miðvikudagur, október 27, 2010

EBBA GRÖN MED 800 GRADER!!!!

Gróft brot í leik Gróttu og Víkinga

Það var um ræða um Herbalife á Bylgjunni í morgun undir forskriftinni "Herbalife veldur lifrarskaða". Nú er það mjög slæmt ef satt er. Ekki skiptir máli í því sambandi að ég bæði nota Herbalife sjálfur og er formlegur dreifingaraðili þótt ég selji svo sem ekki mikið. Ef Herbalife er ekki hollt þá er eins gott að það komi þá fram. Það sem mér fannst hins vegar vera afar dapurlegt er hvað umfjöllunin var ófagleg og frumstæð. Það var ekkert í henni sem hægt er að kalla fræðilega hvað þá að viðbrögð fréttamanna væru gagnrýnin eða krefjandi. Það höfðu fundust fjögur dæmi um að það höfðu fundist breytingar á lifur af notkun Herbalife. Nú er fjöldinn allur af Herbalifevörum til. Loks var hægt að greina það út úr samtalinu að um var að ræða grænt te sem hafði verið neytt í miklu magni. Ekkert var skýrt út hvað þessir fjórir umræddu kæmu úr stórum hópi. Var hópurinn 10 manns, 100, 1000. 10.000 eða 100.000. Auðvitað skiptir það máli. Ekki er rokið af stað með stórar fyrirsagnir í blöðum um að pencelín valdi ofnæmi enda þótt borgarstjórinn í Reykjavík liggi á sjúkrahúsi vegna bráðaofnæmis af völdum pencelíns. Síðan var aldrei komið inn á hvað mikið magn af þessu tei viðkomandi einstaklingar hefðu drukkið. Var það einn bolli á dag, 10 bollar á dag eða 100 bollar? Vitaskuld skiptir það máli. Það er hægt að éta sig til andskotans af flestum hlutum ef þeirra er neytt í miklu óhófi. Síðan er mjög ófaglegt að ræða svona hluti undir fyrirsögninni "Herbalife veldur lifrarskaða". Þá eru allar Herbalife vörurnar settar undir einn hatt en ekkert kom fram í fréttaumfjöllunni að það væri nokkur fótur fyrir því. Þessi fréttaflutningur er því miður bara enn eitt dæmið um afar óvandaðan málflutning og frumstæða umfjöllun sem nóg er að í fjölmiðlum þessi misserin.

Ég nota fæðubótarefni einungis í sambandi við erfiðar æfingar og erfiða keppni. Ég hef þá reynslu að það sé til bóta. Ég sé aftur á móti enga þörf fyrir að nota próteindrykki enda þótt fólk sé eitthvað að dingla sér í líkamsræktarstöðvum og leggur ekki meir á sig en svo að það sést varla svitablettur á bakinu á þeim. Fyrst og fremst á fólk að borða góðan og heilnæman mat.

Ég sé í mogganum í morgun að það hafa verið gerðar kannanir á launamun kynjanna hjá VR og SFR. Í báðum tilvikum var hægt að færa nokkur rök fyrir að launamunur væri um 10%. Engu að síður er verulegur munur á tölfræðilegum skekkjum í slíkum útreikningum svo líkur benda til að launamunurinn sé enn minni. Engu að síður gagnrýnir enginn að það hafi verið básúnað á Lækjartorgi á mánudaginn og í allri umræðu í kringum þann dag að launamunur kynjanna væri 30% að jafnaði á landinu. Þorir enginn annað en að kóa með eða er gagnrýnin blaðamennska fyrir bí.

Það er oft gott að gera sér grein fyrir stærðum með því að bera þær saman við eitthvað annað sem er þokkalega þekkt. Laugardalsvöllurinn tekur um 10.000 manns í sæti í báðar stúkurnar ef þær eru fullsettar. Það er dágóður hópur. Samkvæmt frásögn nærstaddra voru fimm sinnum fleiri en fullsetinn Laugardalsvöllurinn tekur í sæti staddur á Arnarhóli á mánudaginn. Dæmi hver fyrir sig hvort að það stenst.

Ég heyrði í dag rætt við bónda sem hafði framleitt um fimm tonn af repjufræi og ætlaði að pressa olíuna úr þeim. Líkur benda til að olían sé svona þriðjungur af korninu. Gera á tilraun með að nota olíuna til að blanda saman við hráolíu. Fréttamaðurinn byrjaði strax að tala um hagnað og sparnað án þess að ýja einu orði að því hvað olían sem kæmi úr repjufræjunum kæmi til með að kosta. Það væri nú allt í lagi að vita eitthvað um það.

Ég er sem Víkingur brjálaður út í handknattleiksdeild Vals. Í vor gekk fráfarandi stjórn handknattleiksdeildar Víkings frá leikmannasamningum við strákana sem voru að ganga upp úr 2. flokk. Þeir létu eðlilega það bíða komandi stjórn að ganga frá viðaukasamning við þá því að í þeim er fjallað um hugsanlegar greiðslur. Valsmenn notuðu sér þetta millibilsástand og lokkuðu til sín línumann félagsins þrátt fyrir að hann væri búinn að skrifa undir leikmannasamning. Það var talið standast þar sem ekki var formlega búið að ganga frá viðaukasamningum. Í samningalögum eru hins vegar munnlegir samningar taldir jafngildir skriflegum. Línumaðurinn hefur síðan ekkert fengið að spila með Val í haust þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið eingöngu niður á við. Að lokum var hann svo lánaður til Gróttu sem er að keppa við Víking í
1. deildinni. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en skemmdaverkastarfsemi.

