miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Nú er kallaráðstefna á morgun. Ég verð nú að segja að uppleggið finnst mér vera ein mesta steypa sem ég hef séð í tenglsum við ráðstefnu sem gerir kröfur til að vera tekin alvarlega. Konum bannaður aðgangur. Hvaða rugl er þetta? Er það nú orðið The New Wave í jafnréttisbaráttunni að ræða hana fyrir luktum dyrum gagnvart hinu kyninu. Ég hélt að ef eitthverju er ábótavant í þessum málum þá sé leiðin til árangurs að fara yfir hlutina fyrir opnum tjöldum. Síðan er það dagskráin. Sex ræðumenn á 47 mínútum!! Hver skipuleggur þetta? Hverju ná menn fram með svona örerindum? Ég tel vissara að hafa fundarstjórann vel vopnaðan ef dagskráin á ekki að fara úr böndunum. Svo á Egill Helgason að stjórna tveimur pallborðsumræðúm á samtals 50 mínútum. Þetta er svona hraðsoðið shortcut en það er varla hægt að kalla þetta alvöru umræðu, hvað þá að ætlast til að hún skilji eitthvað eftir sig.

Góðar greinar í Mbl í morgun um málefni kynjanna. Bæði var þar fjallað um ofbeldi kvenna gagnvart körlum sem hefur verið algert tabú í umræðunni um kynbundið ofbeldi, heldur hefur hún einvörðungu beinst að því að kallar séu of oft eins og fjandinn sjálfur. Ég ætla ekki að gera lítið úr heimilisofbeldi þar sem karlar eru gerendur en umræðan er ekki heiðarleg nema sé fjallað um allar hliðar þess. Síðan var annar sem fjallaði um stöðu feðra eftir skilnað. Þeir eru of oft beittir miklum rangindum með takmörkunum á umgengnisrétti við börn sín. Einhliða öfgakennd umræða um karla hefur að líkindum veikt stöðu þeirra í þessum efnum. Ég þarf ekki að leita lengra en hver örlög frænda míns eins urðu þegar hann gat ekki lengur staðið undir því sem á hann var lagt eftir skilnað.

Í sjónvarpinu fyrir fáum dögum var fjallað um sýningu á málverkum eftir nokkrar konur sem stunduðu myndlist um og fyrir næstsíðustu aldamót. Einhver fréttamaður ræddi við rithöfund eða listfræðing sem hafði haft veg og vanda af því að draga verk þessara kvenna fram í dagljósið. Þetta eru konur sem ekki hafa farið hátt í listasögunni en saga þeirra hefur nú verið færð í letur það ég best man og síðan er haldin sýning með verkum þeirra. Þetta voru allt konur sem voru á sínum tíma komnar út af efnuðu fólki sem gerði þeim m.a. kleyft að fara erlendis til náms í myndlist. Síðan er farið yfir það í viðtalinu að þegar heim er komið þá leist þeim ekki á að helga sig myndlistinni einvörðungu og tóku því til við að stunda aðra iðju sem lifibrauð. Eftir að spyrjandinn (sem var kona) var kominn að þessari niðurstöðu þá var það niðurstaða hans að það hefðu náttúrulega verið "helvítis" kallarnir sem hefðu sett fyrir þær fótinn.

Ohhh.

Ég get bara rétt ímyndað mér að það hafi ekki verið sérstaklega fýsilegt fyrir einn eða neinn að lifa alfarið af myndlist hérlendis um aldamótin 1900. Það litla sem ég hef t.d. lesið um Jóhannes Kjarval, okkar fremsta málara, þá lifði hann engu sældarlífi fjárhaglega lengst af og fórnaði einnig fjölskyldunni fyrir listina. Því skil ég mætavel að þessar ágætu konur hafi talið það skynsamlegra að afla sér tekna af öðru í stað þess að lifa stöðugt í þeirri óvissu hvernig málverkum þeirra yrði tekið af hugsanlegum kaupendum.

Ég verð að segja að ég er orðinn mjög þreyttur á þessari jafnréttisumræðu eins og hún er kölluð og hefur hefur farið fram hérlendis á liðnum misserum. Svo er einnig um marga aðra og ekki síst ýmsar konur sem ég heyri í. Síðasta uppákoman var umræða um rafiðnaðarmenn. Konur hafa einhver 80% af heildarlaunum karla í stéttinni. Hverju ætli það sæti? Því er ekki spurt hvers vegna það séu 3.600 karlar rafiðnaðarmenn en einungis 400 konur. Ég fór til tannlæknisins míns á mánudaginn. Hann er m.a. að sarga pípara til sín til að klára að setja nýtt húsnæði í stand. Píparinn kom kl. átta á sunnudagsmorgni og vann allan daginn og tannlæknirinn var út um allan bæ að draga það að sem píparinn þurfti að nota. Getur það verið að það séu ekki allir jafn hrifnir af því að vinna á daginn, kvöldin, nóttunni og um helgar eins og iðnaðarmenn gera gjarna? Kynjabundinn munur á heildarlaunum felst meðal annars í þessu.

Ég ætla ekki á kallaráðstefnuna á morgun.

Logn í Patreksfirðinum

 Posted by Picasa

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Ég held ég fari að hætta að velta fyrir mér málefnum samkynhneigðra í bili. Ég hef ekki verið mjög upptekinn af þeirri umræðu gegnum tíðina en það er svo að þegar umræðan í fjölmiðlum er mjög mikil eins og hún hefur verið undanfarið þá verður það til þess að maður fer að velta ýmsum vinklum fyrir sér sem kannski eru ekki alltaf teknir fyrir.

Íþróttafréttir hafa einnig verið fyrirferðamiklar undanfarið. George Best er t.d. dáinn. Hann skipar sérstakan sess í hugum margra áhugamanna um fótbolta. Hann var ein fyrsta superstjarnan á fótboltavellinum og líklega sú stærsta. Pele og Eusibio voru einnig mjög litríkir á þessum árum svo dæmi séu nefnd. Það sannaðist á Best að það fer ekki alltaf saman gæfa og gjörfileiki. Eða er það kannski gæfa að geta gert það sem maður vill og langar til meðan andinn og líkaminn þolir það og svo er þetta bara búið? Kertið brennur fyrr upp þegar lifað er hratt. Það hefur hver sinn takt í þessu en víst er að margir vildu hafa verið í sporum Best um áraraðir, hvaðs em um síðustu árin má segja. Snilli Best´s varð til þess á sínum tíma að margir fóru að halda með Man. Utd. og gera það enn. Svo er t.d. um undirritaðan.

Ég man eftir öðru dæmi sem maður gleymir ekki. Nacka Skoglund var sænskur fótboltasnillingur sem var fæddur um 1930. Hann varð snemma atvinnumaður á Ítalíu eða um 1950, lék með bestu liðunum þarlendum og þótti alger snillingur. Hann var lykilmaður í sænska landsliðinu sem fékk silfurverðlaun á HM 1958 þegar Brassarnir og Pele komu fyrst fram á sviðið af alvöru. Hann missti síðan fótana þegar fótboltatímanum lauk, kunni ekki annað en spila fótbolta og gat ekki unnið launavinnu, hafnaði í óreglu og andlegum þrenginum og dó fyrir aldur fram 42ja ára gamall. Nafn hans lifir hins vegar í sænskri fótboltasögu.

Íslenska handboltalandsliðið lék tvo og hálfan góðan leik við norðmennina um síðustu helgi. Gaman er að sjá hvað Viggó er að bræða saman gott lið úr góðum einstaklingum. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur í alvöru keppni. Menn eins og Guðjón V., Snorri Steinn og Einar Hólmgeirsson eru yfirburðamenn. Handboltinn er manni kannski sérstaklega hugstæður því Jói og félagar hans í 3ja flokki Víkings eru sífellt að færast nær alvörunni. Maður er búinn að fylgjast með þessum hóp í sex ár eða síðan þeir voru tíu ára guttar þegar við komum að norðan. Hópurinn hefur haldið mjög vel saman og er öflugur. Manni finnst ósköp stutt síðan þetta voru bara litlir guttar sem felldu tár ef leikurinn var harður úr hófi fram en nú eru þetta miklir jaxlar sem flestir hafa vaxið manni yfir höfuð og bregður hvergi við átök eða annað sem fylgir alvöru handbolta.

Sá í Mogganum í morgun smá umfjöllun á gagnrúnan hátt um íþróttafréttamennsku í fjölmiðlum hérlendis. Ég tek undir hana, hún mótast oft um of af áhugamálum íþróttafréttamannanna sjálfra. Manni finnst t.d. pirrandi að sjá sífelldar ekki fréttir um að einhverjir leikmenn hafi ekki spilað með liðum sínum, ekki skorað mörk og svo má áfram telja á meðan ekki tekst að fá sömu fjölmiðla til að birta fréttir af árangri hérlendra langhlaupara eða af starfsemi hlaupafélaga. Er það ómerkilegra að hlaupa maraþon heldur en að komast ekki í lið? Fréttamatið er oft þannig finnst manni. Viðkomandi íþróttafréttamenn ættu að reyna að hlaupa maraþon sjálfir, þá færu þeir kannski að bera aðeins meiri virðingu fyrir þessari íþróttagrein. Umfjöllunin skiptir vitaskuld máli. Ég sé t.d. ekki að Powerate hlaupaserían sé eitthvað ómerkilegri en hvað annað eða mars- og haustmaraþonin.

Tjörnin að kvöldlagi

 Posted by Picasa

mánudagur, nóvember 28, 2005

Ég er búinn að plægja í gegnum bréf Gordys. Hann tók "crystaline ascorbic acid" síðustu fimm dagana fyrir hlaupið sem er C vítamín í duftformi. Hann mældi ekki hvað hann tók á dag en það var um 7 - 10 grömm. Hann tók einnig sex til tíu töflur á dag þar sem hver tafla innihélt 50 mcg Se og 200 IU vit E. Hann tók einnig helling af þessum töflum um morguninn áður en hann lagði í hlaupið. Hann tók einnig töflur nokkuð óreglulega sem innihéldu: 1200 mg Ca, 600 mg Mg, 500 IU vit D3, 120 mcg vit K, 5 mg thiamine, 12 mg zinc, 1,2 mg copper, 2,5 mg manganese og 2 mg boron. Hann tók einnig óreglulega fjölvítamín sem heitir Omnivite Without Iron. Öllu þessu skolaði hann niður í hlaupinu með appelsínusafa sem var bættur með salti og C vítamíni.

Hann notar hyperskammt af C vítamíni, svo stóran að sérfræðingur minni í lyfjafræði blótar og segir að þetta sé tóm vitleysa. Ekki veit ég hvað er satt og rétt í þeim efnum en ég er nú þannig náttúraður að ég tek nokkuð mark á þeim sem eru að þreifa sig áfram í þessum efnum á eigin reynslu. Vitaskuld geta menn þolað þetta misjafnlega. Ég veit að markviss steinefnauppbygging með t.d. mangan og selen kemur í veg fyrir krampa og þess háttar í löngum hlaupum. Það gengur óhemjumagn af söltum og öðrum nauðsynlegum efnum út með svitanum í svona átökum og ég hef trú á að það sé mikilvægara að vera viss um að bæta skrokknum það upp heldur en þó hann fái aðeins of stóran skammt.

