mánudagur, apríl 30, 2007

Eiður Sigmar Aðalgeirsson, nýr meðlimur í 100 km félaginu

Maður getur ekki annað en gert þá kröfu til ríkisfjölmiðla að þeir sýni fagmennsku og yfirvegun í umfjöllun sinni um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka. Sérstaklega á þetta við um síðustu vikurnar fyrir kosningar. Þetta er spurning um princip og lýðræðislegar leikreglur. Fréttastofa sjónvarpsins hefur farið mikinn að undanförnu í umfjöllun sinni um veitingu ríkisborgararéttar til handa væntanlegri tengdadóttur Jónínu Bjartmars. Einhverra hluta vegna hafa þeir nefndarmenn í allsherjarnefnd sem tóku ákvarðanir í þessu máli og eru alfarið ábyrgir fyrir því ekki verið teknir á hvalbeinið heldur hefur fréttastofa RÚV reynt eins og hægt er að klína því á Jónínu að hún hafi misbeitt aðstöðu sinni sem þingmaður og ráðherra. Framganga fréttastofunnar í málinu varð enn skýrari í gærkvöldi þegar þingflokksformaður eins stjórnarandstöðuflokksins var orðinn helsti álitsgjafi fréttastofunnar í málinu. Vitnað var til orða hans sem sérstaks umsagnaraðila í fréttayfirliti. Það kom ekki fram hjá fréttastofunni að fréttamaðurinn sem fór mikinn gegn Jónínu í Kastljósþættinum fyrir helgina var kosningastjóri hjá sama stjórnarandstöðuflokki fyrir fjórum árum. Þetta er náttúrulega einstök tilviljun sem tekur ekki að tala um.

Ég las eitt sinn viðtal við sænskan ultrahlaupara sem hafði þá nýlokið við að hlaupa 100 km hlaup í Belgíu. Það kom honum á óvart að upplifa viðhorf Belganna gagnvart ultrahlaupurum miðað við það umhverfi sem hann þekkti frá heimalandinu. Í Belgíu voru hlaupararnir meðhöndlaðir sem hetjur eftir hlaupið á meðan hann sagði að í Svíþjóð voru þeir hlauparar álitnir heldur skrítnir sem hlupu lengra en maraþon. Nú ætla ég ekki að mælast til þess að ultrahlauparar séu hylltir sem hetjur en það er þó eitt sem ég geri kröfu til að ultrahlaup sé metið sem íþrótt eins og önnur hlaup. Af hverju er frétt af ultrahlaupum ekki íþróttafrétt heldur sett sem frétt undir „Ferðir“, „Fólk“ eða eitthvað annað álíka. Í morgun skýrði Mogginn frá því að Eiður Sigmar hefði lokið 100 km hlaupi í Amsterdam. Frétt af afreki Eiðs var sett milli tveggja frétta um eldsvoða. Annar bruninn var sinueldur í Eyjafirði en hin fréttin var af húsbruna. Enda þótt það hafi verið heitt hjá Eið laugardaginn þá sé ég ekki ástæðu til að tengja afrek hans við eldsvoða. Svona staðsetning frétta er dæmi um afar einkennilegt fréttamat fjölmiðla. Það er talin íþróttafrétt þegar það er rakið hverjir hafi setið á tréverkinu í þessum eða hinum leiknum og ekki fengið að koma inn á en það er ekki íþróttafrétt þegar maður hleypur 100 km eða þaðan af lengra. Hvaða rugl er þetta?

Nokkrir fundarmanna á aðalfundi UMFR 36

sunnudagur, apríl 29, 2007

Var að tala við Eið. Hann var á leið heim á hótel í lest eftir hlaupið í Amsterdam þar sem hann kláraði 100 km með sóma. Það var hlaupið á braut sem var 1.8 km löng, eingöngu malarstígar. Það var mjög heitt um miðbik dagsins eða frá kl. 12.00 til um. 16.00. Þá fór hitinn vel yfir 25 oC. Í kringum 60 km sagðist hann hafa verið mjög dasaður vegna hitans og hugsað stíft um að hætta við en þrælaðist áfram. Þegar sól fór að lækka á lofti fór hins vegar allt að ganga betur og síðustu 10 - 15 km voru bestir. Hann var mjög kátur og vel á sig kominn að hlaupi loknu og sagðist vel hafa getað haldið áfram. Hann lét að öllu öðru leyti en hitanum vel af aðstæðum og sagðist vel geta hugsað sér að fara þangað aftur í svona hlaup. Tími Eiðs var í kringum 13 klst. Hlaupið var fámennt, 10 fóru af stað og sjö komu í mark.

Það væri kannski umhugsunarvert að halda 100 km hlaup á svona hring hérlendis. Best væri að hafa hann heldur sléttari en hringinn við Nauthól. Þetta er svo einfalt, bara ein drykkjarstöð þar sem allt er til staðar.

Hitti Jóa í Fossvoginum í morgun. Fórum hefðbundna leið út á Eiðistorg og síðan til baka gegnum Laugar. 20 km. Mættum Jörundi á Ægissíðunni og hann sneri við til að halda okkur selskap. Jörundur var nýbúinn að klára London maraþon í miklum hita. Hann sagðist hafa skokkað alla leið fram að 35 km. Þá hætti hann að komast áfram fyrir gangandi fólki. Tókum uppbyggjandi umræðu í Lækjargötunni um brunarústirnar og hvernig hús ætti að byggja á lóðinni. Vorum ekki sammála.

Ég sat eitt ár í stjórn SÍNE með tveimur öðrum. Á þessum árum voru nokkur átök milli námsmanna í USA og námsmanna á Norðurlöndum. Ég og formaður SÍNE þetta tímabil vorum Norðurlandanámsmenn en sá þriðji var USA námsmaður. Einhverra hluta vegna æxluðust mál þannig að það byggðist upp stigvaxandi óvinátta milli formannsins og þriðja stjórnarmannsins sem endaði í mikilli heift af hálfu USA fulltrúans út í formanninn. Lauk svo að sá fór með kæru til ríkislögreglustjóra og kærði formanninn fyrir óvandaða meðferð fjármuna. Í sömu ferð fór viðkomandi á allar fréttastofur fjölmiðla með fréttatilkynningu um að formaður SÍNE hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Afdrif kærunnar urðu þau að henni var vísað frá sem ómálaefnalegri og órökstuddri og afdrif fréttatilkynninganna voru þau að þær enduðu allar í ruslafötum viðkomandi fréttastofa. Markmiðið með kærunni var ekki að fá formanninn sakfelldan fyrir fjárdrátt heldur að rýja hann ærunni með fréttaflutningi um að hann hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Let the bastard deny it. Fjölmiðlum þess tíma til mikils hróss sáu þeir í gegnum svo svivirðilega fyrirætlan og bitu ekki á agnið.

