þriðjudagur, mars 31, 2009

The Troggs - Wild Thing

Pollar á strandskipi

Börkur sendi mér nokkrar línur í gærkvöldi og mig langar til að rifja upp nokkur atriði þessu tengt í því sambandi.

Ég er ekki mikill fjallgöngumaður en hef þó fengið nokkra reynslu af því sem getur gerst í fjallaferðum. Það hefur t.d. kennt mér að aldrei má slaka á öryggiskröfum, sama hve aðstæður eru góðar. Ég hef farið tvisvar á Hvannadalshnjúk. Í fyrra skiptið sem var árið 1998 komumst við alla leið upp en þegar önnur tilraun var gerð árið 2002 komumst við bara upp í ca 1800 m. hæð.
Í fyrra skiptið fór ég með Ferðafélagi Íslands. Daginn áður en lagt var á hnjúkinn þá var varið heilum degi til að kynnast sigi, ísklifri, öryggismálum og fleiru sem tengist ferðum á jökli. Hermann fararstjóri fór vel yfir ýmis öryggisatriði sem hann taldi nauðsynlegt að kynna fyrir misjafnlega vönum ferðalöngum. Þessari kennslu var tekið vel en af hóflegri alvöru af sumum í sólarblíðunni niðri á jafnsléttu. Í gönguferðinni sjálfri var hann síðan allt að því smámunasamur um að hafa allt undir kontrol. Við skildum það betur seinna hvaða þýðingu þetta hafði. Þegar við vorum á leið niður af hnjúknum var éljagangur svo skyggni var lítið. Fleki rann undan hópnum í fremri línunni svo fremsti hluti hans þeyttist fram af hjalla. Venga þess hve Hermann hafði lagt ríka áherslu á hvernig menn ættu að bregðast við undir slíkum kringumstæðum þá hentu þeir öftustu sér á axirnar og gátu stöðvað rennslið á hópnum áður en allir lentu í eina kös undir ca 4 metra háum kletti. Ef fátið og vankunnáttan hefði ráðið ferðinni þá hefði þarna orðið slys, hve stórt skal ég ekki segja til um. En það hefði verið löng leið að hlaupa til byggða ofan af Hvannadalshnjúk og sækja hjálp, og enn lengri tíma hefði tekið að koma hjálp á slysstað. Áhersla Hermanns fararstjóra á öryggismálin bjargaði því þarna að ekki varð að slysi þó hópurinn lenti í óhappi.
Þegar ég fór síðar með Fjallaleiðsögumönnum var ekki minnst einu orði á öryggismál né neitt sem til fróðleiks gæti komið óvönum hvað þau mál varðaði. Við héldum upp í ca 1800 m hæð en þá var kominn blindbylur, hávaðarok og frostið svo mikið að allri vatnsbrúsar voru botnfrosnir. Það var að frumkvæði göngufólksins sem snúið var við enda ekkert vit í öðru. Við stoppuðum undir Dyrhamrinum til að fá okkur hressingu. Þá fékk einn okkar á sig stein í utanverðan fótinn. Við vorum þarna í stórhættu út af grjótflugi. Allt slapp vel til en maður fann mikinn mun á þessum tveimur ferðum hvað varðaði undirbúning og öryggismál.
Þriðja ferðin líður mér aldrei úr minni en hún var farin sumarið 2003. Við fórum meðal annars í Kverkfjöll. Þar vorum við í eins góðu sumarveðri og hægt er að hugsa sér. Sól, logn og 25 stiga hiti. Allt eins og best gat verið. Engu að síður misstum við mann í jökulsprungu. Þrír úr okkar hópi fóru á undan frá Hveradölunum niður að bílunum. Það sést ekki yfir jökulinn að bílastæðinu þegar komið var niður úr löngu brekkunni. Ég var í forsvari fyrir hópinn og mér urðu á þau mistök að ganga ekki úr skugga um hvort þeir rötuðu ekki örugglega í bílinn. Ég miðaði við ákveðið kennileiti en hafi ekki gætt að því að aðrir hefðu það einnig á hreinu. Þeir fóru af leið og enduðu á sprungusvæði með fyrrgreindum afleiðingum. Fyrir röð óútskýranlegra tilviljana af yfirþungavikt þá náðist sá sem í sprunguna féll heilu og höldnu upp. Ef það hefði ekki tekist hefði maður haft á bakinu það sem eftir hefði verið að hafa á óbeinan hátt orðið valdur að mannsláti vegna óaðgæslu og kæruleysis. Það er betra að vera laus við slíka bagga.

Þessir atburðir hafa kennt mér að slys á fjöllum þurfa ekki að vera vondu veðri að kenna. Þau geta skeð við allar aðstæður og ekki síst þegar þau eiga ekki að geta komið fyrir. Þá er andvaraleysið oft mest. Ég hef líka lært að með varúð og fyrirhyggju þá geta menn komið í veg fyrir slys eða dregið stórlega úr líkum á að óhöpp eigi sér stað. Það er enginn minni maður fyrir að hafa vaðið fyrir neðan sig eða leita leiða til að fyrirbyggja óhöpp og slys. Maður veit t.d. hve gríðarlega hefur dregið úr slysum á fiskiskipaflotanumum á seinni áratugum. Það hefur fyrst og fremst gerst vegna stöðugs áróðurs og fræðslu sem hefur skapað hugarfarsbreytingu meðal sjómanna. Ekki má gleyma landbúnaðinum. Þegar ég er að alast upp þá voru dauðaslys á unglingum á dráttarvélum nær því árlegur viðburður. Að maður tali ekki um drifskaftsslysin. Þetta er alveg búið vegna mikillar fræðslu, eftirlits og áróðurs fyrir því að draga úr slysum. Sama á að gilda um ferðamennsku á fjöllum og í óbyggðum. Hún er ekkert undanskilin í þessu sambandi.

Maður spur sig t.d. hvaða lærdómur hefur verið dreginn af fíflaganginum í hópnum sem lagði á Langjökul í fyrra undir kolöskubrjálað veður? Þeir lögðu ekki einungis sjálfan sig í lífshættu, sem var svo sem þeirra mál. Þeir lögu til viðbótar tugi björgunarsveitarmanna í stórfellda lífshættu og það er öllu alvarlegra. Hvaða lærdómur hefur verið dreginn af því þegar um 1000 manns sátu í Þrengslunum næturlangt í febrúar árið 2000 í tengslum við gosið í Heklu? Hvaða lærdómur hefur verið dreginn af því þegar vélasleðahópurinn úr Eyjafirði lenti í gríðarlegum hrakningum á hálendinu uppaf Eyjafirði fyrir um 10 árum síðan? Þeir brutu t.d. meginreglu við ferðamennsku á öræfum að vetrarlagi. Þeir fóru á allt aðrar slóðir en þeir höfðu gefið upp og því var allt leitarstarf miklu erfiðara.

Það væri hægt að hafa svona hugleiðinga lengri en þetta verður að nægja að sinni. Vitaskuld fá Örn og Bára bestu velfarnaðaróskir í sinum Toppferðum sem vonandi standa um langa framtíð. Reynslusjóðurinn er hins vegar verðmætur við þær ólíku aðstæður sem eru til staðar í ferðum þeirra.

sunnudagur, mars 29, 2009

Meatlofe; Paradise by the dashboard light

Þrír fánar

Þetta var lítil hlaupahelgi. Við Sigrún fórum til Akureyrar seinni partinn á föstudaginn. Það var verið að taka út árshátiðarvinning frá því í fyrra. Flugfélagið og KEA. Við fórum á leiksýningu í LA á föstudagskvöldið. Kerlurnar þrjár voru með ágæta sýningu um hvernig er að vera orðin miðaldra kona og á hvern hátt lífssýnin breytist við það. Ég trúi að margar þekki sjálfa sig þarna á sviðinu á einn eða annan hátt.

Það var skítkalt morguninn eftir fyrir norðan eða -10 til -12 stiga gaddur. Það er hörkuvetur á Akureyri og snjór niður í fjöru. Síðasta Akureyrarhlaupið var fyrir hádegið. Ég vissi ekki af því en ella hefði ég tekið gallann með. Við flugum suður í rigninguna í Rvk um eftirmiðdagnn og þá var ekki til seturnnar boðið heldur farið upp í Hvalfjörð á árshátíð hjá Sigrúnu. Það var borðað og gist á Glym í Hvalfirði Fínt hótel en dálítið úrleiðis. Ég þekki svolítið til forsögu þess og er alltaf jafn hissa á að hótelinu skuli hafa verið valinn staður þarna í hliðinni. Það fór fljótlega á hausinn eftir að það var opnað. Nú er það rekið með nýjum eigendum og líklega töluvert mikið afskrifuðum byggingarkostnaði.

Síðdegis heyrði maður í fréttum um erfiðleikana á Skessuhorni. Gönguhópur í vitlausu veðri ofar lega í Skessuhorni með slasaða manneskju. Það gerist varla verra eins nálægt byggðum eins og þetta. Ég hef á tilfinningunni að þarna hafi ýmislegt farið úrskeiðis. Hóflegt mark tekið á veðurspá ef þá hefur verið hlustað á veðrið. Skessuhorn á þessum tíma er aldeilis ekki fyrir venjulega gönguhópa. Ég hef bæði gegnið á Skessuhorn í apríl og eins um hásumarið. Leiðin er snarbrött þar sem farið er skáhallt út á tindinn. Að mínu mati er það algert glapræði að fara í gönguferð á það á þessum tíma. Það er bæði vegna snjóflóðahættu sem alltaf getur verið fyrir hendi þegar snjóar á annað borð. Síðan er brattinn svo mikil að voðinn er vís ef ekki er verið í línu eins og viðist hafa verið í gær. Þegar maður fer af stað á þessum slóðum má þakka fyrir að ekki verði manntjón. Líklega er pressan mikil að fara af stað hvernig sem allt veltist þegar búið er að selja í svona ferðir. Mér finnst að það þurfi að rannsaka svona uppákomur af opinberri nefnd (svona eins og flugslysanefnd). Það er ekkert smámál að kalla út á annað hundrað björgunarmanna og þyrlu í ofanálag. Ef í ljós kemur að handvömm, óvarkárni eða slökum búnaði er um að kenna þá á að veita fyrirtækjum áminningu. Ef þau verða ítrekað vís að glannaskap eða ófagmennsku þá á það að geta orðið til þess að þau missi leyfi til að selja í svona ferðir. Þetta er fúlasta alvara að bera ábyrgð á hópi manna uppi á fjöllum eða inni í óbyggðum. Menn muna kannski eftir fyrirtækinu sem seldi siglingu á Skaftá. Þegar bátnum hvolfdi og var verið að tína fólkið upp úr ánni þá var fyrirtækið ekki einu sinni visst um hvað margir voru um borð. Ég hef einu sinni farið með fjallaleiðsögumönnum áleiðis á Hvannadalshnjúk. Það var farið upp í vitlaust veður og snúið þar við enda þótt sýnt væri frá jafnsléttu að það væri ekki nokkur leið að komast alla leið vegna veðrahams.

