miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Langur vegur á milli mjólkurbrúsans og róbótafjósanna

Maður veit varla hvar á að byrja eftir þær umræður sem hafa verið efst á baugi í dag. Nú vill tölfræðideild Feminstafélagsins ritskoða Silfur Egils og hafa 50/50 kynjahlutfall í öllum þáttum. Þær heimta einnig að það sé 50/50 kynjahlutfall í fréttum, öðrum umræðuþáttum og sérhverri umfjöllun hjá ríkisútvarpinu. Ef kynjahlutfall er skakkt s.s. í ráðherra hópi og þingmannahópi þá eigi að jafna það upp á annan hátt, sama hvernig en jafnt skal kynjahlutfallið vera. Hér er á ferðinni óvanalega grímulaus atlaga að málfrelsi í landinu. Ég hef staðið í þeirri trú að Silfur Egils nyti þeirra vinsælda sem raun ber vitni vegna þess að stórum hluta þjoðarinnar þyki áhugavert að horfa á hann. Þá skiptir nákvæm greining á kynjahlutfalli, aldurshlutfalli, tekjustigi, búsetu og öðrum atriðum sem hafa áhrif á skoðanir og aftöðu fólks ekki máli. Umræðan er áhugaverð. Ef þátturinn væri leiðinlegur, einstrengingslegur, hlutdrægur og svo framvegis myndi hann renna sitt skeið hraðar en hratt. Litlum hluta feminista sem telur að hann hafi einkarétt á að skilgreina hvað er jafnrétti þykir sinn hlutur hins vegar ekki góður í þættinum og skiptir þá ekki máli þótt talað sé við aðrar konur. Þær vilja ráða við hverja verður talað í Silfrinu. Fróðlegt verður að sjá framvindu þessa máls. Ég geri ráð fyrir að ef látið verður undan þessum litla hópi þá rísi upp alleslags hagsmunahópar í landinu og fari að mæla á reislu og vog hlutdeild sína í Silfri Egils. Það er ekkert annað að gera en að vona að Egill standi þetta rugl af sér og haldi sínu striki ótrauður.

Sænsk kona hélt erindi í Norræna húsinu í dag um sæmdarglæpi eða heiðursmorð eins og slíkir glæpir eru einnig nefndir. Slíkir hryllingsviðburðir stað hjá strangtrúuðum múhameðstrúarmönnum eða islamistum sem telja að ættmenni (yfirleitt dætur) hafi smánað heiður ættarinnar. Á þennan hátt birtist innræti karlasamfélagsins hjá Islamistum sem halda konum í ógnargreipum með þessum og álíka þrifalegum aðferðum. Engin meðöl eru til spöruð til að sporna gegn því að konur geti lifað opnara og frjálsara lífi en karlarnir hafa ákveðið. Einn stærsti glæpurinn í augum hreintrúaðra feðra er ef dóttir tekur saman við strák sem er annarrar trúar en ætt stúlkunnar játast undir. Í verstu tilfellunum enda slík átök með morði á stúlkunni eða stráknum. Það er nefnilega svo að það verða ekki einungis konur fyrir glæpum af þessum toga heldur einnig strákar. Ég man eftir sænsku tilfelli þar sem strákurinn var leiddur í gildru og drepinn á viðurstyggilegan hátt, hellt á hann sjóðandi olíu, skorinn og stunginn áður en hann var drepinn endanlega. Vægari tilvik sæmdarglæpa er t.d. umskurður á stúlkubörnum og gifting smástelpna undir gamla karla sem viðgengst t.d. í töluverðum mæli í Svíþjóð samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Í Svíþjóð hefur stór hópur Islamista krafist þess að Sharia lögin séu æðri sænskum lögum með þeim rökum að Sharia lögin séu komin frá spámanninum og því séu þau æðri lögum sem maðurinn hefur búið til. Þetta er ekkert grín heldur blóðug alvara. Það er einnig áhugavert að skoða viðbrögð hérlendra sjálfskipaðra jafnréttissérfræðinga þegar þessi mál ber á góma. Þá er alltof oft farið að tala um ólíka menningarheima, fjölmenningu og umburðarlyndi. Það kom glöggt fram hjá sænsku konunni að slík viðhorf eru forkastanleg í hennar augum.
Ég mæli í þessu sambandi með bókinni Islamistar og Naivistar sem bókaútgáfa Andríkis gaf út rétt fyrir skömmu. Ómissandi lesning fyrir þá sem aðhyllast raunsæja þjóðfélagsumræðu.

Stundum veltir maður fyrir sér hugarheimi þeirra sem sitja á Alþingi. Það koma þær stundir að manni finnst hann ekki alveg vera í takt við raunveruleikann eða það sem máli skiptir í samfélaginu. Nú síðast lagði einn þingmaðurinn það á sig að fara að grafast fyrir um uppruna þess að strákar eru klæddir í blá föt og stúlkur í bleik föt á fæðingardeildinni og vildi fá að vita hví þau væru ekki öll klædd í hvítt. Þetta er sem sagt mikilvægt mál í augum þingmannsins. Það hlýtur að vera mikilvægt í augum þingmannsins vegna þess að hann telur aðra skipan betri s.s. að öll börn séu í einslitum förum svo hlutgerfing kynjanna (eða hvað þetta heitir aftur) hefjist ekki strax á fæðingardeildinni. Þá spyr maður sig þeirrar spurningar hvort ekki eigi halda þessu áfram ef það er til bóta að hafa bæði kynin í eins fötum á fæðingardeildinni. Ef þetta skiptir máli á fæðingardeildinni þá hlýtur það að skipta meira máli þegar fólk er orðið fullorðið. Þjóðhagslegur sparnaður er til að mynda óumdeilanlegur. Þetta hefur svo sem verið gert svo það er komin reynsla á þetta. Í Kína Maós klæddust allir eins fötum, Maógallann græna. Karlar jafnt sem konur. Ég trúi að þar hafi bæði kynin einnig verið í eins fötum á fæðingardeildunum á meðan ógnarstjórn Maós réði ríkjum í Kína ef þau voru yfir höfuð klædd í föt við fæðingu. En hvað gerðist eftir að karlinn dó og fólk gat um frjálst höfuð strokið. Konur í Kína fóru auðvitað að klæða sig í smekkleg föt og hentu helvítis Maógallanum út í hafsauga. Af hverju ætli það sé? Ekki var þeim kennt þetta í uppeldinu þegar reynt var að steypa alla í sama mót. Það býr nefnilega í kvenlegu eðli að vilja klæðast líflegum og fallegum fötum og ég virði þá löngun þeirra heilshugar. Því verður þessi ágæti þingmaður að skýra betur út hvað hún meinar með þessum hugrenningum sínum. Vonandi verður hún í Silfri Egils á sunnudaginn og Agnes Bragadóttir blaðamaður þar með henni.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Búinn að blása sínu síðasta strái

Ég var búinn að setja mig í gírinn með að setja nokkur vel valin orð niður í tilefni af furðulegri túlkun Árvakursútgáfunnar á því að þrjár konur vildu ekki mæta í Silfur Egils síðasta sunnudag. Þegar ég opnaði tölvuna þá fór Eyvör Pálsdóttir að syngja í sjónvarpinu lagið um litlu systur sínar tvær, Elísabetu og Elínborgu. Þá áttaði maður sig á því að það er uppbyggilegra að hugsa og skrifa eitthvað jákvætt heldur en að láta einhverjar manneskjur sem eru yfirleitt stútfullar af neikvæðni pirra sig þetta kvöldið. Mér finnst lag Eyvarar um Elísabetu og Elínborgu vera eitt fallegasta lag sem maður heyrir og sérstaklega þó þegar þær litlu syngja með stóru systur á plötunni. Þetta lag minnir mig mikið á lag meistara Cornelíusar Wreswiik, "Turistans klagan" þar sem barnakór syngur með honum og setur skemmtilegan blæ á lagið.

Miðað við venjulegan akstur hér innanbæjar þá hef ég að jafnaði þurft að fylla tankinn á éppanum á tveggja vikna fresti. Mér var farið að þykja sopinn ansi dýr svo ég setti hjólið á nagladekk og fór að hjóla alla þessa smáspotta sem maður hefur keyrt hingað til. Í vinnuna, niður í Laugar, niður í Vík og aðrar styttir leiðir hér í kring svo fremi að það rigni ekki eins og andskotinn. Nú tveim vikum sinna er búið svona 60% úr tanknum. Með svipuðu áframhaldi tekur það svona sex vikur að spara í olíu það sem kostaði að gera hjólið vetrarfært. Þar á eftir fer að telja inn á hjólið sjálft. Þetta er eins og svo margt annað bara spurning um að byrja og halda því svo áfram.

