fimmtudagur, júlí 29, 2010

The Rolling Stones - Have Mercy

Arnarfjörðurinn á góðum degi

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að vísitala neysluverð hafi lækkað annan mánuðinn í röð. Sasmtals hefur því vísitalan lækkað um 0,99% á þessum tveimur mánuðum. Rætt er við nokkra aðila sem málið er talið varða og allir eru mjög ánægðir með þessi tíðindi. Lánin lækka og ég veit ekki hvað. Þetta sýnir aðeins hvað umræðan er oft grunn hérlendis. Í hinum stóra heimi er verðbólga talin slæm en verðhjöðnun ennþá verri. Í verðhjöðnun dregur almenningur úr neyslu og fyrirtæki draga úr fjárfestingum því meginreglan er sú að beðið sé eftir að verðlag lækki enn meir. Að verðhjöðnunin verði enn meiri. Þeir sem eiga peninga í handraðanum eyða sem minnstu því þeir fá meira fyrir peningana á morgun heldur en þeir fá í dag. Nú skiptir kannski ekki máli þótt það verði verðhjöðnun í einn mánuð eða tvo en ef hún verður viðvarandi þá fer þetta að skipta máli. Það er til dæmis hægt að skoða þróun efnahagsmála í Japan í þessu sambandi. Þar var verðhjöðnun ríkjandi um áraraðir. Vextir voru komnir nær því niður í 0 í þeim tilgangi að örva hagvöxt. Ef halda á verðbólgu í skefjum skiptir hins vegar mestu máli að hafa hemil á ríkisútgjöldum. Eyða minna en menn afla. Það þýðir hins vegar meira atvinnuleysi. Það er því erfitt að gera svo öllum líki.

Nú er verið að senda út álagningarseðla skattstofunnar. Sumir hafa vangreitt en aðrir fá endurgreiðslu. Ellilífeyrisþegar verða að endurgreiða marga stórar fjárhæðir sem þeir hafa fengið ofgreitt. Hluti af ástæðu þess er að þeir hafa verðbætur á peninga sem þeir eiga í banka. Þarna er ekki við starfsfólk TÍ að eiga heldur fer það vitaskuld eftir lögum. Lögin eru hins vegar arfavitlaus. Ef maður á 100 krónur í banka um áramót og verðbólgan er 0% þá á maður 100 krónur í lok ársins í bankanum. Innistæðan er jafngild að verðmæti í ársbyrjun og í árslok. Tryggingabætur skerðast ekki. Ef maður á 100 krónur í ársbyrjun í 10% verðbólgu og fær verðbætur á inneignina þá á maður 110 krónur í árslok. Verðmæti og kaupmáttur innistæðunnar er jafnhátt í ársbyrjun og árslok. En þá eru 10 krónurnar sem eru bætur fyrir minna verðmæti hverrar krónu reiknaðar sem tekjur og gerðar eru kröfur um endurgreiðslu á ofgreiddum tryggingabótum sem þessu nemur. Ríkið græðir því á verðbólgunni sem þessu nemur. Ég veit ekki hvaða mannvitsbrekka hefur fundið það út að verðbætur á innistæður séu launatekjur. Í mínum huga eru þær bætur fyrir minnkandi kaupmátt hverrar krónu yfir árið þannig að innistæða sé jafngild í árslok eins og hún var í ársbyrjun. Þarna fer í raun fram eignaupptaka hjá öldruðum sem hafa getað lagt fyrir einhverjar krónur í gegnum árin.

Fjölmiðlamenn keppast hver við annan að vitna í bloggfærslur út og suður og svokallaðar undirskriftasafnanir á Facebook eins og þetta sé einhver alvörufaktor í samfélaginu. Síðan er endalaust vitnaði einhver undarleg samtök sem nefna sig t.d. "Hagsmunasamtök heimilanna", "Samtök skuldara" "Samtök lánþega" og ég veit ekki hvað. Ég hef áður velt fyrir mér hverjir standa á bak við þessi samtök. Eru það einhverjir örfáir einstaklingar? Hvaða vigt hafa þeir? Fyrir hverja tala þeir? Alla vega er það svo að ef þeir senda frá sér texta í fjölmiðla þá er hann lesinn aftur á bak og áfram eins og hann kæmi frá ASÍ eða SA.

miðvikudagur, júlí 28, 2010

The Rolling Stones - As Tears Go By

Bíldudalur á góðviðrisdegi

Þegar ég kom úr Þjórsárverum fór ég að lesa í gegnum eitt og annað sem hafði beðið. Fljótlega rakst ég á umræðu um Stóra Laugavegsmálið. Ég ætla ekkert að segja um það annað en ljóst er að það þarf að setja ákveðnar reglur um ýmis atriði eins og eru til staðar í þeim ofurhlaupum sem ég hef tekið þátt í erlendis. Af því að minnst var á reglur sem gilda í erlendum ofurhlaupum þá finnst mér rétt að fara aðeins yfir það sem kemur upp í hugann í því sambandi.

Í Western States í Kaliforníu er heimilt og talið allt að því æskilegt að hafa meðhlaupara síðustu 60 kílómetra hlaupsins. Það er fyrst og fremst gert í öryggisskyni því þá er hlaupið í gegnum nóttina og landslagið t.d. á stundum varasamt. Reynslan hefur kennt forstöðumönnum hlaupsins að þetta er æskilegt. Mér kemur í hug það sem Rollin Statton sagði við mig þegar ég hrasaði á annað hnéð einu sinni um nóttina í myrkrinu: "Passaðu þig Gulli, það eru svona 50 metrar niður hérna." Meðhlaupararnir mega einungis koma inn í hlaupið á Forest Hill School en þá eru búnir um 100 km af hlaupinu. Þeir fá t.d. sérstök númer. Þeir mega einungis hlaupa með hlauparanum en ekki aðstoða hann á neinn hátt, t.d. ekki bera neitt fyrir hann. Því er einungis um andlega aðstoð að ræða sem skiptir vissulega máli svo og öryggismál eins og áður sagði.