Það var ekki hlaupið mikið á helginni. Fór þó út í morgun og tók góðan túr frá Glym og langleiðina inn að olíustöð. Frost og logn. Ágætt að taka eina helgi frekar rólega.

fimmtudagur, mars 26, 2009

Lovin' Spoonful - Summer In The City

Kross

Það er gaman að sjá að þær stöllur, Eva og Bibba, eru að fá verðskuldaða athygli. Eva í góðu viðtali í Vikunni og Bibba var valin kona ársins á Léttbylgjunni. Gott viðtal við hana þar. Hún endaði á að segja að staðreyndin væri sú í stórum dráttum að maður gæti það sem maður ætlaði sér. Náttúrulega er það laukrétt.

Aðrir tveir náungar eru einnig að fá verðskuldaða athygli. Þeir félagar Eiolf og Trond frá Morsjöen í Noregi ætla að hlaupa frá suðurhluta Ítalíu (Bari) til Nordkalotten í sumar. Tveir mánuðir á hlaupum og að jafnaði 70 km á dag. Það var viðtal nýlega við þá á NRK. Slóðin er hérna: http://www1.nrk.no/nett-tv/klipp/475629
Það er bara að setja bendilinn á mínútu 21. Fyrst kemur smá kennslustund í joik og svo er viðtal við þá félaga. Það er ekki víst að allir skilji mállýskuna þeirra en það kemur. Það er að sjá að það sé þónokkur vetur hjá þeim félögum ennþá en samt eru þeir að hlaupa um 200 km á viku síðustu vikurnar áður en lagt er af stað í næsta mánuði.

Fór snemma út í morgun og kláraði 16 km fyrir kl. 7.00. Helgin verður slök og því verð ég að lengja aðeins þegar möguleiki er. Ég var á fundi í gærkvöldi svo það var ekkert farið út einsog fyrirhugað var. Síðan fór ég Poweradehringinn í kvöld með Grensásslaufunni. Það gera 15 km. Veðrið var fínt, logn og smá frost.

þriðjudagur, mars 24, 2009

Það var fín auglýsingin hjá Helga í Góu í blöðunum í dag. Enda þótt lífeyrissjóðirnir séu góðir og gegnir per se þá er langt í frá að þair séu ahfnir yfir gagnrýni. Markmið þeirra er að forvalta lífeyrissparnað landsmanna. Þeir eru í raun og veru fjöregg almennings sem gerir ráð fyrir að geta átt þokkalegt ævikvöld með þeim greiðslum sem hafa runnið til þeirra. Ímynd þeirra hefur skaðast á liðnum árum. Fáránleg laun og kjör forsvarsmanna ýmissa sjóða er alveg út úr kortinu og í engu samræmi við kaupgjald í landinu. Að forstjóri eins lífeyrissjópðsins sé með meir en helmingi hærri laun en forsætisráðherra og seðlabankastjóri nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Fjárfestingr þeirra eru virkilega gagnrýniverðar. Lífeyrissjóðirnir hafa sogast með í svsikamyllur fjárglæframanna sem hefur leitt af sér gríðarlegt tap fjármuna sem nemur hundruðum milljarða. Í þriðja lagi vekja athygli dúbíus boðsferðir sem forsvarsmenn og stjórnir ýmissa lífeyrissjóða hafa farið í boði fyrirtækja sem hafa reynt að fá lífeyrissjóðina til að fjárfesta í sér. Það er deginum ljósara að það þarf að skerpa allt utanumhald og siðareglur sjóðanna auk þess að það verður að fækka þeim verulega.

Mér finnst sú umræða í hæsta máta eðlilegt hvort eigi að ákæra þá einstaklinga fyrir landráð sem leiddu þjóðina í svarthol Icesavereiknnganna. Að banki skuli markaðssetja innlánsreiknnga á yfirkjörum á ábyrgð þjóðarinnar er vægast sagt tvíeggjuð aðferðafræði. Sérstaklega þegar lánalínur eru almennt lokaðar og verið er að fjármagna rekstur bankans á þennan hátt til að forða honum frá gjaldþroti. Að ákæra fyrir landráð er stór ákvörðun en þá það verður einnig að líta að afleiðingar þessa gjörnings eru svakalegar fyrir land og þjóð. Það má segja að einna alvarlegast í þessu sambandi er að orðstýr lands og þjóðar er farinn út í buskann. Það tekur langan tíma að vinna glataðan orðstír upp aftur.

Jói og félagar spiluðu við FH í Víkinni í kvöld. Þeir urðu að vinna leikinn til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Þetta var því all og nothing leikur. FH er í öðru sæti í deildinni en Víkingur í því fjórða. Víkingarnir komu vel stemmdir til leiks, náðu forystunni strax í upphafi og héldu henni þar til langt var liðið á fyrri hálfleik. Þá meiddist einn þeirra besti maður og FH náði að jafna fyrir leikhlé. FH náði mest eins marks forystu framan af seinni hálfleik en svo sigu Víkingar framúr og sigruðu með 3ja marka mun. Glæsilegt hjá strákunum sem hafa farið erfiðu leiðina í átt að úrslitakeppninni. Töpuðu fyrir slakari liðunum í haust en hafa tekið 11 stig af 14 mögulegum gegn fjórum efstu liðunum.

Sveinn fékk ánægjulegar fréttir í dag. Hann fékk bréf frá Oxford háskólanum í Bretlandi um að hann fengi inngöngu í meistaranám þar næsta vetur. Hann sótti einnig um nokkra skóla í Bandaríkjunum en þar er orðið erfiðara að fá inngöngu þar en áður. Þetta er afar góður kostur og mönnum með meistaranám frá Oxford eru allir vegir færir í frekara framhaldsnám.

sunnudagur, mars 22, 2009

SPRON og Sparisjóðabankinn fóru endanlega yfirum í gær. Þeirra saga var í sjálfu sér búin nokkru fyrr enda þótt loka höggið félli fyrst í gær. Það er svakalegt hvernig er búið að fara með gróið fyrirtæki eins og Spron. Spron var tilmargra ára vel rekinn og solid sparisjóður. Svo komust hrægammarnir þar innfyrir. það va rallrar athygli vert að heyra það að lang mest af útistandandi kröfu SPRON væri á hendur þrotabúi Baugs. Krimmarnir sem stýrðu því fyrirtæki virðast geta hafa gengið í banka og sparisjóði eins og þeir vildu og þurftu og tæmt þá. Þau fjármálafyrirtæki sem glæptust á að taka þá í viðskipti hafa lánað og lánað án nokkurrar yfirsýnar. Menn virðast hafa trúað því að Baugsliðið væri eins og konungurinn Mídas. Allt sem hann snerti varð að gulli. Það var gaman fyrst en endaði heldur illa þegar hann ætlaði t.d. að fá sér að borða.

Sparisjóðabankinn fór yfirum af áþekkum ástæðum. Þegar Seðlabankinn fór að draga við sig að lána stóru bönknum beint þá var litlu bönkunum beitt fyrir ækið. Þeir tóku lán hjá Seðlabankanum og lánupu það síðan áfram til fjárvana risanna. Þegar þeir hrundu sl. haust þá stóðu litlu bankarnir uppi með verðlaus veð. Spilaborgin hrundi með það sama.
Á íslenska ríkið og þar með skattgreiðendur lenda um 160 ma. kr vegna hruns þessara tveggja banka. Ég held að það hljóti að fara að draga að því að það verði farið að byggja nýtt fangelsi hér einhversstaðar. Það má svo sem spara flatskjáina.

Ég var eitt sinn staddur úti í Helsingfors á árunum 1992-1993 á fundi. Þá sá ég símanúmer félagsmálastofnunar auglýst á ljósaskiltum. Það hef ég aldrei sér fyrr né síðar. Ég man eftir því að ég sá í fréttum eitt hvöldið að það var verið að segja frá því að það var verið að loka bankaútibúi einhversstaðar í Finnlandi. Það var talað við grátandi fólk sem hafði unnið í útibúinu. Maður fékk á tilfinninguna að fólkið sæi fram á að fá jafnvel aldrei vinnu framar. Hver veit nema það hafi verið rétt mat. Maður getur ímyndað sér að það hafi verið álika stemming á starfsmannafundi SPRON í dag. Hver veit? Á þessum árum var um 18% atvinnuleysi í Fuinnlandi. Í sumum norðurhéraðanna voru starfsmenn sveitarfélagsins og barþjónar þeir einu sem höfðu vinnu.

Á laugardaginn þegasr ég var að hlaupa með Jakobi og Gauta þá stoppaði ég í strætóskýli vestur við Eiðistorg til að fækka fötum. Þá rak ég augun í risastórt plakat með arabiskum og íslenskum texta. Í íslenska textanum var verið að þakka því fólki sem skildi arabíska textann fyrir að hafa flutt til landsins og með því auðgað innlenda menningu, matargerð og ég veit ekki hvað og hvað. Þær er vafalaust að finna víðar og á öðrum tungumálum. Sú hugsun sem mér fannst liggja að baki þessari auglýsingu sló mig mjög illa. Hvað er verið að þakka erlendu fólki kærlega fyrir að hafa látið svo lítið að flytja hingað til lands? Hvaða hugsun liggur þarna að baki. Er íslenskt samfélag svo lítilsiglt að það þurfi að þakka kærlega fyrir ef einhver af erlendu bergi brotinn lætur svo lítið að setjast hér að. Ég hef búið erlendis. Svo er einnig um fjölmarga aðra. Fólk flytur milli landa í mörgum tilvikum í leit að einhverju betra en þeir búa við heima við. Oft er það námsframboð, í öðrum tilvikum er það vinna og betri möguleikar á að framfleyta sér. Ég hef litið svo á að það sé ekkert um það að segja að fólk setji sig niður í öðrum löndum en sínu heimalandi ef það getur framfleytt sér og samsamað sig siðum búsetulands. Ég hef hvergi séð það fyrr að móttökulandið eða aðilar sem eru fjármagnaðir af opinberu fé séu opinberlega að þakka aðfluttu fólki kærlega fyrir að hafa látið svo lítið að setja sig niður í landinu. Hvaða hugsun á bak við þetta og hvaða sjálfsvirðingu hafa þeir sem standa að svona auglýsingum? Hún hlýtur að vera ákaflega meðvituð. Ég ætla rétt að vona að peningar skattgreiðenda verði ekki settir framar í svona nokkuð. Nóg er nú samt.

Ég sat í smá starfshóp í janúar sem undirbjó frjálsíþróttamótið Reykjavík International. Þá var leitað eftir því við RÚV að þeir sýndu beint frá mótinu eins og þeir gerðu með sóma í fyrra. Þrátt fyrir miklar tilraunir þá var það ekki hægt. Viðbáran var niðurskurður og minni peningar. Allt gott um það. Í dag sá maður að það er ekki sama Jón og Séra Jóns. Það var bein útsending frá landsleik í fótbolta þar sem B landslið Íslands tapaði fyrir B landsliði Færeyja. Hverjum dettur í hug að hafa beina útsendingu frá vináttulandsleik B liða þegar lögð er áhersla á aðhald og niðurskurð í kostnaði hjá RÚV? Í Færeyjum búa um 50 þúsund manns eða eins og í Kópavogi og Hafnarfirði. Tveir þeirra leika erlendis og þar af annar á Íslandi. Það eina góða við beinu útsendinguna var að sjá sjálfumglaða stráktitti tekna í bakaríið af baráttuglöðum Færeyingum sem unnu verðskuldaðan sigur.

Vikan var fín. Hún endaði næstum óvart sem ein af þeim lengri. Mánuðurinn er orðinn sá þriðji lengsti ever og samt 10 dagar eftir. Allt er fínt og hlaupin létt og auðveld. Fór stærstan hluta gærsagsins með Gauta. Það eru alltaf krefjandi hlaup því Gauti hefur góða yfirferð. Fínt að fá pressu á sig.

48 tíma hlaupið í Brno í Tékkóslóvakíu var um helgina. Ég var fyrr í vetur að velta fyrir mér að fara á það en fannst það of snemma. Kosturinn við það er að það er inni en ókosturinn er að það er hlaupið á steypu. Tékkinn Dan Oralek vann hlaupið í ár á 366 km sem er ein stysta vegalengdin frá upphafi. Í fyrra vann Kurosis það á 406 km. Þarna voru nokrir sem ég kannast við. K.G. Petterson, Kjell Ove Skoglund, Cristian Ritella og Geir Frykholm voru þarna meðal annarra. Þeim gekk ekkert sérstaklega vel í ár. Cristian Ritella, sem var besti norðurlandabúinn í ár, hljóp 202 km fyrri sólarhringinn en 108 þann seinni. Steypan er hörð og tekur í. Kosturinn við Borgundarholm að þar er hálfur hringurinn á möl en ókosturinn er að þetta er útihlaup. Það getur nefnilega rignt. Ég er mikið að velta fyrir mér hvernig ég á að leggja upp hlaupið. Það er hægt á tvo vegu. Vera rólegur fyrri sólarhringinn og taka kannski 160-170 og vera svo í 130-140 seinni daginn. Hinn valkosturinn er að taka grimmt fyrri daginn með yfir 200 km og taka svo slaginn seinni sólarhringinn og böðlast áfram með það að markmiði að fara yfir 300 km að lágmarki.

föstudagur, mars 20, 2009

Queen; We Will Rock You Live At Wembley 1986

Á Þórkötlustöðum við Grindavík

Nýlega var skelfilegt innslag í kastljósi ríkissjónvarpsins. Tvær konur sátu og jöguðust um eitthvað tuskudæmi sem erfitt var að henda reiður á um hvað snerist. Það var jagast um hvort einhver erlend kjólafabrikka væri verksmiðja eða ekki. Það var jagast um hvort einhver mætti skipta við einhvern. Það var jagast aftur á bak og áfram um hluti sem áttu ekkert einasta erindi í ríkissjónarpið og þar með til alþjóðar. Manni skildist að það hafði byrja einhver strekkingur milli þeirra á Facebook. Facebook er orðinn svo áhrifamikill factor í samfélaginu að ef einhverjir rífast þar af miklum móð þá þykir sjálfsagt að leiða það fyrir augu almennings. Aumingja Sigmar var hálf vandræðalegur yfir þessu dæmi öllu enda þótt hann reyndi af bestu getu að halda rifskinninum við efnið. Það gekk ekki vel.

Ég fékk síðasta hefti Þjóðmála á dögunum. Það er alltaf jafn gaman að fletta því og lesa. Enda þótt maður sé ekki sammála öllu sem í því stendur þá er útgáfa þess virðingarvert framtak til að styðja að þjóðamálaumræðu hérlendis. Þjóðmálaumræðan í tímaritabransanum er að öðru leyti mestmegnis á einhverju Séð og heyrt stigi. Það er ekki auðvelt að halda svona riti út. Í því eru meðal annars bókadómar um nokkrar athyglisverðar bækur. Meðal annars er fjallað þar um bókina "Dýrmætast er frelsið" eftir Hege Storhaug. Bókin fjallar um þann vanda sem evrópsk samfélög standa frammi fyrir vegna síaukins fjölda innflytjenda til álfunnar úr ólíkum menningarheimum. Staða þessara mála í Noregi er tekin sértaklega fyrir. Það má yfirfæra umræðuna um ástandið í Noregi til Danmerkur og Svíþjóðar. Svo merkilegt sem það var þá fannst enginn útgefandi að bókinni í Danmörku né Svíþjóð. "Hvers vegna" verður hver að svara sér sjálfur.
Innflutningur fólks er að breyta norsku samfélagi í grundvallaratriðum. Eftir tiltölulega fá ár verða innflytjendur meirihluti íbúa í Osló. Fyrir aldarmót mun að óbreyttu meirihluti fólks í Noregi eiga rætur sína rað rekja til annarra heimsálfa en Evrópu. Vesturlönd fá til sín stöðugt stærri hópa fólks sem aðhyllast gildismat sem stríðir gegn vestrænum hugmyndum um frelsi og því fer fjarri að aðlögunun gangi hnökalaust fyrir sig.

Margir nýju borgaranna einangra sig í eigin samfélögum innan samfélagsins. Þessi hliðarsamfélög eru ekki fjárhagslega sjálfbær heldur háð stöðugt meiri fjárstyrkjum. Stór hluti barna innflytjenda fellur úr skóla, enda í vafasömum félagsskap og verða undir á vinnumarkaði. Norsk börn eru iðulega í miklum minnihluta í grunnskóla. Það þýðir ekki að kenna norska stjórnkerfinu um þessa hluti þó að það sé einfaldast í huga margra. Verkefnið er næstum því óyfirstíganlegt.

Sem betur fer er þessi staða ekki komin upp hérlendis. Þeir innflytjendur sem hafa flust hingað til lands eru fæstir af framandi menningarheimum. Það er hins vegar svakalega erfitt að ræða þessi mál. Þeir sem viðra skoðanir sem falla meðvitaða liðinu ekki í geð eru iðulega stimplaðir rasistar og útlendingahatarar af þeim sem öfgafyllstir eru. Mér finnst hins vegar lágmarksatriði að fólk hafi burði til að ræða þessi mál í stað þess að fela sig í hópsálinni. Ég þarf að útvega mér þessa bók til að kynna mér hana betur.

Þetta verður heldur góð vika ef fer fram sem horfir. 20 km á dag að jafnaði hingað til.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Queen - Bohemian Rhapsody

Skafbylur uppi við Kók

Ég fór á bókamarkaðinn í Perlunni um daginn eins og lög gera ráð fyrir á vetri hverjum. Yfirleitt fer maður inn með góðum ásetningi um að kaupa ekki margar bækur og vanda valið vel en alltaf verður freistingin góðum áformum yfirsterkari. Sumt reynist vera góð kaup en annað miður eins og gengur. Ég hef verið að lesa eina síðustu daga sem ég hafði heyrt um en alldrei komist yfir fyrr en nú. Það er Fiskileysisguðinn eftir Ásgeir Jakobsson. Ásgeir var mjög gagnrýninn á vísindamennsku Hafrannsóknarstofnunar og með hvaða aðferðum þeir vinna. Stofnunin beitti fyrst og fremst þeirri aðferð við andsvör að þegja. Nú er ég ekki fiskifræðingur og hef verið mjög takmarkað til sjós. Ég þekki hins vegar vel til búfærði og almennrar skynsemi við fóðrun dýra. Það má vel vera að Hafró rökstyðji aðferðafræði sína með öllum þeim dýpstu rökum sem fyrir finnast og svari gagnrýni þannig með mikilli vísindamennsku. Engu að síður er það staðreynd að hafið skilaði okkur kringum 400 þúsund tonn af þorskafla áratugum saman. Var þorskkvótinn ekki kominn nipður í 130 þúsund tonn í fyrra eftir 25 ára uppbyggingarstarf? Ég man ekki betur. Mér finnst að í tilefni tuttugu og fimm ára afmælis veiðistjórnunar á Íslandsmiðum væri ekki úr vegi að Hafró héldi upp á afmælið með því að skýra út hvað hefði valdið þessari þróun. AÐ sama skapi væri gott að fá mat á hvort stofnunin legði mat á hvort hún teldi sig vera á réttri leið.

Það segir sig sjálft að þetta gengur ekki upp. Kunnugir menn segja manni að togararallið sé alltaf tekið á sömu slóðinni þrátt fyrir að miklar breytingar hafi átt sér stað í hita sjávar. Þorskurinn er einfaldlega ekki á sömu slóðum og áður. Niðurstöður togararallsins eru hins vegar ásamt fleiru lagðar til grundvallar kvóta hvers árs. Það er þekkt að ef fiskivötn eru ekki veidd hæfilega þá verða vötnin ofsetin. Næringin dugar ekki til og fiskurinn fær ekki nóg að éta. Til að hámarka afköst vatnsins verður alltaf að veiða ákveðið lágmarksmagn í því svo fiskurinn vaxi eðlilega. Það sama gildir með búfé á landi. Ef bithagar eru ofsetnir og lömbin léttast eða drepast úr hungri þá þýðir lítið að hætta að slátra og friða stofninn svo hann nái sér á strik aftur.

Ég ætla ekki að fella dóma yfir aðferðafræði Hafró, til þess skortir mig þekkingu. Á hinn bóginn er það mjög undarlegt að það skuli ekki vera nein umræða um að niðurstaða friðunarinnar skili minni og minni uppskeru. Ég hélt að markmiðið með öllu bramboltinu væri hið gagnstæða.

miðvikudagur, mars 18, 2009

Status Quo - Rockin' All Over The World

Ásdís Hjálmsdóttir setti glæsilegt íslandsmet í spjótkasti á dögunum

Það var uppi töluvert fjaðrafok í netmiðlum í dag. Þau stórmerki gerðust að adjunkt við HÍ sendi kvörtun til Jafnréttisráðs yfir því að fimm karlar sitja í bankaráði Seðlabankans en einungis tvær konur. Þetta varð náttúrulega mál málanna. Einhver einstaklingur fer að kvarta og þá fer allt af stað. Þetta voru ekki fjöldamótmæli, ekki almennir flokkadrættir, útifundir né kröfugöngur. Nei, ein manneskja fór að kvarta og það fór allt á röndina. Ég geri fastlega ráð fyrir því að aðjunktinn hafi í forbifarten minnst á að í bankaráði Kaupþings sitja fjórar konur og einn karl. Þessi staða er jafnvel verri en í Seðlabankanum. Það sem verst er að karlinn er formaður bankaráðs. Hver skyldi nú hafa kosið hann í það embætti? Spyr sá sem ekki veit. Þegar kynjaskiptin í bankaráðum ríkisbankanna þriggja og Seðlabankans til viðbótar eru skoðuð þá kemur í ljós að í þeim sitja ellefu karlar og níu konur. Í varabankaráðum sitja aftur á móti ellefu konur og níu karlar. Ég geri einnig ráð fyrir að aðjunktinn hafi tekið þetta skilmerkilega fram í bréfi sínu til Jafnréttisráðs.

Þegar þjóðfélagið er að fara á hausinn þá skemmta menn sé við að fimbulfamba um svona lagað í fjölmiðlum. Er furða að það sæki stundum að manni ákveðinn efi.

Þegar borgaraflokkarnir komust til valda í Svíþjóð árið 1981 þá höfðu sósialdemókratarnir setið þar við völd áratugum saman. Þeir höfðu byggt upp kerfið og kunnu því einir flokka á það. Borgaraflokkarnir voru því ekki alveg vissir á stjórntækjunum. Þeir gátu ekki lækkað atvinnuleysið og þeir höfðu engin tök á því að draga úr verðbólgunni. En frekar eitthvað að gera en ekki neitt þá bönnuðu þeir að selja öl af klassa 2 í almennum búðum á laugardögum.

