sunnudagur, febrúar 26, 2006

Dagurinn tekinn kl. 8.30 og fyrst farinn Poweratehringurinn. Kom niður í Laugar rétt fyrir kl. 10.00 og hélt svo vestur á Eiðistorg með Gauta og Bigga. Heim var komið eftir 32 km og 2 klst 50 mín hlaup með öllum stoppum, spjöllum og drykkjarstöðvum.

Í gær stoppaði viktin í fyrsta sinn fyrir neðan 85 kg eftir áramót. Um áramótin stóð hún í 90 kg en hefur lækkað jafnt og þétt síðan. Tvö kg fóru í jan og rúm tvö hafa farið í febr. Ég þyngdist töluvert í haust og síðan skildu jólin og áramótin eftir ákveðin skilaboð. Ég ætla að reyna að vera kominn niður í um 80 kg í sumar. Með því að borða aðeins skynsamlegar, draga úr kexáti og auka grænmetisskammtinn þá hefst þetta jafnt og þétt.

María keppti í dag á seinni dag meistaramótsins. Hún fékk engin verðlaun en varð í fjórða sæti í tveimur greinum og fimmta sæti í þeirri þriðju.

Sá viðtal í Silfri Egils við strák sem hafði áhyggjur af afa sínum og ömmu sem fá ekki vistun saman á öldrunarstofnun. Hann sagði að um 200 manns væru á ungan þeim í biðröðinni, þau væri bæði þunglynd og niðurbrotin. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt að láta málefni gamlafólksins sitja svona á hakanum eins og Sólvangsumræðan sýnir þar sem eru allt að fimm manns saman í herbergi. Gamla fólkið liggur á göngum á spítölunum vegna þess að það er ekki pláss fyrir það á til þess gerðum öldrunarstofnunum. Á sama tíma vilja þeir þjóðfélagshópar sem hafa betri aðstöðu til að láta á sér bera og hafa meiri ítök í kerfinu láta skattgreiðendur borga sem mest fyrir sig. Leikskólagjöldin, mat barnanna í grunnskólanum, feðraorlof og lengra fæðingarorlof, ættleiðingar barna erlendis frá, þátttökugjöld barna í íþróttafélög og þannig mætti áfram telja. Það er alveg ljóst að ef að það á að ganga að öllum þessum kröfum þá þýðir það töluverða hækkun á skattprósentu eða þyngri skattbyrði hjá þeim sem greiða skatta til sveitarfélaganna. Það er allt í lagi að leggja þeim hendi sem á því þurfa að halda en mér finnst að þeir sem hafa efni á því að greiða fyrir sig eigi bara að gera það vegna þeirra atriða sem talin eru upp hér að framan. Maður getur séð hvernig þessi mál hafa þróast á norðurlöndunum þar sem kröfur almennings á hið opinbera hafa farið úr böndunum og allri segjast hafa rétt á að ríkið greiði þetta og hitt. Skattprósentan er orðin svo há þar að hún leggst sem lamandi hönd á atvinnulífið. Kröfur á peninga úr vösum skattgreiðenda vaxa sífellt. Fólk hérlendis sem hefur löngun til að ættleiða börn erlendis frá segist t.d. hafa rétt á greiðslum frá ríkinu því verðandi mæður fái mæðraskoðun o.s.frv. Mér þætti gaman að fá kostnaðarmat á hvað hið opinbera leggur í mikinn kostnað í gegnum skoðanir og fæðingarhjálp hjá venjulegri móður sem fæðir barn. Mér finnst að það ætti að láta málefni gamla fólksins hafa ákveðinn forgang áður en farið er að ganga í auknum mæli undir fólki með peningum skattgreiðenda sem hefur alveg nóg fyrir sig og sína.
Þar sem ég þurfti að mæta á fund kl. 11 þá var ekki um annað að ræða en taka daginn snemma. Ég lokaði því útihurðinni kl. 6.30 og lagði af stað. Tók fyrst Poweratehringinn og hélt síðan vestur á við til móts við Halldór og Pétur. Hitti þá við dælustöðina fyrir vestan flugvöllinn. Snerum við og héldum til baka. Við göngubrúna voru Einar bróðir Halldórs og Haraldur skókaupmaður mættir. Við rúlluðum af stað fyrir Kársnesið. Þegar maður hittir Harald þá er hann yfirleitt heldur niðurlútur í upphafi. Hann er nefnilega að skoða í hvernig skóm maður er í. Nú hleyp ég í skærbláum útsöluskóm sem líklega seldust ekki á upphaflegu verði vegna litarins. Púðarnir sprungu á öðrum um daginn en með því að sprauta sílekoni í þá eru þeir betri en nýir. Haraldur átti varla orð yfir þessu uppleggi. Ég kaupi mjög sjaldan hlaupaskó nema á útsölu. Þegar ég kemst á góðar útsölur kaupi ég oft nokkur pör á lager. Ég á yfirleitt tvo til fjóra kassa með nýjum skóm í bílskúrnum. Yfirleitt er ég með svona tvö til þrjú pör undir í einu og víxla á milli þeirra. Ég endurnýja þá nokkuð hratt til að hlaupa ekki á slitnum skóm sem geta valdið röngu álagi á fæturna. Þetta fyrirkomulag hefur gefist mér vel. Ég tími bara ekki að kaupa mér skó á 15 þúsund kall þegar ég get fengið þá á 6 - 8 þúsund.

Við tókum Fifubrekkuna og héldum langleiðina yfir undir Vífilsstaði. Þar sneri ég við og tók tröppurnar, HK brekkuna og Réttarholtsskólabrekkuna á leiðinni heim. Kominn heim kl. 10.00. 35 km að baki og fjórar góðar brekkur. Fjögurra stjörnu æfing.

Fór niður í Laugar eftir hádegi. María var að keppa á meistaramótinu í frjálsum. Hún stóð sig vel, varð í 2-4 sæti í hástökki og komst í úrslit í 60 m en þar kepptu nær 50 stelpur víðsvegar af landinu.

Leikhúsferð í gærkvöldi. Það er alltaf gaman að fara í leikhús og maður gerir allt of lítið af því. Við sáum "Eldhús eftir máli" á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Mér hefur sjaldan leiðst eins á leiksýningu eins og í gærkvöldi. Leikritið er óskipulegur, sundurlaus en vafalaust mjög meðvitaður samhræringur úr smásögum Svövu Jakobsdóttur og fleiri. Ég er ekki meðvitaður. Heimsóttum vinkonu okkar frá námsárunum ásamt fleirum gömlum kunningjum eftir leikhúsið og rifjuðum upp gamla tíma. Alltaf gaman að því.

Sá í fréttum að Jókó Ónó var mætt til landsins og hún hafði séð í snarhasti að það var tilvalið að byggja 12 metra háa friðarstyttu út í Viðey. Til að eyjan verði ekki eyðilögð vegna ásóknar friðarsinna þá verður einungis leyft að heimsækja styttuna í eina viku á ári. Hvað á svona bull að þýða? Friðarstytta!! Give peace a chance. Jókó Ónó er í mínum huga ekki annað en ein af milljónum listamanna sem enginn hefði munað eftir í fyllingu tímans ef hún hefði ekki verið svo heppin að Lennon hreifst af henni á sínum tíma. Hún hefur lifað á nafni hans síðan og svo minningu hans eftir að Lennon dó. Mér leiðist þegar fólk eins og hún er að blaðra um að Íslendingar séu svo sérstakir og Reykjavík alveg einstök. Makalaust hvað svona snakk kitlar eyru margra.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Endastöð við tankana, nú má snúa við!!

  Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gær. Á leiðinni heim úr vinnunni kom ég við á útsölunni í Síðumúlanum hjá Daníel og félögum. Hitti ritara allra tiltækra félaga í hlaupageiranum þar á útleið með fangið fullt af prýðilegum vörum, þar á meðal próteinduftdunkum sem seldir eru á góðum afslætti. Við tókum aðeins tal saman um próteinneyslu. Ég er búinn að nota Leppin prótein á aðra viku í hádeginu í staðinn fyrir brauð með mismiklu af misþungu áleggi. Ég blanda saman einum til tveimur banönum, mjölkurslettu og nokkrum vel völdum skeiðum af próteindufti. Mér finnst ég strax merkja verulegan mun. Maður er vel saddur en ekki eins uppþemdur og þungur eins og af brauðátinu. Kílóunum hefur einnig fækkað. Ritarinn var mér alveg sammála um reynsluna að próteinneyslunni. Þegar við skildum þá snerist hann á hæli, tók enn einn dunk af próteini og góðan Búst poka og bætti við það sem hann hafði keypt áður. Ég sló mér sömuleiðis á einn próteindunk til viðbótar við þá sem ég hafði keypt áður. Samtöl geta oft verið uppbyggjandi og leitt til niðurstöðu. Ég held þessu áfram þar til mér verður sýnt fram á annað.

Ég hef verið að velta fyrir mér auglýsingunum frá Blátt áfram, UMFÍ og fleirum um ofbeldi gagnvart börnum. Ég er efins um þær. Hvenær er umræðan gagnleg og upplýsandi og hvenær virkar hún í andhverfu sína er virkilega vandrataður línudans. Ég er t.d. alls ekki viss um að allskonar forvarnarverkefni um fíkniefni hafi endilega jákvæð áhrif. Forboðnu eplin eru ætíð spennandi í augum krakka og unglinga. Ef er sífellt verið að tala um hvað þetta og hitt sé hættulegt þá freistar það vafalaust einhverre enn frekar til að prófra. Alla vega er staða þessara mála í dag á þann veg að það er spurning um hvaða árangri umræðan hefur skilað. Hvað þessar fyrrgreindu auglýsingar varðar þá virka þær ekki vel á krakkana sem horfa á þær heima hjá mér. Það má einnig varast að mála skrattann svo kyrfilega á vegginn að hann glotti við manni úr hverju horni, hvert sem litið er.

Horfði um stund á Idolið í gærkvöldi. Krakkarnir stóðu sig flestir mjög vel en einn var þó sýnu sístur. Hann datt út. Héðan í frá verður það blóðtaka hvert kvöld því þau sem eru eftir eru hvert öðru betra.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Brekkan upp frá "Jökulheimum"

  Posted by Picasa
Bætti upp svindl miðvikudagsins og tók tvöfaldan skammt í gær . Fór fyrst út upp úr kl. 6.00 og tók miðvikudagsskammtinn og kláraði síðan daginn eftir vinnu. Veðrið var eins og best verður á kosið eins og fyrri daginn. Maður sér að knúppar á runnum og limgerði eru farnir að grænka. Esjan er að verða snjólaus. Góan aðeins nýbyrjuð. Þetta getur endað með ósköpum ef veturinn kemur með krafti. Þeir sem lengra muna eða hafa lesið Öldina okkar geta flett upp á árinu 1963 þegar hitinn féll um ein 20C á nokkrum klukkutímum í apríl, úr ca 5 stiga hita í -15C frost. Þá stórskemmdist stærstur hluti af skóglendi á Íslandi. Ég hef trú á að þeir stofnar sem eru algegnari nú séu harðgerðari en þá en sama er. Manni stendur ekki alveg á sama.