Það voru magnaðar fréttir sem bárust af því að samkvæmt niðurstöðum Sameinuðu þjóðanna þá eru lífskjör best í heiminum á Íslandi, landinu sem var fátækast allra landa í Evrópu fyrir um 100 árum síðan. Mér kemur það ekki svo mikið á óvart að Ísland sé í hópi þeirra best settu en það er magnað að ná toppnum. Þetta kemur sem góður þverbiti á ófyrirleitna og háværa umræðu sem skýtur upp kollinum af og til um að velferðarkerfið hérlendis sé í rúst, fátækt sé yfirþyrmandi og ég veit ekki hvað. Vitaskuld er það svo að þjóðfélag þar sem allir eru sælir verður aldrei til, það er svo einfalt. Það var svolítið fyndið að hlusta á umræðuna á Alþingi í dag þegar þessi mál væru rædd þá gat hluti þingmanna ekki talað um þetta nema að tína ýmislegt neikvætt til því jákvæðni er þeim ekki ofarlega í huga. Meir að segja býsnaðist einn þingmaður yfir mikilli rafmagnsnotkun íslendinga og taldi lítinn sóma að því. Ætli verði ekki næsta á dagskrá að hafa rafmagnslausa daginn eins og innkaupalausa daginn, bíllausa daginn og ég veit ekki hvað fleira sem enginn tekur mark á. Spurning hvenær maður geti yfir höfuð gert nokkurn skapaðan hlut ef forsjárhyggjumenn fengju að ráða. Ef það er eitthvað sem ég hef ekki áhyggjur af þá er það rafmagnsnotkun íslendinga. Rafmagn er framleitt með endurnýtanlegri vatnsorku en ekki með kolum eða olíu.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Það var hætt að nota þessa í miðjum flekk

Sá nýlega að William Sichel, Orkneyingurinn snjalli sem ég hitti í Aþenu, tók nýlega þátt í 6 daga hlaupi í Monaco. Hann lagði að baki samtals 809 km og bætti sig um 81 km frá hlaupinu í fyrra. Sex daga hlaup fer þannig fram að það er hlaupið samfleytt í sex daga með matarhléum og svefnhléum. Það er ekki hægt að segja annað en það sé ágætt að klára vel yfir 130 km á dag sex daga í röð.
Las gott viðtal við Scott Jurec. Hann fer þarna yfir ýmsa hluti s.s. æfingar, æfingamagn og annan undirbúning, mataræði fyrir hlaup og á meðan á hlaupum stendur og annað sem skiptir máli hjá þessum mikla íþróttamanni. Mæli með því að allir þeir sem hafa áhuga á þessu á annað borð lesi þetta viðtal. Slóðin er http://www.eliterunning.com/features/54/

Fréttir bárust af því fyrir helgina að vísindamaður væri týndur inni á öræfum en hann átti að sækja senda fyrir Orkustofnun á nokkuð marga staði inni á hálendinu. Hann fannst svo fyrir helgi eftir að hafa setið á þriðja sólarhring fastur í bílnum inn við Eldgjá. Maður bara spyr hvernig dettur nokkrum lifandi manni að senda mann einbíla inn á öræfin á þessum tíma árs með talstöð sem ekki virkar. Það er eins og einhverjir séu ekki með réttu ráði sem ættu að vera það.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Einu sinni var....

Tók gott hlaup með miklum fjölda af Vinum Gullu í morgun. Vegna strekkingsins tókum við skemmtilegar leiðir um allskonar króka og kima í miðbænum þar sem Úlfar leiddi hópinn. Náði að klára skammtinn áður en veður fór að versna. Losaði 20 km og hljóp síðast með Orwell. Hann er að ná sér á strik aftur eftir nokkurra mánaða hlé í sumar vegna vinnu. Hann ber sig illa undan því að hafa sett á sig 7 kíló á þessu tímabili sem erfitt er að ná af sér en það kemur svona í rólegheitunum.

Ég hef alltaf drukkið mikið á hlaupum og talið það vera sjálfsagðan hlut. Ég þyrfti bara meira að drekka en aðrir. Nú upp á síðkastið hef ég séð að það gengur miklu minna á brúsana en áður. Ég fór að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessu. Ástæðan er frekar einföld. Ég tek Herbalive hristing áður en ég fer af stað á morgnana í stað grautardisks eða skyrs eins og áður. Með Herbalifinu erfiðar maginn miklu minna en áður og það segir til sín á skrokknum. Maður svitnar minna og þarf minna að drekka. Kerfið er í betra jafnvægi. Ég fæ mér annan hristing þegar ég kem inn af hlaupunum og þetta dugar mér langt fram á dag þrátt fyrir að hafa verið í nokkurra klukkutíma áreynslu. Magnað.

Áróðurinn fyrir jafnréttislögreglufrumvarpinu heldur áfram. Í hádeginu var rætt við forstöðumann jafnréttisstofu sem fær lögreglu- og dómsvald samkvæmt frumvarpinu. Forstöðumaðurinn mælti náttúrulega með samþykkt frumvarpsins með öllum tiltækum ráðum því ef það verður samþykkt stækkar stofnunin og þenst út eins og stofnana er háttur. Allir forstöðumenn vilja verða mikilvægari og stækka stofnun þá sem þeir eru í forsvari. Forstöðumaðurinn lét þau orð falla að jafnréttisreglur væru miklu harðari í mörgum öðrum löndum. Meðal annars hefðu víða verið settar kvótareglur um kynjahlutföll í stjórnir stofnana og fyrirtækja svo sem í Noregi. Af hverju láta fréttamenn svona lagaðan sniðgöngu um sannleikann yfir sig ganga? Noregur er EINA landið í heiminum þar sem slíkar reglur hafa verið settar. Meir að segja Svíar hafa ekki treyst sér til að ganga svo langt. Af hverju er verið að reyna að telja íslendingum trú um að þessar reglur hafi verið settar víða um heim þegar það er ekki satt? Er málstaðurinn svo veikur að sannleikurinn dugar ekki til heldur þurfi að grípa til annarra meðala?

Það er alltaf jafn gaman að hlusta á Ingólf Margeirsson flytja þættina um Byltingu Bítlanna á sunnudagskvöldum. Þættirnir eru eins og frískandi sunnanvindur á góðum sumardegi. Ingólfur höndlar efnið meistaralega og síðan er músíkin eins og allir vita, alltaf jafn frábær. Það besta við þættina er að það rifjast svo mörg lög upp sem maður er jafnvel búinn að gleyma en standa þeim þekktari ekkert að baki. Sagan bak við lögin og tilurð þeirra fyllir síðan fullkomlega út í rammann.

Skrapp í dag upp í Kringlu en þar er fólk frá Newfoundland og Labrador að kynna land sitt og menningu. Þar var sölusýning á ýmsu handverki sem gaman var að skoða enda þótt maður kaupi ekki mikið. Engu að síður gaman að spjalla við fólkið. Ánægjulegt að þessar þjóðir eru farnar að leita til okkar í auknum mæli með það að markmiði að skapa aukin tengsl þjóðanna á milli. Héröðin þrjú, Newfoundland og Labrador, Prins Edward Island og Nowa Scotia eru jaðarsvæði á austurströnd Kanada. Þau misstu efnahagslegt sjálfstæði skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina og gengu þá til liðs við Kanada. Þar fækkar fólki og þau eiga á margan hátt töluvert erfitt. Ólæsi er almennt og er talið að það sé einungis um 50% íbúa á Newfoundland og Labrador sem les almennan texta sér til gagns. Það er ljóst að fólk sem ekki kann að lesa er ekki þátttakendur í nútima þróun í þjóðfélaginu. Þeir líta nokkuð hingað til lands og vilja átta sig á hvað það er sem gerir þann gríðarlega uppgang mögulegan sem hefur átt sér stað hérlendis á undanförnum árum á meðan þar ríkir kyrrstaða á ýmsan hátt. Við eigum að hafa eins gott samband við þessar þjóðir og mögulegt er og styðja við þær það sem við getum.

Ég var staddur á Newfoundland haustið 2000 þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Sidney og Vala Flosa vann bronsið. Við vorum dálítið montin af þessu afreki Völu. Heimafólki fannst yfir höfuð gríðarlega merkilegt að við, þessi örsmáa þjóð, skyldi ganga inn á Ólympíuleikana undir eigin fána og hvað þá að vinna til verðlauna. Það var fyrir utan og ofan þeirra skilning. Að sumu leyti voru þessi samfélög stödd á áþekku róli eins og við vorum fyrir nokkuð mörgum áratugum þegar Albert Guðmundsson spilaði atvinnufótbolta erlendis einn íslendinga. Einungis örfáir leikmenn frá Newfoundland höfðu þá náð svo langt að komast í lið í NHL deildinni. Það þótti gríðarlegt afrek. Okkur þykir ekki svomikið tiltökumál lengur að eiga fótboltamenn í helstu deildum Evrópu enda þótt landsliðið sökki nú um stundir. Þetta er kannski spurningin um að menn stökkva ekki lengra en þeir hugsa eins og vinnukonan sagði hér um árið.

Kim Larsen og Kjukken á fullu gasi

laugardagur, nóvember 24, 2007

Fór í kvöld á tónleika í Vodafon höllinni á Hlíðarenda með Kim Larsen. Ég hef ekki komið þar inn fyrr og gefur vissulega á að líta. Þetta er langflottasta íþróttahús á Reykjavíkursvæðinu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Valmenn hafa byggt upp Hlíðarenda complett og verður aðstaðan þarna geysiflott þegar hún er öll komin í gagnið. Félagið fékk gríðarlega fjármuni eftir landssölu til borgarinnar og einnig hafa þeir verið skynsamir í því að láta peningana vinna.
Tónleikarnir með gamla Larsen voru gríðarlega skemmtilegir. Karlinn er eldsprækur og með geysifína og þétta hljómsveit með. Hann keyrði í gang á fullu blasti og hélt fínum dampi út alla tónleikana sem stóðu í einn og hálfan tíma. Höllin var því sem næst full af fólki. Skemmtileg tilviljun að ég fékk sæti við hliðina á nágrönnum mínum hér í Rauðagerðinu. Við höfum greinilega keypt miðana á sama tíma sama morguninn í ágúst þegar opnað var fyrir miðasöluna. Það munaði miklu að sitja rétt upp við sviðið samanborðið við að vera lengst í burtu. Ég sá Kim í Parken í Köben fyrir rúmum 20 árum. Þá var hann svona farinn að dala eitthvað eftir mislukkað Bandaríkjaævintýri en hann hefur sannarlega gengið í endurnýjun lífdaga. Hörkugott kvöld.

jafnréttismálin eru nokkuð fyrirferðarmikil hér og er það furða sé miðað við þau ósköp sem nuddað er framan í mann af misgáfulegum niðurstöðum úr misfaglegum s.k. rannsóknum sem allar eiga það sameiginlegt að það er verið að færa rök að því að karlmenn haldi konum kerfisbundið niðri og séu yfirleitt eins og andskotinn við þær. Í blöðunum í dag voru hvorki meir eða minna en þrjár slíkar niðurstöður birtar. Hvorki meir eða minna. Á Mbl í dag var sagt frá niðurstöðum rannsóknar frá háskólanum í Svavanger (reyndar er þessi frétt horfin af Mbl nú) þar sem var verið að skoða hlutdeild karla í heimilisstörfum. Spurt var um þann tíma sem fer í matseld, taka til, þvotta, innkaup og samneyti við börnin. Karlar lögðu færri tíma í þessi störf en konur, misjafnt þó eftir löndum. Það stóð ekki á því að feministakórinn hóf upp raust sína á bloggsíðunum undir formerkjunum "Þetta vissi ég..." En eru þetta einu heimilisstörfin sem unnin eru á heimilinu? Alla vega ekki á mínu heimili. Hvað með viðhald hússins utan húss og innan. Hvað með umhirðu og viðhald bíls? Hvað með garðvinnu og þannig mætti áfram telja. Að mínu mati er þeim heimilisstörfum kerfisbundið sleppt sem ætla má að karlar sinni frekar en konur. Það þarf meira að gera en að elda mat og ryksuga. Ég er hræddur um að það yrði upplit á tengdamömmu ef ég sendi konuna upp á þak í frosti á jólaföstunni að setja upp jólaseríuna en væri sjálfur inni að ryksuga eða ef hún væri úti að smíða en ég væri inni að brjóta saman þvott.

Önnur rannsóknin var birt undir yfirskriftinni: Verður launajafnrétti náð árið 2072? Þekktur jafnréttisfrömuður hefur lagst yfir skattframtöl og reiknað út heildaratvinnutekjur karla og kvenna. Heildaratvinnutekjur en ekki launataxta eða sömu laun fyrir sömu vinnu. Íslensir karlar vinna langan vinnudag, lengri en konur vilja almennt vinna. Af hverju ætli konur sæki ekki í sjómennsku, byggingariðnað, dekkjaverkstæði, vinnuvélastjórnun og aðra þá vinnu sem er oft kuldaleg, óhreinleg, erfið með löngum vinnudegi en vonandi stundum vel borguð þegar heildarlaun eru reiknuð út. Svari því annar en ég. Það er tómt bull að tala um að jafna heildaratvinnulaun kynjanna þegar ásókn kynjanna er svo misjöfn í mismunandi störf og þegar tekið er tillit til þeirrar staðreyndar að konur vilja almennt vinna styttri vinnudag heldur en karlar jafnt þótt heimilið sé barnlaust. Síðan er bætt um betur og farið að reikna út mismuninn eftir póstnúmerum. Hvað segir það mér? Nákvæmlega ekki neitt. Það er hægt að reikna sig ráðlausan án þess að útkoman úr dæminu færi mann neitt fram á veginn ef það er ekkert vit í því sem reiknað er. Sú niðurstaða að slá því fram að meintu launajafnrétti verði náð árið 2072 ef hraði þróunarinnar verður sá sami hér eftir sem hingað til þegar miðað er við heildarlaun er vægast sagt léttvæg umræða. Til að algeru jafnrétti verði náð hvað varðar heildarlaun verða bæði kynin að vera alveg eins, að hugsa eins, haga sér eins, vilja leggja jafnt á sig og svo framvegis. Vonandi verður slíkt samfélag aldrei til.

Fyrirsögn þriðju fréttarinnar var: "Íslenskir karlar gera minna - konur meira" Það er bara svona, niðurstaðan liggur fyrir í fullyrðingastíl. Síðan er haldið áfram og fyrsta málsgrein fréttarinanr byrjar svo: "Íslenskir karlar verja minni tíma í heimilisstörf en karlar annarsstaðar á Norðurlöndunum". Bölvaðir drjólarnir, nenna ekkert að gera heima hjá sér og láta konurnar um allt saman. Þetta vissi ég eða hvað? Þegar lesið er áfram kemur fram að íslenskir karlar vinna 9 - 12 stundum meira utan heimilis en aðrir norrænir karlar. Ó er það svo? Karlagreyin á Íslandi eru alltað að puða fyrir heimilinu en eiga engu að síður að skila jafnmiklum tíma í heimilisstörf og norrænu karlarnir sem vinna miklu minna utan heimilis og hafa þar af leiðandi miklu meiri tíma heimahjá sér en þeir íslensku. Þó gæri verið að karlaskrattarnir á Íslandi vinni svona mikið utan heimilis í þeirri von að þeir sleppi við að ryksuga þegar heim er komið. Það er ekki laust við að sá andi svífi yfir fréttinni. En skoðum þetta áfram. Samkvæmt könnunni vinna karlagreyin íslensku þó 7,4 klst á viku við heimilisstörf en meðvituðu karlarnir í Danmörku og Svíþjóð ekki nema 12 klst enda þótt þeir vinni 9 - 12 stundum minna utan heimilis en þeir íslensku. Fyrirsögnin er því kolröng. Hún gæti hljóða sem svo: Íslenskir karlar vinna mest allra á norðurlöndum og íslenskar konur næstmest. Í s.k. djúpviðtölum greinarhöfundar er einnig einungis fjallað um hin hefðbundnu heimilisstörf en ekki vikið að viðhaldi og umhirðu húss utanhúss sem innan og annað álíka frekar en fyrri daginn. Það fellur að mínu mati undir það að halda venjulegu heimili gangandi alveg jaft og að þrífa gólf og höndla þvott. Líklega telst það ekki vinna í augum hreinlínumanna.

Þegar er verið að bera saman svona tölur á milli Íslands og Svíþjóðar ættu menn einnig að bera samfélögin saman í heild sinni. Í Svíþjóð vinnur um helmingur vinnufærra manna hjá hinu opinbera. Atvinnuleusi þar er miklu meira en hér, líklega um 8% á almennum vinnumarkaði og miklu hærra hjá ungu fólki. Vinnufælni er orðið þjóðarmein í Svíþjóð. Það munar svo litlu fjárhagslega fyrir meðal Svensson að stunda launavinnu eða að fá bætur frá hinu opinbera þannig að það reynir hver sem betur getur að hætta að vinna eins snemma og hægt er til að komast á bætur. Þar hætta menn almennt að vinna 55 ára gamlir. Þetta gríðarlega þéttriðna öryggisnet hefur leitt það af sér að hagvöxtur er mjög lítill í Svíþjóð, þjóðarframleiðni með því minnsta sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og almenn hagsæld á niðurleið. Er það furða að menn hafi tíma til að ryksuga heimahjá sér og brjóta saman þvottinn við þessar aðstæður? Ég held að það fólk sem er að bera saman örlítinn hluta af þessum samfélögum og leggja niðurstöðuna út íslenskum körlum til hnjóðs ætti að svara þeirri spurningu hvort það vildi skipta á sænsku og íslensku samfélagi þegar heildarmyndin er skoðuð. Ég get svarað fyrir mig að það vildi ég ekki.

Það væri gaman að gera ítarlega úttekt á jafnréttisiðnaðinum hérlendis, hvernig hann er uppbyggður, hvað hann kostar og við hvað hann er að fást. Niðurstöður slíkrar könnunar væru án efa fróðlegar.

Í Mogganum sem var að koma inn úr dyrunum er minnst á frumvarp það sem liggur fyrir Alþingi og felur það í sér að það eigi að leita að öðru orði í stað orðsins ráðherra. Í fréttinni segir að margir hafi tekið undir þetta sjónarmið m.a. á bloggsíðum. Ég hef rennt yfir margar bloggsíður þar sem fjallað er um þetta efni og séð að það eru einnig mjög margir andsnúnir þessari tillögu. Af hverju ætli Mogginn segi ekki frá því? Spyr sá sem eki veit.

Hrafn Jökulsson hefur skrifað góða bók

Fyrir margt löngu sat ég í Ferðamálanefnd Reykjavíkur og náttúrulega í minnihluta. Samstarfsmaður minn í minnihlutanum var Hrafn Jökulsson. Við sátum þarna fyrir stjórnmálasamtök sem bæði heyra sögunni til, ég fyrir Alþýðubandalagið og Hrafn fyrir Nýjan Vettvang. Það var ágætur vinnuandi í nefndinni sem starfaði undir forystu Júlíusar Hafstein. Við gátum þó ekki setið á okkur að gera svolítið at í meirihlutanum þegar möguleiki var á sem meðal annars fólst í því að gagnrýna með köpuryrðum ráðstöfun peninga þegar okkur þótti með þá farið á annan veg en við töldum rétt. Náðum við meir að segja einu sinni á forsíður blaða og urðu ólíklegustu menn okkur dálítið reiðir fyrir vikið. Ég hef fylgst með Hrafni úr fjarlægð síðan þessu kjörtímabili lauk en við heilsumst ætíð með virktum þegar fundum okkar ber saman. Hrafn er ekki einhamur þegar sá gállinn er á honum og má nefna sögu Hróksins í því sambandi. Í annan stað má nefna það þrekvirki sem hann hefur unnið á Austur Grænlandi meðal barna og unglinga þar með því að kynna skáklistina fyrir þeim. Frásagnir af afrekum hans þar er ekki í neinum Garðars Hólms stíl heldur veit ég það frá fyrstu hendi því heimafólk í Tassilaq sagði mér í sumar sem leið að þangaðkoma Hrafns og félaga hans væri eitt af því besta sem hefði gerst þar um slóðir á seinni árum. Það hefur gefið á bátinn hjá Hrafni gegnum árin eins og gengur en það eru svona skvettur sem menn keyra sig upp úr eins og öflugra drengja er háttur. Það hefur verið gaman að sjá hvað Árneshreppur á Ströndum skipar stórt pláss í huga hans en þar var hann í sveit sem lítill drengur og fékk þá meðal annars það hlutverk að verja Grænlandssteininn fyrir ágangi erlendra ferðamanna. Það gerði hann af mikilli skyldurækni og dugðu bogi og örvar best í þeirri baráttu. Nú hefur Hrafn slegið sér niður í vetur ásamt konu sinni í skólanum á Finnbogastöðum en þar kenna þau við minnsta skóla landsins þar sem tvær litlar stúlkur stunda nám. Hrafn hefur nýlega skrifað dágóða bók sem ber nafnið Þar sem vegurinn endar. Hann skrifar þar um sjálfan sig, upplifanir sínar héðan og þaðan og síðan kjölfestuna, fólkið og sveitina á Ströndum norður. Ég renndi yfir bókina um daginn og fékk á tilfinninguna eftir lesturinn að þetta væri ein læsilegasta og einlægasta bók af þessum toga sem ég hef lesið lengi. Mæli með henni.

Það var karlakvöld í Víkinni í gærkvöldi. Gott kvöld. Guðni Ágústsson var heiðursgestur kvöldsins og mættu þeir Sigmundur allmóðir eftir viðtöl út og suður en bók þes síðarnefnda um þann fyrrnefnda kom út í gær. Guðni hélt mikla ræðu og fór á kostum. Hann vóg stundum salt á brúninni en tókst aðdáunarlega að halda sig réttu megin við strikið. Hann hélt ræðu á Selaveislunni um daginn en það var jafnskemmtilegt að heyra kallinn tala aftur því hann nær svo vel að tala út frá aðstæðum kvöldsins en er ekki bara með einhvern bunka af bröndurum sem farið er í gegnum. Freyr Eyjólfsson skemmti á eftir með eftirhermum og söng. Hann nær hvers manns kjafti en þegar hann hermir eftir Megasi er bara eins og sá gamli sé mættur.

Sótti Neil snemma í morgun og við lögðum af stað um kl. 7.00. Við fórum hefðbundna leið upp Poweradehringinn og síðan vestur á Eiðistorg. Losaði 30 km en Neil ætlaði að klára dagsskammtinn sem er maraþon.

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Stilla á Þingvöllum

Fórum í gott hlaup á sunnudaginn. Gott veður og vinir Gullu voru margir enda þótt lítið sjáist af henni sjálfri. Fróðlegt að heyra hvað Neil gerir til að halda sér í formi, maraþon á laugardögum og hálfur Ironman á sunnudögum!! Æfingaaðstaðan er betri ef eitthvað er hér en í London, vegalengdir styttri og allt einfaldara.

Keypti athyglisverða bók um daginn og fékk síðan annað eintak gefins svo nóg er til af henni. Þetta er bókin Islamistar og naivistar sem Andríki gaf nýlega út. Hún fjallar um sívaxandi áhrif öfgafullra múhameðstrúarmanna í Evrópu og nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun. Naivistar eru þeir nefndir í bókinni sem bregða sífellt skildi fyrir Íslamistana þegar þessi mál ber á góma. Þá er fariða ð fjasa um annan menningarheim, fjölmenningarsamfélag, nauðsyn þess fyrir heimafólk að sýna umburðarlyndi og skilning og svo framvegis og svo framvegis. Bókin byrjar á mjög skemmtilegri samlíkingu sem sótt er til leikritsins Bidermann og brennuvargarnir sem margir hafa vafalaust heyrt talað um. Bidermann er einhver maður sem á húsið sem hann býr í. Dag einn flytja tveir menn inn til hans og hreiðra um sig uppi á lofti. Bidermann amast ekki við þeim til að sleppa við vandræði og átök. Mennirnir tveir fara síðan að safna að sér bensíni og spónum sem þeir koma fyrir uppi á lofti. Bidermann sýnir þessari iðju þeirra skilning og umburðarlyndi enda þótt honum sé ekki alveg rótt. Þegar mennirnir tveir sjá áhyggjur hans þá snúast þeir til varnar og gera Bidermann að sökudólgi fyrir ákveðna stöðu sem þeir verði að bregðast við. Svona þróast þetta stig af stigi þar til Bidermann lánar þeim eldspýtur og síðan er amen eftir efninu.

Ég geri fastlega ráð fyrir að það hlaupi hópur fólks upp til handa og fóta og hrópi rasistar og fasistar þegar minnst er á þá þróun sem hefur átt sér stað í Evrópu á undanförnum árum og áratugum og snýr að islamistum. Það verður þá bara að hafa það. Nefna má sem dæmi að yfir 40% múhameðstrúarmanna í Englandi aðhyllast Sharialögin sem strangtrúaðir múhameðstrúarmenn telja vera æðri landslögum í landi hverju. Þar eru handhögg sem viðurlög við þjófnaði, giftingar á smástelpum og markviss og meðvituð undirokun konunnar talinn eðlilegur og sjálfsagður hlutur svo aðeins nokkur atriði séu nefnd. Vitnisburður konu er lægra metinn en karla í dóimsmálum og arfahlutur konu er lægri en karla og þannig má áfram telja. Í bókinni eru þeir nefndir naívistar sem loka augunum fyrir þeirri þróun sem er að gerast og jafnvel styðja við bakið á henni. Umræðan í kjölfar birtingar Jyllandsposten á teikningunum af Muhameð voru eitt skýrasta og alvarlegasta dæmið um þetta á sinustu árum. Þar var gerð mjög alvarleg atlaga að málfrelsi með því að múgurinn var æstur upp með lognum frásögnum og fölsuðum myndum og var síðan sigað á þaðs em danskt var. Margir norrænir stjórnmálamenn sýndu viðbrögðum þeirra fyllsta skilning svo merkilegt sem það er.

Ég mæli með því að þeir sem hafa áhuga á þjóðfélagsmálum verði sér út um þessa bók og lesi hana. Það er ekki hægt að segja annað en að hún vekji mann til umhugsunar.

Nú er fram komið frumvarp á alþingi að fella niður hið karllæga orð ráðherra og finna eitthvað annað betur lýsandi fyrir starfið sem hentar bæði körlum og konum. Ég held að orðið ráðstjóri sá ágætt orð sem nær bæði yfir karla og konur fyrst að farið er að hreyfa þessum málum á annað borð. Ríkisstjórnin gæti þannig heitið ráðsstjórn. Með tilvísunar til annars frumvarps sem lagt hefur verið fram á alþingi og er í álíka stíl ætti því í forbifarten að taka upp nafnið ráðstjórnarríki fyrir samfélagið.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Mekkin, dóttir Daníels Smára, jafnaði íslandsmetið í hástökki í sínum aldursflokki

Fór út klukkan 7 í morgun í góðu veðri. Tók Poweratehringinn og hitti síðan Neil, Jóa og Halldór við brúna um kl. 8.30. Fórun síðan fyrir Kársnes, tókum brekkuspretti, tröppurnar og síðan til baka. Losaði 30 km.

Ég hef tekið vænan vítamínskammt tvisvar á dag síðan í haust. Einnig er ég farinn að nota Herbalive reglulega fyrir og eftir langar æfingar. Ekki ætla ég að fullyrða um að þetta sé lykill að framförum en ég finn mikinn mun á hvað ég er fljótari að jafna mig eftir svona langar æfingar miðað við fyrir einu til tveimur árum síðan. Fyrir tveimur árum varmaður stirður fram á dag eftir löng og erfið hlaup en nú finnur maður varla fyrir þessu eftir að maður er búinn að fara í sturtu. Fríða Rún sendi mér góðar ábendingar um praktiskar viðbætur sem ég ætla að nýta mér. Glútamín, undanrennuduft og liðamín.

Neil sótti nýlega um að komast í Western States. Börkur sömuleiðis. Nú eru reglurnar orðnar svoleiðis að einungis 25 fyrstu útlendingarnir sem sækja um komast beint inn, hinir lenda í lottóinu. Ef einhver hefur tekið þátt í lottóinu tvisvar án þes að vera dreginn út þá kemst hann með í þriðja sinn. Nú er hinsvegar nauðsynlegt að sækja snemma um til að sleppa við svona lagað. Þegar ég hljóp WS fyrir tveimur árum þá voru útlendingarnir 32 en þeim hefur fjölgað verulega síðan sem vilja komast í hlaupið.

Fór á Silfurmót ÍR í dag. Þar voru nær fimm hundruð litlir og stórir krakkar að keppa. Þátttaka í frjálsum hefur sprúngið út með tilkomu nýju frjálsíþróttahallarinnar. Það verður gaman að sjá stöðuna eftir 5 - 10 ár.

Það var gert mikið úr því nýlega að það hefðu aldrei sent fleiri inn mótmæli en við nýjum virkjunaráformum á Hellsiheiði. Rúmlega 600 manns sendu inn athugasemdir. Mér finnst það í raun og sann ekki vera mikill fjöldi þar sem staðlaður texti að mótmælunum var birtur á netinu. Annað hvort þurfti að ýta þar á "send" takka eða kópíera textann og peista hann síðan á tölvupóst. Einfaldara er ekki hægt að hafa það. Síðan er öllum sem hugsast getur sendur tölvupóstur þar sem vakinn er athygli á þessum möguleika. T.d. öllum félagsmönnum VG trúi ég. Alla vega myndi ég hafa gert það ef ég hefði verið að vinna í þessum málum. Samt sem áður sáu einungis um 600 manns ástæðu til að bregðast við þessu. Ef að 10 eða 20 þúsund hefðu sent inn mótmæli sem hægt var að vinna á þennan hátt hefði mér fundist það vera nokkuð sem mark var á takandi en rétt um sex hundruð. Það er ekki mikill fjöldi.

Í þessu sambandi er rétt að velta fyrir sér einu. Hvar á landinu ætli að sé það ljótt að það verði óumdeilanlegt að þar megi virkja?

Ég hef stundum tuðað um hallann í jafnréttisumræðunni. Harðsnúið lið klifar sífellt á því óréttlæti sem felst í því að það séu færri konur en karlar í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi eins og það sé mál málanna um jafnrétti kynjanna.