Hérlendis er allt heldur andbrekkis sem hugsast getur. Bankakerfið hrunið, atvinnulífið gengur á einum stimpli, vextirnir allt að sliga, bankarnir tómir eftir stórkostlegasta bankarán sem um getur, landið nýtur engrar viðskiptavildar á erlendum vettvangi, myntin ónýt, sölutregða á fiski og áli og ég veit ekki hvað. Þá setja stjórnvöld fram frumvörp þess efnis að banna opinberum starfsmönnum að sækja vændishús á embættisferðum erlendis og loka nektarbúllum. Vonandi að það komi að gagni.

Ármenningar heiðruðu Ásdísi Hjálmsdóttur í dag fyrir frækilegt afrek á vetrarkastmótinu á Tenerife á dögunum. Ásdís er að koma til baka eftir erfið meiðsli og þetta var fyrsta spjótkastkeppni hennar frá ólympíuleikunum í haust. Árangurinn veit á gott í sumar.

Það var flott að sjá hvernig B lið í handboltanum tók Makedóníu í bakaríið í kvöld. Gríðarlega góð vörn skóp sigurinn. Það var einnig gaman að sjá Aron Pálmarsson blómstra í leiknum. Maður gleymir því stundum að hann er á fyrsta ári í 2. flokk þegar hann spilar eins og þroskuð stórstjarna. Það verður áhugavert að fylgjast með honum á næstu árum.

Tók Powerade með Grensássslaufu í kvöld. Hlýtt og gott veður.

Electric Light Orchestra - Roll Over Beethoven

Einmana bílar

Í dag rak á fjörur mínar frumvarp til laga um listamannalaun. Efni frumvarpsins er í stórum dráttum að fjölga starfslaunum listamnanna úr 1200 mánaða launum í 1600 í áföngum. Rökin fyrir því eru að árið 1997 hafi fjöldi mánaðarlauna verið ákveðinn 1200. Á þeim tíma sem liðinn er frá þeirri ákvörðun hafi íslendingum fjölgað um 23%. Því skuli starfslaunum listamanna fjölgað í áföngum upp í 1600. Það er gott og blessað með fjölgun íbúanna en það virðist hafa farið fram hjá þeim sem frumvarpið sömdu að íslenska þjóðarbúið er ekki jafn vel statt fjárhagslega og það var árið 1997. Þá var allt í lagi en nú rambar það á barmi gjaldþrots. Skuldir þjóðarbúsins eru tvöföld landsframleiðsla. Fjármálaráðuneytið segir í umsögn með frumvarpinu að það séu engir peningar til. Það verði að fjármagna viðbótarkostnað vegna frumvarpsins með lántöku ef verði af því. Það er í raun óskiljanlegt að svona frumvörp séu lögð fram á þeim tímum sem við lifum nú. Fram undan er blóðugur niðurskurður á öllum sviðum hins opinbera. Það er ekkert annað hægt ef á að vinna sig út úr þeirri stöðu sem þjóðarbúið er í. Lágmark er að í frumvarpi sem þessu sé til tekið hvar eigi að finna peninga til að fjármagna þann viðbótarkostnað sem það leiðir af sér verði það samþykkt. Hvar verða þeir teknir? Á að hækka skatta eða leggja eitthvað annað niður. Það er alveg á hreinu að starfslaun listamanna þarf að taka til endurskoðunar eins og allt annað í þjóðfélaginu.

Tók 12 km í morgtunhlaup og svo 10 km í kvöld. Veðrið fínt.

mánudagur, mars 16, 2009

Grindavíkurhöfn

Í öllum fræðum við aðgerðir í fjármálum þá eru flatar aðgerðir taldar verstar af öllum. Aðgerðir sem koma jafnt niður á öllum hvernig sem á stendur. Það er eitt af hlutverkum stjórnmálamanna að forgangsraða. Þegar ríki eða sveitarfélög þurfa að arf að skera niður er einfaldast að senda boð á línuna um að allir verði að draga saman um t.d 5%. Ekkert tillit er tekið til þess hvernig staðið hefur verið að málum hjá einstökum stofnunum. Slíkar aðgerðir hafa þann kost að það verða allir jafn óánægðir en þann ókost að gagnsemi þeirra er yfirleitt afar takmörkuð. Góðir stjórnmálamenn fara yfir hvaða verkefni eru nauðsynlegri en önnur. Um þau er staðinn vörður á meðan önnur mega missa sig þegar fjármagn er takmarkað. Fjármagn er í raun alltaf takmarkað. Sömu princip gilda þegar verið er að fara í aðgerðir til að bjarga hluta fjöldans. Verst af öllu er að setja á flatar aðgerðir sem koma öllum til góða, hvort sem þeir hafa þörf fyrir þau eða ekki. Ég skil ekki að hægt sé að segja með rökum að 20% niðurfærsla skulda sé það bjargráð sem sé handhægast og skynsamlegast í þeirri stöðu sem þjóðin er nú í. Ég skulda dálítð en ekki mikið. Ég get alveg borgað af móinum skuldum og þarf enga hjálp. Því ætti ég að fá niðurfellingu skulda um 20%. það er bara "waste of money". Sumir skulda mjög mikið og 20% niðurfelling skulda skiptir engu máli. Þeir fara á hausinn hvort sem er. Aðrir skulda mjög mikið en hafa engu að síður burði til að standa undir skuldunum. Niðurfelling um 20% myn di færa þeim verulega fjármuni í aðra hönd að ástæðulausu. Síðan eru þeir sem hægt er að hjálpa með markvissum og raumhæfum aðgerðum. Það á að einhenda sér í að fara að takast á við vanda þessa hóps. Menn eiga að skilgreina vanda sinn sjálfir eftir ákveðnum formúlum og sækja síðan um aðstoð. Leggja spilin á borðin. Viðurkenna vandann en ekki mála skrattann á vegginn. Það er nóg af fólki sem er atvinnulaust sem kann þessa hluti. Á þennan hátt myndi nýting þess fjármagns sem ríkið þarf að legga í svona aðgerðir nýtast best í stað þess að dreyfa því tilviljanakennt yfir landið og miðin. Síðan hefðu stjónvöld ekki hugmynd um að hvaða gagni þetta myndi koma fyrr en kröfur heyrðust um meiri aðgerðir því þessar hefðu engan veginn dugað. Það þyðir ekki að láta hræða sig út í eitthvað svona fen með tali um svarthol og eitthvað þaðan af verra. Einu sinni var sagt að menn ættu ekki að hlaupa fyrir björg af ótta við tröllin í þokunni. Mér sýnist það eiga fullvel við enn.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er hvort fólk geti ráðið við afborganir af skuldum á eðlilegan hátt. Það skiptir engu máli hvort skuldir eru hærri en hugsanlegt söluverð íbúðar. Fólk kaupir sér íbúð til að eignast heimili en ekki sem fjárfestingu til að selja og græða á. Söluverð er afstætt. Hins vegar getur það heft tilflutning fólks tímabundið ef menn selja ekki húsið fyrir áhvílandi lánum. Fólk á landsbyggðinni hefur víða búið við þennan raunveruleika árum saman að lán eru hærri en markaðsverð íbúðar og enginn deplað auga vegna þess.

Ég keypti mér diska á útsölu um daginn til að hlusta á í bílnum sem ekki er í frásögur færandi. Meðal þeirra var tvöfaldur diskur með lögum frá fimmta áratugnum. "Bimbó" ,"Dísa heitir draumlynd mær", "Blítt og létt" og fleiri álíka góðbitar. Þeim yngri þykir ekkert alltof modern en láta sig þó hafa það á stundum að hlusta. Ég keyrði nokkrar vinkonur Maríu á fótboltaæfingu í kvöld og diskurinn góði var í spilaranum. María reyndi að lækka svo lítið bar á svo stelpurnar myndu ekki þurfa að þjást mikið vegna gamaldags tónlistarsmekks bílstjórans. Þær báðu hins vegar um að hækka aftur því þetta væru svo skemmtileg lög sem þær hefðu aldrei heyrt. Þær voru svo allar farnar að syngja með og klappa. Grípandi melódíur standa alltaf fyrir sínu og ég tala ekki um ef textarnir eru einnig vel gerðir. Þá skiptir ekki máli frá hvaða áratugnum lögin eru.

Tók Powerade hringinn í kvöld með aukaslaufu. Fann ekkert fyrir gærdeginum.

sunnudagur, mars 15, 2009

The Box Tops;The Letter

Kleifarvatn á góðviðrisdegi

Hlaupin á laugardaginn fóru í vaskinn að mestu leyti. Ég vaknaði snemma en þá var skítaveður og ekki fýsilegt að fara út. Ég fór því að sofa aftur. Þegar veðrið fór að skána var öðrum hnöppum að hneppa. Ég komst svo aðeins út seinnipartinn.

Strákarnir í 2. flokk hjá Víking spiluðu við kollega sína frá Akureyri undir kvöldið. Þeir byrjuðu leikinn ekki fyrr en um 10 mínútur voru liðnar af honum. Þá höfðu Akureyringar skorað 7 mörk en Víkingar aðeins 1. Akureyringar voru þrisvar í leiknum sex marka forskot en þegar korter var eftir fóru Víkingar að gera sig gildandi. Þeir náðu að jafna leikinn en vantaði herslumuninn til að landa sigri. Því töpuðu þeir með tveggja marka mun. Leikir vinnast ekki nema að þeir séu spilaðir í sextíu mínútur en ekki einungis í fimmtíu mínútum eða þaðan af minna.

Í gærkvöldi var boð hjá Ívari Ragnarssyni frá Brjánslæk og og Sesselju konunni hans. Þau söfnuðu saman barnabörnum afa og ömmu frá Melanesi. Þessi hópur sést alltof sjaldan og þá einna helst við jarðafarir og afmæli eins og gengur. Það var vel mætt og mjög gaman að hitta hópinn. Margt bar á góma og rifjaðar upp ýmsar gamlar sögur.

Ég bætti laugardaginn upp í morgun. Fór út á seinni hálftímanum í sjö og kom heim um 12 leytið. 54 km lágu. Fyrsta alvöruhlaup vetrarins.

Ég hlusta oftast á Sigurð G. og Guðmund Ólafsson á Útvarpi Sögu á sunnudagsmorgnum. Um margt er ég þeim sammála og finnst fróðlegt að heyra þá fara yfir þjóðmálin og á stundum með aðstoð gömlu konunnar í Keflavík. Ég var þó algerlega ósammála þeim í einu atriði í morgun. Þeir voru að fjargviðrast yfir því að vegabréfslausu fólki frá Eistlandi og Lettlandi skyldi vera vísað úr landi hér til síns heimalands þar sem það hefur takmörkuð réttindi.

