laugardagur, desember 31, 2005

Nú er runninn upp síðasti dagur ársins. Myrkur úti en það er þó alltaf góð tilfinning að vita af því að dag er heldur tekið að lengja. Þetta hefur verið gott ár, eins og reyndar öll árin sem liðin eru. Meðan krakkarnir standa sig vel og eru heilbrigð og maður heldur sjálfur góðri heilsu þá er nú flest í lagi. Afstaða manns sjálfs skiptir miklu máli um andlega og líkamlega vellíðan. Ef maður væri sífellt að velta fyrir sér að einhver annar ætti betri bíl, hefði hærri laun, ætti meiri pening og ég veit ekki hvað og þessi munur væri dæmi um óréttlæti þjóðfélagsins þá væri býsna dimmt fyrir augum flesta daga ársins. Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum og ekki seinna vænna að það það er undir því komið hvað maður gerir sjálfur hver staða manns í lífinu er og það er hver sinnar gæfu smiður. Ég gleymi því ekki að slys eða veikindi geta hent hver sem er og ekki skal gert lítið úr afleiðingum þeirra en að öðru leyti ræður maður sínum næturstað nokkuð sjálfur. Það er nefnilega einn af stóru kostunum við að búa í þjóðfélagi eins og er hérlendis. Einstaklingurinn hefur óendanleg tækifæri bara ef hann vill og nennir að nýta sér þau.

Ég horfði aðeins á svokallaða álitsgjafa í sjónvarpinu í gærkvöldi í Kastljósinu. Það setur að manni hroll þegar maður heyrir sumt fólk fjasa um hvað allt sé ömurlegt í þjóðfélaginu, misskiptingin mikil, stjórnvöld ömurleg, óréttlæti í hverju horni o.s.frv. o.s.frv. Árið sem er að líða hefur verið frábært fyrir land og þjóð á flestan hátt. Það má ekki gleymnast að það er einungis 300 þúsunda manna hópur sem býr hér úti í Atlandshafinu. Lífskjör eru góð, atvinna mikil, menntunarstig hátt, heilbrigði mikið og gríðarlega margt færist til betri vegar þó mörgu sé ólokið eins og gengur. Síðan eignuðustum við fegurstu konu heims og Evrópu-,Englands-, Svíþjóðar-, Danmerkur- og Þýskalandsmeistara í hópíþróttum (kannski gleymi ég einhverjum) á árinu. Við eigum Norðurlandameistara í bókmenntum, heimsmeistara í spennusagnagerð, klippimeistara í kvikmyndagerð, heimsmeistara í Suðurpólsakstri og ég veit ekki hvað. Leikhúsfólk, tónlistarfólk og Latibær eru að gerða garðinn frægann. Þetta þykir kannski ekki mikið miðað við það stórþjóðirnar afreka en það er ekki sjálfgefið að það séu íslendingar sem ná þessum árangri en ekki einhverjir aðrir sem koma úr stærri og öflugri samfélögum. Það er fyrst og fremst sterkur þjóðfélagsgrunnur sem skapar forsendur til þess að hæfileikar einstaklinganna fái að njóta sín. Lífskjör þjóðarinnar eru þannig að það eru ekki margar þjóðir sem standa okkur jafnfætis í þeim efnum. Ný auðlind sem er vel menntað fólk á viðskiptasviðinu hefur skotið styrkri stoð undir samfélagið til viðbótar við það sem fyrir var. Vitaskuld eru aðstæður misjafnar eins og í öllum þjóðfélögum en misskiptingin er örugglega minni hér en í flestum nálægum löndum, hvað þá ef lengra er leitað. Sjálfskipaðir vitringar í fjölmiðlum halda því ítrekað fram að Ísland sé ekki lengur stéttlaust þjóðfélag og það sé dæmi um sívaxandi misskiptingu. Halda menn t.d. að það hafi ekki verið meiri stéttskipting til dæmis í kreppunni á síðustu öld en er nú? Þeir sem halda öðru fram vita ósköp lítið um hvað þeir eru að tala.

Fór í gærkvöldi með krökkunum að kaupa fýrverkerí. Höfum farið vel á annan áratug á sama staðinn og verslum við sama manninn. Verslum eftir mottóinu fátt og stórt er betra en margt og smátt.

Ég þakka þeim fjölmörgu sem hafa kíkt á þessa spjallsíðu á árinu. Heimsóknir eru orðnar vel yfir 20 þúsund sem er miklu meira en ág átti von á. Ég setti hana upp í upp í upphafi sem svipu á sjálfan mig og brenndi þar með allar brýr að baki mér við undirbúning að þáttöku í WSER. Hún hefur síðan þróast yfir í að ég læt hugann reika um það sem mér finnst efst á baugi hverju sinni ásamt hlaupatengdum vangaveltum í bland. Einstaka sinnum hef ég nálgast mörk þess sem er heppilegt en einnig hef ég séð að það er hægt að hafa áhrif með því að láta skoðanir sínar í ljós á þennan hátt. Það er kannski ekki til vinsælda fallið á öllum vígstöðvum en meðan maður er samkvæmur sjálfum sér þá hef ég ekki áhyggjur af því. Ég hef einnig fengið fjölmörg jákvæð viðbrögð við þessum vangaveltum og það er alltaf gaman að slíku. Ég sé einnig að það er gaman að geta rennt yfir árið og rifjað upp hvað var manni efst í huga á hverjum tíma.

Í fyrramálið ætla ég að renna yfir sett markmið á nýju ári.

Gleðilegt komandi ár og kærar þakkir fyrir það liðna.

fimmtudagur, desember 29, 2005

Næst síðasti vinnudagur ársins. Hann leið án stórátaka en það var dundað við eitt og annað. Það er merkilegt hve árin líða hratt núna eins og manni fannst þau vera lengi að líða hér áður. Hvert ár var heil eilífð en nú er hvert þeirra varla byrjað þegar það er á enda runnið. Mestu máli skiptir þó að enda þótt árin líði hratt þá eru þau býsna góð og fara batnandi ef eitthvað er á svo margan hátt.

Ég er ekki alveg að ná því sem máli skiptir í umræðunni um Kjaradóm. Vafalaust fer hann eftir þeim reglum sem honum er gert að vinna eftir. Ef stjórnvöld eru ósátt við niðurstöður dómsins þá þarf að breyta reglunum. Það er út í hött að ætla honum að taka upp fyrri úrskurð sinn ef ekki er hægt að benda á dæmi þess að rangt hafi verið reiknað. Þá er þetta ekki lengur kjaradómur heldur reikniverkfæri ríkisstjórnar hverju sinni. Þá er eins gott að fela góðum excelmanni í fjármálaráðuneytinu að reikna út hækkanirnar.

Ég tek hins vegar undir áhyggjur þeirra sem eru hræddir að það séu ýmis hættumerki á vinnumarkaði. Það þarf mjög lítið til að það fari alger hringavitleysa af stað. Dæmi um það sjást í Kópavogi þar sem blásið er á nýgerða samninga og farið að krefjast hærri launa. Stéttarfélög viðkomandi stétta kynda undir umræðuna og skipuleggja hana enda þótt þau segi formlega að það ríki friðarskylda. Fjölmiðlar gera síðan eins mikið úr því sem betur mætti fara eins og mögulegt er. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hvað það vanti hlutfallslega marga leikskólakennara í Kópavogi enda þótt ástandið sé erfitt þar sem vantar fólk. Er neyðarástand enda þótt vanti 5% starfsmanna í leikskólum eins sveitarfélags? Þarf að hækka laun allra til að ná að manna þessi 5% sem eru ómönnuð? Á það ber að líta að það er háspenna á vinnumarkaði og spurning hvort sveitarfélögin geti alltaf og ævinlega fylgt toppunum í launaskriðinu upp í efstu hæðir hverju sinni. Þetta er vandi þeirra sem eru að fást við að reka sveitarfélögin í ástandi eins og nú ríkir. Spurning er hvenær á að hífa og hvenær að slaka?

Fór góðan hring í hverfinu í kvöld. Finn að kílóunum hefur aðeins fjölgað síðustu viku. Það eru fín kjör sem Frjálsíþróttahúsið bíður upp á fyrir skokkara. Þúsund kall á mánuði fyrir aðgengi að sal og lyftingagræjum. Þetta er miklu betra en að kaupa sér árskort. Ég keypti mér eitt slíkt í janúar og notaði það fram í mars, en þegsar fór að hlýna þá nennti ég ekki lengur að pjakka inni.

Vettvangsskoðun við Kárahnjúka

Posted by Picasa
Dagurinn í gær var ekki einn af þeim sem skilur eftir sig stór spor. Hann leið hjá án stórra viðburða. Hitti gamlan félaga frá Raufarhöfn fyrir hádegi. Sátum góða stund og ræddum ýmsa hluti, bæði hvað varðar fortíð og framtíð. Hann hefur staðið sig vel og gert góða hluti á ýmsan hátt. Talandi um norðausturslóðir þá heyrði ég viðtal við Jón lögreglu á Þórshöfn í kvöldfréttum útvarpsins í gærkvöldi. Hann hafði áhyggjur yfir vaxandi fíkniefnanotkun krakkanna í þorpunum á norðausturhorninu. Það er alveg á hreinu að staða mála er ekki betri í þessum litlu samfélögum hvað þetta varðar en í hinm stærri. Kunningjahópurinn er afar þröngur á þessum stöðum og það þarf sterk bein til að standast félagaþrýstinginn. Einn skúrkur getur gert stóran skaða í þessum samfélögum. Verst var þó að heyra að lögreglan skyldi ekki síður eiga í vandræðum með foreldrana þegar hún væri að vinna í svona málum.

Horfðum á leikina á Skjánum í gærkvöldi. Ýmsir fóru illa. Chelsea vann City með heppnismarki en Man. Utd. náði aðeins jafntefli við Birmingham. Birmingham af öllum liðum. Ohh. Heiðar Helguon átti góðan leik með Fulham og er að gera sig gildandi sem framherji liðsins. Ískaldur rúllaði hann boltanum í mark eftir að hafa náð markverðinum til hliðar í vítinu. Glæsilegt hjá honum.

Las góða sögu nýlega. Faðir Julio Iglesias stórsöngvara dó nýlega, níræður að aldri. Hann lét meðal annars eftir sig 2ja ára gamlan son. Þeir feðgar hafa verið nokkuð upp á kvenhöndina gegnum árin og sonurinn þó öllu stórtækari. Gott ef hann er ekki í heimsmetabók Guinnes fyrir afrek í bólförum. Þriðji ættleggurinn, Iglesias jr. er einnig að koma til á þessum vettvangi og þykir efnilegur. Hann reyndi nýlega fyrir sér með viðskiptahugmynd sem gerði þá eldri Iglesiasa æfa af bræði. Viðskiptahugmynd þess yngsta var að framleiða smokka í stærðinni X Small.

Ég hef horft á nokkrar finnskar myndir að undanförnu.Við höfum verið að skiptast á þeim í vinnunni. Ég keypti mér Rokkað i Vittulla í Helsingfors í haust. Þetta er ein besta mynd sem ég hef sé, tragikomisk stútfull af svörum húmor. Minnir töluvert á Djöflaeyjuna. Hún er gerð eftir samnefndri bók sem gerist í þorpinu Pajala í Norrbotten á sjöunda áratugnum þegar Bítlarnir eru að koma fram. Í Pajala veltur á ýmsu sem félagsráðgjafar nútímans myndu varla líða en kunnugir segja að svona hafi þetta bara verið og ég trúi því vel.

Svo horfði ég á myndina Paha Maha eða Kalda landið eins og hún heitir á íslensku. Myndin byrjar á því að menntaskólakennara er sagt upp störfum og hún fjallar síðan um afleiðingar þess á ákvrðnu tímabili. Þær eru vægast sagt hrikalegar eins og við er að búast hjá Finnum, þrjú morð eru framin og einhverjir fleiri láta lífið í tengslum við þetta o.s.frv. o.s.frv. Mjög vel gerð mynd og heldur manni alveg föstum.
Síðast horfði ég á fjögurra mynda samstæðu eftir Auri Kaurismaki. Hann gerði meðal ananrs myndina Týndi maðurinn sem var sýnd í sjónvarpinu fyrir skömmu. Þessar eru allar sérstakar hver á sinn hátt og allar svarthvítar. I hired a contract killer, Juha, Bóhemarnir og Hamlet goes business. Myndin I hired a contract killer fjallar t.d. um að þunglyndur maður sem sér ekkert framundan en hefur sig ekki í að fremja sjálfsmorð ræður leigumorðingja til að ljúka verkinu. Síðan snýst honum hugur og reynir að rifta samningnum en leigumorðinginn er ekki maður sem gengur á bak orða sinna og hættir við hálfnað verk heldur vill standa við gerðan samning. Svolítið stressandi staða fyrir verkkaupann. Það er afar upplífgandi að sjá myndir úr öðrum kvikmyndaskóla en þessum ameríska. Danskar kvikmyndir eru einnig afar góðar. Þeir hafa mjög sterka kvikmyndahefð sem bregst ekki.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Fór í Fífuna í morgun með Maríu. Hún var þar að spila á jólamóti HK og Blikanna með stöllum sínum í B liði í 4ða flokki. Þær stóðu sig vel og féllu á hlutkesti frá því að komast í úrslitaleikinn. Síðan spilaði hún þar á eftir með A liðinu og þar náðu þær 2. sæti. María er harðskeyttur framherji sem skorar mikið af mörkun. Sprettæfingar hjá Ármanni hjálpa henni vafalaust mikið því hún hleypur flestum hraðar. Gaman að fylgjast með stelpunum hjá Víking og sjá hvað þeim hefur farið mikið.

Tók hring í hverfinu í dag. Tímamótadagur því þar með skreið ég yfir 3000 km hlaupna á árinu eða um tvo hringi umhverfis landið. Að meðaltali eru þetta nær 60 km á viku. Það er það mesta sem ég hef hlaupið til þessa. Þó ber að minna á að það það þarf ekki að fara saman magn og gæði. Þegar Sigurður P. var upp á sitt besta hljóp hann um 4000 km á ári og vafalaust allt gæðaæfingar. Ég hef verið frekar latur í haust en er í góðum gír og til í allt. Áætlun fyrir næsta ár verður birt á nýársdag.

Ég gerðist nýlega áskrifandi að tímaritinu Þjóðmál. Mér finnst akkur að svona tímaritum sem kryfja málin til mergjar á dýpri hátt en dagblöðin megna yfirleitt að gera. Ég furða mig hins vegar á því hvað lítil umræða hefur orðið um þær ágætu greinar sem þarna birtast. Manni finnst að margt af því sem tekið er upp til umræðu í útvarpi og sjónvarpi sé úr slíkum fjaðurviktarflokki að því væri tekið fagnandi ef eitthvað birtist sem krufið væri meir til mergjar. Ég held að lágkúran hafi orðið hvað mest þegar einhver feministinn var fenginn upp í útvarp að diskútera grein sem hún hafði skrifað í Moggann daginn áður en þar lýsi hún því hvað henni hafði orðið illa við þegar hún vaknaði af værum blundi og heyrði rapptexta fluttan (þetta er varla söngur) þar sem komu fyrir orðin motherfucker og bitch. Um þetta var fimbulfambað fram og til baka langa stund. Þegar slíkt rugl er tekið til umræðu í ríkisútvarpi allra landsmanna finnst manni ekki úr vegi að greinar eins og "Innflytjendur og íslam í Evrópu", "Er launamunur kynja blekking?" og "Dagskrárvald Baugs: Saga misnotkunar" séu teknar til umræðu. Aldeilis ekki. Nú ræður þögnin ein. Enda þótt menn séu ekki sammála niðurstöðum er full ástæða til að ræða hlutina út frá fleiru en einu sjónarhorni.

Ég les reglulega nokkrar bloggsíður. Maður finnur fljótt hvar er líklegt að eitthvað áhugavert sé í pottinum. Á aðrar kíkir maður kannski einu sinni í viku. Oft er það of oft. Ein sú best skrifaða bloggsíðan sem ég skoða er síða Össurs Skarphéðinssonar þingmanns. Hann er góður penni, víðlesinn og skemmtilegur. Svo er hann pólitískur. Fyrir nokkrum dögum kom hann inn á mál sem hefur orðið mér umhugsunarefni. Össur er formaður fyrir SPES samtökunum sem hafa að markmiði að safna fjár til að byggja þorp fyrir munaðarlaus börn. Samtökin, sem eru aðeins fimm ára, eru komin vel áleiðis með fyrsta barnaþorpið. Það er í Togo í Afríku. Spes þýðir VON.

Þetta er gott og fagurt markmið. Ég efa ekki að Össur hefur tekið þetta verkefni að sér af sannfæringu og fylgir því eftir af miklum krafti eins og honum er von og vísa.

En hvaðan koma peningarnir?

Tilvitnun í skrif Össurar:

Til þessa hefur mestu munað um rausnarlegt framlag minna gömlu vina í Baugi (!). Ég sótti um styrk í Baugssjóðinn þrátt fyrir að hafa eldað grátt silfur fyrr á árum við það ágæta fyrirtæki. Baugur tók Spes opnum örmum. Það var ekki nóg með að Jóhannes í Bónus tryggði fjármagn í heilt hús, heldur bókstaflega bað hann um að starfsmenn Baugs hefðu forgang um að gerast styrktarforeldrar þeirra 20 barna sem í því munu búa. Þegar hann afhenti fyrsta hluta styrksins hefði hann því getað sagt einsog skrifað stóð í lokum bréfs sem hann fékk einu sinni frá líffræðingi héðan af Vesturgötunni: "You ain´t seen nothing yet!"

Þarna leggur Baugur fram fé úr digrum sjóðum til að styðja gott verkefni þar sem þingmaður og kannski síðar ráðherra er í forsvari fyrir. Nú vil ég taka fram að það skiptir mig einu um hvaða þingmaður væri í þessari stöðu, ég er eingöngu að fjalla um principmál.

Mér kemur í þessu samhengi fyrst og fremst í hug máltækið gamla: "Æ sér gjöf til gjalda".

Það er kannski ekkert svo voða heppilegt að þingmenn eða aðrir stjórnmálamenn séu í forsvari fyrir svona verkefni ef þeir ætla að halda sjálfstæði sínu í bráð og lengd.

Heyrði í fyrradag viðtal við Baltasar Kormák þar sem var verið að ræða um nýju myndina hans. Hann talið um að einhverjir fylltust ætíð skaðagleði ef eitthvað gengi ver en ætlað væri. "Skaðagleði" sagði fréttamaðurinn, "'Eg hef aldrei heyrt þetta orð áður". "Jú ég bjó þetta orð til fyrir skömmu" sagði listamaðurinn. "Það lýsir því ef einhverjir gleðjast yfir óförum annarra". "Frábært" sagði fréttamaðurinn. Ekki meir rætt um það. Í dönsku er t.d. til orðið "skadefryd" sem þýðir gleði yfir óförum annarra. Vafalaust eru til álíka orð í öðrum norrænum og engilsaxneskum málum enda þótt ég þekki þau ekki. Íslenska orðið um svona viðbrögð er "Þórðargleði" sem á rætur að rekja til Árna prófasts Þórarinssonar og kom fram í víðfrægri æfisögu hans sem Þórbergur Þórarinsson skráði. Mér finnst miklu betra að nota hið hefðbundna orð sem við eigum heldur en að þýða erlend orð sem ná meiningunni ekki eins vel og hið gamla.

Nú eru komnir þrír frambjóðendur til fyrsta sætisins hjá Framsóknarmönnum í Reykjavík. Gott, ekki veitir af. Staðan í Reykjavík er náttúrulega alveg hroðaleg samkvæmt skoðanakönnunum. Mér er nokk sama hvort fylgið er 2,5% eða 4,0%. Að flokkur sem vill höfða til miðjunnar skuli hafa þá stöðu í stærsta sveitarfélagi landsins að 96 -97,5% kjósenda finni enga skírskotun með honum er slík staða að það verður að gera eitthvað mjög róttækt til að breytingar verði þar á.

Búlandstindur

 Posted by Picasa
Var latur í morgun og svaf af mér morgunskokkið sem átti að fara fram. Svona er þetta en frá og með nýju ári verður ekkert svona tekið til greina sem gild afsökun. Dagurinn var heldur rólegur, fótboltinn var dekkaður af mikilli fagmennsku lungann úr deginum. Þrír íslendingar voru á skjánum í þeim leikjum sem horft var á, Hermann, Heiðar og Eiður Smári. Heiðar skoraði djarflegt mark úr víti, líklega sitt fyrsta í úrvalsdeildinni ensku. Allir stóðu þeir sig vel. Nokkur umræða fór fram á heimilinu um nauðsyn þess að láta slag standa og sjá leik í Englandi áður en vetur er á enda runninn. Kostnaður setur nokkuð strik í dæmið en engu að síður eru allir sammála um að þeim peningum sé vel varið, sérstaklega þeir sem gera ráð fyrir að þurfa ekki að reiða þá fram úr eigin vasa. Málið er sett í nefnd.

sunnudagur, desember 25, 2005

Jóladagur að kvöldi kominn. Aðfangadagurinn leið eins og aðrir dagar enda þótt manni hafi fundist þetta vera lengsti dagur ársins hér áður fyrir á árunum. Svo er sem betur fer enn hjá mörgum að mínúturnar eru taldar þar til helgin rennur í garð. Það verður vonandi svo alltaf að litlar manneskjur fyllast óþoli yfir því hve aðfangadagurinn er lengi að líða. Ég sá á bloggsíðu einhvers að hún hafði alist upp við þann sið að opna jólakortin jafnóðum og þau bárust. Síðað hefði hún uppgötvað að það væri meiri stemming yfir því að opna jólakortin á aðfangadagskvöld. Það var alltaf siður í mínu ungdæmi að opna kortin á aðfangadag. Þá var það staðfest af alvöru að jólin voru mætt þegar pabbi fór að opna kortin eftir að komið var inn frá gegningunum, búið að þvo sér og skipta um föt. Ég held þeim sið að opna kortin á aðfangadagskvöld og fer ekki að sofa fyrr en það hefur verið gert. Það er hluti af stemmingu dagsins að fara yfir hverjir senda fjölskyldunni kveðju í tilefni jólanna. Oft fylgja með fjölskyldumyndir sem sýna hvað börnin þroskast og stækka ár frá ári. Ég skil ekki það fólk sem finnst jólakortin skipta engu máli og rífa þau kannski ekki upp fyrr en komið er fram á þrettánda.

Pabbi og mamma voru hjá okkur í gærkvöldi og síðan kom stórfjölskyldan í kaffi síðar um kvöldið. Fyrr en varði var svo komin nótt. Gjafir margar ágætar bárust fjölskyldunni. Krakkarnir gáfu okkur m.a. diskinn með KK og Ellen. Þetta er ein sú besta jólaplata sem ég hef heyrt. Mæli með henni á hvert heimili sem óbrigðulum lykli að jólastemmingunni.

Langaði að taka hring í gær en tími vannst ekki til þess. Fór aftur á móti hring í morgun í rigningu en hlýju veðri.

Mér til undrunar beið kveðja frá Mexíkó í tölvupósthólfinu í morgun. Einhver þarlendur sem hafði verið að surfa á netinu hafði rekist á síðuna og var að þakka fyrir myndirnar sem ég reyni að setja inn flesta daga vikunnar enda þótt viðkomandi skildi ekki neitt í því sem skrifað var. Gaman að því að þær vekji athygli þarlendra. Þarf að rannsaka þetta betur.

föstudagur, desember 23, 2005

Vetrarsólstöður á Rauðasandi

 Posted by Picasa
Óska öllum þeim sem kíkja inn á þessa litlu bloggsíðu gleðilegra jóla.

Fríkirkjan á góðri stund

 Posted by Picasa
Nú er sólin farin að hækka aftur á lofti. Munar lítið en munar þó. Ekkert sólstöðuhlaup var í ár enda erfitt um vik þegar vetrarsólstöður eru inni í miðri viku. Ég hitt kunningja minn á förnum vegi í fyrradag þegar ég var að fara með kortin á pósthús. Hann hefur verið einn af burðarásunum í Ásatrúarfélaginu um langan aldur en er eitthvað farin að hægja á sér. Ásatrúarmenn halda sólrisuhátíð á vetrarsólstöðum eins og komið hefur fram í fréttum. Ég hef tvisvar farið á slíkar samkomur. Önnur var ágæt. Hún var haldin í Stúdentakjallaranum og etið hangikjöt og uppstúf. Kunningi minn ásatrúarmaðurinn fór yfir margt á skömmum tíma og meðal annars yfir tilurð jólanna. Þau eiga rætur sínar að rekja allt aftur til ásanna. Vitaskuld er það eðlilegur hlutur að það sé haldin hátíð þegar sól fer að hækka á lofti og merki sjást um að veturinn og myrkrið láti undan síga. Síðan hefur margt gerst í aldanna rás og kristnir menn hafa eignað sér jólin með því að ákveða að fæðing frelsarans hafi akkúrat borið upp á þennan tíma. Sama er en ég sá það þann vetur sem ég dvaldi í Rússlandi hve mikið vantar þegar tilbreytingin er engin í skammdeginu sem kemur meðal annars af skreytingum og tilstandi margháttuðu sem tilheyrir jólunum.

Ánægjulegt er að sjá að skokkurum hefur verið úthlutað tímum í frjálsíþróttahöllinni nýju. Það skiptir gríðarlegu máli að geta farið þarna inn tvisvar í viku yfir veturinn og telkið æfingar við bestu aðstæður.

Nú verður skötuveisla í kvöld hjá Önnu systur. Hún hefur lengi boðið fjölskyldunni heim á þorláksmessu í skötu. Það er mjög gaman að borða svona karaktersterkan mat sem maður gerir í sjálfu sér alltof sjaldan. Ég minnist þess frá þeim tíma þegar ég bjó út í Danmörku að ein jólin var ég að fara heim vestur á firði. Vegna erfiðleika með flug fór varðskip með skólafólk vestur og skilaði því á firðina. Ég hafði búið á dönsku kollegíi um hausti og borðað þennan karakterlausa en annars ágæta danska mat (svínakjöt, kjúkling, flatfisk með remúlaði, bjúgu o.s.frv.). Í sjóferðinni vestur var heldur illt í sjóinn þannig að maginn var ekki upp á það besta á leiðinni. Við komuna til Patreksfjarðar fór ég í heimsókn til frænda míns og konunnar hans. Þau gáfu mér að borða eftir vistina á hafinu og ég held ég gleymi aldrei hvað mér fannst maturinn góður. Á borðum var það besta sem hægt var að hafa af þessum hefðbundna bragðsterka mat; hangikjöt, skata, sviðasulta, saltkjöt, hveitikökur, rúgbrauð og smjör og ég man ekki hvað. Eftir að bragðlaukarnir höfðu haft heldur lítið fyrr stafni seinni hluta ársins og maginn tómur eftir sjóferðina þá var það þvílík upplifun að fá þennan bragðmikla mat að maður fær enn vatn í munninn við tilhugsunina.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Siglt inn Mjóafjörðinn

 Posted by Picasa
Jólasveinarnir hafa tekið nokkuð pláss að undanförnu eftir að presturinn í Borgarfirði hóf að leita sannleikans. Skemmtilegt var að lesa forystugreinina gömlu úr New York Sun í Blaðinu í gær en þar var þetta mál krufið til mergjar í eitt skipti fyrir öll og niðurstaða fékkst. Óumdeild.