Þessi öryggissjónarmið eru alls ekki til staðar í Laugavegshlaupinu. Til samanburðar má nefna að WS er álíka að lengd og hæðarmismun eins og leiðin frá Landmannalaugum niður í Skóga og til baka upp í Landmannalaugar.

Fyrra árið sem ég tók þátt í Spartathlonhlaupinu tók Scott Jurek, hinn mikli bandaríski hlaupari, einnig þátt í því í fyrsta sinn. Hann sigraði í hlaupinu eins og kunnugt er. Konan hans fylgdi honum á brautinni á bíl og var út um allt að redda og græja hlutum eftir því sem maður heyrði. Til að mynda lagði hún mikið á sig að útvega ís í hitanum eftir því sem maður heyrði. Ég veit ekki hvort þessi aðkoma hennar olli einhverjum kurr en alla vega er víst að árið eftir var það tiltekið mjög skýrt að ef hlaupari fengi aðstoð fyrir utan formlegar drykkjarstöðvar þá þýddi það útilokun úr hlaupinu (DQ). Í Spartathlonhlaupinu eru meðhlauparar bannaðir.

Þegar ég tók þátt í 24 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi árið 2008 þá var 48 tíma hlaup haldið þar í fyrsta sinn. Seinni nóttina voru margir orðnir illa haldnir og skjögruðu til og frá á brautinni. Nokkrir voru með aðstoðarmenn (maka eða einhverja aðra). Í sumum tilvikum gekk aðstoðarmaðurinn undir "hlauparanum" gegnum seinni nóttina í þess orðs fyllstu merkingu. Í vor var það síðan tiltekið skýrt í reglum hlaupsins að aðstoðarfólk ætti ekki að vera á brautinni síðustu 12 tíma hlaupsins að því mig minnir. Hlaupararnir áttu að vinna sig í gegnum erfiðasta hlutann á eigin spýtur.

Þarna voru reglur skýrðar og hertar með hliðsjón af reynslunni. Hins vegar varð ég aldrei var við neina DQ umræðu í þessu sambandi. Aðalatriðið var að ef talið var nauðsynlegt að skerpa reglur þá var það gert. Settar reglur gilda vissulega fyrir alla keppendur en ekki einungis þá fyrstu eða þá sem eru að keppa til verðlauna.

Þegar maður hleypur í gegnum þorp í löngum hlaupum þá hefur komið fyrir að fólk hafi sett upp veitingar að eigin frumkvæði af því það hefur gaman af því að tengjast hlaupinu eilítið og gera hlaupurunum gott. Slíkt framtak er vitaskuld ætlað öllum þeim sem vilja nýta sér fram settar veitingar. Ef þær væru einungis ætlaðar fáum útvöldum þá væri gerð athugasemd við slíka framtakssemi.

Það er ljóst að þegar metnaður vex hjá hlaupurum og meiri alvara og tími er lagður í æfingar þá er nauðsynlegra en fyrr að hafa allar reglur skýrar. Það á heins vegar ekki að koma í veg fyrir þá ánægju sem þátttakendur hafa af því að taka þátt í hlaupum heldur að auka hana ef eitthvað er. Skýrar reglur eiga að koma í veg fyrir að upp komi kurr innan hlauparasamfélagsins vegna þess að umgjörðin sé óskýr og hægt að teygja hana og toga. Ofurhlauparáð FRÍ hefur því verk að vinna til að skerpa á almennu regluverki um umgjörð ofurhlaupa í stíl við það sem gerir á erlendum vettvangi.

Ég sá nýlega að það var haldið 48 tíma hlaup í Köln í Þýskalandi fyrir skömmu. Sigurvegarinn hljóp rúma 357 km eða um 5 km lengra en ég fór á Borgundarhólmi. Af um 40 þátttakendum fóru einungis þrír yfir 300 km. Sem stendur held ég að ég sé í sjötta sæti á heimslista í ár. Af þeim sem hafa hlaupið lengra en ég eru fjórir á fimmtugsaldri og einn (Lars Skytte frá Danmörku) er tæplega fertugur.

