miðvikudagur, júlí 29, 2009

The Beatles-In My Life

Fálkamamma á varðbergi

Punkturinn var settur fyrir aftan Akureyrarhlaupið í gær niðri á Grensásdeildinni. Það var smá samkoma í garðinum fyrir utan deildina þar sem formaður UMFÍ afhenti Hollvinasamtökum Grensáss formlega söfnunarféð sem safnaðist í kringum hlaupið itl Akureyrar. Forysta samtakanna og eldhuginn sjálfur, Edda Heiðrún Backmann, tóku á móti því sem safnaðist. Þetta var fín stund og gott að ljúka þessu verkefni á svona hátt. Það er svona með litlar hugmyndir sem virðast út í hött í byrjun að þær eru oft þær skástu þegar upp er staðið.

Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getað tekist á við þetta verkefni. Mér var það betur ljóst en nokkru sinni þessa stuttu stund sem ég kom við á Grensássdeildinni í gær. Þar hitti ég þrjá menn, sem ég er vel málkunnugur, sem eru að takast á við endurhæfingu eftir að hafa fengið heilablóðfall á síðustu mánuðum. Ég vissi um einn að hann hafði fengið heilablóðfall í vor en um hina vissi ég ekki. Tveir þeirra eru heppnir þannig að þeir hafa málstöðvar í allgóðu lagi og hafa ekki verulega skerta hreifigetu. Sá þriðji situr í hjólastól og hefur verulega skerta talgetu. Allir voru þeir á fullu í samfélaginu fyrir áfallið og ekki annað að sjá að svo yrði áfram um óráðna framtíð þegar ég hitti þá síðast. Nú stendur yfir hjá þeim baráttan við að ná sér sem best aftur með þrotleusum æfingum undir leiðsögn fagfólksins á Grensássdeildinni. Þetta leiðir hugann að því að það veit enginn hver verður næstur sem þarf á fagþjónustu Grensássdeildarinnar að halda.

Edda fór með okkur um húsnæðið og sýndi okkur eitt og annað sem fólk dreymir um að gera deildinni til bóta og framfara. Hún var tekin í notkun árið 1973. Þrátt fyrir að þjóðinni hafi fjölgað um nær 40% og þörfin fyrir þjónustu deildarinnar aukist miklu meira meðal annars vegna breyttra þjóðfélagshátta, þá hefur ekkert verið gert í að stækka og bæta húsnæðið á þeim 35 árum sem liðin eru frá því að það var tekið í notkun utan að það hefur verið byggð sundlaug. Maður getur ekki annað en leitt hugann að því hverjar eru áherslur þeirra sem ráða forgangsröðun í notkun opinberra fjármuna. Í því sambandi má minna á að árum saman (ég man ekki í hve mörg) var togast á um tvöföldun Reykjanessbrautarinnar. Það þótti dýrt og önnur verkefni voru talin nauðsynlegari af yfirvöldum. Árlega fórst samt fólk þar í umferðarslysum og ótölulegur fjöldi slasaðist og sumt örkumlaðist til lífstíðar. Á meðan var togast á um fjármunina. Eftir að tvöfölduninni var loksins lokið þá verður varla slys þarna, alla vega ekkert í samanburði við það sem áður var.

Það er ekki hægt annað en að þakka öllum þeim sem sem lögðu þessu verkefni lið með fjárgjöfum, stuðningi á annan hátt og jákvæðri umræðu sem vonandi skilar sér á áþreifanlegan hátt þegar stóra söfnunin fer fram í haust.

þriðjudagur, júlí 28, 2009

George Harrison Taxman

Spói að bardúsa

Nú stendur yfir aðalmeðferð í stóra skútusmyglmálinu. Það vekur athygli manns að dólgarnir sem ákærðir eru fyrir að smygla á annað hundrað kílóum af dópi til landsins fá leyfi til þess að mæta í dómssal með lambhúshettur, klúta og sólgleraugur fyrir andlitinu svo að þeir þekkist ekki. Hvað í heiminum ætli það viðgangist að dómskerfinu sé réttur fingurinn á annann eins hátt? Maður sér á myndum í erlendum fjölmiðlum að glæpamenn sem eru leiddir fyrir dómara fá stundum möppu til að bera fyrir andlitið. þeir geta líka haldið hendinni fyrir fésinu en önnur hjálpartæki fá þeir ekki að hafa. Þeir geta svo haldið möppunni fyrir andlitinu á meðan þeir hafa orku til. Þegar þeir þreytast þá er það bara þannig.

Hver er svo staða vitna í þessu kerfi? Það var brotist inn í Árbæjarapótek fyrir nokkrum misserum. Uppdópaðir strákabjánar ruddust þar inn með hótanir og dólgshátt og tæmdu einhverjar lyfjahirslur. Þeir náðust og fóru sína leið í réttarkerfinu. Þegar málið var tekið fyrir í dómskerfinu var starfsfólk apóteksins kallað fyrir sem vitni. Vitnaverndin var ekki meiri en svo að starfsfólkið sat allt að því við hliðina á innbrotsþjófunum í dómssalnum. Það var ekki spurning um að það fengi leyfi til að hylja andlit sitt eða á annan hátt að dyljast því það þurfti að þylja upp fullt nafn, kennitölu og heimilisfang framan í sakborninga jafnt sem starfsmenn dómsins. Þetta var ekkert sérstaklega skemmtileg staða fyrir starfsfólkið að þurfa að segja hvar það átti yfir alla hafandi fengið yfir sig hótanir um líkamsmeiðingar og þaðan af verra frá þessum bjálfum.

Ég sá um daginn frétt frá enskum skóla sem hafði sett upp eftirlitsmyndavélar í skólanum vegna sívaxandi skemmdarverka og annars konar óaldar innan veggja hans. Myndavélarnar gerðu það að verkum að ástandið varð allt annað og betra. Rektorinn átti ekki orð yfir hvílíkur munur þetta væri. Það leiðir hugann að því að rektorinn við Menntaskólann á Egilsstöðum vildi setja upp eftirlitsmyndavélar á heimavist skólans vegna svipaðrar óaldar fyrir nokkrum misserum. Persónuvernd bannaði það hins vegar vegna friðhelgis einstaklinganna sem bjuggu á vistinni. Gott ef vistinni var ekki lokað í kjölfarið.

mánudagur, júlí 27, 2009

Doctor Robert / The Beatles

Flórgoði á hreiðri

Ég hef verið að lesa að undanförnu þrjár bækur sem hafa verið gefnar út um hrun efnahagskerfisins hérlendis. Þær eru "Íslenska efnahagsundrið, flugeldahagfræði fyrir byrjendur", "Sofandi að feigðarósi" (sem á náttúrulega að heita "Flotið sofandi að feigðarósi") og "Hrunið". Í umræðunni hafa tvær fyrrnefndu bækurnar verið gagnrýndar nokkuð, m.a. fyrir efnisleg lausatök og að hafa persónugert umræðuna nokkuð. Hin síðasta hefur á hinn bóginn fengið nokkuð almennt góða dóma. Mitt mat er að "Hrunið" sé sísta bókin af þessum þremur ef maður leggur mat á hvað þær hafa fram að færa hvað varðar greiningu á orsökum og aðdraganda hrunsins. "Hrunið" fjallar á áferðafallegan og látlausan hátt um atburðarásina eins og hún kemur höfundi fyrir en dregur ekki ályktanir né leitar að orsökum atburðarrásarinnar. Sagnfræðilega er frásögnin vafalaust ágæt og gæti hentað vel sem eitt bindi í seríunni Öldin okkar. Manni finnst að höfundur Hrunsins gæti hafa sett atburðarásina í eftirfarandi sagnfræðilegt samhengi: "Aflabrögð voru með ágætum í september." "Bankakerfið á Íslandi hrundi allt í byrjun október". "Það vetraði snemma og bændur þurftu að taka sauðfé óvenju snemma á hús". "FH vann Fram í fyrstu umferð íslandsmótsins í handknattleik".

Hinar tvær fyrri bækur gera heiðarlega tilraun til að greina orsakasamhengi og hvernig atburðarásins varð eins og raun bar vitni. Hvað var gert og hvað var ekki gert sem hefði getað breytt þeirri hrikalegu atburðarás sem landsmenn stóðu frammi fyrir á síðasta ári? Hverjir svikust undan merkjum? Hverjir fóru yfir strikið og þannig mætti áfram telja. Að mínu mati er þannig greining miklu verðmætari en áferðarfalleg lýsing aá atburðarásinni án þess að samhengi hlutanna sé dregið fram.

Viðtalið við bankastjóra Íslandsbanka í helgarblaði DV er dálítið sérstakt. Hvernig getur einstaklingur sem er í insta hring framkvæmdastjóra eins banka verið slegin slíktri blindu að hún hafi ekki haft hugmynd um stöðu bankans. Í nýútkominni bók er sagt að Glitnir hafi verið orðinn handónýtur strax á árinu 2007. Ef það sé rétt að bankastjórinn hafi ekki haft hugmynd um stöðu bankans þá eru lílega tvær ástæður fyrir því. Henni hafi verið haldið fyrir utan alla ákvarðanatöku á æðstu stigum og þar af leiðandi ekki borið þá ábyrgð sem staða hennar bauð upp á eða að hún hafi ekki kunnað að lesa út hagtölum bankans. Hvorugt er gott.

Mér finnst síðan óþarfi hjá henni að gera bændastéttina í heild sinni að holdgerfingum bankahrunsins eins og það hefðu verið eintómir Gíslar, Eirikar og Helgar starfandi í bönkunum. Gísli, Eiríkur og Helgi stigu kannski ekki sérstaklega í vitið en þeir voru ekki þjófóttir. Þeir tóku ekki kúlulán sem voru þannig útbúin að mögulegur hagnaður féll lántakenda í hendur án þess að hann bæri neina ábyrgð. Gísli, Eiríkur og Helgi fengu ekki niðurfelld lán sem þeir voru búnir að taka þegar ótti greip um sig að það væri ekki allt sem skyldi. Þannig mætti áfram telja. Ég held að hrokafullir bankastjórar ættu ekkert að leita út fyrir raðir kolleganna þegar þeir eru að leita að holdgerfingum einfeldninnar, græðginnar, heimskunnar og glæpamennskunnar. Þar er nægum kandidötum úr að velja.

Maður veltir stundum fyrir sér hvaða kröfur eru gerðar til málfars hjá fjölmiðlafólki. Ég efast um að þær séu nokkrar. Eiður Guðnason, fyrrverandi alþingismaður heldur úti skemmtilegri síðu þar sem hann tiltekur dæmi úr daglega lífinu um hræðilegt málfar. Það er á hreinu að ef sú þróun sem nú er hafin heldur áfram í nokkra áratugi þá mun málið taka stórkostlegum breytingum. Kannski er það allt í lagi en menn verða að vera meðvitaðir um þá þróun sem er í gangi. Í gær spurði fréttamður í RÚV í viðtalis em birt var í fréttatíma hvernig eitt eða annað yrði "coverað". Ég er hræddur um að sá hinn sami hefði fengið orð í eyra fyrr á árum fyrir svona orðaval. Nú deplar varla nokkur auga.

Umræðan um atvinnulausa er með ólíkindum. Hluti þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum vill ekki vinnu sé þeim boðin hún. Er það furða ef atvinnuleysisbætur eru hærri en lægstu laun. Síðan bætast við ýmisskonar fríðindi. Ofan í kaupið er því haldið fram fullum hálsi að atvinnulausir megi sem best vinna svarta vinnu því þeir séu að reyna að bjarga sér. Grundvallaratriði í þessu er að það sé fyrir hendi hvati til fólks að leita sér að vinnu. Vitaskuld eru flestir þannig hugsandi en það á ekki við um alla. Það er þekkt í okkar nágrannalöndum að bótakerfi félagshyggjunnar er orðið svo þéttriðið að það er orðið vinnuletjandi. Staða þessara mála er metið sem alvarlegt þjóðfélagsmein í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Vinnufælni er orðin mikil og allt of margt fók leitar allra færra leiða til að komast inn í bótakerfið.

Maður skilur á stundum ekki hugsanaganginn sem ræður umræðunni. Ástæða þess getur svo sem vel verið mín megin, það má vel vera. Á fyrstu mánuðum og misserum feðraorlofsins þegar útfærsla þess var sem fáránlegust þá stóð maður í jagi og orðaskaki af því maður hélt því fram að það væri út í hött að karlar ættu alltaf að fá 80% launa sinna í feðraorlofi, sama hve há launin voru. Aðrir héldu því fram að það væri svo erfitt fyrir hálaunaða karla að lækka etthvað í launum ef þeir tæku sér feðraorlof að þeir yrðu að fá 80% launa sinna úr vösum almennings svo þeir gætu tekið þetta orlof. Þessu hélt sumt fólk statt og stöðugt fram. Þegar maður amlaði á móti þessu þá var ástæðan sögð vera sú að maður skildi ekki þarfir einstaklinga í nútíma samfélagi.

laugardagur, júlí 25, 2009

The Beatles - I feel fine

Flugtak hjá mývetnskri duggönd

Það eru alvarlegar fréttir sem berast af málefnum og stöðu lögreglunnar. Samkvæmt upplýsingum úr hennar röðum er það orðið mjög komið nálægt þeim mörkum að hún ráði við stöðuna. Lögreglan er undirstaða réttarríkisins. Hlurverk hennar er að vernda borgarana. Hún þarf að fá ákveðið aðhald en hún á að njóta sannmælis. Á undanförnum árum hefur umfjöllun ýmissa fjölmiðla verið með ólíkindum. Sérstaklega hefur það verið í sambandi við samskipti hennar við svokallaða aðgerðarsinna. Flest það sem lögreglan hefur gert aðhafst í þeim efnum hefur verið afflutt og brenglað. Afleiðing þessarar afstöðu ýmissa fjölmiðla er til dæmis sú að virðing margra fyrir lögreglunni hefur minnkaqð. Það þykir sjálfsagt nú orðið að ráðast á lögregluna ef hún þarf að skipta sér af ofbeldisfólki og vitleysingum. ekki má heldur gleyma dómskerfinu. Glæpamennirnir sem réðust á lögregluna við störf sín niður í bæ fyrir tveimur árum fengu 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Það er svona svipað og að biðja þá góðfúslega um að berja lögregluna ekki aftur svo vitnum verði við komið. Í öllum löndum með alvöru dómskerfi hefði þessi hópur fengið margra ára fangelsi.

Ég hitti einn kunningja minn niður í bæ í gær sem er að taka myndasyrpuverkefni sem stendur yfir í heilt ár. Syrpan er af stöðumælum og ýmsu sem þeim við kemur, ein mynd á viku. Í gær tók hann mynd af stöðumælaverði við störf sín. Hann fékk leyfi til að mynda stöðumælavörðinn þegar hann var búinn að skýra út verkefnið. Annars var honum óheimilit að mynda hann við störf sín. Hann fékk hins vegar ekki að vita hvað stöðumælavörðurinn hét. Vörðurinn sagði honum að það væri með ólíkindum fyrir hverju þeir yrðu við störf sín. Það er ráðist á þá, reynt að keyra þá niður og veist að þeim á annan hátt með svívirðingum og látum. Siðleysið og ruddahátturinn hjá hluta þjóðarinnar er náttúrulega með ólíkindum og vafasamt að þetta lið hafi nokkurn tíma komist í kynni við það sem almennt kallast mannasiðir. Kellinguna sem ruddist fram hjá keilunum í fyrrakvöld má einnig flokka með þessu liði.

Samkvæmt tölfræðinni þá eru unglingar milli 17 og 18 ára gamlir langlíklegastir til að valda slysum í umferðinni. Þeir eru margir hverjir ekki nógu þroskaðir til að fá leyfi til að aka bíl og afleiðingarnar leyna sér ekki. Í flestum nágrannalöndum okkar hhefur bílprófsaldurinn verið hækkaður í 18 ár vegna þessa. Samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis að bílprófsaldur hérlendis hækki í 18 ár. Morgunblaðið tók þetta til umfjöllunar nýlega. Umfjöllunin var í því fólgin að ræða við 17 ára stelpu sem sagði að hún hefði orðið "ógeðslega pirruð" ef hún hefði ekki fengið bílpróf 17 ára gömul. End of story. Umfjöllun lokið af hálfu Moggans.

Helga Margrét stendur sig vel í Serbíu. Hún er efst í sjöþraut eftir 3 greinar á EM unglinga 19 ára og yngri. Það varður gaman að sjá hver staða hennar verður eftir 3 - 4 ár ef allt fer eins og stefnt er að.

Það var fín frásögnin af kaffihúsinu í Kirkjuhvammi í Fréttablaðinu í morgun. Þetta litla kaffihús á Rauðasandinum er vel sótt enda þótt það sé ekki alveg í alfaraleið. Það fer vel að þar skuli ferðafólki vera selt kaffi því margan kaffisopann bar Jóna heitin þar fram á meðan hennar naut við. Hún og Íbbi bróðir hennar sem bjuggu allt sitt líf í Kirkjuhvammi voru systkyni langömmu. Oft var komið við í Kirkjuhvammi þegar farið var eftir sandinum. Aldrei var barið að dyrum heldur var gengið beint inn ef enginn var úti við. Gestum var ætíð vel tekið því þau systkin voru skrafhreifin og fróð. Það vildi til happs að við seldum Kjartani Gunnarssyni Kirkjuhvamm hér um árið. Veturinn eftir að kaupin voru gerð þá tók veðrið hálft þakið af húsinu en því hafði lítið verið sinnt um allmörg ár. Ef húsið hefði verið í okkar eigu hefði því verið jafnað við jörðu eftir þetta áfall því við höfðum enga peninga til að gera það upp. Þess í stað hefur það verið endurbyggt af miklum metnaði og kaffihús starfrækt þar af miklum myndarskap yfir hásumarið. Það hefur spurst út smám saman hvað það er sérstakt að drekka kaffi í góðviðri á pallinum við Kirkjuhvammshúsið og hafa síðan glóðvolga flæðina hinum megin veginn þar sem börn og fullorðnir geta buslað að gamni sínu. Það hefur gert sitt að verkum til að ferðafólki hefur fjölgað mikið á þessum slóðum á seinni árum. Eftir því sem maður fer víðar því betur kann maður að meta Rauðasandinn.

föstudagur, júlí 24, 2009

The Beatles - You're Gonna Lose That Girl

Straumönd við Mývatn

Það kemur fyrri að ég þyki jaðra við að vera öfgafullur þegar ég er að lýsa þeim fæðutegundum sem ér er hættur að borða. Ég kalla það einu nafni drasl og hvítan sykur legg ég til jafns við eitur. Stundum verður að mála hlutina sterkum litum til að eftir verði tekið. Ég er hins vegar viss um að mitt mat á mismunandi gæðum einstakra fæðutegunda er rétt í öllum aðalatrðium. Reynslan hefur kennt mér það og hún er oftast ólyngust. Það er hins vegar með þetta eins og margt annað, almenningsálitið vill hafa mann í ákveðnum kassa og reynir að troða manni inn í hann aftur ef maður er ekki samkvæmt norminu.

Ég sá í Mogganum í morgun niðurstöður rannsóknar sem unnin var í Danmörku þar sem tekið var fyrir fæðuval flutningabílstjóra sem borða að stærstum hluta til á vegasjoppum. Tilraunahóp va rskipt í tvo hluta. Annar hlutinn borðaði óbreyttan mat frá þvís em þeir höfðu gert en hinn hlutinn borðaði hollari mat. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Viðbragðflýtir þeirra sem skiptu yfir í hollari mat jókst verulega og þar með umferðaröryggi, blóðþrýstingur, kólesteról og blóðfita lækkaði og þeir léttust. Fæðan sem hollustuhópuinn fékk tryggði m.a. jafnari blóðsykurframleiðslu líkamans yfir daginn. Neysla einfaldra kolvetna, sem finnst í ríkulegu magni í hvítum sykri, sykruðum gosdrykkjum, sætindum og hvítu hveiti, setur blóðsykurinn úr jafnvægi. Afleiðingar mikilla sveiflna í blóðsykurframleiðslu eru m.a. streita, skapsveiflur, höfuðverkur og einbeitingarleysi. Miklar sveiflur í blóðsyrinum kalla á meiri sykurneyslu því líkaminn vill vinna á móti niðursveiflunni þegar blóðsykurinn fer lækkandi. Fitusöfnun síðan ekki talin með í þessu sambandi en hún er óumdeilanlegur fylgifiskur mikillar kolvetnaneyslu. Orsakasamhengið liggur því nokkuð ljóst fyrir. Það hafði hins vegar ekki legið jafn ljóst fyrir að það mætti ná jafn skjótum árangri með bættu mataræði eins og þessi rannsókn sýndi.

Ég hef ekki borðað hvítan sykur, kökur, kex, gos, sælgæti eða aðra óhollustu í þessum dúr i rúm þrjú ár. Ég fæ mér þó heimabakaðan pizzubita þegar þær eru bakaðar hér heima. Ég sakna einskis í þessu sambandi og nýt þess betur en nokkru sinni að borða mikið af góðum mat. Ég er ekki í nokkrum vafa um að líkaminn býr yfir miklu meiri orku eftir breytinguna en áður.

Ármannshlaupið var í gærkvöldi. Það var endurvakið eftir nokkurra ára dvala. Þátttakan hefur vaxið svo gríðarlega í almenningshlaupum í ár að þörfin er virkilega til staðar. Rúmlega 200 manns komi í Laugardalinn í gærkvöldi og spreyttu sig á 10 km og skemmtiskokki. Brautin er hröð en nokkur mótvindur á bakaleiðinni þyngdi sporið dálítið. Fyrstu menn voru á um 34 mín sem er fínn tími. Sveinn náði að fara á undir 42 mín sem er hans besti tími. Hann á hiklaust að geta náð undir 40 mín með sama áframhaldi en þann múr hef ég ekki brotið ennþá. Þorkell félagi ofan af Skaga hljóp á undir 46 mín. Fyrir 11 mánuðum og 20 kílóum síðan hljóp hann 10 km í RM á rúmlega klukkutíma þannig að breytingin er gríðarleg á tæpu ári, enda var hann kátur við hlaupalok. Þetta er eitt dæmi um ánægjuleg áhrif hlaupavakningarinnar enda þótt hún teljist ekki til íþrótta.

Eitt verð ég að minnast á frá gærkvöldinu. Við vorum tveir að fara um og loka götum með formlegum skiltum og keilum sem borgin útvegaði. Við gatnamótin við Suðurlandsbrautina þar sem gatan liggur niður í Laugardalinn var lokað fyrir akstur niður í Laugardalinn. Það var gert bæði með bannmerki á afreininni og síðan með keilum sem settar voru á götuna sem liggur beint niður í Laugardalinn. Þegar við vorum búinir að setja merki sem sýndi bann við hægribeygju og tvær keilur voru komnar út á götuna þá kom "elderly woman" á stífbónuðum Range Rover og tróð sér fram hjá keilunum eins og henni kæmi bara ekkert við það sem við vorum að gera. Ef það er eitthvað sem ég hef tapað litla þolimæði fyrir nú á seinni mánuðum þá er það fólk á dýrum bílum sem virðir ekki reglur og hagar sér eins og það sé eitt í heiminum. Það tókst að stoppa konuna og koma henni í skilning um að hún ætti að snúa við sem fljótast. Hér væri lokað og það gilti fyrir hana eins og aðra. Þetta er dæmigert fyrir ákveðinn hluta þjóðarinnar sem hugsar bara um eigin afturenda og treðst og potast ef það er nokkur möguleiki. Ég vona að sá tími sé liðinn að menn komist upp með það í eins ríkum mæli og áður. Því fyrr sem viðkomandi uppgötva það því betra fyrir þá sömu.

Einar Daði er í áttunda sæti á Evrópumeistaramóti í tugþraut fyrir 19 ára og yngri eftir fyrri daginn. Hann náði mjög góðum árangri í flestum greinum fyrri dags og stutt er í efstu men því keppni er mjög jöfn. Morgunblaðið sá ekki ástæðu til að geta um þetta í íþróttakálfinum í morgun heldur var varið heilli síðu í hvern og einn fótboltaleik í efstu deild sem fór fram í gærkvöldi. Enda þótt maður hafi gaman af því að horfa á fótbolta þá er maður löngu hættur að lesa þessar yfirdrifnu frásagnir af lítt athyglisverðum leikjum í blöðunum. Maður fer miklu frekar á fótbolti.net og skannar umfjöllunina þar. Það var hins vegar flott hjá KRingunum að slá Grikkina út. Þetta skiptir máli fyrir íslenskan fótbolta ef eitthvað lið nær að komast upp úr fyrstu umferðunum. Þeir eiga hins vegar eitt og annað ólært þegar þeir eru að kvarta yfir hitan um í Grikklandi. Það er hægt að undirbúa sig undir að þola hita eins og allt annað. Það er bara hluti af pakkanum. Eftir reynsluna frá Spartathlon í fyrra þá er maður hættur að hlusta á kvartanir út af miklum hita þegar íslenskir íþróttamenn fara erlendis að keppa. Það er bara vankunnaátta að búa sig ekki undir hann.

miðvikudagur, júlí 22, 2009

The Beatles - She`s A Woman -

Spói í baði

Ég heyri frá starfsmönnum Laugavegshlaupsins að landverðir við Laugaveginn hafi gert verulegar athugasemdir við umgengni hlauparanna við landið í hlaupinu. Gelbréf og verkjalyfjaumbúðir út um allt með stígnum. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Vitaskuld er það alltaf minnihlutinn sem hagar sér eins og fífl og svertir hópinn allann. Það á við í þessu tilviki eins og öðru. Það sem manni gremst hins vegar verulega að það skuli vera til staðar töluvert stór hópur fólks sem er búinn að byggja sig líkamlega upp í að fara Laugaveginn en er svo andlega sjálfhverft að það hendir rusli frá sér út um allt, jafnvel þótt í friðlandi sé. Þarna er ákveðnum hluta íslendinga rétt lýst. Maður sér stundum til kvikinda sem t.d. henda umbúðum út um gluggann á bílnum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég hélt satt að segja að það myndi öðru gilda um hlaupara á Laugaveginum. Maður vonar bara að það verði tekin um þetta ákveðin og hörð umræða svo viðkomandi skammist sín og heiti sjálfum sér að gera þetta ekki aftur. Ef það gengur ekki þá er bara að vona að þetta lið láti ekki sjá sig á Laugaveginum aftur.

Ég hef verið að lesa þær bækur sem hafa verið skrifaðar um efnahagshrunið að undanförnu. Mér finnst það vera skylda manns að reyna að fá eins greinargott yfirlit um þróunina og orsakir hennar eins og frekast er unnt. Þetta eru þvílíkir atburðir að þeir eru einstakir á seinni tímum. Við megum hins vegar ekki gleyma því að ríki hafa komið og farið þó stærri séu en Ísland. Rómaveldi leið undir lok, ríki Gengis Kan hvarf og þannig má vafalaust áfram telja. Hvað þá með eitt smáríki norður í Atlandshafi? Fjármálageirinn einkenndist í upphafi af oflátungshætti sem er sprottin af inngróinni minnimáttarkennd, grobbi, drambi og taumlausu rugli sem breyttist smám saman yfir í hreina glæpamennsku. Þeir sem lengst gengu frömdu hrein landráð. Það er alveg á hreinu að það kemst aldrei friður á í samfélaginu ef þetta lið verður ekki dregið til ábyrgðar. Hvernig á almenningur að geta tekið á sig stórkostlega lífskjaraskerðinu árum saman ef hann þarf síðan að horfa upp á glæpamennina haga sér eins og ekkert hafi ískorist. Eina vonin í að á þessu verði tekið og verkin kláruð er að erlendir aðilar stjórni rannsóknarferlinu. Hið spillta íslenska kunningjasamfélag hefur enga möguleika á að klára svona mál. Maður er að heyra að nú fyrst hætta á að spillingin byrji fyrir alvöru þegar farið verður að ráðstafa þeim fyrirtækjum sem ríkið hefur yfirtekið. Rússland hvað.

Umræðan um Icesafe málið hefur farið hina undarlegustu krókaleiðir. Þetta er eitt allra afdrifaríkasta mál sem löggjafarsamkoman hefur staðið frammi fyrir að afgreiða frá landnámi síðan kristni var viðtekin á Þingvöllum. Mig skal ekki undra að þingmenn séu órólegir yfir því að þeir séu að taka ákvarðanir án þess að geta verið vissir um að sú ákvörðun sem tekin verður sé sú rétta. Greining fagmanna hefur leitt af sér óöryggi um forsendur allar eftir því sem maður heyrir úr fréttum. Stjórnarliðar eru ekki einu sinni samstiga. Hin endanlega afstaða verður að vera efnisleg en má ekki mótast af því að verið sé að verja "heiður hússins".

Þegar verið er að leggja mat á hvort samfélagið ráði við skuldbindingar sínar í þessu sambandi þá hefur m.a. verið miðað við þjóðarframleiðslu. Það er að mínu viti rangt. Það er ríkissjóður sem kemur til með að borga brúsann. Hann fær tekjur sínar með skattgreiðslum einstaklinga og fyrirtækja. Því eru það tekjur ríkissjóðs sem verður að hafa til viðmiðunar um greiðslugetu og skuldaþol en ekki þjóðarframleiðsluna. Skatttekjur ríkissjóðs í ár verða nálægt 450 milljörðum. Það er ágætt að setja það í samhengi við bróttóskuldir ríkissjóðs sem verða það ég best veit milli 1100 og 1200 milljarðar þegar Icesafe dæmið er komið inn í myndina. Gömul þumalfingursregla segir að ef maður skuldar 150% umfram brúttótekjur þá þurfi maður að fara varlega. Ef skuldin er orðin tvöfaldar brúttótekjur er stutt í vandræðin. Maður stendur síðan varla undir skuldum sem eru þrefaldar brúttótekur. Vitaskuld er þetta gróf þumalfingurregla. Lánstími, vextir og framlegð skipta miklu máli í þessu samhengi. Reynslan hefur hins vegar sýnt manni að fyrrgreind þumalfingurregla er hins vegar yfirleitt mjög marktæk. Ég segi fyrir mig að ef við skulduðum þrefaldar brúttótekjur fjölskyldunnar þá væri allt í fjárhagslegri steik.

Sveinn benti mér á fínan vef í dag. www.grooveshark.com. Þetta er aðgangur að öllum hugsanlegum lögum. Þetta er ekki sett upp til að dánlóda heldur til að spila. Nú virkar tölvan sem ein risavaxin spiladós.

þriðjudagur, júlí 21, 2009

I Need You - McCartney/Harrison

Við Þelamörk í Hörgárdal, nálægt leiðarlokum

Ég var einhvern tíma snemma í vetur að tuða í starfsmönnum íþróttadeildar ríkissjónvarpsins um hvers vegna þeir hefðu ekki dug í sér til að taka myndir af Laugavegshlaupinu. Það væri hreint frábært myndefni í góðan þátt. Viðbáran var að það væri svo dýrt. Maður sá fyrir sér upptökugengi með starfsmönnum og jeppum á 38´dekkjum og ég veit ekki hvað. Jú, auðvitað myndi þetta kosta peninga. Pétur Helgason fór með litlu myndavélardolluna sína með í hlaupið á laugardaginn. Það eina sem var öðruvísi en vanalega að hann var með dálítið stór kort í henni. Hann fór frekar rólega yfir og kláraði hlaupið á 7.15 eða eitt hvað svoleiðis. Hann notaði hins vegar tímann vel og tók myndir á vélina sína í gegnum hlaupið. Hann náði meðal annars að mynda móttökurnar sem ég fékk í Emstrum og var ekki örgrannt um að hann yrði smá abbó. Afraksturinn af myndatökunum sást hins vegar í íþróttaþætti Stöðvar tvö í gærkvöldi. Þessar fínu myndir af Laugaveginum, teknar af Pétri Helgasyni á litlu dolluna hans. Skyldi ríkissjónvarpið vita af þessu? Alla vega hefur ekkert komið frá þeim um Laugaveginn það ég hef séð. Það er nefnilega ekkert mál með nútímamyndavélum að taka fínar myndir á svona leiðum án þess að kalla út her manns. Bara smá hugmyndaflug.

Mogginn á enn erfitt með að telja ultrahlaup með íþróttum. Alla vega var fréttin um úrslit hlaupsins einhversstaðar langt frá íþróttakálfinum. Ég held að fjölmiðlar hérlendis geri sér ekki grein fyrir hve þátttakendur í almenningshlaupum eru orðinn stór hópur. Alla vega er það ekki að sjá á umfjölluninni. Ég held síðan að þeir sem standa utan þessa hóps geri sér ekki grein fyrir hvaða afrek Þorbergur vann á laugardaginn þegar hann hljóp Laugaveginn á undir fjórum og hálfum tíma. Það væri gaman að sá þá íþróttamenn sem meir er látið með reyna að hlaupa Laugaveginn á skikkanlegum tíma. Ég efast um að þeir kæmust alla leið í einum rykk, hvað þá að þeir kæmust eitthvað í sjónmál við hraða Þorbergs. Svo var ósköp kauðalegt hjá Mogganum að hafa ekki dug í sér til að fletta því upp hvað þeir hétu sem voru í 2. og 3ja sæti í karla og kvennaflokki. Þetta eru engin vinnubrögð.

Það var svakalegt að heyra um brjálæðinginn sem stal bílnum í gær og ók síðan dauðaakstri með hóp lögreglubíla á hælunum um bæinn og síðan fyrir Hvalfjörð. Það er í lagi að svona meiníakkar drepi sjálfan sig en það er verra þegar þeir stofna öðrum í lífshættu í leiðinni. Ég heyrði viðtal við formann félags lögreglumanna í útvarpinu í morgun sem tekið var í tengslum við þetta og fleira. Honum fannst forgangsröðunin í samfélaginu nokkuð undarleg þegar ríkissjóður tók lán til að fjölga listamönnum á starfslaunum um nokkur hundruð á sama tima og fækkað er í löggunni. Maður getur ekki aannað en tekið undir þetta sjónarmið. Á þessum tímum verður að hafa forgangsröðun verkefna skýra og rökrétta. Eitt er að vilja en annað að geta.

Ég setti myndir frá hlaupinu frá Reykjavík til Akureyrar inn á myndasíðuna mina. (www.flickr.com/photos/gajul/sets) Ég heyrði í Sigurði hjá UMFÍ í dag. Við hittumst líklega í vikunni með hollvinasamtökunum og punkturinn verður settur formlega fyrir aftan verkefnið. Formaður Hollvinasamtaka Grensássdeildarinnar hringdi í mig í dag. Hann og aðrir í samtökunum voru mjög ánægðir með hvernig tókst til. Það er gott. Þá er tilgangnum náð.