Ég minnist þess að í tólf ár samfleitt fór ég á eins oft og ég gat á jólaföstunni í Þjóðminjasafnið og Ráðhúsið með krakkana þrjá, hvern á fætur öðrum, til að sjá jólasveinana. Þetta byrjaði þegar ég var nýfluttur aftur til landsins með Svein og vildi sýna honum þjóðlegheitin. Í upphafi þegar Þjóðminjasafnið fór að láta jólasveinana koma fram voru þetta örfáir foreldrar sem komu með krakkana. Þeir söfnuðust í kringum stigann sem lá upp á aðra hæð þar sem sveinki kom niður og spjallaði við börnin. Síðan fór sjónvarpið að sýna smá innslag frá þessu í fréttunum og það endaði með því að salurinn var orðinn svo fullur að maður þurfti að mæta snemma til að geta séð eitthvað. Jólasveinarnir voru eins misjafnir og þeir voru margir en alltaf var þetta góð tilbreyting og alla hlakkaði til að fara að sjá jólasveinana.
Mér fannst Ráðhúsið aldrei ná sömu stemmingu eins og Þjóðminjasafnið í þessum efnum. Þjóðminjasafnið var meira í stíl. Það tilheyrði að jólasveinarnir spryttu þar fram og það var svo praktiskt að koma ofan af loftinu. Það kom nefnilega fyrir að það sást einhver vera að pukrast fyrir aftan skerminn í Ráðhúsinu áður en jólasveinninn birtist og sá var ekki alltaf klæddur eins og jólasveinn.

Það er fátt verra en að gera upp á milli barnanna á jólunum. Sérstaklega er það slæmt ef þau stærri fá meira en þau minni. Hitt er frekar verjanlegt. Nú hefur kjaradómur gefið sínar gjafir rétt fyrir jólin. Ekki verður betur séð en að þar sé nokkuð ójafnt skipt. Það þýðir lítið í þessu sambandi að vísa í kjaranefnd. Það er svona svipað að réttlæta ójafnar gjafir milli barnanna með því að það sé gert svona í næsta húsi. Mér finnst undarlegt ef kerfið sem niðurstaða kjaradóms byggir á stendur ekki á traustari grunni en svo. Gott að heyra hvað Einar Oddur er samkvæmur sjálfum sér. Ég sá í gær að ýmsir voru að hnussa á bloggsíðum um að það heyrðist líklega ekki mikið í EOK út af niðurstöðu kjaradóms. Karlinn brást heldur betur við og vill bara kalla þingið saman milli hátíðanna til að stja lög á niðurstöður kjaradóms. Líklega skilur enginn alþingismanna betur hættuna á vaxandi verðbólgu en Einar Oddur. Nema ef væri Pétur Blöndal.

Ég sé ekki annað en vankunnandi blaðamenn séu búnir að eyðileggja annars ágætt tæki sem heitir skoðanakannanir. Þær eru ágætt mælitæki til að fá hugmynd um skoðanir fjöldans ef rétt er á málum haldið. Annars eru þær bara ómerkilegt áróðurstæki. Skoðanakönnun byggir á vönduðu en ekki endilega stóru úrtaki þar sem hlutfall þeirra sem sem svara má helst ekki vera undir 75 - 80%. Skoðanakönnum þar sem hlutfall svarenda er 50% er ónýt. Hún segir ekkert um skoðanir fjöldans. Að draga ályktanir af skoðanakönnun sem byggir á slíkum forsendum segir meir um þann sem túlkar niðurstöðuna en niðurstöðuna sjálfa. Ég hef séð birtar niðurstöður úr skoðanakönnun sem byggði á 35% svörun. Það er með ólíkindum hve standardinn er lágur hjá þeim sem vilja kalla sig blaðamenn.

Sá á frétt á visi.is í gær þar sem sagt var að Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur hefðu sameinast Húnavallahreppi. Skyldi "blaðamaðurinn" vita hvar á landinu þessi sveitarfélög eru? Það kannski skiptir ekki máli frekar en svarhlutfall í skoðanakönnunum. Aðalatriðið er að fylla út dálksentimetrana.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Sólfarið að kvöldlagi

 Posted by Picasa
Nú eru jólakortin farin að koma í hús hér í vinnunni. Sumir vinnustaðir senda reyndar jólakveðju á netinu og láta þá peninga sem ella hefðu farið í korta- og frímerkjakaup renna til góðgerðarmála og allt gott um það. Reyndar er voða notalegt að fá jólakort sem er handskrifað. Það er svolítið öðruvísi með fjölrituðu kortin, hvað þá þau sem eru útprentuð af póstinum eins og ég heyrði sagt frá í morgnútvarpinu sem valkosti í jólakortaundirbúningnum.

Í hádeginu las ég á nokkur kort sem voru komin í hús og rakst þá á þessa vísu í einu:

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi.
Móðir þerra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi

Upp á hól
stend ég og kanna
níu nóttum fyrir jól
kem ég til manna.

Þessi kveðskapur var merktur "Þjóðvísa".

Þarna fannst mér eitthvað öðruvísi en ég kannaðist við. Í minni barnæsku var vísan sungin sem svo:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.

Upp á stól
stendur mín kanna
Níu nóttum fyrr jól
þá kem ég til manna.

Endurskoðunarsinnarnir hafa greinilega komist í textabókina og tekið til starfa. Nú á allt að vera rökrétt og í samhengi við staðreyndir. Auðvitað er þessi texti eins og maður kannaðist við hann einhver bulltexti en hvað með það. Að breyta gömlum söngtextum og fara í þrætubókarlist um hvað er rétt og hvað er rangt í þeim efnum er svona svipað að fara í rökræður um hvort jólasveinninn sé til eða ekki til, hvort þeir séu einn, níu (einn og átta) eða þrettán eða kannski bara bara eitthvað allt annað.

Þarf þá ekki að endurskoða vísuna um hann Adam sem átti syni sjö? Í henni stendur á einum stað: "hann sáði, hann sáði, hann klappaði saman lófunum" o.s.frv. Seinni tíma rannsóknir hafa leitt það í ljós að þetta með sáninguna er þýðingarvilla en í danska frumtextanum stendur: "som så, som så" eða "sem sá, sem sá". Adam "sá" sem sagt eitthvað í danska textanum en "sáði" ekki neinu eins og segir í þeim íslenska.

Er eitthvað rökrétt að syngja: "Göngum við í kringum einiberjarunn" þegar gengið er í kringum 3ja metra háan Norrmansþin eða grenitré? Einiberjalyng er jarðlæg planta hérlendis en ekki runni. Hún rís ekki upp heldur er hún eins og krækiberjalyng. Marflöt. Það má vera að hún sé háreistari erlendis þar sem gróska er meiri. Það dytti engum manni í hug að nota slíka plöntu til að ganga í kringum.

Í gær heyrði ég færð gild rök fyrir því í útvarpinu að frelsarinn hefði fæðst í október en ekki í desember. Hmmm.

Jólin eru hefðir, menning, siðir, lykt, ljós, stemming og samvera. Að endurskoða gömlu jólavísurnar og breyta þeim út frá einhverri rökhyggju og þrætubókarlist er villuljós af sama meiði og viðbrögð prestsins í Borgarfirði sem sagði börnunum að jólasveinninn væri ekki til.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Jólastemming á Austurvelli

Posted by Picasa
Er jólasveinninn til? Stórt er spurt. Vitaskuld er jólasveinninn til. Það þarf ekki annað en að litast um á jólaföstunni til að sannfærast um það. Þeim bregður fyrir á ýmsum stöðum, oft mörgum saman. Þarf frekar vitnanna við? Hvar þeir búa er svo annað mál. Hvort það er í Esjunni, á Norðurpólnum eða í Finnlandi skal ég ekki segja um. Búferlaflutningar hafa aukist svo á seinni árum að það er erfitt að henda reiður á búsetu allra. Prestur á Vesturlandi hefur komist í fjölmiðla vegna þess að hann hefur sagt yngstu meðlimum safnaðarins að jólasveinninn sé ekki til. Rökin sem hann færir fyrir þessu er að hann vilji ekki skrökva að börnunum. Þegar maður er búinn að segja A verður oft að segja B í beinu framhaldi. Ég er hættur að reyna að telja krökkunum mínum trú um að það sé allt satt í gömlu þjóðsögunum frá Austurlöndum nær sem þau verða að læra í grunnskólanum. Krakkar eru skynugir og það þýðir ekkert að reyna að telja þeim trú um að eitthvað sé satt og rétt sem stangast á við almenna rökhyggju. Jólasveinninn er allt annað. Hann er hluti af jólunum og aðdraganda þeirra. Jólin eru venjur og siðir, þau eru lykt, þau eru stemming, Þau eru ljósadýrð, þau eru eftirvænting, þau eru hátíðleiki. Það greinir þau frá öðrum helgum þar sem fólk gerir sér dagamun. Það er enginn vandi að tilreiða góðan mat og gefa hvort öðru gjafir en fyrrgreind stemming gerir þau frábrugðin öðrum hátíðum.
Ég man eftir tveimur dæmum um nærveru jólasveinsins frá því að krakkarnir voru yngri og við bjuggum fyrir norðan. Í annað skiptið var ég að koma keyrandi frá Akureyri austur til Raufarhafnar að kvöldlagi á jólaföstunni og hringi heim. María svaraði og hjá henni var staddur lítill vinur hennar. Mér datt í hug að kynna mig sem jólasveininn og talaði við þau nokkra stund sem slíkur og kvaddi svo með tilþrifum. Þegar ég kom austur biðu mín aldeilis fréttirnar. Jólasveinninn hafði hringt og talað við krakkana. Slíkur viðburður hafði ekki gerst áður í þeirra lífi.
Í hitt skiptið vorum við að búa okkur af stað suður í jólafrí. Áður en við lögðum af stað skrifaði yngri strákurinn á miða og setti í alla glugga: "Er ekki heima!"

Hér áður var ég ekki sérstaklega hrifinn af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Skoðanir hans fóru yfirleitt ekki saman við skoðanir vinstri manna á þeim árum. Á seinni árum hefur mér fallið æ betur við málflutning Hannesar. Hvort það er sökum þess að ég hugsa öðruvísi eða hann er hófsamari skal ég ekki segja um nema hvortveggja sé. Hann er ekki einhamur verkaður. Nú síðast réðst hann í það stórvirki að rita sögu Halldórs Kiljan Laxness. Það eitt að hann myndi gera það var næg ástæða þess að öldur risu. Miklar deilur risu eftir að fyrsta bókin kom út og viðurkennd Hannes ákveðin mistök við ritun hennar. Það mál er nú fyrir dómsstólum og fær þar réttláta niðurstöðu. Nú er síðasta bókin komin út. Ég hef ekki lesið hana nákvæmlega en flett henni nokkuð. Atygli vekur að heimldaskrá er jafnþykk meðal reifara. Það hefur vakið nokkra athygli að í bókinni kemur það fram í fyrsta sinn að Gunnar Gunnarsson skáld var búinn að fá tilkynningu um að hann hefði verið útnefndur til nóbelsverðlauna árið 1955. Hópur íslendinga sendi þá skeyti til nóbelsnefndarinnar og taldi óhæft að maður sem hefði verið sakaður um daður við nazisma væri útnefndur til slíkra verðlauna. Nefndin dró þá tilnefningu sína til baka enda þótt hún hefði verið kynnt Gunnari persónulega. Má leiða líkur að því hvílíkt áfall það hefur verið fyrir Gunnar. Svo merkilegt sem það er þá hefur þetta ekki komið fyrir almenningssjónir fyrr en nú. Að mínu mati eru þessar upplýsingar næg réttlæting fyrir því að bækurnar voru skrifaðar og þannig betur af stað farið en ekki. Merkilegt má teljast að Halldór Guðmundsson hafi ekki minnst á þetta atriði í sínu verki sem kom út fyrir skömmu.

Gunnar hefur verið mjög merkilegur rithöfundur á sínum tíma. Hann brýst úr sárri fátækt til Danmerkur og nær þar slíku valdi á ritstörfum og máli landsins að hann verður þar mest lesni rithöfundur þjóðarinnar. Í Þýskalandi kom hann næstur á eftir Göthe. Í forbifarten má minnast á Kristmann Guðmundsson sem braust sömu leið og Gunnar, úr sárri fátækt hér heima til ritstarfa á erlendri grund. Hann varð með mest lesnu rithöfundum í Noregi og Danmörku á sínum tíma. Menningarelítan hér heima taldi hann hins vegar aldrei vera almennilegan rithöfund.

mánudagur, desember 19, 2005

Dauð rolla við Langasjó

 Posted by Picasa
Fór ekkert út að hlaupa um helgina, þetta er náttúrulega hálfgerður aumingjaskapur en hvað með það. Maður leyfir sér hann svona einstöku sinnum.

