fimmtudagur, febrúar 23, 2012

Chuck Berry - Johnny B. Goode

Hjálmar skorar sigurmarkið í leik við ÍR



Umræðan í fjölmiðlum er oft ekki sérstaklega beysin. Það er eins og gengur að fjölmiðlar eru vafalaust reknir af vanefnum núorðið og því hefur fólk ekki þann tíma og möguleika sem til þarf við að stunda vandaða blaðamennsku. Manni virðist því að það sé oft leitað auðveldu leiðanna til að fylla tímann, umræðan verður þannig oft yfirborðskennd og einkennist af upphlaupum. Það eykur hættu á að þróun mála taki mið af öðrum faktorum en þeim sem mestu máli skipta og grundvallast af fagmennsku. Auðvitað er þetta ekki algilt en svona er þetta að mínu mati of oft. Þrjú mál koma sérstaklega upp í hugann þegar huganum er rennt yfir sviðið og er þó af nógu að taka. Svo einkennilegt sem það er þá tengjast þau öll umhverfismálum. Íslendingar eru befnilega margir hverjir orðnir ofboðslega meðvitaðir í umhverfismálum. Hverju sem það er að þakka skal ekki sagt um. Vitaskuld er það gott að bera hag umhverfisins fyrir brjósti og hugsa til lengri tíma í þeim efnum. Það er gott og blessað. Þegar umræðan einkennist hins vegar af upphlaupum og hlandfroðuumræðu þá er annað uppi á teningnum.
Þessi þrjú mál er stóra díoxín málið, stóra cadmíum málið og stóra iðnaðarsaltmálið. Hva skyldi bera næst á land í þessum efnum.
Stóra díoxín málið í kringum sorpbrennslustöðina á Ísafirði vakti upp mikla og harða umræðu. Ásakanir gengu á hendur bæjarstjórninni um að hún hefði beint eða óbeint með aðgerðum og eða aðgerðaleysi verið allt að því að eitra fyrir bæjarbúa. Bóndinn sem bjó þarna í nágrenninu varð settur í brennidepil. Sú stemming fór á flug að framleiðan frá búinu væri baneitruð. Svo fór að skepnunum var öllum lógað undir vorið eins og það er nú skemmtilegt að lóga ám komnum að burði. Það gerir enginn maður ótilneyddur. Svona í framhjá hlaupi þá liggur það fyrir hvað sem öllum mengunarmælingum leið að það var gjörsamlega útilokað að kjötið af lömbunum af bænum gæti verið varasamt því lömb ganga uppi á fjöllum þegar þau eru að taka út vöxtinn og þar er engin díoxín mengun. Fólk sem bjó í Vík í Mýrdal var svo skelkað vegna umfjöllunar fjölmiðla að einhverjir íbúar bæjarins þorðu ekki að senda börnin í skólann þar sem hann stóð við hliðina á sorpbrennslustöðinni.
Svo farið sé hratt yfir þá er rétt að skoða niðurstöðuna. Hún er sú að það var engin díoxín mengun á Ísafirði frá sorpbrennslunni. Þetta var allt innihaldslaust upphlaup sem blásið var upp af upphlaupsliði. Skepnurnar voru drepnar að óþörfu þótt það þyki kannski ekki mikið máli í huga þeirra sem standa framar öðrum í umhyggju fyrir umhverfinu. Díoxínmengunin frá sorpbrennslunni mældist svo lítil að sérfræðingur minn í umhverfismálum segir að það sé meiri díoxínmengun frá arinstæði þar sem brennt er timburkubbum. Sem sagt Zero. Hitt er svo annað mál að reykurinn frá brennslunni er leiðinlegur og sjónmengun að honum. Það væri verðugt umfjöllunarefni fyrir fjölmiðla að fara yfir þessa umræðu og reyna að læra af henni til að lenda ekki í sama drullupyttinum aftur.
Cadmíummálið mikla spratt upp af því að í ljós kom að um 800 tonn (1% af ársnotkun landsmanna) hefði innihaldið cadmíum sem var yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í innlendum stöðlum. Þessi ábyrður fór bæði á öræfin og eins á tún. Umræðan var næstum því eins og túnin og öræfin væru orðin geislavirk. Í ljós kom að víða í Evrópu er ekkert lágmark hvað varðar cadmíuminnihald í áburði og annarsstaðar er það mun hærra en hérlendis. Ég heyrði aldrei neinn fjölmiðil spyrja af hverju eru mörkin cadmíuminnihaldi í áburði séu lægri hérlendis en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Hvaða ástæður eru fyrir því? Af hverju eru kröfurnar meiri? Er í gangi einhver öfga- eða hreintrúarstefna í þessum málum? Viljum við bara vera meiri en aðrir? Er íslensk gróðurmold viðkvæmari eða hvað? Nei, þess í stað var hnoðast áfram á einum umhverfisskandalinum til viðbótar. Sannkallaðir hátíðisdagar um stund.
Svo kom stóra iðnaðarsaltsmálið. Í ljós kom að um 13 ára skeið hefði verið notað svokallað iðnaðarsalt í matvælaiðnaði hérlendis. Þá hljóp aldeilis á snærið. Umræðan var álíka og það hefði verið notað salt í matvælaframleiðslu úr opnum haugum sem hefðu legið óvarðir fyrir allskonar skít og óhreinindum. Stofnanir voru skammaðar blóðugum skömmum fyrir að hafa ekki staðið vaktina um heilsu landsmanna. Sérfræðingur minn í saltmálum segir að munurinn á iðnaðarsalti og matarsalti sé sá helstur að það sé búið að bæta joði og einhverjum öðrum snefilefnum í matarsaltið.