mánudagur, október 25, 2010

Á útmánuðum 1970 fór ég í fyrsta sinn að vinna formlega launavinnu. Það var í frystihúsinu á Geirseyri við Patreksfjörð. Það var auðvitað ákveðin upplifun fyrir óreyndan ungling að fá greitt í peningum vikulega fyrir það sem maður gerði. Þessir tímar í frystihúsinu voru eftirminnilegir á margan hátt. Meðal annars man ég eftir að á þessum tíma höfðu konur í frystihúsinu lægri laun en karlarnir. Það voru niðurstöður kjarasamninga þeirri tíma. Nú myndu einhverjir úr meðvitaða liðinu segja að þetta sé eftir öðru hjá karlahelvítunum. Alltaf hafi þeir kúgað kvenfólkið. Það var hins vegar víðar pottur brotinn í launamálum á þessum árum. Sjómenn á vetrarvertíð (sem voru því sem næst 100% karlar) fengu t.d. ekki launin gerð upp fyrr en eftir vertíðarlok. Þeir fengu trygginguna greidda út eftir hvern mánuð en heildaruppgjör fór ekki fram fyrr en undir mánaðmót maí/júní fyrir vetrarvertíðina. Tryggingin jafnaðist á við lág dagvinnulaun. Þarna lánuðu sjómennirnir útgerðunum verulega fjármuni um margra mánaða skeið, vaxtalaust. Oft í mikilli verðbólgu. Þetta var hins vegar hvorutveggja lagað nokkrum árum síðar. Á þessum árum sáu bændur varla peninga. Kaupfélögin vildu fyrst og fremst hafa vöruskipti. Bændur lögðu afurðirnar inn og þeir áttu síðan helst að kaupa vörur til baka hjá sama kaupfélaginu. Þetta breyttist ekki fyrr en uppúr 1990.
Þegar maður man fyrst eftir var ekki allstaðar talið jafn sjálfsagt að stelpur færu að læra eins og strákarnir. Það var þó vissulega misjafnt. Konur til sveita áttu ekki formlega aðild að búrekstrinum enda þótt þær ynnu jafnmikið við hann og karlarnir. Launamisrétti kynjanna var vafalaust víða til staðar. Svona mætti áfram telja. Margir vildu breyta þessu, auka jafnrétti og veita konum aukið brautargengi til áhrifa. Upp úr þessu andrúmslofti spratt m.a. umræðan um kvennafrídaginn 1975. Upp úr þessu andrúmslofti skapaðist einnig stemmingin í kringum forsetakjör Vigdísar Finnbogadóttur 1980. Ég man enn hve spenntur maður var að bíða eftir tölunum frá Austfjörðum sem komu ekki fyrr en undir kl. 6:00 um morguninn. Upp úr þessu andrúmslofti spratt kvennalistinn á sínum tíma o.s.frv. o.s.frv. Á þessum árum fylgdi maður þessari umræðu af heilum hug. Ég verð hins vegar að segja að viðhörf öfgafeminista og karlahatara sem hafa á margan hátt tröllriðið jafnréttisumræðunni á seinni tímum hafa orðið til þess að þessi umræða höfðar ekki jafnmikið til mín eins og áður. Maður er einnig orðinn gagnrýnni.
Í dag stendur upp úr flestum flestum fjölmiðlum svo og þeim sem unnu að undirbúningi baráttudagsins í dag að launamunur kynjanna sé 30%. Þessa staðhæfingu étur hver eftir öðrum en enginn gerir tilraun til að kryfja þessi mál og greina hvort þessi staðhæfing standist. Ég vil leyfa mér að fullyrða að svo sé ekki. Að launamunur sé 30% að jafnaði er gríðarlega mikill munur. Mér þætti við hæfi að fjölmiðlamenn myndu spyrja sjálfan sig hvort karlar séu ráðnir á 30% hærri laun heldur en konur þar innan dyra fyrir sömu vinnu, sama vinnutíma, sömu menntun og sömu ábyrgð. Hjá sveitarfélögunum er unnið eftir svokölluðu starfsmati. Þar eru störfin krufin og greind eftir ákveðnu kerfi sem á að tryggja að það séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu og aðrar aðstæður jafnar. Um þetta kerfi ríkir sátt. Hægt er að áfrýja ágreiningsmálum inn í ákveðinn farveg. Ætla menn að halda því fram að karlar sem kenna í framhaldsskólum séu kerfisbundið ráðnir á 30% hærri laun en konur þegar sömu störf eru unnin og menntun álíka svo dæmi sé nefnt. Mér hefur ekki verið sýnt fram á að svo sé. Þannig mætti áfram telja. Hafi launamunur viðgengist í formi óunnar yfirvinnu, aksturspeninga og annarra aukagreiðslna þá hafa slíkar sporslur verið skornar miskunnarlaust niður á síðustu tveimur árum svo launamunur sem kom til af slíkum orsökum er að miklu leyti horfinn. Segjum svo að opinberi geirinn sé þokkalega jafn hvað launamun kynjanna varðar þá hlýtur munurinn hjá einkageiranum að vera enn meiri til að ná meðaltalinu upp í 30%. Stenst það að launamunur sé svona 50% í einkageiranum fyrir sambærileg störf, sambærilega ábyrgð fólks með sömu menntun? Það eru vafalaust aðrir betur hæfir til að svara því en ég en ég vil fá staðreyndir á borðið en ekki eitthvað fjas utan úr vindinum. Ég man ekki betur en að þegar allar forsendur voru lagðar jafnar þá var sannanlegur launamunur metinn svona 6-7% fyrir ca tveimur árum. Ég er alls ekki að segja að hann sé réttlætanlegur en þessi niðurstaða er allt annar hlutur en 30%. Þetta er svolítið dæmigert fyrir umræðuna á Íslandi. Fullyrðing kemur út úr þokunni, hún er gripin á lofti og er orðin að óyggjandi staðreynd í flestra munni fyrr en varir.
Í stöðu dagsins má ekki gleyma ýmsum hlutum. 2/3 þeirra sem útskrifast úr háskólum hérlendis eru konur. Verulegur meirihluti atvinnulausra eru karlar. Brottfall stráka úr framhaldsskóla er miklu hærra en stelpna. Meiri hluti unglinga á framhaldsskólaaldri sem selja sig í vændi eru strákar. Það er undantekning ef pabbinn fær dæmda forsjá barna við skilnað og alltof oft er þeim gert illmögulegt að ná fram eðlilegum umgengnisrétti við börnin. Konur eru afar sjaldséðar í erfiðum og óþrifalegum störfum eins og í byggingariðnaði og sjómennsku. Staðan í jafnréttismálum getur tekið á sig ýmsar myndir.
Það hefur verið haft á orði meðal harðlínufólks í jafnréttismálum að það þurfi fléttulista til að tryggja konum sæti á framboðslistum. Annars troði karlarnir þeim beint eða óbeint aftur fyrir sig. Af 535 einstaklingum sem buðu sig fram til setu á stjórnlagaþingi voru einungis 30% konur. Þarna voru þó engin höft nema hjá einstaklingunum sjálfum. Það þýðir ekkert að segja að konur hafi ekki sömu tækifæri til að taka svona verkefni að sér eins og karlar og því hafi þær ekki gefið kost á sér.

laugardagur, október 23, 2010

Bengt Pegefelt - Köppäbävisan

Útsýnið frá Polhelmsfjallinu í ATC keppninni

Haustmaraþonið var haldið í dag. Veðrið var eins og best er á kosið á þessum árstíma, logn og svalt. Ég bjó mig ekki neitt sérstaklega undir hlaupið nema að ég hljóp ekkert í gær. Svo varð ég of seinn að skrá mig, karbólódaði ekkert en tók það sem hluta af æfingaáætluninni. Hlaupið var fínt, góð þátttaka og öll umgjörð eins og best verður á kosið. Takk fyrir mig. Ég ætlaði að rúlla í gegnum hlaupið án mikilla átaka og það gekk allt upp. Tíminn varð betri en ég átti von á eða undir 3.30, þrátt fyrir að ég þurfti að skjótast út í skóg á fyrri hring. Það er gott aða eiga þenna tíma í handraðanum ef maður skráir sig í hlaup þar sem gerð er krafa um árangur. Þessi tími dugar hvar sem er fyrir mann á mínum aldri.
Ég held að ég hafi verið á negatívu splitti eða verið hraðari á seinni hring en þeim fyrri. Það er í sjálfu sér ágætt. Það er merkilegt hvað allt er afstætt. Áður fannst mér maraþonið vera mjög lengi að líða og nauðsynlegt var að hafa útvarp í eyrunum til að stytta sér stundir þennan langa tíma sem hlaupið tók. Nú líður tíminn eins og örskot, maður er kominn á seinni hring áður en hendi er veifað. Seinni hringurinn líður einnig mjög hratt og áður en maður veit af eru bara 5 km eftir. Leiðina frá Nauthól hef ég hlaupið 1000 sinnum svo hvert skref er kunnuglegt á þeirri leið og þá er orðið stutt eftir. Alltaf er jafngaman að ljúka maraþoni og henda sér niður í grasið á eftir. Í því fest tilhlökkunin!! Fyrir nokkrum árum fóru alltaf nokkrar neglur í maraþonhlaupi. Maður kom oft heim með blöðrur á fótunum og hélt að þetta ætti bara að vera svona. Maraþonhlaup væri alvöru mannraun sem kostaði blóð, svita og jafnvel tár. Eftir að ég er farinn að hlaupa í stærri skóm en áður þá er þetta alveg horfið. Fæturnir eru að afloknu hlaupi eins og maður hafi ekki farið út úr húsi.
Hröðustu menn voru vel undir þremur tímum sem er mjög gott í svalanum sem er hér um miðjan október.
Félag maraþonhlaupara a´sóma skilið fyrir hve vel er staðið að þessu hlaupi enda sýnir aðsóknin það að hlaupararnir kunna að meta það.
Sjónvarpið mætti á staðinn í morgun og tók viðtöl út og suður. einnig mynduðu þeir hlaupið þegar það var komið af stað. Flott hjá þeim. Mbl.is birti frétt af hlaupinu og einnig var frásögn af því í íþróttafréttum RUV í hádeginu. Það er að renna upp fyrir fjölmiðlamönnum hvað er að gerast í almenningshlaupuum á Íslandi. Það hefur orðið alger sprenging í þátttöku almennings í þeim. Það er á hreinu að þessi þróun hefur miklu meiri áhrif til almennrar heilsueflingar í landinu en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði. Maður er náttúrulega bara í forréttindahóp að geta verið þátttakandi í þessu æfintýri.

Ég er ekki sérstaklega kristinn og fer sjaldan í kirkju. Ég gerði tilraun til að skrá mig úr þjóðkirkjunni fyrir rúmum 10 árum þegar Ólafsmál Skúlasonar komu upp á yfirborðið af alvöru. Ég hef reyndar ekki gáð að því hvort úrsögnin hafi náð alla leið í gegn. Þrátt fyrir þetta þá virði ég þau grundvallaratriði sem kristin trú byggir á. Þá á ég fyrst og fremst við nýja testamentið. Hið gamla má sigla sinn sjó. Ég held að áhrif kristinnar trúar ínn í samfélagið séu meir til bóta en ógagns. Prestar eru mjög misjafnir. Góðir, mannlegir og gefandi prestar eru virtir vel. Hinir mega missa sín. Ég ber misjafna virðingu fyrir trúarbrögðum. Hindúatrú líkar mér ekki við. Það er fyrst og fremst vegna þes að hún viðheldur hinni hrikalegu stéttaskiptingu í þeim löndum þar sem hún hefur náð fótfestu. Islamstrú er enn verri. Trú sem byggir á sharialögunum er ekkert grín. Grýtingar, handhögg og kvennaforakt(svo dæmi séu nefnd) sem byggja á trúarsetningum eru vægt sagt varasöm. Mjög fámennur en hávær hópur fólks hérlendis hefur viljað útiloka umræðu um kristna trú út úr fræðslustarfsemi hérlendis. Nú virðist sem svo að þessi hópur hafi náð meirihluta í svokallaðri mannréttindanefnd hér í borginni. Niðurstaðan var dæmalaus samþykkt þar sem kristin trú skyldi útilokuð úr leikskólum og grunnskólum hérlendis. Ég heyrði á dögunum viðtal við einn úr þessum hópi í útvarpinu. hann avr spurður að því hvort ekki ætti að kjósa um þetta mál eins og almenn umræða gengur mikið út á þessa dagana. Nei, aldeilis ekki. Um þetta mátti ekki kjósa. Náunginn fimbulfambaði mikið um að meirihlutinn mætti ekki kúga minnihlutann í þessum efnum. En má þá mjög lítill minnihluti kúga meirihlutann eða hvað í skjóli pólitískrar hreintrúarstefnu? Öfgafull og vitlaus umræða hefur alltaf verið til staðar og verður alltaf til staðar. það er bara eðlilegt. Það sem manni finnst aftur á móti vera varasamt í dag að það er farið að taka meira mark á svoleiðis málflutningi. Þjóðfélaginu verður ekki breytt með einfaldri meirihlutasamþykkt einhverrar nefndar ef eitthvað vit væri í samfélagslegri umræðu.

Ég fékk tvær myndabækur í gær. Þessar stóru myndabækur, sem gefnar eru út í dag eru margar hverjar bæði frábærlega gerðar og fullar af flottum myndum. Þær kosta einnig miklu mina en þær gerðu fyrir um 20 árum síðan þegar þær fóru fyrst að koma á markaðinn. Ég held ég gleymi seint tilfinningunni þegar ég fletti fyrst Íslandsbókinni eftir Sigurgeir Sigurjónsson sem kom út á 10 áratugnum. Maður hafði aldrei séð aðrar eins myndir.
Önnur bókin sem ég fékk var Veiðimenn Norðursins eftir RAX. Stórkostleg bók með gömlum og nýjum frá Grænlandi. Þar er m.a. góð yfirlitsmynd frá Tassilaq sem sýnir vel hluta af leiðinni sem við fórum í óbyggðakeppninni árið 2007.
Hin bókin er Fótbolti í Afríku eftir Pál Stefánsson. Þessi bók er einnig frábær nálgun á óvenjulegt viðfangsefni. Það eru gríðarleg forréttindi fyrir ljósmyndara að hafa aðstæður til að takast á við svona verkefni og skila þeim svo vel frá sér eins go raun ber vitni.

