þriðjudagur, maí 22, 2012

Manfred Mann - davy's on the road again (live 1999)

Gargönd á Álftanesi


Árni Johnsen vakti nokkra athygli fyrir skömmu þegar hann flutti álfastein út til Vestmannaeyja. Nú ætla ég ekki að segja um hvort álfar hafi verið í steininum eða ekki, á því hef ég ekki vit eða þekkingu. Á hinn bóginn er ég viss  um að það er eitthvað til í kringum okkur sem við geetum ekki skilgreint eða sagt hvað er. Um það eru til fjölmörg dæmi. Mér er t.d. sagt að á einni jörð í hreppnum geri síðasti bóndinn svo ákveðið vart við sig að þar geti ekki nokkur maður  gist. Ekki ætla ég að sanreyna það. Þa var lengi haft á orði hérr i denn tíð að það væri reimt á Hálfdán, fjalllveginum milli Tálkafjaðar og Arnarfjarðar. Ég þekkti bílstjóra sem sögðust aldrei fara þar einir yfir næturlagi. Haukur bróðir var á jarðýtu ræktunarsambandsins þar vestra á árunum fyrir og eftir 1970. Hann fór víða um héraðið og vann hjá bændum eftir því sem verkefni féllu til. Einu sinni sem oftar þurfti hann að fara norður í  Arnarfjörð. Það var unnið í vaktavinnu á vélinni. Sá sem vann á móti honum lagði af stað á vélinni norður og Haukur átti að taka við honum undir nóttina. Þegar Haukur mætti á vaktna þá sá hann sér til nokkurrar undrunar  að vélin var komin miklu styttra en hann hafði búist við. Hún stóð við Ketilseyrarána við vegamótin upp á Hálfdán í Tálknafirðinum. Þar svaf ýtumaðurinn í vélinni. Haukur tók svo við vélinni en kunni ekki við að spyrja hverju sætti að vélin var ekki komin lengra. Hann keyrði svo sem leið lá norður yfir Hálfdán. Að áliðinni nótt, þegar hann var kominn norður yfir kjöl, þá stoppaði hann og fékk sér kaffisopa. Eftir kaffidrykkjuna helltist yfir hann svefn og hann dormaði í sætinu á vélinni. Þegar hann vaknaði eftir skamma stund þá brá honum heldur betur. Á honum lá slíkt farg að hann gat ekki hreyft legg né lið. Honum var haldið í einhverjum heljargreipum á þann hátt að hann gat sig hvergi hrært. Hann hafði heyrt að ráð við slíkar aðstæður væri að reyna að hreyfa eitthvað og þá myndi farginu verða létt af honum. Hann gat að lokum hreyft annað augnlokið. Þar á eftir gat hann hreyft hitt augnlokið. Síðan losnaði um fleiri líkamsparta, hann gat hreyft fingur og loks fætur. Þá fannst honum að farginu létti og það væri eins og hann lyftist upp í sætinu. Hann heyrði þegar réttist úr svampinum. Honum var nokkuð brugðið og ók sem hraðast norður af heiðinni og bar ekki til frekari tíðinda í þessari ferð. Hann sagði okkur frá þessu á sínum tíma man ég eftir en hann minntist ekki á þetta við hinn ýtumanninn. Leiðir þeirra skildu svo skömmu síðar og þeir hittust ekki fyrr en fyrir þremur árum síðan. Þá kom fyrrum vinnufélagi hans í heimsókn upp að Hvanneyri og þeir rifjuðu upp gamla tíma ýtunni fyrir vestan og ýmislegt sem minnisvert var frá þessum árum. Þá spurði Haukur hann að því sem hann hafði langað til að gera í tæp 40 ár: Hvers vegna hann hafði stoppað við afleggjarann upp á Hálfdán á sínum tíma en ekki haldið á fjallið? Það stóð ekki á svari. Það skal ég segja þér sagði vinnufélaginn gamli. Síðan kom saga af ferð hans yfir Hálfdán á jarðýtu sem var nákvæmlega eins og upplifun Hauks í sinni ferð. Honum hafði orðið svo brugðið við þessa reynslu að hann ákvað að hann skyldi aldrei fara aftur einn yfir Hálfdán á jarðýtu. Því stoppaði hann við vegamótin og lagði sig frekar en að halda á fjallið. Nýliðinn fékk svo að tölta á ýtunni yfir Hálfdán á vit hins óþekkta. Svona er þetta. Ég veit að þetta er rétt efftir haft en merkilegast var að um 40 árum síðar skyldi saga vinnufélaga Hauks koma fram. Það er best að fullyrða ekki neitt um þessi mál annað en að það er ýmsilegt til sem maður getur ekki skýrt.