Nú var kaþólska kirkjan að gefa út statement í málefnum samnkynhneigðra presta. Það er víða fjallað um þessi mál. Ef maður hugsar sem svo að í upphafi hjónabandið verið formleg staðfesting þess að maður og kona ætluðu að búa saman og eignast börn saman. OK. Börn áttu helst ekki að fæðast utan hjónabands. Það eru t.d. ekkert svo afskaplega margir áratugir síðan það var ekki neitt sérstaklega fínt hérlendis að vera utanhjónabandsbarn. Svo breytast hlutirnir. Nú eru utanhjónabandsbörn ekkert verri en önnur í augum almennings og hafa vitaskuld aldrei verið það. Þýðing hjónabandsins er ekki eins mikil og fyrr. Nú vilja samkynhneigðir einstaklingar ganga í hjónaband enda þótt þeir geti ekki átt börn saman. Gott og vel, sama er mér. En er rétt að stoppa þar eða á að ganga veginn áfram? Hvað með fjölkvæni? Einstaklingar hafa verið settir í steininn fyrir að hafa gengið í hjónaband með fleiri en einum einstakling á sama tíma. Ég verð að segja að það myndi ekki pirra mig neitt enda þótt fjölkvæni væri tekið upp og einhverjir hefðu áhuga á því. Því má fullorðið fólk ekki eiga meir en einn maka ef allir hlutaðeigandi eru því sammála af fúsum og frjálsum vilja og vilja staðfesta sambandið formlega með tilliti til framfærsluskyldu og erfðaréttar. Það er nú bara svo að þegar búið er að segja A, þá kemur B skammt á eftir. Það þýðir ekki að hrópa hástöfum að einhverjir séu afturhaldssinnar ef þeir eru andvígir því að samkynhneigt fólk fái að ganga í hjónaband en vera svo á móti því að létta öðrum hömlum af hjónabandinu. Auðvitað eru alltaf spurning hvernig þróunin eigi að vera en stundum tekur þróunin bara völdin hvað sem hver segir.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Við Tjörnina 26. nóv.

 Posted by Picasa
Tók hring í hverfinu í gær í góðu veðri. Gott að fá þægilegt veður eftir hryssing liðinna vikna. Ég sneri við og sótti gormana eftir stuttan spöl því það var ansi launhált. Dagurinn leið án stórtíðinda, við hittum nokkra embættismenn niður í vinnu í kringum hádegið til að ganga frá frumvarpi er varðar innheimtu fasteignaskatts.

Tók síðan gott hlaup í morgun. Fór snemma út eða upp úr kl. átta. Veðrið var afar gott, logn og hiti rétt undir frostmarki. Það var afar flott að hlaupa á móti morgunroðanum austur Ægissíðuna og sjá himin og ljós speglast í lognkyrrum Fossvoginum.

Hef verið að skoða linsur á netinu undanfarna daga og lét til skarar skríða í gærkvöldi. Ljósmyndari í Ohio í Bandaríkjunum er að selja linsu og fá sér aðra. Hann er með vef sem sýnir myndir sem hann hefur verið að taka. Þetta gekk allt upp og nú er barfa að bíða þar til gripurinn kemur.

Fór niður að tjörn í gær til að taka myndir. Við sérstakar aðstæður þegar tjörnin er ísilögð og síðan hefur hlánað og myndast mjög þunnt vatnslag ofan á ísnum þá speglast húsin á mjög skemmtilegan hátt í tjörninni. Þetta kemur sjaldan fyrir þegar tjörnin er auð því þá er alltaf einhver hreyfing á yfirborðinu. Ég hef oft séð þetta en alltaf misst af því að taka myndir. Nú voru kjöraðstæður fyrir spegilmyndatökur af húsaröðinni. Það kemur sjaldan betur í ljós en við svona aðstæður hvað ráðhúsið passar illa inn í umhverfi tjarnarinnar.

Fékk email frá Grody Ainsleigh í gær. Það hafa farið tölvupóstar á milli manna í sambandi við rannsóknina sem átti sér stað í tengslum við WS í sumar. Menn eru að skiptast á skoðunum og læra hver af öðrum. Gordy segist aldrei munu nota íbúfen eða annað álíka í langhlaupum. Hann notar stóra skammta af C vítamíni og selium fyrir og í hlaupum svo dæmi sé nefnt. Hann byggir sig upp af þeim efnum sem hann veit að gengur á í hlaupinu bæði fyrir hlaupið og í hlaupinu sjálfu. Ég þarf að fara aðeins yfir það sem hann sendi mér til að vera viss um að ég skilji allt vel og gefa síðan fleirum aðgengi að því. Gordy er þjóðsagnapersóna í þessum ultraheimi. Hann starfar sem kírópraktor og hugsar mikið um heilsuþáttinn. Hann var hálflasinn og illa kvefaður fram í maí lok í vor. Þá náði hann kvefinu úr sér og tók síðan reynsluhlaup tveim vikum fyrir start upp á 42 mílur eða 67 km. Hann kláraði síðan WS á undir 24 klst, 59 ára gamall. Geri aðrir betur.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Fór í dag niður á lögreglustöð til að sækja um endurnýjun á byssuleyfinu. Var búinn að útvega mér öll gögn sem ég þurfti samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði fengið af netinu. Þegar ég skilaði þeim í afgreiðsluna þá spurði stúlkan: "Ertu ekki með mynd?" "Nei" sagði ég "það var ekki minnst á það á eyðublaðinu". "Nú þú hlytur þá að vera með gamalt eyðublað" sagði hún, "Nú þurfa allir að koma með mynd". "Það er nú ekki eldra en síðan í gær" sagði ég, "ég prentaði það út í gærkvöldi". "Ó" sagði hún, "þeir eru stundum seinir að láta nýtt eyðublaðið inn". Þetta pirraði mig töluvert. Rafrænt samfélag á að vera til að einfalda hlutina og gera ýmsa hluti einfaldari en það er að því tilskyldu að menn vinni vinnuna sína og hafi réttar upplýsingar á netinu. Rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Þetta blessaðist samt. Nú þurfti ég að koma mér upp byssuskáp því ég á fimm byssur. Það kemur bráðlega maður heim til að taka út skápinn. Það er breytt sem áður var. Þegar ég fékk leyfi fyrir fimmtu byssuna á Patró í den tíð þá sagði sýsli einfaldlega: "Hvað er þetta, er að koma stríð? og svo fékk ég leyfið.

Fékk í dag svar frá Örnefnastofnun um Rauðasandinn. Það er sem hér segir:

"Nafnið á Rauðasandi hefur verið á reiki. Það kemur aðeins fyrir í aukaföllum í fornritum, að ég held, þ.e. á Rauðasandi (oftast). Þeir sem samið hafa nafnaskrár hafa ýmist haft Rauðisandur eða Rauðasandur. Á korti Björns Gunnlaugssonar frá um 1840 er Rauðisandur nafnmyndin. Dönsku kortagerðarmennirnir höfðu hinsvegar nafnmyndina Rauðasandur og hefur hún verið lífseig á kortum. Á Ferðakorti 1 sem Landmælingar gáfu út nýlega (1:250 000) og við lásum yfir, er nafnið Rauðisandur, og þannig mælum við með því að það sé haft. Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson"

Ég held ég haldi mig þá við að sveitarhlutinn heiti Rauðisandur fyrst að Björn Gunnlaugsson hafi skráð það svo niður um 1840 hvað sem seinni tíma örnefnabögubósar hafa síðan bjagað það frá og til. Danskir kortagerðamenn, með fullri virðingu fyrir þeirra starfi, hafa líklega ekki verið með íslenskar fallbeygingar á hreinu. Ruglið verður síðan ekki betra við að það éti það hver eftir öðrum.

Meira um Rauðasand. Meðfram sveitinni fram við hafið liggur rifið rauða sem sveitin ber nafn sitt af. Rifið er örnefni út af fyrir sig (Bæjarrif eða Melanesrif). Í gegnum það rennur Ósinn. Milli rifsins og gróðurlendisins á útsandinum liggur Fljótið sem er lægð fyrir ofan rifið sem oft er full af vatni. Það er örnefni út af fyrir sig.
Þetta er allt skilmerkilega sýnt í kortabók Landmælinga ríkis. Í hinum nýja Íslands Atlas er Rifið á útsandinum horfið, fljótið horfið og komnir tveir ósar í gegnum rifið fyrir miðjum vaðlinum. Gróðurlendið virðist ná alveg niður í sjó. Eyja er sýnd á rifinu þar sem enginn kannast við að hafa séð eyju. Mér finnst það satt að segja með ólíkindum hvað bók sem á að vera tímamótaverk í útgáfu landakorta er full af vitleysum og rangfærslum í þessum litla sveitarhluta. Það vantar ekki hástafina um hina nýju tækni sem á að gera allt betra en áður, en hvað sér maður, landslag sem maður kannast ekkert við. Eitt enn get ég nefnt. Þess er ekki getið hvað Napinn er hár en hann er hæsti punktur fjallanna í hreppnum. Vinnufélagi minn þekkir til í utanverðum Skagafirði að austanverðu. Þar rennur á meðfram jörðinni sem afi hans og amma bjuggu á. Áin sem rennur við hliðina á bænum heitir nafni í hinum nýja Íslands Atlas sem enginn kannast við. Kort eiga að vera rétt og þau eiga að gefa mér nauðsynlegar upplýsingar. Maður á ekki að vera staðkunnugur til að vita hvað er rétt og hvað er rangt á kortum.

Í Sovétríkjunum fornu og sem betur fer sálugu voru gefin út sérstök landakort sem voru ætluð til að villa um fyrir hugsanlegum innrásarherjum. Á þeim voru borgir sem ekki voru til, vegir sem ekki voru til en raunverulegra borga og vega að engu getið. Þetta er svo sem aðferðafræði út af fyrir sig.

Íva frænka setur Unglingalandsmót UMFÍ sl. sumar

 Posted by Picasa

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Er að velta fyrir mér fréttaflutningi eins og fyrri daginn. Hvað er frétt og hvað er ekki frétt? Hvað á erindi í fréttir og hvað ekki? Mér finnast skilin þarna á milli vera oft ansi óljós. Ég sé til dæmis ekkert fréttnæmt við það að einhver prestur hafi þá skoðun að það eigi að gefa saman samkynhneigða í kirkju. Það getur vel verið persónuleg skoðun viðkomandi prests en mér finnst hún ekki frétt út af fyrir sig. Hvað ef einhver prestur hefði talað um að kirkjan ætti ekki að gefa saman samkynhneigða? Væri það frétt ef NN í kirkjunni XX segði að hann teldi að kirkjan ætti ekki að standa fyrir slíku? Eða væri fréttin þá orðin á þann veg að það væri ágreiningur innan kirkjunnar um málið? Það væri líkara því að vera frétt heldur en einstaklingsbundin skoðun einhvers manns (sem er kannski bara að reyna að koma kirkjunni sinni í umræðuna). Það er frétt ef kirkjuþing mótar stefnu en ekki þegar einhver maður útí í bæ hefur einhverja skoðun.

Annað um "fréttir".
Ég bjó á norðurlöndum í sjö ár hér í den tíð. Ég horfi oft á erlendar fréttir. Ég sé hvergi í nágrannalöndum okkar neitt í áttina við hvað er talið vera fréttir úr umræðum á Alþingi. Það er engu líkara að þingfréttamönnum sé skipað að koma með a.m.k. eina "frétt" frá Alþingi á hverjum degi sem þingið stendur. Líklega er svo lítið af fréttum í landinu, alla vega jákvæðum fréttum, að reynt er að fylla upp í útsendingartímann með oft á tíðum óttalegu þvaðri frá þinginu. Hvað er fréttnæmt við að þingmaður spyr einhverrar spurningar og viðkomandi ráðherra svarar einhverju og allir standa jafngóðir (eða fáfróðir) eftir? Ég sé það ekki. Þingmenn eru farnir að spila á að komast í fréttatíma og fá þannig auglýsingu. Tryggt virðist vera að ef þingmenn hreyta úr sér nógu miklum stóryrðum þá eru þeir komnir í fréttatímann og oft umræðuþátt á eftir. Skelfing er þetta oft dapurlegt.

Örnefni á Rauðasandi. Ég er búinn að skrifa Örnefnastofnun um Rauðasand en ekki búinn að fá svar. Á hinn bóginn finnst ekkert Máberg sem bæjarheiti til í skrám Örnefnastofnunar því vitaksuld heitir jörðin Móberg. Þannig notar höfundur Íslands Atlas einhvert örnefnaónefni sem er ekki til bæði á bæinn heima og örnefni honum tengd. Þetta finnast mér vera skrítin vinnubrögð hjá manni sem kynntur er til sögunnar sem einn fremsti kortagerðarmaður landins eða hjá þeim sem hann sækir sínar upplýsingar til. Ég ætla ekki að alhæfa neitt en mér finnast furðu margar villur og ambögur vera að finna í þessum litla sveitarhluta vestur á fjörðum. Kannski er það undantekning. Dýr myndi Hafliði allur.

Fyrir ultrahlaupara. Áhugi fyrir ultrahlaupum vex bæði í Noregi og Danmörku. Ný hlaup eru að þróast. Nú er Havstein hinn danski stórhlaupari að skipuleggja hlaupaseríu í Danmörku. Hlaupið er bæði langs og þvers yfir Danmörku og síðan hringinn í kringum Borgundarhólm. Fyrir þá sem ekki vita hvað þeir eiga af sér að gera í ca 10 daga í sumarfríinu árið 2007 þá er þetta valkostur.

Þarf að fara að hlaupa meira.

Hér er Rauðisandur

 Posted by Picasa

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Skoðaði stóru kortabókina á laugardaginn. Hún er glæsilega upp sett og er vafalaust mikill fengur að henni á margan hátt. Fletti upp á mínum gamla hreppi Rauðasandshreppi til að skoða uppsetningu og frágang. Maður getur helst metið það eftir því sem maður þekkir best til. Ég var ekki alveg ánægður með það sem ég sá. Bæjarröð í þessum litla hreppi var vitlaust sett upp á þremur stöðum. Ég var heldur ekki sáttur við örnefnin. Rauðisandur heitir Rauðisandur í nefnifalli en ekki Rauðasandur. Það örnefni var alla vega aldrei notað í mínum uppvexti. Hann heitir Rauðisandur vegna þess að sandurinn er rauður en ekki vegna þess að sandurinn sé úr einhverjum rauða. Í annan kant er ég ekki sáttur við bæjarnafnið Máberg og örnefni því tengd. Bærinn hét og heitir Móberg í öllum opinberum gögnum og skrám. Heitið Máberg var einungis notað af tveimur fjölskyldum það ég man eftir. Mér fannst það alltaf heldur skrítið en á seinni árum sé ég ákveðin rök fyrir því vegna fýlsins í fjallinu fyrir ofan bæinn. Sama er.
Ég treysti þeim upplýsingum sem eru í bókinni miklu síður vegna þessara vankanta sem ég sá strax á því sem ég fletti upp þarna í einni skothendingu. Ég hélt satt að segja að svona verk væri lesið það vandlega yfir, ekki síst sem það á að byggja á opinberum kortagrunni sem á að vera margyfirfarinn og því alveg skotheldur.

Kvöldsól á jöklinum

 Posted by Picasa

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Ég fór í gegnum Smáralindina á laugardaginn. Þar var fólk frá samtökum sykursjúkra og bauð upp á ókeypis blóðtest til að kanna hvort væri sykursýkivottur. Ég lét taka blóð og útkoman var ok. Á mneðan ég beið greip ég pésa um megrunaraðferðir sem gefinn hafði verið út af félaginu og var þýddur úr útlensku. Ég var ekki sáttur við það sem ég sá í pésanum. Í yfirliti um mataræði var lögð megináhersla á að nota eins litla feiti og mögulegt er og borða magurt kjöt, fisk egg og ost. ég er ekki sammála því að það eigi að nota eins litla fitu og mögulegt er. Það á ekki að nota meiri fitu en þörf er á en líkaminn þarf fitu, sérstaklega ákveðnar fitusýrur sem eru nauðsynlegar fyrir sjónina og almenna líkamsstarfsemi. Síðan var sagt að maður ætti að borða gróft brauð, kartöflur, hrísgrjón og pasta. Ég er sammála þessu með grófa brauðið en eru kartöflur, hrísgrjón og pasta megrunarfæði? Ég hélt að það væri hreint auðleysanlegt kolvetni sem maður hrúgar í sig dagana fyrir maraþon til að fylla skrokkinn með orku. Megrun er fyrst og fremst spurning um að borða færri hitaeiningar en maður eyðir en er át á pasta, kartöflum og pasta rétta aðferðin til þess. Ég er ekki sannfærður.
Síðan var sagt að fara sparlega í mjólk og ávexti!! Gott og vel, rétt að drekka undanrennu eða léttmjólk frekar en nýmjólk en að fara sparlega í ávaxtaáti, það er alveg nýtt fyrir mér. Ég hélt að epli, appelsínur, mandarínur, melónur og vínber væru fyrirtaks megrunarfæðí. Helst spurning með bananana. Inni í pésanum kom síðan sú leiðbeining að það ætti ekki að borða mikið af niðursoðnum ávöxtum í sykurlegi. Det er en helt anden sag. Sú var tíðin að niðursoðnir ávextir voru sérstakt hátíðisdagafæði en það er liðið. Ekki var í yfirlitinu minnst á að draga úr kex og kökuáti, poppkorn eða snakk væri ekki sérstakt megrunarfæði og hamborgarar, pizzur og annað slíkt hátíðafæði væru hreinar orkusprengjur. Einnig finnst mér rétt að árétta í þessu samhengi að gott ráð sé að borða yfir höfuð aðeins minna en vanalega.

Reyndar komu síðan nánari útskýringar inni í pésanum þegar betur var lesið og ég var sáttari við en yfirlitið fannst mér villandi. Ég sagði fólkinu í básnum að það ég best vissi væru kartöflur, hrísgrjón og pasta ekki sérstakt megrunarfæði. Þau voru ekki á sama máli og vörðust af ákveðni. Gaman væri að heyra í fólki með reynslu eða menntun hvort það sé ég sem er úti að aka í þessu efni eða textahöfundur.

Norrænir kollegar í Bláa Lóninu (og maður með skegg).

 Posted by Picasa
Kom að norðan í gærkvöldi. Góð ferð norður enda þótt jarðarfarir séu ekki tilefni til neinna skemmtiferða. Færðin var þó heldur varasöm töluverðan hluta leiðarinnar vegna hálku. Dauðaslys í Norðurárdalnum undirstrikaði enn fremur nauðsyn þess að aka varlega. Það veit enginn hver er næstur. Hittum margt fólk fyrir norðan frá Raufarhöfn sem við höfum ekki séð nokkuð lengi, sumt ekki síðan við fluttum að norðan. Alltaf gaman að hitta góða kunningja og rifja upp gömul kynni. Gerðum síðan stuttan stans á Bifröst á suðurleiðinni og tókum hús á fjölskyldu frá Raufarhöfn sem býr þar úti í skógi. Vinkona okkar tók sig upp í haust og skellti sér í skólann á Bifröst og hefur tvo syni sína með sem eru á grunnskólaaldri. Mamma hennar er með til að sjá um strákana en nóg er að gera í skólanum. Frábært að sjá þegar fólk sem er að klára að koma börnunum til manns söðlar um og hellir sér í nám. Þetta er erfitt en afar gaman.

Á leiðinni norður hlustaði ég á fréttir í RÚV. Í fjögurfréttum á sunnudaginn var fyrsta frétt að fríkirkjupresturinn hefði í predikun morgunsins lagt áherslu á að lögum yrði breytt þannig að kirkjan gæti gefið saman samkynhneigt fólk. Án þess að ég ætli að leggja mat á efni predikunarinnar þá fór ég að velta fyrir mér hvernig svona ber að þegar RÚV setur sem fyrstu frétt innihald einnar messuræðu á þessum sunnudegi. Nú halda prestar út um allt land ræður um mismunandi efni á sunnudagsmorgnum. Hvernig ætli standi á því að einmitt þessi ræða varð fréttaefni? Ætli það hafi verið vegna þess að presturinn hafi af tilviljun sagt vini sínum frá því um hvað hann ætlaði að ræða og vinurinn hafi af tilviljun sagt einhverjum öðrum og svo koll af kolli þar til fréttin barst upp á fréttastofu RÚV og þeir sáu að þarna var stöff. Eða ætli það hafi verið þannig að þegar presturinn var búinn að skrifa ræðuna þá hafi hann séð að textinn var harla góður og ætti erindi til fleiri en þeirra sem mættu í messuna og hringt í útvarpið og beðið þá um að mæta. Eða ætli hann hafi hreinlega verið beðinn um af einhverjum aðilum að halda ræðu um þetta efni og þeir síðan séð um að fá fréttamenn á vettvang? Hvernig ætli RÚV myndi bregðast við ef margir prestar væru að halda ræðu um áhugavert efni og allir myndu hringja upp í útvarp? Hvað ef margir þrýstihópar væru búnir að finna hver sinn prest sem myndi tala um viðkomandi efni í sunnudagsræðunni? Hvernig á RÚV að velja? Ætti RÚV að birta úrdrátt úr áhugaverðustu ræðu presta á hverjum sunnudegi? Hver á þá að velja áhugaverðustu ræðuna, (útvarpsstjóri eða menntamálaráðherra)?

