mánudagur, apríl 09, 2012

The Pogues - Fiesta

Það er eðlilegt að á páskum komi kirkjan upp í huga manns. Ekki það að hún sé mér neitt sérstaklega hugleikin. Ég sagði skilið við þjóðkirkjuna fyrir góðum áratug síðan. Síðan hef ég látið hana í friði og hún hefur látið mig í friði. Það er í sjálfu sér ágætis sambúð. Ég fer í kirkju við sérstök tilefni s.s. fermingar og jarðarfarir og virði aðkomu kirkjunnar við slík og önnur ámóta tilvik. Að öðru leiti hef ég ekki þurft á henni að halda. Það er bara þannig. Ég er eðlilega ekki einn um að renna huganum til kirkjunnar um páska. Það er eðilegur hlutur því páskarnir eru stærsta hátíð kristinna manna. Það sem vekur manni hins vegar nokkra furðu er sú heift sem virðist brjótast fram hjá mörgum sem eru andsnúnir kirkjunni á hátíðisdögum sem þessum. Þeim hópum virðist afskiptaleysið ekki vera nóg heldur finna þeir hinir sömu sig knúna til að hreyta úr sér köpuryrðum allskonar yfir kristna trú, kristna siði og kirkjuna í heildinni eða gera lítið úr þeim hinum sömu siðum með dárskap og aulahúmor ef húmor skyldi kalla. Sú umræða minnir mann um margt á það sem hægt er að lesa um frá Sovétríkjunum gömlu. Sovétkommarnir vildu kirkjuna feiga. Frasinn um að trúin sé ópíum almennings er kominn þaðan. Einfeldningar annarra landa sem höfðu tekið sovétkommana sem sína guði öpuðu þetta eftir eins og svo margt annað sem þaðan kom. Glæpaklíka Lenins og Stalíns vildi útrýma kirkjunni og kirkjunnar siðum. Prestar voru ofsóttir, drepnir eða, ef þeir voru heppnir, sendir í Gúlagið. Kirkjur voru teknar til ýmissa annarra nota s.s. sem geymslur eða breytt í íshokkíleikvang. Ég kom í tvær slíkar kirkjur í St. Petersburg sl. haust. Það var hins vegar svo merkilegt að eftir 70 ára ógnarstjórn kommúnismans í Sovétríkjunum þá reis kirkjan úr læðingi um leið og ógnarhrammi kommúnismans var létt af þjóðinni. Þráin eftir kirkjunni hafði blundað með þjóðinni alla þessa áratugi. Ég ætla ekki að leggja dóma á slíkt og hvorki mæla með því eða lasta, þetta var hins vegar bara svona. Meðvitaða liðið sem eys úr sér hrakyrðum út í kirkjuna og kirkjulega siði ætti að velta þessum staðreyndum fyrir sér. Þeim verður ekki á móti mælt.


Þegar umræða um þessi mál hefst þá er stutt í að það sé hrokkið yfir í biskupsmálin og hvernig kirkjan tók á þeim málum hérlendis. Ekki ætla ég að afsaka það né réttlæta. Það er á hinn bóginn ætíð hollara að reyna að sjá skóginn fyrir trjánum.Það er eins og því fólki sem virðist heltekið af andúð á kirkjunni og kirkjulegum siðum sé ekkert heilagt, ekki einu sinni því sem snýr að krökkunum. Nú á síðustu jólaföstu skemmtu einhverjir sjálfskipaðir húmoristar sér við að snúa jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum yfir í klámsora. Uppskerunan var svo birt á vef hópsins. Af því svona fólk nærist á athyglinni þá ætla ég ekki að gefa upp vefslóðina. Nú hélt ég í fyrsta lagi að það væri til eitthvað sem héti sæmdarréttur rithöfunda eins og annarra listamanna. Ritverk væri varin gegn því að þau væru skrumskæld og afbökuð. Nú má vera að svo sé ekki en það getur verið að það skipti máli hver kemur að slíkum hlutum. Í annan stað hélt ég að fólk bæri aðeins meiri virðingu fyrir því sem tengist börnum öðru frekar. Það á greinilega ekki við í þessu tilviki. Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum hafa unnið sér sess gegnum áratugina sem órjúfanlegur hluti jólaundirbúningsins hjá börnum. Ég las þær og lærði sem krakki og það gerðu mín börn einnig. Ég hugsa að ég hafi mætt á annan áratug með krakkana í Þjóðminjasafnið til að upplifa sívaxandi spennu jólaföstunnar með þeim þegar jólasveinarnir týndust ofan af fjöllum einn eftir annan. Nú virðist ákveðinn hópur fólks fá eitthvað út úr því að gera sem minnst úr slíkum hlutum.

Maður heyrir því iðulega slegið fram að kristnar hátíðir, jól og páskar, hafi orðið markaðsöflunum að bráð. Því séu þær léttvægar fundnar og skipti ekki máli. Í kvikmyndinni Bjarnfreðarson var gefin innsýn í jólahald fólks sem hafði slíka lífssýn. Nú halda vafalaust flestir að þarna hafi verið um uppdiktaða skrumskælingu að ræða sem eigi sér ekki fyrirmynd í raunveruleikanum. Ég þekki hins vegar fólk, sem er yngra en ég, sem upplifði jólin á þennan hátt. Það á vægast sagt blendnar minningar frá jólahátíðinni á meðan straumar kommúnismans réðu ríkjum á heimilum þess. Ég hef tvisvar lifað jólalausan desember. Bæði skiptin var það í kommúnistiskum ríkum. Á Kúbu árið 1979 og í Rússlandi árið 1995. Mikið skelfing var það innihaldslaus og flatur desember þegar jólin létu ekki sjá sig. Reyndar voru aðstæður þó betri á Kúbu á þann hátt að við höfðum um nóg annað að hugsa en í Rússlandi helltist grámi tilbreytingarleysins yfir mann í jólalausum desember. Ég hef engan áhuga á að upplifa það aftur.

Ástæða þess að ég læt hugann reika um þessi mál nú á páskum er að mig óar við þeim kommúnistisku viðhorfum sem virðast skjóta upp kollinum á þessu sviði í æ ríkari mæli hérlendis. Lítill en hávær hópur hefur séð ljósið í þessum málum. Það er með hann eins og aðra álíka að þegar menn hafa höndlað sannleikann þá gefa menn sig aldrei. Ég hef illan bifur á þeim félagsskap sem hefur verið myndaður utan um slík viðhorf og önnur álíka. Það var svolítið dæmigert að fréttin í Ríkissjónvarpinu á föstudaginn langa frá bingóinu á Austurvelli var lengri en fréttin frá lestri Passíusálmanna í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Ég skil ekki altaf þann leik sem Ríkissjónvarpið leikur í þessum málum. Svo er um fleiri.