sunnudagur, júlí 19, 2009

The Beatles--Ticket to Ride & Help

Þetta gerist varla betra

Ég hafði ekki sett Laugaveginn upp í ár sem hlaup hinna stóru markmiða. Ég hef ekki farið neinn Esjutúr eða undirbúið mig undir hann á neinn hátt. Á hinn bóginn er Laugavegurinn þannig hlaup að maður verður að vera með ef maður getur með nokkru móti þótt ekki sé nema til að njóta þess að vera uppi á fjöllum, fara um hið magnaða land á Torfajökulsvæðinu og síðast en ekki síst vera þarna í góðum félagsskap. Ég taldi síðan ekki ráðlegt að vera neitt að sperra mig ef Akureyrartúrinn myndi sitja eitthvað í fótunum. Það er betra að komast alla leið í þokkalegum gír heldur en að lenda einhversstaðar í vandræðum og eiga í streði og erfiðleikum með að klára hlaupið. Ég tók því myndavél með mér og hafði á dagsskránni að taka sæmilega myndasyrpu af leiðinni því mig vantaði hana í safnið. Pétur Helga tók slíka syrpu árið 2004 en nú bætti hann um betur og var með hreyfimyndaupptöku af ferðinni!!
Það var hlýtt i Landmannalaugum og spáði vel svo ég lagði af stað léttklæddur í hlýrabol. Það gekk alveg upp enda þótt svolítið rigndi á leiðinni frá Álftavatni niður á sanda. ég fór rólega upp í Hrafntinnusker og eins yfir í Álftavatn. Ég er farinn að fara mjög rólega niður löngu brekkuna í Jökultungum. Ég stoppaði fyrir ofan brekkuna og reimaði skóna betur og tóik myndir. Þá fór nokkuð stór hópur fram úr mér og fór all hratt niður brekkuna. Það skilaði þeim engu því ég var kominn fram úr þeim öllum á veginum niður að Álftavatni. Ég var mjög léttur og fínn í fótunum við Álftavatn og fór því að rúlla heldur hraðar austur, hlaupa brekkur og halda sæmilegum hraða á jafnsléttu. Á þeirri leið sem eftir var fór ég fram úr nokkrum tugum hlaupara en missti engan fram úr mér það ég man. Eftir því sem maður fer Laugaveginn oftar þá finnst manni hann vera styttri og styttri. Maður veit nokkuð hvað er framundan hverju sinni og sífellt koma kunnuglegar slóðir í ljós. Brekkurnar sem voru ógnvekjandi í fyrstu hlaupunum virka nú eins og gamlir kunningjar. Ég hafði sett mér að vera á svona 6.45 og sá við Bláfjallakvíslina að ég þurfti að herða mig svolítið til að ná því. Sandarnir voru vel stamir og því tóku þeir fljótt af. Það er merkilegt að það skuli ekki enn vera komið upp skilti þar sem beygt er út af aðalveginum á söndunum yfir á slóðann sem liggur í átt að Illviðrahöfðanum. Hvernig á ókunnugt fólk að vita að þetta sé leiðin? Útlendur hlaupari sem myndi leiða hlaupið eða ekki sjá til annarra hefur enga forsendu til að beygja þarna út af veginum. Það stytti upp skömmu áður en ég kom að Emstrum og nú var orðið hlýtt og fínt veður. Endalaus ánægja. Ég hljóp létt niður Fauskatorfurnar, skellti í mig kókglasi við drykkjarstöðina og nú var Kápan bara þægileg smáhæð. Fyrir fjórum stóð ég fastur neðst í henni um tíma vegna sinadráttar og var ég þó á nokkuð lakari tíma en nú. Nú var sinadrátturinn víðs fjarri svo og öll vandræði. Það er góð tilfinning að geta skokkað upp brekkur þegar liðið er að lokum Laugavegarins og nú var ekkert mál að hlaupa legginn frá Þröngánni í mark á góðum hraða og tína í leiðinni upp nokkra hlaupara. Mótttökur í markinu voru frábærar og aðstaðan þar öll til mikils sóma. Maður er matlystugur að hlaupi loknu og eftir pottsetu og sturtu var tekið hraustlega til matar síns. Eftir mitt fyrsta Laugavegshlaup þurfti maginn a.m.k. klukkutíma til að jafna sig þar til ég svo mikið sem gat farið að hugsa um mat. Ég var einshversstaðar nálægt fyrsta þriðjungi hlaupara og var það alveg ágætt. eftir aðstæðum.
Það voru unnin flott afrek í þessu hlaupi. Þorbergur massaði það og bætti besta tímann um nær 20 mínútur. Þetta er frábært hjá öflugum strák eins og hann er að setja sér metnaðarfull markmið og standa við það. Það væri gaman að sjá hann í alvöru utanvegahlaupum erlendis þar sem hann gæti att kappi við þá bestu. Það er alltaf spurning um að finna fjölina sína. Annað afrek sem ekki hefur farið eins hátt er afrek Jóhanns sem lauk hlaupinu á 5.31. Jóhann er fæddur 1948 og er því 61 árs. Þetta er náttúrulega alveg magnað af rúmlega sextugum manni að taka Laugaveginn á fimm og hálfum tíma. Hann hefur aldeilis sett viðmið þegar maður kemst í þennan aldursflokk. Hólmfríður Vala var einungis tveimur mínútum frá því að setja met í kvennaflokki en það hefur engin komist nálægt meti Bryndísar Ernstdóttur fyrr en nú. Frábært hjá henni. Margir fleiri hlupu á mjög góðum tímum og bætti sig verulega. Það sýnir öðru fremur hvað fólk er almennt í góðri æfingu og hverju metnaðarfullar æfingar og aukin reynsla skilar. Það kom vel í ljós í hlaupinu hvað það er miklu skemmtilegra að hlaupa Laugaveginn þegar þátttakendum hefur fjölgað svo mikið sem raun ber vitni. Það var alltaf fólk nálægt manni og það setur nýja vídd í hlaupið, keppnin vex og hlaupið batnar.

Almennt má segja að öll framkvæmd hlaupsins er orðin mjög fín og metnaðarfull. Það er ólíkt skemmtilegra að taka þátt í svona hlaupi þar sem framkvæmdin er öll snurðulaus og umgjörðin fagmannleg heldur en þegar ýmsir hnökrar voru að pirra fólk. Það dregur líka fólk til að starfa við hlaupið þegar þessi andi svífur yfir vötnum. Það er síðan ekki lítil ábyrgð í því fólgin að standa fyrir hlaupið þar sem á fjórða hundrað þáttakendur eru að þreyta langt hlaup inni á hálendinu. Við slikar aðstæður getur alltaf eitthvað komið upp á sem nauðsynlegt er að geta brugðist við.

Eitt vakti athygli mína í þessu hlaupi sem ég hef ekki veitt athygli áður. Það var hve margir köstuðu gelbréfum frá sér í götuna. Það er náttúrulega ekkert annað en argasti sóðaskapur. Óbyggðahlaup er allt annað en götuhlaup. Það er ekkert gaman að hafa gelbréfaslóðina á Laugaveginum vikum saman sem minnisvarða um vitund ýmissa hlaupara fyrir umhverfinu. Þetta á ekki að sjást. Annað sem Erla Gunnarsdóttir sagði mér sem mér fannst umhugsunarvert. Hún gekk frá Emstrum niður í Þórsmörk, m.a. til að hreinsa upp rusl. Hún sagði að það hafi verið áberandi hve mikið var af bréfum utan af íbúfeni, Voltaren og öðrum verkjalyfjum í slóðinni. Það er ekki síður umhugsunarefni. Ef fólk kemst ekki Laugaveginn án þess að hakka í sig verkjatöflur þá er eitthvað mikið að. Þá er annað tveggja að fara heim og æfa sig betur eða huga betur að skónum og almennri fótaumhirðu. Ef fólk á vanda til að verða sárfætt þá er hægt að nota secondskin plástur eða sérstök teip á fæturnar. Þótt mér hafi stundum orðið illt í fótum á löngum hlaupum þá er það princip að taka aldrei verkjalyf. Eina skipti sem ég hef gert það var í Western States hlaupinu en þá var ég í tilraunahóp. Ég var í hópnum sem tók 6 Íbóprófen töflur á leiðinni og síðan var annar hópur sem tók engin verkjalyf. Niðurstaðan var að niðurbrot vöðva var meira hjá hópnum sem tók verkjalyf en samanburðarhópnum. Ástæðan var líklega sú að maður deyfði verkina og þjösnaðist því meir á fótunum en innistæða var fyrir. Eftir það hlaup liðu um þrír dagar þar til ég gat sest niður og staðið upp harmkvælalaust. Síðan er rétt að hafa það í huga það ekkert gott fyrir nýrun að taka mikið af verkjalyfjum í svona hlaupum þegar álagið á þau er hvort eð er nokkuð mikið. Miðað við þetta þá ætti það að vera ástæða til að taka upp umræða um notkun verkjalyfja í svona hlaupum. Að mínu mati er hún í besta falli tóm vitleysa. Menn eiga að geta þolað smá sársauka þegar farið er af stað á annað borð út í langhlaup á hálendinu. Það er bara partur af dæminu og upplifuninni. Muna að sársauki er tímabundinn en upplifunin eilif.

Takk til allra hlutaðeigandi fyrir frábæran dag og vel lukkað hlaup. Hlakka til að mæta á næsta ári ef máttarvöldin leyfa. Myndirnar eru á myndasíðunni minni: (www.flickr.com/photos/gajul)

P.S. Ég veit ekki hvaða rugl þetta er í fjölmiðlum um að það hafi verið snjókoma við Hrafntinnusker í gær. Það var óvanalega mikill snjór á þessum slóðum en það var snjór sem féll einhvern tíma í vetur en alls ekki í gær.

fimmtudagur, júlí 16, 2009

The Beatles - Penny Lane

Jóhanna Ingadóttir stekkur langstökk

Ég var ekki hrifinn að því að leggja það í þjóðaratkvæði hvort eigi að sækja um aðild að ESB eða ekki. Alþingi á að marka stefnuna í þessu máli. Til þess er það kosið. Næsti verkþáttur er að sækja eins góða samninga og frekast er unnt. Þá verða þeir lagðir undir dóm þjóðarinnar. Niðurstaða fæst. Svoleiðis er unnið að svona málum
Það er hins vegar á mörkunum að það sé boðlegt sem manni er boðið upp á í þeessari umræðu. Því var haldið fram að hjáseta í atkvæðagreiðslu væri mjög skýr afstaða. Það er eins og það sé verið að tala við vitleysinga. Hjáseta er að taka ekki afstöðu varðandi ákveðið viðfangsefni. Slík afstaða gerir það að verkum að maður veit ekki ekki hvort viðkomandi er með eða móti því sem kosið er um. Hjáseta er að leika tvemur skjöldum, geta slegið úr og í. Slikt þykir aldrei stórmannlegt né rishátt. Ég veit ekki annað en að í norskum sveitarstjórnarlögum sé sveitarstjórnarmönnum bannað að sitja hjá. Þeir eru kosnir til að taka afstöðu og skulu bara gera það fyrst þeir eru á annað borð að bjóða sig fram. Síðan er því haldið fram að það sé sérstaklega gott að hafa það fólk í samningaviðræðum við ESB sem er á móti inngöngu Íslands í ESB hvernig sem allt veltist og hvernig sem niðurstaða samningaviðræðna verður. Slíkir einstaklingar munu vitaskuld freista þess að ná samningsniðurstöðu sem verði örugglega felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef Sigrún vildi alveg endilega kaupa hús en ég alls ekki væri ég þá sendur til að leita að húsi og kaupa það. Alveg örugglega ekki því ég myndi leita allra leiða til að láta fyrirhuguð kaup fokkast upp.

Náði í gögnin fyrir Laugaveginn niður í Laugardal í dag. Þetta verður engin hraðferð að þessu sinni heldur er fyrirhugað að fara skemmtiferð. Ég hef ekkert æft fyrir Laugaveginn sem sérstakt verkefni svo það kemur sem koma skal.

Beatles - Strawberry Fields Forever

Ásdís Hjálmsdóttir kastar spjóti á meistaramótinu

Maður heyrði ekki svo mikið af fréttum eða öðru sem gerðist í kringum mann á leiðinni norður í síðsutu viku. Ég var ekki með útvarp eða annað í eyrunum. Bæði var það vegna umferðarinnar og einnig var það miklu skemmtilegra að fylgjast óskiptur með því sem gerðist í kringum mann. Fuglalífið var t.d. mjög góður félagsskapur. Í Húnavatnssýslum var það mjög öflugt, sérstaklega í þeirri eystri. Það vakti hins vegar athygli mína að í Öxnadalnum þar sem búseta er mjög dreifð eða engin þar sást ekki fugl. Það var ekki fyrr en maður kom ofan í byggðina sem mófuglinn fór að sjást. Líklega sækir hann í nálægðina við manninn.

Bruni Valhallar snerti mig ekki mikið. Húsið var lélegt og hafði ekkert sérstakt minjagildi. Hótelrekstur á þessum stað er ekki sjálfsagður. Hvaða nauðsyn ber á að reka hótel eða ráðstefnustöð þarna. Upplýsingamiðstöðin á Almannagjánni er fín. Sama má segja um hliðstæða starfsemi við Gullfoss. Hótel og ráðstefnusalir geta verið annarsstaðar. Ég skildi forsætisráðherra ekki almennilega þegar hún fór að tala um að þjóðin ætti að hafa sitt að segja um hvort yrði byggt upp á þIngvöllum. Á að fara að bera það undir þjóðaratkvæði?? Það er nú eins og hvert annað bull. Er ekki nóg að spyrja þjóðina sem hefur safnast saman á Austurvelli? Mér finnast önnur og mikilvægari málefni vera til umræðu í samfélaginu þótt kjörnir þingmenn geti ráðið fram úr svona smámáli án aðstoðar.