Þetta er fólk af rússnesku bergi brotið. Það var flutt til þessara landa í stórum stíl á meðan Eystrasaltslöndin voru undir áhrifasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Sovétmenn beittu þeim svívirðilegu aðferðum að hauga sínu fólki inn í Eystrasaltslöndin í þeim tilgangi að þurrka hinar innfæddu þjóðir út með tíð og tíma. Þegar löndin fengu sjálfstæði þá kom bakslagið. Fólk af rússnesku bergi brotið var gert að annars flokks borgurum. Rússar komu náttúrulega fram af lítilmennsku við þetta sama fólk og leyfu því ekki að flytja til baka til Rússlands. Það er því læst inni í slæmri stöðu. Það er alveg ljóst að það er í besta falli barnaskapur og í versta falli heimska að halda að íslendingar geti leyst þessi vandamál þjóða sem eru mörgum sinnum fjölmennari en við. Ef íslendingar fara að fara á svig við þau lög sem gilda og veita þessu fólki undanþágur af mannúðaraðstæðum þá mun það vitaskuld þyrpast hingað til að fá fullgild vegabréf. Málin eru einfaldlega þannig að við getum ekki leyst allt heimsins ranglæti.

Maður getur ekki annað en vorkennt sýslumanninum fyrrverandi sem situr við fjórða mann og hefur tekist það verkefni á hendur að rannsaka bankahrunið. Þegar hann óskar efir gögnum þá segir FME að yfir upplýsingum frá bönkunum hvílir bankaleynd. Common. Á ekki einmitt að rannsaka bankana? Hvað er verið að fela? Dómsmálaráðherra segir að gengið verði í málið og leyst úr þessu. Það er vonum seinna.

Skoðanakannanir segja að fjórflokkurinn muni standa föstum fótum. Fjölmiðlar hamra einnig á þessu. Tvennt segir manni að það mat geti verið rangt. Í fyrsta lagi er þátttaka í prófkjörum víða lítil og niður í mjög lítil. Það segir manni að margir sem áður tóku þátt í prófkjörum eru ekki að gera það. Í öðru lagi er þáttaka í skoðanakönnunum ekki meiri en svo að það er ljóst að margir eiga eftir að gera upp hug sinn. Það getur margt gerst á næstu vikum.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Gerry & The Pacemakers - How Do You Do

Illa viðhaldinn göngustígur í Krísuvík

Ég sá í dag samantekt á www.kondis.no/ultra um norræna 24 tíma hlaupara. Þar var tekið saman hve margir hafa hlaupið yfir 200 km á þeim tæpum 30 árum frá því að fyrsti norðurlandabúinn náði því takmarki. Það var finninn Marrti Moilanen sem hljóp 205.850 km í London í október 1979. Þá hafði ég ekki hugmynd um að 24 tíma hlaup væri til og sama gilti örugglega um flesta íslendinga. Það eru samtals 73 norrænir karlar sem hafa hlaupið 200 km eða lengra á þeim tæpu 30 árum sem síðan eru liðin. Lengsta vegalengd allra norðurlandabúa í 24 tíma hlaupi hefur Rune Larsson, sá mikli sænski hlaupari, lagt að baki eða 262.640 km. Rune hefur einnig róið yfir Atlandshafið, hlaupið þvert yfir Bandaríkin og sigrað tvisvar í Spartathlon svo eitthvað sé nefnt. Hann er sem sagt ekki venjulegur. Alls hafa 28 finnar hlaupið yfir 200 km í 24 tíma hlaupi, 18 svíar, 13 norðmenn og danir og 1 íslendingur. Ég er í 30 sæti af þeim 73 norrænu körlum sem hafa náð yfir 200 km. Miðað við hlaupið í fyrra og hvað ég átti inni þegar því var lokið þá ætti eg að geta náð svona um 230 km á einum sólarhring ef allt gengi upp. Það er allnokkur fjöldi íslendinga sem gæti náð þessu takmarki. Það er bara að láta vaða.

Fyrir áhugasama þá er slóðin hér: http://www.kondis.no/Ultra/index.php?aid=80772&k=ultra%2Fultra&mid=

miðvikudagur, mars 11, 2009

Dave Dee, Dozy, Beaky, Mick & Tich - The Legend Of Xanadu

Grotnandi rafgeymir í Krísuvík

Þetta var dagur hinna stóru atburða. Í fyrsta lagi féll Baugur og í öðru lagi féll formaður VR.

Baugur skuldar 150 milljarða umfram eignir. Slíkt fyrirtæki er margfaldlega fallítt. Það er annaðhvort dæmi um að viðkomandi hafi ekkert skynbragð á samhengi milli reksturs og efnahags ef það er talið mögulegt að bjarga slíku fyrirtæki. Í öðru lagi getur það verið inni í dæminu að framlenging á greiðslustöðvun geti gefið eigendum tækifæri til að taka enn frekari eignir út úr fyrir tækinu en þegar hefur verið gert. Fyrirtæki sem byggir útþenslustefnu sína og gríðarlegar fjárfestingar eingöngu á lántöku spennir bogann svo svakalega að það má ekkert út af bera. Kúlulán eru voðalega skemmtileg þar til kemur að gjalddaganum. Þá var módelið að taka nýtt kúlulán til að greiða hið eldra. Þetta gekk á meðan aðgangur að lánsfé var lítt takmarkaður en svo fór að versna í því. Lán til að greiða þau gömlu fengust ekki lengur. Þá hrundi spilaborgin. Nú leiggur ekkert annað fyrir en að ná í þau fyrirtæki sem hafa verið seld út úr Baugi innan þess tíma sem slíkir samningar eru riftanlegir. Í annan stað þarf að brjóta upp þau heljartök sem Baugsliðið hefur á íslenska smásölumarkaðnum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að hægt hafi verið að steypa saman milli 60 og 70% af smásölumarkaðnum undir einn hatt og kerfið hafi ekkis éð neina meinbugi á slíku gimmikki. Meir að segja Microsoft var skipt upp vegna markaðsráðandi stöðu á markaðnum. Hérlendis eru menn bara eins og vitleysingar.

VR, hið óvinnandi vígi, féll í dag. Sitjandi formaður fékk einungis um 28% atkvæða þegar félagsmenn greiddu atkvæði í formannskjöri. Þrátt fyrir að hann fengi tvo á móti sér með tilheyrandi dreifingu atkvæða þá varð fráfarandi formaður neðstur í kosningunni. Það segir sína sögu um viðhorf félagsmanna til forystunnar. Í stjórn voru einnig kjörnir menn sem hafa haft uppi harða gagnrýni á framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs VR. Þrátt fyrir að hann hafi um 30 milljónir í laun á ári þá þurfa þeir sem greiða í lífeyrissjóð VR að greiða bensínið á bílinn sem VR leggur honum til eftir því sem maður heyrir. Mér segir svo hugur um að fleiri en einn innan þessara raða þurfi að fara að svipast um eftir pappakössum á næstunni.

Lífeyriskerfið er náttúrulega kapítuli út af fyrir sig. Ætli séu ekki starfandi nú yfir 30 lífeyrisjóðir á landinu. Þó hefur þeim fækkað verulega. Bara svo það sé á hreinu þá búa ekki nema rúmlega 300.000 einstaklingar í landinu. Vinnandi einstaklingar voru um 180.000 þegar allir höfðu vinnu. Það eru þá um 6.000 vinnandi einstaklingar að jafnaði á bak við hvern lífeyrissjóð. Ruglið í lífeyrissjóðunum var svo gengdarlaust hér áður að það er varla hægt að tala um það. Sem dæmi má nefna að vörubílstjórar í rúmlega 2000 manna þorpi stóðu fyrir eigin lífeyrissjóð með framkvæmdastjóra, skrifstofu og alles. Yfir 30% af iðgjöldum fóru í rekstrarkostnað. Þetta lét fólk yfir sig ganga annað hvort vegna afskiptaleysis eða fáfræði.

Eitt er maður að heyra sem er vægast sagt diskútabelt ef satt er. Ég hef ekki kynnt mér það frá fyrstu hendi en heyri að verðbætur á peningalegar eignir (inneign í banka) verði dregnar frá greiðslu tryggingarbóta Tryggingastofnunar hjá ellilífeyrisþegum og öðrum sem slíkar greiðslur fá. Verðbætur er trygging fyrir því að maður fái sama verðmæti til baka og maður lét af hendi til lánþega. Í 18% verðbólgu fær maður sama verðmæti tilbaka ef 18% verðbætur reiknast ofan á höfuðstólinn. Ef vextir eru hærri en verðbólga þá er mismunurinn raunvextir. Ef verðbólga er 0 þá fær maður engar verðbætur. Ég trúi því ekki að verðbólgan sé orðin tekjustofn fyrir ríkisvaldið að þessu leyti. Sama er ef fjármagnstekjuskattur reiknast ofan á verðbótaþáttinn. Ef að þetta er rétt þá lækka útgreiðslur Tryggingastofnunar eftir því sem verðbólgan er hærri. Það á vitaskuld einungis að reikna raunvexti sem tekjur til frádráttar tryggingabótum og sem stofn að útreikningi fjármagnstekjuskatts. Þarf að skoða þetta til hlýtar.

Við fórum fjögur í ljósmyndaferð með Pálma Guðmundssyni um þar síðustu helgi. Tekinn var rúntur um Reykjanesið í frábæru veðri. Við stoppuðum við Kleifarvatn, í Krísuvík, á Þórkötlustöðum og í Bláa Lóninu. Þegar heim var komið tók Pálmi myndirnar og gangrýndi þær. Fínt upplegg. Manni fannst heldur leiðinlegt að koma í Krísuvík. Krísuvíkin er mjög fjölsóttur staður af ferðamönnum, erlendum sem innlendum. Engu að síður var ásýndin heldur draslaraleg. Drasl úr úr borholu lá út í læk, rafgeymir gægðist út úr moldarbarði, margir plankar í göngubrautum voru brotnir og þannig mætti áfram telja. Hver ætli beri ábyrgð á Krísuvíkinni?

þriðjudagur, mars 10, 2009

Twisted Sister We're not gonna take it

Sóðaskapur í Krísuvík

Það má segja að stórt framfaraskref í andlegri endurreisn þjóðarinnar hafi verið stigið í dag þegar sú norsk franska Eva var ráðin sem sérstakur sérfræðingur og ráðgjafi við efnahagsbrotarannsóknir hérlendis. Það er nú svo að sannleikurinn þarf að birtast utanað frá til að mark sé tekið á honum. Það vissi hver maður sem vildi vita að það var eins og hvert annað kák að ráða örfá menn í embætti saksóknara og segja þeim að rannsaka bankahrunið. ef einhver sakamál eru flókin, tímafrek og þarfnast ítrustu sérfræðikunnáttu þá eru það hvítflibbabrot. Það er náttúrulega dálítið sérstakt að það skuli vera liðið á sjötta mánuð síðan að peningakerfi þjóðarinnar hrundi í rúst og það skuli enginn hafa svo mikið sem hafa verið tekinn í formlega yfirheyrslu af saksóknara. Bankarnir voru tæmdir eins og vegasjoppa af þjóðvegaræningjum og svo eru menn bara eins og fínir menn í viðtölum. Það verður aldrei friður í samfélaginu nema að þessi mál verði brotin til mergjar og hverjum steini velt við. Það er sérstakt að ránnsóknanefndinni skuli hafa þurft að berast sérstök ábending svo þeir fóru að renna í gegn kennitölum stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna til að kanna hvort finna mætti einhver tengsl milli þessara stétta og helstu rummunganna. Almenningur fer að finna fyrir alvöru málsins þegar niðurskurður á opinberum útgjöldum byrjar fyrir alvöru. Það þýðir ekkert að kenna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þá hluti. Þeir eru einfaldlega óhjákvæmilegir til að hægt verði að endurreisa fjárhag lands og þjóðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ósköp einfaldlega í hlutverki leiðinlega bankastjórans sem vill ekki lána óreiðumanninum meiri pening nema hann taki til í sínum eigin fjármálum og sýni að hann sé traustsins verður.

