og gæti helst staðið undir því að vera kallaður "þjóðin".
Hver er ábyrgur? Nú veit ég ekki neitt um ráðherra ábyrgð en ég hef lesið það í erlendum fjölmiðlum að ef t.d. hópur hættulegra fanga sleppur út úr fangelsi þá getur það dregið þann dilk á eftir sér að dómsmálaráðherra segi af sér. Ekki er þó starf hans að standa í dyrum fangelsisins og passa að fangarnir haldi sig innandyra. Ef mikil kaos skapast í samgöngumálum vegna þess að samgöngukerfið funkerar ekki þá er viðkomandi samgönguráðherra gjarna látinn axla ábyrgð og hirða pokann sinn. Hér er það kallað að stjórnvöld axli ábyrgð ef leikurinn er endurtekinn og vonast til að allt gangi upp í þetta sinn. Reikningurinn fyrir það er upp á ca 200 milljónir. Hvað ef úrslitin verða aftur dæmd ógild?

þriðjudagur, janúar 25, 2011

The Troggs - Wild Thing

Jökulkallinn í Þjórsárverum


Mér varð nú fyrst að orði í dag þegar ég fletti mbl.is upp hvort það væri 1. apríl. Kosningin til stjórnlagaþingsins var dæmd ógild. Ekki á einu atriði heldur ekki færri en fimm atriðum sem voru bæði ámælisverð og mjög ámælisverð. Að mínu mati er þessi atburður ein af stærri stjórnsýslulegri uppákomu í lýðveldissögunni. Það er ekki verið að kjósa um hvort eigi að kaupa skítadreifara í einhverju fámennu búnaðarfélagi. Það er verið að kjósa til stjórnlagaþings sem á að vinna stjórnarskrá fyrir þjóðríkið. Kosningin fer fram eftir forskrift Alþingis. Kosningin er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Öllu stærra getur það ekki orðið. Maður getur ekki annað en fyllst depurð yfir svona löguðu. Það er búið að eyða hundruðum milljóna í þetta mál og það er ekki hægt að framkvæma það skammlaust. Menn hefðu átt að vera kátari yfir því að erlendir fjölmiðlar fluttu fréttir af kosningunni. Það verður gaman að sjá fréttaflutninginn af þessari hlið málsins á næstu dögum. Ekki má heldur gleyma aðdragandanum. Alltof rúmar reglur voru um hverjir gátu gefið kost á sér í framboð. Kynning á frambjóðendunum fór hálfpartinn út um þúfur. Áhugi almennings var í lágmarki. Konsingaþátttakan var sú langslakasta í kosningum af þessum kalíber frá stofnun lýðveldisins. Þannig hefur hvað rekið annað í þessu sambandi.
Þegar eitthvað er mótdrægt þá virðist vera leitað að frösum til að bjarga sér út úr málunum. Ef einhver þarf að hundast úr vinnu eða sagt af sér vegna þess að hann þótti ekki hæfur í starfi eða naut ekki nauðsynlegs trausts þá er stöðugt klifað á því að hann sé maður að meiri. Þegar ég var út í búð seinni partinn þá heyrði ég útundan mér í útvarpinu að í umræðu um dóm Hæstaréttar virtist það skipta viðmælenda miklu máli að það hefði ekki verið brotið á neinum. Það virtist vera frasinn. Hann var svo margendurtekinn í sjónvarpinu í kvöld. Það var eins og það ætti að gera ástæðu ógildingarinnar eitthvað léttvægari. Í mínum huga skiptir það eitt máli að kosningin var gerð ógild vegna þess að ekki var hægt að tryggja ótvírætt að kosningin hefði verið leynileg og að fyllsta hlutleysis hafi veri gætt.

Ég hef einu sinni borið nokkra ábyrgð á framkvæmd kosninga. Það er ákveðið vandaverk út af fyrir sig en þar sem ég var í framboði sjálfur var allt enn viðkvæmara. Þetta var norður á Raufarhöfn fyrir rúmum áratug. Þegar við fengum kjörseðlana frá prentsmiðjunni kom í ljós að einhvera hluta vegna hafði pappírinn rifnað að hluta til utan af pakkanum. Ekki þó þannig að hann hefði opnast. Pakkinn hafði verið innsiglaður og vandlega um búinn en þarna hafði eitthvað gerst. Ég lét formann kjörstjórnar vita og sagði það ótvírætt að við yrðum að fá kjörseðlana prentaða aftur og þá þannig umbúna að enginn vafi væri á að allur frágangur væri ásættanlegur og tryggt væri að reglum um kosningar væri framfylgt til hins ítrasta. Það var gert og hinum pakkanum var eytt. Ef þetta hefði ekki verið gert þá hefðu verið fullar forsendur til að kæra kosninguna og ógilda úrslitin. Ekki hefði verið hægt að útiloka að það hefði verið reynt að eiga við kjörgögnin. Enda þótt ekki hefði verið brotið á neinum þá hefði ekki verið hægt að sanna það ótvírætt að allt hefði farið fram eftir því sem ítrasta regluverk sagði til um. Þannig gengur þetta nú bara í löndum sem kenna sig við lýðræði.

Í Kastljósi í kvöld var rætt um ráðherraábyrgð það ég sá og heyrði og sýndist sitt hverjum. Í því sambandi má minna á að í öðrum norrænum ríkjum þykir hefur þótt eðlilegt að ráðherra segi af sér ef hann kaupir Toblerone á reikning ríkisins til eigin afnota. Það þarf ekki meira til.

mánudagur, janúar 24, 2011

The Troggs - With A Girl Like You (1967)

Flottar Ármannsstelpur með þjálfaranum


Stórmót ÍR var haldið á helginni. Það er fyrsta stórmót vetrarins. Síðan rekur hvert mótið á fætur öðru, meistaramótið 15-22 ára á næstu helgi, svo er meistaramótið, síðan tugþraut og sjöþraut og svo bikrarkeppnin. Það er alltaf spenningur í upphafi mótavertíðar að sjá hvernig krakkarnir hafa verið að nota tímann frá því að frá var horfið í sumar. Mörg eru einnig á þeima aldri að þau eru að stækka, styrkjast og þroskast. Ég man ekki eftir því að hafa séð þá sem ég fylgist með koma eins vel stemmda inn í veturinn eins og nú eftir áramótin. Það er að koma fram góður hópur mjög ef enilegra unglinga sem á eftir að láta að sér kveða á næstu árum ef þau halda vel á sínu. Vitaskuld er það alltaf ákvörðun hvaða stefnu hver og einn tekur. Það á við um þessa hluti eins og flesta aðra. Það er hins vegar alveg á hreinu að þeirra er valið og einskis annars. Þau eru ekki að æfa og keppa fyrir félögin eða foreldrana heldur af því þau vilja það sjálf. Þannig er það með allar íþróttir. Sum hafa þá drauma að ná langt og með elju og ástundun þá eru ýmsar leiðir færar í þeim efnum.