miðvikudagur, október 20, 2010

Canned Heat - On The Road Again

Sumarkvöld á Rauðasandi

Svokölluð Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið töluvert í fréttum að undanförnu. Þau hafa beitt sér fyrir því að lán í þjóðfélaginu væru almennt færð niður um ákveðna prósentu. Um þessa stefnu eru vægsat sagt deildar meiningar og hafa margir leitt fram þá vankanta sem fylgja þessari aðferðafræði. Samtökin hafa brugðist við af hörku. Umboðsmaður lánþega fékk yfir sig fúkyrðaflaum í fjölmiðlum og aðrir sem hafa gagnrýnt málflutning samtakanna hafa margir hverjir ekki farið varhluta af hinu sama. Þeð er svo sem ákveðin aðferðafræði að fara í manninn en ekki í boltann þegar ást er við. Spurnign er hvað hún endist til lengdar. Nafn samtakanna er umræðuefni út af fyrir sig. Samtökin segja að þau megi nefna sig hvað sem er. Það er rétt svo langt sem það nær. Eitt er að nefna sig einhverju nafni en annað er að koma ekki fram undir fölsku flaggi. Ég hef heyrt að það séu ca 3000 heimili í samtökunum. Ég verð þá leiðréttur ef þetta er ekki rétt. Það eru svona 100.000 heimili í landinu. Ég sé ekki að það gangi upp að samtök sem telja svona 3% af heimilum í landinu geti með fullum rétti kallað sig "Hagsmunasamtök heimilanna" með ákveðnum greini. Það vísar til allra heimila í landinu. Það er náttúrulega algerlega fráleitt að samtök sem byggja ekki á meiri fjölda en mig grunar að sé bak við nefnið geti farið fram með þessum hætti. Samtök lánþega eru grein af sama meiði. Hér á síðunni hefur verið sagt að það séu um 3000 lánþegar bak við nafnið. ekki veit ég hvort félögunum hefur verið safnað með "like" á Facebook en það er sama. Ætli það séu ekki svona 100.000 - 150.000 lánþegar í landinu. Þá eru ekki nema 2-3% lánþega í landinu á bak við þessi samtök í besta falli. Í báðum tilvikum eru hér um að ræða fámenn sérhagsmunagæslusamtök sem eru að reyna að leysa sinn persónulega vanda á kostnað almennings. Ein aðferð er að lokka fólk sem er ekki í neinni þörf fyrir aðgerðir til fylgis við hugmyndafræði sína með því að halda því fram að það eigi að lækka lán hjá öllum og það kosti ekki neitt eða sé dreift á svo langan tíma að það muni ekkert um það. Þetta er náttúrulega mjög rangt statement. Afskriftir lána hjá íbúðalánasjóði myndu fara beint á reikning ríkisins því hann myndi missa lánshæfi og trúverðugleika hjá þeim sem fjármagna sjóðinn með lánsfé. Það er síðan algerlega út í hött að gera lífeyrissjóðina upptæka í þessu skyni. Ég sé haft eftir talsmanni "Hagsmunasamtaka heimilanna" að það þurfi fyrst að fara í almenna niðurfærslu lána (það er víst kölluð leiðrétting) svo ekki þurfi eins margir að leita í þau sértæku úrræði sem eru í boði. Hvaða rökleysa er þetta? Ég þarf ekki á neinni niðurfærslu á mínum skuldum að halda. Ég get borgað af þeim lánum sem ég er ábyrgur fyrir. Á að skerða lífeyrisréttindi almennings til að ég þurfi að eyða minni fjárhæðum í að borga af mínum skuldum. Þeim fækkar ekkert sem þurfa á sértækum aðgerðum að halda þótt ég fái mínar skuldir lækkaðar. Með því móti væri verið að henda peningum í sjóinn.

Í einum fréttatímanum heyrði ég sagt að hagsmunasamtökin hefðu lagt fram þá tillögu að ríkisstjórnin ætti að fastsetja vexti og verðbætur. Þessi aðferðafræði var reynd á Kúpu á sínum tima þegar Castró og Che komust þar til valda á sínum tíma. Hægt er að skoða hvernig það dæmi gekk upp. Í Sovétríkjunum var brauðverðið sett fast. Austurblokkin fór komplett á hausinn fyrir um 20 árum síðan. Það eiga allir að vita sem hafa alist upp í nútíma hagkerfum að vita að ef ríkið ákveður útlánavexti lægri en lánsféð kostar þá verður einhver að borga mismuninn. Það yrði ekki lengi gert að þurrausa ríkissjóð með því móti.

Eitt gáfulegasta innleggið sem ég hef heyrt í umræðunni kom nýlega frá Pétri Blöndal þar sem hann lagði til að staða þeirra sem skulda fjármuni væri kortlögð nákvæmlega svo menn vissu eitthvað um hvað væri verið að tala. Hin svoköluðu "Hagsmunasamtök heimilanna" hafa talað eins og það sé obbinn af íslenskum heimlilum á hausnum. Það er beinlínis rangt eins og dæmin hafa síðan sannað. Uppboðsbeiðnir eru lítið fleiri en voru hér á árum áður, Vanskil eru eilítið meiri enda furða skyldi. Það að fjöldinn sem er á vanskilaskrá hafi ekki aukist meir en úr 16 þúsundum þegar allt lék í lyndi upp í rúm 20 þúsund segir sína sögu.

Ég las einhversstaðar eftir talsmanni Hagsmunasamtakanna að allt hafi verið í þokkalegu lagi um áramótin 2007/2008. Það er mjög röng fullyrðing. Hagkerfið fór að skjálfa fyrir alvöru um mitt ár 2007. Þá fóru hlutabréfin að falla. Fall þeirra hélt áfram til áramóta þrátt fyrir tilraunir bankanna til að keyra það upp aftur. Vitaskuld vonuðu allir að efnahagskerfið myndi jafna sig en allir sem vildu vita sáu að eitthvað mikið var að gerast. Húsnæðisbólan var þarna í hámarki og allt tal um hátt eiginfjárhlutfall á þessum tíma er vægt sagt byggt á sandi því sölutregða var hafin af því að fæstir seljenda vildu lækka verðið frá því sem það hafi hæst verið misserin á undan.

Ríkisstjórning ætlar að stytta tímann niður í tvö ár sem hægt er að innheimta skuldir af gjaldþrota fólki. Þessi aðferðafræði hefur tvær hliðar. Meginmálið er að draga ekki úr greiðsluvilja almennings. Vafalaust léttir þetta á einhverjum sem hafa neyðst til að fara í svarta vinnu og verið í raun útilokaðir frá almennu atvinnulífið. Það er kostur. á hinn bóginn þýðir ekki að líta fram hjá því að þessi aðferðafræði mun gera það að verkum að það verður erfiðara að fá lán hjá lánastofnunum. Það ætti einnig að taka upp flokkun lántakenda eftir því hve þeir eru metnir ábyggilegir. Þeir sem hafa trausta lánasögu eiga að greiða lægri áhættuvexti ofan á lánin en þeir sem annað tveggja hafa flekkótta sögu eða hafa ekki náð að sanna sig á lánamarkaði. Það verður að vera einhver hvati til staðar að standa í skilum. Það væri gaman að vita hvaða reglur gilda um þessi mál í öðrum norrænum ríkjum.

