miðvikudagur, desember 31, 2008

Ég bara man ekki hvenær ég keppti síðast í 10 km hlaupi. Líklega hefur það verið í Powerate á vordögum 2006. Síðustu tvo vetur hef ég ekki hlaupið neitt einasta Powerate hlaup vegna ýmissa ástæðna. Gamlárshlaup hljóp ég hvorki í fyrra né hitteðfyrra. Það var því kominn tími til að rifja þetta upp. Nær 800 hundruð keppendur voru mættir sem er stórkostlegt. Þegar ÍR hlaupið byrjaði fyrir 33 árum var gert grín að þeim sérvitringum sem væru að hlaupa á götunum að ástæðulausu. Nú hefur orðið vakning í almenningsíþróttum sem sýnir sig í götuhlaupunum. Nær 200 fleiri keppendur en í fyrra. Mogginn sagði frá hlaupinu á íþróttasíðu í morgun og RUV var á staðnum í byrjun hlaups og við lok þess. Megi gott á vita. Veðrið var fínt og gatan greið. Ég var mjög aftarlega í hópnum þegar flugeldurinn fór á loft og fór því hægt af stað. Ég ætlaði ekkert að sperra mig neitt sérstaklega og maður fór ekki að hlaupa af viti fyrr en búið var að beygja fram hjá Hótel Borg. Þá fann ég tempóið sem passaði og rúllaði á því sem eftir var. Mér leið of vel þegar í mark var komið og hef því ekki lagt nógu mikið á mig. Maður á ekki að forðast sársaukann heldur sækjast eftir honum. Tíminn var ágætur eða um 43.40. Miðað við að inni í þessum tíma er "göngutúr" frá Landakotskirkju niður að Hotel Borg get ég ekki verið annað en ánægður.
Jói og Kristín voru með gamlársdagssamkomu í Ingólfsstræti eftir hlaupið. Mikill myndarskapur eins og þeirra er von og vísa.

Samkvæmt hlaupadagbók Stefáns þá lágu 4822 km á árinu og rúmlega 700 km voru farnir á hjóli. Það eru rúmir 13 km að jafnaði hvern dag ársins eða þrír hringir umhverfis landið. Í fyrra hljóp ég samtals rúma 3000 km sem var lengsta nokkru sinni. Þetta er því nær 60% aukning á hlaupamagni milli ára. Þrátt fyrir að álagið hafi aukist verulega í ár þá er allt í himnalagi með skrokk og fætur. 7 - 9 - 13. Miðað við það er ekki annað að gera en að pjakka ótrauður áfram.

þriðjudagur, desember 30, 2008

Bónuspokarnir dugðu ágætlega í Grikklandi

Ég las grein Jóns Ásgeirs í Mogganum með nokkurri athygli. Það má segja að saga Bónusfeðga er í mörgum atriðum mjög keimlík sögu sambandsins sáluga. Báðir aðilar risu upp gegn ofurvaldi þeirra sem fyrir voru og juku hag almennings með nýrri aðferðafræði og breyttum vinnubrögðum. So far, so good. Síðan fór ýmislegt að gerast sem leiddi af auknum styrk. Seilst var til áhrifa á æ fleiri siðum þjóðlífsins, fyrst í stað undir gunnfána hagræðingar og verðstefnu en síðar urðu völdin og áhrifin meginmarkmiðið. Sambandið var með starfsemi á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum. Þegar árin liðu notaði það slagkraft sinn til að ryðja öðrum út af markaðnum svo og drepa nýja aðila sem vildu koma sér inn á markaðnum. Völdin urðu meginmálið. Að lokum misstu þeir alla yfirsýn yfir starfsemina og veldið hrundi. Alveg eins og Sovétríkin. Mér kæmi ekki á óvart að Bónusveldið myndi fara sömu leið. Strukturinn og ferillinn er alveg eins og hjá Sambandinu. Bónusveldið umlykur almenning frá öllum hliðum. Það kemur að því að venjulegt fólk fer að fælast Bónusviðskipti því maður þolir ekki að vera í einhverju duldu slaveríi. Menn fara þá að versla við aðra út af pólitískum áherslum.
Enda þótt upphafið hafi verið farsælt þá hefur fyrirtækið fjarlægst uppruna sinn svo að það þýðir ekkert að reyna að fá eitthvað pre með því að segja að fyrirtækið hafi í upphafi verið lítið og sætt. Microsoft var í upphafi lítið fyrirtæki próflauss námsmanns. Það varð að lokum svo stórt og umfangsmikið að bandaríska samkeppniseftirlitið fyrirskipaði að því yrði skipt upp til að koma í veg fyrir samkeppnishindrandi stöðu þess. Þá þýddi ósköp lítið að rifja upp upphafið að þessu öllu saman.
Ég ætla ekki að fara yfir talnaverkið sem Jón Ásgeir fór yfir í greininni. Það er bæði mjög umfangsmikið og eins hef ég afar takmarkaða yfirsýn yfir þetta allt saman. Þó verð ég að segja að það segir mér ekki mikið að fytrirtækið hafi 60 milljarða í EBITDA. Það segir mér ekkert um hvort það sé góð afkoma eða slæm. Það sem öllu máli skiptir er hve miklar skuldbindingar hvíla á fyrirtækinu. EBITDA þýðir hagnaður fyrir vexti, skatta, afskriftir og afborganir. Skuldsetning Baugsveldisins er svo svakaleg að það þarf mikinn rekstrarafgang til að standa undir því öllu saman. Ef skuldsetningin er 1000 milljónir og skuldirnar eru til 20 ára, þá er árleg afborgun 50 milljarðar. Vaxtagreiðslur eru 10 milljarðar fyrir hvert prócentustig vaxta. Ég þekki ekki skattamálin en afskriftir af svona eign eru kannski 2% (fasteignir sem eru afskrifaðar um 2% á ári). Þar eru 20 milljarðar. Því segir það manni ekki neitt hvort 60 milljarðar í EBITDA sé góð eða slæm afkoma nema að maður viti hve háa fjárhæð þarf að greiða í vexti, afborganir, skatta og hve háar afskriftir eru. Þetta hangir nefnilega allt saman.

Það er bara að þetta sé ekki eins og hjá kallinum sem keypti neftóbaksdósina á túkall og seldi hana á eina krónu og fimmtíu aura. Þegar hann var spurður hvort þetta væri nógu góður business þá sagðist hann vinna upp tapið með veltunni.

mánudagur, desember 29, 2008

Steinn tók feikn góðan Ironman í sumar en á þó töluvert inni

Fréttamenn hafa veruleg áhrif með umfjöllun sinni í fjölmiðlum á hvað er efst á baugi hverju sinni í almennri umræðu í þjóðfélaginu. Ritstýring fjölmiðla getur þannig bæði dregið mál fram í dagsljósið svo þau fái athygli en einnig á hinn kantinn kæft mál með því að halda þeim til hliðar. Nú er það vitaskuld svo að í almennri ritstjórn er erfiðara að draga fram einhverjar heildarlínur í þessu sambandi en þó er það svo að ríkjandi viðhorf innan fréttamanna hafa oft áhrif á fréttamat. Það gerist oft óafvitað með því að sumt er inni en annað ekki. Ég man eftir því að kunningi minn sem starfaði lengi sem fréttamaður og er einn af virtari fjölmiðlamönnun landsins sagði mér eitt sinn frá því hve erfitt það hafi verið að fá hljómgrunn fyrir því fyrir um 25 árum síðan að birta fréttir af sjávarútvegi og landbúnaði. Fréttir úr landbúnaði voru mjög out. Hvaða fréttir voru það sem gerðust í einhverri sveit úti á landi? "Hvaða erindi áttu þær við landslýð?" spurðu sjálfbirgingslegir íbúar höfuðborgarinnar. Þetta hafist nú samt með tíð og tíma að slíkar fréttir þóttu jafngildar öðrum fréttum sem höfðu þótt mikilvægari.

Íþróttafréttamenn eru smækkuð mynd af þessari stöðu. Þeir eru gjarna fyrrverandi íþróttamenn sem horfa á íþróttaheiminn út í gegnum sitt þrönga skráargat. Þeir hafa fyrst og fremst áhuga á því sem þeir stunduðu sjálfir en hafa ekki mikið álit eða áhuga á öðrum íþróttum. Vitaskuld eru til heiðarlegar undantekningar frá þessu en sama er, meginlínan er svona. Þessu viðhorfi hafa götuhlauparar kynnst rækilega. Fæstir íþróttafréttamanna hafa áhuga á hlaupum og hafa ekki kynnst þeim, kannski af eðlilegum ástæðum. Aðdráttarafl jarðar lætur ekki að sér hæða. Það er helst að fréttamenn sem sinna almennum fréttum og hafa kynnst hlaupum sýna þessari deild íþróttanna áhuga. Ritstýring íþróttafréttamanna kemur meðal annars fram í því að fréttir af götuhlaupum eða utanvegahlaupum eru ekki birtar á íþróttasíðum. Þessar greinar virðast ekki vera taldar til íþrótta í augum íþróttafréttamanna heldur er litið á þær sem eitthvað gutl. Ég hef heyrt það viðhorf að Laugavegshlauparar megi bara vera ánægðir með að það sé minnst á úrslitin á Laugaveginum í textavarpi sjónvarpsins. Þó er Laugavegurinn fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Sparnaður er nefnd sem ástæða fyrir því að Laugaveginum er ekkert sinnt af fjölmiðlum. Á sama tíma sér maður að ríkisútvarpið/sjónvarp hefur til skamms tíma yfirleitt sent tvö pör af fréttamanni og tæknimanni þegar bein lýsing er frá leikjum í handbolta eða fótbolta, sama hvar það er á landinu.
´
Mogginn kom út í morgun eftir gott jólafrí. Í honum var átta síðna íþróttablað. Ég taldi að gamni mínu fjölda frétta og skipti þeim eftir íþróttagreinum. Ég fór ekki út í að reikna dálksentimetra, þá hefði útkoman orðið eitthvað önnur.
Niðurstaðan var þessi:
Handbolti 18 fréttir
Fótbolti: 16 fréttir
Frjálsar: 1 frétt
Karfa: 2 fréttir
Golf: 2 fréttir
Tennis: 1 frétt
Ruðningur: 1 frétt
Skíði: 1 frétt

Samtals voru 42 íþróttatengdar fréttir á þessum átta síðum fyrir utan úrslit og stöðutöflur. Sumar fréttir íþróttasíðnanna voru "ekki fréttir" eins og að fótboltamaður segir að frétt um að hann hafi verið á leið til landsins sé uppspuni. Í annarri "íþróttafrétt" er skýrt frá því að þjálfari í handbolta hafi slitið hásin og sé á hækjum um nokkrurra vikna skeið. Aðrar fréttir eru vitaskuld fínar eins og gefur að skilja.

Framar í þessu sama blaði undir "Fréttir/innlent" er frétt um Skokkhóp ÍR. Hún er ágæt sem slík en er á sömu fréttasíðu og sagt er frá því að farbann yfir meintum glæpamanni hafi verið framlengt í 11. sinn og að þjóðvegir í þéttbýli skuli færðir til sveitarfélaga. Í fréttinni er einnig sagt frá Poweratehlaupunum og Gamlárshlaupi ÍR. Ætli það séu ekki einhversstaðar á milli 1500 og 2000 manns sem taka þátt í þessum hlaupum á hverju ári. Það þætti ágætur fjöldi á einhverjum stað. Þessi mót eru hins vegar ekki talin íþróttamót af íþróttafréttamönnum heldur flokkuð undir sömu kategoríu og hrútasýningar, fréttir af glæpamönnum og vegagerð.

Þetta er afar glöggt dæmi um ritstýringu á íþróttafréttum þar sem íþróttir eru flokkaðar í "íþróttir" og "ekki íþróttir" af einhverjum sem telja sig hafa vald til þess. Hinir svokölluðu "íþróttafréttamenn" virðast ekki vilja sjá fréttir af íþróttum sem þeir meta sem óæðri eða "ekki íþróttir" inni á sínum síðum. Ekki er hægt að kenna því um að upplýsingum sé ekki komið á framfæri. Menn hafa oftar en einu sinni meir að segja séð að tölvupóstum með fréttatilkynningum um viðburði tengda götuhlaupum er eytt óopnuðum.

sunnudagur, desember 28, 2008

Grikkinn Kuorosis setti heimsmet í 24 tíma hlaupi í flokki 50 ára og eldri

Sunnudagshlaup með Vinum Gullu. Fór rúma 20 km. Vel á minnst. Samkvæmt upplýsingum Jóa þá eiga Vinir Gullu 20 ára afmæli á næsta ári. Hann og Maggi eru byrjaðir að spekúlera i hvernig þeirra tímamóta verður minnst. Þrátt fyrir að þessi hópur sé svo gamall sem raun ber vitni þá er hann ekki talinn með í hinni ágætu hlaupadagbók Gunnars Páls sem ég blaðaði í gegnum í bókabúð í gær.