Svona spurningar sitja eftir og þeim verður vafalaust aldrei svarað.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Eyrarbakkakirkja

 Posted by Picasa
Ágæt hlaupahelgi að baki. Tók hring í hverfinu í gær og síðan alvöru helgartúr í morgun með Vinum Gullu. Fór á Broadway í gærkvöldi á jólahlaðborð með Sigrúnu og hennar vinnufélögum. Fínn matur. Að honum loknum var hyllingarsýning Bo´s með yfirliti um 35 ára söngferil hans (Ég skrifaði fyrst 25 ára en það er víst dálítið meir). Það var fínt prógram og mikið fjör. Meistarinn sjálfur söng eftir hlé og gerði það vel.

Skoðanakönnun birt í Fréttablaðinu í morgun. Niðurstöðurnar eru eins og í fyrri könnunum fyrir Framsókn, alveg í botni. Birgir Guðmundsson segir að flokkurinn þurfi startkapla til að snúa sér í gang. Í minni bílaútgerð er ekki nóg að setja startkapla á dauðan geymi, það þarf einhver kraftur að koma frá utan að frá til að snúa bílnum í gang. Spurning hvar hann er að finna.

Er að fara til Akureyrar á eftir. Vinkona og heimilisvinur að norðan verður jörðuð á morgun. Hún heimsótti okkur síðast í maílok þegar hún var til lækninga hér syðra. Svo er þetta búið fyrr en varir.

Hlustað á Gullfoss

 Posted by Picasa

föstudagur, nóvember 18, 2005

Horfði á Silvíu Nótt í gærkvöldi. Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Enda þótt verið sé að búa til fígúru þá hélt ég að fleira þyrfti til en að segja "þú veist" í þriðja hverja orði, "skilurðu" í þriðja hverja orði og restin var slitur af samtenginum, upphrópunum og rugli. Bjánahrollur er eiginlega mjög vægt og pent orðaval.

Björn Friðgeir hefur verið að senda mér nótur vegna hugleiðinga um giftingar, erfðir og fleira. það er fínt. Alltaf gott að diskutera. Ég sé hins vegar að við nálgumst umræðuefnið sitt úr hvorri áttinni. Honum finnst ákveðin heimska að átta sig ekki á gildandi reglum. Gott og vel, ákveðin rök fyrir því. Mér finnast aftur á móti gildandi reglur vera heimskulegar. Á þessu er grundvallarmunur. Það nær náttúrulega engri átt að eini aðilinn sem erfir ekki neitt nema að undangengni meðvitaðri ákvörðun sé makinn. Ég man ekki beint eftir sjómannskonudæminu en get ímyndað mér hvernig það er. Það nær náttúrulega engri átt að ef maður og kona búa saman stærstan hluta ævinnar, eiga saman t.d. tíu börn, en vegna þess að þau eru svo óaðgætin að hafa ekki látið lesa sig saman þá erfir eftirlifandi maki ekki krónu. Ég man aldrei eftir því að hafa fengið upplýsingar um gildi giftingar frá hinu opinbera. Segja má að fullorðið fólk eigi að sjá um sig sjálft og hafa vit fyrir sér. Engu að síður hefur hið opinbera og löggjafinn oft vit fyrir fólki. Nefna má í því sambandi að það er skylda að brunatryggja íbúðarhúsið sitt. Fólki er ekki treyst til að sjá um það sjálft.

Það mætti hugsa sér að reglurnar væru öfugar miðað við það sem nú er þannig að þær yrðu þannig að erfðir milli aðila ættu sér ekki stað nema að undangenginni meðvitaðri ákvörðun. Það ætti jafnt við um alla. Þá yrði það sjálfsagður hlutur að ganga frá þessum hlutum fyrir ákveðinn aldur því ella myndi ríkið hirða allt. Ríkið refsaði fólki fyrir það til skamms tíma að hafa ekki tekið meðvitaða ákvörðun um erfðir með stighækkandi erfðafjárskatti eftir því sem erfingi var fjarskyldari. Hvaða rök voru fyrir því? Vitaskuld engin.

Reglurnar verða sjálfsagt aldrei þannig að þær verði fullkomnar eða svo að öllum líki en slæmar eru þær reglur sem virða stöðu makans (og foreldris barna viðkomandi ef um þau er að ræða) ekki meir en að þar sé um að ræða eitthvað svipað og útungunarvél úti í hlöðu ef formleg gifting hefur ekki átt sér stað. Allir aðrir eru rétthærri enda þótt engin meðvituð ákvörðun hafi verið tekin í þá átt.

Víkjum að öðru. Fréttamenn.
Heyrði í gær viðtal um húsafriðun í ríkisútvarpinu. Rætt var við áhugamann um húsafriðun. Fréttamaðurinn var greinilega á bandi húsafriðunarmanna því hann spurði eftir að húsafriðunarsinninn hafði lýst því hvernig tillögur um húsafriðun eru lagðar fyrir sveitarstjórn: "Kemur svo sveitarstjórnin og valtar yfir ykkur?" ef sveitarstjórn samþykkir ekki allt sem fyrir hana er lagt. Ef sveitarstjórnin sinnir lögboðnum skyldum sínum og axlar fjárhagslega ábyrgð við ákarðanatöku þá er það kallað að "valta yfir áhugamenn sem vilja vernda eitthvað hús". Þó eru ekki öll sund lokuð því húsafriðunarnefnd ríkisins getur ógilt ákvörðun sveitarstjórnar en þá er það ekki kallað að valta yfir heldur að fara eftir gildandi reglum.

Annað. Fréttamaður lýsti átökum við Menntaskólann á Ísafirði. Ágreiningur er vegna þess að skólameistari beitir stjórnunarlegu valdi sínu skv. frásög fréttamanns. Það var ekki sagt að hann beitti ofríki eða misbeitti valdi sínu heldur einungis að hann stjórnaði samkvæmt þeim reglum sem fyrir eru lagðar. Það þola bara ekki allir að stjórnandi sinni hlutverki sínu heldur er það þægilegt í huga margra að gera ráðið sér sjálfur. Stjórnandi ræður. Það er svo einfalt. Hann hefur ákveðnar reglur til að fara eftir. Ef hann fer eftir þeim þá er ekkert hægt að segja. Ef hann misbeitir valdi sínu eða fer út fyrir þær reglur sem hann á að vinna eftir, þá er það stjórnandinn sem situr í súpunni. Flóknara er það ekki. Stærstu átökin í síðustu kjarasamningum við grunnskólakennara snerust um að kennarasambandið vildi ekki að skólastjóri gæti stjórnað starfsfólkinu með því að ráðstafa vinnutíma þess.

Ég setti inn undir myndir link á fjögur vídeóklipp frá Badwater hlaupinu í júlí í sumar. Ráðlegg áhugamönnum um langhlaup að kíkja á linkinn. Það rísa á manni hárin við að horfa á þetta. Það voru nokkur sem fóru í Badwater hálfum mánuði eftir WS, þar á meðal Scott Jurek og Monica Schulz. Scott sigraði og setti brautarmet en það var ekki átakalaust eing og sést. Sá sem var nr. 2 hafði útbúið æfingaaðstöðu í garðskálanum hjá sér þar sem hann gat haft um 120 oF (um 40 oC) til að búa sig undir hlaupið. Scott drakk 21 gallon af drykk á meðan á hlaupinu stóð!!! Það er eins gott að hafa veitukerfið í lagi í svona verkum.

Við Grænalón

 Posted by Picasa

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Er með nettan bjánahroll. Lagði áðan í að horfa á hinn íslenska Bachelor. Hálfur þáttur dugði mér. Ætla einnig að taka hús á Silvíu Nótt í kvöld til að vera samræðuhæfur.

Hætti mér inn á jarðsprengjusvæði í gærkvöldi, málefni samkynhneigðra og giftingar þeirra og annarra eða ekki giftingar. Fyrst maður er kominn út á bersvæði er ekkert að gera annað en að feta sig áfram. Ég sagði ekki frá einu atriði í gærkvöldi sem varðar frænda minn heitinn og gerði það viljandi. Hann og konan hans áttu ekki börn saman. Ef þeim hefði verið barna auðið hefðu engin vandamál komið upp við andlát hans varðandi erfðamálin en fyrst að þau voru barnlaus, þá fór allt í baklás af hálfu yfirvalda. Þarna er greinilega verið að mismuna fjölskylduformi burtséð frá giftingum eða erfðaskrám. Ég sé ekki að maður eigi að sætta sig við það. Ég geri ráð fyrir að það ráði álíka hlutir því að fólk ákveður að deila lífi um áratugi óháð því hvort viðkomandi eignist börn eða ekki og því á erfðaréttur að vera hinn sami.

Þegar maður horfir hlutlaust á giftinguna sem slíka þá er hún nú á dögum að því ég fæ best séð einungis spurning um form um sameiginlega ábyrgð á eignum, framfærslu, forsjá barna ef þau eru fyrir hendi og form erfða. Ef einhver kann betri skilgreiningu þá er hún þegin með þökkum. Hvað kirkjan er að skipta sér af þeim gjörningi skil ég ekki alveg. Gamla formúlan um að það sem drottinn hefur sameinað getur enginn sundur skilið er ekki alveg að virka eða það sýnist manni. Það er annað en hjá kaþólskum, þar er skilnaður bara bannaður. Þannig hefur kirkjuleg aðkoma að hjónabandi í Lútherstrú enga sérstöðu. Hjónaband var síðan hér áður valdastofnun karla. Ég minnist þess að mamma sagði einhvern tíma að þegar sýslumaðurinn var að lesa þau saman fyrir rúmum 50 árum þá munaði minnstu að hún hætti við allt saman þegar sýsli sagði að hún ætti að vera manni sínum undirgefin. Þessi klásúla er víst fyrir bí á seinni tímum það ég best veit og sem betur fer.

Ef formlegur kaupmáli eða erfðaskrá gerir sama gagn og hefur sama gildi og formlegt brúðkaup og formlegt brúðkaup hefur ekkert fram yfir einfaldan samning, af hverju er þá verið að gera einfalda hluti flókna. Vegna hvers er þá verið að blanda kirkjunni inn í þetta dæmi? Fólki finnst kirkjubrúðkaup vafalaust vera hátíðlegt (ég hef ekki prófað það sjálfur) og allt í lagi með það en annan tilgang hefur það ekki það ég best sé. Sérstaklega vegna þess að það er jafnauðvelt að slíta gjörningnum eins og að koma honum á. Er eitthvað öðruvísi að bjóða til brúðkaups (brúðkaup, hvernig ætli það orð hafi myndast?) eftir að hafa skrifað undir erfðaskrá eða kaupmála heldur en að gera það eftir að prestur hefur lesið upp tilheyrandi texta? Ég geri ráð fyrir að svo sé því ella sækti samkynhneigt fólk það ekki svo fast að fá rétt til kirkjulegrar vígslu eins og gagnkynhneigðir hafa en léti sér erfðaskrár- og/eða kaupmálaformið nægja.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Fékk lokaniðurstöður úr íbóprófentestinu sem ég tók þátt í fyrir vestan í sumar. Ég tók sex töflur á meðan á hlaupinu stóð og blóðprufa var tekin á undan og á eftir. Annar hópur tók ekki neitt og var til samanburðar. í niðurstöðum kemur fram að af um 70 manns sem tóku þátt í tilrauninni er ég sá fjórði þyngsti. Það finnst mér vera ansi mikið.

Helstu niðurstöður eru íbóprofenhópnum óhagstæðar. Fyrir læknisffróða þá kemur fram að s
á hópur sé með hærra endotoxemia, oxidative stress og sýkingar (inflammation). Niðurstöður eru að ekki sé mælt með notkun iboprófens í svona langhlaupum (nánar tiltekið í Western States). Ég sé ekki annað en að ég komi mjög vel út úr mælingunum án þess að ég skilji þetta til fullnustu. Það væri gaman að láta Trausta kíkja á þetta við tækifæri. Þar sem sagt er að sé gott að vera lágur þar er ég með þeim lægstu og þar sem sagt er að gott sé að vera hár þar er ég með þeim hæstu eða hæstur. Þokkalega sáttur við útkomuna.

Heyrði í fréttum að verið er að undirbúa frumvarp vegna réttinda samkynhneigðra. Með fylgdi að Ísland stæði landa fremst á þessu sviði. Sú spurning vaknar hvort stjórnvöld hérlendis séu allra þjóða vitrust og framsýnust eða hvort stjórnvöld hérlendis standi veikar fyrir gagnvart þrýstihópum sökum smæðar samfélagsins og nálægðar. Mér koma í hug ýmsir aðrir hópar sem þyrftu ekki síður á því að halda að fá eðlileg réttindi í samfélaginu fyrst stjórnvöldu eru svo örlát um þessar mundir á þessu sviði.
Ég minni í því efni á stöðu fráskilinna feðra og stöðu þeirra gagnvart umgengisrétti (eða öllu heldur skort á skilyrðislausum umgengnisrétti) við börn sín.
Ég minni á stöðu fólks sem hefur búið í óvígðri sambúð. Sem dæmi má nefna að frændi minn dó fyrir um fimm árum síðan. Hann hafði búið með sömu konunni í um 40 ár. Vegna þess að þau voru ekki gift og voru barnlaus þá erfði hún ekkert eftir hann heldur erfðu systkini frænda míns allar þeirra eignir. Það tók síðan við herjans púsluspil að koma eigunum til ekkjunnar án þess að ríkið hirti stóran hluta af því í skatta, sem búið var að greiða af þessum eignum þegar þær mynduðust.
Ég minni á stöði heimavinnandi húsmæðra og lakleg réttindi þeirra til töku lífeyris.

Þessir hópar eiga það hins vegar sameiginlegt að fjölmiðlar veita þeim litla athygli og hlaupa ekki upp til handa og fóta hvenær sem lyft er litla fingri. Áróðursstaða þeirra er því ekki góð og uppskeran eftir því.

Er að hlusta á skemmtilegan þátt í sjónvarpinu um pönkið. Það minnir á gamla tíma í Svíþjóð hér í den tíð. Þá var einfaldleikinn að ýta til hliðar yfirgengilega flókinni og leiðinlegri tónlist sem úrkynjaðir poppfræðingar kölluðu rokk. Pönkið var aftur á móti tandurhreint rock and roll.

Dyrhólaey

 Posted by Picasa

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Frekar aðgerðalítill dagur í dag. Fór ekkert út að hlaupa. Sat fund niður í Vík í kvöld um málefni handboltans hjá Fjöl/Vík. Það er svona að komast lag á hlutina eftir að meistaraflokkar og 2. flokkar félaganna voru sameinaðir í haust. Vonandi verður þetta báðum félögunum til farsældar en til að svo megi vera verður að vera almennilegt lag á hlutunum.

Fékk gott símtal í dag frá gömlum flokksfélaga sem hefur sopið marga fjöruna gegnum tíðina. Hann setti fram áhugaverða kenningu um hagkvæmni smæðarinnar hjá stjórnmálaflokkum og hvernig smæðin getur orðið að markmiði út af fyrir sig. Hann sagðist finna þessi misserin ákveðna lykt sem hann hefur fundið áður á símum pólítíska ferli. Gaman að heyra í mönnum sem hafa ákveðnar skoðanir og tilfinningar fyrir hlutum og einstaklingum en eru ekki að hugsa um eigin hag.

Guðjón Ólafur skrifaði dálítið athyglisverða stjórnmálaskýringu á Hrifluna í dag þar sem hann fer yfir úrslit prófkjörsins í Kópavogi. Honum er dálítið niðri fyrir og hefur að því mér sýnist ákveðnar ástæður til þess.

Sá seinni hluta myndarinnar Skuggabörn eftir Reyni Traustason í kvöld. Maður verður alltaf allt að því orðlaus þegar maður sér svona yfirferð. Það sem manni kemur fyrst í hug eru manns eigin krakkar og hvernig þeirra örlög verða. Það er kannski egóistaháttur en svona er það nú bara samt.

Jón Ólafsson fór víða yfir í sjónvarpinu í kvöld og gerði upp við ýmsa. Það var eins gott að tókst að koma tækninni í lag hjá Ríkissjónvarpinu því annars hefði stofnunin verið í vondum málum. Nógu slæmt var að koksa á útsendingunni í gærkvöldi.

Opinber heimsókn til Bessastaða

 Posted by Picasa

mánudagur, nóvember 14, 2005

Horfði með öðru auganu á Eddu hátíðina í gærkvöldi (eða er þetta partí fyrir útvalinn hóp?). Margt kom mér spánskt fyrir augu. Eru ekki framleiddar of fáar kvikmyndir hér til að svona hátíð gangi upp árlega? Það er kannski þess vegna sem dönsk bíómynd var kosin sú besta. Hvaða spenningur eða keppni er það að hafa einungis tvær eða þrjár myndir sem keppa um flest verðlaunin? Það er þá alveg eins spurning um hver er næstverst. Fígúra var kosin besti sjónvarpsmaður ársins. Ég hefði frekar kosið Ragnar Reykás. Enda þótt í umsögn um besta sjónvarpsþáttinn væri þess getið í umsögn að hann væri kópía af öðrum þá fékk hann pre fyrir frumleika. Gengur þetta upp? Uppfyllingaratriði voru of mörg. Áberandi var að stjórnmálamenn voru dregnir fram á sviðið í hópum í þeim tilgangi að reyna að sarga út úr þeim peninga. Mér finnst það vera heldur klént.

Sé mér til ánægju að það eru ýmsir rýnar mér sammála í mati á niðurstöðum í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins um daginn. Málefnin sigruðu froðuna. Reynslan sigraði reynsluleysið.

Fór á kvöldfund hjá Samfylkingarfélaginu í Kópavogi í kvöld og spjallaði um sveitarstjórnarmál. Fínn fundur, um 20 manns voru mættir sem ræddu af áhuga um sveitarstjórnarmál frá ýmsum sjónarhornum. Þeir Samfylkingarmenn í Kópavogi halda svona kvöldfundi á hverju mánudagskvöldi árið um kring eða þar um bil. Menn ganga að þessum kvöldfundum vísum og þeir þjappa liðinu saman.

Sá á netinu í dag link á æfingatöflur og besta árangur nokkurra helstu langhlaupara í Skandinavíu. Gaman að sjá hvað æfingaálagið er misjafnt og hvaða árangri menn eru að ná miðað við mismunandi forsendur. Þekki einungis einn, Kim Rasmussen frá Danmörku sem var í WS í sumar og kláraði síðan Spartathlon í haust. Sé að hann á 2.36 í maraþoni, hvorki meir eða minna. En hann er ekki fjallageit. Set linkinn inn í fyrramálið. Hann er http://havstein.dk/index.php/412988

Finnsk listakona í sem býr í Sippo

 Posted by Picasa
Morguninn var ekki skemmtilegur þegar út var litið, ausandi rigning svo ég hélt mig innandyra. Það voru hins vegar ýmsir sem létu það ekki á sig fá heldur sigldu fyrir fullum seglum. Hitti Ölhópinn niður við Víkingsheimili um 11 leytið þar sem þeir börðust áfram í slagviðrinu. Þeir voru búnir að tjúna sig upp gegn illviðrinu, báru því litla virðingu fyrir mönnum sem sátu inni í bíl á meðan aðrir hlupu og lágu ekkert á þeirri skoðun sinni. Tók góðan hring vestur á Eiðistorg í gærkvöldi í afar góðu og kyrr veðri. Vikan hafði verið ódrjúg svo það var annað hvort að gera eitthvað.

Maður rekst stundum á skemmtilegar frásagnir af hlaupurum á netinu og ótrúlegum afrekum. Læt fylgja hér með skemmtilega frásögn frá Ástralíu þar sem brotið var blað í langhlaupasöguna. Þetta er svona álíka og þegar Gordy Aingsleigh hljóp fyrstur manna milli Squaw Valley og Auburn.

Cliff Young har fått et eget 6 dagersløp oppkallt etter seg selv. Hvem var denne karen som nærmest har blitt et nasjonalt fyrtårn i Australia? Noe av grunnen ligger nok i at han var en lavmælt og viljesterk mann som utførte prestasjoner som ikke skulle være mulig.Når han gikk bort i en alder av 81 år i november 2003 ble han også hyllet av den australske statsministeren John Howard. Han fortjente denne offisielle hyllesten.
I mange år ble det avholdt et løp i Australia mellom Sydney og Melbourne. Et løp som vår egen Per Lind prøvde seg på i 1986, men måtte stå av pga skade.I 1988 var Cliff Young påmeldt, men ingen visste hvem han var. Den følgende historien er skrevet av Mark Yarnell og er like fantastisk som den er sjarmerende. Det skapes ikke mange slike!

"In 1988, a guy named Cliff Young showed up to run in the race. Nobody there knew he was planning to run, because, after all, he was 61 years old and showed up in overalls and galoshes over his work boots to join a group of 150 world class athletes. This is a big race-- I'm talking about Nike sponsorship and 18 to 20-year-old men and women who run these endurance races all over the world.
As Cliff walked up to the table to take his number, it became evident to everybody he was going to run. They all thought, "This must be a publicity stunt. Who's backing this guy? He'll drop out in 30 minutes. He's 61 years old. He's wearing rubber galoshes and overalls. This is crazy!"But the press was curious, so as he took his number 64 and moved into the pack of runners in their special, expensive racing gear, the media moved their microphones into Cliff's face, and asked, "Who are you and what are you doing?"
"I'm Cliff Young. I'm from a large ranch where we run sheep outside of Melbourne.
"They said, "You're really going to run in this race?"
"Yeah," Cliff nodded.
"Got any backers?"
"No."
"Then you can't run."
"Yeah I can." Cliff replied. "See, I grew up on a farm where we couldn't afford horses or four wheel drives, and the whole time I was growing up-- until about four years ago when we finally made some money and got a four wheeler-- whenever the storms would roll in, I'd have to go out and round up the sheep. We had 2,000 head, and we have 2,000 acres. Sometimes I would have to run those sheep for two or three days. It took a long time, but I'd catch them. I believe I can run this race, it's only two more days. Five days. I've run sheep for three.

