miðvikudagur, september 28, 2005

Ekkert hlaupið í kvöld. Horfði þess í stað á b. lið 4. flokks Víkings kvk spila við Fjölni í haustmótinu. María er að feta sín fyrstu skref í 4. flokki og þau eru ekki slæm. Hún skoraði nokkur mörk í leiknum, þar af eitt svo flott að jafnvel Fjölnisáhorfendur klöppuðu.

Félagi Kristinn í San Francisco sendi mér tölvupóst í gær þar sem hann var að spjalla um mataræði í endurance hlaupum. Hann var sammála því að maður ætti að borða prótein frekar en kolvetni fyrir löng ultrahlaup. Hann hitti Dean Karnazes rétt fyrir WS í vor og fékk bókina hans "Ultramaraton man" áritaða fyrir mig. Dean er einn mesti ultrahlaupari í heimi, hefur sigrað Bad Water, hlaupið maraþon á Suðurheimskautinu og fleira í þeim dúr. Hann ætlaði síðast það ég vissi að hlaupa maraþon á flothring á San Franciscoflóa. Dean segist borða mikið af laxi, soðnum og grilluðum fyrir mikil átök, próteinríkt grænmeti eins og spínat og broccoli og "slow carbo" eins og epli og banana.

Umboðsmaður Alþingis sendi ósk stjórnarandstöðunnar um rannsókn á hæfi forsætisráðherra í einkavæðingu Búnaðarbankans til föðurhúsanna í dag. Þannig voru allar dylgjur og hálfkveðnar vísur sem sungnar hafa verið fjöllunum hærra í fjölmiðlum í sumar kveðnar í kútinn. Umboðsmaður sendi forsætisráðuneytinu samtímis almennar spurningar um framkvæmd einkavæðingarinnar. Eftirtektarvert var að í ríkisútvarpinu og í ríkissjónvarpinu var það fyrsta frétt að umboðsmaðurinn hefði óskað eftir þessum upplýsingum en síðan kom hitt eins og í forbifarten að ásakanir stjórnarandstöðunnar um vanhæfi hefði verið blásið út af borðinu.

Ágæt umræða var í speglinum í dag eftir fréttir þar sem rætt var um þá niðurstöðu að öll þessi jippo um jafnrétti kynjanna í formi auglýsingaherferða og annara misgáfulegra aðgerða væri í raun og veru gagnslausar aðgerðir. Það eina sem skiptir máli er að efla einstaklingna sjálfa. Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart. Ég hef ekki lengi heyrt eins absúrd auglýsingaherferð eins og þá sem VR lætur dynja á landslýð í sjónvarpinu þessa dagana. Tekur einhver mark á þessu?

þriðjudagur, september 27, 2005

Tók hefðbundinn hring í hverfinu í dag eftir vinnu. Góð hreyfing og nokkrir svitadropar féllu.

Dagurinn í dag er dagur sem verður minnst í sögunni, dagurinn sem Davíð Oddson hætti formlega í stjórnmálum. Hér á árum áður þótti mér ekki mikið til DO koma þar sem ég lagði mat á hann af mínum litla sjónarhól. Það var hefðbundið mat svokallaðra vinstrimanna hér á árum áður. Sú skoðun mín hefur breyst. Að mínu mati er hann einn merkasti stjórnmálamaður Íslands á seinni áratugum og jafnvel þótt lengra væri leitað. Ég vil taka það fram að ég þekki hann ekkert persónulega og hef aldrei tekið í hendina á honum. Þetta er rétt að komi fram á dögum hinna miklu samsæriskenninga.

Oft er það þegar DO ber á góma að menn einhenda sér í að leita að göllunum og því sem miður fer í fari hans. Frekur, einráður, skapbráður o.s.frv. Að mínu mati á að fyrst og fremst að horfa á kostina, þeir skipta meiru máli en gallarnir því þeir vega meir þegar upp er staðið. Því verður ekki á móti mælt að þjóðfélagið hefur gjörbreyst á þeim tíma sem DO hefur setið í stjórnarráðinu. Ekki vegna þess að hann hafi verið að stjórna öllu og öllum af miklum viturleika heldur vegna þess að hann hafði ákveðna framtíðarsýn (vision) í sinni stjórnmálastefnu og beitti kröftum sínum og áhrifum til að láta hana verða að veruleika. Það mættu fleiri taka eftir.

Skarpskyggni DO kom fram í viðtölum sem höfð voru við hann í dag þegar hann var inntur eftur Baugsmálinu. Að hans mati er það eina sem skiptir máli í þessu sambandi hver útkoman verður úr dómsmálinu. Vitaskuld er það rétt. Annað skiptir ekki máli því menn verða að treysta dómskerfinu í þessu máli eins og öðrum.

Sjaldan hafa menn skotið undan sér báðar lappirnar eins og Baugsmiðlar gerðu í gær þegar DV birti forsíðufrétt um meint forhold Styrmis og Jónínu Ben. Það breytti málinu í grunsvallaratriðum í huga margra. Skyndilega voru allir tölvupóstarnir sem höfðu farið á milli þeirra orðnir að koddahjali í stað þess að vera partur af margslunginni og mafíulyktandi samsærisatburðarás.

Í annan kant ofbauð fólki að DV skyldi ekki víla fyrir sér að slengja fram órökstuddum fullyrðingum og öllum óviðkomandi um einkalíf fólks. Þar átti að skjóta svo fast að ekki væri undan vikist eða upp staðið eftir það. Það er svo sem við öllu að búast úr þessari átt. Ág hef áður bent fólki á að fletta svokölluðum bókum eftir Mikael Torfason á bókasafni eða í verslunum. Ég ráðlegg engum að kaupa þær ólesnar. Hörðu spjöldin eru að mínu mati það eina sem gerir það að verkum að hægt er að kalla þennan samsetning bók.

Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á frammistöðu "fréttamanna" RÚV í þessu sambandi. Þeir brugðust ekki í þessu máli frekar en í svo mörgum öðrum. Alla helgina gerðu þeir ekki annað en að lesa upp úr Fréttablaðinu þegar fjallað var um Baugsmálið. Sjálfstæð greining virtist ekki vera fyrir hendi á neinn einasta hátt. Þó fór að örla á því í dag að sjálfstæð vinnubrögð væru viðhöfð í fréttamennskunni, líklega þegar ljóst var að það væri ekki óskeikult að elta Baugsmiðlana svo langt út í fenið að það vatnaði yfir nefið. Meir að segja var slökkt á farsímanum hjá Bónus Jóhannesi í Miðjarðarhafinu.

Styrmir var hrakinn svo út í horn að hann átti einskis úrkosta en að svara af fullri hörku. Í ljós hefur komið að hann átti eitt og annað uppi í erminni. Skyldi Baugsmenn vera farnir að sjá eftir að hafa egnt óbilgjarnan? Það versta við þetta mál allt saman er það að öllum líkindum er þetta scenario sett á svið til að hafa áhrif á vinnu og niðurstöðu Hæstaréttar. Keyra átti umræðuna um samsæri innstu manna í Sjálfstæðisflokknum svo hart fram að það yrði ekki tekið mark á niðurstöðu Hæstaréttar ef hann félli Baugsmönnum í óhag. Helst átti að hafa áhrif á dómarana sjálfa.

Fékk ábendingu í dag um að það væri erfitt að skrifa á comment í blogginu. Fór því inn í Settings og setti allar stillingar þannig að auðveldara á að vera að senda aths. inn á bloggið. Kemur í ljós hvort það hafi dugað.

mánudagur, september 26, 2005

Fór góðan hring í hverfinu í dag. Nú finn ég að áhuginn er kominn á fullt. Ég er ekki frá því að það hafi komið svolítið flashback í sumar (sérstaklega seinnipartinn) þegar maður fann sér afskanir frá því að fara ekki út að hlaupa þrátt fyrir gott veður. Nú er hins vegar komið markmið og þá verður allt auðveldara þegar markmiðið er klárt.

Sá úrslitin frá Berlín á netinu. Þarna bættu margir sig vel, Sigurður er farinn að hilla undir 3 klst og Valgerður skilar einnig frábæru hlaupi í fylgd bónda síns. Gott hjá Sigurði P. að skrifa smá skýrslu um methlaupið inn á vefinn. Það eu tuttugu ár síðan hann vann þetta góða afrek og ekki í augsýn að neinn slái það í náinni framtíð.

Ég veit ekki hvort eða þá hvað maður á að skrifa um stóra tölvupóstmálið. Í fyrsta lagi er þessi umræða komin út fyrir öll takmörk og sérstaklega finnst mér Baugsmiðlarnir hafa misst öll tök á umfjöllunninni. Í fyrsta lagi þá sá ég þá félaga í morgunsjónvarpinu á Stöð 2. Þeir báðu fólk að hringja inn. Það leyndi sér ekki hrifning þeirra þegar einhver hringdi og hallmælti Styrmi. Þá skinu þeir eins og sól í heiði eða eins og smástrákar að fá sælgætispoka. En ef einhver hringdi inn og hallmælti Baugsfeðgum þá voru þeir á svipinn eins og dauðri rottu hefði verið veifað framan í þá. Í öðru lagi þá skil ég ekki alveg í því hvaða hlutverk Hallgrímur Helgason leikur í þessu drama. Kannski er vegur hans svo mikill vegna þess að hann hefur séð og heyrt ódáminn (þ.e. verið kallaður á teppið til Davíðs). Þriðja daginn í röð heyri ég talað við hann á Talstöðinni sem álitsgjafa þar sem hann segir að Styrmir eigi að segja af sér, Mogginn sé ómögulegur og Sjálfstæðisflokkurinn sé miðstöð gömlu valdaklíkunnar (sem getur svo sem vel verið). Merkilegt var einnig viðtalið við Jón Magnússon sem dubbaður var upp í viðtal á Stöð 2 í morgun þar sem hann hallmælti (vægt til orða tekið) öllu og öllum í Sjálfstæðisflokknum án þess að nefna nein rök fyrir máli sínu.Mig minnir að hann hafi hrökklast úr flokknum á sínum tíma vegna þess að hann fékk ekki það brautargengi til áhrifa sem hann vildi og er því eðlilega svekktur.

Það sem kemur manni á óvart er hve margir eiga tölvupósta um marga í fórum sínum. Þessar sendingar hafa menn geymt eins og gull ef þeir skyldu koma að gangi. Það virðist hafa verið rétt mat því nú hefst birtingartíminn. Sú tilfinning læðist að mér að þessi árás Baugsmiðla á Styrmi geti jafnvel komið í bakið á þeim ef Styrmir á tölvupósta sem eru óheppilegri fyrir Baugsfeðga en póstarnir sem Fréttablaðið hafi á Styrmi. Síðan er DV. Að birta með stríðsletri að Jónína og Styrmir hafi haft et forhold er ekki sérstök frétt í mínum augum heldur dæmi um ómerkilegt slúður og í raun svipað eins og drukknandi maður grípur í síðasta hálmstráið. Það gerir enn eðlilegra að Jónína hafi leitað til Styrmis í vandræðum sínum, þótt hún jafnvel verið knúin áfram af hefndarhug. Hvað veit ég?

Gróa á Leyti hefði aldeilis plumað sig vel þessa dagana. Ólyginn sagði mér en berðu mig samt ekki fyrir því.
Tók daginn frekar snemma og hélt niður í Laugardal eftir að hafa keyrt Jóa og félaga hans til Hafnarfjarðar til að keppa í handbolta. Hitti Bryndísi, Helgu og Guðmann í sundlaugarhúsinu. Hópurinn var frekar fámennur þar sem margir úr Vinum Gullu eru að keppa í Berlín í dag. Bryndís var búin að stilla númer Huldar og Sibbu inn á gemsann hjá sér og var mjö0g spennt og þær stöllur báðar. Við vorum komin áleiðis út í Húsdýragarð þegar fyrsta bíbbið heyrðist. Í símanum stóð að Huld hefði lokið hlaupinu á 3.19.30. Frábært. Við fögnuðum öll yfir þessum góða árangri. Svo var haldið áfram og rétt inn við Glæsibæ heyrðist næsta bíbb. Sibba hafði lokið hlaupinu á 3.22.15. Glæsilegt hjá henni þar sem hún hafði haft frekar þröngan tíma til að æfa fyrir hlaupið.