Samkvæmt öllum sólarmerkjum þá verður minna um utanferðir hlaupara á ári komenda en fyrri ár. Bretland er eiginlega eina landið sem ekki er algert brjálæði að heimsækja. Gengi krónunnar hefur einungis fallið um ca 40% gagnvart pundinu á árinu á meðan gengið gefur fallið um 100% og þaðan af meira gangnvart evru, dollar og norrænum gjaldmiðlum. það er því orðið rándýrt að fara til allra nálægra landa nema Bretlands, það er bara dýrt að fara þangað. Vegna þessarar stöðu er tækifæri til að hlú enn meir að innlendum hlaupum og nýta sér þau sóknarfæri sem felast í stöðunni.

Það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi.

1. Það má auka veg fimmunnar. Pétri Reimarssyni datt í hug fyrir nokkrum árum að fara yfir hverjir hefðu árlega hlaupið öll maraþonin hérlendis (Marsmaraþon, Mývatn, Reykjavíkurmaraþon og Haustmaraþon) og Laugaveginn. Hann tók einnig saman hverjir náðu bestum tíma samanlagt á hverju ári af þeim sem náðu þessu marki. Ég hef t.d. einungis náð þessu einu sinni. Þessi samantekt hefur fengið minni athygli en ástæða er til. Það mætti veita þessu meiri athygli en verið hefur til þessa með því að þeim sem ná þessu marki verði veitt viðurkenning og þrír efstu af hverju kyni fái sérstaka viðurkenningu. Þarna er komið takmark sem getur hvatt fólk til dáða ef einhver vafi er á hvort tekið skuli þátt í hlaupi eða ekki. Það má gera kostnaðaráætlun yfir hvað viðurkenningarnar kosta og hlaupin gætu greitt einhverja lágmarksupphæð í sjóð sem myndi kosta viðurkenningarnar.

2. Fjallahlaupin.

Fjallahlaupin eru þessi það ég best veit: Laugavegurinn, Barðsneshlaupið, Jökulsárhlaupið, Þorvaldsdalsskokkið, Vatnsneshlaupið og Vesturgötuhlaupið. Það má veita sérstaka viðurkenningu til þeirra hlaupara sem fara að lágmarki þrjú (eða fjögur) af þessum hlaupum. Svona fyrirkomulag myndi vafalaust hvetja einhverja til þátttöku sem ella myndu ekki taka þátt í þeim.

3. Ultrahlaup:

Ultrahlaupin voru þrjú í ár: Laugavegurinn, 100 km hlaupið og sex tíma hlaupið. Það er spurning hvort 100 km hlaupið verður ekki árviss viðburður í ljósi aðstæðna. Annars er annaðhvort ár eðlilegt markmið. Ultrahlaupum má fjölga.
Það er verið að ræða um Hamfarahlaup sem er frá upptökum Jökulsár á fjöllum og til sjávar (eða til Ásbyrgis). Þessi leið er rúmlega 200 km. Spurning er hvort það verði hlaupið í einum rykk eða fleiri dagleiðum.
Haustlitahlaupið milli Flókalundar og Bjarkalundar var hlaupið óformlega í fyrsta sinn sl. sumar. Það yrði hlaupið á tveimur dögum. Hvor leggur væri um eða rétt yfir 65 km.
Norðmenn hafa sett upp sólarhringsprógram með 10 km hlaupum. Þá eru hlaupnir 10 km á braut einu sinni á hverjum þremur tímum. Sá sem hleypur alla 8 leggina á skemmstum tíma sigrar. Þetta er skemmtilegur valkostur sem má hlaupa síðla haust eða utan helsta hlaupatímans.

Norðmenn veita viðurkenningar fyrir ástundun í ultrahlaupum. Þeir veita þeim hlaupurum viðurkenningargrip sem hafa hlaupið 1.000 km, 5.000 km og 10.000 km samanlagt í formlegum ultrahlaupum. Viðkomandi þurfa að borga fyrir gripinn sem veittur er fyrir 1.000 km og 5.000 km en 10.000 km gripurinn er "on the house". Við eigum nú þegar 1.000 km menn. Með auknum fjölda ultrahlaupa hérlendis og auknum áhuga fyrir ultrahlaupum mun þeim fara fjölgandi. Vonandi nær einhver þeim áfanga hérlendis að hlaupa samanlagt yfir 5.000 km í ultrahlaupum. 10.000 km markið er ekki nema á færi einstaka afburðamanna sem byrja mjög snemma á ultrahlaupum.

Kynningarstarfsemi:

Það þarf að setja upp heimasíðu til kynningar hverjum flokki hlaupa sem talinn er upp hér að framan. Það verður að segja það eins og er að kynningarmál hlaupa hérlendis eru ekki til fyrirmyndar, vægt sagt. Eini staðurinn þar sem samantekið yfirlit er um þessi mál er á heimasíðu Torfa, www.hlaup.is. Hún er hins þeim takmörkunum háð að hún er alfarið á íslensku. Það er hinsvegar ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur sem vinnur gríðarlega gott sjálfboðastarf í þágu fjöldans annist svona hluti fyrir erlenda hlaupara alfarið á eigin spýtur. Það væri t.d. ekki mikið mál hjá ÍBR að setja upp upplýsingar um þessi mál á heimasíðu Laugavegshlaupsins (www.marathon.is). Margir erlendir hlauparar heimsækja þessa síðu og hún er í raun gluggi íslenska hlaupasamfélagsins út í heim. Það er nefnilega svo að hlauparar safna hlaupum og þeir safna löndum. Því miður er eiginlega útilokað fyrir erlenda hlaupara að komast að því hvenær maraþonhlaup eða lengri hlaup eru haldin hérlendis fyrir utan Reykjavíkurmaraþon og Laugaveginn.

Heimasíða fyrir hlaup í hverjum framantöldum flokki væri fínt framtak. Það þarf ekki nema eina síðu um hvert hlaup með lágmarksupplýsingum s.s. vegalengd, staðsetningu, tímasetningu og einni eða tveimur myndum. Texti mætti vera á íslensku, ensku og skandinavísku. Góður heimasíðumaður væri enga stund að setja þetta upp. Síðurnar geta verið staðlaðar að yfirbragði til að auðvelda verkið. Textagerð og myndasöfnun yrði örugglega unnin af mörgum viljugum höndum sem ynnu létt verk. Þýðingar texta eru á margra færi. Það þarf að setja málið í farveg og kalla lykilmenn til starfa, þá væri því borgið. Ef svona síða væri til staðar er ekkert mál að senda upplýsingar um hana til hlaupasíðna í nálægum löndum. Áhrifin yrðu örugglega umtalsverð.

föstudagur, desember 26, 2008

Eiolf Eivindsen að afloknu 48 klst hlaupi

Fór út í morgun upp úr kl. 9.00 og vestur á Eiðistprg. Hitti Vini Gullu í miðbænum og þar voru teknar nokkrar slaufur fram og til baka og síðan halfið til baka inn í Laugar. Orwll kom með mér heim og lengdi aðeins. Alls lágu 25 km í fínu veðri. Ég hef ekki hitt Orwell síðan í nóvember. Hann sagði mér frá því seint í október að kílóunum væri aðeins farin að fjölga. Hann vinnur við hreinsanir á götum og ruslakössum svo hann fer upp síðla nætur. Um morguninn er svo morgunmatur sem samanstendur mest af rúnnstykkjum og áleggi. Margir borða lítið þegar þeir vakna og eru svo orðnir glorhungraðir þegar kemur að morgunmatnum. Þá er rúnnstykkjunum rutt í sig með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þau hlaðast utan á skrokkinn og vilja ekki fara aftur. Orwell var búinn að bæta nokkrum kílóum á sig og það var farið að hafa áhrif á hlaupin. Sporin voru þyngri og allt heldur erfiðara. Við vorum að tala um þetta í haust og ég sagði honum hvað ég hefði gert í þessum málum. Burt með allt draslfæði, hvítt hveiti, sykur, gos, kökur, kex, brauð að mestu, sælgæti, óþarfa kolvetni og unnar matvörur. Bara almennilegan basmat. Kjöt, fisk, ávexti og grænmeti og mikið af því. Síðan þarf að borða góðan morgunmat og þar má vera slatti af kolvetnum en þau þurfa að vera góð. Hunang, rúsínur, hafragrautur, speltflögur með skyrslettu samanvið er steypa sem bregst ekki. Ég gat ekkert fullyrt um árangur en sagði að þetta hentaði mér vel. Bara að borða nógu mikið af góðum mat en sleppa öllu rusli. Orwell var til í að prufa og ætlaði að vikta sig um síðustu mánaðamót. Ég hef ekki hitt hann fyrr í desember svo það var spenna að heyra hvernig allt hefði gengið fyrir sig. Orwell var himinlifandi. Í nóvember fóru tæp 5 kíló og honum líður miklu betur að öllu leyti. Hann sagði að konan sín hefði sett upp snúð til að byrja með þegar kallinn var farinn að vera kræsinn á eitt og annað sem áður hafði flokkast undir venjulegan mat. Það viðhorf hvarf fljótt þegar hún sá hvað þetta gerði honum gott. Nú er hún orðinn helsti bakhjarl hans þegar verið er að segja við hann í fjölskylduboðum að það sé bara vitleysa að borða ekki kökur eða kruðerí. Eitt fannst mér einnig mjög athyglisvert. Reynsla hans var sú sama og mín að hann var farinn að fara miklu sjaldnar á klósettið á nóttunni. Hann hafði þurft að passa sig að drekka ekki mikið eftir kvöldmat til að þurfa ekki að vera alltaf að rápa á klósettið á nóttunni með tilheyrandi ónæði og svefnrofum. Það hefur minnkað verulega og verður gaman að sjá hvernig það þróast á næstu mánuðum. Þetta er ekki átak heldur spurning um lífsstíl til frambúðar.

fimmtudagur, desember 25, 2008

Sveinn, María og Jói á aðfangadagskvöld

Á jólum reikar hugurinn oft til baka og maður rifjar upp fyrri tíma sem tengjast desember og jólunum. Desember var oft lengi að líða en þó birtist alltaf nokkur von í þvi að hann myndi líða eins og aðrir mánuðir þegar jólasveinadagatalið var komið á vegginn. Þá var niðurtalningin alla vega byrjuð. Mamma fór yfirleitt á Patreksfjörð í desember til að kaupa inn fyrir jólin. Þá var ekki skotist í búð ef eitthvað vantaði heldur var verslunarferð skipulögð með töluverðum fyrirvara. Bíll var ekki til á hverjum bæ heldur sameinaðist fólkið í þá bíla sem til voru. Stundum var færð og veður ekki eins og best var á kosið og þá þurfti að stíla ferðina á Patró upp á mokstursdag svo tryggt væri að menn kæmust fram og til baka samdægurs. Appelsínu- og eplalyktin barst um bæinn eftir að komið var úr kaupstaðnum og setti sitt mark á jólatilhlökkunina. Skata var aldrei borðuð heima á Þorláksmessu heldur voru reyktir bringukollar soðnir sérstaklega fyrir þennan dag. Þeir voru soðnir heilir og þóttu bestir ef þeir voru vel feitir. Manni fannst alltaf eins og jólastemmingin færðist endanlega yfir þegar byrjað var að lesa jólakveðjurnar í útvarpinu. Afi kom oft yfir frá Melanesi undir kvöld á Þorláksmessu með dálítinn poka sem var yfirleitt snarað inn í búr. Aðfangadagurinn var yfirleitt mjög lengi að líða eins og þekkt er fyrr og síðar. Það þurfti að sinna skepnunum þá daga eins og aðra þannig að það var yfirleitt eitthvað við að vera. Mamma fékk þó yfirleitt frí frá fjósinu um kvöldið því hún hafði nóg að snúast í bænum þennan dag sem og endranær. Það var reynt að gefa skepnunum heldur meiri og betri gjöf en endranær. Jólakortin voru alltaf opnuð eftir að komið var inn úr húsunum og búið að hafa fataskipti en áður en borðað var. Heitt hangikjöt var alltaf jólamaturinn. Jól eru fyrst og fremst lykt og hefðir. Því er hangikjötslykt alltaf hin dæmigerða jólalykt í mínum huga. Best þótti ef maður fékk nóg af bókum í jólagjöf. Það var alltaf þörf fyrir eitthvað nýtt að lesa. Ég man óglöggt eftir því að þegar ég var líklega fimm ára og Haukur bróðir sjö ára þá fengum við lungann af Nonnabókunum í jólagjöf. Það var mikill fjársjóður. Þær bækur sem á vantaði í safnið komu síðar. Þær eru allar varðveittar enn á góðum stað og hafa verið lesnar aftur og aftur enda eru þær sígildar. Krakkarnir mínir voru að tala um það á dögunum að það væri búið að gefa seríuna um Nonna og Manna út á disk sem nauðsynlegt væri að eiga hér á heimilinu.