Maður spyr sig bara hvað kemur næst.

Mamma varð 88 ára í gær. Gömul er varla orðið sem er rétt að nota því hún er afskaplega ern og ber aldurinn vel. Auðvitað er aldur afstæður. Aldur er ekki bara mælanlegur í þeim dagafjölda sem liðnir eru frá fæðingu heldur er aldur einnig mælanlegur í líkamlegu og andlegu ástandi. Mamma hélt upp á daginn með afmæliskaffi eins og hún hefur gert svo lengi sem ég man.

fimmtudagur, febrúar 09, 2012

Chuck Berry Sweet Little Sixteen

María sigrar í 60 m. hlaupi



Sú var tíðin að ég var mjög sjaldan Sighvati Björgvinssyni. Það hefur breyst. Nú skal ég ekki segja um hverju það er að þakka eða kenna. Líklega er Sighvatur eins og hann var en ég hef breyst. Mér líkaði t.d. mjög vel hvernig hann tók á umræðunni um Sogn hér fyrr í vetur. Ef það er eitthvað sem er ekki hægt að segja um Sighvat þá er það að hann sé deigur.
Nýlega skrifaði hann grein í Fréttablaðið þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því hve stór hluti stráka koma ólæsir út úr grunnskóanum. Ætli það séu ekki nálægt 25% stráka eftir því sem tölfræðin segir sem eru það sem kallað er ólæsir þegar þeir yfirgefa grunnskólann eftir 10 ára setu. Þetta er náttúrulega svakalegt. Síðan er allaf verið að hamra á því að leikskólinn sé líka skóli og þar bætast þá alla vega fjórir vetur við. Fjórtán ára skólanám og fjórðungur stráka ólæs. Það er nátturulega enn svakalegra. Þetta veldur vitaskuld mörgum áhyggjum en ég hef ekki séð ,ikla umræðu fara í loftið út af þessu. Alla vega ekki eins og þegar meint díoxín mengun á Ísafirði átti allt að drepa þar í firðinum en svo kom í ljós að sú umræða var öll hin mesta klámhögg.
Sighvatur Björgvinsson skrifaði nefnilega grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir þessu eins og hann hefur fullt leyfi til að gera. Hann vitnaði þar meðal annars í áhyggjur föður síns, Björgvins Sighvatssonar, sem var skólastjóri lengi, yfir því að ákveðnar breytingar í skólakerfinu myndu hafa óheillavænleg áhrif. Sighvatur vitnar til þess að lestur hafi hér áður verið talinn svo nauðsynlegur að unglingar voru ekki fermdir ef þeir kunnu ekki að lesa. Einstaka hafi þó verið fermdur upp á faðirvorið.
Það er síðan ekkert annað en að doktorsnemi í menntunarfræðum (hvorki meir eða minna) hellir sér yfir Sighvat í Fréttablaðinu í dag. Doktorsnemanum finnst t.d. það vera dæmi um þær villigötur sem umræðan um menntamál barna og unglinga er í hérlendis að veðurfræðingar og gamlir stjórnmálamenn skuli vera að tjá sig um þær á opinberum vettvangi. Þeim er líklega nær að hugsa um eitthvað annað. Það eigi ekki að taka mið af gömlum kerlingabókum í þessari umræðu heldur taka mið af sýn Háskóla Íslands og fræðsluyfirvalda í þessum efnum. Grunnskólarnir og sú menntun sem þeir veita séu aftur á móti afrakstur af aldagamalli stofnanavæðingu sem meðal annars eigi ákveðinn þátt í efnahagshruninu vegna þess hve vel þeir hafi innrætt þöggun og meðvirkni meðal þjóðarinnar o.s.frv. o.s.frv. Doktorsneminn vepur síðan persónulega í Sighvat í greininni. Sem betur fer sér maður slíkt frekar sjaldan nú orðið í fjölmiðlum.
Nú veit ég vafalaust ekkert um þessi mál og ætla mér því ekki þá dul að fara að kenna öðrum hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum. Á hinn bóginn veit ég að lestrarkunnátta er undirstaða að flestu því sem maður lærir á einn eða annan hátt. Það er ekki sjálfgefið að það kunni allir að lesa eða að það sé talið sjálfsagt í nútíma samfélögum. T.d. má nefna að í Nýfundnalandi, sem er samfélag sem er hvorki ólíkt okkar samfélagi né langt í burtu, er ólæsi um 50%. Um helmingur þjóðarinnar getur einungis lesið einfaldan texta og fyrirsagnir í blöðum. Staða samfélagsins er í samræmi við þessa staðreynd. Það var ákveðin undirstaða það þeim framförum sem áttu sér stað hér á síðustu öld að það kunnu því sem næst allir að lesa þegar möguleikarnir fóru að skapast. Það gátu allir verið með, gripið tækifærin eða skapað sér þau sjálfir.
Það ætti náttúrulega allt að vera á öðrum endanum hérlendis út af þessari stöðu meðal yfirvalda fræðslumála og annarra sem málið varðar, m.a. doktorsnema í menntunarfræðum. Ég hef ekki séð né heyrt að svo sé.
Nú berast síðan fréttir af því að brottfall úr skólum sé mjög mikið hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Um 30% íslenskra nemenda hefur hætt í skóla áður en þeir luku stúdentsprófi. Þar er Ísland í hópi þeirra þjóða sem við viljum ekki bera okkur saman við. Aðeins er meira brottfall úr skólum í fjórum löndum innan OECD heldur en hér. Ekki bætir þetta úr skák.
Það hlýtur eitthað mikið að vera að. Þeir sem áhuga hafa á þessum málum ættu frekar að einbeita sér að greiningu á þessum vanda og leita leiða til lausna heldur en að ráðast á þá sendiboða sem benda á vandann. Keisarinn er ekki kappklæddur. Í hér áður kenndu ömmur krökkunum að lesa með bandprjón sem hjálpartæki. Það þykir vafalaust mjög gamaldags en það dugði. Nú er hins vegar beitt nýmóðins aðferðum með þekktum árangri.
Það á að vera hægt að ræða stöðu þessara mála án gífuryrða eða persónulegra árása. Ef menn geta það ekki þá er annað hvort verið að verja vondan málstað eða hroki og rembingur hefur náð yfirhöndinni.