"When Cliff Young started the race with all these world-class athletes, people shouted, "Somebody stop him, he'll die. He's crazy."
They broadcast it on the news immediately, and all of Australia was watching this crazy guy who shuffled along in galoshes.The existing paradigm for the Sydney to Melbourne race was to run 18 hours and sleep six. But Cliff didn't stop after the first 18 hours. He kept running. Every night he got just a little bit closer to the pack. By the last night, he passed them. By the last day, he was way in front of them.
Not only did he run the Melbourne to Sydney race at age 61-- all 600 kilometers, without dying-- he won first place by nine hours and became a national hero!When he finished the race, the media asked him what he thought enabled him to win: Cliff didn't know you were supposed to sleep! His paradigm was chasing sheep, trying to outrun a storm.
Cliff Young, with every conceivable limitation against him, changed the whole paradigm of that race.
Now, nobody sleeps. To win that race, you have to run all night as well as all day. And you know what's really funny? The last three winners of the race have used the "Young shuffle," because it's more aerodynamic than the way the world-class runners were running before!

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Útsýni af hlaðinu á Brekku í Mjóafirði

 Posted by Picasa
Fór á Himnaríki í Hafnarfjarðarleikhúsinu á föstudagskvöldið. Maður fer því miður of sjaldan í leikhús því yfirleitt kemur maður ánægðari út en þegar inn var farið. Himnaríki byggir á skemmtilegri og óvenjulegri hugmynd sem var vel útfærð. Ungir leikarar í bland við aðra eldri og allir stóðu sig með sóma. Mæli með leikritinu ef fólk langar til að æfa hláturtaugarnar eina kvöldstund.

Sat stóran hluta af miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á föstudag og laugardag. Greinilegt er að fólk hefur nokkrar áhyggjur af stöðu flokksins meðal kjósenda og fóru fram um það nokkuð hreinskiptar umræður á föstudagskvöldið.

Fór góðan hring í frostinu í gærmorgun. Á mannbroddum er maður í góðum gír og þarf ekki að hafa áhyggjur af hálkunni. Það er ánægjulegt að heyra þegar maður sest niður með félögum sem maður hittir ekki oft á fundi eins og miðstjórnarfundinum hvað margir eru að stunda markvissa hreifingu af einhverju tagi. Gönguferðir, sund, æfingasali, hjólreiðar og skokk. Menn lýsa því síðan af mikilli ánægju hvað líðanin batnaði þegar 6 - 8 kíló voru fokin. Margir segja að það hafi ekki þurft meira en að venja sig á að borða aðeins minna en þá langaði í. Fá sér einu sinni á diskinn í stað þess að fá sér tvisvar. Það er ekki flóknara.

Ég renni yfir nokkuð margar bloggsíður með reglubundnum hætti. Yfirleitt eru það síður hlaupara og þeirra sem hafa áhuga á stjórnmálum. Bloggheimar hlauparasamfélagsins samanstanda af jákvæðu og skemmtilegu fólki sem deilir væntingum og þrám, sigrum og ósigrum, góðu gengi jafnt sem erfiðleikum með öðrum. Þar styður hver annan og ráð og góðar óskir fljúga á milli manna. Sigur eins gleður annann.

Pólitíska samfélagið er nokkuð öðruvísi, enda eðlilegt. Það er fjölbreytilegra og misjafnara. Margir stjórnmálamenn eru góðir pennar sem gaman er að lesa, enda þótt maður sé ekki alltaf sammála þeim. Margir skrifa reglulega en það er ekki sama að segja um aðra. Össur Skarphéðinsson er góður penni og á oft skemmtilega spretti. Sama má segja um Mörð félaga hans, enda íslenskufræðingur og afar vel lesinn. Kristinn H. Gunnarsson og Hjálmar Árnason halda úti góðum heimasíðum og sama má segja um Jón Einarsson skagfirðing sem skrifar oft af miklum þrótti. Mér finnst einnig gaman að lesa síðu Vefþjóðviljamanna. Þeir eru mjög vel ritfærir og hafa sína áhugaverðu og oft gagnrýnu en yfirleitt málefnalegu sýn á atburði líðandi stundar. Þeir eru ekki bangnir við að gagnrýna sína flokksmenn frekar en aðra og er það ákveðið gæðamerki. Það er helst þegar fer að nálgast ákveðið afmæli að manni þeir vera komnir á grensuna. Tíkin er einnig góð. Stefán Pálsson VG maður er mikill skrifari og oft gaman að glugga í hvað hann er að spökulera.
Svo eru aðrir stjórnmálamenn sem halda úti síðu en skrifa sjaldan og oft lítið. Maður fær á tilfinninguna þegar maður sér heimasíðu sem ekki hefur verið skrifað inn á mánuðum eða misserum saman að viðkomandi hafi ekkert fram að færa. Það er betra að loka slíkri síðu heldur en láta hana liggja afvelta í blogghaganum.
Svo er þriðja kategorían og sú daprasta. Það er sá hópur ástundar ekki mikið málefnalegar umræður um stjórnmál heldur notar bloggsíðuna til að kasta skít í nafngreinda einstaklinga af hvötum sem liggja ekki alltaf í augum uppi. Ef maður hefur fest slíka síðu inni í tölvunni hjá sér en sér síðan hvað þær hafa að geyma þá er lausnin yfirleitt sú að nota delete takkann. Þá fennir fljótt yfir þær.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Stjórn sambandsins í stóru skóflunni við Kárahnjúka

 Posted by Picasa
Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga lauk í dag. Yfir 400 sveitarstjórnarmenn funduðu í tvo daga og gerðu sér glaðan dag kvöldið á milli. Þa er ekki síðri þáttur í svona samkomum a menn blandi geði og spjalli hver við annann.

Tony Blair á í vandræðum. Tvennt er á döfinni. Annars vegar varð hann undir í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Það er ekkert smá mál þegar forsætisráðherra verður undir í þinginu. Sögur segja að hann hafi orðið alveg stjarfur við tíðindin. Hitt er að Sir Christopher Meyer fyrrv. sendiherra Breta í Wasington er að gefa út endurminningar sínar. Lýsingar hans á Blair og liðinu í kringum hann eru ekki beint fallegar. Mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklegwa til um Tony Blair heldur fundist hann vera hálfgerður froðusnakkur. Það hef ég látið fyrr í ljós hér á síðunni.

Á Vísir.is segir að alkunna sé að stjórnmálamenn sem lengi eru við völd geta blindast af stöðu sinni og áhrifum. Þeir hætta að tala við aðra en jábræður sína og raða í kringum sig ráðgjöfum sem segja það sem þóknanlegt er hverju sinni. Þeir telja sig geta leyft sér nánast allt og fyllast drambi gagnvart flokksbræðrum sem andstæðingum. Þetta hefur hent Tony Blair.

Getur verið að þetta hafi hent fleiri stjórnmálamenn sem hafa setið lengi í valdastólum? Hvað veit ég en það er ekki örgrannt um að maður sjái teikn þessa víðar þegar stjórnmálasagan er skoðuð í bráð og lengd.

Flott grein um Laugaveginn í Runners World. Svoa grein er mikilla fjármunavirði að auglýsingagildi. Það taka ekki margir trailar Laugaveginum fram að fjölbreytileika og fegurð.

MRingar útskrifast sl. vor.

 Posted by Picasa

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Hvað er að gerast? Er búið að uppgötva að íslenskir maraþonhlauparar eru til? Þeir hafa til þessa að mestu unnið afrek sín í kyrrþey, því fjölmiðlamenn hafa meðal annars meiri áhuga á ekkifréttum af þeim íþróttamönnum sem stunda íþróttagreinar sem eru í uppáhaldi hjá þeim sem ráða fréttavalinu.

Í gær var umfjöllun um maraþonhlaupara í New York og meira boðað um helgina. Í dag er svo tveggja síðna viðtal við Bryndísi okkar Svavars í Blaðinu. Hún á það svo sannarlega skilið með sín 66 maraþon bak við sig. Hún er góður fulltrúi þess mikla meirihluta sem stundar hlaupin til að styrkja sig andlega og líkamlega, er góður félagi í hlaupunum og er góð fyrirmynd. Hún verður örugglega fyrsti íslendingurinn sem hleypur 100 maraþon. Þá er rétt að slá í hátíð og taka viðtöl.

Ég sló inn Runners World í dag á Google. Þar opnaði ég ítalska síðu sem minntist á Laugaveginn. Stendur ekki Ívar Adolfsson þar við ca 10 mann og eru allir ansi glaðbeittir. Þar er líklega kominn hópurinn sem hljóp í Róm í sumar. Ég skal ekkert fullyrða því ekki skil ég ítölsku.

Síðan sendir Pétur Reim mér tölvupóst í dag og segir mér frá grein í Runners World UK þar sem sé fín grein um Laugaveginn frá því í sumar. Þar ku vera mynd af undirrituðum með einar þrjár föngulegar konur þétt á eftir. Gott að ekki kemur fram að þær hlupu allar á undan mér áður en yfir lauk. Pétur lofaði að gefa mér blaðið ef ég gengi í Sjálfstæðisflokkinn og færi að halda með KR. Ég sagði að ég skyldi skoða þetta með flokkinn en það væru takmörk fyrir öllu og ég gæti bara ekki lagt það á mig að eignast blaðið og kosta því til að fara að halda með KR. Hann ætlar að lána mér blaðið á morgun.

Kláruðum að undirbúa Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. Á morgun mæta yfir 400 sveitarstjórnarmenn til fundar á Nordica Hotel og sitja þar yfir umræðu umsveitarstjórnarmál í tvo daga. Mætingin vex með hverju ári sem líður eftir að við komumst inn á Nordica. Konurnar í vinnunni sátu yfir smá hvítvínslögg undir vinnulok í dag og voru ánægðar með að öllum undirbúningi væri lokið sem er svo sem ekki mikill miðað við það sem áður var. Fyrir nokkrum árum stóðu þær sveittar við í allt að viku við að ljósrita allt sem ráðstefnunni viðkom. Nú er allt sett inn á netið og ljósritun í lágmarki, pappírsfarganið orðið smámunir hjá því sem var, skráning orðin rafræn og ég veit ekki hvað.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Töluverð umfjöllun um New York maraþon í Speglinum í gær og síðan var boðað að það yrði enn meiri umfjköllun um það í helgarsportinu. Gott er það og megi gott á vita ef umfjöllun um almenningshlaup fer vaxandi í útvarpi allra landsmanna. Þeir sem reynt hafa vita hve erfitt hefur verið að fá umfjöllun um hlaup hérlendis. Mig minnir að formaðurinn hafi sagt okkur í haust að á sjö árum hafi útvarpið mætt tvisvar og sagt frá maraþonhlaupum hérlendis og er þá Reykjavíkurmaraþonið undanskilið. Náttúrulega eru þessi maraþon hér heima engin New York maraþon en það er hins vegar alveg ljóst að ef ekki væri haldið úti almenningshlaupum hér heima að áhugamönnum um almenningsshlaup, þá myndu engir (eða alla vega mjög fáir) íslendingar vera til staðar að taka þátt í stórhlaupum erlendis. Sívaxandi fjöldi hlaupara sem hleypur maraþon er uppskera þessa fjölbreytta starfs sem fer fram á vegum grasrótarinnar hérlendis.

