föstudagur, október 30, 2009

THE BEATLES - HOLD ME TIGHT

Við Deildartunguhver

Umræðan um einelti í grunnskólum er alltaf jafn átakanleg. Maður spyr sig hvernig svona lagað geti gengið árum saman í sama skólanum gagnvart sama einstaklingnum. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en kerfisbundnar misþirmingar eins og þær sögur hljóða sem fólk hefur verið að segja undanfarna daga í fjölmiðlum. Það eru alltof mörg ljót dæmi til staðar svo hægt sé að segja að þetta sé eitthvað sem komi mönnum á óvart. Það sem gerir þetta svo sérstakt gagnvart grunnskólanum er að það er skólaskylda. Börnin sem verða fyrir einelti eiga ekkert val. Þau eru skylduð til að mæta kvölurum sínum hvort sem þau vilja eða ekki. Ef þau skrópa eru þau orðin að vandamáli. Það fullorðna fólk sem á að bera ábyrgð á börnunum bregst algerlega. Ég vildi ekki hafa borðið ábyrgð á skólastarfi og fá síðan svona sögur yfir mig. Það er spurning um ábyrgð í slíkum tilfellum. Ég veit um sænsk dæmi þes efnis að einstaklingar sem hafa orðið fyrir illyrmislegu einelti í grunnskóla hafa saksótt sveitarfélagið vegna þess að það veitti þeim ekki þá vernd sem eðlilegt var að gera ráð fyrir að börn fengju. Sveitarfélögin tapa slíkum máluð iðulega. Ég þekki persónulega mjög vond dæmi um þetta að norðan. Þegar foreldrafélagið gekk í því að fá fagfólk inn í skólann til að taka á svona málum þá kom það flestum á óvart að gerendunum leið ekki síður illa en þeim krökkum sem urðu fyrir djöfulskapnum.

Ég hélt að foreldrar bæru ábyrgð á gerðum barna sinna. Ef krakkarnir mínir hefðu farið yfir í garðinn við næsta hús, kastað grjóti í rúðu og brotið hana hefði ég veskú og spís orðið að borga. Ef krakkarnir mínir hefðu hagað sér eins og vitleysingar einhversstaðar þá hefði ég verið skammaður fyrir að hafa ekki alið þau almennilega upp. En ef krakkarnir eru látnir taka lán í banka upp á milljónir þá er lánið látið niðurfalla þegar upp kemst. Ég á ansi erfitt með að trúa því að krakkar undir fermingaraldri hafi farið í bankann og óskað eftir láni til að kaupa stofnfé fyrir upp á milljónir á milljónir ofan. Ætli foreldrarnir hafi ekki verið með í för og haft orð fyrir þeim? Vitaskuld. Ef bankafulltrúinn hefði farið að amla á móti þá hefðu foreldrarnir vafalaust orðið alveg vitlausir, öskrað og æpt yfir þvi að blessuð börnin væru að missa af gróðatækifæri. En vafalaust hefur bankafulltrrúinn verið á prósentum svo lán á nafni krakkanna hafa vafalaust haft í för með sér launahækkun til hans. Þannig voru allir ánægðir - um tíma -. En þegar fjárhættuspilið gengur ekki upp þá á bara að fella lánið niður rétt si svona. Skamm, skamm, svona má ekki gera. Og almenningur á að borga. Auðvitað á að láta foreldrana vera ábyrga fyrir þessu rugli sem þau stofnuðu til algerlega upp á eigin kontó og með eigin græðgi sem drifkraft. Reynslan er góður skóli en skólagjöldin í honum eru stundum ansi há.

Tálknaféð vefur upp á sig. Mogginn spanderar forystugrein og alþingismaður ætlar að taka málið upp á Alþingi. Það á að friða villt fé. Þetta er svo náttúrulegt og sætt að hafa villt fé í fjöllum. Landnámskindur. Háfættar og liprar. Úrval náttúrunnar. Ég sé ekkert sætt eða flott við það að láta fé drepast úr hor á útigangi rétt við bæjardyrnar, horfa á það fara fram af klettum á svelli eða láta það dragast upp í ullarhafti. Greinilega eru margir á annarri skoðun. Það kemur því miður fyrir að svokallaðir bændur fara illa með kindur og láta skepnur drepast úr vanhirðu. Eiga nágrannar og eftirlitsaðilar bara að horfa upp á það og segja: ja, náttúran hefur sinn gang?

fimmtudagur, október 29, 2009

THE BEATLES - YES IT IS

Gamla kirkjan í Reykholti

Áfram var haldið að fjalla um féð í Tálknanum í fréttum í dag. Fram kom að formaður fjallskilanefndar Tálknafjarðar er tilbúinn að fara með heypoka út í Tálkna í vetur til að fóðra féð. Það verður ekki auðveld ganga. Það vita allir sem vilja vita. Þótt það sé nóg gras í Tálknanum nú í októberlok þá er staðan dálítið önnur þegar vetur er genginn í garð. Þá er snjór í fjallinu, svellbólstrar loka féð inni og hagi lélegur eða enginn. Umræðan er oft dálítið einfölduð. Það er verið að bera saman sauðfé og hreindýr. Af hverju má sauðfé ekki vera villt fyrst hreindýr eru það? Ullin gerir t.d. grundvallarmun á þessum tveimur dýrategundum. Kindur drepast beint eða óbeint undan því að bera fleiri ára ullarbrynju. Það er ljóst að þeir sem hæst tala um að það eigi að hafa útigöngufé þarna í fjallinu þekkja ekkert til aðstæðna þarna. Ég sé ekkert fagurt eða flott við að láta fé vera í hirðuleysi á stöðum þar sem það drepst meira og minna úr hor, hrapar í klettum eða ferst úr ullarhafti. Í ríkisútvarpinu var vitnað í að einhverjir hefðu verið að blogga um þetta mál. Eru bloggarar nú orðinn einhver valda- eða áhrifafaktor í samfélaginu?

Stundum verður maður bara orðlaus. Í Kastljósinu í kvöld var rætt við konur sem eru að byggja upp verkefni í Suður Afríku í þeim tilgangi að hjálpa unglingsstúlkum sem hafa orðið fyrir nauðgunum og eru útskúfaðar í samfélaginu fyrir vikið. Fram kom að foreldrar sumra reyna að drepa þær, líklega til að bjarga heiðri ættarinnar. Þær eiga sér ekki viðreisnar von eftir þetta og lenda margar í að þurfa að framfleyta sér með götuvændi. Verkefnið gengur út á að veita þeim skjól, mennta þær og byggja þær upp svo þær eigi sér viðreisnar von í samfélaginu. Eftir að einhver fréttakona hafði spurst fyrir um verkefnið fram og aftur og átti því að vera orðið nokkuð ljóst um hvað að snerist þá kom þunga spurningin: "Af hverju eruð þið að hjálpa þessum konum, af hverju hjálpið þið ekki bara konum á Íslandi?"
Fréttamaður sem spyr svona spurningar í kjölfar þeirrar umfjöllunar sem búið var að fara yfir getur ekki hafa skilið orð af því sem um var rætt, hefur enga tilfinningu fyrir því sem búið var að sýna henni eða hún er svo heltekin af hinni svokölluðu kvenfrelsisbaráttu á Íslandi að henni finnst allt annað vera hjóm eitt í samanburði við það. Maður lætur sig bara hverfa þegar umræðan er komin á þetta plan.

miðvikudagur, október 28, 2009

The Beatles - This Boy

Við Grímsá

Það var verið að smala Tálknann í dag og gerð tilraun til að hreinsa hann af fé. Það er ekki auðvelt því hann er erfiður yfirferðar fyrir venjulegt göngufólk, hvað þá þegar verið er að smala ljónstyggu fé. Það er eins og áður að þegar verið er að eiga við féð þarna þá byrja einhverjir að fjasa um að það eigi að láta þennan svokallaða villta fjárstofn í friði. Menn tala eins og þarna sé eitthvað sérstakt fé á ferðinni. Það er líka talað um að það sé allt að því dýravernd að láta féð í friði. Það er náttúrulega fásinna. Þetta eru bara venjulegar útigöngukindur sem hafa lifað af allskonar harðræði í Tálknanum. Flest af því er í mörgum reifum sem bæði gerir því erfitt fyrir bæði sumur og vetur. Sumurin eru erfið þegar hitinn er sem mestur á móti suðrinu. Þá sækir féð í skugga og hreyfir sig ekki vegna óþæginda. Það hefur áhrif á hvað ærnar mjólka fyrir lömbin. Á veturna hleðst snjór og klaki í rúgið sem gerir féð allt að því ófært til að bjarga sér. Ullarhaft er algengur fylgifiskur þess þegar ullin er ekki tekin af kindum. Ullarhaft getur sargað legginn í sundur eða leitt til ígerða með tilheyrandi sýkingum í afturfætur. Það segir sína sögu að þarna eru einungis milli 20 og 30 kindur. Hinar eru dauðar vegna allskonar áfalla. Flest lömbin virðast drepast yfir veturinn. Ef stofninn hefði eðlilega viðkomu væru þarna fleiri hundruð fjár.
Ég man eftir því þegar ég er þarna fyrir vestan fyrir eitthvað um 30 árum þá gekk ég eitt sinn dálítið langt út á hlíðina fyrir utan þorpið. Þá rakst ég á svo glithoraða kind að ég hefði getað tekið hana undir hendina eins og tóman poka. Hún var blind og hennar beið ekkert annað en að drepast. Henni var náttúrulega lógað eins fljótt og hægt var. Fæstum finnst það vera neitt ánægjuefni að vita af skepnugreyjunum þarna að vera að drepast úr hungri eða hrapa á svellum. Því er eðlilegt að reyna að hreinsa Tálknann algerlega af fé á hverju ári. Það er dýraverndarmál.