Aldrei var farið í heimsóknir á nágrannabæi á jóladag heldur var hann haldinn hátíðlegur heima við, legið í bókum og hvílst. Á annan í jólum var alltaf farið inn að Melanesi í jólaboð til afa og ömmu. Þar fékk maður súkkulað en ekki kakó. Á næstu dögum heimsótti fólkið á Sandinum hvert annað á milli bæja, spjallaði saman, þáði góðgerðir og spilaði á spil. Ég held að ég geti fullyrt að það var aldrei haft vín um hönd í þessum jólaboðum. Rauðsendingar voru ekki vínmenn og það hefði þótt ósvinna að vera að pukrast með vín á jólunum á þessum árum. Í öðrum sveitum var það talinn vera hluti af jólahefðinni að fá sér í fótinn þegar farið var í kaupstaðinn fyrir jólin svo og að gefa út í bollann þegar fólk hittist á milli hátíðanna. Svona er þetta misjafnt. Ef vel viðraði var farið á jólatrésskemmtun út í Örlygshöfn þar sem félagsheimilið var. Síðan tók hversdagurinn við smám saman eins og gengur.

Jólin hafa sem betur fer haldið sínum sess í tilverunni gegnum áratugina og eru í nokkuð föstum skorðum þótt flest annað hafi breyst. Þar skiptir hlutverk fjölmiðla m.a. nokkru máli því þeir hafa veruleg áhrif á mótun samfélagsins. Ég man eftir því að mér fannst það ekkert sérstaklega viðkunnanlegt mín fyrstu jól í Svíþjóð að þá var glæpamynd í sjónvarpinu um kl. 21.00 á aðfangadagskvöld. Þetta passaði einhvern veginn ekki.

Sólfarið í tunglsljósi

miðvikudagur, desember 24, 2008

Fyrir nær fjórum árum óskaði ég eftir inngöngu fyrir UMFR36 inn í ÍBR. Ég taldi að sú íþróttastarfsemi sem færi fram á vegum UMFR36 væri ekki lakari eða minna virði en margt annað sem gert er á þessum vettvangi. Það voru kannski ekki allir sammála því. Ég taldi félagið uppfylla öll formsatriði vegna þess að ég staðfærði nákvæmlega lög ágæts félags sem er starfandi innan íþróttahreifingarinnar. Það kom í ljós að það var ýmislegt reynt til að þæfa málið. Í fyrsta lagi fór nafnið fyrir brjósið á lagaspekingum. Það mátti ekki kenna félag við götuheiti eða húsnúmer. Það má hins vegar kenna það við fugla himinsins, heiðin goð, reikistjörnur, örnefni í landinu eða einhverjar afbakaðar íþróttatilvitnanir. Þessu var kippt hið snarasta í liðinn en kemur þó fyrir ekki. Í dag fékk ég bréf frá ÍBR. Nú er fyrirstaðan sögð vera sú að ekki komi nógu glögglega fram í lögum félagsins að félagið hefði iðkun íþrótta að markmiði. Ég er ekki með lögin við hendina þannig að ég get ekki vitnað orðrétt í þau en geri það síðar. Þessu verður hins vegar bjargað við svo formsatriðum sé fullnægt. Langhlauparar eru með mikið úthald þannig að það er tryggt að þetta vinnst á endanum. Það er tilhlökkunarefni að fara yfir þennan prósess og fleira þegar UMFR36 er komið með seturétt á ÍSÍ þingum. Það er af nógu að taka.

sunnudagur, desember 21, 2008

Þegar Sveinn og nokkrir félagar hans úr Réttó byrjuðu i MR fyrir nokkrum árum þá varð sú stefna ráðandi hjá þeim að fara ekki alfaraleiðir heldur þær leiðir sem þeir sjálfir kusu. Þeir stofnuðu meðal annars Nördafélagið í MR. Félagið stóð helst fyrir því sem öðrum fannst mjög nördalegt. Þeir héldu eitt sinn skólakeppni í Pókemín. Þeim til undrunar komu um sjötíu manns á mótið. MIkill success. Þeir buðu nýnemum upp á mjólk og skúffuköku og sungu barnalög fyrir þá þegar aðrir móttökuhópar buðu upp á eitthvað sem var heldur sterkara. Nördafélagið varð með árunum eitt helsta költfélagið innan MR. Þarna náði saman hinn ágætasti hópur innan skólans sem hefur haldið sjó saman síðan. Þegar menntaskólaárunum lauk þá þurfti eitthvað annað að taka við eftir að Nördafélagið var að baki. Þetta var á þeim árum þegar veldi útrásarvíkinganna reis sem hæst og almenningur hleykslaðist sem mest á Baugsmálssókninni og tilraunum stjórnvalda til að setja fjölmiðlalög. Hópnum þótti því mjög við hæfi að kalla félagið Söllenbergers. Eitt sumar spilaði Söllenbergers í utandeildinni í fótbolta og lét gera sér sérstakan fótboltabúning í tilefni þess. Merki félagsins er Bónussvínið bak við rimla. Söllenbergers yfirtók og hefur viðhaldið söngbók nördafélagsins. Síðan urðu félagsmenn faglegri og fóru að fjárfesta í nafni félagsins. Það þótti hins vegar vera diskútabelt að Söllenbergers væri á kennitölu eins félagsmanns þegar þeir voru sumir hverjir orðnir starfsmenn stóru bankanna fyrrverandi. Því var félagið skráð formlega hjá Hagstofunni til að fá kennitölu fyrir það. Markmið félagsins var sagt vera iðkun fótbolta og fjárfestingar. Hagstofunni varð um og ó þegar í dagskrá aðalfundar var tiltekið að aðalfundi lyki á almennum gleðskap eftir að hefðbundnum aðalfundarstörfum væri lokið. Stofnunin neitaði að skrá félagið nema þessi ósvinna væri strikuð út úr lögum þess. Þetta gekk allt saman upp og Söllenbergers er nú formlega skráð í firmaskrá Hagstofunnar. Reyndar breytti Hagstofan nafni félagsins í Áhugamannafélagið Söllenbergers. Ekki skil ég hvaðan Hagstofunni kemur réttur til að breyta nafni félaga sem á að skrá í firmaskrá. Hvernig er með félögin FX37, FX38 o.s.frv. Ætli hafi verið gerð athugasemd af Hagstofunni við þessi nöfn? Varla. Eftir að háskólaárunum lauk hér heima hafa félagsmenn dreifst um heiminn til að mennta sig enn frekar. Edinborg, Boston, Seattle, Toronto, New Jearsey, Uppsalir og Kaupmannahöfn. Sumir Söllenbergeranna gátu valið úr bestu háskólum Bandaríkjanna. Söllenbergerarnir eru fyrst og fremst raungreinamenn. Verkfræðingar, stærðfræðingar, hagfræðingar og eðlisfræðingar.

Nú fyrir jólin þótti nauðsynlegt að halda fyrstu formlegu jólaveislu Söllenbergers þegar félagarnir streymdu til landsins í jólafrí. Þrjátíu manna veisla var undirbúin með bravör. Einhverjum datt í hug að fá leynigest í veisluna. Það kom náttúrulega ekki nema einn til greina. Einungis örfáir vissu hvað til stóð. Það datt því andlitið af flestum veislugesta þegar bjöllunni var hringt og hinn eini sanni Jón Gerald gekk inn. Að sögn var hann á báðum áttum þegar hann fékk tölvupóst um boðið en ákvað að slá til og kíkja við. Hann bjóst helst við að þarna væru einhverjir grínistar sem hefði þótt fyndið að stofna svona andófsklúbb með þessu nafni eftir að bankarnir hrundu. Honum kom í á óvart að þarna var á ferðinni nokkurra ára gamall klúbbur með alvöru fólki. Klúbburinn gat meðal annars framvísað notuðum fótboltatreyjum með mynd af Bónussvíninu bak við rimla sem staðfestingu á fortíð sinni. Jón Gerald stoppaði lengi við hjá Söllenbergerunum og það bar margt á góma. Söllenbergerarnir hafa ekki sagt sitt síðasta orð.

Fór út í morgun um 8.30. Tók Poweratehringinn og hitti svo Vini Gullu niður í Laugum. Fórum vestur á Suðurgötu og svo austur. Við Gauti tókum fínt rennsli síðustu 5 kílómetrana. Alls lágu 29 km.

laugardagur, desember 20, 2008

Keppendur í blautu sex tíma hlaupi árið 2007

Fór út kl. 7.30 í morgun. Hitti Jóa, Kristínu, Sigurjón og Stebba við brúna yfir Kringlumýrarbrautina. Fínt veður og búið að ryðja. Fórum út á Eiðistorg og þaðan inn í Laugar með viðkomu á málverkasölu í miðbænum. Búið að skipta út ljótu vatnslitamyndunum og búið að setja upp betri myndir. Við Sigurjón og Stebbi töldum okkur fullfæra í málabransann ef við hefðum svo sem þrjár rúllur, striga og nokkrar litadósir. Jói var ekki alveg sannfærður. Við fórum svo inn í Laugar, tókum hringinn inn í Elliðaárdal og fórum svo út að brúnni aftur. Á leiðinni til baka voru stórir hópar á ferðinni, bæði úr Kópavognum og úr Árbænum.

Sá í Mogganum í morgun að Glitnisbankastjórinn er að reyna að réttlæta hlutabréfaheppnina upp á 180 milljónir með því að hún hefði verið veik sl. sumar. Fréttin snerist um þetta í Mogganum en í tvígang sagði konan að hún væri alls ekki að afsaka gleymskuna með veikindunum. Sem þýðir að hún er ekkert annað en að reyna að afla sér samúðar á þennan heldur aumkvunarverða hátt. Ég veit ekki betur en bankar telji að fólk þurfi að standa við skuldbindingar sínar enda þótt það verði veikt. Ég efa að Glitnir telji slíka ástæðu gilda fyrir niðurfellingu skulda.

Sé að það á að selja nokkra sendiherrabústaði á næst mánuðum. Það er gott. Óvíða hefur bruðlið og ruglið hjá ríkinu farið með himinskautum eins og í utanríkisþjónustunni. Það var ekkert nógu gott nema flottustu húsin í dýrum hverfum. Kostaði ekki húsið í berlín nær milljarði? Eitthvað álíka kostaði húsið í Japan. Hvernig á þetta að vera hægt hjá smáþjóð sem telur um 300.000 manns? Hvaða tilgangi þjónar það að hafa sendiráð út um allar koppagrundir? Ég vildi sjá ársskýrslu sendiráðanna hjá utanríkisþjónustunni. Hver er tilgangurinn, hver eru markmiðin, hver er uppskeran? Þetta eru spurningar sem verður spurt við næstu fjárlagagerð þegar niðurskurðurinn verður af alvöru. Fólk er ekki farið að sjá neitt ennþá sem heitið getur.

Maður getur ekki annað en fyllst tortryggni þegr verið er að afskrifa skuldir fyrirtækja og færa þau aftur svokölluðum "eigendum" sínum sem voru búnir að skuldsetja þau upp úr öllu valdi. Milestone dæmið er dúbíus. Nú á að dreifa skuldunum yfir á herðar almennings og færa eigendunum þannig gríðarlegar fjárhæðir fyrir verra en ekki neitt. Ef það er talið réttlætanlegt að afskrifa skuldir fyrirtækjanna og gera þau rekstrarhæf á nýjan leik á þá ekki að auglýsa þau til sölu í þeim tilgangi að reyna að fá eitthvað fyrir þau frekar en að gefa þau.