María kemur ágætlega inn í keppnistímabilið. Meiðslin sem voru að hrjá hana mestan hluta ársins í fyrra eru að verða yfirunnin og þá er vonast til að hægt verði að keyra á fullu gasi. Það eru margir spennandi hlutir framundan. Yngri krakkarnir í Ármanni stóðu sig vel á stórmótinu. Fyrir tveimur árum var deildin afar fámenn en nú eru rúmlega 100 áhugasamir krakkar sem æfa og keppa undir merkjum félagsins. Það verður gaman að fylgjast með þvi hvernig þau pluma sig í framtíðinni.

Ég var afar rólegur í hlaupunum í janúar. Ég fann það að ég var orðinn mattur og langaði ekki beint til að fara út á morgnana að hlaupa. Þá var ekki annað að gera eins og ég hef verið að predika, að hlusta á skrokkinn. Það var fínt að sofa út á morgnana og láta skóna liggja hreyfingarlausa í nokkrar vikur. S'iðan vaknaði allt aftur og nú er allt komið á skrið aftur. Ég var búinn að vara nær því stanslaust að í tvö ár svo það var orðið nauðsynlegt að taka smá hlé.

Hin meintu njósnamál tvö sem hafa komið upp að undanförnu eru dálítið sérstök. Það segir sig sjálft að tölva sem hefur ekki IP tölu, hefur engin fingraför og er alveg auðkennalaus er ekki venjuleg tölva. Vitaskuld hefði einhver getað sett tölvu í sambandi við innanhússkerfi Alþingis og gleymt henni þar en þessi hlið málsins gerir það allt öðruvísi. Allar venjulegar tölvur eru með IP tölum og löðrandi í fingraförum. Þegar þekktur tölvuhakkari hefur verið að sniglast þarna um er ekki nema eðlilegt að það séu lagðir saman tveir og tveir. Útoman er allavega þrír og hálfur. Það þýðir ekki annað en að bregðast við svona uppákomum af fullri alvöru. Merkilegt er þó að það skuli hafa verið þagað yfir málinu í rúmt ár. Hin uppákoman er dálítið fyndin. Það er alþekkt að það er reynt að koma flugumönnum inn í raðir allskonar hópa sem eru með æsing, undirróður og mótmæli. Nú hefur það komist upp að í hópi svokallaðra aðgerðasinna sem fór sem mest við Kárahnjúka hafi verið breskur flugumaður. Það virðist sem svo að það pirri viðkomandi einstaklinga mest er að einhverjar stelpur úr hópnum hafi orðið skotnar í flugumanninum. Það er eins og það hafi verið framin hálfgerð helgispjöll. Það er næstum því svo að það virðist vera alvarlegra í hugum sumra miðað við umræðuna að flugumaður hafi leynst í hópi aðgerðasinna heldur en að njósnatölvu hafi verið stungið í sambandi við innanhússkerfi Alþingis.

85% þjóðarinnar vilja lögleiða staðgöngumæðrun hérlendis. Bara si svona. Umræðulaust og skoðunarlaust. Hlaupa eftir þeim sem hæst gala. En náttúrulega bara í greiðaskyni. Mín skoðun er að ef lögleiða á staðgöngumæðrun hérlendis í greiðaskyni þá eigi líka að lögleiða vændi en náttúrulega bara í greiðaskyni. Bara við smá vangaveltur vakna til að mynda þessar þrjár spurningar:
1. Hvað ef staðgöngumóðir neitar að afhenda barnið þrátt fyrir samning þar um?
2. Hvað ef væntanlegir foreldrar neita að taka á móti barninu vegna einhverra ástæðna þratt fyrir samning þar um?
3. Hvernig á að skrá barn fætt af staðgöngumóður í þjóðskrá með tilliti til systkina þess og skyldeika við þau?

Þetta eru spurningar sem rétt er að velta fyrir sér á meðan næstu skoðanakönnun um staðgöngumæðrun er svarað.

Ég skil ekki í þeim sem standa að Gufubaðinu á Laugarvatni að kalla það "Fontana". Þýðir Fontana ekki gosbrunnur eða eitthvað svoleiðis á erlendum málum?

þriðjudagur, janúar 18, 2011

Freddie & The Dreamers - You Were Made For Me (1964)

Hafdís stökk sex metra í síðasta stökki langstökkskeppninnar á RIG


Það hefur spunnist nokkur umræða út af þeim orðum sem ég lét falla á blogginu um helgina um að félögin sem standa að frjálsíþróttakeppninni á RIG leikunum þurfi að greiða RUV fyrir beina útsendingu frá mótinu. RUV hefur borið þetta til baka og segir að stóru kostunaraðilar RIG leikanna greiði þennan kostnað alfarið. Málið liggur mjög einfaldlega fyrir frá mínu sjónarhorni. Frjálsíþróttadeildir ÍR, Ármanns og Fjölnis standa að frjálsíþróttakeppni RIG leikanna ásamt FRÍ. Félögin bera alla fjárhagslega ábyrgð á þessum viðburði og annast framkvæmd hans. Starfsmenn FRÍ aðstoða þau á margan hátt, annast fjármálalega umsýslu og leggja síðan fram uppgjör fyrir félögin að mótinu loknu. Það kostar peninga að halda svona mót þrátt fyrir gríðarlega mikla sjálfboðavinnu. Tekna er aflað fyrir mótið fyrst og fremst á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er safnað auglýsingum og styrktarlínum frá ýmsum fyrirtækjum (öðrum en meginstyrktaraðilum RIG) og öðrum aðilum sem styðja við bakið á frjálsíþróttastarfi í landinu. Margt smátt gerir eitt stórt. Auglýsingarnar og styrktarlínurnar birtast í leikskrá sem gefin er út fyrir frjálsíþróttakeppnina og dreift á henni. Í öðru lagi er seldur aðgangur inn á mótið. Það gefur nokkra tíuþúsundkalla af sér en megintekjuöflunin er af sölu auglýsinga og styrktarlína eins og áður segir. Keppendur fá hins vegar fría drykki frá Egils Kristal er er einn meginkostunaraðili RIG. Í uppgjöri fyrir mótið sem haldið var á árinu 2010 og lagt var fyrir félögin að því afloknu kemur fram að kostnaður við beina sjónvarpsútsendingu frá mótinu hjá RUV var 300.000 krónur. (Leiðrétting. Í endanlegu uppgjöri til félaganna var kostnaður vegna sjónvarpsútsendingar hjá RUV 225.000 kr en ekki 300.000 kr. ÍBR greiddi mismuninn. Í bráðabirgðauppgjöri hafði verið reiknað með að félögin greiddu 300.000 kr. Þessi munur breytir hins vegar ekki grundvallaratriði umræðunnar.) Engar tekjur frá meginkostunaraðilum RIG leikanna komu þar á móti. Tap var á mótinu í fyrra þannig að félögin þurftu að greiða hallann úr eigin vasa. Svoleiðis var niðurstaðan þrátt fyrir ítrasta sparnað á öllum sviðum. Það er hægt að diskútera það fram og til baka hvaða krónur fóru til að greiða hvaða reikning en svona er þetta. Endanlegt uppgjör vegna mótsins í ár liggur ekki fyrir en í fjárhagsáætlun sem sett var upp vegna þess er gert ráð fyrir útgjöldum vegna beinnar sjónvarpsútsendingar. Hún er unnin samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir þegar áætlunin var gerð. Ef frjálsíþróttadeildirnar sleppa við að greiða RUV fyrir beina útsendingu frá mótinu í ár þá er það bara fínt en það er þá annað og betra fyrirkomulag en unnið var eftir í fyrra.