Ég rakst á ágætt viðtal við tvo norðmenn sem eru góðir maraþonhlauparar. Annar þeirra vann Oslómaraþonið í ár. Þeir eru að fara yfir hvernig fólk á að þjálfa sig upp til að hlaupa gott maraþon. Annar þeirra leggur til eftirfarandi meginþjálfun:
1. 3-4 sinnum 1600 metrar á 10 km hraða. Tvær mínútur á milli spretta. Skokkað létt fyrir og eftir í ca 10-15 mín.
2. Millihratt hlaup með stígandi tempói upp í maraþonhraða. Samtals í 1-1,5 klst. Skokkað létt fyrir og eftir.
3. Löng hlaup í 1,5 - 2,5 klst.
Þessi hleypur tvisvar á dag eftir því sem fært er.

Hinn hleypur 130-160 km á viku.
1. Einn langur túr upp á ca 30 km.
2. Einn túr með intervall hlaupi eða stígandi hraða.
3. Tveir dagan með hálflöngum túrum upp á 20-25 km.
4. Síðan eru hlaupin róleg hlaup til að ná því sem upp á vantar.

þriðjudagur, október 27, 2009

The Beatles I'm a loser (gerist vart betra)

Stoltur fálki

Mál Lithaénsku stúlkunnar sem ærðist í flugvelinni á leið til landsins frá Warsjá nú nýlega hefur heldur betur undið upp á sig. Þarna virðist heill glæpaflokkur verið á ferðinni og hann ekki af betri sortinni. Mannsal, tryggingasvik, handrukkanir og eiturlyf. Þetta er veruleikinn á Íslandi í dag. Maður hefur ekkert heyrt amlað á móti því að það hafi verið upplýst að hluti flokksins hafi verið Litháar. Skyldi það vera farið að renna upp fyrir æ fleirum að alvöru bófaflokkar eru komnir til landsins og hafa verið að óperera hér af fullum krafti. Það var svo sem nóg af slíku fyrir en á undanförnum misserum hefur nýr kraftur verið settur í þessa grein samfélagsins. Þjófagengi hafa komið til landsins beinlínis í þeim erindagjörðum til að stela. Maður veltir fyrir sér hvað veldur. Eru íslendingar eins og hver annar hænsnahópur sem er illa undir slíkt búinn eða hvað? Á árunum eftir fall kommúnismans sá maður í norrænum blöðum að svona hópar flæddu yfir norðurlöndin. Við erum kannski bara svolítið á eftir.
Það kemur náttúrulega á daginn að mannsal hérlendis er langt í frá bundið við kvenfólk og vændi eins og umræðan hefur nær eingöngu snúist um hérlendis á undanförnum árum. Umræðunni um þau mál hefur verið stýrt út um hið þrönga kýrauga feministafélagsins. Það er afskaplega hæpið sjónarhorn á samfélagið. Karlar eru í þess háttar fjötrum í byggingariðnaði og veitingabransanum svo dæmi séu nefnd. Fyrir nokkrum árum fórst hópur Kínverja við skelfisktínslu í Bretlandi sem var í slíku þrælahaldi. Hvaðan kemur svo þetta fólk sem hafnar í þessari stöðu? Ekki eru það Skandinavar eða neðan úr Vestur Evrópu. Þetta vesalings fólk á það yfirleitt sammerkt að koma frá fyrrum eða núverandi kommúnistaríkjum. Þjóðfélögin þar eru brotin og fólki er víða allar bjargir bannaðar. Eftir hrun kommúnismans var atvinnulífið í Austur Evrópu í rúst, atvinnuleysið fór upp úr öllu valdi, kaupmáttur launa var enginn og þannig má áfram telja. Fólk sem hafnar í slíkri stöðu reynir að bjarga sér með öllum tiltækum ráðum. Það er þá oft auðveld fórnarlömd glæpamanna.

Ég man efir því þegr ég vann á Kamchatka að við vorum einu sinni á gangi á markaðnum og spjölluðum saman á íslensku. Einhver kona heyrði að þarna voru útlendingar á ferð, stökk á okkur og spurði hvort við gætum ekki bjargað dóttur hennar út úr landinu. Til að fá að yfirgefa landið þá þurfti viðkomandi að fá boðsbréf frá einhverjum utanaðkomandi. Við vorum náttúrulega eins og hverjir aðrir labbar sem gátum ekkert gert en við ræddum oft um það síðar hvað þetta svæði væri kjörið veiðisvæði fyrir glæpamenn þegar staðan væri svona að fólk mætti ekki heyra erlent mál nema bregðast svona við.

Gísli aðalritari skoðaði aðeins á dögunum skrá ÍSÍ um íþróttaiðkendur eftir íþróttagreinum. Fótbolti og golf tróna þar efst með rúma 18.000 iðkendur hver grein. Þar er greinilega allt til talið. Sagt er að rúmlega 3.000 manns æfi hlaup. Til viðmiðunar þá kom hálft tólfta þúsund manns á Reykjavímur maraþon sl. sumar. Hátt á þriðja þúsund manns skráir æfingar sínar reglulega inn á www.hlaup.som. Þessar tölur hjá ÍSÍ eru náttúrulega alveg út í hött en þær hafa áhrif varðandi vægi einstakra íþróttagreina.

Morgunblaðið leggur greinilega mikið effort í að hafa samband við alla íslenska knattspyrnumenn sem spila hjá erlendum liðum á hverri helgi til að kanna hve þeir hafi spilað mikið og hvernig þeim hafi gengið. Sama gildir um handboltamennina. Þetta er svo mikill heimalingsháttur að það er dæmafátt. Að það sé tiltekið viku eftir viku að hinn eða þessi spili ekki með liði sínu. Hvaða frétt er það? Það er nákvæmlega engin frétt og það stendur öllum hjartanlega á sama nema kannski þrengsta vinahóp og fjölskyldu viðkomandi. Menn eru þarna á eigin vegum og annað hvort spjara þeir sig eða ekki. Það er fínt að fylgjast með þeim sem eru virkilega að gera það gott en að sópa út í öll horn, það er of mikið fyrir minn smekk. Ég taldi fjölda íslenskra fótboltamanna höfðu verið skoðaðir af Mbl um síðustu helgi. Það voru rúmlega tuttugu sem höfðu spilað eitthvað en nær fimmtán sem höfðu vermt tréverkið allan leikinn. Á sama tíma og blaðamenn Mbl eru að gaufa í þessu á hverri helgi þá eyða þeir sömu blaðamenn tölvupóstum með úrslitum hérlendra maraþonhlaupa án þess að lesa þá einu sinni.

Þetta er síðan heldur farið að nálgast hjá Hermanni Hreiðarssyni. Hann er farinn að skokka herma síðustu fréttir en því var skilmerkilega komið á framfæri í sjónvarpinu í kvöld að hann hefði ekki spilað neitt. Það bíða allir spenntir eftir næstu ekki fréttum af þessum ágæta pilti.

Að krókna úr kulda þýðir að frjósa í hel. Deyja úr kulda í þess orðs fyllstu merkingu. Hljómsveit nokkur króknaði nýlega úr kulda við myndatökur hérlendis samkvæmt fjölmiðlum. Það er satt að segja ósköp hvimleitt að heyra hvernig lélegir fjölmiðlamenn klæmast á tungumálinu.