Þetta er náttúrulega frábært að geta fengið úrslitin senda svona heim í hús til sín á sömu stundu og farið er yfir marklínuna. Ég skoðaði vef hlaupsins í kvöld. Fljótlega gafst ég upp á að finna alla íslendingana en nokkra sá eg sem hlupu á góðum tímum. Þarna sjá menn hvernig á að standa að svona hlaupi, árangur 40.000 manna kominn inn á netið samdægurs.

Við hlupum sem leið lá yfir í Fossvog og svo út í Nauthólsvík í frábæru haustveðri. Þar skildu leiðir, ég hljóp til baka þar sem ég var frekar tímabundinn en þau fóru yfir á Snorrabraut og þaðan til baka í laugarnar.

Baugsmálið heldur áfram. Ég sé eftir því sem sagt hefur verið ekki annað út úr því sem sagt hefur verið en að loks hafi Jónína fundið einhevrn sem vildi leggja henni og Sullenberg heilt í viðskiptum þeirra við Baugsfeðgan Eftir að hafa farið bónleið til búðar til Ingibjargar Sólrúnar, Stefáns Jóns og Sigmundar Rúnars þá vildi loks einhver hjálpa henni. Það er greinilegt eftir umræðunni að dæma að Baugsmiðlarnir vilja gera úr þessu eitt allsherjar Davíðssamsæri. Hallgrímur Helgason fór mikinn í Talstöðinni í dag og kallaði lygarar út í allar áttir en þó sérstaklega til Styrmis. Stundum verða menn ótrúverðugir ef þeir gusa of hátt í grunnu vatni.

Gaman verður að sjá hvort það fæst skýrt hvernig Baugsmiðlarnir komust í tölvupóst Jónínu. Hún fullyrti víst í fréttum að það hefði verið gert í gegnum Og Vodafón kerfið. Þeir harðneita öllu eðlilega. Það er náttúrulega stóralvarlegur hlutur ef menn geta farið í tölvugögn manna í gegnum inside kerfi ef einstaklingar eru í viðskiptum við eitt eða annað símafyrirtæki. Mér finnst að Ágúst Ólafur Ágústsson ætti að gefa þessum möguleika smá athygli en menn vilja eðlilega dreifa umræðunni um hvernig hægt var að stela tölvupóstum Jónínu. Öryggi tölvukerfa skiptir almenning og fyrirtækin í landinu miklu.

laugardagur, september 24, 2005

Ekkert hlaupið í dag því öðru var reynt að sinna. Þetta er náttúrulega frekar aum afsökun en svona verður þetta stundum.

Stóra Baugsmálið hefur tekið nýja vendingu. Tölvupóstar milli Styrmis G. og Jónínu Ben. hafa ratað inn á ritstjórn Fréttablaðsins. Það er ekki nema tvennt til í þessu. Annað hvort hefur Jónína sent blaðinu þá sjálf af hvaða ástæðu sem ég skal ekki segja til um hver er en mér finnst sú skýring vera ólíkleg. Hin skýringin er að einhver hafi brotist inn í tölvuna hennar og afritað tölvupóstana. Ég sé ekki aðrar skýringar líklegar.Vonandi kemur fljótt í ljós hver er hin sanna.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var greint frá því að fyrirtækjum í Noregi verði lokað ef stjórnir þeirra innihalda ekki að lágmarki 40% af öðru hverju kyninu fyrir árið 2007. Lögin sem sett voru fyrir nokkrum árum um að skylda eigendur fyrirtækja til að velja einhverja aðra en þá sem þeir vilja í stjórn fyrirtækja sinna hafa sem betur fer ekki virkað. Svona kynjafasismi er náttúrulega alveg fáránlegur. Hvenær fara hommar og lesbíur að heimta aðild að stjórnum fyrirtækja í hlutfalli við hlutdeild sína af íbúafjölda þjóðarinnar? Ég er handviss um að svona rugl stenst ekki stjórnarskrána. Sem betur fer hafa fæst nálæg lönd, ef nokkurt, hermt þessa vitleysu eftir Norðmönnunm. Ég á hins vegar alveg von á því að raddir þess efnis að skylda fyrirtæki að hafa að lágmarki 40% annað kynjanna í stjórninni munu verða fyrirferðarmeiri hérlendis á komandi árum. Það er alveg á hreinu að ef ég væri í einhverri stöðu til að láta reyna á réttmæti svona laga þá myndi ég gera það fyrir öllum þeim dómstólum sem mögulegt væri. Ekki vegna þess að ég sé svo á móti því að hafa karla eða konur í stjórn í einhverjum hlutföllum heldur vegna þess að ég tel að stjórnmálamönnum komi það bara akkúrat ekkert við hverja ég myndi velja til að stjórna því fyrirtæki sem ég hefði sett mína peninga í. Að loka fyrirtækjum sem hafa ekki að 40% af öðru hverju kyninu í stjórn. Þvílík vitleysa.

Nýlega var haldin hérlendis ráðstefna þess efnis að sannfæra þjóðina um að það væri góður business að hafa konur í stjórn fyrirtækja. Gott og vel, það má vel vera að svo sé, ekki ætla ég að andmæla því. En þá spyr ég hvers vegna eru allir þessir góðu businessmenn sem græða á tá og fingri og stjórna fyrirtækjum hérlendis ekki búnir að koma auga á þennan góða business? Eru þeir kannski ekkert sérstaklega góðir businessmenn? Hvað veit ég? Þarna er eitthvað sem gengur ekki upp. Ráðherra breytir þessu ekki með því að senda út einhverjar bréfsnuddur. Þeir einu sem breyta þessu, ef það er svo mikilvægt, eru konur sjálfar með því að berjast til áhrifa og leggja í slaginn. Það er hins vegar erfið leið og vafalaust miklu auðveldara að reyna að berja í gegn einhverja vitlausa lagasetningu og fá þetta fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. Ég er á móti kynjakvótum hvar sem þeir eru og vil fá hæfustu einstaklingana á oddinn hvar sem valið er milli einstaklinga. Ef það er álit einhverra að það hafi í för með sér að það rýri hlut kvenna frekar en karla þá get ég ekki gert að því að einhverjir séu haldnir slíkri vanmetakennd. Hún er ástæðulaus að mínu mati.

föstudagur, september 23, 2005

Las í gær frásögn Alfreðs frá Jungfrau maraþoninu í Sviss. Glæsilegt hjá honum að klára það á góðum tíma og í góðu sæti. En mest hrifinn var ég af að heyra af æfingaaðferðum hans. Að ná upp svona góðu þoli með sundlaugargöngu mánuðum saman finnst mér frábært og ná samtímis að vinna úr sér vond meiðsli. þetta kennir manni meðal annars að ef veður er djöfullegt yfir svartasta veturinn þá er hægt að byggja upp þol í sundlauginni. Það er nefnilega alveg hræðilega leiðinlegt að hlaupa á reim. Skyldu fæturnir ekkert vera svagir að vera hent beint í maraþonið eftir að hafa svamlað í sundlauginni langtímum saman. Maður hugsar t.d. um siggið og annað sem safnast upp með tímanum og byggir upp hörku á fótunum. Kannski hefur það skipt máli að þetta var utanvegahlaup að miklu leyti.

Fékk ÚTIVERU í dag. Þetta er eitt af þeim blöðum sem maður svelgir í sig og er lengi að því. Fínt blað. Sá meðal annars frásögnina af göngunni um Tröllaskagann. Þorsteinn var 38 klst á leiðinni. Hann sagðist hafa hlaðið með pastaáti dagana fyrir gönguna. Að mínu mati er það kolröng aðferð. Fyrir svona ferðalag á að borða prótein og ekkert annað en prótein. Kjöt, fisk, skyr og egg og svo hringinn aftur. Kolvetnið brennur upp eins og blaðastafli, brennur hratt og gefur snarpa en stutta orku. Próteinið er eins og timbur, brennur lengi og gefur mikla orku. Eftir að hafa lesið ráðleggingar löbarlarssons um að forðast kolvetnin fyrir ultralöng hlaup þá borðaði ég eins og ég gat af staðgóðum mat fram á síðasta kvöld fyrir Western States í vor. Einu mistökin sem ég gerði var að taka dollu af Carbo Lode. Það bara tjúnaði mann upp en skipti engu máli varðandi úthaldið. Átökin byrja ekki fyrr en eftir 12 - 16 tíma fyrir venjulegt fólk og þá er allt kolvetni fyrir löngu rokið út í veður og vind en próteinið er enn að gefa orku. Fyrir svona langa göngu þarf mikið og staðgott nesti. Á hinn bóginn getur verið gott að hafa orkuduft með til að setja út í drykkina. Það frískar og skerpir.

Þrír listamenn voru í kastljósinu í kvöld. Tveir voru mjög ánægðir með fyrirhugað tónlistarhús og fannst 12 milljarðar ekki vera svo mikill peningur að það tæki því að minnast á þá einu sinni. Frambjóðandinn sagði hinsvegar að þetta væru miklir peningar, ekki mætti gleyma því. Slæmt að fulltrúi skattgreiðenda skuli ekki vera með í þessum þætti. Vísa áhugasömum á heimasíðuna www.andriki.is til að sjá skemmtilega umfjöllun um þessa ráðstöfun skattanna okkar.

Fréttamaður í ríkisútvarpinu stóð undir áliti mínu á þeim í gær. Hann var að segja frá fámennum fundi mótmælenda við ráðhúsið. Eitthvað var frásögnin bragðlaus því ansi fáir voru að mótmæla. Fréttamaðurinn tók þá til þess bragðs að fara að lesa upp af skiltum mótmælenda. Það hef ég aldrei heyrt áður og á vonandi aldrei eftir að heyra aftur í ríkisútvarpinu. Hvað skyldi koma næst?

Furðulegar fréttir berast af KSÍ. Nú hefur KSÍ farið fram á að útsendingar af ensku leikjunum verði truflaðar á morgun á meðan bikarúrslitaleikurinn milli Vals og Fram stendur yfir. Hvað heldur Eggert að hann sé? Einhver Kim IL Sung? Ef einhver vill gera eitthvað annað en að fara og horfa á Val og Fram spila fótbolta þá náttúrulega gerir hann það og spyr Eggert ekki um leyfi. Hvað með fólkið utan Reykjavíkur sem er utan áhrifasvæðis KSÍ? Þetta er með því vitlausara ssem maður hefur heyrt. Ef Víkingur væri að spila bikarúrslitaleik þá náttúrulega færi maður á völlinn hvernig sem allt veltist og skipti ekki máli þótt Man. Udt. tæki á móti Chelsesa á Old Trafford á sama tíma. Maður myndi bara taka leikinn upp. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að sjá þá rauðu og bláu spila á morgun. Vona bara að Valur vinni.

Fór Eiðistorgshringinn í dag sem er 21 km. Góður hringur í dálítilli norðan átt en ekki til trafala. Fékk tölvupóst í gær frá Eiolf Eivindssen, öðrum norðmanninum sem keppti í WS í vor. Hann er að fara til Grikklands að keppa í Spartathlon um næstu helgi. Hann er dálítið áhyggjufullur yfir að meiðsli hafa komið í veg fyrir að hann gæti æft eins og hann vildi. Eiolf er mikill jaxl sem kemst vonandi á leiðarenda.

