föstudagur, apríl 15, 2011
Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Það var þokkalega mæt af mjög áhugasömu fólki. Nokkrir boðuðu forföll eins og gengur en það er ljóst að margir hafa áhuga á að ungmennafélagið lifi góðu lífi. Það var kosin ný stjórn. Ég hætti í stjórninni enda kominn tími til að afkvæmið hleypi heimdraganum. Maður má passa sig á að vasast ekki í of mörgu því þá fer maður að gera allt illa. Jói Kristjáns, Halldór Guðmunds, Magnús Guðmunds. og Gísli ritari skipa stjórnina. Margt var skrafað og spekúlerað. Það var mikið rætt um hlaup á vegum félagsins. Almennt var það skoðun fundarmanna að sex tíma hlaup ætti að halda annað hvert ár á móti 100 km hlaupinu. Það myndi þá vera íslandsmeistaramót í sex tíma hlaupi. Vonandi sýnir hinn mikli áhugi í 100 km hlaupinu í vor að það sé vaxandi áhugi á ofurhlaupum. Síðan var rætt um aðra möguleika. Einn möguleikinn er að hlaupa átta 10 km hlaup á sólarhring. Þá er ræst á þriggja tíma fresti og sá vinnur sem hleypur lengst á sem skemmstum tíma. Það geta mjög margir hlaupið 10 km en spurning er hve margir treysta sér til að hlaupa átta 10 km hlaup á einum sólarhring. Þarna yrði hlaupið á hlaupabraut og aðstaða fyrir að vera með dýnur og inniaðstöðu svo fólk gæti lagt sig. Þetta er áhugaverður möguleiki sem þarf að skoða sem fyrst. Þarna er meðal annars verið að venja þá sem áhuga hafa á við að vera að í heilan sólarhring enda þótt möguleiki sé á hvíld innan um og saman við. Síðan var rætt um skipan ofurhlaupa í íþróttasamfélaginu. Mikill áhugi er á að fylgja þríþrautarmönnum eftir og stofna ofurhlaupanefnd innan ÍSÍ. Það eru hlaupa fleiri hundruð íslendinga ofurhlaup árlega svo það er ekki síðri forsendur fyrir því að stofna sérstaka nefnd um þau innan ÍSÍ heldur en ýmislegt annað. Þetta verður skoðað formlega innan tíðar. Að lokum fór Steinn yfir hina ágætu þríþraut sína í Köln í máli og myndum þar sem hann sló gamla islandsmetið með sjö sekúndna mun. Frásögnin var svo spennandi að það var næstum því eins og maður væri viðstaddur. Bibba tókst næstum því á loft þegar hún var að lýsa því hvernig var að horfa á lokasprettinn. Ég fór að lokum yfir 48 klst hlaupin árin 2009 og 2010. Þau voru lærdómsrík bæði tvö enda þótt erfiðleikarnir sem ég þurfti að takast á við hefðu verið gjörólíkir sitt hvort árið. Þegar ég fór í Western States fyrir sex árum þá tók ég þátt í rannsókn þar sem lagt var mat á niðurbrot vöðva með eða án íbóprófens. Það voru teknar blóðprufur bæði fyrir hlaup og svo eftir hlaupið. Ég fékk niðurstöðurnar sendar og setti þær á síðuna mína og hugsaði svo ekki meir um það. Ég kunni ekkert að lesa úr þeim eða túlka þær á neinn hátt. Sif sagði mér svolítið fyndinn hlut í gærkvöldi í þessu sambandi. Hún þekkir konu sem vinnur við álíka mál og lét hana fá niðurstöðurnar til að meta þær. Sú sagðist aðeins einu sinni hafa séð hærra gildi á niðurbroti vöðva í blóði nokkurs manns. Það var hjá hjartasjúkling sem dó skömmu síðar eftir að prufan var tekin!! Ég viðurkenni það að lærin voru ansi aum eftir Western States hlaupið. Þau hafa varla verið verri eftir nokkurt hlaup. Það er gaman að sjá góðan árangur hlaupara í París og Rotterdam. Sibba náði fjórða sæti í sínum aldursflokki í Parísarmaraþoninu sem er frábær árangur. Hún hlóp á 3.06. Gunnar Ármannsson bætti sig um 11 mínútur og hljóp á 2.55. Það var frábært hjá honum, bæði að bæta sig svo mikið og ekki síður er þetta frábært með hliðsjón af sögu Gunnars. Hann fékk hvítblæði fyrir nokkum árum og fagnar nú fimm ára afmæli þess að hafa sigrast á þeim vágesti. Hann er að safna fé fyrir Krabbameinsfélagið með því að hlaupa fimm góð hlaup í sumar og þar á meðal 100 km hlaupið í júní. Þeir sem vilja styrkja hann í þessu verkefni geta farið á vefinn www.krabb.is. Gunnar hljóp með mér 50 km á bretti í Kringlunni í desember.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli