miðvikudagur, apríl 30, 2008

Ásbyrgi er einstakur staður

Ég hitti Soffíu Gísladóttur frá Húsavík í gær. Soffía er dóttir læknishjónanna Gísla og Katrínar sem bjuggu lengsst af á Húsavík en fluttu síðan austur í Kelduhverfi fyrir ca 10 árum. Katrín var kosin oddviti Keldunesshrepps eftir að þau fluttu austur áður en hreppurinn sameinaðist öðrum sveitarfélögum í Norðurþing. Katrín var einn af frumkvöðlunum fyrir Jökulsárhlaupinu sem er að sögn þeirra sem hafa hlaupið það eitt af bestu og skemmtilegustu hlaupum landsins. Jökulsárgljúfrið er náttúrulega eitt að mestu náttúruperlum sem finnast hérlendis. Katrín hringdi í mig haustið 2005 og var að velta fyrir sér enn stærri landvinningum á vettvangi hlaupanna. Nú var það Hamfarahlaup sem er frá upptökum Jökulsár á fjöllum norður í Ásbyrgi. Við ræddum ýmislegt sem skiptir máli í þessu sambandi því það er ekki einfalt að standa fyrir slíkum viðburði. Þetta viðfangsefni hefur síðan gerjast á góðum stað en er ekki gleymt. Katrín afhenti dóttur sinni síðan fánann í þessum efnum fyrir skömmu þannig að nú er Soffía á fullu að brjóta heilann með góðu fólki um að hrinda þessu mikla verkefni í framkvæmd. Hún segist vera með nokkra öfluga bakhjarla en í mörg horn er að líta við að framkvæmda svona verkefni. Hamfarahlaupið yrði 206 kílómetra langt. Það væri hlaupið fyrir austan Jökulsána norður að brúnni við Grímsstaði en þá væri farið vestur yfir og síðan sem leið liggur til Ásbyrgis. Hugmyndin er að skipta hlaupinu niður á þrjá daga, 70 km leggur þrjá daga í röð. Gist væri í tjöldum á leiðinni. Enda þótt ýmsir gætu farið leiðina alla í einum rykk þá er framkvæmdin miklu einfaldari með þessu lagi. Ég held að á þeim tíma síðan við Katrín ræddum saman um þessa hugmynd þá hafi margt breyst í þessum efnum. Þeim hefur fjölgað hérlendis sem eru tilbúnir í svona verkefni. Ég er ekki í vafa um að það er hægt að halda svona hlaup þegar á næsta ári. Fjöldinn verður eitthvað takmarkaður til að byrja með en svo mun hann vaxa. Það sýnir t.d. þátttakan í 100 km hlaupinu í júní. Í fyrsta 100 m hlaupinu sem hafdið var á Norðurlöndum í hitteðfyrra voru 5 þátttakendur. Hlaup af þessari kategoríu er hægt að markaðssetja út fyrir landssteinana. Ég held að það sé rétt fyrir áhugasama að fara að byggja sig upp fyrir svona viðburð. Það hittist skemmtilega á að á sama tíma og svona hugmyndir eru að gerjast þá sér maður forsíðufrétt í Mogganum að Laugavegurinn sé fullur. Ég rétt slapp inn fyrir því ég sá á blogginu hennar Öggu um að hann væri að fyllast. Það sem talið var einungis á færi sérstakra ofurmenna fyrir um 10 árum er nú orðin almenningsíþrótt. Það er ekki spurning um að Hamfarahlaupið verður hlaupið fyrr en síðar.

mánudagur, apríl 28, 2008

Ég hef stundum verið að velta fyrir mér því ekki sé framkvæmd reglubundin krabbameinsskoðun hjá karlmönnum þar sem reynt er að átta sig á hvort krabbamein í blöðruhálskirtli geti verið að hreiðra um sig. Oft uppgötvast meinvætturinn ekki fyrr en alltof seint. Um áratugaskeið hefur konum verið boðið upp á reglubundna krabbameinsskoðun og hefur það vafalaust bjargað heilsu og lífi fjölmargra. Ég skrifaði niður í Krabbameinsfélag í vetur og spurðist fyrir um þetta. Ekki stóð á svari og var mér samstundis boðið að koma niður í Krabbameinsfélag í Skógahlíðinni og kynna mér málið. Guðrún Agnarsdóttir og samstarfsmaður hennar tóku á móti mér og fóru ítarlega yfir viðfangsefnið og borðuðum við hádegisverð á meðan. Þetta var mjög fróðlegt og ekki efa ég að þar sé unnið eins og hægt er úr þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru. Eins og venjulega þá eru fjármunir takmarkaðir og getur Krabbameinsfélagið t.d. ekki gert það sem það vildi gera hvað varðar aukna áherslu á rannsóknir hjá karlmönnum sökum fjárskorts. Þær sögðu mér frá bækling sem var um það bil að koma út sem er meintur til að örfa umræðu um þessi máli. Bæklingurinn kom skömmu síðar með póstinum og er hann fínn, en maður veltir fyrir sér hví er ekki búið að gefa svona bækling út fyrir löngu. Það er nauðsynlegt að vekja upp umræðu um þessi mál og hvetja karlmenn til að gera það sem hægt er til að kanna hvort ekki sé allt með felldu. Ég fór snemma í þessum mánuði í skoðun hjá heimilislækninum þegar ég átti erindi við hann. Sáraeinfalt og gefur ákveðna vísbendingu. Síðan þarf maður að fara í blóðprufu niður á Borgarspítala. Geri það sem fyrst. Niðurstöður úr þessum skoðunum gefa ekki óyggjandi niðurstöður en þær gefa ákveðnar vísbendingar. Betur gert en ógert.

Hópur fólks hljóp Þingvallavatnshlaupið á laugardaginn. Flestir fóru alla leið en allhvasst var leiðina upp með vatninu að vestanverðu. Vindurinn kom síðan í bakið á leiðinni til baka og var þá allt heldur skemmtilegra. Þingvallavatnshlaupið er manndómsvígsla hlaupara sem vilja kanna hvernig þeim hentar að hlaupa langt.

Boston Marathon í fyrra

sunnudagur, apríl 27, 2008

Það var flott kvöld í Víkinni í gærkvöldi. Úrslitaleikur milli Víkings og ÍR um hvort liðið kæmist upp í efstu deild í handbolta. Fyrir nokkrum árum vóg það salt í Víkingi hvort meistaraflokkur karla yrði lagður niður eða ekki. Sem nauðvörn var meistaraflokkurinn sameinaður Fjölni í nokkurn tíma. Síðustu tvö árin hefur síðan verið spilað undir merkjum Vikings. Fyrir atbeina manna með ákveðið markmið þá tókst að koma í veg fyrir að handboltinn koðnaði alveg niður og nú stóð liðið á þröskuldi efstu deildar. Það var mikil stemming í Víkinni, um 1000 manns voru mættir, flestir úr Víkingshverfinu en ÍRingar fjölmenntu einnig til stuðnings sínu liði. Þetta var hörkuleikur, sannkallaður derby leikur. Fram í seinni hálfleik mátti ekki á milli sjá hvorir næðu undirtökunum en þar kom að Víkingar sigu fram úr og slepptu ekki takinu á leiknum eftir það. Fögnuðurinn var mikill í leikslok þegar sigur var í höfn. Þetta var í sjálfu sér meira en leikur um þann sóma að komast upp í efstu deild. Hann var ekki síður spurning um hvort liðið yrði í ströggli áfram. Bestu strákarnir vilja spila í efstu deildinni þar sem athyglin er meiri og möguleikarnir meiri. Því er alltaf hætta á að þeir bestu yfirgefi liðið sem kemst ekki upp. Því lá meira undir en bara sóminn í gær. Maður getur ekki annað en fundið til með ÍR að þurfa að berjast í þessari erfiðu stöðu áfram. Þeir hafa átt gríðarlega góð lið á undanförnum og misst frá sér fjölda manns í önnur lið og í atvinnumennsku. Vonandi koma þar upp öflugir strákar sem hefja liðið upp meðal þeirra bestu á nýjan leik. Handboltinn á Íslandi þarf á öllum liðum að halda til að halda stöðu sinni hér innanlands svo og á alþjóðavettvangi. En það er enginn annars bróðir í leik eins og var háður í Víkinni í gærkvöldi á meðan hann stóð yfir.

Fór út kl. 6.00 í morgun og kláraði 22 km. Flott veður og engin þörf á að sofa inni í svona vorveðri. Alli múrari kom um kl. 9.00 og þá þurfti ég að vera kominn heim aftur. Hann lauk við flísarnar í dag og kemur á morgun til að ljúka fúgunni. Tók síðan 20 km í kvöld í fínu vorveðri en svolítið köldu.

Það hafa ýmis Lúkasarguðspjöll verið lesin að undanförnu vegna trukkamanna. Þau virðast rísa til hæstu hæða með reglulegu milibili. Maður fær innsýn í mismunandi hugskot og ótrúlegt hugarfar með því að skyggnast svolítið um á þessum vettvangi. Einn sagði að það mætti svo sem kalla það ókurteisi að berja lögreglu í andlitið en alvarlegra fannst honum að varla vera. Annar spurði hvort lögregluþjónninn sem fékk steininn í andlitið hefði ekki verið búinn að hafa sig mikið í frammi. Það var eins og honum fyndist það réttlæta steinkast í hausinn á honum. Vitaskuld eru þetta undantekningar en sýnir þó hvaða hugrenningar eru á kreiki.

Hugtakið "maður að meiri" virðist mönnum afskaplega hugleikið þegar einhver uppsker eins og til er sáð. Hjá öllum fjölmiðlum sem vilja láta taka mark á sér er það alger dauðasynd að búa til frétt eða feika frétt ef það útskýrir málið betur. Enginn fjölmiðill sem er vandur að virðingu sinni vill láta bendla sig við slíkt. Samtalið sem fór í loftið um hvort ætti að fá einhverja til að kasta eggjum á meðan stöðin væri læv var ekki sagt í neinu gríni eða hálfkæringi. Það heyrir hver maður sem á hlýðir. Maður gekk undir manns hönd að segja að fréttamaðurinn væri svo mikill grínisti að hann hefði bara ekki getað hamið sig í öllu þessu gríni sem átti sér stað þarna á Olísplaninu. Ætli konan sem stóð með smábarn í fanginu í miðri þvögnni hafi verið álíka mikill grínisti þannig að hún hafi bara ekki getað slitið sig burt frá ölli gríninu, fyrr en allt var komið í óefni, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir.

Sigurður Líndal skrifar góða grein um princippin í þessari uppákomu í Fréttablaðinu í morgun. Málið er mjög einfalt. Ef lögreglan hefur gefið fólki fyrirmæli á vettvangi og það hlýðir ekki þrátt fyrir ítrekaðar og endurteknar beiðnir þá grípur lögreglan til þeirra aðgerða sem duga til að fyrirmælum hennar sé hlýtt. Þetta er ekki flóknara. Þótt ýmsir virðast ná betri nætursvefni við að ausa undirritaðan og aðra svívirðingum fyrir að hafa þessa skoðun þá breytir það ekki staðreyndum. Þeir sem ekki skilja þetta geta engum öðrum um kennt en sjálfum sér.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Er að mestu búinn að ná mér eftir magaskotið um síðustu helgi. Merkilegt hvað það tekur langan tíma að ná upp fullri orku eftir að hafa borðað lítið sem ekkert í rúman sólarhring. Fer út á morgnana og í hádeginu. Það verður að nægja þessa dagana.

Það gekk dálítið á í Norðlingaholtinu í gær. Það var kominn tími til að lögregluyfirvöld tækju í taumana og léttu þennan bandittahóp ekki valsa óáreitta um með uppákomur af því tagi sem maður hefur séð að undanförnu. Einkennilegast fannst mér þó að lögreglan skyldi hleypa þeim út að Bessastöðum þegar forsetinn var með gest í opinberri heimsókn. Nú er ég ekki sérstakur aðdáandi Abbasar Palestínuforseta en sama er. Það virðist ekki vera ljóst lengur hverju trukkabílstjórarnir eru að mótmæla. Er þetta klúbbur sem kjaftar hver upp í annan að allt sem veldur þeim erfiðleikum sé ríkisstjórninni að kenna eins og skein út úr orðum forsprakkans í Kastljósinu í gærkvöldi. Það var varla hægt að ná heilli brú í það sem hann var að segja. Svo fullyrða þessir menn að þjóðin standi á bak við þá. Alla vega ekki ég.

Það var fínt að sjónvarpið sýndi frá Olísstöðinni í gær. Þá þurfti engan til frásagnar um hvað gerðist, Lögreglan var búin að beita fortölum og öllum tiltækum ráðum um að rýma svæðið en allt kom fyrir ekki. Þá var ekki um neitt annað að ræða en að ná kontrol yfir ástandinui. Sjá menn standa þarna æpandi og öskrandi fúkyrðum og svívirðingum yfir lögregluna og hótandi þeim með spraybrúsum og WD 40 brúsum. Ég hef trú á að WD 40 geti valdið nokkuð meiri skaða en piparúði ef menn fá hann í augun.

Eins og vanalega ef lögreglan gerir eitthvað þá byrjar umræðan um fastista, lögregluríki og svo framvegis. Ég held að fólk ætti að kynna sér hvað fasismi er og hvað lögregluríki er áður en menn fara að æpa svona upp í vindinn. Eitt af því sem var athyglisvert í umfjöllun Moggans um síðustu helgi um innflytjendur var hve þeim kom á óvart hvað lítil virðing er borin fyrir lögreglunni hérlendis. Það er náttúrulega vegna góðmennsku lögreglunnar og umburðarlyndis hennar gagnvart allskonar vitleysingum. Þegar ég bjó í Rússlandi fyrir rúmum 10 árum síðan man ég einu sinni eftir því að það hafði safnast saman hópur fólks á frídegi (Victoryday eða einhvers álíka) og það var einhver ólga í hópnum. Allavega kom lögreglan á vettvang. Hópurnn tvístraðist á auga lifandi bragði því það hafi greinilega enginn áhuga á að lenda í návígi við lögregluna. Það datt engum í hug að standa æpandi fyrir framan hana um hvað hún væri miklir fokking hálfvitar og þroskaheftir aumingjar.

Það er athyglisvert að sjá skeytasendingarnar sem Björn dómsmálaráðherra fær. Það er náttúrulega ýmsir sem eru ekki í lagi. Hann birtir svona Greatest hits á síðu sinni www.bjorn.is.

Strákafíflin sem mættu í gær á Olísstöðina og höfðu dubbað sig upp í austurþýska herforingjafrakka og límt á þá hakakrossa ættu að skammast sín. Mér er sama hvort um eða að ræða nasisma eða kommúnisma, hvorutveggja er runnið af þeim meiði að við ættum að þakka pent fyrir það hérlendis að hafa ekki þurft að lifa oki þess eins og margir nágrannar okkar hafa þurft að þola um lengri eða skemmri tíma.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Ég er að verða góður í maganum. Fór út í morgun og var ansi ræfilslegur en strax betri í hádeginu. Það tekur smá tíma að jafna sig eftir að hafa borðað lítið í á annan sólarhring.

Það var vænn hópur sem hljóp í Boston í gær eða í allt 35 manns. Aðstæður voru fínar samkvæmt sjónvarpinu í kvöld. Boston maraþonið er með þeim erfiðari, bæði vegna þess að það er svo mikið af brekkum upp og niður og einnig vegna þess að gatan er steypt og því harðari en velnjulegt asfalt. Í fréttum var einungis sagt frá þeim fremstu í Boston. Þegar ég las blöðin eftir London maraþonið í hitteðfyrra þá voru fyrstu menn ekki aðalfréttaefnið, heldur þetta venjulkega fólks em hleypur maraþon á sínum hraða en myndar þann mikla fjölda (35.000 manns) sem tekur þátt í hlaupinu. Það eru ekki þeir fimm fyrstu sem gera þessi hlaup svo stór sem raun ber vitni heldur fjöldinn, almenningur. Fjölmiðlar hér heima klikka eins og oftast á því að sjá það fréttaefni sem er í því að fleiri tugir eða á annað hundruð manns er að fara erlendis á hverju ári að hlaupa maraþon. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir tiltölulega fáum árum. Langhlaup af ýmsum toga eru orðin sannkölluð almenningsíþrótt hérlendis. Reyndar var fínt viðtal við Sibbu í 24 stundum í morgun. Hún stóð sig frábærlega í London og sigraði sinn aldursflokk. Helga Björnsdóttir vann slíkan sigur einnig í Berlin fyrir nokkrum árum en þá þótti engum fjölmiðli það vera fréttaefni. Aftur á móti virðast ákveðnir íþróttamenn vera áskrifendur að umfjöllun í fjölmiðlum, jafnvel þótt þeir vermi yfirleitt síðustu sætin eða sitji á tréverkinu í þeim liðum sem þeir æfa með.

Það virðist sem einhverjir hafi vaknað upp við vondan draum þegar niðurstöður rannsókna birtust enn einn ganginn um að það séu fleiri strákar en stelpur á framhaldsskólaaldri sem stunda vændi. Þeir tala eins og þeir hafi ekki heyrt á þetta minnst áður. Hvar hefur þetta fólk verið? Hefur það ekki fylgst með? Málið er kannski það að radikalfeministar hafa einokað þessa umræðu á undanförnum árum og leitt hana frá því sjónarhorni að allt vændi væri leið karla til að undiroka konur og sýna vald sitt gagnvart þeim. Aðrir vinklar hafa ekki fengið að komast að í umræðunni. Þórleifur Þórlindsson prófessor hefur iðulega gert heiðarlegar tilraunir til að koma þeim sjónarmiðum sem snúa að strákunum á framfæri í vændisumræðunni en það hefur einfaldlega ekki verið hlustað á hann. Það er mál til komið að svona öfgahópar eins og radikalfeministar séu ekki látnir stjórna því hvernig umræðan þróast um svona alvarleg mál, heldur að heilbrigð skynsemi og staðreyndir fái að komast að borðinu.

Nú er eru naivistarnir farnir að sýna sig. Búið að loka bloggi Skúla Skúlasonar á mbl.is. Vafalaust hefur múhameðstrúarfélagið verið að rövla og þeir moggamenn gerðu í sig um leið. Einhver lögfræðingur sagði að þetta stangaðist líklega á við lög. Af hverju var ekki látið reyna á hvort sú skoðun væri rétt. Af hverju var karlinn þá ekki kærður og látið á það reyna fyrir dómsstólum hvort skrif hans brytu í bága við lög. Skúli Skúlason skrifaði undir nafni og var ekki að fela sig bak við nafnleynd. Hann hafði ákveðnar skoðanir og studdi þær rökum. Ég hélt að í landinu ríkti málfrelsi en hver einstaklingur yrði jafnframt að vera ábyrgur orða sinna. Mogginn er hinsvegar farinn að ritskoða skrif sem eru birt undir nafni. Hvað með alla nafnleysingjana sem ausa fólk auri og skítkasti á bloggvefjum í skjóli nafnleyndar. Þeir fá að valsa um óáreyttir. Þvílíkur tvískinnungsháttur.

Ef einhverjum hafa þótt skrif Skúla Skúlasonar óviðfelldin þá ættu þeir hinir sömu að leiða hugann að þvi að trylltur múgur æddi um borgir fleiri landa, þar á meðal í Danmörku, og orgaði drepa, drepa fyrir myndbirtingar af spámanninum. Fánar þjóðlanda voru brenndir, kveikt var í skólum, bílum var velt. Þar var ekki umburðarlyndinu fyrir að fara. Það er alveg á hreinu að þegar undanlátssemin sýnir sig þá er harðara fylgt á eftir. Ég held að moggamenn ættu að sjá Bidermann og brennuvargana ef tækifæri gefst til að átta sig á því hvaða leið þeir eru farnir að feta.

mánudagur, apríl 21, 2008

Það var blautt Þingvallavatnshlaupið árið 2006

Fór gott hlaup á laugardaginn og kláraði 41 km. Við Biggi urðum samferða Poweratehringinn en svo hittumst við Stebbi, Jói og Gauti við brúna og vorum samferða út á Eiðistorg. Þaðan fór ég einn fyrir golfvöllinn og síðan tilbaka og tók Nauthólslykkjuna í báðum ferðum. Eins og ég var léttur um morguninn þá fór dagurinn versnandi því einhver fjandinn hljóp í magann á mér síðdegis og rústaði öllum áætlunum um að hlaupa á sunnudeginum. Einnig fór Sport ráðstefnan sem Herbalife arrangerade fyrir bí en ég átti að flytja smá ávarp þar. Sá viðtal við bandaríkjamanninn ssem var aðalræðumaður á ráðstefnunni um kvöldið þar sem hann lagði áherslu mikilvægi próteins við mikið álag. Get tekið undir hvert orð sem hann sagði. Það verður sagt eitthvað meir frá þessu í fréttum eitthvert næsta kvöldið. Maginn er orðinn góður svo þetta er allt komið á réttan kjöl aftur.

Þiingvallavatnshlaupið verður á laugardaginn. Kalli Gísla, Gísli Ásgeirs, Eiður, Bibba og Elín Reed eru tilbúin og kannski fleiri. Þarf að hafa samband við Svan en hann fer mikinn þessa dagana. Pétur Franz er orðinn staðarhaldari bústaðanna við Úlfljótsvatn. Hann býður upp á gufubað, heitan pott og súpu við hlaupalok þannig að það er ákveðið að byrja og enda hlaup þar. Hingað til hefur verið byrjað við Nesbúðina á Nesjavöllum en nú verður því hnikað aðeins til vegna sérstakra aðstæðna. Bíll verður tiltækur á meðan á hlaupinu stendur þannig að það er ekki þörf á að fara með nesti út daginn áður eins og stundum. Spáin er heldur góð, hlýtt, hægur vindur en gæti aðeins dropað. Menn hafa svo sem sé það svart á þessari leið. Hlaupið hefst kl. 9.00 og er rétt að menn sammælist í bíla eins og það kostar að fylla á trogin þessa dagana. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu hlaupi láti einhvern ofanskráðan vita svo Pétur hafi nóg í pottinum.

Frá Hesteyri

laugardagur, apríl 19, 2008

Tók fjögurra daga prógram í vikunni þar sem ég fór þrisvar út á hverjum degi. þetta var ekkert erfitt og léttara en ég hélt í upphafi. Þannig var hægt að blanda saman rólegri og hraðari, styttri og lengri hlaupum. Síðasta vika gerði um 190 km sem er það lengsta sem ég hef nokkru sinni hlaupið. Fyrir þremur árum fór ég í 140 - 150 km og í tvær vikur og ég man að ég var nokkuð þreyttur eftir það. Nú finn ég ekki fyrir þessu. Hvíldi í dag en tek langt á morgun og á sunnudegi.

Það fer að styttast í Þingvallavatnshlaupið. Líklega verður það haldið á næsta laugardag. Veðurspáin liggur ljós fyrir upp úr helgi. Nánari upplýsingar liggja fyrir fljótlega en þeir sem eru áhugasamir geta haft samband við mig eða Kalla Gísla. Hann hringdi í kvöld og ætlar örugglega að fara hringinn. Það liggur vel fyrir að taka síðustu löngu æfinguna fyrir 100 km hlaupið nú um mánaðamótin.

Fór á aðalfund SA í dag. Þrjár konur fluttu stutt erindi þar m.a. Mér fannst það bera af sem Edda Rós sagði. Hún lagði upp tvo valkosti sem viðbrögð við núverandi stöðu. Að herpa sig saman með gömlum aðferðum sem geta frestað vandanum eilítið en leysa hann ekki. Staðan mun síðan verða enn verri þegar upp er staðið. Á hinn bóginn er valkosturinn um að takast á við stöðuna og hugsa til framtíðar. Það kom glöggt fram hjá henni að mat hennar er að íslenska ríkið hefur ekki burði til að veita bönkunum nauðsynlega baktryggingu. Þess vegna er skuldatryggingarálagið svo hátt og aðgengi þeirra að fjármunum svo takmarkað. Það er ekki spurning um hvað þú sért heldur hvað aðrir halda að þú sért.

Í dag bárust fréttir af því að vefsíðu sem innihélt umræðu um Islam og ýmislegt sem þeirri trú tengist hefði verið lokað vegna fjölda kvartana. Það er skammgóður vermir að loka síðu sem endar á .is því það er hægt að setja upp síður allstaðar í heiminum sem engin íslensk lög komast nálægt ef vilji er fyrir hendi. Ég hafði skoðað þessa síðu nokkuð oft og kom ekki á óvart að það yrði reynt að láta loka henni. Ég ætla ekki að leggja dóm á það sem þar var sett fram en margt af því sem þar var skrifað er þess eðlis að það er nauðsynlgt að halda því á lofti í umræðunni. Sem dæmi má nefna giftingar smástelpna til eldri karla sem er iðkað of víða í múhameðstrúarríkjum. Maður trúir ekki sínum eigin eyrum þegar sæmilega upplýst fólk af því maður telur er að verja þetta með skírskotun til trúarbragða og mismunandi menningarheima. Það var verið að sprengja upp pedófílahóp í Texas sem stundaði þessa iðju í skjóli trúarinnar. Þetta hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Í Svíþjóð eru hundruðir smástelpna sendar úr landi til að giftast sér miklu eldri körlum. Umræða um þá hluti fæst aldrei almennilega upp á yfirborðið. Sífellt er reynt að þagga hana niður s.s. með hótunum.

Víkingur verður 100 ára á mánudaginn kemur. Um aðra helgi verða hátíðarhöld. Meðal annars verður pylsuveisla við Grímsbæ og síðan skrúðganga þaðan niður í Vík með viðkomu í Bústaðarkirkju. Ég veit með vissu að það hafa komið upp raddir þess efnis hvort það sé tilhlýðilegt að koma við í kirkjunni þar sem einhverjir sem kannski séu í skrúðgöngunni séu ekki kristnir. Vitaskuld var ekki hlustað á þetta. Þeir sem ekki vilja fara inn í kirkjuna geta svo sem bara beðið fyrir utan, en safnaðarstarfið er svo samtvinnað öðru barna og unglingastarfi í hverfinu að það er að flestra mati sjálfsagt mál að gera þar stuttan stans með skrúðgönguna, sérstaklega þar sem hún er í leiðinni.

Í kvöldfréttunum var sagt frá niðurstöðum félagsfræðinema á Bifröst um kynjahlutfalll í nefndum sveitarfélaga. Þar kom m.a. fram að hafnarnefndir og bygginga- og skipulagsnefndir séu yfirleitt skipaðar körlum en félagsmála- og skóannefndir frekar skipaðar konum. Það var talið dæmi um hve sveitarfélögin ættu langt í land í jafnréttismálum að hafnarnefndir og skipulags- og bygginganefndir væru skipaðar körlum. Að sitja í nefnd sveitarfélags er í fæstum tilvikum bitlingur heldur samfélagsþjónusta. Í þessar nefndir eru yfirleitt valdir þeir eintaklingar sem taldir eru hafa hvað mest vit á viðfangsefninu. Á meðan því sem næst allir sjómenn eru karlar og því sem næst allir iðnaðarmenn eru karlar þá er mjög eðlilegt að þeir séu ráðandi aðilar í hafrnarstjórnum og byggingarnefndum, sama hvað jafnréttisiðnaðurinn segir. Hann mætti kannski byrja á því að spyrja hvers vegna konur sæki ekki í störf á sjó eða í byggingariðnaði. Spyr sá sem ekki veit.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Götumynd frá Krakow

Er farinn að hlaupa úti þrisvar á dag. 8 km upp úr kl. 6 áður en ég fer að vekja mannskapinn, 4 km í hádeginu og svo 13 km um kvöldið. Ætla að halda þessu eitthvað áfram. Þetta er fínt og égg finn ekki fyrir álaginu. Síðastu sjö dagar eru komin hátt í 170 km sem er það lengsta sem ég hef klárað hingað til. Gæti þess vegna verið meira. Ætla að fara svipaða vegalengd þessa viku. Ég er ekki í vafa um að betra rekoverí hefur sitt að segja í þessu sambandi. Fæ mér alltaf góðan Herbalife slurk eftir hlaupin og einnig áður en lagt er í hann þegar um lengri hlaup er að ræða.

Umræðan um pólska glæpamanninn hefur verið fróðleg. Maður vissi ekki hvað var á seyði þegar Kastljósið var komið með kauða í drottningarviðtal í gærkvöldi. Hann sagðist náttúrulega verða með eins hreina samvisku eins og kórdrengur. Það sagði líka sænski vörubílstjórinn sem var tekinn höndum í síðustu viku og ásakaður um að hafa rænt 12 ára stúlku í Dölunum. Nú er komið í ljós að hann bæði drap stúlkuna og eins unga konu fyrir um 10 árum. Fleira getur verið eftir. Maður bara skilur ekki hvað liggur að baki því að Kastljósfólk dregur svona lið í viðtal og löggan bíður fyrir utan að taka hann höndum. Í hvaða landi ætli svona væri gert. Ekki neinu af okkar nágrannalöndum. Maður skammaðist sín fyrir útnesjamennskuna. Síðan hefur komið eitt og annað í ljós. Lög og reglur hérlendis er á þann veg að glæpamenn eiga tryggara skjól hérlendis en í öðrum nálægum löndum. Hvað er eiginlega á döfinni? Er verið að gera grín að okkur. Það stóð ekki á því að tilskipanir ESB um að bannað væri að kveikja í Jónsmessubáli væru innleiddar með tilheyurandi sektarákvæðum en þegar kemur að glæpamömnnum þá er allt annað uppi á tengingnum. Það va rreyndar ítrekað í fréttunum í kvöld hve glæpamenn eru bornir á h0ndum sér hérlendis þegar sýnt var frá þriggja stjörnu hótelinu á Akureyri. Fangavörðurinn sagði að fyrst þessir menn hefðu lent í því að verða læstir inni þá yrðu nú að gera almennilega við þá. Ég hélt að þarna væri á ferðinni dæmdir glæpamenn sem þyrfti að taka úr umferð úr samfélaginu. Þjófar, morðiingjar, dópsalar og / eða barnaníðingar. Þurfa þeir eitthvað sérstaklega nærgætni á meðan þeir eru læstir inni. Ekki að mínu mati.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Blómskrúð með Súlu í baksýn

Fór út upp úr kl. 8.00 í morgun og tók 30 km út á nes. Snjór í upphafi og leiðinda veður en batnaði þegar á leið. Margir á ferðinni.