Hlustaði á fréttir RÚV í gærkvöldi þegar ég var að hlaupa. Fannst skrítið að fréttamaður sá ástæðu til að lesa upp í fréttatímanum því sem næst öll fenisatriði í málsvörn sambornings í morðmáli þar sem Hæstiréttur hafði þyngt refsingu héraðsdóms. Ég sá í fyrsta lagi ekki tilganginn með þessu, í öðru lagi var ekki hægt að kynna málsvörn hins aðilans á viðlíka hátt og í þriðja lagi var endanlegur dómur fallinn sem skar úr um hve trúverðug málsvörnin var metin. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi verið sérstaklega áhugavert fyrir aðstendendur fórnarlambsins að hlusta á þennan upplestur.

Jói og félagar í Víking spiluðu við Gróttustrákana í gærkvöldi og unnu góðan sigur. Þeir eru að byggja upp skemmtilegt lið sem vonandi tekst að halda saman á komandi tímum.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Horft niður eftir Árbæjarstokknum

  Posted by Picasa
Svindlað í gær og ekkert hlaupið þrátt fyrir afar gott veður. Kvöldið fór í annað. Fyrst var foreldrafundur hjá 4. flokki kvk Víkings þar sem var verið að ræða sumarið, væntanleg mót og aðra praktiska hluti. Síðan fórum við í kvöldkaffi til mömmu en hún fyllti 82 ár í gær. Hún er afar hress og vel á sig komin og hefur virkilega átt góð ár hér syðra eftir að þau hættu búskap fyrir vestan og fluttu í bæinn fyrir tæpum 11 árum.

Jói bróðir hennar var einnig í heimsókn en hann er 77 ára gamall. Hann kom úr skíðaferðalagi til Ítalíu um helgina en þar var hann í tvær vikur. Hann rifjaði m.a. upp þegar hann hætti að reykja fyrir tæpum 20 árum síðan og hafði þá reykt síðan hann var ungur maður. Þá var hann svo illa farinn að hann komst varla gangandi milli húsa. Hann fór í þræðingu og einhversstaðar var leitt fram hjá í æðakerfinu en uppskeran var allt annað og betra líf. Hann náði ekki fullu þreki aftur en kemst ferða sinna í rólegheitum gengur á fjöll og er mjög iðinn við að hreyfa sig. Hann segist ekki vera góður í hóp því hann verði að ráða hraðanum sjálfur en ef hann fær að halda þeim hraða sem passar honum þá kemst hann það sem hann ætlar sér. Esjan, Móskarðshnjúkarnir, Helgafell og Keilir eru árlegir áfangastaðir hjá honum hér í nágrenni borgarinnar.

Maður getur ekki annað en hugsað um svona frásagnir þegar maður sér unga krakka sem maður kannast við vera að byrja að fikta við reykingar. Hér áður var umræðan önnur og ekki eins upplýst og nú um reykingar en það er ekki hægt að skýla sér bak við það nú á dögum. Jói frændi er frekast einn af þeim heppnu að hafa þó náð sér svona á strik aftur eftir að hafa verið orðinn allt að því ósjálfbjarga áður en hann varð sextugur. Ég segi alltaf ef ég er spurður um hvort það sé ekki bilun að vera að hlaupa svo mikið sem ég og fleiri gera að það sé enn meiri bilun að reykja.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Horft af brúnni við Breiðholtsbrautina

  Posted by Picasa
Fór 8 km í gærkvöldi í léttum úða og hlýju. Lumbran sem ég fékk á mánudagsnótt var horfin veg allrar veraldrar. Sé fram á að eitt undirmarkmið febrúarmánuðar er að nást en það er að losa sig við ca tvö kíló. Það munar strax að þurfa ekki að burðast með eitthvað sem er bara að þvælast fyrir. Nokkur þurfa að fara í viðbót fram á sumar. Síðasta vika gerði nær 90 km og skilaði drjúgri innistæðu. Veðurspáin er góð eins langt og séð verður.

Setti bréf í póst í gær. Skráði mig í 100 K hlaup í Stige við Odense. Það er nauðsynlegt að hafa ákveðið handfast markmið til að stefna að. Þá byrjar andlegi undirbúningurinn af alvöru. Þrír mánuðir til stefnu. Ég á ekki von á öðru en það gangi vel upp ef ekkert kemur upp á. Eiður ætlar að koma líka. Hann klárar þetta örugglega með sóma. Ég ætla ekki að taka innan úr mér að fullu í hlaupinu heldur nota það sem lið í lengri uppbyggingu. Margt er þó hægt að læra af því að fara í svona hlaup. Til dæmis að lágmarka stoppin á drykkjarstöðvunum eins og hægt er. Þegar þær eru tuttugu talsins þá munar um hverja mínútu. Maður á bara að hella á og troða í vasana og síðan að tölta af stað. Það er nógur tími til að spjalla að hlaupi loknu. Ég er alveg viss um að ég hefði getað tekið 20 mínútur af Borgundarhólmshlaupinu á þennan hátt, en þá var ég alveg óstressaður yfir tímanum og hafði það eina markmið að ljúka hlaupinu. Tíminn skipti ekki öllu máli.

Nú fer maður að lengja helgarhlaupin og fikra sig nær 40 km. Gott að taka maraþon í mars því það er alltaf svolítið annað að hlaupa eftir klukku en að vera síns eigin herra.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Brekkan upp frá Fífunni getur tekið í.

  Posted by Picasa
Fékk meðfylgjandi bréf frá Gordy Aingsleigh um helgina. Ég er ekkert að þýða það en læt það bara fylgja hér með í óstyttri útgáfu. Mér kemur niðurstaðan ekki mjög á óvart. Jöfn og stöðug hreyfing stuðlar að betra heilbrigði. Maðurinn er upphaflega gerður til að hreyfa sig. Setur er ekki sá lífsmáti sem honum hentar.

Annars hvíldardagur í dag.

Intensive lifestyle changes may affect the progression of prostate cancer.

Ornish D, Weidner G, Fair WR, Marlin R, Pettengill EB, Raisin CJ, Dunn-Emke S, Crutchfield L, Jacobs FN, Barnard RJ, Aronson WJ, McCormac P, McKnight DJ, Fein JD, Dnistrian AM, Weinstein J, Ngo TH, Mendell NR, Carroll PR.

Department of Medicine, Preventive Medicine Research Institute, University of California-San Francisco, 94965, USA. d.ornish@pmri.org

PURPOSE: Men with prostate cancer are often advised to make changes in diet and lifestyle, although the impact of these changes has not been well documented. Therefore, we evaluated the effects of comprehensive lifestyle changes on prostate specific antigen (PSA), treatment trends and serum stimulated LNCaP cell growth in men with early, biopsy proven prostate cancer after 1 year. MATERIALS AND METHODS: Patient recruitment was limited to men who had chosen not to undergo any conventional treatment, which provided an unusual opportunity to have a nonintervention randomized control group to avoid the confounding effects of interventions such as radiation, surgery or androgen deprivation therapy. A total of 93 volunteers with serum PSA 4 to 10 ng/ml and cancer Gleason scores less than 7 were randomly assigned to an experimental group that was asked to make comprehensive lifestyle changes or to a usual care control group. RESULTS: None of the experimental group patients but 6 control patients underwent conventional treatment due to an increase in PSA and/or progression of disease on magnetic resonance imaging. PSA decreased 4% in the experimental group but increased 6% in the control group (p = 0.016). The growth of LNCaP prostate cancer cells (American Type Culture Collection, Manassas, Virginia) was inhibited almost 8 times more by serum from the experimental than from the control group (70% vs 9%, p <0.001). Changes in serum PSA and also in LNCaP cell growth were significantly associated with the degree of change in diet and lifestyle. CONCLUSIONS: Intensive lifestyle changes may affect the progression of early, low grade prostate cancer in men. Further studies and longer term followup are warranted.

HK brekkan er fín

  Posted by Picasa

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Fór út um 8.30 í morgun. Tók Poweratehringinn og hélt síðan niður í Laugardal. Þar biðu hinir síbreytilegu Vinir Gullu sem nú voru bara kallar. Héldum vestur í bæ. Við Gauti, Dofri og Biggi tókum Eiðistorgshringinn en Sigurjón hélt fyrir Gróttu. Vorum á góðri siglingu. Hittum Halldór á leiðinni en hann hafði einnig tekið daginn snemma. Alls náði dagurinn að gera 32 km. Fínn dagur í góðu veðri. Nú er ég farinn að nota prótein Daníels Smára. Gaman verður að sjá hvernig það kemur út. Ég ætla einnig að fara að nota það í hádeginu í vinnunni í stað þess að borða brauð.

Afmælsveisla Maríu til heiðurs í dag og Jóa svolítið líka. María og vinkonur hennar héldu upp á daginn með því að sigra jafnöldrur sínar í HK með 5 mörkum gegn 2. María skoraði fjögur og lagði að síðasta upp. Það var ekki laust við að maður væri pínu stoltur.

Hlustaði aðeins á Silfur Egils þegar ég kom heim. Hans Kristján Árnason var meðal ananrs að gagnrýna fyrirkomlag prófkjöra hérlendis og sagði að framkvæmdin vær eins og hjá Bananalýðveldum. Hér geta menn valsað á milli flokka og kosið í öllum þeim prófkjörum sem þeir vilja og haft þannig áhrif á hvernig raðað er á listana. Mig minnir að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi íbúar í þorpi einu úti á landi fjölmennt í öll tiltæk prófkjör tl að koma sínum mönnum eins ofarlega og hægt var, hvar í flokki sem þeir stóðu. Hans Kristján minnti á að í Englandi og Hollandi er fyrirkomulag prófkjöra þannig að þar er aðeins einn prófkjörsdagur fyrir alla flokka. Framkvæmdir er eins og við hefðbundnar kosningar. Þar með er tryggt að hver maður getur aðeins kosið einu sinni. Gott ef ég er ekki sammála Hans Kristjáni.

Enn sígur Framsókn í skoðanakönnunum. Það liggur í augum uppi að eftir því sem niðursveiflan verður dýpri því erfiðara verður að tosa hana upp aftur. Það hefur greinilega ekki dugað hjá forsætisráðherra að fara í náttfötin og stinga sér undir sæng hjá strákunum á Stöð 2. Það ætti var vera hverjum manni ljos að þarna er eitthvað mikið að og eitthvað mikið hefur klikkað. Spunameisturum hefur gjörsamlega mistekist að bæta ásýnd flokksins. Eftir umræðunni í fjölmiðlum að dæma þá virðist það helst vera talið vænlegt til árangurs að reka þingmann úr flokknum í því kjördæmi þar sem fylgið er ekki ennþá algerlega hrunið. Hver veit, kannski það sé ráðið?

Vlhjálmur lektor við HÍ og hlaupari kom með athyglisverðar fullyrðingar í Silfrinu í dag. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldi þeirra umræðu.