sunnudagur, október 25, 2009

The Beatles And I Love Her

Lundi að skammast

Það var dálítið einkennilegur pistill á Eyjunni nýlega. Þar skrifaði einhver kona um langhlaup og fann þeim allt til foráttu. Hún sagðist ekki vera fráhverf hlaupum og hlaupa allt að 10 km á viku. Ekki ætla ég mér þá dul að fara skipta mér af því hvað hún hleypur mikið en þá verður maður að ætlast til þess saman, hvað er hún að skipta sér af því hvað aðrir hlaupa. Hvað ætli væri sagt ef maður færi að skrifa greinar í opinbera fjölmiðla og fjargviðrast yfir þeim sem hlaupa einungis 10 km á viku. Það er alltaf spurning hvað er hollt eða ekki. Það er hollt að þjálfa anda og efni þannig að hann geti meir í dag en í gær. Það er hins vegar ekki hollt að gera meir en maður getur. Ég hef svo sem ekki séð að það að hlaupa maraþon sé eitthvað sérstaklega hollt pr ce en það er afar hollt að byggja skrokkinn upp þannig að maður sé þokkalega fær um að hlaupa í fleiri klukkutíma. Auðvitað verða menn að ætla sér af og láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur. Íþróttir taka á. Meiðsli eru mun algengari í öðrum íþróttum en hlaupum s.s. í fótbolta og handbolta. Það þarf ekki annað en að lesa íþróttasíður blaðanna til að sjá það. Margir segja að ég geti hlaupið svo langt sem raun ber vitni á þeim aldri sem ég er vegna þess að ég hafi ekki eyðilagt á mér lappirnar í boltaíþróttum á yngri árum. Það er ekki út í hött að góðir sundmenn fara stundum í langhlaup þegar þeir hætta keppni í sundinu en mjög sjaldgæft að hitta gamla fótboltamenn í langhlaupum. Við félagarnir erum sammála um það að það séu ótrúleg lífsgæði og í raun og veru hrein forréttindi að geta hlaupið úti klukkutímum saman ef maður hefur áhuga á því og lagt maraþon að baki þegar mann langar til. Maraþonvegalengdin er engin endamörk hins mannlega heldur á þessi vegalengd ákveðna sögulega skírskotun. Þess vegna er borin mikil virðing fyrir henni.
Því miður hefur það komið fyrir að fólk hafi látist í maraþonhlaupi. Það kemur einnig því miður fyrir á fótboltavellinum. Svona lagað getur gerst ef um er að ræða dulda veikleika hjá viðkomandi.
Ég held að þessi ágæta kona hefði haft gott af því að vera niður í Elliðaárdal í gær þegar hlauparana var að drífa í mark eftir að hafa hlaupið hálft og heilt maraþon í frábæru veðri og góðum félagsskap. Það var ekki að ósekju að manni var heilsað með orðunum: "Gleðilega hátíð" þegar ég kom á staðinn.

Það var sen vönduð frétt út til allra fjölmiðla í gær um úrslit hlaupsins. Mjög góður árangur náðist í hlaupinu. Engu að síður var það staðfest að fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á því ef tveir menn segjast koma saman og vera að mótmæla einhverjum skrattanum heldur en þegar á annað hundrað manns hleypur hálft og heilt maraþon. Þó skal það tekið fram að DV birti frétt um hlaupið. Þeir hafa sóma af því. Þeim mun meiri er þá skömm RÚV sem dregur áskriftargjaldið með valdi upp úr vösunum á manni.

Það var keppt í 100 km hlaupi í Noregi í gær. Helgi Hafsås sigraði eins og búist var við á 7 klst og 11 mín. Það er alveg magnaður tími. Þegar hann lauk hlaupinu voru einungis fjórir aðrir komnir yfir 80 km. Mjög magnaður norskur hjólreiðamaður sem aldrei hafði hlaupið lengra en 5 km tók þátt í hlaupinu. Hann hætti að vísu eftir eitt maraþon en hann lauk því á 2 klst og 49 mín. Það sýnir manni að hjólreiðar eru mjög góð aðferð til að byggja fæturna upp fyrir hlaup. Daníel Smári sýndi þetta einnig t.d. í fyrra fyrir Laugaveginn þar sem hann sigraði. Hann hafði sáralítið hlaupið en hjólað þeim mun meir.

laugardagur, október 24, 2009

The Beatles - Come Together

Krakkar í Tassilaq

Ég komst ekki í Haustmaraþonið sökum anna svo ég fór minn eigin veg í dag. Ég lagði af stað undir hálf sjö og fór tvo Eiðistorgshringi eða 40 km. Ég var kominn heim kl. tæplega 10:00. Þá þurfti ég að gera eitt og annað en lagði aftur af stað upp í Breiðholt um kl 12:00. Þar var ráðgert smá skokk og ganga í tengslum við Breiðholtsdaga sem styrktaraðgerð við Grensássöfnunina. Ég kom við í markinu í Elliðaárdalnum. Þar var fólk að drífa að í hálfu og heilu maraþoni. Veðrið lék við hlauparana enda náðust fínir tímar bæði í hálfu og heilu. Sannkallaður hátíðisdagur. Hópur fólks var samankominn við Breiðholtslaugina. Edda Heiðrún Backmann, sú mikla kempa, fjallaði aðeins um hvers vegna verið er að safna fyrir Grensásdeildina og borgarstjórinn skaut hópnum af stað. Svo var gengið og skokkað dálitinn spöl eftir aðstæðum hvers og eins. Að því loknu var safnast saman í Gerðubergi, teygt, spjallað, og þorstanum svalað. Síðan rúllaði ég heim aftur. Nokkrir tugir þúsunda söfnuðust en Guðrún frænka mín forstöðukona í Gerðubergi er búin að setja sér ákveðið markmið í söfnun fjármuna sem hún ætlar að ná á næstunni. Fínn dagur.

Ég sé á textavarpinu að formaður VG hefur áhyggjur af því hvernig stjórnsýslan yrði ef ráðherrar létu undan þrýstingi hagsmunahópa. Þessar áhyggjur hans koma til vegna þeirrar gagnrýni sem umhverfisráðherra hefur orðið fyrir í sambandi við ákvörðun hennar um umhverfismat í sambandi við fyrirhugað álver í Helguvík. Ég tek alveg undir þessi sjónarmið formannsins. Það væri ekki burðug stjórnsýsla ef ráðherrar sveifluðust fyrir veðri og vindum í afstöðu sinni eftir því hvernig hljóðin og hávaðinn væri í einstökum þrýstihópum. Umhverfisráðherra er ekki eini ráðherrann sem hefur orðið fyrir harðri gagnrýni á undanförnum dögum. Dómsmálaráðherra hefur einnig fengið sinn skammt af gagnrýni vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að vísa nokkrum hælisleitendum úr landi á dögunum. Ráðherra hefur vísað í ákveðið regluverk í því sambandi. Umhverfisráðherra hefur þó fengið hljóð á þeim fundum þar sem hún hefur flutt mál sitt og rökstutt afstöðu sína en óhljóðin í gagnrýnendum dómsmálaráðherra voru slík á fundi í HÍ á dögunum að ráðherrann mátti hverfa frá fundinum án þess að geta flutt mál sitt. Áhrifamenn í VG hafa einnig gagnrýnt dómsmálaráðherra í blöðum fyrir ákvörðun sína. Enn hef ég ekki séð að neinn samráðherra dómsmálaráðherra í ríkisstjórninni hafi varið hana opinberlega. Þó skal ég fúslega viðurkenna að ég hlusta ekki á allar útvarpsstöðvar og margir spjallþættir fara fram hjá mér. Því geta ýmsir hafa borið blak af dómsmálaráðherra án þess að ég hafi heyrt það. Blöðin les ég hins vegar reglulega og margar netfréttasíður. Mér þykir hins vegar mjög eðlilegt að það sama gildi um stjórnsýslu innan dómsmálaráðuneytisins og innan umhverfisráðuneytisins að hún sé principföst og fylgi ákveðnu regluverki ella geti illa farið.

Ég var að horfa á diskinn "Shin a Light" sem er tekin á konsert Rolling Stones frá árinu 2006. það er hreint magnað hvernig þessir karlar halda sér. Það er nú ekki eins og þeir hafi lifað neinu heilsulífi gegnum tíðina, alla vega ekki sumir þeirra. Charlie er fæddur 1941 og Mick og Keith eru fæddir 1943. Þeir eru sem sagt farnir að potast þarna töluvert á sjötugsaldurinn. Engu að síður er Jagger eins og strákur á skrokkinn, hleypur og hamast. Hann er þó orðinn aðeins farinn að snjást í framan. Keith er orðinn þannig að hann eldist líklega ekki meir í framan en spilar sem aldrei fyrr. Hljómurinn sem þeir senda frá sér er einstakur. Það nær honum engin hljómsveit. Maður hefur séð ýmsar hljómsveitir sem hafa lifað sjálfan sig svo rækilega að það er hreint tragiskt. Rollingarnir eru hins vegar orginal. Það var synd að konsertinn á Benidorm féll niður fyrir fimm árum síðan. Líklega fór þar eina tækifærið forgörðum sem ég mun fá til að sjá þá.

fimmtudagur, október 22, 2009

THE BEATLES BACK IN THE U.S.S.R

Grænlandsfarar 2007 á toppi Polhelmsfjalls

Ég fór upp í Breiðholtslaug í gærmorgun að spjalla við pottverja. Þeir setjast gjarna niður í anddyrinu upp úr kl. 7.30 og taka sólarhæðina eftir að hafa synt eða seti í pottinum. Það var gaman að spjalla við fólkið og ýmsilegt bar á góma. Ein hjón komu keyrandi sunnan úr Grindavík til að sjá gripinn. Bóndinn er 73 ára gamall og mjög kvikur, hleypur reglulega úti og tekur þátt í kapphlaupum. Þetta er flott. Hann sagðist hafa fyrir nokkru byrjað að nota morgunmatarmatseðilinn minn og líkaði hann vel. Ég fór aðeins yfir ýmis mál en dvaldi mest við Akureyrarhlaupið frá því í sumar. Það er svona dálítið sér á parti og mun ekki gleymast. Að lokum sagði ég fólkinu að það mætti ekki láta dagatalið stjórna því hvað það tæki sér fyrir hendur heldur að hlusta á sjálfan sig og hvað það langaði til að gera. Aldur er t.d. svo afstæður. Fólk getur yfirleitt miklu meira en það heldur. Það þarf ekki annað en að líta á Evrópumót fatlaðra sem haldið er í Laugardalslauginni þessa dagana. Hvernig gæti manni dottið í hug að maður sem hefur bara hálfan handlegg geti synt skriðsund af fullum krafti eins og dæmin sanna.