London Maraþon var í dag. Þar féllu góðir tímar. Birgir kláraði á 2.38 sem er best tími íslendings í fleiri ár. Jóhann kláraði á um 2.47 sem er fínn tími. Sibba og Huld hlupu á 3.12 og Huld bætti sinn besta árangur. Mér fannst tíminn sem þær náðu í Boston í fyrra vera betri þar sem brautin þar er miklu erfiðari en brautin í London. Veðrið var einnig fínt í London. Ríkissjónvarpið tók eitt skref í þróunarbrautinni þegar það skýrði frá tímum íslendinganna í hlaupinu en lét ekki nægja að skýra einungis frá hverjir voru fyrstir yfir heildinga eins og hefur verið plagsiður hér. Sibba varð nr. 2 í flokki kvenna yfir 50 ár sem er frábær árangur en Birgir var meðal fremstu manna yfir heildina.

Ég hlustaði á Silfur Egils í dag. Datt í hug að þar yrði eitthvað bitastætt að finna. Það brást ekki. Viðtal Egils við Þorvald Gylfason var ógnvekjandi. Þorvaldur lýsti því vel hvað gæti gerst ef stjórnvöld þyrfti að grípa inn í atburðarásina og bjarga bönkunum, flaggskipum íslensku útrásarinnar. Ef málin þróast þannig að ríkisstjórnin mun lenda í þeirri stöðu að þurfa að skattleggja almenning til að draga flaggskip útrásarinnar, bankana, á þurrt land þá er það náttúrulega alveg svakalegur hlutur. Maður rétt vonar að til þess þurfi ekki að koma en það er náttúrulega dæmi um hvað staðan er alvarleg að það skuli yfir höfuð vera farið að tala um að þessi möguleiki geti átt sér stað. Í upphafi tíunda áratugarins var mikil bankakrísa í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Það endaði með því að bankarnir voru meir og minna þjóðnýttir. Munurinn er bara sá að ríkissjóðir þessara landa eru svo miklu stærri en efnahagur bankanna en hérlendis. Íslenska ríkis er bara smárekstur miðað við efnahag bankanna. Ef að það þarf að þjóðnýta bankana til að leiðrétta mistök fyrri ára hvað á þá að gera við þann auð sem ákveðnir einstaklingar hafa skapað sér persónulega þann tíma sem bankarnir hafa verið í prívat eigu. Þorvaldur Gylfason er að fara að birta grein sem heitir "Ísland varð Rússland". það segir eiginlega allt sem segja þarf um hvernig hann metur ástandið.

Þegar ég er að hlaupa á sunnudagsmorgnum þá hlusta ég yfirleitt á Útvarp Sögu. Mér líkar æ betur að hlusta á spall um daginn og veginn heldur en að heyra eitthvað forðusnakk. Spall þeirra félaganna Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar milli kl. 10.00 og 12.00 á sunnudögum er oft á tíðum stórskemmtilegt. Þeir groddast saman, eru dálítið óskammfeilnir og hlægja svo eins og púkar ef þeir verða sammála um eitthvað skammarstrikið. Þeir hafa ekki mikið álti á yfirstjórn Seðlabankans. Það kemur í ljós hvort þeir hafa rétt fyrir sér. Mat Guðmundar er að spá Seðlabankans muni rætast ef ekkert verður að gert. Krónan sé ónút og stefnan vitlaus. Almenningur borgar brúsann. Svo eru ráðamenn bara í ferðalögum.

Mæli með því að þeir sem áhuga hafa á þessum málum hlusti á Silfur Egils þegar það verður endurtekið í kvöld eða á netinu (www.ruv.is).

Maríuhorn við Grunnavík

laugardagur, apríl 12, 2008

Fór út kl. 7.00 í morgun og tók hefðbundna slóð, Poweratehringinn og síðan út fyrir golfvöllinn á Nesinu og lykkju í Nauthólsvíkinni. Hitti Bigga Sveins við brúna og við urðum samferða út á nes og til baka. 40 kúlur lágu þegar heim var komið. Það var heldur kalt í morgun og mótvindur nokkur. Maður var orðinn eins og saltstólpi að utan þegar heim var komi þannig að gallinn fór allur í þvott. Fjórða helgin í röð þegar tekin eru maraþonvegalengd eða annað álíka. Þrjátíu km bíða á morgun.

Áður en lagt er í svona túr þá tek ég góðan Herbalife hristing. Það fyrsta sem ég geri þegar heim er komið er að taka annan eins slurk sem samanstendur af Formúlu 1 og Formúlu 3. Recoveríið gengur miklu betur eftir að ég fór að nota það í tengslum við langar æfingar og það má segja að eftir ca tvo tíma þá veit maður ekki af því að álagið fyrr um morguninn hafi verið eitthvað annað en venjulegur druslugangur. Ég held að það sé á hreinu að með markvissu mataræði og áherslu á skipulega næringu þá geti maður staðið undir miklu meira æfingaálagi en ella. Hér áður var maður eins og spítukall langt fram á dag eftir svona langar æfingar og nauðsynlegt var að taka hvíldarviku einu sinni í mánuði.

Það hefur margt verið að gerast í vikunni. Ég held að vörubílstjórarnir verði að fara að gá að sér. Það er nefnilega ekki víst að þeir verði ástmögur þjóðarinnar miklu lengur eftir að maður sá í fréttum í gær hvernig þeir haga sér í umferðinni. Svona umferðardólgar eiga ekkert gott skilið. Ég veit ekki hvað maður myndi gera ef maður lenti í umferðarteppu af þeirra völdum og þeir myndu reyna að stöðva mann með ólöglegum aðgerðum. Lenti í frekar óskemmtilegri reynslu í gærkvöldi í viðskiptum við trukkabílstjóra. Foreldrar og börn úr Ármanni og Fjölni voru að leggja teppaflísar á gólfið í frjálsíþróttahöllina í Laugardalnum eins og oft áður. Allt í einu fór maður að finna megnan olíuþef inni í höllinni. Þegar betur var að gáð var flutningatrukkur í dyrunum og var að losa ýmsar vörur. Ekillinn hafði ekki haft fyrir því að slökkva á bílnum þannig að hann dældi útblæstrinum beint inn í salinn svo pestin var orðin megn. Þegar var farið að tala við kallinn og hann beðinn að drepa á bílnum þá reif hann bara kjaft. Allir venjulegir menn hefðu stokkið til hið snarasta og slökkt á bílnum þegar þeir áttuðu sig á aðstæðum en ekki þessi bjálfi. Eftir að það hafði verið talað við kallinn á ómengaðri íslensku þá gaf hann sig og drap á trukknum, því ella hefðum við orðið að leggja niður vinnu og forða okkur út á meðan hann tæmdi bílinn. Ég hélt að olían væri orðin svo dýr að það væri ekki verið að láta trukkana ganga í óþarfa.