Víkingur sigraði Fram í deildarbikarkeppninni í kvöld 1-0. Sigur er sigur og þrjú stig eru þrjú stig.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Það var haldið af stað í morgun um 8.30 í góðu og björtu veðri. Það er farið að birta það snemma á morgnana að maður er ekki lengur í myrkri þegar lagt er af stað. Hitti Halldór og Pétur á venjulegum stað. Ákváðum að taka stífa æfingu í dag. Fórum fyrst yfir Kópavogshálsinn, yfir Kópavoginn hjá Fífunni og upp brekkuna þar fyrir handan. Pétur var tímabundinn og skyldi þar við okkur en við Halldór héldum til baka gegnum Smáralindarhverfið og tókum tröppurnar næst. Fórum niður þær aftur og tókum HK brekkuna upp á götu. Fóru síðan þvert yfir Fossvoginn og upp stíginn upp hjá Fossvogsskóla og upp að Réttó. Þaðan niður stokkinn og síðan Poweratehringinn öfugan. Fengum aukabónus þegar við tókum brekkuna upp að Breiðholtinu sem leið liggur frá stíflunni. Langt síðan ég hef tekið hana. Stoppuðum aðeins í Árbæjarlauginni og fylltum á en fórum niður sem leið liggur í Elliðaárdal og þar næst upp Árbæjarstokkinn upp að götu. Þá snerum við við og slepptum Jökulheimum og tönkunum því við vorum orðnir frekar tímabundnir. Vorum mjög léttir og tókum t.d. lokabrekkuna efst á Árbæjarstokknum á innan við 5.30. Dagurinn gerði rúmlega 31 hjá mér og Halldór kláraði um 36. Alvöruæfing. Maður finnur vel hvað þetta skilar sér vel í styrkleikauppbyggingu.

Fór að nota próteinið sem ég keypti hjá Daníel Smára á góðum prís. Ætla að auka próteinneysluna á næstu mánuðum hef trú á að maður vanmeti jafnvel þörfina fyrir það þegar æfingaálag er mikið.

María hélt upp á afmælið sitt í dag með vinkonupartíi enda þótt afmælisdagurinn sé á morgun. Stelpurnar sem voru svo litlar fyrir nokkrum árum eru að verða hálffullorðnar. Tíminn líður hratt.

Ég verð að segja það að ég kann betur við Silvíu Nótt sem singer heldur en TVstjörnu. Lögin sem kepptu í kvöld voru ekki til vinsælda fallin vel flest. Horfði á Idolið endursýnt í dag. Ég tek undir það sem maður hefur heyrt að það er harla skrítið að sjá þá sem eiga að vera á toppnum vera að berjast í neðstu þremur sætunum. Vafalaust er hægt að slá einhvern vörð um sitt fólk með því að peðra inn atkvæðum en er einhverjum gerður greiði með því. Margir þeirra sem eru í hópnum sem er eftir eru góðir söngvarar og hafa fína sviðsframkomu en aðrir eru síðri eins og gengur.
Það er stundum gott að hafa föstudagana frjálsa því þá er stundum tækifæri að gera eitthvað annað en hið hefðbundna. Í gær var einn slíkra daga. Eftir vinnu var farið í afmæli austur á Eyrarbakka. Inga Lára, kona Magnúsar Karels vinnufélaga míns hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í íþróttahúsinu á Bakkanum. Afmælisbarnið hafði arrangerað rútuferðum úr bænum þannig að þetta var eins þægilegt og hægt var að hugsa sér. Rútan fylltist þó stór væri þannig að það þurfti að kalla aðra út. Fyrir austan hitti ég meðal annars Þór Vigfússon fyrrverandi skólameistara og draugaáhugamann auk þess að vera snöfurlegur hlaupari. Þór sá ég fyrst árið 1982 þegar Gunnar heitinn Össurarson hélt upp á afmælið sitt í Fagrahvamminum fyrir vestan eitt gott júlíkvöld. Þá dreif að margra vini Gunnars. Fyrir utan að vera mikill húsasmiður og góður félagi þá var Gunnars meðal annars minnst fyrir það að hafa átt Willysjeppann sem gjallarhorninu var stillt upp á í slagnum á Austurvelli árið 1949. Þegar Gunnar hélt upp á afmælið sitt var Þór að vinna vestur á Hellissandi. Hann vildi gleðjast með vini sínum á afmæli hans og stökk því á bak gömlu gíralausu hjóli sem hann átti og hjólaði inn í Stykkishólm, tók Baldur yfir Breiðafjörðinn og hjólaði þaðan út í Fagrahvamm. Eftir lok veislunnar hjólaði hann daginn eftir sömu leið til baka. Þetta eru ca 240 km.

Þór sagði mér að nú yrðu tímamót í lífi hans á komandi vori ef allt gegni eftir sem ætlað væri. Hann ætaði að halda upp á sjötíu ára afmælið sitt með því að hlaupa sitt fyrsta maraþon á Mývatni. Þetta er almennilegur maður.

Einnig sagði hann mér annað og meira. Hinn eini sanni Jón hlaupari stefnir að því þann sama dag að setja heimsmet í maraþonhlaupi í flokknum 80 ára og eldri. Það er ekkert annað. Þór fullyrti að kallinn stæði klár að þessu ef ekkert óvænt kæmi upp á. Manni flýgur í hug hvort blaðamannaskriflunum sem keppast um að segja fréttir af skíðamönnum sem "komast niður brekkurnar" á yfirstandandi ólympíuleikum og eru á stundum einu til tveimur sætum fyrir framan þann síðasta sem kemst alla leið, finnist þetta vera fréttnæmt. Ég er ekki viss. Fjöldaíþróttir eins og almenningshlaup hafa sjaldnast átt upp á pallborðið hjá þeim. Manni dettur t.d. í hug fréttaflutningur af Reykjavíkurmaraþoni. Þetta er stærsti íþróttaviðburður landsins á hverju ári. Í sumar tóku yfir 4000 manns þátt í því. Frá hverju var sagt. Jú það voru birtar myndir af tveimur sænskum bræðrum sem voru fyrstir en síðan ekki söguna meir. Ég held að þeir sem skrifa fréttir af þessum viðburði horfi með blinda auganu á það sem er virkilega fréttnæmt í tengslum við svona atburði sem er þetta venjulega fólk sem er að vinna sína stóru prívat sigra með því að fara að skokka s.s. komast yfir sjúkdóma, offitu, reykingarfíkn og þannig mætti áfram telja.

Í veislunni hitti ég líka konu sem ég hef ekki séð í 26 ár en við fórum saman ásamt góðum hópi fólks til Kúpu í desember 1979 og vorum þar í einn mánuð. Það voru góðir dagar sem við áttum þar. Þessi ferð breytti mörgu í lífshlaupinu og varð á margan hátt upphaf að algerum kaflaskilum. Tilviljun ein réð því að ég fór í þessa ferð en ég rakst á auglýsinu um hana í húsi í Borgarfirði þar sem ég var gestkomandi. Slíkar tilviljanir hafa á margan hátt oft legið til grundvallar þeim beygjum sem maður hefur tekið í gegnum tíðina og hafa sem betur fer oft verið teknar í rétta átt þegar til baka er litið.

Krakkarnir sögðu mér að rauðhærða stúlkan hefði dottið út úr Idolinu í gær. Mér fannst hún vera ein af þremur bestu keppendunum. Shit.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Tröppurnar, 220 talsins, taka í ef hratt er farið.

  Posted by Picasa
Á aðalfundi UMFR36 var tekin létt upphitun um stund áður en formleg fundarstörf hófust eins og sæmir reyndum hlaupurum. Upphitunin fólst í að segja skemmtisögur. Einhverra hluta vegna áttu margar þeirra uppruna sinn í Reykjafjarðarhreppi hinum forna í Inndjúpi. Ástæða þess gæti verið sú að ritari félagsins er uppalinn í þeim ágæta hreppi. Svo var að sóknarpresturinn Baldur í Vatnsfirði kom fyrir í mörgum þeim sögum sem sagðar voru. Flestar þeirra sagna sem sagðar voru sem eru best geymdar í mæltu máli en eina er þó hægt að festa á blað. Jörundur stórsócialisti sagðist einu sinni hafa verið á ferð um Djúpið með tveimur vinum sínum og stórvinum séra Baldurs. Töldu þeir allir þrír sig eiga pólitískt sálufélag við Vatnsfjarðarklerk og fannst upplagt að heimsækja hann í þessari ferð sinni þar vestra. Ekki skemmdi fyrir að þeir höfðu haft af því pata að messað skyldi í Vatnsfirði þennan sama dag og hugðust því slá tvær flugur í einu höggi, njóta blessunar prests við messuhald og herða upp á pólitískum burðarskrúfum í kirkjukaffi á eftir. Þegar þeir komu heim að Vatnsfirði á þeim tíma sem messa skyldi vera að hefjast þótti þeim heldur skrítið að engin mannaferð var sýnileg á staðnum, engir bílar kirkjugesta við kirkjuvegg né nokkuð annað sem minnti á messuhald. Þeir gengu heim að húsi prests og knúðu dyra. Lengi vel svaraði enginn en eftir endurtekið bank opnaðist gluggi á efri hæð hússins og prestur stakk út höfði sínu og spurði ómjúkum rómi hverju hark þetta sætti við aðaldyr húss síns. Þeir litu upp, köstuðu kunningjakveðju á klerk og spurðu hvort ekki væri fyrirhuguð messugjörð í Vatnsfirði þennan dag. "Nei", urraði prestur, "það var messufall", skellti síðan aftur glugganum og lét ekki sjá sig meir.

Fuglaflensuumræðan heltekur alla fréttatíma. maður veit ekki sitt rjúkandi ráð í þessu. Menn í geimferðabúningum eru að tína saman dauða svani og her fréttamanna og ljósmyndara fylgist með hverjum og einum. Er Svarti Dauði á leiðinni? Svo mætti halda. Spurningin er sú hvort það verði 50 milljónir eða 100 milljónir sem farast samkvæmt fréttum. Það er voðalega erfitt að höndla þessa umræðu. Síðan les maður frétt í dönsku blöðunum í morgun þar sem Steffen Giismann frá Statens Serum Institut segir að sjúkdómurinn sé fyrst og fremst áhugaverður fyrir sérfræðinga í fuglasjúkdómum og alifuglabændur sem geta orðið fyrir skaða ef hann berst í búin. Hann segir að þegar kemur slæm flensa til Danmerkur annað eða þriðja hvert ár þá deyja 1000 til 2000 manns úr henni. Sérstaklega er það eldra fólk sem er veilt fyrir slæmri flesnu. Í því ljósi eigum við að líta á hættuna að fuglaflensunni segir Steffen. Hann segir að venjuleg flensa sé hættulegri en fuglaflensa. Hún sé ekki hættuleg venjulegu fólki. Smit getur verið mun algengara í fuglum en menn vita og dánartíðnin því verið mjög lítil. Steffen segir að það séu margir hlutir sem séu hættulegri fyrir venjulegan Dana en fuglaflensan. Það er hættulegra að ganga yfir götu. Það er meiri hætta að stunda kynlíf án varna með ókunnugum vegna kynsjúkdómahættu og hættu á HIV smiti. Undir þetta tekur Peter Skinh¢j, yfirmaður farsóttardeildar á Ríkisspítalanum í Danmörku. Það er einungis við mjög sérstakar aðstæður sem fólk hefur smitast af fuglaflensu. Hann tekur sem dæmi að maður þurfi allt að því að nudda sig allan með dauðri önd til að eiga á hættu að smitast. Minna má á að börnin í Tyrklandi sem létust af fuglaflensu höfðu notað hausa af dauðum fuglum sem leikföng. Ég veit ekki til að slík leikföng séu mjög algeng hér um slóðir.
Fuglaflensa hefur verið þekkt síðan um 1880 og hefur verið greind í 15 stofnum. Þessi sem hefur verið nefnd H5N1 er sú eina sem getur verið mönnum hættuleg.

Dreinfing hf fyrirhugar að ráða 10 pólverja í útburð blaða samkvæmt fréttum. Gaman væri að vita á hvaða kjörum þeir eru ráðnir. Með tilvísun í hvaða kjarasamning verður starfssamningur gerður við þá. Í þau rúmu þrjú ár sem ég hef fylgst með málefnum blaðbera hafa forstandsmenn Dreifingar Fréttablaðsins ekki getað nógsamlega lýst yfir vilja sínum til að ganga frá formlegum kjarasamning um störf blaðbera. Viðræður þeirra við VR hafa staðið yfir á annað ár. Einhverra hluta vegna hefur ekkert gerst. Ég er hræddur um að ef um væri að ræða starfsmenn við Kárahnjúka eða starfsmenn einhverrar starfsmannaleigunnar þá hefðu aðgerðir hafist fyrir margt löngu að hálfu til þess bærra aðila.

Það var hlaupið í gærkvöldi. Það var ekki eins kalt og ég hélt og ekki heldur eins hvasst. Fínt kvöld.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Hringur tekinn í kvöld. Hélt að það væri bæði kallt og hvasst og bjó mig því betur en venjulega. Veðrið reyndist síðan harla gott svo kvöldið var fínt.

Fór í dag á útsölu til Smára í Síðumúlanum. Keypti slatta af Leppinvörum á fínu verði. Bæði Recovery, Boost og Prótein. Ég held að próteinið sé vanmetið þegar lögð er löng leið undir fót.

UMFR36 hélt aðalfund í kvöld. Fundað var á Aski á Suðurlandsbraut og var fyrst borðaður léttur kvöldverður. Tveir nýjir meðlimir bættust við á síðasta ári, Jörundur og Stefán Örn. Farið var yfir afrek félagsmanna á árinu. Pétur Reimarsson hljóp sjö maraþon á síðasta ári og Pétur Valdimarsson sex talsins. Báðir hlupu í mörgum löndum. Fjórir hlupu ultramaraþon á árinu. Við ræddum hlaupaáform á árinu. Það er ýmislegt á döfinni, maraþon verða þreytt svo og Laugavegurinn. Gísli ætlar að komast á stórhlauparaskrána, Stefán Örn ætlar í fjallamaraþon á Grænlandi og Eiður og Jói fara til Suður Afríku í Two Oceans hlaupið svo dæmi séu nefnd. Við Eiður erum ákveðnir í að fara til Danmerkur í maí að þreyta 100 k, Halldór Guðmundsson er að hugsa málið svo og Jósep. Það er sem sagt margt á döfinni.
Við ræddum um að halda sex tíma hlaup þegar líða fer á árið. Heppileg dagsetning var talin mitt á milli Reykavíkurmaraþons og Haustmaraþons eða seint í september. Ákveðið var að nota Nauthólsbrautina, það er góð leið þar sem hægt er að komast af með lágmarksmannskap við framkvæmd hlaupsins. Sex tíma hlaup fer þannig fram að keppendur hlaupa í nákvæmlega sex klukkutíma og að þeim tíma liðnum er mælt hvað keppendur hafa hlaupið langa vegalengd. Sá vinnur sem hleypur lengst. Þetta er ágæt byrjun en einnig eru þreytt 12 tíma hlaup og 24 tíma hlaup á þennan hátt. Einhversstaðar þarf að byrja. Ég þarf að hafa samband við ÍSÍ og fara yfir hvernig þarf að standa að þessu til að fá tímann staðfestan sem íslandsmet þar sem þetta verður í fyrsta sinn sem hlaup af þessari tegund verður þreytt hérlendis. Fundi lauk um kl. 21.00.

Víkingur vann ÍBV í handbolta í kvöld. Gott hjá þeim þar sem liðið er ungt og gangurinn hefur ekki verið of góður í vetur.

Veitt í nágrenni Blönduóss

 
 Posted by Picasa
Hverfishringurinn í gærkvöldi. Veður og aðstæður allar eins og best verður á kosið um miðjan febrúar. Planið heldur.

Heyrði óvanalega skynsamlegar umræður um vændi í útvarpinu í eftirmiðdaginn. Umræðuefnið var frumvarp dómsmálaráðherra. Viðmælandinn sem hafði unnið með málið (veit ekki hvað hún heitir) lýsti meðal annars þeirri skoðun sinni að vændi ætti ekki að vera refsivert per ce. Auðvitað. Hvaða miðaldapúrítanahugsunarháttur er það að það sé saknæmt ef einhver (karl eða kona) selur sig? Meðan einstaklingurinn ákveður þetta sjálfur er það þeim í sjálfsvald sett. Það er nauðungin sem er refsiverð, þ.e.a.s. ef einhver neyðir aðra manneskju til að stunda vændi gegn vilja sínum. Það má vel vera að einhverjir þeirra sem stunda vændu þurfi á aðstoð samfélagsins að halda til að losna út úr ákveðnum vítahring og gott og vel með það en að verknaðurinn sé saknæmur sem slíkur er bara vitleysa. Annað sem þessi kona kom inn á var að hún mælti ekki með því að fara sænsku leiðina og banna vændi. Sænskar yfirstéttarkerlingar héldu að þær hefðu þarna fundið upp patent lausn (að sögn Petru Östergren) sem þær síðan gætu farið með út í heim og sagt: Vi er bäst i världen en gång till!! Sænska aðferðin hefur ekki leyst neinn vanda en frekar gert stöðuna verri ef eitthvað er. Vændið í Svíþjóð er komið inn á netið og inn í hús en hefur minnkað á götunum. Þetta er kallað að sópa vandamálum undir teppið. Bæði Danir og Norðmenn hafa lagst yfir þessa aðferðafræði og hafnað henni. Hérlendis tóku ýmsir úr feministaarminum henni opnum örmum og hömruðu á að þetta væri leiðin. Sem betur fer virðist skynsemin hafa náð yfirhöndinni. Menn geta alveg eins bannað fátækt með lögum.

Fór á þorrablót í Breiðagerðisskóla í eftirmiðdaginn en það var haldið fyrir nemendur 7unda bekkjar sem eru að kveðja skólann í vor. Þetta er árviss viðburður og er vel að þessu staðið hjá skólanum. Krakkarnir tóku þorramatnum sem nokkurskonar áskorun eða ógeðisdrykk sem væri manndómur í að prufa og smakka.

Að ári verða þessir krakkar komnir í Réttarholtsskóla þar sem meiri fullorðinsbragur er á hlutunum. Við foreldrarnir spjölluðum m.a. um framtíðina hjá þessum aldurshóp en einnig hjá þeim sem eldri eru orðin. Sumir okkar eiga börn sem eru að ljúka grunnskólanámi en aðrir eiga krakka sem eru nýbyrjuð í menntaskóla. Hjá mörgum nemendum er mikill metnaður í að standa sig vel á samræmdu prófunum til að geta valið um menntaskóla. Það skiptir miklu máli í mörgu tilliti. Ég hef persónulega mjög góða reynslu af MR í gegnum strákana, bæði námslega og félagslega. Það er góður agi í skólanum og metnaðarfullur mórall meðal krakkanna. Þau fara flest í skólann með ákveðin markmið. Stjórnendur skólans hafa einnig lagt mikið upp úr því að styrkja hann móralskt á ýmsan hátt. Enda þótt ég þekki hann best af einföldum ástæðum þá er vafalaust mjög víða annarsstaðar unnið afar gott starf í framhaldsskólum. Mórallinn er þó misjafn milli skóla eftir því sem manni heyrist á krökkunum. Það er t.d. vafalaust ekkert skemmtilegt fyrir skólastjórnendur að þurfa að horfast í augu við það að það sé ekki hægt að halda skólaböll og neyðast til að banna þau heilt skólaár vegna skrílsláta. Manni hnykkir einnig við þegar maður heyrir sagt frá því að til séu dæmi um nýnemapartí í menntaskólum þar sem ekki er haft neitt áfengi um hönd heldur einungis annað og verra.

Sá mynd á Stöð tvö í fyrradag. Þetta var nokkursskonar "Allt í drasli" þáttur nema þarna var mataræðið tekið fyrir. Þetta var því "Allt í draslfæði" þáttur. Myndin fjallaði um bandaríska konu sem var um 160 á hæð og vóg 113 kíló. Hún lifði einvörðungu á keyptum fastfood réttum og át mikið af þeim. Ástæðan sem hún gaf upp með þessum fastfood kaupum var að með því að sleppa að elda gæti hún haft meiri tíma með dóttur sinni. Stelpan var á góðri leið með að verða jafnfeit og mamman. Næringarráðgjafi tók hana fyrir og setti upp ákveðið prógram. Í tvo mánuði skyldi hún borða heilnæman mat, grænmeti, ávexti, kjöt og fisk en sleppa draslinu, frönskunum, sósunum, hamborgurunum, sælgætinu og hvað þetta hét nú allt saman. Í byrjun þurfti að kenna henni hvað ákveðnir ávextir og grænmeti hétu því hún þekkti það ekki. Á suma ávextina var nafnið skrifað í upphafi. Það var ótrúleg breyting sem sást á aumingja konunni eftir tvo mánuði. Í stað þess að vera rauðsprengd í framan eins og hún væri að springa var hún orðin slétt með glansandi húð, 13 kíló voru fokin og lífsgleðin komin. Henni datt ekki í hug að snúa aftur að dollu og pokafæðinu heldur sagðist hún vera komin á beinu brautina og baráttan við kílóin hafin af fullum krafti.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Hópreið í Húnaþingi

 
 Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gær þar sem hvílt var samkvæmt planinu. Veðrið var hins vegar afar gott og kjörið fyrir útiveru.

Sá nýlega grein um Badwater sem ég þýddi lungann úr að gamni og til fróðleiks. Hún fylgir hér á eftir.

Badwater ultra maraþon er ekki bara eitt af þessum mörgu hlaupum sem eru miserfið. Það er ekki bara að skrá sig á þátttakendalista til að taka þátt í hlaupinu. Þátttakendur verða að standast strangar kröfur til að fá að taka þátt í hlaupinu. Sérstök nefnd velur þá sem fá að taka þátt í hlaupinu. Þann 15. febrúar er birtur listi yfir 80 hlaupara sem verður heimilt að taka þátt í hlaupinu. Síðan er tíu aðilum boðið til hlaupsins eftir sérstökum viðmiðunum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur frá 12 þjóðum taki þátt í hlaupinu í ár. Af mörgum er Badwater talið eitt af erfiðustu hlaupum heims. Hlaupið hefst við Badwater 85 metra undir sjávarmáli og endar við Mt. Whitney Portals 2533 m. yfir sjávarmáli. Fara þarf yfir þrjú fjöll á leiðinni og hitastigið í Dead Valley fer iðulega upp í 50 gráður á Celsíus. Uppi á fjöllunum er frost. Sextíu og þrjár mílur af leiðinni er flöt eyðimörk, fjörutíu og sex mílur liggja upp á við og tuttugu mílur liggja niður á við. Á árunum 1974 - 1986 voru skráðar 70 formlegar tilraunir til að fara þessa leið. Aðeins fjórum aðilum tókst ætlunarverkið. Sá fyrsti sem lauk hlaupinu hét Al Arnold sem lauk því í þriðju tilraun á 84 klst. Í fyrstu tilraun sinni leið hann útaf eftir aðeins 18 mílur. Eftir þá tilraun hóf ann æfingar í gufubaði þar sem hann kom fyrir hjóli og æfði sig daglega þar. Þar til viðbótar hljóp hann fjórum sinnum í viku í erfiðu landslagi samtals um 80 - 90 mílur eða um 130 - 140 km. Metið var því næst bætt niður í 56.33 af Max Telford frá Nýja Sjálandi. Árið 1986 var fyrsta formlega keppnin skipulögð. Tuttugu og tveir hófu hlaupið en það þurfti að aflýsa því út að ágreiningu um tryggingamál varðandi fylgdarlið. Tveir hlauparar ákváðu engu að síður að reyna að ljúka hlaupinu og tókst það á 70 klst. 22 mín. Árið eftir var fyrsta formlega Badwater hlaupið haldið og voru fimm keppendur skráðir til leiks. Viku áður hafði fyrsta konan, Linda Elam, lokið hlaupinu.
Cornell vann fyrsta formlega hlaupið á tímanum 45 klst. 15 mín. Besti tími konu í þessu hlaupi var skráður 52.15. Lakasti tíminn sem skráður hefur verið náðist í fyrsta hlaupinu þegar Crutshlow nokkur lauk því á 126 klst og 30 mín. Nú hefur fagmennska vaxið og lagðir miklu meiri fjármunir í þetta en var gert áður. Hlauparar geta t.d. baðað sig í ísvatni sem er komið fyrir í húsbílum sem fylgja þeim. Orkunotkun er reiknuð út fyrir fram og mataræði stillt upp eftir því. Með hliðsjón af fyrrgreindu má enn betur sjá hvílíkt afrek það var hjá Scott Jurek að setja brautarmet í Badwater sl. sumar á um 24 klst. Monica Schulz lauk hlaupinu á um 38 klst, en hún hefur hlaupið það á undir 30 klst.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Við Tjörnina

 
 Posted by Picasa
Fór út fyrir 6.30 á sunnudagsmorgun og tók Eiðistorgshringinn. Gott veður var lengst af en fór að hvessa undir það síðasta. Fyrirhugað var að fara til Vestmannaeyja með 3ja flokk Víkings í handboltanum og því var dagurinn tekinn snemma. Fljótlega kom hins vegar í ljós að ófært var frá Bakkaflugvelli svo ferðinni var frestað.

Dagurinn leið hjá án stærri tíðinda. Fór niður í vinnu og gerði klárt fyrir fund á mánudeginum auk annarra smáverka. Horfði á seinni hluta Bítlabæjarmyndarinnar í sjónvarpinu um kvöldið. Gaman að rifja þetta upp með viðtölum og myndum. Rúnar Júl. stendur náttúrulega upp úr sem aðalmaðurinn. Gaman að sjá hvað hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir að hafa siglt með Halastjórnunni í nokkur ár til að hafa fyrir salti í grautinn. Ég hef einu sinni hitt Rúnar. Það var þegar ég ásamt fleirum fórum til Rússlands að vinna fyrir rúmum tíu árum. Þá hringdi ég í nokkrar plötuútgáfur til að fá gefins diska með til að hafa með austur. Erindinu var yfirleitt tekið vel og Rúnar gerði sér meir að segja ferð upp á Keflavíkurvöll með slatta af diskum í poka og gaf okkur þegar við vorum að leggja af stað til Rússlands. Þetta var vel þegið en ég er ekki að segja að "Stolt siglir fleyið mitt" hafi slegið í gegn þar eystra. Það var frekar að Jet Black Joe hafi fallið í góðan jarðveg meðal þarlendra.

Fór í gærkvöldi með Jóa að sjá annan gamlan garp á breiða tjaldinu, sjálfan Johnny Cash. Myndin var þrælfín eins og umsagnir hafa gefið til kynna. Sagan í kringum manninn steinliggur á tjaldinu. Johnny Cash og June Carter eru eins og endurfædd í myndinni, meir að segja raddirnar hljóma eins og þær gerðu orginal. Ég man eftir því þegar fangelsisplatan kom út fannst manni hún ágæt en einhvern vegin féll músíkin ekki í kramið á tímum Led Zeppelin og Deep Purple þannig að kallinn féll hálfvegis í gleymsku hjá manni. Fyrir ekki mörgum árum síðan fór ég að hlusta á hann aftur og að var ekki að sökum að spyrja, þetta hitti beint í mark. Ég hef keypt mér allt sem ég hef getað náð í með honum og þar er hver platan annarri betri. Hann er sögumaður með afbrigðum og röddin er einstök. "Because you are mine, I walk the line"; Er hægt að segja meiningu sína betur í fáum orðum? Mæli með myndinni.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

laugardagur, febrúar 11, 2006

Fór út um kl. 8 í morgun og tók stífluhringinn áður en ég hitti Halldór og Pétur vestur við göngubrúna. Við fórum fyrir Kársnesið eins og venjulega en við Fífuna skildu leiðir. Pétur var hálf slappur og tók stutt en við Halldór héldum suður að Vífilsstöðum og fórum þaðan upp á Vatnsendahæðina. Langa brekkan upp að Vífilsstöðum var ekki eins erfið og í fyrra. Hraðinn var 5.50 mín/km upp bröttustu brekkuna á móti rúmum 6 í fyrra og púlsinn rúmlega 160. Vatnsendahverfið hefur gjörbreyst frá því í fyrra, mörg ný hús risin og önnur í byggingu. Einhvern vegin heillar hverfið mig ekki, það er kaldara þarna á veturna en neðar og einnig gæti ég trúað því að þarna sé vindasamt. En alla vega var gaman að hlaupa þarna í gegn í góðu veðri í morgunsárið. Þegar við komum inn á Poweratebrautina tókum við vel á og vorum bara hálf hissa á hvað rennslið var gott eftir hátt í 30 km. Bættum í flöskurnar í lauginni og runnum greitt sem leið lá niður á við. Dagurinn gerði 30 km með góðu brekkuívafi. Fínn dagur.

Víkingur vann Þrótt 3 - 0 í Egilshöllinni seinnipartinn og er kominn í úrslit í Reykjavíkurmótinu. Gaman að sjá hvað Magnús og Stjáni eru að bræða hópinn vel saman. Það er farin að myndast smá spenna fyrir sumarið.

Horfði á Eurovisionlögin í kvöld. Skelfingarmeðalmoð er þetta. Það eru ekki nema rétt örfá lög sem eiga eitthvað erindi í svona úrslitakeppni. Til þess að ná þangað verða þau að vera hrífandi og skilja sitthvað smá eftir, alla vega grípandi laglínu. Fæst gera það.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Tók 8 km fyrir kvöldmat í afar góðu hlaupaveðri.

Langt síðan ég hef heyrt eins gott og skorinort erindi eins og Egill Helgason flutti á Stöð 2 í kvöld. Hann hraunaði yfir feministafastistana sem sjá fátt verra en Bandaríkin og hvíta karlmenn. Síðan geta þær verið, eins og Egill lýsti því, fullar af skilningi og umburðarlyndi á miðaldasjónarmiðum og kvennakúgurum í Austurlöndum nær. Framferði karlmanna í Arabalöndunum er réttlætt með því að það sé annar menningarheimur og það verði að sýna þeim fullt umburðarlyndi og kurteisi. Skiptir ekki máli þótt þarlendir neiti að taka í höndina á kvenfólki sökum þess að það sé óæðra en karlar að þeirra mati. Dogs and woman not allowded stendur þar í verslunardyrum. Umburðarlyndið og skilningurinn hjá þessu liði á framferði arabakarla helgast af bandaríkjafóbíu þeirra. Arabískir karlar hata Bandaríkin og það gerir feministaöfgaliðið einnig.

Ég hef lengi látið í ljós andúð mína á málflutningi öfgasinnaðra feminista. Sú skoðun mín mun ekki breytast. Mér til ánægju heyrir maður æ oftar að venjulegu fólki er farið að ofbjóða í æ ríkari mæli yfirgangurinn og öfgarnir í þeim og mannfyrirlitningin sem birtist í ýmsum myndum. Einu sinni man ég eftir því að ein þingkonan fullyrti að 25% karlmanna væru nauðgarar. Erlendar rannsóknir hefðu sýnt það og sannað. Henni vafðist tunga um tönn þegar fréttamaðurinn spurði hver karlanna í þingfloknum félli undir þessa smekklegu skilgreiningu.
Ég endurtek þakkir til Egils Helgasonar fyrir uppbyggilegan pistil.

Bjargtangar

 
 Posted by Picasa
Fór hverfishringinn í gærkvöldi. Milt og gott veður en aðeins hálka vegna þess að frysti með jörðinni.

Ég hef sett inn undanfarna daga nokkrar myndir frá því að ég var á sjó fyrir vestan fyrir rúmum aldarfjórðungi. Tíminn líður giska hratt. Sölutúriunn til Grimsby var mín síðasta sjóferð. Um haustið fór ég í skóla til Svíþjóðar og rest is history. Það er gaman að rifja upp þessa daga en ekki eins ánægjulegt að rifja upp ýmislegt sem hefur breyst á þeim árum sem liðin eru. Árið 1980 voru 12 stórir vertíðarbátar á Ratró og einn togari. Nú eru líklega um 4 stórir bátar þar, nokkrir hraðfiskibátar en enginn togari. Á þessum árum bjuggu nær 1100 manns á Patró en nú búa þar um 700 manns. Í Vesturbyggð búa nú um 1000 manns og fækkunin frá þeim tíma sem ég var að rifja upp með þessum gömlu myndum er eins og Bíldudalur, Rauðasandshreppurinn og Barðaströndin hafi öll tæmst.