Andrea Merkel flutti ræðu nýlega þar sem hún fjallaði um fjölmenningarsamfélög. Niðurstaða hennar var að það hefði mistekist hrapalega að skapa slíkt samfélag í Þýskalandi. Það leið ekki langur tími þar til búið var að finna einn úr meðvitaða liðinu hérlendis sem sagði að Andrea hefði einfaldlega misskilið þetta allt saman. Það sem hefði farið úrskeiðis í Þýskalandi væri síðan fyrst og fremst Þjóðverjum að kenna. "Miklir menn erum vér Sámur minn"

Tvær konur úr Grindavík, þær Anna Sigríður Sigurjónsdóttir og Christine Buchholz, hlupu nýlega 100 km hlaup í nágrenni Madrídar á Spáni. Þetta var að sögn ekki venjulegt brautarhlaup heldur hlaupið í hæðóttu landslagi. Það er flott þegar hlauparar leggja til atlögu í fyrsta sinn við þetta verkefni og ljúka því með sóma. Þær munu vonandi takast á við önnur álíka verkefni í náinni framtíð.

laugardagur, október 16, 2010

Easy Rider - Born To Be Wild

Menningarhúsið á Akureyri

Það virðist vera svo að það sé vís leið til að komast inn í fréttir hjá 365 samsteypunni að gera eitthvað af sér gagnvart opinberum aðilum eða hóta þeim.
Maður brýtur allt og bramlar inni í Tryggingastofnun og ræðst á starfsfólk stofnunarinnar af því hann er ósáttur við úrlausn sinna mála. Tvö viðtöl á Stöð 2.
Maður ræðst á tæki og húsbúnað hjá Umboðsmanni skuldara og veldur stórskaða hjá stofnuninni af því hann er ósáttur við úrlausn erindis síns. Langt viðtal á Vísi.is þar sem honum er leyft að koma fram í skjóli nafnleyndar og réttlæta gjörðir sínar.
Maður stofnar Facebook síðu þar sem hann hvetur til þess að fólk brjótist inn hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Langt viðtal í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann reynir að gera grín að eðlilegum viðbrögðum lögreglunnar.

Þetta eru alvarlegustu dæmin um þau tilvik þar sem mér hefur fundist að starfsfólk Stöðvar 2 hefur farið langt yfir strikið í eðlilegum fréttaflutningi ef fréttaflutning mætti kalla. Með þessari afstöðu er stöðin að ýta undir það að fólk beiti ofbeldi inni á stofnunum, gagnvart starfsfólki stofnana og gagnvart heimilum ráðamanna ef það er ósátt við úrlausn sinna mála. Nú veit ég að margir eru fjárhagslega í mjög erfiðum málum af ýmsum orsökum. Hluti þeirra hafa lent í atburðarás sem þeir eru ekki gerendur heldur fórnarlömb, m.a. vegna atvinnumissis. Aðrir voru skuldsettir fram á ystu nöf fyrir hrunið og ekkert mátti því út af bera. Enn aðrir eru þarna einhversstaðar mitt á milli. Það leiðir hins vegar til algerrar upplausnar ef það á almennt að gilda að einstaklingar nái fram úrlausn sinna mála með ofbeldi.
Hvað sem ráðamenn segja þá er það einföld niðurstaða sem fæst með því að beita heilbrigðri skynsemi að það verður aldrei hægt að leysa hvers manns vanda. Þannig er það bara. Svoleiðis hefur það alltaf verið. Ég þekki vel til stöðu mála út um allt land. Í gegnum árin hafa orðið miklir fólksflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem orsakast m.a. vegna mikilla breytinga á atvinnuháttum. Fjöldi fólks þurfti að ganga frá verðlausum eignum sínum vegna atvinnumissis en skuldirnar hurfu ekki. Það voru ekki settir á neinir neyðarfundir á ríkisstjórnarvísu vegna þessa fólks. Þetta fólk mátti bara axla þessar byrðar og koma undir sig fótunum á nýjan leik á eigin spýtur, sumt í þannig stöðu að það var stimplað vanskilafólk í nokkur ár. Hvort það er réttlátt eða ranglátt skal ég ekki segja til um en svona hefur þetta verið. Fjöldi fólks missti allt sem það átti á árunum 1983-1986 (svona gróft til tekið) eftir að samband vísitölu kaupgjalds og verðlags var tekið úr sambandi á árinu 1983. Það var ekki hægt annað en að gera það þegar verðbólgan var farin að liggja í 35-40% árlega og sló upp í 100% á ákveðnum tíma. Þetta var groddaleg hrossalækning sem kom mjög illa við þá sem stóðu illa á spori á þessum tíma. Sérstaklega átti það við þá sem voru að byggja hús eins og gefur að skilja. Fyrir þá sem þekkja söguna eru því fjárhagslegir erfiðleikar fjölda fólks ekkert nýtt.
Það er hins vegar kannske forskot þeirra sem þekkja söguna og hafa ekki gleymt ýmsu frá liðnum árum sem veldur því að þeir fara margir hverjir varlega í að eyða peningum sem þeir eiga ekki því þeir eiga að vita að það kemur alltaf að skuldadögunum. M.a. þess vegna notaði ég gamla éppann minn þar til í fyrra þegar hann sagði stopp á 17. aldursári.

Ég heyri nú í fréttum að allt dæmið í kringum stjórnlagaþingið eigi að kosta 500 milljónir. Ésús minn. Er þetta nú það nauðynlegasta í dag?

Mér finnst að hefja eigi uppskurð í opinberum fjármálaum á þann hátt að taka fram fjárlögin frá árunum 2000 - 2002 og bera þau saman við fjárlög fyrir árið 2010. Síðan á að draga út þau verkefni sem hafa bæst við á þessum árum. Þjóðin lifði ágætu lífi á árunum um og upp úr aldamótunum. Það sem hefur bæst við er að miklum líkindum eitthvað sem við höfum ekki efni á að gera í dag. Skoða á hvort ekki sé hægt að stroka það út tímabundið a.m.k. þegar fyrir liggur mikil nauðsyn á samdrætti í opinberum fjármálum.

