miðvikudagur, maí 30, 2007

Sit her i anddyrinu á hótel Garbía í Calella á Spáni. Torpid tilheyrir Costa Brava strandlengjunni. Fór hingad á fostudaginn med 3ja flokk Víkinga i handbolta en teir voru ad taka tátt í hvítasunnumótinu hér. Tad voru um 1000 manns sem tóku tátt í mótinu. Víkingar stódu sig vel, topudu namlega einum leik fyrir lidinu sem vann teirra aldursflokk. Teir voru hundsúrir tegar teir horfdu á úrslitaleikinn yfir tví ad teir voru ekki nidri á gólfinu sjálfir. Eftir mótid hofum vid verid ad túrista svolítid. Verdum á strondinni á morgun en forum aftur til Barcelona á fostudaginn adur en vid komum heim. Vid fórum til Barcelona á tridjudaginn og tad var mikil upplifun fyrir strákana ad fara á Nýja voll, heimavoll Barcelona. Magnadur stadur. Barcelona er flott borg eins og allir vita sem tangad hafa komid. Hef ekki komid tangad sídan 1984 svo ad tad var pa tide.

föstudagur, maí 25, 2007

Þröstur á legsteini Óla Ket.

Heyrði í fréttum nýlega að það voru birtar niðurstöður könnunar frá hinu virta rannsóknasetri í jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Háskólinn á Bifröst hefur helst getið sér orð í jafnréttisumræðunni þegar fyrrverandi rekstor skólans upplýsti þjóðina á sínum tíma um það að kvennemendur frá skólanum væru einungis hálfdrættingar í launum miðað við karlnemendur frá honum eftir að út á atvinnumarkaðinn var komið. Að mínu viti segir þessi fullyrðing meir um skólastarfið en samfélagið en svo kom reyndar í ljós að fullyrðing rektorsins byggði á einhverri könnun sem var meir og minna bull, en niðurstöðurnar þóttu falla að ákveðinni umræðu og því voru þær látnar flakka.
Nú hafa vísindamenn við rannsóknastofnunina á Bifröst setið yfir ársreikningum 100 stærstu fyrirtækja landsins og talið karla og konur í stjórnum þessara fyrirtækja. Niðurstaðan var að hlutfall kvenna í stjórnum þessara fyrirtækja var miklu lægra en hlutfall þeirra af þjóðinni. Þetta fellur vel að kenningum ýmissa róttækra feminista sem sjá fyrir sér alheimssamsæri karla við að kúga konur. Þeim er til dæmis ekki hleypt í neimum mæli að stjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins. Hjá þessum fyrirtækjum gildir reyndar sú einfalda regla gildir að eigendur fyrirtækjanna skipa í stjórnir þeirra. Þeir velja væntanlega þá sem þeir vilja helst starfa með og telja að standi best vörð um hagsmuni sína.

Þessi niðurstaða vísindamannanna vekur hjá mér allt aðrar spurningar. Hvers vegna eru fleiri karlar í fyrirtækjarekstri en konur? Hafa konur til dæmis ekki eins mikinn áhuga á rekstri fyrirtækja eins og karlar? Eru konur ekki eins áhættusæknar og karlar? Kjósa konur störf þar sem skipulag starfstímans er vitað fyrirfram en ekki eins óreglulegt og við rekstur fyrirtækja. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að þetta séu álitnar valid spurningar í huga þeirra sem eru sífellt að henda sprekum á þann eld sem kyndir undir þeirri umræðu í samfélaginu að konur séu kúgaðar af körlum.

Síðan getur maður farið að spyrja sig spurninga hvaða gagn það gerir samfélaginu að fjöldi mannvikna fer í að liggja yfir ársreikningum fyrirtækja og telja út kynjahlutföllin sí stjórnum þeirra. Af því að ég aðhyllist jafnrétti og jafnstöðu kynjanna í samfélaginu þá held ég að að gerði samfélaginu meira gagn að það yrði lagst yfir það hvers vegna sjálfsmorðstíðni er miklu hærri hjá ungum strákum en ungum stúlkum? Af hverju detta hlutfallslega miklu fleiri strákar út úr skólum en stúlkur? Ég tel eðlilegt að reynt sé að ná jafnstöðu kynjanna á þessum sviðum með því að greina og komast fyrir þann vanda sem leiðir til þess að lífið sé svo erfitt hjá ákveðnum hluta ungra stráka að það hafi fyrrgreindar afleiðingar.

Það fellur hins vegar betur að þjóðfélagsumræðunni eins og hún er í dag að einhverjir dundi sér við að telja út hlutfall kynjanna í fyrirtækjum. Síðan er á næsta ári hægt að telja aftur og setja þá upp línurit um þær breytingar sem hafa orðið í nefndum hlutföllum. Árið þar á eftir er hægt að lengja línuritið um enn einn punkt og sv koll af kolli. Framtíðin er tryggð.

Er að fara til Spánar síðar í dag með hóp af strákum úr Víking sem ætla að taka þátt í handboltamóti yfir hvítasunnuna í litlum bæ skammt frá Barcelona. Þetta er vikuferð og eftir mótið verður hægt að túrista svolítið. Verður vafalaust skemmtilegt.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Formaður Framsóknarflokksins sagði af sér í dag. Í sjálfu sér eðlileg ákvörðun í þeirri stöðu sem hann var í. Svona í forbífarten er varla hægt að segja að hann hafi rætt þessa ákvörðun sína í hópi trúnaðarmanna fyrirfram. Trúnaðarmennirnir voru nú ekki meiri trúnaðarmenn en svo að einhvern þeirra hljóp með þetta spjall beint í fjölmiðla. Það hlýtur að vera hreint óþolandi staða fyrir hvaða forystumann sem er að geta ekki rætt viðkvæm mál án þess að sjá þau komin í fjölmiðla um leið og dyrnar lokast á eftir mönnum út af fundinum.
Jón tók líklega við verra búi en hann hafði getað ímyndað sér fyrirfram þegar hann tók að sér formennsku í flokknum. Hann hafði því ekki mörg spil á hendi þegar gengið var til kosninga.

Brotið sverð og rofinn skjöld, sundraða hjörð og syndagjöld.

Ég hef minnst á það á samkomum Framsóknar að það sé mikil hætta á að óbreyttu að hann hljóti sömu örlög og Centern í Svíþjóð. Fyrir um 30 árum var Centern forystuflokkur í sænskum stjórnmálum með 25% fylgi. Nú lafir hann í 5 - 7% og virðist hafa skapað sér þau örlög að vera smáflokkur sem á mest fylgi á landsbyggðinni. Flokkur sem nær ekki fótfestu þar sem 60 % búanna búa verður aldrei sterkur. Það er ekki flóknara. Til að höfða til fólks verður flokkur að skapa sér sérstöðu, jákvæða sérstöðu en ekki neikvæða. Hann verður að hafa skýra stefnu, vita hvert hann vill fara. Að síðustu þarf hann á að halda öflugum formanni sem sameinar hjörðina en sundrar henni ekki. Það hefði verið gott að hafa Jón sem formann áfram þannig að hann hefði fengið alvörutækifæri til að efla flokkinn en svona er þetta.