mánudagur, janúar 17, 2011

Freddie and the Dreamers do the Freddie

Gamla kirkjan í Reykholti


Maður er náttúrulega bara venjulegur einfaldur einstaklingur sem fylgist með umræðunni eins og hún kemur fyrir utan frá séð. Yfirleitt verður maður að trúa því að það sem þeir segja sem eru nær miðju hringiðunnar sé skynsamlegt og viturlegt. Það er hlutverk þeirra sem eru virkir í stjórnmálaflokkum að leita leiða til lausna á þeim viðfangsefnum sem við er að fást í samfélaginu. Það kemur þó fyrir að það er erfitt að ná samhengi í hlutina. Það á til dæmis við þegar ályktun um afnám ójöfnun kvótakerfis sem samþykkt varí fyrradag er lesin yfir.
Hér er yfirlit um helstu atriðin sem vefjast fyrir mér:
1. "Innleiða skal án tafar nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggir á jöfnum rétti landsmanna til nýtingar fiskimiðanna." Hvað skyldi þessi setning þýða? Eiga allir landsmenn að hafa jafnan rétt til nýtingar fiskimiðanna. Það er heimilt að veiða ca 160 þúsund tonn af botnfiski. Það þýðir ca. hálft tonn á hvern íslending. Á hver íslendingur að fá senda ávísun á hálft tonn af botnfiski hvar á stendur: "Þú mátt veiða hálft tonn!" Hvað veit ég. Varla trúi ég að viðkomandi stefni að óheftri sókn á fiskimiðin. Að vísu held ég að það megi veiða meir en gert er í dag en það skiptir máli með hvaða aðferðum það er gert. Á að fara í ólympískar veiðar? "Fyrstur kemur fyrstur fær". Þessi setning vekur fleiri spurningar en hún svarar.
2. "..að eignarhald fiskveiðiauðlindarinnar liggi ótvírætt hjá þjóðinni." Hvað þýðir þetta? Hvað er þjóðin? Er það ríkið? Hvað þýðir "Eignarhald á fiskveiðiauðlindinni?" Er það að landsmenn fá senda ávísun á einhver tonn í pósti og þeir mega gera það við hana sem þeir vilja? verður ávísunin framseljanleg? Ef svo er þá munu líklega flestir selja ávísunina einhverju fyrirtæki sem ætlar að starfa við sjávarútveg af alvöru? Eða þýðir þetta að fiskveiðiauðlindin verði þjóðnýtt og ríkið leigi út aðganginn að fiskimiðunum? Hvað með þá sem hafa keypt afnotarétt af henni í gegnum árin? Fá þeir skaðabætur ef hann verður þjóðnýttur? Þetta statement vekur fleiri spurningar en það svarar.
3. "...og að réttlátur arður af veiðunum renni til fólksins í landinu" Hvað þýða orðin "... að renna til fólksins í landinu?" Á hver einasti íslendingur að fá aura inn á sína bankabók beint frá sjávarútvegnum? Er verið að telja fólki trú um slíka hluti? Er fólkið í landinu skilgreint það sama og ríkissjóður eða er meiningin einhver önnur. Hver er hún þá? Ég hélt að skattlagning væri almennt viðurkennd aðferð til að láta atvinnulífið skila réttlátum arði til þjóðarinnar. Ef skatttekjur einhverrar atvinnugreinar eru of litlar að bestu manna yfirsýn þá eru skattarnir hækkaðir hvaða nafni sem þeir nefnast. Hér á árum áður var lagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði því ríkisstjórn þess tíma leit svo á að gróði þessara fyrirtækja og stofnana væri svo mikill. Hvaða aðferð önnur er möguleg? Er það sama ávísanaaðferðin sem áður er minnst á? Því skýrar sem talað er því betra.

Ég minntist á það fyrir nokkrum vikum að mér findist vera áþekkur keimur af umræðunni um sjávarútveg og útgerðarmenn hérlendis eins og rætt var um kúlakkana (sjálfseignarbændur) í Sovétríkjunum á Stalínstímanum. Kúlakkarnir voru óþjóðhollir og störfuðu á móti hagsmunum alþýðunnar samkvæmt skilgreiningu flokksbroddanna. Það er fróðlegt að rifja upp örlög þeirra sem stéttar. Fleiri áþekk dæmi má tína til frá fyrri áratugum þar sem spjótunum að ákveðnum þjóðfélagshópi með oft allrahanda afleiðingum. Nú barst sú hræðilega frétt um samfélagið fyrir helgina að einstaklingur af hinni voðalegu stétt "útgerðarmanna" hefði keypt þrjár dýrar vínflöskur í Fríhöfninni. Útgerðarmaður / kúlakki, tónninn er sá sami. Í fyrsta lagi má spyrja hvort starfsmenn fríhafnarinnar séu yfirleitt á útkikki yfir því hvað einstakir viðskiptamenn eru að kaupa? Hvaða rétt hafa þeir til að básúna það út um víðan völl? Hafa síðan einstakir menn ekki heimild til að eyða sínum peningum á þann hátt sem þeir vilja? Hefði það orðið fréttaefni og hneikslunarefni ef þessi sami maður hefði keypt sér myndavél fyrir álíka pening? Ég má kaupa dýrar vínflöskur í Fríhöfninni ef mig langar til. Það kemur það bara ekki nokkrum manni skapaðan hlut við nema kannski heimilisfólkinu hér í Rauðagerðinu. Það gæti verið að það yrði gerð athugasemd hér á heimilinu við slíka forgangsröðun á innkaupalistanum en það er bara allt annað mál.
Útgerðarmenn reka framleiðslufyrirtæki. Þeir stuðla að atvinnusköpun. Sjávarútvegurinn er mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Sala sjávarútvegsafurða úr landi skapar gjaldeyri. Fyrir gjaldeyrinn getum við keypt vörur frá útlandinu sem samfélagið telur sig vanhaga um. Þannig er samhengi hlutanna. Nú ætla ég ekkert að halda því fram að allir útgerðarmenn séu einhverjir englar. Þeir eru vafalaust misjafnir eins og aðrir. Sama má segja um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er ekki fullkomið frekar en annað sem alþingismenn ákveða. Hins vegar er það gersamlega út úr öllu korti að útmála eina stétt manna sem einhversskonar þjóðníðinga í opinberri umræðu.