Furðulegar niðurstöður voru kynntar í fjölmiðlum í fyrri viku. Þar var fullyrt að um 25% allra kvenna hefðu orðið fyrir heimilisofbeldi af einhverju tagi. Það er ekkert smáræði ef satt er. Þegr maður fór að skoða hvað á baki þessum fullyrðingum lá þá kom eitt og annað gamaltkunnugt í ljós. Það er nefnilega mjög auðvelt að ljúga að fólki í gegnum fjölmiðla með tölfræðirugli. Það var sagt að 7000 konur hefðu verið spurðar og 3000 svarað. Þessi fjöldi á að gefa niðurstöðunum ákveðinn trúverðugleika. Það er alrangt að mjög stórt úrtak með lítilli svörun gefi betri niðurstöður. Það meir að segja er ákveðið veilæekamerki í svona könnunum að hafa úrtakið mjög stórt. Lítið en vandað úrtak með mjög háu svarhlutfalli gefur marktækustu niðurstöðurnar.

3000 af 7000 eru um 42%. Könnun með 42% svarhlutfalli gefur gjörsamlega ómarktækar niðurstöður. Við vitum ekkert um afstöðu þeirra 58% sem ekki svara. 25% af þeim sem svara segjast hafa orðið fyrir ofbeldi. Það eru 25% af 42% eða um 10% af heildinni. Maður getur leitt að því líkur að þær konur sem ekki svara hafi ekki haft áhuga á viðfangsefninu því þetta komi þeim ekki við. Alla vega er það sennilegt að þær svari frekar sem hafa ástæðu til að svara jákvætt. Ef eitthvað má lesa út úr mniðurstöðunum er það því að eitthvað um 10% af konum hafi orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu. Það er líklega mjög nærri því sem normalkúrfan muni segja. Það er ákveðinn hluti í öllum samfélögum sem eru ofbeldismenn og vitleysingar.
Það er náttúrulega ekki sæmandi í upplýstu samfélagi að niðurstöður eins og í birtar voru í þessu dæmi séu bornar á borð fyrir mann án nokkurs fyrirvara. Slík vinnubrögð segja hins vegar mikið bæði um þá sem könnunina gera og birta svo og fjölmiðla.

Það kom hins vegar upp áhugaverður vinkill í þessu sambandi. Hve hátt hlutfall karla verður fyrir heimilisofbeldi af einhverju tagi? Það hafa hinir svokölluðu og sjálfskipuðu jafnréttissinnar ekki áhuga á að kanna. Það er ekki áhugavert. Karlarnir mega éta það sem úti frýs.

Þessu liði væri hollt að hugsa aðeins um það hvernig það sé fyrir venjulega stráka að alast upp við þessa síbylju ár eftir ár um hve obbinn af körlum séu andstyggilegir á alla kanta og þeir eigi ekkert gott skilið í augum ákveðinna aðila. Getur skeð að það spretti upp pirringur innra með ýmsum vegna þess. Spyr sá sem ekki veit.

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Ég get ekki sagt annað en að mér hnykkti svolítið við þegar ég las Moggann í morgun. Þar var framkvæmd landsmótsmaraþonsins á Akureyri fundið flest til foráttu af konunni sem var krýndur sigurvegari í kvennaflokki. Ég get ekki sagt annað en að ég er ósammála öllu því sem fram kom í fréttinni sem varðar framkvæmd hlaupsins. Ég hef nokkra reynslu af maraþonhlaupum þannig að ég hef þokkalegan samanburð við önnur hlaup. Hlaupaleiðin var ágætlega merkt. Upplýsingar um vegalengdir voru að vísu ekki á keilum heldur voru þær skrifaðar á götuna en það var gert á mjög áberandi og skýran hátt. Brautarverðir voru þar sem þurfti að leiðbeina hlaupurum. Þeir voru mjög áberandi og sinntu sínu hlutverki með sóma. Drykkjarstöðvar voru með eðlilegu millibili (ca 5 km) og þær voru vel mannaðar af hjálpfúsu fólki sem stóð út við götuna með glös og rétti hlaupurum. Ég á mjög erfitt með að trúa því að það sé rétt að starfsfólk á drykjarstöðvum hafi verið svo upptekið við innbyrðis spjall að það hafi ekki tekið eftir hlaupara sem kemur aðvífandi. Að það sé brekka upp í markið er bara partur af hlaupinu. Það er engin hlaupaleið eins í maraþoni. Það vissu allir af þessari brekku og allir þurftu að fara hana. Hún er mönnum miserfið eftir því í hvernig ástandi þeir eru þegar í mark er komið. Ég hef hlaupið maraþon þar sem brekka upp í markið var miklu erfiðari en á Akureyri. Ef hlauparar ruglast á leiðinni þegar þeir eru að örmagnast af vatnsskorti og sykurfalli er það ekki mótshöldurum að kenna heldur getur hlaupari engum um kennt nema sjálfum sér. Þegar menn svitna mikið í heitu veðri með goluna í bakið eins og gerðist á leiðinni inn að snúningnum við Stokkahlaðir þá verður að gæta sérstaklega að því að drekka vel og hafa orkuna í lagi.

Það rifjaðist upp í þessu sambandi að árið 2001 hljóp ég 10 km í Álafosshlaupinu. Við vorum nokkrir saman í hóp sem vorum fremstir. Einhverra hluta vegna tók sá fremsti ekki eftir merkingu sem vísaði veginn og því hlupum við ranga leið. Við vissum svo ekki fyrr en við mættum hlaupurunum sem hlupu réttu leiðina. Meðan þeir hlupu í hring þá hlupum við í nokkursskonar 8 en áþekkt langa leið. Við sem fórum villur vegar komum aðeins á undan hinum í mark. Það var ca 12 ára gamall strákur sem var fyrstur þeirra sem hlupu réttu leiðina og vitaskuld fékk hann stóra bikarinn.

sunnudagur, júlí 12, 2009

Ég les á bloggsíðum að það hafi komið upp þær aðstæður á Akureyri við markið í maraþonhlaupinu að það leiki vafi á því hver sigraði hlaupið í kvennaflokki. Það er miður því það skiptir ætíð máli í íþróttum að það sé óumdeilt hver sé sigurvegari og hver ekki. Sérstaklega á það við um hlaup eins og maraþon sem fara fram út um borg og by en ekki einvörðungu á hlaupabraut eða á öðru mjög afmörkuðu svæði. Nú sá ég ekki þessar aðstæður persónulega og ætla því ekki að dæma um þær. Á hinn bóginn er það morgunljóst að ef keppandi er leiddur, studdur, borinn, reiddur eða keyrður hluta leiðarinnar þannig að það létti undir með honum, flýtir fyrir honum umfram aðra keppendur eða gerir honum kleyft að ljúka hlaupinu þá skal hann dæmdur úr leik. Það skiptir ekki máli hvort það sé einn meter, tíu eða hundrað. Ef svo hefur verið gert þá hefur hann ekki lokið hlaupinu fyrir eigin orku. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða lengri eða styttri vegalengd. Frægt dæmi um svona uppákomu úr maraþonhlaupi er þetta dæmi hér frá 1908:

In London 1908, Italian Dorando Pietri needed to be helped across the finish line of the marathon, and was declared the winner before being disqualified in favor of Johnny Hayes of the U.S.

Spurningar hafa vaknað um hvort megi hjóla með hlaupara og rétta honum drykki. Það er vissulega á gráu svæði og í öllum virtum hlaupum er það bannað. Hérlendis hefur ekki verið bannað að gera það en það má á það benda að í Western States er mælt með því að hlaupari hafi meðhlaupara með sér í gegnum nóttina en aftur á móti stranglega bannað að meðhlauparinn haldi á nokkrum sköpuðum hlut fyrir hlauparann. Það er ekki tékkað sérstaklega á því en ef svo er gert og upp kemst er armbandið einfaldlega klippt af manni. Flóknara er það ekki. Í Spartathlon 2007 var kona Scott Jurek út um allt með brautinni á bíl og studdi bónda sinn eftir megni. Það fór fyrir brjóstið á mörgum og fyrir hlaupið 2008 var auglýst mjög rækilega að ef keppendur fengju utanaðkomandi aðstoð á öðrum stöðum en á formlegum drykkjarstöðvum þá yrðu þeir dæmdir úr leik.

Það má hlú að keppenda ef honum er kalt, lána honum föt, drykk, gel eða annað það sem leyfilegt er að hafa í hlaupinu. Menn verða hins vegar að ljúka hlaupinu á eigin vegum. Það að brjóta vind er alls ekki það sama og að leiða eða bera. Maður getur hangið aftan í öðrum þvert á móti vilja þess sem er á undan.

Annað vildi ég benda á við framkvæmd Akureyrarhlaupsins. Þegar ég kom í mark var bara vatn í markinu. Það er ekki boðlegt. Í hita eins og var fyrir norðan er hætta á sykurfalli veruleg og því verður að hafa kók eða aðra sykurdrykki til staðar. Ef þeir hafa verið búnir þá er það einfaldlega ekki nógu gott því það eru ekki síður þeir sem seinna koma í mark sem geta átt slíkt á hættu. Það setur einnig upp stemmingu að þulur kynni nafn þess sem kemur inn á brautina hverju sinni. Best er að hafa einhvern kunnugan til þess sem þekkir til flestra þeirra sem eru að hlaupa. Það er skemmtilegra fyrir áhorfendur og léttir síðustu sporin hjá keppendum.