Hjólaði 25 km í dag. Fínn túr.
Mér finnst ekki skynsamleg stefna hjá stjórnmálaflokki að gefa það út fyrirfram hvert skuli vera hlutfall kynjanna í ríkisstjórn ef ákveðinn flokkur komist til valda í ríkisstjórn. Þá er formaðurinn bundinn af öðru en hæfileikum, þekkingu og þekkingu þingmanna. Við slíkar aðstæður er sá möguleiki fyrir hendi að það skapist slíkt andrúmsloft að litið sé svo á að einhver ráðgherrann sé valinn til ráðherraembættis á öðrum forsendum en eigin verðleikum. Það er ekki gott vegarnesti.

Það var einkennileg fréttin á Stöð 2 í gærkvöldi um að formaður Framsóknarflokksins hefði rætt það í innsta hring samflokksmanna að hann væri að velta fyrir sér hvort hann ætti að hætta sem formaður í kjölfar kosningaúrslitanna. Slíkar vangaveltur eru ekki óeðlilegar í ljósi stöðunnar, en ef menn geta ekki rætt slíka hluti eða aðra álíka í innsta hring trúnaðarmanna án þess að það sé komið í fjölmiðla, þá er eitthvað meir en lítið að.

Í kvöld var frétt á Stöð 2 um dýraplageri í dýragörðum í Kína. Þar var lifandi dýrum hent fyrir villidýr og síðan skemmtu gestir dýragarðsins sér við að horfa á villidýrin slíta þau sundur lifandi. Eftir að hafa lesið bókina um Maó þá finnst mér þetta í sjálfu sér ekki vera neitt óeðlileg skemmtiatriði miðað við söguna. Á dögum Maós voru álíka skemmtanir haldnar með gríðarlegum fjölda áhorfenda en þá voru það lifandi manneskjur sem voru fórnarlömbin. Tugum þúsunda var smalað saman á torg eða opin svæði og síðan voru meintir svikarar, njósnarar, bókareigendur eða bara einhverjir leiddir fram. Þar voru þeir pyntaðir, niðurlægðir og oftar en ekki drepnir fyrir framan fjöldann. Þannig fékk almenningur að sjá hvað beið hans ef hann hlýddi ekki yfirvöldum í einu og öllu án umhugsunar. Ef menn mættu ekki á slíkar samkomur voru það álitin svik við flokkinn og þá gátu viðkomandi búist við að vera á pallinum næst. Sama var ef menn öskruðu ekki eins og fjöldinn. Það var merki um sviksemi við flokkinn og við því var mjög einföld refsing. Með þessum aðferðum og öðrum álíka viðurstyggilegum tókst Maó að brjóta fjöldann undir sig þannig að hann hlýddi umhugsunarlaust.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Ég keypti mér þykka bók í Kaupmannahöfn um daginn eins og ég hef sagt frá. ég lauk nýlega við hana. Hún heitir Maó, Den ukendte historie eftir Jung Chang, rithöfundinn sem skrifaði Villtir Svanir, sögu þriggja kynslóða í Kína.
Hér áður vissi maður um Maóismann, heyrði um rauða kverið, rauðu varðliðana, menningarbyltinguna og þekkti eitthvað af Maóistum en engu að síður vissi maður ekkert um hvað þarna lá á bak við. Maó var formaður í Kína og var blessaður aftan og framan. Síðan fór aðeins að falla kusk á hvítflipann þegar fjórmenningaklíkan var tekin og drepin en sama var, maður vissi ekki neitt.
ég verð að segja það að þessi bók er ein sú óhuggulegasta sem ég hef lesið. Í henni er fjallað um æfi Maós, hvernig hann komst til valda í Kína og hvernig hann hélt völdum. Þeir fjöldamorðingjar sem maður hefur vitað helsta s.s. Stalín og Hitler eru eins og kornabörn í samanburði við Maó. Alls er talið að um 70 milljónir manna hafi látið lífið af hans völdum á friðartímum. Þá eru ótaldar þær milljónir sem létu lífið í hernaði s.s. í innanlandsátökum og í Kóreustríðinu svo dæmi séu tekin. Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa innihaldi bókarinnar og þeim þjámningum sem kínverska þjóðin gekk í gegnum af völdum Maó, óhugnaðurinn er þvílíkur. Mannslífin voru minna virði en skíturinn undir fótum hans. Það olli kaflaskilum í sögu Maós þegar hann áttaði sig á því hve voldugt verkfæri misþyrmingar, pyntingar og manndráp voru. valdastaða hans byggðist á þvi að enginn var öruggur. Hann hleypir rauðu varðliðunum, ómenntuðum heilaþvegnum skríl, á embættismenn og alla þá sem höfðu eitthvað meiri þekkingu en blásnauður og óupplýstur almúginn, í þeim tilgangi að hreinsa út nánustu samstarfsmenn sína. Stærsta markmið Maós var að gera almenning að karakterlausum réttindalausum vinnuþrælun sem hefðu ekki nöfn heldur númer og væru alfarið á valdi ríkisins. Pol Pot í Kambódíu var dyggur lærisveinn Maós.
Það verður engu breytt héðan af í sögu Kína eins og hún var undir Maóismanum og örlögum þess fólks sem leið ólýsanlegar þjáningar á þessum tíma verður ekki breytt en það minnsta sem hægt er að gera er að vekja athygli á þeim óhugnaði sem átti sér stað í Kína á þeim árum sem Maó var að brjótast til valda í Kína og ríkti þar.
Ólafur Teitur Guðnason hefur þegar þýtt bókina og hún bíður nú útgáfu í handriti. ég mæli þeð því að fólk lesi þessa bók þegar hún verður gefin út.