Það verður að fara að taka saman heildaryfirlit um stöðu ríkissjóðs þannig að fólk getir áttað sig á framtíðinni. Hverjar eru skuldbindingarnar, hver verður greiðslubyrðin og hvenær þarf að borga. Hvað þýðir þetta fyrir venjulegt fólk? Hvernig verður staða sveitarfélaganna á næstu árum? Það er mörgu ósvarað.

Hálfkaraður turninn rís upp úr umhverfinu

föstudagur, desember 19, 2008

Augun á manni eru að opnast meir og meir. Margt grunaði mann svo sem án þess að einhver sönnun væri fyrir hendi en annað kemur manni algerlega á óvart. Ég hafði t.d. alltaf talið Reyni Traustason heldur jarðbundinn kall sem hefði unnið sig áfram á nokkuð eftirbreytniverðan hátt. Hann er inni í mörgu eins og gefur að skilja og hefur ákveðið töffaralúkk með hattinn. En það skal lengi manninn reyna. Fyrst skýtur hann sig í báðar lappirnar þegar hann verður uppvís að lygum og tilraun til að rýja blaðastrák ærunni. Það hlýtur eitthvað að hafa gengið á áður fyrst blaðastrákurinn telur ástæðu til að taka upp samtöl sín við ritstjórann. Maður gæti rétt ímyndað sér andrúmsloftið á vinnustaðnum ef maður væri að laumast til að setja diktafón í gang í hvert sinn sem maður talaði einslega við yfirmann sinn. Slíkt gengi nátturulega ekki. Þetta sýnir bara andrúmsloftið á DV. Bjarni Brynjólfsson fyrrverandi ritstjóri Séð og Heyrt skrifar yfirgripsmikla grein á Eyjuna í dag. Þar kemur fram góð innsýn í plottið sem lagt var upp með svo Baugsliðið næði undir sig öllum tímaritamarkaðnum. Stofnun Ísafoldar, blaðsins sem kom bara út í nokkur skipti og Reynir ritstýrði, var ákveðinn millileikur í þeirri fléttu allri. Reynir og strákurinn hans eru ekkert annað en peð á taflborði Baugsfeðga. Svo skrifar þetta leiguþý þjóðníðinganna ritstjórnargrein í blaðið þar sem þeir biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið sig nógu vel í að vera krítiskir á útrásarvíkingana á undanförnum mánunðum og misserum. Það er ekki að ástæðulausu að ritstjórinn hefur fullt traust eigendanna enda þótt hann væri búinn að fyrirgera öllum rétti til starfans ef um væri að ræða dagblað sem rekið væri á normal forsendum.

Jói gamli vælir yfir sendingunni sem Samkeppnisstofnun sendi honum í dag og segir að það sé búið að spilla fyrir sér jólagleðinni. Hann ætti að velta aðeins fyrir sér stöðu þeirra 10.000 sem hefur verið sagt upp störfum og eru án atvinnu næstu misserin eða árin. Hann ætti aðeins að velta fyrir sér þeim 93 milljarða niðurskurði á fjárlögum sem verður gerður fyrir árið 2010, verðbólgunni, hruni krónunnar, gríðarlegri kaupmáttarskerðingu, risavöxnum þjófnaði úr lífeyrissjóðunum og því að íslendingar eru metnir sem óreiðufólk meðal nálægra þjóða. Þökk sé honum, syni hans ásamt fleirum. Það er svo mikið víst að það er ekki bara Jói gamli einn sem hefur einhverjar áhyggjur yfir jólin og flestir hafa meiri ástæðu til þess en hann. Leigupennar Baugsveldisins hjá 365 byrja strax sönginn um að þetta séu þakkirnar fyrir að hafa haldið vöruverði niðri sl. 20 ár. Mýtan um litlu búðina sem seldi vörur á lægra verði en aðrar er löngu horfin. Nú hefur hún breyst í risavaxinn auðhring sem heldur þjóðfélaginu í heljargreipum og sýgur úr því allt blóð.
Ég hef tekið þá principákvörðun að versla ekki í Baugsbúðum ef ég mögulega kemst hjá því. Mér er alveg sama þótt ég borgi eitthvað meira fyrir það sem ég kaupi.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Megas á fullu í Salnum í kvöld.

Ég fékk bréf frá Neil í gær. Hann er brattur og er að ná sér. Hann er farinn að æfa en er enn þreyttur. Þetta er svo gríðarlegt álag að það tekur tíma fyrir skrokkinn að jafna sig. Önnur hásinin er eitthvað að plaga hann og svo þarf hann að fara í einhevrja smá aðgerð sem ég er ekki alveg klár hvar er á skrokknum. Ég er ekki svo góður í enskri anatomíu að ég viti alveg hvar hvað er. Hann segist ætla að fara aftur eftir tvö ár og reyna að bæta sig um svona sólarhring eða eitthvað í þá áttina. Hér er ekki verið að tala um sekúndur eða mínútur. Neil vinnur hjá Straumi og gerir ráð fyrir að koma hingað upp innan tíðar. Hann er að planera að taka Claire sína niður til Suður Afríku á næsta ári og hlaupa Comerades. Fyrst hann er kominn þangað á annað borð ætlar hann að hlaupa fram og til baka. Hann var mjög glaður yfir að heyra að við hefðum verið spennt að fylgjast með honum hér uppi og látum hann ekki gjalda Gordons Brown.

Þegar einhver kaupir eitthvað á helming þess sem annar hefur hefur keypt hlutinn á og selur hann síðan aftur á tvöföldu kaupverðinu og græðir helling af peningum þá er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Hverra hagsmuna voru vörslumenn GIFT fjárins að gæta? Það hlýtur að flokkast undir umboðssvik þegar einhver ráðstafar eignum annarra á þennan hátt. Ég átti ekkert inni í GIFT en pabbi og mamma áttu kannski svona 100.000 kall þarna inni eins og svo margir. Þetta er ekki þúfan sem veltir stóra hlassinu fyrir þau en þetta er principmál. Það getur ekki verið að það verði látið óátalið hvernig farið var með þessa fjármuni. Fimmtíu milljarðar farnir til andskotans. Almenningur hefur verið rippoffaður aftan og framan á undanförnum árum af þessu liði.

Ég fór í Salinn í kvöld á tónleika með Megasi og Senuþjófunum. Kallinn stóð sig með sóma nema að hann tók bara tvö uppklappslög. Salurinn klappaði í einar fimm mínútur eftir fleiri lögum en kallinn stóð bara og brosti. Svalur.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Það hefur verið gott ultraár hjá ritaranum

Í sambandi við umræðuna hér innanlands er gaman að rifja upp mál Uve Rainers í Svíþjóð. Sjálfur Olof Palme skipaði náinn vin sinn Uve Rainer dómsmálaráðherra árið 1983. Uve var ekki kjörinn á þing en það er hefð fyrir því í Svíþjóð að kallaðir eru inn í ríkisstjórn einstaklingar utan þings. Í upphafi var allt með kyrrum kjörum en síðan byrjaði kratablað í Vermlandi að skrifa um að Uve rainer hefði gert nokkuð sem krötunum fannst ekki mjög sniðugt. Hann hafði tekið stórt lán dagana fyrir áramót fyrir nokkrum árum og borgað það síðan svo aftur daginn eftir áramót. Með þessu móti va rhann stórskuldugur ufir áramótin og þurfti þar með ekki að borga tekjuskatt. enda þótt þetta væri ekki lögbrot þá sögðu kratarnir að þetta væri siðlaust og það vildu þeir ekki hafa, síst hjá dómsmálaráðherra. Umræðan magnaðist og svo fór að stóru blöðin tóku það fyrir af fullum krafti. Svo fór að Uve Rainer sagði af sér embætti dómsmálaráðherra og kvaðst miður sín vegna mistaka sinna. Vegna þess að hann var mikill vinur Olofs Palme þá þótti ekki við hæfi að hann sypi hregg utan dyra og því skipaði Olof vin sinn hæstaréttardómara. En það var ekki allt búið. Fjölmiðlar komust að því að hann hafði gert þetta áður og í enn meiri mæli. Sú umræða endaði svso að Uve sagði enn af sér embætti og gat Olof ekki lengur varið það að troða vini sínum í stór embætti.

Það er áhugavert að bera þetta saman við viðbrögð ráðamanna hérlendis. Ég hef ekkert gert sem refsivert telst og því er mín sök engin. Þetta tyggja ráðamenn hver efir öðrum. Engu að síður er landið á hausnum, efnahagslífið hrunið, landið, viðskiptalífið og landsmenn rúnir trausti erlendis og ég veit ekki hvað. En sama er, það hefur enginn gert neitt refsivert og því finnur enginn hjá sér sök. Þetta er nú meira grínið.

Maður hlýtur að kanna það af öllum mætti hvort það falli undir umboðssvik að hafa notað alla fjármuni Íslenska lifeyrissjóðsins í áhættufjárfestingar í því spilavíti andskotans sem rekið hefur verið á landinu undanfarin ár. Maður velur fjárvörslu þar sem sérstök áhersla er lögð á varfærni. Engu að síður er peningunum hent í gin ljónsins. Þarna verður ekker tgefið eftir. Þetta er principmál. Formaður og starfsmaður sjóðsins sögðust báðir hafa verið með lífeyrissjóð sinn í vörlu Íslenska lífeysissjóðsins og því tapað sínum peningum ekki síður en aðrir. Hver veit hvort ekki er búið að bæta þeim skaðann á einn eða annan hátt innan bankans? Það eru svona hlutir sem geta verið á ferðinni þegar allt gamla stjórnunargengið er áfram við störf innan bankanna. Það hugsar hver um sig og sína.

þriðjudagur, desember 16, 2008

Laugavegurinn er alltaf jafn fallegur

Ég hefði þurft að vera á þremur stöðum í kvöld á sama tíma. Jói og félagar hans í Víking voru að spila við Aftureldingu í Vikinni, Fókus var með jólafund í Faxafeninu þar sem árbókin var afhent og félagsmenn héldu litlu jólin og síðan var Íslenski lífeyrissjóðurinn með kynningarfund á Grand Hotel þar sem reynt var að útskýra hvernig sjóðnum tókst að tapa milli 30 og 40% af raungildi sjóðsins það sem af er árinu.

Ég valdi lífeysissjóðinn í þeirri von um að þar væri hægt að boxa svolítið. Sú von brást ekki. Í bréfi því sem sjóðsfélagar fengu sent frá sjóðnum var ýmislegt sem vakti grunsemdir um að það væri verið að fóðra mann á hálfsannleik. Sá grunur reyndist á rökum reistur. Þetta var fínn fundur. Það komu margir upp bæði með innlegg og fyrirspurnir, vel undirbúnir og málefnalegir. Ég hefði ekki viljað vera í sporum framkvæmdastjórans (reyndar er hann nýlega ráðinn til starfans því sá sem stýrði skútunni fram yfir bankahrun sagði upp störfum þegar niðurstaðan lá ljós fyrir) eða stjórnarformannsins þegar þeir voru að reyna að verja ákvarðanir um vörslu fjárins. Þegar Frjálsi lífeysissjóðurinn fjárfesti eins og hann gat í ríkiskuldabréfum og uppskar fína ávöxtun á árinu þá sogaði Landsbankasvartholið til sín mikið af peningum Íslenska lífeyrissjóðsins. Sá íslenski sagði að það hefpði verið erfitt að fá ríkisskuldabréf. Restin af peningunum var notuð til að kaupa skuldabréf af Baugi, Exista, Eimskip, Samson, Mosaic, Stoðum, Bakkavör og ég man ekki hvað þau heita öll þessi fyrirtæki sem eru í eigu höfuðpauranna í efnahagshruni landsins. Þetta var alveg eftir teoríunni eins og maður hafði ímyndað sér hana. Landsbankinn var að drepast úr lausafjárskorti jafnt og Glitnir. Þeir notuðu öll tiltæk tækifæri til að soga til sín allt það lausafé sem tiltækt var inn í bankasvartholið. Þar á meðal peningamarkaðssjóðina og lífeyrissjóðina.