Mér datt þessi gamla minning í hug þegar ég horfði á kastljósið frá því í gærkvöldi þar sem Helgi Seljan ætlaði að þjarma að Jónínu Bjartmars fyrir meinta misbeitingu á aðstöðu sinni en varð sér heldur betur til skammar, sjálfur stjörnufréttamaðurinn svokallaði. Hann hafði ekkert til að þjarma að Jónínu með, komst ekkert áleiðis gegn málefnalegum svörum hennar en reyndi á mjög átakanlegan hátt að ná undirtökunum með ruddalegu frammígjammi en án árangurs. Þegar ég horfði á þáttinn á netinu í morgun var hann þar í heilu lagi en mér var sagt í dag að fyrst þegar hann var settur á netið var síðasti hlutinn ekki með eða sá þar sem getuleysi Helga í þættinum opinberaðist hvað best. Jónína átti ekkert erindi í svona þátt. Ef einhver átti að vera þar var það formaður allsherjarnefndar Alþingis. Hann er ábyrgur fyrir störfum nefndarinnar. Það eina sem hann hafði á Jónínu var að hún hefði bent stúlkunni á þennan möguleika. Hver hefði ekki gert það í sömu sporum?

Ég var á fundi í dag þar sem mjög flokkspólitískt fólk var saman komið. Þar var fólk úr öllum flokkum. Þegar þetta mál barst í tal sat ég lengst af og hlustaði. Það voru allir sammála um að Helgi hefði orðið sér til skammar í þessum þætti. Það er síðan svolítið einkennilegt að hann sjálfur "stjörnufréttamaðurinn" skuli ekki hafa áttað sig á því að það er ekki sérstaklega heppilegt að hann vinni svona fréttir sem fyrrverandi kosningastjóri stjórnmálaflokks þar sem reynt er að taka ráðherra úr öðrum flokki pólitískt af lífi. Það eykur ekki trúverðugleika umfjöllunarinnar. RÚV var mikið niðri fyrir í þessu máli, líklega jafn mikið og þegar fréttastjóri á Stöð 2 stóð fyrir utan stjórnarráðið, veifandi dókumentum og sakaði forsætisráðherra um lygar. Fréttamaðurinn hafði hins vegar klikkað á því að muna eftir tímamismun milli USA og Íslands. RÚV hefur þegar fellt dóm í málinu því undir Kastljósi á fimmtudaginn stendur "Óeðlilega veittur ríkisborgararéttur" Dómur hefur verið felldur af hálfu RÚV.

Litlir dansarar Í Víkinni á sumardaginn fyrsta

föstudagur, apríl 27, 2007

Tók Yasso æfingu í gær og í dag. Náði í dag að fara undir 4 mín á 800 m. sprettum. Stillti hraðann á 15.1. Þetta er búið að vera markmið síðan í vetur er ég sá Ívar geysast áfram á þessum hraða. Ætla ekki að fara hraðar í bili heldur að ná að venja mig við þetta.

Heyrði í Eiði í kvöld. Hann fór til Amsterdam fyrir tveimur dögum en á morgun er stóri dagurinn. Tvennt angrar hann. Annars vegar er hann ekki alveg góður í hægra fætinum og á hinn kantinn er record hiti. Það spáir 27 stiga hita á morgun. God bevares. Það er um að gera að stressa sig ekki, fara rólega, drekka og borða vel og reglulega og haldasaltbalansinum í lagi. Slóðin á hlaupið er hér með.

http://www.srichinmoyraces.org/nl

Sendi bestu kveðjur til Eiðs og vona að hann taki þetta rólega og af skynsemi. Þá á reynslan að skila honum í mark.

Enn og aftur á maður ekki orð yfir þessu fjölmiðlaliði. Nú fær einhver svokallaður umhverfisverndarsinni að láta móðan mása í útvarpinu og rægir lögreluna alveg eins og hann langar til. Því er blákalt logið upp á lögregluna að hún hafi hótað því að koma eiturlyfjum fyrir í bíl mannsins svo hægt væri að fá ástæðu til að reka hann úr landi. Eru engin takmörk fyrir því hvað þessu liði leyfist? Þetta er ekki fréttamennska heldur ósvífin áróðursmaskína. Minna má á þegar þetta lið setti upp leiksýningu um svokallað harðræði lögreglunnar sl. sumar þegar einn bjálfinn hékk utan í lögreglumanni fyrir austan þangað til hann stjakaði fréttasnápnum frá sér svo hann steig aftur af gangstétt. Annar lá svo í leyni með myndavél til að mynda ósköpin og síðan var þetta þrautspilað í fréttum sem dæmi um harðræði lögreglunnar. Ég heyrði s.k. fréttamann taka viðtal við forsvarsmann hagsmunasamtaka fyrir skömmu. Hinum s.k. fréttamanni var orðið svo heitt í hamsi yfir óréttlæti yfirvalda og kerfisins að hann spurði: Er það ekki eitthvað sem við getum gert í þessu? Þetta er dæmi um óhlutdrægan og faglegan fréttamann.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Gutlar við stein í Kjaransvík

Hef verið heldur rólegur í vikunni, en ekki ætti veðrið að plaga mann. Fyrir svona fimmtán árum snjóaði oft mest á veturna upp úr miðjum apríl en það er orðið breytt eins og margt fleira. Spáin fyrr helgina er góð, vægast sagt. Það minnir mann á Þingvallavatnshlaupið. Það á samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma að vera nú á laugardaginn. Ég hef hlaupið þetta hlaup þrjú síðustu árin og alltaf haft gaman af því en nú hleyp ég ekki í ár. Það væri gaman að heyra hvort einhverjir ætli að láta slag standa, það væri slæmt ef þetta ágæta félagshlaup félli niður. Veðrið verður með eindæmum gott í ár eftir spánni að dæma. Í fyrra hlupum við í skjóli við bíl Eiðs Sigmars í ausandi roki og rigningu frá þjónustumiðstöðinni og langleiðina niður á Írafossstöð. Það verður ekkislæmt að fara út í stuttbuxum a helginni.
Nú stendur til hjá Eiði að fara í 100 km hlaup í Holllandi á helginni. Þarf að hringja í hann og heyra hvernig staðan er. Hann var svolítið stressaður yfir smá meiðslum fyrir hálfum mánuði síðan. Vonandi hefur það allt gengið vel upp.

Aðalfundur svanafélagsins

mánudagur, apríl 23, 2007

Tók góða æfingu með vinum Gullu á sunnudagsmorgun í fínu veðri. Tuttugu km komu í hús og allt eins og það á að vera. Ætla að fara frekar stuttar æfingar næstu tvær vikur til að vera ekki að byggja upp þreytu. Kláraði að ganga frá gistingu í dag á Borgundarhólmi.