sunnudagur, janúar 16, 2011

Dave Clark Five - Glad All Over

Ábæjarkirkja í Austurdal


RIG leikarnir voru á helginni. Frjálsíþróttamótið var í gær og gekk mjög vel. Frá því ég fór að fylgjast með frjálsum íþróttum í nýju höllinni þá man ég ekki eftir að krakkarnir hafi komið almennt svona vel inn í fyrsta alvörumót vetrarins. Það var fullt af bætingum, íslandsmet sett í boðhlaupum og yfir höfuð fínn árangur. Nú rekur hvert mótið annað og verður gaman að sjá hvernig þau ganga fyrir sig. Nokkur eru alveg á mörkunum með að komast inn í EM innanhúss sem setur extra kraft á ástundun og elju. Aðrir hafa lengri tíma markmið s.s. ólympíuleikana 2012 í London og þeir sem yngri eru setja markið á ólympíuleikana 2016 (sem verða haldnir í Brasilíu). Það var sýnt beint frá frjálsíþróttamótinu í gær. Það var tveggja tíma útsending. Ég horfði á hana í dag og fannst þetta vera fínt sjónvarpsefni, nóg að gerast, spenna og keppni og undirspilið var lífleg kynning og lýsingar Sigurbjörns Árna. Fyrir þetta þurftu félögin sem stóðu fyrir frjálsíþróttamótinu að borga RUV 300 þúsund kall. Peningar á borðið er eina leiðin til að koma svona keppnum á framfæri í gegnum sjónvarp. Þetta er einnig eina innanhússmótið á árinu sem er með erlendum keppendum. Það verður fróðlegt að sjá umfjöllunina um mótið og þann árangur sem þar náðist í blöðunum á morgun miðað við allt það pláss sem miðlungsgóðir og oft lélegir boltaleikir fá. Þar eru heilu síðurnar teknar undir lýsingar á misgóðum leikjum viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Ef tekst að kynna gott frjálsíþróttfólk fyrir þjóðinni þá eykst áhugi á íþróttinni. Strákana okkar og stelpurnar okkar er nefnileg ekki bara að finna í boltaíþróttum.

Ég hef skoðað staðgöngumóðurumræðuna aðeins á netinu. Eftir því sem ég skoða hana betur því ógeðslegra finnst mér þetta fyrirbæri vera. Það eru til fleiri tugir ef ekki yfir eitt hundrað stofnanir eða klínikkir í Indlandi sem eru í barnaframleiðslu fyrir auðuga útlendinga. Yfirleitt eru stelpurnar sóttar í slömminn og boðið of fjár á þeirra vísu fyrir viðvikið. Þær hafa enga valkosti þannig að niðurstaðan er einföld. Það væri að vísu fróðlegt að sjá hvað mikið endar í þeirra vösum fyrir það sem fólkiðgreiðir. Það hefur farið fram mikil umræða um vændi hérlendis á undanförnum árum. Að því borði komu margir sjálfskipaðir sérfræðingar og allsherjar vitringar. Eitt af fyrstu verkum Alþingis eftir að núverandi flokkar komust til valda var að banna vændi. Í þeirri umræðu var feministafélagið framarlega í flokki. Það er því athyglisvert að það hefur ekki heyrst múkk frá félaginu í sambandi við þessa umræðu það ég hef séð. Mér finnst það síðan undarlegt að fjölmiðlamönnum skuli ekki hafa dottið í hug að googla umræðuna um staðgöngumæðrun á Indlandi (indian baby factory) á netinu. Kannski þeir séu svo uppteknir af snakkinu að þeir hafa ekki áhuga á þessari umræðu að öðru leyti en því að bíða eftir þvi að "Jóel litli" komi "heim". Maður þarf ekki að leita lengi á netinu til að sjá frásagnir af fólki sem hefur lent í nákvæmlega sömu aðstæðum og íslensku hjónin sem eru núna strand úti í Indlandi. Svo er verið að reyna að láta svo líta út að tímafrek afgreiðsla sé vegna persónulegrar eða pólitískrar stífni í stjórnkerfinu hérlendis.
Það virðist vera búið að stofna félag hérlendis þar sem viðkomandi ætla að veita þessa þjónustu í algeru greiðaskyni. Hvernig á að vera hægt að skera úr um það? Umræðan kringum þetta mál sem hefur farið fram hérlendis að undanförnu hefur að mestu leyti verið svo frumstæð að það er með ólíkindum. Ég hef ekki heyrt í nema einni manneskju í fjölmiðlum sem hefur komið inn á siðfræðilega þáttinn. Hinir virðist líta svo á að það sé bara gullna reglan sem gildi. Hún er svona: "Sá sem á gullið setur regluna."

föstudagur, janúar 14, 2011

Manfred mann - Do wah diddy

Gilsbakki í Austurdal

Ég er stundum pirraður á fjölmiðlum. Vafalaust er vinnuaðstaða fjölmiðlamanna ekkert alltof góð. Þeir fá lítinn tíma til að vinna að undirbúningi og vinnslu frétta og þá er oft stysta leiðin sú auðveldasta. Oft er því tekið fegins hendi við því sem fólk er að hringja inn og vill koma á framfæri. Þó verður sú skylda ekki tekin af fjölmiðlamönnum að sigta það út sem á erindi í fjölmiðla og hvað á alls ekki erindi þangað. Svo er ruglið svo mikið á stundum að maður getur ekki séð annað en að fjölmiðlamenn séu að misnota aðstöðu sína gróflega. Nú er ekki hægt annað en að gera mikinn greinarmun á einkareknum fjölmiðlum og RUV. Einkareknir fjölmiðlar standa og falla með þeim sem borga af fúsum og frjálsum vilja hvort sem það eru auglýsingar eða áskriftargjöld. Öðru máli gegnir um RÚV. Hver einasti íslendingur yfir ákveðnum aldri er þvingaður til að greiða þeim rekstrarfé. Maður hefur ekkert val um það. Því er rétt að gera meiri kröfur til RUV um fagmennsku heldur en annarra fjölmiðla. Eitt allra grófasta dæmið um það sem maður getur ekki túlkað öðruvísi en beina misnotkun sem ég hef séð lengi kom fyrir í Kastljósi á miðvikudagskvöldið. Flestir hana heyrt getið um níumenningana svokölluðu sem ruddust inn í Alþingishúsið fyrir tæpum tveimur árum síðan og fóru þar um með óspektum að því manni skilst. Alla vega kærði Alþingi þá og er málið rekið fyrir dómsstólum. Þar hefur oltið á ýmsu. Mágkona eins þessara níumenninga fékk að koma í Kastljós á miðvikudaginn var og gera tvennt. Í fyrsta lagi fékk hún að auglýsa styrktartónleika fyrir þessa níumenninga. Það er í sjálfu sér of langt gengið ef ákveðið fólk fær aðgengi að Kastljósi til að auglýsa persónuleg áhugamál sín. En í öðru lagi fékk hún að fimbulfamba heillengi þar sem hún útmálaði ranglæti dómskerfisins fyrir að höfða mál á hendur þessu fólki og hvað það hefði átt erfitt á þessum tveimur árum. Fá aðstandendur allra sem eiga skyld- eða tengdafólk sem stendur í málaferlum tækifæri til að koma í Kastljósið og úthúða dómskerfinu? Vitaskuld ekki. Þarna var því í fyrsta lagi gert gróflega upp á milli fólks og í öðru lagi var vegið mjög gróflega að réttarríkinu. Þrískipting ríkisvaldsins er framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Þau eiga að starfa algerlega sjálfstætt hvort frá öðru. Löggjafarvaldið setur lög. Framkvæmdavaldið framkvæmir hlutina eftir því sem lög segja fyrir um og dómsvaldið dæmir eftir gildandi lögum. Þetta er grundvöllur réttarríkisins. Það er ekki hlutverk ríkisútvarpsins að grafa undan dómskerfinu í landinu. Þetta mál fer sína leið eins og önnur. Það hefur verið gerð gríðarlega hörð atlaga að dómkerfinu í tengslum við þetta mál og leitað allra leiða til að fá löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið til að grípa inn í verksvið dómsvaldsins. Það er semsagt sótt mjög hart að réttarríkinu. Að ríkisútvarpið skuli stökkva inn á þann leikvöll segir manni meir en margt annað um principleysið sem ríkir uppi á Efstaleyti eða er það kannski svo, sem er miklu verra, að RUV hafi tekið afstöðu og skipi sér í sveitina sem vill veikja dómskerið í landinu. Ef ég hefði um það val myndi ég hætta á stundinni að greiða afnotagjöld til RUV vegna framgöngu stofnunarinnar í þessu máli. Fréttamaður sem hleypir svona löguðu í gegn er óhæfur til starfa og fréttastjórinn sömuleiðis að mínu mati.