föstudagur, október 15, 2010

Steppenwolf - Born To Be Wild

Þingvellir á helginni

Loksins virðist niðurstaða hafa fengist í hina háværu umræðu um niðurfærslu lána. Eftir stíf fundahöld var niðurstaðan sú að almenn flöt niðurfærsla lána gengur ekki upp. Ef ráðist væri í slíka hluti væri ósköp einfaldlega mjög illa farið með peninga og aðgerðin bæði vitlaus og ómarkviss. Maður skilur eiginlega ekki hugsanaháttinn hjá þeim sem hafa talað hástöfum fyrir þessari aðferðafræði. Halda þeir að allir skuldi sömu upphæð? Afhverju að vera að aafskrifa skuldir hjá þeim sem enginn möguleiki er að bjarga. Af hverju að afskrifa hjá þeim sem enga þörf hafa fyrir niðurfellingu. Heldur fólk virkilega að efnahagskerfi þjóðarinnar geti hrunið, gengi krónunnar fallið gríðarlega og verðbólgan hækkað án þess að það komi eitthvað við allan þorra fólks. Þá er ekkert verið að taka afstöðu til afhverju þetta gerðist allt saman, heldur atburðarins sem slíks. Það á að skipta skuldurum í þrjá megin flokka. Þeim sem ekki er við bjargandi, þeim sem hægt er að bjarga með eðlilegum aðgerðum og þeims em ekkert þarf að hjálpa. Þeir sem ekki er við bjargandi fara sína leið í hefðbundnu ferli en því fólki verður að tryggja búsetu. Þá kemur manni til hugar Kreppulánasjóðurinn frá því eftir 1930. Þá misstu skuldugir bændur jarðir sínar í stórum stíl. Ríkið yfirtók jarðirnar en gaf fólkinu kost á að búa áfram á þeim. Þegar úr rættist höfu þeir hinir sömu forkaupsrétt að jörðunum sem margir nýttu sér.
Halda verður við greiðsluvilja hjá þeim sem geta bjargað sér þannig að tryggt sé eftir föngum að þeir geti leyst úr sinni stöðu með aðstoð viðkomandi aðila. Þríðji hópurinn bjargar sér bara.

Í Mogganum sér maður í dag að 88% einstaklingslána í bankakerfinu eru í skilum. Umræðan undanfarna mánuði og misseri hefur verið á þann hátt að það séu eiginlega allir með allt í fjárhagslegri steik. Fólk sem vinnur á fjölmiðlum hefur henst hingað og þangað eftir því sem fólk hefur hringt inn og lagt vandræði sín á borðið. Gagnrýnin hefur engin verið. Alltaf hefur verið talað um að eiginlega öll þjóðin væri með fjármálin í uppnámi o.s.frv. Mér finnst að það þyrfti að koma fram hverjir standa á bak við svokölluð "Hagsmunasamtök heimilanna" og "Samtök Lánþega". Bæði þessi svokölluðu samtök hafa átt ótakmarkaðan aðgang að fjölmiðlum. Er þetta kannski mjög þröngur hópur fólks sem er í miklum persónulegum vandræðum en kemur fram undir nafni fjöldasamtaka og tekur sér það bessaleyfi að tala í nafni fjöldans? Er það rétt að svokölluð "Samtök Lánlega" séu bara einn maður? Með dyggri aðstoð fjölmiðla hvöttu þessi svokölluðu samtök til áhlaups á bankakerfið, til þess að neita að borga af lánum og ég veit ekki hvað.

Auðvitað eru of margir í erfiðleikum, mismunandi miklum, en sá vandi verður ekki leystur með affluttri umræðu, upphrópunum og kröfum um óraunhæfa aðferðafræði.

Ég fékk nýtt hefti Þjóðmála nýlega. Mér finnst það vera eitt besta tímarit um þjóðfélagsumræðu sem gefið er út á landinu í dag. Enda þótt maður sé ekki alltaf sammála öllu sem í tímaritinu stendur þá er í því oftast tekið á mjög áhugaverðri umræðu og höfundar greina ófeimnir við að velta upp vinklum sem koma ekki oft fyrir í almennri fjölmiðlaumræðu.

þriðjudagur, október 12, 2010

Buddy Holly - Rave on! (1958)

Síldarvinnslan í Ingólfsfirði á Ströndum

Umræðan hefur verið svona upp og niður síðustu daga en aðallega niður. Hagsmunasamtök heimilanna létu hafa eftir sér að 71.000 heimili væru eignalaus. Síðar kom í ljós að þetta var vitaskuld rugl. Svo kom í ljós að 21.000 manns eru á vanskilaskrá. Það er náttúrulega dálítill stabbi en myndin skýrðist þegar sagt var frá að gósenárið 2007 hefðu um 16.000 einstaklingar verið á þessari sömu vanskilaskrá. Ég verð að segja að mér finnst ekki mikið að það hafi ekki bæst fleiri en 5.000 manns við skrána eftir allt sem á undan hefur gengið. Í fjölmiðlum hefur gjarna verið talað um að "eiginlega flestir", "allur fjöldinn", "stór hluti þjóðarinnar" og ég veit ekki hvað sem væri í gríðarlegum fjárhagslegum vandræðum. Sem betur fer er sú ekki raunin. Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr því að margir séu í miklum erfiðleikum en ansi margir virðast hafa verið komnir í brekkuna áður en hrunið hófst. Það má hinsvegar kannski ekki tala um það. Sérstaklega hlýtur staðan að vera erfið hjá fólki sem hefur misst vinnuna og verið skuldsett fyrir. Þær tölur sem birtar hafa verið um hve margir hafa leitað aðstoðar samkvæmt þeim úrræðum sem boðið hefur verið upp á eru mjög sláandi. Þarna gengur eitthvað ekki upp. Annað hvort eru úrræðin léleg eða ónýt, illa kynnt eða fólk ber sig ekki eftir björginni. ´

Hagsmunasamtökin hafa talað mikið fyrir allmennri flatri niðurfærslu lána. Vitaskuld kemur það í ljós þegar farið er að skoða málið að það er auðveldara um að tala en í að komast. Einhver borgar brúsann. Mér hefur alla tíð þótt hugmyndafræðin um flata niðurfærslu vera hreint rugl og hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum.

Ein kennig var sett í loftið fyrir helgina. Nú áttu lánin að hreyfast eins og fasteignamat eða fasteignaverð. Vitaskuld átti að taka upphafspunkt á árinu 2008 þegar fasteignaverð var í algeru hámarki eða þegar innihaldslaus fasteignaverðbóla náði hámarki. Ef slíkt kerfi yrði tekið upp (sem það verður náttúrulega aldrei) þá ætti að gera það þegar þokkalegt jafnvægisástand ríkir því vitaskuld ætti það að virka í báðar áttir. Við keyptum íbúðina árið 1999 þegar markaðurinn var farinn að jafna sig töluvert efrir niðursveifluna á árunum 1993 - 1996. MIðað við það sem maður sá í auglýsingum þá hækkaði verð íbúðarinnar ca þrefalt fram til ársins 2008. Samkvæmt fyrrgreindri aðferðafræði hefðu lánin þá átt að þrefaldast. Ég er ansi hræddur um að það hefðu sprottið upp nokkur "Hagsmunasamtök heimilanna" á þessum árum ef lánin hefðu verið verðtryggð með vísitölu fasteignaverðs og þrefaldast í verði. Nú er verið að barma sér yfir 18% hækkun á höfuðstól.

Í fréttum er verið að tala um að 50% heimila eigi ekkert eigið fé í íbúðinni sem búið er í. Það er ekkert að marka svona tölfræði um þessar mundir. Það ríkir permafrost á fasteignamarkaðnum. Raunveruleg verðmyndun er ekki til staðar. Því segir svona statistik ekki neitt um hvernig hlutir munu þróast til lengri tíma.