Chuck Berry , Keith Richards_Roll over Beethoven +Almost Grown!!

Einar Daði kastar kúlu



fimmtudagur, febrúar 02, 2012

Ríkissjónvarpið (ég er hættur að skrifa RÚV því þetta er sjónvarp sem ríkið rekur og maður er þvingaður til að borga það sem kostar að reka það) sýndi mynd í gærkvöldi sem fjallaði um hinn magnaða gítarleikara Jimmy Hendrix. Það eru að verða 42 ár síðan hann dó úr afleiðingunum af ruglinu en sama er, hann er enn jafn ljóslifandi og hann var á sjöunda áratugnum í augum rokkunnenda þess tíma.
Myndin var mjög fín að þvi leyti að hún sýndi vel hvernig hann þróaðist sem hljóðfæraleikari þar til Teh Great Leap Forward átti sér stað. Það er náttúrulega magnað að á aðeins nokkrum mánuðum breyttist tilvera hans úr því að vera sléttgreiddur jakkafataklæddur baksveitarspilari hjá einhverjum löngu gleymdum soul söngvurum yfir í að vera síðhærð, skrautklædd heimsstjarna. Það þarf sterk bein til að þola slíka stökkbreytingu. Tilviljanir eru magnaðar. Jim hitti Chas Chandler fyrir tilviljun. Chas segir honum að drífa sig yfir til Bretlands, þar séu hlutirnir að gerast. Því ekkiað slá til. Eftir aðeins fjóra daga í Bretlandi er kallinn komnn upp á svið með tvo stráka með sér og dæmið fer að rúlla. Síðan lá leiðin bara upp á við þar til hann hrapaði fram af brúninni. Það var áhugavert þegar það var rifjað upp að í Atlanta, hálffasískri suðurríkjaborg, þurftu gítarleikarar að geta spilað með tönnunum í þá tíð, ella væru þeir skotnir!! Það kom sér vel síðar að kunna þá list. Það kom vel í ljós í myndinni að það var sama hvort Jimmy spilaði eigin lög eða lög annarra, hann átti þau skuldlaust. Stíll hans var svo einstakur. Það á við um Jim Hendrix og svo marga aðra tónlistarmenn frá þessum árum að þeir eru orðnir eilífir. Krakkar nútímans þekkja þessa tónlist, virða hana og dá. Hún er ekki í síðra uppáhaldi heldur en það nýjasta sem gert er í dag. Mér er sem ég sæi okkur hafa hlustað á tónlist frá þriðja áratugnum þegar við vorum um tvítugt.
Margir þeirra öflugu tónlistarmanna sem komu fram í sviðsljósið á sjöunda áratugnum dóu ungir. Á þessum tíma var mikið að gerast og keyrslan mikil. Allt var prófað og allt var mögulegt. Sumir gáðu ekki að því að fara út úr lestinni ekki síðar en á næst síðustu stoppistöð, eins og Megas orðaði það svo vel hér um árið. Jimmy var einn þeirra sem hoppaði ekki af lestinni í tíma. Það er spurning sem aldrei verður svarað hvernig hann hefði þróast sem tónlistarmaður ef hann hefði lifað. Sumir brunnu út, aðrir þróuðust áfram og efldust með reynslunni.
Ég horfði um daginn á myndina Bird. Hún fjallar um Charly Parker, hinn magnaða djassleikara sem var uppi á fimmta áratugnum það ég best veit. Myndin er ein af 35 í Clint Eastwood kassanum sem ég keypti í haust. Charly Parker var og er einn af meisturum djassins ásamt Miles Daves og Dissy Gillespie svo einhevrjir séu nefndir. Myndin endar á dauða Charlies. Líkflutningamaðurinn er að ganga frá skýrslu og lýsir líkinu. "Blökkumaður, feitlaginn og á sjötugsaldri" segir hann. Þá heyrist kvenrödd: "Hann var aðeins 34 ára". The End. Það var kannski eins gott að meistarinn Jimmy Hendrix endaði ekki á þennan hátt.