Mér hefur flogið í hug verðmunur á ýmsum hlutum hérlendis og erlendis í sambandi við umræðuna um hve mætti lækka mikið matvælaverð hérlendis ef tollar væru aflagðir á þeim. Nú stendur gengi íslensku krónunnar háttþannig að samanburðurinn er frekar óhagstæður innlendu verðlagi en sama er. Munurinn er það mikill að maður getur ekki annað en horft á staðreyndir. Við feðgar keyptum okkur bassagítar í fyrra frá Bandaríkjunum í gegnum netverslun sem er mjög í stíl við þann sem Paul McCartney lék á hér áður fyrr á árunum. Af hoinum voru greiddir allir skattar og skyldur. Hann kostaði hingaðkominn um 25. 000 kall. Ég sá nákvæmlega samskonar gítar í verslun hérlendis og þar kostaði hann 67 þúsund kall. Nær þrefaldur munur. Lewis gallabuxur kosta 2 - 3000 kall í USA en hérlendis milli 10 og 20 þúsund. Canon myndavél sem kostaði 165 þúsund með einni linsu og litlu korti hjá Hans Petersen kostar 2000 USD (125 þúsund) í USA með þremur linsum, tveimur þrífótum, 4 GB korti tveimur töskum, flassi og ég veit ekki hverju. Svona pakki myndi kosta hérlendis um 300 þúsund kr. Fartölvur eru enn eitt dæmið. Ég skoðaði fartölvur úti í San Francisco í vor. HP tölva með 17" skjá, 2 milj. örgjörva, 80 GB diski og 512 mb vinnsluminni kostaði þar 1200 USD. Með afslætti kostaði hún 1.050 USD eða 65 - 70 þúsund. Hérlendis kostar svona tölva um 180 - 200 þúsund. VSK er 8% í Californíu en 24,5% hér. Ok, þar er smá munur en hann réttlætir ekki þann gríðarlega verðmun sem er á verði á tölvum hérlendis og í Bandaríkjunum. Matvæli eru oft ódýrari í Danmörku en hérlendis. Svo merkilegt sem það er þá eru tölvur einnig miklu ódýrari í Danmörku en hér. Mig minnir einnig í þessu sambandi að tollar hafi verið lækkaðir sérstaklega af tölvum hér í árdaga þegar Albert Guðmundsson var fjármálaráðherra. Vafalaust munu menn segja að í þessum bransa öllum sé gríðarleg samkeppni milli fyrirtækja og álagning sé í algeru lágmarki. Einhvernvegin minnir mig að olíufélögin hafi einnig sagt það þegar samráð á milli þeirra var sem samansúrraðast.
Niðurstaða þessa er að það er margt fleira að skoða í þessu sambandi en verð matvæla.

Ein úr fýluliðinu skrifaði grein í Moggann í gær og hélt áfram að agnúast út í forsætisráðherra fyrir að hafa sent Miss World heillaóskaskeyti. Reyndar gott hjá henni að koma fram undir nafni og halda fram skoðunum sínum. Maður veit þá við hverja er að eiga. Hún var meðal annars að agnúast út í að íslenski fáninn hefði verið notaður í þessu sambandi og taldi það varða við stjórnarskrána sem vanvirða við fánann. Þarna kepptu viðkomandi einstaklingar sem fulltrúar heimalanda sinna. Það var kallað Miss Iceland þegar alheimsfegurðardrottningin var kölluð fram. Vitaskuld er fáninn notaður í þessu sambandi. Samkvæmt þessum stalíniska hugsunarhætti þá hefðu Everest fararnir þrír ekki mátt flagga íslenska fánanum á tindi Mt Everest hér um árið. Haraldur pólfari og félagar hans ekki mátt hafa fánann með í farteskinu við sínar hetjudáðir eða Gunnar bílasmiður ekki mátt hafa fánann á húddinu þegar hann setti hraðamet til og frá Suðurpólnum á dögunum á bílnum sem hann smíðaði. Af hverju hefðu þessir einstaklingar ekki mátt flagga íslenska fánanum samkvæmt framansögðu. Jú, af því hér var um einkaframtak að ræða.
Mér finnst gott að þessar öfgar hafa komið svo rækilega fram í dagsljósið í tengslum við Miss World keppnina. Hvar sem ég sé á þennan málflutning minnst, þá hafa verið settir hníflarnir í hann. Verðskuldað.

Frá Hvallátrum

 Posted by Picasa

sunnudagur, desember 18, 2005

Unnur Birna alheimsfegurðardrottning kom heim í dag og hitti fjölda manns í Smáralindinni. Þar var vel mætt eins og gefur að skilja. Sá í fréttum í kvöld að einn af aðstandendum keppninnar var spurður að því hvort það væri ekki sérstakt að svona smáþjóð hefði sigrað þessa keppni þrisvar á tuttugu árum. Hún sagði það vissulega vera sérstakt og sagði svo athyglisverðan hlut: "Þið hljótið að hafa frábæran mat hérna!!" Það var nefnilega það. Konan fór ekki með með neinn meiningarlausan frasa um fallega afkomendur víkinga eða eitthvað svoleiðis bull heldur sagði nákvæmlega það sem máli skiptir. Þið borðið frábæran mat. Ég hef oft hugsað um að maturinn sem við eigum hér uppi er náttúrulega alveg einstakur að gæðum. Fiskur, kjöt og mjólkurvörur eru afar vistvæn framleiðsla að því leyti að eiturefni eru ekki notuð í landbúnaði og fiskurinn er einn sá hollasti sem fyrir finnst. Vitaskuld eru gæði matarins hér ekkert einsdæmi en það sem skiptir mestu máli er að allur almenningur hefur aðgeni að þessum góða mat en ekki einungis þeir sem mest hafa efnin.

Ég kom til Nova Scotia og Newfoundlands fyrir nokkrum árum. Þessi lönd eru lágtekjusvæði og mikið atvinnuleysi. Maturinn sem maður fékk á veitingahúsum var ágætur en þegar maður kom í venjulegar verslanir þá sá maður að það var flutt inn sem svaraði kaupgetunni. Annars flokks matur. Ég keypti mér t.d. danskan Brie ost sem ég taldi mig þekkja en hann var allt að því óætur. Eplin voru vond, brauðið vont.

Ég var staddur þarna akkúrat á sama tíma og Vala Flosa tók verðlaun á ólympíuleikunum. Vitakuld vorum við ánægðír með okkar konu en fólkinu á Newfondlandi fannst það út af fyrir sig vera afar merkilegt að Ísland, þessi fámenna þjóð, skyldi yfir höfuð vera á Ólympíuleikunum og hvað þá taka verðlaun. það hafði þeim bara aldrei dottið í hug að gæti gerst hjá þeim. Það var rétt einn og einn heimamaður sem spilaði íshocky í canadísku deildinni en það var líka toppurinn.
Það má segja að þarna sannaðist máltækið; Þú stekkur ekki lengra en þú hugsar.

Heyrði gott viðtal við Ómar Ragnarsson í útvarpinu í dag þar sem hann var að segja frá starfi sínu sem jólasveinn hér á árum áður. Ómar hóf tilvist jólasveinana í aðrar hæðir en áður hafði þekkst. Hann lagði gríðarlega alúð í þetta og stúderaði vel hvað það væri sem var vinsælast hjá krökkunum. Hann kom fram sem Gáttaþefur í fleiri áratugi. Nú er öldin önnur. Maður sér döpur eintök jólasveina sem halda að kúnstin sé í því fólgin að tala við krakka eins og þeir séu bjánar og kyrja Nú skal segja og Adam og þá sé þetta bara búið. Sumir eru meira að segja á hlaupaskóm. Þeim sem eru að gefa sig út fyrir að leika jólasveina væri hollt að hlusta á viðtalið við Ómar. Hann fór t.d. aldrei af jólatrésskemmtun án þess að taka í hendina á hverju einasta barni sem var á staðnum.

föstudagur, desember 16, 2005

Nú er byrjuð umræða um að leggja niður innflutningshöft á landbúnaðarafurðum til að bæta hag landsmanna enn frekar en orðið er. Upphaf þess er skýrsla þar sem kemur fram að landbúnaðarvörur séu dýrastar á Íslandi af Evrópulöndum. OK, ef menn vilja leggja niður innflutningshöft og losa um allar hömlur á innflutningi, hvað mun það þýða? Meðan ekki verður hægt að ráða vinnuafl til starfa á þeim launum sem samkeppnislöndin eru að greiða, þá mun framleiðslan flytjast úr landi. Hvað hefur gerst með þá framleiðslu sem hefur verið sett í frjálsa samkeppna? Fataiðnaður, húsgagnaiðnaður, skipasmíðar. Vitaskuld er allt komið úr landi. Fiskiðnaðurinn á í harðri samkeppni við fiskiðnað í Kína. Þannig er fjarlægðarvernd að engu orðið vegna lægri fraktkostnaðar sem kemur til vegna stærri skipa og skráningar skipa í löndum sem bjóða upp á hagstæðari skilyrði en önnur.

Verkalýðsfélögin hafa staðið í hörðum slag gagnvart starfsmannaleigum að undanförnu sem hafa boðið fram vinnuafl á lægra verði en það býðst samkvæmt innlendum kjarasmaningum. Hvers vegna vill þetta fólk vinna við lægra kaupi en samið hefur verið um hérlendis? Það er vegna þess að það kemur frá fátækum löndum þar sem lífskjör eru miklu lægri en hérlendis og efnahagskerfið allt annað. Það sem þykja lág laun miðað við innlenda kjarasamninga þykja há laun í Austur Evrópu. Af hverju ætli okur þyki ódýrt að versla í fyrrum austantjaldslöndum. Það er vegna þess að það er kaupgjald lágt og efnahagskerfið allt annað. Atvinnyleysi er líka gríðarlega hátt í mörgum þessara landa. hvað ætli það sé hátt í Portúgal, Spáni, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi. Ætli það sé ekki um og yfir 10 - 15%. Það er síðan enn hærra eftir því sem farið er austar í Evrópu. Matvæli er mun hærri hluti af framfærlsukostnaði almennings í þessum löndum en hérlendis. Hví ætli það geti verið þrátt fyrir að matvæli séu dýr hérlendis samkvæmt umræddri skýrslu? Jú, það er vegna þess að kaupmáttur launa er svo mikill hérlendis. Hlutfall matvæla af framfærslukostnaði heimilanna er mjög lágt hérlendis.

Sú velferð sem við búum við byggir að verulegu leyti á því að flytja inn ódýrar vörur frá löndum þar sem laun eru mjög lág svo sem eins og í Austur Asíu. Gríðarleg vinnuþrælkun starfsmanna og lúsarlaun eru grunnur að því að við getum keypt fatnað á lægra verði heldur en þegar hann var framleiddur hérlendis. Ég efa ekki að við getum flutt landbúnaðarafurðir inn við lægra verði ef við framleiðum þær á hérlendis. Undanfari ákvörðuanrtöku um slíka hluti verður að vera djúp greining á afleiðingum þess. Það er dapurlegt að hlusta á málflutning ýmissa sme hafa verið leiddir í fjölmiðla að tjá sig um þessi máli án þess að hafa neitt einasta vit á því hvað það er að tala um. það einasta sem kemst að er að fá matvöruna á lægra verði en hún fæst keypt á í dag. Ef verður opnað fyrir innflutning á allri framleiðsluvöru til landsins þá hlýtur það að leiða til þess að almennir kjarasamningar hérlendis taki mið af kjarasamningum í samkeppnislöndum okkar og þá er ég ekki að tala um Danmörku, Svíþjóð og Noreg. Það þýðir ekki að þreyja kapphlaup við aðila sem skeiðar áfram óhindraður en vera sjálfur í fótjárnum. Slíkt getur ekki kallast jöfn samkeppni.

Rás 2 stendur fyrir jólalagasamkeppni. Í fyrra sigraði dúettinn Hvítir mágar. Sex aðilar komust í úrslit. Kastljós sjónvarpsins var svo smekklegt að bjóða einum keppendanum að syngja lagið sitt í gærkvöldi í lok dagskrár. Ég geri ekki ráð fyrir að minni spámenn jólalagasamkeppni rásar 2 fái sömu tækifæri að kynna framlög sín. Enda þótt Eyvör Pálsdóttir sé afargóð söngkona og eigi allt gott skilið þá á hún ekki að fá eitthvað forskot fram yfir aðra þegar hún tekur þátt í formlegri keppni og sjónvarpið ætti að læra að skammast sín.

Úr námunum í Stálfjalli

 Posted by Picasa

fimmtudagur, desember 15, 2005

Það var dálítið óhugguleg frásögn í Mogganum í morgun. Gamli Höskuldur, afi Höskuldar vinar Sveins, hafði verið niður á Kanarí í haust með konu sinni. Það gerist þar að hann dettur og beinbrotnar, bæði á hendi og mjöðm. Þau vissu ekki annað en að þau væru með allar tryggingar vegna ferðarinnar sem hægt væri að taka og þar undir slysatryggingar. Engu að síður tók þrjár vikur að ná honum heim svo hratt sé farið yfir sögu. Viðbrögð tryggingafélagsins hér heima var með ólíkindum. Viðbrögð þess voru að vísa aðstandendum á eitthvað enskt tryggingafélag sem þeir hafa líklega keypt trygginu hjá og þar þurftu synir hjónanna að feta sig áfram eftir refilstigum tryggingakerfisins. Upplýsingar þurfti að toga út með töngum við hvert fótmál. Ekki var hægt að gera nauðsynlegar aðgerðir á Höskuldi fyrr en heim var komið eða eftir þrjár vikur vegna alls þessa. Það er sem sagt ekki nema fyrir harðsvírað og þrautreynt fólk að fást við að leita réttar síns gagnvart tryggingafélögunum því að í tilfelli sem þessu var ekkert gefið uppi sem gat létt undir með fólki að greiða úr aðstæðum.