Til er handbók fyrir glæpamannaklíkur sem samin hefur verið í því skyni að gera það auðveldara fyrir þesslags hópa að komast upp með iðju sína. Sú bók sem ég hef heyrt af var í upphafi samin í Bandaríkjunum en hefur náttúrulega verið þýdd um víða veröld. Í henni eru meðal annars leiðbeiningar um hvernig eigi að draga vigtennurnar úr lögreglu og dómurum. Það er einfaldlega gert á þann hátt að ógna fjölskyldu viðkomandi. Ekið er á eftir börnum úr leið úr skóla, tölvupóstar eru sendir þar sem gefið er í skyn að bófarnir viti allt um ferðir krakkanna og svo framvegis. Markmiðið er að lögregla eða dómari hugsi frekar um öryggi fjölskyldunnar en að koma krimmunum undir lás og slá. Af þessum meiði er sá skrílsháttur sprottinn sem ákveðinn hópur hefur ítrekað sýnt af sér með því að safnast öskrandi fyrir utan heimili dómsmálaráðherra. Það getur hver sjálfan sig séð að eiga ung börn sem verða skelfingu lostin vegna þess að ókunnugt fólk standi öskrandi á stéttinni vegna vinnu foreldsins. Blaðamaður Fréttablaðsins mælir þessari aðferðafræði t.d sérstaklega bót í blaðinu í gær en verður að fara aftur til 1938 til að finna samsvörun í skrílslátum
við heimili stjórnmálamanna. Mér fannst dómsmálaráðherra skýra málið vel út í Kastljósi í kvöld. Hún kom inn á að stjórnvöld verða að fara eftir jafnræðisreglu. Þau mega ekki láta eina reglu gilda fyrir einn og aðra fyrir annan. Það er hins vegar það sem þeir vilja sem hafa hæst í mótmælunum. Af því einhver á vini hérlendis á að veita honum hæli. Það má þá líklega henda þeim vinalausa úr landi af því það sér enginn eftir honum. Eins og vanalega eru svona mál komin inn á gafl hjá fjölmiðlum. Það er gott fyrir fjölmiðla að fá svona mál í haustmyrkrinu.

Lögreglan segist vita um fleiri kannabisfabrikkur en þeir komast yfir að uppræta. Ég ætla bara að vona að sektaraðgerðir við Víkina vegna foreldra sem leggja bílum upp á gras tefji lögregluna ekki of mikið frá því að koma lögum yfir kannabisbændur.

Það var athyglisvert viðtalið við Kristinn Pétursson frá Bakkafirði í Silfrinu á helginni. Hann vildi auka þorskveiðar stórlega og færði ákveðin rök fyrir því. Einnig vildi hann óháða úttekt á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég ehf ekki mikið vit á þessum málum en hitt veit ég að afrakstur hafsvæðisins í bolfiski hefur ekkert gert annað en að dragast saman á þeim 25 árum sem fiskveiðum hefur verið stjórnað kerfisbundið. Stöðugt er ráðgjöfin á þann hátt að þá verður að draga meir og meir úr veiðinni. Það er náttúrulega ekki í lagi. Eitthvað er öðruvísi en það á að vera. Ég er ekki hrifinn af strandveiðifyrirkomulaginu frá í sumar. Þegar kvótinn er takmarkaður þá verður að hafa samspil framleiðslu og markaðar á þann veg að hámarksnýting náist úr auðlindinni. Þegar leyfð er veruleg sóknaraukning um skamman tíma þá þýðir það að framboðið eykst gríðarlega á markaði. Það þýðir verðfall samkvæmt öllum náttúrulögmálum. Það tekur lengri tíma að ná verði upp heldur en að láta það súnka niður. Ef það er erkki flóknara en svo að auka kvótann en virtist í þessu tilfelli þá verður að deila honum út á annan hátt en eftir versta kerfi sem hægt er að hugsa sér. Að veiða sjávarafla óháð markaðsaðstæðum er afturhvarf marga áratugi aftur í tímann.

Ég las nýlega frásögn Geirs Frykholm, norks ultrahlaupara, frá Spartathlonhlaupinu í haust. Geir lauk hlaupinu í fyrra en nú fór allt í steik. Með Geir hljóp Svíinn Kent Sjölund frá Norrbotten. Það fór á sömu leið hjá honum og Geir en Kent lauk hlaupinu ekki heldur í fyrra. Ég kannaðist vel við einkennin hjá þeim frá því í hitteðfyrra. Það vantaði næringu á drykkjarstöðvum. Maginn fór í uppnám. Þeir félagar voru meir og minna ælandi eftir Korinth eða eftir 80 km. Síðan fór andinn að láta undan vegna orkuskorts. Efasemdir sóttu að og rökin fyrir því að hætta sóttu sífellt stífar á. Þegar þeir sáu svíann Cristian Ritella liggja á dýnu eftir u.þ.b. 140 km þá datt botninn endanlega úr tunnunni. Fyrst hann er hættur þá getum við alveg eins hætt líka. Það er alveg á hreinu að maður á bara að treysta á sjálfan sig í Spartathlon. Grískum er ekki að treysta hvað matinn varðar.

Ég hélt að stærð markaðar réði nokkru um verðið. Mikil eftirspurn = stærri markaður = meiri samkeppni = lægra verð. Þetta lögmál gildir nema þar sem er fákeppni. Þá er lögmálið svona: Stór markaður = mikil eftirspurn = lítil samkeppni = hátt verð. Hvað á maður að halda þegar bensínverðið er alltaf lægra á Egilsstöðum en í Reykjavík þegar ég kem austur?

Það er mikið talað um mansal þessa dagana. Mansal, þetta orð vekur ýmsar spurningar. Orðið "man" er kvenkenning sbr. "Hið ljósa man". Eru það þá bara konur sesm seldar eru í nauðungarvinnu? Samkvæmt mörgum greinum sem skrifaðar um þetta efni eru þá mætti halda það. Það er náttúrulega hrein bábilja eins og svo margt annað sem kemur úr þess háttar herbúðum. Þrælahald og þrælasala nær yfir bæði karla og konur. Því ætti að kalla þennan verknað mannsal (sbr orðið mannkyn) fyrst mönnum klígjar við að nota þrælahald sem er náttúrulega rétta orðið.

mánudagur, október 19, 2009

Dverghamar á Síðu

Bílastæðasjóður og lögreglan gerði enn eitt áhlaupið á Víkinga á laugardaginn. Þá voru bikarleikir í handbolta í Víkinni. Alls eru um 50 bílastæði tiltæk við íþróttasvæði Víkings. Borgin var búin að leggja upp áætlanir með að fjölga þeim verulega en það var strikað út vegna samdráttar. Því verður fólk sem kemur í Víkinga að leggja út á grasið þegar bílastæði eru full. Þá hringir einhver vinsamlegur nágranni á lögregluna og hún kemur sem snarast og sektar dólgana sem leggja annarsstaðar en á bílastæðin. Ég hélt satt að segja að hún hefði öðrum hnöppum að hneppa en að skattleggja foreldra sem koma í Víkina til að fygljast með íþróttum. Þegar handboltaleikir eru í víkinni tekur hvort lið um sig a.m.k. 10 bílastæði eða 20 samtals. Dómarar taka tvö og starfsmenn leiksins þrjú. Starfsmenn hússins taka nokkur svo áhorfendur hafa nálægt 20 bílastæðum til afnota. Þegar maður ræðir þetta við varðstjóra bílastæðasjóðs þá er svarið: "Þeir geta bara komið gangandi." Ég sagði við hann; "Áhorfendur eru að koma frá Hafnarfirði, þeir koma ekki gangandi" ekkert svar eþgar maður spurði hvað á að gera nema: "Það má ekki leggja á gras." Ég kann ekki við að segja það sem mér finnst um svona lið en það er ekki fallegt. Vitaskuld eiga bílastæðasjóður, lögreglan og Víkingur að komast að niðurstöðu um málið í stað þess að lögreglan sé að sekta saklausa áhorfendur sem finna engin bílastæði og eiga sér einskis ills von.