Ég heyrði frá Neil í gær. Hann vinnur hjá fyrirtæki sem heitir Thether að því mig minnir og er dótturfyrirtæki Straums. Straumur var yfirtekinn af ríkinu eins og kunnugt er. Starfsemi fyrirtækisins er því öll komin í uppnám. Neil var brattur og sagði að þeir myndu ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Hann gerði síður ráð fyrir að koma til Íslands og taka þátt í 100 km hlaupinu því hann ætlar að taka þátt í 260 mílna (rúmlega 400 km) hlaupi í Bretlandi í júní. Það er hlaupið meðfram ánni Thames og tekur 4-5 daga.

Það var gaman að fylgjast með spurningaþáttunum Útsvar og Gettu betur á helginni. Þeir voru spennandi og réðust úrslit í þeim báðum á síðustu stundu. Kappsfullir og margfróðir keppendur verða hins vegar að kunna að tapa, enda þótt stundum sé tapið ósanngjarnt að því þeim finnst. Maður hélt á tímabili að sá yngsti í Árborgarliðinu myndi fljúga á sýslumanninn í beinni eftir að þeir misstu sigurinn út úr höndunum á sér á lokaspurningunni. Eins var það þungbært fyrir MK að flaska á frönsku forsetunum. Þar gátu þeir engum um kennt nema sjálfum sér. Þeir sem ekki þekkja mun á Pompidou og Giscard d'Estaing á mynd þurfa að fara aðeins betur yfir fræðin.

sunnudagur, mars 08, 2009

Rolling Stones Satisfaction

Bílum lagt ólöglega við Egilshöll

Fyrir eitthvað tíu til fimmtán árum síðan sat ég fund í Alþýðubandalaginu fyrir norðan. Þar barst kynjakvóti í tal. Ég lýsti þeirri skoðun minni sem var þá jafnt og nú að ég væri á móti kynjakvótum. Mér væri sama hvort karlar eða konur væru fulltrúar hreyfingarinnar, bara að það væri besta fólkið. Ég fékk heldur en betur yfirhalninguna fyrir þetta. Einhverjir sögðust ekki hafa heyrt aðra eins karlrembu nokkurn tíma. Þarna kom vel í ljós rótgróin minnimáttarkennd kvenna sem gat ekki ímyndað sér að þær gætu skipað sér sem hópur í forystusveit án þess að vera lyft þangað upp af einhverjum fléttuaðferðum eða kvótasetningu.

Nú hefur þetta gerst svo um munar. Hjá Framsóknarflokknum í SV kjördæmi yrðu konur í fimm efstu sætunum. Vegna kvótasetningar verða hins vegar tvær þeirra að sætta sig við að vera færðar niður listann og karlar settir í þeirra stað. Þeir fengu hins vegar miklu minna fylgi. Þetta meikar engan sens að fyrst sé verið að halda prófkjör á annað borð að þá eigi úrslit þess ekki að standa. Eitthvað svipað hefur verið að gerast hjá Samfylkinginni hér og þar. Hjá VG virkar kvótasetningin hins vegar bara á annan veginn. Ég veit ekki hvort er verra. Það er hins vegar ljóst að áhugafólk um kvótasetningu í stjórnmálum mun berjast á móti því með kjafti og klóm að koma í veg fyrir að almenningur fái að velja þá fulltrúa sem sitja á þingi. Hann hefur greinilega ekki vit á því.

Ég stúderaði drauma einu sinni af þó nokkrum áhuga. Einna merkilegastir í því sambandi fannst mér Nýallinn eftir dr. Helga Pjeturs vera. Helgi var stórmerkilegur maður. Hann lagði í fyrsta lagi grunninn að nútíma jarðfræði og í öðru lagi skrifaði hann mörg rit um rannsóknir sínar á svefni og draumum. Hann færði fyrir því rök að sú endurhleðsla sem maður fær þegar maður sefur gerist vegna þess að í svefni kemst maður í tengsl við líf á öðrum hnöttum. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða um það en hitt veit hver einsasti maður að svefninn er lífsnauðsynlegur. Maður deyr innan tiltölulega skamms tíma ef maður nær ekki að festa svefn. Sama gildir þótt maður liggi í algerri hvíld, maður verður að ná að festa svefn til að lifa. Það er vel þekkt pyntingaraðferð að meina fólki svefns.
Oftast gleymir maður þvi sem mann dreymir jafnskjótt og maður vaknar. Á því eru þó undantekningar. Mig dreymdi í nótt afar sterkan draum í sambandi við manneskju sem ég þekkti hér áður en hef hvorki heyrt eða séð í rúm 32 ár. Stundum kemur það fyrir að ef maður er upptekinn af einhverju þá upplifir maður það þegar mann dreymir. Svo var ekki í þessu tilviki. Ég þarf einhvern tíma að að komast að því hvort eitthvað hafi gerst þessa dagana í sambandi við þann sem mig dreymdi.

Ég fór upp í Egilshöll í dag að horfa á stelpurnar í 3ja flokki spila við jafnöldrur sínar í KR. Það er svo sem ekki í frásögur færandi. Ég var með myndavél með og tók nokkrar myndir af stelpunum en oft vill maður gleyma myndavélinni vegna þess hvað maður lifir sig inn í leikinn. Dómarinn sá að ég var með myndavél og kom til mín í hléinu. Hann bað mig að taka myndir af bílunum sem keyrt er inn fyrir bílastæðið og lagt er á göngustígnum upp að Egilshöllinni. Þar er fljúgandi hált þessa dagana. Hann sagði að þarna sköpuðust hættulegar aðstæður þegar fólk er að troðast þarna inn á bílum og er svo að bakka og snúa í myrkri og slæmu skyggni á meðan krakkarnir eru að fara frá og til. Hann bað mig að koma myndum af þessu til hlutaðeigandi aðila því menn væru farnir að tala um að neita að halda leiki þarna ef ekki verður ráðin bót á þessu ástandi. Það var auðvitað sjálfsagt mál að verða við þessari bón og myndirnar eru farnar. Hugsunarleysið í fólki er oft hreint ótrúlegt.

Ég fór út um 7:30 í morgun og tók 34 km. Það var eins gott að vera tímalega úti því það fór að hvessa þegar leið nær hádegi. Þessi vika gerði tæpa 150 km. Nú fer þetta að þyngjast.

laugardagur, mars 07, 2009

Led Zeppelin Rock and Roll

Unnbjörg í langstökkskeppni

Einhver í Kaupþingi er farinn að syngja. Einhverjum sem ofbýður það sem hefur gengið á innan bankans. Sá hinn sami hefur því sent afrit af veltubókinni til Moggans. Þar kemur fram að Kaupþing hefur lánað eigendum og vildarvinum þeirra um 500 milljarða gegn engum eða allavega veðum. Fimm hundruð milljarða. Mig minnir að Kárahnjúkavirkjunin hafi kostað um 100 milljarða. Eigendur bankans hafa tæmt hann í vasa sína og vildarvina sinna. Það var greinilega ekki að ástæðulausu að það var mjög eftirsóknarvert af hálfu útrásarmanna að eignast banka. Hann var nauðsynlegur til að halda svikamyllunni gangandi. Það er alveg á hreinu að þessir peningar skila sér aldrei aftur. Þeir hafa verið lánaður til einhvers dótturfélags sem hefur síðan keypt eitthvað annað (skuldabréf) af öðru fyrirtæki í eigu sömu aðila eða verið lánaðir til fyrirtækis í eigu sömu aðila. Það fyrirtæki er svo sett á hausinn og þrotabúið er eignalaust. Dæmið gengur þannig upp og peningarnir komnir á rétta staði. Þessar aðgerðir eru ekkert annað en bankarán. Nú hefur það viðgengist öldum saman að ræna banka. Yfirleitt eru það einhverjir smákrimmar sem fá mismunandi langa fangelsisdóma ef til þeirra næst. Þegar bankar eru rændir markvisst og svo stórkostlega að skaðinn gerir það að verkum að heilt þjóðríki fer á hausinn er sá gjörningur ekkert annað en landráð. Hvenær skyldi maður sjá einhvern settan bak við lás og slá vegna svona gjörnigna. Í alvöru löndum væri Hraunið orðið nokkuð þéttsetið.

Það var ágæt grein hjá Stefáni Jóni í Fréttablaðinu í morgun. Hann setti Afríka inn í staðinn fyrir Ísland á ýmsum stöðum þegar atburðarásinni hérlendis undanfarin misseri var lýst. Ég er hræddur um að okkur hefði ekki fundist afskaplega mikið til um það land og stjórnarfar þess sem Stefan Jón lýsir í greininni ef hún hefði skeð í einhverju Afríkuríki. Það er oft gagnlegt að virða eigin gjörðir fyrir sér af nýjum sjónarhól. Skyldu menn læra eitthvað af þessu? Held varla.

Ég var að hlusta á Útvarp Sögu í morgun. Þá kom þar hlustandi og var að spjalla um Enron myndina. Hann hélt því fram að það væri hægt að setja samasem merki á milli Enron og Decode. Í sjálfu sér er það ekki svo galin fullyrðing. Decode hefur gleymst í umræðu á undanfarinna missera. Gengið í Decode var markvisst kjaftað upp af fjölmiðlum, verðbréfasnötum, pólitíkusum og forsvarsmönnum fyrirtækisins. Þessi maður fullyrti að forsvarsmenn DeCode hafi verið tíðreikað inn í gamla Búnaðarbankann þar sem framtíðarhorfum fyrirtækisins hefði verið lýst með fögrum orðum. Verðbréfasalarnir fluttu boðskapinn áfram og allir dönsuðu í kringum gullkálfinn. Ríkið veitti fyrirtækinu sérstaka ríkisábyrgð. Fjölmiðlar fullyrtu að gengið yrði komið í 100 USD um haustið. Ég man vel eftir því að það þótti ekkert voðalega sniðugt af okkur sem sátum í stjórn Framsóknarfélags í Reykjavík Suður á þessum tíma þegar við mótmæltum því að ríkið veitti fyrirtækinu ríkisábyrgð. Vorum við á móti framförum eða hvað? Ég hef það fyrir satt frá manni sem ég veit að hefur vit á því sem hann er að segja að hinn svokallaði gagnagrunnur, sem mest var látið með, hafi aldrei verið til nema sem eitthvað uppkast í fartölvu á ákveðnum stað. Engu að síður keypti fólk hér væntingar í þessu projekti fyrir gríðarlega peninga. Gengið fór hæst í 65 USD. Nú er það ca 0,22 USD eða 1/280 af því sem það var kjaftað hæst. Fjöldi fólks varð gjaldþrota vegna fjárfestinga í Decode. Í öllum venjulegum löndum sæti einhver í steininum vegna þessa alls.