Sá mér til ánægju að Hjördís hjá Reykjavíkurmaraþoni er stödd í New York að markaðssetja Reykjavíkurmaraþon og Laugaveginn. Þetta er almennilegt. Vitaskuld eigum við að láta vita af okkur undir fullum seglum.Laugavegurinn er eitt allra fallegasta og sérstæðasta trail hlaup sem fyrir finnst í norður álfu og margir maraþonhlauparar "safna" borgum. Það fer svo eftir því hverjir vekja athygli á sér til hvaða borga þeir fara. Mér finnst að það eigi að setja sér það markmið að innan fimm ára verði þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni orðnir 1000 og 300 hlauparar á Laugaveginum. Það væri flott.

Umræðan um öldrunarheimilin heldur áfram. Það er vel. Það nær náttúrulega ekki nokkurri átt að horfa upp á hluti er varða ummönnun aldraðra eins og viðgangast á Sólvangi svo dæmi sé nefnt. Yrði maður ánægður með að sjá á eftir foreldrum sínum þokkalega frískum inn á stað þar sem þeir gætu haft með sér tvær þrjár myndir og búið? Herbergi væri deilt með fjórum eða fimm óviðkomandi manneskjum. Ég held ekki. Á sama tíma voru stjórnvöld að láta sér detta í hug að láta kostnaðinn við snobbverkefni eins og umsóknina í öryggisráðið fara upp í um 800 milljónir. Ég held að þessum mönnum sé varla sjálfrátt.

UMFR36 gerir klárt fyrir Laugaveginn

 Posted by Picasa

mánudagur, nóvember 07, 2005

Sá úrslitin frá New York marathon í dag. Rúmlega 20 manna hópur tók þátt í hlaupinu og kláraði það með sóma. Brautin er frekar erfið m.a. vegna töluverðra brekkna svo tímarnir eru eftir því. Mig langar til að taka einhvern tíma þátt í því og þá fyrst og fremst sem upplifun með myndavél í hendi. Tíminn skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi.

Fyrir þá sem hyggja á nýjar þrautir í langhlaupum þá sá ég á netinu í dag að Gaddafi Líbyuforseti hefur skipulagt ultrahlaup hjá sér. Það er einn liður í að laða fólk til landsins sem er verið að opna smám saman. Um er að ræða samtals 190 km ferðalag (hlaup) í gegnum eyðimörkina. Gert er ráð fyrir 4 dögum til að klára hlaupið. Þátttakendur bera allan mat á bakinu en fá 4,5 líter af vatni á 20 km fresti. Fyrir áhugasama er slóðin www.libyanchallenge.com. Það er allavega hægt að skoða myndirnar, fá aðeins hugmynd um hvað þarna er á ferðinni og svo er bara að láta sig dreyma.

Las ágætan pistil eftir Bergljótu Davíðsdóttur í DV í dag. Hún fjallar þar um ungdómsdýrkunina hérlendis sem er farin að tröllríða umræðunni á ólíklegustu stöðum. Þetta kom meðal annars skýrt fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þar sem ungur aldur með tilheyrandi reynsluleysi var talinn til mikilla kosta. Bergljót vitnar í viðtal á einhverri stöðinni (líklega Útvarpi Sögu) þar sem Eríkur Jónsson og Reynir Traustason spjölluðu við kosningastjóra GMB. Henni blöskraði orðavalið hjá kosningastjóranum þar sem hún talaði um VÞV eins og elliært gamalmenni, mann sem er 58 ára gamall það ég held. Mig undrar ekki þótt fylgið hafi ekki orðið meira hjá GMB ef talsmenn hans hafa talað um keppinautinn af sama hroka og Bergljót vitnar til í pistlinum. Það er orðið svo víða að margir vilja fá allt upp í hendurnar fyrir að vera eitthvað en ekki fyrir að hafa unnið til þess.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Fór niður í Laugar í morgun og hitti vinina. Það var hált úti svo ég tók mannbroddana með. Það veitti ekki af því því það voru víða hálkublettir og vissara að vera vel skóaður svo maður flygi ekki á hausinn. Líklega kláruðust um 18 km en ég er ekki alveg viss því það voru farnar ýmsir útúrdúrar.

Kláraði svo ljósmyndanámskeiðið hjá Pálma eftir hádegið. Þetta var fínt námskeið og marg gagnlegt sem hann fór yfir. Að lokum sýndi hann okkur hvernig hægt er að setja upp hræódýrt heimastúdío til að geta tekið upp portrett myndir með ásættanlegum gæðum.

Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins lágu fyrir í morgun. Vilhjálmur vann stórsigur, miklu stærri en skoðanakannanir gáfu til kynna. Skoðanakannanasérfræðingar mættu spyrja sig hvað fór úrskeiðis hjá þeim. Á föstudaginn var t.d. birt niðurstaða úr einhverri netkönnun þar sem menn gátu kosið á netinu. Alls tóku yfir 4000 aðilar þátt í þessu. Niðurstöður þessa var að Gilli myndi vinna með töluverðum mun. Mogginn sá vissulega að sér og tók þessa frétt strax út af netmogganum en Vísir.is lét hana standa standa inni eins og um væri að ræða niðurstöður úr alvöru skoðanakönnun. Manni blöskrar stundum virðingarleysið sem alvöru skoðanakönnunum eru sýndar með svona rugli.

laugardagur, nóvember 05, 2005

Fór á námskeið í ljósmyndun í dag til Pálma Guðmundssonar ljósmyndara. Hann kennir í lágreistu húsi við Völustein í Mosfellsbæ, eiginlega út í sveit. Húsið er snyrtilegt en án alls íburðar, minnir nokkuð á vel gert virkjunarhúsnæði. Á stéttinni fyrir utan er hins vegar kunnuglegt merki greypt í stéttina. Í þessu látlausa húsi sem er eiginlega út í sveit í Mosfellsbæ voru Atlanta milljarðarnir búnir til. Það þarf ekki alltaf marmara og dýrasta harðvið í umgjörðina til að lánast í viðskiptum. Pálmi er snjall ljósmyndari og kann sitt fag vel. Það er ótrúlegt hvað hann getur sett mann vel inn í notkun myndavéla á ekki lengri tíma. Það er vel þess virði að setja smá pening í svona námskeið til að læra vel á góða vél sem býr yfir allt að því óendanlegum möguleikum.

Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru ljós. Vilhjálmur hefur unnið glæsilegan sigur. Það má segja að þarna hefur innihaldið unnið yfir umbúðunum. Það er ekki nóg að hamra á því að maður sé ungur og eigi framtíðina fyrir sér þegar lítið annað fylgir með. Sem betur fer hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins séð í gegnum þetta og valið skynsamlega. Mér sýnist listinn vera fanta sterkur og valist eins vel á hann og mögulegt var. Frambjóðandinn í 8. sæti kemur t.d. sterkur inn af ýmsum ástæðum.
Á undanförnum vikum hefur undirbúningur fyrir prófkjör Sjálfstæðismanna verið fyrirferðarmikill í fjölmiðlum. Spenna er í loftinu bæði vegna þess að það skiptir miklu hver leiðir flokkinn og eins vegna þess að aðstæður hafa breyst í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í vor og verða nú a.m.k. einir 5 listar sem koma til með að keppa um hylli kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkt og kemur líklega með að hafa sterkari stöðu borginni en hann hefur haft síðan um 1990. Mér finnst kosningar af hinum góða, þær eru grundvöllur lýðræðisins og í kosningum getur almenningur haft sín áhrif. Það gerist stundum að niðurstöður þærra koma mjög á óvart eins og þegar Geir Hallgrímsson formaður Sjálfstæðisflokksins lenti í 7. sæti í prófkjöri árið 1982. Þá skalf jörðin á ákveðnum stöðum.
Sveinn og fimm skólabræður hans á fyrsta ári í HÍ ákváðu í fyrradag að fara í skipulega úttekt á frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru allt mjög skynugir strákar sem hafa sínar sjálfstæðu skoðanir en þurfa ekki að líta í kringum sig til að sjá hvaða afstöðu aðrir taka né að þeir selji skoðanir sínar fyrir bjórglas eða pizzu. Þeir tóku allan eftirmiðdaginn í þetta og hittu eina sjö frambjóðendur á skrifstofum sínum. Það tóku allir þeim vel og ræddu við þá um hugarefni sín og baráttumál. Að þessari rannsóknarferð lokinni voru þeir algerlega sammála um hvern þeir vildu sjá sem væntanlegt borgarstjóraefni flokksins og það var ekki sá yngri sem er svo ferskur að eigin sögn. Það er alls ekki ólíklegt að einhverjir taki sig til og gangi í flokkinn til að fylgja skoðun sinni eftir. Hvort þeir endist í honum er önnur saga. Þannig er nú það.

Lauk við að horfa á Schindlers List í gær. Þetta er löng mynd eða a.m.k. þrír tímar en hún er hverrar mínútu virði. Ég hef ekki séð hafa áður og hún verður enn áhrifameiri vegna þess að við heimsóttum Krakow, gyðingahverfið (gettóið) og Auswich og Birkenau í vor. Í vor sáum við sviðið og umhverfi atburðanna, í myndinni Schindlers list er sýningin sett á sviðið og raunveruleikinn leiddur fram. Það er eiginlega ekkert hægt að segja um myndina, þau orð sem maður ræður yfir verða einhvern veginn svo hjáróma og innantóm að það er best að segja ekkert. Sjón er sögu ríkari.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Vorkvöld við Gróttu

 Posted by Picasa
Las ágætt viðtal við Sigrúnu Júlíusdóttur prófessor í Blaðinu í gær. Það fjallaði um afleiðingar ofgnóttar og ofdekurs. Foreldrar vilja eðlilega flestir að börn sín verði hamingjusöm og þeim líði vel en án þess þó að það sé látið allt eftir þeim eða að ofdrekra þau. Sigrún segir að ofdekur án skynsamlegra marka geti haft skaðvænlegar afleiðingar á barnið og hindrað það í að öðlast mikilvæga færni í að geta þrifist sem venjulegt fullorðið fólk. Prófessorinn segir að bæði vanræksla og ofræksla eigi það sameiginlegt að hafa slæm áhrif á fólk. Ofræksla er að veita of mikið, sýna undanlátssemi og setja ekki mörk þegar við á. „Íslendingar eru nýríkir og það er einkenni nýríka að vita ekki hvað á að gera við peningana. Ofdekur er því sífellt algengara og tilhneigingin til að bæta mikilvægar þarfir með eftirlæti“ Samkvæmt Sigrúnu geta afleiðingar ofdekurs verið alvarlegar. Hún segir að „Ofdekur og ofgnótt í æsku leiðir til þess að börnin verði eigingjarnir fullorðnir einstaklingar, þeir geti ekki beðið og þurfa að fá allt strax enda vanir því“ Aðspurð að því hvort við megum eiga von á því að í framtíðinni verði margir eigingjarnir einstaklingar á ferli segir Sigrún að það sé viss hætta á því. „Í raun sjáum við þegar merki þess í samfélagi okkar, fólk er orðið eigingjarnara og hugsar meira um sinn eigin skammtímahag“

Svo mörg voru þau orð.