Það var kosið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsns í dag. Hann var í vörslu Landsbankans fram að hruni en hefur verið undir stjótrn tilsjónarmanns síðan í vetur. Það var sannkallað ormadíki sem sást ofan í þegar fjárfestingarstefna sjóðsins var lögð fram á fundi sl. vetur. Hann tapaði miklum fjármunum í fyrra á vægt sagt vafasömum fjárfestingum. Það vakti athygli að starfsmenn Landsbankans fjölmenntu í framboð til stjórnar í sjóðnum. Þeir voru síðan kosnir í öll tiltæk stjórnarsæti. Þau eru greinilega það þægileg að það á ekki að sleppa þeim út fyrir dyr bankans. Svona samantekin ráð vekja margar spurningar. Sem betur fer er ég hættur að greiða í sjóðinn.

laugardagur, október 17, 2009

Happy Birthday - The Beatles

Jói í grand finale

Dómsmálaráðherra vísaði fjórum mönnum úr landi á dögunum eftir að hafa farið lengi og vandælega yfir málefnalegar ástæður þeirra. Út úr því kom niðurstaða. Í málum eins og þessum er unnið eftir ákveðnum reglum til að missa þetta allt ekki úr böndunum. Við niðurstöðuna varð örlítill hópur vitlaus eins og búast mátti við og mótmælti brottvísuninni. Rökin voru þau að þessir menn hefðu dvalist hér svo lengi að þeir hefðu myndað tengsl við land og lýð. Ef dómsmálaráðherra hefði unnið mjög hratt og fellt sömu niðurstöðu fyrir mörgum mánuðum þá hefði sami hópur orðið jafn vitlaus. Rökin hefðu þá verið þau að dómsmálaráðherra hefði unnið mjög hratt og hroðvirknislega í máli þeirra. Rökin eru tínd upp af götunni eins og best hentar. Þegar þessi hópur mótmælir brottvísum manna sem uppfylla ekki þau skilyrði sem unnið er eftir á alþjóðavettvangi og vísar til að það eigi að fella úrskurði í svona málum með hjartanu og út frá tilfinningum þá er eins gott að þau segi til um hve marga einstaklinga eigi að vista hérlendis út frá slíkri afstöðu. Eru það 4, 40, 400, 4.000, 40.000, 400.000 eða 4.000.000. Hvar liggja mörkin? Menn hljóta að hafa svör við slíkum spurningum. Eða skyldi svarið vera að það megi allir koma sem vilja koma? Það kæmi mér ekki á óvart.

Um 30-40 manns höfðu ekki þarfara að gera í dag en að standa niður á Austurvelli og vera með hávaða. Þetta fannst RÚV svo merkilegt að fréttastjórinn sendi fréttamann niðureftir svo það væri hægt að vera með beina útsendingu frá hávaðanum í hádegisfréttum? Þá var ekki verið að spara. Ekki sást einn einasti fréttamaður frá fréttastofu RÚV í miðbænum í sumar þegar Reykjavíkurmaraþonið var haldið. Þó voru mættir um 11.500 manns í miðbæinn á öllum aldri sem þreyttu hlaup af ýmsum toga. Það var ekki einu sinni getið um það í textavarpinu. Að maður tali nú ekki um Laugaveginn sem er annað fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Þó get ég fullyrt það að skokk og hlaup hafa meiri áhrif til betri lífsgæða heldur en flest annað sem fólk getur tekið sér fyrir hendur í frítíma sínum.

Sveinn er kominn til Oxford. Þar verður hann næsta árið í mastersnámi í hagfræði og hagnýtri stærðfræði. Fyrstu tvær vikurnar voru nýttar til að kynnast umhverfinu, skólanum og öðru því sem máli skiptir. Hann er búinn að fá sér sarta skikkju og smjöröskju með dúsk á höfuðið eins og skylt er. Skólastjórinn tekur nýmema til sín í hollum til að spjalla við þá og kynnast þeim aðeins. Þegar hann kvaddi hópinn sem Sveinn var í þá sagði hann við Svein um leið og hann kvaddi; "Hafðu ekki áhyggjur, við lítum íslendinga alls ekki sömu augum og Gordon Brown."

<3 Svanhvít hélt kveðjutónleika í kvöld niður í Hafnarhúsinu á Airwaves tónleikunum. Þau eru búið að spila í ein þrjú ár eftir að þau urðu í 2. sæti á Músiktilraunum hér um árið. Plata kom út í sumar sem fékk allmikla spilun Á Rás 2 miðað við það sem hljómsveitir fá sem eru í þessum gír. Nú fara leiðir að skilja. Þetta er vafalaust búið að vera mjög gaman. Ég hef tekið töluvert að myndum af krökkunum á þessu tímabili frá fyrsta kvöldi. Það er tímabært að setja þær bestu saman í eina góða Blurb bók til að krakkarnir geti haldið utan um minningarnar.

Hlaupin ganga vel. Allt er í fínu lagi. Ég geri ráð fyrir að halda mér í þokkalegu róli með því að fara að jafnaði um 100 km á viku fram til áramóta.

þriðjudagur, október 13, 2009

THE BEATLES- HERE COMES THE SUN

Ingólfsfjörður á Ströndum

Ég fékk ábendingu um að ég hafði tekið of sterkt til orða um að ekkert hefði verið fjallað um Svartbók kommúnismans í íslenskum fjölmiðlum. Það er alveg rétt, svolítið hefur verið fjallað um hana. Ég fylgist með fjölmiðlum svona eins og hver annar en alltaf fer þó eitthvað fram hjá mér. Það hefur komið ritdómur í DV og þýðandi bókarinnar og sagnfræðingur nokkur skiptust á skoðunum um hana á morgunvakt Rás 2. Ég kalla það hins vegar ekki fjölmiðlaumfjöllun þótt einstaklingar eins og ég séu að láta skoðanir sínar á bókinni í ljós á bloggsíðum. Síðan var minnst á hana á Eyjunni og Pressunni sem eru svona hálffjölmiðlar en ekki síður bloggsíðnasafn. Ég þurfti hinsvegar að hlusta tvisvar á fyrrgreint spjall á morgunvakt Rás 2 til að trúa mínum eigin eyrum.

Slóðin er hér: http://www.ruv.is/heim/vefir/ras2/morgunvaktin/frettir/nanar/store159/item297349

Sagnfræðingurinn sagði að framfarir í heilbrigðiskerfi Sovétríkjanna hefðu verið það miklar að þær hefðu einar og sér allt að því réttlætt það að Sovéska ógnarstjórnin lét drepa 85-100 milljónir manna. Ég held að þessi orð dæmi sig sjálf svo ég fer ekki að nota stóryrðaforðann frekar. Það er að mínu mati enginn eðlismunur á gyðingaofsóknunum á nasistatímanum og ofsóknunum gegn kúlökkunum í Sovétríkjunum. Leiðarljós stjórnvalda var útrýming. Mér finnst afstaða þýðandans vera mjög rökrétt. Nútíminn á að sýna fórnarlömbum Sovétkommúnismans jafnmikla virðingu og hann sýnir fórnarlömbum nasismans. Allt humm og jamm gagnvart þessum kafla mannkynssögunnar fer í taugarnar á mér. Af hverju er ekki talað við þá einstaklinga sem héldu sem ákafast fram ágæti Sovétríkjanna og Sovétskipulagsins á sínum tíma? Gagnrýnin umræða um Sovétríkin hér áður var einfaldlega afgreidd sem lygi og áróður auðvaldssinna. Hvað segja þeir sömu menn nú? Manni finnst allt tal um að stéttabarátta hafi verið rauði þráðurinn í innviðum Sovétríkjanna vera hreint og beint hjákátlegt. Kerfið var byggt upp þannig að fámenn yfirstétt réði yfir fjöldanum í krafti ógnarstjórnar. Það var betra að þegja og hlýða heldur en að vera drepinn eða sendur í Gúlagið.

Sagnfræðingurinn gagnrýndi Svartbók kommúnismans fyrir hvað hún gæfi einhliða mynd af framkvæmd kommúnismans í Sovétríkjunum. Mér finnst nákvæmlega allt í lagi að fjalla sérstaklega um þessa hlið Sovétskipulagsins. Auðvitað gerðist margt í landinu sem ekki var tómur djöfulskapur. Skárra væri það nú. En sú staðreynd að það þurfti að loka fólkið inni í skipulaginu með múr og hervaldi svo það tæki ekki á rás til auðvaldsslandanna segir meir en allt annað hvort vóg þyngra í huga almennings, ógnir skipulagsins eða kostir þess. Hvað ætli væri sagt um þann sagnfræðing sem myndi fjalla um nasismann á þann veg að draga fyrst og fremst það fram sem hann gerði vel í Þýskalandi og dráp á 6 milljón gyðingum væri bara svona smáhnökri á annars heldur geðþekkum ferli. Meti það hver fyrir sig.

Mér hefur sjaldan liðið jafnilla við að lesa eina bók og Píanistann. Svartbók kommúnismans stendur henni ekki langt að baki hvað það varðar.

Ég rakst nýlega á ágæta síðu um ultrahlaup í Írlandi. www.ultrarunningireland.com Maður þarf að fara að skoða betur hvað er að gerast hjá þessum frændum okkar í langhlaupamálum.