Það er svolítið fróðlegt að fylgjast með umræðunni sem fer fram eftir að húskofinn brann í Austurstræti í síðustu viku. Sjálfskipaðir besservisserar um meint menningarverðmæti húsa hafa farið mikinn og rætt um nauðsyn þess að endurbyggja húsið í sinni upprunalegu mynd til að við halda götumyndinni. Maður veltir fyrir sér því Rimmugýgi Skarphéðins er ekki endursmíðuð ekki í leiðinni fyrst verið er að byggja upp brunarústir. Það er þó einn og einn maður sem vogar sér að vera á annarri skoðun og er það vel. Ég hef aldrei verið hrifinn af þessum húsakumböldum í Lækjargötunni og Austurstrætinu. Þetta fyrirkomulag að hafa þarna lágreista tréhúsabyggð leiðir af sér að þarna verður aldrei neitt af fólki að ráði. Starfsemin í þessu húsi sem brann var svo sem ekki heldur af bestu sortinni ef það er rétt sem maður heyrir. Það verður aldrei iðandi mannlíf við svona aðstæður eins og maður sér víða í miðbæjum erlendis. Í miðbæ þurfa að vera háreist hús þar sem mikið af fólki vinnur. Fyrirtæki og þjónustustofnanir eiga að vera staðsett í miðbænum. Það komast fleiri fyrirtæki fyrir í stórum húsum en litlum húsum. Það er einfalt mál. Ef menn vilja vernda þessi hús sem eru vafalaust mjög langt frá upprunalegri mynd eftir að það hefur veruð tjaslað við þau á margvíslegan hátt þá er hægt að flytja þau til og koma þeim fyrir á húsaeilliheimili. Tillaga Hrafns Gunnlaugssonar um að setja þessi hús niður í Hljómskálagarðinum er svo sem alveg ágæt. Þau eiga allavega að vera annarsstaðar en í hinum svokallaða miðbæ sem ekki er hægt að segja að standi undir nafni að neinu leyti. Maður á aldrei erindi þarna niður eftir. helst að það sé hlaupið í gegn á sunnudagsmorgnum.

Fréttaflutningurinn af brunanum var síðan dálítið sérstakur. "Gallinn þinn er bara sótugur" sagði einn fréttamaðurinn þegar hún var komin í algera spurningaþröng og tíminn ekki liðinn sem þurfti að fylla út. Það var ekki laust við að það örlaði fyrir smámonti. Miðbærinn brennur. Það er bara eins og í stóru löndunum.

Bæði í gær og í dag hef ég heyrt vísað í Maó formann þegar fólk er að hvetja til framþróunar og nýsköpunar. "Látum þúsund blóm spretta" er boðorð dagsins. Ætli sé verið að vísa í Stóra stökkið þegar allir áttu að fara að bræða járn í bakgarðinum? Maó var nú ekki betri ræktunarmaður en svo að tæplega 40 milljónir manns sultu í hel í Kína á árunum um og fyrir 1960. Heilu héruðunum var lokað með hervaldi til að fréttir af þessum ósköpum bærust ekki út og kusk félli á kommúnistaflipann. Fæðuskorti var ekki útrýmt úr Kína fyrr en markaðsvæðingin hélt innreið sína og slaknaði á alræði kommúnistanna. Blóm Maós voru nú ekki saðsamari en svo. Mér finnst alveg með ólíkindum að sæmilega skynsamt fólk skuli vitna í kenningar Maós án þess að blikna eftir að allir sem vilja vita eiga að vera upplýstir um þau voðalegheit sem áttu sér stað í Kína undir stjórn Maós. Ætli það hafi ekki verið um ein milljón manns sem voru drepin á tímum rauðu varðliðanna fyrir utan þá tugi eða hundruð milljóna sem lentu í ólýsanlegum hörmungum vegna ákvarðana Maós. Hvað ætli yrði sagt ef maður færi að vitna í Hitler á framboðsfundum alveg blákaldur og væri bara stoltur af því?

föstudagur, apríl 20, 2007

Tók 8 km Yasso æfingar í dag. Fín keyrsla, fór á 4.04/km tempói. Fann aðeins til í hægri fætinum þegar á leið en það var allt í þessu fína. Ég held að ég þurfi að fara að hlaupa meira af styttri keppnishlaupum til að byggja upp keppnisandann og hækka sársaukaþröskuldinn. Kemur í sumar.

Það var fín sumardagsinsfyrsta hátíð í Víkinni í gær. Fullt af fólki, gott veður og góð skemmtun. Í fyrra féll þessi samkoma niður en þá átti að stefna öllum í hverfinu niður í Laugardal. Það gekk náttúrulega ekki upp og sumardagurinn fyrsti var afar kollóttur það árið. Sem betur fer var til fólk sem gaf sér tíma til að vinna nauðsynlegan undirbúning og gekk í málið. Merkilegt sem ein konan sagði mér, því mest voru þetta konur sem gengu í málið. Hún sagðist hafa verið að hringja út og biðja foreldra þeirra barna sem æfa með Víking að baka köku og koma með í kaffið. Flestir tóku þessu vel en of margir voru með hundshaus og sögðust sko alls ekki ætla að baka ofan í eitthvað pakk úr öðrum hverfum sem væri að koma og éta og drekka fyrir ekki neitt. Í okkar ágæta hverfi sem er gegnumsneitt vel megandi er alltaf eitthvað af egóistum sem skilja ekki hvað svona félagsstarfsemi gengur út á. Einnig eru alltaf einhverjir sem reyna að smokra sér undan því að borga æfingagjöldin fyrir krakkana sína. Ég myndi leggja mikið undir að það er ekki fátækasta fólkið í hverfinu. Kannski það séu þeir sömu sem ekki nenna að baka köku fyrir sumardaginn fyrsta.

Ég kunni ekki við það að þegar leið á samkomuna birtust sendiboðar frá ákveðnum stjórnmálaflokki og fóru að dreifa áróðri. Sendiboðarnir voru á þeim aldri að maður gat ekki verið að amast við þeim persónulega en ég tel mig vita nokkuð upp á víst að það var ekki beðið um leyfi fyrir þessu. Mér er sama hvaða flokk er um að ræða en þetta er ágengni sem pirrar mig og eg hefði lagst gegn að leyfa þetta ef þetta hefði verið lagt fyrir stjórnina.

Það er ekki ósjaldan sem maður verður bit á þessu liði sem kallar sig fréttamenn og maður verður að borga laun hvort sem maður vill eða ekki. Í gærkvöldi var álnarlöng umfjöllun (það er ekki hægt að kalla þetta svo virðulegu nafni sem frétt) í kvöldfréttum og varðaði eitthvað erlent fólk sem hafði ekki fegnið kennitölu á börnin sín og kom þeim því ekki í leikskóla. Umfjöllunin gekk öll út á að fólkið hafði verið beitt rangindum óg starfsfólk Útlendingastofnunar væri af meinbægni eða fjandsemi við útlendinga að gera þeim erfitt fyrir. Langt viðtal var við pabbann um það ranglæti sem hann taldi sig vera beittann af hálfu kerfisins hér. Í dag kom náttúrulega í ljós að þetta fólk hafði ekki lagt fram umbeðnar upplýsingar og hafði þar af leiðandi ekki staðið sína plikt. Það er eins og menn haldi að það sé hægt að mæta hingað með allt óklárt og fara síðan bara í útvarpið ef allt gengur ekki eins og þeir vilja. Það er alveg hægt í þessu sambandi að rifja upp ruglið á Ísafirði sl. haust þegar bæjarstjórnin þar var gerð að blóraböggli fyrir að fólk fékk ekki afgreiðslu í kerfinu vegna þess að það lagði ekki fram umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir síendurtekin tilmæli þar um, meðal annars með hjálp túlka. Þar fóru þessir svokölluðu fréttamenn út um allar koppagrundir án þess að hafa hugmynd um hvað þeir voru að fjalla um. ef þa er eitthvað sem pirrar venjulegt fólk þá er það svona rugl sem er dælt yfir mann úr fjölmiðlum. Ég þekki alveg hvaða viðbrögð íslendingar fengju á hinum Norðurlandanna ef þeir vildu komast inn í kerfi þarlendra án þess að hafa tilskilin gögn. Þeim væri sagt að hypja sig heim hið snarasta ens og eðlilegt væri. Það væri sko ekki boðið upp á nein viðtöl í þarlendum útvarpsstöðvum.

Ég hlustaði á frambjóðendapistil á RÚV í dag á brettinu. Frambjóðandinn talaði mikið um traust, að segja satt og að það væri hægt að treysta mönnum. Hann sagðist vera traustsins verður. Síðan tiltók hann tvö dæmi um nauðsyn þess að standa við orð sín og gera sér grein fyrir staðreyndum. Hann vitnaði í fyrsta lagi í umfjöllun Fréttablaðsins þar sem blaðið gerði úttekt á svokölluðum kosningaloforðum flokkanna og endurtók umsögn blaðsins að stjórnarflokkarnir hefðu ekki staðið við loforð sín. Nú gerði Fréttablaðið þann regin fingurbrjót í þessari umfjöllun að það setti samasem merki á milli ályktana landsfunda flokkanna og stjórnarsáttmála. Samþykktir landsfunda eru stefnumörkun en ekki sáttmálí. Í stjórnarsamstarfi gera menn síðan samkomulag um það sem hægt er að ná saman um. Það er stjórnarsáttmáli og þar er hægt að leita að þvi sem staðið hefur verið við og því sem ekki hefur verið gert. Alþýðubandalagið sáluga, sem þessi frambjóðandi var eitt sinn meðlimur í, gerði t.d. úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins aldrei að úrslitaatriði í sjórnarsamningum enda þótt stefna þess efnis væri undirstrikuð á sérhverjum landsfundi flokksins. frambjóðandinn gerði heldur ekki greinarmun á stefnumótun landsfunda og stjórnarsáttmála en hefði þó átt að vita betur.
Í öðru lagi sagði hann nauðsynlegt að stjórnendur viðurkenndu stöðu mála hverju sinni en reyndu ekki að stinga höfðinu í sandinn varðandi staðreyndir og tiltók matinn í mötuneytinu sem dæmi. Þessi ágæti frambjóðandi hélt því fram statt og stöðugt á síðasta ári að allt væri í lagi í rekstri sem hann kom nálægt enda þótt tapið á rekstrinum væri slíkt að maður getur varla náð utan um fjárhæðirnar nema með því að umreikna þær í einbýlishús af dýrari taginu eða dýrustu Landcruser bíla. Segið svo að það sé ekki gagn að því að hlusta á útvarpið.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Eitthvað fyrir RM að læra af

Kominn í mark

Kvennaskólastelpurnar

Á leið að markinu

Ekki lengur til setunnar boðið

Það er enn beðið

Beðið í salnum

Á leið til hlaupsins

Það var ekki sérstaklega spennandi veður þegar við Sigurður komum úr lestinni á Park station í Boston um kl. 6.30 á mánudagsmorguninn. Hvasst og rigning. Það hafði verið ausandi rigning og rok alla nóttina. Paul, félagi Sigurðar sem keyrði okkur á lestarstöðina, sagðist hafa verið mest hræddur um að það hefðu fallið tré á veginn svo hann kæmist með okkur á áfangastað á réttum tíma. Við tókum rútuna uppeftir og alla leiðina hellirigndi og rigninguna skóf eftir veginum. Á leiðarenda komum við okkur inn í íþróttasal og biðum þar. Sem betur fer vorum við snemma í því þar sem salurinn fylltist skjótt og þá var hætt að hleypa inn. Við höfðum hitt tvo hlaupara í lestinni inn til Boston. Annar var frá Kaliforníu og var fölur af ótta við kuldann. Hinn var frá Kentucky og brá sér hvergi þar sem hann var vanur að æfa í -20 oC. Maður rétt náði að hlaupa út á klósett í rigningunni en annars átti maður ekkert erindi út. Ég trúi að ábyrgðaraðilum hlaupsins hafi ekki verið rótt yfir nóttina eins og veðrið var. Um kl. 9.30 fór hins vegar að skúra og stytti alveg upp á milli. Bestu konurnar voru ræstar kl. 9.45 og fyrri stóri hópurinn kl. 10.00. Þeir fengu á sig skúr í upphafi hlaupsins en síðan hékk hann þurr. Ég fór í seinni hópnum og þá var alveg hætt að rigna. Skilin gengu ótrúlega hratt yfir þannig að það var eins og hefði bara verið skrúfað fyrir rigninguna í þann mund sem hlaupið hófst. Það hafði hlýnað nokkuð svo hitinn hékk í 10 oC þannig að það var allt í lagi. Maður týndi af sér fötin eftir því sem nær dró startinu og endaði bara með réttan klæðnað, síðar buxur og léttan vindjakka. Vindurinn var ekki til trafala enda þótt töluverðar vindstrokur kæmu af og til. Ég hafði ekki lagt upp með að vinna nein afrek heldur vildi halda mig í námunda við + 3.30. Ég hitti Kötu þegar hlaupið var nýlega hafið og síðar fór Dagur fram úr mér léttur á fæti. Aðra landsmenn sé ég ekki enda ekki að furða því flestir voru mjög hraðir á minn mælikvarða. Brautin var erfiðari en ég hafði búist við. Hún er óslétt og mikið að brekkum á henni bæði upp og niður. Það kom mér á óvart að eini staðurinn sem ég fann fyrir hlaupinu í fótunum var framan á lærunum eða þar sem haldið er við niður í móti. Maður hefði greinilega þurft að fara nokkrar Esjuæfingar til að standa klár á þessu. Vanalega er mikill fjöldi fólks að horfa á hlaupið eða allt að 500 þúsund manns. Nú var miklu færra meðfram brautinni og spilaði veðrið eðlilega stórt hlutverk í því.
Hlaupið leið áfram eins og gengur. Ég var yst fata í bol sem var merktur með íslenska fánanum og ICELAND. Það kallaði víða fram góð viðbrögð því þeir áhorfendur sem voru meðfram brautinni voru mjög líflegir. Svona einum kílómeter áður en komið var að kvennaskólanum sem er á miðri brautinni heyrði maður skrækina í stelpunum. Þær standa þarna æpandi eins og þær geta best gert og taka þannig virkan þátt í hlaupinu. Að sögn hafa þær vaktaskipti með reglulegu millibili því ella væru þær orðnar ansi hásar þegar á líður. Ópin í þeim eru fyrir löngu orðin partur af hefð Boston maraþons. Það er gaman að svona hefðum. Ég hljóp með röðinni og gaf eins mörgum five og hægt var. Það er ekki á hverjum degi sem maður kemst í slíka stöðu. Ég kunni vel við mig í brekkunum upp og þá skreið maður fram úr mörgum. Þð ganga sögur af Heartbreake Hill á mílu 21 en ég var mest hissa þegar hún var búin; Var þetta ekki meira? Það var í þessu þoni eins og í öðrum, það er ósköp gott þegar hlaupið fer að styttast. Það var gaman að beygja inn á breiðstrætið og sjá markið fram undan. Tíminn var eins og ætlað var, hvorki betri eða verri.
Fram að þessu hafði allt verið eins og átti að vera. Eftir að í markið kom fékk maður nóg að drekka og borða, flagan var tekin af manni og peningur kom um hálsinn. Þá fór maður að huga að fötunum. Þau voru geymd í gulu skólarútunum og voru sætin númeruð með pokahaug í. Nú fóru hlutirnir hins vegar að versna. Það hafði kólnað þegar nær dró bænum og orðið allhvasst í markinu. Maður vildi því flýta sér í þurr för. Svo var einnig um alla aðra. Því var stór hópur blautra og þreyttra hlaupara sem beið fyrir utan hvern vagn eftir fötunum sínum. Ég hugsa að ég hafi beðið í um 20 mín þar til minn poki kom loks. Þá var mér orðið mjög kalt og farinn að skjálfa eins og hundur þannig að ég skipti um föt á miðri götunni og hugsaði um það eitt að komast í þurrt hvað og gekk eftir. Ég fór síðan að staðnum þar sem við ætluðum að hittast og hitti Úlfar skömmu eftir að hann kom í mark. Við skelltum í okkur koníaki enda ekki vanþörf á að fá blóðið til að renna. Við fórum síðan upp á hótel þar sem hópur hinna hraðskreiðu sat. Margir höfðu skilað skínandi tímum. Bæði bætingum og eins mjög góðum tíma miðað við erfiða braut og þungar aðstæður. Valur fór á 2.49 og Gauti á 2.53. Glæsilegastur var hins vegar árangurinn hjá Sibbu og Huld sem bættu sig báðar og eru komnar í hóp bestu maraþonkvenna landsins. Þær eiga ófáar mínútur inni á hraðri braut við góðar aðstæður miðað við ann tíma sem þær náðu í Boston.
Eftir að hafa skellt í mig bjórglasi fór ég að hitta Sigurð. Hann var nýkominn í mark og var ekki nógu sáttur við daginn. Hann hafði kvefast illa strax eftir að við komum út og það tók helsta neistann úr honum. Það er nægt verkefni að hlaupa maraþon frískur þannig að slappleikinn tekur í á langri leið.
Við drifum okkur svo heim með félögum okkar, ánægðir með daginn.