Fór í viðtal við Sigmarí kastljósinu í kvöld. Gaman að fá tækifæri til að spjalla um hlaupin og sá kannski einhverjum fræjum. Hlaupakúltúrinn er stöðugt vaxandi verður gaman að sjá hvert þetta leiðir. Leist reyndar ekkert á þann félagsskap sem ég var settur í í Kastljósinu þegar ég horfði á það í heild sinni en það er annað mál.

laugardagur, maí 19, 2007

Var að heyra í Berki. Hann er nýkominn í mark í 100 km hlaupinu í Odense og lauk því á 10.24. Hann varð í 10. sæti af þeim sem luku hlaupinu. Veit ekki hve margir kláruðu en rúmlega 30 fóru af stað í morgun. Það var dálítið heitt yfir miðjan daginn sem hafði sín áhrif. Börkur lagði nokkuð hratt út og var maraþontíminn hjá honum 3.52. Hann hefur þá verið á um 4.30 á 50 km. Seinni hlutinn var erfiðari og þá fór hitinn einnig að segja til sín. Börkur hlóð fyrir hlaupið með því að borða tvöfaldan steikarskammt í gærkvöldi. Skynsamlegt. Börkur er fimmtándi íslendingurinn sem klárar 100 km hlaup og örugglega ekki sá síðasti. Til hamingju.

Sýningin Mannlíf í Fókus var opnuð í Ráðhúsinu kl. 14.00 í dag að viðstöddu fjölmenni. Gaman að taka þátt í svona löguðu. Mæli með því að fólk kíki við ef það er á ferðinni í miðbænum.

Hér á árum áður framleiddu danir nokkrar ljósbláar myndir sem voru kallaðar rúmstokksmyndirnar. Marsurka paa sengekanten hét sú fyrsta. Tvíræðar myndir sem sýndu ekki mikið. Urðu mjög vinsælar. Þegar þessi uppspretta var þurrausin fóru Danir að framleiða stjörnumerkismyndirnar. I Tyrens Tegn, I Jomfruens tegn og einhverjar fleiri. Þær voru meira í átt við hardporr en urðu einnig mjög vinsælar. Mér flugu þessar dönsku kvikmyndaseríur í hug þegar maður sér að létt pornógrafiskar örsögur eru vinsælasta bloggið sem stendur. Svona "hálf sex" sögur. Þetta sýnir hvað fólk virðist hafa mikla þörf fyrir að lesa texta af þessu tagi. Skiptir þá engu máli þótt Snow Gathering ráðstefnunni hafi verið meinað að koma til landsins í vetur. Fróðlegt verður að sjá hvort skrif af þessu tagi þróist eins og dönsku kvikmyndirnar úr svona "hálf sex" framsetningnu yfir í texta sem er "rúmlega sex".

Talandi um dani þá held ég að það væri óhugsandi að danski sócialdemokrataflokkurinn myndi mynda ríkisstjórn með hægri flokkunum þar í landi. Það er einfaldlega ekki hægt frekar en að blanda saman olíu og vatni. Sama máli gegnir um jafnaðarmannaflokka í Noregi og Svíþjóð.

föstudagur, maí 18, 2007

Hef ekkert hlaupið síðan á hinni helginni. Ætla að taka tvær vikur í hvíld. Fer að hreyfa mig á helginni, hjóla og hlaupa. Mér fannst skynsamlegt að hvíla fæturnar vel til að það séu engir draugar í lestinni. Það er ekki aftur tekið ef eitthvað fer úrskeiðis. Nú er D dagur hjá berki á morgun. Trúi að hann sé kominn með smá fiðrildi í magann. Sé að það spáir þokkalega í Odense á morgun, 17 stiga hita og vindkalda. Það rignir í dag þannig að þetta lítur betur út á morgun.

Fór yfir í Samskipti í Kópavogi seinnipartinn að sækja myndir sem ég hafði beðið þá um að prenta út og setja upp á frauð. Mæti niður í ráðhús kl. 8.00 í fyrramálið því framan af morgninum er verið að setja upp myndir fyrir myndasýninguna "Mannlíf í Fókus" sem verður opnuð kl. 14.00 á morgun. Það er Fókus, félag áhugaljósmyndara, sem stendur að sýningunni. Gaman að taka þátt í svona uppákomum.

Það veltur á ýmsu eftir kosningar. Skil vel að mönnum hafi þótt ríkisstjórn sem styðst einungis við eins þingmanns meirihluta vera ótraust. Það er varla gerandi að leggja af stað með slika stjórn. Þeir sem muna lengra aftur eða ca til ársins 1982 muna t.d. eftir þegar Guðrún Helgadóttir hrópaði á Lækjartorgi á útifundi að stjórnin væri fallin ef Gervasoni fengi ekki landvistarleyfi. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hlustuðu á þetta inn um gluggann á stjórnarráðinu. Gervasoni var einhver frakki sem flæktist hingað og var að reyna að koma sér undan herþjónustu. Þá var ríkisstjórnin með afar nauman meirihluta og hver og einn stjórnarþingmaður hafði í raun vald til að setja henni úrslitakosti. Óþolandi staða.

Skrítin fyrirsögn í Mogganum í morgun á íþróttasíðu. Þóra Helgadóttir varði fjögur (eða fimm) víti var fyrirsögnin. Maður vissi ekki hvað var að gerast. Skýringin var sú að England vann Ísland 4 - 0 í landsleik í fótbolta. Þegar leikurinn var búinn fóru leikmenn að skemmta sér við að skjóta á mark hver hjá öðrum. Þóra varði nokkur skot. Það var síðan orðið aðalfyrirsögnin en úrslitin falin einhversstaðar inni í texta. Hálf kjánalegt.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Var að senda Torfa í hlaup.is auglýsingu um sex tíma hlaupið sem UMFR36 stendur fyrir. Það verður haldið 15. september n.k. á Nauthólshringnum eins og í fyrra. Nú verður einnig boðið upp á 3ja tíma hlaup sme hentar þeim sem hafa hlaupið 1/2 maraþon og maraþon en eru eitthvað bangnir við sex tímana. Þetta hlaupaform er að verða æ vinsælla í nágrannalöndunum og eru t.d. þegar farnar að raðast inn tilkynningar í Eidsvollshlaupið sem verður haldið í Noregi í september.

Börkur er skráður í 100 km hlaupið sem verður haldið í Odense þann 19. maí n.k. Ég sé ekki betur á heimasíðunni en að þetta verði í síðasta sinn sem þeir halda þetta hlaup. Það eru 34 þátttakendur skráðir sem er það sama og í fyrra. Þeir hafa haldið hlaupið í 10 ár og eitt árið fóru þátttakendur yfir 100 (bæði í 100 km og 60 km). Synd ef þetta verður því þetta er gott hlaup og þægilegt fyrir okkur að taka þátt í því héðan að ofan. Framboðið hefur hins vegar aukist og svona er þetta.

mánudagur, maí 14, 2007

Foss í Mjóafirði vestri.

Kosningar eru búnar og nú hefst seinni kapítulinn sem er stjórnarmyndun. Eins og spilin lögðust þá er ekkert klárt hvað kemur út úr þeim kapli.

