föstudagur, apríl 15, 2011

GCD. Rúnar Júl og Bubbi Mortens / Hótel Borg

Svínadalur í Skaftártungu


Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Það var þokkalega mæt af mjög áhugasömu fólki. Nokkrir boðuðu forföll eins og gengur en það er ljóst að margir hafa áhuga á að ungmennafélagið lifi góðu lífi. Það var kosin ný stjórn. Ég hætti í stjórninni enda kominn tími til að afkvæmið hleypi heimdraganum. Maður má passa sig á að vasast ekki í of mörgu því þá fer maður að gera allt illa. Jói Kristjáns, Halldór Guðmunds, Magnús Guðmunds. og Gísli ritari skipa stjórnina. Margt var skrafað og spekúlerað. Það var mikið rætt um hlaup á vegum félagsins. Almennt var það skoðun fundarmanna að sex tíma hlaup ætti að halda annað hvert ár á móti 100 km hlaupinu. Það myndi þá vera íslandsmeistaramót í sex tíma hlaupi. Vonandi sýnir hinn mikli áhugi í 100 km hlaupinu í vor að það sé vaxandi áhugi á ofurhlaupum. Síðan var rætt um aðra möguleika. Einn möguleikinn er að hlaupa átta 10 km hlaup á sólarhring. Þá er ræst á þriggja tíma fresti og sá vinnur sem hleypur lengst á sem skemmstum tíma. Það geta mjög margir hlaupið 10 km en spurning er hve margir treysta sér til að hlaupa átta 10 km hlaup á einum sólarhring. Þarna yrði hlaupið á hlaupabraut og aðstaða fyrir að vera með dýnur og inniaðstöðu svo fólk gæti lagt sig. Þetta er áhugaverður möguleiki sem þarf að skoða sem fyrst. Þarna er meðal annars verið að venja þá sem áhuga hafa á við að vera að í heilan sólarhring enda þótt möguleiki sé á hvíld innan um og saman við. Síðan var rætt um skipan ofurhlaupa í íþróttasamfélaginu. Mikill áhugi er á að fylgja þríþrautarmönnum eftir og stofna ofurhlaupanefnd innan ÍSÍ. Það eru hlaupa fleiri hundruð íslendinga ofurhlaup árlega svo það er ekki síðri forsendur fyrir því að stofna sérstaka nefnd um þau innan ÍSÍ heldur en ýmislegt annað. Þetta verður skoðað formlega innan tíðar. Að lokum fór Steinn yfir hina ágætu þríþraut sína í Köln í máli og myndum þar sem hann sló gamla islandsmetið með sjö sekúndna mun. Frásögnin var svo spennandi að það var næstum því eins og maður væri viðstaddur. Bibba tókst næstum því á loft þegar hún var að lýsa því hvernig var að horfa á lokasprettinn. Ég fór að lokum yfir 48 klst hlaupin árin 2009 og 2010. Þau voru lærdómsrík bæði tvö enda þótt erfiðleikarnir sem ég þurfti að takast á við hefðu verið gjörólíkir sitt hvort árið. Þegar ég fór í Western States fyrir sex árum þá tók ég þátt í rannsókn þar sem lagt var mat á niðurbrot vöðva með eða án íbóprófens. Það voru teknar blóðprufur bæði fyrir hlaup og svo eftir hlaupið. Ég fékk niðurstöðurnar sendar og setti þær á síðuna mína og hugsaði svo ekki meir um það. Ég kunni ekkert að lesa úr þeim eða túlka þær á neinn hátt. Sif sagði mér svolítið fyndinn hlut í gærkvöldi í þessu sambandi. Hún þekkir konu sem vinnur við álíka mál og lét hana fá niðurstöðurnar til að meta þær. Sú sagðist aðeins einu sinni hafa séð hærra gildi á niðurbroti vöðva í blóði nokkurs manns. Það var hjá hjartasjúkling sem dó skömmu síðar eftir að prufan var tekin!! Ég viðurkenni það að lærin voru ansi aum eftir Western States hlaupið. Þau hafa varla verið verri eftir nokkurt hlaup. Það er gaman að sjá góðan árangur hlaupara í París og Rotterdam. Sibba náði fjórða sæti í sínum aldursflokki í Parísarmaraþoninu sem er frábær árangur. Hún hlóp á 3.06. Gunnar Ármannsson bætti sig um 11 mínútur og hljóp á 2.55. Það var frábært hjá honum, bæði að bæta sig svo mikið og ekki síður er þetta frábært með hliðsjón af sögu Gunnars. Hann fékk hvítblæði fyrir nokkum árum og fagnar nú fimm ára afmæli þess að hafa sigrast á þeim vágesti. Hann er að safna fé fyrir Krabbameinsfélagið með því að hlaupa fimm góð hlaup í sumar og þar á meðal 100 km hlaupið í júní. Þeir sem vilja styrkja hann í þessu verkefni geta farið á vefinn www.krabb.is. Gunnar hljóp með mér 50 km á bretti í Kringlunni í desember.