Ég hef verið að skoða undanfarið þróun mismunandi aldurshópa í svetiarfélögum landsins á á árunum 1995 - 2005. Í þeim sveitarfélögum þar sem íbúum hefur fækkað er það nær undantekningarlaust að ungafólkinu, börnum á leikskólaaldri og grunnskólaaldri hefur fækkað hlutfallslega mun meir en sem nemur fólksfækkun í samfélaginu. Í sumum þokkalega stórum sveitarfélögum er einungis rúmur helmingur barna á grunnskólaaldri nú miðað við þann fjölda sem var í þeim árið 1995. Tíu ár er ekki langur tími. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvernig staðan verður eftir næstu tíu ár. Sumir spá því að við höfum gengið í Evrópusambandið innan níu ára. Ég deili ekki þeim spádómum.

Á hinn bóginn spái ég því að þróunin verði þannig í sumum héröðum landsins að fólksfækkunin verði orðin það mikil í einhverjum sveitarfélögum eða sveitarfélagahlutum að óbreytttu að málum þar verði ekki bjargað. Það spyrja vafalaust einhverjir, skiptir það einhverju máli? Fóru ekki Hornstrandir í eyði, Flatey á Breiðafirði og aðrar breiðfirskar eyjar, Flatey á Skjálfanda, Fjörður, vestasti hluti Austur Barð, Sléttan að miklu leyti, Djúpið orðið afar fámennt og þannnig mætti áfram telja. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að hafa verið landfræðilega afskekktir og erfiðir til búsetu. En þróunin stoppar ekki þar að óbreyttu. Við þær gríðarlegu breytingar sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu öllu á undanförnum áratugum og ekki síst í frumframleiðslugreinunum þá lætur eitthvað undan sem áður var talið sterkt. Kröfur íbúanna og viðhorf hafa einnig breyst. Þegar maður vann í frystihúsinu fyrir vestan hér áður þá var það lélegur dagur ef ekki var unnið til kl. 19.00. Það var léleg vika ef ekki var unnið á laugardögum og toppurinn var ef unnið var líka á sunnudögum. Þetta þýddi vart að bjóða venjulegu fólki í dag. Það er hins vegar spurningin hvar á viðspyrnan að vera og hvernig á hún að vera. Áður voru það fyrst og fremst minni sveitarfélögin sem kveinkuðu sér undan tilfærslum á fiskveiðiheimildum. Nú er farið að banka á dyrnar hjá Akureyri og Akranesi. Það liggur vitaskuld fyrir að það er mjög erfitt að innleiða nýja atvinnuhætti hjá samfélögum sem fyrst og fremst hafa byggt tilveru sína á auðlindum hafsins. Dæmin sýna þó að það er ýmislegt hægt. Vestur í Tálknafirði er hafin tilraun með að selja erlendum ferðamönnum aðgengi að kvótanum í gegum sjóstangaveiði. Undirtektir hafa farið fram úr björtustu vonum. Vafalaust er eitt og annað hægt ef frískar hugmyndir eru til staðar, vel er að málum staðið og einhverjir aurar eru til að vinna þróunarvinnu og láta markaðinn vita af sér.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Komið tilbaka til Patreksfjarðar í maílok 1980.

 
 Posted by Picasa
Hljóp ekkert í gærkvöldi eins og planið hafði hljóðað upp á. Bæði kallaði kuldinn mig ekki út en annað var sem enn frekar hélt mér inni en það var bókin Afturelding. Ég hélt áfram að lesa hana svona seinni part kvöldsins og gat bara ekki hætt fyrr en síðustu blaðsíðu hafði verið flett. Viktor hefur tekist að senda frá sér fínan reyfara sem hefur í sér allan pakkann, drama, svik, flækjur og hræri úr þessi hina bestu spennusúpu. Hátíðasúpu. Enda þótt manni finnist Dalirnir eða Bláfjöllin ekki vara svo sem daglegur vettvangur fyrir svona atburði þá flæðir sagan áfram á mjög trúverðugan hátt. Mæli með henni.

Verður Ísland komið í Evrópusambandið eftir níu ár? Ég held ekki. Hvað kallar á það? Ekkert það ég held eins og staða lands og þjóðar er í dag. Innan Evrópusambandsins eru samankomin flest fátækustu ríki Evrópu. Það verður gríðarlegt verk á næstu áratugum að byggja þau upp og jafna efnahagskerfi þessara landfa þannig að hægt verði að tala um eina samfella heild. Það verður ekkert áhlaupaverk. Ég held að menn ættu að hugsa sig um tvisvar áður en það skerf verður stigið í átt til inngöngu í EU. Hvert er markmiðið, hver er tilgangurinn, hver er ávinningurinn, hver er fórnarkostnaðurinn? Þetta eru lykilspurningar sem verður að svara áður en hægt er að fara að takast á við spurninguna; Skal - skal ekki. Það er spurningin.

Las í gær blogg frá Guðna fréttaritara og kennara í Olsó sem Gísli aðalritari vísaði á. Guðni lýsir þar á skemmtilegan hátt hvernig umræðan í skólanum sem hann kennir við í Osló snerist um áhrif blokkflautukennslu á fjölda djöfla í umhverfinu. Þegar talið var farið að snúast um hvort djöflum í skólastofunni myndi fjölga eða fækka við að hafa gluggann opinn á meðan blokkflautukennslunni stæði, þá þótti kennaranum komið nóg og kennslan var felld niður um stundarsakir. Þetta sýnir í hnotskurn hvaða áhrif svona trúarhópa hafa þegar þeim dettur ekki í hug að að laga sig að umhverfinu heldur vilja að laga umhverfið að sér og sínum viðhorfum. Sá á netinu ágætar teikningar af Múhameð spámanni sem eru teiknaðar af múhameðstrúarmönnum. Þær voru mjög í stíl við teikningar af Kristi. Ég skil því ekki alveg umræðuna um að að sé bannað að teikna myndir af Múhameð.

Göngin til Vestmannaeyja munu kosta 70 til 100 milljarða samkvæmt niðurstöðum nefndar um samgöngumál sem fjallaði um málið. Þetta er upphæð af þeirri stærðargráðu sem mér finnst næsta trúleg. Miðað við að 5 - 6 km Héðinsfjarðargöng kosti um 7 milljarða þá hljóta 20 km jarðgöng sem eru lögð í gegnum virkt jarðskjálfta - og eldfjallasvæði og eiga að liggja út í virkt eldfjall að vera svo milklu miklu dýrari á hvern lengdarmeter en þau sem boruð eru gegnum solid fjöll. Mér finnst það segja meir um fjölmiðlana en Árna Johnsen að honum skuli hafa verið hleypt trekk í trekk í fréttir og Kastljós og Ísland í dag með kostnaðarútreikninga á tveim til þremur A4 blöðum sem sýndu kostnað við göngin upp á 16 milljarða. AÐ vísu vantaði víst inn í útreikningana kostnað við að flytja lausa efnið sem myndast við borunina út úr göngunum en hvað með það.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

"Áhöfnin á Rosanum" á leið heim

 
 Posted by Picasa
Hverfishringurinn tekinn í gærkvöldi. Frost og stilla og prýðis hlaupaveður. Var seinn fyrir og kom ekki inn fyrr en um 030. Jói og félagar hans í Víking voru að spila handbolta í Laugardalshöllinni í gærkvöldi svo kvöldinu var ráðstafað við að horfa á þá og spjalla við kunningja okkar úr foreldrahópnum. Foreldrar mæta vel á leiki hjá þessum hóp og standa bak við þá og myndast hefur kunningsskapur með okkur gegnum tíðina. Jói kallinn varð reyndar 17 ára í gær. Þegar hann fæddist var allt á kafi í snjó og tengdamamma festi bílinn úti á miðri götu um miðja nótt þegar hún kom að vera hjá eldri stráknum á meðan við skruppum á fæðingardeildina.

Það hefur verið nokkur umræða um hádegismat í grunnskólum að undanförnu. Eins og svo oft er hún töluvert ruglingsleg og þróast út í einherja öfga. Í fjölmiðlum heyrir maður að foreldrar um 30 - 40% barna í grunnskólum hafi ekki efni á að kaupa sér mat í hádeginu. Það er náttúrulega ekki rétt. Maður heyrir hins vegar of oft í umræðunni við krakkana um matarmiðakaup að maturinn sé vondur. Ég veit það ekki af eigin raun og ætla ekki að taka það of alvarlega en hitt veit maður að það er hægt að hantera og bera mat fram á mismunandi aðlagandi hátt. Krakkar eru oft einnig tregir til að smakka það sem þau þekkja ekki. Einnig er það ljóst að ef matur er keyptur frá stóreldhúsum þar sem hann er framreiddur í svona verksmiðjustíl að þá er hann ekki jafn lystugur og heimalagaður. Það er nefnilega margar hliðar á svona máli. Ég held að það sé alls ekki lausnin að hafa matinn algerlega ókeypis. Það er borin miklu minni virðing fyrir því sem er algerlega ókeypis af þeim sem notar vöruna. Miklu mikilvægara er að leggja alúð við gæðin þannig að maturinn verði lystugur og eftirsóknarverður. Þá kemur hitt af sjálfu sér. Ef einhverjir eru svo illa staddir að þeir getir ekki greitt fyrir hann þá krefst það sérstakra aðgerða. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að krakkar í grunnskólum fái almennilegan mat í hádeginu eins og annað vinnandi fólk.

Hvað mat og framleiðslu hans varðar þá vann tengdamamma eitt sinn ásamt nokkrum jafnöldrum sínum í mötuneyti í á heimili fyrir aldrað fólk. Þær elduðu venjulegan heimilismat fyrir gamla fólkið og allri voru ánægðir með það. Síðan kom að því að það þurfti að spara og maturinn var keyptur frá stóreldhúsi en konurnar sáu áfram um að framreiða matinn. Sú venja hafði skapast að þær tóku oft smáleifar með sér heim fremur en að henda þeim. Eftir að farið var að kaupa matinn úr stóreldhúsinu þá var það á stundum svo að tengdaspabbi gat ekki borðað matinn sem komið var með heim. Hann var hreinlega ólystugur og vondur á bragðið. Matvendni er hins vegar hugtak sem tengdapabbi hefur ekki notað mikið um æfina.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Byrjað að landa

 
 Posted by Picasa
Ekkert hlaupið í gær þar sem hvíldardagur var skv. planinu. Sá nýlega að nokkrir íslendingar tóku átt í maraþoni á Miami á Florída. Þau stóðu sig öll vel en Stefán Hermannsson hljóp á frábærum tíma eða 2.44. Hann varð 15. í hlaupinu og með fremstu mönnum í sínum aldursflokki. Af herju er ekki sagt frá þessu í fjölmiðlum hér? Kannski eru hlauparar of hógværir og vantar blaðafulltrúa? Manni dettur ýmislegt í hug þegar maður heyrir t.d. af íslensku skíðafólki sem á stundum er í 78 sæti af 79 keppendum hér og þar í Evrópu. Við eigum nefnilega mjög gott afreksfólk á þessu sviði en götuhlaup hafa ekki lent á áhugasviði íþróttafréttamanna enn sem komið er.