Var ásamt fleirum að telja í Hagaskólanum á laugardaginn og fram á nótt. Þetta er í annað sinn sem ég er að telja og það er heldur skemmtilegt. Þetta gekk rífandi vel enda skipulag allt með ágætum og fólkið vann af dugnaði. Það sem helst kom til kasta fulltrúa flokkanna var að úrskurða um vafaatkvæði. Það má segja að það hafi svifið jákvæður andi yfir því vatni og öll atkvæði úrskurðuð gild sem mögulegt var en ákveðnar reglur gilda um hvað má setja á kjörseðil.

Ég vakti fram til kl. 3.00 um nóttina og vaknaði síðan nægilega snemma til að sjá síðustu tölur lesnar upp úr NV kjördæmi. Eins og kerfið er hjá okkur þá má litlu muna hvar síðustu jöfnunarþingmenn lenda og í raun getur það oltið á einu atkvæði.

Forsíða Fréttablaðsins orðaði heldur sérkenninlega á mann á sunnudagsmorguninn. Stjórnin fallin þegar maður var nýbúinn að hlusta á fréttir þess efnis að hún hefði haldið velli. Um miðnættið lá fyrir að það ríkti mikil óvissa um hvort stjórnin héldi velli eða hvort hún félli að það var út í hött að lesa það út úr stöðunni sem hægt væri að byggja svona fyrirsögn á. Það kom á daginn enda var óvissa fram á síðustu tölur. Það getur svo sem verið að einhverja hafi langað svo til að skrifa svona forsíðu að henni hafi verið skellt inn upp á von og óvon. Nú ræður forsætisráðherra aftur á móti ferðinni.Hann hefur flest bestu spilin í hendi sér og veit þar að auki hvaða spil aðrir hafa. Það getur ekki verið betra.

Það ar magnað að fylgjast með Man Utd og West Han í gær. Það er ekki heglum hent að sækja stig á Old Trafford en það gerðu Hamrarnir í gær með mikilli baráttu. Líklega eina liðið sem tekur sex stig af MU í vetur. Trúi að Eggert sé glaður.

Víkingar spiluðu við HK í gær og lauk leiknum með jafntefli. Baráttuleikur sem bæði lið hefðu getað unnið. Hengdi nokkrar myndir frá því í fyrra upp í Berserkjakjallaranum áður en hann var opnaður fyrir fyrsta leik. Kom vel út.

laugardagur, maí 12, 2007

Krakkarnir á fermingardag Maríu

Hef verið rólegur í vikunni. Það er rétt að fara varlega eftir mikið álag því ýmislegt getur gerst ef menn fara fram úr sjálfum sér. Fer að hjóla á næstunni og síðan að ganga á Esjuna fyrir Laugaveginn. Fékk póst frá Noregi í gær með bestu tímum norðurlandabúa í 6 tíma hlaupi. Þar kom fram að Elín Reed er í 7 sæti yfir bestu tíma kvenna á norðurlöndum í 6 tíma hlaupi. Frábært því brautin við Nauthól er frekar erfið. Það er gott fyrir hana að vita þetta upp á frekari markmið. Börkur er í rúmlega 60 sæti yfir karla og ég eitthvað neðar. Það eru einungis teknir með á þennan lista tímar kvenna sem fara yfir 50 km og karla sem fara yfir 60 km.

Það verður kosið í dag. Kosningar eru alltaf skemmtilegar, oft spennandi og eru einnig órjúfanlegur hluti af því lýðræðissamfélagi sem við búum í. Það hafa ekki allir verið svo heppnir að alast upp í slíku samfélagi enda þótt það hafi breyst nokkuð í rétta átt á undanförnum rúmlega 15 árum eða svo. Stóra spurningin er hvað eiga menn að kjósa? Ég man vel hvernig staða mála var hérlendis fyrir 15 - 20 árum og það þarf kannski ekki að fara svo langt aftur í tímann. Síðan er spurningin hvort við höfum verið á réttri leið síðan þá. Það nægir mér til að taka ákvörðun.

Ég keypti mér tæplega 900 blaðsíðna bók á Huvudbanegaarden í Kaupmannahöfn á föstudaginn. Er cirka hálfnaður. Mögnuð lesning.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Hér fylgir ágæt frásögn af 24 tíma hlaupinu frá norðmanninum Geir Frykholm sem heldur úti síðunni www.kondis.no/ultra. Geir er mikill hlaupari en helgar sig einnig félagslegu hliðinni m.a. með því að halda úti þessari ágætu vefsíðu fyrir ultrahlaupara. Ég sendi honum nýlega upplýsingar um 6 tíma hlaupið okkar og hann er með frétt um það í morgun svo og frétt um Laugaveginn. Ég var spurður svolítið um hann þarna úti og er greinilegt að hann freistar manna úr þessum hópi að gera sér ferð til Íslands og taka Laugaveginn í leiðinni. Það er partur af þessum hlaupatúrisma sem við erum farin að þekkja vel.

Hér kemur frásögn Geirs.

Bornholm 24-timers med to nordmenn i feltet
Bornholm 24-timers i helgen kom selvsagt noe i skyggen av EM i Madrid,som gikk samtidig.
To norske løpere stilte til start, og for første gang deltok det nordmenn i to 24-timers løp samtidig.
Flere interessante løpere i feltet.
Det var på forhånd ventet at årets Bornholm 24-timers ville bli et oppgjør først og fremst mellom de to danskene Alex Henriksen (245.578 km - Apeldoorn 2004) og Lars Skytte Christoffersen (239.136 km - Brno 2004). Mulige outsidere var Ari Päivinen (195.963 km - Bornholm 2006), Henrik Hoffensitz (194.180 km - Bornholm 2005), Rune Akselsen (185.807 km - Loutraki 2005) og Brian Larsen (183.863 km - Bornholm 2005), med den debuterende islendingen Gunnlaugur Juliusson som en slags "dark horse"; en kan aldri avskrive en løper som har fullført Western States 100 miles.
På damesiden var Karen Marie Brøgger (213.427 km - Taipei 2006) klar favoritt, med Tina Kristiansen (186.203 km - Oslo 2006) som mulig utfordrer.

Favorittene innfridde.
Både Alex Henriksen og Lars Christoffersen gikk som vanlig hardt ut, men fikk overraskende godt følge av Brian Larsen. Rune Akselsen, Henrik Hoffensitz. Gunnlaugur Juliusson og Karen Marie Brøgger valgte en roligere åpning, mens Ari Pävinen allerede tidlig åpenbarte at formen ikke var på topp.
Alex Henriksen ble etter hvert hektet av, slik at kampen om seieren kom til å stå mellom Lars Christoffersen og Brian Larsen. Etter 20 timer lå førstnevnte ennå bare knappe 2 km foran en hardt kjempende Brian Larsen. Men mens Christoffersen fortsatte i samme tempo, hadde Larsen fått nok, og før sluttsignalet gikk, var Christoffersens forsprang økt til over 13 km. Litt lenger bak fulgte så debutanten Juliussen, som løp jevnt hele tiden, og ikke manglet mer enn knappe 3 km på den "magiske" 200 km grensen. Henriksen berget 4. plassen.
Karen Marie Brøgger overtok ledelsen fra finske Outi Sivosavi kort etter 6 timer, og tok en komfortabel seier, selv om resultatet var 30 km dårligere enn hennes personlige rekord. På annenplass kom finske Hanna Vauhkonen, som satte ny pers.