Það er fróðlegt að goggla "marathon disqualified"
Síðasti dagurinn í Grensásshlaupinu rann upp á föstudagsmörgun, bjartur og fagur eins og aðrir. Við Ingimundur vorum tiltölulega slakir og vorum komnir upp á Öxnadalsheiðiáð réttum stað um kl. 10:00. Þessi dagur myndi lengjast í seinni endann og því gátum við tekið það rólega framan af. Við skokkuðum af stað upp brekkurnar eftir því sem fært var en það er töluvert á fótinn upp Öxnadalsheiðina. Alls voru rúmir 8 km uppá kjöl frá þeim stað sem við byrjuðum. Svo skemmtilega vildi til að skömmu eftir að við lögðum af stað þá stoppaði hjá okkur bíll með tveimur konum í. Þar var komin Gústý, gömul skólasystir frá Hvanneyri. Hún var á leið vestur á sínar gömlu heimaslóðir í Austur Hún. Hún hafði viljað gleðja kallinn og rétti mér fallegan blómvönd. Þetta þýddi ekki annað en myndatöku í vegkantinum. Það voru margir kunnugir á leið á landsmót. Sigurður P. og kona hans stoppuðu hjá mér uppi á kilinum og Björn og Ólafur Margeirssynir og Rakel stoppuðu ofarlega í Öxnadalnum. Sama gerðu Ívar og Jóhanna svo og Stefán Örn og Hafdís. Stefán kom með mér á fæti í ca klukkutíma. Það var bjart og hlýtt en smá gola á móti. Það hélt hitanum aðeins niðri. Það var svolítið skrítið að það var ekki mófugl að sjá efst í Öxnadalnum en þeim fór fjölgandi þegar nær dró mannabyggð. Fólk rétti mér peininga út um gluggann á bílnum til að styðja verkefnið. Oddur, Pétur, Sigurður úr Hörgárdalnum og lítil stúlka í aftursætinu. Þeim er þakkaður góður hugur. Þegar leið á daginn heyrðum við í Sigurði. Edda Heiðrún og hennar fólk var á leið að sunnan og það hafði verið ákveðið að við myndum hittast við Þelamörk. Við stilltum okkur af þannig að þau væru örugglega komin þangað þegar okkur bæri að garði. Þangað komum við á fyrri hálftímanum í sex. Við þelamörk voru Edda og varaformaður Hollvinasamtaka Grennsáss og starfsmaður stofnunarinnar. Einnig var þar formaður, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri UMFÍ ásamt vinum og kunningjum. Það var tekið höfðinglega á móti mér með blómvendi og gjöfum og mörg falleg orð féllu á þessari stundu. Það geta ekki annað en bærst með manni ýmsar tilfinningar eftir við lok svona verkefnis. Lítil hugmynd sem kviknaði seint í vetur og þótti kannski ekki alltof raunveruleikatengd hafði gengið fyllilega upp. Það er ekki lítils virði að geta notað það sem manni er gefið til að styðja við þá sem standa veikar fyrir. Það sem gerði þetta hlaup þess virði sem það varð var að vekja athygli á því að örlög manna eru misjöfn á marga lund. Staða þess fólks sem verður fyrir áföllum vill oft gleymast og falla í skuggann af því sem þykir fréttnæmara og sölulegra hjá fjölmiðlum. Það að hlaupa til Akureyrar bara til að gera það hefði ekki verið svipur hjá sjón miðað við þetta verkefni.
Eftir góða stund við Þelamerkurskóla þá fórum við Ingimundur og Stefán Gíslacon í heita pottinn og slökuðum aðeina á. Nú var aðeins lokaspretturinn eftir. Ég átti að mæta á setningarhátíð landsmóts UMFÍ upp úr kl. 21:00. Ég lagði því af stað á seinni hálftímanum í átta. Brekkurnar frá skólanum upp á Moldaugnahálsinn voru drýgri en mig minnti svo mér veitti ekki af tímanum. Ég skokkaði svo til Akureyrar í kvöldblíðunni. Við Húsasmiðjuna komu Þórey Gylfa og vinkonur hennar tvær á móti mér. ég kom svo upp að Boganum rétt um kl 9:00 og beið í smá stund við hliðið. Það setur fljótt að manni svo ég tók nokkra hringi á planinu áður en Sigurður veifaði. Það var skemmtilegur lokapunktur á þessu verkefni að ljúka því á setningarhátíð landsmótsins. Helga formaður UMFÍ tók þar á móti mér með kransi og kossum. Það var UMFÍ til mikils sóma hvað þeir tóku fljótt við sér þegar ég ræddi þessa hugmynd við Sæmund. Þau settu allt í gang til að gera þetta mögulegt. Sigurður skipulagði verkefnið af miklum myndarskap. Hann lagði m.a. áherslu á að með mér væri maður sem væri hlaupari og þekkti hvað um var að vera. Hann hefði ekki getað valið betri mann en Ingimund úr Borgarnesinu til að fylgja mér norður. Við náðum strax mjög vel saman og hann hafði vakandi auga á hverjum fingri um að allt væri eins og best væri á kosið. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér.
Það var svo sem ekki til setunnar boðið þótt til Akureyrar væri komið. Morguninn eftir var maraþon. ég hafi haft ákveðinn fyrirvara um þátttöku í því ef fæturnir væru ekki í lagi. En þar sem allt var eins og best var á kosið þá var ekkert því til fyrirstöðu að klára það. Það var þó ákveðið stress í manni fyrir því þar sem það tekur sig alltaf upp ákveðið kapp þegar í keppni er komið. Ég hafði getað stjórnað öllu sjálfur á leiðinni frá Rek til Ak en nú var því ekki að heilsa. Maður vissi t.d. ekki hvernig fæturnir myndu þola álag af nýju tagi. Í stuttu máli þá gekk hlaupið upp eins og ætlað var. Það var nokkuð heitt en þó allt í lagi. Ég fór á þeim hraða sem ég tali mig ráða vel við, passaði mig á að drekka vel, taka gel og steinefnatöflur og lauk hlaupinu á 3.46 sem ég var mjög ánægður með þegar tekið var mið af öllum aðstæðum. Þá var þessum ævintýri lokið. 429 km að baki á 7 dögum. Þessi vika verður ógleymanleg fyrir margra hluta sakir. Fyrir utan allt annað var ég mjög ánægður með hvernig skrokkurinn hélt. Engar blöðrur, ekkert skafsár, ekkert nudd, engin naglaeymsli. Engin eymsli í liðamótum eða vöðvum. Aðeins smá bólga aftan á hægri hésbótinni. Alltaf ánægja og tilhlökkun. Aldrei streð eða leiði. Það er langur vegur frá því að maður hélt að það tilheyrði að koma í mark á maraþoni með bláar og lausar neglur, blöðrur og skafsár. Svona lærast hlutirnir. Ég keyrði síðan suður á laugardagskvöldið því önnur verkefni biðu.

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Við Ingimundur tókum daginn upp úr kl. 7:00, fengum okkur morgunverð og gerðum klárt. Veðurútlitið var hið besta og enn einn heiti dagurinn virtist í uppsiglingu. Veðrið hefur verið eins og eftir pöntunarlista. Maður getur vel ímyndað sér hvernig það væri að pjakka þessa leið í rigningarkalsa og strekkingi. Við lögðum upp skömmu fyrir kl. 9:00, 8 km fyrir vestan Húnaver. Ingimundur tók morgunlegginn og fór síðan til baka að sækja bílinn. Ég gekk upp Bólstaðarhlíðarbrekkuna enda ekkert annað að gera. Ingimundur beið á kili og þar voru einnig mættir Snorri Björn og Jón hlaupafélagi hans af Króknum. Það var fínt að hafa þá sem fylgdarfélaga niður að Varmahlíð. Snorri er hafsjór af fróðleik og sagði margar sögur, bæði almennan fróðleik og eins annað sem ekki er hafandi eftir. M.a. benti hann mér á jörðina þar sem fyrsti íslenski sálmurinn er ortur um 1200. Það er sálmurinn "Heyr himnasmiður". Einnig benti hann mér á gamalt býli þar sem sendimenn úr Skagafirði lentu á fylleríi en þeir áttu að fara með undirskriftir úr Skagafirði á móti símanum skömmu eftir þar síðustu aldamót. Ekki vildi betur til en svo að þeir týndu listunum en fóru samt suður. Síðan er skráð í annála að Skagfirðingar einir landsmanna hefðu ekki mótmælt símanum með undirskriftum.
Við komum að Varmahlíð rúmlega kl. 12:00 og va rþað á áætluðum tíma. Þar beið Sigríður Björnsdóttir, bróðurdóttir Jóns frá Úthlíð, með syni sínum og vinafólki. Þau hlupu með mér austur yfir Vötnin en strákarnir tveir héldu síðan áfram út fyrir Miklabæ. Þar skildust leiðir og fínt að fá svona góða og skemmtilega fylgd. Ég hélt síðan sem leið lá inn dalinn. Ýmsir sem ég þekkti og voru á leið á Landsmót stoppuðu eða hægðu á sér og köstuðu kveðju yfir veeginn. Rétt neðst í Norðurárdalnum slóst Trausti Valdimarsson með í för og hljóp með mér út dagsskammtinn sem var upp neðstu löngu brekkuna á Öxnadalsheiðinni. Hann kom með okkur að Engimýri þar sem við gistum en fór svo á puttanum til Akureyrar og er vonandi að hann hafi komist fljótt og vel á leiðarenda. Frændfólk Jóns og vinir þeirra styrktu söfnunina myndarlega svo og Trausti og Dísa.
Við borðuðum á Engimýri og nú er lystin farin að segja heldur betur til sín. Ég hef alltaf borðað mjög vel á kvöldin en nú dugði ekkert annað en tvöfaldur vel útilátinn skammtur. Í eftirrétt borðaði ég síðan stórt grillað laxaflak sem við áttum eftir frá gærkvöldinu. Ég borða vel á morgnana og einnig yfir daginn. Banana, próteinbita, gel og síðan fæ ég mér Herbalife hristing áður en lagt er í hann á morgnana oo svo á þriggja tíma fresti. Sama er það stendur allt í botni.

Á morgun er svo síðasti leggurinn af þessu skemmtilega ævintýri. Ég heyrði í Sigurði í kvöld og hann er að hnýta síðustu lausu endana. Við hittum Eddu Heiðrúnu og hennar fólk fyrst við hlaupalok og síðan lýkur hlaupinu formlega á setningarhátíð UMFÍ annað kvöld.
Ef allt verður í standi þá verður svo skokkað maraþon á laugardaginn.

miðvikudagur, júlí 08, 2009

Í nótt var gist á Gauksmýri rétt fyrir austan Hvammstanga. Fínn staður með góðu steikarhlaðborði. Veðrið í morgun var frábært, heiðskýrt, logn og hlýtt. Við lögðum af stað um kl. 9:00 og Ingimundur skokkaði með mér nokkuð austur fyrir Víðigerði. Þá var hann búinn að ná dagskammtinum. Hann sneri svo við og sótti bílinn en ég skokkaði áfram. Veðrið va rfínt, örlítinn andvari á bakið. Tíminn leið fljótt og eftir rúma 20 km gerðum við stuttan stans við Þrístapa og settumst aðeins niður á hólnum þar sem Friðrik og Agnes voru hálshöggvin í janúar 1830. Fuglalífið var á fullu, stelkar, spóar og jaðrakanar styttu mér stundir. Héðinn héraðslæknir á Blönduósi slóst í för með mér skömmu fyrir austan Vatnsdal og hljóp með mér austur að Kringlu. Við veginn fyrir neðan Torfalæk beið Jóhannes frændi með Hjálmari sonarsyni sínum. Það er alltaf gaman að hitta Jóhannes og sjá fallegt bú þeirra hjóna, hans og Ellu. Hjálmar skokkaði með mér að næstu drykkjarstöð. Gamall skólabróðir frá Hvanneyri, Jón Sigurðsson frá Blönduósi, beið við veginn og tók mikið af myndum. Hann bætti svo um betur þegar ég kom til Blönduóss. Ég gerði stuttan stans á Blönduósi en hélt svo af stað inn Langadalinn. Skömmu fyrir austan Blönduós fótu hjólreiðastrákarnir að tínast fram úr mér. Við hittum svo þann síðasta þegar við hættum eftir 65 km. Það var mjög heitt í dag og maður drekkur mikið. Ætli fari ekki milli 6-8 lítrar á dag. Við stoppuðum svona 10 km fyrir vestan Húnaver og var það á áætlun. Síðan var heiti potturinn í Húnavallaskóla tekinn og svo farið að borða og gera klárt.

Bróðurdóttir Jóns frá Úthlíð hringdi í mig í dag og ætlar að hitta mig í Varmahlíð á morgun. Þá kemur Depillinn sér vel til að stilla af tímann. Nú þekkja ekki allir Jón heitinn frá Úthlíð og því er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum hví þetta hlaup er öðrum þræði minningarhlaup um hann. Jón var fæddur ca 10 árum fyrr en ég í Úthlíð í Biskupstungum. Ég man eftir honum um og fyrir sjötiu úr blöðunum sem mikils hlaupara, fyrst og fremst í 5.000 m og 10.000 m. Hann var landsliðsmaður um nokkurra ára skeið. Hann hafði alltaf ætlað sér að verða bóndí í Úthlíð og bjó þar með sauðfé. Þegar hann er 32 ára gamann þá verður hann fyrir því slysi að það hrynur á hann heybaggastæða og hann hryggbrotnar. Lífið tekur kúvendingu á einni svipan eins og svo margir verða fyrir sem lenda í slysum. Eftir endurhæfingu þá þurfti hann að taka nýja stefnu í lífinu vegna breyttra aðstæðna. Hann tók stúdentspróf og las síðan líffræði við HÍ. AÐ námi loknu stundaði hann síðan kennslu til æfiloka. Þegar ég var að byrja að skokka þá sá maður þennan firrum mikla hlaupara í hjólastólnum alltaf í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann tók þátt í 10 km hlaupi eða hálfmaraþoni. Hann var mér og öðrum hvatnig á þessum árum til að gera betur því það er allt afstætt. Maður sá að það var ekki mikið mál fyrir fullfrískan mann að fara hálft maraþon á tveimur jafnfljótum þegar lamaður maður í hjólastól lék sér að því. Síðar kynntist ég Jóni nokkuð þegar við tókum tal saman á stígunum þegar leiðir okkar lágu saman. Jón lést fyrir tveimur árum langt fyrir aldur fram aðeins 64 ára gamall. Við hjá UMFR36 vildum leggja okkar litla skerf fram til að halda minningu hans á lofti með að nefna 6 tíma hlaupið í höfuðuð á honum sem mikils afreksmanns sem vanns ín stærstu afrek ekki síður eftir slysið en fyrr það. Okkur þótti því við hæfi að hafa þetta hlaup að öðrum þræði minningarhlaup um Jón því hann var mikill afreksmaður á landsmótum UMFÍ í gegnum tíðina.