Það tóku nær 30 íslendingar þátt í Boston maraþoni. Árangur þeirra var góður og sumra mjög góður. Nokkrir bættu sig sem er mjög gott á svona erfiðri braut. Allnokkrir hlupu undir 3 tímum. Ég fór á vef hlaupsins og gáði að öðrum norðurlandabúum. Tíu danir tóku þátt í hlaupinu, enginn norðmaður, tveir finnar og fjórir svíar. Enginn þeirra náði að hlaupa undir þremur tímum. Við vorum því með mjög harðsnúna sveit þarna miðað við nágranna okkar.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Madur er eins og blom i eggi her uti i Boston. Eg by by uti i Duxbury med Sigurdi Gudmunds og Steinu konu hans. Vid erum i husi semn vinafolk teirra a en notar ekki. Tau eru buin ad lodsa okkur um svaedid i kring, inn i Boston og i Mollin. Vid forum i gaer a Expoid ad sakja gogn og kaupa inn. Madur faer rum tvo por af skom fyrir sama verd og eitt heima!!!

Vedurspain hefur verid slaem. I dag er dalitil rigning og likur fyrir einhverja urkomu a morgun en spurning hve mikill vindurinn verdur. Vedrid i dag var svipad og i Tingvallavatnshlaupinu i fyrra. Menn eru ad gera rad fyrir ad tad verdi kannski versta vedur ever i Boston marathon a meorgun. Madur verdur ta liklega talinn hetja ef manni tekst ad klara hlaupid. Tad er synd tvi tetta er virkilega stor atburdur her. Um half milljon manna er vanalega ad fylgjast med og tad er ekkert synt annad a lokal sjonvarpsstodvum a morgun en fra hlaupinu. Eitthvad sem RUV maetti skoda!! Tetta verdur hins vedar orugglega gaman. Forum af stad um kl. 5.00 i fyrramalid, tokum rutu nidur i Boston kl. 7.00 og hlaupid byrjar (okkar section) kl. 10.30. Tad er fjogurra tima munur. Madur kemur i mark svona eftir 3.30 - 4.00 klst. Fer eftir vedri.

Flyg svo heim a tridjudagskvold.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Hvíld í gær og dag. Hleyp kannski eitthvað í fyrramálið. Nú verður flogið til Boston síðdegis á morgun. Spáin á mánudag hljóðar upp á heawy rain, wind and 8oC. Ekki besta maraþonveður sem hægt er að fá en svona er þetta bara. Það verða þá bara dregnar upp síðbuxur og langermaskyrta ásamt vaselínbauknum.
Ég veit ekki annað en að allt sé í fínu lagi (7 - 9 - 13) þannig að þetta á bara að vera gaman. Það verða engin hraðamet slegin af mér þetta árið heldur er þetta liður í lengra plani fyrir utan upplifunina.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Það í snjóaði í marsmaraþoninu

Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Vel mætt og vel setið. Það er ekki á hverjum degi sem tveir Ironman eru á sama fundinum. Þeim mun fara fjölgandi. Rætt var um viðburði fyrra árs og sérstaklega sex tíma hlaupið. Ákveðið er að hafa það árlegan viðburð og velt vöngum yfir hvernig megi bjóða upp á fleiri tegundir hlaupa til að fá sem flesta til leiks. Hægt er að bjóða uppá 3ja tíma hlaup, maraþon og sextímahlaup, allt í sama pakkanum. Verður útfært nánar þegar nær líður.
Fyrir fundinn var lögð og samþykkt stofnskrá fyrir farandbikar sem veittur verður hlaupara ársins innan UMFR36. Félagsmenn munu kjósa hlaupara ársins í framtíðinni úr hópi þeirra félagsmanna sem hafa hlaupið heilt maraþon eða lengra hlaup. Til að þurfa ekki að bíða í heilt ár eftir tilnefningu var ákveðið að hafa skemmri skírn á því þetta árið og var Elín Reed valin hlaupari ársins 2006 hjá UMFR36. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að hlaupa 100 km hlaup og lauk einnig góðri vegalengd í sex tíma hlaupinu í september. Einnig var hún fyrst íslenskra kvenna til að ljúka Þingvallavatnshlaupinu í fyrra.
Ásgeir Jónsson fjallgöngukappi og Ironman hélt síðan gott erindi um mataræði og fleira sem viðkemur því sem þeir sem leggja á sig miklar æfingar þurfa að hafa í huga. Spunnust fjörugar umræður um það mál út í frá reynslu viðstaddra. Það er stórt mál að hafa mataræðið í lagi þegar álag á sál og líkama er mikið og langvarandi.
Að lokum var farið yfir hvar er framundan hjá félagsmönnum í hinum lengri hlaupum. Eiður ætlar í 100 km í Hollandi í lok apríl, undirritaður ætlar í 24 tíma hlaup í Danmörku í byrjun maí, Höskuldur og Börkur ætla í Mt Blanc 163 km fjallahlaup í ágúst, Ásgeir og Bryndís B. ætla í Ironman í júní og Stefán Örn ætlar aftur í fjallaþolraunina á rænlandi í júlí. Mörg og spennandi maraþonhlaup eru einnig á döfinni. Einnig var mikið rætt um aðrar áskoranir sem eru farnar að freista s.s. Badwater í Dauðadalnum (231 km) , Spartathlon í Grikklandi (240 km) og Maraþon de Sables, eyðimerkurhlaupið í Marokkó. Það er 243 km langt og tekur 6 daga. Það er sem sagt ekkert verið að horfa niður á tærnar á sér.
Góðum fundi lauk á ellefta tímanum.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Ekkert hlaupið á páskadag. Taldi réttara að hvíla eftir laugardagshlaupið. Fór út í dag í hálfgerðum slydduéljum og tók hefðbundinn 16 km hring. Fínt. Það lítur út fyrir að æfingar í svona veðri muni skila sér fyrir Boston því samkvæmt veðurspánni verður 9 stiga hiti og væta þar á mánudaginn 16. apríl. Það er kannski ekkert lakara en að hafa yfir 20 stiga hita eins og getur verið á þarnam á þessum árstíma. Það er bara að taka síðbuxur og stakk með.