Sá í DV í dag skemmtilega upprifjun Vigdísar Grímsdóttur frá Menningarhátíð á Raufarhöfn. Í síðustu var haldin menningarhátíð í þorpinu með dagskráratriðum daglega alla vikuna. Myndir frá hátíðinni eru á vefsíðu þorpsins og er gaman að renna yfir þær og sjá kunnugleg andlit. Því miður er of langt að skreppa eina kvöldstund þangað en það hefði verið gaman. Vigdís var með upplestur eitt kvöldið og síðan var Kaldaljós sýnt. Hún varð síðan veðurteppt þannig að hún fékk allan pakkann. Hún meðal annars veltir vöngum yfir því í pistli sínum hvers vegna fjölmiðlum finnst ekki það fréttnæmt sem gerist jákvætt á svona litlum stöðum en síðan er sífellt japlað á því sama sem gerist nær þungamiðjunni. Síðan stendur ekki á fjölmiðlunum að mæta á staðinn ef eitthvað gerist sem verra þykir á þessum stöðum og þá oft gert meira úr því en efni standa til. Hún minnist sérstaklega á sönginn hjá Obbu litlu sem nú er orðin 12 ára gömul og segir segir að hann muni fylgja henni héðan af. Ég man eftir Obbu sem lítilli 7 ára gamalli stelpu þegar ég flutti þaðan. Eitt af því sem hefur einkennt Raufarhöfn er mikið tónlistarlíf og gott söngfólk. Sérstaklega eru það Sveinungarnir sem eru þar framarlega í flokki.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Tók góðan hring í hverfinu í kvöld. Það eru engin sérstaklega löng hlaup á döfinni þessa dagana maður svona heldur sér við enda langur tími til stefnu. Nóg um það.

Skoðaði í dag hvað sá góði maður Dean Karnazes borðar. Það hlýtur að vera sérstakt til að halda út það mikla álag sem hann leggur skrokkinn í. Fyrst nefnir hann grillaðan lax. Hann segist lifa á laxi. Fyrir utan að vera mjög orkuríkur er hann fullur af omega 3 fitusýrum sem eru bæði góðar fyrir heilann og halma meiðslum og stirðleika. Síðan etur hann próteinríkan Bear Naked Granola og venjulega yougurt. Pedialute orkudrykk sem er ekki eins sykurríkur og Gatorate. Dökkt rúgbrauð er brauðið. Epli og Grape sem eru bæði slow carb. Maranatha almond smjör notar hann á brauðið. Ekki veit ég hvaða smjör það er en það ku vera hlaðið nauðsynlegum fitusýrum. Síðan segist hann eta mikið broccoli sem inniheldur að sögn meira C vítamín en appelsínur, þrisvar sinnum meiri trefjar en sneið af hvítu brauði og er síðan mjög kalkríkt. Svo er þrennt að lokum til að varast: Epla og appelsínusafar, orkubitar og hefðbundið morgunkorn.

Hlustaði á Ágúst Einarsson prófessor á sunnudaginn. Ég hef nokkuð lengi haldið upp á Ágúst sem öflugan fræðimann og mann sem þorir að setja fram öðruvísi hugmyndir. Ég kaus hann sem rektor og tel að HÍ hefði haft gott af því að hafa hann í forsæti. Nú var Ágúst að kynna nýja bók. Hann fór yfir þær skoðanir sínar að íslendingum ætti að fjölga upp í 3 - 10 mjilljónir. Þá fór mig að sundla. Ég hef stunduð hugsað um það hvernig landið liti út ef í því byggju 1 - 1 1/2 milljón. '
Eg verð að segja að sú framtíðarsýn hugnast mér ekki ákaflega vel. Hvað þá allt að 10 milljónir. Ég vona svo sannarlega að til þess komi ekki. Það má vera að þetta sé útnesjaháttur að hugsa svona en ég hef þá trú að það myndu skapast fleiri vandamál en leyst yrðu við slíkar grundvallar breytingar á samfélaginu. Síðan eru náttúrulega praktisk spursmál. Grundvallaratriði er í hverju samfélagi að það fólk sem vill og getur unnið hafi vinnu, vinnu sem skilar arði. Það er ekki sjálfgefinn hlutur að 10 milljón manns geti haft atvinnu hérlendis. Mér sýnist nágrannalönd okkar eiga nógu erfitt með að halda atvinnuleysi undir 6 - 8%. Mér kemur í hug gömul vísa í þessu sambandi:

Yrði minna mótlætið
mest sem tvinnar voða
Ef menn kynnu í upphafi
endirinn að skoða

Siglt undir Golden Gate

 Posted by Picasa
Ég er stundum að pikka í ríkisrekna fjölmiðla. Ég er ekki að því vegna þess að mér sé eitthvað ver við þá en aðra fjölmiðla heldur vegna þess ég geri meiri kröfur til þeirra en annara því ég er skyldugur til að borga þeim peninga og get ekki komist undan því. Þess vegna er ég pirraðri þegar ég er ósáttur við eitthvað sem kemur frá Efstaleytinu heldur en ef það kemur frá öðrum. Tvö nýleg dæmi. Þeir sem lentu í hremmingunum í Húnavatnssýslunni yfir helgina hafa tjáð sig um það að þeim finnst ríkisútvarpið ekki hafa sinnt almannavarnarhlutverki sínu við þessar aðstæðu með því að vera með virka þátttöku í að leiðbeina fólki og kynna aðstæður fyrir þeim sem þarna voru á ferðinni. Aðstæður voru vægast sagt slæmar, fjöldi fólks á ferðinni og við slíkar aðstæður á útvarpið að grípa inn og vera sýnilegt (heyranlegt). Manni hefur nefnilega verið sagt að almannavarnahlutverk ríkisútvarpsins sé ein af forsendum þess að það sé þvinguð áskrift að því. Ég er hins vegar ekki búinn að gleyma jarðskjálftunum árið 2000.

Hitt dæmið sem ég var pirraður út af og það öllu meir var Spegillinn í gær. Vinnufélagi minn sagði mér frá umfjöllun Spegilsins í fyrradag um samskipti Landsvirkjunar og hreppsnefnd Gnúpverjahrepps um virkjanaframkvæmdir á Þjórsárverasvæðinu. Jón Kristjánsson settur umhvfisráðherra felldi úrskurð árinu 2003 um fyrirkomulag virkjana. Sumir voru sáttir, aðrir ósáttir. Í gær var síðan viðtal í Speglinum við Friðrik Sófusson forstjóra Landsvirkjunar um málið líklega í kjölfar umfjöllunarinnar í fyrradag. Hjá Friðriki kom fram að skoðanir væru skiptar um málið í hreppnum og væru sumir sammála afstöðu hreppsnefndar en aðrir ekki eins og fréttamaðurinn hefði komist að ef hann hefði leitað eftir afstöðu íbúanna. Þá kom það sem mér þótti athyglisvert. Fréttamaðurinn sagðist eingöngu hafa viljað tala við þá sem væru á móti framkvæmdum. Þá er þetta ekki lengur orðin hlutlaus umfjöllun þar sem með og mótrök er leidd fram heldur einhliða áróðursþáttur þar sem rök annars aðilans eru markvisst leidd fram. Samkvæmt mínum skilningi þá er það ekki hlutverk ríkisútvarpsins að vera með einhliða áróðursþætti í svona málaflokkum, heldur að styðja að opinni og upplýstri umræðu. Annað hvort er ég að misskilja hlutina eða að viðkomandi fréttamaður hefur ekki alveg fundið sporið.

Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allann misskilning að ég er talsmaður þess að allrar varkárni verði gætt við virkjunarframkvæmdir á Þjórsársvæðinu. Fólk sem ég þekki vel og hefur víða varið hefur sagt mér að það séu fá svæði ef nokkur á landinu sem jafnist á við Þjórsárverin.

Vetrarfrí í grunnskólum. Til hvers? Ef vetrarfrí eru nauðsynleg hvers vegna geta þá sumir skólar tekið ákvörðun um að hafa engin vetrarfrí og klára bara fyrr á vorin? Miður nóvember er ekki sá tími sem er hefð fyrir að foreldrar barna á grunnskólaaldri labbi úr vinnu og taki sér frí dögum saman.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Sá í gær að Dean Karnazes hefði unnið enn eitt ótrúlega afrekið. Hann hljóp 350 mílur í einum strekk og var 80 klst og 44 mín að því, non stopp og án þess að sofna. Hann hljóp í kringum San Fransisco flóa, ekki þekki ég nákvæmlega leiðina til að geta lýst henni en hún er löng. Innifalið í hlaupinu var hið 199 mílna langa San Fransisco relay race. Á þriðja sólarhring fór hann að sjá sýnir að sögn, bæði horfði hann á sjálfan sig hlaupa og einnig sá hann fullt af dýrum í kringum sig, sem engir aðrir sáu!! Hann framkvæmdi þetta afrek sitt dagana 12. - 15 október sl. Þessi löngu hlaup sem hann hefur hlaupið 200 mílur og þar yfir eru yfirleitt gerð sem fjársöfnunaraðferð vegna sjúkra smábarna. Svo var einnig í þetta sinn.

Horfði á Kastljós með nokkrum áhuga í gærkvöldi. Ekki það að ég hefði sérstakan áhuga á efninu heldur vegna þess að ég skildi því sem næst ekkert af því sem viðmælandinn sagði og talaði hann þó íslensku. Það var rætt við listakonu sem fékk einhver verðlaun fyrir verk sín. Kannski er maður svona slow að maður skilur þetta ekki eða er listafólkið á einhverju allt öðru tilverustigi en almennur pöpullinn. Hvað veit ég, en alla vega veit ég að ég skildi því sem næst ekkert af því sem konan sagði og er hún þó af Auðunnarstaðaættinni eins og undirritaður.