Pétur Tyrfingsson heitir maður nokkur sem er ansi vitur. Hann er menntaður sem sálfræðingur og starfar sem slíkur. Hann var að hlusta nýlega á niðurstöður könnunar um líðan barna í grunnskólum og hjó eins og ýmsir aðrir eftir því hvað hallaði þar á stráka á ýmsum sviðum. Hann leiðir síðan út frá því í ágætum pistli á eyjan.is að það sé náttúrulega ekki allt í lagi þegar miklu hærra hlutfall stráka fellur út úr skólum, strákum líður mun verr en stelpum sí skólum, hlutfall stráka í framhaldsskólum minnkar sífellt og þeir eru í orðnir miklum minnihluta þar og að síðustu þegar sjálfsmorð eru orðin ein hæsta dánarorsök ungra karlmanna o.s.frv. Hann varpar fram þeirri eðlilegu spurningu hvers vegna jafnréttisiðnaðurinn hafi ekkert skoðað þessi mál. Það er mjög athylgisvert að skoða hin mörgu viðbrögð sem hann fær við pistli sínum. Það er ráðist á hann af allnokkrum ákafa af sjálfskipuðum varðhundum jafnréttisiðnaðarins með allskonar orðaleppum og fjasi út og suður. Þessi viðbrögð segja manni mikið um hugarheim þess fólks sem titlar sig handhafa hinnar einu sönnu skilgreiningar á hugtakinu jafnrétti.

Sem betur fer hefur verið fjallað nokkuð í fjölmiðlum hér um hinn grimmilega dóm yfir ungri stúlku í Sádí Arabíu sem var felldur rétt nýverið. Henni var raðnauðgað af einhverjum óþokkum. Hún var dæmd til að þola 200 vandarhögg og sex mánaða fangelsi fyrir að hafa farið upp í bíl með sér óviðkomandi manni sem undanfara nauðgunarinnar. Menn eiga að athuga það að vandarhögg í íslömskum heimi eru ekkert dangl með handklæði á afturendann. Böðlarnir eru fullorðnir karlmenn með langar leðurólar. Högg með slíkum ólum fletta skinninu af bakinu. Ég hef ekki trú á að fangelsisyfirvöld í Sádí Arabíu þurfi að hafa áhyggjur af því að þurfa að taka frá pláss fyrir stúlkuna eftir að hún hefur fengið 200 svipuhögg. Þessi skilaboð frá dómskerfinu þar í landi eru mjög skýr. Ef konur voga sér að gera eitthvað það í þessu landi sem karlarnir hafa ekki kontroll yfir þá er refsingin eins grimmúðleg og hugsast getur. Kvenþjóðin þar er kúguð og undirokuð eins og frekast er mögulegt að ímynda sér. Það er ekki hægt annað en að rifja upp í þessu sambandi þegar myndir birtust í blöðum í vor þegar nokkrar þingkonur höfðu farið í opinbera heimsókn til Sádí Arabíu. Þeim var troðið í þarlendan kúgunarklæðnað kvenna og þeim fannst þetta bara fyndið samkvæmt myndinni í Mogganum.

Ég þekki konu sem fór á sl. ári til lands í austurlöndum nær sem er leitt af álíka stjórnarfari og í Sádí Arabíu. Hún var þar á vegum alþjóðlegra hjálparsamtaka. Það var gert að skilyrði fyrir heimsókninni að konur hyldu líkama sinn með kuflum og höfuðdúk til að geta sinnt starfi sínu. Það var gengist inn á það. Hún sagði að eftir nokkra daga var henni farið að líða verulega illa í þessum klæðnaði þegar hún fór að skilja betur það sem honum býr að baki.

Nýlega var ung stúlka grýtt opinberlega til bana á torgi bæjar í Íran vegna þess að hún hafði sýnt strák áhuga sem hafði ekki hina réttu trú. Það var ekki flóknara en þetta að klára málið.

Heiðursmorð hafa verið bönnuð með lögum í Pakistan. Þá bregður svo við að sjálfsmorðum ungra kvenna fjölgar verulega.

Í þessu sambandi er einnig rétt að hugsa um að þeir sem tala mest um jafnrétti kynjanna hérlendis bregða gjarna skildi fyrir hina öfgafullu múhameðstrúarmenn í arabaheiminum með því að fara að tala um að þar sé annar annan menningarheimur, það verði að sýna þeirra menningu og hefðum skilning og svo framvegis. Afsakiði meðan ég æli.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Hestar í Kjós

Það verður æ oftar sem maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Nú síðast eru þeir meðvituðu á toppi yfir að veitingahúseigandi á Akureyri útilokaði hóp pólskra rudda frá því að koma á pöbbinn. Þessi hópur hafði verið til sífelldra vandræða um langt skeið með ótrúlegum ruddaskap við konur á staðnum og því ekki annað að gera en að láta þá naga þröskuldinn. Það mátti ekki orða það í hugum ýmissa að þarna væru pólverjar á ferð því þá væri farið að leiða þetta orðspor út yfir alla pólverja. Fólk var meir að segja leitt fram í fréttatímum sjónvarpsins til að fordæma þetta. Þvílíkt rugl. Sama var uppi á borðinu þegar þjófagengi frá Litháen hafði herjað hér um nokkurra vikna skeið og náðist loksins að þá varð það óskaplega viðkvæmt að segja að þeir voru frá Litháen. Það var búið að segja all oft frá því í fréttum að konu hefði verið nauðgað af tveimur mönnum í miðbænum um síðustu helgi þar til það kom fram að nauðgararnir væru frá Litháen. Mér finnst það bara skipta máli að fá að vita hvaðan svona dólgar koma og einnig ef þeir koma sérstaklega frá einu landi frekar en öðru.

Það er svo merkilegt að einstaklingar sem ganga harðast fram í öfgafullu kvenréttindatali eru strax komnir upp á tærnar og háa Céið með að verja pólverjahópinn á Akureyri. Það sé fullt af öðrum svona ruddum til á Íslandi og að þessir ákveðnu pólverjar komi úr öðrum menningarheimi og því verði að taka á svona lagaðri hegðan með umburðarlyndi því þeir hafi ekki aðlagast aðstæðum hér enn og svo framvegis.

Málflutningur af þessu tagi er vel þekktur og ekki síst þar sem öfgafullir íslamistar eru til vandræða. Hann gengur undir nafninu "Litla Svarta Sambó heilkennið" og felur það í sér að ekki þyki viðeigandi að gera sömu kröfur til fólks af framandi uppruna eins og gerðar eru til þess fólks sem alið er upp í viðkomandi landi. Samkvæmt þessu heilkenni er ekki hægt að gera það ábyrgt enda er hegðanin ekki því að kenna því þeir komi úr öðrum menningarheimi. Það er dvalarlandsins að taka á sig ábyrgðina og taka á sig sökina ef illa gengur. Menn vilja ekki líta á þá sem haga sér svona sem fullorðið ábyrgt fólk heldur reyna að finna ýmsar afsakanir og ástæður fyrir svona hegðan. Þessi málflutningur á eftir að heyrast oftar hérlendis á komandi mánuðum og misserum.

Setti hjólið á nagladekk í gærkvöldi. Dekk, ljós og fleira smálegt kostaði eins og ein fylling á jeppann. Nú verður hjólað í vinnuna eins oft og mögulegt er. Það þýðir lítið að kaupa sér rándýrt hjól og láta það svo standa inni í bílskúr alla tíð.

Nú er síðasta serían af Sopranos á skjánum. Það virðist allt heldur vera farið að verða mótdrægt hjá Tony og þeim af köppum hans sem ennþá tóra. Vandamál og vesen á hverju horni. Í síðasta þætti var einhver samkoma hjá þeim og Nancy Sinatra var fengin til að syngja. Af því Geir Ólafs hefur verið að tala um að fá Nancy til Íslands þá tók maður aðeins meir eftir henni. Ég held að hún eigi bara að vera heima hjá sér. Það sýnir kannski á hvaða stigi standardinn er orðinn hjá þeim Sopranóum. Velti stundum fyrir mér hvort Sopranós serían flokkist ekki undir rasisma. Þarna eru þessi hópur ameríkuítala sýndir sem drullusokkar, morðingjar, dópsalar, þjófar og allt hvað hægt er að nefna á verri enda skalans. Svo má ekki segja upphátt að það hafi verið dólgar frá Póllandi sem voru gerðir útlægir af barnum á Akureyri.

Ég var ekki sáttur við horfa á náungann sem nauðgaði strákunum á Patró í Kastljósi í fyrradag og þylja þar upp sína hlið á málunum. Mér finnst að svona náungar eigi sér fáar málsbætur og eigi í fyrsta lagi að sitja í steininum allan tímann sem þeir voru dæmdir til en ekki að fá einhver afsláttarkjör á dómnum. Hvernig virkar þetta underground dómskerfi sem náðunarnefnd er eiginlega? Í öðru lagi ætti hann byrja á því að gera upp reikningana við fórnarlömbin með þvi að greiða þær skaðabætur sem hann var dæmdur til að greiða áður en hann fer að segjast vera orðinn nýr og betri maður. Í þriðja lagi þarf hann að sýna fram á að hann geti fúnkerað normalt úti í samfélaginu. Það er ekki sjálfgefið. Það sýnir sagan.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Skokkarar í frosti

Ég sá nýlega frásögn Orkneyingsins Williams Sichels frá Spartathlon þar sem hann svarar því hvernig hann gat bætt sig um 4. klst frá hlaupinu 2005. Frásögn Williams er hér:

I have had a lot of questions asking “How can you knock more than 4 hours off your Spartathlon best time? I will summarise:

1) I always said that my 2005 run was a conservative performance. I ran within myself trying to be sure of a finish. I wanted to have a good look at the course, not get lost and learn as much as I could about the event. I lost a lot of time on the night time mountain crossing as I was hopeless going up and down th egoat track at night.

2) For the first time in my ultra career and after 11 years of personal research and trial & error I have now discovered the right way, for me, to take on nutrition in ultras. This knowledge gave me the confidence to start much faster than in 2005. By the first major check point at 81km I was 53 minutes ahead of my 2005 time and feeling good despite the heat.

3) Good specific preparation. The long weekend training camp in the Highlands paid off as I covered the mountain section Lyrkia to Nestani 90 minutes quicker than 2005. I did nine 45 minute sauna training sessions in the last 3 weeks before the race so I was very well prepared for the heat.

4) I simply ran faster for much of the remainder of the course. The only section I covered slower than 2005 (6 minutes) was the last 22km down into Sparta. Partly because I was more tired and partly because it was about 20degC warmer than in 2005!

Put all that together and you have an improvement of 4 hours 13minutes.

Þetta er eitthvað til að læra af.

mánudagur, nóvember 12, 2007

Rólegheit í Kringilsárrana

Eddan var eins og við var að búast í gærkvöldi. Ég sá að vísu ekki mikið en hvernig er hægt að bera virðingu fyrir svona samkomu þar sem tvær kvikmyndir etja kappi. Það er vafalaust gaman að halda uppskeruhátíð og hitta allt liðið en að gera það á kostnað skattborgara og ofan í kaupið að hafa beina útsetningu frá þessu, það er einfaldlega ofmikið. Menn eru eins og vanalega klökkir og er orða vant þegar upp á sviðið er komið. Jón Gnarr og Gísli Einarsson voru þeir einu sem héldu haus í þakkarorðunum. Svo virðist vera einhver óskiljanleg þörf á að troða upp með hlfgerðan kjánagang. Þátttaka Ólafíu Hrannar í þessu dæmi var hreint óskiljanleg og einhver afskaplega misheppnuð stæling á Sigurjóni úr Tvíhöfða þar sem hann skóp persónulega trúbadorinn. Svo skildi ég aldrei það sem ég horfði á hvaða hlutverki feiti gaurinn gegndi. Það var alla vega ekki fyndið. Skelfing væri gott að losna við svona útsendingar. Þær eru næstum því eins leiðinlegar og tilgangslausar eins og útsending frá eldhúsdagsumræðum á Alþingi. En það er svo þegar um er að ræða hóp sem hefur ítök og er viss um að hann sé afskaplega merkilegur, þá er þessum ósköpum troðið upp í andlitið á manni. Mæli með því að fólk lesi pistil Sverris Stormskers um þennan dagskrárlið.

Ég fór í kvöld á fyrirlestur Leifs Arnar í Salnum í Kópavogi þar sem hann sagði frá og hélt myndasýningu af ferðinni á tindinn Cho Oyu í Nepal. Hann gekk á tindinn í byrjun október en hann er yfir 8.000 m. hár. Þetta var fín kvöldstund með Leifi. hann sýndifullt af myndum og sagði skemmtilega frá ferðinni og öllum þeim mörgu ævintýrum sem hann lenti í á leiðinni. Salurinn var troðfullur af áhugasömu fólki.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Skagfirskur hestur

Tók rúma 20 í gærmorgun og síðan aftur í dag. Fínt veður og góð hlaup. Hitti Jósep í Fossvoginum í dag og víð tókum gott rennsli niður í Laugardalslaug. Hann er kominn með blod paa tanden eftir gott maraþonhlaup um daginn og er farinn að hugsa um tíma vel fyrir neðan 3 klst.
Ég er farinn að nota Herbalive nokkuð regluega í kringum æfingar. Byrjaði í septemberbyrjun fyrir Spartathlon og var ánægður með ásigkomulagið í fótunum í hlaupinu. Nú fæ ég mér góða blöndu (Formúlu 1) áður en ég fer á laænga æfingu og tek síðan aðra þeþgar ég kem inn (Formúlu 3). Það er svo merkilegt að ég verð bara ekkert svangur fyrr en liðið er fram á miðjan dag eftir svona skammta. Recoveriið er einnig fínt. Ég skráði mig sem dreifingaraðila til að fá heldur meiri afslátt og fer að feta mig áfram á þeirri braut svona smám saman. Einnig tek ég rreglulega vítamín pakkann sem Ásgeir gaf mér ábendingar um og næ reglulega í skammt til Heilsu. Fæ þetta á heildsöluverði hjá þeim sem er veruleg búbót.

Fór á Selaveisluna í Haukahúsinu í gærkvöldi. Ég hef farið nokkrum sinnum áður. Það er alltaf jafngaman að rifja upp kynnin við selinn hanteraðan á ýmsan hátt, siginn fisk og annað góðgæti. Þetta byrjaði sem lítill hópur fyrir fimmtán árum síðan en nú koma þarna um 250 manns ár hvert og alltaf fullt. Þarna eru margir Breiðfirðingar og austur Barðstrendingar en einnig strandamenn og síðan nokkrir lengra að vestan. Selkjöt er eitt allra besta kjöt sem maður fær, lungamjúkt og bragðgott. Þarna er það hanterað af meistarakokkum svo að kostir þess njóta sín til fullnustu.

Nýlega sá ég í blöðunum sagt frá alþjóðlegri könnun um stöðu jafnréttismála. Þar lendir Ísland í fjórða sæti og eru þrjú norðurlönd fyrir ofan. Þetta staðfestir það sem maður ehfur vitað að Ísland er í fremstu röð jafnréttismála í heiminum, hvað sem líður fjasi og fullyrðingum ofsatrúarhópa á þessu sviði sem reyna að mála skrattann á vegginn við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Sænskur jafnréttisfræðingur talaði á ráðstefnu sem haldin var í gær um þessi mál. Hún fimbulfambaði mikið um hvað staða hjafnréttismála væri hrakleg á Norðurlöndum þegar tekið væri mið af hlutfalli kvenna á þjóðþingum landanna. Norðurlöndin hefðu verið í fremstu röð en væru nú að dragast óðfluga afturúr öðrum löndum á þessu sviði. Nefndi hún sérstaklega til Rúanda og Kosta Ríca sem fyrirmyndarlönd á þessu sviði. Ég vildi gjarna sjá borna saman stöðu jafnréttismála svona yfirleitt í Rúanda aog Kosta Ríka annars vegar og Íslandi hins vegar að ég tali nú ekki um samanburð á samfélögunum í heild sinni. Þá er ég t.d. að tala um efnahagslega stöðu þessara alnda, almenna velmegun, mentunarmöguleika ungs fólks, stöðu heilbrigðis mála svo nokkur dæmi séu tekin. Ég óttast ekki þann samanburð.

Skemmtilega fólkið varð sér til skammar á degi íslenskrar tónlistar á föstudaginn. Á einhverri skemmtun sem haldin tónlistinni til heiðurs var Barði sem samdi lagið Ho Ho Ho We say Hey Hey Hey var kallaður upp á svið og veitt viðurkenning fyrir framlag hans til íslenskrar tónlistar. Viðurkenningin var í formi brúnkukrems, próteinbauks og líkamsræktarkorts. Barði svaraði svo sem vel fyrir sig og lét sér ekki bregða við bjálfalegt grín skemmtilega fólksins. Barði er fölur á kinn og svo sem ekki hraustlegur en það er hans val. Maður getur svo sem rétt ímyndað sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef einhver feit söngkona hefði verið kölluð upp á svið og verið afhent viðurkenning í formi próteinbauks og líkamsræktarkorts. Söngkonan hefði örugglega hlaupið grátandi út og síðan hefðu logarnir staðið upp úr bloggheiminum næstu dagana um staðalímyndir og ég veit ekki hvað. Fjölmiðlar hefðu farið hamförum, kastljósin logað og svo framvegis. Þarna er á ferðinni hið svokallaða Simpson syndrom. Eftir að Simpson serían náði svo miklum vinsældum sem raun ber vitni þá var óformlega gefið út nokkurskonar veiðileyfi á karlmenn, sérstaklega þá sem eru á svipuðum aldri og Simpson. Maður sér anga þess birtast t.d. í fjölmörgum auglýsingum þar sem körlum er lýst sem hálfgerðum bjálfum. Þetta finnst öllum voða fyndið.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Hlaupið i Stige

Skrapp til Akureyrar í gærkvöldi sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Við innganginn í flugstöðvarbygginguna voru tveir eða þrír lögreglumenn með svartan hund sem hnusaði vinalega af farþegunum en lét þá að öðru leyti í friði nema tvo sem virtust vera aldavinir hundsins. Alla vega flaðraði hann upp um þá af miklum gáska og ákafa. Vinir hundsins voru síðan leiddir á bakvið og svo veit ég ekki meir.

Langhundar geta glaðst yfir litlu því 100 km hlaupið í Stige í Óðinsvéum verður ekki lagt niður eins og útlit var fyrir. Nýir aðilar hafa tekið við framkvæmd hlaupsins og gert það einfaldara. Nú verður það hlaupið á 5 km hring sem er mjög flatur þannig að það á að vera auðvelt að ná góðum tímum á þessu hlaupi. Við þetta fyrirkomulag þarf einungis eina drykkjarstöð. Hlaupið verður haldið þann 3. maí n.k. svo það er eins gott að byrja að fara að undirbúa sig. Ég hljóp 100 km í Stige í fyrra. Mjög gott hlaup, einfalt og ódýrt að koma sér þangað.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Vígaleg grafa við Kárahnjúka

Stundum er ekki hægt að átta sig á þeim sem kalla sig fréttamenn. Allt síðan lögreglan á Keflavíkurflugvelli sýndi af sér virðingarverða staðfestu og rak útsendara Hells Angles til sína heima þá hefur staðið síbyljan í fréttum um að einhver sé að hugsa um að leggja fram kæru um vegna þess að þeim var vísað frá landinu. Þetta éta þessir svokölluðu fréttamenn upp aftur og aftur gagnrýnislaust. Í fyrsta lagi getur það ekki verið frétt að einhver sé að hugsa um að gera eitthvað. Það verður í eðli sínu fyrst frétt og kannski fréttnæmt þegar ákvörðun um að gera eitthvað hefur verið tekin en fyrst er það þó alvöru frétt þegar niðurstaðan úr hugsanlegu kæruferli liggur fyrir. Í öðru lagi er það með ólíkindum hvað s.k. fréttamenn láta menn komast upp með að bulla án þess að svo mikið sem depla auga. Einhver lögfræðingur hélt því fram í fréttatíma RÚV að lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli tæki geðþáttaákvarðanir að vild eða á þann hátt að það væri hægt að búast við því að hann myndi stöðva mann í að koma til landsins ef honum þætti hann leiðinlegur. Fréttamaðurinn virtist standa gapandi eða alla vega datt honum ekki í hug að bregðast við þessum fullyrðingum á einn eða annan hátt. Í þriðja lagi hefur afar fáum ef nokkrum dottið í hug að kanna aðeins hvað Hells Angles félagsskapurinn snýst í raun og sannleika um. Það er ekki mikil fyrirhöfn, bara að taka upp símann og hringja á einhvert danska blaðið en það er kannski betra að kunna dönsku við slíka rannsóknablaðamennsku.

Ég sá umræðu um jafnréttisfrumvarpið í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar tókust á rök og klisjur. Að fullyrða það að konur komi yfirleitt með brotna sjálfmynd út úr skólakerfinu er með ólíkindum. Menn laga slíkt ástand alla vega ekki með lagasetningu en ef það er rétt að sjálfsmynd kvenna sé ekki nægjanleg þá á að grafast fyrir um orsök þess og leita leið til að bæta þar úr. Þó að ekki sé rétt að alhæfa mína reynslu yfir allt og allt þá er ekki langt síðan ég var í námi og þar var hver hörku námsmaðurinn á fætur öðrum af kvenkyni og maður var ekki var við að þær væru með neina minnimáttarkennd enda engin ástæða til þess. Magnaðar, þrælklárar og vissu alveg hvað þær vildu.

Það er einnig í hæsta máta réttmætt að efast um að það sé rétt fyrirkomulag að setja þá aðila í eftirlitshlutverk sem hafa persónulegan hag af því að halda eftirlitinu áfram. Þannig tekur það aldrei enda. Það er svipað eins og þegar herinn kom hingað. Í upphafi var sagð að hann yrði hér aðeins á ófriðartímum. Á meðan það var USA hagfellt að hafa herinn hér gat hann alltaf bent á að það væri einhversstaðar ófriður í heiminum og því þyrfti herinn að vera áfram. Á sama hátt getur eftirlitsiðnaðurinn vafalaust alltaf bent á að það sé einhversstaðar að finna meint ójafnrétti og því þurfi að keyra iðnaðinn áfram undir fullum seglum. Mín skoðun er sú að það sé full þörf á því að efast um að jafnréttisiðnaðurinn gæti hagsmuna beggja kynja jafnt. Hann hefur allavega ekki sýnt það fram til þessa.
Ég minni á í því sambandi að jafnréttisiðnaðurinn hefur í engu fjallað um stöðu feðra við skilnaðarmál og hve erfitt þeir eiga í mörgum tilvikum með að fá umgengnisrétt við börn sín og hvað kerfið metur hlut feðra lítils. Því hefur í engu verið mótmælt að feður greiða móðurinni ætíð 100% meðlag enda þótt barnið dvelji langtímum saman á heimili föðurins. Sem betur fer hefur Dögg Pálsdóttir tekið þetta mál upp á Alþingi og er það löngu tímabært.
Ég minni á að karlmenn njóta ekki skipulagðar krabbameinsskoðunar eins og konur gera. Ekki ætla ég að draga úr mikilvægi þess að konur fái reglubundna krabbameinsskoðun en ég get ómögulega skilið afhverju karlar njóta hennar ekki einnig. Blöðruhálskrabbamein verður æ algengara hjá körlum og uppgötvast ærið oft alltof seint. Jafnrétti hvað?
Jafnréttisiðnaðurinn hefur í engu rannsakað hvað veldur sívaxandi brottfalli stráka úr framhaldsskólum. Það er bara eins og mönnum þyki það fínt að konur sé sístækkandi meirihluti þeirra sem útskrifast úr framhaldsskólum. Það er mjög fínt að konur afli sér staðgóðrar menntunar en ég vil fá að vita hvers vegna brottfall hjá strákum eikst sífellt. Af hverju líður alltof mörgum strákum svo illa í grunnskólanum að árangur af skólastarfinu verður lítill sem enginn og það gerist miklu frekar hjá strákum en stelpum? Við þessari spurningu og hinum fyrri fást engin svör enda þykja þau vafalaust óáhugaverð þar sem þær varða hagsmuni karlkynsins. Það sem virðist skipta mestu máli er að telja reglulega kynjahlutfallið í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Grænlensk fjölskylda á förnum vegi

Ég hef verið í tölvupóstsambandi við Neil Kapoor síðan í Grikklandi og sagði honum m.a. frá löngu laugardagshlaupunum okkar. Sótti hann niður á Skólavörðustíg á laugardagsmorguninn og við lögðum upp rúmlega 7.00. Hann hafði gaman af því að kynnast nýjum hlaupaleiðum og nýjum hlaupurum. Hittum Jóa, Halldór og Pétur við brúna og mættum Jörundi skömu síðar. Þetta varð hinn besti túr í góðu verði. Ég losaði rúmlega 30 km en Neil hélt áfram og fór hátt í 40 km. Hann tók erfitt maraþon á 3.25 hálfum mánuði eftir Grikkland og varð þriðji. Svo merkileg sem það er þá var hann venjulegur slúbbert fram að þrítugu og hafði aldrei hlaupið neitt og vissi að hann gat ekki hlaupið. Um þrítugt söðlaði hann um upp úr þurru, hætti að reykja og drekka, gerðist jurtaæta og fór að hlaupa. Þetta er svona svipað eins og með Dean Karnazes, Ultramarathonman, sem byrjaði að hlaupa eftir fylleríi á 30 ára afmælisdaginn sinn. Neil komst rétt milli ljósastaura fyrst en svo fór þetta að liðkast. Fyrir utan fjölmörg maraþon (2.45 best í London í vor) hefur hann sigrast á gríðarlegum hlaupum eins og Badwater og Spartathlon og tekið þrjá triathlon (sem er þrefaldur Ironman í beit). Næsta vor stefnir hann á mikla súperironmankeppni í Bretlandi þar sem syntar eru rúmar 20 mílur, hjólaðir 1500 km og ég man ekki hvaðer hlaupið en það er eitthvað í stíl við fyrstu greinarnar tvær. Það eru skráðir þrír til keppni og ekki búist við fleirum.

Sá viðtal við Sigurð Guðmundsson fyrrv. landlækni og Sigríði konuna hans í Fréttablaðinu í morgun. Þau eru að koma frá Afríku eftir ársdvöl þar og eru mjög gagnrýnin á hvernig staðið er að þróunaraðstoð margskonar. Það vita flestir sem vilja vita og hafa eitthvað kynnt sér þessi mál að svokölluð þróunaraðstoð hefur oft verið til hins verra og betur ógerð. Víða tók hún sjálfsbjargarviðleitnina af fólki og braut niður þann struktur sem fyrir hendi var. Þeir fjármunir sem lagðir voru í þróunaraðstoð máttu helst ekki fara út úr því landi sem veitti aðstoðina og því voru þeir yfirleitt notaðir til að kaupa eitthvað af innelndum fyrirtækjums em síðan var flutt út í s.k. þróunaraðstoð. Ódýr og praktísk aðferð til að kaupa sér góða samvisku.

Öðru hjó ég eftir í viðtalinu sem er orðið svolítið dæmigert fyrir umræðuna almennt í samfélaginu. "Hún var verkefnisstjórinn og ég var undir henni" segir Sigurður og var ánægður með það hlutskipti. "Ég hefði nú ekki átt annað eftir en að fara til Afríku sem einhver undirkona eiginmanns míns" skýtur Sigríður inn í og þau hlægja bæði. Þetta þykir bara fyndið þegar kona segir svona hluti en ég get rétt ímyndað mér hvað rétttrúnaðarsamfélagið hefði sagt ef Sigurður hefði látið svona út úr sér eða hvaða annar kall sem er. Feministarnir hefðu gengið af göflunum og heimtað að viðkomandi yrði brenndur á báli. Það hefði svo sem verið hægt að kynda bálið með upplaginu um Negrastrákana tíu eins og ýmsir eru farnir að ýja að því að rétt sé að gera.

Mér fannst rétt hjá Illuga Jökulssyni að hjóla í söguna um Dimmalimm. Ég er sammála honum um að sagan er heimskuleg og myndirnar fjarri því að vera eitthvað afbragð. Hún er ekkert skárri en negrastrákabókin.

Ég horfði í dag á myndina sem danska sjónvarpið gerði nýlega um ýmsar aðstæður á Grænlandi. Niðurstaða þeirra er að ástandið á Grænlandi sé mjög alvarlegt og samfélagið víða nálægt því að falla saman. Spilling sé landlæg og Danir fjármagna samfélagið að verulegum hluta án þess að spyrja neitt að því hvað þeir fái í staðinn. Það lýsir ástandinu kannski einna best að þeir Grænlendingar sem hafa aflað sér menntunar fara burt. Þeir koma sjaldnast heim aftur og ekki síst vegna eigin barna. Við getum borið saman stöðuna hérlendis að langflestir þeirra sem leita sér menntunar erlendis koma heim aftur. Þensla bankanna, tilkoma Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri nýsköpunarfyrirtækja hefur gert hámenntuðu fólki kleyft að flytjast hingað sem það gerir ekki síst vegna barnanna. Þetta segir ákveðna sögu.