Kristján verktaki rétti mér pening út um bílgluggann í dag, Jóhannes og Ella á Torfalæk skákuðu að mér umslagi og Snorri Pálsson frá Vopnafirði lagði söfnunni lið á bílaplaninu á Blönduósi.

Við leggjum af stað á álíka tíma á morgun. Verðurútlit er gott. Þá verður farið langleiðina upp á Öxnadalsheiði. Allt er á áætlun og allt er eins gott og það getur verið.

þriðjudagur, júlí 07, 2009

Við Ingimundur gistum á Staðarflöt við Staðarskála í nótt er leið. Staðarhaldarar þar sýndu hlaupinu þann rausnarskap að þau buðu okkur gistingu og mat og kunnum viðþeim hinar bestu þakkir fyrir. Við lögðum af stað upp úr kl. 8:00 upp á heiði og það var lagt í hann tuttugu mínútur í níu. Ingimundur hljóp með mér fyrsta spölinn til að ná dagsskammtinum en sneri svo við til að ná í bílinn. Veðrið var fínt. Skýjað, logn og 12°C. Ég var svona klukkutíma uppá kjöl og svo var rúllað niður heiðina en hún er dálítið löng. Ætli hún sé ekki um 50 km í það heila. Þegar niður í Hrútafjörðinn kom fór að létta til og hlýna. Það var síðan standandi blíða daginn út, 18°C og logn. Nú sparaði ég ekki sólarvörnina en ég hafði vanrækt kálfana að aftanverðu í gær og það sagði strax til sín. Ég stoppaði svolítið í Staðarskála og græjaði mig en hélt svo áfram sem leið lá út Hrútafjörðinn. Við vorum komnir að Hvammstangavegamótunum rúmlega þrjú og fórum ca 13 km austur fyrir þau eða að afleggjaranum upp í Fitjárdal. Þá voru komnir 65 km. Dagurinn var þó ekki alveg búinn því ég hafði ákveðið að taka "göngin" og það passaðia ð hlaupa afleggjarann út að Hvammstanga til að klára þau. Þar kom hópur frá Hvammstanga á móti okkur og við skokkuðum út í bæinn. Þar var farið í heita pottinn í sundlauginni. Góður dagur var á enda runninn. Að því loknu kíktum við aðeins í heimsókn til Ragnars frænda og Sissu konunnar hans en héldum svo í gistingu að Gauksmýri. Í svona hlaupi og í svona veðri liggur manni ekkert á. Fólk stoppar og spjallar nokkur orð og óskar manni górar ferðar. Aðrir flauta og veifa. Bjarki flutningabílstjóri og Narfi og kona hans gaukuðu að mér peningum á Holtavörðuheiðinni. Sigvaldi girðingarmaður úr Skagafirði henti frá sér verkfærunum við vegkantinn inn við Brú og hljóp með mér í klossunum og samfestingnum út að Staðarskála. Hallgrímur Guðmundsson úr heilbrigðisráðuneytinu stoppaði hjá okkur í Hrútafirðinum og víð fórum langt með að útfæra flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga á meðan ég borðaði. Síðan hitti ég Steina bónda á Reykjum, gamlan skólabróður frá Hvanneyri, við vegkantinn fyrir ofan Reykjaskóla og við máttum til með að taka sólarhæðina á ýmsum hlutum. Steini er pabbi Helgu Margrétar, þeirrar miklu frjálsíþróttakonu. Í dag var farinn 71 km. Tíminn var eitthvað á níunda klukkutíma þegar allt var talið saman en það er ekki svo nauið þegar í mörg horn er að líta. Allt er í fínu lagi og maður þarf heldur að halda aftur af sér heldur en hitt. Ég heyri að fjölmiðlarnir hafi staðið sig vel í allri umfjöllun en ég hef ekkert útvarp meðferðis. Á morgun á að taka legginn frá Fitjárdal í gegnum Blönduós og best væri að ná Húnaveri.

mánudagur, júlí 06, 2009

Ég lagði af stað úr bænum um kl. 7:30 í morgun og ók upp í Borgarnes. Hitti Ingimund og fórum yfir á afleggjarann að Venusi. Gummi Sig og Haukur komu þangað áður en lagt var af stað. Gummi sá um bílinn fyrsta kastið svo Ingimundur gæti tekið dagstúrinn. Hann lauk 16 km fyrir ofan Hvanneyrarvegamót. Skömmu áður beið Unnur hótelstýra á golfhótelinu eftir okkur og tók nokkurn legg upp að afleggjaranum af hótelinu. Veðrið í Borgarfirði í dag var magnað, 20°C og logn. Nú var sólaráburðurinn notaður mikið. Ingimundur beið á svona 5 km fresti sem kom sér vel því nú þurfti oft að fylla á tankinn. Maður pjakkaði áfram upp Borgarfjörðinn í hitanum. Umferðin var þægileg og bílstjórar mjög tillitssamir. Margir veifuðu og flautuðu sem er mjög gaman. Neðarlega í Norðurárdalnum kom maður frá Depli (www.depill.is) með staðsetningartæki svo nú er hægt að sjá hvar maður er staddur hverju sinni. Mjög skemmtileg hugmynd sem þeir tóku upp hjá sjálfum sér og keyrðu upp í Borgarfjörð með tækið. Slóðin á staðsetninguna er á vef UMFÍ (www.umfi.is). Stefán Gíslason kom á eftir okkur neðarlega á Holtavörðuheiðinni og við hlupum saman síðustu 10 km. Mjög góður hlaupafélagi. Það var kominn dálítill mótvindur undir lokin sem var innlögnin frá Hrútafirðinum. Við hættum hlaupi í heiðarrótunum eftir 68 km. Það var plan dagsins og heldur betur. Á morgun er gert ráð fyrir að fara austur fyrir Hvammstangaafleggjara. Það er allt í fínu standi svo maður hlakkar bara til áframhaldsins.

sunnudagur, júlí 05, 2009

The Beatles - Money

Spáð í spilin á Kjalvegi

Ég mætti upp á Efstaleiti rétt fyrir kl. 9:00 í morgun. Þegar ég var að taka mig saman um morguninn þá hellirigndi en svo fór þetta að breytast í léttan úða. Það var smá spjall við Sirrý á morgunvaktinni og svo átti að skjóta hlaupið í gang. Það tókst í þriðju tilraun og þá var rúllað út á stétt. Þar voru smá viðtöl við sjónvarpsstöðvarnar og svo skokkuðum við Sigurður upp á Grensás. Þar beið Kolbrún Halldórsdóttir frænka mín sem staðgengill Eddu Heiðrúnar. Hún lýsti fyrir okkur þeim fyrirætlunum sem uppi eru um stækkun deildarinnar sem verið er að safna fyrir, því þótt ríkisvaldið hafi ekki verið örlátt til deildarinnar á góðæristímum þá er vart hægt að búast við meiri í því samfélagi sem verið er að sigla inn í. Sigurður skokkaði með mér inn að Sprengisandi og síðan hélt ég sem leið lá gegnum Grafarvoginn og upp í Mosfellsbæ. Veðrið var fínt, hlýtt, logn og það þornaði fljótt svo þetta varð hið besta hlaupaveður. Danskur maður sem heitir Stefán kom með mér frá Mosfellsbæ og upp að göngum. Þar beið Sveinn og við rúlluðum í gengum þau og síðan var pjakkað áfram. Frá göngunum og upp til móts við álverin er malarstígur við hliðina á þjóðveginum. Það var fínt að þurfa ekki alltaf að hlaupa á vegöxlinni. Sveinn beið rétt fyrir norðan Skagavegamótin og þar fyllti ég á. Síðan lá leiðin í gegnum Melasveitina og upp með Hafnarfjalli. Ég gat hlaupið á malarvegi í gegnum Melasveitina og síðan var hlaupið svona til skiptis á öxlinni og fyrir utan veg fyrir Hafnarfjallið. Reynir frændi slóst í "hópinn" við Ölver. Gummi Sig og Sigrún kona hans (foreldrar Sigurðar UMFÍ manns) biðu undir Hafnarfjallinu. Við Gummi erum gamlir skólabræður til margra ára. Haukur bróðir og Ingimundur komu svo með síðasta spölinn niður að Hótel Venus. Ingumundur verður svo ferðafélagi minn norður. Það er frábært hjá honum að skella sér út í þetta með skömmum fyrirvara. Við fórum ekki lengra því umferðin yfir brúna var mjög þung. VIð Venus biðu Edda Heiðrún og maðurinn hennar. Edda var afar ánægð með hvaða umfjöllun þetta litla verkefni hlaut yfir daginn. Það var góð umfjöllun í fjölmiðlum sem greinilega skilaði sér því þegar leið á daginn jókst það verulega að bílar flautuðu og fólk vinkaði. Það var fínt að verða var við að umfjöllunin hafi skilað sér út til almennings. Bílstjórar voru mjög tillitssamir og viku vel þegar það var hægt en það var ekkert voðalega gaman að hlaupa á þröngri vegöxl á móti þungri umferð. Maður reyndi einnig að vera áveðurs til að fá útblásturinn ekki allan niður í lungun. Einn sjálfskipaður húmoristi kom á móti mér með opna hurð rétt fyrir sunnan göngin. Svona bjánar eru allstaðar til og það eru þeir sem maður þarf að vara sig á.
Ég skellti mér svo í sturtu í Borgarnesi og svo rúlluðum við Sveinn í bæinn. Þetta var fínn dagur. Allt í fínu lagi. Engin eymsli en smá sinadráttur eftir að hlaupinu lauk. Ég þarf að taka magnesíum reglulegar því maður svitnar verulega. Það spáir þvílíku dúndur veðri á leiðinni þannig að það yrði ekki betra þótt maður hefði lagt inn pöntun.

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta aðbúnað á Grensásdeildinni geta lagt inn á reikning 0130 - 260 - 9981 Kennitala: 660269-5929

laugardagur, júlí 04, 2009

The Beatles - Daytripper

Á Hveravöllum við upphaf Kjalvegshlaups

Ég legg að stað í fyrramálið til Akureyrar - á fæti. Þetta er verkefni sem er sett upp í samvinnu UMFÍ og Eddu Heiðrúnar Backmann fyrir hönd Grensásshópsins. Hlaupið er jafnframt sett upp í minningu Jóns H. Sigurðssonar frá Úthlið, þess mikla afreksmanns sem lést langt fyrir aldur fram. Markmiðið er að safna fé til styrktar endurhæfingarstofnunni við Grensás. Þetta er undanfari stóra fjáröflunarátaksins sem verður í haust. Ég hef sett dæmið upp þannig að ég tek sex daga í hlaupið og kem til Akureyrar á föstudagskvöldið. Að jafnaði eru þetta um 65 km á dag en það getur verið að ég fari eitthvað lengra suma dagana til að eiga borð fyrir báru á föstudeginum. UMFÍ hefur skipulagt þetta allt með miklum sóma. Ingimundur hlaupari úr Borgarnesi fylgir mér frá og með mánudeginum. Sveinn ætlar að vera með mér á morgun. Höldur bílaleiga leggur bíl til ferðarinnar. Rás 2 verður með umfjöllun um verkefnið og stjórnar fjáröfluninni í samvinnu við UMFÍ. Ég legg af stað upp úr kl. 9:00 frá Efstaleiti, kem við á Grensásdeildinni á leiðinni út úr bænum og svo verður nuddað áfram. Það spáir mjög vel næstu daga þannig að ekki á veðrið að vera til trafala. Þetta verður skemmtilegt.

The Beatles - If I Feel

Við skálann í Þjófadölum

Ég á stundum í erfiðleikum með að hlusta á auglýsingarnar frá minningarsjóði Sonju sem sýndar eru í sjónvarpinu. Mér finnast þær svo átakanlegar. Þar er fólk að minnast barna sinna sem hafa látist vegna eiturlyfjaneyslu. Meginstefið er að það hefur enginn að markmiði að verða fíkill. Krakkar og unglingar feta hins vegar stundum inn á brautir sem þeir losna ekki út af. Sama hvað þeir reyna og vilja, í sumum tilvikum virðist það ekki vera hægt. Það er í sjálfu sér tilviljum hver það er sem lendir í þeirri stöðu að sitja og tala minningarorð um börnin sín inn á svona auglýsingar. Það gæti þess vegna verið maður sjálfur eða einhver manni nákominn. Það er nefnilega það átakanlega.