Sé mér til mikilar ánægju að það eru fleiri en ég sem hneykslast á öfgajaðarhópi feminstafélagsins vegna viðbragða þeirra við heillaóskaskeyti forsætisráðherra til Unnar, fegurstu konu heims um þessar mundir. Það er ekki nema eðlilegt að venjulegu fólki blöskri svona fýlupokarugl. Nú síðast sá ég að þær voru að fjasa út af því að þær fengu ekki jafn mikið pláss í Mogganum eins og lagt var undir umfjöllun um keppnina sjálfa og sigurvegara hennar. Er þetta lið stjúpit? Hvað á maður að halda? Sem betur fer liggja ekki allir fjölmiðlar jafn marflatir eins og ríkisfjölmiðlarnir gagnvart svona jaðarskoðunum.

Sá í blöðunum í dag að Finnsk stjórnvöld ætla að fara sænsku leiðina og banna vændi. Af hverju skyldu þeir ekki banna bæði fátækt og atvinnnuleysi svona í leiðinni fyrst þeir eru í banngírnum yfir höfuð og virðast trúa því að bönn leysi það sem þeir skilgreina sem vandamál. Ég er alfarið á móti þessari sænsku leið. Mér finnst hún vera óraunhæf og ekki vera á neinn hátt lausn á því sem sæsnk stjórnvöld skilgreina sem vandamál. Ég hef kynnt mér málflutning Petru Östergren, sænsks feminista og raunsæismanneskju. Hennar skoðun var að sænskar yfirstéttarkonur, sem aldrei hefðu kynnt sér málefn i sænskra vændikvenna, hefðu talið að þessi fix aðferð myndi koma svíum í fyrirsagnir í heimspressunni. Loks hefðu svíar tekið alheimsforskot í einhverjum hlut á nýjan leiki.
Hérlendis er bannað að hafa framfæri sitt af vændi. Hvaða rök eru nú fyrir því? Ég bara sé þau ekki. Ef einhver manneskja, karl eða kona, telur aðstæður sínar vera þannig að vændi sé valkostur í einhverri stöðu, þá er það bara þannig. Það sem er fyrst og fremst refsivert í þessum málum er að einhver hafi aðra manneskju að féþúfu í gegnum vændi. Það er nú eitt ruglið í þessari umræðu að það er alltaf talað um vændi eins og það sé einvörðungu bundið við konur. það er hin mesta firra. Ég sá sl. vetur tölur um að það væru fleiri strákar á framhaldsskólaaldri sem seldu sig heldur en stelpur.

Þeir sem vilja banna vændið segja að það sé eftirspurnin, kúnnarnir, sem skapi vændið. Án eftirspurnar væri vændið ekki til. Það má alveg eins fullyrða að án framboðs væri vændið ekki til. Áður en sjónvarpið kom til sögunnar, þá langaði engan í sjónvarp. Framboðið bjó til eftirspurnina. Svo er um allar nýjungar. Ég geri ráð fyrir að það sé svipað um vændið. Ef ekkert framboð er af því, hver er þá eftirspurnin? Alla vega finnst mér að það sé ekki hægt að fullyrða neitt í þessum efnum á hvorugan veginn.

Síðan er það sænska aðferðin. Ég fylgist nokkuð vel með sænsku pressunni. Hafi einhver látið sig dreyma um að vændi myndi minnka í Svíþjóð eftir að bannlögin voru sett á, þá er það reginmisskilningur. Það hefur hins vegar breyst. Það er komið á netið, inn í hús, undir yfirborðið. Staða þess fólks sem er í þessu, er ef eitthvað er, miklu verri en áður. Hið félagslega öryggis- og eftirlitsnet sem var fyrir hendi áður þegar fólk var á götunum er horfið. Öfuguggar og glæpamenn eiga mun auðveldara með að þjóna lund sinni eftir en áður. Er það sú leið sem stjórnvöld vilja fara?

Þingnefndin sem hefur fjallað um þessi mál hérlendis er klofin. Vonandi nær hún ekki saman um að fara sænsku leiðina. Alla vega ætti hún fyrst að leggja til að fella úr gildi lög þess efnis að það sé refsivert að stunda vændi.

Bolar vaða í vötnum Skagafjarðar

Posted by Picasa

miðvikudagur, desember 14, 2005

Fór ekkert út að hlaupa í kvöld þrátt fyrir úrvals veður. Var, aldrei slíku vant, svolítið slappur. Vona að það rjátlist út sem fyrst.

Sé að Ásta er farin að bíða eftir nýja barninu sem getur birst á hverri stundu. Það minnir mig á viðlíka stundir þegar mín börn fæddust. Skrautlegast var það þegar yngri strákurinn fæddist. Það var í byrjun febrúar á þeim árum þegar kom svolítill vetur. Sigrún fékk verki seint um nóttina svo ekki var um að villast. Þá var hringt í tengdamömmu sem var farin af sofa laust af spenningi. Hún kom í snatri en eitthvað fór hún fram úr sjálfri sér því hún festi bílinn á miðri götunni. Ég fór út að losa hann, hvað og gekk, og síðan setti ég minn bíl í gang til að hita hann upp. Ég var víst eitthvað óstyrkur líka því þegar bíllinn var kominn í gang, þá læsti ég honum með eina lyklasettið sem til var í svissinum. Nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi á lögregluna og spurði hvort þeir gætu opnað fyrir mig bíl þar sem lyklarnir væru læstir inni í honum. Þeir voru heldur tregir til enda skiljanlegt á þessum tíma sólarhringsins og spurðu hvort það gæti ekki beðið til morguns. Þegar ég sagðist þurfa að keyra konuna upp á fæðingardeild hið fyrsta á bílnum þá fylltust þeir skilningi og komu um hæl og opnuðu hann. Strákurinn fæddist svo skömmu eftir að við mættum upp á deild.

Heyrði í fréttum sagt frá einhverri ráðstefnu í Háskóla Íslands þar sem var verið að fara yfir niðurstöður á skoðun kynjahlutfalla í fjölmiðlum, bæði fréttum og auglýsingum. Konunni sem hafði skoðað málið taldi á konur hallað og vildi að hlutfall kynjanna í fjölmiðlum og auglýsingum væri það sama og hlutfall þeirra í þjóðfélaginu. Er þetta nú svo einfalt? Hún sagði að það væri alltof mikið af fréttum af fiskveiðum, slysum og efnahagsmálum og þar væru karlar yfirgnæfandi. Nær væri að flytja fréttir af einhverju öðru þar sem hlutföll kynjanna væru jafnari. Eiga fréttastofur sem sagt að fylla upp í kynjakvóta í hverjum fréttatíma eða í fréttatímum hverrar viku og miða fréttaöflun út frá því. Takk fyrir kærlega.

Ef ég ætti fjölmiðil eða væri að kaupa auglýsingar í fjölmiðlum þá myndi ég hafa fréttaflutninginn og / eða framsetningu auglýsinga nákvæmlega eins og ég teldi að markaðurinn brygðist best við en sjálfsögðu innan gildandi laga og reglna. Einhverjum þrýstihópum kæmi bara ekkert við hvernig ég ræki mín fyrirtæki að þessu leyti. Ef einhverjir segja hinsvegar að það eigi að vera jafnt hlutfall milli kynjanna í fréttum og auglýsingum, hvað þá með aðra. Konur og karlar eru ekki einsleitur hópur. Á að reikna út hlutfall fátækra og ríkra, ungra, miðaldra og gamalla fyrir hvort kynið svo dæmi séu tekin. Á að reikna út hlutfall samkynhneigðra, innflytjenda, hörundsdökkra, fatlaðra o.s.frv. o.s.frv. og flytja fréttir af þessum hópum þjóðfélagsins í hlutfalli við hlutdeild þeirra í þjóðfélaginu. Ef þú segir A, þá kemur B skammt á eftir.

Ég er kannsi ekki svo pirraður út í þrýstihópana, það hefur hver rétt á að halda fram sínum skoðunum. Maður þarf hins vegar ekki að vera sammála þeim. Á hinn bóginn er ég pirraður út í fjölmiðlanna eins og oft áður. Konan sem talað var við sagði að undirtektir undir málflutning hennar hefði verið misjafn á fundinum. Einungis var vitnað í viðbrögð Elínar Hirst sem var búin að kalla til fundar strax eftir helgi um málið. Af hverju var ekki talað við aðra sem eru á andstæðri skoðun? Ríkisreknir fjölmiðlar eiga að vera hlutlausir og birta bæði sjónarmið ef þau eru fyrir hendi þegar fjallað er um einstök mál en ekki koma fram eins og einsleitar áróðursmaskínur. Prívat fjölmiðlar gera hins vegar bara það sem þeir vilja og finnst skynsamlegast út frá rekstrarlegum forsendum.

Fengum Skjáinn í kvöld. Passaði vel því Man. Utd. sigraði Wigan stórt í bresku úrvaldsdeildinni.

Ein af styttum bæjarins

 Posted by Picasa

þriðjudagur, desember 13, 2005

Tók venjulegan hring í hverfinu í kvöld, gott veður, hlýtt og smá úði. Veðrið er greinilega eitthvað orðið skrítið. Maður sér ekki vetur hér sunnan heiða árum saman. Ég sakna hans svo sem ekki en sama er, þetta er eitthvað skrítið.

Fyrir þá sem eiga leið til Danmerkur í sumarfríi, vegna vinnunnar eða beinlínis til að hlaupa þá er hér listinn yfir maraþon og þaðan af lengri hlaup í Danmörku á næsta ári. Það er greinilega úr nægu að moða.

1. Kalundborg Vintermarathon Dato: 15/1
2. Femtårns Marathon, Kalundborg Dato: 26/3
3. Uhrskovs Marathon, Farsø Dato: 2/4
4. Aalborg Brutal Marathon Dato: 14/4
5. Skjern Å Running Challenge Dato: 29/4
6. Bornholm 6 - 12 - 24 timers løb Dato: 6.-7./5
7. power4you /75 km/Off road Challenge/Silkeb. Dato: 20/5
8. Copenhagen Marathon Dato: 21/5
9. Natursti-Marathon, Silkeborg Dato: 25/5
10. 100 km Als Rundt Dato: 26/5
11. Stark Ultra Run, Stige v. Odense Dato: 27/5
12. Århus City Marathon Dato: 17/6
13. Fredericia Ultramarathon Dato: 17/6
14. Aabenraa Bjergmarathon Dato: 17/6
15. Læsø Marathon Dato: 18/6
16. Marathon Weekend/Mjölner, Assens Dato: 1/7
17. Marathon Weekend/Another, Svanninge Dato: 2/7
18. North Sea Beach Marathon Dato: 2/7
19. Tórshavn Marathon/Færøerne Dato: 16/7
20. Arctic Marathon, Nuuk/Grønland Dato: 5/8
21. 24 timer Søndersø Rundt, Viborg Dato: 12/8 - 13/8
22. Grenå Marathon Dato: 19/8
23. Natturen, Helnæs – Fyn – 50 km Dato: 26/8
24. Ultra Marathon Bornholm Dato: 27/8
25. Pramdragerløbet, Randers-Silkeborg – 75 km Dato: 2/9-3/9
26. Skovløberen Marathon, Hvalsø Dato: 3/9
27. Aarhus 1900 – 100 km Dato: 9/9
28. H.C. Andersen Marathon Dato: 17/9
29. Polar Circle Marathon Dato: 21/10
30. IHS – Sønderborg Marathon Dato: 21 /10
31. Newline Skovmarathon, Hillerød Dato: 5/11
32. Socialmarathon, København Dato: 31/12

Öfgahópurinn sem fordæmir forsætisráðherra fyrir að hafa óskað Unni fyrir sigurinn í Miss World í Kína á laugardag var sýnilegur í blöðunum í morgun. Merkilegur er sá hroki þriggja kvenna að telja sig geta talað fyrir munn allra þeirra kvenna sem horfðu á balasláttinn niður í bæ í október sl. og geta fullyrt að fyrst konurnar 60 þþúsund mættu niður í bæ að leggja áherslu á réttindi kvenna í samfélaginu þá séu þær allar sjálfkrafa á móti fegurðarsamkeppnum. Allt í lagi að segja sína persónulegu meiningu en að slaka 60 þúsund manns svona með í forbifarten, það er svolítið annað. Síðan er bætt við fullyrðingum um að kjörið vekji hvergi áhuga og fjölmiðlar minnist ekki á það (nema kannski gula pressan sem á kannski að vera eitthvað ómerkilegt. Gula pressan er líklega ekki intelektúell pressa). Þeim til upplýsingar þá sá ég umfjöllun um kjörið í dönskum og norskum blöðum sem eru þau víðlesnustu þar í landi. Þar var fjallað um kjörið á jákvæðan og hlýlegan hátt og Unni og Íslendingum óskað til hamingju með niðurstöðuna. Ég hef hvergi séð í þeim norrænu blöðum sem ég les af og til að það hafi verið hnýtt eitthvað í þessa keppni. Það getur svo sem hafa farið fram hjá mér. Mér finnst reyndar fínt að svona öfgahópar komi grímulausir til dyranna. Það vekur fólk kannski aðeins til umhugsunar um málflutning þeirra.

Sá í DV í dag að Hvítasunnumenn eru farnir að senda frá sér instrúxionir um meðferð og afgreiðslu mála í Framsóknarflokknum. Kannski Alfreð hafi ekki haft svo rangt fyrir sér eftir allt hér í vetur er leið?