Utanríkisráðherra skaust til USA og ræddi við starfssystur sína - í hálftíma -!!. Það var farið um langan veg fyrir lítið. Ég veit alveg hvað hálftími er langur og hvað hægt er að ræða á þeim tíma, það er ekki sérstaklega mikið, hvað þá þegar samtalið byrjar á myndatöku. bandaríkjamenn byrjuðu samræðurnar með dæmigerðu útspili eins og gert er við við þann sem maður bera enga virðingu fyrir en vill kanski hafa heldur góðan. "Ísland er besti vinur Bandaríkjanna". Það er kannski rétt að spyrja sig í upphafi að því hvort sá status sé yfir höfuð sérstakur heiður. Í öðru lagi væri þá hægt að grafast fyrir um það hví "Best friend" hafi ekki sama status í vegabréfaáritunum til USA eins og önnur 70 - 80 ríki sem eru að sögn Condólísu Rice ekki eins góðir vinir Bandaríkjanna eins og litla Ísland.
Undir rest virðist umræðuefnið hafa verið orðið þrotið því þá er farið að sögn blaðanna að tala um hvort kvenkyns utanríkisráðherrar eigi að halda betur saman í hinum stóra vonda karlaheimi. Jæja men. Er þetta nú orðið mál málanna? Á sama tíma og þessi uppbyggilega umræða fór fram í USA þá birtir Seðlabankinn mjög svarta spá.Sannkallaða Harmageddon. Miðað við að allt væri á eðlilegum nótum þá væri ríkisstjórnin vera kölluð til neyðarfundar þar sem setið væri dag og nótt með færustu sérfræðingum sem tiltækir væri þannig að útkoman væri aðgerðaáætlun stjórnvalda til að bregðast við þeirri framtíðarsýn sem Seðlabankinn setur fram til að lágmarka það áfall sem samfélagið verður annars fyrir. Það er ekki gert. Stjórnvöld eru bara róleg og eru hér og þar í heiminum að fjalla um önnur mikilvægari mál s.s. hvernig kvenkynsutanríkisráðherrar geti styrkt stöðu sína í karlaheiminum. Taka menn kannski ekkert mark á Seðlabankanum? Það er ekki síður alvarlegt? Ég veit bara ekki hvað maður á að halda. Mín trú er að það kólni illilega með haustinu að óbreyttu. Kem kannski nánar inn á það síðar.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Þessi kvikindi þurfa að éta eins og aðrir

Ég heyrði í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær við tal við Rögnu á Laugabóli, aldraða konu, sem býr inni í Ísafjarðardjúpi. Hún var að tala um áföll þau sem hún hefur orðið fyrir vegna refsins á undanförnum árum. Refnum hefur fjölgað mikið og er aðalástæða þess friðun refsins á Hornströndum en þaðan flæðir hann út yfir nálæg héröð. Nú hef ég trú á að skaði bænda vegna refrsins hefur minnkað mikið frá því sem áður var, enda þótt alltaf séu dýrbítar á ferðinni. Á hinn bóginn veldur gengdarlaus fjölgun refsins gríðarlegum skaða á fuglalífi í landinu, svo miklum að hægt er að flokka það undir meiriháttar umhverfisslys eða umhverfisvá. Refurinn var friðaður á Hornströndum árið 1994 að því mig minnir. Fram að því hafði hann verið veiddur þar eins og annarsstaðar. Vafalaust hefur göngufólk sem hefur séð tófur á Hornströndum pressað á að hann yrði friðaður og hugsað þá fyrst og fremst um að þar væru engar rollur og því þurfti ekki að veiða hann. Popúlistar í stjórnmálum gleypa gjarna svona flugur og svo var í þetta skiptið. Friðun refsins á Hornströndum var skellt á án þess að nokkur tilraun væri gerð til að meta stöðuna eins og hún var fyrir friðun né að velta fyrir sér afleiðingum hennar. Síðan hefur friðun tófunnar á Hornströndum verið meðhöndluð eins og heilögu kýrnar í Indlandi þar sem ekki hefur mátt stugga við einu eða neinu. Árum saman stóð heimafólk í þrætum við einn mesta refafræðing þjóðarinnar, Pál Hersteinsson, um hvort tófur sem væru fæddar á Hornströndum héldu sig þar til dauðadags eða dreifðust til annarra héraða. Heimamenn töldu sig þekkja það mikið til að þeir gátu fullyrt að tófan af Hornströndum dreifðist yfir mörk friðlandsins út um Vestfirði á meðan Páll hélt hinu gagnstæða fram. Loks var fallist á að það voru settir sendar á nokkrar tófur. Viti menn, sendarnir sýndu svo óumdeilt var að tófan var síður en svo staðbundin heldur flækstust tófurnar með sendana út og suður um alla Vestfirði.
Ég gekk um Hornstrandir á hverju ári sumurin 1994 – 1999. Á þeim árum áttu sér stað miklar breytingar þar í náttúrunni. Mófuglar hurfu sem því næst alveg á þessu tímabili á meðan tófunni fjölgaði og fjölgaði. Ég fór fyrst um Hornstrandir sumarið 1976 og þá sást ekki tófa þarna. Árið 1999 var ekki þverfótandi fyrir tófu og það söng og hvein í henni í öllum fjörðum og fjöllum. Tófan hefur eytt stórum svæðum bjargfugls í Hornbjargi og Hælavíkurbjargi þar sem hún getur farið um. Þetta er eðlilegt því hun þarf að éta. Fjölgun tófunnar hefur mikil áhrif á rjúpnastofninn utan Hornstranda. Skotveiðimenn hafa sáralítil áhrif á þróun rjúpnastofnsins miðað við hina gríðarlegu fjölgun tófunnar sem er staðreynd.
Víða á landsbyggðinni hefur fólki fækkað verulega í dreifbýlum og landsstórum sveitarfélögum. Engu að síður er sú skylda lögð á herðar því fólki sem býr þar að annast og fjármagna að mestu leyti sjálft veiðar á ref og mink. Veiðar á ref og mink eru til þess að viðhalda ákveðnu jafnvægi í náttúrunni, m.a. til að vernda fuglalíf sem er verkefni sem alla varðar. Sem dæmi þá ber hið fámenna sveitarfélag Skútustaðahreppur ábyrgð á refa- og minkaveiðum í nágrenni Mývatns sem er á heimsminjaskrá sem einstakt náttúruvætti. Þjóðin kemur sáralítið að því. Ríkið leggur litla fjármuni til þessara veiða og innheimtir síðan virðisaukaskatt af vinnu veiðimanna þannig að þegar upp var staðið var þátttaka rískisins árum saman undir 10% af heildarkostnaði við refa – og minkaveiðar. Það þýðir að það er fólkið á landsbyggðinni sem ber að langmestu leyti kostnaðinn af þessu verkefni.
Viðkoma tófunnar er með ólíkindum. Ég man eftir því að Theódór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi í Öxarfirði reiknar hann út hugsanlega fjölgun tófunnar í bók sinni Á refaslóðum. Hugsum okkur tvö tófupör sem eignast hvort um sig fjóra yrðlinga sem er eðlileg viðkoma. Þetta gætu verið tófur sem ekki hefði náðst að veiða þegar tófur voru friðaðar á Hornströndum. Þrír komast upp úr hvoru greni og þá eru 5 pör sem eignast yrðlinga á næsta ári og þannig koll af kolli. Eftir 8 ár væru tófupörin tvö sem dæmið byrjaði með búnar að eignast hátt á fjórða þúsund afkomendur. Auðvitað verða einhver afföll af hópnum t.d. eftir árferði en sama er að fjölgunin er með ólíkindum ef hún er látin vera óáreitt. Vitaskuld þurfa þessi dýr að éta. Fyrst er mófuglinn hreinsaður, þá er bjargfuglinn veiddur eftir því sem mögulegt er og svo er farið að leita á aðrar slóðir. Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar horfa hins vegar á þetta með blinda auganu því þeim finnst svo gaman að gefa tófunni harðfisk og súkkulaði á gönguferð um Hornstrandir. Það er gott dæmi um úrkynjunina að villidýr sé farið að éta úr höndum fólks.
Tók 13 km hlaup út í Nauthólsvík í gær. Mikið af fólki að hlaupa í góða veðrinu.

mánudagur, apríl 07, 2008

Tildra að skúnkast í fjörunni

Fór af stað kl. 8.00 í morgun og fór vestur fyrir golfvöllinn á nesinu og síðan Nauthólslykkjuna. Kláraði rétt um 30 km í fínu veðri og heldur léttur.