sunnudagur, apríl 10, 2011

Mungo Jerry - In The Summertime

Lómur í friðlandinu


Icesave kosningarnar eru að baki. Í þeim var rækilega afsannað að svona málefni væri ekki tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar niðurstaðan er 59%/41% þá sýnir hún að það eru mjög deildar meiningar um málið. Slík mál eru nákvæmlega tæk til að greiða atkvæði um. Ef niðurstaðan hefði aftur orðið 98%/2% eins og í fyrri kosningum um málið þá væri hægt að efast um að þetta mál væri tækt til kosninga því landsmenn myndu alltaf greiða atkvæði út frá því að þeir vildu ekki borga. Allt tal um slíkt er hefur því reynst markleysa. Að mínu viti hefur forsetinn bjargað þjóðinni frá verulegum áföllum með því að virkja málskotsréttinn í þessu máli og leggja það í dóm þjóðarinnar. Ég var ekki alltaf mjög hrifinn af ákvörðunum hans á þeim tímum sem útrásarbylgjan reis sem hæst. En það verður hver að hafa það sem hann á. Ég veit ekki um neinn sem mælir Icesave II bót í dag. Í þessu máli hefur hann tekið skynsamlegar ákvarðanir að mínu mati. Ég er hissa á einu. Ef sannfæring ríkisstjórnar og þeirra 70% þingmanna sem greiddu málinu atkvæði sitt á Alþingi var mjög sterk fyrir því að það væri ekkert vit í öðru en að samþykkja Icesave 3, því börðust þeir þá ekki með kjafti og klóm fyrir því að samningurinn væri samþykktur. Ég ég hefði verið forsætisráðherrra með mál á borðinu sem mér fyndist varða þjóðarhag að ljúka því á ákveðinn hátt, þá myndi ég leggja allt undir að ná þeirri niðurstöðu. Það væru allir gerðir klárir í bátana og gerðir út af örkinni. Þingmenn og ríkisstjórn myndi leggja sig undir. Í slíkum málum verður að vera forysta af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekkert af þessu gerðist. Ríkisstjórnin sást varla í málinu. Að vísu notuðu flestir eða allir kosningaréttinn núna að því sagt er en það voru víst einhver vanhöld á því síðast. Ég sá ekki að þingmenn eða ráðherrar legðu eitthvern sérstakan kraft í að fylgja atkvæði sínu eftir með fundahöldum eða greinarskrifum. Þó undanskil ég einn þingmann, Tryggvi Þór Herbertsson. Hvort sem menn eru sammála honum eða ekki þá er þó alltaf mannsbragur að því að standa við sannfæringu sína. Þetta finnst mér allt heldur sérstakt. Í umræðunum í Silfri Egils í dag kom eitt fram sem mér fannst skelfilegt. Það var þegar forsætsráðherra lýsti þeirri skoðun sinni að henni fyndist skelfilegt ef ákveðin niðurstaða yrði úr hugsanlegum kosningum til Alþingis. Einstaklingur sem sækir umboð sitt til þjóðarinnar getur ekki sagt að niðurstaða úr lýðræðislegum kosningum sé skelfileg. Niðurstaða lýðræðislegra kosninga er alltaf rétt. Það er eðli lýðræðisins. Það er hægt að vera ósáttur með niðurstöðuna en það er bara allt annað mál. Kosturinn við lýðræðislegar kosningar er að niðurstaðan er óumdeilanleg. Í gær gekk ég í gegnum kosningar á íþróttaþingi ÍSÍ. Það voru nú ekki óskaplega merkilegar kosnignar en ég var beðinn um að gefa kost á mér til varastjórnar ÍSI. Varastjórn situr alla fundi framkvæmdastjórnar svo þetta þýðir setu í stjórn ÍSÍ, samnefnara íþróttasamtaka landsins. Það voru fleiri framboðnir en tiltæk sæti voru svo það var kosið. Þegar talning stóð yfir spurði kunningi minn hvort ég héldi ekki að staðan væri örugg. Ég sagðist ekkert vita um það en það eitt vissi ég að niðurstaða lýðræðislegra kosninga er alltaf óumdeilanleg. Ég var heldur hissa á að ná kjöri þarna inn. Ég hef aldrei setið íþróttaþing ÍSÍ áður eða haft mig neitt í frammi á þessum vettvangi. Á hinn bóginn tekur maður gjarna ögrandi áskorunum og það verður gaman að takast á við ný verkefni á þessum vettvangi. Eitt sló mig við sem kom fram á þinginu. Það var upplýst að um 90 aðilum var boðið að sitja setningarhátíðina. Það voru t.d. allir þingmenn og fleiri aðilar í álíka ábyrgðarstöðum. Fæstir ef nokkur sá sér fært að koma. Það er hægt að kalla svona hluti ýmsum nöfnum en það er alla vega umhugsunarvert að þingflokkanrir sjái ekki til þess að einhver úr þeirra hópi þiggi formlegt boð á slíka atburði. Annað er óvirðing. Íþróttaþing er haldið annað hvert ár svo þetta er nú ekki á hverjum degi sem þeir þurfa að mæta. Á vegum íþróttafélaga og íþróttasamtaka um allt land er unið gríðarlega mikið sjálfboðaliðastarf. Fólk væri ekki að leggja á sig þessa miklu vinnu í frítíma sínum nema vegna þess að það hefur trú á að það skipti máli.