Það hefur verið rætt mikið að undanförnu um staðgöngumálið svokallaða. Utan að frá séð virðist mér þar koma fram allir verstu eiginleikar íslendinga. Staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi. OK, þá er bara farið til einhvers lands þar sem auðvelt er að fá fátækt fólk til að ganga í verkið gegn hóflegri greiðslu. Málið er ekki skoðað til hlítar heldur vaðið af stað í þeirri trú að peningar séu það afl sem til þarf. Þetta muni allt reddast. Engar áhyggjur virðast hafa verið gagnvart því að erfitt gæti verið að koma með barnið til landsins þrátt fyrir að staðgöngumæðrun sé bönnuð hérlendis. Fyrst mánuði áður en barnið fæðist er farið að skoða þá hlið mála með aðstoð lögmanns. Þegar barnið er fætt þá er farið í fjölmiðla og vandræðum lýst. Það er leiðin til að hafa áhrif á stjórnkerfið. Beita þrýstingi í gegnum fjölmiðla. Fá vorkunn almennings. Láta Facebook safna "like" um. Alþingi hleypur upp til handa og fóta og skenkir barninu íslenskum ríkisborgararétti samdægurs (eða allavega mjög fljótt) þrátt fyrir að staðgöngumæðrun sé ólögleg hérlendis. Það þarf að redda málunum þegar allt er komið í ógöngur. Hvar eru principin, hvar er ígrunduð umræða? Svona löguð vinnubrögð eru ekki til að bæta virðingu Alþingis. Í allri umræðunni heyrði ég aldrei minnst á siðfræðilegar spurningar fyrr en í Kastljósi nýlega þegar þá hlið málsins bar loks á góma. Það er farið að saka ráðuneytið um pólitíska misbeitingu valds þegar ekki fæst allt sem um er beðið eins hratt og viðkomandi vilja. Reglur og formfesta eru bara til trafala. Til að bíta höfuðið af skömminni vilja einstaka þingmenn vaða í að leyfa staðgöngumæðrun hérlendis bara si svona. Ég heyrði lesið upp bréf frá einhverri konu í RUV nýlega sem virtist ekki geta beðið eftir því að fara að byrja. Eru virkilega engin takmörk fyrir ruglinu?

Hvað væri gert ef einhvert fólk hefði farið erlendis og keypt barn einhversstaðar úti á götu? Barnið hefði verið staðgreitt og fólkið væri með undirskrifaðan samning þess efnis að það ætti barnið með öllum rétti og hefði innt kaupverðið af hendi að fullu. Það sæti svo uppi með barnið og enginn vildi taka það til baka í heimalandi þess? Það hefðu að vísu komið upp einhver smá vandræði með vegabréfsáritun og annað álíka smotterí. Myndi Alþingi stökkva til og redda málunum eins og að drekka vatn. Líklega.

miðvikudagur, janúar 12, 2011

the kinks- you really got me (Rokkið er ekki dautt)

Hvítárnes á Kili

Árangur í hlaupum er afstæður eins og í öðrum íþróttum. Erfitt er að bera saman árangur milli einstakra íþróttagreina eins og mikið hefur verið rætt um í sambandi við kjör á íþróttamanni ársins. Einnig er erfitt að bera saman árangur í hlaupum því þau eru ólík að lengd og erfiði. Til að átta sig á stöðu einstakra manna er helst mögulegt að sjá hvar viðkomandi stendur í samanburði við aðra sem hafa hlaupið hlaup sömu gerðar. Það er heldur ekki alveg einfalt að bera saman árangur í hlaupi sömu gerðar. Í fyrsta lagi hlaupa konur heldur hægar en karlar að öðru jöfnu. Margar íslenskra konur hafa hlaupið maraþon á skemmri tíma en ég og það er einfaldlega vegna þess að þær eru betri maraþonhlauparar en undirritaður. Aftur á móti er sú kona einnig betri hlaupari en ég ef við hlaupum maraþon á sama tíma því konur eru yfirleitt heldur kraftminni en karlar að öðru jöfnu. Fleira skiptir einnig máli í þessu sambandi. Þar má til nefna aldur keppenda. Yfirleitt fer að slakna á líkamsgangverkinu upp úr þrítugu. Þannig eru eldri hlauparar yfirleitt hægari en þeir yngri að öðru jöfnu. Það er bara staðreynd. Því er það mun betri árangur hjá fimmtugum manni en þeim sem þrítugur er ef þeir hlaupa á sama tíma. Það getur einnig verið betri árangur hjá þeim fimmtuga en þeim þrítuga enda þótt hann sé eitthvað á eftir þeim þrítuga. Sá sem hleypur hraðast fær verðlaunin en afrek hins sem eldri er getur verið mun meira því sá yngri hefur ákveðna forgjöf sem felst í aldrinum.
Það rifjaðist upp fyrir mér fyrir skömmu að ég greip einu sinni niður í hlaupabók í bókabúð í London. Í henni voru samanburðartöflur á samspili aldurs og hraða. Með þessum töflum var hægt að bera árangur fimmtugs manns í maraþoni saman við árangur þrítugs manns. Bókina keypti ég náttúrulega ekki eins og gengur. Ég prófaði því að googla og viti menn, það var tengill á fyrstu síðunni sem kom upp þar sem birt var slóð á reikniverk sem gerir svona samanburðarfræði mögulega. Ég sló inn leitarorðin marathon og age og það reyndist vera nóg.
Síðan heitir Age Equivalent Times Calculator og slóðin á þessa reiknivél er: www.marathonguide.com/fitnesscalcs/ageequivalent.cfm

Ég þekki ekki vísindin sem liggja á bak við þessa útreikninga. Kannski er þetta bara samkvæmisleikur sem einhverjir hafa gaman af að dútla við en mögulega er þetta reiknað út efir nokkuð vísindalegum aðferðum. Hvað veit ég? Hins vegar veit ég svo mikið að það er til fyrirbæri sem heitir mismunandi hár aldur og yfirleitt er það viðurkennt að hraði, snerpa og kraftur minnkar heldur þegar árin færast yfir.