Hva med nordmennene?
Frode Andersson uttalte før løpet at han ennå hadde kjenning i beina etter 48 timers eventyret i Brno i mars, og at han betraktet alt over 100 miles som bonus. Han tok konsekvensen av dette, og sørget for å holde en fart som endte med 165.901 km.
Når det gjelder Rune Akselsen, som så langt i sesongen har vist meget god form og perset på maraton, virker det som om han må ha begynt å få problemer en stund før 20 timer, da han valgte å stå av. Han er ikke av dem som gir seg frivillig, så det er kanskje ikke usannsynlig at han har pådratt seg en skade. Men for hans del kommer det viktigere løp senere i sesongen.

Arrangementet var som vanlig i de beste hender. Den rutinerte Kim Rasmussen, med både Western States og Spartathlon under beltet, vet hvordan et ultraløp skal arrangeres..

Resultater
1. Lars Skytte Christoffersen, Danmark 221.170 km
2. Brian Larsen, Danmark 207.968 km
3. Gunnlaugur Juliusson, Island 197.284 km
4. Alex Henriksen, Danmark 188.684 km
5. Henrik Mortensen, Danmark 186.103 km
6. Pertti Eho, Finland 181.512 km
11. Frode Andersson, Norge 165.901 km
15. Rune Akselsen, Norge 154.644 km

1. Karen Marie Brøgger, Danmark 183.048 km
2. Hanna Vauhkonen, Finland 162.578 km
3. Jette Jensen, Danmark 158.172 km

Verðlaunaafhending á Borgundarhólmi

þriðjudagur, maí 08, 2007

24 tíma hlaup á Borgundarhólmi, maí 2007.

Ég gerði ekki ráð fyrir sérstökum árangri í 24 tima hlaupinu á Borgundarholmi þegar ég lagði af stað. Markmiðið með að taka þátt í því var fyrst og upplifa hið andlega álag að rúlla lítinn hring aftur og aftur í 24 tíma samfleytt og sjá hvernig maður stæðist það. Síðan er gaman að taka þátt í nýrri tegund af hlaupi. WSER 100 M eða önnur álíka langhlaup eru allt öðruvísi. Þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá sem dreifir athyglinni, maður er með meðhlaupara seinni hluta hlaupsins þegar erfiðið fer að aukast og landslagið er síbreytilegt og oftast mjög erfitt. Ég hafði ekki æft vel í vetur. Samtals hafði ég hlaupið tæpa 1000 km frá áramótum sem er ekki mikið. Flensan tók sinn toll í febrúar og maður gaf sér ekki tíma til að forgangsraða hlaupunum eins og fyrir WS þar sem meira var undir. Ein vika fór yfir 100 km, nokkrar voru á bilinu 60 til 70 km. Annars var þetta svona dingl. Þó var tvennt sem ég hafði gert þokkalega. Ég tók maraþonvegalengd fjórar helgar í röð og eins hafði ég tekið Yasso spretti nokkuð samviskulega í Laugum. Undir það síðasta var ég farinn að hlaupa á hraða sem ég hafði ekki gert lengi. Eins hafði ég tekið nokkuð af styrktaræfingum en ekki mikið.

Ég hafði sett mér eftirfarandi markmið:

1. Klára að hlaupa stanslaust í 24 tíma.

2. Ná amk. 100 mílum eða 161 km. Allt umfram það var bónus.

Veðurspáin var góð. Sól, um 16 – 17 stiga hiti og logn. Um nóttina var gert ráð fyrir að hitinn færi niður í 4 – 6 oC. Þetta var allt í lagi.

Ég kom til Borgundarholms á föstudagskvöldið með rútunni frá Kaupmannahöfn og ferjunni frá Ystad. Hlaupið byrjaði svona 200 metra frá staðnum þar sem ég gisti svo það gat ekki verið betra. Hlaupið var á hring sem er um 1.6 km langur. Annar hlutinn er malbikaður og hinn hlutinn er skógarstígur. Það eru um 20 m vegalengd á milli hvors leggs þannig að maður sá hlauparana á hinum leggnum af og til. Ég hitti Kim Rasmussen, skipuleggjanda hlaupsins, um morguninn. Kim er mikill hlaupari. Hann var í WS sama ár eins og ég en þá gekk honum ekki vel þar sem hann vantaði fjöllin til að æfa sig í. Hann hefur m.a. farið Spartathlon á um 30 klst sem er mjög gott og á yfir 230 km í 24 tíma hlaupi.

Hlaupið hófst kl. 12.00. Þarna voru miklir kappar samankomnir að sjá, merktir aftan og framan svo sem með Danmark ultrarunners team, Finland ultrarunners og Sveriges ultrarunners. Ég sá ekki annað en að ég væri elsti keppandinn, nema þá kannski að ein gráhærð dönsk kona væri eldri en ég! Ég hitti þarna kunningja frá því að ég hljóp á Borgundarhólmi fyrir þremur árum, bæði Gurli Hansen sem nú var í sínu fjórða 24 tíma hlaupi og Birgi Larssen ljósmyndara, sem ætlar að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoni en var þarna að taka myndir af hlaupinu.