Það kom upp í ræðustól maður sem er bankamaður og hafði unnið hjá þessum lífeyrissjóð fyrir allnokkrum árum. Hann talaði mjög vel og af þekkingu. Hann vandaði stjórn og starfsmönnum ekki einkunnagjöfina fyrir unnin störf. Hann sagði að allir sem ynnu í bankageiranum vissu að þessi fyrirtæki sem lífeyrissjóðurinn keypti skuldabréf af væru verstu og áhættumestu skuldarar landsins. Þeir ættu ekkert eigið fé heldur lifðu á lánum. Hann sagði að Íslenski lífeyrissjóðurinn væri ekkert annað en peningamylla fyrir Landsbankann. Svokallað öryggisálag upp á 4.1% sem stjórnin tók frá til að hafa vaðið fyrir neðan sig að sögn, sagði hann að væri einungis gert til að varna því að sjóðsfélagar færu úr sjóðnum því þeim er sagt að þeir fái ekkert greitt ef þeir fara og staðan reynist betri en ætlað var. Á sama tíma sendir Frjálsi lífeyrissjóðurinn mönnum bónusgreiðslur ef staðan er betri en ætlað er þegar þeir fara úr sjóðnum.

Annar maður sem vinnur einnig í banka sagði frá því á fundinum að hann hefðu hringt í Landsbankann og reynt að fá upplýsingar um ýmis atriði fyrir fundinn. Honum var sagt að þeim upplýsingum sem hann bað um að fá yrði dreift á fundinum. Ekkert sást af slíku. Upplýsingar um viðskiptaaðila fengust eftir þrýsting og eftirrekstur. Menn vilja fá nákvæma útlistun á því við hverja var skipt og hvenær. Það verður ekkert gefið eftir. Það reyndist rétt sem mann grunaði að maður á að taka allt með fyrirvara sem sagt er að mönnum í svona stöðu og treysta engu. Sannreyna allt. Forsvarsmenn sjóðsins sögðu að yfirmenn landsbankans hefðu aldrei beitt sig þrýstingi varðandi fjárfestingarstefnu sjóðsins. Það er ekki von því Landsbankamenn ákveða hana sjálfir. Sjóðurinn semur við Landsbankann um fjárstýringu á eignum sjóðsins. Það var ofvaxið skilningi fundarmanna hvernig framkvæmdastjóri sjóðsins gat verið fullur bjartsýni um ávöxtun fjárins fram í lok september. Menn sem eru að hrærast í þessum geira og eru með öll fjármálaleg skilningarvit óvirk eiga að fá sér annað starf.

Þetta var fínn fundur, fundarmenn voru mjög málefnalegir og vel undir búnir. Það er ljóst að stjórnin á erfitt verk fyrir höndum að vinna traust sjóðsfélaga aftur svo hann tæmist ekki. Nú á tímum er ekki rétt að treysta neinum að óreyndu. Það var góð tilfinning að taka aðeins úr sér stinginn á þeim sem áttu það skilið.

Ég átti ágæt bréfaskipti við Hrafnkel íþróttafréttamann á RÚV í dag. Ég skrifaði formanni íþróttafréttamanna nýlega og fór yfir að mér og fleirum fyndist íslenskir íþróttafréttamenn sinna þeirri þróun sem er að gerast í ultragreinum heldur laklega. Það var skemmtileg tilviljun að viðtalið við Bibbu og Ásgeir var birt skömmu síðar í íþróttafréttatíma. Ég minntist sértaklega á Laugaveginn sem er mjög stór viðburður. Hvaða fréttamennska er það þótt þess sé getið í textavarpinu hver vann hlaupið. Sér er nú hver fréttamennskan. Vitaskuld kostar allt peninga en þá verða menn að forgangsraða. Ég fór síðan að hugsa um fjöldann á Laugaveginum og fór að velta fyrir mér hvort geti verið að hann sé fjölmennasta ultrahlaup á norðurlöndunum. Í sumar fóru 250 manns Laugaveginn. Ég veit ekki um neitt fjölmennara ultrahlaup á Norðurlöndunum. Þess þá heldur ber íþróttafréttamönnum skylda til að sina honum almennilega. Það væri hægt að gera fínan þátt um hlaupið með lítilli fyrirhöfn. Sjálfboðaliðar eru einnig alltaf tilbúnir að hjálpa til með svona verk. Ég þarf að skoða þetta betur með fjöldann. Það væri óvænt pre fyrir Laugavegshlaupið ef hann væri fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndunum.

mánudagur, desember 15, 2008

Jói var með vélina á laugardagsmorguninn. Stebbi var myndasmiður.

Það var fínt viðtalið við Bibbu og Ásgeir í íþróttaþættinum í kvöld. Kominn tími til að fá almennilega umfjöllun um það sem er að gerast í þessum málum. Það hefur orðið sprenging í Ironman í ár og víst er að það fylgja margir á eftir. ég ætlaðið að fara með járnbræðrum til Barcelona næsta sumar en ég veit ekki hvað verður, peningamálin eru orðin verulega takmarkandi þáttur. Ég geri ráð fyrir að velja keppni sem liggur eins nálægt og hægt er þegar ég læt slag standa, hvenær sem það verður.

Það var snautleg uppákoma í sambandi við rítstýringu DV í dag. Það kom upp á yfirborðið sem margir ætluðu að eigendurnir eru með puttana í fréttaflutningi blaðanna. Bæði beint og óbeint. Starfsmenn vita hvað bíður þeirra ef þeir eru óþægir og passa sig ekki. Ég hef vitað þetta lengi eða síðan ég fór að vesenast í blaðberamálunum. Þá var mér sagt hreint út að ef blaðamenn færu að skrifa um málefni blaðburðarbarna færu þeir á svartan lista. Þeir ættu þá erfiðara með að fá vinnu ef þeir þyrftu á að halda. Því skrifuðu þeir frekar um allskonar bull og kjaftæði frekar en að skrifa um þá barnaþrælkun sem viðgekkst hjá blaðburðarbörnum og ruddaskap Fréttablaðsins út í blaðberana. Ég þurfti að kæra þá fyrir Vinnueftirlitinu með óyggjandi sönnunum til að þeir hættu að ráða allt niður í 7 ára gömul börn til að bera út allt að 60 kg af blöðum á einum klukkutíma. Blaðamenn hefðu einnig mátt skoða aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að málefnum blaðbera. Hún var allrar athygli verð. Það var svo merkilegt að á stundum var maður var við það sjónarmið að það væri bjánalegt af manni að vera að vesenast í þessum málum. Bæði hefði ég enga ástæðu til að vera að skipta mér af þessu og einnig trúði fólk því tæpast hvernig framkoma Fréttablaðsliðsins var í raun og veru. En vitaskuld voru miklu fleiri sem voru ánægðir með þetta. Ég sé það hin seinni ár að það er hætt að hlaða á blaðburðarkrakkana ótæpilegu magni af auglýsingabæklingum. Það er vel að það gerist eitthvað.

sunnudagur, desember 14, 2008

"Friðarsúla"

Það hefur verið ágætlega hlaupið á helginni. Á laugardaginn fór ég af stað um 7.30 og hitti Jóa, Stebba, Gauta, Bigga og Sigurjón við brúna yfir Kringlumýrarrautina. Við fórum vestur á Lindarbrautina á Seltjarnarnesi, þaðan í gegnum miðbæinn og inn í Laugar. Þaðan inn í Elliðaárdal og út af brúnni aftur. Síðan fór ég heim til baka. Vel yfir 30 km. Í morgun fór ég af stað kl. 8.30 og fór Poweratehringinn og þaðan niður í Laugar. Þaðan fórum við vestur á Suðurgötu og síðan austur Fossvog. Þetta gerði tæpa 30 km. Það hefur verið svolítið kalt en stillt og fínt veður. Á þessum ca 60 km drakk ég um hálfan líter. Það er svo miklu minna en ég gerði áður. Þá hefði ég ekki þurft minna en 4 lítra á svona rúnt. Bæði er ég léttari og síðan er ég viss um að próteinhristingurinn skiptir máli í þessu samhengi.

Ríkið þarf auknar tekjur.Það hækkar skatta, bæði beina og óbeina. beinir skattar hækka ekki vísitölu neysluverðs en gallinn við þá er að það borga ekki allir tekjuskatt sem hafa vel efni á því. Það er skattlausa liðið sem hefur allar tekjur sínar af fjármagnstekjum. Á tímum eins og nú fara í hönd á að fara í herferð til að ná í þetta lið sem lifir eins og óværa á þjóðfélaginu og almennum skattborgurum. Það greiðir sáralitla beina skatta til ríkisins í gegnum fjármagnstekjuskatt og jafnvel engan. Það geriðir aftur á móti enga skatta til sveitarfélaganna en þiggur af þeim alla þjónustu á kostnað annarra skilvísra skattgreiðenda. Það borga hins vegar flestir óbeina skatta. Gallinn við þá er hins vegar að hækkun óbeinna skatta hækkar vísitölu neysluverð sem hækkar lánin sem eru verðtryggð. Ég bara skil ekki hvernig fjármálaráðherra geteur fengið út að það sé enginn munur á beinum og óbeinum sköttum hvað þetta varðar. Það voru tekin af mér ein mánaðarlaun í síðasta mánuði þegar lánið hækkaði um 250 þúsund verðtryggt. Teorían segir að þegar lánin séu verðtryggð þá séu launin það líka. Það er náttúrulega fjarri lagi. Kaupmáttarrýrnunin núna er svakaleg hjá þeim sem þó halda vinnunni, hvað þá hjá þeim sem eru atvinnulausir. Ég verð að segja að það er eitthvað öfugsnúið við það að enda þótt brennivínið hækki þá tapa ég peningum. Hvað ef ég drekk ekkert brennivín yfir höfuð. Auðvitað á brennivín og tóbak ekki að vera inni í útreikningi neysluvísitölunnar. Það er eins og fleira hér að það er alltof lítil umræða um þetta kerfi sem menn búa við. Lífeyrissjóðirnir hanga á því eins og hundar á roði og segja að lífeyrisþegar megi ekki tapa peningum. Á sama tíma er verið að gambla með lífeyrissjóðina eins og í versta lottói, alla vega suma. Áhættuminnsti séreignasjóðurinn hjá Kaupþingi hefur hækkað um ca 23% á árinu að nafnvirði. Áhættuminnsti sjóðurinn hjá Íslenska lífeyrissjóðurinn hefur lækkað um milli 20 og 30% á árinu að nafnvirði. Á það að vera eitthvað lotterí hvaða lífeyrissjóð maður velur? Þeir eiga að róa á svipuðum sjó.

föstudagur, desember 12, 2008

Syndugur svallari les úr sögu Söngvarans

Ég fékk athyglisvert bréf í gær. Það var frá Íslenska lífeyrissjóðnum sem hafði fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að varðveita séreignalífeyrissparnað minn. Ég hafði á sínum tíma valið varfærnustu ávöxtunarleið sjóðsins. Því hafði ég talið að þessi sjóður væri all vel tryggur enda þótt hann hefði ekki borið neina ofurávöxtun á liðnum árum.

Það er ýmislegt í þessu bréfi sem vekur hjá mér tortryggni. Í fyrsta lagi er alltaf talað um nafnávöxtun. Það er fallegri tala á pappír þegar ávöxtun er lág en verðbólga er allnokkur eða mikil. Enda þótt nafnávöxtun sé nokkur þá geta peningarnir rýrnað ef verðbólgan er hærri. Því er þarna í besta falli verið að segja hálfsannleik sem getur slegið ryki í augun á einhverjum sem eru ekki að hugsa um nafnvexti og raunvexti upp á hvern dag. Mér finnst ávöxtunin vera harla léleg þar hún er ekki meiri en ca 5% nafnáavöxtun sl. 5 ár. Það er lægri ávöxtun en ef maður hefði lagt peningana inn á verðtryggðan bankareikning. Ég veit ekki hvað þetta lið er að gera í vinnunni ef þetta er niðurstaðan. Síðan er það hláleg niðurstaða að varfærnasti sjóðurinn rýrnaði mest þegar bankarnir fóru á hausinn eftir því sem formaður og framkvæmdastjóri segja. Þessi sjóður hafði fjárfest í skuldabréfum bankanna í stórum stíl og var það talin örugg fjárfesting "enda benti ekkert annað en ríkisvaldið myndi styðja við bankakerfið ef nauðsyn krefði". Halda þessir menn að almenningur sé fífl? Bankarnir voru komnir með skuldatryggingarálag fyrir rúmu ári síðan sem sagði manni að markaðurinn teldi þá vera sama sem gjaldþrota. Vissu þeir ekki að efnahagsreikningur bankanna var um 12 sinnum stærri en efnahagur ríkisins. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans var mjög takmarkaður. Um þessa stöðu snerust fréttirnar vikum og mánuðum saman. Svo segja menn að ekkert hafi bent til annars en að ríkið gæti stutt við bankakerfið ef nauðsyn krefði. Á hvaða lyfjum eru þeir sem tala svona? Rúm 20% af sjóðnum fuku þann 6. október að nafnvirði. Þá er eftir verðbólgutapið. Það verður fundur um málið á þriðjudgskvöldið kemur á Grand Hotel. Ætli maður reyni ekki að mæta?