Horfði á þrjár fínar myndir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Það er kosturinn við svona frí að það eru bæði oft góðar myndir á dagskránni og síðan gefur maður sér tíma til að stija aðeins uppi frameftir. Ég hafði séð tvær áður en það er altaf gaman að horfa á góðar myndir. "I walk the line" stendur alltaf fyrir sínu. Eftirminnilegasta senan finnst mér vera frá konssertinum í Folsom Prison þegar dynurinn í stappinu og klappinu heyrist langar leiðir og vörðurinn biður Cash um að spila sálma eða eitthvað sem rói þá niður. Cash slær hins vegar strax í Cocane blus og stemmingin er gríðarleg.
Síðan var mynd um Gasoline, þá gömlu dönsku hljómsveit. Gaman að sjá að Kim Larsen var álitinn hálfgreður trúður sem vildi bara spila rútubílasöngva eftir því sem hinum í bandinu fannst sem vildu taka 10 mínútna löng sólo í það minnsta. Kim stendur síðan uppi sem grand old man danskrar tónlistar á meðan sólókallarnir eru týndir og tröllum gefnir. Kim hefur aldrei flutt úr blokkinni og heldur kontakt við gömlu ræturnar. Honum fannst hann hafa glatað jarðsambandinu þegar ekki var lengur talið við hæfi að hann klæddi sig upp á einhverjum flóamarkaði eins og hann hafði alltaf gert. Eftirminnileg var frásögnin af USA túrnum þegar þeir ætluðu að sigra heiminn eftir að hafa lagt Danmörku að fótum sér. Á koncertinn í San Francisko komu einungis sex danskir sjóarar af fraktara. Þeir æptu "Sung for helvede noget pa dansk" þegar Gasolin söng enska teksta við lögin sem höfðu hljómað vel á dönsku heima. Stundum er betra að vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn.
Síðast voru Hliðargötur (Sideways) sem gerist í Kaliforníu. Skemmtileg mynd. Hún vakti upp góðar minningar frá því í hitteðfyrra þegar við Ágúst keyrðum eftir Kaliforníudalnum upp til Squaw Valley til móts við WSER. Ég var heldur þreyttari á leiðinni til baka frá Auburn með Kristni og athyglin ekki eins uppnumin af umhverfinu.
Páskarnir eru ágætis frí. Ég hef hins vegar ekki orðið mikið var við andlegheit eða kristilega iðkan. Það truflar mig lítið.

laugardagur, apríl 07, 2007

Fór út kl. 7.00 í morgun og tók tvo hringi, annan vestur á Eiðistorg en hinn vestur á gamlársbeygjuna. Náði rúmum 42 km í hús á um 4 og hálfum tíma með öllum stoppum. Svanur varð mér samsíða seinni hlutann. Hann er á góðu skriði og búinn að ná sér að mestu eftir liðþófaaðgerðina í fyrra.

Spenna í enska boltanum í dag. Fyrst vall Chelsea Tottana 1 - 0 eins og flestir leikir fara hjá þeim. Síðan vann West Ham Arsenal 0 -1 á útivelli og eygja þeir von um að hanga uppi eftir þrjá sigurleiki í röð. Að lokum tapaði Man. Utd. fyrir Portsmouth 2 - 1 eftir að hafa skorað sjálfmark og fengið löglegt mark dæmt af. Svona er þetta.

Ég skil ekki alveg pointið í að vera að sýna beint frá einhverju æfingamóti í handbolta hjá landsliðinu. Það er er ekki nema von að sé halli á RÚV ef að þetta er talið eðlilegt og sjálfsagt. Kannski þetta sé ódýrara en bíómyndirnar.

Ég hélt að það væri skráð eða óskráð regla hjá RÚV að starfsmenn stofnunarinnar hættu störfum þegar þeir yrðu virkir í stjórnmálum. Það er kannski að breytast. Hvar ætli mörkin liggi?

föstudagur, apríl 06, 2007

Tók 10 m Yasso æfingu í Laugum í gær. Planið heldur enn, + 0,2 í viðbót á hverri æfingu. Það er samt töluvert í að ég nái Ívari enn en það kemur. Þá fer ég að róa mig aðeins niður og minnka hröðunina á æfingum.

Stundum er maður dálítið hissa á því sem maður heyrir. Nú ætlar ríkið að setja 160 milljónir í að útrýma mink á Eyjafjarðarsvæðinu og Snæfellsnesi. Þetta finnst mér skrítin pólitík. Sveitarfélögin ráðstafa nú um 100 millj. króna að halda refa- og minkastofninum í skefjum. Af því mun ríkið endurgreiða um 35 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007. Því eru 160 milljónir miklir peningar í þessu samhengi, í verkefni sem virðist vera gagnrýnivert á margan hátt. Í fyrsta lagi skil ég ekki hvernig er hægt að eyða mink af ákveðnum svæðum því minkurinn er með fjóra fætur. Hann kom á Rauðasandinn árið 1963, gangandi og syndandi. Þannig mun minkurinn leita á ný inn á þau svæði þar sem lögð er mikil áhersla á að fækka honum. Ég hef ekki trú á að það sé hægt að útrýma honum nema með gríðarlegum kostnaði. Annað mál er að halda stofninum í skefjum eins og fært er. Mikilvægt í því sambandi er að fjölda sjálfveiðandi gildrum sem ætti að leggja sem víðast í læki og ár. Ég heyrði einhverja bull umræðu um daginn að minkurinn ætti sama rétt og aðrir á að vera drepinn með mjög snyrtilegum hætti. Hvað er verið að tala um? Skjóta hann í skotklefa í sláturhúsi eins og kýr eða kindur? Ætli hann verði ekki drepinn hér eftir eins og hingað til með byssum, hundum, í gildrum og með skóflum. Það er einnig mjög andhælislegt að kostnaðurinn við að vernda fuglalífið fyrir tófu og mink skuli að mestu æelyti vera lagður á herðar þess fólks sem býr í fámennum sveitarfélgögum út um dreifðar byggðir landsins. Hvaða réttlæti er í því að 410 íbúar Skútustaðahrepps skuli einir bera kostnaðinn að mestu leyti af því að vernda fuglalíf Mývatnssvæðisns sem er þekkt víða um heim fyrir fjölbreytni en íbúar höfuðborgarsvæðisins sleppa því sem næst alveg?