Er að hlusta á Evert Taube meðan ég er að skrifa þetta. Upptökurnar eru frá árunum 1930 - 1950. Ég keypti þriggja diska kassa í Stokkhólmi um daginn á 800 kall (ÍKR). Kallinn hefur verið alveg stórkostlegur og er það enn. Hvert lagið öðru betra, valsar og tangóar og textarnir um sjómennsku og kvennafar, sérstaklega þó kvennafar. Þvílíkt eyrnakonfekt.

fimmtudagur, september 22, 2005

Það setti að mér hroll í morgun þegar ég renndi yfir Moggann. Í gær hafði verið samþykkt tillaga vinnuhóps um tónlistar- og ráðstefnuhús við Hafnarbakkann. 12 milljarða skulu herlegheitin kosta. Ég sé ekki annað en allt tiltækt fólk sem getur gert bygginguna sem íburðarmesta og glæsilegasta sé dregið á vettvang til að leggja hönd á plóginn. Ég vona að gæðin standi undir væntingum enda er það ekkert mál eþgar nógir peningar eru til staðar en 12 milljarðar. Mogginn tekur heljarstökk af kæti og leggur alla forsíðuna undir fréttina sem jafnast á við heimsstyrjöld eða gríðarlega náttúruhamfarir. Leiðarinn er ekkert nema jákvæðar útlistanir á herlegheitunum. Svo langt er gengið þar að hann jafnar þessu mannvirki á við óperuhúsið í Sidney. Minna má það ekki vera. Samkvæmt því sem ég hef heyrt er húsið byggt í einkaframkvæmd (ok með það) og ríki og borg komi til með að borga 600 milljónir á ári í 35 ár. Í upphafi var farið af stað með kostnaðaramma upp á 8,5 milljarða en tillagan sem valin var kostar 12 milljarða og hún var bara valin si svona. Enda þótt árlegt framlag Austurbakka hækki ekki þá get ég ekki annað meint en að úr því teygist þá í annan endann þannig að vitaskuld borgar verkkaupi brúsann. 600 milljónir x 35 eru yfir tuttugu milljarðar ef ég reikna ekki skakkt.

Að byggja hús í einkaframkvæmd og greiða árlegt framlag til verktaka (eiganda hússins) er í eðlis sínu ekkert öðruvísi en að taka lán og greiða það upp á sama tíma. Hvoru tveggja eru skuldbindandi samningar nema einkaframkvæmdasamningurinn er miklu fastbundnari en bankalán. Sá er munurinn að í lok uppgreiðslutíma lánsins þá á lántakandi húsið en í lok samningstíma getur verkkaupi (leigutaki) átt rétt á að kaupa húsið. Jákvæðar hliðar þessa fyrirkomulags eru hins vegar þær að með árlegum fastbundnum greiðslum sem ekki er hægt að hnika þá verður viðhaldi hússin sinnt eins og þarf að gera. Hvorki ríki né sveitarfélög hafa á undanförnum áratugum almennt sinnt viðhaldi húsa eins og þarf að gera sem oft hefur leitt af sér meiri viðhaldskostnað en ella. Má nefna Þjóðminjasafnið sem gott dæmi um afleiðingu þessarar stefnu.

12 milljarðar í stofnkostnað. Það eru gríðarlegir fjármunir. Ég var í Helsingfors um daginn. Þar hljóp ég fram hjá Síbelíusarhúsinu og Óperuhúsinu. Hvorutveggja húsin eru fallegar byggingar enda finnar frægir fyrir góðan arkitektúr (annað en má segja um íslenska arkitekta upp til hópa). Þessi hús voru ekkert yfirþyrmandi í útliti heldur glæsileg hús í ákveðnu látleysi. Óperan finnska kostaði 12 milljarða íslenskra króna og var mjög umdeild vegna kostnaðar. Finnar eru milli 5 og 6 milljónir talsins. Segir það okkur ekki eitthvað um stærðargráðu á kostnaði við þessa byggingu sem fyrirhugað er að reisa á Austurbakka. Danska ríkið og Kaupmannahafnarborg forgangsröðuðu ráðstöfun fjármuna á þann veg að bygging nýs óperuhúss var látið bíða. Þar kom að gamli eigandi Mærsk Air byggði það fyrir eigin konto. Gott hjá honum en það segir svolítið um kostnaðinn.

Í allri umfjöllun Moggans var mjög lítið fjallað um kostnað við bygginguna og ekkert um rekstur hennar. Það er gagnrýnivert að fá ofbirtu í augun af aðdáun á svona byggingu og gleyma alveg að fjalla um hvað hún kostar. Ég er ekkert að efa að húsið verði glæsilegt. Þó nú væri fyrir alla þessa peninga. Ég get hinsvegar ómögulega fallið í stafi af aðdáun eingöngu vegna þess. Samkvæmt þeim myndum sem ég hef séð finnst mér tillaga Klasa vera fallegri og stílfegurri en sú sem valin var. Það er svo sem ekki að marka því ekki hef ég séð nánari útlistun en þetta er fyrsta tilfinning. Hvað skyldi kosta að gera klárt fyrir byggingu hússins með uppkaupum á húsum, sjávarfyllingum og annað sem til þarf? Vitaskuld þykir mörgum það vera útnesjalegt að vera að tala um kostnað þegar listageirinn er í hátíðarskapi yfir að sjá langþráðan draum rætast. Það má hins vegar ekki gleymast að þessir peningar eru teknir úr vörum skattborgara og því er það er réttur þeirra að hafa skoðun á þessu máli, jafnvel þótt þær þyki bjálfalegar.

Í forystugrein Moggans er gerður samanburður við óperuhúsið í Sidney. Það er mjög flott eftir myndum að dæma. Það er hins vegar ekki sjálfgert að menn nái álíka árangri eins og Ástralir enda þótt hvergi sé til sparað. Sérstaklega skyldi smáþjóð varast að vera að sperra sig til að ná þangað sem fæstir hinna stóru hafa náð.

Það setur ætíð að mér hroll þegar maður fær orðaleppa framan í sig eins og: "Höll tónlistarinnar verði hús fólksins" og "Hlýlega vafinn í straumanna arm" Þegar svona orðaval er á ferðinni er hætta á ferðum.

P.S. Eru listdansarar ekki búnir að vera í mótmæladansi fyrir utan menntamálaráðuneytið allan þennan mánuð vegna fyrirhugaðrar lokunar lisdansskóla ríkisins sökum fjárskorts?
Tók Elliðaárdalshringinn í gærkvöldi og Hattinn að auki. Léttur í spori að mér fannst. Maður þarf að fara að snúa sér í gang fyrir Þingstaðahlaupið og haustmaraþonið. Mér likar alltaf betur og betur við táslusokkana sem ég keypti um daginn. Það verður gaman að prufa þá í almennilegu hlaupi.

Sá stutt viðtal við nýkjörinn formann LFK í Fréttablaðinu í gær. Framsóknarkonur héldu landsþing á Ísafirði um síðustu helgi. Formaðurinn var spurður hvað hefði risið hæst í umræðunni á þinginu. Formaðurinn sagði það vera kröfuna um fléttulista. Þa var mér öllum lokið. Rís umræðan á svona þingi ekki hærra en að krefjast þess að það séu notuð einhver trix til að raða á framboðslista í stað þess að láta almenning (flokksmenn) koma að því verki. Ég hefði tekið alla mína hatta ofan fyrir þeim ef ég hefði séð ályktanir um nauðsyn þess að efla starf stjórnmálaskóla innan flokksins, námskeiða í ræðumennsku og félagsstörfum og fundarsköpum til að byggja einstaklingana upp og gera þá hæfari til að takast á við ábyrgð í sveitarstjórnum eða á landsvísu. Þannig byggja menn meðal annars upp fylgi flokksins , gera starfið skemmtilegt og efla sjálfstraust einstaklingnanna. Fléttulistar, godbevares. Ungir hafa einnig sett fram körfuna um fléttulista, það virðist vera sama vanmetakenndin þar.

Þar sem ég eldist með hverju árinu sem líður fer ég að hugsa um hag eldri borgara. Þeir eru ekki ánægðir með stöðu sína. Þarf ekki að tryggja þeim ákveðinn sess á framboðslistum með fléttulistum. Hvað með öryrkja? Ekki er þeir alfarið ánægðir. Fléttulistasæti skal það vera. Þannig má áfram telja. Er eitthvað vit í þessu? Ég sé það ekki.

Nú stendur yfir samgönguvika í Reykjavík og eitt af markmiðum hennar er að draga fram kosti annarra samgöngutækja en einkabílsins. Nú veit ég ekki hvort gatnamálastjóri hafi fengið einhverjar instrúxsjónir um að tefja för bílsins en allavega var vinnufélagi minn ekki fallegur í framan þegar hann kom í vinnuna í gærmorgun. Hann kemur í vinnuna ofan úr Grafavogi og tekur leiðina framhjá Ingvari Helgasyni við Ártúnsbrekkuna. Þegar hann kom fram hjá strætóstöðunni á Ártúnshöfðanum náði bílröðin niður óslitið eins langt og augað eygði. Hann sat síðan í henni milli hálftíma og klukkutíma og þokaðist mjög hægt áfram. Loks kom ástæðan í ljós. Starfsmenn gatnamálastjóra voru í holufyllingum við Miklagarð (Bonus og IKEA) og höfðu þrengt götuna á mesta umferðartíma dagsins eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í röðinni notaði hann tímann til að reikna út tap samfélagsins vegna þessarar tafar. Það var nokkuð há tala. Erlendis sér maður oft að það er unnið að svona gatnaviðgerðum á mestu umferðaræðunum á nóttunni. Þa ætti alla vega að vera hægt að byrja eftir kl. 9.00 þegar mesti þunginn er farinn hjá.

miðvikudagur, september 21, 2005

Renndi yfir blöð helgarinnar í morgun. Á forsíðu Fréttablaðsins á laugardaginn var mynd af þremur manneskjum sem mér fannst ég kannast við. Við nánari íhugun sá ég greinilega ákveðna samsvörun úr Njálu. Sá sem var lengst til hægri er greinilega Gunnar á Hlíðarenda. Sítt, flaxandi ljóst hár og þokkalegt skegg og hæfilega töffaralegur svarar til þeirrar myndar sem maður gerir sér af Gunnari. Kvennagull og nokkuð kærulaus. Í miðjunni er Njáll. Alvörugefinn, hvöss augu og snyrtilegt hár bendir til þess að hér sé á ferðinni hugsandi maður sem nágrönnunum finnst gott að sækja ráð til. Lengst til vinstri er Hallgerður Langbrók. Það fer ekki á milli mála. Sítt ljóst hár, hvikul augu og ótraustur munnsvipur gerir það að verkum að manni finnst Hallgerður vera ljóslifandi komin. Þarna er sem sagt þríeykið úr Njálu komið í boði VR. Hvar skyldu Bergþóra og Skarphéðinn vera?

Baugsmálinu var vísað frá dómi í dag. Á hvað skyldi það vita? Er málatilbúnaðurinn ekki betri eftir þriggja ára rannsóknir og undirbúning? Ég er hræddur að það myndi eitthvað gerast hjá fyrirtækjum á verðbréfaþingi ef frammistaða starfsmanna væri í þessum dúr. Fróðlegt verður að sjá hvernig Hæstiréttur tekur á málinu.

Í fylgiblaði Moggans á sunnudaginn er talað við tvær manneskjur sem eru sammála um að það sé ekki heppilegt að ungt fólk sem hefur hug á frama í stjórnmálum alist upp innan stjórnmálaflokkanna. Nú eru vafalaust til tvær hliðar á þessari umræðu en skyldi sú tilviljun skipta máli í afstöðu þeirra að bæði hafa ekki unnið innan stjórnmálaflokka nema um mjög skamma hríð. Ætli væri ekki alveg eins hægt að finna fólk sem teldi það alveg nauðsynlegt fyrir fólk sem hyggur á stjórnmálaþátttöku að vera virkt innan stjónmálaflokkanna frá unga aldri? Ég skil ekki alveg hvaða tilgangi svona málflutningur þjónar.

þriðjudagur, september 20, 2005

Kom að vestan í gærkvöldi eftir ágætan túr. Kláruðum að setja gólfið í húsið sem er stór áfangi því nú er hægt að vera í því vandræðalaust á meðan verið er að vinna við frekari endurbætur. Það verður nóg að gera þarna á næstu árum en þetta verður vafalaust skemmtilegt verkefni. Fórum aðeins á bæi að spjalla við fólk og rifja upp gamlar sögur og heyra nýjar. Veðrið var afar gott og hjálpaði mikið til. Gátum látið allt efni liggja úti og tekið það inn eftir hendinni. Þegar við vorum að leggja af stað í gær um hádegið var farið að draga upp skúrir í flóann þannig að þá hefði ekki verið til setunnar boðið. Nú er Esjan alhvít eftir mikið él sem gekk yfir rétt áðan þannig að það er farið að lykta af hausti. Á leiðinni suður hittum við nokkra Barðstrendinga sem voru að reka fé heim. Kallarnir voru brattir að snúast við féð. Maður áttar sig á því hvað tíminn líður þegar maður hittir menn sem manni finnst alltaf vera eins en nú eru þeir skyndilega að verða áttræðir, kvikir á fæti og léttir í lund.