Með þessari reiknivél er til dæmis hægt að bera saman á jafnstöðugrunni afrek þeirra, sem tilnefnd voru til langhlaupara ársins á hlaup.is fyrir skömmu og höfðu gefinn upp tíma í maraþonhlaupi. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

föstudagur, janúar 07, 2011

Iron Maiden - Run To The Hills

Þorbergur Ingi hljóp Laugaveginn á ótrúlegum tíma árið 2009

Kjör íþróttamanns ársins 2010 er afstaðið. Sem betur fer eru augu æ fleiri að opnast fyrir því að núverandi fyrirkomulag er langt í frá í lagi. Að láta örfáa menn hafa einokun á því að skilgreina hvað eru íþróttir og hvað ekki með því að hafa ákvörðunarvald á því um hvað er fjallað nær náttúrulega ekki nokkru lagi. Að láta þessa sömu klíku síðan ráða því hverjir eru taldir bestu íþróttamenn landsins er grein af sama meiði. Niðurstaðan er náttúrulega eftir þessu. Þessi litli hópur hefur talið sjálfum sér trú um að boltagreinar séu vinsælustu íþróttagreinar landsins af þvi það er það sem þeir þekkja og hafa vit á og þar af leiðandi hljóti bestu íþróttamenn landsins yfirleitt að koma úr boltagreinum. Fyrst og fremst er náttúrlega verið að tala um handbolta og fótbolta. Karfan hangir þarna svo sem með en ekki meir en það. Mér finnst niðurstaðan úr kjöri á íþróttamanni ársins vera mjög umdeilanleg. Auðvitað hljóta alltaf að vera mismunandi skoðanir á þessari niðurstöðu en sama er. Ég skil einfaldlega ekki hvers vegna Alexander Petterson sé talinn besti íþróttamaður landsins með fullri virðingu fyrir honum. Það er t.d. ekki vafi hvern ég myndi frekar velja í mitt handboltalið, Ólaf Stefánsson eða Alexander, og það er ekki Alexander. Hann sýndi ekkert sérstakt í handboltanum í Þýskalandi á síðasta keppnistímabili og vann enga titla. Að láta eitt flott atvik úr leiknum við Pólverja ráða úrslitum um kjörið er dálítið dæmigert fyrir rörsýnina hjá íþróttafréttamönnum. Hvor skyldi nú vera betri körfuboltamaður og hafa náð lengra, Hlynur Bæringsson eða Jón Arnór. Ekki spurning í mínum huga en ég held að Jón hafi ekki komist á blað. Hvað með Helenu körfuknattleikskonu sem er að gera virkilega góða hluti í Bandaríkjunum. Í verklýsingu íþróttafréttamanna er talað um að taka skuli tillit til reglusemi, ástundunar og annarra hluta en beins mælanlegs árangurs. Sjö af þeim tíu sem voru efstir eru atvinnumenn og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en íþróttina. Íris fimleikastúlka þarf að afla sjálf farareyris á öll mót eins og hinar Gerplustúlkurnar með sölu á klósettpappír, vinnu og á annan hátt því styrkir hafa engir fengist. Það má síðan ekki gleyma því að Gerplustúlkurnar hafa tvö síðastliðin ár orðið nr. 2 á Evrópumeistaramótinu og þá hafa þær ekki komist á blað í þessu kjöri. Það þurfti sem sé Evrópumeistaratitil til að eftir þeim væri tekið. Helga Margrét er í skóla meðfram æfingum en ég veit ekki um sundstúlkuna. Ásdís Hjálmsdóttir sem komst ekki í topp tíu yfir íþróttamenn ársins er besta spjótkastkona á Norðurlöndum og í 22. sæti í heiminum. Hún komst í úrslit á EM í sumar og fékk boð um að keppa á mörgum demantamótum í sumar. Jafnframt þessu öllu er hún að ljúka meistaragráðu í lyfjafræði sem er ekki léttasta nám sem hægt er að finna. Samt sem áður kemst hún ekki í hóp þeirra tíu efstu þrátt fyrir ákvæði um að taka skuli tillit til eins og annars fyrir utan beinan mælanlegan árangur við kjörið. Strákurinn sem vann gullverðlaun á Ólympíuleikum í brettaíþróttum kemst ekki á blað. Þar dugði Ólympíumeistaratitill ekki einu sinni til að íslensku sérfræðingarnir myndu eftir honum. María Guðsteinsdóttir sem varð norðurlandameistari kvenna í kraftlyftingum kemst ekki á blað. Sölvi Geir, sem var kosinn besti leikmaðurinn í danska fótboltanum fyrir góðu ári síðan og skaut FCK í meistaradeildina rétt kemst á blað með ein 2 stig. Hvað hefur Grétar Rafn sýnt umfram Sölva? Ekkert það ég man nema að hann spilar í ensku deildinni.
Morgunlaðið ítrekar enn einu sinni þá skoðun sína að það lítur ekki á langhlaup sem íþrótt því frétt um kosningu um langhlaupara ársins er sett með fréttum af fiskigengd og einhverju álíka (með fullri virðingu fyrir fiskigengd). Það þykir hins vegar íþróttafrétt sem á mikið erindi tíl íslendinga að þjálfari í einhverju þýsku liði hafi verið rekinn.

miðvikudagur, janúar 05, 2011

RED RUSSIAN ARMY CHOIR AND LENINGRAD COWBOYS "Kalinka"

Þinghúsið í Búdapest var miðpunktur innrásar Sovétmanna í Ungverjaland árið 1956

Ég keypti mér nýlega bókina Sovét Ísland - Óskalandið og er búinn að lesa hana. Thor Whitehead sagnfræðingur skrifar bókina og hefur lagt í hana gríðarlega vinnu eftir þeim heimildum að dæma sem hann hefur notað við vinnslu bókarinnar.

Ég hef lagt á það dálitla áherslu á liðnum misserum að lesa bækur um sögu kommúnismans, bækur um Stalín, Maó og fleiri framámenn á þessu sviði til að geta betur gert mér grein fyrir því sem fór í raun fram. Sú mynd sem þau Pótemkímtjöld sem stillt var upp um kommúnismann gegnum áratugina er afar ólík raunveruleikanum þegar betur er að gáð. Mér finnst þvi það vera ómaksins virði að kynna mér hlutina betur. Ástæða þess er meðal annars sú að ég var meðlimur í Alþýðubandalaginu frá árinu 1975 og hélt síðan áfram í Vinstri Grænum eftir að sá flokkur var stofnaðir. Leiðir skyldu hinsvegar að fullu fyrir um 10 árum síðan. Alþýðubandalagið var arftaki Sósíalistaflokksins sem aftur á móti var arftaki Kommúnistaflokksins. Mér finnst vera full ástæða til að gera þennan tíma upp því tíminn hefur leitt í ljós að ýmsilegt hefur reynst hafa verið á annan veg en af var látið. Kommúnisminn gaf sig út fyrir að hafa hagsmuni almennings og verkafólks sem sitt leiðarljós en sagan sýnir að ekkert var fjarri sanni. Í nafni hans hafa verið framin svo hryllileg grimmdarverk og óskapleg kúgun að nasisminn bliknar í þeim samanburði og skal þó ekkert dregið úr þeim ógnarverkum sem framin voru í nafni hans. Það er vafalaust hægt að fara í ítarlegar útlistanir á muninum á sósíalisma og kommúnisma en ég hef ekki talið það vera þess virði að fara í slíkar vangaveltur. Það er skyldleiki á milli skeggsins og hökunnar.