Fréttir bárust af því að Kári Karlsson hefði bætt íslandsmetið í 10 k hlaupi en Sigfús Jónsson hefur átt það síðustu 32 árin. Glæsilegt hjá Kára að bæta þetta gamla met og vitaskuld hlaut það að gerast fyrr en síðar. Það segir kannski meir um hve litla áherslu íslenskir hlauparar hafa lagt á 10 km hlaup síðustu áratugina en hvað metið sé gott að það skuli hafa staðið svona lengi. Kári á vonandi eftir mörg góð ár eftir á brautinni þannig að það er kannski von til að íslendingar fari að geta veitt nágrönnum okkar meiri keppni í þessari vegalengd í framtíðinni en verið hefur á síðustu áratugum. Ég hef nokkrum sinnum horft á landskeppni Svía og Finna í frjálsum íþróttum en þar keppa þrír einstaklingar frá hvoru landi. Síðast þegar ég horfði á keppnina fóru fimm af sex keppendum undir 28 mínútur í 10 km það mig minnir.

(Leiðrétting) Ég skoðaði árangur frá Finnkampinum undanfarin ár aðeins betur og sá að ég hafði ekki farið alveg með rétt mál. Sænska metið er 27.55.74 og finnska metið er 27.30.99. Svona aðeins til að fá samanburð.
Árið 2007 vinnst 10 km hlaupið á 29.22 og þrír keppendur af sex eru undir 30 mín.
Árið 2006 vinnst hlaupið á 30.11 og allir sex hlaupa á milli 30 og 31 mín (erfitt veður).
Árið 2005 vinnst hlaupið á 29.08 og allir keppendurnir sex hlaupa á undir 30 mín.
Samkvæmt þessu er Kári orðinn fyllilega gjaldgengur í hóp fullorðinna 10.000 hlaupara á norðurlöndum því Svíar og Finnar hafa yfirleitt átt mjög góða langhlaupara. Til hamingju með þetta Kári.

París maraþonið var í dag. Neil kom sterkur inn, bætti sig verulega og hljóp á 2.35.34. Glæsilegur tími hjá manni sem stefnir á tífaldan Ironman og æfir því maraþon einungis sem aukagrein. Trausti fór undir 3 klst og Baldur var á 3.13. Ég veit ekki um fleiri en nokkur fjöldi íslendinga tók þátt í hlaupinu.

sunnudagur, apríl 06, 2008

Það var mannval á aðalfundi UMFR36 um daginn

Fór ut kl. 7.00 í morgun. Sólin var komin upp en logn og ekki kalt til muna. Fór fyrst Poweratehringinn og síðan út á nes og fyrir golfvöllinn. Fór sjávargötuna til baka og hitti Svan við maraþonendann. Hann var brattur í góða veðrinu og ætlaði langt. Við töltum saman til baka, tókum Nauthólsslaufuna og fórum síðan hring í Elliðaárdalnum. Þá lágu 40 á mínu úri en Svanur var svona hálfnaður. Góður dagur og allt í fína. Fór út á nes eftir hádegi að taka fuglamyndir. Pirraðist dálítið um stund en kyngdi því. Kíkti síðan við á Kjarvalsstöðum á bakaleiðinni en þar voru Færeyingar með mennignarvöku. Fór einn hring í salnum og skoðaði myndirnar eftir MYkines aftur en þær eru alltaf jafn áhugaverðar. Hitti Kim Fókusfélaga með nýkeypta Canon 5D í hendinni sem hann var mjög sæll með. Hann segist vera að planera ljósmyndaferð til Skotlands á næsta ári eða þar næsta. Þá verður bæði farið í Workshop í ljósmyndun og myndatökuferð. Hljómar mjög spennandi.

Ég var viðbúinn að fara út í myndatökur ef það yrðu álíka norðurljós í kvöld eins og í gærkvöldi. Nú sá ég engin. Nennti reyndar ekki að keyra austur á Þingvöll úr í óvissuna. Heyrði í neil í morgun. Parísarmaraþon er í fyrramálið. Þar er saman kominn góður hópur hlaupara sem er búinn að búa sig vel undir hlaupið. Vonandi gengur þeim vel á morgun.

Maður hittir af og til fólk sem er að leita ráða um hvernig það eigi að byrja að hlaupa. Ég segi alltaf að það eigi að fara rólega af stað og vera vel birgt af þolimæði. Bráðlæti er helsti veikleiki þeirra sem eru að byrja að hlaupa. Fara hægt og hafa gaman af þessu. Lengja smátt og smátt. Halupa í 30 sekúndur og ganga í 30 sekúndur til að byrja með. Hlaupa milli tveggja ljósastaura og ganga á milli þeirra næstu tveggja og lengja hlaupin síðan smátt og smátt.
Það sem fólk heykist aftur á móti oftast á er að hugsa um mataræðið samhliða þessu. Oft er fólk of þungt. 10 - 20 eða 30 kíló er dálítið að burðast með ef maður þarf ekki á þeim að halda. Það er oft erfiðara að breyta mataræðinu en að byrja að hreyfa sig. Fyrsta skrefið er að líta á sykur sem fíkniefni. Venja sig af sykuráti eins og hægt er. Mér verður hálf óglatt að horfa á fólk sem er alltof feitt að spæna í sig vínarbrauð og geta varla hætt. Á fundinum í gær voru ávextir með morgunkaffinu. Þá heyrði maður í nokkrum lurkum tuða yfir því hvaða heilbrigðisfasismi þetta væri á meðan flestir voru mjög ánægðir. Til að léttast jafnhliða aukinni hreyfingu þarf fólk að draga verulega úr sykur- og kolvetnaáti. Ég vorkenni engum að skera það niður ef fólk er of feitt. Ég hef svo sem aldrei verið alltof feitur en mest var ég ca 10 kílóum þyngri en ég er í dag. Ég hafði bara ekkert með þessi 10 kg að gera og sakna þeirra ekki.
Maður er búinn að taka á ýmsu hvað varðar að venja sig af óhollumataræði og öðrum óþarfa. Það má nefna að hætta að reykja, drekka kaffi og drekka gos. Hætta að borða kökur, kex og sælgæti. Hætta að borða sósur og svoleiðis drasl og skera niður kartöflur, pasta og hrísgrjón að mestu. Borða ekki mikið unnar kjötvörur s.a. kjötfars eða pulsur. Ég sakna þessa ekki og hef líklega sjaldan eða aldrei verið brattari. Þegar maður skar niður kolvetnaátið þá runnu óþarfakílóin af manni og nú er þyngdin bara eins og hún á að vera. Þetta er allt spurning um hvað menn vilja. Ef það er á hreinu þá er eftirleikurinn auðveldur.

laugardagur, apríl 05, 2008

Fór út í Nauthól í kvöld og tók Öskjuhlíðarhringinn. Fínt hlaup með miklum norðurljósum.