Sveinn er kominn á lista hjá Vöku. Nú stendur mikið til en kosið er til háskólaráðs á morgun og fimmtudag. Ætli það endi ekki með að ég kjósi Vöku en einhvern tíma hefði það þótt goðgá. Gaman að fylgjast með þegar ungtfólk uppgötvar strauma stjórnmálanna og fer að velta fyrir sér rökum og mótrökum. Mig minnir að Þórbergur Þórðarson segi frá því í Ofvitanum þegar hann varð pólitískur. Þá var verið að takast á um uppkastið upp úr þar síðurstu aldamótum. Fram að þeim tíma hafði hann gengið um bæinn og ekki velt fyrir sér hvaða skoðanir hinir og þessir höfðu á landsmálum. Eftir að hann gerðist pólitískur þá gjörbreyttist borgarmyndin. Þá sá hann landráðamenn í öðru hverju húsi og sumar götur voru svo slæmar hvað þetta varðaði að það var varla hægt að ganga eftir þeim. Síðan var góða fólkið sem studdi framsæknar og skynsamlegar tillögur. Þetta er kannski alltaf svona þegar ungt fólk gerist pólitískt. Það er ekki örgrannt um að mig minni að svipaðar hugrenningar hafi runnið í genum huga minn hér áður fyrr. Þá var það afstaðan til hersins sem risti hvað dýpst.

Kláraði í gærkvöldi að lesa Gengið á Múrnum sem er frásögn Huldar Breiðfjörðs um ferðalag hans eftir Kínverska Múrnum. Þetta er svo ótrúlegt ferðalag að það er varla að maður geti ímyndað sér að nokkrum manni skuli hafa dottið þetta í hug, ótalandi á framandi slóðum. Hann náði settu marki án tiltakanlegra hremminga en ekki vildi ég fara í fótspor hans. Byrjaði síðan á Aftureldingu eftir Viktor Arnar Ingólfsson hlaupara. Hún fjallar um raðmorðingja sem drepur gæsaskyttur. Þegar ég gat ekki lesið meir fyrir syfju var búið að drepa einn vestur í Dölum. Bókin lofar góðu.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Landi náð í Grimsby

 
 Posted by Picasa
Fór niður í Laugar á tilsettum tíma í gærmorgun.Tókum hringinn vestur á Eiðistorg og síðan fórum við Bryndís gegnum Fossvoginn en aðrir tóku Suðurgötuna. Fórum ekki hratt yfir en spjölluðum þeim mun meir. Hringurinn gerði um 20 km. Maggi Sig. fór samtals um 15 km en hann lenti í miklu slysi fyrir nokkrum árum sem breytti öllum viðmiðunum. Með því að fara frekar hægt yfir þá er hægt að ná upp vegalengdum. Við kvöddum hann við Suðurgötuna með því að ef þetta héldi svona áfram þá tæki hann þátt í 1/2 maraþoni í ágúst. Tíminn er ekki alltaf aðalatriðið heldur að ná ákveðnum áföngum. Sigrarnir geta verið fólgnir í svo mörgu öðru en að vera í fremstu röð.

Las fjörlega grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu um helgina þar sem hún lýsir skoðunum sínum á stöðunni innan Samfylkingarinnar og ástæðu þess að fylgi flokksins hefur heldur dalað að undanförnu. Gaman væri að vita hvernig svona umfjöllun er tekið þar innan dyra. Kolbrún fer ekki dult með það að hún saknar gamla Alþýðuflokksins. Maður veltir þessu sérstaklega fyrir sér vegna þess að nokkrir Framsóknarmenn hafa séð ástæðu til að taka sér penna í hönd á síðustu vikum og lýst þeim vilja sínum að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður yfirgefi flokkinn og það sem fyrst. Kristinn hefur unnið sér það til óhelgis að hafa aðrar skoðanir en ýmsum þykir passa og þá eru viðbrögðin á þennan veg. Svo merkilegt sem það er þá sýna niðurstöður skoðanakannana að fylgi flokksins er einmitt mest í kjördæmi Kristins. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp.

Horfði á tvær skemmtilegar heimildarmyndir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hin fyrri var um Bítlabæinn Keflavík. Svona bara til að hafa það á hreinu á hreinu vegna þess að Fréttablaðið birti mynd með Ríó tríóinu með frétt um myndina að þá er Ríó tríóið úr Kópavogi og þeir hafa aldrei verið kenndir við rokk. Bæjabbababbabæ og Upptrekkti karlinn voru ekki beint rokkhittarar. Um tíma voru þeir þó með sítt hár. Gaman var að sjá myndina og rifja upp gamlar stemmingar. Þetta voru alvöru poppstjörnur á sínum tíma. Ég man eftir því að einu sinni var ég staddur yfir á Patró að sumarlagi ca 14 ára gamall. Ég er úti að labba með félaga mínum á laugardagseftirmiðdegi. Þá stoppar hjá okkur rúta og spyr um leiðina að félagsheimilinu. Okkur er kippt upp í og við vísuðum veginn. Þetta voru þá Dátar að túrnera um landið. Rúnar Gunnarsson mættur í eigin persónu. Þetta var meiri háttar upplifun og við öfundaðir af heppninni. Um kvöldið fór maður með krökkunum niður í Skjaldborg og svo var hangið í anddyrinu til að heyra lögin sem bárust frá goðunum innan úr salnum. Trúbrot í Húsafelli árin 1969 og 1970 gleymist síðan ekki þeim sem ekki hafði möguleika að sjá þessar stjörnur svona daglidags.
Seinni myndin var um Rósku. Hún var ágætlega gerð á margan hátt en ósköp var þetta allt tragiskt þótt það hafi verið skemmtilegt líf oft á tímum, sérstaklega fyrri partinn. Endurspeglaði lífshlaup hennar kannski líf margra sem héldu að þeir gætu breytt heiminum og voru kenndir við 1968, stjórnleysingja, hippa, kommúnista og hvað þetta hét nú allt saman? Ég sá Rósku einu sinni árið 1991. Það var nú það.

Stefnan tekin á Grimsby

 
 Posted by Picasa

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Fór út í gærmorgun uppúr kl. 6.00. Þurfti að vera mættur niður í Laugardalshús kl. 9.30 og því var ekkert annað að gera en að taka daginn snemma. Veðrið var eins og best verður á kosið, logn og hlýtt. Tók slaufuna upp að stíflu og fór síðan vestur Fossvog. Hitti kröftugan dreng sem heitir Ásgeir við göngubrúna yfir Kópavogsbrautina við Fossvogsbotninn og við spjölluðum saman um stund. Hann sagðist vera að æfa fyrir fullorðinn Ironman sem verður haldinn í byrjun júlí. Ironman samanstendur af 180 km hjólreiðum, 3,8 km sundi og maraþonhlaupi. Tímamörk eru 15 klst. Þetta er almennilegt. Gaman að sjá kröftuga stráka takast á við alvöru verkefni. Hann sagðist vera kominn með Western States í bókina hjá sér og hefði áhuga á að takast á við það á komandi árun. Gaman að sjá hvernig þetta er að þróast. Við höfum alla möguleika til að koma upp harðskeyttum ultrahópi sem getur tekist á við erfiðustu verkefni. Þetta gerist smátt og smátt þegar ísinn er brotinn hér og þar.

Var að vinna við meistaramót 15 - 22 ára í Laugardalnum fram til kl. 1500. Það voru unnin ágæt afrek enda margir öflugir einstaklingar þar á ferðinni. Gaman að sjá hvernig Sveinn Elías hefur þroskast og er orðinn kröftugur en maður man fyrst eftir honum sem litlum gutta með pabba sínum í götuhlaupum í kringum 2000. Hann hefur alla burði til að verða okkar öflugasti tugþrautarmaður á komandi árum. Einar Daði er einnig mjög öflugur en hann er að verða 16 ára. Maður fylgdist með honum í yngri flokkum Víkings í fótbolta en þar vakti hann athygli fyrir spretthörku. Svo var honum bent á að prufa að fara á frjálsíþróttaæfingu og þar höfðu menn bara ekki séð annað eins efni og voru þó ýmsu vanir. Það verður gaman að fylgjast með honum þegar hann er orðinn fullþroska enda þótt hann sé stór í dag þrátt fyrir ungan aldur.

Þingeyingar voru með öflugan hóp á mótinu. Það er gríðarlega gott hjá þeim að halda utan um krakkana og ná því besta út úr þeim. Hópurinn er dreifður á veturna vegna náms eins og gengur sem gerir allt starf flóknara. Þeir fóru alla vega með eitt íslandsmet með sér norður norður og nokkur 1. verðlaun. Þetta er partur af lífsgæðum samfélagsins að gefa hæfileikum krakkanna möguleika á að njóta sín.

Sveinn spilaði æfingaleik með Gróttu í gær gegn Selfyssingum. Þeir unnu leikinn sannfærandi. Fór svo upp í Egilshöll og horfði á Víkinga spila við KR í Reykjavíkurmótinu. Leikurinn var jafn og mikil barátta í leiknum en ekki mikið um færi. Maggi Gylfa var að stjórna sínum fyrsta leik gegn KR eftir að hann var rekinn frá liðinu sl. sumar. Svo fór að Víkingar unnu 1 - 0. Fátt er sætara í fótbolta en að vinna KR. Ég trúi að Maggi hafi verið kátur eftir leikinn. Mér finnst liðið fara nokkuð vel af stað og verður gaman að sjá hvernig því vegnar í sumar. Ein aulalegasta tækling sem maður hefur séð sýndi sig hjá Bjarnólfi Lárussyni KRingi þegar hann tók tveggjafóta sólatæklingu á Viktor þegar um 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann fékk vitaskuld rautt spjald og þyrfti að fá a.m.k. tveggja leikja bann.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Ekkert hlaupið í dag. Hvíldardagur. Ætlaði að fara á brautina í Laugardalshúsinu í kvöld en náði því ekki. Var að dorga á Ebay og náði töku. Verðmunurinn er svo svakalegur að það er bara ekki hægt annað.

Var að horfa á Idol keppnina í kvöld. Ég held að þetta sé sterkasti hópurinn sem hefur verið til þessa. Maður á sína tvo til þrjá uppáhaldssöngvara en eftir að hafa horft á þau öll þá er maður bara ringlaður og veit ekkert hver manni finnst hafa verið bestur. Þarna eru krakkar sem hafa allt til að bera að verða alvöru söngvarar, bæði hvað varðar sönghæfileika og útgeislun. Ég sá Hildi Völu á unglingalandsmótinu í sumar og hún er alvöru.

Menn og konur. Þetta er einn orðaleppurinn til. Það er talað um karla og konur. Það er talað um karlmenn og kvenmenn. Maður er ekki karlkenning heldur mannkenning. Homo Sapiens. Um daginn heyrði ég talað hal og víf sem pilt og stúlku. Það er rangt. Halur og víf þýðir karl og kona.