Ég hef lesið bók Einars Karls og Ólafs Einarssonar um Gúttóslaginn árið 1932. Í Gúttóslagnum var lögreglan í Reykjavík barin í klessu. Margir lögreglumanna voru stórslasaðir þannig að þeir biðu þess aldrei bætur. Ríki sem getur ekki haldið uppi lögum og reglu er í raun og veru ekkert ríki. Því hékk tilvera íslenska ríkisins í raun á bláþræði á þessum tíma.
Um Gúttóslaginn var alltaf talað þannig eins og þar hefðu hungraðir verkamenn verið að berjast fyrir tilveru sinni og framfærslu. Samkvæmt bókinni Sovét Ísland er það mjög röng mynd. Í raun var Gúttóslagurinn manndómsraun harðsvíraðs kjarna byltingarsinna sem höfðu verið þjálfaðir í byltingarskóla hjá kommúnistum í Moskvu. Það er allt annar hlutur en að slást fyrir mat. Fleiri átök af svipuðum toga sem áttu sér stað á þessum tíma eru tilgreind í bókinni. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í miklum samskiptum við Komintern (Kommúnistisku alþjóðasamtökin) í Moskvu og fengu þaðan fyrirmæli og ráðgjöf. Það má segja ef rétt er með farið í bókinni að það hafi verið styttra í en ætla mætti í fljótu bragði að kommúnistar næðu undirtökum í samfélaginu hér með valdbeitingu en ætlað hefur verið til þessa. Nærtækast er að líta til Eystarasaltsríkjanna um hvernig mál hefðu skipast hérlendis ef sú hefði orðið raunin.

Við lestur bókarinnar fékk ég smátt og smátt tilfinningu fyrir að það er eitt og annað líkt í umræðunni í dag og umræðunni eins og hún var á árunum í kringum 1930 þegar komúnisminn fór að skjóta rótum fyrir alvöru.

Í þeim tíma var samfélaginu skipt upp í "burgeisa" og "verkalýð". Burgeisar voru birtingarmynd yfirstéttarinnar sem verkalýðurinn átti undir högg að sækja gegn. Þetta minnir mig á umræðuna um karla og konur á liðnum árum. Svokölluð kvenfrelsisumræða er hátt skrifuð hjá mörgum evrópskum vinstri flokkum sem áður hölluðust að kommúnisma. Karlahatur er algengt hjá öfgafullum feministum. Körlum nútimans er kennt um allt það sem ýmsum konum finnst hafa sér verið misgert í gegnum aldirnar. Afar vinsælt er hjá mörgum að gera lítið úr körlum.
Sjálfseignarbændur (kúlakar) voru ofsóttir í Sovétríkjunum. Ástæða þess ar að þeir voru taldir hafa verið í uppreisn gagnvart samyrkjuvæðingunni,spekúlerað með korn og selt það öðrum en ríkinu eftir að þeir voru neyddir til að setjast á "samvinnubú". Þetta minnir mig ögn á umræðuna um sjárvarútveginn hérlendis. Grimmur áróður dynur á þeim reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hamrað er á nauðsyn þess að koma auðlindum (les: kvóta í sjávarútvegi) í eigu þjóðarinnar hvað sem það nú þýðir. Þeir sem enn starfa við sjávarútveg eru látnir gjalda þess af einhverjir eru ósáttir við þá sem seldu sig út úr greininni. Hamrað er á að allur kvóti sé gjafakvóti þrátt fyrir að um 90% þess kvóta sem er notaður í dag hafi verið keyptur.
Lögreglan sem hefur það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í landinu var kölluð "meindýr", "blóðhundar auðvaldsins", óðir hundar fasismans", "sníkjudýr" og "rakkar". Þannig var alið á hatri og fordómum á lögreglunni með markvissum og áróðri sem átti að gera það léttbærara að lúskra á henni ef tækifæri biðist. Þetta minnir mig dálítið á þann fréttaflutning og umræðu um lögregluna hérlendis sem hefur verið til staðar hérlendis á undanförnum misserum þrátt fyrir að orðavalið hafi verið heldur siðaðra en á tímum kommúnistaflokkins. Hún er sökuð um hrottaskap, ofbeldi, misbeitingu valds og ég veit ekki hvað við minnstu og óverulegustu tilefni. Fréttamenn fjölmiðla hafa ekki verið barnanna bestir í þeim efnum. Rétt er að rifja upp þegar einn náunginn nuddaði sér upp við lögregluþjón og piraði hann þar til lögreglan ýtti við honum svo náunginn sté eitt skref aftur af gangstétt. Annar lá í leyni og tók mynd af öllu sem síðan var spiluð aftur og aftur í sjónvarpsfréttum sem dæmi um hrottaskap lögreglunnar.
Enginn þeirra sem sannanlega tók þátt í því að limlesta lögreglumenn í Gúttóslagnum árið 1932 eða aðra borgara afplánaði dóm fyrir brot sín þrátt fyrir dóma hæstaréttar. Stjórnvöld virtust ekki hafa þorað að setja þá bak við lás og slá því allir voru náðaðir. Þetta minnir á málsmeðferðina á skrílnum sem réðst inn í Alþingi í byrjun árs 2009. Í fyrsta lagi hefur ítrekað verið reynt að hleypa upp réttarhöldum og koma þannig í vegn fyrir eðlilegan framgang réttvísinnar. Í öðru lagi hafa níumenningarnir og stuðningsmenn þeirra ítrekað reynt að fá ákveðna stjórnmálamenn til að misbeita áhrifum sínum og grípa inn í eðlilegan feril dómstóla. Sama viðhorf virðist vera til staðar hjá þeim og kommúnistum fyrri tíma að þeir telja sig hafna yfir lög og rétt við ákveðnar aðstæður og gera í raun það sem þeim sýnist. Síðast er grein þess efnis í Morgunblaðinu í dag (5. janúar).
Það er lokum dálítið athyglisvert að það er rifjað upp í bókinni að til umræðu hafi komið að reyna að efna til óspekta á Alþingishátíðinni árið 1930 í þeim tilgangi að hleypa henni upp. Farið er yfir hvaða aðferðum hafi átt að beita í þeim tilgangi til að hleypa hátíðinni upp. Sömu hugmynd var slegið fram í tengslum við kristnitökuhátíðina á Þingvöllum árið 1994. Þetta veit ég með vissu. Það var ekkert tekið undir þessa hugmyndafræði þegar hún var viðruð og fyrst og fremst litið á hana sem eitthvað bull. Það skiptir síðan ekki máli hver það var sem stakk upp á þessu innleggi í hátíðahöldin því viðkomandi er látinn.

Bókin Sovét Ísland Óskalandið er mjög fróðleg og ástæða til að hvetja áhugafólk um sögu að lesa hana því menn geta rétt ímyndað sér hver framvinda mála hefði orðið hérlendis ef kommúnistar hefðu náð hér völdum. Það er hverjum manni hollt því næg eru fordæmin.

laugardagur, janúar 01, 2011

Abba - Happy New Year

Ánægður að afloknu Comrades með fjóra fingur á lofti.