With A Little Help From My Friends - Beatles

Sundlaugin á Krossnesi á Ströndum

Ég er að lesa Svartbók Kommúnismans þessar vikurnar. Þetta er gríðarleg bók upp á einar 800 bls, skrifuð af hóp franskra rithöfunda og sagnfræðinga fyrir ca 12 árum. Hannes Hólmsteinn þýddi verkið. Mér finnst svolítið athyglisvert að það er eins og bókin sé ekki til hérelendis, maður heyrir aldrei minnst á hana, það er ekki fjallað um þýðinguna í fjölmiðlum (alla vega ekki það ég hef séð) og að maður tali nú ekki um að hún hafi skapað einhverjar umræður um kommúnismann og söguna. Ekkert. Bókin er ekki til. Hún hefur ekki verið þýdd á íslensku og ekki gefin út. Það lítur alla vega út fyrir það eftir viðbrögðunum að dæma. Þetta er ákveðin aðferð sem hægt er að beita þegar eitthvað skal þagað í hel vegna þess að það hreyfir við óþægilegum málum. Það er í sjálfu sér ósköp einfalt að sópa óþægilegum hlutum undir teppið og láta eins og þeir séu ekki til. Ég er nú bara kominn aftur undir seinni heimsstyrjöld og mikið er eftir. Maður hafði staðið í þeirri meiningu að þjóðernishreinsanir nasistanna í Þýskalandi hefðu verið nokkuð einsdæmi í Evrópu á seinni tímum og einmitt þess vegna hefðu þær verið þrykkt svo djúpt í mannkynssöguna eins og raun ber vitni. Þetta er náttúrulega gríðarlegur misskiliningur og vanþekking. Stalín stóð fyrir gríðarlegum þjóðernishreinsunum á fjórða áratugnum svo Hitler var í sjálfu sér bara að feta í fótspor hans. Krím Tatarar, Tsjetenar, Kákasusbúar, Úkraníumenn, fólk af þýskum ættum sem bjó í Rússlandi, bændur, menntamenn og ég veit ekki hvaða hópar voru ekki rifnir upp og fluttir í gúlagið austur í Síberíu. Milljónir á milljónir ofan. Þeir fengu að taka með sér mat til mánaðar á hevrn einstakling í lestarferðina austur en svo tók ferðin óvart tvo mánuði. Auðvitað hefur maður heyrt um Gúlagið en það er svo víðsfjarri því að það sé almennt sett í álíka hryllingsflokk í sögulegu samhengi eins og þrælkunar- og útrýmingarbúðir nasistanna. Milljónum saman var fólki haldið nauðugu í þrælabúðum út um allt í Sovétríkjunum. Þar dó það vitaskuld eins og flugur. Það er ekki nema von að Hitler hafi tekið essa aðferðafræði upp af miklum þrótti þegar hann hafði séð hana notaða í Sovétríkjunum í áraraðir og enginn sagði neitt.

Þetta er nú einungis einn smá partur af þeirri ógnaröld sem ríkti í Sovétríkjunum. Samyrkjubúavæðingin er annar þáttur og hann ekki par fallegur. Menn eiga að vita þetta ef þeir vilja. Nú á tímum er engin afsökun fyrir því að segjast ekki hafa vitað hvernig stjórnarfarið var þar eyrsta. Í desember 1991 lýsti forseti Rússlands, Boris Jeltsín, kommúnistaflokkinn ólöglegan í landinu sem glæpamannasamtök.

Það er gott að fá tilbreytingu í mannlífið í skammdeginu. Gömlum poppurum þykja þar mikil tíðindi og góð þegar Yoko Ono fer upp á svið og skrækir þar með með þeim. Húsameistari ríkisins, ekki meir - ekki meir. Kerlingin hefur yfirleitt borið með sér ófrið síðan maður heyrði fyrst á hana minnst. Aftur á móti er hún góður businessmaður. Hún hefur lifað góðu lífi á að kreista dropa úr minningu Johns Lennon síðan hann dó. Friðarmálið barst til Íslands eins og við þekkjum. Nú fær tunglið ekki einu sinni að vera í friði fyrir henni. Bandaríska geimvísindastofnunin þrumaði gömlu gervitungli í einhvern gíg á tunglinu til að sjá hvaða efni það væru sem þyrluðust upp. Þá er Yoko mætt og vill skíra gíginn Frið. Það ætti frekar að skíra hann Ófrið ef eitthvað væri því það er nú ekki beint til eftirbreytni að skjóta drasli á tungl sem maður á ekki.

laugardagur, október 10, 2009

John lennon Sings Buddy Holly Tunes (John og Yoko músicera)

Við Bjarnanes á Rauðasandi

Ég held að það fari ekki á milli mála að Yoko kellingin Ono sé ein alversta sending sem hingað til lands hefur komið. Allt er þá þrennt er og fullreynt í fjórða sinn. Í hitteðfyrra sprakk meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur með látum þegar kveikt var á ljóssúlunni. Í fyrra hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar á kveikingardeginum og í ár gerði þvílíkt aftaka veður að það tókst ekki einu sinni að kveikja á súluskrattanum á tilsettum degi.
Maður spyr sig bara; Hvað gerist á næsta ári?

Það er mikil umræða um AGS og ekki AGS. Skal, skal ekki. Umræða hefur farið fram um að það eigi að vera hægt að taka lán hjá öðrum svo ekki þurfi að fara eftir skilyrðum / leiðbeiningum AGS. Mér finnst dæmið vera dálítið eins og svona: Einstaklingur er búinn að spila rassinn algerlega úr buxunum hvað varðar fjármálin. Hann fer í bankann þegar allt er komið í þrot til að fá lán til að skuldbreyta og koma skikk á málin. Bankinn setur það skilyrði til að hann komi að málum hans að það verði settur nokkrursskonar fjárhaldsmaður yfir fjármálin og hann megi ekki taka neina stóra ákvörðun í peningamálum nema í samráði við ráðgjafann. Ráðgjafinn setur upp ákveðna áætlun um hvernig megi ná fjármálunum á réttan kjöl á nýjan leik. Það rífur í. Margt af því sem sjálfsagt var áður er ekki elngur hægt. Það eru ekki til peningar segir ráðgjafinn. Það þarf að setja niðurgreiðslu lána í forgang. Þetta gengur allt þokkalega fyrst en svo fer að taka í. Manninn langar til að gera eitthvað sem honum þótti sjálfsagt áður en ráðgjafinn neitar. Hann hafi ekki efni á að gera það sem hann langar til. Þá fer allt í baklás. Sá sem kom fjármálunum í þrot vill helst af öllu losna við þennan leiðinlega ráðgjafa og fá lán hjá öðrum banka án skilyrða. Þá verði allt gott og skemmtilegt aftur. Það eina sem þarf að gera til að hlutirnir komist í gott lag er að losna við ráðgjafann, losna í leiðinni við öll leiðinlegu skilyrðin sem hann setur, taka síðan svo stórt lán að hægt sé að borga gömlu kröfuhöfunum og fara að gera allt það aftur sem áður þótti sjálfsagt.

Ég rakst fyrir skömmu á blogg konu sem missti son sinn nýlega. Það er í sjálfu sér ekki í sérstakar frásögur færandi nema að sonurinn hafði verið í miklum erfiðleikum meir og minna á unglings- og fullorðinsárum vegna fíkniefnamála. Þessi frásögn hennar kom manni til að hugsa um margt. Í fyrsta lagi veit enginn hver verður fyrir þessum vágesti sem fíkniefnaneysla er. Fiktið breytist á örskömmum tíma hjá of mörgum í blákaldan vítahring sem engin leið virðist út úr. Í öðru lagi er auðvelt að standa hjá og dæma. Þó menn vilji brjótast úr úr þessu helvíti þá virðist leiðin til baka oft vera ómöguleg hjá of mörgum. Maður þakkar sínum sæla fyrir á meðan krakkarnir manns sjálfs og þeir krakkar sem maður þekkir sleppa við að verða þessum vágesti að bráð. Mér fannst síðan ýmislegt athyglisvert sem koman sagði úr reynsluheimi sínum. Henni lá ekki of gott orð til Vogs. Þar sóttu að hennar mati óharðnaðir unglingar sér reynslu og þekkingu til þeirra sem voru reyndari í faginu. Hennar reynsla var aftur á móti að meðferðin á Krísuvíkurheimilinu hefði verið miklu árangursríkari.

Ef menn hafa ganman að því að skoða fallegar ljósmyndir þá er ómaksins vert að kíkja í ljósmyndagallerí Jóns Páls sem er á Stjörnubíósreitnum á Laugaveginum. Hann hefur þar til sölu fullt af fallegum ljósmyndum í mismunandi stærðum. Það er staðreynd að falleg ljósmynd stendur góðu málverki ekkert að baki nema síður sé. Það er síðan myndefnið (mótívið) sem ræður því hvort myndin er góð eða ekki en ekki hvað myndavélin kostar mikið sem myndin er tekin á. Mæli með því að kíkja þarna við ef fólk á leið hjá.