Hlustaði á einhvern fræðing í útvarpinu í kvöld sem gerði ekkisvo mikið úr gildi tungunnar fyrir þjóðina, heldur taldi að þetta ætti allt eftir að breytast því menn færu að skilgreina sig frekar sem Evrópubúa. Þetta er tómt rugl að mínu mati. Maður sér hvernig þjóðerniskenndin er inngróin í fólk enda þótt kynslóðum saman hafi allt verið gert til að afmá þjóðernishugsun. Skoðum Baltnesku ríkin. Í nær þrjár kynslóðir gerðu Sovétmenn altt sem þeir gátu til að afmá þjóðernissérkenni þerra. Sovétmenn voru fluttir til landanna milljónum saman til að blanda þá frumbyggjunum. Síðan á örfáum mánuðum í kringum 1990 hrynur sovéska kerfið og eftir standa Eistar, Lettar og Litháar og hafa aldrei verið neitt annað. Fræðingurinn talaði um íslendinga sem hefðu nýlega flutt til landsins en kynnu málið illa og svo framvegis. Með fullri virðingu fyrir þessu ágæta fólki þá eru þeir ekki íslendingar. Ég var ekki svíi þegar ég bjó í Svíþjóð og ekki dani þegar ég bjó í Danmörku. Íslendingar sem hafa búið áratugum saman í Danmörku líta alltaf á sig sem íslendinga en ekki dani. Af hverju skyldi enn þann dag í dag vera talað um vesturíslendinga? Þjóðerniskennd er af hinu góða ef hún gengur ekki út í öfgar. Það er ekkert voðalega gott að vera rótslitinn og hafa engan bakgrunn.

Leiðinleg orðskrípi glymur oft í sjónvarpinu. Risasmár. Það á víst að þýða StórLítill. Í sænsku er til orðið jätteliten. Jätte þýðir risi og liten þýðir lítill. Jätteliten þýðir agnarsmár. Orðskrípið Risasmár er líklega klambrað saman og þýtt af einhverjum auglýsingastofusnillingnum sem er ekki betri í sænsku en þetta.

Siglt á milli trossa

 
 Posted by Picasa

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Fór hringinn í hverfinu í kvöld. Veðrið er enn eins og best verður á kosið. Hef lést um ca tvö kíló frá áramótum. Það má ekki minna vera og ég þarf að ná svipuðu af mér á hverjum mánuði á næstu mánuðum. Þetta er fyrst og fremst spurning um að aga sjálfan sig og borða heldur minna en mann langar í.

Landsliðið tapaði gegn Norðmönnum í dag. Maður sá að þeir voru orðnir þreyttir. Synd að geta ekki klárað mótið fyrir fullum seglum en ótrúleg meiðslasaga hefur veikt liðið sem þó hefur spilað frábærlega alla keppnina. Sjöunda besta lið Evrópu er svo sem ekki slæmt og reyndar gríðarlega gott. Svíarnir komust ekki á mótið svo dæmi sé nefnt.

Sá að AUA (American Ultrarunners Associaton) kaus Scott Jurek besta karlultrahlaupari USA á árinu 2005 og Anne Lundblad bestu konuna. Scott Jurek fékk útnefningu fyrir besta afrek ársins sem var að setja brautarmet á Badwater aðeins hálfum mánuði eftir að hann útklassaði alla í Western States. Það á náttúrulega ekki að vera hægt. Anne Lundblad átti tvö bestu afrek ársins í kvennaflokki sem var að hlaupa 50 M á 6.29 og 100 K á 7.54. Annette Bednosky var í þriðja sæti sem hlaupari ársins í kvennaflokki og hún vann einnig þriðja besta afrek ársins þegar hún vann kvennaflokkinn í Western States á 18.39. Sú kona sem vann fjórða besta afrek ársins hljóp 100 M í Olander Park á 15.41 eða á um þremur tímum skemmri tíma en Annette hljóp WS á. Þannig er hægt að fá hugmynd um erfiðleikastuðulinn á WS. Maður getur ekki verið annað en pínulítið stoltur yfir að hafa tekið þátt í sama hlaupi og þessir frábæru íþróttamenn.

Glaður heimilishundur

 
 Posted by Picasa
Hljóp ekkert í gær. Varð seinn fyrir og svo rigndi þannig að ég frestaði þessu. Tók hringinn þess í stað kl. 6 í morgun í fínu veðri.

Leikurinn í gær var fínn og spennandi. Synd að strákarnir skyldi draga stutta stráið en svona er þetta. Sama er, frammistaða liðsins er búin að vera frábær, sigra Rússa og Serba, gera jafntefli við Dani og tapa með einu marki fyrir Króatíu sem eru ólympíumeistarar. Nú bíða Norðmenn í dag.

Hlustaði á Pétur Blöndal og Mörð í sjónvarpinu í morgun. Ég var sammála Pétri í einu og öllu í því sem hann sagði í morgun. Vitaskuld á það fólk sem flytur til einhvers lands að aðlaga sig að siðum landsins í stað þess að heimta að landið aðlagi sig að siðum innflytjandans. Mörður var hins vegar á þessari fjölmenningarlegu umburðarlyndislínu eins og kratarnir í kringum okkur. Það er alltaf byrjað að klifa á því að móttökusamfélagið eigi sök á því ef innflytjendur aðlagist ekki því landi sem þeir flytja til. Þannig er byggð upp sektarkennd hjá innfæddum og þeir fara að láta eftir allskonar sérkröfum og öfgum. Ég veit ekki hvernig er hægt að taka betur á móti innflytjendum heldur en gert var í Danmörku og Svíþjóð hér á árum áður. Það stóðu þeim allar dyr opnar, menntun, húsnæði, vinna og peningar í boði. Það þýðir hins vegar ekki að líta fram hjá því að það er gríðarlegur munur og oft órúanlegt bil á milli menningarheima þessa fólks og okkar. Þrátt fyrir áratugabúsetu fólks úr arabalöndum í Danmörku og Svíþjóð viðgangast enn heiðursmorð á stelpum sem ekki hlýta ægivaldi karlanna í fjölskyldunni. Ef stelpan fer sínar eigin leiðir í vali á kunningjum og kærustum þá birtist það pabbanum, bræðrum hennar og frændum sem ólýsanleg niðurlæging. Þeir verða að athlægi annara karla ef þeir láta þetta óátalið. Niðurstaðan er þannig því miður stundum sú að þeir drepa viðkomandi stelpu (dóttur, systur og frænku) til að halda ærunni. Slík heiðursmorð hafa komið fyrir í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég sá nýlega í sænskum blöðum að það væru milli 10 og 15 þúsund stelpur í Svíþjóð sem væru í meiri eða minni vandræðum vegna þessara gömlu viðhorfa. Þarna sýnir sig menningarheimur sem við skiljum ekki og viljum ekki að viðgangist. Eigum við að sýna umburðarlyndi gagnvart þessum siðum og hefðum? Það er þegar farið að brydda á því hérlendis að svínakjöt megi ekki vera á matseðli grunnskóla. Eigum við að láta aðra menningarheima stjórna því hvað við eða börnin okkar borðum? Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki vera að fjasa um einhverja yfirborðsfroðu sem leiðir okkur ekkert annað en í sömu stöðu og dönsk og sænsk samfélög eru í.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Vigdís forseti í opinberri heimsókn

 
 Posted by Picasa
Fór hring í hverfinu í gærkvöldi í góðu veðri. Kláraði rúmlega 300 km í janúar eða rétt tæpa 70 km á viku. Það er það lengsta sem ég hef hlaupið í janúar til þessa. Öll plön gengu upp. Enda þótt það þyki ýmsum það vera baunatalning að halda saman hlaupnum kílómetrum þá finnst mér það vera nauðsynegt til að hafa yfirlit um hvrenig æfingar ganga, hvort sett markmið náist og hafa samanburð milli ára um þróun æfinga. Það er einnig hægt að halda saman þeim tíma sme fara í æfingar, það er kannski ekkert betra því maður er tildæmis lengur að hlaupa ákveðna vegalengd í mótvindi heldur en í meðvindi og fær þá meira út úr því. Stefni að svipaðri vegalengd í febrúar.

Fór og heimsótti Steingrím á Landsspítalann í gærkvöldi. Hann er á réttri leið eftir bílslys sem hann lenti í fyrir tæpum tveimur vikum. eftir að hann fór í aðgerð í síðustu viku til að tappa vökva úr brjóstholinu á honum þá hefur allt verið á réttri leið. Það komu um tveir lítrar út þannig að eitthver áhrif hefur það haft. Hann vonast til að vera kominn til vinnu í mars ef allt gegnur eins og ætlað er.

Múhameðstrúarmenn eru æfir yfir einhverjum teikningum af Múhameð spámanni sem birtust í Jyllandsposten í september. Þeir hóta sprengjuárásum á Danmörku, norrrænir ríkisborgarar eru fluttir frá arabalöndum vegna hótana, danskir og norskir fánar svo og myndir af Anders Fogh Rasmussen eru brenndar á götum úti. Mér fannst Friðrik Þór standa sig vel í sjónvarpinu í gærkvöldi þegar hann fjallaði um málið andspænis formanni múhameðstrúarmanna hérlendis. Á þessu máli eru margar hliðar og ég veit ekki hvort ég komist yfir að fara í gegnum það hér. Fjölmenningarliðið fjasar sífellt um að við eigum að sýna umburðarlyndi gagnvart þeim sem flytjast til landsins og bera virðingu fyrir þeirra siðum og venjum. Gott og vel. Það er ok svo langt sem það nær. Það verður hins vegar að vera gagnkvæmt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Múhameðstrúarmenn eru þekktir fyrir allt annað en umburðarlyndi gagnvart öðrum siðum og venjum. Þeir líta á kristna trú sem óhreina og hafa þá köllun að útrýma því sem óhreint er. Flóknara er það nú ekki. Formaður múhameðstrúarmanna segir að það sé bannað að teikna spámanninn. Bannað að teikna spámanninn!! Það er bara ekkert annað. Samkvæmt því ætti að vera bannað að hafa teiknaðar myndir af Kristi á altaristöflum eða á jólakortum. Samkvæmt þessu ætti Davíð Stefánsson að hafa verið settur á sama lista og Salmon Rhusdi var settur fyrir söngva Satans eftir að hann skrifaði Gullna hliðið og Monty Pyton gengið að hljóta álíka örlög fyrir myndina Life of Brian. Nú má vel vera að það gangi ekki að blanda þessum menningar- og trúarbragðaheimum saman, til þess séu þeir of ólíkir. Ef að það er niðurstaðan þá held ég að það sé best að það sé hver heima hjá sér þannig að menn séu ekki að pirra hvern annan með svona uppákomum.
Að lokum. Hvar skyldi lóðin vera staðsett sem á að fara undir mosku múhameðstrúarmanna sem á að rísa í Elliðaárdalnum?