Þegar skotið reið af tóku allir á sprett nema undirritaður. Kannski voru það áhrif af sjónvarpinu sem var á staðnum, hvað veit ég. Ég var seinastur fyrstu hringina. Ég þekkti það frá fyrri tíð að það er ekki innistæða hjá öllum fyrir svona hraða, enda kom það á daginn. Ég renndi blint í sjóinn með hvernig staðan var hjá mér sjálfum en alla vega ætlaði ég ekki að sprengja mig strax í upphafi. Það getur margt gerst á langri leið. Ég ætlaði að taka sólarhæðina eftir maraþon vegalengd, eftir sex tíma og eftir 100 km. Ég ákvað að leggja út á vel yfir 6 mín á km. Það gekk ekki nógu vel því trén trufluðu GPS inn svolítið þannig að ég gat ekki stillt mig nógu vel af. Þegar um 30 km voru búnir var ég rétt yfir 3 klst. Þá tók ég þá skynsamlegu ákvörðun að hægja markvisst á mér. Ég vissi að ég myndi ekki halda þessum hraða til lengdar og því var betra að hægja strax á sér heldur en að verða að hægja á sér síðar vegna þreytu. Ég fór því að ganga um 200 m leið frá marknu og hljóp síðan það sem eftir var af hringnum. Þessu uppleggi hélt ég út allt hlaupið nema kannski síðasta klukkutímann. Þá gekk ég aðeins lengra. Með þessu fyrirkomulegi vinnst tvennt. Maður brýtur upp hlaupið með göngu en maður hefur líka aga á göngunni og lætur ekki freistast til að ganga í tíma og ótíma. Þannig rúllaði ég áfram. Maraþonið kláraði ég á 4.28. Það var alveg eftir bókinni. Ég ákvað að taka sólarhæðina næst eftir 6 tíma. Þegar sá tími var liðinn hafði ég hlaupið 55 km og allt var í fínu lagi. Þegar þarna var komið fór ég að átta mig á að það væri allt í lagi með skrokkinn ef ég passaði að yfirkeyra mig ekki. Þegar ég hljóp mitt fyrsta 100 km hlaup var það nýlunda að klára maraþon án þess að finna fyrir því. Nú stefndi ég á að klára 100 km og vera mjúkur og fínn ef kostur væri. Tíminn leið og maður rúllaði áfram. Ég borðaði og drakk jafnt og þétt. Upp úr km 70 fór ég að finna aðeins fyrir þyngslum í maganum. Þá borðaði ég ekkert í einn til tvo tíma og þá varð allt eins og það átti að sér að vera og maður borðaði pulsurnar af bestu lyst þegar þær voru bornar fram.

Um kl. 22.00 var orðið dimmt og þá settu heimamenn upp ljóskastara á leiðina þannig að það var ekki þörf á ennisljósum. Ég kláraði 100 km á rúmlega 11.30 klst og var á um 102 km á 12 klst. Inn í þeim tíma voru fataskipti fyrir nóttina, þurr föt og hlý. Þarna fór ég líka í stærri skó eða hálfu númeri stærra en ég nota vanalega. Fæturnir stækka nefnilega þegar líður á svona hlaup. Annars var allt var í himnalagi og maður fann hvergi fyrir því að 100 km vegalengd væri að baki. Engin þreyta, hvergi stirðleiki, einungis tóm ánægja. Þarna fór að læðast að manni sú tilfinning að það væri kannski raunhæft að stefna á lengri vegalengd en 100 mílur. 180 km fóru að skjóta upp kollinum. Þó gat margt gerst á þeim tíma sem eftir var svo það var best að slá engu föstu. Á þessum tíma var ég aftan við miðju og var í sjálfu sér sáttur við það. Röðin skipti ekki öllu máli heldur vegalengdin sem maður myndi leggja að baki. Ég hafði ekki gert mér vonir um neinn frama í hlaupinu umfram það að komast sem lengst. Á tveggja tíma fresti var hengt upp blað með vegalengdinni sem hlauparar höfðu lagt að baki og þar gat maður séð röðina. Á klst 14 sé ég mér til undrunar að það var eitthvað að gerast. Ég var ekki lengur vel fyrir aftan miðjan hóp heldur var ég kominn í 5. – 6. sæti. Flestir þeirra sem höfðu verið að hringa mig voru löngu hættir því og ég farinn að fara fram úr sumum. Greinilegt var að margir voru farnir að þreytast því það fækkaði á brautinni. Ýmsir voru einnig farnir að ganga meir en áður og nokkrir lágu í markinu með fætur uppi á stól, vafðir í teppi. Ég fór í síðar buxur og bjó mig betur strax þegar fór að kólna en það var langt í frá að allir gerðu það, heldur hlupu áfram berleggjaðir lengi eftir að það var orðið aldimmt og orðið svalara. Það fannst mér ekki skynsamlegt. Ég fann vel hvað manni hlýnaði öllum og einhvernvegin léttist við að fara í hlýrri föt. Nóttin leið og maður rúllaði áfram. Gekk 200 m og hljóp 1.4 km. Hraðinn alltaf sá sami. Á klst 16 sá ég að ég hafði færst enn framar og var nú kominn í 3.-4 sæti. Þetta hleypti nýrri sýn á hlaupið. Voru aðrir að detta niður? Ég passaði mig hinsvegar á að láta þetta ekki æsa mig upp því ég gæti stirnað upp alveg eins og aðrir ef ég færi of hratt. Þarna var ég hinsvegar farinn að sjá að 180 km voru vel raunhæfur kostir ef ekkert gerðist. Það þarf hins vegar ekki annað en að maginn fari á hvolf eða sinadráttur rjúki í lappirnar til að setja allar áætlanir á hliðina. Ég sá engan fá sinadrátt en nokkrir ældu svona af og til. Á klst 18 var ég kominn í 3ja sæti og sá að hér eftir var þetta bara undir mér komið að halda sætinu. Ég kláraði 100 mílur á rúmum 19 klst og var bara ánægður með það. Það var orðið albjart um kl. 5.00 um morguninn. Sex tíma hlaupararnir byrjuðu kl. 6.00. Á þessum tíma byrjar andlega streðið fyrir alvöru. Maður er búinn að hlaupa í 18 klst og það eru sex eftir. Yfirleitt þykir það nógu langt að hlaupa í 6 klst enda þótt það liggi ekki 18 að baki. Um miðnættið hafði ég farið að skipuleggja hlaupið á tvennan hátt. Annars vegar í 40 km hluta og síðan skipti ég þeim niður í 10 km hluta. Maður setti upp áætlun um á hvaða tíma maður myndi hlaupa hverja 10 km og síðan setti maður upp aðra áætlun fyrir 40 km. Þannig gat maður fylgst með hvernig miðaði og hvort maður héldi sama róli. Þetta er líka ákveðin hugarleikfimi til að hafa eitthvað til að festa hugann við. Markmiðið var nú að fara vel yfir 180 km. Eftir því sem tíminn leið setti maður upp nýjar áætlanir út frá nýjum forsendum. Þegar kom fram á morguninn fór að örla á 190 km sem raunhæfu markmiði.