mánudagur, júlí 26, 2010

The Rolling Stones - I'm All Right

Góður dagur í Þjórsárverum

Það var safnast saman við húsnæði FÍ í Mörkinni á þriðjudagsmorguninn var rétt fyrir kl. 8:00. Þar voru samankomnir 29 væntanlegir göngugarpar og tveir fararstjórar, þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Gísli Már Gíslason. Þau eru bæði starfandi sem prófessorar við HÍ og eru mestu Þjórsárverasérfræðingar landsins og þótt víðar væri leitað. Þótt gaman væri að koma í Þjórsárver eins og marga aðra staði þá var væntanleg fararstjórn þeirra það sem fyrst og fremst dró mig með í ferðina. Við ókum sem leið lá upp að Hrauneyjum en þar voru mættir nokkrir starfsmenn á vaði. Meðal þeirra voru hjónin Páll Ásgeir og Rósa. Hlutverk þerra var að koma okkur yfir Þjórsá við Kvíslarveitu svo ferðin gæti hafist. Nokkuð bras var hjá björgunarsveit Árborgar að koma gúmmíbátnum inneftir m.a. vegna þess að lega fór í kerrunni. Þá var bátnum bara dengt upp á þakið á einum jeppanum. Hópurinn var svo ferjaður yfir fyrri kvíslina á Þjórsá með því að draga hann fram og aftur yfir ána á streng. Tæpum kílómeter vestar var önnur kvísl sem var óvæð. Björgunarsveitarmenn færðust undan því að bera bátinn fram og til baka milli kvíslanna svo það varð úr að hópurinn gekk upp með kvíslinni og fór á jökli fyrir upptök árinnar. Þar ofarlega var á vegi okkar fyrsta ársprænan sem þurfti að vaða yfir en alls urðu þær 27 áður en yfir lauk. Jökulár eru ískaldar eins og þeir þekkja sem reynt hafa þær á tánum. Flestir voru með vaðsokka en ekki allir en allt gekk þetta upp. Pokarnir eru þungir í upphafi ferðar og sigu töluvert í. Maður er yfirleitt með of mikið með sér en það er betra að hafa aðeins meir en að vanta hlutina þegar á hólminn er komið. Þegar að jöklinum kom sukku fremstu menn upp á legg í drullu. Það tók dálítinn tíma að koma hópnum yfir svaðið með því að bera grjót undir hann en allt fór það vel að lokum. Reyndar rann ein kona á ísnum og blóðgaði sig á augabrún en það var minna en leit út fyrir í upphafi. Gangan yfir jökulinn gekk vel. Á leiðinni voru nokkrir svelgir sem þurfti að vara sig á því þeir sleppa ekki svo gjarna því sem í þeim lendir. Þegar komið var niður af jöklinum þurfti að vaða yfir aðra jökulá sem var heldur stærri. Hún var virkilega köld og voru ýmsar tær orðnar kaldar og sárar þegar yfir var komið. Þaðan var stutt í tjaldstæðið undir Arnarfelli hinu mikla en þar ætluðum við að hafast við í tvær nætur. Það er alltaf góð tilfinning að skríða inn í tjaldið eftir stífa göngu með þungan poka og hita sér eitthvað að borða. Svo var fljótlega farið að sofa. Það var bjart um nóttina en nokkuð kalt. Ég þurfti að bæta á mig fötum um nóttina og náði að sofa sæmilega. Morguninn eftir var haldið á Arnarfell hið mikla sem gnæfði yfir tjaldstaðnum. Það er rúmlega 1100 metra hátt og rís um 500 metra yfir Þjórsárverum. Það var farið rólega upp og Gísli og Þóra skýrðu út allt smátt og stórt sem á vegi okkar varð, hvort sem um var að ræða blóm, grös, skordýr eða fjallahringinn. Ég held að það sem þau vita ekki um Þjórsárver sé ekki þess virði að vita það. Uppi á Arnarfelli var útsýnið eins og best var hægt að hugsa sér, fjallahringurinn blasti við okkur allann hringinn, sólin skein og blæjalogn var. Betra gat það ekki verið. Síðan gengum við niður bratta skriðu vestan megin á fellinu og þokuðum okkur svo smám saman til tjaldanna aftur. Um nóttina fór að rigna upp úr miðnætti. Það var ekkert tilhlökkunarefni að eiga von á að þurfa að ganga til Nautöldu í rigningu en þangað var ferðinni heitið daginn eftir. Það er um 18 km leið. Það stóðst hins vegar á endum að þegar við fórum á fætur hætti að rigna og dagurinn var þurr og hlýr. Við gengum sem leið lá niður eyrarnar í áttina að Múlunum svokölluðu sem eru fremstu jökulgarðarnir í þessum hluta veranna. Þeir eru úr jarðvegi og hafa rúllast eða spýst upp við framhlaup jökulsins. Nú fórum við að kynnast alvöru jökulám. Þær breiddu úr sér þarna á eyrunum og tók töluverðan tíma að finna væða leið yfir þær. Það tókst þó allt á endanum en það var ný upplifun fyrir marga að sullast yfir breiðar og beljandi jökulár. Við gengum eftir Múlunum, skoðuðum rústir og líklegt byrgi Fjalla Eyvindar. Þarna hittum við hóp vísindamanna sem voru nýkomnnir á staðinn. Verkefni þeirra var m.a. að greina uppruna og tilurð jökulgarðanna. Áfram var haldið og stoppað við stóra gæsarétt sem var á hól skammt frá Hjartafelli. Þessar gæsaréttir eru ævafornar en þær voru notaðar til að reka í ófleygar gæsir og síðan var þeim slátrað. Þetta eru mannvirki frá miðöldum því engar heimildir eru til um notkun þeirra. Trú ýmissa er að Fjalla Eyvindur hafi hresst upp á þær tvær sem sjást best þegar hann dvaldi þarna fyrir um 270 árum síðan. Skammt fyrir vestan gæsaréttina var enn ein jökuláin sem virtist meinleysisleg en reyndist vera sú versta í ferðinni. Allt gekk þó vel og við komumst í tjaldstað við Nautöldu um kl. 20:00. Daginn eftir var hlýtt og logn. Þá gengum við upp á Ólafsfell og inn eftir því inn að jkullóni sem einu sinni var. Fyrir 10 árum var þarna stórt lón sem hljóp á nokkurra ára fresti. Nú hefur jökullinn lést svo að það kemur smá hlaup í ána einu sinni á ári. Líklega stóð það yfir akkúrat núna. Við fórum nokkur niður að stórum íshelli sem við sáum á jöklinum. Rétt í þann mund sem við komum að honum þá hrundi niður gríðarstór fylla úr loftinu. Það er betra að vera ekkert að reka nefið þar innfyrir. Á leiðinni til baka stoppuðum við hjá heitri uppsprettu sem spratt upp vestan undir Ólafsfellinu. Vatnið er 62°C þar sem það sprettur fram. Því er veitt í smá poll gerðum af mannahöndum þar sem hægt er að baða sig. Ekki leist öllum á það í upphafi en þar lauk að flestir ef ekki allir fóru í bað og þótti það afar hressandi.
Daginn eftir átti að ganga á Nautöldu og fara niður í verin. Dagurinn heilsaði fagur og bjartur og var þannig að á betra var ekki kosið. Hitinn var vel yfir 20°C, logn og sólskin. Betra gerist það ekki. Hópurinn fór hægt yfir og naut dagsins. Nú voru þau Þóra og Gísli á heimavelli. Það var vaðið út í tjarnir og smádýr skoðuð sem maður hefði ekki veitt minnstu athygli við að strika framhjá. Ítarlega var farið yfir gróðurfarið og fuglar sem urðu á vegi okkar greindir þannig að það varð ekkert útundan. Að lokum var samnkallað höfuðból heimsótt en það er tófugreni sem er neðarlega í verunum. Við sáum enga hreyfingu á því úr fjarlægð en þegar nær var komið stökk steggurinn undan runna skammt frá. Í greninu urruðu yrðlingarnir innan dyra. Á því lá síðan slatti af gæsaungum. Við róluðum síðan til baka í góða veðrinu. Þegar heim í tjaldstað var komið fóru margir í þrifabað í læknum fyrir neðan tjaldstaðinn. Vatnið þar er ekki yfir 4°C en þegar lofthiti er um 20°C þá er margt hægt.
Síðasta daginn var síðan gengið í Setrið í góðvirði, logni og hlýju. Þangað komum við um kl. 14:00 og þurftum að bíða í smá stund eftir rútunni en svo var haldið til byggða.

Í Þjórsárverin koma afar fáir á hverju ári. Það er erfitt að komast þangað, þau eru erfið yfirferðar og því eru þau fáfarin. Það voru því hrein forréttindi að fá tækifæri til að ferðast þarna um í góðvirði og blíðu með mestu Þjórsárverasérfræðingum landsins, þeim Þóru Ellen og Gísla Má. Öllu var gaumur gefinn hvort það voru stærstu jöklar landsins úti við sjóndeildarhring, örnefni fjallahringsins, minnsta blóm landsins eða lirfur og krabbadýr í tjörnum. Virkjanafyrirætlanir fyrr og síðar sem hefðu haft áhrif á verin voru skýrðar nákvæmlega út þannig að það var ekkert sem stóð út undan. Þetta var frábær ferð og eiga þeir þakkir skyldar sem gerðu hana mögulega svo og ber að þakka góðum ferðafélögum sem skiptir ekki litlu máli að hafa nálægt sér í svona túrum.

That's how strong my love is - Rolling Stones

Við Anna Guðrún vinnufélagi minn á toppi Arnarfells hins mikla

Kom í hús í kvöld eftir frábæra sex daga í Þjórsárverum. Vorum mjög heppin með veður. Hlýtt og hægviðri alla daga. Sól og yfir tuttugu stiga hiti í tvo daga. Þegar rigndi þá rigndi á nóttunni. Segi betur frá ferðinni síðar.

mánudagur, júlí 19, 2010

THE ROLLING STONES: It's All Over Now

Horft niður Bjarngötudal

Við Sveinn tengdapabbi renndum vestur á firði á fimmtudaginn. Veðrið var eins og best verður á kosið. Ferðinni var fyrst heitið vestur á Rauðasand. Við komum þangað um miðjan dag í taumlausri veðurblíðu. Húsið var eins og gengið var frá því fyrir einu og hálfu ári. Ég fór því miður aldrei vestur í fyrra. Við komum okkur fyrir og fórum síðan á flakk. Við heimsóttum fyrst Hrein og félaga hans en þeir voru komnir til að veiða í ánni. Það er smá laxavottur í ánni sem bæirnir sem eiga hana hafa yfir að ráða. Eftir að hafa borðað góðan kvöldmat þá renndum við út að Kirkjuhvammi og hittum Einar og Döbbu, staðarhaldara í Saurbæ og Kirkjuhvammi. Kjartan Gunnarsson og kona hans Sigríður eiga þessar jarðir og það er mikill sómi að því hvað þau hafa gert þeim til góða. Miðstykkið á Sandinum er til mikils sóma. Kaffihús er rekið í Kirkjuhvammi og í fyrra komu þangað á þriðja þúsund manns. Þar er einnig aðstaða fyrir ferðafólk, gistiaðstaða, rafmagn, vatn og salerni. Seinna um kvöldið fórum við í kvöldkaffi út að Lambavatni eins og við gerum alltaf þegar ég kem vestur. Það er alltaf gaman að hitta gamla nágranna og spjalla um það sem á dagana hefur drifið. Á föstudaginn var aðeins stífari norðanátt en sama fína veðrið, hlýtt og gola. Við fórum fyrst inn að Melanesi en þar er nýbúið að setja upp salernisaðstöðu og bílastæði fyrir neðan túnið á Melanesi. Þaðan er örstutt að ganga niður á Rif en það er alltaf jafn sérstætt að koma þangað. Síðan fórum við í gönguferð fram með á og hittum Hrein og Kalla. Það lítur út fyrir gríðarlega berjasprettu í sumar miðað við vísirana sem eru á lynginu þarna um allt. Ég fór svo aðeins að taka til í kringum bæinn og leggja niður hluta af girðingarræflinum. Það er gríðarlegt verk sem liggur fyrir að taka til á jörðinni og það vinnst ekki nema á nokkurra ára tímabili ef vel á að vera. Við gengum svo niður á Rifshaus frá Kirkjuhvammi síðdegis þegar fallið var út. Það voru margir kunnugir staddir á Kirkjuhvamshlaðinu þegar við komum þangað og var gaman að hitta allt þetta fólk sem maður sér alltof sjaldan. Sigríður vinnufélagi minn var þarna meir að segja stödd þarna með dætur sínar, tengdason og dótturdóttur. Um kvöldið fórum við í kvöldverð til strákanna niður við ána. Það lægði þegar leið á kvöldið og við sátum lengi þarna í kvöldkyrrðinni og horfðum á flæðina fylla árfarveginn smám saman.
Á laugardagsmroguninn tókum við daginn snemma og nú lá leiðin norður á Þingeyri. Við keyrðum firðina og stoppuðum vel við Dynjandisána. Við gengum alveg upp að Fjallfossi en þangað hafði ég ekki komið áður. Það eina sem skyggði á var að sólin var beint fyrir ofan fossinn svo það var ekki eins gott fyrir myndatöku eins og æslkilegt var. Síðan renndum við norðuir af og vorum komnir til Þingeyrar rúmlega kl. eitt. Við skelltum okkur í sturtu. Fyrir vestan var haldin mikil hlaupahátíð á helginni. Óshliðarhlaupið var á föstudegnum, á laugardeginum var skemmtiskokk og keppni í fjallahjólreiðum og síðan var Vesturgatan hlaupin á sunnudeginum. Ég var með fyrirlestur um ýsmislegt hlaupatengt í íþróttahúsinu kl. 14:00 og það komu hátt í þrjátíu manns sem er bara ágætt. Strax þar á eftir renndum við út með firðinum, fyrir Sle´ttanesið og síðan inn Arnarfjörðinn. Ég hafði aldrei komið þarna áður svo það var tilvalið að kanna leiðina sem átti að hlaupa daginn áður. Þarna er nú allt í eyði en lengst var búið á Lokinhömrum. Veðrið var eins og áður eins gott og hugsast gat. Við komum til Þingeyrar aftur á áttunda tímanum, fengum okkur að borða og spjölluðum svo við kunningjana sem sumir voru að koma til að taka þátt í Vesturgötuhlaupinu.
´
Gögn voru afhent upp úr 8:30 morguninn eftir og síðan haldið af stað upp úr kl. 9:00 í rútu. Ekið var sem leið lá yfir Hrafnseyrarheiði og út í Stapadal utarlega í Arnarfirði. þar hófst hlaupið kl. 11:30. Fólk lét fara vel um sig í þúfunum á meðan beðið var eftir að hlaupið hæfist. Flaggið féll á mínútunni 11:30. Leiðin var þannig að það þurfti að hafa aðgát framan af vegna þess að slóðinn er ansi ósléttur og hrjúfur. Við Jói héldum sjó saman mestan hluta hlaupsins. Það var smá mótvindur út á Sléttanesið en þaðan var lens inn að Sveinseyri þar sem markið var. Alls voru þetta 24 km og ég lauk því á rúmum tveimur tímum sem var allt í lagi. Í fullri Vesturgötu tóku þátt hátt í 80 hlauparar og um 70 í hálfu hlaupi. Framkvæmdin var virkilega flott hjá Vestfirðingum og gaman að taka þátt í þessari ágætu hlaupahátíð hjá þeim. Þáttakan er orðin svo mikil að þeir þurftu að takmarka þátttöku í styttra hlaupinu þar sem flutningsgetan var takmörkuð. Það er hægt að mæla með þessu hlaupi allra hluta vegna. Við renndum svo suður fljótlega eftir að við vorum búnir að taka saman. Jósep kom með okkur. Nú fórum við norðurleiðina. Við vorum kannski ekki svo mikið fljótari en nú er öll leiðin malbikuð ef farið er þessi leiðin. Alltaf sér maður fleiri og fleiri jarðir þar sem tún eru ekki slegin. Jafnvel eru það jarðir þar sem stór bú hafa verið rekin til skamms tíma.

Þetta var fínn túr vestur á firði eins og gefur að skilja. Á morgun verður haldið í Þjórsárver.

sunnudagur, júlí 11, 2010

The Rolling Stones; Out of time

Úr aðstöðutjaldinu á Borgundarhólmi

Ég er farinn að rúlla ágætlega á nýjan leik. Það er alltaf smá stirðleiki til staðar þegar byrjað er aftur eftir nokkurt hlé. Það tekur því smá tíma að koma sér í gang á nýjan leik. Þetta þekki ég frá fyrri árum og veit því hvernig þetta er. Veðrið núna er reyndar svo gott að það kallar á mann út. Fór fínan túr í gær með Gauta, Jóa og Sigurjóni. Var aftur á móti einn í hringnum í morgun.

María var að keppa á meistaramótinu í frjálsum í gær. Hún varð 3ja í 100 m grind en langstökkið fór í vaskinn. Það er eins og gengur, hún er að koma til baka úr meiðslum og þá tekur smá tíma að fínstilla sig.

Fréttamennskan er ekki alltaf burðug. Í vikunni var forsíðufrétt í Mogganum þar sem kom fram að vaxtagreiðslur ríkisins væru um 20% af fjárlögum. Og svo ekkert. Það var ekkert sagt hvort þetta væri mikið eða lítið, hvernig þessi niðurstaða væri í samanburði við önnur ríki og svo framvegis. Svona tölur segja ekkert ef það er engin viðmiðun. Það er því miður staðreynd að þessi vaxtabyrði ríkisins er gríðarlega há og líklega með því alhæsta hér á Vesturlöndum.