Það verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir vandi fréttaflutning sinn og hleypi ekki hverju sem er út í loftið. Í síðustu viku kom einn hagfræðingurinn í RUV og sagði að nú þyrfti að fara að skattleggja bankainnistæður sem væru hærri en ca 10 m.kr. Með skattlagningu átti hann náttúrulega við einfalda eignaupptöku. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en ég hef heyrt að það hafi verið tekið svo mikið út úr bönkunum að Selðlabankinn hafi þurft aða gera ráðstafanir um að til væri nóg af lausum seðlum. Það er ábyrgðarhluti að láta svona umræðu fara út í loftið. Hún getur hæglega myndað slíkt rush á bankana að til vandræða verði. Lausafé verður fljótt uppurið ef innistæðueigendur hópast í bankana til að taka innistæður sínar út.

Það var sportráðstefna á Hilton hótel Nordica í gærkvöldi. Ég var þar í ágætum hóp íþróttamanna sem fór yfir hvernig Herbalife hefði nýst þeim við æfingar og keppni. Ég hefði getað verið afi flestra nema Dean Martins, fótboltamanns og þjálfara hjá KA. Ég hefði getað verið pabbi hans. Ég læt öðrum að dæma um hvernig til tókst.

Hlaupin ganga vel. Ég stefni að því að fara svona 120 - 140 km í viku út nóvember. Í næst viku fer ég að máta mig við brettið af meiri alvöru.

miðvikudagur, október 06, 2010

Lukkutroll Ljótu hálfvitarnir

Það var rokk og ról í afmæli Jóns Kr.

Það eru blendnar tilfinningar sem vakna eftir að hafa horft á mótmælin fyrir framan Alþingishúsið á mánudaginn. Auðvitað er fjöldi fólks í sárum út af ýmsum ástæðum og finnst það hafa verið órétti beitt. Á hinn bóginn veltir maður því fyrir sér hve oft þurfi að að hreinsa út úr þinghúsinu svo allir verði ánægðir. Nákvæmlega sömu kröfurnar voru á lofti fyrir tæpur tveimur árum síðan. Þá fengu mótmælendur það sem þeir vildu, þáverandi ríkisstjórn hrökklaðist frá og önnur stjórn tók við. Það var óskastjórnin í huga margra. Nú er hún hins vegar orðin gjörómöguleg. Er það svoleiðis að lýðskrumarar og froðusnakkar eru búnir að tala upp slíkar væntingar meðal fólks sem hefur lent í erfiðleikum vegna mikilla skulda að það verður aldrei ánægt fyrr en öll vandræði hafa verið þurrkuð út. Síðan er það náttúrulega svo að þegar fjöldinn mótmælir þá drífur að allra handa vitleysinga sem nota fjöldann til að hverfa í en fá á svona stundum útrás fyrir allra handa skemmdaverkastarfsemi. Fjölmiðlar bæta ekki um. Að Stöð tvö skyldi senda út frá því þegar einhver hljóðnemahaldari spurði tvo stráka sem spörkuðu eins og vitlausir væru í girðinguna fyrir framan Alþingishúsið hverju þeir væru að mótmæla. Þeir vissu ekkert hverju þeir áttu að svara en svo kom að það væri bara svo ganman að skemma. Þarna er stöðin einfaldlega að kynda undir svona vitleysisgang. Gott var hinsvegar að sjá að hópurinn tók til sinna ráða og brenndi nazistafánann sem einhverjir voru að flagga þarna um kvöldið. Á bálið hefðu einnig átt að fara fánar allra kommúnistasamtaka sem þarna voru hverju nafni sem þau nefnast því það er enginn munur á nazistafánum og fánum kommúnista. Sama mannvonskan liggur að baki hvorutveggja.
Lögreglan reisti girðingu til að verja Alþingishúsið eins og hægt var en girðingin var alltof nálægt húsinu. Í hvaða þjóðríki sem hefur einhverja sjálfsvirðingu væri fólki leyft óáreitt að grýta þinghúsið og brjóta glugga í því. Svo væri sagt í fréttum að mótmælin hafi farið friðsamlega fram. Í hvaða þjóðríki með sjálfsvirðingu væri almenningi leyft óáreitt að grýta þingmenn, þjóðhöfðingja og kirkjunnar fólk við þingsetningu. Þótt fólk kalli sig mótmælenda og segist vera svakalega reitt þá leyfist mönnum ekki hvað sem er í skjóli þess. Það er sama hvaða skoðun menn hafa á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum þau hafa persónulega friðhelgi eins og annað fólk. Ef fjöldinn er hins vegar að hugsa um stjórnarbyltingu með valdbeitingu þá er eins gott að segja það bara. Menn vita þá hvar hver stendur. Það hefur til dæmis staðið upp á fjölmiðla að spyrja níumenningina margumræddu hvaða erindi þeir áttu inn í Alþingi á sínum tíma. Ætluðu þeir að öskra og æpa inni í þinginu, ætluðu þeir að berja alþingismenn og draga þá með valdi út á stétt og varpa þeim fyrir múginn eða eitthvað annað verra? Það væri fróðlegt að fá svar við þessu. Í Rússlandi komst lítill hópur glæpamanna inn í keisarahöllina í gegnum eldhúsdyrnar árið 1917 og náði upp frá því völdum í Sovétríkjunum og enn síðar í allri Austur Evrópu. Þeim völdum hélt þessi klíka í um 70 ár og hafði þegar yfir lauk líf álíka margra milljónatuga á samviskunni (gróft reiknað).

Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið mikið í fréttum enda virðist svo sem þau fái inni í fjölmiðlum með allt sem þau láta frá sér fara. Nú er ég ekki að segja að allt sem frá þeim kemur sé vitleysa en mikið er ég ósammála ýmsu. Í dag kom tvennt frá þessum hópi sem mikið var gert úr og fjölmiðlamenn komu á framfæri gagnrýnislaust. Í fyrsta lagi létu samtökin það frá sér fara að flestöll heimili á Íslandi eða yfir 70.000 heimili yrðu eignalaus á næstu mánuðum. Samtökin miðuðu við að þessi sömu heimili hefðu haft um 50% eiginfjárhlutfall í ársbyrjun 2008. Að taka mið af einhverju ímynduðum eignarhluta þegar fáránlega útblásin og innistæðulaus eignabóla náði hámarki er náttúrulega út í hött. Af hverju velta fjölmiðlamenn svona fullyrðingum ekki fyrir sér og spyrja gagnrýninna spurninga. Af hverju er öllu dreift ótuggnu og án ígrundunar? Í öðru lagi er út í hött að halda því fram að stærstur hluti íslenskra heimila sé með allt niður um sig fjárhagslega. Í þriðja lagi er út í hött að taka mið af fasteignaverði þegar fasteignamarkaður er tímabundið í algeru lágmarki og miða eitthvað eiginfjárhlutfall út frá því. Það hefur gerst fyrr að húsnæðisverð hefur fallið mikið. Ég man vel ástandið á árunum 1983-1986 þegar verið var að reyna að slá á verðbólguna. Það var meðal annars gert með því að taka víxlverkun kaupgjalds og verðbólgu úr sambandi. Síðan hækkaði húsnæðisverð aftur þegar betur áraði.
Síðar í dag lögðu samtökin fram kröfur sínar um að öll lán yrðu færð til þeirrar stöðu sem þau voru í um áramót 2008, hvort sem þau voru verðtryggð í erlendri mynt eða samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þessi tillaga er afar óraunsæ og í raun út í hött. Í fyrsta lagi er ekki hægt að ætlast til þess að samfélagið geti komist í gegnum gríðarlegt hrun krónunnar og efnahagslegar hamfarir án þess að þeir sem skulda finni neitt fyrir því. Það er sama þótt mönnum finnist þeir hafa verið órétti beittir. Peningarnir sem þarf í svona aðgerð eru einfaldlega ekki til. Það verður að takast á við vandann með einstaklingsbundnum aðgerðum. Það sleppur enginn en vandinn er mismikill. Sumum er hægt að bjarga en öðrum ekki. Aðalatriðið er að þeir fjármunir sem settir eru í svona aðgerðir nýtist sem best. Mér fannst billegt hjá forsætisráðherra að vísa allri sök á bankana um að ekki sé búið að leysa vanda þeirra sem skulda í stefnuræðu sinni á mánudaginn. Það má t.d. minna á að sveitarstjórnir hafa ekki lagalega heimild til að fella niður fasteignaskatta jafnvel þótt þau vildu. Lögum verður ekki breytt nema á Alþingi.

laugardagur, október 02, 2010

Hvanndalsbræður-Frostaveturinn mikli

Þuríður Sigurðardóttir brosir alltaf jafn fallega

Ég er að lesa Millennium bækurnar eftir Stieg Larsson. Eins og þeir vita sem hafa lesið bækurnar þá er blaðamaðurinn Mikael Blomkvist eða Kalle "Jävla" Blomkvist miðpunktur sagnanna. Hann er prímus mótor blaðsins Millennium sem tekur á ýmsum málum í samfélaginu sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki áhuga á eða sinna ekki. Samstarfskona Mikaels á Millennium er Erika Berger. Eftir að Millennium heur slegið í gegn með því að fletta ofan af Wennerström hneykslinu þá er Erika ráðin á Svenska Morgon Posten (SMP) sem er stórblað með mikla fortíð en öllu óljósari framtíð. Hún er ráðin til að taka til á ýmsum sviðum á blaðinu. Hún kallar meðal annars blaðamanninn Johannes Frisk fyrir sig þegar hann ætlar að birta fréttir sem hann hafði fengið upplýsingar um frá lögreglunni og vörðuðu Lisbeth Salander. Fréttirnar voru ekki beint hagstæðar fyrir málstað hennar. Erika gefur Jóhannesi smá lexíu í hvernig hann eigi sem metnaðarfullur blaðamaður að vinna og meðhöndla slíkar upplýsingar ef hann vilji verða trúverðugur. Hann verði að vera gagnrýninn og rannskaka krítiskt allar upplýsingar sem honum berast ef hann vilji verða trúverðugur. Það versta sem blaðamaður gerir sé að éta það beint upp eftir öðrum sem sem hafi jafnvel hagsmuna af því að nota blaðamenn til að koma slíkum upplýsingum á framfæri. Hæfileikaríkir blaðamenn verði fljótt ónothæfir ef þeir gleyma þessum princippum og láta nota sig á þennan hátt.
Mér kom þetta í hug þegar ég hlustaði á morgunútvarp RUV einn morguninn fyrr í vikunni. Þá var fyrsta frétt í fréttatímanum að einhver þingmaður væri hissa á því sem einhver annar þingmaður hefði sagt. Hvaða frétt er þetta? Vitaskuld er þetta engin frétt. Ekki fyrir fimm aura. Þarna hefur einhver spældur þingmaður hringt í vin sinn á útvarpinu og sagst vera hissa á því sem einhver annar hafi sagt. Fréttamaðurinn var svo ekki meiri maður en svo að hann veður beint með þetta í fréttatímann gagnrýnislaust og er þar með orðinn talsmaður ákveðins þingmanns en ekki gagnrýninn og hlutlægur fréttamaður. Þessi fréttamaður RUV hefði haft gott af því að vinna í nokkra mánuði hjá Eriku Berger á SMP til að læra einföldustu grunnatriði í blaðamennsku. Gagnrýni og princip. Maður tekur vitaskuld miklu minna mark á því sem maður heyrir frá fjölmiðlum sem láta svona rugl frá sér fara.

Erfiðleikar fólks eru fyrirferðarmiklir í fréttum þessa dagana. Atvinnuleysi er þar talinn einn helsti áhrifavaldurinn. Ekki ætla ég að gera lítið úr því. Atvinnuleysi er böl sem óskandi væri að sem fæstir þurftu að kynnast. Á landsþingi sveitarfélaganna norður á Akureyri í vikunni sagði hins vegar svetiarstjórnarmaður vestan af Snæfellsnesi að fyrirtæki á Nesinu fengju ekki íslendinga í vinnu og þyrftu því að sækja fólk til Póllands og Eystrasaltslandanna. Þarna er eitthvað sem stemmir ekki.

Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglunni og því hvernig sem hún hefur tekist á við ýmsi erfið verkefni á liðnum misserum. Í gær klikkaði hún hins vegar alveg. Að leyfa fólkinu sem safnaðist saman á Austurvelli að standa svo nálægt Þinghúsinu og Dómkirkjunni að það gat grýtt þingmenn og aðra þá sem voru í Dómkirkjunni er gjörsamlega út í hött. Þegar fólk er grýtt í hausinn með eggjum þá er of langt gengið. Í svona hópi er alltaf hætta á að innan um séu einstaklingar sem hafi ekki stjórn á sér. Einhver í hópnum sagði í fréttum að þingmenn hefðu verið heppnir að það hefði ekki verið kastað grjóti. Það er nákvæmlega þetta sem ég meina. Ætlar lögreglan að bíða eftir að það verði stórslys svo farið sé að nota aðferðir sem duga til halda ástandinu undir kontrol.
Á Sturlungaöld voru kirkjur griðastaður. Það er að sjá svo sem það sé ekki lengur.
Ég verð síðan að segja að ef það opnar greiða leið inn í fjölmiðla að brjóta rúður, henda hlutum og grýta og slasa fólk sem er að sinna vinnuni sinni þá eru það hættuleg skilaboð. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð en það er oft sem svo að þeir geri sér ekki grein fyrir henni heldur hlaupi upp til handa og fóta ef einhver hasi er á ferðinni.