Skrítin er fréttamennskan. Las í tveimur blöðum í dag og horfði síðan á kvöldfréttir í RÚV þar sem sagt var frá dómi sem féll í máli Ástþórs Magnússonar gegn DV. Fyrirsögnin var allsstaðar eins. "Ritstjórar DV sýknaðir". Síðan byrjaði upptalningin: Ritstjórarnir voru dæmdir til að greiða bætur. Ritstjórarnir voru dæmdir til að greiða Ásþóri málflutningskostnað. Ákveðin ummæli sem ritstjórarnir höfðu viðhaft voru dæmd dauð og ómerk. Reyndar var ýmsum öðrum kröfum Ástþórs hafnað, s.s. bæði er varðar skaðabætur og ákveðin ummæli. En ansi fannst mér viðkomandi blaðamenn kokhraustir að segja í fyrirsögn án athugasemda "Ritstjórar DV sýknaðir"

Harðbakur á Sléttu að sumarlagi

 Posted by Picasa

mánudagur, desember 12, 2005

Dóri afabróðir minn var jarðsunginn í dag, orðinn 87 ára gamall. Hann var einn af 10 systkinum sem fæddur var á Móbergi á Rauðasandi vestur og var afi heitinn einn af þeim. Dóri var alinn upp af móðursystkinum sínum í Kirkjuhvammi frá sex ára aldri en þá lést faðir hans. Siggi er nú einn eftir lifandi af þessum stóra hóp, 94 ára gamall. Hann var vitaskuld í jarðarförinni og fylgdi bróður sínum til grafar, ern og vel á sig kominn. Helst sagðist hann vera farinn að heyra aðeins ver en annars væri hann alveg eins og áður. Það er ein af bernskuminningunum í árdaga þegar systkini afa og þeirra fjölskyldur komu af og til í sveitina á sumrin til að hitta frændfólkið og rifja upp gamlar minningar frá uppvaxtarárum sínum á Rauðasandi. Sumt kom oft, annað sjaldnar eins og gengur. Í huga þeirra var bjart yfir uppvaxtarárunum á Sandinum enda þótt efnin hafi ekki alltaf verið mikil. Nú orðið er það helst að maður hittir ættbogann við jarðarfarir og svo á ættarmótum, alla vega þann hluta hans sem liggur aðeins fjær.

Nú er fýluliðið komið á kreik. Staðalímyndarráð feministafélagsins sendi frá sér fréttatilkynningu í dag og gerði athugasemd við það að forsætisráðherra hefði sent stúlkunni sem varð ungfrú heimur í Kína á laugardaginn heillaóskaskeyti í nafni íslensku þjóðarinnar. Tekið var viðtal við fulltrúa þeirra a.m.k. í útvarpinu (rás 2). Staðalímyndarráðið sagði að heillaóskirnar væru ekki sendar í sínu nafni og því væri skeytið ekki sent í nafni íslensku þjóðarinnar. Eitt er að svona þrönghyggjujaðarhópar hafi sínar skoðanir, það er hverjum og einum frjálst. Annað er að fjölmiðlar hlaupi eftir hverju og einu sem þeir láti frá sér fara og komi því umyrðalaust á framfæri, það finnst mér ekki sjálfsagt. Það var helst að skilja á staðalímyndarfulltrúanum að árangur stúlkunnar í Kína á dögunum myndi í bráð og lengd koma í veg fyrir að kona yrði forsætisráðherra þjóðarinnar. Þetta er svona svipað og ef Þórey Edda yrði ólympíumeistari í stangarstökki og forsætisráðherrann sendi henni heillaóskaskeyti í tilefni afreksins fyrir hönd þjóðarinnar. Þá myndu áhugamenn um glímu setja upp fýlusvip og segja að skeytið væri ekki sent fyrir þeirra hönd því með því að halda fram árangri stangarstökkvara væri verið að draga úr möguleikum þess að landsmenn festu áhuga við að horfa á og stunda glímu, sjálfa þjóðaríþróttina. Ætli einhver fjölmiðill myndi hlusta á svona lagað rugl? Ég held ekki. Á meðan staðalímyndarráð feministafélagsins er á móti fegurðarsamkeppnum þá er ég mikill áhugamaður um fegurðarsamkeppnir sem og að kona verði forsætisráðherra en bara ekki hvaða kona sem er.

Lengi getur vont versnað. Nú er ég búinn að finna þann sem slær út Silvíu Nótt. Silvía bara bliknar og er eins og kettlingur í tilbúningi bjánahrolls í samanburði við þann nýfundna. Hver hann er verða menn bara að giska á. Ég er samt ekki að setja upp getraun.

Jónas á Harðbak veiðir upp um ís.

 Posted by Picasa

sunnudagur, desember 11, 2005

Hljóp niður í Laugar í morgun og hitti Vini Gullu. Tókum nokkra hringi í Elliðaárhólmanum en svo fóru menn svolítið hver í sína áttina, ég fór upp að litlu brúnni fyrir neðan Fylkisvöllinn og svo enn einn hring í hólmanum og svo heim. Losaði 22 km.

Fór að hugsa um hvað maður horfir oft langt yfir skammt. Maður hefur stundum hugsað með smá öfund til frænda vorra á norðurlöndunum sem geta hlaupið á skógarstígum og skýlt sér nokkuð fyrir veðri. Það er mýkra undir fæti og á ýmsan hátt betra en að hlaupa á malbiki. Síðan fór ég að velta fyrir mér í dag að vitaskuld eigum við þetta hérna. Elliðaárhólminn er náttúrulega stórkostlegur staður. Þar er hægt að rúlla hring eftir hring við kjöraðstæður og þótt menn séu ekki að fara út um víðan völl þar þá hvað með það. Ég þekki Heiðmörkina ekki alveg eins vel en veit af mörgum góðum stígum þar, sem njóta sín sérstaklega vel þegar fer að hlýna á vorin. Hvað er svo verið að öfunda aðra þegar þetta er við fæturna á manni?

Fékk enn eitt bréfið frá Gordy í dag. Var að spyrja hann hvort megaskammtar af C vítamíni hefðu ekki hliðarverkanir. Hann sagðist að fyrst og fremst ykist "gasframleiðslan" og síðan fengi hann smá nýrnaverk en það hyrfi um leið og hann hætti að taka vítamínið.

Fór niður í nýja frjálsíþróttahúsið á laugardaginn. ÍR hélt þar haustmót sitt. Um 300 krakkar og unglingar á aldrinum 8 - 16 ára voru þar að keppa. Það er stórkostlegt að sjá muninn á hinum frábæru aðstæðum í húsinu miðað við það sem áður var. Egilshöllin var reyndar stórt skref fram á við en þetta hús tekur henni langt fram. Íslandsmet féllu á laugardaginn. Mér fannst ansi skítt að sjá ekkert minnst á þetta mót í fjölmiðlum þrátt fyrir að þetta væri fyrsta alvöru mótið í þessu glæsilega húsi og því hefur heldur að engu verið getið í fréttum að íslandsmet hafi fallið. Það er ljóst að gæluíþróttir íþróttafréttamanna ráða því hvað kemur í fréttum og hvað ekki. Oft heyrir maður t.d. ekkifréttir um að hinn eða þessi hafi ekki skorað eða ekki spilað með liðinu. Hvaða ekkifréttamennska er þetta?

Það hefur nokkuð verið talað um UNICEF uppboðið hér um daginn þar sem Roger Moore mætti sem heiðursgestur og nýríkir íslendingar fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína alveg eins og fólkið í útlöndum gerir. Gjöf er eitthvað sem gefandann munar um. Annars er hún ekki mikils virði. Það er annað að taka við gjöf frá einstakling sem maður veit að hefur ekki of mikið milli handanna heldur en frá einhverjum sem maður veit að veit ekki aura sinna tal. Maður hugsar bara til hins síðarnefnda "Af hverju gaf hann ekki meira?". Mér er svo sem alveg sama að fólk sé að sáldra peningum úr vösum sínum en það er alltaf svolítið smáborgaralegt að sjá þörfina fyrir að láta aðra vita af því. Skyldi þessu fólki líða betur yfir að sjá það í blöðunum að það hafi keypt ómálað málverk á 20 m. kr. heldur en það hefði bara lagt sömu upphæð inn á reikning hjá einhverju líknarsamtakanna og ekki sagt neinum frá því. Sýniþörfin er mest hjá þeim sem keypti stöðu veðurfréttamanns á 2,5 m.kr. því hann var að tryggja sér að þá myndu allir vita af því að hann hefði lagt þessa fjárhæð í púkkið. Nema að hann verði með grímu.

Eins er það svolítið banalt að forsetinn sé prímus mótor í einhverju KB dæmi þar sem er verið að halda einhvað einkasamkvæmi með söngvara fyrir útvalda. Vonandi hefur hann skemmt sér vel.

Heyrði í dag viðtal við höfund bókarinnar "Brosað gegnum tárin" þar sem hún sagðist hafa verið svolítið hissa á að kjör stúlkunnar í gær sem Ungfrú Heimur hefði vakið svo mikla athygli hérlendis. Hún hefði haldið að áhuginn fyrir svona keppnun hefði minnkað á liðnum árum. Sem betur fer er öfgafull feminisk umræða sem oft gengur gjörsamlega úr hófi fram ekki búin að drepa niður áhuga landsmanna á góðri frammistöðu enda þótt hún byggi á kvenlegri fegurð og frambærilegum einstaklingum. Sen betur fer er kvenleg fegurð og yndiþokki enn í hávegum hafður og svo verður um alla framtíð. Það er ég fullviss um hvað sem allir öfgamenn eru að þusa. Þeir hafa þó víða lagt sig fram um það. Einu sinni voru bæði kýr og konur lítillækkaðar hérlendis með því að halda því fram að fegurðarsamkeppnir kvenna væru nokkurskonar kúasýningar.

Ég man í þessu sambandi einnig eftir skemmtilegri frásögn Flosa Ólafssonar frá þeim árum þegar hann var upp á sitt besta og var á ferð í Kaupmannahöfn. Hann var í góðum stemmingum að vappa um borgina og gott ef hann var ekki farinn að nálgast Huvudbanegaarden og það sem á bak við hann var þegar hann mætir flokk af sænskum félagsfræðingum kvenkyns sem var á ráðstefnu í borginni, líklega að skilgreina stöðu kynjanna. Hópurinn fór mikinn og var allur eins klæddur, í mussur og flatbotna skó. Flosa varð svo mikið um við þessa sjón að allur lyftingur og léttar stemmingar gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu og hann náði sér ekki aftur á strik fyrr en löngu síðar.

laugardagur, desember 10, 2005

Tók góðan hring í dag í góðu veðri. Lauk við kennslu í Endurmenntun HÍ þar sem áhugasamt skólafólk situr í stjórnunarnámi. Það er gaman að komast í samband við áhugasamt fólk sem er gefandi af reynslu sinni úr ýmsum áttum.

Ég heyrði eitt skemmtilegt frá Vestmanneyjum ásamt mörgu öðru í spjalli við nemendur. Ég skrifaði litla grein í Moggann í haust í framhaldi af ferð til Finnlands þar sem ég fræddist meðal annars um fyrirkomulag frímínútna í finnskum grunnskóla. Það vakti athygli mína hvernig Finnar skipuleggja frímínútur meðal annars af því að í skólanum þar sem María Rún gengur í er kennslustundir ætíð upp á 80 mínútur. Hún hefur eitt hlé frá 8.20 á morgnana fram til kl. 12.00. Kennarinn frá Vestmannaeyjum sagði mér að þeir hefðu gert tilraun sl. haust með að breyta fyrirkomulagi á skipulagi skólans. Áður hafði verið hefðbundið 80 mín. fyrirkomulag og öllum krökkunum hleypt út á sama tíma. Allt var í vandræðum þegar fór að líða að lokum tímanna og eftirtektin farin út í veður og vind og síðan þurfti sístækkandi her gæslumanna á leikvellinum til að fylgjast með fleiri hundruð krökkum og koma í veg fyrir alls kyns vandræði. Í haust voru kennslustundir styttar og eru nú ekki lengri en 60 mín. Nemendur fá fleiri útivistarhlé. Skólinn er skipulagður þannig að það eru aldrei allir nemendur skólans úti á leikvellinum í einu. Matarhléið var stytt þannig að nú er það einungis fyrir matarhlé en ekki með samhangandi frítíma. Kennarinn sagði að ástandið væri gjörbreytt. Mun rólegra er í tímum þar sem nemendur er hleypt út áður en þeir verða viðþolslausir. Nú veit enginn neitt af neinu á leikvellinum þar sem það er aldrei svo mikill fjöldi úti í einu að það geti valdið vandræðum. Órói á göngum skólans er ekki svipur hjá sjón. Skólastarfið gjörbreyttist til betra þegar var farið að skipuleggja skólastarf og frímínútur sem eina heild og tryggja að nemendur séu ekki parrakaðir lengur inni í kennslustundum en verjanlegt er og þol þeirra leyfir. Ég skaut því óspart að kennurunum og skólastjórunum þegar ég var að kenna þeim og þeu voru farin að tala um pásu áður en klukkutími var liðinn að dóttir mín þyrfti að vera í 80 klst löngum kennslustundum. Þau voru sammála mér um að þetta væri ekki í lagi.

Heyrði í fréttum í gær að norsk stjórnvöld hefðu ákveðið að hvort kynið um sig yrði að vera a.m.k. 40% í stjórnum hlutafélaga í landinu. Það er varla að maður trúi þessum fasisma. Hvað í ósköpunum kemur stjórnvöldum það við hvernig hluthafar fyrirtækja á almennum markaði skipa í stjórnir fyrirtækjanna? Ef að það er svona góður business að hafa þessa blöndun kynjanna í hlutafélögum þá leiðir það að sjálfu sér að hluthafar skynja manna best að þangað er að sækja enn meiri hagnað og bætta stöðu hlutafélagsins "eller hur"? Svona forsjárhyggja er best geymd á grafskrift frá einhverju kommúnistaríkinu þar sem viðhorf stjórnenda ríkisins var að þeir einir vissu hvernig hlutirnir ættu að vera. Ég spá því að það verði ekki langt þangað til umræða um þessa aðferðafræði verði tekin upp hér og fjasað um að þetta sé eina leiðin til að koma konum í stjórnir fyrirtækja og þarna sé ónýttur auður. Ég hef engar ástæður til að ætla að konur séu lakari til stjórnarsetu í fyrirtækjum en karlar en því er alltaf talað um nauðsyn á einhverju skollans kvótakerfi en talið ómögulegt að láta einstaklingana einfaldlega sanna sig og getu sína.