Í vor þegar við Jón Sigmar fórum vestur sáu við tvö erni og þótti gott. Nú bættum við um betur því við sáum þrjá erni á leiðinni vestur á laugardaginn. Fyrst voru tveir ernir á Litlanesinu og síðan þegar við komum að Fossá þá sat einn delinn á húsþakinu á bænum. Hann hreyfði sig hvergi þótt við færum út og tækjum myndir af honum.

Þegar maður er að vinna svona við smíðar þá hlustar maður mikið á útvarp. Gamla útvarpið er hálf lélegt þannig að maður náði bara rás 1 á sunnudaginn. Þvílík ógn og skelfing sem dagskráin var leiðinleg. Þetta voru lítið nema prelódíur og fúgur fram að kvöldmat með kammertónleikum innan um og saman við. Ég veit ekki hver er tilgangurinn með því að útvarpa svona jaðartónlist út sem afþreyingu. Ég hugsa að stór hluti þeirra sem líkar við svona tónlist sé í vinnu uppi í útvarpi við dagskrárgerð.

Á leiðinni suður hlustar maður á fréttir eins og gengur og gerist. Á stöð tvö var frétt um að það væri betur borgað að vinna í "ræsinu" heldur en á leikskóla og var talað við pólskan mann í tilefni þess. Hann hafði uninð á leikskóla en fór í aðra betur launaða vinnu við viðhald húseigna og annað álíka sem fréttamaður Stöðvar tvö kallaði að vinna í ræsinu. Hann sagði að viðhaldsvinnan væri léttari en leikskólavinnan sem væri einnig skemmtilegri en launin væru betri í viðhaldinu. Nú er það staðreynd að það eu greidd misjöfn laun fyrir mismunandi vinnu. Ég ætla ekki að segja um hver sé eðlilegur launamunur milli starfa. En ef viðhaldsvinnan er bæði léttari og betur borguð, af hverju fer þá ekki fleira starfsfólk af leikskólunum að vinna í viðhaldsvinnu. Spyr sá sem ekki veit.

Einnig var á Stöð tvö talað um það með nokkurri vandlætingu að hjón sem vildu komast í gervifrjógvun þyrftu að borga aðgerðina að fullu ef þau vildu ráðast í hana strax en þyrftu að býða fram á næsta ár ef þau væru kyrr í röðinni og fengju þá fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera til verksins. Ég sé nú ekki pointið í þessari frétt. Ef einhver vill taka sig út úr röðinni og fara fram fyrir aðra þá verður hann veskú og spís að borga fyrir það. Annað væri óeðlilegt. Þarna hefur greinilega einhver kunningi fréttamannsins hringt í hann og verið fúll yfir því að allt kerfið snerist ekki eins og honum kæmi best. Fagmennska fréttamanna lætur ekki að sér hæða.

Mér fannst athyglisvert viðtalið sem ég heyrði við gamla Stoltenberg í útvarpinu í gærkvöldi. Hann fullyrti að aðildarumsókn Noregs að öryggisráðinu hefði komið til vegna þess að aðildarumsókn Noregs að Evrópusambandinu var felld. Æðstu embættismenn norska ríkisins voru fúlir yfir því að fá ekki að vera memm í hópi stóru strákanna og því var hafist handa um að koma þeim á fundi í öryggisráðinu. Árangur Noregs af setu sinni í öryggisráðinu varð enginn þegar upp var staðið sagði gamli Stoltenberg. Mér hefur fundist þetta mál allt saman lykta af því að hér hafi embættismenn utanríkisþjónustunnar ráðið ferðinni. Ég vildi sjá greinargerð um hvað við ætlum okkur með setu okkar í öryggisráðinu. Hana hef ég ekki séð. Það þýðir ekkert að segja að við verðum að vera með í alþjóðasamfélaginu af alvöru og annan álíka útíslátt. Á hinn bóginn er ljóst að aðildarumsóknin er búin að liggja fyrir árum saman og spurning hvort ekki sé komið of langt áleiðis. Kannski verðum við bara felld í kosningum? Búið er að taka upp stjórnmálasamband við yfir 60 ríki vegna þessa á síðustu árum. Meðal annars hefur verið tekið upp stjórnmálasamband við þjóðríkin alþekktu Djúbútí og Túvalú. Manni er spurn af hverju Djúbútí og Túvalú óska ekki eftir setu í öryggisráðinu. Við gætum lofað að styðja þau. Hvar ætli þau séu staðsett á jarðkringlunni nota bene?

Fram féll í 1. deild í knattspyrnu á laugardagin. Það er ekki oft sem maður er ánægður með að lið falli en svo var á laugardaginn. Í fyrra var Fram að berjast við að forðast fall og tapar síðasta leik 1 - 6. Í ár eru þeir í sömu stöðu og tapa 1-5. Svona karakterlaust lið á ekki skilið að spila með þeim bestu.

föstudagur, september 16, 2005

Nokkur umræða hefur skapast um aðildarumsókn Íslands að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að undanförnu. Þetta er búið að vera mörg ár í deiglunni en nú fer að styttast í alvöruna. Reyndar eru hlutirnir ekki eins einfaldir og ætlað var því Tyrkir eru einnig búnir að gefa sig fram utan Íslands og Austurríkis. Mér finnst dálítið merkilegt að það hefur ekkert verið rætt um neitt í sambandi við þessa aðildarumsókn nema það sem varðar peningamálin. Þetta kostar nefnilega alveg djöfuldóm, bæði undirbúningurinn og eins setan í ráðinu ef af verður. Mér þykir kominn tími á að stjórnvöld leggi fram markmið sín með aðildarumsókninni. Til hvers er af stað farið? Er Ísland að ganga fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna lítilla örþjóða? Er eitthvað sem Ísland hefur sérþekkingu á sem verður auðveldara að skýra út og ræða eftir að Ísland er orðinn aðili að ráðinu. Ég spyr vafalaust einfeldningslega en það er vegna þess að ég hef ekki heyrt neina efnislega umræðu um málið. Gagnslaus aðild er of dýr enda þótt krónurnar séu kannsi ekki margar en aðild er ekki endilega dýr ef gagnið er mikið. Ég vona að þessi umræða sé ekki runnið undan rifjum framagosa í utanríkisþjónustunni sem langar að fá að spila í meistaradeildinni í ár eða tvö áður en þeir fara á eftirlaun. Ég las nefnilega einu sinni bókina "Sendiherrafrú segir frá" og þar var margt forvitnilegt að sjá.

Víkingur komst upp í úrvaldsdeildina í kvöld. Liðið vann Völsung frá Húsavík 2-0 og felldi þá þar með niður í 2. deild. Þetta eru gleðileg tíðindi fyrir alla Víkinga því vitaskuld á Víkingur að vera úrvaldsdeildarklúbbur. Liðið féll í fyrra á afar pirrandi hátt og því var sterkt að koma til baka og vinna sig upp strax aftur. Andinn í Víkinni hefur breyst verulega síðustu árin. Sigurður er keppnismaður og vill bara sigur. Hann hefur síðan hæfileika til að efla strákana sem knattspyrnumenn þanig að efnilegir strákar sem vantar síðustu smurninguna til að springa út sækja í að spila undir hans stjórn. Stuðningsmannafélagið Berserkir hefur lyft grettistaki til að efla liðsandann í Víkinni. Nú er Víkin alvöru heimavöllur og hópurinn hefur hertekið hvern útivöllinn á fætur öðrum í sumar og látið þá hljóma sem heimavöll. Nú er bara að byrja strax að vinna skipulega fyrir næsta sumar.

Hitti í kvöld félaga minn, 52 ára gamlan. Hann byrjaði að skokka í sumar og tók þátt í RM um daginn og hljóp þá 10 km í fyrsta sinn á 47 mín. Það er fínn tími af byrjenda. Hann er búinn að setja stýrishjólið fast, hálft skal það vera á næsta ári og síðan heilt eftir tvö ár. Svona eiga stýrimenn að vera.

Stóð fyrir aftan mann á bensínstöð í dag. Hann keypti sér pakka af sígarettum. Pakkinn kostaði 546 krónur. Miðað við að reykja pakka á dag kaupir þessi maður tóbak fyrir 16.380 krónur á mánuði. Í gær sá ég auglýst 40 tommu plasmasjónvarp. Það kostar 230 þúsund krónur en einnig var hægt að fá það á 16 mánuða afborgunum. Mánaðarleg afborgun var 14.900 krónur. Kannski maður byrji að reykja, hætti samstundis og leggi síðan pengingana sem sparast á því að hætta í afborganir á 40 tommu plasmasjónvarpi. Umhugsunarvert.

Fer vestur á Rauðasand í fyrramálið að setja gólfið í húsið heima með Jóni Sigmari. Kem vonandi til baka á mánudagskvöld.
Ég hef stundum verið að segja skoðanir mínar á málflutningi femista hér á síðunni. Ég er mjög oft ósammála þeirra málflutningi eins og ég er ósammála öfgum hvar sem þeir birtast. Kvennalistinn var vafalaust þarflegur á sínum tíma og gerði sitt gagn á ýmsan hátt. Vegferð hans endaði tiltölulega fljótt í blindgötu því málflutningurinn gekk ekki upp. Það er að mínu mati ekki hægt að sjá einhverja kvennafleti og karlafleti í hverju máli sem fjallað er um á Alþingi. Fólk sá tiltölulega fljótt að þessi svokallaða sýn kvenna á málin voru ekki annað en nýju fötin keisarans í breyttri mynd frá frumútgáfu. Því var síðasti landsfundur kvennalistans ansi fámennur sem eðlilegt var.

Ég minnist á þetta því ég sé af og til umræðu í sænsku blöðunum um kvennalistann sænska. Guðrun Schyman, sem var formaður sænska kommúnistaflokksins (Socialistiskt venstre parti) gekk úr flokknum sl. vetur og stofnaði kvennalista (Feminiskt initiativ) eða feminiskt frumkvæði. Guðrún er að mörgu leyti vafalaust magnaður stjónmálamaður en vegna ýmissa persónulegra uppákoma hefur vegur hennar heldur farið minnkandi á seinni tímum. Í upphafi var gerður góður rómur að flokknum og hann mældist með yfir 15% í skoðanakönnunum. Nú berast hins vegar fréttir af átökum og upplausn innan flokksins. Venjulegar konur sem héldu í einlægni að þær gætu unnið að almennum hagsmunamálum kvenna innan flokksins segja sig grátandi úr honum eftir að hafa fengið yfirhalningar af harðlínuliðinu. "Meðalmennskukerlingarnúlla" eru einkunnir sem einstaka konur hafa fengið af þeim kynsystrum sínum sem aðhyllast feminiska harðlínustefnu samkvæmt umfjöllun sænsku blaðanna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig FI þróast í Svíþjóð en eins og stendur stefnir allt í að þar sé að mótast lítill harðlínuflokkur sem verður í besta falli áhrifalaus á þingi.

Ég er á þeirri skoðun að í stjórnmálum eigi að velja hæfustu einstaklingana hverju sinni. Okkar kerfi í kosningum gerir almennum kjósendum erfitt fyrir að hafa áhrif á uppröðun á lista nema í almennu prófkjöri. Uppröðun uppstillingarnefnda með fléttulistum, kynjakvótum og og öðru sem gerir möguleika almennra kjósenda til að hafa áhrif á endanlega uppröðun mjög litla er hins vegar verri valkostur að mínu mati. Það á einfaldlega að halda opin prófkjör til að stilla upp á lista sem flokkarnir bjóða fram lista til sveitarstjórna og þings á meðan almenningur hefur enga möguleika að hafa áhrif á röðunina með útstrikunum. Mér er svo nákvæmlega sama hvort út úr prófkjörum kemur að allir efstu menn lista eru karlar eða konur, ungir eða gamlir, hvítir eða svartir ef að niðurstaðan er vilji fólksins. Menn fá alltaf þá niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum sem þeir eiga skilið.