Af hverju maður geti ekki lagt séreignalífeyrissparnað inn á bundinn reikning sem maður má ekki hreyfa fyrr en eftir sextugt frekar en að láta svona jólasveina sjá um þessa aura, líklega á fantalaunum.

Það var spennandi að fylgjast með ritaranum í Útsvari í kvöld. Hann fór vel af stað með liði sínu en svo fataðist honum flugið og mátti þakka fyrir að landa sigri. Spurnig er hvort hann hafi orðið ringlaður af því að hafa þessar blómarósir sitt á hvora hönd og ekki náð að fókusera. Á því hefur maður fullan skilning.

Ég skrapp á kaffi Catalínu í Hamraborginni í Kópavogi í fyrrakvöld. Þar var Vestfirska forlagið að kynna jólabækurnar. Það var gaman að heyra í Jóni Kr. frá Bíldudal taka gamla standarda. Aldrei fór ég á ball með Facon hér í gamla daga. þeir hættu rétt um það bil sem ég komst á aldur að fara á böll. Jón hefur hins vegar skapað sér verðugan sess í íslenskri tónlistarsögu. Finnbogi Hermannsson fyrrverandi fréttamaður las einnig upp skemmtisögur að vestan. Þar sem hann hefur hvurs manns kjaft þá var eins og sögupersónurnar væru mættar þegar Finnbogi fór með sögurnar.

fimmtudagur, desember 11, 2008

Jón Kr. frá Bíldudal þenur raddböndin á bókarkynningu í gærkvöldi

Nú er hríðin skollin á. Nú fer almenningur að byrja að átta sig á hvað hrun efnahagslífsins hér á landi kemur til með að kosta venjulegt fólk. Óðaverðbólgan liggur fyrir. Gengishrunið er staðreynd. Þetta þýðir miklar verðhækkanir á almennri neysluvöru. Til viðbótar koma skattahækkanir. Beinir skattar munu hækka. Óbeinir skattar munu hækka. Gjaldskrár munu hækka. Kaupmáttur rýrnar gríðarlega á næstu misserum. Samdráttur verður í verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdir munu dragast saman. Þjónusta verður skert. Öll teoría segir að það eigi að hækka skattana í góðæri en lækka þá eftir föngum í harðæri. Það heitir að jafna hagsveifluna. Manni sýnist þetta séa lveg öfugt hérlendis. Skattar voru lækkaðir í góðærinu. Bæði beinir skattar og óbeinir skattar. Virðisaukaskatturinn af matvælum var lækkaður og átti það að þýða lækkun matvælaverðs til neytenda. Raunin varð hins vegar sú að mestur eða allur hluti lækkunarinnar datt niður í vasa kaupmanna þegar frá leið. Á tímum óðaverðbólgu er allur útreikningur um slíka hluti fyrir löngu kominn út um gluggann.

Ég fékk í dag bréf frá lífeyrissjóðnum sem hefur forvaltað viðbótarlífeyrissparnaðinn. Hann hefur rýrnað um reiðinnar býsn á árinu. Ég var vægt sagt ósáttur hvernig niðurstaðan er lögð fram. Allstaðar er talað um nafnávöxtun og nafnverð. Það þýðir með öðrum orðum að ekkert er reiknað með áhrifum verðbólgunnar. Ef nafnávöxtun í ár er 5% þýðir það í raun ekki undir 10% verðrýrnun vegna þess að verðbólgan er 15%. Ef nafnávöxtun er til lengdar undir verðbólgustiginu þýðir það til lengri tíma litið að peningarnir hverfa alveg. Gjörsamlega. Þetta þekkja allir sem lifðu verðbólgutímana fyrir 1980. Fólk lagði sem svaraði 10 kýrverðum inn á reikning og tók út nokkrum árum seinna sömu upphæð sem var virði 10 smákálfa. Það er verðrýrnun í raun ef það skilst betur með svona dæmum.

Kastljósið var áhugavert í kvöld. Fréttamennirnir geta ekki lengur talað um eitthvað kjaftæði. Bloggumræðan lætur þá ekki í friði. Það má segja að hún hafi bjargað því sem bjargað hafi verið síðan í októberbyrjun. Þegar hún er orðin svo öflug að það er ekki lengur hægt að láta sem hún sé ekki til þá hundast hefðbundnu fjölmiðlarnir á vettvang. Hvar eru rannsóknartilburðir þeirra? Hvar er frumkvæðið? Þó má segja að Agnes á Mogganum sé ágæt undantekning frá reglunni.

DV olli mér gríðarlegum vonbrigðum í dag. Nú fóru þeir að senda Agli Helgasyni skeyti. Hann er bara með kverúlanta í viðtölum að þeirra mati. Það er eðlilegt að DV sé pirrað því eigandinn hefur ekki verið látinn í friði. Silfrið eru engar eyrnasleikjur lengur eins og var hér áður þegar í stórum dráttum sama liðið sat og kjaftaði hvert upp í annað helgi eftir helgi. Þegar ég er að hlaupa úti á morgnana hlusta ég á Bylgjuna á stundum. Í gærmorgun var minnst á lífeyrissjóðina. Annar dagskrárgerðarmaðurinn minntist á þegar Baugur hótaði VR um að hann myndi stofna sérstakan lífeyrissjóð ef lífeyrissjóður VR myndi ekki kaupa hraustlega í fyrirtækjum Baugs. Dagskrárgerðarmaðurinn þorði ekki að nefna Baug á nafn heldur talaði um ónefnt fyrirtæki. Fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs VR hafði það meðal annars það í för með sér að lífeyrissjóður VR tapaði í haust um 20% af höfuðstól sínum eða um 80 milljörðum samkvæmt útreikningum glöggra aðila. Kárahnúkavirkjun kostaði um 100 milljarða.

Nú á að fara að afhenda Baugi auglýsingamarkaðinn í stórum dráttum. Þannig mun fyrirtækið ráða auglýsingamarkaðnum. Almenningur verður skattlagður með nefskatti til að bæta RÚV upp tekjutapið. Þótt það sé ekki gott að RÚV sé að böðlast um á auglýsingamarkaðnum þá er enn verra ef eitt fyrirtæki/einn vilji ræður öllu í auglýsingageiranum. Þegar stjórnvöld töpuðu fjölmiðlafrumvarpsslagnum hér um árið þá var brautin greið. Hvar skyldi þetta enda?

þriðjudagur, desember 09, 2008

Höfnin á Hornafirði

Maður veit varla hvaðan á sig stendur veðrið. Vafalaust hef ég sagt þetta áður en þá er það bara svoleiðis. Forstöðumaður fjármálaeftirlitsins segir að bankinn hafi verið dæmdur fyrir að rjúfa bankaleynd í sviksamlegum tilgangi en ekki þeir starfsmenn bankans sem voru sakfelldir fyrir það persónulega. Því sé allt í lagi að skipa þessa sömu menn í skilanefndir bankanna sem eru í greiðslustöðvun. Þessu er haldið blákalt fram eins og það sé verið að tala við fífl. Ég ætla forstöðumanninum ekki að tala af vanþekkingu, það getur ekki verið. Hvað liggur þá á bak við svona talsmáta og svona fullyrðingar? Það væri gaman að fá það dregið fram í dagsljósið.

Á sama hátt er það undarlegt að bankamálaráðherrann skuli ekki hafa vitað af því fyrr en í gær að endurskoðunarfyrirtækið sem á að kryfja framgang mála varðandi bankahrunið til hlýtar var einnig bæði endurskoðandi bankanna og virkur ráðgjafi þeirra. Það fólst meðal annars í því að annast stofnun fjölda fyrirtækja með undarleg nöfn. Ég´hélt reyndar að eftir Enron hneykslið í Bandaríkjunum hefðu öll virt endurskoðunarfyrirtæki farið í gegnum vinnuferla til að gæta sín á að svona lagað kæmi ekki fyrir. Þar er trúverðugleiki endurskoðunarfyrirtækjanna að veði.

Það er í hæsta máta undarlegt að þetta skuli fyrst vera ráðherranum ljóst tveim mánuðum eftir að þessi skipan átti sér stað. Ég var búinn að sjá umræðu um þetta fyrir löngu á netinu og var þessi skipan mála tekin sem dæmi um eitthvað sem væri öðruvísi en það ætti að vera. Það er nú ekki hægt að bjóða manni hvað sem er. Mér fannst stjórnarþingmaðurinn sem kom fram í kastljósinu í kvöld endurtaka undarlega oft að það væri eðlilegur hlutur að menn gerðu mistök og þau jafnvel mörg þegar menn vinna undir álagi. Af hverju er það eðlilegur hlutur? Þá reynir fyrst á menn þegar álagið er mikið. Þá skal kalla til færustu sérfræðinga til að takast á við vandasöm störf og vera þeim til ráðgjafar sem taka afdrifamiklar ákvarðanir.

Forstjóri endurskoðunarfyrirtækisins telur ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki hans endurskoði vinnulag og ákvarðanir fyrirtæki sem sonur hans veitir forstöðu. Fólk sem fer erlendis í nám og kemur heim aftur hefur vafalaust innbyrt mikla fagþekkingu. En það kemur heim með meira. Margir hverjir hafa einnig kynnt sér og fræðst um hvernig stjórnsýsla nálægra landa er uppbyggð og eftir hvaða siðareglum stjórnvöld vinna í nálægum löndum. Slík þekking er afar verðmæt á tímum eins og þeim sem við lifum í dag. Því lætur fólk ekki segja sér hvað sem er lengur.

Ég er ekki allt of kátur með nýja útvarpsskattinn. Eftir þvís em ég veit best munum við hér í Rauðagerði 36 borga um 90 þúsund kall á ári til RÚV í stað ca 30 þúsunda í dag. Það er af því þeta er nefskattur og allir lögaðilar gagnvart skattinum fá sendan gíróseðil hvort sem þeir hafa tekjur eða ekki. Það má vel vera að RÚV hafi gengið of langt á auglýsingamarkaði. Manni finnst t.d. ekki sjálfsagt að ríkisfjölmiðill sé að troða auglýsingum inn í miðja þætti eins og forhert PAYTV. Nefskattur er hins vegar mjög umdeilanlegur því í honum er engin jöfnun innifalin. Tekjulaust fólk greiðir hann jafnt og hátekjufólk.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp þess efnis að laun þingmanna og ráðherra skuli lækkuð um 5 - 15%. Fyrst að farið er að hugsa á þessum nótum þá hefði ég byrjað á því að afnema núverandi dagpeningafyrirkomulag hjá ríkinu. Það væri ómaksins vert hjá fjölmiðlum að kanna hve mikill hluti dagpeninga eru beinar tekjur við ferðir erlendis. Það ég þekki til á öðrum norðurlandanna þá er útlagður kostnaður alltaf greiddur við ferðalög erlendis. Sett eru ákveðin mörk á hvað útlagður kostnaður má vera hár. Ísland er eina landið af norðurlöndunum sem hefur þetta dagpeningafyrirkomulag. Ég þekki það mikið til að ég veit að í mörgum tilvikum hafa dagpeningar verið veruleg launauppbót hjá þeim sem fara mikið erlendis, skattlaus launauppbót ofan í kaupið.

sunnudagur, desember 07, 2008

Endurreisnartímabilið hafið á Móbergi

Silfur Egils var gott í dag sem endranær. Of langt yrði að telja allt upp sem athyglisvert var sagt þar. Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur kom inn á að íslenskir stjórnmálamenn skildu ekki hvað siðfræði og ábyrgð í stjórnmálum þýddi. Bankakerfið hrynur og ráðherra bankamála segist ekkert hafa komið nálægt neinu sem skipti máli. Hann telur sér til málsbóta að hafa ekki verið með í ráðum þegar Glitnir var yfirtekinn af ríkinu. Það er ekki haft samband við ráðherra bankamála þegar banki fer á hausinn og er þjóðnýttur. Ég fær ekki séð annað en að hlutaðeigandi hafi talið að það skipti ekki máli hvort hann var viðstaddur eða ekki. hann segist ekki hafa rætt við Seðlabankastjóra nema einu sinni sl. ár. Í fyrra voru bankarnir komnir með skuldatryggingarálag yfir 1000 punkta. Erlendir fjölmiðlar og erlendar greiningardeildir sögðu að þetta þýddi að þeir væru sama sem gjaldþrota. Þetta vissu allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum. Engu að síður tala seðlabankastjóri og ráðherra bankamála ekki saman nema einu sinni á árinu. Hvað eiga óbreyttir menn eiginlega að halda?