Engin kona fékk Nóbelsprísinn í ár. Ætli verði ekki sett kynjakvótakerfi á þá útdeilingu innan tíðar?

Horfði svolítið á "Best of Silvía Nótt" í fyrrakvöld. Svo gat ég bara ekki meir. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er nú einu sinni sjónvarpsmaður ársins. Er ég orðinn svo botnfrosinn að ég skilji ekki nýja strauma og viðhorf ungs fólks? Má vera. En þessi ósköp. Mér líður bara illa þegar ég horfi á svona kokteil af heimsku og rugli. Eða er kannski málið að það sé verið að kanna þanþol þjóðarinnar gagnvart því hve miklu rugli er hægt að hella yfir fólk úr sjónvarpinu þegar einhver segir að þetta sé flott? Eða er þetta bara sannur og ómengaður bjálfaháttur?

Íslensk stúlka var kosin ungfrú heimur í dag. Gratúlera. Hún er flott og á þetta vafalaust vel skilið.

Hef að undanförnu sett inn nokkrar myndir af yngri stráknum mínum á ýmsum aldursstigum þar sem músíkáhuginn kemur fram frá unga aldri. Þetta er fyrst og fremst gert til að minna þá sem glugga á þessa síðu á nauðsyn þess að taka nóg af myndum. Tími sem er liðinn kemur aldrei aftur en það er hægt að varðveita smá blik af fortíðinni á ljósmynd.

Snemma beygist krókurinn (7.) The Beautifuls í action

Posted by Picasa

föstudagur, desember 09, 2005

Ég sá nýlega í einhverju dagblaðanna sagt frá því að það hefði verið gerð könnun á viðhorfi almennings gagnvart verðbólgu í þjóðfélaginu. Tæp 40% höfðu engar áhyggjur af því að verðbólga færi að hrjá þjóðfélagið. Ætli það sé ekki svipað stór hluti þjóðarinnar sem var ekki kominn til vits og ára þegar tókst að rétta kúrsinn í þjóðfélaginu með þjóðarsáttarsamningunum í kringum 1990 og færa hagstjórn í áttina til vitræns samfélags.

Verðbólgan blossaði upp eftir stjórnarskiptin 1971 þegar vinstri stjórnin tók við völdum. Þá tók við stjórn sem vildi gera margt fyrir flesta og jók peningaprentun hömlulaust. Peningaprentun er það kallað, til nánari upplýsingar, þegar peningamagn í umferð í þjóðfélaginu er aukið án þess að um raunverulega verðmætaaukningu hafi verið um að ræða. Þessi stjórnarstefna kostnaði 20 ára slag við verðbólguna með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu og öðrum afleiðingum. Almenningur, sem hafði enga möguleka til að bera hönd fyrir höfum sér, fór vert af öllum út úr þessu. Sparifé hans var gert upptækt blygðuanrlaust. Ég minnist þess til dæmis að ég fór á fund með Ólafi Jóhannessyni, þáverandi dómsmálaráðherra, árið 1977 vestur í Stykkishólmi. Á fundinum stóð upp Björn á Kóngsbakka og kvað vel í veiði að ná tali af dómsmálaráðherra því hann hefði verið rændur. Hann hefði fyrir þremur árum lagt inn í banka sem svaraði andvirði 7 fullorðinna nautgripa. Síðan hefði hann tekið upphæðina út úr bankanum fyrir stuttu síðan og þá hefði hann ekki fengið meira fé í hendur en sem svaraði verðmæti 7 smákálfa. Þetta kallaði hann rán. Ólafi vafðist eðilega tunga um tönn og gat fáu öðru svarað en að svona væri þetta bara!!

Á þessum árum var það kennisetning vinstri manna að launahækkanir væru ekki orsök verðbólgunnar heldur væru þær eðlileg leiðrétting gagnvart hækkuðu verðlagi. Hagstjórnarþekking þessara manna var fyrir neðan frostmark. Því voru ætíð knúnar í gegn eins miklar hækkanir launa eins og lifandi mögulega var hægt og svo var gengið fellt daginn eftir að samningar voru undirritaðir. Þetta var vítahringur sem snerist hraðar og hraðar. Verst af öllu var ástandið í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thor. Þar sátu menn bara til að sitja. Verðbólgan sló yfir 100% þegar leið að lokum valdasetu hennar. Án þess að ég geti sannað það eða hafi rannsakað það þá held ég að á þessum árum hafi þjóðfélagið komist næst því að missa sjálfstæðið. Efnahagskerfið var orðið svo sjúkt að það dugði ekkert nema fantaaðgerð til að fá sjúklinginn til að fara að draga andann. Klippt var á samband verðlags og launa með lögum í 30% verðbólgu. Margt fólk sem stóð illa í spori, var t.d. í húsbyggingum og skuldsett, missti allar eigur sínar. Sumt hrökklaðist úr landi. Þrátt fyrir að þetta hafi verið hrossalækning þá held ég að hún hafi verið nauðsynleg.

Þessi ríkisstjórn, sem var undir forsæti Steingríms Hermannssonar, þorði þó að taka á málunum og reyna að stýra fleyinu út úr brimgarðinum enda þótt það kostaði áföll. Betra að nokkrir færu en allir. Upp úr þessu var smám saman hægt að ná tökum á hagstjórn samfélagsins. Með þjóðarsáttarsamingunum árið 1990 varð grundvallarbreyting á viðhorfi og afstöðu aðila vinnumarkaðarins og annarra aðila sem málið varðaði gangvart kjarasamningum. Það var ekki samið um hærri launahækkanir en verðmætasköpunin leyfði. Uppskeran lét ekki á sér standa. Á síðasta áratug hefur verið samfellt góðæri og kaupmáttur allra aukist gríðarlega, atvinna verið mikil og góð. Eðlilega hafa verið miklar breytingar á samfélaginu því þjóðfélagsgerðin hefur verið að breytast sem hefur verið forsenda þeirra framfara sem átt hafa sér stað. Enda þótt vel ári um þessar mundir þá getur maður ekki annað en litið um öxl og svipast eftir hvort gamli óvætturinn sé nokkurs staðar á stjái, ekki síst þegar menn hvorki hugsa um tilvist hennar eða eru jafnvel að ragmana hana fram á sviðið. Það er nefnilega svo að ef menn gleyma tilvist verðbólgunnar eða telja sig ekkert þurfa um hana að hugsa meir og hvað þá varast hana, þá er það með hana eins og aðrar forynjur. Hún bíður bak við næsta húshorn og tekur mann þegar minnst varir.

Eða eins og Megas söng:

Það var barn í dalnum sem datt niðrum gat
Þar fyrir neðan ókindin sat

Snemma beygist krókurinn (6)

 Posted by Picasa
Í gær voru 25 ár síðan John Lennon var skotinn. Það má segja að það gildi fyrir fólk á mínum aldri að það muni eftir því þegar það heyrði fréttina um að JFK var skotinn svo og þegar John Lennon var skotinn. Haustið 1980 var ég nýfluttur til Svíþjóðar og var að fóta mig í hagfræðinámi í sænska landbúnaðarháskólanum. Roland félagi minn og sessunautur sagði mér tíðindin að morgn til þann 9. desember þegar fréttir um ódæðið höfðu borist yfir hafið. "Han var den störste" sagði Roland. Það þarf ekki að rekja hvaða áhrif Bítlarnir höfðu á mannkynssöguna. Það vita allir sem vilja vita. Ég man t.d. enn eftir því í árdaga þegar einn þátturinn af Lögum ungafólksins var hafður á þann veg að það voru eingöngu og einvörðungu spiluð lög með Bítlunum og engar kveðjur lesnar til að sem flestir fengju óskir sínar uppfylltar. Það var í þá daga. Það sem mér finnst afar skemmtilegt að verða vitni að nú er hve krakkarnir í dag kunna vel að meta þessa sömu tónlist og hve hún eru þeim mikil uppspretta ferskra hugmynda. John Lennon var vafalaust alger rebell en samt sem áður hafði hann í sér sköpunargáfuna, aðlögunarhæfnina og frumkvæðið sem gerði hann sérstakan í annars mjög litríkri flóru tónlistarmanna þess tímabils sem hann lifði.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Heyrði í útvarpinu í dag frásögn af ferð Hróksmanna til Grænlands. Þeir eru komnir til þorpsins sem liggur rétt fyrir norðan Angmaksalik. Þar er verið að afhenda 500 töfl sem Hrafn forseti Hróksins safnaði fyrir með maraþontaflmennsku í Kringlunni fyrr í haust. Gaman var að heyra áhugann sem ferð þeirra hefur vakið. Grænlensk börn sitja nú að tafli dag út og dag inn í skólunum og kennararnir og skólastjórnendur hrífast með. Grænlendingar eru miklir spilamenn og töfrar skákarinnar eiga vafalaust greiða leið inn í sálarlíf þeirra. Starf Hrafns og þeirra Hróksmanna þarna er sérstakt og til mikillar fyrirmyndar. Nú var Piterak í þorpinu og þá er eiginlega ekki hundi út sigandi, frost og vitlaust veður.

Fékk skólanámsskrána í skóla Maríu í dag. Fletti henni í gegn og rak meðal annars augu í kynlegt kynjahlutfall starfsmenna.
Af níu stjórnendum eru 7 konur.
Af 20 umsjónarkennurum er enginn karl.
Af 22 öðrum starfsmönnum eru 17 konur.
Ég er ekki viss um að þetta kynjahlutfall starfsmanna í grunnskóla í sé alveg það heppilegasta með fullri virðingu fyrir þeim starfsmönnum sem ráðnir hafa verið til starfa við skólann. Það er kannski við stóran að deila en svona er þetta.

Skoðaði betur bréf Gordys. Hann segir að dýralæknar hafi hér áður farið að taka eftir því að Selengjöf í hesta fyrir hestaþolreið hafi gert það að verkum að það dró úr vöðvaskemmdum hjá hestunum í þessum hestaþolreiðum sem meðal annars hafi birst í "brown water" eða dökku þvagi. Selengjöf gerði það að verkum að vöðvaskemmdir urðu minni og þvag hestanna því ekki eins dökkt. Selen er meðal annars notað hérlendis í sauðfjárrækt til að draga úr hættu á stíuskjögri hjá vorlömbm sem hafa verið lengi á húsi. Gordy fór að nýta sér þessar niðurstöður sem gamall hestaþolreiðarmaður og tekur nú um 50 Mg/á dag í vikunni fyrir ultrahlaup.
Hann sagðist hafa farið að velta C vítamín notkun eftir að hann sá niðurstöður tilraunar frá því á sjöunda áratugnum þar sem gerðar voru rannsóknir á áhrifum C vítamíns á mýs og hve C vítamínið jók hæfni músanna til að standast álag. Músunum voru gefnir misstórir skammtar af C vítamíni og svo var athugað hve lengi þær gátu synt áður en þær sukku (en þá var þeim svipt upp úr!!!). Mýsnar sem fengu ekkert C vítamín gátu synt í ca 2,5 klst. Mýsnar sem fengu dálítinn skammt af C vítamíni gátu synt í um 5 klst en mýsnar sem fengu mega skammt af C vítamíni syntu stanlaust í 12 klst en þá voru þær teknar upp úr því rannsóknafólkið þurfti að fara heim.

Gordy blandar C vítamín dufti og salti út í orkudrykk eða djús og telur það nýtast betur á þann hátt heldur en að taka tölflur.
Þessi efni, C vítamín, Selen, E vítamín, Calsíum og Magnesíum tekur hann vikuna fyrir hlaup.

Athyglisvert.

Snemma beygist krókurinn (4)

 Posted by Picasa

þriðjudagur, desember 06, 2005

Fékk enn eitt bréfið frá Gordy Ainsleigh nú áðan. Hann er að fara betur yfir hvernig hann býr sig undir ultralöng hlaup. Hann segir að sér hafi gengið best árin 1997, 1999 og 2001 þegar hann gerði allt rétt í undirbúningnum. Hann fólst meðal annars í því að taka nokkur 50 M hlaup vikurnar fyrir WSER, vera nógu útitekinn þannig að hann gætu hlaupið ber að ofan (eins og hann gerði í sumar) yfir heitasta hluta dagsins og síðan að hlaða sig upp af eftirfarandi: E vítamíni, Selen, C vítamíni, Calsíum og Magnesíum. Ég þarf að lesa bréfið hans nákvæmar en þessi steinefna- og snefilefna uppbygging sem hann leggur mikla áherslu á gerir það að verkum að hann verður ekki eins aumur í lærvöðvunum og ella sem gerir það að verkum að hann getur haldið lengur þeim dampi sem lungun þola lengur og aumir vöðvar verða honum ekki til trafala.

Ég er afar ánægður með að fá þessar upplýsingar og fróðleik frá honum því karlar eins og hann sem eru hoknir af reynslu en einnig miklir hugsuðir í þessum málum geta miðlað manni afar verðmætri þekkingu að það getur skipt sköpum fyrir mig og aðra sem gagn hafa af. Ég hef ekki til skamms tíma heyrt af þessari steinefnauppbyggingu en þó hefur t.d. Stebbi Örn sagt að eftir að hann fór að taka Magnesium og Selen fyrir hlaup þá hafi sinadrátturinn minnkað að mestu eða öllu leyti.