Gamlárshlaupið í gær var fínt. Góðar aðstæðut og fullt af fólki. Stærstu almenningshlaupin eru orðin nokkurskonar fjöldahátíð. Það á til dæmis við um Miðnæturhlaupið, Reykjavíkurmaraþonið og Gamlárshlaupið. Slíkur er fjöldinn sem tekur þátt í þeim. Ég fór rólega af stað, var aftarlega í þvögunni og gat í raun ekki farið að hlaupa fyrr en út við Samgönguráðuneyti í Tryggvagötu. Eftir það rúllaði ég fínt og ég held að það hafi enginn farið fram úr mér eftir það. Það má segja að maður hafi gengið 1 km og hlaupið 9 km. Ég hafði ekkert hlaupið eftir brettishlaupið og var mjög ánægður með skrokkinn. Ekkert að og allt eins og það á að vera. Takk fyrir mig.

Það er ekki úr vegi að renna aðeins yfir nýliðið ár á nýársdegi. Samtals hljóp ég vel yfir 5.200 km á árinu eða nær 15 km á dag að meðaltali. Það er aðeins minna en í fyrra en engu sem munar. Síðan hjólaði ég rúmlega 800 km. Ég get ekki verið annað en ánægður með að skrokkurinn, fætur, liðamót og allt gangvirkið þoli þetta álag ár eftir ár. Ég þakka það ýmsu. Bæði er ég viss um að markvisst mataræði hefur sitt að segja svo og nota ég hvíldina markvisst sem hluta af æfingaskipulaginu.
Árið í fyrra var ár nokkurra stórra áfanga sem ekki var sjálfgefið að ná.
Ég fór til Durban í Suður Afríku til að taka þátt í Comrades hlaupinu. Það var mjög skemmtileg ferð og eftirminnileg. Fyrir utan að koma til Suður Afríku, sem ég á vonandi eftir að gera aftur, þá var mjög gaman að taka þátt í þessu sögufræga Comradeshlaupi sem er eitt að hinum fjórum klassísku ofurmaraþonum í heimi. Rúmlega 20.000 manns stóðu og skulfu sér til hita í Petermaritzburg áður en skotið reið af. Tæplega 15.000 þeirra komust alla leið til Durban innan tilskilinna tímamarka og var ég í um 2.800 sæti. Með því að ljúka þessu hlaupi náði ég að ljúka öllum hinum fjóru klassísku ofurmaraþonhlaupum heimsins og er það ég best veit sá fyrsti í heiminum sem nær þeim áfanga.

Þrem vikum eftir Comrades tók ég öðru sinni þátt í 48 klst hlaupi á Borgundarhólmi. Árlega eru það nálægt 350 manns í heiminum sem hlaupa 48 klst hlaup. Það er um 10% af þeim sem hlaupa 24 tíma hlaup. Það má segja að fjöldinn sé í öfugu hlutfalli við erfiðleikastuðul hlaupanna. Vitaskuld er það dálítið mál að leggja af stað í annan sólarhring eftir að hafa unnið sig í gegnum einn sem flestum þykir nógu gott. Eftir að hafa lent í dálitlum erfiðleikum undir kvöld seinni daginn þá náði ég mér að strik aftur og sigraði með um 70 km forskoti á næsta hlaupara og 18 km lengra hlaupi en í fyrra. Þetta hlaup gekk annars að flestu leyti betur upp en hlaupið í hitteðfyrra. Ég sló norska metið og er í hælunum á Rune Larsson sem á sænska metið. Þessi árangur skilaði mér í 8. sæti á heimslista en ég er nokkuð langelstur af þessum átta. Sá sem kemur mér næstur í aldri er um fimmtugt en hinir eru í kringum fertugt.
Rétt fyrir jólin lagði ég svo í 24 tíma hlaup á bretti. Það er ein af þessum áskorunum sem nauðsynlegt var að takast á við. Í stuttu máli sagt þá gekk það mjög vel, ekkert óvænt kom upp á og ég náði þeim báðum markmiðum sem ég setti. Þau voru að fara yfir 200 km og að slá norðurlandametið. Árangurinn er einnig 14. besti árangur sem hefur náðst í heiminum frá upphafi. Samstarfið við World Class, sem aðstoðaði mig við hlaupið, gekk mjög vel og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Einnig eiga allir þeir góðu hlauparar sem komu að hlaupinu, voru nærstaddir og aðstoðuðu mig á einn eða annan hátt, miklar þakkir skyldar. Svona er hlauparasamfélagið. Ofurhlauparáð FRÍ var nýbúið að samþykkja formlegar reglur um framkvæmd ofurhlaupa á bretti sem eru í samræmi við alþjóðlegar reglur. Því er hér um að ræða árangur sem náð var eftir gildandi alþjóðareglum.

Það eru ýmsir sem halda að ofurhlaup séu eitthvað dútl sérvitringa og flokkist því ekki sem alvöru íþrótt. Þetta viðhorf virðist t.d. hafa verið ríkjandi hjá langflestum svokölluðum íþróttafréttamönnum hérlendis. Það er því hægt að árétta það að alþjóðasamtök ofurhlaupa starfar á nákvæmlega sömu nótum og alþjóða knattspyrnusambandið og alþjóða frjálsíþróttasambandið. Það stendur fyrir heimsmeistaramótum, Evrópumót eru haldin og landsmót í ákveðnum stöðluðum greinum. IAU (International Association of Ultrarunners) tekur út einstök hlaup og veitir þeim ákveðinn status á sama hátt og alþjóða frjálsíþróttasambandið fjallar um mót, það samþykkir ákveðnar reglur um framkvæmd hlaupa o.s.frv.

Ég hef hlaupið fimm 24 tíma hlaup bæði úti og inni. Tvö af þeim hafa verið hluti af 48 klst hlaupi. Í fjórum þeim síðustu hef ég farið yfir 200 km sem er draumatakmark allra hlaupara sem takast á við 24 tíma hlaup. Ég náði því ekki í fyrsta hlaupinu vegna reynsluleysis. Það ég best veit hefur t.d. einungis einn norðmaður náð að fara yfir fimm sinnum yfir 200 km í 24 tíma hlaupi.

Ég get ekki annað en verið ánægður með nýliðið ár. Maður á fyrst og fremst að vera þakklátur fyrir að hafa andlega og líkamlega heilsu til að geta æft undir miklu álagi vikum og mánuðum saman til að búa sig undir krefjandi verkefni. Það er ekki sjálfgefið. Það er síðan með þetta eins og í svo mörgu öðru, því meir sem menn leggja inn þeim mun meira er hægt að taka út.

Ég get síðan ekki annað en verið ánægður með þann áfanga að ofurhlaupa var getið í íþróttaannál ríkissjónvarpsins. Einnig var Poweratehlaupanna ágætlega getið. Kannski augu ýmissa séu að opnast fyrir hvað þarna er að gerast.

Hvað nýhafið ár ber í skauti sér kemur í ljós. Það er ýmislegt í pípunum.