Ég er nokkuð hrifinn af finnska kerfinu. Þar kjósa menn einn einstakling til sveitarstjórnar eða þings, þannig að kosningin er einnig vinsældakosning milli einstaklinga. Forseti bæjarstjórnar sveitarfélagsins Sippo var hörkudugleg bóndakona sem var kosin til áhrifa í sínu sveitarfélagi eftir þessu fyrirkomulagi. Hún þurfti hvorki fléttulista, kynjakvóta eða önnur trix til að öðlast stuðning sveitunga sinna heldur einungis eigin verðleika. Við hvað eru menn hræddir?

Ég er hrifinn af nýju hlaupasokkunum. Hlakka til að prufa þá í löngum hlaupun því ég held að þeir hafi marga góða kosti en ég sé enga galla. Þeir heita Injinji. Sá á netinu að Þórður okkar SIgurvinsson hafði framkvæmt það sem ýmsir hafa verið að tala um að hlaupa frá Landmannalaugum í Skóga. Flott hjá honum. Það stendur ekkert fyrir Þórði eins og menn hafa séð gegnum árin. Það er hins vegar ljóst að það er mjög erfitt að lengja Laugaveginn formlega yfir Fimmvörðuhálsinn nema með umfangsmiklum aðgerðum og öryggisráðstöfunum. Flytja yrði drykkjarstöðvar og hjúkrunarfólk upp á Fimmvörðuháls og hjálparsveitafólk yrði að vera til taks til að gæta nauðsynlegra varúðarráðstafana. Líklega yrði einnig að vera skylda að hafa meðhlaupara frá Þórsmörk þegar fólk er orðið örþreytt. Það væri hins vegar gaman að takast á við þessa leið við tækifæri en það bíður síns tíma.

Þingstaðahlaupið verður 8. október skv. auglýsingu frá forseta 100 km. félagsins. Sjá nánar síðar um tímasetningar og upphafspunkt. Allir eru velkomnir og er þess vænst að sjá sem flesta. Tempóið er svona 6 km/klst. Markmið hlaupsins er góður andi á leiðinni og að komast alla leið. Einnig er hægt að hlaupa hluta hlaupsins ef það hentar betur.

miðvikudagur, september 14, 2005

Nú tók ég þokkalegan túr í eftirmiðdaginn þegar ég kom heim úr vinnunni. Þegar stjórn FM er búin að færa haustmaraþonið aftur á sinn fyrri stað er engin undankoma með að koma sér í sæmilegt from. Ég held að það eigi að ganga þokkalega, helst að það taki smátíma að ná kílóunum burt sem hafa bæst við í sumar en það tekst. Mætti Pétri Franssyni við miðasöluskúrabeygjuna við Laugardagsvöllinn með stóran hóp á eftir sér. Þar er haldið vel á málum sem mun skila fínni uppskeru. Flott að sjá hópana sem ætla að fara í víking á komandi vikum. Tugir manna til Berlín eftir tíu daga og síðan nær þrír tugir til New York þegar líður á haustið. Ég náði að tryggja mér sæti til London næsta vor. Mig langar að taka þátt í þessum stóru borgarhlaupum þar sem tugir þúsunda eru að hlaupa, svona upp á upplifunina. Ein borg á ári er ágætt meðan maður getur eitthvað. Það er sem betur fer ekki svo dýrt að skreppaq til næstu landa að þetta er verjanlegt upp á heimilisbókhaldið. Svo verður maður að eyða reykingapeningunum sem maður hlýtur að eiga inni einhversstaðar eftir 22 ára tóbaksleysi. Tvö hundruð þúsund á ári sinnum 22 gera 4,4 milljónir (eftir skatt).

Ég pantaði mér á netinu hlaupasokka með távettlingum (ef einhver skilur það sem ég er að segja) . Sérstakir fingur fyrir hverja tá. Litlu tærnar hafa stundum pirrað mig svolítið því þær liggja fullnærri nágrönnum sínum. Líklega afleiðing þess að maður gekk í of þröngum skóm einhvern tíma í fyrndinni. Ein og ein nögl hefur hrokkið af á stundum en hvað með það. Monica Sholz sagðist alltaf hlaupa í svona sokkum og aldrei fá blöðrur þegar ég spurði hana um ástand fótanna í hennar svakalega prógrammi árið 2001. Ég notaði þá í fyrsta sinn í dag og líkaði vel.

Það hefur verið svolítið af fréttum að vestan upp á síðkastið. Fyrst er til að taka að sveitarstjórnarmenn á aðalfundi Fjórðungssambandsins settu þingmönnum þær reglur að þeir legðu ekki undir sig allann þann tíma sem ætlaður var til umræðna. Þar sem ég hef setið hliðstæða fundi hafa þingmenn verið í hlutverki áheyrenda og gesta. Fyrsti þingmaður kjördæmisins hefur borið þingheimi kveðju þeirra en annars hafa þeir ekki látið mikið á sér bera nema sérstök ástæða væri til. Í fyrra fyrir vestan fór þetta allt úr böndunum hjá þingmönnum kjördæmisins og þingið sem átti að vera umræðuvettvangur sveitarstjórnarmanna um sín mikilvægustu mál breyttist í eldhúsdag þingmanna þar sem þeir rifust innbyrðis með mörgum og löngum ræðum. Heimamenn voru mjög fúlir eftir þingið í fyrra og töldu tryggara að tilkynna það í upphafi fundarins í ár hvaða hlutverk þingmönnum væri ætlað á þinginu eftir að allt stefndi í sömu vitleysuna og á síðasta ári. Þetta þótti þingmönnum misgaman. Mér finnst þetta töff hjá heimamönnum þar vestra. Það hlustar nefnilega enginn á þann sem stjakar aldrei frá sér.

Síðan er nú nýlega komin upp umræða um bílakirkjugarðinn í Ögri inni í Djúpi. Maður sér þennan mikla flota af bílhræjum þegar maður keyrir hjá og ég skil vel að nágrönnunum þyki þetta leið sjón dag út og dag inn. Fréttamaður sjónvarpsins fyrir vestan tók dálítið skrítinn pól í hæðina þegar hann fór að tala um þetta mál þegar hann sagði að þarna gætu menn heimsótt gamla bílinn eins og menn gera við leiði ættingja eða vina í kirkjugörðum. Þetta sjónarhorn er nú dálítið fyrir ofan minn skilning. Ég hef ekki heyrt um að fólk sé að leggja blómvönd á gamalt bílhræ sem maður átti kannski endur fyrir löngu. Það er lítið gaman að sjá ónýta ryðhrúgu sem einu sinni var góður vagn. Verndun og viðhald fornbíla er góðra gjalda verð en söfnunarárátta er allt annar hlutur. Hún getur birst í bílhræjum eins og öðru.

þriðjudagur, september 13, 2005

Úrslit norsku þingkosninganna lágu fyrir í morgun. Stjórnin féll og vinstri- og miðflokkarnir fengu meirihluta. Þeir völdu þann skynsamlega kost að bjóða fram sameiginlegan valkost. Þetta hafa vinstri menn aldrei viljað gera hérlendis til að útiloka ekki þann möguleika að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem er svo sem allt í lagi. Menn verða hins vegar að vera samkvæmir sjálfum sér í þessu sem öðru. Jens Stoltenberg bíður erfitt hlutskipti að halda þessum hóp saman. Hann stóð sig svo sem ekki sérstaklega vel þegar hann leiddi ríkisstjórn á þar síðasta kjörtímabili, hrökklaðist frá eftir verstu útreið kratanna nokkru sinni. Þó verð ég að óska honum til hamingju með að þurfa ekki að díla við Maóistana. Það hlýtur að vera versta martröð hvers alvöru stjórnmálamanns að eiga pólitískt líf sitt undir slíku liði. SF tapaði einnig verulegu fylgi sem gerir þá ekki eins fyrirferðarmikla og ella hefði orðið.

Heyrði viðtal í kvöldfréttunum við fyrrverandi þingmann miðflokksins (kona) sem fáraðist mikið yfir því hve konum fækkaði á þingi í kosningunum. Hún féll út, væntanlega vegna þess að kjósendum fannst þeim standa aðrir betri valkostir til boða. Framfaraflokkurinn sem lítur ekki á neina fléttulista fékk 25% fylgi og er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hér heima hefur einnig ætíð keyrt þá stefnu að það sé gildi einstaklingsins sem eigi að ráða á röðun í sæti á framboðslistum en ekki kynferði. Hann hefur verið stærsti flokkur landsins áratugum saman. Veit ekki hvort þetta sé einhver vitnisburður um ágæti fléttulista eða ekki en það segir mér alla vega það að það er ekki eingild söluvara að reyna að ganga í augun á kjósendum með einhverjum trixum. Nú heyrir maður að ungir væntanlegir stjórnmálamenn vilji setja upp fléttulista með ungum (og þá væntanlega óreyndum fyrst viðhafa þarf sérstaka aðferð við að tryggja þeim sæti á listum) í öðru hverju sæti. Mér finnst þetta bera keim af því að þeir sem telja sig ekki eiga sjens í opinni samkeppni vilji engu að síður ná sínu fram eftir trixleiðinni með stöðugum áróðri og málæði um nauðsyn þess að hafa vit fyrir kjósendum.

Í Finnlandi er allt önnur leið valin við kosningar. Í kjörklefanum er listi yfir frambjóðendur hvers flokks og er þeim raðað í stafrófsröð. Hver frambjóðandi hefur sitt númer. Kjósendur skrifa númer þess kjósenda á kjörseðilinn sem þeir vilja að sé kosinn hvort sem er heldur til sveitarstjórnar eða þings. Þannig ákveða kjósendur hverjir komast að en ekki einhverjar klíkur eða þrýstihópar þeirra sem telja sig ekki standast almenna samkeppni.

Fundur í 100 km félaginu í kvöld hjá Ágústi og Ólöfu í Kópavoginum. Höskuldur Kristvinsson var tekinn í félagið með pompi og prakt og þó vonum seinna. Hann hljóp 100 km í Lapplandi sumarið 2003 en það fór ekki hátt svo enginn í félaginu vissi af því fyrr en í vor. Hann bætti síðan um betur og hljóp 100 mílur í Bandaríkjunum í vor. Við bárum saman bækur okkar um líkamlegt ástand, áætlanir komu fram um átök komandi mánaða og missera og síðan voru sagðar sögur úr hlaupum. Ég sýndi myndir frá WS og er gaman að rifja þessa mögnuðu upplifun upp enn einn ganginn. Hugur er í félagsmönnum og bar í því sambandi Þingstaðahlaupið á góma sem fer fram um næstu mánaðamót svo og möguleiki á að halda 6 tíma og 12 tíma hlaup hérlendis.

mánudagur, september 12, 2005

Ég lá aðeins yfir niðurstöðunum úr íbóprófentestinu sem ég fór í í sambandi við WS 100 í vor. Það er ýmislegt hægt að lesa út úr niðurstöðunum sem eru sendar þátttakendum. Það var tekin blóðprufa úr manni við skráninguna og síðan aftur strax eftir að maður kom í mark. Á leiðinni átti maður að borða 6 töflur af íbóprófen með nokkuð jöfnu millibili. Svo var samanburðarhópur sem tók engin lyf af neinu tagi.