Sjálfskipaðir umhverfisverndarforystumenn minnast aldrei einu orði á eitt stærsta umhverfisslys af manna völdum sem fyrirfinnst hérlendis en rétt er að minnast á í þessu sambandi. Það gerðist eftir að refurinn var friðaður á Hornströndum. Hann hefur algerlega útrýmt mófugli þar í friðlandinu og eins bjargfugli af stórum svæðum í fuglabjörgunum. Ég þekki þetta af eigin raun. Ég fór fyrst um Hornstrandir árið 1976 og þá vall spóinn þar á hverri þúfu en tófan sást ekki frekar en annarsstaðar þar sem veiðum var sinnt. Ég fór síðan um strandirnar á hverju sumri á árunum 1994 - 1999. Þá hafði skipt um. Það sást ekki mófugl en hvein í tófunni um allt. Hún dreifir sér síðan út um alla Vestfirði og er langt komin með að útrýma rjúpunni í fjórðungnum. Ragnar í Reykjafirði sagði mér eitt sinn að þá um vorið hefði hann verið slæmur í fæti og lítið komist en skaut um 30 tófur af tröppunum hjá sér. lengi deildu vísindamenn og bændur um hvort tófan færi út um allt af Hornströndum. Þeir fullyrtu að tófan væri staðbundin og færi lítið um en bændur fullyrtu hið gagnstæða. Loks fékkst það í gegn að sendar voru settir á tófur og þá kom vitaskuld hið rétta í ljós, tófan flækist um gríðarlega stór svæði. Tófu og mink verður aldrei útrýmt og það hefur heldur aldrei verið stefnan. Á hinn bóginn hefur markmið með veiðum verið að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Nú eru einhverjir spekingar farnir að halda því fram að það eigi að láta náttúruna þróast óhindrað og það leiti allt jafnvægis um síðir. Já takk sama og þegið.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Það er mikið rætt um íbúalýðræði þessa dagana. Mörgum finnst þær vera stórkostleg framför í lýðræðisþróuninni. Rakst á bloggsiðu eins frambjóðenda fyrir komandi þingkosningar fyrir skömmu. Hann ætlar að ganga um svæðið við Langasjó í sumar. Síðursu forvöð að gera þetta segir frambjóðandinn því fólkið í Sjálfstæðiflokknum og fólkið í Framsóknarflokknum ætlar að veita Skaftá í Langasjó og eyðileggja hann. Líklega prívat og persónulega með skóflum og haka en látum svo vera. En er málið svona einfalt. Maður uppalinn í Skaftárhrepp sem ég virði mikils segir að hann vildi af tvennu illu frekar veita Skaftá í Langasjó heldur en að láta hana renna áfram um aldur og ævi í núverandi farveg. Vegna hvers? Jú, Skaftá ber með sér gríðarlegan framburð og þegar hún flæmist yfir lönd neðar í sveitinni þá fyllir hún allt af sandi og leir þannig að uppblásturssvæði eru að stækka gríðarlega og eru orðin til mikilla vandræða. Áin er að fylla hraunið smátt og smátt þannig að t.d. Grenlækur, mikil veiðiá, er að eyðileggjast. Hvað á að gera? Væri ekki rétt að láta íbúa í Skaftárhrepp kjósa um málið? Á að veita Skaftá í Langasjó eða ekki? Eins og Hafnfirðingar kusu einir um álverið en t.d. Garðbæingar sátu hjá garði hlýtur það sama að gilda í þessum málum. Þannig hljóta íbúar í Ásahreppi, Flóahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi einir að kjósa um framtíð svæðisins við neðri Þjórsá eða hvað?

Fór út í góða veðrinu í gærkvöldi og náði 21 km í hús. Aðeins kalt en þá er þetta bara spurning um föt. Horfði svo á Rigningarmanninn (Rain Man)áður en ég fór að sofa. Góð mynd sem ég hafði ekki séð áður.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Fór ekkert út að hlaupa á sunnudaginn. Það var fermingarveisla á dagskránni, leikur í Egilshöll og fleira sem tók tímann. Fór hins vegar í góða Yasso æfingu í Laugum í gær og í dag var fyrsta hádegishlaupið á stuttbuxum á árinu.

Mikið hefur verið rætt um kosningarnar í Hafnarfirði á laugardaginn. Manni sýnist niðurstaðan helst vera sú, fyrir utan að rúmlega 50% Hafnfirðinga vildu ekki að álverið stækkaði og færðist nær íbúabyggðinni en rétt tæp 50% kjósenda vildu að það gerðist, að það þarf að setja skýrar reglur um íbúakosningar svo þær fari ekki út í tóma vitleysu. Sjálfskipaðir vörslumenn umhverfisins hafa ákveðið að túlka niðurstöðurnar á þann veg að þarna hafi orðið tímamót í umhverfisverndarumræðu á landinu. Ég sé ekki hvernig hægt er að lsa það út úr niðurstöðunni. Hvað ef 45 Hafnfirðingar hefðu greitt atkvæði á annan hátt en þeir gerðu? Hefði þá verið gefið óheft veiðileyfi á umhverfið? Ég held ekki. Íbúar í einu sveitarfélagi geta ekki með svona atkvæðagreiðslu tekið afgerandi ákvarðanir sem varað þjóðarhag. Hefðu íbúar Fjótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps einir átt að kjósa um Kárahnjúkavikjun ef sú framkvæmd hefði verið borin undir atkvæði. Ég held ekki.