Gott viðtal við Stein Járnkarl í morgun í Mogganum. Steinn er enginn venjulegur jaxl. hann hefur ekki misst dag úr æfingum síðustu 1000 daga. Það er engin smáræðis agi sem þarf til að ná því. Viðtalið við Stein var á baksíðunni en ekki í íþróttakálfinum. Nú veit ég ekki hvað Moggamönnum finnst virðulegra en mér finnst persónulegr að afréttir af Ironman og öðrum ofurkeppnum eigi heima á íþróttasíðum en ekki með fréttum af veðri og fiskigengd með fullri virðingu fyrir slíkum fréttum. Á íþróttasíðum Moggans er hins vegar allt fullt af fréttum um að Hermann Hreiðarsson hafi fengið útborgað, Hermann Hreiðarsson sé á fullu að synda og það eigi að selja Hermann Hreiðarsson hngað eða þangað eða að það vilji enginn kaupa Hermann Hreiðarsson. Sömuleiðis eru fréttir um að það sé farið illa með óskabarn þjóðarinnar, stóru strákarnir hrindi honum frá boltanum, vilji ekki gefa á hann og hann sé lengi að hlaupa. Súk. Þetta eru alvöru íþróttafréttir.

miðvikudagur, október 07, 2009

The Beatles - Two Of Us (Studio)

Draugsteinn á Rauðasandi

Það var eins og mig grunaði að það voru vel á annað hundrað manns sektaðir í Laugardalnum á bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Svo var brit mynd í Mogganum af tómu bílastæði sem var tekin um hádegið. Leikurinn byrjaði ekki fyrr en kl. 14:00 svo það var náttúrulega varla nokkur kominn um hádegið. Vitaskuld eiga vallaryfirvöld að vera með menn á vakt þarna fyrir framan til að leiðbeina bílstjórum í auð stæði svo þau nýtist sem best. Það er yfirleitt gert þar sem mikið er um að vera og þrengsli eru veruleg. Gangandi menn með talstöðvar eiga auðvelt með að vísa mönnum leiðina svo stæðin nýtist til fullnustu. Þessi aðferð að sekta menn sem leggja snyrtilega út á grasflöt án nokkurrar truflunar fyrir umferð bíla eða gangandi er náttúrulega forkastanleg við þær aðstæður sem þarna eru. Hvað á að gera þegar völlurinn er fullur af fólki? Hvað á að gera á 17. júní þegar margir fara í miðbæinn og fólki er beinlínis stefnt þangað. Hvað á að gera á menningarnóttina þegar öllum er stefnt í miðbæinn og hann er kakkfullur? Sekta allt og alla ef menn leggja upp á grasflöt. Ég er alls ekki að mæla því bót að menn leggi eins og tuddar á gangstéttir í miðbænum dags daglega svo það sé á hreinu.

Mikið hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að lögreglan á Suðurlandi sá í gærkvöldi loftstein koma inn í gufuhvolfið og brenna upp. Mikill glampi myndaðist við það þegar loftsteinninn brann upp. Þetta minniti mig á atburð sem ég varð vitni að fyrir ca 12 árum. Ég var eitt sinn á leið til Akureyrar síðla nætur að vetrarlagi þegar ég bjó fyrir norðan. Ef maður þurfti að ná fyrstu vél suður frá Akureyri þá var það passinn að fara af stað frá Raufarhöfn um kl. 5:00 að morgni. Þegar ég kem í Kelduhverfið tek ég eftir rákum á himninum. Þeim fór fjölgandi svo ég stoppaði bílinn og fór að horfa á fyrirbrigðið. Stjörnuhröpunum fjölgaði og voru þau um stund eins og skæðadrífa á himninum. Einum þrisvar eða fjórum sinnum kom síðan svo stór blossi að það var albjart um allt. Þetta stóð yfir í svona tíu mínútur en svo dró úr þessu aftur. Þegar morgnaði hringdi ég í Þorstein Sæmundsson stjórnufræðing og sagði honum frá þessu. Það sem veldur þessu er að ský af smáörðum kemur inn í gufuhvolfið og brennur þar upp. Nokkrir stærri hnullungar eru einnig með og þeir mynda blossana þegar þeir brenna.

Járnbræður kepptu í Ironman í Barcelona á sunnudaginn. Það var heitt og hitinn var erfiður. Þeir luku þó allir keppni og Steinn, Trausti og Eddi bættu tíma sína frá því í fyrra. Erfiðleikar eru ágætir af og til því maður lærir mikið á þeim. Þeir eru gott innlegg í reynslubankann sem nýtist við síðari tíma þolraunir. Hásinameiðslin plaga Stein síðan í vor svo hann er ekki nógu heill. Þau eru óþverri því þau eru svo langvinn.

Ég hlustaði á eldhúsdaginn með öðru eyranu í gær. Mér fannst vanta tilfinnanlega að atvinnumálin kæmu inn í umræðurnar af þeim þunga sem eðlilegt og nauðsynlegt er við ríkjandi aðstæður. Nú verðum við að hlú að þeirri atvinnustarfsmei sem tiltæk er. Það verður t.d. að fá á hreint hvað fiskistofnarnir þola mikla aukningu. Nú má ekkert tækifæri liggja ónotað.

Mér finnst full ástæða til að skoða það að taka skattinn af lífeyrisgreiðslum út strax í stað þess að þær séu teknar þegar maður tekur lífeyrinn út. Það er alla veg aumræðunnar virði. Þegar þarf að hækka skata og skera niður útgjöld eins og frekast er unnt þá þarf að skoða allar leiðir.

sunnudagur, október 04, 2009

Across the Universe - The Beatles

Á Sigluneshlíðum á Barðaströnd

Ég fór langa brekkuæfingu í morgun. Hún er það sem við kölluðum 8 stjörnu hlaup. Ég lagði af stað út í Fossvog upp úr kl. 7:00 í morgunþ Þaðan hljóp ég yfir Kópavogshálsinn og yfir að Fífunni. Þaðan upp stíginn bak við hana og síðan niður í Kópavogsdalinn aftur við Smáralindina. Þar hljóp ég upp tröppurnar, niður þær aftur og síðan upp brekkuna við HK heimilið. Þaðan hljóp ég þvert yfir Fossvoginn og upp að Réttarholtsskóla. Þaðan lá leiðin niður í elliðaárdalinn og upp hann hægra megin og svo upp skábrekkuna til hægri upp að Breiðholtinu. Síðan lá leiðin eftir malarstógnum og svo inn að brúnni við Breiðholtsbrautina, yfir að sundlauginni og niður í Elliðaárdalinn aftur. Þaðan lá leiðin upp stokkinn upp í Árbæ, niður i Grafarvoginn og inn í botn á honum. Svo var farið upp brekkuna upp að Geislahverfinu (Jökulheimum) og þaðans em leið lá eftir malarveginum inn að tönkunum. Þá var snúið til baka heim í gegnum Grafarvoginn og bryggjuhverfið. Alls lágu 44 km á um fjórum og hálfum tíma. Á leiðinni tók ég tvö gelbréf og drakk svona 1/3 úr drykkjarbrúsa. Það er mikill munur frá því við fórum þetta fyrst. Þá drakk maður svo svakalega að allt vatn var búið inn í Jökulheimum og ég þurfti að biðja um vatn í heimahúsi til að komast heim. Þetta var fínn túr, logn og smá frost í morgun en það hlýnaði fljótt þegar sólin kom upp. Ég held að þessi túr sé ekki síðri undirbúningur fyrir Laugaveginn en Esjuhlaup. Alla vega er gott að blanda þeim saman. Brekkurnar eru seigar bæði upp og niður og þær eru nokkuð margar þegar allt er talið með. Ég ehf reynt að fara þessa leið einu sinni á ári en maður þarf að gera það oftar. Held að hún skili ótrúlega miklu. Einnig væri spennandi að sjá hvernig tíminn þróast með því að fara hana oftar.

Maður fann til með Blikunum í dag. Þær fengu gullið tækifæri til að skora annað mark skömmu eftir fyrsta markið. Síðan var ekki annað að sjá en að það væri dæmt af þeim löglegt mark. Markmaður Vals fer út og hendir sér í þvöguna, nær ekki boltanum og Blikar skora. Engu að síður var m arkið dæmt af. Ég hef aldrei heyrt að leikmenn í vítateig eigi að víkja til hliðar ef markmaður kemur hlaupandi út úr markinu. Eftir að Valur jafnaði fannst mér aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna. Valur með alla þá reynslu sem þeir búa yfir sleppa ekki svona tækifæri. Það voru ekki margir áhorfendur á leiknum það manni fannst. Ætli Blikarnir hafi fengið nóg af stöðulagabrotaseðlum í gær?

Járnbræður þeyttu Ironman í Barcelona í dag. Þeir voru sex saman sem er fríður flokkur. Það eru tíðindi að Ironmanköppum hafi fjölgað svo hérlendis á skömmum tíma. Eddi bætti sig vel og Trausti nokkuð en hann var hálfveikur í Köln í fyrra. Steinn bætti sig um 4 mínútur en hann varð í 68 sæti í keppninni af hellings fjölda. ég veit ekki hvað margir tóku þátt í keppninni en þeir hafa örugglega verið um og yfir 2000. Mig grunar að það hafi verið vel heitt.

Íþrottafréttamaður sjónvarpsins sendi frá sér eitt gullkornið enn í kvöld. Nú taldi hann líklegt að Blikastelpurnar vildu feta í fótspor strákanna úr Kópavogi "sem unnu bikarinn fyrir tveimur dögum í gær".