Jón Daníelsson hafði litla trú á þeirri styrkingu sem hefur orðið á krónunni sl. tvo daga. Hann sagði að í raun væri þessi styrking alfarið heimatilbúin af seðlabankanum. Hún er ekki raunveruleg. Gríðarleg hætta er á að það sé verið að nota lánið frá AGS í eitthvað svarthol sem ekki sér fyrir endann á. Jón Steinsson hafði áhyggjur af því að það væri ekki næg fagmennska í þeim þrönga hópi sem fer með málin fyrir hönd íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar. Af hverju eru ekki til þessa verkefnis kallaðir þeir einstaklingar sem við höfum öflugasta og sett upp eitthvað "Task force" sem er stjórnvöldum til ráðgjafar. Ég hef ekki voðalega mikla trú á þröngum hóp íslenskra embættismanna sem horfði á brennuvargana leika lausum hala án þess að aðhafast nokkuð og síðan pensioneruðum finna. Það virkar ekki afskaplega trúverðugt. Þarna er um svo gríðarlega hagsmuni að ræða að það verður að beita öllu tiltæku til að halda uppi hagsmunum landsins. Mæli þeð því að þeir sem ekki náðu að horfa á Silfrið í dag horfi á það á netinu. Það er vel þess virði.

Jón sagði einnig að þær aðstæður sem eru til staðar á Íslandi í dag væru kjöraðstæður fyrir spillingu að öllu tagi. Hver gætir hagsmuna almennings? Bankastjóri Glitnis er ekki trúverðugur eftir þau tæknilegu mistök sem urðu þegar hún keypti í Spron fyrir 180 milljónir og gleymdi að gá að því hvort kaupin hefðu gengið í gegn eða ekki. Bankastjóri Landsbankans nýja var hægri hönd Sigurjóns Árnasonar á sínum tíma. Hún var því gerandi í öllu heila klabbinu. Er það eðlilegt að ráða bankastjóra úr þessum hópi á miklu hærri launum en forsætisráðherra og forseti Íslands? Spyr sá sem ekki veit?

Byr, Spron og SPKEF ætla að sameinast. Tveir þeir síðarnefndu eru allt að þvi gjaldþrota. Ég heyrði í fréttum að ríkið ætlaði að tryggja stöðu sparisjóðanna. Gott ef það var ekki haft eftir ráðherra bankamála. Hvað fær ríkið (almenningur) í staðinn? Fær það hlutafé í hinum sameinaða sparisjóð?

Það var flottur leikurinn milli FH og Hauka í dag. Gaman að sjá ungu strákana í FH hvernig þeir eru að springa út. Þeir eru jafnaldrar strákahópsins í 2. fl. Víkings sem hefur haldið hópinn síðan þeir voru ca 10 ára guttar. Sama má segja um FH strákana. Þar eru mörg kunnugleg andlit. FH var alltaf heldur betri en Víkingarnir en þó tókst Víkingum að vinna þá af og til. Það var alltaf mjög gaman. Síðustu árin hafa FH stákarnir sýnt meiri framfarir en okkar strákar og sumir þeirra sprungið út sem fullþroska leikmenn. Einu sinni voru þessi lið að keppa og foreldrarnir tóku virkan þátt í leiknum. Einn pabbinn í FH hópnum hafði sig mikið i frammi og hvatti sína stráka óspart. Eitt sinn greip hitinn hann ofurliði og hann kallaði inn á völlinn: "Berjiði almennilega á þeim strákar." Ég er svona svipaður og hann og á erfitt með að sitja rólegur undir spennandi leikjum. Þarna greip mig einnig snöggur hiti og ég hreytti í hann: "Ertu að segja strákunum að fara að berja hina?" Meira var það ekki en eftir leikinn kom hann brosandi til mín og baðst afsökunar og sagði síðan: "Þekkirðu mig ekki?" Ég þekkti manninn alls ekki. Þá minnti hann mig á að við vorum saman á Hvanneyri einn vetur fyrir ca nær 30 árum. Þá rifjaðist allt upp fyrir mér. Einn veturinn sem ég var á Hvanneyri voru þar einnig tveir kátir strákar úr Hafnarfirði. Þeir voru fínir og eftirminnilegir félagar. Þarna var annar þeirra kominn. Við höfðum ekki sést frá Hvanneyrarárunum þangað til þarna á vellinum. Síðan þá höfum við hist oft við þessar aðstæður og njótum þess að horfa á strákana spila, eflast og þroskast. Yfirleitt hrósar hann og hans strákar sigri en það er sama. Það er alltaf gaman að horfa á skemmtilega leiki með góðum liðum.
Þetta var faðir Ólafs Guðmundssonar sem er að springa út í vetur með FH liðinu sem afburða leikmaður, 19 ára að aldri.

Fór út í morgun kl. 8.30, tók Poweratehringinn, svo niður í Laugar þar sem ég hitti Vini Gullu. Við fótum inn í Elliðaárdal og út að Nauthól. Þaðan fór ég niður í Laugar og síðan heim. 30 km lágu. Það lengsta síðan í Grikklandi. Fínn dagur.

laugardagur, desember 06, 2008

Það dugði ekki annað en að hafa stórar skóflur við Kárahnjúka

Fór út í morgun um 7.30 og hitti Jóa, Kristínu, Gauta og Stebba við brúna. Það var hált svo við fórum vestur eftir og tókum Eiðistorgshringinn. Fínt veður og fínt færi nema rétt hér austast. Margt var skrafað á leiðinni eins og við er að búast. Evrópusambandsaðild var ofarlega á baugi eins og gengur. Umræðan hérlendis er eins og hjá öðrum frekar laklega upplýstum þjóðum. Nú vilja mjög margir ganga í Evrópusambandið og allri þeir tala eins og inngangan í ESB leysi öll okkar vandamál. Auðvitað er það ekki svo. Inngöngu í ESB fylgja kostir og gallar. Kostirnir eru m.a.stöðugur gjaldeyrir. Margir segja að eftir að í ESB er komið þá sé engin verðtrygging. Það er bæði rétt og rangt. Það er ekki reiknuð út nein vísitala neysluverðs sem indexreiknar upp lán. Aftur á móti skuldbinda stjórnvöld sig til að framkvæmda ákveðna peningastefnu sem er nauðsynleg til að viðgalda stöðugum gjaldeyri og stöðugu verðlagi. Þannig er tryggt að þeir sem lána fái peningana sína til baka með hæfilegum vöxtum. Peningamálastefna ESB hefur að markmiði að viðhalda lágu verðbólgustigi. Forsenda þess er mikið aðhald í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Þar verða ekki leyfð nein lausatök. Það hefur t.d í för með sér að atvinnuleysi verður mun hærra en við höfum þekkt gegnum árin. Það er mjög algengt að atvinnuleysi sé 6 - 8% í ríkjum ESB. Í vissum héröðum s.s. í Þýskalandi og Frakklandi er atvinnuleysi fólks á aldursbilinu 16 - 25 ára allt að 25%. Það gengi sem væri milli evru og íslenskrar krónu við inngöngu myndi ráða gríðarlega miklu um stöðu þjóðarinnar innan ESB. Ef Ísland hefði gengið í ESB meðan krónan var sem sterkust þá hefði útflutningur átt mjög erfitt uppdráttar innan ESB. Ef við göngum í ESB á núverandi gengi þá verðum við fátæk þjóð innan ESB. Launin hér verða lægri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Því yrði kaupmáttur hérlendra launa í evrum mjög lítill. Öfluga og vel menntaða fólkið mun þá flytja úr landi þar sem það fengi hærri laun fyrir sömu vinnu. Reynslan hefur sýnt að verðlag hefur yfirleitt hækkað um allt að 20% við upptöku evrunnar. Þetta eru bara nokkur dæmi um fleti sem kunna að koma upp og verður að ræða ef farið verður í aðildarviðræður og fstaða tekin til niðurstöðu úr aðildarviðræðum.

Talandi um evruna þá saknar maður þess að það skuli ekki hafa verið framkvæmdar neinar verðkannanir á matvælum í þeim tilgangi að bera saman verðlag hérlendis og í nágrannalöndum okkar. Það lá við að slíkar kannanir væru gerðar mánaðarlega af verkalýðsfélögum og áhugamönnum um inngöngu í ESB þegar krónan var sem sterkust. Hvað skyldi valda því að þetta hefur fallið niður síðustu mánuðina. Það skyldi þó ekki vera að niðurstaðan fæli menn frá að leggja í svona könnun sem stendur.

Það var vinnufundur hjá Fókus í dag. Við vorum að líma myndir á spjöld fyrir árbókina. Þetta er svona gamaldags aðferð en hún er skemmtileg og það þjappar fóki saman að fást við svona verkefni. Árbókinni verður síðan deilt út á félagsfundi eftir 10 daga.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Mamma með krakkana

Fyrir rúmum þremur árum tókum við eldhúsið í gegn hér í Rauðagerðinu. Til að geta borgað allt út þá tókum við lán hjá LSR upp á eina milljón. Til að fá láni þurfti maður að fara í greiðslumat. Það var ekki gert hjá LSR heldur þurfti ég að fara upp í Kaupþing í Árbænum og fá það gert þar. Greiðslumatið kostaði 10.000 kr. Ég fór með skattframtöl þriggja ára og lét einhvern virðulegan ráðgjafa fá pappírana. Nokkrum dögum seinna sótti ég greiðslumatið. Ég avr ekki spurður að einu eða neinu varðandi einkanayslu eða rekstrarkostnað heimilisins heldur var einungis unnið út frá þeim tlum sem á skattframtalinu voru. Niðurstaða þessa greiðslumats var að ég gæti tekið um 14 milljónir að láni til viðbótar við þau lán sem hvíldu á íbúðinni. Ég sagði fólkinu hjá LSR að aðra eins andskotans vitleysu hefði ég aldrei séð í áætlanagerð og var hundfúll yfir að hafa þurft að borga 10.000 kall fyrir bullið. Auðvitað tók ég bara þessa einu milljón sem mig vantaði (og það er búið að endurgreiða hana að fullu).

Ég hef unnið það mikið við áætlanagerð að ég veit að það er út í hött að setja einhverjar tölur á blað fyrir lifandi fólk og afhenda þvi niðurstöðuna sem einhvern stórasannleik án þess að glöggva sig neitt á persónulegum aðstæðum. Hvað þýðir það inn í framtíðina ef maður spennir bogann til hins ítrasta? Hverju þarftu að afsala þér? Ertu reiðubúinn til þess í einhverja áratugi? Hvert er áhættustigið þegar maður tekur hámarkslán? Þessum og fleiri álíka spurningum verður ráðgjafinn að leita svara við í samvinnu við þann sem er að spekúlera í að taka hátt lán. Ég fékk það á tilfinninguna að þessi svokallaði ráðgjafi væri í því hlutverki að lokka fólk til að taka sem hæst lán. Síðan hef ég heyrt sem ég vissi ekki þá að þessir "ráðgjafar" voru á prósentum.

Ef ég hefði verið eðlilegur þjóðfélagsþegn þá hefði ég að sjálfsögðu tekið eins hátt lán og ég hefði getað og keypt mér enn stærra hús og jafnvel jeppa í leiðinni. Margir hefðu fyllst aðdáun á hvað maður spjaraði sig vel.

En hvernig stæði ég í dag ef ég hefði fylgt ráðum "ráðgjafans"? Ég hefði kannski keypt mér íbúð fyrir þremur árum sem hefði farið hæst að verðmæti um 60 milljónir. Lánið myndi standa í dag í ca 27 - 28 milljónum. Á næsta ári kemur verðfall á fasteignamarkaðnum fram að fullu. Svona hús munu falla um allt að helming í verði. Það munu líða mörg ár þar þangað til húsnæðisverð fer að rísa aftur vegna þess hve mikið er af tómum íbúðum á markaðnum. Miðað við þetta þá hefði ég orðið eignalaus á næsta ári. Lánið stæði í álíka fjárhæð og verð íbúðarinnar væri á pappírnum. Mjög líklegt er að það væri illseljanlegt, jafnvel óseljanlegt. Ég væri þá fangi hér í húsinu og væri að rembast við að halda því. Kannski væri best við slíkar aðstæður að hætta að borga og fara að leigja. Maður væri þá ekki að tapa meiru en maður ætti og þættist jafnvel góður að sleppa á sléttu.

