þriðjudagur, júní 17, 2008

Gleðilega þjóðhátíð. Í dag er 17. júní ....og fólkið í miðbænum er alltaf að aukast... eins og sagt var í ríkisútvarpinu áðan.

Það er töluvert mál að það skuli vera kominn annar ísbjörn til landsins einungis tveimur vikum eftir að hinn fyrri var skotinn við Þverárhlíðarfjallsveg. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af örlögum ísbjarnarins nema að þeg held að það væri mannúðlegra að skjóta hann en að senda kvikindið í dýragarð. Mér finnst dýragarðar vera á margan hátt ónáttúruleg og ógeðsleg fyrirbrigði. Það er kannski allt í lagi að hafa fiðrildi, litla apaketti og slöngur sem sofa því sem næst alla ævina í dýragarði. Mér finnst aftur á móti ömurlegt að horfa á stór villt dýr í dýragörðum. Þau vafra þar um friðlaus, oft lokuð úti í hitanum og hafa það hlutverk eitt að láta horfa á sig. Dýragarðar höfðu einhvern tilgang fyrir svona 100 árum síðan þegar fæstir höfðu séð þessi framandi dýr en nú er öldin önnur. Það er hægt að nálgast það á svo marga aðra vegu að sjá svona dýr en að horfa á þau innilokuð í dýrafangelsi.

Það að annar ísbjörn sé kominn til landsins svo skömmu eftir hinn fyrri hlýtur að kalla á stóraukið bjarndýraeftirlit með norðvesturhluta landsins á þessum árstíma. Fólk býr strjált norður á Ströndum og á annnesjum norðanlands. Gönguhópar fara senn að flykkjast norður á Hornstrandir. Veiðimenn halda norður á Skaga. Hestamenn í reiðtúra. Sumarhúsafólk til bústaða sinna. Menn mega ekki gleyma því, eins og manni virðist býsna margir gera, að ísbjörn er eitt stærsta og ógurlegasta rándýr jarðarinnar. Maðurinn er í augum hans gríðarlega fín bráð. Hægfara, varnarlaus og getur ekki stungið sér í sjóinn. Ætli það myndi ekki fara um vitringana, náttúruverndarsinnana og besservisserana ef ferðafólk væri drepið af soltnum ísbirni norður á Hornströndum. Skíra björninn Ófeig!! Maður hefur sjaldan heyrt aðra eins þvælu.

Það er allt í lagi að leika sér við svona björgunaraðgerðir yfir hásumarið eins og nú er verið að, sérstaklega þegar auðkýfingur nokkur vill kaupa sér goodvill með því að borga brúsann. Þetta er ágætt svo langt sem það nær. En aðstæður eru ekki alltaf svona þægilegar. Bjart allan sólarhringinn, skyggni ágætt og þægilegt að ferðast. Hvað ef það væri þoka og skyggni svona 100 metrar? Regla númer eitt á að vera í svona tilfellum að skjóta bjarndýr ef nokkrar minnstu líkur eru á að það geti týnst eða valdið verulegu tjóni. Ág sá bjarndýraskinn á flugvellinum í Kulusuk í fyrra. Björninn var skotinn á flugvallarsvæðinu fyrir að því mig minnir um 10 árum síðan. Það þótti minnisverður atburður. Í vetur var mjög harður vetur þarna á austurströndinni. Tveir ísbirnir voru skotnir inni í bæ í Kulusuk í vetur og aðrir tveir í Tassilaq (Angmassalik). Þeir voru komnir í ruslatunnur þegar sást til þeirra. Það datt ekki nokkrumm manni annað í hug en að draga fram "Gömlu löng" og láta vopnin tala og spurðu hvorki kóng né prest.

Grímunni var troðið upp á mann á föstudagskvöldið í ríkissjónvarpinu. Svo dugði ekki minna en að endursýna allt klabbið strax á laugardagsmorgni. Ég efa ekki að svona klúbbum finnst gaman að hittast, veita hvort öðru verðlaun og hrósa í þeirri von að fá hrós. Það er aftur á móti vandséð hvaða tilgang það hefur að hella þessu yfir landslýð sem og öðrum álíka samkomum. Þegar tveir kynnar hver á fætur öðrum sáu sig knúna til að þakka Baug fyrir aðkomu fyrirtækisins að árshátíðinni þá var mér nóg boðið og slökkti á sjónvarpinu.

Engin ummæli: