fimmtudagur, júní 28, 2007

Kónguló í garðinum

Kolviðarprógrammið er auglýst dag út og dag inn í fjölmiðlum þessa dagana. Þarna er gott og ódýrt tækifæri til að kaupa sér góða samvisku, nokkursskonar syndaaflausn eða skriftir eins og hjá kaþólskum. 5 - 10 þúsund kall eftir stærð bílsins og þú ert með hreina samvisku gagnvart global warming. En er þetta svona einfalt? Hvar á að planta öllum þessum trjám? Hvaða trjám á að planta? Hvað tekur langan tíma fyrir trén að vaxa til að fara að hafa einhver kolefnisbindandi áhrif? Er Ísland hentugasta landið til að binda kolefni eða ættu menn að styðja skógrækt í löndum þar sem áhrifin koma fyrr fram vegna meiri vaxtarhraða trjánna? Hvaða áhrif hefur gríðarleg aukning á skógrækt á landið? Á að dengja öllum þessum trjám á þá staði á landinu sem eru best fallnir til skógræktar veðurfarslega séð? Ég tek fyllilega undir með forstjóra Náttúrufræðistofnunar um að það sé einkennilegt að svona aðgerðir þurfi ekki að fara í umhverfismat. Umfangsmikil skógrækt hefur áhrif á landið, útsýni, fuglalíf, gróðurfar og margt annað. Sum áhrifin eru góð önnur lakari. Ef ég fer að kaupa trjáplöntun í dag til að binda kolefni á móti bílnum sem ég er að keyra eru þau kannski farin að hafa tilætluð áhrif eftir 20 ár ef þeim er plantað hérlendis. Mér þætti skynsamlegra að planta þeim í löndum þar sem þau hefðu tilætluð áhrif eftir 5 ár.

Mér fundust tvær fréttir í Mbl. í morgun athyglisverðar. Í fyrsta lagi hafði verið talið enn einn ganginn hve margar konur sitja í stjórnum fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þær eru fáar, hvers vegna veit ég ekki. Um þetta var fjallað í frétt og viðtölum. Fréttinni fylgdi frekar heimskuleg mynd sem hafði þann einan tilgang að gera lítið úr körlum að því mér sýndist. Ekki sit ég í stjórn neins fjármálafyrirtækis enda þótt ég sé kall svo það kemur út á eitt. Það voru viðtöl við ýmsa sem sögðu flestir að það þyrfti að fara að gera eitthvað í þessu. Sumir vildu setja lög til að tryggja ákveðið hlutfall kynjanna í fyrirtækjum á verðbréfaþingi eins og í Noregi sem er eina landið í heiminum sem hefur lagt af stað í þessa vegferð. Í annan stað var frétt í blaðinu um tvær konur sem ætla að stofna sitt eigið fjárfestingafélag. Það er flott. Auðvitað er þetta rétta leiðin. Ríkisfeministarnir vilja að ríkið setji lög og geri alls kyns hundakúnstir til að tryggja konum ákveðinn rétt sem þær telja sig ekki ná fram á annan hátt. Einkaframtaksfeministarnir vilja eðlilega jafnan rétt á við karla en segja að þær geti alveg gert þetta sjálfar. Flott fordæmi hjá þeim stöllum sem eru að fara að stofna sitt eigið fjárfestingarfélag.

Í gær var fyrsta æfing fyrir Grænland í að róa kanó. Hún var haldin í Nauthólsvíkinni. Hún gekk bara vel, báturinn valt ekki og það tókst að halda þokkalegum rythma í róðrinum og skipta um hlið í róðrinum án þess að allt færi í handaskol. Lítur bara vel út.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Nyhavnen er snertispöl frá Kongens Nytorv

Frásögn föður stúlkunnar sem lést á landsspítalanum í síðustu viku vegna morfínsskammts ætti að vera skyldulesning sem flestra. Mér finnst gott hjá foreldrum að opna svona umræðu um örlög barna sinna. Maður heyrir í fréttum að þetta eða hitt hafi gerst en er oftast alls ókunnugur því sem að baki liggur. Það getur hver sjálfan sig séð að þurfa að jarða barnið sitt rúmlega tvítugt eftir að það hefur lent í klónum á ótíndum glæpamönnum. Það var eitt sem sló mig sérstaklega í frásögn förðursins. Það var eineltið í grunnskólanum sem setti sín spor á dótturina það sem eftrir var. Sem betur fer hefur umræða um einelti aukist og fólk er almennt betur vakandi gagnvart þeirri grimmd sem getur viðgengist í grunnskólum, bæði hjá starfsfólki og nemendum. Án þess að hvetja til einhverrar histeríu þá ætti fólk að vara vakandi yfir því ef viðhorf barna breytist gagnvart því að fara í skólann. Ég hef séð afleiðingar af grimmilegu einelti í grunnskólum en ég hef líka upplifað algera afneitun þeirra sem ábyrgðina báru á því sem fram fór innan veggja skólans. Það mátti ekki falla kusk á hvítflibbann. Þegar ég bjó fyrir norðan viðgengst mikið óátalið einelti þar við grunnskólann. Það breyttist ekki fyrr en foreldrafélagið tók sig saman og óskaði eftir því að fá fagfólk til að vinna með skólanum, starfsfólki, börnum og foreldrum um aðgerðir. Umræðan fagfólksins um gerendurna kom flatt upp á marga því fæstir höfðu leitt hugann að þvi að þeim liði ekki síður illa en fórnarlömbunum. Í stuttu máli má segja að andrúmsloftið gerbreyttist í skólanum við þessa aðgerð. Hve lengi það stóð skal ég ekki um segja. Skólinn ber mikla ábyrgð hvað varðar þessi mál því það er skólaskylda í landinu og börnin vrða að mæta í skólann, hvort sem þeim líður vel eða illa þar inan veggja.

Ég hef að undanförnu leitt hugann að aðferðafræðinni í leikskólum Hjallastefnunnar sem birtist manni þannig að það megi ekki láta börnin hafa nein leikföng, hvað þá velja sér leikföng eftir áhuga og vilja. Það setur eiginlega að mér hroll við þessa tilhugsun. Af hverju velja börn sér leikföng? Þau eiga sér einhverjar fyrirmyndir, þau sækja í mismunandi hluti, þau eiga sér mismunandi áhugamál, þau hafa mismunandi hæfileika. Rökin fyrir þessari hugmyndafræði Hjallastefnunnar skilst mér vera sú að umhverfið móti börnin að 85% og það eigi að sporna fótum við því. Strákar eiga ekki að fá að vera strákar og stelpur eiga ekki að fá að vera stelpur. Allir þeir sem hafa umgengist börn og annað ungviði vita að það er genbundinn munur á karlkyni og kvenkyni. Yfirlett er karlkynið aggressivara, stærra og sterkara. Kvenkynið er fíngerðara en seigara svo ég reyni að skýra muninn út í mjög fáum orðum. Það eru hins vegar margir mannkynsfrelsarar sem eru alveg ósammála þessari skoðun. Þeir fullyrða að það við fæðingu sé enginn genbundinn munur á milli kynja en umhverfið móti einstaklingana með áreitinu. Skrákar eigi að vera eitt og stelpur eigi að vera annað. Markmið Hjallastefnunnar er að eyða þessum mun eftir því sem mér skilst. Mér finnst þetta vera allt að því ógnvænleg tilhugsun. Þetta ber ákveðinn svip að kommúnistiskri innrætingu þar sem markmiðið var að þurrka út persónueinkenni allir áttu að vera eins (og líkega jafnir). Hver er kominn til með að segja að þetta sé hin rétta stefna? Hvað segja foreldrar? Hvað segir fagfólk í uppeldisfræðum? Það má ekki láta öfluga markaðsmenn ráða ferðinni án þss að eðlileg umræða og skoðanaskipti eigi sér stað um málið. Það er yfirleitt auðveldast að kóa með og láta aðra segja sér hvað er rétt og hvað er rangt. Ég er hins vegar efins í þessum efnum.

Ég bjó í Kaupmannahöfn í þrjú ár. Ég hef komið til Kaupmannahafnar ca árlega frá því ég flutti heim. Oft leggur maður leið sína niður Strikið og endar á Kongens Nytorv þar sem maður snarast inn á Vids Vinstue og fær sér einn Hof. Þrátt fyrir tíðar gönguferðir um þetta ágæta torg fyrr og síðar hef ég aldrei fundið uppgönguna að jarðlestinni við Kongens Nytorv sem Mbl.is birtir mynd af í dag. Kannski maður ætti að leita betur.

sunnudagur, júní 24, 2007

María á verðlaunapalli með stöllum sínum

Fór út kl. 8.00 í morgun og tók Kársneshringinn. Fór 5 brekkur á hringnum og kom heim eftir ca 2 klst með öllu. Deginum var svo ráðstafað niður á Laugardalsvelli að fylgjast með síðasta degi leikanna. Skemmtileg helgi og gott veður gerði dagana ekki lakari. Fórum út að borða á Ítalíu í kvöld. Fengum góðan mat og vel úti látinn.

Beðið eftir verðlaunaafhendingu í heita pottinum

Jónsmessa í dag eða midsommar eins og það er kallað upp á skandinavísku. Gott veður þótt að það væri dálítill strekkingur. Maður hefur verið að sniglast á æskuleikunum niður á Laugardalsvelli og prísar sig sælan yfir því að hitinn skuli losa vel 10 stig og þaðan af meir. Hann sló í 18oC á Laugardalsvelli í dag. Það hefði verið leiðinlegt ef þessi mikla hátíð hefði lent í kuldastrekking og vætu. María stóð sig vel í dag. Hún lenti í þriðja sæti í hástökki og jafnaði sinn besta árangur. Stelpur frá Slóveníu og Þýskalandi voru í tveim efstu sætunum.

Valur tapaði fyrir Cork frá Írlandi á Laugardalsvellinum í kvöld. Til að strá salti í sárin þá sungu Corkarnir á pöllunum: "Oh it´s so quiet" og voru að gera grín að því hve hljóðir Valsararnir voru á pöllunum. Það er ekki venjulegt hve erfitt er að kenna íslendingum að láta í sér heyra á áhörfendapöllum í knattspyrnu. Sérstaklega á landsleikjum. Það er eftir öðru þar að það er bannað að hafa trommur til að slá taktinn. Horft er á menn eins og þeir séu fullir eða vitlausir ef einhver er svo vogaður að brjóta sig út úr samsæri þagnarinnar og fer að hvetja liðið fullum hálsi. Það heyrðist meira í tíu Lictensteinum á vellinum um daginn en 5.000 íslendingum.

Um 600 manns tóku þátt í miðnæturhlaupinu í kvöld. Veðrið var fínt, logn og hlýtt. Hljóp ekkert í dag en tek góðan túr á morgun.

Sá haft eftir formanni ASÍ í Mogganum í dag að hann vill að það verði gert átak í að jafna meintan launamun kynjanna í næstu kjarasamningum. Hvernig ætli það verði gert? Ætli þess verði krafist að í kjarasamninga verði sett klásúla þess efnis að laun skuli hækka um 10% frá umsömdum töxtum ef starfsmaður er kona? Hver veit?

laugardagur, júní 23, 2007

Sólsetur í Vilnius

Fyrsta Grænlandsæfingin í kvöld. Hjólaði upp að Esju, gekk á hana og hjólaði svo heim aftur. Það eru réttir 22 km að heiman hvor leið að Esjunni, mjög svipað og ég áætlaði þegar ég hljóp þetta í hitteðfyrra. Fínn túr, var um 40 mín upp og 22 niður. Skokkaði rólega niður og var miklu fljótari en ég hélt að ég væri. Fleiri svona fylgja á eftir. Skoðaði fjallahjól aðeins í dag. Leist best á hjól í Markinu, bæði hvað varðaði verð og úrvals. Skoða málið betur eftir helgi.

Fréttin sem var ca númer tíu í sjónvarpsfréttunum í kvöld var ansi merkileg. SA og PARX birtu niðurstöður úr mjög vandaðri og viðamikilli könnun um launamun kynjanna. Í ljós kom að óútskýrður launamunur er 10 - 12%. Þessi niðurstaða er óravegu frá heimsendatali feminista og annarra sem tala eins og staða íslenskra kvenna á launamarkaði (og kannski í samfélaginu öllu) sé álíka og frumbyggja Ástralíu eða ég veit ekki hvað. Ein af þeim sem hefur framfæri af því að viðhalda mýtunni um stöðu kvenna í samfélaginu var náttúrulega strax mætt í sjónvarpið til að rengja niðurstöðurnar. Það á að hafa fáar breytur en ekki margar sagði hún. Þá verður niðurstaðan marktækari. Þessi fullyrðing er náttúrulega þvert á allar kenninguar um hvernig sé best að herma eftir raunveruleikanum með módelum en það er svo sem í takt við annað úr þessum herbúðum. Vonandi fer það tímaskeið að taka enda að fámennur öfgahópur stjórni þessari umræðu og það verði farið að tala um hlutina eins og þeir eru. Sá launamunur kynjanna sem virðist þó vera fyrir hendi verður kannski aldrei afnuminn að fullu, hvað veit ég en mín skoðun er þó sú að hann verði frekar minnkaður með því að efla konur og byggja upp hjá þeim þekkingu og sjálfstraust til að fara fram á laun sem eru í takt við þekkingu þeirra og getu. Það er farsælli aðferð að mínu mati en að vera sífellt að hamra á því hvað þær séu aumar og undirokaðar af kallafjöndunum. Ég hef hins vegar enga trú á að þetta verði gert því það er allt of stór hópur fólks sem hefur fjárhagslegra hagsmuni að verja með því að viðhalda mýtunni.

Heyrði í útvarpinu undir kvöld að í dag var þess minnst vestur á Látrabjargi að í ár eru 60 ár liðin frá því Björgunarafrekið við Látrabjarg var unnið. Í svartasta skammdeginu bjargaði bændafólk í Útvíkum og víðar að úr Rauðasandshreppi hinum forna skipbrotsmönnum af breska togaranum Doon sem strandaði undir 400 metra háu standberginu í Látrabjargi. Þetta var þriggja sólarhringa törn þar sem enginn vissi hver endalokin yrðu fyrr en allir voru komnir upp. Það getur enginn ímyndað sér við hvaða aðstæður björgunarmenn störfuðu nema þeir sem hafa reynt það á sjálfum sér. Ég get það ekki. Þetta fólk vann hetjudáð sem full ástæða er til að minnast með reglulegu millibili. Ég fullyrði að þetta yrði ekki leikið eftir í dag, þrátt fyrir öflugan mannskap og besta fáánlegan búnað. Þessir kallar sem fóru niður í fjöru höfðu allir kynnst bjarginu frá unga aldri og voru vanir að umgangast það. Þórður og Daníel á Látrum, Liði í Neðri Tungu, Bjarni í Hænuvík og Drési Karls. Hlutverk þeirra sem sátu undir festinni á snarbröttu Flaugarnefninuí einn eða tvo sólarhringa var ekki minna. ef menn runnu af stað var ekki svo gott að stoppa sig óg hátt fall fyrir neðan. Þannig mætti áfram telja. Gott viðtal var í Speglinum við Erlu Hafliða sem var fimmtán ára gömul þegar þetta gerðist. Þegar allir voru orðnir rammvilltir í þokunni á leið út á brún sagði mamma hennar, Sigga Pía: "Þið ráðið hvað þið gerið en ég fer þessa leið" Það kom í ljós að það var hin rétta leið. Ef fólk á ferð um Vestfirði kemur í safn Egils á Hnjóti ætti það að setjast niður smástund og horfa á myndina um Björgunarafrekið við Látrabjarg. Það er vel þess virði.

föstudagur, júní 22, 2007

Útsýni ofan frá Steini

Vikan hefur verið heldur slök til hlaupa eins og oft er þegar maður er á þvælingi. Nú verður bætt um betur á helginni. Fór reyndar út í morgun upp úr kl. 6.00. Var á setningu heimsleika ungmenna í gær á Laugardalsvellinum, en María er þar í hópnum. Þetta var fín stund í góðu veðri. Mikil lukka að það spáir vel yfir helgina fyrir allan þann fjölda sem er mættur og einnig fyrir mótshaldara.

Í sambandi við setningu leikana varð uppákoma milli Kína og Taivan um notkun þjóðfána. Það var leyst en minnir á þá deilu sem hefur verið milli þessara tveggja landa síðan Chang Kai Check flúði þangað eftir að hann tapaði fyrir kommúnistahernm árið 1949. Chang Kai Chek var æðsti hershöfðingi í Kína í áraraðir þar á undan og hefði getað verið búinn að ganga margoft frá Maó og hans liði. Vegna þess að Stalín hélt einkasyni hans innilokuðum í Sovétríkjunum þá hlífði Chang Kai Check kommúnistunum meðan þeir voru viðráðanlegir og það endaði síðan með því að hann þurfti að bjarga sér á flótta undan þeim yfir til Taívan.

Það var umfjöllun um fánamálið á Stöð 2 í gærkvöldi. Einhver fréttamaður spurið Asíufræðing um eðli málsins og hann skýrði það þokkalega út. Síðan spurði fréttamaðurinn eitthvað si svona: En hvaða mál er þetta, þetta eru nú bara einhverjir fánar? Bjánahrollurinn sem maður fær er oft yfirþyrmandi við að hlusta á vanhæfa fréttamenn og svo var í þetta sinn. Veit fréttamaðurinn ekki að þjóðfáni er helgasta tákn hverrar fullvalda þjóðar. Það gerist ekki verra en að vanvirða þjóðfána. Því er þessi deila um þjóðfána milli Kína og Taívan tákn um sjálfstæðismál Taívan á hæsta stigi sem hún getur orðið. Í þessu sambandi má minna á að íslendingar gengu inn á ólympíuleikana 1912 (að því mig minnir) undir bláhvíta fánanum. Danir voru svo umburðarlyndir að þeir hreifðu ekki mótmælum, enda frændur okkar og vinaþjóð. Það er annað en kommúnistarnir í Kína.

Sá seinni hálfleikinn hjá stelpunum á móti Serbíu. Þær stóðu sig vel og var gaman að sjá hað allar vor á fullu og unnu vel hver fyrir aðra. Strálkarnir í karlalandsliðinu í fótbolta hefðu átt að vera á leiknum til að upplifa baráttuanda og samheldni.

Á fundinum í Litháen vorum við að spjalla um stærð þjóðarinnar með meiru. Í Litháen búa 3,4 milljónir og 540 þúsund í Vilnius. Við vorum sammála um að við þyrftum að fara að halda því fram að á Íslandi byggju ca 3 milljónir. Það er svona í samræmi við það sem þjóðin er að gera frá degi til dags. Það sem hún tekur sér fyrir er í engu samræmi við einhverja 307 þúsund einstaklinga. "I love those 7 thousand" sagði útlendingur eitt sinn þegar honum var sagt hve margir byggju á landinu. Þrjár milljónir má réttlæta með því að að er ca sá fjöldi sem hefur samanlagt búið hér frá landnámi.

Esjudagurinn er á morgun. FÍ stendur fyrir honum. Fyrir þá sem hafa gaman af því að hreyfa sig eru það þvílík forréttindi að hafa Esjuna hér rétt við hliðina. Því er það lágmark að hún sé hyllt formlega einu sinni á ári. Esjuhlaup er á morgun kl. 13.30 og síðan er ganga og varðeldur um kvöldið. Reyni að fara ef það er möguleiki en dagskráin er nokkuð harðpökkuð þessa dagana.

þriðjudagur, júní 19, 2007

það er eins og það er, yfirleitt finnst mér feministar hugsa með rasshendinni. Nú síðast afhentu þeir þingmönnum úr Norðurlandskjördæmi vestra einhvern bleikan stein. Líklega hefur það verið gert þeim til háðungar því þingmenn NV eru allir karlkyns. Skoðum þetta aðeins nánar. Átti að afhenda þessum þingmönnum bleika steininn eða einhverjum öðrum? Hverjir velja á framboðslista? Það eru flokksmenn, kjördæmisþing eða uppstillngarnefndir. Einhverjir gefa kost á sér og aðrir velja hverjir skipa efstu sæti framboðslista. Út úr þvi kemur einhver niðurstaða. Þeir sem eru valdir eru ekki ábyrgir fyrir niðurstöðunni.

Nú skyldi maður halda að ef það er almenn vakning fyrir að konur jafnt sem karlar séu kosnir til starfa á Alþingi fyrir hönd hvers kjördæmis þá kjósi fólk þá lista þar sem mestar líkur eru á að kynjahlutföllin séu jöfn. Allavega konurnar. En hver er raunin. Sá framboðslisti í NV kjördæmi þar sem lengst var í konu fékk mest fylgi. Þeir listar þar sem styst var í konu á Alþingi fengu einungis einn mann kjörinn hver um sig. Eini listinn sem hafði konu í fyrsta sæti kom ekki manni á þing. Hvað segja þessi úrslit manni? Þau segja manni það að öllum almenningi er nákvæmlega sama um þetta kynjahlutfallsþrugl sem lítill jaðarhópur hamrar á sínkt og heilagt að sé það sem mestu máli skipti. Menn kjósa þá flokka og þá einstaklinga sem þeir treysta best. Vitaskuld eru hæfustu einstaklingarnir valdir til að leiða lista til kosninga til Alþingis hverju sinni, sama hvort þar eru á ferðinni konur eða karlar. Það er ekki flóknara.

Það var ekki beint upplífgandi að sjá handhafa bleika steinsins brosa vandræðalega upp í myndavél Moggans í tilefni dagsins. Það var eins og þeir væru sekir um eitthvað.

mánudagur, júní 18, 2007

Næpukirkja í Vilnius

Sit nú a hótelherbergi í Vilnius. Verð á ráðstefnu um fasteignaskatta á morgun og á miðvikudag. Það besta sem maður gerir þegar komið er á nýja staði er að fara út að skokka og skanna borgina. Fór strax af stað eftir af við komum frá flugvellinum og tók hring um gömlu borgina. Margt gott en mér finnst Tallin skemtilegri og athyglisverðari borg.

Maður er alltaf að taka ákvarðanir sem eru ekki skynsamlegar en aftur á móti eru þær sömu ákvarðanir oft skemmtilegar og eftirminnilegar. Trausti Valdimars0n megamaður hringdi í mig á föstudaginn og sagði að þá félaga vantaði einn mann í www.atc.gl eða fjallamaraþonið á Grænlandi sem haldið verður seinni partinn í júní í Tassilak sem er rétt norðan við Angmasalik. Ég hugsaði málið yfir helgina og svaraði já í dag. Þetta er ævintýraferð. Ég er viss um að ég hefði séð eftir því alla tíð ef ég hefði ekki slegið til og meldað mig með. Ég hef nóg annað að gera en sama er. Það bara bíður síns tíma. Við slíkar kringumstæður á maður að láta slag standa. Come hell and high water. Ég hef aldrei komið til Grænlands svo þetta verður margföld upplifun. Þetta fellur annar vel inn í plan ársins svo ég er giska bjartsýnn. Nú verður maður að hjóla meira og komast á kajak næsta mánuðinn.

Fór í gærkvöldi niður á á Arnarhól að horfa og hlusta á <3 Svanhvít. Krakkarnir stóðu sig vel eins og þeirra er von og vísa. Gaman að sjá fólk horfa á þau brosandi í framan.

Það er margt sem ég þoli ekki. Meðal annars þoli ég ekki þegar fólk fullyrðir hluti sem standast ekki. Ég las um helgina viðtal við stjórnmálamann sem hefur verið í eldlínunni frá árinu 1994. Hún fullyrti að konur væru oft gagnrýndar ómaklega vegna þesss að þær væru konur. Þær nytu ekki sannmælis vegna þess að þær væru konur. Ég tel mig þekkja nokkuð vel til mála á ýmsum sviðum. Ég þekki stjórnmálamenn, opinbera starfsmenn, námsmenn og aðra, konur bæði og karla. Ef að það er eitthvað sem maður skilgreinir sem rugl og firru þá er það fullyrðingar um að einstaklingar séu dregnir í dilka eftir kynferði. Það ég veit og þekki best er að einstaklingurinn nýtur hæfileika sinna og getu. Ef þvi er haldið fram að stjórnmálamenn af kvenkyni fái óvægnari gagnrýni en aðrir þá kemur það mér á óvart. Er kannski það ekki til í stöðunni að kvenkynsstjórnmálamenn séu umdeildir eins og allir aðrir? Má ekki gangrýna þá sem einstaklinga? Er kannsi gagnrýni á þá sem einstakilinga tekin sem kvenfjandsamlegt innlegg í almenna umræðu?

Eða er það kannsi svo að það þarf að halda á lofti einhverjum kvenniðurlægjandi viðhorfum vegna þess að viðkomandi einstaklingar hafa framfæri af þvi að viðhalda ákveðnu sjónarmiði?

Ég á 14 ára gamla dóttur. Ég hef alltaf haldið þvi fram við hana að það sé hún og hennar afstaða sem skipti mestu máli hvað varðar hennar framtíð. Ég held að hún sé mér sammála. God ske lov.

föstudagur, júní 15, 2007

Fór á Esjuna í kvöld. 57 mín upp og niður. 37 upp að Steini og 20 niður. Geri ráð fyrir að geta tálgað af eina og eina mínútu á leiðinni upp með tímanum en geri ekkir að fyrir að hlaupa svo mikið hraðar niður, öryggisins vegna. Það þarf ekki nema eina byltu og ...........

Tek að öllu leyti undir sýslumanninum á Selfossi um að það á að gera ökutæki ökuníðinga upptæk, bæði sem ökuníðingarnir eiga sjálfir og eins ef þeir keyra á ökutækjum sem aðrir eiga. Byssur eru gerðar upptækar ef menn eru klagaðir fyrir að skjóta í annars mans landi áður en dómur fellur. Ég veit um dæmi þess að bændur fyrir norðan klöguðu skyttur fyrir að skjóta á svæði sem þeir töldu að væri í þeirra yfirráðum. Lögreglan gerði bæði afla og veiðarfæri upptæk. Dómur féll eftir tvö ár og þá voru skytturnar sýknaðar og fengu þá loks byssur og rjúpur afhentar. Ökuníðingar leggja ekki einungis sig í hættu (það skiptir mig engu máli) en þeir valda stórhættu og oft slysum á öðrum. Því eiga viðbrögðin að vera af ákveðnari sortinni. Það er margir sem skilja ekkert fyrr en skellur í tönnum.

Skálafells - Leggjabrjótshringurinn verður hlaupinn / hjólaður á morgun. Flott framtak. þetta eru rúmir 100 km. Hlaupið er frá Skálafelli yfir Ejuna og niður skarð fyrir innan Tíðaskarð. Þá er hjólað inn í Hvalfjarðarbotn, þá hlaupið yfir Leggjabrjót og síðan hjólað frá vegarenda þar upp í Skálafell aftur. Þetta er í annaðs inn sem þessi þraut er þreytt en í fyrra lauk fyrsti maður henni á rúmum 9. klst. Líklega verður þoka á Esjunni á morgun. Synd því það gerir allt erfiðara og seinfærara.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Foss af himnum ofan

Sá fréttir um tvö hlaup á kondis.no. Önnur er um 100 km hlaup í Uppsölum í Svíþjóð. Það verður haldið þann 15. september í haust svona til upplýsingar fyrir áhugasama. Það verður haldið á hring sem er 2.500 metra langur. Túrinn er 40 hringir. Við tókum umræðu um þessa aðferð á félagsfundi um daginn. Menn vor ekki alveg sammála en óumdeilt er að þetta er miklu einfaldara í allri framkvæmd, bæði fyrir hlaupara og mótshaldara.
Síðan sá ég frétt um 6 daga hlaup í d´Antibes. Held að það sé í Frakklandi. Þar eru tveir svíar með. Hlaupið er á 800 metra hring!!! Hægt er að hlaupa á nóttunni ef dagurinn er of heitur. Mönnum er það í sjálfsvald sett hve mikið og hvenær dagsins er hlaupið. Annar Svíinn ætlar að reyna að bæta met sitt upp á 756 km frá 2004. Allrar athygli vert.

Galvaskir nýir meðlimir í 100 km félaginu

Tók Esjuna í dag eftir vinnu. Ef manna langar til að hitta einhvern kunnugan má ganga að því vísu að einhverjir þeirra eru að ganga á Esjuna. Fínt veður. Fór lengri leiðina eins og venjulega á 58 mín upp og niður. Þarf að bæta mig. Mætti brúnum manni á miklu flugi á leið niður þegar ég var á leiðinni upp. Það er greinilegt að aðalritarinn æfir stíft fyrir Laugaveginn og er til alls vís.

Ísland er í gæðaflokki með Búrúndi og Rúanda í knattspyrnu. Hvað ætli margir frá þessum þessum löndum spili í ensku úrvaldsdeildinni? Maður getur ekki annað en látið sér detta í hug afneitun á mjög háu stigi þegar formaður KSÍ fullyrðir að þessi listi skipti engu máli. Af hverju ætli sé þá verið að vinna hann og birta ef þetta er eitthvað bara út í loftið? Önnur birtingarmynd afneitunarinnar var þegar minnst var á þjálfaramálin við formanninn. Hann kallaði það kjaftæði þegar gagnrýni á þjálfarana bar á góma og sagði að KSÍ réði ætíð hæfustu þjálfarana. Hvað entist Ásgeir Sigurvinsson lengi hjá Fram hér um árið? Var hann ekki látinn fara eftir 5 - 6 leiki? Hvenær hefur Eyjólfur Sverrisson þjálfað yfir höfuð? Hann stjórnaði U19 liðinu í einni undankeppni með ekkert sérstökum árangri. Ef þetta eru okkar hæfustu þjálfarar hvað þá með alla hina? Tek fram að báðir þessir menn voru frábærir knattspyrnumenn. Það er hins vegar ekki það sama og að vera góður þjálfari.

Víkingur tapaði fyrir Val á Laugardagsvellinum í kvöld. Skítamörk en einhvern veginn fannst manni samt Valsararnir vera tilbúnari í leikinnstrax frá upphafi.

mánudagur, júní 11, 2007

Bryggjuhverfið í Stavanger

Kom til Stavanger í gær. Það var eins og að koma í bakarofn. Hér er 25 oC +. Fór út að hlaupa í gærkvöldi eftir að hafa horft á umferð í norsku deildinni í sjónvarpinu. Árni Gautur fékk á sig mark á 92 mínútu þegar Odd Grenland jafnaði en gat ekkert gert við því. Það er einn af kostunum við að vera að skokka að maður er fljótur að skanna umhverfið sem er nálægt hótelinu í ókunnugum borgum. Fór um gamla bæinn og síðan yfir brúna yfir í eyjuna hér á móti í svakalega góðu veðri. Var að svona einn go hálfan tíma. Þegar ég kíkti á sjónvarpið þegar heim var komið sá ég þátt um body building þar sem keppendur voru fimmtíu ára og uppúr. Kannski verður þetta tekið fyrir ef hnén gefa sig einhvern tíma.
Ég þurfti að yfirfæra smá upphæð á erlendan banka í morgun. Heima er þetta ekkert mál, maður fer bara til einhvers þjónsutufulltrúa og hann arranserar málið og síðan borgar maður bara hjá gjaldkera bankans. Hér lenti ég í vandræðum. Fór í þrjá banka en hvergi var mögulegt fyrir mig að færa peninga á erlendan banka, ekki þótt ég væri með peningana í höndunum. Ef ég hefði ekki reikning í bankanum þá var þetta ekki hægt. Því hringdi ég heim í Kaupþing og bað þá að ganga frá þessu. Ekkert mál. Maður áttar sig stundum ekki á því hvað hlutirnir eru góður og fagmannlegir heima. Stavanger er svo sem ekkert sveitaþorp. Hér búa álíka margir og í Reykjavík og þetta er olíuhöfuðstaður Noregs. Það er ekki eins og þeir hafi ekki heyrt minnst á útlönd fyrr.

Sá á mailinu að forseti 100 km félagsins og frumherji, Ágúst Kvaran, er búinn að stika út góðan 10 km hring í Fossvogsdalnum, Elliðaárdalnum og yfir í Bryggjuhverfið. Þarna verður fyrsta 100 km hlaupið á Íslandi haldið á næsta ári að öllum líkindum. Flott leið, einföld með einni drykkjarstöð og tiltölulega varin gagnvart strekkingnum ef hann er til staðar. 10 hringir, flöt leið, dót hlauparanna á einum stað, aðeins ein lítil umferðaræð og ein drykkjarstöð. Gæti ekki verið betra. Nú er bara að ákveða tímaunktinn nógu snemma þannig að áhugasamir geti farið að æfa.

sunnudagur, júní 10, 2007

Fór í fyrsta sinn á Esjuna á árinu þótt skömm sé frá að segja. Það var fínt, var tæpan klukkutíma upp og niður. Hitti Höskuld sem var í sinni tuttugustu ferða eða eitthvað svo. Hann æfir stíft fyrir Mont Blanc í lok ágúst. Einnig hitti ég Elías pabba Sveins Elías. Hef ekki séð hann í nokkur ár en við hitumst oft hér áður þegar hann var að hlaupa með syninum. Nú er sá stutti sem var orðinn landsliðsmaður í frjálsum og stefnir hátt.

Fór 30 km hring á laugardagsmorgininn. Margir á ferðinni og víða stoppað og spjallað. Álver, staðan hjá KR í vesturbænum og langhlaup voru meðal þeirra umræðuefna sem tekin voru fyrir hér og þar. Fann þegar heim var komið að Esjan sat svolítið í lærunum, en það er bara gott. Þarf að stunda hana vel fram að Laugavegi.

Margrét Lára landsliðskona í knattspyrnu kom í Víkina í gær og spjallaði við stelpurnar í 4. fl. og nokkra foreldra. Margrét flutti gott erindi um markmiðssetningu, aga, hugarfar, gildi æfinga, mataræðis og svefns auk fjölmargra annarra atriða. Gat tekið undir hvert orð sem hún sagði og erindi hennar var sem endurómur af flestu þvi sem maður hefur verið að hugsa og vinna eftir. Það er víða þekkt vandamál að stelpur detta of fljótt út úr íþróttum. Hlutverk Margrétar Láru er að fara um landið, tala við stelpurnar, hvetja þær, byggja upp sjálfstraust hjá þeim og örfa til frekari dáða. Fyrst og fremst eiga þær að trúa á sjálfan sig.

<3 Svanhvít spilaði á útitónleikum vestur á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. Enda þótt ekki hafi verið ákaflegt fjölmenni þá var veðrið mjög gott. Krakkarnir skemmtu sér vel og áhorfendur einnig. Vinningshljómsveitin úr Músíktilraunum spilaði á eftir þeim. Miðað við viðbrögð áheyrenda fór ekki á milli mála hvor hljómsveitin átti að vinna í vetur. Næst er það 17. júní kl. 20.00 á stóra sviðinu. Þetta er dálítið skemmtilegt, hópur krakka sem fer að jamma saman í vetur í bríarí er nú farinn að troða upp hingað og þangað. Plata í bígerð.

Er á leið til Stafanger á fjármálaráðstefnu norsku sveitarfélaganna. Hef aldrei komið til Stafanger áður.

föstudagur, júní 08, 2007

Félagsfundur í 100 km félaginu

Leikurinn við Svía fór verr en mann gat órað fyrir. Bæði varð tapið stærra en mann hafði órað fyrir í verstu martröðum og það sem verra var, landsliðið var niðurlægt. Það eru blindir menn sem sjá ekki að þarna er eitthvað mikið að. Hverjum skal um kenna er ekki einfalt um að segja. Þjáfarinn ber vissulega mikla ábyrgð, hann velur mannskapinn í liðið, leggur upp leikaðferð og blæs mönnum baráttuanda í brjóst. Það veltur á miklu hvernig honum tekst þetta verkefni. Líkega veldur Eyjólfur ekki þessu verkefni enda gjörsamlega reynslulaus sem þjálfari. Í annann stað hljóta menn að skoða það starfsumhverfi sem honum er boðið. Hvers vegna fást engir vináttuleikir? Hvers vegna spila aðrir vináttuleiki? Er staða íslanska landsliðsins á heimslistanum orðin svo slök að það leggur sig enginn niður við að spila við þetta lið. Þá verða menn bara að spila við Færeyjar eða eru þeir uppteknir á vináttulandsleikjadögum við að spila einhversstaðar úti í heimi? Spyr sá sem ekki veit en það er ljóst að það er ekki hægt að sitja og horfa á þetta ástand án þess að nokkuð sé að gert. Hvers vegna breytast menn eins og Ívar Ingimarsson, sem hefur spilað gríðarlega vel í ensku úrvaldsdeildinni í vetur, í ráðalausan kettling í landsleikjum. Ég hjó eftir einu hjá landsliðsþjálfaranum í viðtali í sjónvarpinu í gær. Hann sagði að það væru margir fyrirliðar inni á vellinum. Í öllum stjórnunarfræðum stendur það á blaðsíðu eitt að það er bara einn fyrirliði, einn skipstjóri í brúnni. Þjálfari sem segir að það séu margir fyrirliðar á vellinum er að segja að liðið sé eins og höfuðlaus her og er það ekki raunsönn lýsing á því!!!

Því var flett upp á fundinum í gærkvöldi að Elín Reed náði 51 besta tíma kvenna í heiminum í fyrra í sex tíma hlaupinu. Það er látið meir með ýmsa aðra sem standa henni langt að baki á allra handa heimslistum.

Frétti í gærkvöldi að einn félagi minn og jafnaldri hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli nýlega. Í janúar lést annar félagi og jafnaldri af þessum sökum. Krabbameinið lagði enn einn jafnaldra minn og skólabróður af velli í maí. Ég hef stundum velt fyrr mér hvers vegna karlar séu ekki látnir fara í krabbameinsskoðun með reglubundnum hætti eins og konum er boðið upp á. Um áratuga skeið hefur konum verið boðið upp á eftirlit með brjóstakrabba og er það vel. Það hefur vafalaust leitt til þess að krabbinn hefur uppgötvast það snemma hjá ýmsum að það hefur verið hægt að komast fyrir hann. En hvers vegna lenda karlar út undan í þessu tilviki? Er það of dýrt, hefur enginn áhuga á því eða hver er ástæðan? Hvar eru allra handa jafnréttissamtök í svona málum? Ég er hræddur að það stæði blá bunan út úr talskonu feministafélagsins ef það væri til staðar umfangsmikið eftirlitskerfi krabbameinsskoðunar hjá körlum en ekki væri litið á konurnar fyrr en allt væri komið í óefni.
Ég segi bara svona.
Fundur í 100 km félaginu í kvöld. Nýjir félagar voru teknir inn, Eiður Sigmar og Börkur. Þeir kláruðu báðir 100 km í vor í miklum hitum. Ýmislegt var rætt á fundinum, s.s. gerð einkennisjakka, þátttaka félaganna í fjáröflunarhlaupi í RM og hvort og hvernig eigi að standa að 100 km hlaupi hérlendis. Mikið var rætt um útfærslu þess, hvort eigi að hlaupa minni hring sem yrði þá hlaupinn oft eða að hafa einn stóran hring. Miklu munar hve einfaldara er að hlaupa á litlum hring sem væri hlaupinn oft. Hann gæti verið um 5 - 10 km. Þetta verður varla fyrr en á næsta ári en sama er, undirbúningur er hafinn.

Sorglegt var að horfa á landsleikinn í Svíþjóð í gær. Ráðleysið algert og allt virtist hjálpast að. Það þarf eitthvað mikið að gerast til að liðið nái að hysja upp um sig buxurnar. Ég er efins um að það gerist undir stjórn þessa þjálfara. Það er eitt að vera góður knattspyrnumaður, annað að vera góður þjálfari. Það þarf alls ekki að fara saman nema síður sé.

Einar Oddur var fínn í sjónvarpinu í kvöld. Hann ítrekaði nauðsyn þess að hafa ríkisfjármálin ætíð og eilíflega í forgangi. Það setur að manni illan grun þegar örfáum dögum eftir að ný ríkisstjórn er mynduð er birt stefnumörkun um að gera mikið fyrir marga. Það lá ekkert kostnaðrmat með heldur var sagt að þetta borgaði sig, væri arðbær fjárfesting. Það er nú bara þannig að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla, alltaf og allsstaðar. Sumir töluðu reyndar þannig fyrir kosningar í vor að það væri ekkert mál. Manni óar við því ef farið er að reyna að framkvæma slíka hugaróra.

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér ástandi þorsksstofnsins. Hér á árum áður voru veidd allt að 600 þúsund tonn af þorski á íslandsmiðum. Nú er gert ráð fyrir að skera veiðina niður í 130 þúsund tonn eða þar um bil. Engu að síður hafa verndaraðgerðir staðið yfir í tæpan aldarfjórðung. Maður spyr sig er veitt milklu meira en gefið er upp. Er það rétt að það sé hægt að draga sundur fiskikör frá Færeyjum og Íslandi á breskum fiskimörkuðum eins og rollur í rétt. Allir fiskar jafnstórir í íslensku körunum en stærðin holt og bolt í færeysku körunum. Þetta heyrir maður. Á morgunverðarfundi Landsbankans sem haldinn var á þriðjudaginn var sýnt linurit um þróun þorskafla á islandsmiðum frá árinu 1955. Miðað við þróunina mun allur þorskur vera horfinn af miðunum eftir ca 15 - 20 ár. Kannski verður það skemmri tími því ef fer sem horfir mun stofninn hrynja. Margt er það neðansjávar sem erfitt er að skýra. Ólafur bæjarstjóri í Grindavík sagði mér í morgun að árið 1978 hefði hann verið á togara sem ætlaði að veiða í Barentshafi. Þá var þar ekki bröndu að fá, hreint út sagt. Tíu árum síðar dúkkuðu upp þar ca 1 milljón tonn af þorski. Hvaðan kom allur þessi fiskur?

miðvikudagur, júní 06, 2007

Helsingjar í vorgallanum

Ætlaði að fara út að skokka í gær en ýmnislegt varð til þess að það varð ekki, m.a. fundarhöld og matargerð. Reyni að gera betur í dag.

Hitti Jón Sigurðsson langhlaupara frá Úthlíð niður í Tryggvagötu í morgun. Gaman að hitta Jón en ég get ekki sagt að ég hafi þekkt hann gegnum tíðina heldur hef ég vitað af honum um áratugi. Jón er heldur eldri en ég og var einn okkar fremsti langhlaupari á sínum yngri árum, mikið náttúrubarn á brautinni. Hann varð síðan fyrir því slysi að heybaggastæða hrundi ofan á hann og hryggbraut hann en hann bjó þá með Birni bróður sínum. Jón hefur verið í hjólastól síðan en er mikið hörkutól sem fyrr og hefur iðulega tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á stólnum sínum. Hann sagði að hér áður fyrr hefði engum dottið í hug að það væri hægt að hlaupa svo langt eða svo lengi sem menn gera í dag, hugarfarið skipti greinilega svo miklu máli. Hann var sammála mér um mataræðið, það dygði ekkert draslfæði við svona löng átök.

Ætli maður fari ekki niður í Vík í kvöld og kíki á leikinn. Tapi íslenska með þremur mörkum eða minna er það þolanleg niðurstaða. Fjögur - núll eða meira og þá getur KSÍ ekki annað en vaknað og farið að gera eitthvað. Líka skiptir máli hvernig leikurinn spilast. Markatalan segir ekki alltaf allt. Það er hægt að niðurlægja lið knattspyrnulega séð enda þótt þess sjái ekkis tað í markatölum.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Með reglulegu millibili skýtur umræðunni um hátt matvælaverð hérlendis upp kollinum. Þá bölsótast ýmsir um vitlaust landbúnaðarkerfi dsem haldi uppi óheyrilega háu matvælaverði og nauðsyn þess að opna fyrir innflutning almennra búvara því þær sé svo miklu ódýrari í útlandinu. Það er vitað mál að matvæli eru miklu ódýrari en hérlendis í flestum löndum innan EU, en eru matvælin það eina sem er miklu ódýrara í nálægum löndum. Ég labbaði fram hjá rakarastofu í Calella um daginn. Það minnti mig á að það var kominn tími á klippingu. Rakarastofa var ósköp álíka því sem maður á að venjast hér, nema að ég gat ekki lesið blöðin. Þegar klippingunni var lokið vildi ég borga eins og lög gera ráð fyrir. Ég hafði enga hugmynd um hver taxtinn var en hefði ekki deplað auga yfir reikningi allt að 20 - 25 Euro. Rakarakonan sagði hins vegar 11 evrur eða 945 íslenskra krónur miðað við gengi dagsins. Hér heima borga ég 3.000 krónur fyrir klippingu. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið eftir í laun fyrir rakarann þegar búið er að greiða opinber gjöld ásamt húsnæðis- og tækjakostnaði. Kannski ætti að opna fyrir innfluting á rökurum á sem vinna á spönskum taxta um leið og opnað er fyrir óheftan innflutning matvæla eða hvað?

Blaðamenn láta ekki að sér hæða frekar enn fyrri daginn. Í inngangi að viðtali við Rúnar Kristinsson í Fréttablaðinu í dag er sagt að Rúnar skeyti oft skapi sínu. Ég hef lært það að t.d. fótboltamenn skeyti skapi sínu á andstæðingum, dómaranum, þjálfaranum eða bara einhverju en ég hef aldrei heyrt að þeir „skeyti skapi sínu“ Punktur.

Veigar Páll gefur fyrir í annars döprum leik

sunnudagur, júní 03, 2007

Góður morgun með Vinum Gullu í morgun og sóttir rúmir 20 km. Ég finn ekkert fyrir neinu í fótunum lengur en smábólga í hægri ilinni hélt lengst út eftir Borgundarhólm. Nú kallar Esjan því það styttist í Laugaveginn.

Það fór eins og við var að búast að Bændasamtökin máttu greiða þeim sem fengu ekki að gista hjá þeim í marsbyrjun skaðabætur til að sleppa frá þessari vandræðalegu og vanhugsuðu uppákomu. Þetta ætti vonandi að kenna fólki að það er ekki heillavænlegt a láta móðursjúkt forsjárhyggulið ráða ferðinni við ákvarðanatöku. Að einhverjir sem sitja heima við tölvuna séu farnir að móta ákvarðanatöku hjá fyrirtækjum út í bæ er náttúrulega alveg fáránlegt. Ef einhverjir voru ósáttir við komu þessa hóps hefði verið mjög eðlilegt að þeir hinir sömu hefðu mótmælt í garranum á Hagatorginu. Líklega hefði það þó verið of erfitt, það er þægilegra að blogga. Það er síðan ósköp vandræðalegt yfirklór að það að greiða Snowgatheringliðinu penigna hefði ekki falið í sér neina viðurkenningu á sekt. Það segir sig sjálft að fyrirtæki eru ekki að greiða einhverjum peninga án dómsúrskurðar nema af því að þeir eru hræddir um að þurfa að greiða enn meira ef málið hefði farið fyrir dómsstóla. Það er ekki flóknara.

Gott viðtal við Björgu Evu Erlendsdóttur fréttamann í Blaðinu í gær. Hún er að hætta á RÚV eftir margra ára starf þar og gerir viðskilnaðinn upp á ákveðinn hátt. Björg Eva er einn af þeim tiltöluega fáu fréttamönnum sem maður hefur borið ber traust til, sérstaklega af því að hún féll yfirleitt ekki í þá gryfju að blaðra eitthvað út í bláinn heldur var fagleg í vinnubrögðum. Það er því miður of sjaldgæft.

Á Laugardagsvellinum hefur Mogginn átt sinn sess síðan ég kom fyrsta á völlinn. Mogginn var með auglýsingu sitt hvoru megin við markatöfluna. Nú hefur orðið þar breyting á. Mogginn er horfinn en Drottinn allherjar, sjálfur Coke Zero kominn í staðinn. Eftir leikinn í gær stóð bretti af Coke Zero úti á stétt og vallargestir gátur tekið með sér kippu til að hafa með kvöldmatnum. Svona er nú Coke góður en manni er spurn hvar er manneldisstefna KSÍ. Er kókið það sem menn vilja helst halda að unglingunum sem spila fótbolta. Það var að sjálfsögðu ekkert minnst á að það eru sívaxandi grunsemir um að rotvarnarefnin í Coke geti haft áhrif á heilsu þeirra sem neyta mikils kóks. Líklega eru allar gostegundir undir sama hatti vegna mikillar notkunar á litar- og rotvarnarefnum. Í USA er kók gjarna notað til að hreinsa götur eftir mikil umferðarslys. Kókið leysir blóðið svo vel upp. Ég hef einungis drukkið eitt glas af kóki síðan árið 1980. Það er vel.

Á Spáni sá maður ekki þessa yfirþyrmandi auglýsingamennsku með kók eins og hér þykir sjálfsögð. Maður sér heldur ekki veggjakrot á öðru hverju húsi við Römbluna eins virðist vera sjálfsagt mál í miðbæ þorpsins Reykjavík. Það er margt hægt ef vilji er fyrir hendi.

Víkingar á Spáni ásamt þýsku liði

laugardagur, júní 02, 2007

Kom í morgun frá Spáni. Vélinni seinkaði svo við vorum ekki komnir í hús fyrr en langt gengin í kl. 8.00. Þetta var svo sem í lagi því ég steinsvaf alla leiðina frá því vélin fór á loft þar tíl hún lenti. Vorum síðasta daginn í Barcelona á rápi. Eins og allir vita sem þangað hafa komið er Barcelona frábær borg. Þarf að koma þangað síðar til að skoða hana beetur og kynnast mannlífinu.

Fór á landsleikinn í dag að taka myndir. Ósköp var þetta nú slappt. Maður getur ekki annað en haft á tilfinningunni að Eiður hafi verið að biðja um gult spjald, því það vita allir sem vilja vita að þegar boltanum er spilað áfram eins og hann gerði eftir að hafði verið flautað þá eru meiri líkur en minni á að dómarinn dragi upp gula spjaldið. Æ hvað maður hefur á tilfinningunni að hann hafi ekki beint orðið betri leikmaður við að sitja á grindverkinu hjá FC Barcelona. Ég held að það væri best fyrir hann að komast il liðs þar sem hann fær að spila meir en 5 - 10 mínutur í öðrum og þriðja hvorum leik.

Maður getur skilið að eitthvað ábyrgðarlaust öfgalið sé að blaðra um að það eigi að setja lög um ákveðið kynjahlutfall í stjórnum hlutabréfa á markaði. Það er bara eins og gegnur fólk segir margt sem það veit að það þarf aldrei að standa við. Það er annað mál þegar ráðherrar eru farnir að orða þennan möguleika. Þá snýr málið allt öðru vísi við. Maður getur ekki annað en gangið út frá því að það sé ákveðin grunnþekking á lögmálum samfélagins til staðar hjá þeim sem veljast til ráðherrastarfa.