Landsþing var haldið hjá sveitarfélögunum í dag. Það er alltaf gaman að hitta fólk héðan og þaðan af landinu og fá fréttir. Gaman að heyra að það er ýmislegt að gerast jákvætt þótt ekki fari alltaf mikið fyrir því í fréttum. Súðvíkingar hafa verið að byggja upp hjá sér sjóstangaveiði fyrir erlenda viðskiptavini á undanförnum árum. Flestir koma þeir frá Þýskalandi. Í ár lítur út fyrir að það komi um 3.000 manns í þessum erindum til þessa litla þorps á Vestfjörðum. Þeir dreifast á sex mánuð ársins se, lengir ferðamannatímann verulega. Í tenglsum við þetta verkefni hefur síðan þróast margháttuð aukageta svo sem skoðunarferðir og verslun og viðskipti af ýmsum toga. Þetta er stórmál fyrir Vestfirðina og getur haft mikil áhrif á ýmsa vegu. Í mínu gamla heimaþorpi, Raufarhöfn, er farið að örla á því að notkunarmöguleikar finnist fyrir verksmiðjuhús SR mjöl sem hafa staðið auð og tóm um nokkurra ára skeið. Sú skemmtilega hugmynd um heimskautagerðið hefur vafið upp á sig og er farin að skjóta vaxtarsprotum. Fleira er á döfinni sem getur byggt upp nýja atvinnu en hún er eins og flestir vita, forsenda fyrir því að fólk geti búið á þessum stöðum því það er margt fólk sem vill búa þarna bara að það hafi eitthvað að gera.

Ég er ekki sannfærður um ágæti mótmæla vörubílstjóranna. Olíuverðið er einungis lítill hluti af óánægju þeirra. Reglur Evrópusambandsins um hvíldartíma er annar hluti. Það má vel vera að stjórnvöld hafi sofið á verðinum um að sækja um undanþágu þegar þessar reglur voru í mótun. Það er rétt af þeim að knýja á um að þeim verði breytt en ég get ekki stutt það að sektir vegna brota á þessum reglum verði felldar niður. Enda þótt manni finnist einhverjar reglur vera vitlausar þá verða menn að fara eftir þeim þar til þeim verður breytt. Síðan ber á það að líta að þungir flutnignabílar slíta vegunum alveg svakalega. Ætli einn fulllestaður þungur flutningabíll hafi ekki áþekk áhrif á slit vega eins og 20.000 fólksbílar. Það er nokkuð á hreinu að flutningabílarnir greiða langt í frá þann kostnað við vegakerfið sem hlýst af þeirri gríðarlegu þungaflutningaumferð sem er á vegum landsins. Ef olían hækkar og flutingskostnaður eykst þá fer að verða hagkvæmt að taka upp strandsiglingar á nýjan leik. Varan er þá lengur að berast út á land en við minni kostnað. Veislan er því miður búin.

Ég heyri víða að menn eru ekki trúaðir á að kreppan standi einungis yfir í þrjár vikur. Það verður dálítið innpútt í samfélagið í sumar vegna ferðamanna en í haust mun kólna fyrir alvöru. Bankarnir eru hættir að geta lánað. Þeir geta ekki einu sinni lánað stöndugum og góðum fyrirtækjum því þeir fá ekki lánsfé á meðan skuldatryggingarálagið er nálægt 1000 punktum. Fólk getur ekki forðað íslenskum krónum yfir í gjaldeyri sem neinu nemur því hann er ekki til í nema í takmörkuðu umfangi. Húsnæðismarkaður er að stöðvast og sérstaklega hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð því þeir bíða allir eftir því að stimpilgjald falli niður. Ég skil ekki enn þá hugsun sem býr að baki þessari vitlausu ákvörðun. Hún stenst örugglega ekki jafnræðisreglu. Auðvitað á að fella niður stimpilgjaldið. Sveitarfélögin munu finna fyrir þessu þegar hægir á uppbyggingu í nýjum hverfum. Fyrirtækin sem hafa verið að byggja íbúðir lenda í vandræðum þegar kauopendur vantar og lánsfé er af skornum skammti. Það er því afar mikilvægt að stjórnvöld leiti allra leiða sem færar eru til að tryggja stöðu bankanna þannig að starfsemi þeirra geti farið að rúlla eðlilega. Ef það gerist ekki á næstu vikum er samfélagið í vondum málum.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Hef lítið hlaupið síðustu daga vegna ýmissa hluta en tók góðan hring í dag út í Nauthólsvík og fór slaufuna upp með Öskjuhlíðinni. Hlýtt og vorkeimur.

Mér finnst umræðan um einkaþotuflug á NATÓ fund vera hálfbarnaleg og dálítið týpisk. Ég geri ekki ráð fyrir að ráðherrar segji:"Yess, nú skulum við leigja þotu". Það lyktar af popúlisma að gera hávaða út af þessu og reyna að skora pólitískar keilur út af svona máli.

Mér finnast á hinn bóginn ákvarðanir ríkisstjórnarinnar er varða stimpilgjöld vera afspyrnuvitlaus. Stimpilgjald er arfur frá þeim tíma þegar viðskipti og lántaka voru álitin ákveðin forréttindi og því skyldu slík forréttindi nýtt sem skattstofn. Lánamarkaðurinn hefur gjörbreyst síðan þá. Maður getur fengið lán út um allar koppagrundir án þess að borga stimpilgjald en ef fólk ætlar að kaupa sér íbúð (sem er ein af grunnþörfum hverrar fjölskyldu) þá er það skattlagt. Skattlagning er allt í lagi en forsendur skattlagningar er að hún sé réttlát og allir standi jafnt gagnvart henni. Nú er farið að gera upp á milli fólks. Af hverju á að skattleggja fólk sem þarf að kaupa sér aðra íbúð, kannski að minnka við sig þegar börnin eru farin að heiman? Maður hélt að þingmenn ríkisstjórnarinnar myndu sýna af sér þann manndóm að fella niður þennan heimskulega og rangláta skatt en það var nú eitthvað annað. Nú verður sett upp eittvað flókið og ógagnsætt kerfi í kringum þetta sem flækir meir en bætir. Á sínum tíma var lagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það var gert vegna þess að stjórnmálamenn töldu að þar færi að öllum líkindum fram gróðabrall og kannski svindl og því skyldi það skattlagt. Sú atvinnustarfsemi sem þar fór fram var minna metin en þar sem höndlað var með kjöt eða fisk. Hverjum myndi detta svona lagað í hug í dag?

Ég fór í kvöld upp í Vagnhöfða þar sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn voru með ferðakynningu. Það var mættur góður hópur af fólki enda spennandi frásagnir á döfinni. Ég gat ekki verið til enda en meðan ég var þarna var farið yfir ferð til Angmassalik á Austur Grænlandi og síðan til Nepal. Ég sé hvað við fengum mikið fyrir lítið í fyrra í ferð okkar til Angmassalik þegar við fórum í ATC keppnina miðað við ferðina sem ÍF býður upp á og er hún vafalaust mjög góð. Við vorum lengur, sáum miklu meira, upplifðum miklu, mmiklu meira og okkar ferð var ódýrari. Því er óhætt að mæla með því að taka þátt í ATC keppninni ef menn eru tilbúnir að takast á við dálítið púl í bland við ógleymanlega upplifun. Nepal ferðin er náttúrulega mögnuð. Hún tekur einar þrjár vikur svo það er dálítið dæmi og kostar náttúrulega slatta. Það er gengið úr 800 m. hæð upp í 5.400 m. hæð á 11 dögum.

48 klst keppnin í Brno í Tékklandi var haldin um siðustu helgi. Hún er haldin innandyra svo veðrið truflar ekki. Kurosis hinn gríski sigraði og hljóp rúma 400 km á 48 klst. Það þótti undarlega lítið því yfirleitt keppir hann ekki nema að vera í góðu formi. Það sem fáir vissu fyrr en á reyndi var að hann hafði samið um að fá að hlaupa í einn sólarhring í viðbót og hljóp hann því alls í 72 klst. Þá kom í ljós úr hverju hann var gerður því á 3ja og síðasta sólarhringnum hljóp hann rúma 300 km og lauk því alls rúmum 700 km á þremur sólarhringum og setti heimsmet!! Þetta er almennilegt.