Maður fékk upplýsingar um stöðuna á tveggja tíma fresti. Ég gekk út frá að hún væri reiknuð úr nákvæmlega miðað við hringjafjöldann þegar klukkan fór yfir á heilan tíma hverju sinni. Þó fannst mér stundum ekki eitthvað stemma og hélt helst að það hefði gleymst að skrifa niður hringi þegar mér fannst hafa miðað hægar en ég það sem ég mældi sjálfur. Timexinn er reyndar ekki nógu góður í svona löng hlaup því hann klárar batteríin á ca 10 klst. Þá hefur maður kannski hlaupið um stund án þess að taka eftir því að hann sé hættur að mæla. Svo tekur nokkurn tíma fyrir hann að ná sambandi aftur. Því var ég ekki með vegalengdina alveg á hreinu. Ég skipulagði það sem framundan var eftir stöðunni sem var birt á tveggja tíma fresti. Mér brá því nokkuð kl. 10.00 þegar tveir tímar voru eftir þegar mér taldist til miðað við þá vegalengd sem ég var búinn að klára og birt var á töflunni að ég væri á nippunni með að smeygja mér yfir 190 km eins og ég hélt að hefði verið orðið raunhæft. Ég taldi því niður það sem eftir var með það fyrir augum að tryggja það markmið örugglega. Síðasta einn og hálfan tímann var ég farinn að þreytast aðeins og því var efiðara en áður að halda fyrri hraða. Ég lauk þó uppsettri áætlun og gekk síðan síðasta hringinn. Það voru svona smá verðlaun eftir að hafa horft á aðra vera að rölta þetta í rólegheitum á meðan maður þrælaðist sjálfur áfram. Mér brá því nokkuð í brún þegar lokatölur birtust og ég hafði farið vel yfir 197 km. Þá hafði það greinilega ekki verið svo nauið að taka hringjafjöldann akkúrat á heila tímanum heldur hafði það alveg eins verið gert nokkru fyrr. Ég átti því inni slatta af kílómetrum sem ég vissi ekki um þegar yfir lauk. Ef ég hefði vitað þetta nokkru fyrr hefði það verið ákveðinn möguleiki að þrælast hraðar síðustu tvo eða þrjá tímana og ná þannig yfir 200 km markið en það er annað mál. Ég var mjög ánægður með uppskeruna sem var miklu betri en ég hafði getað ímyndað mér fyrirfram.

Það er á hreinu að ég fór langt fram úr sjálfum mér í þessu hlaupi og tók út innistæðu sem ég vissi ekki að væri til staðar. Ég féll aldrei niður orkulega séð heldur rúllaði áfram á jöfnum hraða allt hlaupið áreynslulaust. Engir erfiðleikar létu sjá sig sem eru aldrei langt undan í svona löngu hlaupi. Fyrstu 12 klst fór ég 102 km en eftir seinni 12 klst lágu 95 km. Ég hef velt dálítið fyrir mér hvaðan þessi orka kom. Ekki er um að ræða mikið æfingamagn og né markvissar æfingar. Þá er annað eftir, mataræðið og annað því tengt. Ég hætti í öllu ruslfæði fyrir tæpu ári síðan og hef einungis borðað kjöt, fisk, grænmeti og ávexti síðan þá samkvæmt kenningum Ásgeirs. Kökur, sælgæti, kex eða annað kolvetnarusl hef ég ekki smakkað í um 10 mánuði. Við þetta batnaði orkubúskapurinn verulega og ég léttist einnig nokkuð. Ég hef einnig borðað steinefni og vítamín skipulegar en áður. Ég nýtti mér kenningar Löbarlarssons í undirbúninginn fyrir hlaupið. Á föstudaginn fór ég inn í veitingahús í Köben þar sem var „Ta det selv“ bord. Þar gat maður borðað eins og mann lysti. Ég tróð mig út eins og frekast var unnt af kjöti og fiski. Svo bætti ég um betur á ferjunni um kvöldið. Um morguninn fyrir hlaupið keypti ég mér frikadellur, gróft brauð, ost og ostaköku og tróð enn í mig eins og hægt var. Ég var því pakksaddur af staðgóðum og kjarnmiklum mat þegar lagt var upp. Ég notaði mér kenningar Gordys og hrúgaði í mig C vítamíni, seleni, magnesíum og steinefnasöltum á meðan á hlaupinu stóð. Ég hafði með mér appelsínudjús í fernum og kláraði nokkra lítra af honum. Annars drakk ég mest vatn og Sprite, því orkudrykkurinn var heldur slepjulegur. Ég svitnaði svakalega eins og vanalega og var allur saltstorkinn að utan. Þrátt fyrir það fékk ég aldrei aðkenningu af steinaefnaskorti svo sem sinadrátt. Ég var því allt hlaupið með orkubúskapinn í jafnvægi og hafði nægan forða af öllu. Árangurinn varð því þegar upp var staðið miklu betri en hægt var að ætlast til miðað við það æfingamagn sem lá að baki undirbúningnum. Það væri rangt að segja að ég fyndi ekki fyrir hlaupinu í fótunum daginn eftir en ég hef oft verið miklu stirðari eftir styttri hlaup. Injiji sokkarnir stóðu sig með prýði, einungis ein smá blaðra lét sjá sig.

Öll framkvæmd hlaupsins var til mikillar fyrirmyndar undir styrkri forystu Kims. Hann er margreyndur hlaupari sem veit hvað til þarf. Hann er þegar búinn að senda út email þar sem hann biður þátttakendur að senda sér ábendingar um það sem betur má fara. Fjöldi fólks vann við hlaupið alla nóttina, m.a. voru aldrei færri en þrír í að skrá niður hringina, liklega til að koma í veg fyrir mistök!! Matur og drykkur var rausnarlegur og fjölbreyttur. Allt til alls. Það er því óhætt að mæla með Borgundarhólmurum við framkvæmd svona hlaupa. Maður getur ekki annað en rifjað upp minninguna frá Laugavegshlaupinu árið 2005 um brúsamennina sem komu hlaupandi niður að skálanum við Hrafntinnusker þegar ég var að koma þangað svona 30. maður eða svo!!!

Síðar um daginn þegar hlaupinu var lokið hitti ég Finna sem hafði hlaupið 195 km í 24 tíma hlaupi í fyrra. Nú gekk það hins vegar ekki nógu vel. Hann hljóp Spartathlon í fyrra og sagði mér margt áhugavert frá hlaupinu. Seinni dagurinn sagði hann að væri „just like Hell“ en engu að síður er hann að hugsa um að fara aftur!!