Ég las í dag viðtalið í Vikunni við konuna sem gekk fram fyrir skjöldu og upplýsti um brot biskupsins fyrrverandi gagnvart sér. Kirkjan hefur loksins viðurkennt ábyrgð sína í þessu máli og beðið hana og aðrar tvær konur, sem urðu fyrir samskonar brotum af hálfu hans, formlega afsökunar. Það var ekki gert fyrr en einhverjum áratugum eftir að brotin áttu sér stað. Það var hálf óhuggulegt aða lesa um viðbrögð samfélagsins við ásökunum hennar á sínum tíma. Í stuttu máli sagt va rhún flæmd burt af landinu. Hvorki meir eða minna. Þegar einstaklingar í stórum bilum sátu við húsið hennar langtímum saman þá var mælirinn fullur. Það getur enginn gert fjölskyldunni að búa við slíkar aðstæður. Það þarf töluvert hugrekki til að takast á við þessa umræðu en sem betur fer eru þeir einstaklingar til sem búa yfir slíkum kjarki. Annars verður óþverraskapnum sífellt sópað undir teppið.

Samkvæmt langtímaspánni á norskum vef þá verður rjúkandi blíða alveg fram á næstu helgi. Hæglætisveður og léttskýað. Það kemur sér vel á ýmsan hátt.

Kondis birti í dag listann yfir þá norðurlandabúa sem hafa hlaupið 100 km undir 9 klst í ár. Þeir eru samtals 22. Sigurjón er í 14 sæti með sinn árangur frá því í júníbyrjun. Einn hefur hlaupið undir 7 klst sem er svakalegur hraði. Þá er maraþonið hlaupið á um 2.40.

6.41.49 Jonas Buud, SVE 19.06 Torhout (EM/VM)
7.38.09 Per Olav Bøyum, NOR 19.06 Torhout (EM/VM)
7.43.31 Ole Karlsen, DAN 21.03 Stige
7.49.54 Runar Gilberg, NOR 19.06 Torhout (EM/VM)
7.54.12 Asmo Ahola, FIN 19.06 Torhout (EM/VM)
7.58.49 Charley Prødel, DAN 25.04 København
7.59.26 Kari Salomaa, FIN 19.06 Torhout (EM/VM)
8.00.09 Ole Karlsen, DAN 25.04 København
8.00.48 Poul Pedersen, DAN 25.04 København
8.05.51 Kim Hammerich, DAN 21.03 Stige
8.13.18 Jari Tomppo, FIN 07.06 Perniö
8.17.17 Fredrik Elinder, SVE 19.06 Torhout (EM/VM)
8.18.01 Frants Mohr, NOR 21.03 Stige
8.23.45 Sigurjon Sigbjörnsson, ISL 0606 Reykjavik
8.27.03 Charley Prødel, DAN 19.06 Torhout (EM/VM)
8.28.58 Tapio Talvitie, FIN 07.06 Perniö
8.32.58 Lars Nørregaard, DAN 25.04 København
8.38.56 Mikael Heerman, FIN 19.06 Torhout (EM/VM)
8.43.52 Manu Kauppila, FIN 28.06 Adak
8.48.46 Arto Ahola, FIN 19.06 Torhout (EM/VM)
8.53.22 Martin Lundberg, SVE 28.06 Adak
8.54.03 Henrik Wælt Lauridsen,DAN 2504 København

föstudagur, júlí 03, 2009

The Beatles - Im happy just to dance with you

Fallegur hylur á Þverbrekknamúla

Í árdaga þegar maður byrjaði að hlaupa hófst ákveðin óvissuferð. Hún átti að vera stutt og einföld en hefur orðið lengri og flóknari en ætlað var. Ferðalokin eru enn ekki ráðin. Í upphafi var markmiðið einfaldlega að byggja sig upp til að geta hlaupið nokkurn spöl. Spölurinn lengdist með tímanum og kröfurnar jukust. Samtímis varð ánægjan meiri. Það var mikill áfangi að geta tekið þátt í kapphlaupum á nokkrum jafnréttisgrundvelli. Á ákveðnum tímapunkti fannst manni að maður hefði breyst úr skokkara í hlaupara. Það var einnig nokkur áfangi. Með tímanum hefur afstaða manns til hlaupa breyst. Í upphafi þegar maður var að byrja að skokka þá þótti manni nauðsynlegt að taka þátt í öllum keppnishlaupum sem tiltæk voru. Þá var tímamælingin á fullu. Markmiðið var að sarga nokkrar mínútur eða sekúndur af sínum besta tíma. Stundum tókst það en oftar ekki. Þegar hlaupin fóru að lengjast þá fór ánægjan og lífsfyllingin af því að geta hlaupið oft og lengi að taka yfirhöndina yfir því að þreyta kapphlaup hvenær sem tækifæri gafst. Félagslegi þátturinn er farinn að hafa meiri þýðingu. Í mörgum maraþonum er tilgangurinn ekki síður að vera með og hitta félagana á brautinni heldur en að setja sér ákveðin tímamarkmið. Ánægjan yfir því að geta hlaupið maraþon áreynslulítið verður sífellt meiri. Markmiðin hafa einnig breyst. Þau hafa orðið færri og stærri. Það er meira lagt undir en uppskeran hefur einnig orðið þeim mun betri þegar vel hefur tekist til. Maður er hættur að horfa á það sem sjálfsagðan hlut að geta hlaupið langt hvenær sem maður vill undir miklu álagi. Það eru í sjálfu sér einfaldlega ákveðin forréttindi. Um þetta erum við sammála sem erum komnir vel yfir fimmtugt á dagatalsmælikvarðanum sem er í sjálfu sér slls ekki óumdeildur sem hinn eini sanni mælikvarði. Hvað gera menn sem eru í forréttindahóp? Maður getur gert tvennt. Annað hvort haldið þessum forréttindum þétt upp að sér og sagt: "Det er mina kjöttbullar" eða maður getur deilt þeim með öðrum. Til þess eru ýmsar leiðir. Ég hef verið að velta því fyrir mér í vetur og vor hvernig það væri hægt á einhvern skynsamlegan hátt. Stundum er gott að hafa einhvern tilgang annan með hlaupum heldur en bara að komast á leiðarenda. Ég er kominn niður á ákveðna leið til að ná þessu markmiði. Kemur í ljós innan skamms.

María var í hópnum með meistaraflokk HK/Víkings þegar liðið spilaði við Selfoss í kvöld. Bæði liðin voru ósigruð svo mikið var undir. HK/Víkingur náði undirtökunum upp úr miðjum fyrri hálfleik og leiddi með þremur mrkum í hálfleik. María kom inn á þegar um 25 mínútur lifði leiks. Hún skoraði gott mark en það var dæmt ógilt vegna hárfínnar rangstöðu. Laglegt engu að síður sem veitir aukið sjálfsöryggi í hóp með eldri stelpum.

miðvikudagur, júlí 01, 2009

Ég hef nokkrum sinnum að undanförnu verið að velta vöngum yfir slysum og óhöppum í ferðamennsku. Það liggur ljóst fyrir að þau eru alltof mörg og er ýmsu um að kenna í þeim efnum. Það getur verið ókunnugleiki, lélegar upplýsingar eða slakar merkingar, klaufaskapur, fífldirfska, vanmat á aðstæðum eða vont veður. Ég heyrði rétt fyrir skömmu að það ætti að fara að setja upp ein 10 upplýsingaskilti til að leiðbeina ferðamönnum sem aka um á hálendinu. Þau eru ekki síður ætluð fyrir erlenda ferðamann. Þótt segja megi að betra sé seint en aldrei þá getur maður einnig spurt; Því er ekki búið að þessu fyrir lifandis löngu? Hver er sýn fjárveitingavaldsins til svona hluta? Það er náttúrulega óverjandi að merkingar séu slaklegar varðandi helstu öryggisatriði. Þeir sem hafa farið um hálendið þekkja vel hve merkingar á vegum og slóðum eru oft slæmar. Merkin skökk, úr lagi gengin eða textinn máður af ef þau eru þá yfir höfuð til staðar.

Ég fór leiðina frá Hveravöllum til Hvítárness á sunnudaginn í fyrsta sinn. Sú leið er nokkuð fjölfarin. Við mættum nokkrum slæðing af göngufólki. Engu að síður er leiðin mjög illa merkt. Á Hveravöllum er vegprestur sem vísar til Þjófadala eftir vegslóða. Það er allt í lagi með að rata ef maður fylgir slóðanum. Í Þjófadölum eru svo engar merkingar um hvert á að halda þaðan. engar stikur, ekkert nema kindagötur. maður verður alltaf að horfa á svona hluti með augum þess sem ekkert veit. Ef maður er staddur í Þjófadölum í þoku þá veit maður ekkert hvert maður á að fara. Flestir hafa með sér kort verður maður að vona en sama er. Ef menn missa af slóðanum þá er ekki á góðu von. Engar merkingar eru við Hlaupin um að þar sé leið í skálann. Engar emrkingar eru við brúna yfir Fúlukvísl við Þverbrekknamúlaskála um hvert eigi að fara til Hvítárness. Þegar maður er kominn langleiðina í Hvítárnes þá skerast leiðir milli kindaslóðanna og leiðarinnar í skálann. Merkingin var spýta sem var skorið Hvítárnes sem lá á jörðinni. Sem betur fer sneri textinn upp. Engar merkingar eru við Hvítárnesskálann um leiðina til Hveravalla. Þetta er bara svona dæmi um hve laklega er staðið að þessum málum á leið sem er nokkuð fjölfarin. Í fréttum á mánudaginn heyrði maður að erlend kona hefði villst á leiðinni frá Þjófadölum til Hveravalla. Ellefu km af tólf á þeirri leið eru á vegarslóða. Það á ekki að vera hægt að villast á þessari leið. engu að síður villist fólk. Kannski vegna þess að það eru engar stikur frá skálanum upp á slóðann. Í þoku geta menn hæglega rambað ranga leið.

Maður vill nú helst ekki segja mikið um slysið á Langjökli. Það er svo svakalegt að það tekur engu tali. Þar hefur hárstrá skilið að líf og dauða. Á jökli eru aðstæður eins og voru þennan dag ekki síður hættulegar en þegar veður er verra. Sól og blíða. Þá eru menn ekki eins gætnir. Það er náttúrulega ekki í lagi að krakka sé hleypt einum út á jökulinn á vélsleða, krakka sem hvorki má keyra svona sleða né gerir sér grein fyrir aðstæðum á jökli. Hann endar svo inn á slíku dauðasprungusvæði að björgunarsveitarmennirnir þorðu ekki að hreyfa sleðann. Þeir náðu honum ekki yfir sprungurnar. Jökulsprungur eru eitt af því svakalegasta sem maður veit um. Menn geta t.d. lent svo í þeim að það náist ekki til þeirra enda þótt þeir lifi af fallið.

Það virðist aldrei taka einhverja umræðu um hvort það sé eðlilegt að björgunarsveitarménn eigi ætíð og eilíflega að vera klárir að rjúka af stað hvar og hvenær sem er fyrir ekki neitt þegar eitthvað verður að hjá einhverjum. Af hverju eru þeir sem skipuleggja fjalla- og hálendisferðir t.d. ekki skyldaðir til að kaupa sér tryggingar vegna hugsanlegra útkalla? Það gæti verið að menn skipulegðu sig öðruvísi ef sjálfsábyrgð væri nokkur í slíkum tryggingum. Svona tryggingar gera ferðina dýrari en af hverju ætti samfélagið að standa straum af hugsanlegum björgunarkostnaði. Það er ekkert ókeypis í henni veröld. Það er þó alla vega ódýrara fyrir samfélagið að hafa slíkt fyrirkomulag en að láta ræsa út tugi eða hundruð manna með tæki og tól við hvaða aðstæður sem er án þess að fá neina umbun þó ekki væri nema upp í útlagðan kostnað. Grænlendingar eru löngu hættir þessum leikaraskap. Þeir sem leggja af stað yfir Grænlandsjökul verða að hafa allar tryggingar á hreinu því Grænlendingar eru hættir að bjarga mönnum fyrir ekki neitt ofan af jöklinum.