Þetta er svona dæmi um hvaða rugl var í gangi. Húsnæðisverð var kjaftað upp í innihaldslausri verðbólu. Maður stendur á krossgötum og ein einasta ákvörðun ræður úrslitum um hvort maður sé með fjármálin í þokkalegu jafnvægi eða með allt í uppnámi. Ráðgjafar eiga að vera til þess að leiða fólki í allan sannleik um mögulegar afleiðingar slíkra ákvarðana. Misviturt fólk fékk hins vegar laun fyrir að ljúga að almenningi eða í besta falli að segja því hálfsannleik.

Eg heyrði í gærkvöldi að eftir morgunfundi í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hér í árdaga þá hefðu fundarmenn staðið upp, myndað hring og öskrað: "Græða, græða." Þetta hefur verið eins og í Víetnamstríðinu þegar verðandi hermenn Bandaríkjanna öskruðu "Drepa gula djöfla" þangað til augun ætluðu að springa út úr hausnum á þeim.

miðvikudagur, desember 03, 2008

Horft vestur af Dyrhólaey

Í gegnum norrænt samstarf á ég ágæta félaga í systurstofnunum sambandsins á öðrum Norðurlandanna. Kosturinn við norrænt samstarf er m.a. að maður nær sambandi við fólks em hægt er að renna á fyrirspurnum um eitt eða annað sem brennur á manni. Ég hef fengið tölvupósta á undanförnum vikum þar sem verið er að spyrjast fyrir um hvernig ástandið er og góðar kveðjur eru látnar fylgja með.

Ég renndi spurningu á þessa kunningja mína nýlega og spurðist fyrir um hvaða reglur gilda um hlutabréfaeign æðstu embættismenn ráðuneyta og ráðherra. Ég er búinn að fá svar frá Noregi og Finnlandi. Í Noregi gilda mjög strangar reglur um upplýsingaskyldu á viðskiptum embættismanna til kauphallarinnar og eins innan ráðuneytisins. Þegar embættismaður vinnur við mál sem geta flokkast sem innherjaupplýsingar er t.d. gefin út tilkynning um málið bæði innan ráðuneytisins svo og til kauphallar. Yfirleitt er ekki talið æskilegt að æðstu embættismenn ráðuneyta eigi í einstökum fyrirtækjum heldur eigi í sjóðum ef þeir kjósa að kaupa hlutabréf á annað borð. Í Finnlandi er ekki talið æskilegt að ráðherrar eigi hlutabréf yfir höfuð. T.d. seldi fjármálaráðherrann öll hlutabréf sem hann átti áður en hann tók við embætti. Um embættismenn gilda einnig strangar reglur um tilkynningaskyldu. Við getum svo velt fyrir okkur hvaða reglur (ef þær eru yfir höfuð til) gilda sérstaklega um einstaklinga sem gegna hliðstæðum embættum hérlendis.

Strákarnir í 2. flok Víkinga kepptu í gærkvöldi við Haukana. Þeir töpuðu fyrir Haukunum í síðustu viku í bikarnum. Ekki veit ég hvort Haukarnir hafa ætlað að klára leikinn með vinstri hendinni, en Víkingar komust yfir snemma leiks og létu forystuna aldrei af hendi. Þeir sigruðu þegar upp var staðið með 6 marka mun. Maður sér handbragð Bjarka Sig. á liðinu vera að koma skýrar og skýrar í ljós. Fléttur og skemmtileg tilbrigði í sókninni gleðja augað og vörnin er öll að koma til. Jói var í banni í leknum eftir átök í leik við Stjörnuna fyrir skömmu. Fyrsta sinn sem hann fer í skammarkrókinn.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Frá Krísuvík

Það þýðir ekkert annað en að veita erlendum bönkum, sem hafa tapað gríðarlegu fjármagni á lánum til íslensku bankanna, eignaraðild að bönkunum. Þeir verða að fá eitthvað upp í kröfur sínar. Með því vinnst tvennt. Í fyrsta lagi koma íslensk stjórnvöld ekki við erlenda viðskiptavini eins og ómerkilegir kennitöluflakkarar. Slíkt gengur ekki þegar land og þjóð þurfa á viðskiptum við erlenda banka að halda. Í öðru lagi er það þá beggja hagur að bönkunum vaxi fiskur um hrygg. Það er styrkur fyrir þjóðfélagið að hafa öfluga banka í landinu og það er til hagsbóta fyrir erlendu bankana að þær eignir sem þeir fá upp i tapaðar kröfur vaxi að verðgildi. Þetta er ekkert fullveldisafsal heldur rökrétt ákvörðun í ljósi stöðunnar.

Það er ekkert sérstaklega góð tilfinning að hafa allt liðið, sem var á fullu við að senda markaðnum röng skilaboð fyrir hrunið, í fullu starfi innan bankanna. eru þeir að sópa yfir sporin og hylja slóðina, eyðileggja sönnunargögn og á annan hátt að reyna að bjarga sér. Af hverju er lögreglan ekki komin í málið? Af hevrju er ekki afrið að rannsaka mál eins og Gift og Stím. Eiga einstaklingar sem taka það starf aðs ér að annast tugi milljarða og móta reglur um að skila þeim til eigenda peninganna að komast upp með að tapa þeim öllum og skila félaginu af sér með skuld upp á annan tug milljarða? Á banakstjóri Glitnis að komast upp með að skipa málum þannig að stofna fyrirtæki sem er að stærstum hluta til í eigu bankans. Markmið fyrirtækisins er að kaupa hlutafé í eigenda sínum í þeim tilgangi að senda röng skilaboð út á markaðinn. Í alvöru löndum væri búið að handtaka kippur af þessu liði og rannsóknir og málaferli komin af stað.

Fylgi ríkisstjornarinnar er lítið. Ég heyrði einn ráðherra segja í dag að sú staða væri meðal annars til komin vegna þess að það hefði ekki skilað sér til almennings hve ríkisstjórnin væri að gera góða hluti. Það er ekki málið. Afstaða almennings til ríkisstjórnarinnar mótast af tvennu. Í fyrsta lagi telur almenningur að ríkisstjórnin beri nokkra sök á hruni efnahagskerfisins með aðgerðum og / eða aðgerðaleysi í aðdraganda hrunsins. Í öðru lagi treystir almenningur því ekki að hagsmunir hins almenna manns séu hafðir í fyrirrúmi. Það er þekkt úr mannkynnssögunni að á svona krísutímum grasserar spillingin sem aldrei fyrr. Mikiðvægast fyrir ríkisstjórnina er að vinna trúnað almennings.

Það er fínt að hlaupa snemma á morgnana. Á þann hátt fæst ágætur skammtur á virkum dögum. Maður er einnig oft að brasa eitt og annað á kvöldin á þessum tíma. Maður fer svo að herða á hlaupunum með hækkandi sól. Það hlýtur að vera hægt að finna sér eitthvað til að gera á næsta ári hér innanlands. Næg eru verkefnin. Síðan langar mig til að fara London - Brighton í október. Það eru um 90 km. Það yrði þá þriðja af fjórum ultra klassíkerum heimsins. Hið fjórða er Comerades i Suður Afríku. Það kemur síðar. Maður verður bara að fara að spara strax.

Úr Selárdal

mánudagur, desember 01, 2008

Níutíu ára afmæli fullveldisins er í dag. Mér hefði þótt við hæfi að fjölmiðlar hefðu aðeins analýserað í tilefni dagsins hvernig þjóðin hefur forvaltað það. Málið er ósköp einfalt í mínum huga. Fullveldið eer að mestu fokið. Þjóðfáninn er eftir, réetturinn til að kalla sig sjálfstæða þjóð er eftir og þjóðin á landslið í hinu og þessu. Fjárhagslegt sjálfstæði er ekki fyrir hendi. Allar ákvarðanir í fjármálum þjóðarinnar eru þvingaðar vegna þeirrar stöðu sem hún er sokkin í. Það er kannski auðveldara að skýra þetta með því að taka einhevrn einstakling sem dæmi. Hann er búinn að spila rassinn úr buxunum í peningamálum sem nokkur maður getur. Hann er ærulaus vegna svika við lánardrottna og tilrauna til kennitöluflakks. Hann hefur ekki hlýtt neinum ráðum heldur lifað eftir kenningunni: "Þetta hlýtur að reddast." Loks reddast hlutirnir ekki lengur. Lánin falla, uppboðsbeiðnum fjölgar, lánstraustið þrotið. Öll sundi virðast lokuð. Þá loks hundast hann í bankann og leggur spilin á borðið. Hvað er hægt að gera? Bankinn ætlar fyrst ekki að skipta sér af honum og gerir það ekki fyrr en tryggt er að einstaklingurinn skuldbindur sig til að fara í einu og öllu eftir ráðum bankans svo hann verði ekki gerður gjaldþrota. Fjárráðin eru tekin af honum. Bankinn gefur fyrirmæli um hvernig laununum skuli ráðstafað. Bankinn gefur fyrirmæli um að selja sumarbústaðinn og bílinn. Bankinn gefur fyrirmæli um að selja húsið og flytja í leiguhúsnæði. Bankinn gefur fyrirmæli um hve miklu má eyða í einkaneyslu. Bankinn gefur fyrirmæli um að það verði ekkert sumarleyfi tekið næsta sumar heldur verði að leita að vinnu í sumarfríinu. Í raun er kosningarétturinn það eina sem þessi einstaklingur getur ráðstafað að vild næstu árin. Því má spyrja: Er hann sjálfstæður einstaklingur eða er hann fangi fyrri glappaskota? Það eru aðrir sem taka allar ákvarðanir sem falla undir daglegt líf.

Um næstu helgi er síðasta 24 tíma hlaupið Norðurlöndunum og líklega í heiminum í ár. Það er haldið á Bislet leikvanginum í Osló. Þetta er stærsta 24 tíma hlaup á Norðurlöndum með um 100 þátttakendum. Ég var búinn að skrá mig í hlaupið en það fór allt út um gluggann með hruni krónunnar. Maður er orðinn nokkurskonar fangi hér á eyjunni. Sextán norðurlandabúar hafa hlaupið meir en 200 km í 24 tíma hlaupi í ár. Einn norðmaður, fimm svíar, sex danir, þrír finnar og einn íslendingur. Einungis tólf norskir karlar og tvær norskar konur hafa hlaupið lengra en 200 km í 24 tíma hlaupi frá árinu 1983 þegar fyrsti norðmaðurinn tók þátt í svona hlaupi.

Norðurlandalistinn yfir þá sem hafa hlaupið lengra en 200 km í ár lítur svona út þegar eitt hlaup er eftir:

249,361 km Jon Harald Berge NOR Seoul 18.10
225,093 km Reima Hartikainen SVE Seoul 18.10
223,356 km Per Brølling DAN Bornholm 25.05
219,309 km Vagn Kirkelund DAN Bornholm 25.05
217,745 km Gunlaugur Juliusson ISL Bornholm 25.05
214,184 km Stefan Lindvall SVE London 18.10
213,150 km Christian Frimann DAN Bornholm 25.05
212,890 km Juha Hietanen FIN Töysä 17.05
211,746 km Christian Ritella SVE Seoul 18.10
210,600 km Leon Skriver Hansen DAN Holte 21.06
208,327 km Henrik Olsson SVE Seoul 18.10
207,200 km Pekka Aalto FIN London 18.10
205,900 km Pertti Eho FIN Bornholm 25.05
205,560 km Jens Ole Nielsen DAN Viborg 09.08
204,981 km Christian Frimann DAN Seoul 18.10
200,915 km Mikael Andersson SVE Hallsberg25.07

Ég get ekki verið annað en ánægður yfir að vera í fimmta sæti á norðurlanalistanum í mínu öðru 24 tíma hlaupi. Röðin á engu að síður vafalaust eftir að breytast eitthvað í Bislet um næstu helgi. Ef maður fer yfir 220 km þá fer maður átómatiskt inn á B skrá hjá Alþjóðlegu ultrasamtökunum (IAAU) og hefur möguleika á að sækja um fjárstuðning til að taka þátt í þessum hlaupum. Ég vissi ekki af því í vor. Þá hefði maður örugglega þrælast lengra. Það var alveg innistæða fyrir því.