Í framhaldi af þessu þá varð manni um og ó þegar fréttir birtust af því að verðlaunatillaga um nýjan ríkisspítala var afhjúpuð. Þetta projekt á að kosta 55 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Raunveruleikinn er hins vegar oftast miklu verri því kostnaðaráætlanir um opinberar framkvæmdir standast sjaldnast ef nokkurn tíma. Ekki þarf að líta á nema monthúsið við höfnina og nýbygginguna á Laugardalsvellinum. Stúkan á Laugardalsvellinum kostaði þó ekki nema rúman milljarð og monthúsið endar líklega í 26-8 en átti að kosta 12 í upphafi. Þetta hús kostar 55 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlunum þannig að hvert prócent í frávik kostar 500 milljónir. Það eru miklir peningar fyrir þjóð sem nú þegar þarf að ráðstafa 20% tekna ríkisins í vaxtagreiðslur. Ég hef náttúrulega ekkert vit á þessu en mér fundust byggingarnar furðulega margar og flóknar. Það er örugglega ekki ódýrasta lausnin sem var kynnt á dögunum. Staðsetningin er annar hluti. Umferðarþunginn er mjög mikill vestur Miklubrautina á morgnana og síðan til baka síðdegis. Sjúkrahús þarfnast greiðra umferðarleiða. Af hverju það sé ekki stað sett miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu frekar en úti á útkanti höfuðborgarsvæðisins. Þarna er verið að taka ákvarðanir til næstu 50-100 ára en ekki til næstu vikna eða mánuða.

Síðan var sagt að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu bygginguna. Hvað þýðir það. Ætla lífeyrissjóðirnir að byggja spítalann fyrir sinn eigin kontó og thats it. Nei ekki aldeilis. Lífeyrissjóðirnir leggja líklega fram peningana en ríkið endurgreiðir þeim byggingarverðið á ákveðnum tíma, með vöxtum. In princip skiptir ekki máli fyrir ríkið hvort lífeyrissjóðirnir leggja fram fjármagnið og ríkið endurgreiðir þeim á ákveðmnum tíða eða hvort lán er tekið í banka. Ríkið tekur á sig skuldbindingu sem þarf að standa við. Það eru engin trix til í þessu sambandi.

Að lokum var sagt í fréttinni að það sem skipti kannski mestu máli væri að fólk fengi vinnu við bygginguna. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki nein atvinnubótahugsun í þessu plani öllu. Á þeim tímum sem við lifum núna þá má alls ekki leggja í fjárfestingu af þessari stærðargráðu nema að hún sé þjóðhagslega hagkvæm og það töluvert mikið. Ef fjárfesting eykur skulda og útgjaldabyrði ríkisins til lengri tíma en léttir hana ekki þá er verr af stað farið en heima setið.

Hér áður fyrr á árunum voru meintir bandittar í Bandaríkjunum gjarna teknir og þeim velt upp úr tjöru og fiðri án annara réttarhalda en dómstóls götunnar. Síðan voru þeir teknir, settir upp á hestbak og þeir sýndir almenningi í bæjunum, þeim til háðungar og öðrum til varnaðar. Mér finnst ásókn ákveðinna einstaklinga í að nöfn einhverra karla sem hafa keypt sér þjónustu vændiskvenna vera af þessum toga. Þeir vilja birta nöfn þeirra og myndir af þeim til að rústa mannorði þeirra í eitt skipti fyrir öll, líklega svo að það verði öðrum víti til varnaðar. Hvað vissu þessir karlar um að þessar konur væru starfsmenn einhverrar kellingar sem stjórnaði þeim og hirti hluta af þóknuninni. Líklega ekki neitt.

Nú er HM búið. Þá er ekki lengur hægt að pirra sig á kynjahlutfallinu í hópnum sem fjallaði um leikina. Líklega verður hafin leit að nýju targeti.

Ítalir eru greinilega ekki meðvitaðir. Þeir voru óbangnir við að segja frá því í þarlendum fjölmiðlum að strákafíflin sem urðu til skammar þar í landi með fylleríslátum á götum úti fyrir skömmu (í Mílanó að því mig minnir) væru frá Íslandi. Hvað ætli meðvitaða liðið hérlendis segi um þetta?

miðvikudagur, júlí 07, 2010

brian jones lady jane

Sólarupprás yfir Indlandshafi

Það er varla hægt annað en að það vakni ýmsar spurningar þegar sú staða liggur fyrir að lánaskilmálar töluverðs hluta þeirra lána sem innlandar lánastofnanir hafa veitt hafa verið dæmd ólögmæt. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað veldur. Eru lögin óskýr? Eru þeir sem áttu að túlka lögin ekki vandanum vaxnir. Eða er staðan sú að menn vissu þetta en létu bara kjurt liggja? Er nema von að það komi upp efi um faglegt hæfi þeirra sem eiga að vera í fararbroddi á ýmsum sviðum.

Ég er líklega ekki nútímamaður og skil ekki nútímahugsunarhátt. Alla vega næ ég engu sambandi við þessar auglýsingar sem eiga að virka sem landkynning fyrir útlendinga og/eða hvetja innbyggjana til ferðalaga erlendis. Ekki myndi mig langa til að ferðast til einhvers Hopplands. Halda menn virkilega að útlendingar hoppi upp í næst vél þótt það sái myndband þar sem fólk er hoppandi út og suður. Fólk út um allan heim þekkir nafnið Ísland vegna gossins í Eyjafjallajökli. Það upplifði ég t.d. hinum megin á hnettinum. Dettur einhverjum í hug að það fólk út um allan heim sé talandi um íslendinga eins og þeir séu merkilegasta fólk í heimi. Auðvitað ekki. Að fólk úti í heimi sé að tala um hvort einhver hafi beðið um tómatsósu á veitingahúsi eða ekki. Auðvitað ekki. Ekki dytti mér í hug að ferðast til Suður Afríku þótt ég sæi fólk hoppandi þar út og suður. Ekki dytti mér að ferðast út eða suður enda þótt ég sjái gamlan poppara ota þorski framan í flugfreyju. Sem stendur á að nota sérstöðu Íslands sem eldfjallaeyju til að markaðssetja hólmann. Það á að einbeita sér að þeim hópi túrista sem á nóg af peningum. Ísland er dýrt og það er til nóg af fólki sem á fullt af peningum sem ehfur áhuga á einhverju öðruvísi. Slíkt fólk hefur ekki áhuga á neinu Hopplandi.

Fallegar náttúrulífsmyndir og annað sem leiðir í ljós sérstöðu lands og þjóðar myndi aftur á móti vekja áhuga hjá mér til að ferðast. Svo held ég að sé um fleiri. Lúðvík vinnufélagi minn er fæddur og uppalinn í Þýskalandi. Hann horfir mikið á tvær þýskar stöðvar. Í annarri hefur fótboltinn fengið að leika lausum hala en á hinni hefur tíminn verið notaður á meðan HM stendur yfir að sýna fullt af þáttum frá Suður Afríku til að kynna land og þjóð. Lúðvík segist horfa ekki síður á þá stöð heldur en fótboltann. Þetta er almennilegt sjónvarp.

Ég held að vitleysan sem kemur frá svokölluðum fréttamönum eigi sér engin takmörk. Ég las í blöðunum um daginn viðtal við stúlku sem er að fara að stofna kaffihús út í Kaupmannahöfn. Hún ætlar að hafa íslenskt kaffi á boðstólum. Kaffið frá Íslandi sé svo miklu betra en danska kaffið. Mér þætti gaman að vita hvar kaffiakrarnir eru hérlendis. Það eina sem meikar sens í þessu er að kaffiheildsalar á Íslandi bjóði upp á fjölbreyttari vöru en danskir kaffi heildsalar. Það er bara fínt en að tala um íslenskt kaffi er eitthvað sem er fyrir austan sól og sunnan mána. Það er svona svipað eins og að tala um að það hafi mikið vatn runnið til sjávar úr Dýrafirði síðan eitthvað gerðist. Það er sagt að það hafi mikið vatn runnið til sjávar síðan eitthvað gerðist ef langt er um liðið. Síðan er sagt að það renni öll vötn til Dýrafjarðar ef eitthvað er einsýnt og stefni í eina og sömu átt. Þessu er öllu hrært saman eins og vöffludeigi.

Maður á ekki að láta svona lagað pirra sig en stundum fær maður bara nóg.

mánudagur, júlí 05, 2010

Mother's Little Helper The Rolling Stones

"A cleaning up Guy" eins og fuglatemjarinn sagði

Það hefur verið gaman að fylgjast með krökkunum sem voru að keppa á Världsungdomsspelen i Gautaborg á helginni. VU spelen eru stærsta frjálsíþróttamót barna og unglinga í okkar nágrenni. Þarna keppir fjöldi ungmenna frá Norðurlöndunum. Flest eru þau frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Nokkur komu frá Finnlandi og Færeyjum en svo voru þarna yfir 100 krakkar frá Íslandi. Þau stóðu sig mörg með mikilli prýði. Nokkrir sigrar unnust og alls komust þau 15 sinnum á pall. Síðan voru mörg í fremstu röð, komust í úrslit greinum þar sem keppt er í undanrásum og þannig mætti áfram telja. Í mörgum greinum voru milli 20 og 40 keppendur þannig að það er fínt að standa uppi meðal þeirra fremstu úr svo stórum hópi. Það er ljóst að það eru ýmsir góðir hlutir að gerast enda þótt vitaskuld vantar okkur meiri breidd. Það er reyndar ekki von til að við getum verið með unglinga í fremstu röð í öllum greinum frjálsra íþrótta sökum þess hve þjóðin er fámenn en sama er, það á alltaf að sækja á brattann. Góður árangur á svona mótum verður vonandi til að hetja krakkana til frekari dáða. Alla vega vantar ekki góða aðstöðu hér eftir að frjálsíþróttahöllin er risin. Hún gerist óvíða betri.

Vanir fjallgöngumenn búa sig vel út af klæðnaði og vistum þegar þeir fara aá fjöll þannig að þeir geta tekist á við breytilegar aðstæður.
Vanir fjallgöngumenn eru viðbúnir því að veður getir breyst á fjöllum.
Vanir fjallgöngumenn hafa meðferðis áttvita, kort og GPS tæki sem þeir kunna að nota til að komast leiðar sinnar enda þótt útsýni sé takmarkað um stund.
Vanir fjallgöngumenn vita hvernig þeir eiga að bregðast við ef veður breytist.
Vanir fjallgöngumenn láta ekki sækja sig í þyrlu upp á Fimmvörðuháls í góðvirði þegar bjart er allan sólarhringinn enda þótt setji á þá þokuslæðing um hríð.

Ég skil ekki hvernig svokallaður "Umboðsmaður neytenda", sem er opinber embættismaður, getur haldið áfram að tala fyrir ákveðinni leið í myntkörfulánamálunum þegar hann hefur gríðarlega persónulega hagsmuni af því að málinu verði lent á einn veg en ekki annan. Í öllum siðvæddum þjóðríkjum væri séð til þess að svona hagsmunaárekstrar gætu ekki átt sér stað.

Það var laukrétt sem fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins að eftir því sem meira væri afskrifað af myntkörfulánunum því meira myndi lenda á ríkissjóði. Það hefði í för með sér annað hvort hækkaða skatta eða skerta þjónustu sem þýðir að það væri verið að dreifa kostnaðinum við þessi lán á allan almenning og þá líka á þann hluta þjóðarinnar sem tók aldrei nein áhættulán og stóð fyrir utan allt neyslufárið. Er það nú fair?

sunnudagur, júlí 04, 2010

The Rolling Stones-Sympathy For the Devil-The David Frost Show 1968

Nýi fótboltavöllurinn í Durban

Fór í fyrsta sinn út að hlaupa í morgun frá því að Borgundarhólmshlaupinu lauk. Ég var smá stirður en það liðkast fljótt. Annars bara fínn. Veðrið var frábært eða um 17°C og logn.

Er farinn að tína myndir frá Suður Afríkuferðinni inn á myndasíðuna. Myndirnar af fólkinu á götum úti tók ég flestar þannig að ég hélt á myndavélinni í annari hendinni og lét hana hanga niður. Þannig smellti af án þess að fólkið yrði vart við að ég væri að taka myndir af því. Mér fannst það kurteisara heldur en að vera að reka myndavélina framan í fólkið, sérstaklega af því að oftast var ég eini hvíti maðurinn á götunum. Einnig kemur betur í ljós þannig andrúmsloftið á götunum en myndirnar eru kannski þá í staðinn aðeins skakkar og meira svona dogma. Ég læt fleiri myndir inn á næstunni.

föstudagur, júlí 02, 2010

Ríðum sem fjandinn

Pirraður fíll kíkir inn í bílinn hjá okkur

Ég hef ekkert hlaupið síðan á næstsíðustu helgi. Reglan eftir svona löng hlaup er að hvíla sig í allt að því tvær vikur. Maður verður að gefa fótum og liðum tíma til að jafna sig ef einhverjir draugar skyldu vera til staðar. Einnig þurfa blöðrurnar tíma til að gróa. Svo hefur maður sjálfur gott af því að hvíla sig aðeins. En nú er þetta að verða ágætt.
Ég sá loks úrslitin á heimasíðu Mohican 100 mílna hlaupinu sem haldið var fyrir skömmu þar sem Höskuldur var meðal þátttakenda. Hann stóð sig vel og var um miðjan hóp. Hann er svo sem ekkert unglamb lengur en er ótrúlega seigur. Þegar hann hljóp þetta hlaup fyrir fimm árum þá fékk hann heiftarlegar blöðrur undir fæturna og var í vandræðum með að klára hlaupið. Nú er hann reynslunni ríkari og hefur greinilega gengið mun betur.

Það er erfitt að segja hvað er rétt og hvað er rangt í umræðunni um hin gengistryggðu lán. Meginatriði í lánaviðskiptum er að lántaki greiðir það til baka sem hann fékk lánað með eðlilegum vöxtum. Þegar maður tekur lán í annarri mynt en maður hefur tekjurnar í þá getur farið í verra ef gengið sveiflast mikið. Í allflestum nálægum löndum er t.d. sveitarfélögum bannað að taka lán í erlendri mynt vegna geingisáhættunnar enda þótt myntir þeirra landa sé stöðugri en okkar. Nú segjast þeir sem tóku hin erlendu eða gengistryggðu lán hafa verið mjög varkárir og reiknað með möguleikum á 20-30% gengisfalli. Þá var gengið út frá dollarnum í ca 60 kr. Það virðast margir hafa gleymt því að dollarinn var í 110 krónum á árunum 2001 og 2002. Það er ekki 20-30% sveifla heldur nær 100%. Það sem hefur einu sinni gerst getur gerst aftur. Margir litu á hin gengistryggðu lán sem hreina himnasendingu og leiddu hugann ekki einu sinni að því að gengi krónunnar gæti breyst mikið. Það er alvegt á hreinu að ég hefði aldrei þorað að taka gengistryggt lán fyrir bíl, hvað þá fyrir heilli íbúð. Ég er ekki sá áhættufíkill að það hafi nokkurn tíma hvarflað að mér. Það er síðan eitt sem ekki má gleymast í þessu sambandi. Að mínu mati má ekki gleyma hagsmunum innistæðueigenda. Það er forsenda fyrir því að bankakerfi getii starfað að einhverjir treysti bönkunum fyrir peningunum sínum og leggi þá inn til geymslu og ávöxtunar. Það eru of viðtekin viðhorf hérlendis að þeir sem eiga peninga í banka séu vafasamir pappírar. Það eru fæstir sem eiga mikla fjármuni inni í banka heldur er allur fjöldinn það sem svíar kalla småsparare. Fullorðið fólk sem hefur lagt fyrir í gegnum tíðina eða selt eign. Þegar menn tala í gáleysi um að bankarnir megi svo sem fara á hausinn þá er verið að tala um að fórna eigum þessa fólks. Það gengur ekki. Slík vinnubrögð myndu þýða það að bankakerfið myndi missa allan trúverðugleika. Ég á ekki mikla peninga í banka svo ég er ekki að tala út frá eigin hagsmunum en þeta er principmál.

Mér finnst síðan að það mætti skýra aðeins út hvernig staðið er að "Hagsmunasamtökum heimilanna" og "Samtökum lánþega". Það er stórt orð Hákot. Ég veit ekki til að mitt heimili sé í neinum hagsmunasamtökum né að ég sem lánþegi sé neinum samtökum. Því ætti að pota orðinu "sumra" inn í bæði heitin.

María er komin til Gautaborgar að taka þátt í Wärldsungdomsspelen í Gautaborg. Þetta er frjálsíþróttakeppni sem hún hefur tekið tvisvar áður þátt í. Það hefur verið mikil tilhlökkun því þetta er mjög gaman og flott að þessu staðið hjá sænskum. Mér fannst flott hjá svíunum að þeir buðu Íslendinga sérstaklega velkomna í ár á heimasíðu leikanna. Í fyrra fór enginn vegna efnahagsástandsins en nú eru á annað hundrað keppendur frá Íslandi á leikunum.

Víkingar sýndu loks fyrir alvöru hvað í þeim býr í kvöld þegar þeir sigruðu liðið í efsta sætu 4-0. Vonandi eru þeir komnkir á beinu brautina.