Hér eru hlekkir frá hlaupinu og eins myndir:

http://ultramarathon.dk/php-files/24t.htm

Myndir hér, tveir linkar http://www.sportsfotobornholm.dk

sunnudagur, maí 06, 2007

Kláruðum fyrir stund síðan. Varð þriðji í hlaupinu með tæpa 198 km. Allt í sóma. Meira síðar.

föstudagur, maí 04, 2007

Tvennt var svolítið eftirminnilegt við 1. maí. Í fyrsta lagi sá ég myndir af virðulegum forystumanni fjöldahreyfingar sem hafði dregið fram gömlu kommúnistahúfuna sína og var bara býsna ábúðarfullur í miðbænum. Kannski þetta sé nokkurskonar öskudagur í augum einhverra þar sem gamlir búningar eru dregnir fram í dagsljósið til að vekja á sér athygli eða rifja upp gamlar stemmingar. Í öðru lagi fannst mér svolítið fyndið að sjá herstöðvarandstæðinga og Palestínusamtökin varna því að Tópaskrakkarnir kæmust inn á Ingólfstorg. Síðan hvernær urðu þeir þessi samtök varðmenn 1. maí. Það hefði verið nær ef lúðrasveitin eða forysta ASÍ hefði brugðist til varnar gegn þessari innrás. Í þessu sambandi mætti velta fyrir sér hvaða ábata frjáls verslun hefur fært almenningi í þessu landi gegnum tíðina, hvort sem hún selur Tópas eða ekki, það er svo annað mál.

Eitt finnst mér vanta í umræðunni nú fyrir kosningar. Hvernig ætla flokkanrir að fjármagna öll loforðin og hvað vilja þeir hafa skattlagninguna háa á almennar launatekjur? Það þýðir ekki að sístaglast á því hvað öryggisnetið sé þétt riðið í Svíþjóð og vilja taka allt upp sem þar er að finna en velta ekki fyrir sér hvernig á að fjármagna herlegheitin. Í Svíþjóð tekur hið opinbera til sín um 60% af almennum launatekjum almennings. Viljum við búa í slíku samfélagi? Alla vega ekki ég.

Flýg út í fyrramálið. Hlaupið byrjar á laugardaginn kl. 12.00 að staðartíma í Rönne og lýkur á sama tíma daginn eftir. Þetta fer einhvern veginn.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Sú var tíðin að maður fór í 1. maí göngu og hélt að maður gerði heiminn eitthvað betri með því. Það er löngu liðin tíð. Svo virðist einnig vera um marga aðra. Að einungis milli eitt og tvö þúsund manns sjái ástæðu til að ganga niður Laugaveginn segir meira en mörg orð. Þetta er í sjálfu sér eðlileg afleiðing þess að hagur almennings hefur batnað gríðarlega á liðnum árum. Það sér hver maður sem vill sjá það og er ekki blindaður af bókstafstrú eða nauðhyggju. Sem betur fer hefur þróunin verið í þessa áttina. Möguleikunum hefur fjölgað, tækifærin batnað.

Það eru vafalaust margir sem býsnast yfir þeim upphæðum sem nefndar eru í tengslum við starfslok Bjarna Ármannssonar hjá Glitni. Það er í því sambandi hollt að renna huganum svona 10 ár aftur í tímann, að maður tali ekki um nær tuttugu ár. Fyrir um áratug voru nokkrir ræfilssjóðir sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Kornungur strákur var ráðinn til að fara með forsvar fyrir hinni nýju stofnun. FA var síðan sameinaður Íslandsbanka, síðar Glitni. Strákurinn var ráðinn til efstu starfa þar. Undir forystu hans hefur bankinn breyst í alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur útstöðvar í mörgum löndum og veitir miklum fjölda fólks góða atvinnu fyrir góð laun. Ég ætla ekki að leggja neinn mælistokk á hvort einhverjar upphæðir séu hærri eða lægri en eðlilegt er, það er annað mál, en öfundarliðinu væri hollt að skoða annað slagið hvað hefur verið að gerast á liðnum árum og sú þróun hefur ekki verið sjálfsögð.

RÚV kemur manni sífellt minna og minna á óvart. Í gær var verið að ræða um fjármuni sem höfðu verið teknir frá til aðgerða til hagsbóta fyrir geðfatlaða. RÚV flutti manni þann boðskap í kvöldfréttum í gær að einn og hálfur milljarður væri brunninn upp vegna verðbólgu og sökum kostnaðar við skýrslugerð. Púff; horfinn og farinn. Síðan var rætt við formann geðlæknafélagsins. Í máli hans kom ekkert fram sem studdi þessar staðhæfingar. Skoðum þetta aðeins nánar. Á síðustu tveimur árum hefur verðbólgan kannski verið um 15% samtals (sem er of hátt í sjálfu sér). 15% af 1,5 milljarði er 225 milljónir. Segjum því að raungildi þess sem eftir stendur sé um 1275 milljónir. RÚV var því að segja að það hefðu farið nær 1300 milljónir í skýrslugerð ef allt væri brunnið upp og horfið!!! Hvar eru kröfurnar sem gerðar eru um fagmennsku við fréttamennsku hjá stofnuninni?

Það var tímamótadagur hér á bæ í gær. Hin ágæta sveit <3 Svanhvít hefur verið að spila Indý lagið inn á disk og mixa það að undanförnu. Í byrjun vikunnar var það svo til búið til dreifingar á útvarpsstöðvar. Það var svo tekið fyrir í gærkvöldi á Xinu. Sveitin fékk góða umfjöllun í þættinum og lagið enn betri eða svo góða að það var spilað tvisvar í sama þættinum, í fyrsta sinn sem það hefur verið gert sagði stjórnandinn. Það er vafalaust stórt mál fyrir unglinga að heyra lagasmíðar sínar leiknar í útvarpi í fyrsta sinn enda voru menn kátir. Ég hef þá trú að það eigi eftir að heyrast meira frá þessum krökkum á næstu mánuðum og misserum. <3 Svanhvít, leggja það á minnið.

Mosfellsheiðin að næturlagi

Ég les oft norska síðu www.kondis/ultra.no. Fín síða sem hefur púlsinn á því sem er að gerast í ultraheiminum. Rak augun nýlega í að þeir hafa sett upp lista yfir bestu 24 tíma hlaupara og 6 tíma hlaupara á Norðurlöndum. Þeir komast á 24 tíma listann sem hafa hlaupið 200 km og lengra (karlar) og á 6 tíma listann komast þeir sem hafa hlaupið 60 km og lengra. Ég sendi Per, sem heldur utan um vefinn, upplýsingar um 6 tíma hlaupið okkar í september. Fékk svar áðan þar sem hann er mjög þakklátur yfir að heyra hvað er að gerast hjá okkur hér uppi. Við þrjú (Börkur, Elín og undirritaður) sem fórum yfir 60 km komumst á norræna listann. Vonandi fjölgar á honum í haust. Ég fer að senda Torfa ákveðna dagsetningu svo hann geti farið að hafa hlaupið inn á hlaup.is.

Ég hef ekkert hlaupið í dag eða í gær. Nú eru síðustu forvöð til að hvíla sig fyrir 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi á laugardaginn og sunnudaginn n.k. Veit ekki betur en allt sé í lagi. Las leiðbeiningar Löbarlarssons um 24 tíma hlaup. Þetta er ekki síður andleg raun en líkamleg.