Unnbjörg nágranni okkar hér á móti í Rauðagerði 36 sló heldur betur í gegn í fyrradag. Hún keppti í Skólahreysti fyrir Réttó en hún er þar í 9. bekk. Hún gerði sér lítið fyrir og setti íslandsmet í armbeygjum með því að taka 80 stykki í beit. Fyrra metið var 77 beygjur. Þegar það var sett fyrir skömmu var haft á orði að það yrði seint slegið. Unnbjörg gerði sér síðan lítið fyrir og tók 100 armbeygjur í skólanum daginn eftir þegar hún var beðin um að gefa samnemendum sínum smá sýnishorn af gærdeginum. Þetta er ekki dónalegt af 15 ára krakka.

föstudagur, mars 06, 2009

Deep Purple - Highway Star

Jökull á góðum degi í Víkinni

Þegar maður er á ferðalögum erlendis út af vinnunni þá fær maður dagpeninga. Með þeim á maður að borga gistingu og mat. Ef maður gistir á hóteli af þokkalegum milliklassa og er ekkert að bruðla í mat þá duga dagpeningarnir alveg þokkalega. Fyrirkomulagið hérna r öðruvísi en hjá nágrönnum okkar á norðurlöndunum. Þeir fá endurgreiddan útlagðan kostnað. Settar eru ákveðnar skorður við hvað gist er á dýrum hótelum en annars er talið eðlilegt að halda viðkomandi þokkalega í fæði. Þess vegna kom fyrir að þegar maður fór á norræna funi að ég gisti á öðru hótteli en kollegarnir því ég var að spara dagpeningana. Mér hefur lengi fundist þetta dagpeningakerfi einkennilegt. Sérstaklega er það þó einkenilegt þar sem viðkomandi er haldið uppi af móttökulandinu. Þá eru dagpeningarnir orðnir hrein launauppbót. Um þessa launauppbót hjá ákveðnum stéttum virðist hafa ríkt eitthvað samsæri þagnarinnar.

Nú sé ég að það á aðeins að hrófla við þessum dagpeningagreiðslum, en bara aðeins. Ráðherrar og forseti hæstaréttar fengu til dæmis fulla dagpeninga en þar til viðbótar greiddan allann útlagðan kostnað s.s. gistingu og fæði auk annarra hluta. Makar ráðherra fengu 50% dagpeninga auk gistikostnaðar. Nú á að draga úr þessum viðbótargreiðslum við útlagðan kostnað að hluta en ekki að öllu. Maður spyr sig hvers vegna þarf að greiða viðkomandi stjórnmálamönnum og embættismönnum launauppbót á ferðalögum erlendis. Það ætti að vera einfalt fyrir fréttamann að fá uppgefið hvaða reglur gilda um þessi mál á öðrum Norðurlandanna. Samanburðurinn væri fróðlegur.

Það er alltaf jafnleiðinlegt að heyra ambögur og vitlaust mál í fjölmiðlum. Þegar þær fá að fljóta átölulaust þá verða þær smám saman að viðteknu máli. ég hlustaði í dag á tvo náunga spjalla saman um árangur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Annar sagði að það væri ánægjulegt að sjá þær eiga fullt í fangi með bestu lið heims. Að eiga fullt í fangi með eitthvað þýðir að eiga í erfiðleikum með. Að hafa í fullu tré við einhvern þýðir aftur á móti að standa jafnfætis eða vera jafnoki einhvers.

Annar sagði að framundan væru "betri tíðar". Maður segir "betri tíð" og hefur hana í eintölu. Það þýðir ekkert að swegja að þetta sé í lagi því málið taki breytingum. Vitaskuld tekur málið breytingum en það verður að viðhalda ákveðnum grunnreglum. Annars verður málið bara ein vitleysa.

Ég heyrði einnig viðtal í dag við einhver náunga sem annaðhvort var mikill stuðningsmaður Hells Angles eða hann var skíthræddur við þá. Hann sagði meðal annars að grunnstefið í starfsemi Hells Angles væri virðing fyrir sínum félögum og öðrum mótorhjólaklúbbum. Það er eins klárt og dagurinn keur á eftir nóttunni að HA á Norðurlöndum eru hrein og klár glæpasamtök. Þau stjórna eiturlyfjasölu og vændi þar sem þau hafa náð fótfestu. Ég þekki mjög vel þá virðingu sem HA í Kaupmannahöfn bar fyrir Bull Shit samtökunum þar í borg. BS ríkti úti á Amager og réð m.a. yfir eiturlyfjasölunni í Kristjaníu. HA var á Nörrebro og réði markaðnum þar. Það voru stöðug átök milli þessara hópa. Fyrsta alvruárásin var þegar HA drap Makrílinn foringja BS. Hann var skotinn með vélbyssu úti á Amager. Líklega var það árið 1983. Sá sem það gerði stakk af til Kanada og var þar í nokkur ár. Hann gaf sig fram í Danmörku eftir nokkurra ára útlegð og sat af sér refsinguna í Vestre fangelsinu. Hann er nú foringi HA í Danmörku. Ég sá BullShittana einu sinni úti á Vesterbro. Þeir fóru þar um í stórri fylkingu með ekkju Makrílsins í broddi fylkingar. Virðing HA fyrir þeim var nú ekki meiri en svo að þeir hættu ekki fyrr en þeir höfðu drepið þá flesta og eyðilagt BS klúbbinn algerlega. Þá hófust átök við Bandidos sem var annar klúbbur sem hafði stækkað mjög í Svóþjóð og Noregi. Eftir átök um nokkurra ára skeið þá sömdu þeir frið og skiptu eiturlyfjamarkaðnum á milli sín. Nú eiga HA í stríði við glæpasamtök af innflytjendauppruna og ríkir í sjálfu sér nokkurskonar borgarastyrjöld í Kaupmannahöfn vegna þessa. Nær þrjátíu skotbardagar hafa átt sér stað að undanförnu. HA leitar allra leiða til að ná fótfestu hérlendis og hafa alið upp stuðningsklúbb í þessu sambandi. Sem betur fer hafa lögregluyfirvöld gert allt hvað þau geta til að halda þessari óværu frá landinu. Spurning hve lengi það tekst. Svo er maður að hlusta á einhverja einfeldninga reyna að telja landsmönnum trú um að hér séu bara saklausir skátadrengir á ferðinni.

Það er alltaf gaman að sjá þegar fótboltamenn bera það sterkar taugar til klúbbsins sem hefur gefið þeim mikið að þeir ganga aftur til liðs við hann þrátt fyrir að hann sé staddur brekku í stað þess að hafa það eina markmið að kreista eins marga dropa úr sítrónunni eins og mögulegt er. Maður hefur séð alltof mörg dæmi um slíka hluti. Það voru því góðar fréttir að sjá í dag að Jökull Elísabetarson Jökulsdóttir hefði gengið á nýjan leik til liðs við Víking. Jökull hefur verið við nám í Bandaríkjunum og einnig spilað þar fótbolta. Hann var m.a. valinn í úrval til að keppa um sæti í bandarísku atvinnumannadeildinni. Jökull spilaði í nokkur ár með Víking undir stjórn Sigga Jóns og gerði þar góða hluti. Hann fékk ekki tækifæri hjá KR frekar en ýmsir aðrir uppaldir KRingar þegar hann var yngri. Hann gekk þá í Víking og varð þar að alvöru fótboltamanni. Tryggð Jökuls við Víking er öllu meiri en ýmissa annarra sem Siggi Jóns gerði að góðum fótboltamönnum á sama tíma og Jökul. Það ber að þakka og virða.

fimmtudagur, mars 05, 2009

The Monkees - I'm a Believer

Snjótittlingur í Bláa Lóninu

Ég minntist um daginn á Ingemar Johansson, hinn mikla sænska boxara, sem sigraði heiminn með sínum fræga hægri hnefa. Champ verður alltaf champ. Ingemar fluttist síðar til Bandaríkjanna og bjó þar árum saman. Í Bandaríkjunum eru steikurnar stærri en í öðrum löndum og aðrir matarskammtar gjarna íburðarmiklir. Því þyngjast margir hraustlega sem búa í Bandaríkjunum. Svo varð um Ingemar. Hann var alltaf stór að vexti en bætti mikið á sig í Bandaríkjadvölinni. Þó lék hann tennis reglulega og skokkaði alltaf dálítið. Svo var það árið 1981 að hann ákvað að taka þátt í Stokkhólmsmaraþoni. Á þeim tíma var maraþonhlaup ekki orðin að þeirri almenningsíþrótt sem hún er nú. Íslendingar þekktu varla maraþonhlaup nema af afspurn á þessum árum. Ekki veit ég hvernig það bar til að hann lét sig hafa þetta en sama var. Með númer 7731 á bolnum mætti hann til leiks. Þetta vakti gríðarlega athygli í Stokkhólmi. Áhorfendur að Stokkhólmsmaraþoni höfðu aldrei verið jafnmargir eins og þetta sumar. Margir vildu sjá kappann sem var fyrir löngu orðinn dýrlingur í Svíþjóð. Með öðrum bærðist vafalaust einhver Þórðargleði yfir því að maraþonið myndi sigra Ingo og hans mikla skrokk. Þetta ár var hann svona 46 ára gamall og milli 110 og 120 kg að þyngd. Þegar hlaupið hófst fór Ingo frekar hægt yfir en hélt þó jöfnum hraða. Hann gekk upp brekkur en skokkaði á flatlendi. Hægt en örugglega pjakkaði hann áfram. Þrátt fyrir að hitinn væri mikill lét hann sig ekki. Hverja tíu kílómetra fór hann á góðum klukkutíma. Það var meiri hraði en hjá mörgum öðrum. Gamla seiglan gerði vart við sig. Aldrei að gefast upp. Að lokum náði hann í mark á 4 klst og 40 mínútum. Það er fínn tími hjá hálffimmtugum manni sem ekki hefur hlaupið mikið og er nær 120 kíló á þyngd. Seiglan og styrkurinn var enn til staðar. Svíum þótti enn vænna um INGO sinn eftir hlaupið. Hann var hetjan.

Það voru svakalegar tölur sem vísindamenn birtu um hvað hrefnan étur af fiski. Nær 300 þúsund tonn af bolfiski fyrir utan allt hitt. Þorskar sem voru upp í 80 cm fundust í maga þeirra. Það er golþorskur. Hrefnan ein étur þannig nær því tvöfaldan þanna afla sem veiddur er af hérlendum skipum. Ég ætla rétt að vona að þetta séu skotheldar niðurstöður því þær geta verið grundvöllur að baráttu í áróðursstríðinu um hvalveiðar. Það er náttúrulega gjörsamlega óþolandi af láta þessa þróun halda áfram óáreitta. Hrefnunni fjölgar óáreitt þá þýðir það ekki annað en að það verður minna og minna eftir handa skipunum. Hrefnan virðir engan kvóta. Hún hefur enga sóknardaga.

miðvikudagur, mars 04, 2009

Jethro Tull - Aqualung

Þátttakendur í fyrsta 100 km hlaupi hérlendis og allir kláruðu

Guðmundur Magni og Börkur komu á smá fund í kvöld. Málefnið var að hrinda af stað undirbúningi fyrir 100 km hlaup sem haldið verður laugardaginn 6. júní n.k.. Það varður haldið á sama stað og sl. sumar. Hlaupið verður eftir 10 km slaufu í Fossvogsdalnum og inn að Gullinbrúnni. Drykkjarstöð á báðum endum en miðstöð í miðjunni í Elliðaárdalnum. Hlaupið er eins einfalt í útfærslu og hugsast getur. Undir styrkri forystu Ágústar forseta var tekin saman nákvæm lýsing á undirbúningi hlaupsins frá því í fyrra. Einnig var farið yfir framkvæmdina eftir hlaupið og tekið saman það sem betur mátti fara. Þannig er afar auðvelt að renna í gegnum framkvæmdina í ár en Ágúst verður fjarri góðu gamni. Við byrjuðum á að skipta með okkur verkum en ætlunin er að halda stærri fund undir lok mánaðarins til að kalla menn til verka og skipta enn frekar með sér verkum. Það er eitt af mörgu góðu við þennan hóp að það eru alltaf margir boðnir og búnir til að leggja hönd á plóginn.

Þeir sem ætla að taka þátt í hlaupinu þurfa að fara að stefna á það nú þegar. Það eru þrír mánuðir til stefnu. Það er misskilningur að það þurfi einhvern rosalegan undirbúning undir 100 km hlaup ef markmiðið er að klára það undir tilskyldum tímamörkum. Það þarf að hlaupa reglulega svona 70 - 100 km í viku og taka nokkur löng hlaup (30 - 40 km). Síðan þarf að skipuleggja sig vel og huga vel að næringunni í hlaupinu.

Hlaupið í fyrra tókst mjög vel og náðu margir að sjá gamlan draum rætast um að klára 100 km. Nú er bara að sem flestir setji sér skýr markmið og stíli æfingar upp á að klára 100 km hlaup í júní byrjun. Þeir verða svo orðnir góðir til að taka þátt í Laugaveginum.

Ég næ því miður ekki að taka þátt í hlaupinu í þetta sinn. Ég er búinn að ákveða að fara í 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi dagana 22. - 24. maí. Það var að brjótast í mér að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í 24 tíma hlaupi en það verður að bíða þetta árið. Ég get sem best farið í það á næsta ár ef skrokkurinn verður í lagi. Mig langar meira til að klára 48 tíma hlaup. Það er meiri áskorun. Markmiðið verður að fara vel yfir 300 kílómetra. Það á að verða hægt ef maður skipuleggur sig vel og allt er í lagi. Það getur hins vegar margt gerst á langri leið.

Æfingar ganga fínt og alveg eftir plani. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hljóp ég rétt tæpa 1000 km. Það er sama vegalengd og tveir lengstu mánuðirnir voru þegar ég var að búa mig undir Western States fyrir fjórum árum. Nú er þetta bara viðhald. ég hef alltaf hlaupið úti í vetur og aldrei farið inn. Ég er þó að spökulera í að fá mér kort í einn mánuð til að taka hraðaæfingar inni á brettinu. Það er heldur agaðra að hlaupa á bretti og marður setur öðruvísi og skýrari markmið.

þriðjudagur, mars 03, 2009

Uriah Heep; Easy Living

Andartak í Bláa lóninu

Enron myndin í gærkvöldi veitti magnaða innsýn í þann spilavítishugsunarhátt sem ríkti hjá þessu fyrirtæki. Fyrirtækið vann sig upp í að verða eitt af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna með allskyns bellibrögðum en svo þurfti ekki nema einfaldar spurningar blaðamanns sem var með ákveðna rökhugsun í lagi sem komu skriðunni af stað. Það var magnað að sjá hvernig verðbréfamarkaðurinn tók völdin hjá fyrirækinu svo að hækkun hlutabréfanna varð að lokum það eina sem skipti máli. Besta fyrirætki í heimi varð lokatakmarkið. Maður spyr sig hvernig átti að fá hlutabréfin til að hækka enn frekar þegar því marki var náð. Það var allrar athygli vert hvaða tökum bandarískt þjóðfélag tók piltana sem höfðu leitt Enron. Það voru engin vettlingatök. Þweir voru einfaldlega settir inn og grillaðir fyrir þingnefndum. Forstjórinn sem hafði verið orðaður við ráðherrastól hjá Bush stjórninni fékk 25 ára fangelsi, takk fyrir. Sökin va rað tugir þúsunda höfðu misst vinnuna og lífeyrissparnað og enn fleiri tapað stórfé vengna hlutabréfakaupa. Verðið á fyrirtækinu hafði verið skrúfað upp með dúbíus aðferðum.

Magnað var að sjá hvernig flestar aðferðirnar sem beitt var í Enron hneykslinu höfðu verið yfirfærðar á Ísland. Hér var bara ekki eitt fyrirtæki undir heldur landið allt. Hluthafar, fólk sem hafði lagt fyrir, húseigendur, almennir skattgreiðendur, ófædd börn, allir tapa gríðarlegum fjármunum. Engu að síður hefur enginn verið svo mikið sme yfirheyrður, hvað þá settur í grjótið. Það er eitthvað verið að væla um að grófasta liðið eigi að sýna þann manndóm að skila fénu aftur en ekkert er gert. Forstjóri Enron var orðaður við ráðherradóm í USA, var ekki farið að tala um að gera Bjarna Ármannsson að forseta meðan allt lék í lyndi. Eitthvað minnir mig að svo hafi verið.

Það kemur náttúrulega í ljós í svona málum hve rosalegu máli það skiptir að hafa fjölmiðla í landinu sem hafa sjálfstæða hugsun og þora að spyrja gagnrýninna spurninga. Þegar fjölmiðlamenn eru helteknir af þögguninni og þora ekki að stinga hausnum út undan skelinni þá er ekki á góðu von. Ábyrgð þeirra er nefnilega mikil og undir henni stóðu þeir ekki hérlendis.

Frá því ég man fyrst eftir mér þá hefur verið auglýst af og til í útvarpinu að krabbameninsleit í konum væri framkvæmd hér eða þar á landinu. Allt gott um það. Þegar stundir liðu fram þá áttaði ég mig á þvi að karlar fá krabbamein ekki síður en konur. Engu að síður er ekkert kerfi í gangi sem reynir að draga úr áhrifum þessa sjúkdóms á karla. Ég hringdi niður í Krabbameinsfélag í fyrra og fór að spyrja um þessi mál, mér til fróðleiks. Það sóð ekki á góðum viðbrögðum og mér var boðið niðureftir í mat. Kristín Agnarsdóttir tók á móti mér af miklum vinskap og myndarlegheitum og sýndi mér margt og skýrði annað út. Hún sagði m.a. að fjárskortur hamlaði því hvað félagið gæti gert í þessum málum. Þá var Krabbameinsfélagið að befa út fyrsta bæklinginn í sögu félagsins sem beindist að körlum. Þýddur og staðfærður úr norsku. Í gær kom bæklingur númer tvö í íslandssögunni sem fjallaði um krabbamein hjá körlum. Í honum var því sem næst eingöngu fjallað um áhrif mataræðis á krabbameinsmyndun. Allt í lagi með það en mér hefði fundist betra að hafa meira konkret upplýsignar um hvernig karlar geta látið kanna hvort líkur séu á krabbameinsmyndun eða ekki og hve mikilvægt er að láta framkvæma svona test. Þrátt fyrir að karlaskoðunin séu ekki 100% örugg þá eru hún betri en ekkert test. Það fá nefnilega fleiri karlar krabbamein á Íslandi heldur en konur.
talandi um fjárskortinn hjá Krabbameinsfélaginu þá sá ég að líklega er bæklingurinn alfarið fjármagnaður með auglýsingum frá styrktaraðilum. Það er víða matarholan svo erfitt er að kaupa þau rök að fjárskortur hamli því að hægt sé að halda úti upplýsingum og áróðri fyrir karla jafnt sem konur í þessum málum.

sunnudagur, mars 01, 2009

Canned Heat; On the Road Again

Þuríður Sigurðardóttir var glæsileg að vanda

Þegar vandamál steðja að fjöldanum er eðlilegt að leitað sé lausna. Í meginatriðum eru tiltvær aðferðir í slíkum tilvikum. Í fyrsta lagi eru flatar aðgerðir sem ná til allra, sama hvort þeir eru í vandræðum eða ekki. Í öðru lagi eru einstaklingsmiðaðar aðgerðir sem beinast að einstaklingnum og taka mið af stöðu hans og möguleikum. Margir eru nú illa staddir vegna þess að þeir eiga í vandræðum vegna mikilla skulda. Þeir geta átt í vandræðum með skuldir vegna þess að þeir hafa misst vinnuna og eru því komnir í vandræði enda þótt skuldir hafi verið innan skynsamlegra marka fyrir hrunið. Fólk getur einnig verið í vandræðum vegna þess að þeir hafi spennt bogann til fullnustu fyrir hrunið og standa varnarlausir gagnvart áföllum eins og þeim sem nú ríða yfir. Síðan eru þeir sem skulda lítið og eru ekki í vandræðum sem stendur.

Ég heyri frá kunnugum að ýmsir þeirra sem hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu um hvernig hrunið hafi leikið þá hafi í mörgum tilvikum verið komnir með allt niður um sig meðan allt gangverkið gekk eins og það átti að gera. Það er alltaf til fólks em fer fram á tæpustu brún þar sem ekkert má út af bregða.

Fram hefur komið tillaga um að skera niður skuldir einstaklinga og fyrir tækja um 20%. Það flokkast undir flata aðgerð sem gengur beint yfir alla. Það er óskynsamleg tillaga að mínu mati. Skuldir yrðu færðar jafnt niður og dreyft á almenning án tillits til stöðu hvers og eins. Með því væri verið að færa niður skuldir hjá þeim sem þurfa ekki á því að halda. Ef á að aðstoða almenning með almannafé þá er miklu skynsamlegra að gera það samkvæmt umsóknum. Í kreppunni eftir 1930 var settur upp kreppulánasjóður. Hann keypti eignir af einstaklingum sem höfðu lent í vandræðum en rak viðkomandi ekki burt. Þegar batnaði í ári var þessu fólki gert kleyft að kaupa eignirnar aftur. Þannig voru bújarðir víða í eigu kreppulánasjóðs fram eftir öldinni. Ábúandinn leigði jörðina af sjóðnum. Hann gat svo keypt jörðina þegar fjárhagsurinn batnaði. Á þennan hátt horfði ríkið til langs tíma og reyndi að lágmarka tap ríkis og einstaklinga. Aðgerðir sem beinast að einstaklingnum en ekki að heildinni eru miklu skynsamlegri, vænlegri til árangurs og nýta fjármagnið miklu betur en flatar aðgerðir sem dreift er yfir alla eins og skít af skóflu.

Ef stjórnvöldum berast tilkynningar um að alvarleg hætta steðjar að landi eða þjóð þá á að setja ákveðinn prósess í gang til að mæta ógnuninni. Markmiðið hlýtur að vera að afstýra hættunni eða í öllu falli að lágmarka skaðann sem hún getur valdið. Viðkomandi stofnanir eru settar í viðbragðsstöðu og aðgerðaáætlun ákveðin. Stofnunum er síðan falið að vinna ákveðin verk í tengslum við aðstæður hverju sinni í sambandi við aðgerðaáætlunina. Stjórnvöld bera ábyrgð á því að aðgerðir séu samræmdar, að unnið sé eftir þeirri aðgerðaáætlun sem er í gildi hverju sinni og þau taka nýjar ákvarðanir ef ástæða þykir til og aðstæður breytast. Stjórnvöld geta ekki sent tilkynningar um að hætta sé yfirvofandi til undirstofnana sinna og sagt: "Þið sjáið svo bara um þetta".

Þrjátíuogfjórir km lágu í morgun í fínu veðri.

The Doors Alabama Song