Ég ber mikla virðingu fyrir Margréti Pálu leikskólastjóra. Ég var hins vegar ekki sammála málflutningi hennar í Silfri Egils á sunnudaginn. Hún hélt því fram að þær konur sem ynnu í leikskólum, grunnskólum, við ummönnun og í heilsugæslunni væru vinnukonur kerfisins. Hvaða alhæfingar og fullyrðingar eru þetta? Vinnukonur voru hér áður réttindalitlar konur sem réðu sig í vinnu vegna þess að þær áttu ekki annan kost. Þær áttu ekkert val. Nú hefur hver og einn val um hvað hann gerir. Einstaklingar taka meðvitaða ákvörðun um starfsval. Það þvingar enginn konur til að vinna við umönnun, fræðslumál eða í heilbrigðisþjónustu. Þær geta eins farið í iðnskóla og lært að vera vélvirki, trésmiður, rafvirki eða hvað veit ég ef markmiðið er að starfa sjálfstætt. Er ekki Rannveig Rist vélvirki og vélstjóri að grunnmenntun? Það er eins og mig minni það. Margrét Pála hélt því fram að karlar sem rækju eigin fyrirtæki hefðu svo sveigjanlegan vinnutíma og réðu launum sínum sjálfir. Ég veit ekki annað en gröfukarlinn verði að mæta þegar verktakinn kallar. ef hann gerir það ekki þá er bara hringt í annan. Ég hef ekki séð annað en að sjálfstæðir atvinnurekendur þurfi að vinna á við hvern annan og oft meira til að láta hlutina ganga upp og launin koma oft eftir dúk og disk. Margir velja hins vegar starf þar sem vinnutími er fyrirséður, laun þekkt og launagreiðslur öruggar. Þetta er allt til staðar hjá opinbera geiranum. Konur eru í eðli sínu varfærnari en karlar. Þeir eru áhættusæknari. Því velja konur sér frekar störf þar sem allt er á hreinu fyrir utan annað sem ég ætla ekki að telja upp. Vil þó benda á að iðnaðarmannastörf og vélamannastörf henta ekki öllum vegna þess að þau eru oft erfið, skítsæl og þar þarf að vinna utanhúss í öllum veðrum eða við alla vega aðstæður. Þannig er það nú bara. Minnist á þetta vegna þess að það var sérstaklega minnst á gröfurnar í Silfrinu.
Ég hef á tilfinningunni að Margrét hafi notað þetta orðafar til þess að fjölmiðlamenn hlustuðu á það sem hún var að segja því menn þurfa yfirleitt að tala með upphrópunum eða í ófyrirleitnum hástafafyrirsögnum til að vekja athygli eins og dæmin sanna frá Alþingi. Vil þó ítreka að það er beil´linis rangt að halda því fram að fólk hafi ekki val um starfsvettvang hérlendis. Það er á hinn bóginn mismikil samkeppni í hinum ólíku starfsgreinum.

sunnudagur, apríl 01, 2007

Það sér á að það er komið vorveður. Maður sér á bloggsíðum hlaupara að þeir eru eins og kálfar út um allar koppagrundir, kátir yfir að vera sloppnir undan vetrinum (í bili að minnsta kosti). Fór Poweratehring með Grensássslaufu á föstudagskvöldið í frábæru veðri. Í gærvar fyrirhuguð 8 brekku æfing (reyndar eru þetta 9 brekkur þegar betur er að gáð). Ásgeir og félagi hans Jósep komu með okkur Jóa en Halldór lá veikur heima. Við lögðum upp frá Fossvogsbotninum upp úr kl. 8.00, fórum síðan sem leið lá yfir Kópavogshálsinn, upp brekkuna við Fífuna, síðan aftur til baka yfir Kópavoginn og upp tröppurnar, niður þær og upp HK brekkuna. Síðan lá leiðin yfir Fossvoginn og upp að Réttarholtsskóla. Þaðan niður í Elliðaárdalinn og upp að sunnanverðu og brekkan tekin sem liggur ská upp undir Breiðholtið. þaðan fórum við stíginn neðan undir Breiðholtinu yfir á göngustíginn fyrir neðan kirkjuna og inn að brúnni. Á leiðinni með Fáksvellinum dró Steinar okkur uppi og spjallaði um stund en síðan sagði hann hæversklega að hann þyrfti að halda æfingunni áfram og hvarf eins og fugl flygi. Víð fórum nokkrun númerum of hægt fyrir hann. Á leiðinni niður í Elliðaárdalinn ittum við Pétur Reimarsson sem sagði sínar farir ekki sléttar með slitinn vöðvaþráð í kálfa. Félagi Jói var með síma svo Pétur gat hringt eftir aðstoð. Við maraþon upphafið skildu leiðir, Ásgeir og Jósep héldu heim á leið en við Jói tókum stokkinn upp að mjólkursttöð. Þar sneri Jói við en ég pjakkaði áfram niður í Grafarvog, inn í botn hans og þaðan upp í "Jökulheima" og þaðan svo upp og inn að vatnstönkunum. Síðan hélt ég til baka gegnum Bryggjuhverfið og kom heim 42 km ríkari eftir rúmar fjóra og hálfan tíma. Fínn dagur.

Úrslit Múzíktilrauna voru í gærkvöldi. Öll hersingin fór niður í Listasafn þar sem keppnin fór fram. Það var fullt hús og mikil stemming. Það var svolítið gaman að því að þarna vorum við þrír rauðsendingar sem ttum stráka í hljómsveitum á sviðinu. Við Haukur bróðir vorum með hvorn sinn trommuslagarann og síðan hittum við Alla sem bjó í Saurbæ en sonur hans Ólafur Gísli spilaði á gítar í einni sveitinni. Þau fluttu suður árið 1995 og þá var strákurinn 7 eða 8 ára tappi. Það var gaman að sjá hve margir foreldrar og aðstendendur voru þarna til að horfa á krakkana sína auk fjólmargra unglinga. Jói og félagar í gleðisveitinni <3 Svanhvít urðu í öðru sæti og voru kátir með sinn hlut, stúdíótíma og ýma aðra sæmd. Þeir áttu greinilega slagara kvöldsins og er Óli Palli útvarpsmaður búinn að biðja um að hann verði settur á þrykk sem snarast svo hann geti farið að spila hann.
Ég var búinn að heyra að það voru ýmsir að vona að það yrði ekki harðkjarnahljómsveit sem myndi vinna þetta árið því vonast var eftir einhverri fjölbreytni í sigursveitirnar. Svo fór þó að það var sveitin sem öskraði hæst og óskiljanlegast sem vann. Ég er kannski orðinn og gamall til að hafa gaman af svona löguðu en mér finnst að músík eigi að skemmta og draga að en ekki fæla frá. Salurinn tæmdist að mestu leyti strax þegar ljóst var hverjmir unnu því fólki leist greinilega ekki á að hlusta á ósköpin aftur í aukalaginu. Það voru margar fínar sveitir þarna sem ég fannst að hefðu frekar átt að vinna, t.d. strákar úr Keflavík sem spiluðu þétt og skemmtilegt melódóskt pönkrokk og síðan gleðisveitin <3 Svanhvít sem átti greinilega salinn og slagara kvöldsins. Skemmtilegt kvöld.

Suma einstaklinga á að umgangast af virðingu. Einn þeirra er Cliff Richard. Hann er einn þeirra sem skrifuðu sögu rokksins sem breytti heiminum á sínum tíma. Ungmenni dagsins njóta ávaxtanna af þeirri byltingu. Síðan er kallinn náttúrulega ótrúlegur í útliti að verða sjötugur. Mér fannst stelpan sem talaði við Cliff Richard í Kastljósinu um kvöldið eiga ýmislegt lært í mannasiðum. Hún spurið Cliff með fyrirlitningarsvip hvort þetta væru ekki mest "elderly women" sem kæmu á tónleikana hjá honum. Cliff svaraði því að ljúfmennsku og fagmennsku eins og hans er von og vísa. En þó að svo væri. Hvað hefur einhver stelputrunta efni á að setja upp fýlu- og merkilegheitasvip yfir því þótt fullorðið fólk fari á tónleika? Ég veit ekki betur en "elderly women" hafi sama rétt á að skemmta sér og hún og henni kemur nákvæmlega ekkert við hvernig þær gera það. Varla eru þær að skipta sér af henni og hennar skemmtanalöngun. Ef eldri konur flykkjast á tónleika með Cliff Richard þá er það bara fínt.