Félagi Ágúst kláraði maraþon í Sacramento fyrir skömmu á 3.32 sem er hans besti tími. Það var hans áttunda. Hann segist iðulega þurfa að stökkva yfir snáka þegar hann tekur löngu hlaupin úti í hæðunum á góðviðrisdögum.

Snemma beygist krókurinn (3)

 Posted by Picasa
Það hefur átt sér stað nokkur umræða að undanförnu um breytingar á Rás tvö. Það hefur verið gefið út að það eigi að gera Rás tvö þannig úr garði að hún hæfi "unga" fólkinu betur en rás 1 verði svona fyrir miðaldra fólk og þaðan af eldra. Ég man þá tíð þegar Rás tvö var ung rás og átti að höfða sérstaklega til unga fólksins. Þá var svokallaður vinsældalisti spilaður dag út og dag inn og þótti ekki merkilegt dagskrárefni. Staða rásarinnar breyttist hins vegar gríðarlega til batnaðar þegar var farið að setja meiri metnað í dagskrárgerð og þannig meira kjöt á beinin. Gott ef það var ekki á þeim tíma þegar Stefán Jón kom heim úr námi. Nú skiptir það mig engu máli hvort ég hlusta á Gest Einar með "grátt í vöngum" á Rás 1 eða Rás 2. Það er í mínum huga engin niðurlækkun að vera fluttur yfir á rás 1 og stilliskrúfan á tækinu er mjög einföld í notkun. Það sem mér finnst hins þegar skrítið að einhverjir menningarvitar uppi í útvarpi telji að þáttur Gests Einars (alias tónlistin frá gullaldartíma rokksins) höfði ekki til ungs fólks. Það ungt fólk sem ég kannast við og hefur áhuga á tónlist, sem er kannski ekki margt en þó svona dálítið, sækir hugmyndir og innblástur nákvæmlega í þessa tónlist frá árunum 1964 - 1970. Aðdáun á henni er sko alls ekki bundin við fólk á mínum aldri sem ólst upp við hana heldur er stór hluti af þessum lögum klassískar perlur sem eru tímalausar. Það er meira en hægt er að segja um margháttaða tónlist sem fylgdi þar á eftir. Tónlist þessa tíma er toppurinn og það er enginn embætttismaður uppi í útvarpi sem segir unga fólkinu hvað því finnst gaman að hlusta á eða skilgreinir það nákvæmlega. Þetta kemur allt í ljós.

Strákarnir í 2. flokki Víkings í handbolta spiluðu við jafnaldra sína í Stjörnunni í gærkvöldi og unnu góðan sigur. Þeir hafa staðið sig vel í vetur og eru til alls líklegir. Nú er hins vegar jólaprófahrinan byrjuð þannig að það verður alvaran sem fengist er við á næstu vikum.

mánudagur, desember 05, 2005

Snemma beygist krókurinn (2)

 Posted by Picasa
Sé á heimasíðu WSER að það er búið að draga í þátttakenda lottóinu fyrir næsta ár. Pláss var fyrir um 38% af þeim Bandaríkjamönnum sem óskuðu eftir þátttöku en útlendingar komast beint inn. Nú eru þrír norðurlandabúar með, tveir Norðmenn og einn Svíi. Annar Norðmaðurinn er kona, Sharon Broadwell, sem er vel þekkt í norskum hlaupakretsum og er hún fyrsta norska konan sem leggur í WSER. Reyndar hafa einungis fjórir Norðmenn lokið hlaupinu til þessa, þar af tveir í fyrra. Fyrir ári síðan var ég varla búinn að segja nokkrum manni (nema félögum í 100 K félaginu) að ég hefði þessi brjáluðu plön framundan. Maður vissi svo sem ekki mikið hvað maður var að henda sér út í og ekki batnaði það þegar ég fór að fá betri upplýsingnar um hvað var í vændum. Rest is history. Ég heyri á Kristni félaga í San Fransisco að hann langar mikið til að taka þátt af alvöru árið 2007 og þarf því að klára lágmarksskilyrðin í ár. Það tekst vafalaust með aga og markvissum æfingum.

Sextíu og fjögurra ára gamall Svíi varð sjöundi í sex daga hlaupinu í Ástralíu og setti sænskt með. Sýnir að aldur er afstæður. Skyldi Biggi Sveins vita af þessu?!! Dettur í hug í þessu sambandi að einhver "ungur" fór að tala um miðaldra karlmenn með heldur lítilli virðingu á kallaráðstefnunni í Kópavogi í síðustu viku. Það virðist vera búið að gefa út allsherjar veiðileyfi á karla sem eru eldri en efri mörk hafa verið sett í ungmennadeildum stjórnmálaflokkanna. Mín skoðun á hvað er miðaldra og hvað ekki er að athafnir viðkomandi og líkamlegt og andlegt atgerfi er miklu betri mælikvarði á aldur en hve búið sé að fletta dagatalinu oft á æfiskeiði viðkomandi.

sunnudagur, desember 04, 2005

Snemma beygist krókurinn (1).

 Posted by Picasa
Búin að vera góð hlaupahelgi enda veðrið með afbrigðum gott. Logn og froststirningur svo marrar í spori en engin hálka. Tók góðan hring í hverfinu í gær en fór lengri túr í morgun. Það var LDS með þeim Sibbu og Bryndísi. Morguntúr sunnudagsins var um 25 km. Það var gott að hrista gærkvöldið úr hausnum en sambandið var með jólahlaðborð fyrir starfsfólk og maka austur á Eyrarbakka á laugardagskvöldið.

Það var góð kvöldstund á Bakkanum. Við byrjuðum á því að skoða byggðasafn Árborgar í Húsinu, síðan var farið yfir í Verslun Guðlaugs kaupmanns sem verslaði þar óslitið frá 1918 til ársins 1993 og þar voru framreiddar veitingar. Í byggðasafninu er eftirlíking af brennivínsámu kaupmannsins sem tók 1320 potta. Oft var salan það mikil að það þurfti að fylla á áður en dagurinn var á enda runninn.Þegar Guðlaugur hóf verslun á Bakkanum voru 12 verslanir í þorpinu og þar bjuggu um 1000 manns. Magnús Karel og Inga Lára hafa verið að gera húsið upp og varðveita það til framtíðar. Það er timburhús á þremur hæðum. Það brakaði nokkuð í loftbitum þegar hópurinn var kominn á efstu hæðina. Magnús sagði að þegar Guðlaugur hefði haldið veislur í húsinu þá hefði hann slegið stoðum undir gólfbita á tveimur neðstu hæðunum til að gestir gætu skemmt sér áhyggjulausir á efstu hæðinni.

Ef áhrifamenn á Eyrarbakka hefðu á á sínum tíma getað haft áhrif á hafnargerðina í Reykjavík og flutning biskupsstólsins frá Skálholti til Reykjavíkur en náð honum á Bakkann í staðinn þá væri Reykjavík kannski smáþorp en Bakkinn höfuðborg landsins. Svona geta tiltölulega fáar ákvarðanir haft afgerandi áhrif til allrar framtíðar. Líklega réð betri hafnaraðstaða í Reykjavík úrslitum því Bakkinn liggur fyrir opnu hafi og hafnargerð erfið og dýr.

Síðan var haldið yfir í Rauðahúsið þar sem matur og með því beið. Þetta var fínt kvöld og allir skemmtu sér hið besta. Alveg gleymdi ég að drekka vatnsglas á móti hverju rauðu eins og Gísli segist hafa gert samviskulega en innbyrti rauðvín og koníak af mikilli kostgæfni og hafði engar áhyggjur af morgundeginum enda reyndist það ástæðulaust.

Það er full ástæða til að óska frjálsíþróttum til hamingju með nýja frjálsíþróttahúsið í Laugardalnum. Ég kíkti inn í vikunni þegar ég var að sækja Maríu á æfingu. Þetta hljóta að vera ótrúleg umskipti fyrir iðkendur og þjálfara að fara úr Baldurshaganum yfir í þetta musteri sem býður upp á það bestu aðstöðu sem hægt er að bjóða upp á. Vonandi mun þetta hafa þau áhrif að iðkendum frjálsra íþrótta muni fara fjölgandi en þær hafa átt nokkuð undir högg að sækja vegna mikilla vinsælda fótboltans fyrst og fremst og einnig hefur aðstaðan ekki verið til að draga fólk að.

föstudagur, desember 02, 2005

Sambandið hélt ráðstefnu um Lýðræðið í dag í tilefni af 60 ára afmæli sínu. Ráðstefnan var ágæt og þokkalega sótt. Fyrirlesarar nálguðust viðfangsefnið frá ýmsum hliðum. Það sem stendur helst eftir hjá mér var sá hluti ræðu Gunnars Helga stjórnmálafræðings þegar hann fjallaði um það hverjir væru virkir í hinu svokallaða íbúalýðræði. Þátttaka í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna á Íslandi er mjög há miðað við þau lönd sem við berum okkur oft saman við. Hún er yfirleitt á milli 80 og 90% á meðan hin norðulö-ndin eru með þátttöku á milli 50 og 65%. Í Bandaríkjunum er hún yfirleitt undir 50%. Á hinn bóginn er þátttaka í kosningum um afmörkuð málefni yfirleitt mikið minni. Í kosningunni um flugvöllinn kusu 35% og í kosningu um hundahald í Reykjavík kusu 13%. Í ræðu GUnnars Helga kom fram að þeir sem væru virkastir á íbúaþingum væru alls ekki þverskurður af þjófélaginu. Það væri yfirleitt vel menntað fólk, oftar en ekki flokksbundnir og með góðar tekjur. Því setti hann fram þáspurningu hvort það væri rétt að svona takmarkaður hlutri af samfélaginu væri að taka ákvarðanir fyrir heildina. Er það lýðræði?

Þessi spurning kemur mér til að hugsa um karlafundinn í Kópavogi í gær. Þar mættu eitthvað um 150 manns. Hverjir mæta á svona fund? Það eru þeir sem ekki hafa annað við tímann að gera, sérstakir áhugamenn um málið og menn sem eiga auðvelt með að fara úr vinnunni á svona fundi. Nú er farið að túlka ályktanir fundarins sem að "karlmenn á Íslandi hitt" og "karlmenn á Íslandi þetta". Ég vil bara þakka kærlega fyrir að einhver fundur áhugamanna um eitthvað málefni í Kópavogi sé að tala fyrir mig og túlka skoðanir mínar í einhverju máli. Ekki í þessu frekar en að einhver hópur karla myndi hittast í Kópavogi og vera sammála um að taka upp dauðarefsingu. Ég er hræddur að það hvini í einhverjum ef ályktanir slíks fundar væru túlkaðar á þann veg að allir karlmenn á Íslandi vilja dauðarefsingu. Á svona fundi koma ekki karlar sem geta ekki fengið sig úr vinnu eða eru að vinna þannig vinnu sem gerir það að verkum að þeir eru allt annarsstaðar á landinu eða út á sjó og svo framvegis. Þess vegna er alveg út í hött að fara að alhæfa um niðurstöður úr umræðum á svona fundi.

Ég hlustaði á útvarpið í gær. Þá var einhver útvarpsmaður sendur út af örkinni að taka viðtöl við karla um hvað þeim fyndist um efnistök og innihald fundarins. Í ljós kom að fæstir höfðu velt þessu fyrir sér af einhverju marki. Einn svaraði dálítið glannalega og sagði að þeir karlar sem hann þekkti vildu helst hafa bjór og stripp þegar þeir hittust. Fréttamaðurinn var greinilega ekki alltof glaður yfir að fá svona svör því þegar hún kvaddi þá sagði hún: "Takk fyrir og gangi þér vel" (og svo kom örstutt þögn og síðan sagði hún) "í slorinu".

Þórir Karl félagi forn lenti í átökum í fyrradag, þegar hann vildi leita réttar síns um að fá að leggja í bílastæði fyrir fatlaða sem ófatlaður strákur hafði lagt í. Þegar sá ófatlaði kom út úr versluninni skammaðist hann sín ekki vitund þegar við hann var talað og endaði með því að sparka í Þóri. Síðan færði hann þau rök fyrir sparkinu að "karlinn hefði ekki einu sinni verið í hjólastól". Þetta er náttúrulega með ólíkindum. Ég verð æ sannfærðari um það að gapastokkurinn er bæði vanmetinn og vannýtt refsitæki. Þórir er búinn að ganga í gegnum ótrúlega hluti vegna baksins sem er ónýtt. Bakið á honum er spengt saman með járnplötum og var það gert framanfrá.

Sá góða umræðu í íslandi í dag um málefni einstæðra feðra. Augu fjölmiðla eru kannski aðeins að beinast að þeim mannréttindabrotum sem hafa verið framin á þeim af tómu miskunnarleysi á liðnum áratugum. Yfirleitt þegar farið hefur verið að tala um þessi mál þá hefur verið ráðist á ákveðnia einstaklinga úr hópi feðranna og þeir sakaðir um vanrækslu og og skeytingarleysi gagnvart börnunum og síðan alhæft fyrir hópinn allann. Mjög þekkt aðferðafræði þegar málefnaleg og efnisleg rök mega ekki komast að í umræðunni.

Setti nokkrar myndir inn á myndahlekkina. Bæði þær sem ég tók af tjörninni í vikunni og síðan aðrar sem ég fann á vefnum af hlaupaleið í gegnum Grand Canyon. Bandarískur hlaupari hljóp 42 mílna leið í gegnum gljúfrin um miðjan nóvember og tók myndir í leiðinni. Hann var um 12 tíma á leiðinni enda hækkun og lækkun í heildina um 3300 metrar. Þarna væri gaman að taka LSD sunnudagstúr.