Ég er bæði með þeim stærstu og einnig með þeim allra þyngstu. Það virðist vera algengt að þátttakendur séu á bilinu 140 - 170 pund en ég var yfir 196 pd. Það eru ekki alveg 2 pd í kílói því ég var um 84 kíló.
Ég var með 18,5% líkamsfitu sem var í meðalllagi.
Aukning á BUN (blood urea nitrogen) er 8 sem er vel undir meðaltali. BUN er 20 í byrjun hlaups þegar normal er á bilinu 6 - 25.
Sodium er 131 bæði í upphafi og lok hlaups þar sem normal er 135 - 145.
Glucosi er í upphafi hlaups 107 sem er heldur yfir því sem normalt er.
SGOT (sem er liver enzime) er 27 í upphafi hlaups (normal er undir 42) en hækkar í 1253 í hlaupslok sem er nokkuð yfir meðaltali. Meðalhækkun íbóprófena flokksins er 618.
SGPT er 28 í upphafi en hækkar í 268. Meðalhækkun íbóprófena flokksins er 124.
Þvagefni (Uric Acid) er 5,3 sem er mjög normal.
CPK sem eru muscle damage (harðsperrur) hækkar úr 240 upp í 55300 sem er með því hæsta. Bob Lind ráðlagði mér að drekka reglulega fyrstu tvo dagana vegna þessa.
CRP sem er inflammation marker fer úr 1,5 upp í 80,4 sem er með því hæsta.
WBC sem er einnig inflammation marker er í hæsta lagi.
Hemoglobin (járnbúskapur) er 15 samanborið við 14 - 18 sem er normal.
Pre Hematocrit (packed cell volyme) er 44,1 samanborið við 40 - 54 sem er normal.
Eymsli í vöðvum hverfa fljótt hjá mér en þau voru horfin á 5. degi samanborið við að sumir eru ennþá að drepast í vöðvunum á sjöunda degi.

Þetta er svolítið fróðlegt og gefur manni aðeins yfirlit um stöðu sína miðað við aðra.
Rannsóknamenn segja að fyrirliggjandi niðurstöður bendi til að íbóprófen skaði líkamann frekar en hitt og auki hættuna á veikindum (inflammation) við aðstæður eins og hér voru fyrir hendi.

Aðeins um flóttamenn. Í fréttum kom fram að hópur flóttamanna væri kominn frá Cólumbíu. Cólumbíu, er eitthvað sérstakt hættuástand þar. Ef er farið að skilgreina Suður Ameríku sem flóttamannalönd er ég hræddur um að listinn yrði ansi langur yfir fólk sem þyrfti að skjóta skjólshúsi yfir. Einstæðar mæður á flótta, ég vildi fá að vita aðeins meir um þetta. Var verið að fylla einhvern kvóta? Mér finnst þó skynsamlegra að koma þessu fólki, fyrst var farið að taka á mæóti því á annað borð, fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem meiri líkur eru á að þeir nái tengslum við einhvern sem talar tungumál þeirra. Stjórnvöld hér höfðu fallið í þá gryfju, eins og stjórnvöld annarsstaðar á Norðurlöndunum, að koma flóttamönnum fyrir í smáþorpum úti á landi til að vega upp á móti brottflutningi innfæddra. Svo stóðu húsnæðismálstjórnarblokkir oft tómar á staðnum (sem enginn innfæddur vildi búa í) þannig að gagnið var tvöfalt. Verst var að flóttamennirnir toldu oft ekki á staðnum og struku burt um leið og þeir rötuðu til höfuðborgarinnar. Um daginn var mér sögð saga af því að hópi flóttamanna frá Kósóvó var komið fyrir í litlu þorpi úti á landi í húsnæðismálastjórnarblokk. Fyrsta kvöldið fór fjölskyldufaðirinn út að skoða mannlífið. Hann gekk þorpið á enda í báðar áttir en sá ekki einn einasta mann. Innan árs var þessi hópur fluttur til baka til heimalandsins á landssvæðið sem var verið að bjarga þeim frá og þeir voru að flýja að sögn.

sunnudagur, september 11, 2005

Fór í morgun niður í Laugardal og hitti vini Gullu. Þar eru flestir á miklu róli að gera sig klára fyrir Berlínarþonið sem verður eftir hálfan mánuð. Annað hvort foru félagarnir að fara sinn síðasta langa túr eða byrjaðir á niðurtalningunni. Gaman verður að fylgjast með þeim mikla hóp sem fer þarna út því Berlínarbrautin er ein sú hraðasta sem um getur. Þar setti Sigurður P. sitt magnaða íslandsmet sem enn stendur og ætlar hann að hlaupa afmælishlaup í Berlín í tilefni þess (20 ára memorian). Það verða nú einhverjir röskir strákar að fara að taka þessi met sem þeir Sigurður P. á í maraþoni (tuttugu ára gamalt) og metið hans Sigfúsar í 10 km (sem er að verða 30 ára). Ég er frekar þungur eftir lágan prófíl í sumar en mér virðist sem stjórn FM ætli að flytja haustmaraþonið á sinn gamla stað og þannig verður ekki undan vikist að koma sér í eitthvað form fyrir það. Megi gott á vita.

Fékk fyrstu niðurstöður úr rannsókninni sem ég tók þátt í í tengslum við WS 100 í vor. Ég var í íbóprófen flokknum og tók sex töflur á leiðinni en svo var einnig samanburðarhópur sem tók engin lyf. Blóðprufa var tekin fyrir og eftir hlaup. Mér sýnist að fyrstu niðurstöður sýni að íbúprófen flokkurinn hafi komið verr úr. Það hafi verið meiri hætta á slæmum eftirköstum og ástand skrokksins verið verra en hjá þeim sem tóku engin lyf. Ég hef ekki náð að skoða þetta að fullu en fer betur yfir það eftir helgina.

Hlustaði á föstudagskvöldið á kastljósið í sjónvarpinu þar sem rætt var við þrjá einstaklinga. Oft er það nú svo að svona spjall er út og suður eins og gengur og situr ekki mikið eftir af því sem sagt er. Þó er það nú svo að þegar fólk í ábyrgarstöðum kemur í svona þætti þá gerir maður meira með það sem það segir en aðrir. Í þessum þætti var varaformaður VG. VG stefnir að því eins og aðrir stjórnmálaflokkar að komast í ríkisstjórn og hafa áhrif á stjónun landsins. Ég verð bara að segja það að það setur að manni ugg við tilhugsunina um að fólk eins og þessi varaformaður komist til valda. Mér fannst bullið í henni vera þannig allann þáttinn. Eina sem hún sagði og ég var sammála var þegar hún lýsti því yfir að hún hefði ekki mikla reynslu í pólitík og þekkti þess vegna ekki svo mikið til ákveðinna mála. Manni datt þá í hug spurningin hvers vegna varð hún þá varaformaður? Var enginn skárri til?. Hún fjasaði mikið um símasöluna og var náttúrulega alfarið á móti henni. Hún sagði að sala Símans hefði verið eins og einhver hefði tekið hrærivélina hennar og látið hana fá brauðrist í staðinn!!! Bíddu nú hæg. Tók einhver eitthvað frá henni? Er ekki síminn á heimili hennar ennþá? Ef maður notar heimilstækjafræðina til útskýringar þá er hrærivélin í fullum gangi og góðu ásigkomulagi hjá henni áfram en hún er búin að fá brauðrist til viðbótar sem hún átti ekki áður en vantaði sárlega. Þannig lítur það alla vega út í mínum huga.

Í mörgum þróunarríkjum Afríku var það útbreidd skoðun eftir að þau fengu sjálfstæði undan nýlenduherrunum að einstaklingarnir í landinu ættu hver sinn skerf persónulega af eigum ríkisins. Víða var síðan gengið í skrokk á ríkisfyrirtækjum og einstaklingarnir sóttu meintar eigur sínar og eyðilögðu þar með áður ágæt fyrirtæki. Mér hefur símaumræðan hjá ákveðnum hópum einkennst af þessu viðhorfi og þar með er þessi varaformaður talinn. Ýmsir sögðu fyrir sölu símans; "Ég persónulega á minn hluta í símanum af því hann er ríkisstofnun". Í mínum huga er þetta alrangt. Eigur þjóðríkisins eru ekki eigur einstaklinganna sem byggja þjóðríkið hverju sinni heldur ríkisins meðan það starfar. Með símasölunni er verið að losa gríðarlega fjármuni úr eignum ríkisins sem hægt er að nota til að greiða niður skuldir (mjög skynsamlegt), hraða framkvæmdum sem ella hefðu þurft að bíða og í þriðja lagi til að forða skattahækkunum eða leiða til skattalækkana.

Mér finnast stjórnmál snúast í höfuðdráttum um að sumir álíta sem svo að þeir hafi meira vit á því heldur en almenningur hvernig launum þeirra er varið á meðan aðrir líta svo á að einstaklingurinn sé best hæfur til að ráðstafa sínum peningum sjálfur. Annars vegar eru háskattaflokkar og hins vegar eru lágskattaflokkar. Þá er ég að ganga út frá skattheimtu sem er umfram það sem þarf til að reka þá grunnþjónustu (menntun, heilsugæslu, samgöngur og félagsþjónustu) sem er viðtekin almannaþjónusta hér og í okkar nágrannalöndum. Menn verða að átta sig á því að loforð stjórnmálamanna um aukna þjónustu ríkis eða sveitarfélaga (oft til handa þröngum hagsmunahópum) kalla á hækkun skatta hjá hinum almenna launþega, hvort heldur eru beinir eða óbeinir skattar. Það er nefnilega afar auðvelt að vera gjafmildur á annarra manna peninga.

Sveinn hélt upp á tvítugsafmæli sitt í gærkvöldi og bauð skólafélögum sínum og vinum til samsætis hér heima. Áætlaður hópur var í upphafi nokkuð stór eða um fjörutíu manns. Síðan gerist það að margir hringdu og spurðu hvort félagi eða vinur mætti koma með og Sveinn svaraði því vitaskuld játandi. Að sögn viðstaddra var húsið svo stappfullt á tímabili að beita þurfti lagni til að ganga um. Við komum heim tæplega tvö og þá voru krakkarnir að tínast út. Þó þau hafi verið að smakka bjór þá sást varla vín á nokkrum manni það maður sá. Enginn hafði komið með sterkt vín með sér eftir tómum umbúðum að dæma. Umgengni og framkoma var til slíkrar fyrirmyndar að betra verður ekki á kosið. Gaman að fá svona magnaða krakka í heimsókn. Ég er hræddur um að það hefði verið eitthvað annað uppi á teningnum við svipaðar aðstæður þegar maður var á svipuðum aldri sjálfur. Þá höfðu unglingarnir ekki aðra möguleika en að drekka rótsterkt brennivín sem gerði alla meir og minna vitlausa. Ég held að tilkoma bjórsins hafi verið ein jákvæðasta kulturbreyting sem hefur átt sér stað hérlendis um mjög langan tíma. Ég hvet alla sem lesa þetta til að rifja upp reglulega hvaða alþingismenn voru á móti því að lögleiða bjórinn á sínum tíma og sitja enn á þingi.

föstudagur, september 09, 2005

Kom frá Finnlandi í eftir góða ferð. Á hótelinu gat maður horft mikið á BBC og CNN og fylgst með því sem var að gerast á flóðasvæðinu í New Orelans. Maður getur ekki annað en undrast hve vanbúin stjórnvöld í Bandaríkjunum voru við afleiðingum Katrínar sem voru þó fyrirsjáanleg a.m.k. að hluta til þegar horft var á bílalestrinar úr borginni í aðdraganda fellibylsins. Skipulagsleysi og forystuleysi vistist vera allsráðandi. Enn eru lík fljótandi í vatninu á götum borgarinnar. Afleiðingar fellibylsins eru svo óskaplegar að maður getur ekki gert sér þetta í hugarlund.

Ég heyrði áðan í útvarpinu rætt um umfjöllun í Veckans affarer i Svíþjóð þar sem var dreginn í efa fjárhagslegur styrkur íslenskra fyrirtækja sem hafa verið að gera sig gildandi í Svíþjóð. Framkvæmdastjóri Verslunarráðs vildi ekki gera mikið úr áhrifum þessarar fréttar. Menn eiga ekki að gera lítið úr svona umfjöllun. Enda þótt það sé svo sem ekki mikið að marka þá hitti ég blaðamann frá Ísrael á turnbarnum í Helsinki. Hann sagðist hafa verið að spekulera í að koma til Íslands í fyrra en hætt við það eftir að hafa lesið geðvonskulega grein í ensku blaði um túrismann á Íslandi. Ég man eftir umfjöllun um þessa grein og m.a. að sendiráðið í London hafi gengið í málið og reynt að koma leiðréttingum á framfæri. Það er ljóst að það er erfitt að bæta fyrir slæma umfjöllun.