Danirnir voru í þessari mynd fyrst og fremst að lýsa ástandinu í Nuuk sem er bær álíka að stærð og Akureyri. Þeir segja að munur mili ríkra og fátækra sé mun meiri á Grænlandi en í USA sem hefur oft verið nefnt sem vagga ójafnaðarins. Í Nuuk er 15 - 20 ára bið eftir húsnæði. Á sama tíma spandera stjórnvöld gríðarlegum fjármunum í allskonar rugl eins og selapulsuframleiðsluna sem fór svo marflatt á hausinn sem nokkurt fyrirtæki gat farið. Ég þekki persónulega dæmi um fiskirækt sem norskur lukkuriddari gabbaði þá til að leggja gríðarlega fjármuni í og aldrei varð að nokkrum hlut. Svona fara spillt stjórnvöld með almannafé án þess að þurfa nokkru sinni að axla ábyrgð. Þingmenn samþykktu lög þess efnis að þeir og æðstu embættismenn ríkisins gætu keypt húseignir ríkisins á 30 - 40% af markaðsverði. Þeir skilja síðan ekki baun í því að einhverjum þyki þetta vera aðfinnsluvert þar sem þingið hafi samþykkt lög þes efnis þ.e.a.s. þeir sjálfir. Það má segja að eftirlaunafrumvarpið sem var samþykkt 2003 sé eitthvað í áttina að svona skítadæmi. Gott hjá Valgerði Bjarna að hreyfa við því á þinginu núna. Það má segja að allt sem eitthvað kveður að á Grænlandi sé ríkisrekið. Sjávarútvegurinn, samgöngur, verslun o.s.frv. Einn sagði að þetta væri sambærilegt við það sem gerist á Kúbu og Norður Kóreu. Síðan sitja sömu stjórnmálamennirnir í öllum stjórnum þessara fyrirtækja og ráða þannig öllu í samfélaginu.

Misnotkun á börnum er gríðarlega útbreitt vandamál á Grænlandi. Í myndinni segir maður milli 30 og 40 ára gamall sögu sína en hann var misnotaður af fullorðnum karli þegar hann var 11 ára gamall. Draugurinn frá þeim atburði hefur fylgt honum allar götur síðan. Hann fullyrti að fjölmargir aðrir drengir hefðu orðið fyrir barðinu á þessum manni án þess að nokkuð hefði verið gert. Alls höfðu 11 vinir hans og jafnaldrar framið sjálfsmorð, þar af einn yngri bróðir hans. Einungis viku eftir að hann og félagi hans sátu eitt sinn saman í jarðarför vinar þeirra féll vinurinn fyrir eigin hendi. Myndinni lýkur með því að maðurinn herðir upp hugann og fer á lögreglustöðina og leggur fram kæru á hendur glæpamanninum, nokkuð sem hann hafði hugsað um árum saman en aldrei haft hugrekki til að gera fyrr en eftir að hann hafði opnað sig við sjónvarpstökuliðið.

Grunnskólinn virðist vera í algerri rúst. Agaleysið og áhugaleysið er algert hjá stórum hluta krakkanna. Þegar um helmingur barnanna skilaði heimaverkefni þá var það mjög góður árangur. Það er svo sem ekki við öðru að búast ef enginn áhugi eða hvatning er víða heima fyrir og fæstir sjá nokkra leið úr þeirri stöðu sem þeir eru í nema í gegnum brennivínið. Það er svo sem ekki á góðu von þegar stórum hluta af fólkinu fólkinu er safnað saman í gríðarstór niðurnídd blokkakomplex. Maður gæti svo sem sjálfan sig séð að alast upp við slíkar aðstæður. Það er verið að byggja háskóla í Nuuk en menn vita ekki hvaðan nemendurnir eiga að koma í hann.

Það var gaman og eftirminnilegt að koma til Tassilaq í sumar. Engu að síður sá maður að þarna voru margháttaðir erfiðleikar. Það segir sig sjálft að það er ekki allt í lagi þegar atvinnuleysið er um 25%. Aðstæður eru óskaplega erfiðar á margan hátt og einhvern vegin fannst manni það allt að því óyfirstíganlegt verkefni að yfirstíga þær. Engu að síður eru heimamenn þar magnaðir á ýmsan hátt s.s. að hafa byggt upp ATC keppnina mð þrautseigju og úthaldi.

laugardagur, nóvember 03, 2007

Gítarleikari Svanhvítar tekur á

Það er frábært hjá lögregluyfirvöldum að taka af hörku á móti Vítisenglunum í Leifsstöð og senda þá til síns heima. Það er alveg á hreinu að þessi glæpasamtök munu gera allt sem hægt er til að ná yfirráðum á dópmarkaðnum hérlendis eins og þau hafa gert að miklu leyti í nágrannalöndum okkar. Vítisenglar eru ein alræmdustu og harðsvírustu glæpamannasamtök sem um getur. Þau standa ítölsku mafíunni ekki langt að baki. Þegar ég bjó í Köben fyrir rúmum 20 árum þá voru Hells Engels og Bullshit tvö stærstu samtökin af þessum toga í borginni. Englarnir réðu dópmarkaðnum í Nörrebro hverfinu og þar um kring en Bulshittararnir réðu dópmarkaðnum á Amager og þar með í Kristianíu. Milli þessara hópa voru mikil átök sem enduðu með því að Makríllinn, foringi Bullshittaranna, var drepinn af engli úti á Amager. Sá flúði til Kanada og var þar í nokkur ár, kom síðan heim aftur, sat nokkur ár í fangelsi eins og kóngur og var síðast þegar ég vissi foringi englanna í Danmörku. Menn komast til áhrifa með slíkum aðgerðum. Einu sinni sá ég Bullshittarana í stórri mótorhjólaparade úti á Österbro og fór ekkja Makrílsins, ljóshærð stelpa, þar í broddi fylkingar. Vissulega mögnuð sjón. Stríðið milli fylkinganna endaði þannig að englarnir drápu flesta Bullskittarana og klárðu dæmið þannig. Þannig urðu þeir allsráðandi á þessum markaði í Danmörku.

Hells Engels eru samtök af slíkri gráðu að þau eru almennt talin ógnun við samfélagið. Því skiptir engu máli hvort meðlimir þeirra séu á sakaskrá eða ekki, þeir eru óæskilegir hvar sem er. Fréttamannsgreyið sem var úti í Leifsstöð í kvöld ætti að kynna sér lágmarksatriði í málinu áður en hann fer að fjalla um málið, slík var frammistaða hans.

Meðvitaða liðið er strax farið að hafa hátt og hreyta skít og skömm yfir lögguna fyrir að standa sig í starfi. Það er svo sem ekki við öðru að búast úr þeirri átt.

Það er svolítið gaman að sjá hvaða rökum þeir beita varðandi það að gera ekki athuagsemdir við hvataferð vopnaframleiðenda hingað til lands sem æptu sem hæst í fyrra þegar klámliðið ætlaði að koma til landsins. Jú þetta er ekki svo alvarlegt þar sem ætla má að þeir komi ekki til með að beita tólum sínum hérlendis. Ergó, klámliðið ætlaði þá samkvæmt þeirra mati líklega að nota tól sín og tæki og því voru þeir óæskilegir til landsins. Þvílíkur tvískinningur.

Skrapp niður í Austurbæ í kvöld til að taka myndir. <3 Svanhvít var að spila þar ásamt fleirum. Það voru ekki margir áhorfendur enda ekki að furða. Uppistaðan af böndunum voru dauðahljómsveitir þar sem eru ekki gerðar kröfur til neins nema að hafa hátt. Það er ekki alveg minn kaffibolli og svo virtist vera um fleiri.

föstudagur, nóvember 02, 2007

Úr stofunni á Brekku í Mjóafirði

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi nú rétt nýlega að vera boðið að gerast meðlimur í Rótarý klúbbnum í Breiðholti. Fór á fyrsta fundinn í síðustu viku þar sem formleg inntökuathöfn fór fram. Þetta verður vafalaust bæði gaman og gagnlegt. Það er alltaf fróðlegt að kynnast nýju fólki og nýjum hlutum. Ég hef einu sinni komið á fund í þessum klúbb áður. Það var rétt fyrir jólin 2005 þegar ég sagði frá þátttöku minni í Western States. Á fundi í svona klúbbum koma einstaklingar úr hinni og þessari áttinni að segja frá ýmsu sem þeir þekkja eða hafa reynt. Ég hef vafalaust verið fenginn til að halda erindið undir formerkinu: „Einkennilegir menn“!!

Ég hef stundum fengið að heyra það að ég sé að vasast í of mörgu og kunni mér ekki hóf í áhugamálum og taki þátt í of mörgu af því sem er að gerast fyrir utan heimilið. Ekki skal ég segja til um hvort þetta tvennt hangir saman en alla vega þá sagði ég mig úr Framsóknarflokknum fyrir nokkru. Það eru nokkur ár síðan ég gekk formlega í hann. Ég ætla ekki að rekja ástæður þess nánar að leiðir skildu. Ég hef kynnst mörgu fínu fólki innan flokksins en engu að síður þá var það niðurstaða mín að ég ætti ekki heima í þessum selskap lengur. Þá er það bara þannig.

Ég vil vekja athygli áhugasamra á linkunum á myndiasíðuna earthshots.org sem er hægra megin á síðunni. Þetta er myndasíða þar sem er valin inn ein mynd á dag hvaðanæva úr heiminum. Þeir sem senda inn myndir setja einnig inn upplýsingar um myndasíðurnar sínar. Ef maður klikkar á einhverja mynd þá sér maður textann Photo details í hægra horninu neðst. Ef maður klikkar á það fær maður ýmsar upplýsingar um viðkomandi og meðal annnars link á myndasíðuna hans. Bendi til dæmis á mynd frá 25. október sem er frá Landmannalaugum, tekin af pólskum ljósmyndara. Á síðunni hans eru rúmlega 100 ofboðslega fallegar myndir frá Íslandi. Mér sýnist þetta vera allt að því óendanlegur sjóður í að ganga fyrir áhugasama.