THE BEATLES BACK IN THE U.S.S.R

Strákarnir í 2. fl. Víkings hafa staðið sig vel í Reykjavíkurmótinu

Ég keyrði fram hjá Laugardalshöllinni um miðjan dag í dag. Það var bikarúrslitaleikur á Laugardalsvellinum og ég held að fyrirtækið sem gerir Evonline út, hafi verið með keppni í Laugardalshöllinni. Það voru bílar út um allt og bílastæðin vitaskuld löngu full. Bílum var lagt snyrtilega upp á grasið við hliðinna á götunni enda engir aðrir valkostir í stöðunni. Þrír lögregluþjónar virtust ekki hafa annað að gera þennan daginn en að ganga á röðina og skrifa sektarmiða á bílana sem lagt var úr neyð upp á grasið. Þetta er náttúrulega alveg óskiljanlegt og fáheyrður ruddaháttur. Borgin tekur ákvörðun um stærð bílastæða við þjóðarleikvanginn og Laugardalshöllina. Það er talið eðlilegt að nota mannvirkin í Laugardalnum eins mikið og hægt er. Vonir allra standa til að þeir viðburðir sem þar eru haldnir fái sem mesta aðsókn. Það er Reykjavíkurlið sem er að spila úrslitaleik. Engu að síður fer lögreglan og bílastæðasjóður af stað og skattleggur þá bíleigendur sem ekki fá neitt bílastæði. Hvað eru menn að meina? Hvaða rugl er þetta? Þetta er sú mesta syngjandi andskotans vitleysa sem maður getur ímyndað sér. Það er eðlilegt að sekta bíleigendur sem leggja ólöglega ef næg bílastæði eru til staðar. En hvað eiga men að gera þega röll bílastæði eru full? Á svona leikjum á KSí að annast tvennt. Í fyrsta lagi að sjá til þess að öll bílastæði vallarins séu fullnýtt. Í öðru lagi á að merkja sérstakt svæði þar sem heimilt er að leggja án þess að viðkomandi séu sektaðir. Svona lagað framferði eins og ég var vitni að í dag er náttúrulega bara barbarismi.

Á mánudagskvöldið var fór ég niður í Vík til að horfa á strákana í 2. flokk kk í handbolta spila við Fram í Reykjavíkurmótinu. Við Víkina eru rúmlega 40 bílastæði. Þau fyllast um leið ef eitthvað er að gerast þar umfram daglegt líf. Svo var þetta kvöld. Ég lagði bílnum því í götunni fyrir ofan Víkina. Til að bíllinn ylli umferðinni ekki óþægindum þá lagði ég honum að hálfu upp á gangstéttarbút sem liggur við hlið götunnar fyrir ofan Víkina. Ég sá ekkert að því vegna þess að hlaupa-, hjóla- og göngustígurinn liggur hinum megin götunnar. Maður var því ekki fyrir neinum. Engu að síður beið sektarmiði á bílnum mínúm og nokkurra annara sem höfðu lagt álíka þegar út var komið. Þá hafði lögreglan átt leið hjá og ekki haft neitt þarfara að gera en að sletta sektarmiða á grunlausa foreldra og keppendur. Hvort íbúarnir hinumm megin götunnar hafi legið út í glugga, séð að þarna bar vel í veiði og hringt í lögguna skal ósagt látið. Þetta pirraði mig vægast sagt mikið því þetta er alger ruddaskapur. Maður var ekki fyrir neinum og kurteisin kom manni í koll. Ef maður hefði bara lagt alveg úti á götunni og því þrengt að umferðinni hefði ekkert verið hægt að segja. Kantarnir eru ekki gulmerktir. Ég hringdi í Bílastæðasjóð á miðvikudaginn og vildi fá skýringar á þessu. Sá sem svaraði hafði það eitt til málanna að leggja að það væri bannað að legga bíl uppi á gangstétt. Sama hvort gangstéttin væri stödd í miðbænum eða fyrir ofan Víkingsheimilið. Ég spurði hann hvort hann þekkti aðstæður í Víkinni. Hann sagði svo vel vera en svo komí ljós að hann hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala um. Þegar ég spurði hann hvar 1000 áhorfendur á knattspyrnuleiki í Víkinni ættu að leggja bílum sínum þá sagði hann að þeir gætu lagt í næstu hliðargötum. Ef það er eitthvað sem vantar í öllum götum í Fossvoginum þá eru það bílastæði. Fossvogurinn var skipulagður og byggður upp á árunum fyrir 1970. Þá var í besta falli einn bíll á hemili. Því er víðast hvar í besta falli eitt bílastæði á hverja íbúð í Fossvoginum. Að stefna flestum bílum 1000 áhorfenda á knattspyrnuleik inn í nálægar hliðargötur er því í besta falli óhófleg bjartsýni en flokkast annars undir tómt rugl. Það er því við því að búast að eftirlitsmenn með stöðubrotum bíði spenntir bak við næsta horn nálægt Víkinni þegar eitthvað erum að vera þar til að rétta af efnahag Bílastæðasjóðs eins og gert var í nágrenni Laugardalsvallarsins í dag. Ég læt þetta mál ganga eins langt og frekast er fært því ég þekki vel umræðuna um skipulagsmál við Víkina. Það er sem stendur engin vitræn lausn á bílastæðamálum næstu árin. Því verður að komast að einhverri vitrænni lausn á þessum málum svo svona rugl viðgangist ekki lengur.

Fór 34 km í morgun. Lagði af stað fyrir kl. 7:00 og var kominn heim um kl. 10:00. Hitti marga á leiðinni og tók tíma í allskonar spjall. Flott veður og fínn dagur.

föstudagur, október 02, 2009

The Beatles - You Won't See Me

María á meistaramóti 15-22 ára

Stjórnvöld hafa kynnt aðgerðir vegna skuldastöðu heimilanna. Nú hef ég ekki skoðað þann pakka til hlýtar en þó er eitt sem ég stoppa við. Það ég best skil þá á að framlengja bílalán um þrjú ár, færa gengisskráninguna á lánunum aftur til 1. apríl 2008 og afskrifa það sem eftir er þegar lánstíminn er liðinn. Að mínu mati er húsnæði allt annað en bíll. Vitaskuld er húsnæði bæði stórt og lítið, ódýrt eða dýrt en húsnæði er þó alla vega eitt af frumþörfum fjölskyldunnar. Eðlilegt er að reyna að bjarga því sem bjargað verður þar sem skuldbindingin var innan eðlilegra marka í upphafi. Til eru ýmsar aðgerðir í þeim málum. Bílalánin eru allt annar hlutur. Ef menn hafa keypt sér nýja og dýra bíla á erlendum lánum, spennt bogann í botn og svo lendir allt í steik. Þá á að láta restina af þessu lenda á almenningi. Þegar bankarnir verða að afskrifa stórar summur í þessu sambandi þá verða peningarnir sem út af standa og þarf að greiða útlendum bönkum að koma einhversstaðar frá. Líklegt er að bankarnir afli þeirra tekna sem á vantar með vaxtahækkunum. Vaxtastig í landinu verður þá þeim mun hærra en nauðsynlegt er til að greiða það sem út af stendur. Í öðru lagi verða bankarnir kannski að fá framlög frá ríkinu til að ná endum saman í þessu máli. Þeirra peninga verður þá aflað með aukinni skattlagningu. Hvor leiðin sem valin verður kemur úr mínum vösum meðal annars. Ég hef satt að segja engan áhuga á að borga bílalánin fyrir þá sem riðu á tæpasta vaði meðan þenslubólan reis sem hæst.

Nýlega sást hvar forseti Bandalags íslenskra listamanna heldur að sé helst fjár von. Það er hjá börnum, unglingum og öryrkjum. Hann skrifaði grein í Mbl þann 26. sept. sl. og fjallaði þar um skiptinu lottótekna sem honum fannst ósanngjörn. Hann hafði rekið augun í það að í einhverjum nálægum löndum sé Lottótekjum skipt milli íþróttafélaga, bandalags öryrkja og menningar og lista. Homum fannst því mjög eðlilegt að brjóta núverandi skiptingu upp hérlendis veenga þess að útrásarjöfrarn ir munu að öllum líkindum láta minna fé af hendi rakna til lista og menningar, hvernirg sem það er aftur á móti skilgreint. Skipting Lottótekna hérlendis hefur verið þannig að ÍSÍ og UMFÍ fá 60% hagnaðar af rekstri Lotto og öryrkjabandalagið 40%. Þetta fyrirkomulag vill formaður bandalags listamanna brjóta upp, sér og sínum til hagsbóta. Það væri gaman að heyra skýringar hans á því hvernig á að bæta íþróttafólki og öryrkjum upp skerðinguna ef listir og menning myndu hirða stóran hluta af núverandi tekjustofnum fyrrgreindra samtaka.

Járnbræður eru komnir til Barcelona og munu þreyta Ironman þar á sunnudaginn. Það er hægt að kalla hópinn íslwenska landsliðið í Ironman. Skyldi framlag til íþróttasögunnar þeirra fá eins mikla umfjöllun í fjölmiðlum eins og íslenska landsliðið í Áströlskum fótbolta? Kemur í ljós.