Ég keypti mér bók um hlaup í Helsinki. Hún heitir "Lore of Running" og er eftir Tim Noakes. Þetta er heilmikill doðrantur upp á 1000 bls. Það sem mér finnst þessi bók taka mörgum öðrum fram er að í henni er sérstakur kafli um Ultrarunning. Það er nefnilega svo að í fæstum þeim bókum sem ég hef keypt um hlaup og hlaupaþjálfun er minnst að einhverju ráði á ultrahlaup. Mér finnst það vera stór hluti af undirbúningi undir átök sem eru manni framandi að lesa sér til um reynslu annarra, mistök og upplifanir. Það er í þessu eins og í öðru að maður á að forðast að gera mistök sem hægt er að sleppa við með því að læra af öðrum.

Fréttamatið í sjónvarpinu er stundum alveg með ólíkindum. Nú er það reyndar Stöð 2 svo ég er ekki pirraður yfir því að þurfa að borga ruglið en ég var að horfa á fréttirnar áðan. Þar var viðtal við leigubílstjóra sem keyrir um á Porce. OK hann má það ef hann vill. Fréttamaður byrjaði á því að fullyrða að eini Porce leigubíllinn í heiminum væri á Íslandi. Hvernig veit hann það? Hákot er stórt orð. Svo var spjallað við bílstjórann og allt æí lagi með það. Manni datt fyrst og fremst í hug að leigubílstjórinn hefði keypt sér frétt og leyft fréttamanninum að taka í til að auglýsa sig. Allt í lagi með það í sjálfu sér. Þetta er einkarekin stöð. Fréttamaðurinn endaði fréttina á því að segja að leigubílstjórinn væri á einum dýrasta leigubíl í heiminum. Hvernig veit hann það? Þegar fjölskyldan var í Bandaríkjunum í sumar var pantaður leigubíll fyrir 8 manns. Þau bjuggust við að fá rúgbrauð eins og hefði komið hér. Það lengdist aðeins á krökkunum andlitið þegar alvöru löng limosína birtist og sótti hópinn. Þetta var limmi með svörtum gluggum, sjónvarpi, bar og öllu sem maður sér í bíómyndum. Mér þætti gaman að vita hvað svona bíll myndi kosta hérlendis. Í ljósi þessa finnst mér yfirdrifin hrifning fréttamannsins yfir því að keyra í einhverjum Porce bíl vera ósköp barnaleg.

fimmtudagur, september 08, 2005

Seinni dagur ráðstefnunar í dag. Enda þótt stærstur hluti hennar hafi verið á finnsku þá var engu að síður mjög gagnlegt og fróðlegt að sjá hvernig samtök finnsku sveitarfélaganna standa að viðburði eins og þessum. Það er margt sem hægt er að læra af nágrönnum okkar. Alltaf rekur maður sig á hve Finnar og Íslendingar harmónera vel saman. Það er eitthvað í sálinni sem tengir menn fljótt saman enda þótt menn hafi ekki þekkst lengi. Við höfum eignast góða vini hér í sveitarfélagageiranum og endurnýjað kynni við aðra sem vonandi verða þróuð betur áfram heima á Íslandi. Það heyrir maður mjög oft að það er draumur fólks hér á Norðurlöndum að komast til Íslands. Það þykir öðruvísi og spennandi um leið að vera dálítið fjarlægt. Það hafðí borist til Finnanna að ég hafði hlaupið 100 M í vor. Þeir sögðust telja sig nokkuð hrausta en nú væru greinilega komin ný viðmið.

Í kvöld fórum við Magnús Karel ferðafélagi minn á rússneskt veitingahús hér ekki langt frá Esplanaden. Það heitir Saslik. Ég mæli mjög með því. Það er greinilega rekið af aðdáendum rússnesku keisarafjölskyldunnar sem var drepin í byltingunni 1917 því það voru myndir upp um alla veggi af þeim en hvergi sáust Lenin, Stalin eða Trotsky. Við borðuðum saltar gúrkur og bjarnarkjöt, drukkum rússneskan bjór og rauðvín frá Úkraníu og síðan var gregorískt te í eftirrétt. Afar gott og vel framreitt. Góðir tónlistarmenn spiluðu undir matnum á fiðlu og gítara. Mæli með staðnum.

Finnst gott að heyra að stjórn FM ætli að hittast á mánudaginn að ræða fyrri ákvörðun varðandi tímasetningu haustmaraþons. Það er í eðli góðra manna að viðurkenna staðreyndir og breyta ákvörðunum ef svo ber undir. Maður vonar það besta. Búinn að taka góðar slaufur hér í Helsinki á morgnana. Fínt að skoða borgir svona í morgunsárið.

miðvikudagur, september 07, 2005

Sit hérna úti í Helsingfors eftir að hafa sótt fjármálaráðstefnuna í morgun og fram eftir degi. Finnum er sameining sveitarfélaga hugleikin en ríkisstjórnin hefur gefið upp reykmerki um að sveitarfélögin verði sameinuð verulega innan fárra missera. Í maí byrjun á næsta ári eiga helstu línur að liggja fyrir. Eðlilega er fólk á varðbergi, samskipti milli ríkis og sveitarfélaga hér eru ekki góð og margir óánægðir með stöðuna. Þingmenn á finnska þinginu raða sér í áhrifastöður innan sambands sveitarfélaga og gæta hagsmuna ríkisins á þann veg. Það ætti að banna þingmönnum að sitja í sveitarstjórnum eins og gert er víða t.d. í Noregi. Það koma svo oft upp hreinir hagsmunaárekstrar milli ríkis og sveitarfélaga og þegar mann sitja beggja megin borðs þá vega hagsmunir ríkisins alltaf þyngra ef velja þarf á milli. Það er einnig athyglisvert í norsku sveitarstjórnarlögunum að þar er mönnum bannað að sitja hjá. Menn eru kosnir til áhrifa til að taka afstöðu, með eða móti. Hjásetja er bæði hreinn aumingjaskapur og einnig leið til að geta leikið tveim skjöldum og átt útgönguleið ef umræðan þróast á annan hátt en menn halda í upphafi. Margir þykjast sína mikla stjórnkænsku og djúpa visku með hjásetu. Í mínum huga er hjásetja dæmi um hið þveröfuga.


Við fórum í gær í heimsókn í sveitarfélagið Sippo sem er nágrannasveitarfélag Helsingfors. Við þekkjum forseta bæjarstjórnar sem hefur komið tvisvar heim til Íslands. Það er dugnaðarlegur bóndi (kona). Það var tekið á móti okkur eins og höfðingjum og allt gert til að dagurinn nýttist sem best. Við heimsóttum m.a. nýbyggðan skóla sem á að vígja seinna í mánuðinum. Það er gjarna vitnað til góðs námsárangurs í finnskum skólum og kennarasamtökin hafa á orði að það eigi að sækja fyrirmyndir til Finna hvað varðar menntun kennara. Mér sýnist að það sé hægt að leita til þeirra með fleira. Ég spurði kennara sem við hittum um fyrirkomulag frímínútna. Hjá þeim er kennt í 45 mínútur og síðan eru 15 mínútna frímínútur þar sem allir fara út. Einu tilvikin þar sem kenndar eru tvær kennslustundir án frímínútna er þegar verið er að kenna smíði, leikfimi eða tónstundaiðju. Ég spurðist fyrir um þetta að gefnu tilefni. Ég var nýlega að skoða stunda töflu Maríu. Þar er grundvallarregla að það er alltaf kennt í tvær kennslustundir samfleytt. Það eru bara einar 20. mín. frímínútur frá kl.8.20 fram til kl. 12.00. Síðan er tvo daga vikunnar kennt í fjórar kennslustundir samfleytt án frímínútna og það eru bókleg fög (íslenska, enska, danska o.s.frv). Ég er ekki par ánægður með þetta og sendi nýlega bréf til foreldraráðs Breiðagerðisskóla með nokkrum spurningum sem eg óskaði svara við. Kennararnir segja að það sé svo erfitt að koma krökkunum út í frímínútur að það verði að slá saman kennslustundum. Médr sýnist stundaskráin vera þannig úr garði gerð að það sé reynt að ljúka skólanum eins snemma og lifandi mögulega er hægt. Það er alltaf verið að taka um að krakkarnir séu órólegir í tímum. Er það furða? Maður væri líklega farinn að missa athyglina eftir fjögurra kennslustunda setu án frímínútna, hvað þá litlir krakkar.

Ég sá í fréttum að dómarinn í stóra Baugsmálinu hefur áhyggjur af því að málið sé ekki rétt reifað. Það er svakalegt ef það reynist rétt. Ef embættismenn geta ekki unnið heimavinnuna almennilega og sett málið þannig fram að það sé dómtækt, þá er eitthvað að. Þá er betur heima setið en af stað farið, burtséð frá sekt eða sýknu.

Ég styð Gísla aðalritara í því að næsta ár verði dagsetning haustmaraþonsins ákveðin í ársbyrjun og henni ekki breytt hvernig sem allt veltist. Menn verða einfaldlega að velja og hafna en við megum ekki missa haustþonið.

Sveinn minn varð tvítugur í gær. Hamingjuóskir eru sendar héðan frá Finnlandi. Maður sér það fyrst og fremst á krökkunum hvað tíminn líður hratt. Manni finnst maður ekki eldast neitt en það getur varla verið þagar maður sér hvað aðrir breytast. Á helginni er fyrirhugað að hann fagni tímamótunum með félögum sínum. Þá verður gamla settið að finna sér eitthvað til dægrrastyttingar á meðan.

mánudagur, september 05, 2005

Stjórn FM er búin að færa haustmaraþonið fram til 1. október. Þá verður undirbúningur og árangur eftir því. Ég var búinn að setja það inn í planið að nota september og október til að snúa mér þokkalega í gang eftir hóglífi sumarsins en núna verður þetta bara skemmtiskokk (vonandi) og aðaláherslan lögð á félagsskapinn og ánægjuna af hlaupinu. Ég sé á bloggi Gísla aðalritara að það eru einhverjar hugrenningar um hvort sé þörf fyrir haustmaraþonið. Mit mat er að svo er ótvírætt. Þrátt fyrir að sívaxandi fjöldi hlaupara taki þátt í maraþonum erlendis, þá er það allta fsvo að þannig stendur á spori hjá einhverjum að þaeir eru ekki að fara út og þiggja hausthlaupið með þökkum. Sveo eru einnig þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum og eru í uppbyggingu. Þeir eru kannski ekki farnir að huga að utanlandsferðum en vilja gjarna renna skeiðið. Fyrir þessa hópa eru marsþonið og haustþonið góð viðbót við Mývatn, RM og mögulegar utanlandsferðir. Þeir sem hafa lagt ómældan tíma og fyrirhöfn eiga ómældar þakkir skildar. Sem betur fer duttu menn niður á leið sem útheimtir lágmarksmannskap og gerir framkvæmd alla mun einfladari en áður. Ég segi að lokum fyrir mig að það ég hef haft af því mikið gagn að taka þátt í þessum hlaupum gegnum árin og er óvíst að maður hefði potast eins áfram ef þeirra hefði ekki notið við.

Hofði á norskan þátt í dag um príramídafyrirtæki. Efni þáttarins var athyglisvert og er vanandi að fólk læri einhvern tíma af reynslunni og láti ekki loddara blekkja sig í jafn stórum stíl og skýrt var frá í þættinum. Eitt vakti sérstaklega athygli mína. Í þýðingunni voru krónu tölur þýddar beint yfir án þess að þess væri getið í íslenska textanum að um norskar kræónur væri að ræða. Þegar maðurinn sagðist hafa fjárfest fyrir 230 þúsund krónur skv. textanum þá voru það 230 þúsund krónur norskar eða 2,3 milljónir íslenskar. Svona var það allstaðar sem minnst var á fjárhæðir í þýðingunni, þær voru allstaðar einn tíundi af raunverulegu verðmæti vegna gengismunar. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.