fimmtudagur, apríl 07, 2011

The Kinks - I'm On An Island

Lómur að belgja sig


Icesafe málið er mál málanna þessa dagana. Það er bara fínt að fólk ræði það sem máli skiptir og geri tilraun til að setja sig inn í flókin og erfið mál. Það má sí sjálfu sér þakka forsetanum fyrir að hafa vísað þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu því það hefur kallað á upplýsta umræðu. Eftir þvís em maður sér best þá er ekkert eingilt svar við því hvort eigi að samþykkja Icesave samninginn eða ekki. Hvor sem niðurstaðan verður þá kemur aldrei í ljós hver hefðu orðið áhrif hinnar niðurstöðunnar, hvort sem hún verður góð eða slæm. Það er eitt sem mér finnst allra verst í þessu máli. Það er "Úlfur úlfur" effektinn. Það var sagt við Icesave I að allt færi fjandans til ef sá armi samningur væri ekki samþykktur. Nú vill enginn kannast við hann og í annan stað þá eru því sem næst allir sammála því að ef hann hefði verið samþykktur þá ætti landið sér ekki efnahagslegrar viðreisnar von. Svo kom Icesave II. Þá byrjaði sami söngurinn aftur. Ég hlustaði nýlega á umræður í þinginu sem fóru fram undir árslok 2009 og það vantaði nú ekki að þetta var bæði sá besti samningur sem mögulegt var að ná og allt átti að fara fjandans til ef hann yrði ekki samþykktur, "þó fyrr hefði verið" eins og einn sagði. Lögunum var vísað í þjóðaratkvæði sem hafnaði þeim með fáheyrðum meirihluta og ágætri kosningaþátttöku. Þá var enn farið og samið enn betur sem átti þó að ómögulegt. Það dylst engum að Icesave III er bestur allra þeirra samninga sem lagðir hafa verið fram um þetta mál. Þá hefst sama röksemdafærslan um hvað gerist ef hann verði ekki samþykktur. Það má vel vera að hvert einasta orð já manna sé satt og rétt. Hvað veit ég? Ef svo er þá hlýtur það að vera gríðarlegt áhyggjuefni fyrir stjórnvöld ef kosningin færi svo að meirihluti þjóðarinnar treysti því ekki sem frá þeim kemur. Verra getur það varla orðið því hér er ekkert smá mál á ferðinni. Það er náttúrulega svo að ef maður er oft búinn að hrópa Úlfur úlfur og aldrei kemur skrattans úlfurinn þá hætta allir að hlusta enda þótt að hann birtist um síðir og ekki fríður í framan. Það verður nú að segjast eins og er að áróðurstækni þeirra sem hafa barist fyrir samþykkt samningsins hefur ekki verið sérstaklega skörp. Hverjum í ósköpunum datt í hug að draga fram tuttugu ex ráðherra og þar trónir fremstur fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins sem lagði Icesave áróðrinum lið í Hollandi. Sú tíð er löngu liðin að fyrrverandi ráðherrar séu einhver átorítet sem lýðurinn fylgir í blindni. Þetta hélt ég að allir vissu sem fylgjast eitthvað með. Ég skráði í vikunni mig formlega í 24 tíma hlaup sem fer fram í Belfast seint í júlí. Ég hef aldrei komið til Írlands og hvað þá til Norður Írlands. Þetta verður spennandi. Líklega reynir maður að sjá sig eitthvað um þarna því það er nú partur af þessu dæmi. Það er ekki verið í Norður Írlandi á hverjum degi. Tíminn er fínn. Ég er kominn á ágætis ról svo nú liggur leiðin bara upp á við fram á sumarið. Við fengum Sindra Skúlason áhugamann um fuglaljósmyndun á Fókusfund í vikunni. Hann hélt allt að tveggja tíma fyrirlestur bæði um tæknilega hluti og síðan renndi hann yfir nokkrar frábærar fuglaljósmyndir. Sindri er einn af þeim fremstu hérlendis. Fuglaljósmyndum krefst mikillar yfirlegu, gríðarlegs áhuga, góðra tækja og mikillar þolinmæði. En ef vel tekst til er eftirtekjan óskaplega mögnuð.