Fer til Finnlands á morgun m.a. til að sitja fjármálaráðstefnu finnsku sveitarfélaganna. Ég hef sótt sænsku fjármálaráðstefnuna í Malmö tvö síðustu árin og hafa margar hugmyndir verið sóttar þangað við þróun hliðstæðrar ráðstefnu hérlendis. Fróðlegt verður að sjá hvernig Finnar standa að málum.

sunnudagur, september 04, 2005

Betur og betur kemur í ljós hvílíkt hörmungárástand ríkir í New Orleans eftir fellibylinn. Sá í sænski blöðunum í morgun að Michael Moore sendir president Bush kaldar kveðjur í tilefni þess, enda er forsetinn ekki í miklu uppáhaldi hjá kvikmyndagerðarmanninum. Það er náttúrulega með ólíkindum að skipulögð áætlun og viðbrögð við svona hamförum skuli ekki vera til staðar hjá eins magnaðri þjóð og Bandaríkin eru.

Las í morgun ágætt viðtal í sunnudagsblaði Moggans við Guðmund Árna Stefánsson bráðum fyrrverandi þingmann og verðandi sendiherra. Hann rifjar þar upp ýmis atriði frá þingmannsferli sínum og kemur meðal annars inn á þá tíma þegar hann neyddist til að segja af sér ráðherradómi. Hann er greinilega ekki sáttur við ýmis atriði í vinnubrögðum forystu flokksins á þeim tíma. Ég hef heyrt hvernig vinnubrögðin voru á þeim tíma frá mönnum sem þekktu málin frá fyrstu hendi. Þar voru bakstungurnar notaðar eins og hægt var, blöðin mötuð á því sem kom Guðmundi Árna illa og kynt undir umræðuna að þeim sem hlífa skyldu þar til markmiðinu var náð. Grímur Thomsen lýsir þessu umhverfi vel í kvæðinu Goðmundur á Glæsivöllum.

Fór upp að Hvanneyri í gærkvöldi á þrjátíu ára reunion. Við vorum ellefu saman sem stóðum glaðbeittir á hlaðinu á Hvanneyri í júní byrjun 1975 sem nýútskrifaðir búfræðikandidatar eftir að hafa átt þar saman 4 - 5 góð ár saman. Á þessum árum var tími uppbyggingar og framfara í landbúnaði. Á Hvanneyrarárunum valt oft á ýmsu, ekki síst í glímu okkar við yfirvöld á staðnum þegar við vorum farnir að eldast og vildum hafa frjálsræði eins og okkur þótti hæfa rúmlega tvítugum mönnum. Einu sinni þegar eldarnir loguðu sem hæst þá útbjuggum við að miklu hugviti jólakort með nokkurskonar skólaspjaldsmynd af okkur félögunum í fangabúningi bak við lás og slá. Þetta kort sendum við ráðamönnum á staðnum með jólakveðju að sögn við litla hrifningu móttakenda. Það er gaman að hittast á nokkurra ára fresti og rifja upp góðar minningar fá þessum árum þegar allrir vegir voru færir og bjartsýnin ein réði ferðinni. Mestu máli skiptir að allir í hópnum hafa spilað ágætlega úr sínum spilum og ýmsir skipað sér í framvarðarsveit á sínu sviði. Félagi Guðmundur minnti á Borgarfjarðarhlaupið þann 24. september n.k. sem hefst kl. 14.00 við kirkjuna á Hvanneyri.

Styrkleikamunur kom glöggt í ljós þegar leið á landsleikinn í gær, enda kannski ekki að furða. Miklu máli skiptir þó að geta gengið stoltir af velli þrátt fyrir tap og hafa gert sitt besta. Króatía er nú einu sinni með eitt besta lið Evrópu um þessar mundir. Sá stóran hluta af leiknum U21 á föstudagunn. Þar kom hinsvegar í ljós mikill styrkleika og getumunur þrátt fyrir að tapið hafi bara verið 1-2. Íslendingar geta þakkað Ingvari Kale, markmanni Víkings, fyrir að tapið var ekki stærra. Hann og Sölvi Geir, einnig uppalinn Víkingur, voru bestu menn íslenska liðsins.

Horfði á hluta að landsleik íslendinga og dana í körfu í gær. Danir unnu örugglega þegar upp var staðið. Var eins og íslendingar hefðu ekki nægt úthald. Líklega hefur Kínaferðin setið í þeim. Skil reyndar ekki alveg taktikina að fara í ferðalag tíl Kína örfáum dögum fyrir svo mikilvægan leik.

Sá á blogginu hjá Evu að hálfmaraþonið í gær hefði verið 21,7 km. Það er ekki nógu gott að vegalengdir í hlaupum séu ekki rétt mældar, hvað þá þegar um íslandsmeistaramót er að ræða. Ég hef alltaf grun um að minn besti tími í 10 km, sem ég náði á Selfossi fyrir nokkrum árum síðan, hafi verið hlaupinn á braut sem var í styttra lagi. Einhvern veginn þá er ég ánægðari með tímann sem ég fékk í 10 km á RM í fyrra enda þótt hann sé nokkrum sekúndum lakari því ég veit að hann stenst, svo er Timex fyrir að þakka.

Fékk þennan símahrekk sendan nýlega. Hann er með þeim betri sem ég hef heyrt. http://www.fm957.is/uploads/FileGallery/Files/Zuuber/Hrekkir/Zuuber%20hrekkur%20-%20Oli%20forseti%20pantar.mp3

laugardagur, september 03, 2005

Olíuverðið hækkaði enn einn ganginn til í gær og fyrradag. Líterinn af bensíni og hráolíu kostar hátt í 120 kall. Þrátt fyrir mótmæli hátt í tuttugu þúsund manna hefur fjárfmálaráðuneytið ekki ljáð máls á því að endurskoða skattlagningu á eldsneyti. Það er nefnilega ekkert smámál ef þessi grípðarlega hækkun á eldsneyti sem er staðreynd fer að spóla upp verðbólgu með tilheyrandi afleiðingum. Skatttekjur ríkisins hafa aukist verulega umfram það sem ætlað var á liðnum misserum þannig að það er örugglega borð fyrir báru. Vitaskuld getur maður reynt að draga úr notkun bílsins ef manni þykir dropinn dýr. Maður má ekki alveg gleyma sér í kröfugerð á aðra en stundum er erfitt að ráða við hlutina.

Það kom hópur norðmanna í heimsókn í sambandið í gær eins og nokkuð algengt er að erlendir hópar komi til okkar og fái að heyra um skipan sveitarfélaga á Íslandi. Við fórum síðan tveir með þeim út að borða í Perluna í gærkvöldi og var það ágæt kvöldstund. Perlan er náttúrulega stórkostlegur staður, ekki síst þegar farið er að rökkva á kvöldin og borgarljósin njóta sín vel í snúningnun. Ég man þá tíð að manni þótti bygging Perlunnar vera hin mesta fásinna og flottræfilsháttur. Í dag lít ég svo á að bygging hennar hafi verið dæmi um framsýna og stórhuga ákvarðanatöku sem hefur heldur betur sannað sig. Það er nefnilega ekki sérstaklega gott eða uppbyggilegt handverk að mála skrattann á vegginn hvar sem tækifæri gefst. Ekki vildi ég vera í sporum þeirra stjórnmálamanna sem hafa þann starfa að meginviðfangsefni.

Ég hef verið í góðum tengslum við fólk af ýmsum toga frá Norðurlöndum í um aldarfjórðung. Ég hef stundum hugsað um það hve mér finnst viðhorf nágranna okkar gagnvart íslandi hafa breyst á liðnum áratug eða svo. Hér áður var Ísland í nokkurskonar yngstabróður hlutverki, forvitnilegur, öðruvísi og svolítið skrítinn. Hér geysaði óðaverðbólga sem enginn skildi hvernig gat gengið (enda gekk hún alls ekki). Hér var ekki sjónvarp á fimmtudögum og við töluðum mál sem enginn annar skildi. Í kjölfar aukinna umsvifa íslenskra stórfyrirtækja á norrænum vettvangi og margháttaðra annarra breytinga finnst mér þetta viðhorf hafa breyst verulega. Nú líta norðurlandabúar á Ísland sem land þar sem eru að gerast margir mjög áhugaverðir hlutir, bæði í atvinnulífinu, velferðarkerfinu og listum og menningu. Þeir eru forvitnir en um leið með dálitla aðdáun í röddinni. Velferð hérlendis vekur athygli nágranna okkar. Þeim finnst til dæmis mjög athyglisvert að hámenntað fólk sem hefur dvalist langtímum erlendis við nám og starf sækir heim til Íslands aftur þegar tækifæri skapast til þess. Eitt af því sem er styrk stoð undir þeirri öru þróun þjóðfélagsins er að það er frekar regla en undantekning að fólk sæki einhvern hluta af námi sínu á erlenda grund. Þegar sú reynsla, þekking og menningaráhrif sem þetta fólk hefur með sér í farteskinu heim aftur þá verður útkoman sjóðandi pottur sem virðist skila ótrúlegum krafti inn í samfélagið. Ég ætla mér hvorki að vera væminn eða patríotískur en þetta er tilfinning mín þegar maður horfir um öxl. Það er nefnilega með ólíkindum að það eru minna en ein öld síðan að Ísland var fátækast allra landa í okkar hluta heimsins, einangruð afskekkt eyja í samfélagi þróaðra iðnaðarsamfélaga.

föstudagur, september 02, 2005

Hamfarirnar í New Orleans eru eðlilega mikið í fréttum þessa dagana. Þetta er svo óskaplegt að það er ekki hægt að ímynda sér ástandið. Að þurfa að flytja á aðra milljón manns burtu og borgin að mestu leyti í rúst. Allt í rúst, hús, brýr, vegir, vatn, rafmagn og frárennsli. Það hýtur að taka áraraðir að koma einhverju skikki á hlujtina. Það vill til að bandaríkjamenn eru menn hinna stóru verka og geta fengist við svona ósköp. Fregnir berast af því að Fats Domino, góðlegi holdugi píanóleikarinn sem átti Blueberry Hill, hafi látist í hamförunum. Hann vildi víst ekki yfirgefa húsið enda orðinn aldraður, og því fór sem fór.

Las bráðskemmtilega frásögn á netinu í dag eftir Steve Patt, tvöfaldan WS 100 hlaupara. Hann setti margar myndir inn á netið eftir hlaupið 2002 sem hjálpuðu mérog fleirum til að átta sig á aðstæðum með öðru. Hann kláraði á 25.47 og var mjög sáttur við það. Slóðin er www.alumnus.caltech.edu/~slp/racereports/westernstates06.html

Af hverju hlaupa menn ultra? Af hverju lætur fólk sér ekki nægja 1 km eða 5 km? Það er auðveldara en lengri hlaup. Af hverju fer fólk að teygja sig lengra og lengra, 10K, 1/2 maraþon, heilt, Laugavegurinn, þríþraut o.s.frv. Af hverju er fólk að leggja á sig að hlaupa í 10, 20 eða 30 klst og fá bol og einhvern minjagrip fyrir? Svarið er einfalt, það er í eðli manna að leita að takmörkum sínum. Hve langt er hægt að ganga? Hvað þolir andinn og líkaminn? Áskorunin að takast á við hluti sem áður voru ómögulegir styrkir fólk ekki einungis líkamlega heldur einnig andlega. Það er ekki síðri árangur heldur en hinn líkamlegi styrkleiki. Hér áður háði fólk kapp við takmörk sín í hinu daglega lífi til lands og sjávar. Þá var líkamlegt atgerfi og seigla það sem oft réði úrslitum um hvort menn lifðu af eða ekki. Nú eru þeir tímar breyttir. Maður gæti ímyndað sér að óreyndu að þegar maður þarf ekki að vinna erfiðisvinni í hinu daglega lífi þá væri maður bara sáttur með þægilegheitin. Svo reynist ekki vera. Þá kemur þörfin fyrir önnur viðfangsefni sem eru krefjandi fyrir líkama og sál. Að setja sér markmið, vinna markvisst að því að ná því og standa síðan uppi sem sigurvegari gagnvart sjálfum sér eftir að hafa náð settu marki er tilfinning sem þeir einir þekkja sem reynt hafa. Þá er ég ekki einungis að tala um ultra vegalengdir heldur einnig aðrar styttri. Vegalengdin skiptir í raun ekki máli í þessu sambandi. Eins og ég hef áður sagt, það er ekki síður erfitt að taka fyrstu skrefin en að bæta ofan á þau. Menn verða bara að setja sér raunhæf markmið stig af stigi. Þá þróast hlutirnir áfram, markvisst og skipulega.